Falleg háloftaröst

Háloftaröstin austan við hæðarhrygginn mikla yfir Grænlandi nálgast nú úr vestri (í meinleysi sínu). Hún kemur yfir landið seint á aðfaranótt laugardags (16. mars) og nær sinni austustu stöðu snemma á sunnudagsmorgni. Þá hörfar hún aftur til vesturs en mjög hægt, spár segja að hún verði ekki komin aftur vestur fyrir fyrr en seint á þriðjudag.

Fyrri myndin hér að neðan sýnir stöðuna í 500 hPa kl. 3 á aðfaranótt sunnudags - (að tillögu evrópureiknimiðstöðvarinnar).

w-blogg160313a

Á þessu sérlega stílhreina og fallega korti eru jafnhæðarlínur 500 hPa svartar og heildregnar en litir sýna hitann í þeim sama fleti. Kvarðinn verður greinilegri við stækkun. Hefðbundnar örvar sýna vindstefnu og hraða. Áttin er rétt vestan við norður og vindhraði um 40 til 45 m/s þar sem hann er mestur. Enn ofar, í um 10 km hæð, er hann yfir 60 m/s.

Við sjáum að hálendi Vatnajökuls býr til smáhlykk á bæði jafnhæðar- og jafnhitalínum. Þar um kring er helst að rastarinnar verði vart nærri jörðu.

Jafnhitalínur liggja nokkurn veginn samsíða röstinni. Frostið er um -23 stig þar sem hlýjast er í brúna litnum, en meira en -42 stig í þeim fjólubláa. Ef þykktin væri merkt á kortið í stað hitans mætti sjá að bratti þykktarsviðsins er nærri því að vera jafn hæðarbrattanum - og hallast til sömu hliðar. Það þýðir að vindur er lítill næst jörðu. Þykkt og hæð jafna hvor aðra út.

En þó ekki alveg og má sjá það á seinni myndinni. Hún sýnir ástandið í 925 hPa en sá flötur er á henni í um 800 metra hæð yfir jörðu yfir Íslandi. Merkingar eru þær sömu og á myndinni að ofan að öðru leyti en því að litakvarðinn sýnir ekki sama hita og þar.

w-blogg160313b

Hér eru jafnhæðarlínur miklu gisnari yfir landinu og vindur aðeins á bilinu 5 til 10 m/s. Hann vex hins vegar til austurs þar til komið er í 25 m/s milli Færeyja og Skotlands. Það svæði lítur rólega út á 500 hPa-kortinu - háloftavindur er hægur. Við getum giskað á að þykktarbratti sé mikill á slóðum þessa vindstrengs - takið eftir því hvað jafnhitalínur eru þéttar (stutt á milli litaskipta).

Mesti kuldinn er fjólublár á kortinu, þar er frostið -20 stig á smábletti. Við sjáum jafnhæðarlínur skera jafnhitalínurnar. Það þýðir að kalt loft streymir í átt til landsins. Auðvitað hitar sjórinn það baki brotnu á leiðinni til landsins en samt er varla hjá kólnun komist.

Þegar röstin hörfar aftur til vesturs fær kalda loftið betra rými. Spám ber ekki alveg saman um það hvernig það kemur niður á okkur og rétt að bíða með vangaveltur um það.

Þótt hæð og þykkt jafni hvora aðra út að mestu í þetta sinn er það ekki föst regla að þær geri það alltaf undir norðanröstum. Stundum fylgja þeim gríðarmikil kulda- og hvassviðrisframrás.

Skyldu háský (eða miðský) fylgja röstinni að þessu sinni?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.4.): 103
  • Sl. sólarhring: 131
  • Sl. viku: 1727
  • Frá upphafi: 2349687

Annað

  • Innlit í dag: 95
  • Innlit sl. viku: 1566
  • Gestir í dag: 91
  • IP-tölur í dag: 87

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband