Reykjavík - Skagafjörður: Hitamunur (árstíðasveifla)

Í athugasemd við pistil gærdagsins (10. ágúst) spurði Þorkell Guðbrandsson um mun á hita í Skagafirði og Reykjavík - einkum þó á vorin. Svo vill til að svar var til á lager, ef til vill ekki við nákvæmlega því sem spurt var um - en í áttina.

Lesendur verða að trúa því að langar tímaraðir þarf til að negla niður mynd af því tagi sem hér er sýnd. Lagið á ferlinum kemur ekki skýrt fram nema að árin séu mjög mörg. Á myndinni eru þau 50, frá 1951 til 2000. Reiknaður er daglegur meðalhiti í Reykjavík og á Nautabúi í Skagafirði og mismunur stöðvanna fundinn.

w-blogg110811

Við tökum fyrst eftir því að myndin nær yfir eitt og hálft ár (18 mánuði). Hún byrjar 1. janúar og fer fram allt árið, síðan yfir áramót og nær til 30. júní öðru sinni. Þetta er gert til að bæði sumar og vetur sjáist í heilu lagi. Mánaðamerkin eru sett við miðja mánuði. Hlýrra er í Reykjavík heldur en á Nautabúi allt árið.

Við sjáum strax að hitamunurinn er meiri á vetrum heldur en á sumrin. Öllu meira meginlandsloftslag er á Nautabúi. Við sjáum einnig að talsvert suð er frá degi til dags, svipað allt árið á bilinu 0,5 til eitt stig að jafnaði. Þetta er mun minna heldur en heildarspönnin (um 1,5 til 2,5 stig - við reiknum það ekki nánar). Þetta bendir til þess að árstíðasveifla hitamunarins sé vel marktæk.

Útgildin eru hins vegar ábyggilega tilviljanakennd. Við sjáum t.d. að munurinn á stöðvunum tveimur er minnstur 15. júlí og mestur 19. desember. Þetta hlýtur að vera tilviljun.

En langeinkennilegasta atriðið á myndinni er þrepið stóra frá 17. til 19. maí. Þá hlýnar skyndilega um 0,7 til 0,8 stig á Nautabúi umfram hlýnun í Reykjavík. Þetta er svo skyndilegt að ótrúlegt verður að teljast. En það skiptir engu þótt skipt sé um stöðvar, Keflavík sett inn í stað Reykjavíkur og Akureyri í stað Nautabús, þrepið hverfur ekki. Allan  apríl og fyrri hluta maí vinnur Nautabú hægt á Reykjavík - en tekur síðan svo risa skref yfir í sumarástandið þegar munurinn er um 1 stig að jafnaði. Ég á nokkrar skýringar á þessu. Auðvelt er að finna skýringar en erfitt að finna réttar skýringar.

Kólnunin á haustin er hraðari á Nautabúi heldur en í Reykjavík og þar má einnig greina þrep, hið fyrra um 15. ágúst og hið síðara undir lok september. Þetta er samt öllu jafnari leið heldur en vorstökkið.

Hitamunur á Nautabúi og Akureyri hefur verið reiknaður á sama hátt. Þar er árstíðamerkið hins vegar minna heldur en suðið, jafnvel í 50 ára röð. Þó mótar fyrir þrepum í maí og í lok ágúst. Ef til vill þarf 100 ára samanburð til að ná út skýru árstíðamerki.

Árið 2004 hættu mannaðar athuganir á Nautabúi og sjálfvirk stöð tók við skömmu síðar. Á Akureyri var Krossanesbrautarstöðin sett upp árið 2005. Um daginn var hér fjallað um mun á hita veðurstöðvanna þriggja á Akureyri. Þar kom fram að á daginn á sumrin munar um 0,7 stigum á Krossanesbrautarstöðinni og þeirri mönnuðu. Þessi munur sést alveg frá Nautabúi - í gegnum suðið. Nú liggur á að finna annarri sjálfvirkri hitamælistöð á Akureyri heppilegan stað.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Kærar þakkir fyrir þetta, Trausti. Þótt þetta svari bollaleggingum mínum ekki beint, er ekki þar með sagt að spurning mín hafi verið sett þannig fram að það sé hægt að ætlast til að konkret svar sé hægt að gefa við henni. En mér finnst samt sem ég hafi ástæða til að styrkjast í þeirri trú minni, að mismunur á sumarlengdinni (ef það hugtak stenst skoðun) sé eitthvað í takti við þetta. Ekki veit ég hvað það dugar öðrum, en mér finnst að skýringin liggi ekki einungis í þessar tæpu einu hálfu breiddargráðu, sem munar á Reykjavík og Sauðárkróki, heldur líka þeim áhrifum sem verða frá hafinu, einkum fyrri hluta sumars, eins og oft hefur borið á góma hér. Endurtek þakkir mínar.

Þorkell Guðbrandsson (IP-tala skráð) 11.8.2011 kl. 18:40

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Breiddarstigsáhrif ein og sér myndu fylgja sólarhæð mjög nákvæmlega en eru ekki skrykkjótt. En landaskipan, sjávarhiti, snjóhula og árstíðasveifla vestanvindabeltisins hafa flókin áhrif á hitabratta. Ársmeðalhiti ársins fellur um 0,6 stig með hverju breiddarstigi frá 60°N að 70°N á svæðinu kringum Ísland, meira að vetri heldur en sumri. Í þeirri tölu eru áhrif annarra þátta en sólarhæðar meðtalin. Breiddarstigið „skýrir“ því um helming hitamunar Reykjavíkur og Skagafjarðar.

Trausti Jónsson, 12.8.2011 kl. 00:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8
  • Slide7
  • Slide6

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (7.5.): 293
  • Sl. sólarhring: 395
  • Sl. viku: 1851
  • Frá upphafi: 2352988

Annað

  • Innlit í dag: 258
  • Innlit sl. viku: 1660
  • Gestir í dag: 244
  • IP-tölur í dag: 240

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband