Bloggfærslur mánaðarins, mars 2012

Það kemur fyrir

Það kemur fyrir að hlýtt loft berst yfir landið úr norðvestri. Venjulega er loftið þá hlýtt eftir að hálendi Grænlands hefur dregið það niður úr mikilli hæð. Loftið hlýnar um 1°C á hverja 100 metra lækkun þar til það fer að blandast kaldara lofti sem liggur í neðri lögum austan Grænlands - og ekki nær blöndunin alltaf alveg niður að veðurstöðvum þar sem hitans verður vart.

Þótt hitabylgjur af þessu tagi séu ekki beinlínis algengar eru þær engu að síður framlag Grænlands til að halda uppi hita hér á landi. Rétt eins og það stíflar oftast kulda að vestan eða beinir suðurfyrir þar sem hann hlýnar að neðan yfir sjó sem á enn varmabirgðir frá liðnu sumri. Stöku sinnum nær kuldinn upp fyrir stíflugarðinn og Grænlandsjökull dugir ekki til og Grænland tekur líka þátt í illviðramyndun og norðanáhlaupum hér á landi - en það er önnur saga.

En hungurdiskar mæla gjarnan hita með þykktarmælinum góða sem sýnir vel hita í neðri hluta veðrahvolfsins. Mesta þykkt sem vitað er um í mars yfir Íslandi varð til í norðvestanátt frá Grænlandi, 18. mars 1979. Þetta var kaldasta ár sem allir Íslendingar á aldrinum frá 33 til 94 ára hafa lifað. Ekki síst þess vegna er þessi dagur svo merkilegur. Hann er gott dæmi um að lítið samband er á milli einstakra veðuratburða og veðurfars lengri tíma. Meira að segja var þessi mánuður, mars 1979, óvenju kaldur.

En þykktin yfir Suðvesturlandi fór í 5520 metra þennan merkilega dag. Hlýindanna gætti ekki svo mjög á veðurstöðvunum, þó komst hiti í 12,4 stig á Torfufelli í Eyjafirði - 215 metra yfir sjó. Því miður var engin stöð á fjallatindum eins og Gagnheiði. Mikið kuldakast fylgdi í kjölfarið.

En nú (aðfaranótt sunnudags 11. mars) er mjög hlýtt loft á leið yfir landið. Þegar þetta er skrifað, skömmu eftir miðnætti, hefur mest frést af 14,3 stigum á Eskifirði, það er mjög nærri dægurmeti 10. mars. Hæsta tala sem er færð á þann dag er 14,5 stig á Haugi í Miðfirði 2004 - en þar mun vera um svokallað tvöfalt hámark að ræða, leifar frá hlýjum gærdegi - en þann dag fór hiti í 15,2 stig á Siglunesi. Mestur hiti sem skráður er á þann 11. er líka 14,5 stig. Það var á Akureyri 1953.

Ljóst er því að mjög litlu munaði að dægurmet þess 10. væri slegið nú, og enn er ekki útséð með þann 11. Möguleikar eru fyrir hendi fram undir morgun - en þá nær heldur kaldara loft undirtökunum. Það hefur undirtökin í bókstaflegri merkingu því það fleygast inn undir hlýindin sem halda velli í efri hluta veðrahvolfs. Það þýðir að vestanéljagangur sunnudagsins verður heldur tætingslegur - en einhver samt, kannski nægilegur til dimmviðris á fjallvegum og hálku í byggð. Hér skal ekki spáð um það. Svo hlýnar fljótt á ný og lægðagangurinn heldur áfram.


Spennandi kvöld?

Nú (laugardaginn 10. mars) fer mjög hlýtt loft yfir landið. Það hefur nokkrum sinnum gerst að undanförnu og þrátt fyrir stuttan stans hefur háum hita brugðið fyrir austanlands og norðan.

Í dag heldur hlýja loftið venju sinni og fer mjög hratt hjá en þar sem hvasst er í lofti er rétt að gefa því góðan gaum í kvöld og fram eftir nóttu.

Mættishita í 850 hPa er spáð upp í 21,5 stig yfir Austurlandi kl. 18 og þykktin slæst upp undir 5550 metra.

Varla er þess samt að vænta að met verði slegin - helst þá dagsmet 10. mars.

Má vera að við lítum betur á málið síðar í kvöld.


Köldustu marsdagarnir

Við lítum á köldustu daga marsmánaðar í syrpunni köldustu og hlýjustu. Reiknaður er meðalhiti allra marsdaga (sólarhringsmeðaltal) frá 1949 til 2011 og búinn til listi. Einnig eru reiknaðir listar fyrir þá daga þegar meðallágmark allra stöðva var lægst og þá daga sem meðalhámark var lægst.

Fyrsti listinn sýnir lægsta meðalhita allra veðurstöðva.

röðármándagurmeðalh
1196938-16,81
21968331-15,16
3196939-14,74
4199836-13,73
51992314-13,35
6196936-12,96
71965324-12,63
8196937-12,63
91969310-12,22
10199837-11,84
11199835-11,47
121992313-11,43
131965322-10,75
14199831-10,69
151965325-10,49

Við tökum (eins og venjulega?) eftir því að ekkert ár á listanum byrjar á 20. Yngsta kuldakastið sem kemst inn á listann var snemma í mars 1998. Margir muna þá köldu daga og sérstaklega að hiti fór þá niður í -34,7 stig við Mývatn aðfaranótt þess sjöunda. Svo lágt hafði hiti ekki komist á landinu síðan í janúar 1918 og ekki (mælst) í mars síðan 1881. Kuldakastið 1998 á fjóra daga meðal 15. köldustu.

En mars 1969 á fimm daga, 6.,7.,8., 9. og 10. Þetta er ábyggilega mesta kuldakast marsmánaðar allt það tímabil sem hér er litið til. Tveir litlir bátar fórust á Faxaflóa og fleiri lentu í erfiðleikum þar og við Breiðafjörð vegna mikillar ísingar. Lagnaðarís olli erfiðleikum víða í höfnum. Svo var auðvitað hafís fyrir Norðurlandi öllu þessa daga og suður að norðanverðum Austfjörðum.

Dagarnir köldu 1965 fylgdu einnig mestu hafískomu um áratugaskeið. Ég veit ekki hvers vegna en af einhverjum ástæðum man ég sérlega vel eftir sjálfum mér baksa á móti ísköldum norðanstrekkingnum utan við Útibúið svonefnda í Borgarnesi einn þessara daga. Þá var auð jörð. Útibúið var matvöruverslun sem stóð á gatnamótum Borgarbrautar og Böðvarsgötu. Nafnið festist fljótt við húsið eftir að það var flutt neðan frá mjólkursamlagi - þá hét það Bílastöðin (með stóru B). Það er líka eftirminnilegt að örfáum dögum siðar gerði hálfgerða hitabylgju - strandlífs varð vart í Englendingavík í Borgarnesi innan um ísjakana.

En meðallágmarkslistinn er svona:

röðármándagurmlágmark
1196939-18,66
2196938-18,56
3196936-17,08
41968331-16,09
51992314-15,87
6199837-15,84
7199836-15,63
81969310-15,15
91965324-14,92
10199831-14,81

Þrír dagar úr mars 1969 eru efstir (kaldastir) - meðallágmark þann 9. -18,7 stig. Kuldakastið 1998 er einnig áberandi og auðvitað 31. mars 1968.

Og meðalhámarkslistinn:

röðármándagurmhámark
1196938-13,84
2196939-12,42
31992314-10,23
4196936-10,14
5199836-10,04
61969310-9,69
71968331-9,28
8196937-8,94
91988313-8,55
101965324-8,14

Utan skammdegisins eru þeir dagar sem lægst meðalhámark eiga oftast bæði vindasamir og skýjaðir - sólin er máttlítil í skýjuðu veðri. Ekki er víst að það eigi við alla dagana á þessum lista. Þar eru 8. og 9. mars 1969 langefstir en síðan skýtur dagur í mars 1992 sér upp í þriðja sætið með skammvinnu norðanáhlaupi og 13. mars 1988 sýnir sig líka.


Snyrtilegur éljagangur

Eftir að snjókomubakki hraðfara lægðar fór hjá í morgun (fimmtudag) hefur síðdegis og í kvöld verið snyrtilegur éljagangur um allt suðvestan- og vestanvert landið, dæmigerður útsynningur. Mikla éljaklakka ber við himin og dimm él ganga yfir jafnvel með skafrenningi og slæmu skyggni. Að deginum er sólskinið á milli élja enn bjartara heldur en venjulega þegar það endurkastast af skýjunum og af snjóföli á jörð. Á nóttum lúrir hálkan á götum og vegum, sérlega varasöm fyrir þá sök að sólin hefur nú loksins fengið þann mátt að bræða snjó af svörtu malbiki og jafnvel sumum gangstéttum þegar hiti er nærri frostmarki.

Við lítum nú á mynd úr veðursjá Veðurstofunnar á Miðnesheiði á miðnætti (aðfaranótt föstudags 9. mars).

w-blogg090312a

Mér er reyndar alltaf um og ó að skrifa um ratsjármyndir - þekkingin á þeim er nefnilega ekki upp á marga fiska á hungurdiskum. En lituðu flekkirnir sýna úrkomu og ský. Best sér veðursjáin hálfbráðinn snjó (slyddu) en einnig sjást dropar og snjóflyksur. Þessar úrkomutegundir eru þó misháværar og reiknikúnstir þarf til að ná út raunverulegri úrkomuákefð. Það reynir hugbúnaður veðursjárinnar að gera og stingur sjálfvirkt upp á ágiskuðum magntölum. Það eru þó ekki þær sem sjást á þessari mynd - heldur styrkur endurkastsins.

Úrkoma mun mest í örsmáum rauðum blettum og einnig allmikil í gulu og jafnvel grænu. Éljabakkarnir eru mjög óreglulega dreifðir en ef maður horfir nógu lengi á myndaraðir virðist manni einna helst að þeir raði sér aðeins i línur samsíða vindáttinni. Ekki er það þó víst í þessu tilviki.

Það að dreifingin er svona óskaplega óregluleg bendir e.t.v. til þess að vel sé hrært í grautnum - enda er loftið afskaplega óstöðugt. Á miðnætti voru veðrahvörfin í 400 hPa-fletinum yfir Keflavík (um 7 km hæð) og höfðu um hádegi farið niður í 5 kílómetra, loftið er afskaplega vel blandað upp í þá hæð. Vindátt er mjög svipuð frá jörð og upp fyrir veðrahvörf. Í þeim er nú -47 stiga frost.

Á veðursjármyndunum (sjá vef Veðurstofunnar) er hægt að fylgjast með hreyfingu hverrar éljaeiningar fyrir sig. Sé það gert kemur í ljós að hver þeirra lifir fáeinar 15-mínútur (bil milli mynda) en þær breyta sífellt um lögun. Klakkarnir eru samsettir úr nokkrum uppstreymiseiningum hver sem taka við völdum hver á fætur annarri - verða misöflugar og deyja svo. Ekki er víst að hraði klakkanna sé sá sami og vindhraðinn heldur er líklegt að þær éti sig í gegnum vindinn - búandi til sína eigin afstæðu hringrás. Inn - upp - út.

Í svona veðurlagi er algengt að klakkaský „festist“ á fjöllum. Þegar óstöðugt loft rekst á fjall rís það ósjálfrátt og myndar (misöflugt) ský sem dælir upp hverri uppstreymiseiningunni á fætur annarri. Þegar þetta bætist við það að vindur er oftast meiri á fjöllum heldur en í byggð getur verið nokkuð samfelldur skafrenningur á fjallvegum í éljagangi. Þetta hafa margir reynt.

En lítum líka á eitt spákort. Það gildir reyndar klukkan 6 á föstudagsmorgni.

w-blogg090312b

Jafnþrýstilínur eru heildregnar og og svartar. Innsti hringurinn í lægðinni er 972 hPa. Lægðin er að grynnast en beinir enn til okkar suðvestanátt - sem síðar snýst meira í hávestur (sé að marka spár). Lituðu fletirnir sýna mættishita í 850 hPa-fletinum - en mættishita má líka kalla „þrýstileiðréttan“ hita því þetta er sá hiti sem loftið fengi ef það væri dregið niður að 1000 hPa. (Það verður að taka fram að þrýstileiðréttur hiti er ekki heppilegt nafn - þótt það sé notað hér til skýringar).

Daufar punktalínur sýna hita í 850 hPa - punktalínan sem liggur inn á Ísland sýnir -10 stig. En ef við berum litina saman við kvarðann kemur í ljós að mættihitinn yfir landinu vestanverðu er um 3°C. Ætli það verði ekki nálægt hitanum yfir hádaginn á morgun (föstudag)?

Það má benda á að hægt er að fá neðri myndina aðeins betri með því að fara inn í hana - smella þar til hún kemur inn ein og sér - og síðan smella aftur og þá á hún að birtast í aðeins skárri upplausn. En þetta vita sjálfsagt allir lesendur. Ratsjármyndin er hins vegar harla léleg. 


Hlýjustu marsdagarnir

Þá er komið að hlýjustu marsdögunum. Reiknaður er meðalhiti allra marsdaga (sólarhringsmeðaltal) frá 1949 til 2011 og búinn til listi. Einnig eru reiknaðir listar fyrir þá daga þegar meðalhámark allra stöðva var hæst og þá daga sem meðallágmark var hæst. Það æpir þó aðeins á nördin að hæsti hiti sem vitað er um á mannaðri veðurstöð á landinu í mars mældist þann 27. árið 1948 - þannig að sá dagur er fyrirfram útilokaður frá þátttöku í keppninni.

En hér eru listarnir þrír, fyrst er það meðalhitinn (°C):

röðármándagurmhiti
12004398,67
220073318,44
32004388,02
420003287,65
51964387,42
620043107,41
720033177,33
820053267,30
919533117,27
1019533187,10
1119563277,07
122004377,07
1320033167,01
1420063177,01
1519643137,00

Hér byrja sjö af tíu efstu sætunum á tölunni 20. Hlýindin miklu eru þannig flest nýleg. Asahláka olli flóðum í Hvítá í Árnessýslu hlýju dagana 2004, 7. til 10. en allir þeir fjórir dagar eru dreifðir um listann. Hitamet marsmánaðar var sett á Eskifirði 28. mars árið 2000, 18,8 stig. Þetta var klukkan sjö að morgni. Blöndun að ofan með aðstoð hvassviðris og brattra fjalla hefur séð um afgreiðslu málsins.

Gamall dagur er fyrst niðri í fimmta sæti, 8. mars 1964 - einstakur vetur að gæðum. Sá 13. sama ár er í 15. sæti, þá fuku þakplötur í Reykjavík og Hafnarfirði. Ég man vel þetta kvöld, kom við í efri sal á Hótel Borgarnesi - mikið hrikti í nýju þakinu, stór hluti af því hafði fokið af á nýjársdag þetta sama ár. Neðar á listanum eru svo tveir stakir dagar úr mars 1953. Í atburðaskrá segir um þá 12. og 13. þetta ár: Mikil flóð á Suðurlandi. Sjö bæir á Skeiðum umflotnir, vatn flæddi í kjallara á Selfossi.

Hæsti meðalhámarkshitinn:

röðármándagurmhámark
1200532710,56
2200733110,49
3200532610,47
4195632710,43
5200631710,39
6200532510,31
720043910,21
8200532110,05
9200331610,00
1019563289,97

Einokun hlýinda síðustu ára er nærri því pínleg. Aðeins tveir dagar í mars 1956 komast á blað.

Og alltaf er gaman að sjá hvaða daga lágmarkshiti hefur verið hæstur. Þegar kemur fram í mars vaxa líkur á því að kaldast sé á nóttunni - þetta gætu því verið hlýjustu marsnæturnar:

röðármándagurmlágmark
12004396,94
220043106,10
32004386,09
420073315,66
51964385,59
61964395,48
719533185,41
819593225,40
920003285,18
1020033165,12

Dagar í mars 2004 raða sér í þrjú efstu sætin, en þó eru fjórir eldri dagar á þessum lista, úr mars 1964 og 1953 sem hafa komið við sögu áður og síðan einn hlýr dagur (hlý nótt) í mars 1959. sem var tíðindalítil að öðru leyti.

En útsynningurinn heldur áfram og mun að sögn halda áfram næstu vikuna í samvinnu við sunnanhvassviðri þegar lægðirnar æða hjá - eins og lítið lát virðist vera á.


Óvenjulágur loftþrýstingur

Nú í kvöld (þriðjudaginn 6. mars) fór óvenjudjúp lægð yfir Austurland og þrýstingur á Dalatanga fór niður í 947,3 hPa og í 948,8 hPa á Raufarhöfn. Það hefur aðeins fjórum sinnum gerst áður (svo vitað sé) að loftþrýstingur á íslenskri veðurstöð hafi farið niður fyrir 950 hPa í mars. Svo virðist sem lágþrýstingurinn nú lendi í fjórða sæti.

Lágþrýstimet marsmánaðar er reyndar talsvert neðar eða 934,6 hPa og mældist í Reykjavík 4. mars 1913. Hugsanlegt er að loftvogin hafi verið aðeins of lágt stillt, en metdagurinn er efalaus, fleiri stöðvar mældu þrýsting um og undir 940 hPa þennan dag. Næstlægstur varð þrýstingurinn á Keflavíkurflugvelli 22. mars 1994, 942,0 hPa og í þriðja sæti er Höfn í Hornafirði 19. mars 1978 með 946,5 hPa. Það er hins vegar 9. mars 1882 í Stykkishólmi sem gefur fjórða sætið eftir til Dalatangalágmarksins nú.

Fastir lesendur hungurdiska vita að til þess að loftþrýstingur verði mjög lágur þarf mikil þykkt að ganga undir lág veðrahvörf. Þegar líður á veturinn og fer að vora minnka líkur á því að lág veðrahvörf berist út yfir Atlantshaf og þótt þykktin fari smám saman að aukast minnka líkur á samslætti sem gagnast í 950 hPa.

Þetta var þó verulega góð tilraun í dag - mjög öflugur kuldapollur (lág veðrahvörf) á Grænlandshafi og öflug sveigja á heimskautaröstinni útvegaði góða þykkt. Tölvuspár gera reyndar ráð fyrir því að þrýstingur í lægðarmiðju fari niður í um 940 til 944 hPa í nótt milli Íslands og Jan Mayen. Þetta gæti hæglega verið nýtt marsmet allra tíma á þeim slóðum.

En lítum á hitamynd úr gervihnetti (af vef Veðurstofunnar).

w-blogg070312

Lægðin djúpa er ekki langt norður af Dalatanga, en kuldapollurinn hringar sig á Grænlandhafi. Það sem er sérlega skemmtilegt á þessari mynd er risastórt éljasvæðið sem nær langleiðina frá Labrador og um Atlantshafið þvert til Skotlands. Þarna er vindur mjög hvass á stóru svæði og æsir upp gríðarlegan öldugang og illan sjó. Við sjáum að skýjabreiðan er nærri samfelld vestast, skýin ná þar ekki mjög hátt upp - en verður gisnari - og skýin meiri um sig og hærri eftir því sem austar dregur.

Enga sveipi er að sjá sunnan við meginmiðju kuldapollsins, svæðið allt samfelld kvikuhræra. Allra vestast má ef vel er að gáð sjá skýin raðast í örmjóar en feiknalangar línur sem síðan hverfa þegar blöndunin verður betri eftir því sem austar dregur. Spurning er hvenær og hvort við förum að sjá sveipi  í éljaloftinu. Kuldapollurinn sjálfur veikist heldur en gengur í hringi og miðjunni fylgja greinilega einhverjir bakkar - hvort meira hvessir vestanlands er álitamál. Sumar spár gera ráð fyrir dimmum éljum suðvestanlands en að Vestfirðir sleppi betur.

Þessi mikla stroka af ísköldu lofti úr vestri drekkur í sig varma úr sjónum sem undir er. Evrópureiknimiðstöðin segir að skynvarmaflæðið hér suðvestur af landinu sé 100 til 200 W á fermetra og dulvarmaflæði enn meira. Þeir sem hafa gaman af því að margfalda og fá út stórar tölur geta leikið sér að því að reikna hversu mörg GW koma við sögu. 

Það er svo annað mál hvernig þessi orka nýtist. Skynvarmaflæðið veldur alltént því að hiti fer hér í hafáttinni ekki langt niður fyrir frostmark - dulvarmaflæðið er í formi vatnsgufu sem um síðir þéttist sem úrkoma - trúlega lendir eitthvað af henni í hverflum íslenskra virkjana í sumar eða þá ekki fyrr en eftir hundrað ár.


Á loftvogarvaktinni

Í kvöld (mánudaginn 5. mars) er úrkomusvæði á leið yfir landið. Ofan í það má teikna skil. Þessu fylgir nokkurt hvassviðri - sérstaklega til fjalla. Eins og vera ber féll loftvog á undan kerfinu og nú þegar veður er farið að ganga niður vestast á landinu hefur dregið úr fallinu. En gert er ráð fyrir því að hér suðvestanlands falli þrýstingur um að minnsta kosti 20 hPa til viðbótar næsta sólarhring.

Nútíma tölvuspár sjá til þess a þetta fall kemur ekkert á óvart. Við vitum að ört dýpkandi lægð nálgast suðvestan úr hafi. Fyrir nokkrum áratugum er jafnlíklegt að menn hafi þurft að taka á móti fallinu meira eða minna grunlitlir um ástæðuna - og það er harla óþægilegt. Fyrir 30 árum voru komnar tölvuspár sem stundum dugðu í sólarhringsspár, fyrir 40 árum höfðu menn (stundum) vondar gervihnattamyndir, sömuleiðis mjög gisnar skipa- og háloftaathuganir. Fyrir 50 árum voru heldur engar gervihnattamyndir og fyrir 60 árum bárust veðurskeyti aðallega með loftskeytum - sem stundum náðust ekki vegna sólgosa eða annarra truflana - og fyrir 70 árum var stríð - fyrir þann tíma voru veðurkort yfir hafinu meira eða minna auð.

Þá var mikilvægt að fylgjast vel með loftvog og skýjafari. Til voru menn sem kunnu á hvort tveggja en vissu samt ekki hvernig vindur breytist með hæð í köldu og hlýju aðstreymi og ekki hvers vegna loftþrýstingur er breytilegur. En nú sitjum við og horfum á hundruð veðurkorta á hverjum degi - og höfum fyrir löngu glatað allri nægjusemi.

En lítum á 500 hPa hæðar og þykktarspá sem gildir kl. 18 á morgun, þriðjudaginn 6. mars.

w-blogg060312

Í pistli í gær var fjallað um stungu af köldu lofti inn á Grænlandshaf. Hún heldur áfram til morguns og er ítrekuð á myndinni með blárri ör sem liggur skammt undan Grænlandsströndum og þaðan austur á Grænlandshaf. Þarna má sjá að vindurinn (samsíða svörtum jafnhæðarlínum) liggur nærri þvert á jafnþykktarlínurnar (rauðar strikaðar) og ber kalt loft úr vestri til austurs. Kuldapollur (háloftalægð) hefur grafið sig niður við Grænlandsstrendur.

Af misgengi jafnhæðar- og jafnþykktarlína í kringum miðju pollsins má sjá að hann hefur ekki náð jafnvægi við umhverfi sitt. Við sjáum ofurþéttar jafnþykktarlínur yfir Grænlandi - þær eru ekki allar raunverulegar - (væru inni í jöklinum) en sýna engu að síður hvernig kaldasta loftið kemst ekki yfir. Einhverjar slettur komast yfir sunnan háloftalægðarmiðjunnar, en aðalstraumur kalda loftsins verður að fara suður fyrir.

Öflug lægðarbylgja er skammt sunnan Íslands. Þar er ört dýpkandi lægð á leið til norðausturs. Hún er hér kölluð innleggslægð. Ástæða nafnsins er sú að háloftahringrásin kringum hana er miklu minni um sig heldur en hringrásin i kringum kuldapollinn stóra. Litla bylgjan hreyfist í kringum stóru lægðina. Við þökkum pent fyrir að hún og hann skuli ekki hafa náð betur saman en raun ber vitni.

Loftvogarfallið næsta sólarhring er þó merki um að óðasamruni hafi ekki verið svo langt undan. Falli loftvog mikið vestan og norðvestan við dýpkandi lægðir er það merki um samruna lægðarbylgju og háloftalægðar.

Það er 5160 metra jafnþykktarlinan sem er að flækjast í kringum miðju háloftalægðarinnar en hæð 500 hPa-flatarins við lægðarmiðjuna er 4790 metrar (sannarlega mjög lágt). Hæð 1000 hPa flatarins er því um það bil -370 metrar - sem jafngildir því að þrýstingur við sjávarmál sé um 954 hPa í lægðarmiðju.

Það er 5340 metra jafnþykktarlínan sem liggur í gegnum miðju innleggslægðarinnar. Hefði sú þykkt hefði náð inn í miðju háloftalægðarinnar hefði þrýstingur við sjó farið niður undir 930 hPa. Svona litlu getur munað. Tölvuspár nútímans eiga að höndla þetta - en fyrir nokkrum áratugum hefði enginn verið viss - vonandi erum við það.

En þótt meginhluti landsins eigi að sleppa við hvassviðri það sem fylgir innleggslægðinni er samt talið líklegt að suðaustan- og austanvert landið finni fyrir norðvestanáttinni að baki lægðarinnar. Menn ættu því að fylgjast vel með spám Veðurstofunnar. Svipuð atburðarás hefur nú átt sér stað hvað eftir annað í vetur.

Ef þessi spá gengur eftir verður vindur hægur vestanlands mestallan þriðjudaginn á milli hvassviðra lægðanna beggja. En það gæti hins vegar snjóað. Sumar spár gera síðan ráð fyrir því að kalda gusan sunnan Grænlands og hvassviðrið sem henni fylgir nái til Suðvesturlands á aðfaranótt miðvikudags. Við látum umfjöllun um það bíða - eða þá að við sleppum henni alveg.


Stunga sunnan Grænlands

Lægðirnar halda víst áfram að ryðjast til okkar úr suðvestri eins og verið hefur í margar vikur. Þær velta þá hver um aðra þvera og komast varla að í látunum. Svo virðist sem þær verstu haldi uppteknum hætti og fari hjá fyrir sunnan og austan land - en ekki er það þó víst. Við lítum nú í tilbreytingarskyni á spákort sem sýnir ástandið við veðrahvörfin síðdegis á mánudag (5. mars).

Litir og tölur á kortinu sýna mættishita í veðrahvörfunum. Við skulum ekkert vera að hafa áhyggjur af því hugtaki - það er ekki það sem skiptir máli - heldur það að allgott (þó ekki alveg eingilt) samband er á milli hans ágætis, mættishitans, og hæðar veðrahvarfanna. Við látum því sem að þetta sé veðrahvarfahæðarkort.

w-blogg050312

Gulu og brúnu litirnir sýna há veðrahvörf en þeir bláu fylgja lágum. Því dökkblárri sem liturinn er því neðar liggja veðrahvörfin. Þar sem bláir litir og gulir liggja þétt saman má líklega finna aðsetur heimskautarastarinnar. Til að auðvelda úrlestur myndarinnar hafa nokkrar örvar verið settar inn á hana. Ísland er rétt ofan við miðja mynd - en kortið nær frá Ameríku í vestri (til vinstri) og inn á Evrópu til hægri.

Stóra, rauða, örin sem liggur til norðausturs skammt austan Nýfundnalandi markar nokkurn veginn stöðu heimskautarastarinnar og skotvinds hennar. Við sjáum að gulu litirnir sunnan og austan við hana liggja í bogadregnum borðum fyrst meðfram röstinni, en síðan til suðausturs og suðurs. Lengst til vinstri er dálítil lægðasveigja á borðunum en síðan fara þeir í eindregna hæðarbeygju. Okkur sýnist sem ræmurnar rúlli áfram til austurs eins og belti á jarðýtu - og það gera þær.

Skammt norðan við er minni röst, hvítmerkt á myndinni. Hún liggur í jaðri kuldapollsins mikla sem er búinn að ráða ríkjum vestan Grænlands um nokkurt skeið. Hann er að ná stungu af lágum veðrahvörfum inn á Grænlandshaf. Áberandi lægðarbeygja er á bláu borðunum í suðurjaðri kuldapollsins og ekki síst i stungunni. Austasti krókur stungunnar tilheyrir lægð á Grænlandshafi sem á að valda sunnanillviðri hér á landi á mánudagskvöld.

Suður af Grænlandi er talsverð gerjun i gangi. Þar mætir hæðarbeygja heimskautarastarinnar lægðarbeygju kuldapollsins. Hæðarbeygjan hefur betur - en ný og öflug lægð fylgir í kjölfarið. Þessi nýja lægð nær sér þó ekki á strik fyrr en á eftir hæðarbeygjunni. Lægðarbeygjan aftan hryggjar mætir lægðarbeygju stungunnar. Það virðist þýða að nýja lægðin fer ekki vestan Íslands heldur sunnan- og austanvið. Spár eru reyndar ekki sammála um hvernig eða hvenær dýpkunin verður mest - hvort landið sleppur alveg (eins og svo oft að undanförnu) eða hvort hluti þess verður fyrir.

Hér má ekki heldur láta hjá líða að benda á hæðabeygjuna miklu yfir Grænlandi - þar sem þrjár rauðar örvar eiga að tákna að þar er loft að breiða úr sér við veðrahvörfin - eins konar skjöldur (eða sveppur) sem ruðst hefur yfir lág veðrahvörf kuldapollsins og hálfdrepið lægðarbeygju hans.

Jæja - hvernig fer svo með lægðirnar? Fyrst er það mánudagslægðin - hún virðist nokkuð gefin með sína sunnanátt - en sú á þriðjudagskvöld er mun óvissari. Nær útsynningurinn sér upp á Vesturlandi eftir að hún er farin hjá?


Verstu marsveðrin?

Hungurdiskar eru mikið fyrir alls konar lista. Lítum nú á tilraun til að finna hver eru verstu veður sem gert hefur í marsmánuði síðustu hundrað árin. Þessi listagerð er dálítið vandræðaleg vegna þess að niðurstaðan fer talsvert eftir aðferðinni sem notuð er. Auk þess er erfitt að bera beint saman veður fyrstu áratuganna og þeirra síðari. Listarnir verða því fleiri en einn og aðeins efstu sætin nefnd.

Í þeim fyrsta er raðað eftir hlutfalli stöðva (af öllum stöðvum) sem tilkynntu um meiri en 20 m/s vind ákveðinn sólarhring, mælt er í prósentum stöðva. Listinn tekur til áranna 1949 til 2011. Fimm efstu sætin eru:

 ármándagurhlutfall
119693569
2195332866
3199531665
419923861
199531755
519763352

Á toppnum er Akureyrarveðrið svonefnda, gríðarlegt vestanveður sem olli miklu tjóni. Á eftir því fylgdi jökulkuldi. Veðrið í lok mars 1953 var af norðri og hluti af óvenjulega hörðu norðanáhlaupi sem stóð í um vikutíma með fleiri en einni lægð. Mikil snjóflóð urðu í þessum veðrum. Veðrið 1995 var líka mjög óvenjulegt - þá gerði einhvern versta hríðarbyl sem vitað er um á norðanverðu Vesturlandi. Mikið var um snjóflóð - mest austanlands. Þetta  veður náði líka deginum eftir inn á listann - við höfum hann ónúmeraðan. Miklir skaðar einnig í veðrinu 1992 - en þá var áttin af suðri. Veðrið 1976 var hluti af óvenjulegri illviðrasyrpu sem stóð með litlum hléum allan febrúar og mestallan mars.

Annar listi tekur til sömu ára en hér er frekar mælt úthald veðranna. Reiknað er hlutfall veðurathugana með meiri vindhraða en 20 m/s af öllum athugunum sólarhringsins. Skammvinn veður komast síður á þennan lista.

röðármándagur
11953328
21995316
3200134
41970324
51958315

Hér er norðanveðrið 1953 á toppnum. Það er einmitt einkenni norðan- og norðaustanveðra að þau standa lengur en sunnan- og vestanveðrin. Bylurinn mikli 1995 er í öðru sæti, en veðrið 4. mars 2001 skýst í það þriðja. Það var líka norðaustanhríðarbylur - þá féll lítið snjóflóð á Blönduósi, börn lentu í flóðinu en var bjargað. Veðrið í mars 1970 var úr vestri og stóð þegar allt er talið í eina þrjá daga. Miklir skaðar urðu austanlands. Veðrið 1958 var af austri - og er eitt það versta sem gert hefur á suðurlandsundirlendi - og var sérlega hart í Rangárvallasýslu.

Toppfimm listinn 1912 til 1948 er svona:

röðármándagur
1193835
2192133
31916324
1916325
41943316
51913313

Meðan veðrin á fyrri lista eru mörgum enn minnisstæð er trúlega farið að fenna yfir veðrin á þessum lista. Vera má að einhverjir muni enn eftir veðrinu sem er efst á listanum. Það var af vestri og er frægast fyrir það að hafa jafnað flest hús í Húsavík eystra (norðan Loðmundarfjarðar) við jörðu. Gríðarlegt tjón varð víða um sunnan- og austanvert landið. Skaðalisti er hér að neðan.

Helsta tjón í veðrinu aðfaranótt 5. mars 1938 en þá gerði aftakaveður af vestri á landinu:

Mörg erlend fiskiskip löskuðust. Timburhús í Kleppsholti í Reykjavík fauk af grunni og mölbrotnaði, íbúana sakaði lítið, þök tók af nokkrum húsum, bílskúr eyðilagðist. Talið er að meir en 20 önnur hús í Reykjavík hafi orðið fyrir teljandi fokskemmdum. Fjárhússamstæða fauk á Reynisvatni í Mosfellssveit, þak rauf á Korpúlfsstöðum. Járnplötu- og reykháfafok varð á húsum í Grindavík, Sandgerði, Keflavík og á Akranesi, tjón varð í höfninni í Sandgerði og þar fauk heyhlaða og önnur brotnaði. Margir vélbátar skemmdust í Vestmannaeyjahöfn.

Á Húsavík í Borgarfirði eystra jöfnuðust flest hús við jörðu og þrír menn slösuðust, barnaskólahús laskaðist á Borgarfirði og þar skemmdust mjörg hús illa og skekktust á grunnum, auk rúðubrota og járnplötufoks. Mikið tjón varð í Seyðisfirði, þak tók af tveimur hlöðum og á Vestdalseyri fauk stórt fiskipakkhús, íbúðarhúsið á Dalatanga skekktist og rúður brotnuðu, þar fauk og þak af hlöðu, járnplötur fuku og gluggar brotnuðu í kaupstaðnum.

Tjón varð á flestum húsum í Eskifjarðarkaupstað, minniháttar á flestum, en fáein skemmdust verulega, þak tók af kolaskemmu og rafmagns- og símalínur í bænum rústuðust. Tjón varð einnig mikið á nágrannabæjum og nokkuð foktjón varð á Búðareyri. Járn tók af húsum í Neskaupstað, bryggjur og bátar löskuðust. Þak fauk af húsi á Sauðárkróki. Þak síldarverksmiðjunnar á Raufarhöfn skaddaðist og tjón varð á bæjum á Melrakkasléttu. Þakhluti fauk á Skálum á Langanesi og gafl féll á húsi, járnplötur fuku af prestsetrinu á Sauðanesi og sláturhús fauk á Bakkafirði og þar í grennd sködduðust útihús á nokkrum bæjum. Tjón varð á útihúsum á nokkrum bæjum í Miðfirði. Járnplötur fuku á nokkrum bæjum í Hornafirði. Heyskaðar og miklar símabilanir urðu víða og bryggjur brotnuðu á Fáskrúðsfirði og í Norðfirði. Á Fáskrúðsfirði tók þök alveg af tveimur íbúðarhúsum og fleiri hús þar og í nágrannabyggðum urðu fyrir skemmdum. Þak fauk af húsi á Jökuldal og talsverðar skemmdir urðu á Eiðum. Miklar bilanir á raflínum á Akureyri.

Tjón varð að á minnsta kosti 30 stöðum í Árnessýslu, tjón varð á fjölmörgum bæjum í Rangárvallasýslu vestanverðri austur í Fljótshlíð, fjórar hlöður fuku í Landssveit og tjón varð á fleiri húsum á nokkrum bæjum. Refabú fauk á Arnarbæli í Ölfusi.Miklar skemmdir urðu í Flóa og á Skeiðum, þar fuku þök af útihúsum á nokkrum bæjum, plötur fuku á nokkrum bæjum í Mosfellssveit.Í Vopnafirði fuku 7 hlöður og nokkuð foktjón varð í kauptúninu. Þak fauk af barnaskólanum á Eyrarbakka og veiðarfærahjallur fauk. Heyhlaða fauk á Flögu í Skaftártungu og þak af fjárhúsi á Fossi á Siðu, minniháttar tjón varð í Landbroti. Miklar símabilanir urðu, fjara var suðvestanlands þegar veðrið var sem verst.

Hvert þessara veðra var svo verst - koma e.t.v. fleiri til greina?


Mikið um að vera - vetur í hámarki á norðurhveli?

Við lítum nú á tvær útgáfur af sömu háloftaspánni. Fyrri gerðin hefur oft verið sýnd hér á hungurdiskum áður - en sú síðari ekki. Ástæða þess að báðar útgáfur eru sýndar hér er eingöngu uppeldisleg.

Undanfarna daga hefur meginkuldapollur norðurhvels (Stóri-Boli) verið á hringferð vestan Grænlands af fullu afli vetrarins. En nú þegar er farið að hlýna sunnar á hvelinu og smám saman mun þrengja að vetrinum á næstu vikum. Styrkur Stóra-Bola gengur í öldum - hann veikist lítillega og styrkist á víxl. Á næstunni gerir hann sig áfram gildandi - en spurningin er hvort hann heldur sambandi við heimskautaröstina - eins og hann virðist eiga að gera næstu daga. En lítum á hina venjulegu gerð kortsins - spá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir á hádegi á sunnudag (4. mars).

w-blogg030312a

Höfin eru blá, löndin ljósbrún. Ísland er neðan við miðja mynd. Bláu og rauðu línurnar sýna hæð 500 hPa-flatarins í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Því þéttari sem línurnar eru því meiri er vindurinn milli þeirra. Þykka, rauða línan markar 5460 metra hæð, en þynnri rauðar línur eru við 5820 metra og 5100 metra hæð. Almennt má segja að því lægri sem flöturinn er því kaldara er veðrahvolfið.

Við sjáum hvernig heimskautaröstin hringar sig um norðurhvelið, hún er þar sem jafnhæðarlínurnar eru þéttastar. Áberandi minni kraftur er í henni yfir austanverðu hvelinu heldur en því vestanverðu. Við sjáum líka að línurnar eru þéttari í kringum Stóra-Bola (bókstafurinn K) og fylginaut hans yfir Ellesmereeyju (L) heldur en almennt er norðan við röstina. Það er varla að við getum talað um bolaröst um þessar þéttari línur - en gerum það samt - sögunnar vegna.

Við sjáum að heimskautaröstin og bolaröstin snertast yfir Suður-Grænlandi. Við getum tekið eftir því að þar er heimskautaröstin í hæðarbeygju - en bolaröstin í lægðarbeygju. Heimskautaröstin hefur betur - en hryggurinn hreyfist hratt til austurs. Við Nýfundnaland er hraðfara bylgja sem er á leið til norðausturs. Þegar hún fer hjá suður af beygjunni á bolaröstinni kippir hún í Stóra-Bola, stelur hluta hans og fer með inn á Grænlandshaf - en Grænland stendur fyrir og miðja Bola hrekkur undan.

Ef trúa má spám myndar útskotið nýjan kuldapoll á Grænlandshafi á aðfaranótt þriðjudags. Hann gæti valdið afar vondu veðri hér á landi á þriðjudag og miðvikudag. En munum að hungurdiskar spá ekki veðri og í raun og veru eru fleiri (mildari) möguleikar í stöðunni heldur en hér er lýst.

Síðara kortið er alveg eins - en þó allt öðru vísi. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru hér svartar og eru nærri því nákvæmlega þær sömu og á fyrra korti (teiknipakkarnir draga þær þó ekki nákvæmlega eins). Lituðu fletirnir sýna þykktina. Helfjólublátt er kalt og hér sést Stóri-Boli sérlega vel í öllu sínu veldi.

w-blogg030312b

Sjá má daufar útlinur landa - kortið þekur ámóta svæði og það fyrra, Spánn og Norður-Afríka eru fyrir mðju neðst. Ísland er rétt neðan við miðja mynd, rauða línan - sem sýnir lægðardragið er á sama stað og á efra kortinu. Þykktin í miðju Bola er um 4740 metrar og á öllu fjólubláa svæðinu er hún minni en 4920 metrar. Grænland á að sjá um að þessi mikli kuldi komist ekki austurfyrir. Grænu litirnir byrja við 5280 metra og er enn einn skammturinn af hlýju lofti á leið um Svalbarða.

Við sjáum að í öllum aðalatriðum fylgjast jafnþykktarlitir og jafnhæðarlínur að - en það misgengi sem sést er afskaplega mikilvægt og það alveg sérstaklega þar sem kalt loft sækir að. Það nefnum við riða (þykktar- og hæðarlínur mynda net).


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg010125i
  • w-blogg010125
  • w-blogg271224a
  • w-blogg271224aa
  • w-blogg261224ia

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.1.): 1073
  • Sl. sólarhring: 1106
  • Sl. viku: 3463
  • Frá upphafi: 2426495

Annað

  • Innlit í dag: 960
  • Innlit sl. viku: 3116
  • Gestir í dag: 929
  • IP-tölur í dag: 861

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband