Bloggfærslur mánaðarins, júní 2014
21.6.2014 | 01:12
Hitinn fyrstu fimm mánuði ársins óvenjuhár
Ekki nær hann þó meti. Í Reykjavík hafa fyrstu fimm mánuðir ársins aðeins þrisvar verið hlýrri frá því að samfelldar mælingar hófust 1871. Þetta var árin 1964 (þá var hlýjast), 1929 og 2003. Ekki er langt í næstu sæti. Svipað á við um Akureyri - þar eru sex tímabil hlýrri en nú. Við skulum líta á línurit.
Hið kunnuglega hitalandslag sést vel - kuldinn fyrir 1920, hlýskeiðið sem endaði snögglega 1965, kuldaskeiðið sem fylgdi þar á eftir og að lokum hlýindin á nýrri öld. Og alltaf vekur athygli hversu jafnhlýtt er á nýju öldinni - og rífur það nýju hlýindin upp fyrir fyrra hlýskeið - sem var miklu breytilegra.
Línurit sem gerð væru fyrir aðra staði á landinu yrðu með sama meginsvip - en þó ekki eins. Við sleppum því að líta á Akureyrarmyndina - en könnum þess í stað mynd sem sýnir mismun hita í Reykjavík og á Akureyri fyrir fimm fyrstu mánuði ársins. Gildin eru jákvæð sé hlýrra í Reykjavík.
Lóðrétti kvarðinn (mismunurinn) nær yfir 5 stig - en náði yfir 10 stig á fyrri myndinni. Sveiflur eru því grófgerðari. Þessi mynd byrjar 1882 en samfellda hitaröðin frá Akureyri byrjar haustið 1881. Það hefur einu sinni gerst á tímabilinu að hlýrra hefur verið á Akureyri heldur en í Reykjavík. Það var 1984. Þá réðu vestrænir kuldar ríkjum og náðu þeir verr til Norðurlands heldur en suðvesturhluta landsins. Þetta atvik er mjög mikilvægt í veðurfarssögunni því hefði það ekki átt sér stað væri hætt við því að ámóta uppákomum í eldri (og óvissari) mælingaröðum yrði ekki trúað. En atvikið var mjög raunverulegt - árið allt var meira að segja hlýrra í Grímsey heldur en á Stórhöfða í Vestmannaeyjum.
Munurinn milli stöðvanna var meiri fyrir 1920 heldur en síðar - en okkur veðurfarssögupælurum til sérstaks happs tók mikill munur sig upp á hafísárunum 1965 til 1971. Við getum því meðtekið fyrstu áratugi þessarar myndar með bros á vör. Þá var mun meiri hafís við Íslandsstrendur heldur en var á hlýindaskeiðinu og á síðustu árum. Við þurfum ekki að hrökkva í leiðréttingarham (sem myndi t.d. kæla Reykjavík um 0,7 stig).
En - þeir sem ekki vita þetta vilja varla trúa því að munur sem þessi geti verið á milli stöðva sem ekki eru lengra frá hvor annarri. Okkur finnst ekkert sérstaklega stutt milli Reykjavíkur og Akureyrar - en úr fjarska - heimshitafjarska - virðist þetta vera örstutt. Því telja menn sig geta með góðum rökum leiðrétt skekkjuna. Svo er að sjá að ýmsir velmeinandi félagar í sögunni úti í löndum ákveði bara að svona mikill munur eftir tímabilum hljóti að stafa af ósamfellu í mælingum - og engu öðru.
Þá er tekið til við að leiðrétta og leiðrétta. Á að trúa Akureyri - eða á að trúa Reykjavík - það fer auðvitað eftir því hvaða stöðvar fleiri eru aðgengilegar og jafnvel því sem menn telja fyrirfram að hljóti að vera.
Jú, vafalítið er að allskonar ósamfellur sé raunverulega að finna í hitaröðum Reykjavíkur og Akureyrar - en það er óþarfi að leiðrétta þær sem eiga sér fullkomlega eðlilegar skýringar í náttúrunni sjálfri.
Vísindi og fræði | Breytt 2.6.2014 kl. 19:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.6.2014 | 01:12
Meira um árstíðasveiflu meðalvindhraða
Eins og kom fram í fyrri færslu er vindhraði á landinu minnstur í júlímánuði. Úr honum dregur á vorin - en ekki jafnhratt að degi heldur en að nóttu. Að vetrarlagi ráða þrýstikerfi - lægðir og hæðir vindhraðanum að mestu leyti. Að vísu er þá mikið um hæga fallvinda þar sem loft sem kólnar yfir landinu rennur til sjávar en fallvindarnir vita ekki mikið um það hvað klukkan er.
Um hafgoluna gegnir öðru máli. Hún er áberandi mest síðdegis - víðast hvar á tímabilinu frá því kl 14 til 17, en vindur er mun minni að næturlagi. Við lítum á nokkuð flókna mynd sem á að sýna árstíðasveiflu kl. 15 að degi og kl. 3 að nóttu - og sömuleiðis mismuninn.
Lárétti ásinn sýnir daga ársins - við mánaðamót, en lóðréttu ásarnir eru tveir, báðir sýna metra á sekúndu, en sá til vinstri meðalvindhraða og á við rauðu og bláu línurnar á myndinni.
Rauðu línurnar sýna vindinn kl. 15. Að meðaltali er hann hátt í 7 m/s þegar hann er mestur að vetri, en um 5 m/s að sumarlagi. Lágmarkið er um mánaðamótin júlí og ágúst.
Bláu línurnar sýna vindhraðann kl. 3. Hann er ámóta mikill og vindhraðinn kl. 15 í nóvember, desember, janúar og febrúar - varla er marktækur munur í mars og október, í apríl til september er hann talsvert minni.
Gráu línurnar sýna aftur á móti mismuninn - þar lítum við til kvarðans til hægri á myndinni. Þar sjáum við það sama og áður - munurinn er í kringum núll yfir háveturinn, en fer að vaxa um jafndægur og er algjörlega hafgolunni í hag allt fram að jafndægri að hausti - þá dregur úr.
Munurinn er mestur í júní - í kringum sólstöður eins og vera ber því það eru áhrif sólarinnar sem búa hann til. Yfirborð landsins hitnar mun meira en yfirborð sjávar að sumarlagi - landið hitar síðan loftið. Yfir sjó fer sólarhitinn aðallega í uppgufun á vatni - í að búa til dulvarma. Dulvarminn skilar sér aftur þegar rakinn þéttist - en hvar það gerist er ekki gott að segja. Ef hann þéttist nærri yfirborði sjávar verður til þoka - en yfirborð hennar endurkastar sólargeislum - þannig að þeir nýtast enn verr í orkuskipti.
Sólaráhrifin koma fram strax í mars - en þá er lítið um hafgolu. Til þess að sólarylurinn nýtist landinu þarf snjór að vera bráðnaður - annars endurkastast sólarljósið - eða fer í að bræða snjóinn og þar með undirbúa síðari daga orkunýtingu.
Atriði sem taka má eftir er að mismunur vinds dags og nætur vex hraðar á vorin heldur en að hausti. Hér kemur snjóhula trúlega við sögu - minnkar hún hraðar í lok vetrar heldur en hún vex í sumarlok?
Sé farið í smáatriði í dægursveiflu vindátta - má strax í mars sjá votta fyrir einhverju sem kalla má hafgolu. En - fleira kemur við sögu - utan dagskrár að sinni.
Vísindi og fræði | Breytt 1.6.2014 kl. 02:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.6.2014 | 00:45
Meðalvindhraði - árstíðasveifla
Stundum heyrist að maí sé hægviðrasamasti mánuður ársins hér á landi. Kannski lifir sú skoðun vegna þess að þá er loftþrýstingur að meðaltali hæstur. En meðalvindhraði er samt lægstur í júlí og illviðratíðni er þá sömuleiðis í lágmarki.
Lítum á gamalkunna mynd (hefur sést á hungurdiskum einhvern tíma áður). Hún sýnir meðalvindhraða á hverjum degi ársins og nær að þessu sinni alveg til ársins 2013.
Hér sést greinilega að meðalvindhraði í maí er þó nokkuð hærri heldur en í júlí og fyrri hluta ágústmánaðar. Rétt eftir miðjan ágúst fer vindhraði aftur vaxandi og mjög ört í fyrstu. Umtalsverð dægursveifla er í vindhraða að sumarlagi - sólfarsvindar. Hún fylgir sól - vex strax eftir jafndægur á vori en fer ört minnkandi í ágúst. Við rifjum þau mál e.t.v. upp síðar.
Vísindi og fræði | Breytt 30.5.2014 kl. 01:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.6.2014 | 00:45
Uppstigningardagur
Uppstigningardagur er ein af hræranlegum hátíðum kirkjunnar. Ber alltaf upp á fimmtudag, tíu dögum fyrir hvítasunnu. Rétt eins og aðrar hræranlegar hátíðir fellur dagurinn á rúman mánaðartíma í dagatalinu. Á þeim tíma sem er undir hér að neðan hefur hann aldrei verið fyrr en þann 1. maí (1845, 1856, 1913 og 2008) og aldrei síðar en 3. júní (1886 og 1943). Vorið er í fullum gangi og meðalhiti hækkar dag frá degi. Vafasamt er því að reikna meðalhita dagsins - það er miklu líklegra að hann sé hár sé dagurinn seinn.
En við skulum samt kanna hverjir eru köldustu og hlýjustu uppstigningardagarnir. Til þess notum við morgunhitann í Stykkishólmi sem nær samfellt aftur til 1846 og einnig upplýsingar um hámarks- og lágmarkshita (útgildi) dagsins í Reykjavík. Gallinn við þá röð er að útgildin hafa ekki verið færð til bókar á sama hátt allt tímabilið auk þess sem hámarks- og lágmarksmælar hafa ekki verið í notkun allan tímann. En alltént segir Reykjavíkurröðin okkur nokkuð um það hvaða uppstigningardagar á tímabilinu 1830 til 1853 voru þeir hlýju og hverjir þeir köldu.
Samfellan í morgunhitaröðinni úr Stykkishólmi er heldur ekki skotheld - en röðin er samt skemmtileg.
Köldustu morgnar í Stykkishólmi
röð | ár | mán | dagur | hiti |
1 | 1887 | 5 | 19 | -2,6 |
2 | 1861 | 5 | 9 | -2,5 |
3 | 1914 | 5 | 21 | -2,1 |
4 | 1907 | 5 | 9 | -1,1 |
5 | 1920 | 5 | 13 | -0,9 |
6 | 1910 | 5 | 5 | -0,5 |
7 | 1967 | 5 | 4 | -0,4 |
Hiti hefur sjö sinnum verið undir frostmarki að morgni uppstigningardags í Stykkishólmi. Í annálum eru vorhretin 1887 og 1914 sérstaklega illræmd. Allir dagarnir nema einn eru úr gamla tímanum, en uppstigningardagur 1967 er e.t.v. í minni gamalla veðurnörda.
Hlýjustu morgnarnir í Stykkishólmi eru:
röð | ár | mán | dagur | hiti |
1 | 1870 | 5 | 26 | 11,3 |
2 | 1976 | 5 | 27 | 11,0 |
3 | 1933 | 5 | 25 | 10,4 |
4 | 1968 | 5 | 23 | 10,0 |
Gamall, frá 1870 trónir á toppi - en enginn er nýlegur. Til að finna dag á þessari öld þarf að fara allt niður í 21. sæti - þar er uppstigningardagur 2009.
Þá Reykjavík. Hér vantar slatta af árum í listann, t.d. allt tímabilið 1854 til 1870, við náum því ekki til áranna 1861 og 1870 sem komust á blað hér að ofan. Tölurnar eru heldur ekki sambærilegar við Stykkishólmslistana því hér er lesið af hámarks- og lágmarksmælum.
Lægsta lágmark í Reykjavík
röð | ár | mán | dagur | lágm |
1 | 1887 | 5 | 19 | -3,2 |
2 | 1910 | 5 | 5 | -3,2 |
3 | 1926 | 5 | 13 | -2,9 |
4 | 1837 | 5 | 4 | -2,5 |
5 | 1850 | 5 | 9 | -2,5 |
6 | 1929 | 5 | 9 | -2,0 |
Hér er uppstigningardagur 1887 sá kaldasti, rétt eins og á Stykkishólmslistanum. Mikið fjártjón var um landið norðvestanvert í hríðarveðri. Hretið stóð í nokkra daga en er í annálum kennt við uppstigningardaginn. Í hretinu 1910 - sem var þó fyrr í mánuðinum fórst um 1000 fjár austanlands og mikið snjóaði í Vestmannaeyjum. Hretið á uppstigningardaginn 1926 drap margt fé sunnanlands og þá var alhvítt í Reykjavík og 1929 varð líka mikið fjártjón sunnanlands og maður fórst í snjóflóði í Fnjóskadal í sama hreti.
Lágur hámarkshiti fiskar líka kalda daga - venjulega er þá engin sól til hjálpar og vindur oft stríður:
röð | ár | mán | dagur | hám |
1 | 1887 | 5 | 19 | -1,0 |
2 | 1914 | 5 | 21 | 1,0 |
3 | 1850 | 5 | 9 | 2,5 |
4 | 1910 | 5 | 5 | 2,8 |
5 | 1926 | 5 | 13 | 2,8 |
6 | 1967 | 5 | 4 | 2,9 |
Frost var allan sólarhringinn í Reykjavík á uppstigningardag 1887 - hræðilegt svo ekki sé meira sagt. Hér kemur uppstigningardagur 1914 líka inn - rétt eins og í Stykkishólmi og 1967 í sjötta sæti.
Hæst hámark í Reykjavík:
röð | ár | mán | dagur | hám |
1 | 1946 | 5 | 30 | 16,0 |
2 | 1843 | 5 | 25 | 15,0 |
3 | 1830 | 5 | 20 | 15,0 |
4 | 1954 | 5 | 27 | 14,9 |
Uppstigningardagurinn 1946 var hlýjastur í Reykjavík - ekki er alveg að treysta hámarksmælingum fyrir 1870 - en þær fá að fylgja með.
Lýkur hér þessari hroðvirknislegu upprifjun.
Vísindi og fræði | Breytt 29.5.2014 kl. 23:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.6.2014 | 23:27
Fiskivatnsrétt
Á hálsinum milli Norðurárdals og Þverárhlíðar í Borgarfirði eru stöðuvötn. Eitt þeirra heitir Fiskivatn. Það er innarlega á hálsinum undir miklum klettaborgum sem kenndar eru við bæinn Háreksstaði í Norðurárdal. Við vatnið var samnefnd skilarétt sem var í notkun þar til Þverárrétt hin eldri var reist á áreyrum rétt innan við bæinn Kvíar um 1850 - e.t.v. á einhver góðhjartaður lesandi rétt ártal. Það var svo árið 1911 að Þverárrétt var flutt á núverandi stað.
Þótt komið sé vel á annað hundrað ára síðan Fiskivatnsrétt var aflögð má þar enn sjá rústir fyrri tíma. Ritstjórinn kom þarna á gönguferð sumarið 1976, nánar tiltekið 10. júlí. Myndin hér að neðan er tekin undir Hárekstaðaborgum og sér yfir vatnið, en ekki í mestu mannvirkin.
Bjarni Andrésson, þá kennari að Varmalandi, lýsir ummerkjum í Sunnudagsblaði Tímans 1960 (5. árgangur, 41. tölublað, 20. nóvember, bls. 5). Hann taldi að minnsta kosti 28 dilka auk almennings og segir að dráttur hafi trúlega verið nokkuð þvælinn - því ekki hafi dilkarnir nærri allir legið að almenningnum. En lesið grein Bjarna sem aðgengileg er á timarit.is.
Sömuleiðis er minnst á réttina í öðru bindi bókarinnar Áfangar. Í þessu bindi er fjallað um fornar reiðleiðir á Vesturlandi og í Húnavatnssýslum. Klausan um Fiskivatnsrétt er á blaðsíðu 99. - Bókin er aðgengileg á netinu.
Heimildum ritstjórans ber ekki alveg saman um hvort réttin var haldin fimmtudag í 20. viku sumars (Áfangar) eða þeirri 21. (Bjarni Andrésson). Hér er hallast að því að það hafi upphaflega verið í þeirri 21. en seinna riðlast um viku vegna árekstra milli gamla og nýja stíls (júlíanska og greoríanska tímatalsins). Vel má ímynda sér deilur af þessum sökum.
Svo vill til að í gamla stíl (júlíanska tímatalinu) bar fiskivatnsréttardag (þá í 21. viku sumars) að meðaltali upp á höfuðdaginn (29. ágúst). En þetta riðlaðist (eins og flest annað í landinu) þegar 11 dögum var sleppt úr dagatalinu í nóvember árið 1700. Eftir það féll fimmtudagur í 21. viku sumars að meðaltali á 9. september, en höfuðdagurinn - eins og aðrir dagar tengdir kirkjunni - héldu sínum dagsetningum við skiptin yfir í gregoríanska tímatalið - höfuðdagurinn var áfram 29. ágúst.
Þessi deila um 21. og 20. viku kann þó að vera della ritstjórans - einfaldlega sé um prentvillu eða rangfærslu að ræða í annarri hvorri heimildinni.
Höfuðdeginum fylgdi mikil veðurtrú - líka Fiskivatnsréttardegi í Borgarfirði. Hvorum deginum átti veðurtrúin að fylgja? Allt hið venjulega dagatal hliðraðist greinilega miðað við sól, - en ekki það íslenska. Hlaut veður og náttúra ekki frekar að fylgja sólu heldur en tilviljanakenndum tilskipunum kóngsins? Kannski varð tilfærslan frá 21. til 20. viku til vegna málamiðlunar? Að sleppa 11 dögum - án þess að riðla vikudögunum um leið er alveg sérlega ruglingslegur leikur.
Trú á að fiskivatnsréttardagur væri merkari heldur en höfuðdagurinn var enn við líði í Borgarfirði fyrir hálfri öld. Það man ritstjórinn sjálfur og á þetta er líka minnst í áðurnefndri grein Bjarna Andréssonar í sunnudagsblaði Tímans og í pisli Áfanga. Um höfudaginn á líka að lesa í Sögu daganna eftir Árna Björnsson.
En menningarferðamennska nútímans á tvímælalaust að nýta sér gömlu réttirnar báðar, Fiskivatnsrétt og Þverárrétt eldri. Varla er þó hægt að ætlast til þess að eitthvað sé lappað upp á mannvirkin. Háreksstaðaborgirnar eru líka kapítuli út af fyrir sig. Þær sjást vel frá norðurlandsvegi í Norðurárdal.
Hér er að lokum lítil tafla um fiskivatnsréttardag næstu ára - vilji menn tékka á veðrinu. Miðað er við 21. viku sumars - sé það sú 20. er bara að draga 7 frá dagsetningunni.
Fiskivatnsréttardagur 2014 til 2020:
ár | mán | dagur |
2014 | 9 | 11 |
2015 | 9 | 10 |
2016 | 9 | 8 |
2017 | 9 | 7 |
2019 | 9 | 12 |
2020 | 9 | 10 |
Vísindi og fræði | Breytt 28.5.2014 kl. 01:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.6.2014 | 23:27
Landsdægurlágmörk enn og aftur
Síðastliðna nótt (aðfaranótt 22. maí) var enn slegið landsdægurlágmarksmet þegar frostið fór í -14,5 stig á Brúarjökli rétt um klukkan 5. Eldra met var sett á sama stað árið 2006 og var -13,1 stig. Aldrei hefur mælst svona mikið frost svo seint að vori hér á landi.
Mér sýnist að landsdægurlágmark í byggð hafi einnig fallið (þann 22. maí). Frostið á Staðarhóli í Aðaldal fór niður í -7,4 stig milli kl. 1 og kl. 2. Mesta sem mælst hafði áður í byggð þennan dag var -6,8 stig í Árnesi 2007.
Vísindi og fræði | Breytt 23.5.2014 kl. 01:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.6.2014 | 01:04
Hár hiti lætur bíða eftir sér (21. maí)
Hæsti hiti á landinu það sem af er ári mældist 18,1 stig í Skaftafelli fyrir mánuði síðan, 22. apríl. Hæsti hiti það sem af er maí er aftur á móti aðeins 16,3 stig sem mældust í Húsafelli fyrir hálfum mánuði, þann 7. maí.
Þrátt fyrir þetta er hiti fyrstu þrjár vikur maímánaðar langt yfir meðallagi um landið sunnan- og vestanvert en minna á Austurlandi (1961-1990). Hitinn eystra er rétt undir eða um það bil í meðallagi síðustu tíu ára, en er meira en 1 stigi yfir því á Vesturlandi. Jákvæða vikið er mest í Straumsvík, 1,6 stig, en það neikvæða mest við Upptyppinga -0,6 stig undir. Af þeim 89 stöðvum sem 10-ára meðaltal hefur verið reiknað fyrir eru nú 76 yfir meðallagi, 3 í meðallagi og 9 undir því (óleiðréttar villur eru í gögnum einnar - hún er ekki talin með).
Á vegagerðarstöðvunum er sú nærri Blönduósi með stærst jákvætt vik, 1,6 stig en Breiðdalsheiði með mesta neikvæða vikið, -0,5 stig. Sjálfvirk stöð Veðurstofunnar á Blönduósi er vikið nálægt 1,5 stigum.
Sé litið á síðustu 140 ár hefur landshámark maímánaðar 81 sinni mælst á síðustu 10 dögunum. Vegna þess að 16,3 stig teljast til lágra maíhámarka er líklegt að síðustu 10 dagarnir eigi eftir að gera betur.
Svo sitjum við auðvitað uppi með landslágmarksdægurmetið frá því í fyrradag (20. maí), 16,0 stigin á Brúarjökli.
Vísindi og fræði | Breytt 26.5.2014 kl. 01:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.6.2014 | 01:04
Nýtt dægurlágmark 20. maí
Aðfaranótt 20. maí ætlar greinilega að verða köld. Hitinn á stöðinni á Brúarjökli var kl. 1 kominn niður í -14,3 stig. Kannski fellur hann enn neðar. Þetta er alla vega orðið nýtt lágmarksdægurmet fyrir 20. maí. Gamla metið er -13,5 stig, sett á Brú á Jökuldal í þeim hræðilega mánuði maí 1979.
Viðbót síðar sama dag:
Frostið fór í -16,0 stig á Brúarjökli milli kl. 3 og 4 síðastliðna nótt. Þetta er nýtt landsdægurmet fyrir 20. maí og líka nýtt met fyrir mesta frost svo seint vors. Brúarjökull er smátt og smátt að hirða dægurlágmörkin á þessum tíma árs, á núna 8 af 31 dægurmeti maímánaðar eftir 9 ára stöðu.
Vísindi og fræði | Breytt 21.5.2014 kl. 01:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.6.2014 | 17:21
Sýndarsnjór nú (maí 2014) og í fyrra (maí 2013)
Útbúið hefur verið kort sem sýnir mismun á sýndarsnjó í harmonie-líkaninu 19. maí í ár og 19. maí í fyrra. Litirnir eru dálítið órólegir en með góðum vilja ættum við að sjá vel það sem máli skiptir. Myndin batnar talsvert sé hún stækkuð.
Á bláu og fjólubláu svæðunum er meiri snjór nú heldur en í fyrra. Í líkaninu er mun meiri snjór á Vestfjarðafjöllum heldur en var í fyrra, sérstaklega á Drangajökli og Ófeigsfjarðarheiði. Meiri snjór er líka á hálendinu kringum Eyjafjörð - frá Svarfaðardal og inn úr. Einnig er meiri snjór á hálendi Austfjarða og upp af Fljótsdal heldur en í fyrra.
Mun minni snjór er á norðanverðum Langjökli heldur en í fyrra - en á Hofsjökli og Langjökli sunnanverðum er lítill munur. Í nágrenni höfuðborgarinnar virðist heldur minni snjór í fjöllum heldur en í fyrra.
Vísindi og fræði | Breytt 19.5.2014 kl. 22:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.6.2014 | 17:21
Tveir hringir
Í dag (fimmtudaginn 15. maí 2014) má sjá ágætt dæmi um vorhringrás á norðurhveli. Kortið sýnir hæð 500 hPa-flatarins með heildregnum línum. Því þéttari sem línurnar liggja því hvassari er vindurinn sem blæs samsíða þeim. Litafletir sýna þykktina, en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið.
Tveir hringir hafa verið settir á kortið - til áherslu. Sá minni og þrengri liggur í krappa í kringum norðurskautið. Í honum eru nokkrar stuttar bylgjur (lægðardrög) sem berast hratt til austurs eins og örin sýnir. Bylgjan við Tamirskaga í Síberíu er öflugust í dag. Mörkin á milli bláu og grænu litanna er við 5280 metra þykkt (kvarðinn batnar mjög sé myndin stækkuð). Næturfrost eru algeng inn til landsins hérlendis sé þykktin í bláa litnum - meira að segja í maí. Þegar vorið er svo langt komið viljum við sjá sem minnst af slíku - en það er samt algengt.
Bláu litirnir eru fjórir, sá dekksti sýnir hvar þykktin er minni en 5100 metrar. Þar ríkir enn vetur með snjókomu og hríðarbyljum. Lægsta þykkt sem við vitum um í háloftaathugun yfir Keflavíkurflugvelli í maí er 5040 metrar (1982). Veðurstöðvar muna kuldann þá vel - maíkuldamet þeirra eru mörg úr þessu kuldakasti.
Okkur fer að líða illa fari þykktin í síðari hluta maí niður undir eða niður fyrir 5200. Á því er þó nokkur hætta meðan ástandið er í þessum gír - eitthvað lægðardraganna norðlægu gæti teygt sig hingað.
Annar hringur er á kortinu - miklu sunnar. Þar má sjá margar lokaðar (afskornar lægðir) sem virðast ekki taka þátt í vestanáttinni og hryggir - ekki eins áberandi - á milli. Lægðirnar eru kaldar en hryggirnir hlýir. Hlýjasti hryggurinn er yfir Kasakstan og þar er þykktin yfir 5700 metrar - svo mikil þykkt hefur aldrei mælst hérlendis. Mjög kalt lægðardrag liggur suður um Bandaríkin - en þar um slóðir eru miklar hitasveiflur um þessar mundir.
Á vetrum er vestanröstin miklu öflugri heldur en í maí og nær oftast að hreinsa upp afskornu lægðirnar fljótlega eftir að þær myndast - en nú er það erfitt. Lægðirnar í suðurhringnum hreyfast samt flestar til austurs, tengjast nyrðri lægðardrögunum um síðir og geta þar með raskað háloftavindum á okkar slóðum.
Vísindi og fræði | Breytt 16.5.2014 kl. 01:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 78
- Sl. sólarhring: 148
- Sl. viku: 1999
- Frá upphafi: 2412663
Annað
- Innlit í dag: 76
- Innlit sl. viku: 1750
- Gestir í dag: 73
- IP-tölur í dag: 68
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010