Bloggfærslur mánaðarins, júní 2014

Tíu daga meðaltalskort

Athugið að færslan er skrifuð 14. maí - en birtist loksins nú. 

Reiknimiðstöðvar gefa út spár langt fram í tímann. Evrópureiknimiðstöðin er ein þeirra - en er harla laumuleg og sýnir þær fáum. Enda er ekki létt að túlka véfréttina sem segir aðeins af vikum frá meðaltali - en fyrir nokkra veðurþætti og þá yfir heila viku. Ómögulegt er að segja hvernig veðri er í raun verið að spá einstaka daga - enda er það ekki hægt. En lítum á dæmi - reyndar nær spáin ekki nema tíu daga fram í tímann. Gögn eru frá evrópureiknimiðstöðinni, en kortin gerð á Veðurstofunni af Bolla kortagerðarmeistara sem hungurdiskar mega sífellt þakka.

Fyrst er kort sem sýnir meðalhæð 500 hPa-flatarins, meðalþykkt og vik þykktar frá meðallagi síðustu tíu daga. Við vitum allt um það góða veður.

w-blogg140514i

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Heildregnu línurnar sýna meðalhæð 500 hPa-flatarins, strikalínurnar sýna þykktina og litafletirnir þykktarvikin. Mikil lægð hefur verið viðloðandi fyrir sunnan Grænland. Hún hefur dælt köldu lofti frá Kanada út yfir Atlantshaf - mjög mikið neikvætt þykktarvik er við Nýfundnaland, talan í því miðju sýnir -111 metra. Það samsvarar nærri 5 stiga hitaviki í neðri hluta veðrahvolfs. 

Við Ísland hefur suðlæg átt verið ríkjandi, hæðarhryggur skammt fyrir norðan land. Þykktin þessa síðustu 10 daga hefur verið í meðallagi. Mjög kalt hefur verið í norðanverðri Skandinavíu.

Síðara kort dagsins sýnir spá evrópureiknimiðstöðvarinnar næstu tíu daga.

w-blogg140514ii

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hér hefur orðið gríðarmikil breyting. Hlýir hryggir eiga að setjast að yfir Labrador og N-Evrópu en á milli þeirra er svalt lægðardrag. Hiti hér á landi því rétt undir meðallagi árstímans. Lægðabeygja er á jafnhæðarlínunum og eykur það líkur á að veðrið verði í raun og veru heldur kaldranalegt.

En - nú er þetta tíu daga meðaltalsspá og segir ekkert um veður einstaka daga. - Harla véfréttarlegt. Þetta er þó venjuleg framsetning spáa tvær til fjórar vikur fram í tímann og enn versnar í því þegar spáð er lengra fram á við. Þá megum við gera okkur að góðu meðaltöl sem ná til þriggja mánaða í senn - jafnvel enn óljósari heldur en þessar fallegu myndir. 


Vorið fer vel af stað (í Reykjavík)

Athugið að þessi færsla var skrifuð 13. maí 2014. 

Á Veðurstofunni nær vorið yfir mánuðina apríl og maí. Það sem af er hefur verið mjög hlýtt á landinu. Í Reykjavík var apríl heilu stigi ofan meðallags síðustu tíu ára og var reyndar ofan þess meðallags á öllum sjálfvirkum stöðvum sem slíkt meðaltal eiga - nema einni. Það var á Hornbjargsvita. Þar var hitinn -0,1 stigi undir tíu ára meðaltalinu. 

Í Reykjavík er tímabilið frá 1. apríl til 13. maí það þriðja hlýjasta á síðustu 66 árum. Nokkru hlýrra var 1974 og lítillega hlýrra 1960. Líklega hrapar núlíðandi vor eitthvað neðar á listanum næstu vikuna.

En það sem af er hefur maí verið hlýr um mestallt land. Meðaltal síðustu 10 ára hefur verið reiknað á 85 stöðvum. Af þeim er hiti nú ofan meðaltals á 65, en undir því á 20. Þetta eru stöðvar á Austurlandi sem eru undir meðaltalinu. Kaldast að tiltölu hefur verið á Upptyppingum, -1,2 stigum undir. Að tiltölu hefur verið hlýjast á Bjargtöngum, 2,8 stig yfir. Það er reyndar dálítið grunsamleg tala, því næst kemur Straumsvík með  2,1 stig yfir. 


Fyrstu tíu dagar maímánaðar 2014

Fyrsti þriðjungur maímánaðar hefur verið mjög hlýr, hiti meir en þremur stigum umfram meðallagið 1961 til 1990 á sunnan- og vestanverðu landinu. Austanlands hefur verið ívið kaldara að tiltölu, vik innan við tvö stig. Keppnin við meðaltal síðustu tíu ára er heldur harðari, taflan að neðan sýnir stöðuna í þeirri keppni.

Meðaltöl fyrstu tíu daga maímánaðar 2014 
mhitivikúrksumúrkvik stöð
8,152,0816,2-1,6 Reykjavík
6,762,027,7-6,1 Stykkishólmur
5,321,706,5-11,8 Bolungarvík
6,161,424,1-6,1 Akureyri
3,640,01152,1120,8 Dalatangi

Hiti og hitavik eru í °C. Úrkomumagn er sýnt í mm og úrkomuvikin sömuleiðis. Í Stykkishólmi og Reykjavík er hitinn meir en 2 stig ofan við meðallagið, en hann er hins vegar nákvæmlega í meðallagi á Dalatanga.

Þessi fyrsti þriðjungur mánaðar er nú í fjórða hlýjasta sæti frá 1949 í Reykjavík og ekki er mjög langt í toppinn, en það eru 8,8 stig þessa sömu daga 1961 (já, 1961 - hitabylgjan mikla 1960 er rétt að koma inn í keppnina). Á Akureyri eru hlýindin í 16. sæti og því 21. á Dalatanga. Sé miðað við morgunhita í Stykkishólmi eru þessir dagar í 9. hlýjasta sæti, röðin sú nær alveg aftur til 1846.

Úrkoman er undir meðallagi á fjórum stöðvanna, mikið í Bolungarvík en er hins vegar langt umfram meðallag á Dalatanga. Þetta er langmesta úrkoma fyrsta þriðjungs maímánaðar á Dalatanga - að minnsta kosti frá 1949. Óvenjumikil úrkoma hefur líka mælst á Desjarmýri á Borgarfirði eystra - en aðrar stöðvar hafa ekki dregið upp úrkomumetaflögg.

Sólskinsstundir eru í meðalagi í Reykjavík - en loftþrýstingur er talsvert undir meðallagi, rétt eins og hefur verið það sem af er árinu.

Því miður er nú spáð kólnandi veðri og líklegt að mánuðurinn lækki heldur á metalistanum.

Rétt að taka fram að þessi færsla er skrifuð 11. maí 2014 - en birt síðar. Enn er slatti af eldri færslum óbirtur - það tekur tíma. Á meðan er bent á fjasbókarsíðu hungurdiska þar sem frem kemur ýmis konar smáfróðleikur á líðandi stund. Einnig skal ítrekað að athugasemdir þar sem nafna einstaklinga er getið eru ekki birtar - ekki heldur þær sem innihalda nafn ritstjórans.


IP25 - hvað er það? Íslandssöguslef 8

Hér verður farið aðeins útfyrir venjubundið umfjöllunarsvið hungurdiska. Ritstjórinn er ekki alveg rólegur á þessum slóðum - lesendur beðnir forláts.

IP25 er nýframkomið veðurvitni - óbeint eins og mörg slík og varla fullkomlega ljóst hvað það er að segja. Skammstöfunin er einföld, á ensku: Ice Proxy with 25 carbon atoms, ísvísir 25 kolefnisfrumeinda, jarðefnalipíð af lífrænum uppruna (biomarker, lífvísir). Magn þess í sjávarseti er talið sýna blóma ákveðinna þörunga (diatom) að vorlagi á hafísslóðum. Þörungurinn heldur til í saltvatnsrásum neðan á hafís.

IP25 er aðeins einn af fjölmörgum lipíðlífvísum. Margt er óljóst um líf, eðli og útbreiðslu þörunganna og ekki hefur verið endanlega neglt um hvaða tegundir er að ræða - en nokkrar liggja undir sterkum grun.

Menn mæla nú magn IP25 með reglubundum hætti í sjávarkjörnum og benda mælingarnar sterklega til þess að magnið tengist hafísútbreiðslu að vorlagi, á blómatíma þörunganna. Þeir virðast ekki lifa í sama magni þar sem ís liggur allt árið og sömuleiðis ekki þar sem íslaust er allt árið.

Hér við land hagar einmitt þannig til að ísútbreiðsla er að jafnaði mest á vorin og mikill breytileiki er í ísmagni bæði frá ári til árs og á áratuga og aldakvarða.

Fyrsta greinin sem tengdi ísmagn og IP25 birtist 2007. Rannsókn sú var gerð á heimskautaslóðum Kanada. Árið 2009 birtist síðan fyrsta greinin sem fjallaði um IP25 við norðurströnd Íslands og breytileika þess frá landnámi. Stórfróðleg, en e.t.v. ekki alveg skotheld grein sem hungurdiskar munu vonandi fjalla um fljótlega (fer eftir því hvernig atlagan að aðalskýringarmyndinni gengur).

En þeir sem áhuga hafa á IP25-vísinum og notkun hans sem veðurvitnis verður að benda á grein Simon T. Belt og Julianne Müller í tímaritinu Quarternary Science Reviews 79, 1. nóvember 2013, s 9–25. Greinin leitast við að skýra út flest það sem máli skiptir - ekki síst veikleika aðferðarinnar og þær rannsóknir sem nauðsynlegar eru á næstunni vegna nýtingar vísisins. Greinin er opin í gegnum landsaðgang. Í lok hennar er langur listi tilvitnana - náma fróðleiks um veðurfar fyrri alda.

Belt og Müller (2013): The Arctic sea ice biomarker IP25: a review of current understanding, recommendations for future research and applications in palaeo sea ice reconstructions. 


Íslandssöguslef 7 (enn af ístölum)

Hér verður enn fjallað um ísvísitölur Lauge Koch og Astrid Ogilvie - en í þetta sinn saman á sömu mynd. Til að það sé hægt deilum við í tölu Koch með tíu og margföldum tölu Ogilvie með tíu. Auk þess höfum við búið til 7-ára keðjumeðaltal talnanna. Taka verður fram að þótt önnur talan kunni að vera hærri en hin á ákveðnu tímabili þýðir það ekki endilega að ís vanti í hina. Við höfum hér aðeins áhuga á breytingum í tíma - hvort tölurnar hitti á mikinn ís (eða lítinn) á sama tímabili.

w-blogg280414c

Skyggðu svæðin á myndinni sýna ístölu Ogilvie, en rauða línan tölu Koch. Lárétti kvarðinn nær frá 1600 og fram undir 2000. Byrjum til hægri á myndinni - því nýjasta. Hafísárin 1965 til 1971 koma mjög vel fram í báðum vísitölunum, minni ís er bæði áður og eftir. Mikil þrep eru í báðum tölunum bæði um 1920 sem og rétt um aldamótin 1900.

Lágmarkið um miðja 19. öld sést mjög vel - skammvinnt að vísu - en mjög greinilegt. Síðan er langt tímabil með miklum, viðloðandi ís. Það tímabil byrjar í báðum tilvikum um 1780. Munum þó (sjá fyrri pistla) að mikil áraskipti voru að ískomunum. Milli 1760 og 1780 virðist ís hafa verið heldur minni en bæði áður og eftir. Enn eru að því er virðist ísrýr tímabil bæði í kringum 1720 til 1730 og um miðja 17. öld.

Trúlega eru ísfregnir nokkuð gloppóttar á 17. öld og fram eftir þeirri 18. Líklega vantar helst upplýsingar um skammvinnar ískomur (í vikum eða mánuðum) - en þær gætu samt hafa verið verulegar. Þrátt fyrir þessa galla er líklegt að vísitölurnar greini ísmikil tímabil frá þeim sem færðu okkur minni ís.

Allgott samband er á milli ískoma við Ísland og hitafars. Hafísárin 1965 til 1971 voru kaldari heldur en  þá hafði þekkst um alllangt skeið. Við vitum líka að það hlýnaði mjög á árunum upp úr 1920 og sömuleiðis að kuldinn hafði þegar náð hámarki þegar kom fram að aldamótunum 1900. Það sáu menn strax fyrir 1920 (sjá hungurdiskapistil þar um).

Þótt nítjándualdarhlýskeiðið hafi verið heldur rýrt í roðinu miðað við systkinin á 20. og 21. öldinni skar það sig samt úr sem hlýrra miðað við það sem á undan og eftir fór. 

Við vitum líka að það getur verið kalt án þess að ís sé mjög mikill. Það á t.d. við árin í kringum 1980 (2. hluta síðtuttugustualdarkuldaskeiðins mikla). Þá var lengst af íslítið hér við land. Trúlega á það líka við um fyrri tíð. Hlýindi eru ólíkleg sé ís mikill - en þó er slíkt ekki útilokað.

Líklegt er að kalt hafi verið í fyrri íshámörkum - við vitum um kulda á fyrstu tveimur áratugum 19. aldar og af mjög köldum stökum árum (eða pörum) á öðrum og þriðja áratugi þeirrar sömu aldar.

Til að auðvelda okkur að greina hugsanleg „hlýskeið“ 18. og 17. aldar skulum við horfa á þessa sömu mynd undir öðru sjónarhorni. Við snúum henni við - þannig að upp sé „hlýtt“ en niður „kalt“.

w-blogg280414d

Fyrst skulum við muna að víst má telja að ís „vanti“ á 17. og 18. öld þannig að að línurnar „ættu“ að liggja neðar í myndinni en þær gera. Það sem skiptir máli eru rauðu og bláu borðarnir neðarlega á myndinni. Þeir eiga að greina að hlý (rautt) og köld (blátt) tímabil. Við vitum að ákveðnir veikleikar eru í sambandi ísmagns og hita á 19. og 20. öld. Trúlega á það líka við 17. og 18. öldina. Þar er munurinn hins vegar sá að við eigum nær engar mælingar. (Jú, eitthvað frá og með 1779 - kannski nægilega mikið til að giska á hitann - en það verður ekki reynt hér).

Skyldi hafa verið sæmilega hlýtt um miðja 17. öld og á tveimur skömmum tímabilum á þeirri 18? 

Þetta er allt eftir rituðum heimildum - en hvað með önnur veðurvitni? Meira síðar. 


Óvenjuöflug hæð yfir Labrador

Nú (mánaðamót apríl/maí) er árstími mikilla háþrýstisvæða á norðurslóðum. Hér á landi er norðaustanátt með tiltölulega háum loftþrýstingi algengust frá því um 20. apríl til 10. maí. Þrýstingur kemst nokkuð oft upp fyrir 1040 hPa í þessum háþrýstisvæðum, en sjaldnar er að hann nái 1050 hPa eins og er í dag yfir Norður-Labrador.

Hæsti þrýstingur sem mælst hefur í apríl hér á landi er 1050,8 hPa á Egilsstöðum þann 16. árið 1991. Frá 1873 að telja hefur þrýstingur náð 1040 hPa eða meira í 16 aprílmánuðum (9. hvert ár eða svo). Í maí er hæsti þrýstingur sem vitað er um hér á landi á sama tímabili 1045,0 hPa og mældist á Akureyri 18. maí 1894. Þrýstingur hefur mælst 1040 hPa eða meira í 11 maímánuðum (um 12. hvert ár að meðaltali). 

En lítum á kort evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir á miðnætti mánudagskvöldið 28. apríl.

w-blogg290414a 

Heildregnar línur sýna sjávarmálsþrýstinginn, en litafletir hita í 850 hPa. Hæðin yfir Norður-Labrador er hér með um 1051 hPa í miðju. Hún hreyfist nú suður og veikist hratt.


Íslandssöguslef 6 (ísvísitala Astrid Ogilvie)

Í síðasta pistli var fjallað um ístölu Lauge Koch en í þessum er fjallað um þá sem kennd er við Astrid Ogilvie. Rétt að taka fram að Astrid vinnur að endurskoðun tímaraðarinnar og er splæsingu tímans eftir 1860 við það sem á undan fer ekki lokið. Gerð mælitölunnar er skýrð og yfirlit gefið um heimildir í fyrstu tilvitnuninni neðst í pistlinum.  

w-blogg280414b 

Þetta líkist auðvitað Koch-tölunni en röð mestu ísára er ekki alveg sú sama og eins eru íslausu árin ekki alveg þau sömu. Mælitalan er hér hæst 1782 (árið fyrir Skaftárelda) og hún er mjög há árið 1888.

Samkvæmt mælitölu Koch voru 62 íslaus ár á 17. öld, en 68 hjá Ogilvie, á 18. öld voru þau 55 hjá Koch en 44 hjá Ogilvie. Á 19. öld voru 12 íslaus ár hjá Oglive, en 27 hjá Koch. Ljóst er að einhverrar samræmingar er þörf.

Það er viðbúið að mikið vanti af „litlum“ ís í þessar raðir - jafnvel meðalís, en við skulum vona að tekist hafi að veiða mestu ísaárin. Við vitum af reynslu síðustu 3 áratuga að lítilsháttar ís er iðulega að flækjast skammt frá ströndum landsins og að algjörlega íslaus ár eru e.t.v. fágæt. Varla er trúlegt að þau hafi komið tugum saman á 17. og 18. öld þegar mikil göt eru í rituðum heimildum.

Á myndinni hér að ofan má sjá að minnsta kosti fimm breið íshámörk. Það fyrsta er frá því um 1600 og til um 1640, það næsta frá um 1680 til 1710, það þriðja frá því fyrir 1780 til 1840, það fjórða frá 1855 til 1920 og síðan „hafísárahámarkið“

Í næsta Íslandssöguslefi leggjum við mælitölurnar tvær ofan í hvora aðra og sjáum hvað kemur út.

Helstu heimildir um ístölu Astrid Ogilvie:

Ogilvie, A., 1984: The past climate and sea-ice record from Iceland, Part 1: Data to A.D. 1780.
Climate Change, 6, 131–152.

Ogilvie, A. and Jónsdóttir, I., 2000: Sea ice, climate and Icelandic fisheries in historical times.
Arctic, 53, 282–394.

Ogilvie, A. and Jónsson, T., 2001: Little ice age research: a perspective from Iceland. Climate
Change, 48, 12–13.

Nú (7. júní) bíða 20 eldri pistlar enn birtingar og því smábið á því að hungurdiskar komist í takt við samtíma sinn. Enn skal því bent á fjasbókarhóp diskanna - sýnilegur öllum fjasliðum en á áskrif þarf að halda til að fá nýjustu fréttir - og til að bera fram spurningar eða athugasemdir.


Íslandssöguslef 5 (ísvísitala Lauge Koch)

Í síðasta pistli var fjallað um rekís við norðanvert Atlantshaf síðustu 150 árin eða svo. Þar kom fram að ísútbreiðsla virðist hafa verið í hámarki á síðustu áratugum 19. aldar - en hafi verið minni um miðja 19. öldina. Þá er spurning um næsta hámark á undan.

Til að ná tökum á því lítum við fyrst á mælitölur þeirra Astrid Ogilvie og Lauge Koch (sjá heimildir neðst í færslunni). Hungurdiskar hafa áður, í löngu máli, fjallað um ísflokkun og ísmælitölu Koch og lesendum bent á þá umfjöllun æski þeir frekari skýringa. Mælitala Astrid Ogilvie er í grundvallaratriðum búin til á svipaðan hátt - en heimildir hennar eru lengst af aðrar en Koch og greinir því stundum á.

w-blogg280414a

Í þessum pistli er Kochtalan í sviðsljósinu. Hún nær ekki til síðustu 20 ára. Hér sjást sömu einkenni og á myndunum sem fylgdu síðasta pistli. Hafísárin 1965 til 1971 skera sig mjög úr á 20. öld. Allmikill ís var þó hér við land á fyrstu 19 árum 20. aldar. Á síðari hluta 19. aldar er breytileiki mjög mikill frá ári til árs en sé litið á tölurnar sjálfar kemur í ljós að íslausu árin á þessu tímabili eru mjög fá samkvæmt mælitölu Koch. Eftir 1850 eru það 1851, 1852, 1861, 1864, 1875, 1884, 1889, 1890, 1893, 1894 og 1900, 11 ár alls.

Á fyrri hluta 19. aldar, 1801 til 1850 eru íslausu árin 16. Á áratugum var ísinn langminnstur frá 1841 til 1850, 7 af tíu eru íslaus. Allmikill ís var 1840, en síðan ósköp rýrt allt fram til 1855 en þá sneri ísinn aftur af fullum þunga. Á hlýindaskeiðinu frá því um og upp úr 1820 til 1855, og við höfum stundum kallað nítjándualdarhlýskeiðið, voru ekki mörg mikil ísár - en samt nokkur. Hér greinir mjög á við hlýskeiðið mikla á 20. öld sem var mjög ísrýrt.

Næsta ísrýra skeið á undan var 1760 til 1780 - sé að marka Kochtöluna. Sjö áranna 1761 til 1770 voru alveg íslaus og fleiri ámóta tímabil koma þegar lengra er leitað aftur í tímann. - Meir um það síðar.

Mesta ísárið frá 1601 að telja, samkvæmt Koch, var 1695 - síðan 1817 og 1888.

Heimildir:

Koch, L., 1945: The east Greenland ice, Medd. Grønland 130, No. 3, 1-374, København.

Wallevik, J. and Sigurjónsson, H., 1998: The Koch index. formulation, corrections and extensions.
Vedurstofa Íslands Report, VÍ-G98035-ÚR28, Reykjavik, Iceland.


Íslandssöguslef 4 (af ísum)

Í pistli dagsins lítum við á fjórar mælitölur um hafís sem ná til síðustu 100 til 200 ára. Sú fyrsta sýnir ísmagn víð Ísland. Í síðari pistli verður fjallað um mælitölur sem ná yfir lengri tíma.

Vegna þess að þekktustu mælitölurnar um ís við Ísland ná ekki til síðustu ára hefur ritstjórinn búið til sinn einkamælikvarða til að geta borið síðustu ár saman við fortíðina. Af öllum ísmælitölum er þessi sú einfaldasta (og ónákvæmasta??) og rétt að taka fram að ekki stendur til að birta hana í vísindagrein.  

w-blogg270414a

Röðin nær aftur til 1874 og til 2013. Lárétti ásinn sýnir árin en sá lóðrétti fjölda ísmánaða á ári við landið. Rauða línan er 7-ára keðjumeðaltal. Við tökum eftir því að síðustu árin hefur ís verið sáralítill, en var nærri því jafnlítill í kringum 1960. Taka verður fram að um leið og eina ísspöng rekur á fjörur eða tefur strandsiglingar fer teljarinn í gang og telur mánuð (engin brot þar). Hér sjást hafísárin svokölluðu vel og ef trúa má línuritinu var hann um stutta stund sá mesti frá því um 1890.

Næsta mynd sýnir mælitölu Torgny Vinje (sjá tilvísun í lok pistilsins) um magn íss við Austur-Grænland, hún nær aftur til 1864. Hér sýnir lóðrétti kvarðinn áætlaða ísútbreiðslu í hundruðum þúsunda ferkílómetra.  

w-blogg270414b

Síðasta árið er 1998. Lágmarkið um 1960 sést vel og sömuleiðis ísárahámarkið. Það er þó litlu meira heldur en næsta hámark á undan sem var upp úr 1940. Þá var nokkur ís hér við land - e.t.v. meiri heldur en ritstjóraröðin sýnir - en þetta var á stríðsárunum og ísupplýsingar mjög leynilegar. Ritstjórinn hefur stöku sinnum nefnt þessi ár litlu-hafísárin. Áberandi þrep er í magninu um 1920, rétt eins og á efri myndinni og mikið þrep sömuleiðis um 1890 (á báðum myndum).

Ísmestu árin hjá Vinje eru 1881 og 1891 og síðan 1882 og 1892. Í ritstjóraröðinni eru 1886, 1887, 1888, 1892 og 1965 efst.

Þá er það ísmagn undan Eystribyggð á Grænlandi. Það er talið gefa vel til kynna útstreymi um Framsund og nær aftur til 1820. 

w-blogg270414c

Talan er úr grein Schmidt og Hansen (2003 - sjá lok pistils). Lóðrétti ásinn sýnir mælitöluna - reyndar er búið að deila með tíu til hægðarauka. Hér er hámarkið seint á 19. öld rétt eins og á hinum línuritunum tveimur. Lágmarkið er á milli 1930 og 1940 - en nokkuð snarpt hámark fylgir hafísárunum hér. Það eru 1968 og 1969 sem eiga þar hámarkið - rétt eins og hjá Vinje. Á 19. öld er það 1898 sem á hæsta gildið, þar á eftir koma 1896 og 1892.

Fyrr á 19. öld virðist ís hafa verið minni á tímabilinu 1840 til 1860 heldur en síðar.

Síðasta myndin í þessum pistli sýnir rekís (ekki borgarís) við Nýfundnaland (sjá tilvitnun).

w-blogg270414d 

Mælitalan (hér búið að deila með þúsund) nær aftur til 1810 og er hegðan hennar furðulík hinum þremur. Tuttugustualdarlágmarkið er aðeins seinna en við Ísland og Grænland, en mestur er ísinn á síðustu áratugum 19. aldar. Fyrstu 20. ár tuttugustu aldar eru líka ísmikil. Talan hefur síðasta áratuginn (vantar á myndina) fallið enn meira og meðaltal áranna 2006 til 2012 það lægsta á öllu tímabilinu (munnlegar upplýsingar frá Brian Hall).

Ísinn við Nýfundnaland var mestur 1882 og 1892.

Þessar tölur segja allar að ís hafi verið meiri á síðustu tveimur áratugum 19. aldar heldur en nokkru sinni síðar. Sömuleiðis rýrnaði ísinn alls staðar upp úr 1920. Lágmark er á öllum svæðunum rétt eftir miðja 20. öld og alls staðar hefur ís verið jafnlítill eða minni á 21. öldinni heldur en áður á því tímabili sem tekið er til skoðunar [ekki er mjög erfitt að splæsa Vinjeröðinni saman við gervihnattamælingar].

Í næsta Íslandssöguslefi verður litið á mælitölur Lauga Koch og Astrid Ogilvie aftur til 1600.

Mikilvægar tilvitnanir:

Vinje, T., 2001: Anomalies and trends of sea-ice extent and atmospheric circulation in the Nordic
seas during the period 1864-1998. Journal of Climate, 14, 255–267.


Schmith, Torben,Hansen, Carsten, 2003: Fram Strait Ice Export during the Nineteenth and Twentieth Centuries
Reconstructed from a Multiyear Sea Ice Index from Southwestern Greenland. Journal of Climate 16 p2782.

Brian T. Hill Stephen J. Jones, 1990: The Newfoundland ice extent and the solar cycle from 1860 to 1988
Journal of Geophysical Research: Oceans 95, Issue C4, pages 5385–5394
og; http://www.icedata.ca/index.php


Íslandssöguslef 3 - smáupprifjun um hafísinn

Mestallt efni þessa pistils hefur birst áður á hungurdiskum - en í lagi að rifja það upp.

Lítum á mynd úr gömlum pistli (hér er hún einfölduð).

w-blogg250414a 

Hafís þekur mestallt Norðuríshafið allt árið (ekki þó alveg á sumrin á síðustu árum) og ýmis inn- og jaðarhöf Norður-Atlantshafs eru líka þakin ís - alla vega hluta ársins. Ísinn í Barentshafi er nánast allur myndaður á staðnum og árstíðasveifla er þar mikil í útbreiðslu hans.

Síðan samfelldar gervihnattamælingar hófust um 1980 hefur sumarútbreiðsla í Barentshafi lengst af verið innan við 100 þúsund ferkílómetrar (Cryosphere Today) en fyrst á tímabilinu var útbreiðslan oftast 700 til 900 þúsund ferkílómetrar síðla vetrar og sló yfir milljón þegar mest var (1979 og 1998). Á þessari öld hefur síðvetrarútbreiðslan oftast verið mun minni eða um 500 þúsund ferkílómetrar - veturinn 2012 rétt slefaði hún í 400 ferkílómetra. Þetta er mikil breyting.

Rekísinn sem stundum kemur til Íslands nefnist Austur-Grænlandsís. Hann er ekki allur orðinn til á staðnum heldur berst verulegt ísmagn suður um Framsund milli Grænlands og Svalbarða, eða um 2800 rúmkílómetrar íss á ári að meðaltali. Auk þessa berst líka selturýr sjór úr Íshafinu og suður á bóginn. Hann er léttur að tiltölu og flýtur ofan á saltari sjó sem berst úr suðri. Lagskipting þessi ýtir undir vetrarísmyndun sunnan Framsunds.

Í venjulegum árum bráðnar mestallur sá ís sem myndast sunnan Framsunds - enda oftast þunnur og ekki meira en eins vetrar gamall - en eldri ís lifir lengur.

Á tíma gervihnattamælinga hefur leifin oftast verið í kringum 200 þúsund ferkílómetrar að hausti en að vetrarlagi hefur magnið að vorlagi oftast verið í kringum 500 þúsund ferkílómetrar á þessari öld, en var fyrir þann tíma öllu meira, mest rúmlega 800 þúsund ferkílómetrar 1979 og 1988.

Svo virðist því sem árstíðasveifla Austur-Grænlandsíss hafi ekki minnkað jafnmikið og sveifla Barentsíss.

Á fyrri tíð - t.d. á hafísárunum svokölluðu (1965 til 1971) var ís talsvert meiri við Austur-Grænland heldur en síðan og varð útbreiðslan þá jafnvel meiri en milljón ferkílómetrar. Rannsóknir Torgny Vinje á ísmagni við Austur-Grænland ná aftur til 1855 og byggjast á upplýsingum um selveiðar á þeim slóðum. Þær benda til þess að fyrir 100 árum hafi meðalútbreiðsla í apríl verið um 800 þúsund ferkílómetrar og á síðari hluta 19. aldar enn meiri, jafnvel um milljón ferkílómetrar.

Ískomur við Ísland ráðast af allmörgum þáttum. Miklu máli skiptir hversu mikill ís lifir sumarið af, hversu eindreginn flutingur íss og selturýrs sjávar í gegnum Framsundið er, og hvernig vindum er háttað á helsta myndunarsvæðinu á mesta myndunartímanum - og svo hvernig vindum er háttað að vorlagi.

Austur-Grænlandsísinn nær gjarnan mestri útbreiðslu um mánaðamótin mars-apríl, við Ísland er hámarkið e.t.v. aðeins síðar. Ísmyndun er lítil við sunnanvert Austur-Grænland, sunnan Grænlandssunds, þannig að nær allur ís þar er kominn að norðan. Árshámarkið verður því síðar eftir því sem sunnar dregur og ekki fyrr en undir mitt sumar (eftir sólstöður) vestan við Hvarf syðst á Grænlandi. Veiðimenn þar um slóðir fagna komu íssins - hann er loksins kominn.

Við Eystribyggð á Grænlandi er alltaf talað um Stórís (Storis á dönsku - hef ekki fundið grænlenska heitið) þegar átt er við Austur-Grænlandsísinn.

Í næsta slefi rifjum við upp eitthvað um hafís við Íslands og þær mælitölur sem notaðar hafa verið til að slá á magn hans.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8
  • Slide7
  • Slide6

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.5.): 329
  • Sl. sólarhring: 336
  • Sl. viku: 1615
  • Frá upphafi: 2352678

Annað

  • Innlit í dag: 294
  • Innlit sl. viku: 1453
  • Gestir í dag: 280
  • IP-tölur í dag: 272

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband