Tveir vindstrengir

Við lítum á spá um vind í 100 metra hæð. Hún gildir kl. 15 miðvikudaginn 21. mars. Kort sem þetta hefur áður sést á hungurdiskum.

w-blogg210312a

Örvar sýna vindátt og vindur er því sterkari eftir því sem þær eru lengri. Litir sýna einnig vindhraða. Rauðbleiki liturinn sýnir svæði þar sem vindur er meiri en 24 m/s, en þau svæði eru fjólubláleit þar sem vindhraðinn er á bilinu 14 til 24 m/s. Ef vel er að gáð má einnig sjá litla kassa með tölum, það eru reiknaðar vindhviður - sérmerkt eru þau svæði þar sem hviðurnar eru meiri en 25 m/s.

Vindstrengirnir tveir í fyrirsögninni eru á sitt hvort borð lægðarinnar á Grænlandssundi. Annar sýnir norðaustanæði í stíflunni meðfram Grænlandsströnd en hinn ámóta sterkur blæs úr suðvestri skammt úti af Breiðafirði og Vestfjörðum. Líklegt er að hans gæti eitthvað vestanlands í nótt og fram eftir miðvikudegi. Síðan gengur hann niður.

Þegar þetta er skrifað (um miðnætti á þriðjudagskvöld) er suðvestanstrengurinn skammt undan Suðvesturlandi. Á árum áður voru strengir af þessu tagi talsvert áhyggjuefni - vitað var um þá en ekkert um það hversu hvassir þeir voru. Sérstaklega var hættulegt að fá þá yfir (illa spáð) um miðjan dag þegar fiskibátar voru úti - jafnvel þótt vindur væri ekki meiri en 15 til 20 m/s.

Nú hefur bæði tölvuspám og öðrum upplýsingagjöfum farið fram - og færri litlir bátar á sjó - en samt er alltaf rétt að fylgjast náið með suðvestanskotunum.

Á myndinni má einnig sjá þriðja strenginn. Hann er milli Íslands og Bretlands á kortinu, norðvesturbrúnin mjög skörp. Hér eru óralöng hitaskil í hálfgerðu reiðuleysi. Lægð sem fylgir kuldapollinum sem var fjallað um á hungurdiskum í gær á að grípa þessi skil og gefa þeim svo mikinn slaka að þau berast um síðir norður um Ísland. Þeim fylgir þá sérstakt lægðardrag (eða lægð). Það er af tegund sem er í uppáhaldi hjá ritstjóranum fyrir fegurðar sakir. Sú fegurð leynist þó flestum - því miður.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

 • Slide10
 • Slide9
 • Slide11
 • w-1945v
 • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

 • Í dag (24.5.): 20
 • Sl. sólarhring: 79
 • Sl. viku: 1488
 • Frá upphafi: 2356093

Annað

 • Innlit í dag: 20
 • Innlit sl. viku: 1393
 • Gestir í dag: 20
 • IP-tölur í dag: 20

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband