Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2011

Hlýjustu og köldustu árin (og mánuðirnir)

Nú er fyrsta áratug 21. aldar lokið og tímabært að líta til baka. Hér verður hitinn fyrir valinu í óformlegri umræðu. Ég hef reiknað alls konar landsmeðaltöl þar sem ég nota mismargar stöðvar til að reikna meðalhita landsins alls. Útkoman fer tölulega eftir því hversu margar stöðvar eru notaðar en röð hlýjustu og köldustu ára helst í stórum dráttum svipuð.

Ekki er búið að reikna ársmeðalhita ársins 2010 á öllum mönnuðum stöðvum og því gríp ég til þess ráðs hér að nota óvegið meðaltal 7 stöðva til röðunarreikninga. Síðar verða þær vonandi fleiri. Hægt er með allgóðu móti að ná 11-12 heillegum stöðvum aftur til næstsíðustu aldamóta (1900). Séu meðaltöl reiknuð fyrir þann tíma er gripið til ýmissa reiknikúnsta - en látum það eiga sig að sinni. En ég nota ekki allar 11 í landsmeðaltalinu, heldur aðeins 7 þeirra eins og að ofan greindi.

Auk landsmeðaltalsins fyrir árin 1901 til 2010 hef ég einnig reiknað út landshlutameðaltöl. Í reikningana fyrir Suðvesturland nota ég 4 stöðvar, norðvesturlandsmeðaltalið er fengið með 2 stöðvum, það fyrir Norðausturland með 3 stöðvum og Suðausturland er einnig reiknað með 2 stöðvum.

Í viðhengi má sjá allan listann fyrir landshlutana, raðaðan frá hlýjasta ári til þess kaldasta. Neðst í þeim lista er upplýst hvaða stöðvar eru notaðar í hverjum lista fyrir sig.

Neðan við þennan lista eru áratugameðaltöl landshlutanna. Við fjöllum aðeins um þau hér að neðan. Neðstur í viðhenginu er mikill listi þar sem 7-stöðva meðaltölum landsins er raðað eftir mánuðum. Má þar sjá hlýjustu og köldustu mánuði þessara 110 ára fyrir landið. Þar þurfa þeir sem hnýsast í skjalið að athuga að forritið sem opnar skjalið (oftast notepad) beyglar enda hverrar línu yfir í næstu línu fyrir neðan. Þetta veldur því að þessi hluti töflunnar kann að virðast ruglingslegur. Þeir sem vanir eru töflureiknum á við excel ættu að geta komist auðveldlega yfir þennan hjalla.

En kíkjum fyrst á hlýjustu árin yfir landið allt (allar tölur í °C):

landiðhlýjast
20035,40
19395,15
19335,13
19415,11
2010

5,04

 

Hér er 2003 hlýjasta árið og 1939 næsthlýjast, 2010 er í fimmta sæti. Kaldast var 1979 (sjá viðhengið). Og landshlutarnir - fyrst er ártal, síðan suðvesturlandsmeðaltal og síðan landshlutarnir koll af kolli - Suðausturland í tveimur öftustu dálkunum:

sv-landm4svna-landm3nanv-landm2nvsa-landm2sa
20035,8420034,0620035,1820035,53
19395,6419334,0019415,0519605,52
19415,6219393,6620105,0119465,42
20105,6120043,6519334,9919725,40
19465,5619413,5819394,8720065,39
 

Árið 2003 er hlýjast í öllum landshlutunum, en suðaustanlands munar sáralitlu á því og árinu 1960, þar er 2010 í 17. sæti (hlýtt, en langt frá meti). Árið 2010 er í 4. sæti suðvestanlands og í 3. sæti á norðvestanverðu landinu. Norðaustanlands var það í 15. sæti (sjá viðhengið).

Þeir sem hafa fylgst með meðalhitaniðurstöðum frá nágrannalöndunum vita að í Færeyjum var hiti nærri meðallagi, en kalt var í Skandinavíu. Mjög hlýtt var á mestöllu Grænlandi, svo hlýtt að ég trúi ekki tölum sem ég hef reiknað sjálfur - vonandi koma þær réttu fljótlega. Við sjáum fyrir okkur 0°C-jafnvikalínuna liggja um Færeyjar - kalt fyrir austan - hlýtt fyrir vestan hana. Vesturland er lengra frá þessari línu (þar var tiltölulega hlýrra) heldur en Austurland.

Meðalhiti áratuganna er í viðhenginu en lítum hér á vikin miðað við 1961 til 1990, tölur enn í °C.

Vik
áratlandiðsv-lanna-landnv-landsa-land
1901-1910-0,41-0,25-0,42-0,41-0,41
1911-1920-0,46-0,32-0,55-0,40-0,35
1921-19300,220,170,310,240,40
1931-19400,690,660,850,620,86
1941-19500,600,580,650,510,73
1951-19600,600,530,710,640,57
1961-1970-0,010,11-0,24-0,100,00
1971-19800,070,060,140,110,09
1981-1990-0,07-0,170,090,00-0,09
1991-20000,330,210,480,330,25
2001-20101,141,131,240,961,21

Hér sést að nýliðinn áratugur er sá langhlýjasti í öllum landshlutum. Hann var að tiltölu hlýjastur norðaustanlands, en kaldastur á Norðvesturlandi. Einnig var mjög hlýtt áratugina 1931-1960 og er áratugurinn 1931-1940 hlýjastur nema á Vestfjörðum - þar er 1951-1960 jafnhlýr og sá fyrri.

Fyrstu tveir áratugir aldarinnar eru þeir köldustu í öllum landshlutum, en þó liggur við að 1981-1990 sé jafnkaldur suðvestanlands eins og þeir fyrrnefndu. Í kuldakastinu 1965 til 1995 var í upphafi kaldast að tiltölu norðaustan- og norðvestanlands, en sunnanlands var kaldast 1981-1990. Í mörgum tilvikum munar sáralitlu á meðalhita áratuga - það litlu að röðin breyttist hugsanlega væru aðrar eða fleiri stöðvar notaðar.  Þeir sem eru smámunasamir geta með smáfyrirhöfn séð þann mun sem verður á 7- og 11-stöðva meðaltölum (gaman?).

En viðhengið er fyrir nörd og jaðarnörd - fullt af tölum. Þeir sem vilja grúfa sig ofan í tölurnar geta t.d. afritað töflurnar fjórar hverjar fyrir sig og límt inn í excel.

Taka skal fram að þetta eru ekki endanlegar tölur á nokkurn hátt, sífellt er unnið að endurbótum á hitaröðum auk þess sem mismunandi samsuður gefa mismunandi niðurstöðu. Þess vegna er varað við því að menn noti tölurnar í vísindalegum tilgangi - þær eru hugsaðar til fræðslu og gamans.

Nítjándu öldina geymum við til betri tíma.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Dægurhámörk og dægurlágmörk í janúar

Hér á blogginu hafa stundum komið pistlar um hæsta og lægsta hita sem mælst hefur á veðurstöðum ákveðinn dag í hverjum mánuði. Dægurmet af þessu tagi eru vinsæl víða erlendis og sérstaklega þó í Bandaríkjunum. Dægurmetametingur getur verið skemmtilegur en alltaf fer um mig dálítill kjánahrollur þegar fréttir berast um að aldrei hafi jafn hár (eða lágur) hiti mælst í einhverri heimsborginni. Þegar nánar er að gáð er oftast átt við daginn einan - en hvorki mánuð né árið allt.

w-Hæst-tx-jan

En höldum leiknum áfram. Myndin að ofan sýnir hæsta hita sem mælst hefur á hverjum degi í janúar á íslenskum veðurstöðvum. Hún nær sæmilega heiðarlega aftur til 1949 en síðan þá hafa núverandi lestrarhættir hámarks og lágmarks haldist. Einnig notaði ég nokkuð af gögnum aftur til 1924 við gerð töflunnar, en svo vill til að sú subbuviðbót mín skilaði engum dögum í janúar. En ég vinn enn að málinu.

Á myndinni sjáum við að engin leitni er yfir mánuðinn - við erum í miðjum vetri í árstíðasveiflunni. Svo vill til að hæstu gildin eru í kringum miðjan mánuð en við trúum því að það sé tilviljun ein. Elsta metið er sett þann 9. árið 1949 á Dalatanga. Sú stöð á met fyrir níu daga alls og metagæfust allra. Allar stöðvar sem eiga landsdægurmet i janúar eru norðanlands og austan, syðst Teigarhorn í Berufirði. Sú vestasta er Dalsmynni við Hjaltadal í Skagafirði (metið þ.20. 1992, heldur aumingjalegt: 14,1 stig). Linasta metið er þó frá Seyðisfirði, 13,1 stig - sömuleiðis frá 1992. Alls á janúar 1992 sex dægurmet.

Þeir sem eru glöggir geta um skeið séð tilsvarandi mynd fyrir lágmarksmetin í svæðinu nýjustu myndir hér til hliðar, en að öðru leyti verður hún ekki birt að sinni. Ég sé of marga galla í listanum.

Eitt vandræðalegasta vandamál lágmarks- og hámarksmælinga er að reglur um aflestur hafa breyst í gegnum tíðina. Fyrir 1931 var lágmark og hámark að jafnaði lesið einu sinni á dag, kl.8 að morgni (9 að okkar tíma). Það þýðir að hámörkin eiga oftast við daginn áður. Eiga þau hámörk þá að keppa við daginn í dag, þótt hitinn hafi náð hámarkinu í gær? Svipað á við um lágmarkshitann.

Frá 1931 og um það bil til 1949 á skeytastöðvum náði hámarksaflesturinn aðeins til tímans frá 9 til 18. Ef hámarkshiti dagsins var utan þessa tíma var hann týndur og tröllum gefinn. Þetta er alvarlegast á vetrum þegar hæsti hiti sólarhringsins getur orðið að nóttu sem degi og lágmarkið e.t.v. um hádaginn. Það gerðist einmitt 1918, hitinn var lægstur um miðjan dag þann 21. Lesið var af lágmarksmælingum að morgni þess 22. Það er því talinn metdagurinn í prentuðum bókum. Það sem er ískyggilegt er að hefði reglum þeim sem voru í gildi á skeytastöðvum 1931 til 1948 hefðu -38 stigin ekkert verið lesin sem lágmark á Grímsstöðum. Við hefðum þurft að sætta okkur við hitann kl. 14 í Möðrudal sem Íslandsmet.

Um lágmarksmetið 1918 er fjallað í ítarlegum fróðleikspistli mínum á vef Veðurstofunnar.


Austan- og norðaustanþræsingur

Þegar ég átti mína fyrstu setu við veðurspár fyrir meir en 30 árum var ég alveg viss um að allir þekktu þræsinginn. En svo var ekki og því varð dálítið upphlaup þegar ég notaði orðið í formlegum spátexta á Veðurstofunni. - Ekki lái ég mönnum það nú þótt pirraður væri á sínum tíma.

Þórður Tómasson í Skógum minnist auðvitað á þræsinginn í bók sinni Veðurfræði Eyfellings. Þar segir hann (á bls. 81):

Þræsingur var fremur kaldur blástur eða stormur, sá með honum lítt eða ekki til sólar. Þræsingur fylgdi vissum áttum. Til var austanþræsingur, vestanþræsingur og landnyrðingsþræsingur, en helst var hann þó með austanátt.

Orðið landnyrðingsþræsingur er ekki vinsælt til notkunar við upplestur í fjölmiðla (prófið að segja það nokkrum sinnum). En annars er mesta furða hvað minni tilfinningu og lýsingu Þórðar ber saman. Takið eftir því að hér er ekki einungis um hvassan vind að ræða heldur er víðtækari veðurlýsing innifalin: Lítt eða ekki sér til sólar. Það er líka athyglisvert að Þórður getur sérstaklega um austanáttina. Því er ég sammála, þræsingur á Suður- og Vesturlandi er einkum í vindáttum á bilinu 40 til 100 gráður - réttvísandi.

Mér finnst þræsingurinn auk þessa vera nær úrkomulaus og í honum er lítið sem ekkert af lágskýjum. Einhverja úrkomu getur þó slitið úr - einn og einn regndropi fallið eða snjókorn, en lengst af svo litla að hún mælist trauðla.

Það fellst í nafninu að þræsingur er ekki notað um veður og vind fyrr en það hefur staðið nokkurn tíma - varla að einn sólarhringur nægi. Orðið er ábyggilega skylt þráa og þrjósku - en um það læt ég málfræðingana.

Hversu hvass er þræsingurinn? Í minni tilfinningu er hann á bilinu 12 til 17 metrar á sekúndu, svipað og stinningskaldi og allhvass vindur (6 og 7 gömul vindstig). Ég held þó að hann geti verið hvassari, en varla hægari en þetta.

Ég verð að játa að ég veit ekki hvernig orðið er notað á Norður- og Austurlandi.

Austan- og norðaustanþræsingurinn er feikialgengur og oft þrálátastur á útmánuðum á Suður- og Vesturlandi. Þræsingsmánuðir, þegar fátt annað hefur verið á boðstólum, eru nokkrir. Veðurlagið er þá svipað og er í dag (11.1. 2011). Allbjart suðvestanlands, en éljahreytingur eða snjókoma nyrðra. Hæð er yfir Norðaustur- Grænlandi og lægðakerfi þrýstir að úr suðri. Í hinum dæmigerðasta þræsingi er bæði þrýsti- og hitabratti í kringum Ísland. Kalt loft er þá norðurundan en hlýtt suðurundan. Við skulum sjá þetta á korti:

hirlam-fl025-120111-0900

Myndin er úr HIRLAM-spálíkaninu og fengin af flugveðursafni á vef Veðurstofunnar. Spáin gildir kl. 9 að morgni 12. janúar 2011. Á kortinu má sjá vinda í flughæð 025 (2500 fet - nokkurn veginn 800 metrar) sem hefðbundnar vindörvar, veifur sýna vind 25 m/s eða meiri (50 hnúta). Strikalínurnar eru jafnhitalínur í þessari hæð. Sú bleika er frostmarkið 0°C. Í lægðarmiðjunni er um 5 stiga hiti, en -15°C jafnhitalínan er ekki langt úti af Vestfjörðum. Við sjáum tvo vindstrengi við Ísland, annan skammt undan Suðurlandi en hinn er úti af Vestfjörðum eins og algengt er - einkum þó að vetrarlagi.

Í tilviki dagsins minnkar vindur með hæð og er lítill i 5 km en uppi í 8,5 km hæð er hins vegar sterk vestanátt. Ef við höldum okkur við skilgreiningu Þórðar er ekki þræsingsveður nema að það sé sólarlítið. Það þýðir að einhver mið- og háský verða að vera á himni. Á Suður- og Vesturlandi blæs þræsingurinn af landi - en samt er skýjað. Hvaða skýjabönd eru það? Hugsum um það til betri tíma.  

Vitnað var í bók Þórðar Tómassonar: Veðurfræði Eyfellings. Bókaútgáfan Þjóðsaga, 1979. 

 


Lægsti og hæsti hiti í janúar 1874 til 2010

Hér eru tvær myndir sem sýna lægsta og hæsta hita á landinu í hverjum janúarmánuði 1874 til 2010.

w-tx-jan-ar

Við sjáum strax gríðarlega leitni. Hæsti hiti í janúar fyrir 1890 var yfirleitt í kringum 8 stig og í janúar 1886 aðeins  5,7 stig (þá í Vestmannaeyjum). Eftir aldamótin 1900 verður mun algengara að hiti nái 10 stigum í janúar, janúar 1930 er ansi neðarlega (6,3 stig á Hraunum í Fljótum). En eftir 1950 eru þeir mánuðir sárafáir þar sem hiti nær hvergi og aldrei 10 stigum og nú síðustu árin er algengast að hámarkshiti janúarmánaðar sé á bilinu 12 til 14 stig.

En að baki hverrar tímaraðar eins og þessarar liggur ákveðið safn af mæligögnum (þýði). Nú hefur það gerst síðan 1874 að hitamælistöðvum hefur fjölgað mikið. Líkur á að hita á sjaldgæfan hita hafa vaxið að mun af þeim sökum. Landslag og staðhættir hafa mikil áhrif á útgildamælingar, bæði á hámarki og lágmarki. Nálægð fjalla auka að mun líkur á háum hita að vetrarlagi. Fyrstu veðurstöðvarnar voru flestar annaðhvort við sjóinn eða þá í breiðum sveitum. Hiti yfir 10 stigum í janúar er frekar ólíklegur á þannig stöðum. Að auki voru hámarksmælar fáir fyrstu 60 ár reglulegra veðurmælinga hér á landi.

Mestöll leitnin er því missýning. Mun nánari athugun með samstæðara þýði þarf til að skera úr um leitni í röð af þessu tagi.

Hæsti hiti sem hefur mælst í janúar varð á sjálfvirku stöðinni á Dalatanga 15. janúar 2000, 19,6 stig. Nærri því eins hlýtt varð á Dalatanga 14. janúar 1992. Mælingar hófust á Dalatanga 1938 og telst mér til að hann hafi síðan átt mánaðarhámarkið 16 sinnum. Enn oftar hefur hámarkið orðið á Seyðisfirði og alloft á Vopnafjarðarstöð (Fagradal, Vopnafjarðarkauptúni og Skjaldþingsstöðum). 

w-tn-jan-ar

Lágmarkshitamyndin sýnir svipaða leitni. Athugið vel að kvarðinn á myndunum er ekki sá sami, einnig þarf að muna að líta vel á hann þegar lesið er úr myndum af tímaröðum. Þó má segja að hlýindaskeiðið 1920 til 1950 sé ívið hlýrra á myndinni en tíminn áður og síðar. Lágmarksmælingar voru gerðar á fleiri stöðvum á 19. öld heldur en hámarksmælingarnar og auk þess komu kaldar stöðvar inn til landsins snemma til sögunnar (t.d. Möðrudalur).

Á síðustu 15 árum hafa allmargar stöðvar bæst við á hálendinu en við nánari athugun skiptir það ekki miklu máli í heildina yfir veturinn. Munur á lægstu lágmörkum í byggð og á hálendi er meira afgerandi að sumarlagi. Velta má vöngum yfir þessum árstíðamun en það verður þó ekki gert hér.

Mest varð frostið -38,0 stig á Grimsstöðum á Fjöllum og í Möðrudal 21. janúar 1918. Um það má lesa í fróðleikspistli á vef Veðurstofunnar.


Síðasta blogg um kuldapollinn Snarp 3

Snarpur 3. lifir enn á sinni leið milli Vestfjarða og Grænlands, en mun hverfa að mestu til morguns. Bæði hlýnar hann að neðan af völdum sjávar en þegar hann þykknar rifnar hann um síðir í sundur. Smálægðirnar sem mynduðust urðu að minnsta kosti þrjár. Ég hef kosið að sýna þær í skýja- og þrýstispá Hirlam-líkansins (af brunni Veðurstofunnar). Spáin var gangsett með athugunum kl.18 í kvöld og myndin sýnir þriggja tíma spána - sem gildir kl.21 í kvöld.

hirlam-sky-090111-18-21spa

Ég hef merkt smálægðirnar þrjár inn á kortið með L-um. Græni liturinn táknar háský, sá rauði miðský og sá blái lágský. Lægðin fyrir austan land náði að búa til mikla norðvestankófhríð um norðaustanvert landið. Hríðin ætti nú að vera að ganga niður. Annar bakki þessu lítt tengdur gæti komið að Norðurlandi á morgun.

Lægðin vestsuðvestur af Reykjanesi er sú sem líkanið vildi láta myndast yfir Húnaflóa í nótt, en myndaðist í raun og veru vestur af Breiðafirði. Hún náði þó að valda talsverðri snjókomu á Vestfjörðum síðastliðna nótt og langt fram eftir degi í dag. Í vindstrengnum vestan við lægðina er vindur um 25 m/s. Landið slapp við það versta en vindur var þó í 20 m/s víða á Vestfirskum heiðum í dag og sjálfsagt víðar.

Nú er þriðja lægðin, sú sem er suður af Reykjanesi á kortinu einna gerðarlegust og étur sennilega þá fyrri til morguns, snýst í smáhringi - fer síðan til austurs og hverfur. Hún gæti enn valdið úrkomu syðst á landinu og sömuleiðis er óvissa með sameiningu lægðanna. Þótt snjókoma suðvestanlands af völdum þessara lægða virðist ólíkleg í augnablikinu (kl.22) er ekki hægt að afskrifa möguleikann.

Lýkur nú frásögn af Snarpi hinum þriðja. Snarpur fjórði er til norðan Grænlands, en hann er ekki eins vel skapaður og fyrirrennarar hans - hvað sem síðar verður. Ekki er víst að nokkrar fréttir af honum verði hér á blogginu. 


Enn af kuldapollinum Snarp 3.

Frá í gær hefur það gerst að Snarp 3 hefur aðeins seinkað (um 6 klst) og nú lítur út fyrir að miðja hans fari ekki beint yfir Vestfirði heldur dálítið vestar. Þetta má sjá á spákorti (HIRLAM) af brunni Veðurstofunnar. Það gildir kl.18. á sunnudag (9.1.). Enn tekst spálíkönum ekki að negla niður staðsetningu þeirra smálægða sem kuldinn á að sparka í gang.

snarpur-3-090111-18-cut

Miðja pollsins er enn innan við 4920 metra þykk á spákortinu. Á kortið hef ég líka merkt bylgjur í þykktarsviðinu (braggalaga) sem ég kalla fingur. Nafnið er hér aðeins til þæginda, bylgjurnar litlu eru eins og fingur sem stingast inn að miðju kuldapollsins. Þar er þykktin meiri heldur en umhverfis. Á þessu korti eru tveir fingur, sá meiri er við Vesturland en sá minni undan Norðausturlandi.

Rauðmerkti fingurinn er miklu lengri en hinn, óþægilega langur fyrir smálægð. Enda gerir HIRLAM spálíkanið ráð fyrir því að lægðirnar verði tvær. Sú veigameiri á að myndast undan Suðvesturlandi en hin yfir Húnaflóa. Minni fingurinn (undan NA-landi) var veigameiri í gær en í dag - en ekki má sleppa af honum auga - lægðin sú gæti dýpkað.

Aðrar spár sem ég hef séð sleppa Húnaflóalægðinni eiginlega alveg. Flestar lægðir hreyfast með vindátt í háloftunum þegar þær eru að myndast og dýpka. Þessar eru öðruvísi og hreyfast annað hvort ekki neitt eða á móti háloftavindi. Þær kalla ég öfugsniðalægðir (á ensku heita þær reverse shear low). Þær geta bæði verið litlar og stórar, en þessar eru litlar.

Það einkennilegasta sem mér finnst við svona lægðir er að þær líta oftast mjög lægðalega út á tunglmyndum og auðvelt er að draga lítil skilakerfi inn á myndirnar, hitaskil, kuldaskil - samskil og allt. Hvort það er rétt veit ég ekki - en getur samt hjálpað þegar textaspár eru gerðar.

Hvað tegund skila veðurfræðingnum dettur fyrst í hug að setja á kortið fer eftir aðstæðum. Víð bíðum spennt til morguns með það - enda eru lægðirnar ekki til ennþá og myndast kannski ekki - eða þá að þær verða bara venjulegar pólarlægðir - með hlýjum kjarna - eins og sumar spár hafa undanfarna daga látið það heita.

En víst er að úrkomuspár verða erfiðar næstu 1 til 2 daga meðan kuldapollurinn er að jafna sig. Þeir sem aka þurfa heiðar og fjallvegi hvar sem er á landinu ættu að fylgjast vel með alvöruspám - því hungurdiskar eru ekki spáblogg. Sömuleiðis á að fylgjast með veðurathugunum bæði á vedur.is og hjá Vegagerðinni.

Öfugsniðalægðum - litlum jafnt sem stórum er alveg sama um fjöll - þær geta vel valdið snjókomu í landáttum. 


Næsti kuldapollur takk (snarpur 3.)

Nú hefur Snarpur 2. linað tökin - meira að segja segist veðurstöðin á Steinum undir Eyjafjöllum hafa mælt nærri 13 stiga hita nú í kvöld (trúa því?? - gæti verið rétt!), enda þykktin yfir landinu komin yfir 5200 metra.

Næsti kuldapollur rennur suður um Vestfirði á sunnudag (sé spáin rétt). Aðstæður eru hins vegar þannig að hann verður meira hringlaga en sá fyrri og síður líklegur til hvassviðris, treystið mér þó ekki alveg hvað það varðar og kíkið á spár Veðurstofunnar eða annarra. Kuldapollar eru lúmskir.

snarpur-3-100111-hirlam

Kortið er af brunni Veðurstofu Íslands - HIRLAM spá gerð í kvöld (7.1. 2011) - gildir á hádegi þ.9.

Myndin sýnir hæð 500 hPa flatarins kringum Ísland (svartar línur) eins og henni er spáð um hádegi á sunnudag. Háloftalægðin sem fylgir pollinum verður þá við Vestfirði á leið suður. Rauðu strikalínurnar sýna þykktina í dekametrum (1 dam = 10 m). Innsta jafnþykktarlínan er við 4920 metra - álíka kuldi og í Snarp 2. á þrettándanum.  

Ef kíkt er á smáatriði má sjá að rauðu línurnar skera þær svörtu. Það þýðir að þar er riði til staðar og þar með fóður í lægðamyndanir. Sjórinn kyndir undir (eykur þykktina)- en mismikið og uppstreymi skapast. Verði uppstreymið nægilega mikið myndast úrkoma sem hækkar þykktina enn meir. Þessi spá gerir ráð fyrir smálægðamyndunum bæði fyrir sunnan og norðaustan land, en myndun þeirra er enn mjög óstöðug í spánum og varla hægt að segja til um það með fullri vissu hvar lægðirnar myndast. Kringum þær eru snjókomubakkar. Á þessu korti má sjá eins og fingur hærri þykktar pota inn í kuldapollinn suður af landinu og norðausturundan.

Upphitun sjávar er gjarnan vanmetin undir svona öflugum kuldapollum og þess vegna ekki víst að þykktin verði alveg svona lág og spáð er í miðju pollsins. Þessar lægðir - ef þær myndast falla líklega í pólarlægðaflokk - en ekki enn víst hvern þeirra - fylgjumst með á vef Veðurstofunnar og brunni og stillum á sunnudaginn 9. janúar 2011.

Munið að hungurdiskar eru ekki spáblogg - þar er hins vegar stundum bloggað um spár - en það er ekki það sama.


Kuldapollurinn að komast framhjá

Nú er kuldapollurinn snarpi (Snarpur 2.) að komast vestur af landinu og hiti kominn í frostmark við norðausturströndina. Hvassviðri heldur þó áfram mestallan föstudaginn. Næsti kuldapollur á að vera fyrir norðan land á sunnudag. Hann er býsna snarpur (Snarpur 3.) en þó mildari en sá í dag að því leyti að hann á ekki að draga til sín eins hlýtt loft að austan en býr þess í stað sennilega til litlar pólarlægðir (skárra orð finnst ekki enn) einhvers staðar yfir sjónum í kringum landið.

Fyrirstöðuhæðin sem hefur setið að veðrinu hér að undanförnu hefur nú hörfað til vesturs og hlýtt loft er því langt undan. Spurning hvernig má bjarga því. Kannski við fáum nú 1 til 3 vikna kafla með norðurslóðaveðri. Um norðurslóðaveður er lítið sem ekkert fjallað í kennslubókum - skrýtið? Kannski ekki svo mjög því nær allar bækurnar eru skrifaðar í Ameríku eða suður í Evrópu nærri atgangssvæði heimskautarastarinnar. Hún kemur að vísu líka við sögu hér á landi sem og fyrirstöðuhæðir sem tengdar eru kryppum hennar og ráðið hafa ríkjum hér um langt skeið (óvenjulangt).

Eru það ekki helst fornar veðurspárleiðbeiningabækur ameríska hersins sem helst hafa gefið norðurslóðaveðri gaum? Það er þó e.t.v. misminni.


Kuldapollarnir rúlla hjá

Nú rúlla kuldapollarnir hver á fætur öðrum suður með austurströnd Grænlands. Sá sem fór hjá síðast olli óvenjuhörðu hvassviðri sums staðar um landið suðaustanvert. Sá næsti fer hjá næsta sólarhringinn. Hann er talsvert kaldari en sá fyrri, þykktinni er spáð niður undir 4900 metra á Vestfjörðum síðdegis á morgun (fimmtudag 6. janúar). Þá ætti að verða kalt á vestfirskum heiðum. Meginkuldinn rennur hins vegar mjög hratt framhjá.

Fyrir rúmum hálfum mánuði skrifaði ég nokkrar langlokur um kuldapoll sem þá fór hjá og dæmigerðar vindáttarbreytingar honum samfara. Í aðalatriðum gerast svipaðir hlutir nú nema hvað meginkuldinn stendur stutt við. Ef spár um vind og hita standast verður mikið álag á hitaveitum annað kvöld og aðra nótt. En það tekur fljótt af.

Einum kuldapolli til viðbótar er síðan spáð hjá á sunnudag eða mánudag. Hann er þó svipmildari en setur nokkra óvissu í úrkomuspár þá dagana.

Það skal enn tekið fram að hungurdiskar eru ekki spáblogg og vísað er á vef Veðurstofunnar eða aðra spávefi sem mark er takandi á. Sömuleiðis er bent á brunn Veðurstofunnar og ýmis kort sem þar er að finna, t.d. þykktarkortin.

Já, hungurdiskar er annað nafn á pönnukökuís eða íslummum. Mér eru þeir ógleymanlegir í frostreyknum á Brákarpolli í kuldakastinu mikla sem fór hjá 28. desember 1961.


Janúarhiti í Stykkishólmi 1799 til 2010

Sökum kvefsóttarinnar sem enn plagar mig set ég hér pistil um janúarhita í Stykkishólmi frekar en það uppgjör við árið 2010 sem hefði átt að koma nú eða í gær og þann pistil sem ég hefði átt að skrifa um næsta kuldapoll - en hann ræðst á okkur á fimmtudaginn.

w-Janúarhiti-sth

Hér er línuritið. Fyrsta árið sem tekist hefur að ná í upplýsingar um í röðina er 1799. Nokkra janúarmánuði fyrir 1820 vantar alveg. Við tökum auðvitað strax eftir janúar 1918 sem fer nærri því niður úr myndinni enda kaldasti janúar sem vitað er um víðast hvar á landinu.

Við sjáum af rauðu línunni - leitninni - að janúar hefur hlýnað um 2 stig á 200 árum. Hlýnunin felst reyndar mest í því að ofsakalda mánuði vantar eftir 1918, en slatti er af þeim á 19. öld og mjög kaldir mánuðir áberandi færri en síðar. Það tengist minni hafís í norðurhöfum.

Áratugasveiflur eru ekki sérlega áberandi, hlýir og kaldir mánuðir skiptast á að mestu á tilviljanakenndan hátt. Tímabilið frá 1975 til 1984 sker sig helst úr en þá var að jafnaði kaldara en um langa hríð, meðalhiti um -3,1 stig. Síðustu 10 ár hafa síðan verið óvenjuhlý, meðalhiti um 0,4 stig.

Hlýjastur varð janúar í Stykkishólmi 1847, meðalhiti 3,4 stig. Nákvæmlega hundrað árum síðar varð hiti nærri því eins hár, 3,0 stig og lítillega hærri 1987, 3,1 stig. Veturinn 1947 er mesti snjóavetur sem vitað er um á Bretlandseyjum.

Í janúar er heimskautaröstin á norðurhveli í sinni syðstu stöðu og almennar líkur á kuldapollaveðri eru því meiri en í öðrum mánuðum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Júlí 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30 31      

Nýjustu myndir

  • w-blogg220724b
  • w-blogg220724a
  • w-blogg210724
  • Slide2
  • Slide1

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.7.): 17
  • Sl. sólarhring: 437
  • Sl. viku: 2733
  • Frá upphafi: 2378309

Annað

  • Innlit í dag: 14
  • Innlit sl. viku: 2421
  • Gestir í dag: 14
  • IP-tölur í dag: 14

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband