Smálægðir á hraðferð í öfuga átt

Þegar þetta er skrifað (seint á þriðjudagskvöldi 19. mars) er mikið hríðarveður norðanlands og hvasst. Tvær smálægðir eru á hraðferð til suðvesturs yfir landið í nótt og í fyrramálið. Þótt lægðarmiðjurnar sæjust á kortum og gervinhnattamyndum var á mörkunum að hægt væri að greina lokaðar miðjur í þrýstisviðinu. Furðumikil snerpa fylgir þó lægðunum eins og glöggt má sjá á kortinu hér að neðan.

w-blogg200313a

Það sýnir sjávarmálsþrýsting (heildregnar línur), þykkt (strikalínur) og þrýstibreytingu síðustu þrjár klukkustundir á undan gildistíma kortsins. Hann er klukkan 18 á þriðjudagskvöldi. Þrýstilínurnar eru mjög þéttar vestan við tvær litlar lægðarmiðjur fyrir norðaustan land. Norðaustanstrengurinn er angi af einhverri mestu hæð síðustu ára við Norðaustur-Grænland. Kuldinn sést vel á þykktinni, megnið af landinu er innan við 5040 metra jafnþykktarlínuna. Alvöruvetur þar á ferð.

En ákefð þrýstifallsins kemur á óvart á undan smálægð sem kemur úr norðaustri. Þar má sjá (kortið skýrist við stækkun) töluna -7,3 hPa í rauðasta litnum. Sú varð líka raunin, þrýstingur féll um -7,3 hPa á Raufarhöfn og -7,7 á Fonti á þessum sama tíma. Fyrir tíma nákvæmra tölvuspáa gaf svo mikið og skyndilegt fall tilefni til stormaðvörunar. Þá var varla nokkur leið að sjá svona veður með sólarhringsfyrirvara, þakka mátti fyrir ef fyrirvarinn var 3 til 6 klukkustundir áður en stormurinn skall á.

Fyrri lægðin er merkt með tölunni 1 en sú seinni með 2. Braut seinni lægðarinnar veldur því að fljótt dregur úr storminum hér á landi - lægðin flytur strenginn til vesturs.

Stöðuna um hádegi á morgun má sjá á seinna kortinu.

w-blogg200313b

Kortið gildir klukkan 9 á miðvikudagsmorgni. Hér má sjá hversu hratt hlutirnir ganga fyrir sig. Báðar smálægðirnar eru nærri því horfnar en enn má þó sjá votta fyrir þeim sem lægðardrögum með þrýstifalli. Þrýstifallið á undan síðari lægðinni er enn býsna mikið, -4,9 hPa. Síðan er komin lægð númer þrjú. Hún er nýmynduð en þrýstingur hefur fallið um -7,7 hPa við miðju hennar frá því klukkan 9. Lægðin á að fara til vesturs og hvessir eitthvað af hennar völdum syðst á landinu. Trúlega slær einnig upp skýjabakka.

Hér hafa þrýstilínur yfir landinu gisnað umtalsvert - víðast hvar komið besta veður. Illviðrið lifir lengst á Vestfjörðum. Það hefur einnig hlýnað. Það er 5100 metra jafnþykktarlínan sem liggur á landinu. Hiti að minnsta kosti 3 stigum hærri heldur en var í dag, þriðjudag. Vissulega vetur en með minni vindi virðist hitinn hafa hækkað enn meir.

Af hæðinni miklu við Norðaustur-Grænland er það að frétta að þrýstingur á Station Nord fór hæst í 1061,7 hPa. Það er örugglega býsna nærri meti á þeim slóðum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 57
  • Sl. sólarhring: 399
  • Sl. viku: 1882
  • Frá upphafi: 2350618

Annað

  • Innlit í dag: 54
  • Innlit sl. viku: 1682
  • Gestir í dag: 54
  • IP-tölur í dag: 54

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband