Mjór fleygur af (ekki svo) köldu lofti

Eftir austan- og norðaustanáttina sem hefur verið ríkjandi þennan mánuð allan (og að minnsta kosti tíu dögum betur) er nú útlit fyrir að áttin snúist eitt andartak til vesturs og suðvesturs. Síðan á austan- og norðaustanáttin að taka aftur við. En smátilbreyting samt - því kannski snjóar hér suðvestanlands ofan í klakann.

En við lítum á spákort evrópureiknimiðstöðvarinnar sem sýnir sjávarmálsþrýsting, úrkomu og hita í 850 hPa-fletinum síðdegis á morgun, miðvikudag 22. janúar.

w-blogg220114a

Við sjáum strax að hæðin yfir Skandinavíu heldur enn og hindrar hreyfingar lægða til austurs. Þær hafa hins vegar að einhverju leyti fengið farveg suður um Frakkland og valdið flóðum við Miðjarðarhaf.

Mikið lægðardrag og flókið er við Ísland og kemst ekki langt en mjakast til norðurs og norðausturs. Þegar það fer inn á land snýst til vestanáttar sunnan við. Lægðardraginu fylgir drjúg úrkoma - rigning í hlýju lofti norðan við en slydda eða snjókoma sunnan við. Vegna þess hversu hægfara lægðardragið er getur úrkoman orðið allmikil - snjór eða regn. Það er að skilja á spám að það geti snjóað á Suðvesturlandi á miðvikudagskvöld eða aðfaranótt fimmtudags - en við látum Veðurstofuna að vanda fylgjast með því.

Aðaléljagangurinn verður talsvert langt sunnan við land og við komumst varla í heiðarlegan útsynning að þessu sinni. Það fer að verða merkilegt hvað hann forðast okkur. En lægðin í suðvesturhorni kortsins nálgast hratt og rekur smáfleyg af köldu lofti á undan sér. Hann sést best á myndinni hér að neðan.

w-blogg220114c 

Þetta er þykktarkort sem gildir sólarhring síðar en kortið að ofan - síðdegis á fimmtudag, 23. janúar. Jafnþykktarlínur eru heildregnar - en litafletir sýna hita í 850 hPa-fletinum. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Hlýja loftið sem hefur verið yfir landinu undanfarna daga hefur hér hörfað til norðausturs. Þetta er ekkert sérstaklega hlýtt loft - en hefur samt með seiglu verið að mjaka koma mánuðinum ofar og ofar á hitalistum.

Miklu hlýrra loft fylgir næstu lægð - en aðalhlýindin fara samt hjá fyrir suðaustan land og styrkja hæðina góðu. Kaldi fleygurinn er ekki svo sérstaklega kaldur, jafnþykktarlínan sem liggur til austsuðausturs um landið vestan- og sunnanvert sýnir 5200 metra. Þetta minnir satt best að segja frekar á október heldur en janúar. En samt - það snjóar trúlega.

Lægðin nýja fer svo langt með að bræða þennan snjó - og óskastaðan er sú að hún bræði aðeins meira til þannig að klakinn hræðilegi hjaðni.

Síðan kemur enn öflugri lægð á sunnudag - en þrátt fyrir atgang segja spár að hún ráði ekki heldur við fyrirstöðuhæðina. Meðan sú víkur ekki getur varla orðið kalt hér á landi nema stutta stund - og þá aðeins í útgeislunarsveitum.

Enn mun bæta í úrkomuna á Austurlandi. Hún var í morgun (þriðjudag) farin að nálgast 500 mm á Hánefsstöðum í Seyðisfirði, Neskaupstaður er kominn í 300 mm, eins Desjarmýri á Borgarfirði eystra og svipað á Gilsá í Breiðdal. Skjaldþingsstaðir í Vopnafirði eru líka vel yfir 300 mm það sem af er mánuði. Vestanlands er úrkoma langt undir meðallagi - en ekki tekur nema einn eða tvo daga að bæta úr því ef hann snýr sér á áttinni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

 • w-blogg160424b
 • w-blogg160424a
 • w-blogg120424c
 • w-blogg120424b
 • w-blogg120424a

Heimsóknir

Flettingar

 • Í dag (17.4.): 427
 • Sl. sólarhring: 619
 • Sl. viku: 2520
 • Frá upphafi: 2348387

Annað

 • Innlit í dag: 380
 • Innlit sl. viku: 2213
 • Gestir í dag: 368
 • IP-tölur í dag: 350

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband