Leiðin liggur enn um suðausturströndina

Svo virðist sem við sjáum nú enn eina kröppu lægðina strjúka suðausturströndina með vestan- og norðvestanhvassviðri en láti aðra hluta landsins að mestu í friði.

Rétt er þó að taka fram að nokkur óvissa er alltaf í brautarspám þótt innan við sólarhringur sé til stefnu. En lítum á spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um ástandið kl. 12 miðvikudaginn 14. mars. Aldrei þessu vant er um mjög „venjulegt“ veðurkort að ræða - vantar að vísu eitthvað af skilum til þess að gera íhaldssama ánægða. Fari menn að gerast íhaldssamir að ráði vantar líka jafnþrýstibreytingarlínur og alls konar falleg merki.

w-blogg140312a

En lægðin krappa er þarna beint sunnan við land og á að fara þá leið sem örin sýnir. Talsverð úrkoma fylgir lægðinni. Yfir sjónum er þetta aðallega rigning - en fari meginkjarni úrkomusvæðisins um Suðurland gæti í versta falli snjóað talsvert - í norðanátt. Það er ekki mjög algengt sunnanlands. Kerfið fer mjög fljótt hjá - en rétt að ferðamenn fylgist með spám Veðurstofunnar eða annarra til þess bærra fagaðila (svo slett sé stofnanamáli).

Við sjáum að önnur lægð fylgir á eftir og fer hún um síðir líka til norðausturs en lengra frá landi heldur en sú fyrri. Hún er líka annarrar gerðar eins og við sjáum greinilega á mynd hér að neðan.

En áður en við yfirgefum kortið skulum við taka eftir hitamynstrinu. Óvenjuleg hlýindi eru yfir Frakklandi og norður um Bretlandseyjar og er hiti þar meiri en 10 stig í 850 hPa. Vestanhafs er gríðarlega kalt, við sjáum t.d. -10 stiga jafnhitalínuna teygja sig langt til austurs frá Nýfundnalandi og svæði með meir en -20 stiga frosti í 850 hPa liggur til suðurs um Davíðssund milli Labrador og Suður-Grænlands. Við þökkum bara fyrir það að það er eins og lægðirnar þrjár reiki um í eigin heimi en sameinast ekki um eitt eða neitt.

En gervihnattamynd sem tekin var kl. 23 í kvöld (þriðjudaginn 13. mars).

w-blogg140312b

Við sjáum lægðirnar þrjár (óþarflega lítil rauð L). Lægðin krappa er að taka á sig svip á um 55 gráðum norður og 26 gráðum vestur. Hvítur skýjabakkinn markar vel stöðu heimskautarastarinnar og við sjáum á bylgjulagi bakkans að þarna er væntanlega að verða til það sem við köllum riðalægð. Á morgun kemur fram krókur í kringum lægðarmiðjuna - eins og margir lesendur vita.

Lægðin á Grænlandshafi er búin að lifa sitt hefðbundna króksstig á enda og vindur virðist ganga nokkuð sammiðja í kringum hana uppúr og niður úr. Hún deyr þó ekki alveg og mun reika um fyrir vestan land með náhvítar rendur og smásveipi fram á helgi. Þeir sem hafa lítið að gera geta fylgst með heilsufari hennar á hitamyndum sem birtast að jafnaði á klukkustundarfresti á vef Veðurstofunnar.

Þriðja lægðin, sú sem er lengst í burtu, hefur ekki enn náð áttum (eftir að hún hleypti riðalægðinni í gegnum sig - eða fæddi hana - ekki gott að segja þar um). Við sjáum óreglulega bakka og smásveipi, jafnvel nokkrar lægðarmiðjur. Ný - en lítil riðalægð mun sennilega fæðast á svæðinu til morguns. Gerist það tekur sú strikið í átt milli Færeyja og Íslands - en skilur enn eftir óljosa hringi og bakka.

Það fer ábyggilega einhvern veginn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a
  • w-blogg110424b
  • w-blogg110424b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.4.): 185
  • Sl. sólarhring: 226
  • Sl. viku: 1964
  • Frá upphafi: 2347698

Annað

  • Innlit í dag: 159
  • Innlit sl. viku: 1691
  • Gestir í dag: 155
  • IP-tölur í dag: 150

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband