Frostlaust í 1400 metra hæð yfir Norðuríshafi

Ekki er það endilega svo merkilegt - en samt. Langt úti yfir ísbreiðunni miklu milli 75 og 80°N, norður af Alaska. Engin fjöll nærri til hjálpar. Loftið er auðvitað komið sunnan að (he-he) en þarna er væntanlega mikið niðurstreymi í námunda við hlýja fyrirstöðuhæð sem er að byltast um á þessum slóðum. Það er trúlega niðurstreymið sem er í aðalhlutverki og nær hitanum svona vel upp.

Kortið að neðan gildir kl. 18 í dag (miðvikudag) og sýnir hitastrokuna sem teygist eins og fingur langt sunnan úr Kyrrahafi og nærri því norður til norðurskauts.

w-blogg140313a

Sjónarhornið er óvenjulegt og þurfa flestir athygli við til að ná áttum. Norðurskautið er merkt með bókstafnum N (hvítur). Ísland er lengst til hægri en Alaska neðarlega til vinstri. Hin óralanga strönd Síberíu gengur um efri hluta myndarinnar frá vinstri og langleiðina til hægri - þar sem komið er að Norður-Noregi.

Jafnþrýstilínur við sjávarmál eru heildregnar en litafletir sýna hita í 850 hPa-fletinum sem er í kringum 1400 metra hæð. Á fjólubláu svæðunum er frostið meira en -25°C.  Mörkin milli grænu og gulu litanna er við -2 stig, en gulbrúni liturinn sýnir svæði þar sem hiti er yfir frostmarki.

Lægð er skammt frá norðurskautinu og stefnir hún á Norður-Grænland. Deila má um það að hve miklu leyti hlýindin ná til jarðar. Nokkur veðurdufl mæla hita á þessum slóðum - ekki fréttist þó af neinu einmitt þar sem hitinn er hæstur á kortinu. En á austurhorni Síberíu var ekki nema -2 til -5 stiga frost í dag og almennt er frekar hlýtt yfir íshafinu, frost á fáeinum duflum ekki nema -25 stig eða svo - langt yfir meðallagi.

Að sögn evrópureiknimiðstöðvarinnar eru fleiri hlýindaskot væntanleg svipaða leið og að minnsta kosti eitt til viðbótar á að fara norður um Grænland og þar vestan við um helgina. Við verðum í austurjaðri þess.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2019
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

 • halavedrid_pp
 • Slide8
 • Slide7
 • Slide6
 • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

 • Í dag (11.12.): 555
 • Sl. sólarhring: 738
 • Sl. viku: 3460
 • Frá upphafi: 1859995

Annað

 • Innlit í dag: 498
 • Innlit sl. viku: 2966
 • Gestir í dag: 461
 • IP-tölur í dag: 436

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband