Bloggfærslur mánaðarins, júní 2011

Enn einn smákuldapollurinn fer hjá

Á morgun og þriðjudag kemur enn einn smákuldapollurinn úr norðri og fer til suðurs fyrir vestan land. Reyndar er hann svo ómerkilegur að hann breytir litlu um veðurlag og hita fyrir norðan, en líkur á síðdegisskúrum aukast sunnanlands og sömuleiðis líkur á næturfrosti ef heiðríkt er.

w-blogg200611

Kortið sýnir þykktarspá hirlam-líkansins og gildir kl. 18. mánudaginn 20. júní. Jafnþykktarlínur eru heildregnar, en lituðu fletirnir sýna hita í 850 hPa-fletinum (í um 1400 metra hæð frá sjávarmáli). Frost er í þeim fleti þar sem liturinn er blár.

Í dag (sunnudaginn 19. júní) var þykktin yfir landinu suðvestanverðu um 5440 metrar en þó tókst sólinni að rífa hámarkshita dagsins á landinu upp fyrir 20 stig. Það er óvenju vel af sér vikið og fyrst og fremst því að þakka að við erum nú nærri sumarsólstöðum og þá er sól bæði hæst og lengst á lofti. Útgeisluninni er auðvitað sama, en hún mildast mjög í skýjuðu. Það verður spennandi að sjá hversu langt niður hitinn hrapar á Þingvöllum í nótt. Dægursveiflan er ótrúlega stór þegar heiðskírt er, loft er þurrt og jarðvegur einnig.

Ef bjart verður aðra nótt (aðfaranótt þriðjudags) gefur fallandi þykkt enn frekar tilefni til næturfrosta. En munið enn að hungurdiskar spá engu - en spár eru hér ræddar.


Norðanáttajúní - hver er mestur?

Norðan- og norðaustanátt hefur nú verið viðloðandi mestallan mánuðinn. Veðurnördum dettur þá í hug að athuga í hvaða júnímánuðum norðanáttir hafa verið mestar og þrálátastar. Sem stendur ráðum við yfir fimm mælitölum sem notast má við. Þær ná mislangt aftur í tímann, en lítum nú á:

1. Mismunur á loftþrýstingi austanlands og vestan. Þessi röð nær sem stendur aftur til 1881. Gengið er út frá því að sé þrýstingur hærri vestanlands heldur en eystra séu norðlægar áttir ríkjandi. Líklegt er að því meiri sem munurinn er, því þrálátari hafi norðanáttin verið. Ákveðin atriði flækja þó málið - en við tökum ekki eftir þeim hér. Samkvæmt þessum mælikvarða er það júní 1952 sem er mesti norðanáttarmánuðurinn, 1938 er í öðru sæti og 1897 í því þriðja.

2. Styrkur norðanáttarinnar eins og hann kemur fram þegar reiknuð er meðalstefna og styrkur allra vindathugana á öllum (mönnuðum) veðurstöðvum. Þessi röð nær aðeins aftur til 1949. Eftir þessum mælikvarða er júní 1952 í fyrsta sæti, 1997 í öðru og 1998 í því þriðja.

3. Gerðar hafa verið vindáttartalningar fyrir þær veðurstöðvar sem lengst hafa athugað samfellt og vindatugunum skipt á 8 höfuðvindáttir og prósentur reiknaðar. Síðan er tíðni norðvestan, norðan, norðaustan og austanáttar lögð saman. Þá fæst heildartala norðlægra átta. Samkvæmt þessari mælitölu er júní 1952 mesti norðanáttarmánuðurinn, 1897 í öðru sæti og 1946 í því þriðja.

4. Fjórði mælikvarðinn er fenginn úr endurgreiningunni amerísku og nær hann aftur til 1871. Fyrstu 20 til 30 árin verðum við þó að taka niðurstöðum greiningarinnar með varúð. Í þessum lista er júní 1952 í fyrsta sæti, 1928 í öðru, 1991 í þriðja og 1897 í því fjórða.

5. Fimmti kvarðinn er einnig úr endurgreiningunni nema hvað hér er reiknað í 500 hPa-fletinum. Hér er 1952 enn í fyrsta sæti, 1928 í öðru, 1987 í þriðja og 1927 í því fjórða.

Allir dómarar eru sammála um það að 1952 sé mestur norðanáttarjúnímánaða, ætli sé ekki best að trúa því. Ekki er samkomulag um annað sætið, en 1897 fékk samtals fleiri atkvæði en aðrir.

Hvernig voru svo júlí og ágúst þessi tvö ár?

Júlí 1952: Fremur óhagstæð tíð, en þurr. Tún seinsprottin. Hiti nærri meðallagi.
Ágúst 1952: Hagstætt til heyskapar framan af, en óhagstætt n-lands síðari hlutann. Hiti var í tæpu meðallagi.

Júlí 1897: Mjög stopulir þurrkar. Hiti nærri meðallagi á S- og V-landi, en hlýtt fyrir norðan.
Ágúst 1897: Votviðrasamt í flestum landshlutum. Hiti í meðallagi.

Ekki er hægt að segja að þessi sumur hafi verið lík. Enda segir veður í júní ekkert um veðrið í júlí og ágúst.


Hvar í ósköpunum er hlýja loftið?

Við liggur að það sé utan við kortið. Jæja, það fer eftir því hvaða kröfur við erum að gera. Það er þrátt fyrir allt norðanátt og hún er sjaldan hlý. Hún hefur líka þann eiginleika að vera til þess að gera þung og fleygast því auðveldlega undir hlýrra loft ofan við. Þar er ástandið skárra, þykktin yfir landinu í dag var 5420 til 5444 metrar. Það er lélegt, en ekki afleitt, við viljum helst fara yfir 5500. Hvar er það loft?

w-blogg180611

Sumir lesendur kannast við svipinn á kortinu. Þetta er spá um hæð 500 hPa-flatarins um hádegi á morgun (laugardaginn 18. júní) - heildregnar, svartar línur og þykktina, rauðar, slitnar linur. Þykktin segir til um meðalhita lofts á milli 500 og 1000 hPa-flatanna, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Í grófum dráttum fylgjast hæðar- og þykktarlínur að, en þó ekki alveg, síst í námunda við vaxandi lægðir og einnig þar sem hæðarsviðið er mjög flatt. Mikil flatneskja er á þessu korti eins og venjulega á sumrin, en þó er vindstrengur þvert yfir hafið frá Nýfundalandi og austur til Frakklands.

Skemmst er frá því að segja að þar er hlýja loftið sem við viljum fá til okkar. ég hef sett rauða, þykka línu nokkurn veginn þar sem 5520-þykktarlínan liggur. Eins og staðan er í augnablikinu er hingaðkoma hennar ekki í augsýn.

Við sjáum þó að vestur af Noregi er þykktin ofan við 5460 á allstóru svæði. Gallinn er sá að þessi hlýja er að nokkru fest þar við akkeri, hún verður til við niðurstreymi í skjóli fjallgarða Skandinavíu. Eitthvað kann þó að slitna hingað. Svipað er hér við Suðvesturland, lítilsháttar niðurstreymi er í skjóli landsins auk þess sem sólin belgir þykktina lítillega út að deginum. Það táknar að sæmilegir dagar geta komið á Suðvesturlandi og e.t.v. víðar þar sem vindur stendur af landi.

En við verðum að halda áfram að vona. Allt kortið er fullt af smálægðum, litlum kuldapollum sem reika þar um stefnulítið, aðeins vottar fyrir hæð við Norðaustur-Grænland.

Síðan háloftaathuganir hófust er vitað um eitt sumar þar sem þykktin yfir landinu fór aldrei yfir 5520 metra, það var 1979. Þykkt eins og sú sem er yfir landinu núna er mjög algeng á sumrin í venjulegu árferði. Höfum í huga að árferði hefur ekki verið venjulegt í júní undanfarin ár.


Nokkur júnímet (í flokknum sett á dag)

Í flokknum met sett á dageru ýmis útgildi veðurs sem hægt er að merkja með dagsetningu. Sum þessara júnímeta hafa komið við sögu hér á hungurdiskum áður, t.d. hitametin háu (30,5 stig, 22. júní 1939) og lágu (-10,5 í Nýjabæ 11. júní 1973).

Háþrýstimetið tengist hitabylgjunni miklu 1939, fádæma hlýtt loft var yfir landinu. En þann 21. mældist loftþrýstingur í Stykkishólmi 1040,3 hPa. Ég er að vinna að ítarlegri loftþrýstimetaskrá en hún er ekki lengra komin en svo að ég á eftir að raða gildum sem eru eldri en 1924 inn í töfluna. Næsthæsta gildi sem ég hef enn fundið er úr Reykjavík, 14. júní 1959, 1036,3 hPa. Þessi dagur er umkringdur öfgum á báða bóga, því einhvers verstu norðanveður sem við þekkjum gerði þann 12. og 17. þetta sama ár. Er sá 17. 1959 stundum tilfærður sem versti 17. júní allra tíma, alhvítt var þá um mestallt Norðurland. En illviðri þetta á reyndar í harðri samkeppni við fleiri afspyrnuslæm veður sem lagst hafa ýmist á þann 17.  eða dagana tvo næstu á eftir.

Lágþrýstimetið var sett á Stórhöfða í Vestmannaeyjum þ.11. 1983, 957,5 hPa. Minnisstætt norðaustanveður fylgdi þessari lægð. Mér sjálfum er það sérstaklega eftirminnilegt fyrir þær sakir að daginn áður birtist upp úr þurru tala undir 5100 metrum í hæð 500 hPa-flatarins yfir Narsassuaq á Grænlandi og 40 stiga frost. Háloftaathuganir þessa tíma voru svo gisnar að öflugir kuldapollar gátu hæglega leynst á milli þeirra. Tölvuspár vissu auðvitað ekkert af kuldapollinum heldur og líkön afskrifuðu mælinguna sem villu. Reikningarnir urðu síðan eftir því.

Þetta lágþrýstimet er langt undir því næstlægsta sem enn hefur komist í listann, 968,2 hPa frá Kirkjubæjarklaustri þann 16. árið 1961. Árið 1983 var merkilegt fyrir lágan loftþrýsting og lága stöðu efri þrýstiflata. Þá áttaði ég mig fyrst á því að veðurfar var orðið öðru vísi en ég hafði vanist fram að því. Sú viðhorfsbreyting mín er reyndar fyrst og fremst ævisögulegt vitni um þröngsýni frekar en eitthvað beinlínis veðurfræðilegt. Ámóta viðhorfsbreyting varð hjá mér veturinn 1966 til 1967 - en það er önnur saga.

Sólarhringsúrkomumet júnímánaðar er 167,1 mm og var sett á Gilsá í Breiðdal, 18. júní 2002. Þá gerði aldeilis óvenjulegt norðaustanillviðri. Stöðvaúrkomumet júnímánaðar voru slegin víða á Norðaustur- og Austurlandi og meira að segja í höfuðborginni stórskaddaðist trjágróður í illviðrinu. Þá mældist vindhraði í hviðu 55,8 m/s á Hraunsmúla í Staðarsveit, mesta hviða sem ég hef enn fundið í gögnum í júní.

Mesta snjódýpt sem getið er um í júní mældist þann 1. árið 1995 í Kálfsárkoti í Ólafsfirði, fyrningar snjóavetursins mikla.

Hitamunur er oft mikill í júní milli inn- og útsveita. Sá mesti sem ég hef komið auga á var kl. 18 þann 23. júní 1974 (í hitabylgjunni miklu). Þá var hiti á Hallormsstað 27,2 stig, en aðeins 6,8 stig á Kambanesi.


Norðurhvelið 17. júní

Enn líta hungurdiskar á ástandið á norðurhveli jarðar eins og það birtist í 48-stunda spá reiknimiðstöðvar evrópuveðurstofa (ecmwf). Kortið gildir á hádegi 17. júní (2011).

w-blogg160611

Heildregnar línur sýna hæð 500 hPa-flatarins frá jörð, þykkdregna, rauða línan sýnir 5460 metra. Við teljum að sumarið hafi völdin þar sem flöturinn liggur hærra en það. Hin rauða línan sýnir 5820 metra, Miðjarðarhafsástand, þessi lína tekur stundum á sig sveigjur langt norður á bóginn, en ekkert vottar fyrir því hér. Aðrar jafnhæðarlínur eru bláar. Því þéttari sem þær eru því hvassari er vindurinn.

Fyrir mánuði voru stór svæði hvelsins innan 5460 metra línunnar, nú afmarkast þau við fáeinar lægðir, kuldapolla sem dreifast óreglulega um allt hvelið. Lægðirnar hreyfast ekki mikið en þurfa samt á endurnýjun að halda öðru hvoru. Meðalhæð 500 hPa á hvelinu öllu nær ekki hámarki fyrr en eftir mánuð eða svo, þannig að kuldapollarnir minnka og miðjarðarhafsveðrið breiðist yfir stærra svæði.

Ef við lítum okkur nær má sjá myndarlega lægð sunnan við land og mikla flatneskju norðurundan. Breytingar á stöðunni eru afarhægar. Þótt sæmilega hlýtt loft berist til landsins í bili með austanáttinni norðan lægðarinnar má samt segja að lægðin haldi hlýju lofti frá okkur, það fer ekki í gegnum hana. Hún verður annað hvort að veslast upp eða fara áður en hlýindi geta umlukið allt landið.

Undir flatneskjunni fyrir norðan land er lag af köldu lofti sem sullast öðru hvoru suður yfir landið. Suðvesturland finnur ekki mikið fyrir því, en norðlendingar sitja í þungbúnu og köldu veðri. Kalda loftið er þykkara fyrir norðan land heldur en fyrir sunnan það og því er nokkur þrýstibratti yfir landinu þrátt fyrir flatneskjuna upp í 5 km hæð. Því meiri sem brattinn er því meiri er vindurinn og gætir hans mest á Grænlandssundi milli Íslands og Grænlands.  

Næstu vikuna verða örugglega einhver tilbrigði í veðri frá degi til dags þar sem mestu ræður hvort sólin skín eða ekki og hvort vindur stendur af sjó eða landi.

Það skiptir líka máli hvort jafnhæðarlínurnar hafa á sér hæða- eða lægðasveigju eða hvort loftið kemur yfir Grænland eða ekki. Lægðasveigjan minnkar stöðugleika og eykur líkur á skúradembum, en hæðasveigjan eykur stöðugleika og dregur úr úrkomulíkum. Dægursveifla skýjafars er ólík í háþrýstingi og lágþrýstingi. Háloftavindar af Grænlandi auka líkur á sólskini.

Fróðlegt getur verið að fylgjast með þessu þótt lítið virðist um að vera á venjulegum veðurkortum. Nördin finna alltaf eitthvað að bíta.


Af vorinu 1811 - í tilefni 200 ára fæðingarafmælis Jóns Sigurðssonar

Ekki hef ég frétt af neinum veðurathugunum af Vestfjörðum vorið 1811. Danski strandmælingaflokkurinn sem hafði fast aðsetur á Akureyri árin 1807 til 1814 gerði hins vegar ágætar veðurathuganir. Þær veita góða innsýn í veðurfar þessara ára. Óhætt er að segja að það hafi verið laklegt á okkar mælikvarða - sérlega slæmt. Óljósar fréttir eru af athugunum enskra kaupmanna í Reykjavík um svipað leyti, vonandi finnast þær um síðir ef til eru.

En lítum á hitann á Akureyri.

w-ak-1811

Línuritið nær fyrir tímabilið 1. apríl til og með 30. júní. Jón Sigurðsson fæddist þann 17. sem kunnugt er. Mikil kuldatíð var þetta vor. Frostið fyrir fór í -27,4 stig á miðvikudag fyrir páska (10. apríl) og hefur vart orðið mikið meira á þeim árstíma. Mesta frost í apríl síðari tíma er -18,2 stig og mældist þann 1. árið 1968. Allgóður kafli kom um miðjan apríl, en annað kuldakast gerði um mánaðamótin apríl/maí, mældist -13,8 stig að kvöldi þess 2. Mesta frost á Akureyri á síðari tímum mældist -10,4 stig þann 1. árið 1968. Meðalhiti í apríl var -6,0 stig og í maí 1,5 stig.

Þann 5. maí skánaði veður að mun, hiti komst í 11,3 stig þann 6. og svo í 12 stig þann 17. Eftir það harðnaði aftur á dalnum og þann 3. júní fór frostið í -5,6 stig. Það mesta í júní á síðari tímum er -3,0 stig þann 5. júní 1943. Talsverðar sveiflur voru í hita fram eftir júní, m.a. þann 17. en þá komst hiti um miðjan dag í 14,8 stig. Lægð virðist hafa farið til norðausturs vestan og norðan við land þann 17. Vindur var af suðri bæði að morgni og um hádegi, en logn var um kvöldið í rúmlega 2 stiga hita. Hiti fór niður fyrir frostmark þ. 18. og 19. Þá snjóaði bæði og rigndi.

Þann 20. lagaðist veðrið loksins og hiti var lengst af yfir 10 stigum til mánaðamóta, komst hæst í 20,4 stig þann 28. Meðalhiti í júní var 5,9 stig - ansi lágt á Akureyri.

Ekki er það fýsilegt vor sem tók við ungbarninu Jóni. Svona þegar á heildina er litið hefur veðurfar farið skánandi síðan. En hvað segir Þorvaldur Thoroddsen um þetta vor í Árferði á Íslandi í þúsund ár?

Þar segir í texta um árið 1811:

„... síðan gerði miklar hörkur með einmánuði. Hláka kom nyrðra um páska og kom upp jörð, en það stóð eigi lengur en í 11 daga, þá byrjuðu harðindin aftur og stóðu fram á sólstöður. Vorið var líka kalt syðra með krapajeljum og norðanköstum. Þá var bjargleysi mikið og voru skinn etin víða og varð hvarvetna fellir á lömbum og öðrum fjenaði. Á Austurlandi voru hin mestu harðindi og ljetti þar aldrei kulda og hríðum fyrr en 8 vikur voru af sumri, þá fjell fólk af bjargarleysi á Austfjörðum og var þar hið mesta harðæri.“

Einmánuður byrjar seint í mars og við sjáum vel þau harðindi. Þorvaldur segir að hláka hafi komið nyrðra um páska í 11 daga. Mælingamenn segja hláku að mestu frá 13. til 24. apríl, það gengur vel upp. Síðan segir að harðindi hafi staðið fram á sólstöður. Mælingarnar segja að batinn hafi komið 20. júní. Þetta gengur vel saman. Austanlands létti harðindum þegar 8 vikur voru af sumri, það er 20. júní.

Mælingum og texta ber hér sérlega vel saman og mynda fyllri heild heldur en sitt í hvoru lagi.


Snyrtilegt úrkomusvæði yfir landinu

Í dag (mánudag - annan í hvítasunnu) hefur snyrtilegt úrkomusvæði legið yfir landið frá austri til vesturs. Talsvert rigndi úr bakkanum þar sem hann lá yfir. Hann kom vel fram á veðursjá Veðurstofunnar, t.d. á myndinni hér að neðan sem var fengin um miðnæturbil.

w-blogg140611a

Myndin er gerð af hugbúnaði veðursjárinnar þar sem reynt er að reikna úrkomuákefð við jörð út frá því endurkasti sem sjáin nemur. Við sjáum að þar sem úrkoman er mest ætti ákefðin að nema 1,6 til 3,2 mm úrkomu á klukkustund. Athuganir á þeim stöðvum sem undir bakkanum eru benda til þess að ágiskunin sé ekki svo fjarri lagi. Á miðnætti hafði klukkustundarúrkoma á Hvanneyri, í jaðri bakkans, verið 0,7 mm. Hún var ákafari fyrr um kvöldið og var alls orðin 4,2 mm frá því að byrjaði að rigna milli kl. 18 og 19. ´

Bakkinn á að trosna upp að mestu leyti til morguns (þriðjudag) - hirlam skýjaspá segir háskýin eiga að hverfa fyrir hádegi. Myndin sýnir skýjaspána kl. 9.

w-blogg140611b

Háský eru lituð græn á myndinni og má sjá mjóan, grænan borða þvert yfir myndina alla. Hann á kl. 9 að liggja nær hreyfingarlaus og hverfa síðan. En hvað er það sem límir fyrirbrigði eins og þetta saman þannig að það getur lifað langtímum saman hreyfingarlítið um hundruð kílómetra eða meira? Skyldu þetta vera einskonar skil? Það má kannski segja það, þegar ég var í spábransanum á sínum tíma hefði ég örugglega dregið feita fjólubláa samskilalínu þvert um landið. En nú tilheyri ég öðrum sértrúarsöfnuði.


Hlýindi fara forgörðum að mestu

Íbúar Suðvesturlands og nokkrir fleiri fengu góðan og hlýjan hvítasunnudag en heldur var dauft víða fyrir norðan og austan í 4 til 6 stiga hita. Þetta er sérstaklega leiðinlegt vegna þess að hlýtt loft er ofar. Ekki þarf að fara nema í 1200 til 1500 metra hæð til að finna hlýrra loft en það sem undir liggur, hvað þá ef tækist að ná hlýindunum efra niður. Hlýja gusan sem kom frá Noregi hefur nú náð vestur til Grænlands en rýrnar smám saman næstu daga. Við lítum á 500 hPa spákort sem gildir kl. 12 á morgun (annan í hvítasunnu).

w-blogg130611a

Eins og venjulega er hæð 500 hPa-flatarins frá jörð sýnd með svörtum, heildregnum línum, en þykktin með rauðum strikalínum. Þykktin er mælikvarði á meðalhita í neðri hluta veðrahvolfs. Fyrir norðan land er hlýtt loft. Við sjáum 5520 línuna bæði yfir Grænlandi og vestur af Noregi, það er 5460 þykktarlínan sem er yfir landinu sunnanverðu. Við viljum helst hafa þykktina enn meiri á sumrin, en sunnudagsblíðan sýndi að þykkt í kringum 5460 getur gefið vel af sér, standi vindur af landi.

Gamlir kuldapollar reika um hafið suðurundan og virðast eiga að gera það áfram.

Þeir sem sjá vel taka eftir dálitlu lægðardragi við Suðausturland, því fylgir einhver úrkoma um leið og það fer vestur um. Við tökum ekki afstöðu til þess hvort henni tekst að spilla mánudagsblíðunni. Kalt loft úr norðri stingur sér enn undir hitann norðurundan.

Nyrst á kortinu má sjá mjög ómerkilegan kuldapoll - með allra ómerkilegustu kuldapollum. Miðjuloftið í honum (5340 metrar) er talsvert hlýrra heldur en sá kuldi sem angrað hefur okkur að undanförnu og er í neðstu lögum ekkert kaldara heldur en það loft sem í dag (sunnudag) var yfir Norðurlandi.

Á leið sinni til suðvesturs næstu daga mun hann hins vegar klippa í sundur hlýja bandið fyrir norðan land og þar með valda enn frekari töfum á því að við fáum almennilega hlýtt loft til landsins. Með almennilega hlýju lofti á ég við að þykktin fari upp í 5550 metra eða ofar. En kannski eigum við bara að þakka fyrir að fá 5400 til 5460 í stað þeirra 5250 sem plagað hafa okkur fram undir þetta.


Nokkur júnímet (í flokknum sett á mánuð)

Við rennum nú í gegnum nokkur júnímet sem varða mánuðinn í heild og ekki er hægt að tengja ákveðnum dögum. Fyrir flesta er þetta ekki sérstaklega spennandi upptalning - en fastir lesendur hungurdiska hljóta að vera orðnir vanir misjöfnum viðurgjörningi. Hægt er að raða mánuðum í afreksraðir á lands- eða landshlutavísu á misjafnan hátt og því er ekki haldið fram að sú röðun sem hér er haldið fram sé sú eina rétta (langt í frá). Við skulum því líta á þetta sem leik - næst verða niðurstöður e.t.v. aðrar.

Samkvæmt bókum hungurdiska er júní 1933 sá hlýjasti á landinu í heild. Hann var sérlega hlýr um landið norðaustanvert og er því sá hlýjasti þar. Suðvestanlands er barátta tvísýn, nefna má júní í fyrra (2010) og síðan ævafornan mánuð, júní 1871, sem virðist hafa verið fádæma hlýr. Gott ef menn minntust ekki á veðurfarsbreytingar í því sambandi.  

Hæsti mánaðarmeðalhiti í júní með eldri reikniháttum er 1933, en þá var hann 12,6 stig á Akureyri. Smásamræming við yngri reikning ýtir meðaltalinu niður í 12,5 - en það er samt það hæsta sem vitað er um á veðurstöð.   

Hæsti meðalhiti á sjálfvirkri stöð í júní er 11,66 stig á Hjarðalandi í Biskupstungum í ofurgæðamánuðinum júní 2010. Meðalhiti á Hraunsmúla í Staðarsveit (vegagerðarstöð) var nákvæmlega hinn sami í sama júnímánuði.

Kaldasti júnímánuður sem við vitum um á landinu kom 1882 - sumarlausa árið á Norðurlandi, vorið kom loks í október en stóð þá stutt. Þetta er auðvitað kaldasti mánuðurinn norðaustanlands, en við förum aftur til júní 1851 til að finna þann kaldasta suðvestanlands (með óvissu aldursins).

Lægsti júnímeðalhiti í byggð er 1,7 stig, í Grímsey 1882. Okkur finnst þetta ótrúlegt, en meðalhitinn varð samt nærri því eins lágur í Skoruvík á Langanesi í júní 1952, lauk mánuðinum með 2,5 stig í pokanum (2,4 stig með eldri reikniháttum).

En enn kaldara er á fjöllum og í júní 1998 var meðalhitinn á Gagnheiði aðeins -0,15 stig (já, neðan frostmarks).   

Hæsti mánaðarmeðalloftþrýstingur er 1025,2 hPa, sú háa tala mældist 1824. Við ákveðum að trúa því þar til sannanir koma fram um annað. Meðallágþrýstimet júnímánaðar er einnig fornt, frá 1868, 1001,2 hPa - vetrargildi eiginlega.

Heildarúrkomuhámarkið er úr Hveradölum (skíðaskálinn), 485,3 mm, í júní 1930, þegar Alþingishátíðin var haldin á Þingvöllum.

Júní 1949 er talinn sá snjóþyngsti á landinu. Snjóhula í byggð var 15%.

Fyrir 1925 voru úrkomumælingar stopular á landinu þannig að mánaðadómar ná um sinn aðeins aftur til þess tíma.

Úrkomusamastur á landinu í heild var júní 1969, hann er einnig talinn úrkomusamastur á Suðurlandi, júní 2006 dæmist úrkomusamastur á Vesturlandi og júní 1972 úrkomusamastur norðanlands. Sumrin 1969 og 1972 eru í stórum hópi illræmdra rigningasumra um landið sunnanvert og versnuðu eftir því sem á leið. Sumarið 2006 varð mun betra en byrjunin gaf til kynna.

Þurrasti júní á landinu var 1991 - það muna eldri veðurnörd vel - ekki rigndi að meðaltali nema einu sinni í viku. Júní 1991 var einnig þurrastur vestanlands og á Suðurlandi. Norðanlands telst júní 1982 þurrastur (ekki mundi ég það).

Það hefur nokkrum sinnum gerst að engin úrkoma hefur mælst á veðurstöð allan júnímánuð: Á Teigarhorni 1916, í Mjólkárvirkjun 1987 og á Hólum í Dýrafirði 1991. Minnsta júníúrkoma í Reykjavík féll 1971, 2,1 mm og í júní 1916 mældust aðeins 3 mm á Vífilsstöðum. Minnst júníúrkoma á Akureyri er 0,2 mm - 2007, aðeins nokkur ár síðan.

Þulu lokið.


Tíðindaminna

Nú virðist mesti broddurinn úr kuldanum og við getum látið okkur dreyma um betri tíð. Að sögn tölvanna og annarra spáliða koma nú nokkur sæmileg síðdegi á Suður- og Vesturlandi og einnig sums staðar fyrir norðan og austan þar sem sjávarloftið leggur ekki inn á land. Ekki er þó von á því sem kalla má hlýindi. Við lítum betur á stöðuna þegar tilefni gefst til.

Hér skal nú skotið að lista með hæstu júníhámörkum landsins. Þar á meðal er íslandsmetið á Teigarhorni 22. júní 1939, 30,5 stig. Margt styrkir trú á þessu meti, methitar voru víðar um land, loftþrýstimet fyrir júní var sett og háloftaathugun þjóðverja í Reykjavík sýndi metþykkt. Sé leitað að hæstu þykkt júnímánaðar í punkti við Suðvesturland í endurgreiningunni amerísku 1871 til 2008 er hæsta þykktargildið einmitt þennan sama dag (5655 metrar) og einnig hæsta 500 hPa hæðin, 5961 metrar. Síðasta talan er með hreinum ólíkindum, en mjög nærri mælingu þjóðverjanna.

En hér er listinn:

         ár       dagur hám.h.stöð
19392230,5  Teigarhorn
19392230,2 Kirkjubæjarklaustur
19742329,4 Akureyri
19392128,6 Akureyri
19882528,6 Vopnafjörður
19392228,5 Fagurhólsmýri
18912427,8 Möðrudalur
19742327,4 Dratthalastaðir
19742327,2Hallormsstaður
1988927,1Kollaleira

Fjórar tölur eru úr hitabylgjunni 1939 og þrjár úr skamvinnri hitabylgju 1974 - mjög minnisstæður dagur. Tvær tölur eru frá 1988 - en ekki sama daginn eða samliggjandi daga. Talan úr Möðrudal 1891 fær að fylgja með þótt hámarkshiti í Möðrudal á árabili sé talinn vafasamur. En hæsti hiti í Reykjavík í júní mældist sama dag í óvenjulegri hitabylgju víða um land og styrkir það Möðrudalstöluna.

Sjálfvirku stöðvarnar blanda sér lítið í hámarkshitalista júnímánaðar, hæsta tala allra sjálfvirkra stöðva í júní er 26,3 stig og mældist á Egilsstaðaflugvelli þann 29. árið 2009. Sjálfvirka stöðin á Egilsstöðum virðist líkleg til meta í hitabylgjum yfir hásumarið - en hæsti hiti í júní á mönnuðu stöðinni þar mældist 26,7 stig, heita daginn 23. júní 1974.

Í viðhenginu er listi yfir 102 hámörk í júní nördum til gamans. Trúlega vantar fáeinar tölur frá 19. öld og sömuleiðis gæti vantað daga þar sem mjög hár hiti hefur mælst á stöð tvo eða fleiri daga í sama mánuði - nördin verða að sýna hungurdiskum þolinmæði í þeim efnum. Mikið verk er að taka saman lista af þessu tagi og tryggja að þeir séu réttir - en örvæntið ekki því unnið er að endurbótum. En ef eitthvað á að vera fullkomið getur það aldrei litið dagsins ljós.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 20
  • Sl. sólarhring: 214
  • Sl. viku: 985
  • Frá upphafi: 2420869

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 864
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband