Bloggfærslur mánaðarins, mars 2012

Tveir vindstrengir

Við lítum á spá um vind í 100 metra hæð. Hún gildir kl. 15 miðvikudaginn 21. mars. Kort sem þetta hefur áður sést á hungurdiskum.

w-blogg210312a

Örvar sýna vindátt og vindur er því sterkari eftir því sem þær eru lengri. Litir sýna einnig vindhraða. Rauðbleiki liturinn sýnir svæði þar sem vindur er meiri en 24 m/s, en þau svæði eru fjólubláleit þar sem vindhraðinn er á bilinu 14 til 24 m/s. Ef vel er að gáð má einnig sjá litla kassa með tölum, það eru reiknaðar vindhviður - sérmerkt eru þau svæði þar sem hviðurnar eru meiri en 25 m/s.

Vindstrengirnir tveir í fyrirsögninni eru á sitt hvort borð lægðarinnar á Grænlandssundi. Annar sýnir norðaustanæði í stíflunni meðfram Grænlandsströnd en hinn ámóta sterkur blæs úr suðvestri skammt úti af Breiðafirði og Vestfjörðum. Líklegt er að hans gæti eitthvað vestanlands í nótt og fram eftir miðvikudegi. Síðan gengur hann niður.

Þegar þetta er skrifað (um miðnætti á þriðjudagskvöld) er suðvestanstrengurinn skammt undan Suðvesturlandi. Á árum áður voru strengir af þessu tagi talsvert áhyggjuefni - vitað var um þá en ekkert um það hversu hvassir þeir voru. Sérstaklega var hættulegt að fá þá yfir (illa spáð) um miðjan dag þegar fiskibátar voru úti - jafnvel þótt vindur væri ekki meiri en 15 til 20 m/s.

Nú hefur bæði tölvuspám og öðrum upplýsingagjöfum farið fram - og færri litlir bátar á sjó - en samt er alltaf rétt að fylgjast náið með suðvestanskotunum.

Á myndinni má einnig sjá þriðja strenginn. Hann er milli Íslands og Bretlands á kortinu, norðvesturbrúnin mjög skörp. Hér eru óralöng hitaskil í hálfgerðu reiðuleysi. Lægð sem fylgir kuldapollinum sem var fjallað um á hungurdiskum í gær á að grípa þessi skil og gefa þeim svo mikinn slaka að þau berast um síðir norður um Ísland. Þeim fylgir þá sérstakt lægðardrag (eða lægð). Það er af tegund sem er í uppáhaldi hjá ritstjóranum fyrir fegurðar sakir. Sú fegurð leynist þó flestum - því miður.  


Einfalt efra - flókið neðra

Þegar ekki sést út úr lægðakerfasúpunni er oft gott að líta í upphæðir og fá aðalatriði málsins á hreint. Við lítum fyrst á venjulegt grunnkort, það er að segja spá um yfirborðsþrýsting og úrkomu. Kortið gildir kl. 18 þriðjudaginn 20. mars.

w-blogg200312a

Jafnþrýstilínur eru svartar, úrkoma (6 klst magn) er grænlituð og einnig má sjá jafnhitalínur í 850 hPa-fletinum, bláar þar sem hiti er undir frostmarki, en rauðar þar sem hiti er yfir því. Varla má greina að frostmarkslínan er græn.

Við sjáum að allmikil lægð er við Suður-Grænland en suðvestur af Íslandi er mikið kraðak úrkomusvæða og ef vel er leitað má finna þar bæði lægðir og lægðardrög - og hreyfist allt til landsins. Rauð breið lína sem merkt er A liggur markar ás þar sem hlýjast er í 850 hPa. Sé litið á jafnþrýstilínurnar má sjá að suðvestur af Írlandi beina vindar hlýja loftinu til norðurs. Það er reyndar aðalspurning dagsins hversu nærri Íslandi þessi gusa muni komast og sú næsta (enn utan korts) er líka efnileg.

Spár hafa upp á síðkastið reynt að beina mjög hlýju lofti til landsins - en það hefur oftast hörfað austur af þegar nær hefur dregið í spátíma. Kaldar, stuttar bylgjur úr vestri hafa alltaf náð að sparka því til austurs skammt suður af Íslandi. Gerist það enn á ný?

En eins og oftast að undanförnu hefur mjög kaldur strókur legið suður um Davíðssund vestan Grænlands, þar má sjá mínus 25 stiga jafnhitalínuna  þar sem blái bletturinn er settur á kortið en kalda loftið sækir í suðaustur og síðan til austurs.

Ef vel er að gáð má einnig sjá frekar kalt loft (ekki þó miðað við stað og árstíma) liggja í þröng meðfram austurströnd Grænlands norðan úr Dumbshafi og suður fyrir Ammasalik. Það reynir að ryðjast suður og suðvestur - en ýmist stíflast alveg eða ryðst áfram með miklum látum.

En þetta er allt saman skýrara uppi í 300 hPa í meir en 8 kílómetra hæð.

w-blogg200312b

Jafnhæðarlínur eru svartar og heildregnar en við sjáum lika hefðbundnar vindörvar. Auk þess eru svæði þar sem vindhraði er mestur lituð með grænum og bláum lit.

Við sjáum að lægðin við Suður-Grænland reynist vera gríðarlegur, nokkurn veginn hringlaga, kuldapollur með heimskautaröstina á bæði borð. Þetta kerfi ræður veðri hér næstu daga hvað sem minni lægðum og lægðardrögum líður. Röstin mikla vestan við pollinn mun teygja á honum til suðurs og þá aflagast sunnanáttin austan við - hvernig skyldi það fara?  

Þessi pistill ætti vel heima í pistlaröðinni froðuheimar og er ábyggilega sá 101. í þeim flokki.


Heiðasti marsdagurinn

Þá er komið að heiðasta marsdeginum í pistlaröðinni um heiðustu daga hvers mánaðar. Myndefnið er eins og oftast áður úr frábæru safni móttökustöðvarinnar í Dundee í Skotlandi. Það nær aftur til haustsins 1978. Keppnin nær hins vegar aftur til 1949.

Heiðasti dagurinn reiknast vera 19. mars 1996, þeir 14. 1962 og 31. 1999 eru þó skammt undan.

w-blogg190312a

Myndin er ekki sérlega skýr og batnar lítið við frekari stækkun. Við sjáum þó að skýjabönd eru við Austfirði og e.t.v. yfir hluta Norðausturlands. Það var mikið fyrirstöðuháþrýstikerfi sem réði ríkjum síðari hluta marsmánaðar 1996. Þennan ágæta dag var miðja þess yfir Suður-Grænlandi og hæg norðvestanátt í háloftunum yfir Íslandi en í henni leystast ský einatt upp í niðurstreymi austan Grænlandsjökuls. Loftþrýstingur fór í 1044,2 hPa í Bolungarvík þennan heiða dag og hefur ekki orðið hærri í mars síðan.

Líka er leitað að skýjaðasta deginum, sú keppni er þó allaf harðari og jafnvel ósanngjarnt að setja einn dag þar á toppinn frekar en aðra. En við reiknum samt og finnum 28. mars 1970, sem var laugardagur í dymbilviku. Dagurinn kemur dálítið á óvart í háloftavestanátt - en ört dýpkandi lægð var fyrir vestan land og um kvöldið gerði snarpt norðanáhlaup - kannski páskahret þess árs?

Einnig er leitað að besta og versta skyggninu. Við skulum taka enn minna mark á þeim niðurstöðum - en varla er hægt að sleppa slíkum metingi - fyrst tækifæri gefst til.

Best reiknast skyggnið hafa verið 20. mars 1996 - daginn eftir þann heiðasta. Það er nærri því trúlegt. Verst var það hins vegar 24. mars 1953. Þá var að ganga í norðanhálaup - eitt hið eftirminnilegasta á þessum tím árs. Sá sem þetta skrifar man það reyndar ekki. En Páll Bergþórsson getur um veðrið dagana 23. til 25. mars í bókinni góðu Loftin Blá(bls. 64) - farið nú og leitið hana uppi. En næstverst var skyggnið 28. mars 1970 (skýjaðasta daginn).   


Kuldapollurinn fer hjá

Miðja kuldapollsins sem pistill hungurdiska fjallaði um í fyrradag er nú um 300 km norðnorðaustur af Melrakkasléttu á leið til austsuðausturs. Eins og sagt var frá í fyrra pistli hefur hann ekki mikil áhrif hér á landi, enn er þó hugsanlegt að frost fari í -20 stig eða meira í nótt þar sem kaldast verður.

En við lítum á kort sem sýnir ástandið á miðnætti (laugardagskvöld). Þetta er þykktarspá frá evrópureiknimiðstöðinni, jafnþykktarlínur eru svartar og heildregnar, lituðu svæðin sýna hita í 850 hPa-fletinum.

w-blogg170312

Sé rýnt í kortið má sjá að innsta jafnþykktarlínan markar umfang svæðis þar sem þykktin er minni en 4940 metrar. Upphitun sjávar veldur því að hringirnir týnast smám saman, þykktin á að vaxa um 120 metra á næsta sólarhring en þá verður miðja pollsins komin nærri því til Noregs. Hlýtt loft sækir hins vegar að okkur úr suðvestri og er þar enn ein lægðin á ferð með leiðindaveðri.

Það þýðir lítið að ætla að telja upp lægðir næstu viku - þær kvu verða margar og sumar bæði blautar og mjög hlýjar. Spár hvísla um að heildarúrkoma næstu 10 til 11 daga verði yfir 100 mm í Reykjavík, það er ekki endilega rétt, en við fylgjumst með ef eitthvað óvenjulegt kemur upp.


Af afbrigðilegum marsmánuðum 1

Við lítum á fastan lið um afbrigðilega mánuði og er komið að mars. Hverjir eru mestu norðan- og sunnanáttamánuðir sem við vitum um? Til að ákveða það notum við sömu fimm flokkunarhætti og hungurdiskar hafa notað áður.

1. Mismunur á loftþrýstingi austanlands og vestan. Þessi röð nær sem stendur aftur til 1873. Gengið er út frá því að sé þrýstingur hærri vestanlands heldur en eystra séu norðlægar áttir ríkjandi. Líklegt er að því meiri sem munurinn er, því þrálátari hafi norðanáttin verið.

Mesti norðanáttarmars að þessu máli var 1891. Þá var mjög kalt, á landinu í heild er hann sá næstkaldasti eftir 1870 en samt talsvert hlýrri heldur en mars 1881. En það er mars 1930 sem er næstmestur norðanáttarmánaða. Í þriðja sæti er mars 1916 og mars 1962 í því fjórða. Einhverjir muna væntanlega mars 1930 og eldri veðurnörd muna vel mars 1962 - hann var afspyrnuþurr um landið sunnan- og vestanvert. Í Reykjavík féllu ekki nema 2,3 mm allan mánuðinn, mestallt á einum degi, rykið var afskaplegt.

Samkvæmt þessu tali er 1923 mesti sunnanáttarmars allra tíma enda er mánuðurinn sá þriðji hlýjasti á landinu í heild eftir 1870. Hann þótti út úr korti á sínum tíma, jafnvel talinn einstakur. En aðeins 6 árum síðar kom enn hlýrri mars, 1929. Þá féll sá fyrrnefndi óverðskuldað í hálfgerða gleymsku. Freistandi væri að segja að hlýindaskeiðið mikla hafi hafist með þessum mánuði en leit að upphafi þess stendur enn yfir. Það er hinn gríðarlega illviðrasami mars 1976 sem er í öðru sæti sunnanáttarmánaða og síðan mars 1880.

2. Styrkur norðanáttarinnar eins og hann kemur fram þegar reiknuð er meðalstefna og styrkur allra vindathugana á öllum (mönnuðum) veðurstöðvum. Þessi röð nær aðeins aftur til 1949.

Samkvæmt þessu máli var norðanáttin mest í mars 1999 og síðan kemur 1981. Mars 1962 er í fjórða sæti. Sunnanáttin var hins vegar mest í mars 1974 - þá var ég erlendis, innlend nörd minnast hans væntanlega með virðingu í huga.

3. Gerðar hafa verið vindáttartalningar fyrir þær veðurstöðvar sem lengst hafa athugað samfellt og vindathugunum skipt á 8 höfuðvindáttir og prósentur reiknaðar. Síðan er tíðni norðvestan, norðan, og norðaustanáttar lögð saman. Þá fæst heildartala norðlægra átta. Þessi röð nær aftur til 1874.

Hér nær mars 1962 fyrsta sætinu með sínu ryki og þurrki, éljagangur var norðaustanlands en úrkoma þó ekkert sérlega mikil. Mars 1999 er í öðru sæti og 1930 í því þriðja. Mest var sunnanáttin að þessu máli 1964 og 1929 er skammt þar fyrir neðan. Þetta eru tveir langhlýjustu marsmánuðirnir á landsvísu, 1929 nokkru hlýrri þó. Hlýjasti kaflinn 1964 hitti ekki alveg jafnvel í mánuðinn því eftirminnilegustu hlýindin stóðu frá því um 10. febrúar og fram yfir 20. mars.

4. Fjórði mælikvarðinn er fenginn úr endurgreiningunni amerísku og nær hann aftur til 1871. Fyrstu 20 til 30 árin verðum við þó að taka niðurstöðum greiningarinnar með varúð.

Hér er mars 1891 með mestu norðanáttina - rétt eins og í fyrstu flokkun hér að ofan. Vel af sér vikið. Reyndar deilir hann sætinu með 1999 (einnig áður nefndur) og 1951 en síðarnefndi mánuðurinn er enn frægur fyrir óheyrileg snjóþyngsli um landið norðan- og austanvert. Svellalög voru syðra.

Sunnanáttin er mest í endurgreiningunni í mars 1923 og þar á eftir kemur 1974, báðir nefndir áður.

5. Fimmti kvarðinn er einnig úr endurgreiningunni nema hvað hér er reiknað í 500 hPa-fletinum. Hér er mars 1891 enn í toppsætinu og í mars 1916 var norðanáttin næstmest. Sunnanáttin var hins vegar mest 1948 (munum hitametahrinuna í lok mánaðarins) og mars 1923 er í öðru sæti.

Lýkur nú þessari þurru tölu - sem trúlega rennur ljúflega niður hjá nördunum en aðrir bryðja rykið og koma sér yfir á einhverja aðra vefsíðu (eru auðvitað löngu búnir að því þegar hér er komið sögu).


Kuldapollur við Norðaustur-Grænland

Nú fer gengur snarpur kuldapollur frá Norðaustur-Grænlandi til austsuðausturs fyrir norðan land. Hans mun lítið gæta hér á landi en við lítum samt á fyrirbrigðið á tveimur spákortum frá evrópureiknimiðstöðinni. Það fyrra gildir á miðnætti á föstudagskvöld (16. mars) en það síðara 24 stundum síðar, á laugardagskvöld.

w-blogg160312a

Á kortinu er Ísland neðarlega fyrir miðju, Grænland teygir sig yfir mestallan vesturhluta kortsins og við brúnina til hægri sést í strönd Noregs. Það er eftirtektarvert að stór hluti þessa svæðis sést nær aldrei á sjónvarpskortum - jafnvel þótt sitthvað athyglisvert berist hingað að norðan.

Heildregnu (daufu) gráleitu línurnar sýna þrýsting við sjávarmál. Við sjáum grunna lægð við norðurströnd Íslands, 997 hPa í lægðarmiðju, öflugri lægð er utan við Mæri í Noregi. Sú þriðja er milli Noregs og Svalbarða og sú fjórða vestan Grænlands. Hæð er hér sett yfir Grænlandi - en ekki er víst að hún sé raunveruleg.

Lituðu svæðin sýna hæð 500 hPa-flatarins. Mörkin á grænu og bláu eru við 5280 metrana - en það er ekki fjarri meðalhæð á þessum árstíma hér á landi. Á fjólubláa svæðinu er hæðin innan við 4920 metra. Þar er miðja kuldapollsins sem myndar lokaða háloftalægð, rétt eins og bogfimiskotskífa.

Það er 1008 hPa jafnþrýstilínan sem gengur þvert í gegnum miðju pollsins - 8 hPa jafngilda rúmum 60 metrum. Þegar við vitum það getum við auðveldlega reiknað þykktina í miðju kuldapollsins án þess að horfa á þykktarkort. Ælti hæð 500 hPa í miðjunni sé ekki við 4900 metra, við drögum 60 metra frá því og fáum út þykktina 4840 metra. Það er ískyggilega lágt, aðeins 100 metrum meira en ísaldarþykktin sem hungurdiskar nefna svo.

Um leið (og þá alveg um leið) og kuldinn kemur út yfir auðan sjó byrjar að sjóða í pollinum og þykktin hækkar óðfluga. Spáin segir að þykktaraukningin verði 30 metrar á hverjum 6 klukkustundum. Það eru um 120 metrar á sólarhring, sem samsvarar nokkurn veginn 6 stiga hlýnun. Reiknilíkanið gerir ráð fyrir því að 20 stiga hitamunur sé á sjávaryfirborði og hita í 600 metra hæð rétt utan við ísröndina. Úr þessu verður mikill lofthrærigrautur.

En berum nú saman hringrás kuldapollsins (vindur fylgir jafnhæðarlínum) og þrýstikerfa við sjávarmál. Á kortinu virðist sem sjávarmálskerfin hafi hreinlega ekki frétt af ástandinu í 5 km hæð - þetta minnir á það sem hungurdiskar hafa kallað þverskorna kuldapolla. Reyndar er þetta vægt dæmi um slíkt.

Við megum taka eftir því að efri hringrásin er við það að grípa lægðina við Norðurland, ofan við hana er komin suðvestanátt. Enda mun hún flækjast í netinu. Kortið að neðan gildir sólarhring síðar, en táknmálið er það sama.

w-blogg160312b

Nú ber svo við að lægðin er komin inn undir miðju pollsins og er orðin 971 hPa í miðju. Hefur dýpkað um 26 hPa á einum sólarhring og sé að marka spána er vindur í kringum hana meiri en 25 m/s og hviður í 40 m/s. Auk þess er blindhríð í skýjasveip sem hringar sig um lægðarmiðjuna.

Kuldapollurinn er það stór að tölvuspár ná því að spá fyrir um hreyfingar hans tvo daga fram í tímann. Ótrúlegt er að þær nái þróun lægðarinnar litlu nákvæmlega - og hún verði í raun einmitt svona. Séu nokkrar tölvuspár bornar saman kemur í ljós að sögurnar sem þær segja eru ekki nákvæmlega eins. Bæði gfs-spáin ameríska og kanadíska spáin láta lægðina ekki dýpka eins mikið og reiknimiðstöðin gerir auk þess verði hún aðeins austar en sýnt var að ofan. Hirlam-spáin fer með lægðina austar en kortin en þar er farið niður í 967 hPa í miðju lægðarinnar, ótrúlegt!

Við bíðum auðvitað spennt eftir því hvað gerist. Það er 5060 metra jafnþykktarlínan sem á að sleikja Norðausturland síðdegis á laugardag. Það er varla að það dugi í -20 stiga frost í innsveitum - fer auðvitað eftir skýjafari líka.


Norðurhvelsástandið nokkrum dögum fyrir jafndægur á vori

Stutt er nú í jafndægur og gaman að líta aðeins á norðurhvelsástandið. Ef trúa má spánum veður ýmislegt óvenjulegt í boði í kringum helgina. En kortið gildir kl. 18 á föstudag, 16. mars. Litadýrð þess er mikil og lesendur mættu þess vegna taka sér dálítinn tíma í að átta sig á því hvernig landaskipan er undir öllum litum og línum. Hægt er að stækka kortið lítillega með því að tvísmella sig inn að ívið skýrari útgáfu. Spáin er í boði evrópureiknimiðstöðvarinnar.

w-blogg150312a

Fáeinar örvar benda á þekkta staði. Heildregnu, svörtu línurnar sýna hæð 500 hPa-flatarins í dekametrum en lituðu fletirnir þykktina - líka í dekametrum. Sjá má að í aðalatriðum fylgjast þykkt og hæð að - en ekki þó alveg.

Á kortinu (síðdegis á föstudag) er Ísland í köldu lægðardragi. Græni liturinn byrjar við 5280 metra sem er nálægt meðaltalinu á þessum árstíma við Ísland - en við erum vel undir því, 5160 metra jafnþykktarlínan liggur um landið þvert. Skammt norður af því er snarpur kuldapollur þar sem þykktin er minni en 4920 metrar (fjólublái liturinn). Hann er í dag (miðvikudag) að fara yfir Norður-Grænland en mun að sögn ekki ná alveg hingað til lands heldur snarbeygja til austurs á laugardag og sunnudag. En við skulum líta betur á hann næstu daga - þá á mun skýrara korti.

Við sjáum að allt í kringum norðurhvelið skiptast á hlýir öldufaldar og kaldir öldudalir, bylgjurnar í vestanvindabeltinu. Þær ganga mishratt yfir - þær stuttu og minni eru oftast á hraðri austurleið, tengjast einstökum lægðum - en þær stærri og lengri fara hægar yfir. Bylgjusamskipti eru þó almennt það flókin að afkastamikil tölvulíkön þarf til að segja um hvernig mynstrið þróast.

Sitthvað óvenjulegt er í stöðunni. Í miðvesturríkjum Bandaríkjanna streymir mjög hlýtt loft til norðurs, þykktin á að fara upp í um 5600 metra norður að Kanadísku landamærunum og því er yfir 20 stiga hita spáð í Minnesota um helgina og enn meiri hita sunnar. Hér áður fyrr hefði nú verið sagt að þeim ætti eftir að hefnast fyrir blíðuna.

Sé litið á Bandaríkin í heild er þeim kannski þá þegar að hefnast því lægðardragið við vesturströnd meginlandsins hefur valdið óvenjulegri snjókomu í Oregon - allt niður á strönd þar sem varla festir snjó á þessum árstíma. Fram á sunnudag á lægðardragið að grafa sig suður með ströndinni og 5280 metra jafnþykktarlínan á að ná alveg suður til Los Angeles - það er harla óvenjulegt og mikil frosthætta þar í sveitum - ávextir jafnvel í hættu - ég veit ekki hvernig vínviður er stemmdur á þessum árstíma. En fjögurra daga spár um svona mikinn kulda hafa tilhneigingu til að linast þegar nær dregur - vonum að svo verði einnig nú.

Austur í Japan er einnig von á miklu kuldakasti. Þykktin nyrst í landinu á að fara niður undir 4920 metra á sunnudag eða mánudag. Það er e.t.v. ekki mjög óvenjulegt því landið er í braut endalausra kuldakasta frá Síberíu á vetrum. Síberíukuldapollurinn hefur í dag verið kröftugastur kuldapolla á norðurhveli. Þykktin í honum miðjum er af ísaldarstyrk, minni en 4740 metrar.

Lægðardragið yfir Svartahafi og Tyrklandi er líka frekar óvenjulegt, það snjóar ábyggilega í fjöll á Kýpur og í Líbanon um helgina. Varla þó suður í Jerúsalem. Hins vegar er óvenju hlýtt á Bretlandseyjum og í Vestur-Evrópu þessa dagana. Um helgina á hins vegar að skipta um háþrýstisvæði og meðan á því stendur ryðst kalt loft að norðan allt suður til Norður-Spánar og mun e.t.v. snjóa þar í fjöll um helgina. Viðbrigðin verða einnig leiðinleg í vesturhluta Frakklands. En síðan tekur vorið aftur við á þeim slóðum - sé að marka tölvuspárnar.  


Leiðin liggur enn um suðausturströndina

Svo virðist sem við sjáum nú enn eina kröppu lægðina strjúka suðausturströndina með vestan- og norðvestanhvassviðri en láti aðra hluta landsins að mestu í friði.

Rétt er þó að taka fram að nokkur óvissa er alltaf í brautarspám þótt innan við sólarhringur sé til stefnu. En lítum á spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um ástandið kl. 12 miðvikudaginn 14. mars. Aldrei þessu vant er um mjög „venjulegt“ veðurkort að ræða - vantar að vísu eitthvað af skilum til þess að gera íhaldssama ánægða. Fari menn að gerast íhaldssamir að ráði vantar líka jafnþrýstibreytingarlínur og alls konar falleg merki.

w-blogg140312a

En lægðin krappa er þarna beint sunnan við land og á að fara þá leið sem örin sýnir. Talsverð úrkoma fylgir lægðinni. Yfir sjónum er þetta aðallega rigning - en fari meginkjarni úrkomusvæðisins um Suðurland gæti í versta falli snjóað talsvert - í norðanátt. Það er ekki mjög algengt sunnanlands. Kerfið fer mjög fljótt hjá - en rétt að ferðamenn fylgist með spám Veðurstofunnar eða annarra til þess bærra fagaðila (svo slett sé stofnanamáli).

Við sjáum að önnur lægð fylgir á eftir og fer hún um síðir líka til norðausturs en lengra frá landi heldur en sú fyrri. Hún er líka annarrar gerðar eins og við sjáum greinilega á mynd hér að neðan.

En áður en við yfirgefum kortið skulum við taka eftir hitamynstrinu. Óvenjuleg hlýindi eru yfir Frakklandi og norður um Bretlandseyjar og er hiti þar meiri en 10 stig í 850 hPa. Vestanhafs er gríðarlega kalt, við sjáum t.d. -10 stiga jafnhitalínuna teygja sig langt til austurs frá Nýfundnalandi og svæði með meir en -20 stiga frosti í 850 hPa liggur til suðurs um Davíðssund milli Labrador og Suður-Grænlands. Við þökkum bara fyrir það að það er eins og lægðirnar þrjár reiki um í eigin heimi en sameinast ekki um eitt eða neitt.

En gervihnattamynd sem tekin var kl. 23 í kvöld (þriðjudaginn 13. mars).

w-blogg140312b

Við sjáum lægðirnar þrjár (óþarflega lítil rauð L). Lægðin krappa er að taka á sig svip á um 55 gráðum norður og 26 gráðum vestur. Hvítur skýjabakkinn markar vel stöðu heimskautarastarinnar og við sjáum á bylgjulagi bakkans að þarna er væntanlega að verða til það sem við köllum riðalægð. Á morgun kemur fram krókur í kringum lægðarmiðjuna - eins og margir lesendur vita.

Lægðin á Grænlandshafi er búin að lifa sitt hefðbundna króksstig á enda og vindur virðist ganga nokkuð sammiðja í kringum hana uppúr og niður úr. Hún deyr þó ekki alveg og mun reika um fyrir vestan land með náhvítar rendur og smásveipi fram á helgi. Þeir sem hafa lítið að gera geta fylgst með heilsufari hennar á hitamyndum sem birtast að jafnaði á klukkustundarfresti á vef Veðurstofunnar.

Þriðja lægðin, sú sem er lengst í burtu, hefur ekki enn náð áttum (eftir að hún hleypti riðalægðinni í gegnum sig - eða fæddi hana - ekki gott að segja þar um). Við sjáum óreglulega bakka og smásveipi, jafnvel nokkrar lægðarmiðjur. Ný - en lítil riðalægð mun sennilega fæðast á svæðinu til morguns. Gerist það tekur sú strikið í átt milli Færeyja og Íslands - en skilur enn eftir óljosa hringi og bakka.

Það fer ábyggilega einhvern veginn.


Hæsti loftþrýstingur í mars

Fyrir nokkrum dögum gekk óvenju djúp lægð yfir landið og fór loftþrýstingur þá niður fyrir 950 hPa en það hafði aðeins gerst fjórum sinnum áður svo vitað sé. Um það var fjallað í pistli þann 7. mars. Fyrst búið var að nefna lægsta marsþrýstinginn er rétt að nefna þann hæsta líka.

Loftþrýstingur hefur aðeins einu sinni mælst meiri en 1050 hPa, svo vitað sé, í mars hér á landi. Það var 6. mars 1883. Vestmannaeyjar náðu metinu sjálfu, 1051,7 hPa, en þrýstingur fór í eða yfir 1050 á öðrum stöðvum sem mældu á landinu þennan dag. Það er gaman að segja frá því að ameríska endurgreiningin hittir mjög vel á þennan atburð. Sjávarmálsþrýstingur greiningarinnar fór í 1052,4 hPa í nágrenni við landið á miðnætti aðfaranótt þess 6.

Veturinn 1882 til 1883 var almennt talinn góður og fékk einna best eftirmæli allra vetra á 9. áratug 19. aldar. Ekki er þó víst að hann hefði verið talinn sérlega hagstæður nú á tímum kröfuharðra veðurnotenda. En páskahretið skilaði sér ásamt nær árvissum stórslysum á sjó.

Næsthæsti marsþrýstingurinn mældist á Galtarvita þann fyrsta árið 1962, 1048,5 hPa. Þetta háþrýstisvæði var reyndar farið að minnka þegar hér var komið sögu en þann 26. febrúar hafði þrýstingurinn farið í 1051,7 hPa á Akureyri og jafnhátt á Dalatanga þann 25.

Í þriðja sæti á marslistanum er svo 1048,1 hPa sem mældust í Stykkishólmi þann 10. árið 1887.

Nördin eru sérstaklega upplýst um það að lægsti mánaðarháþrýstingur marsmánaðar er 1010,8 hPa sem mældust á Galtarvita þann fyrsta hinn fræga og illskeytta vetur 1989.


Hæðarbratti - þykktarbratti

Þessi pistill kann að vera í erfiðara lagi fyrir flesta lesendur. Er beðist velvirðingar á því - vonandi verða þeir næstu léttari.

Í dag (sunnudag 11. mars) er mikil háloftavindröst yfir landinu (sjá  blogg Einars Sveinbjörnssonar  þar um). Hún var svipuð í gær og þessa tvo daga var lengi vel mjög hvass vindur víða á landinu en er þegar þetta er skrifað (um miðnæturbil) er farið að lægja. Stundum fer saman mikill vindur í háloftunum og stormur nærri jörð - en stundum verður varla vart við háloftavindana þótt þeir blási sem aldrei fyrr. Við jörð er vindur þá hægur.

Hér skiptir öllu máli hvernig þykktarbratta er háttað undir röstinni. Já, hungurdiskar hafa bent á þetta áður - en sjaldan er góð vísa of oft kveðin. Lítum nú á greiningarkort frá evrópureiknimiðstöðinni í dag (sunnudag) kl. 12. Málefnisins vegna er hér aðeins sýndur hluti af stærra korti. Það kann að hafa komið aðeins niður á upplausninni.

w-blogg120312a

Eins og venjulega eru jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins heildregnar og svartar, en jafnþykktarlínur eru rauðar og strikaðar. Allar tölur eru í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Bleikgráu svæðin (ef eitthvað er til sem heitir bleikgrár litur) sýna iðuna í fletinum - en við látum hana alveg liggja á milli hluta.

Flöturinn er mjög brattur, það er 5760 metra jafnhæðarlínan sem liggur yfir Suðureyjar við Skotland  (fremur óvenjulegt á þessum árstíma svo norðarlega), en sú lægsta sýnir 4980 metra (yfir Grænlandi). Munurinn er 780 metrar og nægir í að búa til 75 m/s í 500 hPa þar sem línurnar eru hvað þéttastar yfir Íslandi norðvestanverðu.

Þykktarbrattinn er líka mikill, 5460 metra jafnþykktarlínan liggur við Færeyjar og þykktin er yfir 5500 metrum yfir Bretlandi. Það er 5040 metra jafnþykktarlínan sem sker 4980 metra jafnhæðarlínuna yfir austurströnd Grænlands. Þykktarsviðið hallast sum sé um (5500-5040=) 460 metra.

Hæðarsviðið hallast því meira heldur en þykktarsviðið og það er einmitt það sem fræðsla dagsins bendir á. Við lítum því nánar á sviðin tvö yfir Íslandi. Til að gera það hafa tveir punktar verið lauslega merktir á kortið með bókstöfunum X og Y. Svo þægilega vill til að við X-ið eru bæði hæð og þykkt merkt sömu tölu, 5160 metrum, mismunurinn er núll. Við Y-ið er hæðin orðin meiri heldur en þykktin, við reiknum muninn út; hæðin er 5460 metrar en þykktin 5340 metrar, munurinn er 120 metrar. [Hér verður líklega að benda á það að mikil sveigja er á 5340 metra jafnþykktarlínunni í námunda við Vatnajökul.] Við getum líka tekið eftir því að 5 jafnhæðarlínur eru á móti 3 jafnþykktarlínum á bilinu milli punktanna.

Hæðarsviðið hækkar 120 metrum meira heldur en þykktin á milli bókstafapunktanna. Og hvað þýðir það? Við rifjum upp að þykktin er skilgreind svo: Hæð 500 hPa mínus hæð 1000 hPa = þykkt. Það munar því 120 metrum á hæð 1000 hPa-flatarins í X og Y.

Lítum á annað kort - mun kunnuglegra. Venjulegt þrýstikort af Íslandi þar sem jafnþrýstilínur eru svartar og heildregnar.

w-blogg120312b

Kortið gildir á hádegi, sama tíma og efra kortið. Punktarnir X og Y eru settir nokkurn veginn þar sem þeir eru á hinu kortinu (sennilega eru réttir staðir alveg í jaðri kortsins). Nú má telja jafnþrýstilínur á milli punktanna. Þær eru 15 (sé linan undir X-inu talin með). Þrýstisviðið hallast um 15 hPa á þessu bili. Nú fellur þrýstingur um það bil um 1 hPa á hverja 8 metra lóðrétt, 15 hPa jafngilda því 120 metrum.

Þetta eru auðvitað sömu 120 metrarnir á báðum kortunum. Nú ættu lesendur að sjá að hefðu jafnþykktarlínurnar verið jafnþéttar og jafnhæðarlínurnar væri enginn munur á sjávarmálsþrýstingi á milli punktanna X og Y. Háloftaröstin hefði farið alveg framhjá öllum nema æstustu veðurnördum og fáeinum flugmönnum. Hefði hins vegar engin jafnþykktarlína legið á milli punktanna hefði háloftaröstin náð til jarðar. Þá hefði þrýstimunurinn verið 300 metrar - það eru víst 38 þrýstilínur. Ekki skemmtilegt veður það.

Svo vill til að jafnþykktarlínur eru oftast nokkuð þéttar undir háloftaröstum og létta því á áhrifum rastanna við jörð - en ekki þarf brattinn að vera mjög misjafn til að illa fari. Í framhaldi af þessu geta komið fleiri spurningar. Þær mest knýjandi er auðvitað þessar: Hvað gerist ef það eru jafnþykktarlínurnar sem eru þéttari heldur en jafnhæðarlínurnar? Hvað ef þær liggja alls ekki samsíða?

Svörin hafa reyndar birst á hungurdiskum áður - en við bíðum raunverulegra dæma til frekari umfjöllunar.  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg010125i
  • w-blogg010125
  • w-blogg271224a
  • w-blogg271224aa
  • w-blogg261224ia

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.1.): 1065
  • Sl. sólarhring: 1108
  • Sl. viku: 3455
  • Frá upphafi: 2426487

Annað

  • Innlit í dag: 952
  • Innlit sl. viku: 3108
  • Gestir í dag: 923
  • IP-tölur í dag: 855

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband