Sjaldséðir dagar (afskaplega sjaldséðir dagar)

Á þessum vettvangi var þess getið nýlega að dagar þar sem þurrt er á öllum veðurstöðvum séu sjaldgæfir hér á landi. Nú verður litið betur á málið.

Hér á landi er úrkoma mæld ýmist einu sinni eða tvisvar á sólarhring á mönnuðum stöðvum, kl. 9 að morgni og kl. 18. Skeytastöðvar mæla tvisvar en nærri því allar stöðvar aðrar einu sinni og þá að morgni. Sólarhringsúrkoma telst sú sem fellur á milli tveggja morgunathugana. Til dagsins í dag telst því öll úrkoma sem fallið hefur frá morgunathugun í gær. Það kann að virðast ruglandi að megnið af úrkomu sem telst til dagsins í dag hafi e.t.v. fallið í gær. Það er hins vegar auðvelt fyrir þann sem athugar veður aðeins einu sinni á dag að bóka athugunina á þann dag sem athugun er gerð heldur en að þurfa að meta hvoru megin miðnættis úrkoman hafi í raun fallið.

Þegar ég les i skýrslum að úrkoma sem færð er á 3. ágúst sé t.d. 0,7 mm veit ég að átt er við sólarhringinn frá því kl. 9 að morgni 2. ágúst til kl. 9 að morgni þess 3.

Dagur telst úrkomudagur ef 0,1 mm eða meira hefur mælst samtals kl. 9 að morgni og kl. 18 daginn áður (á skeytastöðvum). Hafi úrkomu orðið vart en í svo litlu magni að enginn dropi hafi verið í mælinum telst dagurinn þurr. Hann telst auðvitað líka þurr ef hvorki hefur orðið vart úrkomu né hún mælst.

Nú má fara að telja og leitum við að dögum þegar engrar úrkomu hefur orðið vart á öllum stöðvum (eða þá í svo litlu magni að hún hefur hvergi verið mælanleg). Niðurstöður liggja ekki fyrir á núlíðandi ári en hins vegar allt til 2010. Það er dálítið smekksatriði hvaða ár við byrjum að telja því stöðvar hafa verið mismargar. Mönnuðum athugunum hefur fækkað undanfarin ár en þó þarf að fara aftur til 1960 til að finna færri athuganir en nú eru gerðar. Við skulum því miða við það ár.

Frá og með 1961 til og með 2010 voru alþurrir dagar aðeins 78 hér á landi, tæplega 1,6 á ári að meðaltali. Allmörg árin var enginn alþurr dagur á landinu, þar á meðal í fyrra, 2010. Síðasti þurri dagurinn var 10. júlí 2009. Það þýðir að úrkoma mældist hvorki kl. 18 þann 9. né kl. 9 þann 10.

Tveir alþurrir dagar í röð hafa ekki komið síðan 17. og 18. maí árið 2002. Þrír alþurrir dagar í röð ekki síðan 16., 17. og 18. júní 1982. Fáein eldri dæmi eru um þrjá þurra daga í röð.

En hvað þá með daga þar sem úrkoma hefur mælst á öllum stöðvum? Slíkir dagar eru enn færri og hefur reyndar ekki verið getið síðan 8. september 1975 og á öllu viðmiðunartímabilinu eru þeir ekki nema 14. Ekki er vitað um tvo alúrkomudaga í röð á landinu á viðmiðunartímabilinu.

Í lokin er rétt að benda á að auðvitað er eitthvað „suð“ í gagnaröðum sem þessari. Viðbúið er að einhver þurrk- eða úrkomutilvik lendi ekki á réttum degi. Stöðvarnar eru misáreiðanlegar eins og gengur. Það sem hér að ofan stendur telst því varla til merkilegra vísinda - en hefur vonandi skemmtanagildi fyrir suma lesendur.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Erla Magna Alexandersdóttir

Alltaf gaman að heyra um veður.

 Það var mikið öðruvisi þegar eg var lítil stalpa.

 Þá vorum við krakkarnir þjáð af sólbruna á sumrin- en veturnir með fannig og margfrosin ísalög á ám og vötnum- þar sem við lágum á maganum og horfðum á vatnið leika um metersþykka ísskúlptúra.

  Allt var þetta skemtilegt- núna er veður aldrei vont og aldrei mjög gott nema stuttan tíma ?

 er þetta ekki bara eitthvað kerfi sem hefur sín tímabelti ???

Erla Magna Alexandersdóttir, 4.8.2011 kl. 22:12

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Það hefur lengi verið þannig að fólki finnst veður minnka þegar það eldist. Í ágætri sænskri veðurbók sem skrifuð var um 1825 (já, fyrir nærri því 200 árum) segir höfundur þetta vera ákveðið vandamál. Á tíma eldri kynslóðarinnar hafi vetur alltaf verið harðari, snjór meiri, sumur hlýrri og sólríkari. En auðvitað skiptast á tímabil erfiðra vetra og mildra, sumur eru langtímum saman dauf og síðan koma nokkur góð í röð. Þannig hefur það verið hér á landi.

Trausti Jónsson, 5.8.2011 kl. 00:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8
  • Slide7
  • Slide6

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (7.5.): 20
  • Sl. sólarhring: 361
  • Sl. viku: 1578
  • Frá upphafi: 2352715

Annað

  • Innlit í dag: 18
  • Innlit sl. viku: 1420
  • Gestir í dag: 18
  • IP-tölur í dag: 18

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband