Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2011

Reykjavík - Skagafjörður: Hitamunur (árstíðasveifla)

Í athugasemd við pistil gærdagsins (10. ágúst) spurði Þorkell Guðbrandsson um mun á hita í Skagafirði og Reykjavík - einkum þó á vorin. Svo vill til að svar var til á lager, ef til vill ekki við nákvæmlega því sem spurt var um - en í áttina.

Lesendur verða að trúa því að langar tímaraðir þarf til að negla niður mynd af því tagi sem hér er sýnd. Lagið á ferlinum kemur ekki skýrt fram nema að árin séu mjög mörg. Á myndinni eru þau 50, frá 1951 til 2000. Reiknaður er daglegur meðalhiti í Reykjavík og á Nautabúi í Skagafirði og mismunur stöðvanna fundinn.

w-blogg110811

Við tökum fyrst eftir því að myndin nær yfir eitt og hálft ár (18 mánuði). Hún byrjar 1. janúar og fer fram allt árið, síðan yfir áramót og nær til 30. júní öðru sinni. Þetta er gert til að bæði sumar og vetur sjáist í heilu lagi. Mánaðamerkin eru sett við miðja mánuði. Hlýrra er í Reykjavík heldur en á Nautabúi allt árið.

Við sjáum strax að hitamunurinn er meiri á vetrum heldur en á sumrin. Öllu meira meginlandsloftslag er á Nautabúi. Við sjáum einnig að talsvert suð er frá degi til dags, svipað allt árið á bilinu 0,5 til eitt stig að jafnaði. Þetta er mun minna heldur en heildarspönnin (um 1,5 til 2,5 stig - við reiknum það ekki nánar). Þetta bendir til þess að árstíðasveifla hitamunarins sé vel marktæk.

Útgildin eru hins vegar ábyggilega tilviljanakennd. Við sjáum t.d. að munurinn á stöðvunum tveimur er minnstur 15. júlí og mestur 19. desember. Þetta hlýtur að vera tilviljun.

En langeinkennilegasta atriðið á myndinni er þrepið stóra frá 17. til 19. maí. Þá hlýnar skyndilega um 0,7 til 0,8 stig á Nautabúi umfram hlýnun í Reykjavík. Þetta er svo skyndilegt að ótrúlegt verður að teljast. En það skiptir engu þótt skipt sé um stöðvar, Keflavík sett inn í stað Reykjavíkur og Akureyri í stað Nautabús, þrepið hverfur ekki. Allan  apríl og fyrri hluta maí vinnur Nautabú hægt á Reykjavík - en tekur síðan svo risa skref yfir í sumarástandið þegar munurinn er um 1 stig að jafnaði. Ég á nokkrar skýringar á þessu. Auðvelt er að finna skýringar en erfitt að finna réttar skýringar.

Kólnunin á haustin er hraðari á Nautabúi heldur en í Reykjavík og þar má einnig greina þrep, hið fyrra um 15. ágúst og hið síðara undir lok september. Þetta er samt öllu jafnari leið heldur en vorstökkið.

Hitamunur á Nautabúi og Akureyri hefur verið reiknaður á sama hátt. Þar er árstíðamerkið hins vegar minna heldur en suðið, jafnvel í 50 ára röð. Þó mótar fyrir þrepum í maí og í lok ágúst. Ef til vill þarf 100 ára samanburð til að ná út skýru árstíðamerki.

Árið 2004 hættu mannaðar athuganir á Nautabúi og sjálfvirk stöð tók við skömmu síðar. Á Akureyri var Krossanesbrautarstöðin sett upp árið 2005. Um daginn var hér fjallað um mun á hita veðurstöðvanna þriggja á Akureyri. Þar kom fram að á daginn á sumrin munar um 0,7 stigum á Krossanesbrautarstöðinni og þeirri mönnuðu. Þessi munur sést alveg frá Nautabúi - í gegnum suðið. Nú liggur á að finna annarri sjálfvirkri hitamælistöð á Akureyri heppilegan stað.


Sumrametingur?

Hér verður farið nokkrum orðum um meðalhita sumars á Suðvesturlandi, Norðurlandi og Austurlandi. Aðeins er litið um 75 ár aftur í tímann. Á tímabilinu hafa verið talsverðar sveiflur í hitamun landshlutanna og er hér bent á þær helstu. Auðvitað er hægt að skrifa langa ritgerð um málefnið þar sem bæði tekið væri lengra tímabil, fleiri stöðvar bornar saman og auk þess væri rýnt í ástæður breytileikans, en hér verður það ekki gert.

Við lítum eingöngu á meðalhita tímabilsins frá júní til ágúst, fyrsta árið er 1937 en þá byrjuðu mælingar á Hallormsstað á Fljótsdalshéraði. Mælingasaga Héraðsins er orðin óþægilega skrautleg en gögn eru samt til nokkuð samfellt frá því í nóvember 1906 og auk þess hrafl aftur til nóvember 1898 og á tímabilinu júlí 1880 til apríl 1884.

Við notum Akureyri sem fulltrúa Norðurlands og Reykjavík er fulltrúi suðvesturhornsins. Hafa verður þó í huga að Reykjavík er ekki endilega besti fulltrúi síns landshluta í hitametingi einstakra sumra.

w-blogg100811a

Myndin sýnir meðalhita í júní til ágúst á stöðvunum þremur 1937 til 2010 (sumarið 2011 er ekki búið). Vonandi sjá lesendur að talsverð áraskipti eru á því hvaða stöð var hlýjust. Þó má sjá að Akureyri og Hallormsstaður fylgjast allvel að, en Reykjavík er sitt á hvað ofan og neðan fyrrnefndu stöðvanna. Stundum munar miklu, það vekur t.d. athygli að sumrin 2007 til 2010 var Reykjavík áberandi hlýrri heldur en bæði Akureyri og Hallormsstaður, árið 2006 á Hallormsstaður hins vegar hæstu töluna.

Einnig verður að taka eftir því að þessi sumur, 2007 til 2010, voru reyndar hlý en ekki köld í langtímasamhengi bæði á Akureyri og Hallormsstað, í Reykjavík voru þau hins vegar fádæma hlý.

Breytileikinn á Norður- og Austurlandi er öllu meiri frá ári til árs heldur en syðra. Fáein sumur skera sig úr hvað hlýindi varðar á Hallormsstað og Akureyri. Það fyrsta á myndinni, 1939 var mjög hlýtt á öllum stöðvunum þremur, en sumrin 1947, 1955, 1976 og 1984 voru áberandi hlýrri fyrir norðan og austan heldur en í Reykjavík.

Sumarið 1983 var miklu kaldara í Reykjavík heldur en á Norður- og Austurlandi og hið öfuga gerðist 1952 og 1993. Taka má eftir því að í Reykjavík var afgerandi hlýrra á árabilinu 1956 til 1968 - eftir 1960 gat þó ekki talist hlýtt heldur í Reykjavík.

Mismun stöðvanna má betur sjá á hinni myndinni.

w-blogg100811b

Blái ferillinn sýnir mismun Hallormsstaðar og Reykjavíkur. Sést þá vel hversu miklu munar á stöðvunum tveimur undanfarin sumur - þótt ekki hafi verið kalt eystra. Hlýindin í Reykjavík voru hins vegar óvenjuleg eins og áður sagði. Ámóta mikill munur var á stöðvunum á löngu árabili eftir 1955 og sömuleiðis 1950, 1951 og 1952. Alls voru 23 sumur af 74 hýrri á Hallormsstað heldur en í Reykjavík.

Rauði ferillinn sýnir mismun Hallormstaðar og Akureyrar. Hann er yfirleitt minni en sá munur sem blái ferillinn sýnir. Oftast var ívið hlýrra á Akureyri - en mestur varð munurinn 1944, 1,4 stig Akureyri í vil, en í hina áttina varð munurinn mestur sumarið 1940, 0,5 stig Hallormsstað í vil.

Fjögur hlýjustu sumrin á Hallormsstað voru 1984, 1955, 2003 og 2006, 1976 er síðan í fimmta sæti, tvö á þessari öld. Á Akureyri var 1955 hlýjast en síðan 1984, 2003, 1976 og 1947, eitt á þessari öld, munum að listinn nær hér aðeins aftur til 1937 og sumarið 1933 var ennþá hlýrra á Akureyri. Í Reykjavík var 2010 hlýjast á þessu tímabili, 2003 næsthlýjast og síðan koma 1939, 2008 og 2005, fjögur á þessari öld. Sama á sér stað í Stykkishólmi. Sumarhlýindi síðustu ára eru óvenjulegust á vestanverðu landinu.

Tíðni norðanátta hefur verið yfir meðallagi síðustu 4 sumur á undan þessu sem nú er að líða. Það virðist ætla að verða fimmta sumarið í röð sem þannig háttar til. Það fer að verða óvenjulegt - en segir nákvæmlega ekki neitt um framtíðina.


Hæsti hiti á veðurstöðvum í ágúst

Við lítum nú á fróðlegan lista yfir hæsta hita sem mælst hefur á einstökum veðurstöðvum í ágúst. Meginlistinn er í viðhenginu. Að þessu sinni er hann þrískiptur. Efst koma sjálfvirku stöðvarnar, síðan mannaðar stöðvar 1961 til 2010 og loks mannaðar stöðvar 1924 til 1960. Listinn nær til meir en tvö hundruð sjálfvirkra stöðva.

Efstu  tíu gildi frá sjálfvirkum stöðvum eru:

upphafnær tilmetármetdagurmetstöðvarnafn
1998201020041129,2Egilsstaðaflugvöllur sjálfvirk stöð
1995201020041029,1Skaftafell
2004201020041029,0Árnes
1996201020041029,0Þingvellir
2002201020041128,9Gullfoss
1997201020041028,8Hólasandur
2000201020041028,6Reykir í Fnjóskadal
2002201020041028,5Hvammur
1996201020041028,3Mývatn
1998201020041028,3Skálholt

Hitabylgjan mikla í ágúst 2004 straujar yfir nærri því allt annað, það er ekki fyrr en í 62. sæti sem árið 2003 á innkomu. Að sögn gagnasafnsins fór hiti þá í 25,4 stig á Mýrdalssandi þann 25. - Ekki er víst að það sé rétt. En hæsti hiti á sjálfvirku stöðinni á Dalatanga er tveimur sætum neðar, frá árinu 1995. - Ekki er heldur víst að það sé rétt, en mannaða stöðin á Dalatanga náði ekki nýju meti 2004, met frá því í hitabylgjunni miklu í ágústlok 1976 hélt velli.

Slatti af stöðvum byrjaði ekki athuganir fyrr en eftir 2004 og koma þær stöðvar eðlilega neðar á listanum. Stöku met úr hálendishitabylgjunni í ágúst 1997 héldu velli 2004. Þá var sjávarloft að stríða láglendinu. Þeir sem líta á listann verða að gæta að því að sumar stöðvarnar hafa mælt í mjög stuttan tíma, gagnasafnið nær allt niður í einn ágústmánuð (oftast 2010) - varið ykkur á því.

Á lista mönnuðu stöðvanna eru þessar hæstar:

upphafnær tilmetármetdagurmetstöðvarnafn
1990201020041028,5Hjarðarland
1981201020041028,4Írafoss
1961201020041028,4Lambavatn
1961201020041028,2Reykjahlíð
1962201020041328,1Staðarhóll
1964200420041028,0Jaðar
1961201020041027,9Hæll
1998201020041327,8Torfur
1961201019762827,7Akureyri
1988201020041127,7

Stafholtsey

Hér eru allar tölurnar frá 2004 nema ein - Akureyrarmetið 28. ágúst 1976. Í elsta listanum vitum við ekkert af 2004. Þar eru þessi gildi hæst:

upphafnær tilmetármetdagurmetstöðvarnafn
1928196019391128,5Vík í Mýrdal
1937196019472227,2Sandur
193719601939427,0Hallormsstaður
1924193219311126,3Eiðar
193719601939425,9Reykjahlíð
1924196019311225,1Grímsstaðir
192919601939525,0Akureyri
1929194719311125,0Bakkafjörður
192919471939525,0Bakkafjörður
192619601939524,8Húsavík
1924194019311324,4Hvanneyri

Hér á að athuga að Bakkafjörður jafnar sitt eigið met og er því tvisvar í listanum. Hér á ágúst 1939 sex gildi og ágúst 1931 á fjögur. Kannski ætti að kíkja betur á þessa daga.

Fáeinar eldri tölur kæmust inn á þennan lista, þar á meðal nokkur vafasöm gildi frá Möðrudal (tvisvar sinnum 28 stig, 1913 og 1918) og mæling allra mælinga í Grímsey frá 18. ágúst 1876 sem minnst var á hér á hungurdiskum nýlega, 26,2 stig. Möðruvellir í Hörgárdal eiga 25,3 stig frá 15. ágúst 1914 og er það gildi hærra heldur en hæsta mæling sjálfvirku stöðvarinnar þar 2004.

En áhugasamir líti á viðhengið. Þar má líka sjá stöðvarnar sem skrapa botninn. Hver skyldi vera lægst þeirra? Sé leitað að því þarf helst að miða við einhvern lágmarkstíma athugana. Það er varla mikið að marka nýja þátttakendur eða þá sem entust ekki nema í fáein ár. Auðvelt er að komast að þessu með því að kippa viðhenginu inn í töflureikni þar sem hægt er að raða fram og til baka og auðvelt er að finna hversu lengi stöðvar hafa athugað. Með því að raða eftir metári og degi má finna helstu hitabylgjur. Að vísu trampar 2004 þar yfir flestallt annað.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Af fáeinum afbrigðilegum ágústmánuðum

Við athugum til gamans hver er hlýjasti ágústmánuðurinn, sá kaldasti, þurrasti, votasti.

Á landsvísu getum við kreist hitasamanburð aftur á 19. öld en sá úrkomusamanburður sem hér liggur fyrir nær ekki nema aftur til 1924 - unnið er að gerð lengri raðar. Við höfum allgóðar upplýsingar um loftþrýsting aftur til 1823 - nærri því tvö hundruð ár. 

Hlýjasti ágúst á landsvísu var 2003. Jafnir í öðru til þriðja sæti voru 2004 og 1880, 1939 kemur ekki langt á eftir. Það var einhver ólíkindablær yfir ágúst 1880 þar til hlýju mánuðirnir 2003 og 2004 birtust. Eldri ágústmánuðum er haldið utan keppni, en frá þeim tíma eru 1828, 1829 og 1835 taldir líklegir keppinautar 1880 sem hlýjustu ágústmánuðir á 19. öld.

Ágúst 2003 telst sá hlýjasti bæði á Suðvestur- og Norðausturlandi.  

Botnsætið á landsvísu hlýtur ágúst 1903 og 1882 er nærri því eins neðarlega en síðarnefndi mánuðurinn er sá langkaldasti norðaustanlands. Kaldasti ágúst á Suðurlandi telst vera 1912. Tíð þar var samt talin hagstæð.

Úrkomusamasti ágústmánuður á landinu (frá og með 1924) telst vera 1969. Skást var tíðin norðaustanlands. Minnast kannski einhverjir votrar aðfaranætur sunnudags á Húsafellsmótinu fræga þetta ár? Að sögn voru þar um tuttugu þúsund manns þegar flest var - en það stytti upp í tíma. Sami mánuður telst sá úrkomusamasti á Suðurlandi, en á Vesturlandi er það 1976 sem er í efsta sætinu. Þá var ég í veiðieftirliti í Borgarfirði - veiðimenn vilja gjarnan hafa vatn í ánum - en þetta var eiginlega um of. En á höfuðdaginn stytti síðan eftirminnilega upp og skipti um tíðarfar. 

Úrkomusamasti ágúst sem frést hefur af nyrðra er 1958. Mér fannst þá kalt á kroppi er ég kom til Akureyrar síðla mánaðar.

Þurrasti ágúst á landinu er aftur á móti 1960. Ekkert rigndi í Reykjavík frá 4. ágúst til 4. september. Þetta var blíðumánuður. Ágúst 1960 telst einnig sá þurrasti á Suðurlandi. Vestanlands telst ágúst 1943 aftur á móti þurrastur. Þetta var óþverramánuður með miklum kuldum og úrkomu norðanlands. Meðalhiti á Grímsstöðum á Fjöllum var aðeins 3,6 stig og rétt rúm 5 stig á Raufarhöfn. Við teljum ágúst 1948 vera þann þurrasta á Norðurlandi.

Mesta heildarúrkoma í ágúst kom í mæla í Kvískerjum 1988, 597,3 mm.

Hæstur varð loftþrýstingurinn að meðaltali í ágúst 1885. Þá segir að þurrkar og blíðviðri hafi verið víðast hvar á landinu en ekki var hitinn hár. Lægstur var ágústþrýstingurinn 1842.  


Lægðin þaulsetna að fara - hvað kemur í stað hennar?

Alla síðastliðna viku hefur þaulsetin lægð sunnan við land ráðið veðri hér á landi. Aðallega hefur hagstæð tíð fylgt henni, þungbúið og skúrasælt að vísu lengst af. Næturhiti hefur verið hár og gróður tekið vel við sér þar á meðal blessuð berin sem samt eru áberandi seinni á ferð heldur en undanfarin ár. Suma dagana hefur verið mikil blíða ríkt um landið vestanvert, því meiri eftir því sem vestar dregur og náði hiti m.a. 20 stigum í Reykjavík og sumrinu því bjargað (eða þannig).

En nú er lægðin á förum og gerir bretum sérlega gramt í geði með óhóflegri bleytu og mun væntanlega einnig valda leiðindum víðar í Vestur- og Miðevrópu. En hvað tekur við hér á landi? Við lítum eins og oft áður á 500 hPa- og þykktarspá morgundagsins, sunnudagsins 7. ágúst kl. 18.

w-blogg070811

Fastir lesendur kannast við táknmál kortsins, en svörtu heildregnu línurnar sýna hæð 500 hPa flatarins í dekametrum, en rauðu strikalínurnar tákna þykktina, hún er einnig mæld í dekametrum (dam = 10 metrar). Því meiri sem þykktin er - því hlýrra er loftið. Því þéttari sem svörtu hæðarlínurnar eru því hvassara er í 500 hPa-fletinum en hann er, eins og kortið sýnir í 5 til 6 kílómetra hæð. Línan sem liggur yfir Ísland austanvert er 5580 metra jafnhæðarlínan og er staðan yfir meðallagi árstímans. Þykktarlínan sem liggur yfir landinu (rauða strikalínan) sýnir þykktina 5460 metra. Sú þykkt er mjög venjuleg í ágúst, en táknar samt að loftið er ekkert sérlega hlýtt.

Við sjáum myndarlegan hæðarhrygg yfir Grænlandi og lokaða lægðarbylgju austur af Nýfundnalandi. Austan við lægðina er hlýtt loft í framsókn (rauða örin) en yfir Íslandi er kalt loft á leið suður (blá ör). Þetta mörkum við af því að þykktarlínan yfir landinu liggur þvert á hæðarlínurnar og norðanáttin ýtir þykktarlínunni til suðurs og kaldara loft úr norðri sækir fram.

Það er langt í næstu jafnþykktarlínu (5400 metra) fyrir norðan land, hún er vestur af Svalbarða. Næsta sólarhring á eftir (aðfaranótt mánudags og á mánudag) á hún að taka á rás til suðsuðvesturs í átt til landsins. En jafnframt nálgast hærri þykkt úr suðri. Vonandi er að sunnanloftið geti stuggað við norðankuldanum sem annars virðist yfirvofandi - eða alla vega tafið framrás hans. Um það er ekki vitað enn.


Dægurhámörk ágústmánaðar - á landsvísu

Hungurdiskar hafa oft litið á hæsta hámarkshita einstakra mánaðardaga og hér koma metin í ágúst. Listinn er í viðhenginu og má þar auk dægurmetanna sjálfra finna bæði ártöl og staðsetningar.

En við lítum á myndina:

w-blogg060811

Lárétti ásinn sýnir daga ágústmánaðar, en sá lóðrétti hámarkshita. Við sjáum strax að rauða línan (leitnin) fer ákveðið niðurávið allan mánuðinn, hallinn er um það bil 0,1 stig á dag. Reyndar mætti e.t.v. draga hana í tvennu lagi - fyrst flata fram yfir þann 10. og síðan með því meiri halla afgang mánaðarins.

Hitamet mánaðarins er nýlegt, sett 11. ágúst 2004 á Egilsstaðaflugvelli, 29,2 stig. Egilsstaðir eiga líka tvo aðra daga, þann 7. og þann 8. - árið var 1994. En - metið sem Egilsstaðaflugvöllur sló var innan við sólarhringsgamalt því ágústmet hafði einnig verið slegið daginn áður, 29,1 stig mældust þá í Skaftafelli. Hitabylgjan 2004 hreinsaði upp sex dægurmet í röð, frá og með 9. til og með 14. Þessi ótrúlega hitabylgja hefur komið áður við sögu í pistlum hungurdiska.

Hitabylgjan seint í ágúst 1976 heldur enn fjórum dögum á valdi sínu, 26., 27., 28., og 29. Í þeirri umferð var hitinn hæstur á Akureyri þann 28., 27,7 stig. Hitinn varð nærri því eins hár á Seyðisfirði daginn áður. Það er eftirtektarvert að hitinn á Akureyri þann 27. er um þremur stigum yfir leitnilínunni rétt eins og Skaftafell og Egilsstaðir í 2004-bylgjunni. Um síðir (kannski fyrir árið 2500) verða allir dagar búnir að ná að toppa þessa leitnilínu með 3 stigum eða meira - alveg óháð vaxandi hlýindum á heimsvísu, þau flýta aðeins fyrir.

En 16. ágúst - sérstaklega - bíður eftir hærri tölu. Metið sem nú er skráð á daginn (22,5 stig) er orðið meir en 70 ára gamalt - sett á Teigarhorni árið 1940. Lægsta tala listans er 22,4 stig. Það met er líka orðið mjög gamalt, sett 1939 á Hvanneyri í þeirri merkilegu mánaðamótahitabylgju við upphaf heimsstyrjaldarinnar síðari.

Hitabylgjan 2004 valtaði yfir gamla ágústmetið, 28,5 stig sem mældist í Vík í Mýrdal þann 11. árið 1939. Hálfsorglegt er að nýja metið skyldi einmitt falla á sama dag og það gamla.

