Sumrametingur?

Hér verður farið nokkrum orðum um meðalhita sumars á Suðvesturlandi, Norðurlandi og Austurlandi. Aðeins er litið um 75 ár aftur í tímann. Á tímabilinu hafa verið talsverðar sveiflur í hitamun landshlutanna og er hér bent á þær helstu. Auðvitað er hægt að skrifa langa ritgerð um málefnið þar sem bæði tekið væri lengra tímabil, fleiri stöðvar bornar saman og auk þess væri rýnt í ástæður breytileikans, en hér verður það ekki gert.

Við lítum eingöngu á meðalhita tímabilsins frá júní til ágúst, fyrsta árið er 1937 en þá byrjuðu mælingar á Hallormsstað á Fljótsdalshéraði. Mælingasaga Héraðsins er orðin óþægilega skrautleg en gögn eru samt til nokkuð samfellt frá því í nóvember 1906 og auk þess hrafl aftur til nóvember 1898 og á tímabilinu júlí 1880 til apríl 1884.

Við notum Akureyri sem fulltrúa Norðurlands og Reykjavík er fulltrúi suðvesturhornsins. Hafa verður þó í huga að Reykjavík er ekki endilega besti fulltrúi síns landshluta í hitametingi einstakra sumra.

w-blogg100811a

Myndin sýnir meðalhita í júní til ágúst á stöðvunum þremur 1937 til 2010 (sumarið 2011 er ekki búið). Vonandi sjá lesendur að talsverð áraskipti eru á því hvaða stöð var hlýjust. Þó má sjá að Akureyri og Hallormsstaður fylgjast allvel að, en Reykjavík er sitt á hvað ofan og neðan fyrrnefndu stöðvanna. Stundum munar miklu, það vekur t.d. athygli að sumrin 2007 til 2010 var Reykjavík áberandi hlýrri heldur en bæði Akureyri og Hallormsstaður, árið 2006 á Hallormsstaður hins vegar hæstu töluna.

Einnig verður að taka eftir því að þessi sumur, 2007 til 2010, voru reyndar hlý en ekki köld í langtímasamhengi bæði á Akureyri og Hallormsstað, í Reykjavík voru þau hins vegar fádæma hlý.

Breytileikinn á Norður- og Austurlandi er öllu meiri frá ári til árs heldur en syðra. Fáein sumur skera sig úr hvað hlýindi varðar á Hallormsstað og Akureyri. Það fyrsta á myndinni, 1939 var mjög hlýtt á öllum stöðvunum þremur, en sumrin 1947, 1955, 1976 og 1984 voru áberandi hlýrri fyrir norðan og austan heldur en í Reykjavík.

Sumarið 1983 var miklu kaldara í Reykjavík heldur en á Norður- og Austurlandi og hið öfuga gerðist 1952 og 1993. Taka má eftir því að í Reykjavík var afgerandi hlýrra á árabilinu 1956 til 1968 - eftir 1960 gat þó ekki talist hlýtt heldur í Reykjavík.

Mismun stöðvanna má betur sjá á hinni myndinni.

w-blogg100811b

Blái ferillinn sýnir mismun Hallormsstaðar og Reykjavíkur. Sést þá vel hversu miklu munar á stöðvunum tveimur undanfarin sumur - þótt ekki hafi verið kalt eystra. Hlýindin í Reykjavík voru hins vegar óvenjuleg eins og áður sagði. Ámóta mikill munur var á stöðvunum á löngu árabili eftir 1955 og sömuleiðis 1950, 1951 og 1952. Alls voru 23 sumur af 74 hýrri á Hallormsstað heldur en í Reykjavík.

Rauði ferillinn sýnir mismun Hallormstaðar og Akureyrar. Hann er yfirleitt minni en sá munur sem blái ferillinn sýnir. Oftast var ívið hlýrra á Akureyri - en mestur varð munurinn 1944, 1,4 stig Akureyri í vil, en í hina áttina varð munurinn mestur sumarið 1940, 0,5 stig Hallormsstað í vil.

Fjögur hlýjustu sumrin á Hallormsstað voru 1984, 1955, 2003 og 2006, 1976 er síðan í fimmta sæti, tvö á þessari öld. Á Akureyri var 1955 hlýjast en síðan 1984, 2003, 1976 og 1947, eitt á þessari öld, munum að listinn nær hér aðeins aftur til 1937 og sumarið 1933 var ennþá hlýrra á Akureyri. Í Reykjavík var 2010 hlýjast á þessu tímabili, 2003 næsthlýjast og síðan koma 1939, 2008 og 2005, fjögur á þessari öld. Sama á sér stað í Stykkishólmi. Sumarhlýindi síðustu ára eru óvenjulegust á vestanverðu landinu.

Tíðni norðanátta hefur verið yfir meðallagi síðustu 4 sumur á undan þessu sem nú er að líða. Það virðist ætla að verða fimmta sumarið í röð sem þannig háttar til. Það fer að verða óvenjulegt - en segir nákvæmlega ekki neitt um framtíðina.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Fróðlegt og skemmtilegt. Nú vill svo til að undirritaður býr á svæði, sem er yfirleitt talsvert kaldara en Akureyri að sumrum, þótt stutt sé í milli,  og í flestum tilvikum líka Hallormsstaður, þótt það sé ekki eins einhlítt. Í þessi 46 ár, sem ég hef búið hér samfleytt, hefur mér virst sumrin sem árstíð vera a.m.k. þremur vikum skemmri hér nyrðra en á SV-horninu. Þar tek ég fyrst og fremst tillit til þess hvenær tún grænka að vori, og hvenær fyrstu snjóar falla að hausti. Einnig horfi ég til vorhreta. Taka ber fram, að hér er fyrst og fremst um tilfinningu að ræða, þetta byggir ekki á skipulegum skráningum. Ég var talsvert mikið á ferðinni hér milli Skagafjarðar og höfuðborgarinnar meðan ég var í starfi og byggi þetta á því hvernig tíðarfarið horfði við mér út um bílrúður.  Ég er ekki viss um að munurinn hvað Akureyri og innsveitir Eyjafjarðar sé eins mikill, sér í lagi ekki hvað vorið varðar. Nú væri gaman að vita hvernig tölur og skrár Veðurstofunnar horfa við þessu sjónarmiði!

Þorkell Guðbrandsson (IP-tala skráð) 10.8.2011 kl. 05:40

2 identicon

Við hér í Eyjafirði töpum öllum hitametingi í sumar er ég hræddur um.  Kartöflugrös kolfallin strax 10. ágúst hér á Árskógsströnd

Kristján Sigurðsson (IP-tala skráð) 10.8.2011 kl. 19:14

3 Smámynd: Trausti Jónsson

Þorkell - svo vildi til að ég hef einhvern tíma reiknað mun á hita á Nautabúi og í Reykjavík á mismunandi árstíðum og lítið mál var að setja hann á mynd og búa til sérstakan pistil þar um. Myndin svarar auðvitað ekki spurningu þeirri sem þú berð upp, en það kemur kannski síðar. Kristján - það er heldur ömurlegt að þurfa að horfa á grösin falla svona snemma, vonandi að berin verjist frosti betur. En það eru ekki nema tvö ár síðan næturfrost í júlílok skemmdi stóran hluta kartöfluuppskerunnar í Þykkvabæ. Erlendis reyna menn að verjast með vökvun eða reyk en ég veit ekki hvort aðstæður eru til þannig aðgerða hér á landi eða hvort þær svari kostnaði.

Trausti Jónsson, 11.8.2011 kl. 00:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8
  • Slide7
  • Slide6

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (7.5.): 310
  • Sl. sólarhring: 388
  • Sl. viku: 1868
  • Frá upphafi: 2353005

Annað

  • Innlit í dag: 274
  • Innlit sl. viku: 1676
  • Gestir í dag: 260
  • IP-tölur í dag: 256

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband