Íslandssöguslef 3 - smáupprifjun um hafísinn

Mestallt efni þessa pistils hefur birst áður á hungurdiskum - en í lagi að rifja það upp.

Lítum á mynd úr gömlum pistli (hér er hún einfölduð).

w-blogg250414a 

Hafís þekur mestallt Norðuríshafið allt árið (ekki þó alveg á sumrin á síðustu árum) og ýmis inn- og jaðarhöf Norður-Atlantshafs eru líka þakin ís - alla vega hluta ársins. Ísinn í Barentshafi er nánast allur myndaður á staðnum og árstíðasveifla er þar mikil í útbreiðslu hans.

Síðan samfelldar gervihnattamælingar hófust um 1980 hefur sumarútbreiðsla í Barentshafi lengst af verið innan við 100 þúsund ferkílómetrar (Cryosphere Today) en fyrst á tímabilinu var útbreiðslan oftast 700 til 900 þúsund ferkílómetrar síðla vetrar og sló yfir milljón þegar mest var (1979 og 1998). Á þessari öld hefur síðvetrarútbreiðslan oftast verið mun minni eða um 500 þúsund ferkílómetrar - veturinn 2012 rétt slefaði hún í 400 ferkílómetra. Þetta er mikil breyting.

Rekísinn sem stundum kemur til Íslands nefnist Austur-Grænlandsís. Hann er ekki allur orðinn til á staðnum heldur berst verulegt ísmagn suður um Framsund milli Grænlands og Svalbarða, eða um 2800 rúmkílómetrar íss á ári að meðaltali. Auk þessa berst líka selturýr sjór úr Íshafinu og suður á bóginn. Hann er léttur að tiltölu og flýtur ofan á saltari sjó sem berst úr suðri. Lagskipting þessi ýtir undir vetrarísmyndun sunnan Framsunds.

Í venjulegum árum bráðnar mestallur sá ís sem myndast sunnan Framsunds - enda oftast þunnur og ekki meira en eins vetrar gamall - en eldri ís lifir lengur.

Á tíma gervihnattamælinga hefur leifin oftast verið í kringum 200 þúsund ferkílómetrar að hausti en að vetrarlagi hefur magnið að vorlagi oftast verið í kringum 500 þúsund ferkílómetrar á þessari öld, en var fyrir þann tíma öllu meira, mest rúmlega 800 þúsund ferkílómetrar 1979 og 1988.

Svo virðist því sem árstíðasveifla Austur-Grænlandsíss hafi ekki minnkað jafnmikið og sveifla Barentsíss.

Á fyrri tíð - t.d. á hafísárunum svokölluðu (1965 til 1971) var ís talsvert meiri við Austur-Grænland heldur en síðan og varð útbreiðslan þá jafnvel meiri en milljón ferkílómetrar. Rannsóknir Torgny Vinje á ísmagni við Austur-Grænland ná aftur til 1855 og byggjast á upplýsingum um selveiðar á þeim slóðum. Þær benda til þess að fyrir 100 árum hafi meðalútbreiðsla í apríl verið um 800 þúsund ferkílómetrar og á síðari hluta 19. aldar enn meiri, jafnvel um milljón ferkílómetrar.

Ískomur við Ísland ráðast af allmörgum þáttum. Miklu máli skiptir hversu mikill ís lifir sumarið af, hversu eindreginn flutingur íss og selturýrs sjávar í gegnum Framsundið er, og hvernig vindum er háttað á helsta myndunarsvæðinu á mesta myndunartímanum - og svo hvernig vindum er háttað að vorlagi.

Austur-Grænlandsísinn nær gjarnan mestri útbreiðslu um mánaðamótin mars-apríl, við Ísland er hámarkið e.t.v. aðeins síðar. Ísmyndun er lítil við sunnanvert Austur-Grænland, sunnan Grænlandssunds, þannig að nær allur ís þar er kominn að norðan. Árshámarkið verður því síðar eftir því sem sunnar dregur og ekki fyrr en undir mitt sumar (eftir sólstöður) vestan við Hvarf syðst á Grænlandi. Veiðimenn þar um slóðir fagna komu íssins - hann er loksins kominn.

Við Eystribyggð á Grænlandi er alltaf talað um Stórís (Storis á dönsku - hef ekki fundið grænlenska heitið) þegar átt er við Austur-Grænlandsísinn.

Í næsta slefi rifjum við upp eitthvað um hafís við Íslands og þær mælitölur sem notaðar hafa verið til að slá á magn hans.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.4.): 73
  • Sl. sólarhring: 77
  • Sl. viku: 1671
  • Frá upphafi: 2350948

Annað

  • Innlit í dag: 66
  • Innlit sl. viku: 1463
  • Gestir í dag: 57
  • IP-tölur í dag: 57

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband