Þurrkur

Í dag (sunnudag) var mjög þurrt um landið sunnan- og vestanvert og svipuðu er spáð á morgun. Orðið þurrkur á reyndar tvenns konar merkingu. Annars vegar er það úrkomuleysi - oftast langvinnt en hins vegar lágt rakastig - jafnvel þótt skammvinnt sé. Rakastig er ekki alltaf lágt í úrkomuleysi. Spár segja að úrkomulítið verði mestalla vikuna sunnanlands - en á norðanverðu landinu snjói - ekki óalgengt það.

En rakastigið var lágt suðvestanlands í dag og verður á morgun. Það sést vel á spá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir kl. 06 á mánudagsmorgni.

w-blogg180313a

Rauðu litirnir sýna dulvarmaflæði frá yfirborði lands og sjávar í loft. Það er mun meira yfir sjó heldur en þurru landi. Ekki er skortur á vatni við yfirborð sjávar. En við skulum frekar taka eftir svörtu heildregnu línunum. Þetta eru jafnrakalínur í 925 hPa-fletinum og afmarka svæði þar sem rakastig er lágt. Ysta línan sýnir 60% raka og síðan er talið koll af kolli á 10% bilum. Það er 20% jafnrakalínan sem liggur suðvestur um Faxaflóa og síðan til austurs alllangt suður af Reykjanesi. Rakastig er undir 20% á stóru svæði.

Smáblettur, yfir Akranesi, sýnir 10% raka - og við þann blett stendur talan 9 - það er 9% raki. Við trúum þessu tæplega - frekast tilviljun í líkaninu. Nú er 925 hPa-flöturinn í rétt rúmlega 800 metra hæð. Rakastigið er ekki svona lágt niður undir jörð - þar sem sífellt gufar upp úr sjónum - en samt óvenju lágt. Rakastigið í Reykjavík fór niður í 33% fyrr í dag (sunnudag) og gæti farið ámóta neðarlega á morgun (mánudag). Þegar loft sem er 33% rakt og hiti er undir frostmarki kemur inn í stofuhita fellur rakastigið umtalsvert til viðbótar.

Margir finna fyrir óþægindum þegar loft er svona þurrt - rakastig innan við 20% innandyra. Sömuleiðis magnast hætta á gróðureldum þegar rakastig er mjög lágt langtímum saman og vissara er að fara vel með eld.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

 • Slide10
 • Slide9
 • Slide11
 • w-1945v
 • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

 • Í dag (24.5.): 35
 • Sl. sólarhring: 83
 • Sl. viku: 1503
 • Frá upphafi: 2356108

Annað

 • Innlit í dag: 35
 • Innlit sl. viku: 1408
 • Gestir í dag: 35
 • IP-tölur í dag: 35

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband