Bloggfærslur mánaðarins, mars 2013
21.3.2013 | 00:19
Staðan í loftþrýstimálunum
Nú eru tveir þriðju hlutar marsmánaðar liðnir og enn er ekkert lát á háum loftþrýstingi hér á landi. Hvernig fer um síðasta þriðjunginn vitum við ekki en lengstu spár gera ekki ráð fyrir teljandi breytingu hvað þetta varðar. Við lítum aðeins á málið.
Fyrri myndin sýnir þrýstivik fyrstu 18 daga mánaðarins í hPa. Kortið er fengið hjá bandarísku veðurstofunni (NOAA). Jafnvikalínur eru heildregnar og litir sýna einnig vikið, blátt og fjólublátt er neikvætt (þrýstingur lægri en að meðaltali) en gulu og rauðu litirnir sýna hvar þrýstingur hefur verið fyrir ofan meðaltal. Miðað er við tímabilið 1981 til 2010. Þrýstingur á Íslandi er hér 17 til 18 hPa ofan meðaltals. Sé miðað við 1961 til 1990 er vikið örlítið minna því þrýstingur á því tímabili var heldur hærri en á síðustu áratugum.
Af þessu má sjá að norðaustanátt hefur verið ríkjandi. Þrátt fyrir vindáttina hefur hitinn það sem af er ekki verið nema um 1 stigi undir meðallagi. Úrkoma er í meðallagi norðaustanlands, en aðeins helmingur af meðallagi suðvestanlands. Óvenjulítil úrkoma hefur verið austan- og suðaustanlands, aðeins um 10 % af meðallagi á Kirkjubæjarklaustri. Þessi litla úrkoma um austurhelming landsins skýrist að nokkru þegar við lítum á kortið að neðan. Það sýnir meðalhæð (ekki vik) 500 hPa-flatarins á sama tíma og kortið að ofan.
Hér má sjá að vestanátt hefur verið ríkjandi í háloftunum, mikill hæðarhryggur ríkir á svæðinu frá Baffinsflóa í vestri og austur fyrir Ísland. Kalt hefur verið á Bretlandseyjum og suður á meginlandið.
En hversu óvenjulegur er þessi háþrýstingur?
Lítum fyrst á meðalþrýsting í Reykjavík fyrstu 20 daga marsmánaðar allt aftur til 1949.
ár | þrýstingur | |
1962 | 1028,5 | |
2005 | 1018,9 | |
2013 | 1018,8 | |
1984 | 1018,1 | |
1955 | 1017,9 |
Hér er mars 2013 í þriðja hæsta sæti - ómarktækt neðar en mars 2005, en mars 1962 er miklu hærri. Sá mánuður er frægur fyrir þurrk á Suðvestur- og Vesturlandi. Auk þess er hann einn af köldustu marsmánuðum á Bretlandseyjum.
Sé litið á lengra tímabil er mars 2013 ekki alveg jafn ofarlega á lista. Háþrýstimarsmánuðir hafa einfaldlega verið sjaldgæfari á síðari áratugum en áður var. En lítum samt á listann þótt langur sé.
röð | ár | þrýstingur | |
1 | 1962 | 1028,5 | |
2 | 1867 | 1024,4 | |
3 | 1840 | 1024,3 | |
4 | 1883 | 1024,1 | |
5 | 1916 | 1023,6 | |
6 | 1900 | 1020,9 | |
7 | 1845 | 1019,8 | |
8 | 1937 | 1019,7 | |
9 | 2005 | 1018,9 | |
10 | 2013 | 1018,8 | |
11 | 1837 | 1018,8 | |
12 | 1947 | 1018,6 | |
13 | 1984 | 1018,1 | |
14 | 1955 | 1017,9 |
20.3.2013 | 00:37
Smálægðir á hraðferð í öfuga átt
Þegar þetta er skrifað (seint á þriðjudagskvöldi 19. mars) er mikið hríðarveður norðanlands og hvasst. Tvær smálægðir eru á hraðferð til suðvesturs yfir landið í nótt og í fyrramálið. Þótt lægðarmiðjurnar sæjust á kortum og gervinhnattamyndum var á mörkunum að hægt væri að greina lokaðar miðjur í þrýstisviðinu. Furðumikil snerpa fylgir þó lægðunum eins og glöggt má sjá á kortinu hér að neðan.
Það sýnir sjávarmálsþrýsting (heildregnar línur), þykkt (strikalínur) og þrýstibreytingu síðustu þrjár klukkustundir á undan gildistíma kortsins. Hann er klukkan 18 á þriðjudagskvöldi. Þrýstilínurnar eru mjög þéttar vestan við tvær litlar lægðarmiðjur fyrir norðaustan land. Norðaustanstrengurinn er angi af einhverri mestu hæð síðustu ára við Norðaustur-Grænland. Kuldinn sést vel á þykktinni, megnið af landinu er innan við 5040 metra jafnþykktarlínuna. Alvöruvetur þar á ferð.
En ákefð þrýstifallsins kemur á óvart á undan smálægð sem kemur úr norðaustri. Þar má sjá (kortið skýrist við stækkun) töluna -7,3 hPa í rauðasta litnum. Sú varð líka raunin, þrýstingur féll um -7,3 hPa á Raufarhöfn og -7,7 á Fonti á þessum sama tíma. Fyrir tíma nákvæmra tölvuspáa gaf svo mikið og skyndilegt fall tilefni til stormaðvörunar. Þá var varla nokkur leið að sjá svona veður með sólarhringsfyrirvara, þakka mátti fyrir ef fyrirvarinn var 3 til 6 klukkustundir áður en stormurinn skall á.
Fyrri lægðin er merkt með tölunni 1 en sú seinni með 2. Braut seinni lægðarinnar veldur því að fljótt dregur úr storminum hér á landi - lægðin flytur strenginn til vesturs.
Stöðuna um hádegi á morgun má sjá á seinna kortinu.
Kortið gildir klukkan 9 á miðvikudagsmorgni. Hér má sjá hversu hratt hlutirnir ganga fyrir sig. Báðar smálægðirnar eru nærri því horfnar en enn má þó sjá votta fyrir þeim sem lægðardrögum með þrýstifalli. Þrýstifallið á undan síðari lægðinni er enn býsna mikið, -4,9 hPa. Síðan er komin lægð númer þrjú. Hún er nýmynduð en þrýstingur hefur fallið um -7,7 hPa við miðju hennar frá því klukkan 9. Lægðin á að fara til vesturs og hvessir eitthvað af hennar völdum syðst á landinu. Trúlega slær einnig upp skýjabakka.
Hér hafa þrýstilínur yfir landinu gisnað umtalsvert - víðast hvar komið besta veður. Illviðrið lifir lengst á Vestfjörðum. Það hefur einnig hlýnað. Það er 5100 metra jafnþykktarlínan sem liggur á landinu. Hiti að minnsta kosti 3 stigum hærri heldur en var í dag, þriðjudag. Vissulega vetur en með minni vindi virðist hitinn hafa hækkað enn meir.
Af hæðinni miklu við Norðaustur-Grænland er það að frétta að þrýstingur á Station Nord fór hæst í 1061,7 hPa. Það er örugglega býsna nærri meti á þeim slóðum.
19.3.2013 | 00:28
Óvenjulegur háþrýstingur á N-Grænlandi og Svalbarða
Að undanförnu hefur þrýstingur verið með hæsta móti á norðurslóðum og á morgun á hann að fara upp fyrir 1060 hPa við strönd Norðaustur-Grænlands. Á veðurkortum má stundum sjá hærri þrýsting yfir Grænlandsjökli - en ekkert þýðir að taka mark á því. Þrýstingur nærri sjávarmáli er hins vegar marktækur í metingi. Við lítum á spá evrópureiknimiðstöðvarinnar á hádegi á morgun (þriðjudaginn 19. mars).
Norðurskautið er efst á myndinni en örvar benda á Ísland og Svalbarða. Jafnþrýstilínur eru heildregnar en litir sýna hita í 850 hPa-fletinum. Á kortinu er hæðin um 1063 hPa í miðju. Breiða jafnþrýstilínan í kringum hana sýnir 1060 hPa. Á kortinu nær hún inn á Norðaustur-Grænland þar sem veðurstöðin Station Nord er staðsett norðan við nesið mikla sem kennt er við Kristján krónprins (sem síðar varð tíundi). Við bíðum spennt eftir tölum þaðan. Kl. 24 á mánudagskvöld var þrýstingurinn á stöðinni 1059,7 hPa (stígandi). Hvað danska veðurstofan segir um það verður að koma í ljós.
Opinbert metabókhald á vef dönsku veðurstofunnar nær ekki nema aftur til 1958 og segir það hæsta þrýsting sem mælst hafi á Grænlandi vera 1059,6 hPa, í Upernavik á vesturströndinni 18. janúar 1958. Misminni ritstjórans kvakar um að það sé ekki hæsti þrýstingur allra tíma á Grænlandi en getur ekki neglt niður tölur né dagsetningar að svo stöddu. Minnir þó að hafa séð tölu yfir 1060 hPa frá Myggbukta - ekki mjög langt norður af Scoresbysundi í janúar stríðsveturinn fyrsta 1940. Mjög lítið er af athugunum frá Norðaustur-Grænlandi fyrir þann tíma. Vestur-Grænland á ábyggilega hærri tölu en 1060 á fyrri tíð.
En þrýstingur nú á einnig að fara mjög hátt á Svalbarða - hærra en að minnsta kosti síðustu 15 árin - þótt 1060 hPa virðist ekki náð þar að þessu sinni.
En það er fleira merkilegt á kortinu. Gríðarleg hlýindi eru nú við Vestur-Grænland og frostlaust í 850 hPa-fletinum á allstórum blettum, m.a. yfir Thule. Á veðurstöðinni þar, Qaanaaq, fór hiti í dag í 9 stig. Það hlýtur að teljast með eindæmum. Frostlaust varð á öllum veðurstöðvum Vestur-Grænlands og hefur hæst frést af 11 stigum í Syðri-Straumfirði. Grænlandsmetið í mars var þó ekki í hættu (16,0 stig). Að sögn grænlenska útvarpsins eru forsvarsmenn skíðalandsmótsins í Nuuk orðnir órólegir - aðalgöngubrautin er undir vatni sem stendur. En mótið er ekki fyrr en um páskana.
Á kortinu má einnig sjá smálægðapar sem stefnir til Íslands úr norðaustri (aðeins önnur er merkt með L). Norðvestan við það er mikill norðaustanstrengur, um og yfir 25 m/s þar sem mest er. Vegna þess að lægðirnar eru ekki á nákvæmlega sömu braut sleppum við furðanlega. Fyrri lægðin fer til suðvesturs um Austurland á þriðjudagskvöld - en sú síðari suðvestur yfir Vestfirði snemma á miðvikudag. Síðari lægðin beinir verstu norðaustanáttinni frá landinu þannig að öflugasti strengurinn fer suðvestur um Grænlandssund. En þetta eru smáatriði sem má ekki taka of mikið mark á.
Ferðalangar og aðrir sem eitthvað eiga undir veðri ættu að fylgjast með spám Veðurstofunnar og sömuleiðis veðurathugunum á ferðaleiðum.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 00:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.3.2013 | 01:21
Þurrkur
Í dag (sunnudag) var mjög þurrt um landið sunnan- og vestanvert og svipuðu er spáð á morgun. Orðið þurrkur á reyndar tvenns konar merkingu. Annars vegar er það úrkomuleysi - oftast langvinnt en hins vegar lágt rakastig - jafnvel þótt skammvinnt sé. Rakastig er ekki alltaf lágt í úrkomuleysi. Spár segja að úrkomulítið verði mestalla vikuna sunnanlands - en á norðanverðu landinu snjói - ekki óalgengt það.
En rakastigið var lágt suðvestanlands í dag og verður á morgun. Það sést vel á spá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir kl. 06 á mánudagsmorgni.
Rauðu litirnir sýna dulvarmaflæði frá yfirborði lands og sjávar í loft. Það er mun meira yfir sjó heldur en þurru landi. Ekki er skortur á vatni við yfirborð sjávar. En við skulum frekar taka eftir svörtu heildregnu línunum. Þetta eru jafnrakalínur í 925 hPa-fletinum og afmarka svæði þar sem rakastig er lágt. Ysta línan sýnir 60% raka og síðan er talið koll af kolli á 10% bilum. Það er 20% jafnrakalínan sem liggur suðvestur um Faxaflóa og síðan til austurs alllangt suður af Reykjanesi. Rakastig er undir 20% á stóru svæði.
Smáblettur, yfir Akranesi, sýnir 10% raka - og við þann blett stendur talan 9 - það er 9% raki. Við trúum þessu tæplega - frekast tilviljun í líkaninu. Nú er 925 hPa-flöturinn í rétt rúmlega 800 metra hæð. Rakastigið er ekki svona lágt niður undir jörð - þar sem sífellt gufar upp úr sjónum - en samt óvenju lágt. Rakastigið í Reykjavík fór niður í 33% fyrr í dag (sunnudag) og gæti farið ámóta neðarlega á morgun (mánudag). Þegar loft sem er 33% rakt og hiti er undir frostmarki kemur inn í stofuhita fellur rakastigið umtalsvert til viðbótar.
Margir finna fyrir óþægindum þegar loft er svona þurrt - rakastig innan við 20% innandyra. Sömuleiðis magnast hætta á gróðureldum þegar rakastig er mjög lágt langtímum saman og vissara er að fara vel með eld.
17.3.2013 | 01:11
Dálítið öfugsnúið
Vestanáttin er langt undan eins og oftast í vetur. Sem stendur ber mest á norðan- og sunnanáttum á þeim svæðum sem við erum vön að sjá á veðurkortum - en svo virðist sem norðaustan- og austanátt taki við. Þegar ritstjórinn var að alast upp þótti honum það hin eðlilega marsveðrátta með úrkomuleysi, þurrkum og sinubrunum á Vesturlandi.
Marsmánuður ársins í ár skríður nú ákveðið upp eftir meðalháþrýstilistunum - að vísu enn ekki kominn nálægt toppnum en ef svo fer fram sem horfir mætti fara að gefa þrýstingnum meiri gaum. En við lendum enn og aftur í þeirri stöðu að lægðir sem nálgast landið úr hefðbundinni átt lognast út af langt fyrir sunnan land. Rými skapast þó fyrir aðrar tegundir lægða - þær sem koma afturábak úr norðaustri - eða þær sem snarast út úr austanáttinni fyrir sunnan land og fara sömuleiðis í öfuga átt - til vesturs. Það getur verið gaman að fylgjast með slíku í fylgd háupplausnarveðurlíkana. Fyrr á árum réðst illa við greiningu á þessum fyrirbrigðum.
Við skulum líta á sjávarmálsspána frá evrópureiknimiðstöðinni og gildir hún klukkan 6 á mánudagsmorgni.
Litafletir sýna úrkomu en strikalínur hita í 850 hPa. Engin alvöruvestanátt er á kortinu og við borð liggur að engin sjávarmálsvestanátt sé á Atlantshafi fyrr en langt suður á suðurhveli jarðar. Staða sem þessi er einna algengust seint í apríl og byrjun maí. En vorið er þó varla komið? Nei, ekki enn. Hæðin yfir Grænlandi er merkt sem 1042 hPa - við tökum hóflegt mark á tölum yfir hálendi jökulsins en þrýstingur er líka yfir 1040 hPa við ströndina þar norðausturaf. Það tökum við gott og gilt.
Næsta lægð sem fer hjá landinu er sú sem á kortinu er við Norður-Noreg. Hún böðlast einhvern veginn til suðvesturs - með óljósri miðju og fer yfir landið eða nærri því á þriðjudagskvöld eða aðfaranótt miðvikudags. Vel má vera að hún verði orðin að lægðardragi. Á undan henni er kaldur gjóstur frá heimskautaslóðum - þykkt spáð niður fyrir 5040 metra.
16.3.2013 | 01:37
Falleg háloftaröst
Háloftaröstin austan við hæðarhrygginn mikla yfir Grænlandi nálgast nú úr vestri (í meinleysi sínu). Hún kemur yfir landið seint á aðfaranótt laugardags (16. mars) og nær sinni austustu stöðu snemma á sunnudagsmorgni. Þá hörfar hún aftur til vesturs en mjög hægt, spár segja að hún verði ekki komin aftur vestur fyrir fyrr en seint á þriðjudag.
Fyrri myndin hér að neðan sýnir stöðuna í 500 hPa kl. 3 á aðfaranótt sunnudags - (að tillögu evrópureiknimiðstöðvarinnar).
Á þessu sérlega stílhreina og fallega korti eru jafnhæðarlínur 500 hPa svartar og heildregnar en litir sýna hitann í þeim sama fleti. Kvarðinn verður greinilegri við stækkun. Hefðbundnar örvar sýna vindstefnu og hraða. Áttin er rétt vestan við norður og vindhraði um 40 til 45 m/s þar sem hann er mestur. Enn ofar, í um 10 km hæð, er hann yfir 60 m/s.
Við sjáum að hálendi Vatnajökuls býr til smáhlykk á bæði jafnhæðar- og jafnhitalínum. Þar um kring er helst að rastarinnar verði vart nærri jörðu.
Jafnhitalínur liggja nokkurn veginn samsíða röstinni. Frostið er um -23 stig þar sem hlýjast er í brúna litnum, en meira en -42 stig í þeim fjólubláa. Ef þykktin væri merkt á kortið í stað hitans mætti sjá að bratti þykktarsviðsins er nærri því að vera jafn hæðarbrattanum - og hallast til sömu hliðar. Það þýðir að vindur er lítill næst jörðu. Þykkt og hæð jafna hvor aðra út.
En þó ekki alveg og má sjá það á seinni myndinni. Hún sýnir ástandið í 925 hPa en sá flötur er á henni í um 800 metra hæð yfir jörðu yfir Íslandi. Merkingar eru þær sömu og á myndinni að ofan að öðru leyti en því að litakvarðinn sýnir ekki sama hita og þar.
Hér eru jafnhæðarlínur miklu gisnari yfir landinu og vindur aðeins á bilinu 5 til 10 m/s. Hann vex hins vegar til austurs þar til komið er í 25 m/s milli Færeyja og Skotlands. Það svæði lítur rólega út á 500 hPa-kortinu - háloftavindur er hægur. Við getum giskað á að þykktarbratti sé mikill á slóðum þessa vindstrengs - takið eftir því hvað jafnhitalínur eru þéttar (stutt á milli litaskipta).
Mesti kuldinn er fjólublár á kortinu, þar er frostið -20 stig á smábletti. Við sjáum jafnhæðarlínur skera jafnhitalínurnar. Það þýðir að kalt loft streymir í átt til landsins. Auðvitað hitar sjórinn það baki brotnu á leiðinni til landsins en samt er varla hjá kólnun komist.
Þegar röstin hörfar aftur til vesturs fær kalda loftið betra rými. Spám ber ekki alveg saman um það hvernig það kemur niður á okkur og rétt að bíða með vangaveltur um það.
Þótt hæð og þykkt jafni hvora aðra út að mestu í þetta sinn er það ekki föst regla að þær geri það alltaf undir norðanröstum. Stundum fylgja þeim gríðarmikil kulda- og hvassviðrisframrás.
Skyldu háský (eða miðský) fylgja röstinni að þessu sinni?
15.3.2013 | 01:23
Mikill háloftahryggur rís yfir Grænlandi
Nú rís mikill háloftahryggur sunnan úr höfum og allt til Norður-Grænlands. Við verðum í austurjaðri hans næstu daga. Norðanátt er auðvitað í háloftunum austan við hæðarhryggi. Staðan á morgun (föstudag) sést vel á kortinu hér að neðan. Það sýnir hæð 300 hPa-flatarins og vinda í honum.
Jafnhæðarlínur eru heildregnar og eru merktar í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Yfir Íslandi er flöturinn í um 8700 metra hæð. Vindur er sýndur með hefðbundnum vindörvum en lituðu svæðin sýna hvar vindurinn er mestur. Kvarðinn er í hnútum að þessu sinni. Með því að deila í þá tölu með tveimur má fá vindhraðann í m/s (nærri því). Græni liturinn byrjar við 80 hnúta - eða um 40 m/s.
Mjór en öflugur norðanstrengur nálgast Ísland úr vestri og verður yfir landinu á laugardag og sunnudag. Nýjustu spár segja hann bakka aftur til vesturs á mánudag - hvort af því verður er óljóst.
Þegar veðrið er í vondu skapi hvessir illa undir vindstrengjum af þessu tagi - en við virðumst eiga að sleppa nærri því alveg að þessu sinni. Jafnþykktar- og jafnhæðarlínur hallast á sama veg og eru jafnþéttar - þá verður enginn vindur við jörð. Að vindur verði enginn á landinu á laugardag og sunnudag er auðvitað fullmikið sagt. Mikill bratti í þykktar- og hæðarsviðum fellur sjaldan svo vel saman að ekki hreyfi vind við jörð. Auk þess ræður misgengi sviðanna ekki öllum vindi - fleira kemur við sögu.
Hvort veðrið verður í vondu eða góðu skapi um helgina vita hungurdiskar ekki. Þeir sem þurfa að treysta á veður taka hóflega mark á rausinu á þeim bæ og leita frekar til Veðurstofunnar eða annarra til þess bærra aðila.
14.3.2013 | 00:23
Frostlaust í 1400 metra hæð yfir Norðuríshafi
Ekki er það endilega svo merkilegt - en samt. Langt úti yfir ísbreiðunni miklu milli 75 og 80°N, norður af Alaska. Engin fjöll nærri til hjálpar. Loftið er auðvitað komið sunnan að (he-he) en þarna er væntanlega mikið niðurstreymi í námunda við hlýja fyrirstöðuhæð sem er að byltast um á þessum slóðum. Það er trúlega niðurstreymið sem er í aðalhlutverki og nær hitanum svona vel upp.
Kortið að neðan gildir kl. 18 í dag (miðvikudag) og sýnir hitastrokuna sem teygist eins og fingur langt sunnan úr Kyrrahafi og nærri því norður til norðurskauts.
Sjónarhornið er óvenjulegt og þurfa flestir athygli við til að ná áttum. Norðurskautið er merkt með bókstafnum N (hvítur). Ísland er lengst til hægri en Alaska neðarlega til vinstri. Hin óralanga strönd Síberíu gengur um efri hluta myndarinnar frá vinstri og langleiðina til hægri - þar sem komið er að Norður-Noregi.
Jafnþrýstilínur við sjávarmál eru heildregnar en litafletir sýna hita í 850 hPa-fletinum sem er í kringum 1400 metra hæð. Á fjólubláu svæðunum er frostið meira en -25°C. Mörkin milli grænu og gulu litanna er við -2 stig, en gulbrúni liturinn sýnir svæði þar sem hiti er yfir frostmarki.
Lægð er skammt frá norðurskautinu og stefnir hún á Norður-Grænland. Deila má um það að hve miklu leyti hlýindin ná til jarðar. Nokkur veðurdufl mæla hita á þessum slóðum - ekki fréttist þó af neinu einmitt þar sem hitinn er hæstur á kortinu. En á austurhorni Síberíu var ekki nema -2 til -5 stiga frost í dag og almennt er frekar hlýtt yfir íshafinu, frost á fáeinum duflum ekki nema -25 stig eða svo - langt yfir meðallagi.
Að sögn evrópureiknimiðstöðvarinnar eru fleiri hlýindaskot væntanleg svipaða leið og að minnsta kosti eitt til viðbótar á að fara norður um Grænland og þar vestan við um helgina. Við verðum í austurjaðri þess.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 00:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.3.2013 | 00:41
Á góu
Nú er góa rúmlega hálfnuð. Af því tilefni má líta á hitafar í þessum forna mánuði aftur til 1846. Meðalhiti í Reykjavík á góu á árabilinu 1961 til 1990 var 0,9 stig og síðustu 10 árin 1,9 stig. Nýja öldin hefur farið vel af stað rétt eins og í flestum mánuðum öðrum.
Myndin að neðan sýnir meðalmorgunhita í Stykkishólmi á góu 1846 til 2012.
Hlýjasta góan var árið 1929, en sú kaldasta 1881, þar munar 15,8 stigum. Hlýnunin mikla um og upp úr 1920 sker sig nokkuð úr - en erfitt er að skipta tímanum þar á eftir í hlýinda- og kuldaskeið - ólíkt flestum öðrum árstímum. Kaldasta góan frá 1920 kom 1947 og fátt sker sig úr síðan fyrr en að hlýindi síðustu 10 ára eru meiri en áður hefur þekkst að undanteknum árunum 10 frá 1923 til 1932 þegar var jafnhlýtt og að undanförnu.
Góan var köld 1919 en annars virðist sem hún hafi verið snemma á ferð í hlýindunum því frekar hlýtt var á þessum árstíma öll árin 1916, 1917 og 1918. Á 19. öld komu nokkrar hlýjar góur um 1850, sú hlýjasta 1856 og þurfti að bíða í 73 ár eftir betri. Árið 1929 voru menn á lífi sem mundu 1856 og að vonum líktu þeir þessum tveimur öndvegismánuðum saman.
Góan 1856 er enn sú þriðja hlýjasta og hafa eldri veðurnörd nú beðið í 49 ár eftir annarri eins og 1964, 1963 var litlu síðri.
Annars er það af góunni nú að frétta að hún telst enn í hópi þeirra hlýrri, stendur í Reykjavík í 2,5 stigum, 1,6 yfir meðallaginu 1961 til 1990 og 0,6 yfir meðallagi síðustu 10 ára. Það þrátt fyrir kuldann framan af síðustu viku.
12.3.2013 | 01:28
Snjór við Ermarsund
Sjaldan snjóar á Ermarsundseyjum í marsmánuði - snjóhula (alhvítt?) hefur þar viðdvöl á jörð aðeins um það bil fimmta hvert ár að meðaltali. Ársmeðalfjöldi 1961 til 1990 er innan við þrír dagar á ári. Í dag (mánudag) stefndi þar í snjódýptarmet fyrir mars - að sögn breska útvarpsins. Ekki vitum við hvort sú varð raunin. En veðurlag var dæmigert fyrir snjó á þessum slóðum. Það sjáum við á kortinu að neðan.
Lægð er yfir vestanverðu Frakklandi. Talsverð úrkoma er norðan við hana og austanáttin býsna köld, tíu stiga frost er í 850 hPa suður á sundið, fjórum stigum kaldara en var yfir Reykjavík á sama tíma. Þykktin var nálægt 5280 metrum á sama stað, sú sama og yfir Reykjavík.
Snjórinn á eyjunum bráðnar væntanlega strax og styttir upp. Lægðin fer austur og síðar suðaustur og mun valda leiðindum víðar í álfunni í vikunni þótt ekki sé hún djúp - ekki einu sinni á þarlendan mælikvarða.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 01:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (9.11.): 243
- Sl. sólarhring: 333
- Sl. viku: 1677
- Frá upphafi: 2408545
Annað
- Innlit í dag: 229
- Innlit sl. viku: 1509
- Gestir í dag: 221
- IP-tölur í dag: 220
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010