Bloggfærslur mánaðarins, júní 2011

Rétt fyrir mánaðamót

Þegar þetta er skrifað (miðvikudagskvöldið 29. júní) er einn dagur eftir af mánuðinum. Uppgjör er því ekki alveg tímabært - ætti að koma frá Veðurstofunni á föstudag og trúlega munu aðrir bloggarar einnig fjalla um mánuðinn.

En lítum hér á fáeina mola. Að minnsta kosti eitt merkilegt met var sett í mánuðinum. Meðalhiti mánaðarins á Gagnheiði er í kringum -0,8 stig. Erfitt er að keppa við þessa stöð í lágum hita á þessum tíma árs, enda hirti hún lægsta meðalhita júnímánaðar nærri því strax og hún var stofnuð (1993). En samt hefur gamla metið (-0,15°C) staðið frá 1998 og hitinn í núlíðandi júnímánuði því marktækt lægri. Vonandi verður einhver bið á því að metið verði slegið aftur.

Mánaðarmeðalhitalágmarksmetið á mannaðri stöð var ekki í hættu. Svartárkot virðist ætla að verða kaldasta stöð í byggð núna í júní með 3,7 stig. Metið er úr Grímsey 1882, 1,7 stig. Yngra met er frá Skoruvík á Langanesi en þar var meðalhiti í júní 1952 2,5 stig. Þar skammt frá er nú stöðin Fontur en meðalhiti í júní í ár stefnir þar í 3,6 stig. Trúlega er ívið kaldara þar heldur en í Skoruvíkinni.

Gagnheiði setti nú einnig eitt dægurlágmarksmet fyrir landið þegar lágmarkshitinn þann 22. mældist -4,9 stig. Þetta er 1,5 stigi neðar heldur en fyrra met sem sett var í Sandbúðum á Sprengisandi þennan dag 1978.

Átján daga í mánuðinum var Gagnheiði með lægsta hita sólarhringsins, sex daga mældist lægsti hitinn á Þverfjalli vestra en stöðin þar er í 750 metra hæð yfir sjó, 200 metrum lægra en Gagnheiði.

Frost mældist einhvers staðar á landinu alla daga mánaðarins og í byggð voru frostnætur 15.

Óvenjulegt er líka að stöð á höfuðborgarsvæðinu skuli vera hlýjasta stöð mánaðar - ég hef að vísu ekki athugað hvenær það gerðist síðast. Af sjálfvirku stöðvunum er Reykjavíkurflugvöllur hlýjastur, en síðan koma Geldinganes, Korpa og Veðurstofutún rétt í kjölfarið.

Hiti komst ekki í 20 stig á landinu nema einn dag, þann 19., og þá aðeins á tveimur stöðvum sýnist mér, Þingvöllum (21,7 stig) og Þyrli í Hvalfirði. Þetta er óvenjuslakur árangur í júní, en var þó ámóta fyrir þremur árum, 2008 þegar hæsti hiti í mánuðinum mældist 20,5 stig í Vík í Mýrdal. Hiti komst í 10 stig einhvers staðar á landinu alla daga.

Þingvellir voru átta sinnum með hæsta hita dagsins það sem af er mánuðinum og reyndar einu sinni lægsta hita á landinu öllu.

Mikill fjöldi dægurmeta var sleginn á einstökum veðurstöðvum. Stafar það bæði af kulda en einnig að mjög margar stöðvar hafa aðeins athugað í örfá ár. Ekki er ástæða til að tíunda það hér. Þó má nefna að fáein dægurhámarksmet féllu. Það sem vekur mesta athygli er að Stórhöfði náði nýju hámarksdægurmeti þann 28. þegar hiti þar mældist 15,5 stig, 0,7 stigum hærra en gamla metið sem var frá 1951.


Pistill um áhrif Grænlands á veður hér á landi

Grænland hefur gríðarleg áhrif á veðurfar við norðanvert Atlantshaf og þar með hér á landi. Áhrifin einskorðast ekki við lofthjúpinn heldur sjávarhringrás lika. Austur-Grænlandsstraumurinn ber með sér bæði hafís og kaldan sjó til landsins, í mestu hafísmánuðum verður Ísland eins konar skagi út úr miklu meginlandi norðurheimskautsins. Enginn möguleiki er á því að gera þessu efni skil í stuttum bloggpistli þannig að mynd sé á. Það þarf nokkra þrautseigju til að komast í gegnum skýringarmyndalausan textann hér að neðan.

Kuldi frá Grænlandi?
Því er stundum haldið fram að miklum kuldum stafi frá Grænlandsjökli og Grænland sé þannig eins konar kuldalind. En þessu er einmitt öfugt farið. Loft kólnar að sönnu yfir hájöklinum og streymir niður til allra átta, en við að falla niður til sjávarmáls hlýnar það um 20 til 30 stig. Loftið í kringum Grænland er líka stöðugt að kólna og hiti þess er því oftast lægri heldur en hiti loftsins sem ofan af jöklinum kemur.

Kalda loftið af jöklinum kemst því sjaldnast niður að sjávarmáli. En loft streymir nú samt niður eftir jöklunum. þar til það mætir kaldara lofti neðan við. Í stað þess togast efra loft niður og hlýnar það einnig þurrinnrænt (1°C/100 metra lækkun). Hlýrra loft er því oft hátt yfir Grænlandi en í nágrenninu og tilhneiging þar til lægðamyndunar í háloftum og bætir hún heldur í sunnanátt yfir Íslandi fremur en hitt og veldur því að hér er hlýrra en væri ef Grænland væri lágslétta nærri sjávarmáli.

Kuldinn sem fylgir Grænlandi er því ranglega kenndur því, en réttilega ísasvæðinu austan þess.

Stíflan Grænland
Þótt háhryggur Grænlands sé ekki „nema“ 2 – 3 þúsund metra hár hefur hann veruleg áhrif á framrás lofts í báðar áttir. Þegar vindur í neðri hluta veðrahvolfs er austlægur myndar Grænland fyrirstöðu og neyðir vind til að beygja úr austlægri í norðaustlæga stefnu (norðlæga norðan sjötugasta breiddarbaugs). Þar sem (grunnar) austanáttir eru tíðar á heimskautasvæðunum liggur kaldur norðan- og norðaustanstrengur langtímum saman meðfram Grænlandi, oft á skjön við þrýstilínur nærri ströndinni. Ganga má svo langt að kalla þetta hið eðlilega ástand á svæðinu.

Strengurinn nær oft alveg til Íslands. Þegar hlýtt loft úr suðaustri þrengir að strengnum mjókkar hann, en þykknar jafnframt og verður stríðari. Mörg illviðri hér á landi tengjast þessum streng og við viljum gjarnan kalla ástandið Grænlandsstíflu. Loftið sem kemur þá að landinu á sér oft mjög norðlægan uppruna og telst þá oft sérstakur loftmassi sem upphaflega er ekki eiginlegur hluti af hringrás lægðarinnar sem veldur suðaustan- eða austanáttinni sem þrengir að strengnum.

Nokkuð skörp skil verða þá á milli norðlæga loftsins annars vegar og þess sem sækir að úr austri. Freistandi er þá að teikna skil á kort, en hvers konar skil eru það? Þau tengjast oft engum lægðum. Við þessi skil má stundum sjá éljagarða sem eru mörg hundruð kílómetrar á lengd, ná frá Jan Mayen og langleiðina til Svalbarða. Pólarlægðir (öfugsniðnar) geta birst við þessa garða.

Stundum verður Ísland fyrir því að stífla sem verið hefur við Grænland norðaustanvert „brestur“ og kalda loftið fellur suður um Ísland, þá má oft greina eins konar kuldaskil við syðri brún kalda loftsins, skil sem eru ekki tengd neinni eiginlegri lægð. Þó myndast stundum pólarlægðir í þessu lofti eftir að það er komið suður fyrir land og valda þær leiðindum á Bretlandseyjum.

Teppið frá Grænlandi
Grænland hindar einnig loftstrauma sem koma úr vestri, en á því eru þó ýmis tilbrigði. Algengt er að niðurstreymi sé austan Grænlands í vestanátt, loft í niðurstreymi hlýnar, en vegna þess að loft í neðri lögum austan við er fremur kalt, nær niðurstreymið aldrei til jarðar en niðurstreymishitahvörf myndast við efra borð kalda loftsins. Er eins og teppi hafi verið lagt yfir það loft sem neðst liggur. Þá þornar oft og léttir til hér á landi, á sumrin hlýnar jafnvel þó kuldaskil fari yfir. Rakastig getur fallið nokkuð rösklega.

Lægðardrag myndast gjarnan við Grænland þegar svona háttar til og hangir þar fast vegna þess að það er bundið niðurstreyminu. Þá snýst vindur til suðvestanáttar hér á landi og algengt er að þokusudda reki þá að vestanverðu landinu. Þá kemur upp sú aðstaða að suðvestanáttin sem getur verið býsna hlý á vetrum er samt kaldari en niðurstreymisloftið sem myndar teppið.

Kalt loft kemur yfir Grænland
Sé loftið austan Grænlands hlýrra en það sem er á leið yfir jökulinn kemst kalda loftið alveg niður að sjávarmáli austan við og myndast þá mjög kröftug lægð milli Íslands og Grænlands. Sé háloftabylgjan sem fylgir henni á leið til norðausturs gerir venjulega útsynningsillviðri með tilheyrandi særoki hér á landi. Úrkoma er þá lítil vegna þess hvað loftið sem fellur niður af Grænlandi verður þurrt. Þó það fari síðan yfir hlýjan sjó til Íslands nær það ekki að rakamettast vegna þess hve hvasst er (tími hvers loftbögguls yfir sjónum er lítill).

Sé háloftabylgjan á leið suðaustur á hún sem slík mun meiri vaxtarmöguleika. Fer það eftir braut bylgjunnar hvað gerist við Ísland. Ef hún er norðarlega gerir norðanáhlaup. Fari hún yfir mitt Grænland getur fyrst gert suðvestanátt en síðan norðaustanáhlaup. Einnig festast lægðirnar stundum á Grænlandshafi og losna ekki. Þá dælist suðlægara loft til Íslands. 

Krækt fyrir Hvarf  
Stundum þegar Grænland stíflar framrás kulda úr vestri nær loftið að krækja suðurfyrir í mikilli vindröst sem getur náð til Íslands (þó algengara sé að hún haldi til austurs fyrir sunnan land). Loftið sem fer þessa leið mætir þá lofti sem annað hvort hefur lent í niðurstreymi austan Grænlands og er þá þurrt og tiltölulega hlýtt, eða þá hefur sigið suður austan Grænlands og er mjög kalt. Við skilyrði af þessu tagi myndast gjarnan élja- eða vindgarðar frekar en lægðir yfir Grænlandshafi.

Ég er að hugsa um að endurtaka þetta síðar eða bæta í, nóg er efnið.


Upprifjun á leiðinlegu veðri í júnílok

Illviðri eru ekki algeng síðustu dagana í júní, en vel má rifja upp fáein sem bar upp á 27. til 30. Aðalheimild er Veðráttan.

29. júní 1924 þykir merkilegur fyrir þær sakir að þá gerði miklar krapaskúrir niður undir byggð í nágrenni Reykjavíkur. Ekki hef ég athugað það nánar hvað var á seyði - trúlegra er þó að um óvenju miklar síðdegisdembur hafið verið að ræða úr kuldapolli yfir landinu frekar en að útsynningur hafi verið svona kaldur.

27. til 29. júní 1932 varð alhvít jörð sums staðar í uppsveitum norðanlands í norðanáhlaupi í annars tiltölulega hagstæðum mánuði.

28. og 29. júní 1940 gerði illviðri af austri með mikilli úrkomu. Miklar skemmdir urðu af hvassviðri í matjurtagörðum sunnanlands, einkum í ofanverðri Rangárvallasýslu, þar sem sagt var að grjótgarðar hefðu fokið um koll. Vélbátur slitnaði upp í Keflavík. Miklir skaðar urðu í skriðuföllum á Austurlandi, sérstaklega á Eskifirði þar sem kjallarar fylltust af vatni og fólk flýði úr húsum. Mörg hús skemmdust, brúin á Eskifjarðará sópaðist í burtu. Stífla rafstöðvarinnar bilaði. Kágarðar, tún, fiskreitir o.fl. skemmdust. Margar kindur króknuðu eða fórust í vötnum í Skaftafellssýslum.

29. júní 1955 varð mikið hlaup í Múlakvísl og Skálm, brýrnar sópuðust af og varnargarðar skemmdust. Ég held að á síðari árum hafi menn viljað tengja þetta meintu Kötlugos undir jökli - en er ekki alveg viss.

27. júní 1961 króknuðu nýrúnar ær í fjárrekstri leið upp úr Hvítársíðu í hvassviðri og krapahríð.

28. júní 1964 varð alhvítt af snjó á Hólum í Hjaltadal.

27. júní 1971 var mikið moldrok á Suðvestur- og Vesturlandi. Tjón varð er fræ og áburð skóf ásamt mold á Snæfellsnesi. Þessi júnímánuður var einstaklega þurr, heildarúrkoma mánaðarins í Reykjavík var aðeins 2,1 mm og 2,2 mm í Stykkishólmi.

Þetta er nokkuð vel sloppið.

 


Læst staða?

Júnímánuður er ekki alveg liðinn og því ekki komið að uppgjöri hans. Við lítum samt á meðalkort fyrir mánuðinn það sem af er, þetta er meðalhæð 500 hPa-flatarins (uppáhaldsflatar hungurdiska) á tímabilinu 1. til 24. júní. Kortið er frá bandarísku veðurstofunni.

w-blogg270611-ii

Við sjáum landaskipan við norðanvert Atlantshaf með Labrador í vestri og Evrópu í austri. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru dregnar ofan í grunnkortið með heildregnum svörtum línum. Þar má sjá jafnhæðartölur, það er 5520 metra línan sem teygir sig suður um Ísland og í kringum lægð sem þar hefur setið. Þeir sem litu á pistil gærdagsins og kortið þar sjá að lítill munur er á kortunum tveimur hér í námunda við Ísland, enda hefur staðan verið læst mestallan mánuðinn.

Nú vill svo til að hæð 500 hPa-flatarins yfir landinu er ekki mjög fjarri meðallagi júnímánaðar, en hins vegar er hæðarvik allmikið bæði suðaustan við land og yfir Grænlandi. Vikið suðausturundan er mest undan Írlandi norðvestanverðu þar sem hæðin á þessum tíma árs ætti að vera um 5600 metrar, hún er um 80 metrum undir meðallagi. Yfir Vestur-Grænlandi er vikið hins vegar um 150 metrar yfir meðallagi. ætti að vera rúmlega 5440 metrar en er 5590. Ég hef merkt ás hæðarhryggjarins inn með rauðri strikalínu.

Þetta er verulegur viðsnúningur sem leiðir til þess að hér hafa norðlægar áttir verið ríkjandi og kalt loft linnulítið borist suður með Grænlandi austanverðu. Rétt er að bíða til mánaðamóta með samanburð við fyrri ár.

Satt best að segja lítur út fyrir svipaða stöðu áfram. Vonandi hlýnar samt eitthvað - því enn er sumarið í sókn á norðurhveli.


Skamvinn hitabylgja í Vestur-Evrópu?

Loftið yfir landinu er nú ívið hlýrra heldur en var lengst af í vikunni, er að slefast upp fyrir þykktina 5400 metra. Það er auðvitað langt í frá gott og ekki heldur það að varla er meira í boði næstu daga. Sumar spár segja meira að segja að þykktin eigi aftur að detta niður fyrir 5350 um eða eftir miðja viku. En meir um það þegar og ef að því kemur.

Kort dagsins sýnir 500 hPa-hæðina (heildregnar, svartar línur) og þykktina (rauðar strikalínur) eins og spáð er kl. 18 á sunnudag (26. júní).

w-blogg260611

Ás kalda loftsins að norðan liggur í bili fyrir vestan land. Þegar lægðin sem hér er suður af landinu hreyfist til norðnorðausturs skammt undan Austurlandi verður komin norður fyrir er hætt við því að kuldaásinn lendi aftur á landinu. Gríðarlega hlýtt loft sækir nú norður á bóginn yfir Vestur-Evrópu. Þegar þetta kort gildir er 5700 metra þykktarlínan komin norður fyrir París. Svo hlýtt loft er sjaldgæft á Bretlandseyjum og líka þegar kemur norður til Hollands og Danmerkur. Spænska veðurstofan varar við miklum hita á sunnudag - enda er þykktin þar yfir 5760 metrum.

Ný hitamet eru þó varla væntanleg því þessi hlýja tunga hreyfist svo hratt yfir þessi svæði. Það verður þó gaman að fylgjast með hitatölum frá þessum slóðum næstu tvo til þrjá daga. Danska veðurstofan gerir ráð fyrir því að hiti muni ná 30 stigum á stöku stað á Jótlandi á þriðjudaginn (28. júní). Kalda loftið ryðst síðan yfir í kjölfarið með þrumuveðri og ofsadembum, en það hlýja sest að í Norður-Rússlandi og heldur við þeim hitum sem ríkt hafa þar að undanförnu.

Á kortinu hér að ofan má sjá dálítinn kuldapoll við Vestur-Grænland. Hann hreyfist til suðsuðausturs og verður fóður fyrir lægð eða lægðir seint í vikunni.


Tvær vísanir

Hungurdiskar eru óvenjulegir í dag, innihalda aðeins tvær vísanir í annað vefefni. Sú fyrri er í tilefni af sólstöðunum og jónsmessunni.

Einhver vék að mér þeirri spurningu hvers vegna norðurlandabúar haldi upp á miðsumar á jónsmessu en ekki á sólstöðudaginn. Ég hef þá einkakenningu að jónsmessuhátíðin sé fyrst og fremst morgunsvæfum að þakka - þeir kvöldsvæfu eru löngu sofnaðir og taka þar af leiðandi ekki eftir því að sól sest síðast að kvöldi ekki á sólstöðudaginn sjálfan heldur 2 til 3 dögum síðar - einmitt á jónsmessunni. Þessu hafa morgunsvæfir af hyggjuviti sínu tekið eftir við vökur sínar. Kvöldsvæfir hafa hér verið ofurliði bornir - eða rænulitlir, því þeir ættu að halda upp á sínar sólstöður 2 til 3 dögum fyrir 21. júní. Er hér fágætt dæmi um sigur morgunsvæfra yfir kvöldsvæfum.

Rétt er að taka fram að það sem hér að ofan stendur á betur við á breiddarstigi Danmerkur og Englands heldur en hér á landi þar sem þessi munur er svo lítill að varla er von til þess að skarpir morgunsvæfir taki eftir honum. Þeir sem vilja alvöru vitneskju um sólargang (en ekki hálfkæring) ættu endilega að líta á vef Almanaks Háskóla Íslands þar sem finna má greinina Hve stórt er hænufetið?

Þetta var fyrri vísunin. Sú síðari er í ágætan pistil félaga Jeff Masters hjá Wunderblog. Þar ritar hann um nýlegar öfgar í veðurfari undir titlinum (lausleg þýðing): 2010-2011: Öfgafyllsta veðurlag á jörðinni frá 1816? Það er auðvitað argasti dónaskapur að bjóða lesendum hungurdiska upp á tengil á bloggsíðu á ensku, afsakið það. En yfirlitið er ágætt. Að mínu mati fer höfundurinn hins vegar offari þegar hann svarar spurningu sinni játandi - en menn mega það stundum.

Þótt veðurfar síðastlitið eitt og hálft ár hafi að sönnu verið öfgakennt í heiminum þarf við matið að leiðrétta fyrir tveimur meginþáttum. Annars vegar þá staðreynd að öfgarnar hafa verið mest áberandi þar sem blaðamenn, veðurbloggarar og veðurfræðingar eru þéttastir, til hægðarauka köllum við þau blaðursvæði jarðar. Einhver fylgni er örugglega á milli raunverulegra öfga annars vegar og öfga á blaðursvæðum hins vegar, en ólíklegt er að mesta ár blaðursvæða sé nákvæmlega það sem raunverulega er mesta öfgaárið.

Ég veit hins vegar að Bandaríkjamenn hafa á heimaslóðum búið sér til margs konar mælikvarða sem gera þeim kleift að raða árum hjá sér eftir öfgamætti. Þeir hafa líka manna best unnið að því að kortleggja tjónnæmi á heimaslóðum. Mættu aðrir taka þá sér til fyrirmyndar hvað þetta varðar.

Hin leiðréttingin sem verður að beita er sú að tjónnæmi í heiminum vex margfalt hraðar heldur en tíðni og afl veðuröfga (tjónmættis). Eyjafjallajökulsgosið í fyrra hefði engu tjóni valdið í Evrópu áður en hraðfleygar flugvélar fóru að soga ösku inn í hreyfla sína. Tjómætti nákvæmlega þessa goss er þó hið sama hvort sem það hefði orðið árið 1910 eða 2010. Tjónnæmið (flugvélar, seinkanir, mannslíf) er hins vegar gjörólíkt. Sama má segja um tjónnæmi gagnvart flóðum, þurrkum, fellibyljum, kuldaköstum o.s.frv.

Hugsanlegt er að ég muni síðar á hungurdiskum fjalla um tjónmætti og tjónnæmi, lesendur geta strax farið að kvíða því.


Kuldakastið nyrðra og eystra að verða óvenjulegt

Nyrðri hluti Vesturlands telst reyndar með í kuldanum - þótt bjartara og þar með bærilegra hafi verið þar um slóðir heldur en norðaustanlands. Hér suðvestanlands er hiti nærri meðallagi, að vísu langt undir meðalhita á þessum árstíma undanfarin ár. Ég bendi áhugasömum á blogg nimbusar - þar er fylgst með hita á Akureyri og í Reykjavík frá degi til dags.

En þetta kuldakast hefur nú staðið í fimm vikur, frá því um 20. maí. Lítið lát hefur verið á. Það er forvitnilegt að bera nákvæmlega þetta tímabil saman við fyrri ár. Daglegar athuganir á Akureyri eru aðgengilegar í höfuðgagnagrunni Veðurstofunnar aftur til 1949. Mælingar hafa þó verið nærri því samfelldar frá hausti 1881 nema hvað mælingar ársins 1919 hafa ekki fundist. Hægt er að fara nærri um hita á Akureyri það árið með því að notast við mælingar frá Möðruvöllum í Hörgárdal en athuganir voru gerðar þar frá hausti 1889 þar til í febrúar 1926 - fáeina mánuði á stangli vantar.

En lítum á kuldalistann frá og með 1949 fyrir tímabilið 19. maí til og með 23. júní, hann sýnir meðalhita á Akureyri nákvæmlega þetta tímabil. Listinn nær yfir 10 köldustu tímabilin. Hafið í huga að við látum árið í ár velja dagana. Það gefur því ákveðið samanburðarforskot gagnvart hinum árunum.

röðármh.°C
120115,51
219525,61
319496,31
419836,51
519736,53
619826,74
719816,88
819936,88
919796,92
1020056,94
 Hér er er svo komið að 2011 er í fyrsta sæti, nýkomið niðurfyrir skítatíðina 1952. Tímabil ársins 1949 er í þriðja sæti, reyndar á hraðri niðurleið vegna æðislegrar hitabylgju sem byrjaði fyrir þann 20. Árið 1983 kemur síðan inn í fjórða sæti. Benda má á að fjögur ár af 10 eru frá því um svipað leyti, 1979, 1981, 1982 og 1983 og 1973 þar ekki löngu áður.

Ekki hefur að tiltölu verið jafnkalt í Stykkishólmi nú og á Akureyri. Þar höfum við hins vegar aðgengi að athugunum allt aftur til 1846. Lítum á þann lista líka fyrir sömu 36 daga:

röðdagmeðalh.°C
118604,28
218824,55
318925,02
418855,10
519835,50
618515,58
720115,65
819495,67
918665,70
1019075,70
1119525,70

Hér er 2011 í sjöunda sæti, 1952 er í því ellefta og 1983 í því fimmta. Kaldast var 1860. Sumarið 1882 vann reyndar maraþonhlaup sumarsins alls, en júlí 1860 var furðuhlýr eftir mjög slaka sumarbyrjun.  

En hvað svo? Ekki er nein hlýindi að sjá á næstunni. En að gefnu tilefni er rétt að taka enn einu sinni fram að hungurdiskar eru ekki spáblogg.


Smælki um skýjaflokkun

Hungurdiskar hafa hingað til lítið fjallað um ský og skýjategundir. Hér er pistill um flokkunarkerfi Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar. Mjög margt má um ský segja, myndun þeirra, líf og eyðingu en framhaldi hér á hungurdiskum er ekki lofað - hvað svo sem síðar verður.

Hér að neðan er fjallað um alþjóðlega flokkun skýja – glæsilegar myndir eru oftast auðfundnar við leit að viðkomandi skýjaheiti á netinu (google). Nafnalistinn er í pdf-viðhengi.

Ský eru samsett úr ógrynni örsmárra vatnsdropa eða ískristalla sem eru sífellt myndast og eyðast á víxl. Oftast lifir hver dropi ekki nema stutta stund, skýið sem við sjáum er ekki það sama og við sáum fyrir nokkrum mínútum. Hreyfing þess gefur ein og sér oft ekki neinar beinar upplýsingar um vindhraða. Dropar sem myndast áveðurs við fjall lyftast yfir það og eyðast hinu megin. Skýið getur þó virst fast á fjallinu allan liðlangan daginn í hvössum vindi. Ský sýnast vera hlutir en eru í raun birtingarmyndir hraðra ferla í samkeppni rakaþéttingar og uppgufunar. Ský eyðast á nokkrum mínútum ef þétting bregst.

Ský gefa upplýsingar um ástand lofthjúpsins á hverjum tíma. Þetta á bæði við um skýjaathuganir af jörðu niðri sem og gervihnattamyndir sem farið var að taka upp úr 1960. Áður en vísindalegar veðurspár komu til sögunnar var alvanalegt að menn lásu ský, hver í sinni heimabyggð og spáðu veðri næstu klukkustundir eða daga eftir útliti, þróun og hreyfingu skýjanna. Er miður að sú þekking er að glatast. Í skýjum myndast (nær) öll úrkoma sem á jörðina fellur.

Ský skiptast annars vegar í bólstra (cumuliform), en hins vegar fláka eða breiður (stratiform). Bólstrar eru oftast sérstakir, skýlaus bil eru milli þeirra. Flákarnir og breiðurnar geta þakið stór svæði en eru oft misþykk eða þá greinilega reitaskipt. Sumir telja þráðaský (cirriform) sérstakan ættboga. Allmikið alþjóðlegt nafnakerfi er til yfir ský og eru þau með því greind í meginflokka (tegund), undirtegundir og afbrigði á svipaðan hátt og dýr og plöntur.

Ský greinast í tíu meginættir eða flokka, sem eru (alþjóðlegar skammstafanir eru í sviga):

Klósigar – cirrus (ci)
Blika – cirrostratus (cs)
Blikuhnoðrar – cirrocumulus (cc)
Netjuský  - altocumulus (ac)
Gráblika – altostratus (as)
Regnþykkni – nimbostratus (ns)
Flákaský – stratocumulus (sc)
Þokubreiða – stratus (st)
Bólstraský – cumulus (cu)
Skúra- eða éljaklakkur – cumulonimbus (cb)

Hentugt þykir að greina á milli skýja hátt og lágt á lofti, jafnvel þótt þau séu að öðru leyti eins. Athugið vel að ekki er átt við hæð yfir sjóndeildarhring heldur hæð yfir sjó.

Hæðargreinarnar (étages) eru þrjár, háský, miðský og lágský. Fyrstu þrír flokkarnir hér að ofan teljast háský (skýjabotn er í yfir 4 km hæð yfir athugunarstað) og byrja erlendu nöfnin öll á „cirro–“, næstu þrír flokkast sem miðský (2 – 4 km), tvö erlendu nafnanna byrja á „alto-“ (sem reyndar þýðir „há-”). Síðustu fjórir flokkarnir eru kallaðir lágský og er botn þeirra í innan við 2 km hæð yfir athugunarstað hér á norðurslóðum. Á suðlægari breiddargráðum er hæðarskiptingin heldur gleiðari og er skiptingin milli miðskýja og háskýja þar sett við 6 km hæð. Regnþykkni getur náð niður í lágskýjahæð og upp í háskýjahæð og skúraklakkarnir, sem skilgreindir eru sem lágský, geta náð allt upp í háskýjahæð.

Úrkoma fellur nær eingöngu úr skýjum þriggja meginflokka, regnþykkni (nimbostratus), skúraklökkum (cumulonimbus) og þokubreiðu (stratus). Úrkoma úr þokubreiðum er ætíð mjög smágerð (úði). Einn og einn dropi, snjóflyksa eða kornsnjór dettur stundum úr bólstrum og tætist úr fláka og netjuskýjum sem liggja á fjöllum í hvassviðri og fyrir kemur að dropar eða snjóflyksur detta úr grábliku. Fari úrkoma að falla að ráði úr þessum síðarnefndu færast þau um leið milli flokka og fá viðeigandi úrkomuskýjanafn.

Flokkunarkerfi Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar (WMO) er að meginstofni niðurstaða nefndar sem þáverandi alþjóðaveðurfræðistofnun (IMO) gaf út árið 1896. Nefndin byggði á hugmyndum sem þá voru um hundrað ára gamlar og höfðu smám saman verið að festa sig í sessi. Kerfið hefur ekki breyst mikið síðan þótt lyklakerfi það sem notað er til að breyta tegundarheitum í talnagildi í veðurskeytum hafi breyst lítillega. Breytingar á lyklun eru þó nánast engar frá 1949, en þá duttu nokkur skýjanöfn burt og önnur komu í staðinn, cirrus densus (þéttur klósigi) og cirrus nothus (falskur klósigi, klósigabastarður) sjást t.d. ekki lengur.

Áður en gervihnattamyndir og tölvuspár í þéttu neti komu til voru upplýsingar um gerð skýja mjög mikilvægar við veðurspár og áhersla var lögð á að rétt væri athugað. Eftir að tölvuspár bötnuðu og þær fóru að spá fyrir um myndun skýjakerfa og eyðingu þeirra hefur þetta mikilvægi minnkað og hefðbundin tegundagreining mun e.t.v. leggjast af við veðurskeytagerð í framtíðinni. Áhersla á skýjahulu og skýjahæð mun þó halda sér, en sítengdar myndavélar koma þá í stað hinna formlegu skeyta og er þegar farnar að gera það – en veðurfræðingurinn og aðrir skýjaglópar verða áfram að vita sínu viti til að skilja það sem fer fram.

Uppsetning skýjanafna
Skýjanöfn eru sett fram á eftirfarandi hátt:

[Sjá pdf-viðhengi - skýjanöfnin koma þar á eftir því sem hér er að ofan]


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Norðurhvel á jónsmessu

Lítið er um að vera á norðurhvelsmyndinni. Hér að neðan er sama spáin birt á tveimur myndum. Sú fyrri sýnir að vanda hæðir og lægðir í 500 hPa - sú síðari líka en þar er reynt að rýna í aðalatriði myndarinnar. Ekki eru þessar myndir augnayndi og er að vanda beðist velvirðingar á því - en vonandi að einhverjir læri eitthvað af þeim.

w-blogg220611a

Fastir lesendur hungurdiska ættu að kannast við meginatriði og tákn en myndin sýnir landaskipan á norðurhveli jarðar, norðurskaut um það bil í miðju og meginlöndin ljósbrún. Línur sýna hæð 500 hPa-flatarins frá jörð í dekametrum (dam = 10 metrar) og er 5460 metra hæðin sýnd með þykkri, rauðri línu. 5820 metra hæð er einnig dregin með rauðri línu, en sú er mjórri. Aðrar jafnhæðarlínur eru bláar og dregnar með 60 metra bili. Þar sem línurnar eru þéttar er hvasst í 500 hPa en hægur vindur er þar sem línurnar eru gisnar.

Það sem vekur athygli á þessu korti er fyrst að 5460 metra línan, góðkunningi okkar í vor, er nærri því horfin af kortinu, hún sést aðeins í kringum nokkrar lægðir. Enn er að hlýna á norðurhveli þannig að vel er hugsanlegt að 5460 línan hverfi alveg - við sjáum þó að í kuldapollinum norður af Grænlandi eru enn þrjár jafnhæðarlínur innan við hana.

Á kortinu er ógrynni smálægða (kuldapolla) eins og títt er á sumrin, þær sem liggja þar nærri sem jafnhæðarlínurnar eru hvað þéttastar hreyfast nokkuð ákveðið til austurs.

Sérstaklega má taka eftir því að engir meiriháttar hlykkir eru á 5820 metra línunni (sú þynnri rauða). Verulega hlýtt loft er eiginlega hvergi norðan Miðjarðarhafs austan Atlantshafs og Bandaríkjanna í vestri. Línan er í sinni nyrstu stöðu við 50°N í Rúmeníu.

Ef við skoðum smáatriði kortsins betur kemur í ljós að þrjár hæðir eru langt innan 5820 metra línunnar. Ein þeirra er rétt suðvestan við Grænland og hæðarhryggur yfir Grænlandi. Það er 5640 metra jafnhæðarlínan sem er innst við hæðarmiðjuna. Það þykir bara gott, en þykktin slefar rétt upp í 5500 metra - sem væri bara fínt hér á landi.

Önnur hæð er yfir Norður-Rússlandi. Þar er hæðin yfir 5700 metrum, mjög gott við 70°N.  Þar er þykktin 5640 metrar þar sem best er, frábær árangur - slíkt gerist ekki hér nema rétt í stöku sumri. Þriðja hæðin er svo við norðurströnd Kanada, álíka öflug.

Á fimmtudaginn (23. júní) verður Ísland norðan við mikinn en flatan kuldapoll. Lægðin við Nýfundnaland gæti eitthvað stuggað við honum - en of snemmt er að segja til um það. Hryggurinn yfir Grænlandi er framhallandi sem kallað er. Framhallandi háloftahryggir eru stirðir til hreyfingar og því miður er þessi líklegur til að viðhalda norðlægri átt í háloftunum eitthvað áfram.

En lítum nú á aðra gerð myndarinnar, þar sem ég hef teiknað þrjá hringi ofan í hana. Hringirnir marka nokkur aðalatriði myndarinnar.

w-blogg220611b

Svarti hringurinn er settur þar sem flestar lægðarmiðjurnar eru. Þarna um kring er meginröstin, flest hreyfist austur á bóginn. Ef hlýtt loft rífur sig norður fyrir þennan hring myndar það háþrýstisvæði eða alla vega hryggi með afgerandi hæðarbeygju. Á breiddarstigi háþrýstisvæðanna er tilhneiging mest til austanáttar (ekki taka örina allt of bókstaflega). Hún er merkt með gulbrúnum lit. Nyrst er síðan önnur lægðarhringrás (grænn hringur) þar sem síðustu vígi vetrarins hringsóla í dauðastríði sínu.

Meginlöndin eiga eftir að hlýna í nokkrar vikur til viðbótar, hafsvæðin í 6-7 vikur og Norðuríshafið í 8 til 10 vikur. Svarti hringurinn á því enn eftir að þrengjast eitthvað. Það þýðir að heimskautaröstin þokast að meðaltali nær Íslandi og þar með er enn möguleiki á að hún hreinsi burt kuldapollana sem plagað hafa okkur, sérstaklega íbúa Norður- og Austurlands. Hvað kæmi í staðinn er svo allt annað mál.

Við viljum alls ekki að græni hringurinn teygi sig hingað, honum fylgir ofstopi eða kuldi. Hans tími á að bíða þar til um og uppúr 20. ágúst. þegar sumri fer að halla.

Einu skulum við taka eftir til viðbótar á hringamyndinni en það er að miðja allra hringjanna er ekki við norðurskautið heldur okkar megin við það. Það táknar í grófum dráttum að kalda loftið er nær okkur heldur en á svipuðu breiddarstigi annars staðar. Græni hringurinn hallast þó til Kanada (eins og algengast er).


Dægursveifla hita og vinds í Reykjavík í júní

Lítum á dægursveiflu vinds og hita í júní í Reykjavík og berum saman léttskýjað og skýjað veður.

d-rvk_hiti_juni

Lárétti ásinn sýnir klukkustundir sólarhringsins en sá lóðrétti hitann í °C. Blái ferillinn er hitinn í léttskýjuðu og sá rauði í alskýjuðu veðri. Við sjáum að miklu munar á ferlunum. Dægursveifla hitans í léttskýjuðu er meir en sex stig, kaldast er að meðaltali klukkan 4 en hlýjast kl. 15. Frá og með kl. 16 fellur hiti ekki mikið fyrr en eftir kl. 20 að kvöldi. Eftir það fellur hann hratt, hraðast milli kl. 22 og 23.

Í alskýjuðu er dægursveiflan minni en tvö stig. Mjög litlu munar á hita kl. 4 og kl. 5 og frá og með kl. 12 breytist hiti ekki mikið fyrr en eftir kl. 17 þótt hlýjast sé kl. 15, rétt eins og í léttskýjuðu. Við sjáum að hámarkshiti í léttskýjuðu er 3,5 stigum hærri heldur en í skýjuðu.

w-d-rvk-f-juni

Síðari myndin sýnir dægursveiflu vindhraðans (í metrum á sekúndu). Mikill munur er á dægursveiflunni í skýjuðu og léttskýjuðu. Í léttskýjuðu er vindur á nóttunni mun minni heldur en á daginn, er þar komin hin misvelþokkaða hafgola. Munar hér meira en 3 m/s. Vindhraðinn nær hámarki kl. 16.

Í alskýjuðu er munur á degi og nóttu aðeins um 1,5 m/s. Hvassast er kl. 11 en hægast milli kl. 2 og 4 að nóttu. Í skýjuðu veðri er líklegra að lægðagangur sé í námunda við landið heldur en í björtu. Hafi ein öflug lægð komið í námunda við landið á tímabilinu sem hér er til viðmiðunar gæti hún hafa hækkað vindhraða í alskýjuðu umtalsvert og því skulum við ekki treysta því að meðalvindur sé almennt meiri í alskýjuðu heldur en léttskýjuðu. Ítarlegri rannsókn þarf til að skera úr um það.


Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 12
  • Sl. sólarhring: 183
  • Sl. viku: 2459
  • Frá upphafi: 2434569

Annað

  • Innlit í dag: 10
  • Innlit sl. viku: 2184
  • Gestir í dag: 10
  • IP-tölur í dag: 10

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband