Enn af kuldapollinum Snarp 3.

Frá í gær hefur það gerst að Snarp 3 hefur aðeins seinkað (um 6 klst) og nú lítur út fyrir að miðja hans fari ekki beint yfir Vestfirði heldur dálítið vestar. Þetta má sjá á spákorti (HIRLAM) af brunni Veðurstofunnar. Það gildir kl.18. á sunnudag (9.1.). Enn tekst spálíkönum ekki að negla niður staðsetningu þeirra smálægða sem kuldinn á að sparka í gang.

snarpur-3-090111-18-cut

Miðja pollsins er enn innan við 4920 metra þykk á spákortinu. Á kortið hef ég líka merkt bylgjur í þykktarsviðinu (braggalaga) sem ég kalla fingur. Nafnið er hér aðeins til þæginda, bylgjurnar litlu eru eins og fingur sem stingast inn að miðju kuldapollsins. Þar er þykktin meiri heldur en umhverfis. Á þessu korti eru tveir fingur, sá meiri er við Vesturland en sá minni undan Norðausturlandi.

Rauðmerkti fingurinn er miklu lengri en hinn, óþægilega langur fyrir smálægð. Enda gerir HIRLAM spálíkanið ráð fyrir því að lægðirnar verði tvær. Sú veigameiri á að myndast undan Suðvesturlandi en hin yfir Húnaflóa. Minni fingurinn (undan NA-landi) var veigameiri í gær en í dag - en ekki má sleppa af honum auga - lægðin sú gæti dýpkað.

Aðrar spár sem ég hef séð sleppa Húnaflóalægðinni eiginlega alveg. Flestar lægðir hreyfast með vindátt í háloftunum þegar þær eru að myndast og dýpka. Þessar eru öðruvísi og hreyfast annað hvort ekki neitt eða á móti háloftavindi. Þær kalla ég öfugsniðalægðir (á ensku heita þær reverse shear low). Þær geta bæði verið litlar og stórar, en þessar eru litlar.

Það einkennilegasta sem mér finnst við svona lægðir er að þær líta oftast mjög lægðalega út á tunglmyndum og auðvelt er að draga lítil skilakerfi inn á myndirnar, hitaskil, kuldaskil - samskil og allt. Hvort það er rétt veit ég ekki - en getur samt hjálpað þegar textaspár eru gerðar.

Hvað tegund skila veðurfræðingnum dettur fyrst í hug að setja á kortið fer eftir aðstæðum. Víð bíðum spennt til morguns með það - enda eru lægðirnar ekki til ennþá og myndast kannski ekki - eða þá að þær verða bara venjulegar pólarlægðir - með hlýjum kjarna - eins og sumar spár hafa undanfarna daga látið það heita.

En víst er að úrkomuspár verða erfiðar næstu 1 til 2 daga meðan kuldapollurinn er að jafna sig. Þeir sem aka þurfa heiðar og fjallvegi hvar sem er á landinu ættu að fylgjast vel með alvöruspám - því hungurdiskar eru ekki spáblogg. Sömuleiðis á að fylgjast með veðurathugunum bæði á vedur.is og hjá Vegagerðinni.

Öfugsniðalægðum - litlum jafnt sem stórum er alveg sama um fjöll - þær geta vel valdið snjókomu í landáttum. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.4.): 16
  • Sl. sólarhring: 63
  • Sl. viku: 1614
  • Frá upphafi: 2350891

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 1412
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband