Af ágústmetum - sem sett eru á daga

Við lítum að venju á ýmis met komandi mánaðar - sem nú er ágúst.

Hæsti hiti sem mælst hefur í ágúst (svo viðurkennt sé) er 29,2 stig. Það var á Egilsstaðaflugvelli í hitabylgjunni makalausu árið 2004. Þá fór hiti yfir 20 stig í Reykjavík fjóra daga í röð - sem er einstakt. Ágústhitamet Reykjavíkur, 24,8 stig, var sett sama dag og landsmetið. Á sjálfvirku stöðinni í Reykjavík fór hitinn þá í 25,7 stig. Ágústhitamet Akureyrar er eldra, frá því 27. dag mánaðarins árið 1976, 27,7 stig mældust þá við lögreglustöðina. Þetta er ívið hærra heldur en búast hefði mátt við miðað við mælingar annarra stöðva - en við skulum samt trúa tölunni. Fjölmargar stöðvar eiga sín ágústmet í hitabylgjunni seint í ágúst 1976, m.a. Seyðisfjörður með 27,0 stig. Þá rigndi mikið vestanlands og féllu skriður.

Lægsti hiti sem mælst hefur á landinu í ágúst er -7,5 stig. Svo kalt varð í Sandbúðum á Sprengisandsleið þann 27. árið 1974. Í byggð er metið frá Barkarstöðum í Miðfirði (nágranna Núpsdalstungu sem átti um hríð júlíkuldamet í byggð). Þá köldu aðfaranótt þess 27. 1956 fór lágmarkshiti á Barkarstöðum niður í -6,1 stig. Þetta er kaldasta ágústnótt sem vitað er um á fjölmörgum veðurstöðvum, m.a. í Reykjavík (-0,4 stig). Á Akureyri var kaldast nóttina eftir, þann 28. ágúst 1956, -2,2 stig. Frost mælist sárasjaldan í Reykjavík í ágúst og sömuleiðis á Akureyri allt fram til þess 27. Ýmsir staðir í efri hlutum borgarinnar eru í meiri frosthættu í ágúst heldur en svæðið í kringum Veðurstofuna.

Mesta sólarhringsúrkoma í ágúst mældist í Siglufirði þann 10. árið 1982, 190,5 mm. Dagana þar um kring féllu skriður á Norðurlandi. Þann 11. ágúst 1977 mældist úrkoma í Kvískerjum í Öræfum 190,0 mm.

Loftþrýstilágmark ágústmánaðar er frá 27. degi mánaðarins árið 1927 en þá fór þrýstingur í Hólum í Hornafirði niður í 960,9 hPa. Lægðin virðist hafa tengst leifum af fellibyl sem myndaðist þann 19. suður í höfum. Fellibyljamiðstöðin í Miami setur á hann númerið 1-1927. Tjón varð af sjávargangi norðanlands í veðrinu en lægðin fór norðaustur fyrir suðaustan og austan land.

Háþrýstimetið er úr Grímsey, 1034,8 hPa, sett þann 12. árið 1964. Þetta var í grunninn hlýtt háþrýstisvæði og fylgdu því sæmileg hlýindi í fáeina daga sem þó voru frá að mestu þann 12. Persónulega er mér einhver þessara daga (ég er ekki alveg viss um hver þeirra) minnisstæður fyrir hræðilega kalda hafgolu með mjög lágri útrænuþoku á Borgarfirði. Þokuslæðurnar voru svo þunnar að sólin skein stund og stund í gegnum þær en réði engan veginn við kuldann.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Nú var verið að lesa yfirlit Veðurstofunnar í útvarp á Rás 1 og þar kom fram að minnstur hiti í nótt (aðfararnónn 3.8.) var 1°C á Stórhöfða. Af því að ég veit að veðurathuganamenn á Stórhöfða lesa þessa pistla langar mig að spyrja hvort þetta sé rétt hermt?

Þorkell Guðbrandsson (IP-tala skráð) 3.8.2011 kl. 10:06

2 identicon

Ég býst reyndar við að menn átti sig á ritvillu í hinu innslaginu, átti náttúrulega að standa aðfararNÓTT

Þorkell Guðbrandsson (IP-tala skráð) 3.8.2011 kl. 10:07

3 Smámynd: Trausti Jónsson

Þorkell: Það er langvarandi bilun í sjálfvirku stöðinni á Stórhöfða og tvisvar til fjórum sinnum í mánuði sendir hún frá sér annað hvort 1 stigs hita - eða þá 19. stiga hita. Þessar tölur komast oft inn í lestur veðurfrétta (athugunarleysi þess sem les) og birtast þær á vef Veðurstofunnar. Að deginum í miðri viku er reynt að leiðrétta þetta og verður vonandi gert síðar í dag. Þakka þér fyrir.

Trausti Jónsson, 3.8.2011 kl. 10:20

4 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Hefur mönnum ekki dottið í hug að skipta einfaldlega um veðurvél?

Sigurður Þór Guðjónsson, 3.8.2011 kl. 11:22

5 Smámynd: Trausti Jónsson

Mönnum dettur það í hug á hverjum 1 og 19 stiga degi.

Trausti Jónsson, 4.8.2011 kl. 00:16

6 identicon

Viðvarandi vandamál er hvað lágmarksmælirinn er óstöðugur í hvassviðri. Þetta hefur verið svo lengi sem munað er og minnsta kosti síðan veggskýli var aflagt. T.d. 1. þ.m. eftir storminn þann daginn sýndi lágmarksmælirinn -16,3 stig.

Óskar J. Sigurðsson (IP-tala skráð) 4.8.2011 kl. 12:44

7 Smámynd: Trausti Jónsson

Óskar. Hristingur lágmarksmælisins og sýndarlækkun lágmarks af þeim sökum er einkum vandamál þar sem sjaldan hvessir og athugunarmenn sjá þetta sjaldan gerast og láta því athugasemdalaust. Af íslenskum stöðvum er þetta algengast á Stórhöfða og sömuleiðis var þetta mjög algengt á Fagurhólsmýri meðan athugað var þar í skýli. Ég man þó eftir þessu á flestum stöðvum - einhvern tíma á hverjum stað. Áþekkt vandamál var þegar hitamælaskýlið á Keflavíkurflugvelli lenti inni í útblæstri þotuhreyfla, þá mátti lesa háar tölur af hámarksmælinum - ekki var það samt algengt. Sjúkdómurinn í sjálfvirku Stórhöfðastöðinni er sömuleiðis oftast greinilegur - hann er verstur við að eiga þegar hiti er í raun og veru nálægt því að vera 1 eða 19 stig. Að einungis komi fram þessar tvær tölur er óvenjulegt - oftast þegar sjálfvirkar stöðvar bila koma bara einhverjar tölur. Flateyri gaf t.d. upp ýmsar tölur í dag, allt niður í mínus 38,4 stig á milli þess að ekkert virtist vera að.

Trausti Jónsson, 5.8.2011 kl. 00:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8
  • Slide7
  • Slide6

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (7.5.): 225
  • Sl. sólarhring: 501
  • Sl. viku: 1783
  • Frá upphafi: 2352920

Annað

  • Innlit í dag: 199
  • Innlit sl. viku: 1601
  • Gestir í dag: 192
  • IP-tölur í dag: 192

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband