Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2011
21.8.2011 | 01:29
Klósigar (það er nafn á skýjaætt)
Í dag, laugardaginn 20. ágúst, voru klósigar mjög áberandi á himni um landið vestanvert. Klósigar eru háský en svo nefnast ský sem eru ofar 4 km hæð hér á norðurslóðum. Ekki veit ég fyrir víst hversu hátt klósigarnir í dag voru, en ég sting upp á annað hvort 5 eða 7 til 8 kílómetrum. Veðrahvörfin voru um hádegið í rúmlega 10 km yfir Keflavík.
Oft eru klósigar fyrsti fyrirboði skila- eða úrkomukerfa á leið til landsins. Í fyrradag var hér fjallað um háloftalægðardrag eða lægð á leið til suðurs yfir Grænland. Klósigarnir í dag voru fylgifiskar dragsins. Fyrsta tilraun þess til að búa til samfelldan háskýjabakka. Það tekst væntanlega betur á morgun. Hvort við sjáum það fer eftir því hvort sýn okkar til háskýja verður byrgð af lægri skýjum eða ekki. Gaman að fylgjast með því - kannski að viljugir teikni þá samskil í bakkann?
En meir um klósiga. Um þá má mjög margt segja - ég á meira að segja 300 bls. bók sem fjallar um nær ekkert annað enda ber hún nafnið Cirrus sem er alþjóðaheiti skýjaættarinnar/meginskýjaflokksins.
Klósigaflokkurinn greinist í margar undirtegundir eftir útliti og uppruna. Sé mikið far á þeim tengjast þeir oftast miklum vindröstum í háloftunum, oftast fylgifiskar og fyrirboðar stórra úrkomukerfa. Algengt er að sjá klósiga í lok skúradags eða í tengslum við éljagarða, þá eru þeir leifar af efstu hlutum skýjaklakka sem hafa dælt raka upp í efri hluta veðrahvolfs. Sé vindur hægur í efri lögum getur rakinn dvalist þar dögum saman og myndað ský öðru hvoru, t.d. þegar neðri loftlög bólgna í sumarhita og valda lyftingu í því lagi þar sem rakinn sem myndar klósigann dvelur. Klósigar tengjast oft fjallauppstreymi og myndast þá langt yfir fjöllunum. Auk þessa er algengt að klósigar verði til í útblæstri þotuhreyfla (flugslóðar).
Vonandi að myndin sjáist á skjám lesenda en hún er í grunninn fengin úr Veðurfræði fyrir byrjendur (Elementary Meteorology) sem Eyðublaðastofa hennar hátignar bretadrottningar gaf út fyrir 50 árum og er einhver besta byrjendakennslubók í veðurfræði sem ég hef rekist á.
Klósigi er langoftast samsettur úr tveimur einingum, annars vegar litlum skýjahnoðra, en hins vegar skýjaböndum, slæðu eða greinum (virga) niður úr henni. Ískristallar klósigans myndast í uppstreymi í hnoðranum og falla síðan niður úr honum, geta vaxið í fallinu, en gufa þar smám saman upp í þurrara lofti neðan við. Skýið minnir oft á plöntu sem rifin hefur verið upp með rótum. Slæðan (afurð skýsins) er langoftast mest áberandi hluti klósiga sem gefur þeim nokkra sérstöðu meðal skýjaflokkanna.
Skýjahnoðrinn ofan á er mjög misáberandi og er orðinn til í óstöðugu lofti. Orsakir óstöðugleikans eru fjölbreyttar. Ískristallar falla nú niður úr hnoðranum og er nú ýmist að þeir mynda stuttar greinar sem eru allþéttar efst, en þynnast síðan - eða að þeir falla fyrst í gegnum rakt lag sem stækkar þá og gerir greinarnar þar með skýrari okkar augum. Að endingu gufa kristallarnir upp. En fyrir kemur að uppgufunin kælir loftið og þar með geta slæðurnar myndað bylgjur áður en þær hverfa.
Vindsniði (mismunandi vindur í mismunandi hæð) ræður útliti hins dæmigerða krókaklósiga. (vatnsklær). Ískristallarnir sem mynda slæðu/greinar falla niður í vind sem er annað hvort meiri eða minni, eða blæs úr annarri átt heldur en vindurinn í hnoðranum.
Greint er á milli margra klósigaafbrigða/tegunda. Fjalla mætti um þau mál síðar.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 01:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.8.2011 | 01:32
Meira af afbrigðilegum ágústmánuðum
Hverjir eru svo mestu sunnan- og norðanáttaágústmánuðirnir? Þetta er leikur sem við höfum farið í áður bæði í júní og júlí. Ekki er ætlast til þess að lesendur muni þá mælikvarða sem notaðir eru þannig að rétt er að rifja þá upp jafnóðum. Skýringarnar eru því endurtekning en ártölin auðvitað önnur.
1. Mismunur á loftþrýstingi austanlands og vestan. Þessi röð nær sem stendur aftur til 1881. Gengið er út frá því að sé þrýstingur hærri vestanlands heldur en eystra séu norðlægar áttir ríkjandi. Líklegt er að því meiri sem munurinn er, því þrálátari hafi norðanáttin verið. Ákveðin atriði flækja þó málið - en við tökum ekki eftir þeim hér. Samkvæmt þessum mælikvarða er ágúst 1903 með þrálátustu norðanáttina. Var á sinni tíð frægur fyrir kulda norðanlands, meðalhiti á Akureyri aðeins 6,1 stig - kaldari heldur en meðalseptember. Næstir í röðinni eru ágúst 1958 og 1964. Sum eldri veðurnörd muna þessa mánuði. Sunnanáttin var samkvæmt þessum mælikvarða mest í ágúst 1947. Þá var meðalhitinn á Akureyri 13,2 stig og er það hlýjasti ágúst sem vitað er um á þeim bæ, ágúst 1991 er í öðru sunnanáttarsætinu.
2. Styrkur norðanáttarinnar eins og hann kemur fram þegar reiknuð er meðalstefna og styrkur allra vindathugana á öllum (mönnuðum) veðurstöðvum. Þessi röð nær aðeins aftur til 1949. Eftir þessum mælikvarða er 1958 í efsta sæti og 1964 í því öðru. En 1976 er mesti sunnanáttarmánuðurinn, afspyrnuhlýr norðaustanlands. Hér tók 1947 ekki þátt í keppninni.
3. Gerðar hafa verið vindáttartalningar fyrir þær veðurstöðvar sem lengst hafa athugað samfellt og vindathugunum skipt á 8 höfuðvindáttir og prósentur reiknaðar. Síðan er tíðni norðvestan, norðan, norðaustan og austanáttar lögð saman. Þá fæst heildartala norðlægra átta. Þessi röð nær aftur til 1874. Hér er 1912 mesti norðanáttarmánuðurinn en hann er frægastur fyrir eitt versta sumarhret sem mælt hefur verið. Hretið varð verst síðustu dagana í júlí og fyrstu dagana í ágúst. Ágúst 1903 kemur í öðru sæti og 1958 er í því þriðja. Mest varð sunnanáttin 1976 og koma ágúst 1880 og 1947 næstir á eftir. Ágúst 1880 var hlýjasti ágústmánuður á síðari hluta 19. aldar á landinu sem heild og sat lengi í efsta sæti ágústhlýinda - var svo hlýr að menn trúðu tölunum varla.
4. Fjórði mælikvarðinn er fenginn úr endurgreiningunni amerísku og nær hann aftur til 1871. Fyrstu 20 til 30 árin verðum við þó að taka niðurstöðum greiningarinnar með varúð. Þarna er 1958 í fyrsta sæti en 1903 í öðru. Síðan er ágúst 1943 í þriðja sæti - enn einn hörmungarmánuðurinn norðaustanlands. Sunnanátt endurgreiningarinnar er langmest í ágúst 1947, síðan kemur 1976.
5. Fimmti kvarðinn er einnig úr endurgreiningunni nema hvað hér er reiknað í 500 hPa-fletinum. Hér eiga tveir aðrir ágústmánuðir óvænta innkomu. Mest var norðanáttin í 5 km hæð í ágúst 1960. Þetta er þurrasti ágúst sem vitað er um á landinu (eftir 1923). Meðalhæð 500 hPa-flatarins var mjög mikil (563 dam). Hlýtt hefur þá verið í háloftunum og landið notið þess. En kunninginn 1903 er í öðru sæti. Engin vernd það árið. Mestur sunnanáttarágústmánaða í 500 hPa er 1947, 1976 er í öðru sæti.
Við sjáum að mælikvarðarnir fimm eru nokkuð sammála. Ætli 1903 fái ekki toppsæti norðanátta og 1947 sunnanátta.
Notum breytileika loftþrýstings frá degi til dags til að meta lægðagang og óróa. Sá mælikvarði nær aftur til 1823. Rólegustu ágústmánuðirnir eru 1839, 1910 og 1960. Árið 1839 er þurrasta ár sem vitað er um í Reykjavík ef trúa má mælingum Jóns Þorsteinssonar landlæknis. Ískyggilega þurrt.
Órólegastur ágústmánaða var 1955 - rigninga- og illviðrasumarið mikla á Suðurlandi.
19.8.2011 | 01:23
Óþægilega lág þykkt um þessar mundir
Landið er enn inni í leiðinlegum kuldapolli miðað við árstíma og spár gefa litla von um breytingar. Lítum á 500 hPa hæðar- og þykktarspákort sem gildir kl. 18 síðdegis á föstudag.
Fastir lesendur kannast við táknfræði kortsins en en svörtu heildregnu línurnar sýna hæð 500 hPa flatarins í dekametrum , en rauðu strikalínurnar tákna þykktina, hún er einnig mæld í dekametrum (dam = 10 metrar). Því meiri sem þykktin er - því hlýrra er loftið. Því þéttari sem svörtu hæðarlínurnar eru því hvassara er í 500 hPa-fletinum en hann er, eins og kortið sýnir í 5 til 6 kílómetra hæð.
Við sjáum allmikinn vindstreng liggja þvert yfir Bretlandseyjar og austur um. Hann veldur þar leiðindaveðri og berast þaðan fréttir af bæði flóðum og foktjóni. Við sitjum hins vegar innan við 5400 metra þykktarlínuna. Það þýðir að stórhætta er á næturfrosti á stöðum sem liggja vel við höggi, en það eru dældir og sléttur í landslagi undir heiðum himni og með þurra jörð.
Þessi lága þykkt er þó ekki sérlega óvenjuleg og er varla nógu lág til þess að snjói í fjöll - hvað sem síðar verður. Ameríska tuttugustualdarendurgreiningin giskar á að lágmarksþykktarmet ágústmánaðar hafi verið sett á miðnætti aðfaranótt 27. ágúst 1937 með gildinu 5223 metrum við Suðvesturland. Þar er þykktin nú mæld tvisvar á dag á háloftastöðinni í Keflavík og því notum við punkt þar nærri til metametings. Umræddan ágústdag 1937 mun hins vegar hafa frekar verið um útsynningskulda að ræða heldur en sömu stöðu og nú. En ég þyrfti að athuga það nánar áður en ég segi meira þar um.
Háloftabylgjur sem berast hratt til austurs fyrir sunnan land eins og lægðin vestan Bretlandseyja gerir hafa tilhneigingu til þess að draga veðrahvörfin niður fyrir norðvestan sig. Það styrkir hringrás kuldapolla sem fyrir eru eða býr til nýjar háloftalægðir.
Í þessu tilviki nær kuldapollur sem á kortinu er vestan Grænlands hins vegar undirtökunum næstu daga. Í spám fyrir 1 til 2 dögum var hann talinn líklegur til að bjarga stöðunni með því að grafast svo mikið niður fyrir suðvestan land að hringrásin næði í hlýtt loft úr suðri handa okkur. En - í dag (fimmtudagskvöld) á hann þess í stað að krækja í enn kaldara loft að norðan.
En við munum auðvitað að fyrst spárnar hafa breyst einu sinni geta þær breyst aftur og aftur þar til stund sannleikans rennur upp.
Þess má geta að föstudaginn 19. ágúst eru hungurdiskar eins árs. Fóru hægt af stað en hafa nú haldið skriði um hríð. Upphaflega hugmyndin var að reyna tveggja ára úthald. Ekki er víst að það takist - en nú er fyrra árið sum sé liðið undrahratt eins og oftast. Þakka lesendum góðar undirtektir.
18.8.2011 | 01:02
Hvaðan kemur loftið í dag?
Bandaríska veðurstofan veitir hverjum sem er margskonar aðgengi að gögnum. Þar á meðal er forrit sem reiknar leiðir lofts um lofthjúpinn. Ekki er alveg auðvelt fyrir óinnvígða að fletta sig í gegn um valmyndirnar - en hver sem er getur reynt. Ég spurði nú forritið um hvaða leiðir loftið sem yfir Reykjavík síðdegis miðvikudaginn 17. ágúst hefði farið síðustu fjóra daga. Niðurstöðuna má sjá á mynd.
Efri hluti myndarinnar er kort af norðaustanverðu Atlantshafi. Lituðu ferlarnir sýna leiðir þess lofts sem var kl. 18 í 300 m (rauður ferill), 1500 m (blár) og 5000 m (grænn) hæð yfir Reykjavík. Hér er allt skýrt og greinilegt. Neðsta loftið var fyrir fjórum dögum yfir Grænlandi (enginn asi þar), loftið í jöklahæð (1500 m) var fyrir fjórum dögum yfir Skandinavíu og loftið í 5 km hæð var norðvestur af Skotlandi. Síðastnefndi ferillinn hefur skrúfast í lykkjum í átt til landsins.
Þrátt fyrir ólíkan uppruna er síðasti spölur úr norðri í öllum tilvikunum þremur. Neðri hluti myndarinnar er miklu óskýrari. Lóðréttur ás sýnir þó greinilega hæð í metrum (tölur lengst til hægri) og lárétti ásinn sýnir tíma, þar má sjá daga að amerískum merkingarhætti, 08/17 myndum við vilja skrifa sem 17/8 eða 17. ágúst. Lokatíminn er lengst til vinstri á myndinni síðan eru fjórir sólarhringar til hægri. Fyrsti punktur er þann 13. kl. 18, síðan 14. kl. 00 og áfram til vinstri.
Sökum minniháttar fljótfærni minnar í valmyndavölundarhúsinu valdi ég að hæðarkvarðinn væri í metrum yfir yfirborði jarðar eins og það er í líkaninu, en ekki sjávarmáli - sá valmöguleiki er líka til. Það skiptir nánast engu máli nema yfir Grænlandi.
Ekki er alveg allt sem sýnist í reikningunum því gefinn er kostur á þrenns konar merkingu þeirra loftböggla sem ferlarnir eru reiknaðir fyrir - niðurstaðan er ekki alveg sú sama fyrir alla möguleika - því meiru munar eftir því sem fleiri dagar eru valdir.
Neðri hluti myndarinnar sýnir að loftið í 5 km hæð (grænt) hefur á undanförnum fjórum dögum hækkað um nærri 3 km (lengst til hægri byrjar græni ferillinn í rúmlega 2 km). Á þessari leið er væntanlega búið að kreista mikinn raka úr loftinu - hann hefur á meðan fallið til jarðar sem regn.
Blái ferillinn byrjaði mjög lágt, hækkaði síðan í tveimur áföngum upp í rúma tvo kílómetra, en seig síðan lítillega. Rauði ferillinn sýnist hafa byrjað í 300 metrum - en það er í þessu tilviki 300 metra yfir Grænlandi eins og það lítur út í líkaninu.
Velta má vöngum yfir því hvað þetta merkir - of langt mál er að fara út í það. En myndin má vera áminning um það að yfir okkur eiga sér sífellt stað stefnumót lofts sem komið er úr ýmsum áttum.
17.8.2011 | 00:45
Heiðasti ágústdagurinn
Þann 23. júlí síðastliðinn var heiðasti júlídagurinn nefndur hér á hungurdiskum. Reiknað er frá og með 1949 til og með 2010. Þetta reyndist vera 13. júlí 1992. Meðalskýjahula allra athugana sólarhringsins var innan við einn áttundahluta.
Heiðasti ágústdagurinn telst vera sá 12. árið 1997. Meðalskýjahula var 1,3 áttunduhlutar. Mikla hitabylgju gerði dagana þar um kring. Mest varð hún að tiltölu á efstu bæjum á Norðausturlandi en svalara var við sjóinn. Hitinn varð hvað mestur þann 13., daginn eftir heiðríkjudaginn mikla.
Myndin er úr safni móttökustöðvarinnar í Dundee í Skotlandi. Lítilsháttar þokuslæðingur er við annes á sunnanverðum Austfjörðum og ef vel er gáð má sjá ský yfir afréttum austan Mýrdalsjökuls.
Þessi heiði dagur, 12. ágúst 1997, kom við sögu á lista yfir hæsta meðalhámarkshita ágústmánaðar sem birtist birtist hér fyrir nokkrum dögum. Dagurinn var þar í 10. sæti., næsti dagur, 13., var í 8. sæti á sama lista. Daginn áður, þann 11., mældist hiti 30,0 stig á sjálfvirkan mæli á Hvanneyri í Borgarfirði - því er ekki alveg trúað. Kannski er hægt að stofna einhvern sértrúarveðursöfnuð í kringum þetta met?
En næstheiðasti dagurinn, hver er það? Hann er ekki síður merkilegur því þetta er dagurinn á eftir þeim illræmda 27. ágúst 1956 - sem við vorum fyrir nokkrum dögum að dæma kaldasta ágústdag síðustu 60 ára. Umhugsunarvert að heiðustu ágústdagarnir séu ofarlega á bæði hlýinda- og kuldalistum. Fylgja öfgar heiðríkjunni?
Við verðum einnig að nefna skýjaðasta daginn. Hann er 16. ágúst 2005 og virðist hafa verið alskýjað á öllum stöðvum allan sólarhringinn að því slepptu að einhver ein stöð gaf einu sinni sjö áttunduhluta í skýjahulu. Kveikir þessi dagur á einhverju? Þá lokaðist hringvegurinn vegna skriðufalla í Hvalsnes- og Þvottárskriðum.
Dagar versta og besta skyggnis eru löngu liðnir. Verst varð ágústskyggnið að meðaltali á landinu 21. ágúst 1952 og best þann 8. ágúst 1951. Síðarnefndi dagurinn er í 7. sæti á lista heiðríkustu daga. Ekki er líklegt að einhverjir lesendur muni veður þessa daga - helst þeir sem hafa haldið dagbók. Íþróttanörd gæti rámað í daga þetta sumar, þó varla þann 8. En daginn áður, 7. júlí 1951, slasaðist maður í grjóthruni í Óshlíð, bíll eyðilagðist og aðrir nærstaddir áttu fótum fjör að launa (dagblaðið Tíminn) Þjóðviljinn segir í fyrirsögn þann 8.: Svérnik svarar Truman, en Morgunblaðið: Tillögu Sjerniks um friðarráðstefnu fálega tekið (heimild: timarit.is). Þann 9. segir Tíminn frá næturfrosti og föllnum kartöflugrösum í Mosfellsdal aðfaranótt skyggnisbesta dags síðustu 60 ára.
Athugið að skyggnismeðaltöl eru merkingarlítil og dagarnir nefndir hér aðeins til gamans.
16.8.2011 | 01:02
Kuldakast á Nýja Sjálandi (ekki veit ég margt um það)
Fréttir berast af kuldakasti með snjókomu á Nýja Sjálandi. Við sem lásum spennusögur Desmond Bagley fyrir um 40 árum vitum að þar snjóar reyndar heil ósköp á hverju ári í fjöllum Suðureyjar - mun meira en hér á landi. Bagley skrifaði spennu- og spillingarsögur og voru þær sumar með jarð- og veðurfræðilegu ívafi. Mig minnir að bók hans um snjóflóð á Nýja Sjálandi hafi heitið Snow Tiger - ekki man ég íslenska heitið (og gegnir.is lokaður í dag).
Snjór mun einnig algengur á láglendi sunnan til á Suðurey en strjálast eftir því sem norðar dregur. Í Wellingtonborg sunnarlega á Norðurey snjóar mjög sjaldan, en samkvæmt bloggsíðu Nýsjálensku veðurstofunnar snjóaði þar nú niður í 100 metra hæð yfir sjó (svipað og hæð Breiðholts hér í Reykjavík). Einnig fréttist af snjóflyksum í Auckland, nyrst á Norðurey en þar munu þær sjást afar sjaldan. En lesendur geta auðvitað náð sér í áreiðanlegri upplýsingar þar syðra heldur en hungurdiskar bjóða upp á.
Tilefni þessa pistils er þykktarkort af svæðinu (þykktartrúboði hungurdiska er ekki lokið).
Kortið er af vef COLA-IGESog sýnir loftþrýsting og 500/1000 hPa-þykkt á hádegi 15. ágúst (mánudag). Þá var komið kvöld á Nýja-Sjálandi. Þykku, lituðu línurnar sýna loftþrýstinginn. Allmikil hæð (1032 hPa í miðju) er suðvestur af Nýja-Sjálandi, en lægð (967 hPa í miðju) er heldur lengra suðaustur af. Milli lægðar og hæðar er mikil og köld sunnanátt úr Suðuríshafi.
Hér sést að vindur blæs öfugt kringum lægðir og hæðir miðað við norðurhvel. Vindur á norðurhveli blæs eins og hægrihandargrip (þumall upp) í kringum lægðir en í vinstrihandargripi (þumall upp) á suðurhveli. Sunnanátt er þar því vestan við lægðir. En samt blæs vindur þó andsælis í kringum lægðir á báðum hvelum, hugsið nánar um það.
Jafnþykktarlínur eru heildregnar á kortinu og þær eru, eins og oftast, merktar í dekametrum. Þykktargildin eru okkur mjög kunnugleg. Kuldapollur með minni þykkt en 5220 metra hefur lokast inni yfir Nýja-Sjálandi. Rétt eins og hér á landi nægir það í snjókomu nema allra næst ströndinni. Ef úrkoman er mikil getur snjóað niður að sjó. Hugsanlega sést í 5160 metra línuna á kortinu yfir fjallgarði Suðureyjar.
Ég veit það ekki með vissu, en trúlega er fremur óvenjulegt að 5280 metra jafnþykktarlínan komist alveg norður fyrir Norðurey. Mér finnst ég hafa séð nokkru lægri tölur en þetta yfir Suðurey - en ekki man ég það með vissu. Vel má vera að talsvert lægri tölur sjáist þar.
Í Suður-Ameríku er kuldakast yfirvofandi. Þar á þykktin yfir Buenos Aires í Argentínu að fara niður undir 5200 metra á laugardaginn - en vonandi eru þær spár vitlausar.
En spár næstu daga gera ráð fyrir því að þykktin yfir Nýja-Sjálandi verði fyrir helgi komin upp fyrir 5400 metra - svipað og nú er hér. Þar er hins vegar vetur en hér er sumrinu ekki lokið.
15.8.2011 | 00:49
Hlýjustu og köldustu ágústdagarnir - landið allt
Hér er fjallað um hlýjustu og köldustu ágústdaga. Athugunin nær aðeins aftur til 1949 rétt eins og sambærileg athugun sem gerð var á júlímánuði hér á hungurdiskum þann 26. júlí.
Fyrst eru þeir tíu dagar þar sem meðalhiti sólarhringsins fyrir landið allt er hæstur í °C.
ár | mán | dagur | meðaltal | |
2004 | 8 | 11 | 15,90 | |
2004 | 8 | 10 | 15,53 | |
2010 | 8 | 15 | 14,94 | |
2004 | 8 | 9 | 14,30 | |
2003 | 8 | 9 | 14,04 | |
2010 | 8 | 12 | 13,84 | |
2003 | 8 | 25 | 13,83 | |
1995 | 8 | 10 | 13,80 | |
2008 | 8 | 1 | 13,80 | |
1981 | 8 | 27 | 13,70 |
Tveir hlýjustu dagarnir og sá fjórði hlýjasti eru allir úr hitabylgjunni miklu 2004. Í júlípistlinum kom fram að 11. ágúst 2004 er hlýjasti dagur landsins þótt miðað sé við allt árið. Það kemur á óvart að 8 dagar af tíu eru frá frá 2003 og síðar. Þetta er langt yfir væntigildi, áratugirnir í gagnasafninu eru rúmlega sex og síðustu tíu árin hefðu aðeins átt að eiga 1 eða 2 daga. Hér sést enn hversu óvenjulegur ágústmánuður hefur verið á síðustu árum.
Síðan koma þeir tíu dagar þegar meðalhámark var hæst.
ár | mán | dagur | meðaltal | |
2004 | 8 | 11 | 21,55 | |
2004 | 8 | 10 | 20,44 | |
2004 | 8 | 13 | 20,40 | |
2004 | 8 | 14 | 19,72 | |
1980 | 8 | 1 | 19,32 | |
2004 | 8 | 12 | 19,29 | |
2004 | 8 | 9 | 18,39 | |
1997 | 8 | 13 | 18,30 | |
2008 | 8 | 1 | 18,07 | |
1997 | 8 | 12 | 18,06 |
Það hefur aðeins gerst örfáum sinnum að meðalhámarkhiti á landinu sé meiri en 20 stig. Hitabylgjan 2004 á hér sex daga af tíu. Talan frá 1. ágúst 1980 er undir örlítið fölsku flaggi því hún fær aðstoð frá síðdeginu og kvöldinu áður, 31. júlí. Hér skorar hitabylgjan í ágúst 1997 líka vel. Hún var sérstaklega hitagæf á hálendinu. Ég hef ekki reiknað meðaltöl fyrir hálendið sérstaklega.
Við látum hæsta meðallágmarkið fylgja með. Það er mælikvarði á hlýjar nætur. Algengt er að hlýjasta nótt ársins sé í ágúst og hefur einnig verið í september.
ár | mán | dagur | meðaltal | |
2010 | 8 | 15 | 12,73 | |
2003 | 8 | 25 | 11,94 | |
2010 | 8 | 13 | 11,88 | |
1995 | 8 | 10 | 11,54 | |
2003 | 8 | 9 | 11,54 | |
2004 | 8 | 11 | 11,41 | |
1995 | 8 | 11 | 11,35 | |
2009 | 8 | 6 | 11,26 | |
2010 | 8 | 14 | 11,23 | |
2004 | 8 | 3 | 11,12 |
Þetta eru nýlegar tölur, þrjár ágústnætur á síðasta ári eru á listanum þar á meðal sú hlýjasta. Ágústmánuður í ár hefur ekki verið líklegur til stórræða enn sem komið er.
Við skautum líka yfir kuldana, en lengri töflur eru í viðhenginu.
Lægsti meðalhiti ágústdags:
ár | mán | dagur | meðaltal | |
1956 | 8 | 27 | 4,49 |
Meðalhiti landsins alls var ekki nema 4,5 stig þann 27. ágúst 1956 - enda voru sett kuldamet víðs vegar um land.
Sami dagur á lægsta landsmeðallágmarkið
ár | mán | dagur | meðaltal | |
1956 | 8 | 27 | 0,70 |
Það var 0,7 stig.
Og að lokum lægsti landsmeðalhámarkshiti
ár | mán | dagur | meðaltal | |
1977 | 8 | 31 | 7,21 |
Haustið kom óvenju snögglega 1977. Hitabylgja hafði gengið yfir um miðjan mánuð - ein af bestu hitabylgjum ágústmánaðar. Þann 27. gerði mikið illviðri af suðaustri. Það var sérstakt fyrir það hversu mikið af trjám brotnaði enda þung af laufi. Allt í einu var komið haust og það staðfestist næstu daga með næturfrostum og snjó á fjöllum. En haustið varð samt hagstætt úr því - en það var haust en ekki sumar.
14.8.2011 | 01:05
Enn er sumar á öllu norðurhveli
Sumarið er mjög stutt yfir Norðuríshafi og við strendur þess. Nýr vetur fæðist yfirleitt þar eða þá með vaxandi næturfrostum nyrst á meginlöndunum. Næturfrosta er auðvitað þegar farið að gæta á heiðskírum nóttum - meira að segja á stöku stað hérlendis. Sömuleiðis fer þætti sólgeislunar í bráðnun íss á norðurslóðum að ljúka. Lágmarksútbreiðslu íssins er yfirleitt náð einhvern tíma í september - stundum snemma en stundum seint í mánuðinum. Við fáum ábyggilega að heyra frá lágmarkinu í ár. Það er bara á síðustu árum sem hafíslágmarkið kemst í fréttir - áður var öllum (eða nærri öllum) nákvæmlega sama. Hvað skyldi hafa breytt þessu? Heldur þessi áhugi áfram á næstu árum?
Í dag var hvergi mikið frost yfir Norðuríshafinu. Hlýtt er enn að deginum á kanadísku heimskautaeyjunum hiti langt yfir meðallagi við strendur Síberíu (þótt þar sé farið að gæta næturfrosta). Þykktin (mælir hita milli 1000 hPa og 500 hPa þrýstiflatanna) var hvergi undir 5260 metrum. En lægri tölur birtast væntanlega innan viku eða svo. Einmitt núna (á laugardagskvöldi 13. ágúst) er því spáð að það gerist milli Alaska og norðurskautsins - en sú spá er ekki endilega rétt.
Það er hálfnöturlegt að við séum nærri því inni við lægstu stöðu 500 hPa á norðurhveli. Að vísu njótum við enn sólar- og sjávaryls og nálægðar við hlýrri slóðir heldur en Norður-Grænland. Kortið sem við horfum á í dag sýnir hæð 500 hPa-flatarins. Auðvelt er að rugla saman hæð þess flatar og þykktinni áðurnefndu - ég veit það. Mismunur talnagilda hæðar og þykktar segir okkur hver loftþrýstingur við sjávarmál er.
En spákortið er frá evrópureiknimiðstöðinni (af opnum vef hennar) og gildir á hádegi mánudaginn 15. ágúst.
Fastir lesendur kannast við táknmál kortsins, en aðrir verða að vita að höfin eru blá, löndin ljósbrún. Ísland er neðan við miðja mynd. Bláu og rauðu línurnar sýna hæð 500 hPa-flatarins í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Því þéttari sem línurnar eru því meiri er vindurinn milli þeirra. Þykka, rauða línan markar 5460 metra hæð, en sú þunna sýnir hæðina 5820 metra.
Nú geta lesendur sleppt næstu málsgrein (hana er ekki hægt að lesa nema mjög hægt) enda stendur ekkert þar sem þeir þurfa að vita.
Ég hef að vísu ekki reiknað tölurnar út en ég held að á heildina litið hafi línurnar á kortinu ekki verið jafngisnar í sumar. Lægsti hringurinn er 5340 metrar inni í kuldapollinum við Norður-Grænland og ef grannt er skoðað má sjá mjög þröngan 5340 metra hring undir L-inu yfir Íslandi. Þykktin yfir Norður-Grænlandi er þó niðri í 5260 metrum en hér á landi er hún um 5440 metrar. Þessi 180 metra munur jafngildir um 9 stigum í meðalhita neðri hluta veðrahvolfs. Þrýstingur undir 5340 metra línunni er lægri hér á landi sem þessu nemur, en 180 metrar eru um 22 hPa.
Mikil hlýindi streyma á mánudag norður Skandinavíu austanverða, myndu hér á landi nægja til þess að forða okkur frá hitabylgjulausu sumri. Engin slík hlýindi er að sjá á okkar slóðum - en sumarhitabylgjur af nærri fullum styrk geta komið á Íslandi allt fram til 10. september - líkurnar fara hins vegar hraðminnkandi með hverjum deginum. Sérstaklega vegna þess að kalda loftið (ekkert voðalega kalt þó) á að vera yfir okkur svo lengi sem lengstu spár ná. Spár eru hins vegar oft vitlausar - munum það.
13.8.2011 | 01:35
Lægsti hiti á veðurstöðvum í ágúst
Á dögunum litum við á hæsta hámarkshita sem mælst hefur á veðurstöðvum í ágúst. Ekki var þó von á neinum nýjum metum í hita - og ekki útlit fyrir slíkt næstu daga eða viku. En í viðhengi dagsins er listi yfir lægsta hita á öllum veðurstöðvum, þrískiptur eins og áður. Fyrst er listi yfir lágmörk allra sjálfvirkra stöðva, síðan eru mannaðar stöðvar frá og með 1961 til 2010 og að lokum mannaðar stöðvar frá 1924 til 1960.
Ný met sem þegar hafa verið slegin í núlíðandi ágústmánuði eru ekki með í listanum - enda mánuðurinn ekki liðinn. En kíkjum á efstu færslur listanna þriggja.
fyrsta ár | síðasta ár | metár | metdagur | met | nafn | |
1996 | 2010 | 1996 | 25 | -4,7 | Þingvellir | |
2006 | 2010 | 2009 | 22 | -4,0 | Brúarjökull B10 | |
2004 | 2010 | 2007 | 28 | -4,0 | Árnes | |
1994 | 2010 | 2005 | 28 | -3,9 | Gagnheiði | |
2004 | 2010 | 2010 | 29 | -3,7 | Möðrudalur sjálfvirk stöð | |
1994 | 2010 | 1997 | 25 | -3,6 | Þverfjall | |
2002 | 2010 | 2005 | 28 | -3,6 | Hveravellir sjálfvirk stöð | |
1994 | 2010 | 1994 | 29 | -3,6 | Sandbúðir | |
2004 | 2010 | 2005 | 27 | -3,5 | Haugur sjálfvirk stöð | |
1996 | 2010 | 1998 | 25 | -3,5 | Möðruvellir |
Tvennt vekur athygli á þessum lista. Í fyrsta lagi eru þar engar mjög lágar tölur - enda hafa hlýir ágústmánuðir verið í tísku um alllangt skeið. Í öðru lagi tekur maður eftir því að hér blandast saman stöðvar á láglendi, á hálendi og á fjallatindum. Sólargangur styttist og neikvætt geislunarjafnvægi hefur náð undirtökum. Morgunsárið getur því orðið býsna kalt í skugga. Tindastöðvarnar eru kaldastar í norðankuldaköstum með vindi en flatlendisstöðvar í heiðríkju og logni.
Listi mönnuðu stöðvanna 1961 til 2010 sýnir lægri tölur en sá að ofan.
fyrsta ár | síðasta ár | metár | metdagur | met | nafn | |
1974 | 1977 | 1974 | 27 | -7,5 | Sandbúðir | |
1990 | 2000 | 1997 | 10 | -6,5 | Snæfellsskáli | |
1965 | 2003 | 1971 | 28 | -6,3 | Hveravellir | |
1962 | 2010 | 1982 | 28 | -5,6 | Staðarhóll | |
1961 | 2010 | 1963 | 28 | -5,1 | Grímsstaðir | |
1963 | 1995 | 1985 | 27 | -4,7 | Hvanneyri | |
1980 | 2010 | 1985 | 27 | -4,7 | Lerkihlíð | |
1961 | 2009 | 1995 | 24 | -4,6 | Möðrudalur | |
1988 | 2010 | 1993 | 11 | -4,4 | Stafholtsey | |
1961 | 1983 | 1974 | 27 | -4,3 | Þingvellir |
Lægsta talan er nærri þremur stigum lægri heldur en sú sem lægst er í efri töflunni og munar nærri 4 stigum á Sandbúðametunum tveimur. Frostið í Sandbúðum 1974 er það mesta sem mælst hefur hér á landi í ágúst. Næstlægsta talan er úr stopulu gagnasafni Snæfellsskála en hann er ein hæsta veðurstöð landsins. Það er eina talan eftir 1996. Að lokum er síðasta taflan.
fyrsta ár | síðasta ár | metár | metdagur | met | nafn | |
1952 | 1960 | 1956 | 27 | -6,1 | Barkarstaðir | |
1937 | 1960 | 1956 | 29 | -6,0 | Möðrudalur | |
1939 | 1947 | 1943 | 31 | -5,5 | Núpsdalstunga | |
1924 | 1960 | 1943 | 28 | -5,5 | Grímsstaðir | |
1937 | 1960 | 1956 | 28 | -4,5 | Reykjahlíð | |
1924 | 1960 | 1940 | 23 | -4,5 | Gunnhildargerði | |
1940 | 1960 | 1956 | 28 | -4,4 | Hlaðhamar | |
1951 | 1960 | 1956 | 27 | -4,4 | Blönduós | |
1937 | 1960 | 1956 | 28 | -3,9 | Sandur | |
1937 | 1958 | 1956 | 28 | -3,7 | Þingvellir |
Hér sjáum við lágmarksmetið í byggð, frá Barkarstöðum í Miðfirði 27. ágúst 1956 en minnst var á þá köldu nótt hér á hungurdiskum 3. ágúst. Sjö tölur á listanum eru úr þessu sama kuldakasti. Álíka kalt varð í ágúst 1943. Núpsdalstunga er í Miðfirði eins og Barkarstaðir. Þetta landsvæði er drjúgt í lágum tölum, sérstaklega síðsumars. Þeir sem fylgjast nákvæmlega með daglegum lágmarkshita á landinu á vef Veðurstofunnar hafa e.t.v. tekið eftir því að þar sést Gauksmýri stundum í neðstu sætum þessa dagana. Ég veit ekki hvort heimamenn telja hana í Miðfirði - en ekki er fjarri lagi að gera það. Þegar þetta er skrifað (um miðnætti aðfaranótt laugardags 13. ágúst er hiti kominn niður í 0,1 stig á Haugi - en sú stöð er líka í Miðfirði mjög skammt frá Barkarstöðum og Núpsdalstungu.
Í eldri gögnum er ekki mikið af mjög lágum ágústtölum. Lægst er mæling frá Möðruvöllum í Hörgárdal frá 29. ágúst 1891, -5,9 stig, og lág tala, -5,0 sást á mæli í Holti í Önundarfirði 22. ágúst 1906. Reyndar liggur sú stöð undir grun um óeðlilega lágar lágmarksmælingar um þetta leyti.
En næstu daga er spáð nokkrum vindi þannig að líkur á ofurköldum morgunsárum minnka frá því sem verið hefur undanfarna daga. Kalt verður þó víða á laugardagsmorgninum 13. En það er svosem ekki búist við neinum hlýindum heldur. Kannski við kíkjum á kuldapollastöðuna á morgun.
Veltið ykkur svo upp úr viðhenginu.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 01:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.8.2011 | 00:43
Vesturlandsdragið? Suðausturhryggurinn?
Þótt þrýstisviðið yfir landinu sé síbreytilegt frá klukkustund til klukkustundar og frá degi til dags sjást fyrirbrigðin sem nefnd eru í fyrirsögninni furðu oft í gegnum allan breytileikann. Ekki hafa þau þó verið nefnd sérstökum nöfnum þar til nú - enda ekki víst að ástæða sé til nafngiftar. En í þessum pistli fá þau að holdgerast einu sinni - (þótt ekki sé nýjársnótt).
Kortagrunnur í myndum er gerður af Þórði Arasyni. Fyrsta myndin á að sýna Vesturlandsdragið en það er sveigja sem kemur á þrýstilínur yfir landinu þegar vindátt er austlæg. Landið aflagar þrýstisviðið á þennan hátt. Það fer eftir vindátt (almennri stefnu þrýstisviðsins á svæðinu), vindhraða (almennum þrýstibratta á svæðinu) og stöðugleika loftsins hversu áberandi það er.
Ekki verða hér taldir allir fylgiþættir dragsins, en nefnum samt þrjá: i) Meiri vindhraði er undan Mýrdal, Eyjafjöllum og við Vestmannaeyjar heldur en hið almenna þrýstisvið gefur tilefni til. ii) Aukinn þrýstibratti undan Vestfjörðum eykur vind á þeim slóðum. iii) Bjartviðri í innanverðum Húnavatns- og Skagafjarðasýslum. Vindur stendur þar af landi og hindrar ríkjandi norðaustanátt í að ná inn á svæðið. Við þessa mótstöðu verður til samstreymissvæði á annesjum og þar er oft úrkoma, snjókoma á vetrum í þessari stöðu.
Að sumarlagi er myndin yfirleitt allt önnur.
Þá er tilhneiging til lægðarmyndunar yfir landinu, lægðardragið breiðist til austurs og dæmigerð lögun þrýstilína í austlægum áttum verður eins og kortið sýnir. Þá er algengt að óljós hæðarhryggur liggi vestur um Skaftafellssýslur og þar er þá hægur vindur og þokuloft. Aðalafleiðing sumaraflögunar þrýstisviðsins kemur fram á Norðurlandi. Í austlægum áttum sveigir landið þrýstisviðið þannig að vindur blæs af hafi í Húnavatns- og Skagafjarðarsýslum, en á Norðausturlandi vill vindur frekar standa af suðaustri og vinnur á móti innrás sjávarloftsins. Í heildina kemur þetta þannig út að hlýir dagar eru fleiri á austanverðu Norðurlandi heldur en á því vestanverðu.
Síðasta mynd þessa pistils sýnir dæmigerða hringrás yfir landinu að deginum á sumrin.
Bláu örvarnar sýna stefnu hafgolunnar kl.15 eins og hún reiknaðist í gamalli greinargerð minni um dægursveiflu vinds í júnímánuði (mynd 10, bls. 8). Hún stendur alls staðar nánast beint af hafi inn yfir ströndina. Brúnu, stóru, örvarnar sýna hins vegar áhrif þeirrar aflögunar sem landið veldur á þrýstisviðinu og rætt var um hér að ofan. Sé þrýstisviðið mjög flatt fyrir hefur hin eiginlega hafgola undirtökin og blæs vindur þá af vestri bæði í Borgarfirði og við Breiðafjörð, sé áttin hins vegar austlæg tekur hún völdin af hafgolunni - eins og myndin sýnir. Vindur í Borgarfirði og við Breiðafjörð vex þá af landi um miðjan daginn og stundum nær sjávarloftið úr Húnaflóa suður um. Er þetta eins konar öfug hafgola?
Hitalægðin yfir landinu er þó ekki öll sem sýnist því athuganir á hálendinu sýna mjög litla dægursveiflu þrýstings þótt mjög greinileg hitalægð komi fram þegar hann er leiðréttur til sjávarmáls. Reiknitilraunir Haraldar Ólafssonar og félaga munu vonandi skýra þetta dularfulla mál að fullu en Haraldur og Reiknistofa í veðurfræði standa fyrir mörgum athyglisverðum reikniverkefnum sem varpa ljósi á ýmis fyrirbrigði í veðurfari hérlendis, sérstaklega þau sem varða vinda.
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.12.): 20
- Sl. sólarhring: 214
- Sl. viku: 985
- Frá upphafi: 2420869
Annað
- Innlit í dag: 15
- Innlit sl. viku: 864
- Gestir í dag: 15
- IP-tölur í dag: 15
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010