Elsta dægurmetið í listanum er frá þeim ólíklega stað Grímsey, frá 18. ágúst 1876. Sennilegt er að þessi hiti hefði ekki mælst í hefðbundnu skýli eða á sjálfvirkri stöð. En við leyfum tölunni að fylgja með til vitnis um það sem hugsanlega var mesta hitabylgja landsins á síðari áratugum 19. aldar. Fádæma hlýtt varð þá víða um land - en veðurstöðvar voru fáar - því miður.

Tvö önnur dægurmet eru frá 19. öld, en frekar lágreist og bíða slátrunar. Metaskrár fyrir 1924 eru á frumstigi þannig að einhver met fleiri kunna að leynast í gögnunum. En lítið á viðhengið.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hvað rignir víða í einu? (nördafóður?)

Ég er ekki einu sinni viss um að nördin hafi gaman af þessum pistli, hvað þá aðrir.

En í gær (miðvikudaginn 3. ágúst) fjallaði pistillinn um alþurra daga og þá alvotu. Í framhaldi af því má spyrja almennt um útbreiðslu úrkomu á landinu. Hversu víða nær úrkoma venjulega? Mynd dagsins reynir að taka á því vandamáli.

w-blogg050811a

TIl viðmiðunar eru allir dagar tímabilsins 1961 til 2010, 50 ár alls eða 18262 dagar. Í pistlinum í gær kom fram að engin úrkoma mældist á landinu á 78 af dögunum 18262 eða 0,43 prósent. Til að stækka tölurnar aðeins á lóðrétta ás línuritsins er frekar miðað við þúsundustuhluta (prómill) og súlan sem lengst er til vinstri fær því gildið 4,3 á lóðrétta ásnum en núll á þeim lárétta (engin stöð tilkynnir úrkomu).

Næstu súlur eiga síðan við 1% stöðva, 2% stöðva, 3% stöðva og svo framvegis þar til 100 prósentum er náð lengst til hægri á línuritinu. Þar fundum við 14 daga eða 0,8 prómill allra daga.

Á línuritinu sést að algengast er að úrkoma mælist á 71% stöðva (af einstökum prósenttölum). Síðan er annað hámark við 46% stöðva. Meðaltalið er hins vegar 53% stöðva.

Nú mál velta vöngum yfir því hvers vegna ferillinn lítur út eins og hann gerir. Hvers vegna er hann skakkur (hámarkstíðnin er ekki í miðjunni)? Hvers vegna eru hámörkin tvö? Skýringar geta bæði verið veðurfræðilegar eða falist í vali gilda í gagnasafnið - þýðinu eins og það nú heitir. Við látum hér við sitja.

Svo má auðvitað spyrja hversu víða er úrkoma á landinu þegar úrkoma er í Reykjavík? Svarið við því kom mér aðeins á óvart. Algengast er að þegar rignir í Reykjavík rigni víðast hvar á svæðinu allt frá Skagafirði í norðri, suður og austur um til Stöðvarfjarðar. Þegar þetta er athugað fyrir fjölmargar stöðvar birtast fljótt markalínur úrkomuútbreiðslu. Þar má t.d. telja Tröllaskaga, sunnanverða Austfirði, Dýrafjarðarsvæðið og fleiri - auðvitað nærri markalínum spásvæða Veðurstofunnar.


Sjaldséðir dagar (afskaplega sjaldséðir dagar)

Á þessum vettvangi var þess getið nýlega að dagar þar sem þurrt er á öllum veðurstöðvum séu sjaldgæfir hér á landi. Nú verður litið betur á málið.

Hér á landi er úrkoma mæld ýmist einu sinni eða tvisvar á sólarhring á mönnuðum stöðvum, kl. 9 að morgni og kl. 18. Skeytastöðvar mæla tvisvar en nærri því allar stöðvar aðrar einu sinni og þá að morgni. Sólarhringsúrkoma telst sú sem fellur á milli tveggja morgunathugana. Til dagsins í dag telst því öll úrkoma sem fallið hefur frá morgunathugun í gær. Það kann að virðast ruglandi að megnið af úrkomu sem telst til dagsins í dag hafi e.t.v. fallið í gær. Það er hins vegar auðvelt fyrir þann sem athugar veður aðeins einu sinni á dag að bóka athugunina á þann dag sem athugun er gerð heldur en að þurfa að meta hvoru megin miðnættis úrkoman hafi í raun fallið.

Þegar ég les i skýrslum að úrkoma sem færð er á 3. ágúst sé t.d. 0,7 mm veit ég að átt er við sólarhringinn frá því kl. 9 að morgni 2. ágúst til kl. 9 að morgni þess 3.

Dagur telst úrkomudagur ef 0,1 mm eða meira hefur mælst samtals kl. 9 að morgni og kl. 18 daginn áður (á skeytastöðvum). Hafi úrkomu orðið vart en í svo litlu magni að enginn dropi hafi verið í mælinum telst dagurinn þurr. Hann telst auðvitað líka þurr ef hvorki hefur orðið vart úrkomu né hún mælst.

Nú má fara að telja og leitum við að dögum þegar engrar úrkomu hefur orðið vart á öllum stöðvum (eða þá í svo litlu magni að hún hefur hvergi verið mælanleg). Niðurstöður liggja ekki fyrir á núlíðandi ári en hins vegar allt til 2010. Það er dálítið smekksatriði hvaða ár við byrjum að telja því stöðvar hafa verið mismargar. Mönnuðum athugunum hefur fækkað undanfarin ár en þó þarf að fara aftur til 1960 til að finna færri athuganir en nú eru gerðar. Við skulum því miða við það ár.

Frá og með 1961 til og með 2010 voru alþurrir dagar aðeins 78 hér á landi, tæplega 1,6 á ári að meðaltali. Allmörg árin var enginn alþurr dagur á landinu, þar á meðal í fyrra, 2010. Síðasti þurri dagurinn var 10. júlí 2009. Það þýðir að úrkoma mældist hvorki kl. 18 þann 9. né kl. 9 þann 10.

Tveir alþurrir dagar í röð hafa ekki komið síðan 17. og 18. maí árið 2002. Þrír alþurrir dagar í röð ekki síðan 16., 17. og 18. júní 1982. Fáein eldri dæmi eru um þrjá þurra daga í röð.

En hvað þá með daga þar sem úrkoma hefur mælst á öllum stöðvum? Slíkir dagar eru enn færri og hefur reyndar ekki verið getið síðan 8. september 1975 og á öllu viðmiðunartímabilinu eru þeir ekki nema 14. Ekki er vitað um tvo alúrkomudaga í röð á landinu á viðmiðunartímabilinu.

Í lokin er rétt að benda á að auðvitað er eitthvað „suð“ í gagnaröðum sem þessari. Viðbúið er að einhver þurrk- eða úrkomutilvik lendi ekki á réttum degi. Stöðvarnar eru misáreiðanlegar eins og gengur. Það sem hér að ofan stendur telst því varla til merkilegra vísinda - en hefur vonandi skemmtanagildi fyrir suma lesendur.

 


Af ágústmetum - sem sett eru á daga

Við lítum að venju á ýmis met komandi mánaðar - sem nú er ágúst.

Hæsti hiti sem mælst hefur í ágúst (svo viðurkennt sé) er 29,2 stig. Það var á Egilsstaðaflugvelli í hitabylgjunni makalausu árið 2004. Þá fór hiti yfir 20 stig í Reykjavík fjóra daga í röð - sem er einstakt. Ágústhitamet Reykjavíkur, 24,8 stig, var sett sama dag og landsmetið. Á sjálfvirku stöðinni í Reykjavík fór hitinn þá í 25,7 stig. Ágústhitamet Akureyrar er eldra, frá því 27. dag mánaðarins árið 1976, 27,7 stig mældust þá við lögreglustöðina. Þetta er ívið hærra heldur en búast hefði mátt við miðað við mælingar annarra stöðva - en við skulum samt trúa tölunni. Fjölmargar stöðvar eiga sín ágústmet í hitabylgjunni seint í ágúst 1976, m.a. Seyðisfjörður með 27,0 stig. Þá rigndi mikið vestanlands og féllu skriður.

Lægsti hiti sem mælst hefur á landinu í ágúst er -7,5 stig. Svo kalt varð í Sandbúðum á Sprengisandsleið þann 27. árið 1974. Í byggð er metið frá Barkarstöðum í Miðfirði (nágranna Núpsdalstungu sem átti um hríð júlíkuldamet í byggð). Þá köldu aðfaranótt þess 27. 1956 fór lágmarkshiti á Barkarstöðum niður í -6,1 stig. Þetta er kaldasta ágústnótt sem vitað er um á fjölmörgum veðurstöðvum, m.a. í Reykjavík (-0,4 stig). Á Akureyri var kaldast nóttina eftir, þann 28. ágúst 1956, -2,2 stig. Frost mælist sárasjaldan í Reykjavík í ágúst og sömuleiðis á Akureyri allt fram til þess 27. Ýmsir staðir í efri hlutum borgarinnar eru í meiri frosthættu í ágúst heldur en svæðið í kringum Veðurstofuna.

Mesta sólarhringsúrkoma í ágúst mældist í Siglufirði þann 10. árið 1982, 190,5 mm. Dagana þar um kring féllu skriður á Norðurlandi. Þann 11. ágúst 1977 mældist úrkoma í Kvískerjum í Öræfum 190,0 mm.

Loftþrýstilágmark ágústmánaðar er frá 27. degi mánaðarins árið 1927 en þá fór þrýstingur í Hólum í Hornafirði niður í 960,9 hPa. Lægðin virðist hafa tengst leifum af fellibyl sem myndaðist þann 19. suður í höfum. Fellibyljamiðstöðin í Miami setur á hann númerið 1-1927. Tjón varð af sjávargangi norðanlands í veðrinu en lægðin fór norðaustur fyrir suðaustan og austan land.

Háþrýstimetið er úr Grímsey, 1034,8 hPa, sett þann 12. árið 1964. Þetta var í grunninn hlýtt háþrýstisvæði og fylgdu því sæmileg hlýindi í fáeina daga sem þó voru frá að mestu þann 12. Persónulega er mér einhver þessara daga (ég er ekki alveg viss um hver þeirra) minnisstæður fyrir hræðilega kalda hafgolu með mjög lágri útrænuþoku á Borgarfirði. Þokuslæðurnar voru svo þunnar að sólin skein stund og stund í gegnum þær en réði engan veginn við kuldann.


Norðurhvelið í ágústbyrjun

Það er í fyrri hluta ágústmánaðar sem vestanvindabeltið í veðrahvolfinu er slakast í grennd við Ísland og illviðri tengd því í lágmarki. Staðan í ár styrkir langtímameðaltalið því nú er austanátt ríkjandi yfir landinu, í norðurjaðri allmikillar háloftalægðar sunnan við land og ekki er annað að sjá en að hún verði á svipuðum slóðum fram á næstu helgi.

En lítum á 500 hPa-spákort evrópsku reiknimiðstöðvarinnar fyrir hádegi á miðvikudag (3. ágúst).

w-blogg020811a

Fastir lesendur kannast við kortið, en aðrir verða að vita að höfin eru blá, löndin ljósbrún. Ísland er neðan við miðja mynd. Bláu og rauðu línurnar sýna hæð 500 hPa-flatarins í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Því þéttari sem línurnar eru því meiri er vindurinn milli þeirra. Þykka, rauða línan markar 5460 metra hæð, en sú þunna sýnir hæðina 5820 metra.

Við sjáum vel lægðina suður af landinu, innsta jafnhæðarlínan markar 5460 metra (þykk, rauð). Ámóta djúpar háloftalægðir eru nokkrar á kortinu. Sú langöflugasta í dag er norðan við Beringssund og þar er hæðin í miðju aðeins 5160 metrar. Ég veit ekki hvort við eigum að kalla þetta síðustu leifar vetrarins síðasta eða fyrstu merki haustsins. En þessi ákveðna lægð á að grynnast aftur.

Þegar kemur fram yfir miðjan ágústmánuð fara 5460 hringirnir að stækka og taka höndum saman. Að því kemur að við sjáum nýja rauða línu á korti sem þessu. Hún verður grönn og markar 5100 metra hæð 500 hPa-flatarins. Við bíðum spennt eftir því hvenær það gerist.

Hæð 500 hPa-flatarins á norðurslóðum lækkar mun hraðar á haustin heldur en hæðin suður undir hvarfbaug. Það þýðir að jafnhæðarlínur verða þéttari á norðurhveli og vestanáttin bætir smám saman í sig. Ef við erum óheppin verðum við vör við þetta strax í kringum 20. ágúst með heppni getur það dregist fram eftir september, en á kostnað einhverra annarra íbúa norðurhvels.

Á kortinu hér að ofan er lítið um fyrirstöðuhæðir, sú eina sem talandi er um er yfir N-Grænlandi. Eins og staðan er nú heldur hún kuldapollum að norðan fjarri, en spurning hvað gerist þegar hún hreyfir sig. Sígi hún til vesturs opnast leið fyrir kalt loft suður með Austur-Grænlandi - en það viljum við ekki.

Betra hefði verið ef háloftalægðin suður undan hefði valið sér ból aðeins sunnar, þá gætu fleiri sveitir notið blíðu - en eins og sjá má á kortinu er landið undir nokkuð krappri lægðabeygju. Lægðabeygjunni fylgja úrkomubakkar úr suðaustri sem berast upp að landinu og vestur yfir það hver á fætur öðrum. Þeir leysast flestir upp á leið vestur yfir landið.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 208
  • Sl. sólarhring: 329
  • Sl. viku: 2033
  • Frá upphafi: 2350769

Annað

  • Innlit í dag: 191
  • Innlit sl. viku: 1819
  • Gestir í dag: 187
  • IP-tölur í dag: 187

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband