Kuldakastið nyrðra og eystra að verða óvenjulegt

Nyrðri hluti Vesturlands telst reyndar með í kuldanum - þótt bjartara og þar með bærilegra hafi verið þar um slóðir heldur en norðaustanlands. Hér suðvestanlands er hiti nærri meðallagi, að vísu langt undir meðalhita á þessum árstíma undanfarin ár. Ég bendi áhugasömum á blogg nimbusar - þar er fylgst með hita á Akureyri og í Reykjavík frá degi til dags.

En þetta kuldakast hefur nú staðið í fimm vikur, frá því um 20. maí. Lítið lát hefur verið á. Það er forvitnilegt að bera nákvæmlega þetta tímabil saman við fyrri ár. Daglegar athuganir á Akureyri eru aðgengilegar í höfuðgagnagrunni Veðurstofunnar aftur til 1949. Mælingar hafa þó verið nærri því samfelldar frá hausti 1881 nema hvað mælingar ársins 1919 hafa ekki fundist. Hægt er að fara nærri um hita á Akureyri það árið með því að notast við mælingar frá Möðruvöllum í Hörgárdal en athuganir voru gerðar þar frá hausti 1889 þar til í febrúar 1926 - fáeina mánuði á stangli vantar.

En lítum á kuldalistann frá og með 1949 fyrir tímabilið 19. maí til og með 23. júní, hann sýnir meðalhita á Akureyri nákvæmlega þetta tímabil. Listinn nær yfir 10 köldustu tímabilin. Hafið í huga að við látum árið í ár velja dagana. Það gefur því ákveðið samanburðarforskot gagnvart hinum árunum.

röðármh.°C
120115,51
219525,61
319496,31
419836,51
519736,53
619826,74
719816,88
819936,88
919796,92
1020056,94
 Hér er er svo komið að 2011 er í fyrsta sæti, nýkomið niðurfyrir skítatíðina 1952. Tímabil ársins 1949 er í þriðja sæti, reyndar á hraðri niðurleið vegna æðislegrar hitabylgju sem byrjaði fyrir þann 20. Árið 1983 kemur síðan inn í fjórða sæti. Benda má á að fjögur ár af 10 eru frá því um svipað leyti, 1979, 1981, 1982 og 1983 og 1973 þar ekki löngu áður.

Ekki hefur að tiltölu verið jafnkalt í Stykkishólmi nú og á Akureyri. Þar höfum við hins vegar aðgengi að athugunum allt aftur til 1846. Lítum á þann lista líka fyrir sömu 36 daga:

röðdagmeðalh.°C
118604,28
218824,55
318925,02
418855,10
519835,50
618515,58
720115,65
819495,67
918665,70
1019075,70
1119525,70

Hér er 2011 í sjöunda sæti, 1952 er í því ellefta og 1983 í því fimmta. Kaldast var 1860. Sumarið 1882 vann reyndar maraþonhlaup sumarsins alls, en júlí 1860 var furðuhlýr eftir mjög slaka sumarbyrjun.  

En hvað svo? Ekki er nein hlýindi að sjá á næstunni. En að gefnu tilefni er rétt að taka enn einu sinni fram að hungurdiskar eru ekki spáblogg.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Smá spurning:  er þetta óvenjulega tíðarfar nokkuð afleiðing af þeim eldgosum sem hafa átt sér stað undanfarin 2 ár. Ég hef nefnilega heyrt að veðurfarið fari kólnandi eftir eldgos, og ef svo er hver þá orsakavaldurinn ?

Brynja D (IP-tala skráð) 24.6.2011 kl. 01:20

2 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Sæll Trausti

Veðrið í N-Ameríku hefur líka verið óvenjulegt undanfarið. NASA kennir ástandinu í Kyrrahafinu um, einhvers konar millibilsástandi milli La Niña og El Niño sem þeir kalla La Nada í þessari grein frá 21/6: What's to Blame for Wild Weather? "La Nada"   http://science.nasa.gov/science-news/science-at-nasa/2011/24jun_wildweather/

"...By mid-January 2011, La Niña weakened rapidly and by mid-February it was adios La Niña, allowing the jet stream to meander wildly around the US. Consequently the weather pattern became dominated by strong outbreaks of frigid polar air, producing blizzards across the West, Upper Midwest, and northeast US..."

Gæti þetta ástand í Kyrrahafinu teygt anga sína hingað til lands með hjálp háloftavindanna sem þeir minnast á?

Ágúst H Bjarnason, 24.6.2011 kl. 21:10

3 Smámynd: Trausti Jónsson

Brynja. Eldgosin hér á landi voru svo lítil að þau hafa engin þau áhrif á veðurfar sem greinanleg eru frá almennri tilviljanakenndri óreglu (suði) í veðurkerfinu. Séu eldgos stór fara áhrifin eftir því hvar þau verða, mest áhrif eru eldgos í hitabeltinu talin hafa og svo virðist sem tímabundin kólnum verði á heimsvísu í kjölfar þeirra stærstu. Stór gos á norðurslóðum eru talin hafa minni áhrif. Þau hafa ekki verið mörg þann tíma sem veðurmælingar eru taldar sæmilega áreiðanlegar, svo fá að almennar ályktanir verða að duga. Út frá mjög þröngu sjónarhorni loftslagsfræðanna væri ákjósanlegt að fá mjög stórt gos norðarlega á norðurhveli, t.d. í eyðilendum Alaska til að reyna kenningarnar. Ágúst: Ástandið á ENSO-svæði Kyrrahafsins hefur ábyggilega áhrif hér á landi. Það er bara svo erfitt að greina það frá því almenna suði sem minnst var á hér að ofan í svarinu til Brynju. Á tímabilinu 1983 til 2000 voru gerðar fjölmargar tilraunir til að kreista einhver handföst sambönd milli atburða í Evrópu og El Nino - það gekk mjög illa. Ég hallast að því að séu áhrifin einhver verði það í gegnum lítilsháttar breytingar á bylgjuvökum vestanáttarinnar. Bylgjumynstrið er hins vegar misjafnt eftir árstímum þannig að bylgjuvakarnir liggja mismunandi við mynstrinu á misjöfnum tímum árs. Langvinnur el nino (la nina) hefði þannig önnur áhrif heldur en séu þessir atburðir skamvinnir, sömuleiðis hefði El Nino sem toppaði snemma í árstíðasveiflu sinni önnur áhrif heldur en sá sem toppar seint. Við þekkjum e.t.v. róf atburðanna, bæði í stærð og tíðni aðeins í 150 ár í besta falli, sama á við um fasamun ENSO og árstíðasveiflu á norðurhveli. Eftir því sem atburðum og reiknitilraunum fjölgar ætti smám saman að birtast mynd út úr suðinu auk þess sem unnið er að líkantilraunum.

Trausti Jónsson, 25.6.2011 kl. 02:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg160424b
  • w-blogg160424a
  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 6
  • Sl. sólarhring: 156
  • Sl. viku: 1755
  • Frá upphafi: 2348633

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 1536
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband