Bloggfærslur mánaðarins, desember 2014
9.12.2014 | 01:29
Skörp vindaskil við Vestfirði - fárviðri á Vestfjarðamiðum
Mikið austsuðaustanillviðri gengur nú til austurs yfir landið (mánudagskvöld 8. desember). Á eftir því fylgir mun hægari suðlæg átt sem síðan snýst aftur til austurs. Illiðrið fer alveg norður fyrir Vestfirði og kemst lengst norður af um kl. 9 á þriðjudagsmorgni (9. desember). Síðan snýr það við og nálgast land að nýju, í það sinn sem norðaustan- og norðanátt.
Kortið sýnir spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um hita og vind í 925 hPa-fletinum auk hæðar hans kl. 18 síðdegis á þriðjudag, 9, desember. Jafnhæðarlínur eru heildregnar, vindur er sýndur með hefðbundnum vindörvum og hiti með litum. Kortið batnar sé það stækkað. Vekja má athygli á því að 925 hPa-flöturinn er hér mun neðar í lofti en venjulega því lægðin er svo djúp, 946 hPa í miðju - þar er 925 hPa að finna í um 170 metra hæð yfir sjávarmáli.
Vindstrengurinn milli Vestfjarða og Grænlands sést mjög vel - þar má ef vel er að gáð finna 50 m/s og vindurinn er meiri en 32 m/s (fárviðri) á stóru svæði. Orsök fárviðrisins sést vel, lægðasvæðið þrengir að köldu lofti sem vill komast suðvestur um Grænlandssund. Gríðarlegur hitabratti býr til bratta hæðarsviðsins.
Við skilin myndast nokkrir lægðahnútar - tveir sjást vel á þessu korti. Þeir renna til suðvesturs meðfram skilunum og sveifla þeim fram og til baka - alveg upp að Vestfjörðum - aftur til baka - og enn aftur inn að Vestfjörðum og síðan virðist strengurinn eiga að falla inn á land - en um leið og rás kalda loftsins breikkar léttir á strengnum og vindhraði verður skaplegri og skaplegri eftir því sem skilin hörfa lengra til suðurs og austurs.
Á kortinu má líka sjá stutt rautt strik sem liggur norður eftir 23 gráðum vesturbreiddar. Við lítum á háloftasnið eftir strikinu.
Suður er til vinstri á myndinni. Tölur hafa verið settar á kortið til hægðarauka, 1 bendir á Snæfellsnes, 2 á Glámuhálendið og 3 á Hornstrandafjöll. Lóðrétti kvarðinn sýnir hæð í hPa. Sniðið nær ekki niður í 1000 hPa vegna þess að sjávarmálsþrýstingur er lægri heldur en svo. Hæst nær sniðið í 250 hPa - um 10 km hæð.
Heildregnu línurnar eru mættishitinn - hann vex upp á við. Vindátt er sýnd með hefðbundnum vindörvum (snúa eins og á flötu veðurkorti) en vindhraði er að auki sýndur í lit. Fárviðrið sést sérlega vel lengst til hægri á myndinni og vindaskilin eru eins og lóðréttur veggur frá yfirborði upp í um 3 km hæð. Sunnan veggjar er vindur mjög hægur - minni en 6 m/s víðast hvar, en rétt þar norðan við er hann meiri en 40 m/s og reyndar meiri en 48 m/s þar sem mest er í sniðinu.
Röð sniða sem þessa á klukkustundarfresti sýna að skilin sveiflast fram og til baka frá því um morguninn fram til þess ástands sem þetta snið sýnir - eftir það á strengurinn að fara að mjakast suður um, á að vera kominn suður á Breiðafjörð um miðnætti.
Að vanda látum við Veðurstofuna um spádómana - en óhætt mun þó að upplýsa að allt sem lægðinni fylgir á ekki að vera komið alveg austur af landinu fyrr en um hádegi á föstudag. Svo verður lægð helgarinnar býsna spennandi - sé eitthvað að marka reiknimiðstöðvar.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 11:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.12.2014 | 01:34
Kuldalegt kort
Þykktargreining evrópureiknimiðstöðvarinnar á hádegi í dag (sunnudaginn 7. desember) er heldur kuldaleg.
Mesta þykktin sýnist vera 5240 metrar, það er nálægt meðallagi desembermánaðar hér á landi - en þykir kalt á Bretlandseyjum. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Jafnþykktarlínur eru heildregnar - en litafletir sýna hita í 850 hPa. Hitinn sá nær hvergi -2 stigum.
Þetta er eina kort 10-daga spárununnar frá hádegi í dag sem er alblátt. Á hinn bóginn er kaldasta loftið ekkert sérlega kalt. Það er 5160 metra jafnþykktarlínan sem fer í sveig um sunnan- og austanvert Ísland. Þetta er um 80 metrum undir meðallagi - um 4 stigum - en í raun varð meðalhiti í byggðum landsins um -2,6 stigum undir meðallagi.
Lægsta þykktin á kortinu er vestan við Grænland - þar er hún rétt undir 5000 metrum. Það er kalt - líka hér á landi. En þetta loft virðist ekki vera á leið hingað - Grænlandsjökull stíflar framrás þess til austurs.
Að tiltölu er heldur kaldara í 850 hPa-fletinum, þar liggur mjög kalt loft í leyni við Norðausturgrænland - frostið rúm -20 stig. Það er reyndar alvanalegt á þeim slóðum.
Við sjáum líka að langt er á milli jafnþykktarlína - en það stendur ekki lengi því gríðarlega öflug lægð er að ráðast inn á sunnanvert Grænlandshaf og á hún að valda illviðri hér á landi á mánudagskvöld. Með lægðinni kemur miklu meiri þykkt - upp undir 5400 metra þegar best lætur - en það hlýja loft fer fljótt austur um.
Fylgist með spám Veðurstofunnar.
7.12.2014 | 01:07
Sjávarhitavik í nóvember
Hlýindin í nýliðnum nóvember stöfuðu aðallega af eindregnum suðaustlægum áttum - en hár sjávarhiti hefur trúlega hjálpað til. Kortið hér að neðan sýnir vik sjávarhita frá meðallagi áranna 1981 til 2010.
Meðalsjávarmálsþrýstingur er sýndur með heildregnum línum. Suðaustanáttin sést vel. Litirnir sýna sjávarhitavikin - kvarðinn batnar sé myndin stækkuð. Vik eru jákvæð í kringum Ísland og sérstaklega undan Norðurlandi þar sem hámarksvikið er +3,5 stig. Lofthitavik í Grímsey (miðað við 1981 til 2010) var +2,8 stig í nóvember.
Kalda vikið suður í hafi vekur athygli. Það hefur verið nokkuð áberandi mestallt árið. Trúlega eru þetta leifar af umframkælingu í þrálátum norðvestanáttum á svæðinu síðastliðinn vetur - en það er ágiskun.
Áberandi kaldur blettur er norður af Jan Mayen. Hann var á sama stað - en ívið kaldari - á sama tíma í fyrra. Annars tökum við hóflegt mark á vikum sem eru nærri ísjaðrinum sem og þeim sem liggja suður með austurströnd Grænlands.
Svo er rétt að minna á að hér er allt miðað við yfirborðshita - sem galdraður er út úr gervihnattamælingum og getur breyst mikið á skömmum tíma við blöndun við sjó sem liggur rétt undir yfirborðinu. Mælingarnar voru ónákvæmari í upphafi 30-ára viðmiðunartímabilsins. Höldum ályktunum því í hófi.
6.12.2014 | 01:07
Næsti bloti - gjörið svo vel?
Þegar þetta er skrifað (seint á föstudagskvöldi 5. desember) er kominn bloti um landið sunnan- og vestanvert og sömuleiðis við ströndina eystra. Blotinn gengur hratt yfir og trúlega verður aftur komið frost um mestallt land annað kvöld (laugardag) - eða jafnvel fyrr.
Svo líður sunnudagurinn í frosti og trúlega megnið af mánudeginum líka. En þá kemur næsti bloti - að því með býsna snörpum vindi. Lægðin sem veldur verður, að sögn reiknimiðstöðva, óvenju djúp. Við lítum á spákort evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir kl. 6 að morgni mánudags.
Hæðarhryggur sunnudagssíðdegis er enn yfir landinu - en farið er að anda af suðri vestast á landinu. Rétt sunnan við Grænland er lægð í foráttuvexti - reiknimiðstöðin segir að hún dýpki um tæp 60 hPa á 24 tímum - frá sunnudagskvöldi kl. 18 til sama tíma á mánudagskvöld. Á meðan hreyfist hún frá Nýfundnalandi inn á sunnanvert Grænlandshaf. Á þeim tíma sem kortið sýnir er hún um það bil hálfnuð með dýpkunaræðið.
Þessi dýpkun verður vegna samskipta loftstrauma frá Kanada annars vegar (blá ör) og langt sunnan úr höfum (rauð ör) hins vegar. Loftið að sunnan er óvenjurakabólgið og lendir á réttu augnabliki fyrir kuldanum að vestan.
Það hefur verið býsna skemmtilegt að fylgjast með þessu stefnumóti í spám reiknimiðstöðva undanfarna viku. Hlýja og kalda loftið hafa stundum farið á mis og lítið orðið úr - nú eða þá að dýpkunin hefur átt sér stað miklu austar heldur en nú virðist ætla að verða úr. Við segjum auðvitað virðist því enn er þetta mikla kerfi ekki orðið til nema í tölvulíkönum - og þau eru ekki alltaf rétt.
Í spárununni frá hádegi (föstudag 5. desember) setur evrópureiknimiðstöðin lægðina niður í 941 hPa - en runa bandarísku veðurstofunnar frá kl. 18 fer með hana niður fyrir 935 hPa.
Í þessum runum reiknimiðstöðvanna veldur lægðin mjög vondu veðri hér á landi á aðfaranótt þriðjudags (tímasetningar ónákvæmar) - en síðan lendum við í hægum vindi norðan við lægðarmiðjuna - sem dólar austur fyrir sunnan land og grynnist. Um síðir gengur þá í norðanátt - hvort hún verður hvöss er ekki ljóst ennþá (ekki heldur hvort hún kemur).
Nú, japanska veðurstofan reiknar lægðina niður í 932 hPa - sú breska 933 hPa, sú þýska svipað og sú kanadíska 937 hPa.
En reiknimiðstöðvarnar eru sammála um að þessi eina lægð ráði veðri hér á landi vinnuvikuna á enda - og að hún fari til austurs fyrir sunnan land.
Hlýja loftið að sunnan bleytir í um land allt - en þegar lægir aftur og léttir til verður trúlega fljótt að kólna. En eiginlegt heimskautaloft að norðan er ekki á dagskrá fyrr en hugsanlega um næstu helgi - jafnvel verður að bíða enn lengur.
5.12.2014 | 01:37
Baráttan við klakann
Ætli baráttan við vetrarklakann sé ekki að hefjast einmitt núna. Snjór á jörð - hefur fengið að þjappast aðeins í frosti - og svo hláka með slyddu og rigningu - sem stendur svo stutt að ekki dugir.
Það er ekki mikil huggun í því að snjórinn er ekki orðinn gamall. Svo kemur annar bloti eftir helgina - vonandi meiri ef hann kemur á annað borð.
En kortið hér að neðan sýnir þykktarspá evrópureiknimiðstöðvarinnar kl. 18 síðdegis föstudaginn 5. desember.
Heildregnu línurnar sýna þykktina. Hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Litirnir sýna hins vegar hita í 850 hPa fletinum - í um 1300 metra hæð yfir sjávarmáli. Það er 5300 metra jafnþykktarlínan sem sleikir Reykjanes. Þessi þykkt dugar í hláku þegar vindur fylgir.
Myndin sýnir vel hversu mjóslegið hlýja loftið er - fleygur sem teygir sig að sunnan norður í kuldann - þessi fleygur er á hraðri austurleið og sólarhring síðar, um kl. 18 á laugardag verður þykktin komin niður í 5180 metra - 120 metrum neðar en á þessu korti. Það eru um 6 stig - og trúlega frost um allt land nema e.t.v. á útnesjum og eyjum.
4.12.2014 | 02:48
Meðaltalamoli - fyrir nördin
Ritstjóri hungurdiska fylgist daglega (jæja - nærri því daglega) með stöðu meðalhita á landinu í það og það sinnið. Þegar hann horfði á tölurnar fyrir fyrstu þrjá daga desembermánaðar sá hann - sér til nokkurrar furðu að meðalhiti áranna 1961 til 1990 reynist vera hærra heldur en meðaltal síðustu tíu ára þessa daga. Svona lítur það út:
Meðalhiti 1. til 3. des og vik | vik | ||||||
stöð | ár | mán | dagafj | mhiti | 1961-1990 | ||
1 | 2014 | 12 | 3 | 1,37 | 0,10 | Reykjavík | |
178 | 2014 | 12 | 3 | 1,42 | 0,71 | Stykkishólmur | |
422 | 2014 | 12 | 3 | 2,31 | 2,21 | Akureyri | |
620 | 2014 | 12 | 3 | 4,48 | 2,63 | Dalatangi | |
vik | |||||||
stöð | ár | mán | dagafj | mhiti | 2004-2013 | ||
1 | 2014 | 12 | 3 | 1,37 | 1,88 | Reykjavík | |
178 | 2014 | 12 | 3 | 1,42 | 1,87 | Stykkishólmur | |
422 | 2014 | 12 | 3 | 2,31 | 3,74 | Akureyri | |
620 | 2014 | 12 | 3 | 4,48 | 3,15 | Dalatangi |
Af hitavikin eru öll jákvæð - dagarnir þrír eru fyrir ofan meðalag beggja tímabila - en í samanburðinum er óvenjulegt að sjá stærri jákvæð vik séu miðað við síðustu tíu árin heldur en kalda tímabilið 1961 til 1990.
En þannig er það. Ritstjóranum þótti rétt í framhaldi af þessu að kanna hversu margir dagar ársins það eru sem voru að meðaltali hlýrri á kalda tímabilinu heldur en því hlýja. Svarið var auðfundið (kannski ekki alveg auðfundið - því ritstjórinn fékk óvenjuskætt kast af svonefndri sql-blindu við gerð fyrirspurnarinnar í gagnagrunninn - en ekki meir um það).
Þetta eru 58 dagar ársins sem státa af hærri hita 1961 til 1990 heldur en á árunum 2004 til 2013. - Þar af er 30. nóvember og fyrstu sjö dagar desembermánaðar. Þeim heiðri deila tveir dagar í janúar, 9 dagar í febrúar, 2 í mars, 3 í apríl, 11 dagar í maí, enginn í júní og júlí, 3 í ágúst, 2 í september, 15 í október, 2 í nóvember og 9 í desember - alls 58 eins og áður sagði. - Lista yfir dagana má finna í viðhenginu.
3.12.2014 | 01:37
Efnismeiri éljabakkar
Rigningin stóð stutt við að þessu sinni (þriðjudag 2. desember) og aftur er farið að ganga á með éljum. Rigning og hláka á aftur að heimsækja okkur á föstudag eða aðfaranótt laugardags. Þarna á milli er rúm fyrir myndarlega éljabakka.
Á morgun (miðvikudag) fer þó mikil háloftaröst með hæðarbeygju yfir landið og rétt meðan hún er að því bælast élin eitthvað. Síðan tekur við óskastaða éljabakkanna og sést hún vel á myndinni hér að neðan.
Þetta er spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um hæð, vind og hita í 500 hPa-fletinum kl. 6 á fimmtudagsmorgni (4. desember). Útlínur landsins sjást dauft í gegnum blámann á miðri mynd. Grænlandsströnd er til vinstri og Skotland í neðra horni hægra megin.
Jafnhæðarlínur eru heildregnar, vindur er sýndur með hefðbundnum vindörvum - og hiti með litum (kvarðinn batnar sé myndin stækkuð). Vindröstin mikla er hér komin austur fyrir land en vestan vi hana er fallegur kuldapollur með hægari vindi. Dökkblái liturinn sýnir svæði þar sem hitinn er undir -42 stigum í 500 hPa. Þar á meðal í litlum bletti við rétt suðvestan við land.
Munur á yfirborðshita sjávar og hitans í 500 hPa er þar um 50 stig - veðrahvolfið ólgar allt og veltur - aðeins spurning um skipulag veltunnar. Nái hún að rekast í garða geta þeir orðið býsna efnismiklir. Yfir landi dregur þó mjög úr veltunni.
Hér skal ekki giskað á hversu mikið snjóar suðvestanlands - .
2.12.2014 | 00:15
Vetrarmegin garðs
Eftir einn hlýjasta nóvember frá upphafi mælinga blasir desember nú við. Hitafar hans er dálítið meira spennandi en venjulega vegna þess að árið 2014 á raunhæfa möguleika á að verða það hlýjasta frá upphafi mælinga á allmörgum veðurstöðvum hérlendis. Það er þó langt í frá útséð með hvernig fer.
Í dag er 1. desember og spár fyrir næstu viku til tíu daga eru ekki sérlega hlýindalegar - en satt best að segja á ýmsa vegu. Engin spánna gerir ráð fyrir eindregnum hlýindum, sumar sýna umhleypinga með hita sitt hvoru megin frostmarks næstu tíu daga - og í stöku spá hefur borið á kulda.
Kortið hér að neðan sýnir tillögu evrópureiknimiðstöðvarinnar að meðalsjávarmálsþrýstingi og hita í 850 hPa næstu tíu daga.
Heildregnu gráu línurnar sýna meðalsjávarmálsþrýsting - vestanáttir fyrir sunnan land en norðaustlægar meðfram Grænlandi - ekkert sérlega óvenjulegt í desember - en vestanáttin samt ágengari heldur en að meðaltali. Gráar strikalínur sýna meðalhita í 850 hPa-fletinum (í um 1300 metra hæð).
Sé rýnt í myndina (hún batnar við stækkun) má sjá að það er -8 stiga jafnhitalínan sem liggur um landið þvert. Það þýðir að niður við sjávarmál verður hiti að meðaltali undir frostmarki - það gæti snjóað töluvert.
Litafletirnir sýna vik 850 hPa hitans frá meðallagi áranna 1981 til 2010. Vikið er nærri núlli norðaustanlands, en um það bil -2 stig suðvestanlands. Ef allur desembermánuður yrði svipaður þessu myndi ársmeðalhitinn enda í 5,9 stigum í Reykjavík en 5,4 stigum á Akureyri, það væri 2. til 5. hlýjasta sæti í Reykjavík, en næst hlýjasta á Akureyri (sýnist í fljótu bragði).
En þetta meðalkort felur margt - margar lægðir og mjög misjafnan hita. Heimskautaröstin hnyklast hjá í hraðfara bylgjugangi og með bylgjunum koma lægðirnar hver á fætur annarri.
Kortið að neðan sýnir spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um hæð 300 hPa-flatarins og vind í honum um hádegi á miðvikudag 3. desember.
Hér er gríðarlegur vindur í 9 km hæð yfir landinu. Hann er nú að mestu jafnaður út af köldu lofti í neðri hluta veðrahvolfs - til allar hamingju. Næsta bylgja sést í vestri - hún á að fara hjá á föstudag og laugardag - með rigningu og skaki. Síðan á lægð að fara til austurs fyrir sunnan land strax eftir næstu helgi - en það er nokkuð langt seilst í óróatíð eins og nú virðist framundan.
1.12.2014 | 00:42
Illviðri kvöldsins
Það er fullsnemmt að fara að velta sér upp úr illviðrasamanburði - veðrinu er ekki lokið þegar þetta er skrifað (um miðnætti að kvöldi 30. nóvember). Lítum samt á einn metingsþáttanna. Það er þrýstimunur milli Reykjavíkur og Stykkishólms. Hann mælir þrýstivind af vestri ágætlega. Suðvestanáttina síður - þar notum við frekar Gufuskála og Reykjavík.
Myndin sýnir klippu úr greiningarkorti Veðurstofunnar kl. 21 (30. nóvember 2014).
Jafnþrýstilínur eru heildregnar. Við notum hér gamla hjálparreglu veðurfræðinga til að áætla þrýstivindinn. Við teljum fjölda þrýstilína í einni breiddargráðu og fáum út vindhraða í tugum hnúta. Þrýstingur i Reykjavík er 973,7 hPa og 963,9 í Stykkishólmi, munurinn er 9,8 hPa. Munur á milli Keflavíkurflugvallar og Stykkishólms er 11,7 hPa.
Rauða línan á kortinu sýnir lengd eins breiddarstigs og við talningu kemur í ljós að hún spannar 11 þrýstilínur. Það þýðir að þrýstivindurinn er 110 hnútar eða um 55 m/s. Þá tölu notar maður til að áætla mestu vindhviður. Síðan margfaldar maður 55 m/s með 0,7 (70%) til að fá hámarksvind yfir sjó. Útkoman er um 38 m/s. Það er kannski vel í lagt í þessu tilviki því ekki hefur verið reiknað með sveigju þrýstisviðsins. Mesti vindur yfir landi er gjarnan talinn 50% af reiknuðum þrýstivindi. Í þessu tilviki væri hann þá um 28 m/s.
Þetta eru ekkert fráleitar tölur. Vindhraði á Keflavíkurflugvelli fór upp í 29,6 m/s (10-mínútna meðaltal) og mesta hviða í 38 m/s. Á Garðskagavita fór vindur mest í 29,2 m/s og mesta hviða í 39,7 m/s. Enn meiri vindur mældist á Stórhöfða í Vestmannaeyjum og vindur hefur þegar þetta er skrifað mælst yfir 30 m/s á slatta af fjalla- og heiðastöðvum. - Meir um það síðar.
En hversu óvenjulegt er þetta? Vestanáttarveður af þessu tagi hafa ekki verið mjög áberandi síðustu árin. Undantekning eru þó veður sem gerði í apríl 2011 og ollu drjúgmiklu tjóni. Hungurdiskar fjölluðu sérstaklega um eitt þeirra í pistli 10. apríl 2011. Þar kemur fram að áætlaður þrýstivindur var 60 m/s (aðeins meiri en nú). Vindur var þá af suðvestri eða jafnvel suðri og þrýstimunur Stykkishólms og Reykjavíkur minni en nú (var hins vegar 14,2 hPa á milli Reykjavíkur og Gufuskála - en það er lengra).
Veðrið nú er að mörgu leyti sambærilegt við 10. apríl 2011.
Auðvelt er að búa til lista yfir mesta þrýstimun Stykkishólms og Reykjavíkur allt aftur til 1949 (að vísu vantar samanburð að næturlagi hluta tímabilsins). Listinn yfir mesta þrýstimuninn er svona:
röð | ár | mán | dagur | klst | Sth Rvk | mism (hPa) | |
1 | 1991 | 2 | 3 | 15 | 958,5 | 976,8 | 18,3 |
2 | 1981 | 2 | 16 | 24 | 950,4 | 965,8 | 15,4 |
3 | 1954 | 2 | 16 | 15 | 957,5 | 972,3 | 14,8 |
4 | 1976 | 3 | 3 | 24 | 966,4 | 981,1 | 14,7 |
5 | 1953 | 11 | 16 | 12 | 949,3 | 963 | 13,7 |
6 | 1971 | 3 | 1 | 3 | 977,6 | 990,9 | 13,3 |
7 | 1953 | 1 | 11 | 3 | 972,5 | 985,4 | 12,9 |
8 | 1979 | 11 | 20 | 21 | 975,6 | 988,3 | 12,7 |
8 | 1990 | 3 | 1 | 9 | 1000,5 | 1013,2 | 12,7 |
Veðurnörd kannast vel við fyrstu 2 sætin, ekkert veður hefur valdið meira foktjóni hér á landi heldur en febrúarveðrið 1991. Veðrið 1981 er kennt við Engihjalla í Kópavogi, vindhraði (10-mín meðaltal) hefur aldrei mælst meiri í Reykjavík en þá. Gríðarlegt tjón var í því veðri. Hin veðrin eru ekki jafnþekkt - helst að einhverjir muni nóvemberveðrið 1953 sem kennt er við bátinn Eddu sem fórst þá á Grundarfirði.
Í viðhengi geta nördin lesið lista yfir mesta þrýstimun (vestanátt) Reykjavíkur og Stykkishólms hvers árs 1949 til 2014. Þar kemur fram að munur kvöldsins í kvöld er sá mesti síðan 24. apríl 2011 (annað veður en það sem vísað var í í sama mánuði 2011).
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.12.): 94
- Sl. sólarhring: 238
- Sl. viku: 1059
- Frá upphafi: 2420943
Annað
- Innlit í dag: 86
- Innlit sl. viku: 935
- Gestir í dag: 85
- IP-tölur í dag: 84
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010