Af háþrýstisvæðum norðurhvels (um þessar mundir)

Háþrýstisvæði norðurhvels eru sérmerkt á kortum dagsins. Það fyrra sýnir sjávarmálsþrýsting og hita í 850 hPa á mestöllu hvelinu norðan hitabeltis. Það þarf að rýna dálítið í kortið til að átta sig á því - beðist er velvirðingar - en landaskipan ætti að vera kunnugleg kortavönum. Kortið þolir talsverða stækkun sé smellt á það í tveimur áföngum.

w-blogg230114a 

Bókstafurinn H er settur í miðju hvers háþrýstisvæðis ásamt tölu sem sýnir sjávarmálsþrýsting þar. Lesendum er látið eftir að átta sig á lægðunum (ein sú mesta er skammt suðvestan við Ísland).

Þetta eru sex háþrýstisvæði, þrýstingur er sjónarmun hæstur í því sem þarna er yfir suðvestanverðum Bandaríkjunum - í köldum fleyg sem þar er. Næsthæstur er þrýstingurinn í hæðinni yfir norðurskautinu, þar er reyndar hlýrra heldur en til beggja átta. Hæðin vestur af Spáni er nærri því eins öflug - í miðjum hlýindum. Hæðin yfir Skandinavíu er 1035 hPa í miðju og önnur ámóta er við Síberíustrendur. Engin af þessum hæðum er sérlega merkileg - en við skulum líka líta á 500 hPa-kort á sama tíma. Þar eru hæðarmiðjurnar við sjávarmál einnig merktar.

w-blogg230114b 

Hér sjáum við að hæðirnar eru misvel grundaðar - ef svo má segja. Bandaríkjahæðin á sér ekki förunaut í háloftunum - hún er þess vegna á töluverðri hreyfingu - hlýnar þá að neðan og á að verða orðin svipur hjá sjón strax á laugardag - daginn eftir að þetta kort gildir. Síberíuhæðin er líka án háloftaförunautar og hreyfist hratt austur með háloftavindum.

Norðurskautshæðin á sér hæðarhrygg í háloftunum - þótt hann sé slakur þarf að stugga við honum til að hæðin fari. En spár segja hrygginn á leið í átt að Fransjósefslandi næstu daga - kannski sameinast hæðin þá Skandinavíuhæðinni.

Hæðin við Kyrrahafsströnd Kanada er hér gríðarsterk í háloftunum - en háloftahæðin á samt að gefa eftir undan aðsókn úr vestri í helgarlok og á mánudag - en þá myndast ný köld hæð yfir vestanverðu Kanada - og á að fara yfir 1045 hPa á hraðri leið suður um Bandaríkin - hluti af enn einu stórkuldakastinu vestra.

Spánarhæðin lifir af - hún endurnýjast sífellt úr vestri. Skandinavíuhæðin sem hjálpað hefur upp á veðrið hér að undanförnu á sér enn góðan stuðning í háloftunum - það þarf að hreyfa háloftahæðina til þess að sjávarmálshæðin gefi sig. Spár sem ná vel fram yfir helgi segja hana mjakast til austurs - en evrópureiknimiðstöðin telur að þrýstingur í miðju fari þá yfir 1060 hPa þegar hún kemur austur yfir Rússland - það er nú nokkuð óvíst.

Þótt næstu tvær lægðir verði býsna ágengar við okkur eiga þær samt ekki að ná í kalt loft úr norðri og útlit er því fyrir að hlýjar austan- og norðaustanáttir haldi áfram þrátt fyrir að hæðin hörfi. Hvort spár sem segja kalt loft úr vestri ná til okkar um miðja næstu viku reynast réttar vitum við ekki.

Af úrkomunni er það að frétta að mánuðurinn hefur nú skilað meir en 500 mm á Hánefsstöðum í Seyðisfirði og á eftir að gera enn betur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þakka fyrir þessa fróðlegu samantekt Trausti.

"Þótt næstu tvær lægðir verði býsna ágengar við okkur eiga þær samt ekki að ná í kalt loft úr norðri og útlit er því fyrir að hlýjar austan- og norðaustanáttir haldi áfram þrátt fyrir að hæðin hörfi. Hvort spár sem segja kalt loft úr vestri ná til okkar um miðja næstu viku reynast réttar vitum við ekki."(sic)

Veðurfræðingar í Bandaríkjunum eru öllu kvíðnari yfir framhaldinu:

"I’m very concerned, and I hope I’m wrong, about the power grid. That Arctic outbreak that came for three to four days earlier in the month, led to blackouts. We’ve got 10 to 15 days of this coming now, where one shot after another comes in and more storms are coming. And you know, this is not trying to be doom and gloom. You don’t need to hype the weather. It will hype itself naturally." (Weatherbell Analytics meteorologist Joe Bastardi)

> http://www.breitbart.com/Breitbart-TV/2014/01/21/Bastardi-Arctic-Outbreak-with-Multiple-Storms-to-Last-10-15-Days-Has-Power-Grid-Concerns

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 23.1.2014 kl. 18:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg200324b
  • w-blogg200324a
  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 16
  • Sl. sólarhring: 65
  • Sl. viku: 414
  • Frá upphafi: 2343327

Annað

  • Innlit í dag: 12
  • Innlit sl. viku: 372
  • Gestir í dag: 11
  • IP-tölur í dag: 11

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband