Vetrarmegin garðs

Eftir einn hlýjasta nóvember frá upphafi mælinga blasir desember nú við. Hitafar hans er dálítið meira spennandi en venjulega vegna þess að árið 2014 á raunhæfa möguleika á að verða það hlýjasta frá upphafi mælinga á allmörgum veðurstöðvum hérlendis. Það er þó langt í frá útséð með hvernig fer.

Í dag er 1. desember og spár fyrir næstu viku til tíu daga eru ekki sérlega hlýindalegar - en satt best að segja á ýmsa vegu. Engin spánna gerir ráð fyrir eindregnum hlýindum, sumar sýna umhleypinga með hita sitt hvoru megin frostmarks næstu tíu daga - og í stöku spá hefur borið á kulda. 

Kortið hér að neðan sýnir tillögu evrópureiknimiðstöðvarinnar að meðalsjávarmálsþrýstingi og hita í 850 hPa næstu tíu daga. 

w-blogg021214a

Heildregnu gráu línurnar sýna meðalsjávarmálsþrýsting - vestanáttir fyrir sunnan land en norðaustlægar meðfram Grænlandi - ekkert sérlega óvenjulegt í desember - en vestanáttin samt ágengari heldur en að meðaltali. Gráar strikalínur sýna meðalhita í 850 hPa-fletinum (í um 1300 metra hæð).

Sé rýnt í myndina (hún batnar við stækkun) má sjá að það er -8 stiga jafnhitalínan sem liggur um landið þvert. Það þýðir að niður við sjávarmál verður hiti að meðaltali undir frostmarki - það gæti snjóað töluvert.

Litafletirnir sýna vik 850 hPa hitans frá meðallagi áranna 1981 til 2010. Vikið er nærri núlli norðaustanlands, en um það bil -2 stig suðvestanlands. Ef allur desembermánuður yrði svipaður þessu myndi ársmeðalhitinn enda í 5,9 stigum í Reykjavík en 5,4 stigum á Akureyri, það væri 2. til 5. hlýjasta sæti í Reykjavík, en næst hlýjasta á Akureyri (sýnist í fljótu bragði).

En þetta meðalkort felur margt - margar lægðir og mjög misjafnan hita. Heimskautaröstin hnyklast hjá í hraðfara bylgjugangi og með bylgjunum koma lægðirnar hver á fætur annarri. 

Kortið að neðan sýnir spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um hæð 300 hPa-flatarins og vind í honum um hádegi á miðvikudag 3. desember.

w-blogg021214b

Hér er gríðarlegur vindur í 9 km hæð yfir landinu. Hann er nú að mestu jafnaður út af köldu lofti í neðri hluta veðrahvolfs - til allar hamingju. Næsta bylgja sést í vestri - hún á að fara hjá á föstudag og laugardag - með rigningu og skaki. Síðan á lægð að fara til austurs fyrir sunnan land strax eftir næstu helgi - en það er nokkuð langt seilst í óróatíð eins og nú virðist framundan. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Torfi Kristján Stefánsson

Ein af þessum stöku spám, yr.no, spáir að meðaltali eins stigs frosti hér í Reykjavík á næstu tíu dögum eða svo.

Frostið verður mun meira annars staðar og víða hörkufrost er kemur fram í næstu viku. 

Hætt er við að hitametið falli ekki þetta árið!

Torfi Kristján Stefánsson, 2.12.2014 kl. 08:12

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Spá yr.no er tekin beint úr likani evrópureiknimiðstöðvarinnar.

Trausti Jónsson, 2.12.2014 kl. 11:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 6
  • Sl. sólarhring: 206
  • Sl. viku: 1322
  • Frá upphafi: 2349791

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 1208
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband