Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2014

Endurtekningar

Veðrið er sífellt að leika sama stefið aftur og aftur þennan mánuð - og reyndar er það ekki svo ólíkt stefinu sem gekk í janúar í fyrra. Hlýtt - en þó ekki svo hlýtt og köldu bregður lítt fyrir. Allar lægðir enda einhvern veginn í sömu gröf vestur af Bretlandseyjum eftir að hafa étið yfir sig af sælgæti og feitmeti. Kuldinn að norðan lætur ekki sjá sig.

w-blogg310114a 

Kortið sýnir spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um sjávarmálsþrýsting, úrkomu og hita í 850 hPa kl. 18 á morgun, föstudag. Lægðin er um 937 hPa í miðju - ætli reiknimiðstöðin ýki ekki lítillega? Fárviðri er sunnan og vestan lægðarmiðjunnar - en mun vægari austanstrengur að ná til Íslands. Kunnuglegt - ekki satt? Sé að marka spár á lægðin að fara í hring og grynnast mikið en á síðan að þokast til norðurs - og þar með verður vindátt norðaustlægari meðan staðan jafnar sig.

En harla lítið er af köldu lofti fyrir norðan land - þannig að það verður áfram furðuhlýtt miðað við vindátt og árstíma. Jú, það eru fáeinar þrýstilínur á milli Grænlands, Íslands, Svalbarða og Noregs - en ekki margar - og þetta svæði er einkennilega hreint af jafnhitalínum. Við skulum til gamans stækka hluta kortsins þannig að þetta sjáist betur.

w-blogg310114b

Hin hlýja -5 stiga lína er rétt norðaustan við land - góð hláka er á láglendi sunnan við hana nema þar sem kalt loft getur legið í logni og björtu veðri. Síðan sér ekki til nokkurrar jafnhitalínu allt til Svalbarða. Þó er -10 stiga línan undan Norðlandsfylki í Noregi þar sem kalt loft úr austri virðist sleppa yfir hálendishrygginn á landamærunum við Svíþjóð.

Á þessum árstíma búumst við við að sjá fleiri jafnhitalínur, -10 og -15 ættu báðar að vera þarna og mjög oft -20 líka - jafnvel -25 nyrst á kortinu. En nú er ekkert.

Það verða þrengingar á milli -5 og -10 línanna sem valda næsta norðankasti á Grænlandssundi, sú síðarnefnda verður fljót inn á svæðið. En lengri tíma tekur að ná í -15 sem nær reyndar núna suður á Kaspíahaf (undirbýr olympíuleikana) og langt suður á Japanseyjar.

Ekki tókst Stórhöfða að verða algjörlega frostlaus í janúarmánuði að þessu sinni því lágmarkshitinn kl. 18 var -0,2 stig. Frostið stóð þá aðeins í nokkrar mínútur. Nú, um kl. 23, er hiti aftur fallinn niður fyrir frostmark. Frostlausa syrpan varð samtals 33 dagar, jafnlöng og lengsta miðvetrarfrostleysan sem áður er um vitað á sama stað (um þetta var fjallað í pistli sem varð að hverfa vegna lesendadeilna um páfadóm í loftslagsvísindum). En met hæsta lágmarks nokkurs janúarmánaðar á Stórhöfða stendur enn.

Vattarnes er enn, þegar þetta er skrifað, með hreint borð í mánuðinum og Hvalnes reyndar líka. Þar er lágmark ekki skráð á sama hátt og á Stórhöfða og í Vattarnesi þannig að við getum ekki alveg borið stöðvarnar saman þar sem lægsta talan á Hvalnesi er aðeins 0,1 stigi frá frostmarkinu. Seley stendur enn í 0,0 stigum.


Skörp skil koma inn á Suðvesturland

Skörp skil koma inn á Suðvesturland síðdegis á fimmtudag (30. janúar). Að baki skilanna snjóar nokkuð. Þegar þau koma inn á land verða þau enn í nokkurn veginn heilu lagi - en útsynningur sem ætti kannski að fylgja í kjölfarið um aðfaranótt föstudags virðist ekki ætla að komast til landsins vegna ört dýpkandi lægðar suður í hafi. Hún fer að snúa lofti yfir mestöllu Norður-Atlantshafi í kringum sig - og dregur upp austanátt hér á landi.

w-blogg300114a 

Kortið (evrópureiknimiðstöðin) sýnir hita og vind í 925 hPa-fletinum auk hæðar hans (í dekametrum). Þessi flötur verður í um 540 metra hæð yfir Reykjanesi þegar kortið gildir - en það er klukkan 15 á fimmtudag (30. janúar).

Hefðbundnar vindörvar sýna vindátt og vindhraða en litafletir hita. Mörk grænu og bláu litanna er við -4 stig. Kortið þolir töluverða stækkun ef smellt er á það tvisvar. 

Á undan skilunum er suðaustanátt og frostleysa á láglendi - en norðvestanátt á eftir þeim og hiti þá nærri frostmarki á láglendi. Norðvestanátt hefur tilhneigingu til þess að leggjast fljótt í vestur við Faxaflóa.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem þessi staða kemur upp nú í janúar. Mikil blinda var á vegum úti vegna þess að klessusnjór settist á vegstikur og veglínur - þótt skafrenningur væri nánast enginn á láglendi. Frost er á heiðum og þar getur skafið.

Þetta er spennandi staða fyrir okkur sem fylgjast með lágmarkshitanum á Stórhöfða og á Vattarnesi - en enn er hugsanlegt að allur mánuðurinn líði á þess að hiti fari niður fyrir frostmark á þessum stöðvum. Stórhöfði verður í hættu í snjókomunni - hiti gæti þar hæglega farið rétt undir frostmarkið. Annar tími frosthættu rennur upp aðfaranótt föstudags - þegar birtir upp að aflokinni snjókomunni.

Ritstjórinn reyndist þurfa að loka pistli gærdagsins og eru almennir lesendur beðnir velvirðingar. Ástæðan var sú sama og áður - deilur þær um páfadóm sem ekki eiga heima á síðum hungurdiska.


Enn ein stórlægðin (viðheldur svipuðu ástandi)

Svo virðist sem enn ein stórlægðin muni dýpka fyrir sunnan land á fimmtudag og föstudag - dóla síðan austur til Bretlandseyja og valda því að austan- og norðaustanáttin milda sem ríkt hefur að undanförnu heldur sínu striki. Að vísu koma kuldaskil úr vestri inn á landið á fimmtudag með einhverri snjókomu. Það ástand stendur þó varla nema í hálfan sólarhring eða svo.

w-blogg290114a 

Kortið sýnir spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um sjávarmálsþrýsting, úrkomu og hita í 850 hPa-fletinum um hádegi á fimmtudag (30. janúar). Þá lifir vestansóknin enn í formi mjórra kuldaskila. Á undan þeim er suðaustanstrekkingur með slyddu eða rigningu en snýst síðan snögglega yfir í vestur með slyddu eða snjó. Þetta er skarpt lægðardrag - það sjáum við á legu þrýstilína í því.

Svo er lægðin mikla lengra suðvestur í hafi og dýpkar rosalega - eins og margar þær fyrri í vetur. Evrópureikimiðstöðin nefnir töluna 937 hPa í miðju um hádegi á föstudag, e.t.v. aðeins vel í lagt - en það kemur í ljós.

Á kortinu að neðan sjáum við þriggja tíma þrýstibreytingu, frá því kl. 9 til kl.12 á fimmtudaginn.

w-blogg290114b

Á undan lægðarmiðjunni suðvestur í hafi fellur þrýstingur mjög - svo mikið að rauða litnum brestur afl og skiptir yfir í hvítt á litlu svæði. Þar hefur þrýstingurinn fallið um 17,5 hPa á þremur tímum. Við sjáum að loftvog fellur á undan lægðardraginu við Suðvesturland en rís handan þess - eins og vera ber. En hryggurinn litli sem viðheldur vestanáttinni gufar upp þegar hann fær á sig svona mikið þrýstifall. Þar með er vestanáttin búin. En segja má að hún dugi þó í það að halda austanátt lægðarinnar miklu í skefjum hér á landi. En það hvessir þó sums staðar á föstudag og laugardag.

Yfir í annað: Hlákan langa lifir en á Stórhöfða í Vestmannaeyjum og á Vattarnesi (og reyndar líka á vegagerðarstöðinni við Hvalnesskriður, þar er lægsti hiti mánaðarins 0,1 stig). Síðast fraus á Stórhöfða 27. desember, þannig að lengd frostleysunnar er því hér með orðin 32 dagar.

Ritstjórinn er forvitinn maður og fletti þess vegna upp á vetrarhlákum á Stórhöfða allt aftur til 1949. Við lesturinn kom í ljós að einu sinni hefur komið 33 daga hláka á Stórhöfða um miðjan vetur og ef morgundagurinn (miðvikudagur 29. janúar) heldur jafnast sú lengd þar með. Bætist fimmtudagurinn við er um nýtt met að ræða. Sú 33 daga hláka sem hér um ræðir stóð frá og með 12. desember 1997 til og með 13. janúar 1998.

Engin svona löng vetrarhláka endar í febrúar á þessu 65 ára tímabili, en hins vegar tvær í mars. Um þetta mætti fjalla meira þegar endanlega verður séð hversu lengi núverandi hláka stendur.

Og yfir í enn annað: Spurt var um stormspár - hvenær kom síðasti stormspárlausi dagurinn á Veðurstofunni (land OG mið)? Ritstjórinn er ekki alveg nógu kunnugur villum í textaspárgrunni Veðurstofunnar til að vera öruggur um svarið - en sýnist samt að það muni hafa verið 24. nóvember. Á þessu mætti líka smjatta meira síðar.

Og - enn annað: Frést hefur frá Alaska að hitabylgjan þar hafi slegið mikinn fjölda meta - þar á meðal ýmis háloftahitamet yfir Barrow-höfða nyrst í fylkinu og Fairbanks í því miðju. Hiti í 850 hPa fór í 7,0 stig (C), nærri þremur stigum hærra en fyrra met janúarmánaðar yfir Barrow. Reyndar hefur hiti þar aldrei mælst hærri en 5 stig í 850 hPa í janúar til mars. Yfir Fairbanks fór þykktin í 5545 metra og hefur aldrei orðið jafnhá eða hærri í neinum mánuði á tímabilinu nóvember til mars, en mælingar ná meira en 60 ár aftur í tímann. Upplýsingar eru fengnar af  ágætri bloggsíðu heimamanna.

Ritstjórinn er að vinna að endurgerð metaskrár háloftastöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli - verður hún vonandi tilbúin fyrir næsta hrun í makrílstofninum.


Þriðja (misheppnaða?) kuldaásóknin úr vestri (í þessum mánuði)

Eins og fram kom á þessum vettvangi í fyrradag er lítið um kalt loft í námunda við landið - aðallega heimatilbúið. En á fimmtudaginn koma kuldaskil úr vestri - og virðast ætla að fara svipað að og þau tvenn síðustu - að slefast í vestanátt með snjókomu en síðan tekur austanáttin furðuhlýja við aftur.

Við skulum líta á óvenjulegt kort - það sýnir sjávarmálsþrýsting eins og evrópureiknimiðstöðin spáir honum um hádegi á miðvikudag. En á kortinu má líka sjá vind í 700 hPa-fletinum (við þykjumst varla sjá hann), þykktina (svartar strikalínur) og þykktarbreytingu næstliðnar sex klukkustundir á undan gildistíma spárinnar.

w-blogg280114a 

Bláa flykkið er þykktarbreyting - inni í kjarnanum (fjórða bláa lit) hefur þykktin fallið um 120 metra. Þar hefur kólnað um 6 stig á 6 tímum. Heildarkólnun er meiri því það tekur blámann meir en 6 klukkustundir að fara alveg yfir. Þarna eru býsna öflug kuldaskil á leið til austurs og norðausturs.

Þau eru líka á leið til suðausturs og til að komast til Íslands verður eitthvað af þeim að geta hreyfst til norðausturs. Gliðnunin (breikkun víglínunnar) þýðir að það linast á framsókninni og skilin rétt komast til Íslands áður en þau eyðast. Spáin nú segir að þau komi inn á Suðvesturland síðdegis á fimmtudag - en aðeins 12 stundum síðar verði næsta austanáttarlægð mætt á svæðið.

Nú (á mánudagskvöldi) lifa fjórir dagar af janúar og enn lifir líka vonin um fyrsta frostlausa janúarmánuðinn hér á landi. Sömu stöðvar og fyrr eru með í keppninni, Stórhöfði, Vattarnes og Seley (en þar er stendur núll komma núll enn sem lægsti hitinn). Vestmannaeyjabær er þegar dottinn út úr keppni bæði vegna kulda (-0,5 stig) og á tæknivillu (fáeinar lágmarksathuganir vantar). Þetta verður ansi tæpt.  

Mánaðarmeðalhitinn er enn í 8. sæti allra hlýjustu og á Akureyri í 10. sæti. Á topp tíu janúarlista Reykjavíkur eru nú þrjú árapör, 1946 og 1947, 1972 og 1973 og 2013 og 2014. Hvernig skyldi standa á því? (- Því er þannig varið að ritstjórinn veit ekki svarið).


Hvar er kalda loftið?

Hiti er enn langt yfir meðaltali hér á landi - sama hvaða meðaltal það nú er sem við miðum við. Hitinn í Reykjavik og á Akureyri er enn inni á topp tíu hlýrra janúarmánaða - en hrapar sennilega nokkuð þessa sex daga sem eftir eru af mánuðinum.

Í heiðskíru veðri og hægum vindi þarf ekkert að flytja inn kulda - hann býr sig til sjálfur. Heimatilbúni kuldinn er þó fljótur að víkja hreyfi vind - hann er grunnur og blandast fljótt innfluttu lofti ofar. Það innflutta loft sem einmitt nú er á markaðnum er ekki sérlega kalt og hlýrra en að meðaltali. Hlýja svæðið er mjög umfangsmikið - marga daga tekur að beina kaldara lofti til okkar.

Við lítum sem oftar á 500 hPa hæðar- og þykktarkort sem nær yfir norðurslóðir og sýnir vel hvar kuldinn heldur sig. Kortið er úr smiðju evrópureiknimiðstöðvarinnar og gildir um hádegi mánudaginn 27. janúar. Þetta er langur texti sem flestum finnst sjálfsagt leiðinlegur - en leggjum á djúpið.

w-blogg260114a 

Norðurskautið er rétt ofan við miðja mynd og Ísland er þar fyrir neðan. Jafnhæðarlínur eru heildregnar, þar sem þær eru þéttar er vindur stríður. Litir sýna þykktina - hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því minni sem hún er því lægri er hitinn. Mörkin á milli grænu og bláu litanna er sett við 5280 metra.

Á kortinu eru bláu litirnir sex, litaskil eru við 5220m, 5160m, 5100m, 5040m og 4980m. Fjólubláu litirnir byrja við 4920metra. Á þeim kvarða sem hér er notaður geta þeir mest orðið fjórir. Ef vel er að gáð má sjá að þeir eru hér þrír í báðum kuldapollunum stóru (sé kortið stækkað ætti liturinn sem sýnir þykkt sem er minni en 4800 metra að sjást á smábletti rétt norðan við Efravatn á landamærum Bandaríkjanna og Kanada).

Fjólublái liturinn leggst nærri því aldrei yfir Ísland - nærri því aldrei. Hann kemst þó stöku sinnum í námunda við það, síðast í kuldakastinu mikla í fyrstu viku desembermánaðar síðastliðins þegar frostið fór í -31,0 stig við Mývatn.

Ef 20 metrar eru í hverri gráðu ætti þykktin 5160 að gefa okkur um 4 stig undir meðallagi. Það er kalt en hann fer að bíta þegar þykktin fer undir 5100 metra - 6 stig undir meðallagi. Takið þumalfingurregluna um samband hita (við sjávarmál) og þykktar þó ekki of bókstaflega - þetta er gagnleg regla en ekki löggiltur kvarði.

Lítum nú aftur á kortið. Þar er langt frá Íslandi í fjórða bláa litinn (neðan 5100m). Á breiðu svæði frá Íslandi og norður til norðurskauts eru jafnhæðarlínur gisnar og óreglulegar, vindátt er breytileg og frekar hæg og lítill skriður á lofti. Fádæma hlýindi eru yfir Alaska - en þar eru jafnhæðarlínur þéttari og þó nokkur hreyfing á hlutunum.

Horfum nú á kuldapollana. Hér á hungurdiskum höfum við til hægðarauka kallað þann ameríska Stóra-Bola. Við skulum gera það áfram. Ástæða þess að þessi nafngift hefur orðið fyrir valinu er fyrst og fremst sú að enn skortir hæfilega íslenska þýðingu á því sem á ensku nefnist oftast "polar vortex". Alla vega er ritstjórinn ekki ánægður með neina uppástungu. Það stafar aftur af því að á bakvið enska heitið dyljast þrjú mismunandi fyrirbrigði sem aftur veldur sífelldum ruglingi í fréttum af ameríska kuldakastinu sem nú gengur yfir - menn æsa sig jafvel yfir hugtakaruglingnum. Svo við skulum bara halda áfram að kalla þetta Stóra-Bola þar til þrjú íslensk nöfn finnast um þrenninguna. Þau munu falla af himnum ofan einhvern daginn.

En Stóri-Boli er ekki á sínum stað. Hann er nú mun sunnar en venjulegt er og ef vel er að gáð sést að hann er enn að bylta sér, jafnhæðar- og jafnþykktarlínur ganga mjög á misvíxl. Takið t.d. eftir því að í vesturjaðri hans skera margar jafnhæðarlínur þykktarlágmarkið - rétt eins og það sé ekki þarna.

Þetta er mjög ólíkt því sem er í kringum hinn risastóra Síberíu-Blesa. Þar fylgir kaldasta loftið lægðarmiðjunum - jú, þær hreyfast en aflaga ekki þrýstisviðið á stórum landsvæðum eins og Boli gerir vestra. Það getur þó breyst á svipstundu sparki hlýtt loft í belginn.

Eigi að kólna verulega hér á landi þarf annað hvort að koma kuldi úr vestri ættaður í byltum Stóra-Bola eða úr norðri úr stuttum bylgjum á norðurjaðri Síberíublesa sem um síðir gætu brotið sér leið að Norðaustur-Grænlandi og þar með líka okkur.

Spár gera reyndar ráð fyrir því að hingað berist smáskot úr suðvestri um og upp úr miðri viku. Suðvestanáttin fer stundum niður fyrir 5100 metra þykkt, en er yfirleitt mjög fljót að jafna sig. Grænland stíflar flest úr vestri - en þó kemur fyrir að kalt loft berist úr þeirri átt. Ekki er því spáð að sinni.

Síberíu-Blesi er að senda smábylgjur yfir norðurskautið - en engin þeirra á að ná til Íslands á næstunni - sé að marka tíudagaspár.


Fyrstu tíu stig ársins

Í gær var hér fjallað um óvenju háan hæsta lágmarkshita (æ) það sem af er mánuði. Í dag fór svo hæsta landshámark í fyrsta sinn í 10 stig á þessu ári. Þá mældist hitinn 10,1 stig í Skaftafelli og 10,5 stig við Sandfell í sömu sveit.

Flestir lesendur eru líklegir til að leggja þann skilning í fyrirsögnina að ofan að fyrst verið sé að geta þessa hljóti það að vera merki um óvenjuleg hlýindi. Svo er þó alls ekki - eins og veðurnördin vita.

Hiti hefur nefnilega komist í 10 stig á landinu í öllum janúarmánuðum síðan 1994, þá varð hann hæstur 9,4 stig á Seyðisfirði. Það er ekki nema rétt á stangli sem það kemur fyrir að hiti nái ekki tíu stigum.

Nú má vel vera að núlíðandi mánuður eigi eftir að bæta um betur - en satt best að segja er ekkert sérstakt útlit fyrir það. Austan- og norðaustanáttarhlýindi í janúar eru ekki sérlega gæf á há hámörk - þótt meðalhiti sé mjög hár. Venjulega er sunnan- eða suðvestanátt þá daga sem hiti verður hæstur í janúar, en þær vindáttir hefur meira eða minna vantað síðustu vikurnar. Aðeins einn dag hefur meðalvindátt á landinu verið af vestlægri átt, það var í gær (fimmtudag) - en sá dagur er sá næsthægviðrasamasti það sem af er mánuðinum - sjónamun hægara var á miðvikudaginn, meðalvindhraði þá 3,4 m/s.


Af háum lágmarkshita

Fyrir nokkrum dögum var hér á það minnst að enn hefði ekki frosið á Stórhöfða í Vestmannaeyjum og á Vattarnesi það sem af er mánuðinum. Það ástand stendur enn. Það er á móti líkum að frostleysan endist út mánuðinn.

Samt er eðlilegt að spurt sé um hæsta mánaðarlágmark janúarmánaðar. Á Stórhöfða er talan -1,2 stig og stendur frá árinu 1973 (sem varð reyndar heldur dapurt hvað hita snertir). Líkurnar á því að þetta met haldi eru meiri heldur en líkurnar á frostleysu - og vaxa eftir því sem nær dregur mánaðamótum.

En skyldu einhverjar aðrar stöðvar vera í methugleiðingum? Gerð var skyndikönnun á málinu og litið aftur til 1949 - við látum eldri athuganir bíða þar til nær dregur mánaðamótum (ef eitthvað heldur). Þegar gerður er listi yfir hæstu mánaðalágmörk janúar á núverandi mönnuðum stöðvum kemur í ljós að 12 stöðvar af 21 eru í methugleiðingum - tvær hafa jafnað fyrra met en sjö stöðvar hafa nú þegar sprungið í hlaupinu, þar á meðal Reykjavík. Ekki munar þó nema 0,1 stigi á metinu þar, -4,3, og þeim -4,4 stigum sem mældust þann 11. síðastliðinn.

Hér er listi yfir þær stöðvar sem enn eiga möguleika á meti - aftasti dálkurinn sýnir borð fyrir báru. Það er mest á Skjaldþingsstöðum og í Miðfjarðarnesi. Tölur eru í °C.

stöðlágm2014metármism
Skjaldþingsstaðir-3,5-9,319965,8
Miðfjarðarnes-2,2-7,220135,0
Sauðanesviti-0,7-4,220133,5
Mánárbakki-3,2-6,520013,3
Grímsstaðir-8,0-11,220013,2
Bláfeldur-1,9-4,320132,4
Hólar í Dýrafirði-5,5-7,520092,0
Ásgarður-4,1-6,020131,9
Dalatangi-0,2-2,019501,8
Höfn í Hornafirði-1,8-3,619741,8
Akureyri-6,2-7,819901,6
Keflavíkurflugvöllur-2,7-3,519730,8

Nokkuð kalt verður í nótt (aðfaranótt föstudags 24. janúar) og trúlegt er að einhverjar þessara stöðva heltist strax úr lestinni. En hver veit.

Við megum taka eftir því að janúar í fyrra (2013) á fjögur met í töflunni - og fjögur standa líka á þeim stöðvum sem örugglega ná ekki meti í ár.


Af háþrýstisvæðum norðurhvels (um þessar mundir)

Háþrýstisvæði norðurhvels eru sérmerkt á kortum dagsins. Það fyrra sýnir sjávarmálsþrýsting og hita í 850 hPa á mestöllu hvelinu norðan hitabeltis. Það þarf að rýna dálítið í kortið til að átta sig á því - beðist er velvirðingar - en landaskipan ætti að vera kunnugleg kortavönum. Kortið þolir talsverða stækkun sé smellt á það í tveimur áföngum.

w-blogg230114a 

Bókstafurinn H er settur í miðju hvers háþrýstisvæðis ásamt tölu sem sýnir sjávarmálsþrýsting þar. Lesendum er látið eftir að átta sig á lægðunum (ein sú mesta er skammt suðvestan við Ísland).

Þetta eru sex háþrýstisvæði, þrýstingur er sjónarmun hæstur í því sem þarna er yfir suðvestanverðum Bandaríkjunum - í köldum fleyg sem þar er. Næsthæstur er þrýstingurinn í hæðinni yfir norðurskautinu, þar er reyndar hlýrra heldur en til beggja átta. Hæðin vestur af Spáni er nærri því eins öflug - í miðjum hlýindum. Hæðin yfir Skandinavíu er 1035 hPa í miðju og önnur ámóta er við Síberíustrendur. Engin af þessum hæðum er sérlega merkileg - en við skulum líka líta á 500 hPa-kort á sama tíma. Þar eru hæðarmiðjurnar við sjávarmál einnig merktar.

w-blogg230114b 

Hér sjáum við að hæðirnar eru misvel grundaðar - ef svo má segja. Bandaríkjahæðin á sér ekki förunaut í háloftunum - hún er þess vegna á töluverðri hreyfingu - hlýnar þá að neðan og á að verða orðin svipur hjá sjón strax á laugardag - daginn eftir að þetta kort gildir. Síberíuhæðin er líka án háloftaförunautar og hreyfist hratt austur með háloftavindum.

Norðurskautshæðin á sér hæðarhrygg í háloftunum - þótt hann sé slakur þarf að stugga við honum til að hæðin fari. En spár segja hrygginn á leið í átt að Fransjósefslandi næstu daga - kannski sameinast hæðin þá Skandinavíuhæðinni.

Hæðin við Kyrrahafsströnd Kanada er hér gríðarsterk í háloftunum - en háloftahæðin á samt að gefa eftir undan aðsókn úr vestri í helgarlok og á mánudag - en þá myndast ný köld hæð yfir vestanverðu Kanada - og á að fara yfir 1045 hPa á hraðri leið suður um Bandaríkin - hluti af enn einu stórkuldakastinu vestra.

Spánarhæðin lifir af - hún endurnýjast sífellt úr vestri. Skandinavíuhæðin sem hjálpað hefur upp á veðrið hér að undanförnu á sér enn góðan stuðning í háloftunum - það þarf að hreyfa háloftahæðina til þess að sjávarmálshæðin gefi sig. Spár sem ná vel fram yfir helgi segja hana mjakast til austurs - en evrópureiknimiðstöðin telur að þrýstingur í miðju fari þá yfir 1060 hPa þegar hún kemur austur yfir Rússland - það er nú nokkuð óvíst.

Þótt næstu tvær lægðir verði býsna ágengar við okkur eiga þær samt ekki að ná í kalt loft úr norðri og útlit er því fyrir að hlýjar austan- og norðaustanáttir haldi áfram þrátt fyrir að hæðin hörfi. Hvort spár sem segja kalt loft úr vestri ná til okkar um miðja næstu viku reynast réttar vitum við ekki.

Af úrkomunni er það að frétta að mánuðurinn hefur nú skilað meir en 500 mm á Hánefsstöðum í Seyðisfirði og á eftir að gera enn betur.


Mjór fleygur af (ekki svo) köldu lofti

Eftir austan- og norðaustanáttina sem hefur verið ríkjandi þennan mánuð allan (og að minnsta kosti tíu dögum betur) er nú útlit fyrir að áttin snúist eitt andartak til vesturs og suðvesturs. Síðan á austan- og norðaustanáttin að taka aftur við. En smátilbreyting samt - því kannski snjóar hér suðvestanlands ofan í klakann.

En við lítum á spákort evrópureiknimiðstöðvarinnar sem sýnir sjávarmálsþrýsting, úrkomu og hita í 850 hPa-fletinum síðdegis á morgun, miðvikudag 22. janúar.

w-blogg220114a

Við sjáum strax að hæðin yfir Skandinavíu heldur enn og hindrar hreyfingar lægða til austurs. Þær hafa hins vegar að einhverju leyti fengið farveg suður um Frakkland og valdið flóðum við Miðjarðarhaf.

Mikið lægðardrag og flókið er við Ísland og kemst ekki langt en mjakast til norðurs og norðausturs. Þegar það fer inn á land snýst til vestanáttar sunnan við. Lægðardraginu fylgir drjúg úrkoma - rigning í hlýju lofti norðan við en slydda eða snjókoma sunnan við. Vegna þess hversu hægfara lægðardragið er getur úrkoman orðið allmikil - snjór eða regn. Það er að skilja á spám að það geti snjóað á Suðvesturlandi á miðvikudagskvöld eða aðfaranótt fimmtudags - en við látum Veðurstofuna að vanda fylgjast með því.

Aðaléljagangurinn verður talsvert langt sunnan við land og við komumst varla í heiðarlegan útsynning að þessu sinni. Það fer að verða merkilegt hvað hann forðast okkur. En lægðin í suðvesturhorni kortsins nálgast hratt og rekur smáfleyg af köldu lofti á undan sér. Hann sést best á myndinni hér að neðan.

w-blogg220114c 

Þetta er þykktarkort sem gildir sólarhring síðar en kortið að ofan - síðdegis á fimmtudag, 23. janúar. Jafnþykktarlínur eru heildregnar - en litafletir sýna hita í 850 hPa-fletinum. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Hlýja loftið sem hefur verið yfir landinu undanfarna daga hefur hér hörfað til norðausturs. Þetta er ekkert sérstaklega hlýtt loft - en hefur samt með seiglu verið að mjaka koma mánuðinum ofar og ofar á hitalistum.

Miklu hlýrra loft fylgir næstu lægð - en aðalhlýindin fara samt hjá fyrir suðaustan land og styrkja hæðina góðu. Kaldi fleygurinn er ekki svo sérstaklega kaldur, jafnþykktarlínan sem liggur til austsuðausturs um landið vestan- og sunnanvert sýnir 5200 metra. Þetta minnir satt best að segja frekar á október heldur en janúar. En samt - það snjóar trúlega.

Lægðin nýja fer svo langt með að bræða þennan snjó - og óskastaðan er sú að hún bræði aðeins meira til þannig að klakinn hræðilegi hjaðni.

Síðan kemur enn öflugri lægð á sunnudag - en þrátt fyrir atgang segja spár að hún ráði ekki heldur við fyrirstöðuhæðina. Meðan sú víkur ekki getur varla orðið kalt hér á landi nema stutta stund - og þá aðeins í útgeislunarsveitum.

Enn mun bæta í úrkomuna á Austurlandi. Hún var í morgun (þriðjudag) farin að nálgast 500 mm á Hánefsstöðum í Seyðisfirði, Neskaupstaður er kominn í 300 mm, eins Desjarmýri á Borgarfirði eystra og svipað á Gilsá í Breiðdal. Skjaldþingsstaðir í Vopnafirði eru líka vel yfir 300 mm það sem af er mánuði. Vestanlands er úrkoma langt undir meðallagi - en ekki tekur nema einn eða tvo daga að bæta úr því ef hann snýr sér á áttinni.


Um frostleysu í janúar (og fleiri mánuðum)

Spurt hefur verið um hvort ekki sé óvenjulegt að íslensk veðurstöð sleppi í gegnum janúarmánuð án þess að hiti fari niður fyrir frostmark.

Því er til að svara að það er svo óvenjulegt að það hefur bara ekki komið fyrir hingað til. Sú stöð sem líklegust er til slíkra afreka er Surtsey. - En ekkert hefur frést þaðan um nokkra hríð og dýrt að gera út leiðangur til viðgerða.

Ólíklegt er að breyting verði á nú. Reyndar standa málin svo í dag (mánudaginn 20. janúar) að enn hefur ekki frosið á Stórhöfða - né í Vattarnesi og í Seley er lægsta lágmark mánaðarins til þessa 0,0 stig.

Veðurstöðin í Surtsey náði þeim athyglisverða árangri í fyrra (2013) að komast í gegnum febrúarmánuð án frosts - fyrst íslenskra veðurstöðva. - Enda hefur hún staðsetninguna í forgjöf.

Það hefur gerst tvisvar að veðurstöð hefur sloppið við frost í mars og þá á tveimur stöðvum hvoru sinni. Í mars 1929 mældist lægsti hiti mánaðarins 0,2 stig í Hólum í Hornafirði og 0,4 stig í Vík í Mýrdal. Í mars 1963 var lægsta lágmark á Stórhöfða 0,3 stig og 0,7 stig á Loftsölum í Mýrdal.

Engin stöð hefur sloppið án frosts í desember og það er reyndar furðusjaldan sem stöðvar sleppa alveg við frost í apríl og nóvember. Meira að segja er októberlistinn ekki mjög langur. En e.t.v. mætti segja frá því í smáatriðum síðar - drukkni hungurdiskar ekki áður í innrænu eða útrænu bulli (eða mannviti, kjósi menn það orð frekar).


Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 11
  • Sl. sólarhring: 183
  • Sl. viku: 2458
  • Frá upphafi: 2434568

Annað

  • Innlit í dag: 9
  • Innlit sl. viku: 2183
  • Gestir í dag: 9
  • IP-tölur í dag: 9

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband