Sýndarsnjórinn nú (2014) og í fyrra (2013)

Eins og margoft hefur verið fjallað um á hungurdiskum er haldið utan um þann snjó sem fellur á landið í harmonie-spálíkani Veðurstofunnar. Hann bráðnar líka - ef hiti gefur tilefni til þess. Hér berum við saman líkansnjómagnið nú (miðvikudag 23. apríl 2014) og sama dag í fyrra (2013). Tölurnar sýna kíló á fermetra, hversu djúpur snjór það er fer eftir eðlismassanum. Líkanið segist ekkert vita af honum.

w-blogg240414a

Þetta er sýndarmagnið núna (2014). Tölurnar sýna staðbundin hámörk - sem undantekningalítið eru nærri hæstu fjöllum líkansins. Myndin batnar talsvert sé hún stækkuð. Kortið að neðan sýnir ástandið í fyrra (2013).

w-blogg240414b 

Lítum fyrst á tölur á Esjunni, nú eru þar uppi 683 kg á fermetra, en voru á sama tíma í fyrra 575. Snjórinn í ár er nokkru meiri en í fyrra. í Bláfjöllum eru tölurnar 609 og 601 - alveg eins. Alauðu svæðin á kortinu sýnast stærri nú heldur en í fyrra. Á Suðurlandi munar mest um þunnan snjó sem þakti allstór svæði í fyrra en ekki er til staðar nú. (Ekki þarf nema minniháttar hret til að breyta því).

Í lágsveitum á Norður- og Austurlandi er sýndarsnjór nú mun minni heldur en í fyrra, t.d. á Melrakkasléttu, Öxarfirði og lágsveitum Suður-Þingeyjarsýslu - en þegar kemur upp í fjöll er snjór nú talsvert meiri heldur en í fyrra. Til dæmis er hæsta talan nærri Ljósavatnsskarði nú 1945 kg á fermetra en var á sama tíma í fyrra 1330, hér munar hátt í 50 prósentum - skyldi sú vera raunin?

Svipað má segja um Austfjarðafjöllin - þar er mun meiri snjór nú heldur en í fyrra, víða munar 20 til 30 prósentum milli ára.

Vestan til á Norðurlandi er hins vegar minni snjór heldur en í fyrra - enda hefur þar löngum verið afspyrnuþurrt í vetur. Sýnist muna 10 til 20 prósentum hvað snjór er minni nú. Á Vestfjarðafjöllum er nú víðast hvar talsvert meiri snjór heldur en í fyrra. Miklu munar t.d. á Drangajökli, 4800 kg á fermetra í fyrra en 6300 nú.

Á öðrum jöklum er misjafna sögu að segja. Á Langjökli er snjór nú lítillega minni en í fyrra, jafnmikill á Hofsjökli og minni á Mýrdalsjökli. Öræfajökull er í nánast sömu tölu, en sýndarsnjór er meiri nú á hábungum á norðanverðum Vatnajökli heldur en var á sama tíma í fyrra.

Mikið bráðnar í hlýindunum þessa dagana af lægri fjöllum - en spurning hvernig staðan verður eftir fjórar til fimm vikur undir lok maímánaðar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.4.): 73
  • Sl. sólarhring: 77
  • Sl. viku: 1671
  • Frá upphafi: 2350948

Annað

  • Innlit í dag: 66
  • Innlit sl. viku: 1463
  • Gestir í dag: 57
  • IP-tölur í dag: 57

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband