Dægurhámörk og dægurlágmörk í janúar

Hér á blogginu hafa stundum komið pistlar um hæsta og lægsta hita sem mælst hefur á veðurstöðum ákveðinn dag í hverjum mánuði. Dægurmet af þessu tagi eru vinsæl víða erlendis og sérstaklega þó í Bandaríkjunum. Dægurmetametingur getur verið skemmtilegur en alltaf fer um mig dálítill kjánahrollur þegar fréttir berast um að aldrei hafi jafn hár (eða lágur) hiti mælst í einhverri heimsborginni. Þegar nánar er að gáð er oftast átt við daginn einan - en hvorki mánuð né árið allt.

w-Hæst-tx-jan

En höldum leiknum áfram. Myndin að ofan sýnir hæsta hita sem mælst hefur á hverjum degi í janúar á íslenskum veðurstöðvum. Hún nær sæmilega heiðarlega aftur til 1949 en síðan þá hafa núverandi lestrarhættir hámarks og lágmarks haldist. Einnig notaði ég nokkuð af gögnum aftur til 1924 við gerð töflunnar, en svo vill til að sú subbuviðbót mín skilaði engum dögum í janúar. En ég vinn enn að málinu.

Á myndinni sjáum við að engin leitni er yfir mánuðinn - við erum í miðjum vetri í árstíðasveiflunni. Svo vill til að hæstu gildin eru í kringum miðjan mánuð en við trúum því að það sé tilviljun ein. Elsta metið er sett þann 9. árið 1949 á Dalatanga. Sú stöð á met fyrir níu daga alls og metagæfust allra. Allar stöðvar sem eiga landsdægurmet i janúar eru norðanlands og austan, syðst Teigarhorn í Berufirði. Sú vestasta er Dalsmynni við Hjaltadal í Skagafirði (metið þ.20. 1992, heldur aumingjalegt: 14,1 stig). Linasta metið er þó frá Seyðisfirði, 13,1 stig - sömuleiðis frá 1992. Alls á janúar 1992 sex dægurmet.

Þeir sem eru glöggir geta um skeið séð tilsvarandi mynd fyrir lágmarksmetin í svæðinu nýjustu myndir hér til hliðar, en að öðru leyti verður hún ekki birt að sinni. Ég sé of marga galla í listanum.

Eitt vandræðalegasta vandamál lágmarks- og hámarksmælinga er að reglur um aflestur hafa breyst í gegnum tíðina. Fyrir 1931 var lágmark og hámark að jafnaði lesið einu sinni á dag, kl.8 að morgni (9 að okkar tíma). Það þýðir að hámörkin eiga oftast við daginn áður. Eiga þau hámörk þá að keppa við daginn í dag, þótt hitinn hafi náð hámarkinu í gær? Svipað á við um lágmarkshitann.

Frá 1931 og um það bil til 1949 á skeytastöðvum náði hámarksaflesturinn aðeins til tímans frá 9 til 18. Ef hámarkshiti dagsins var utan þessa tíma var hann týndur og tröllum gefinn. Þetta er alvarlegast á vetrum þegar hæsti hiti sólarhringsins getur orðið að nóttu sem degi og lágmarkið e.t.v. um hádaginn. Það gerðist einmitt 1918, hitinn var lægstur um miðjan dag þann 21. Lesið var af lágmarksmælingum að morgni þess 22. Það er því talinn metdagurinn í prentuðum bókum. Það sem er ískyggilegt er að hefði reglum þeim sem voru í gildi á skeytastöðvum 1931 til 1948 hefðu -38 stigin ekkert verið lesin sem lágmark á Grímsstöðum. Við hefðum þurft að sætta okkur við hitann kl. 14 í Möðrudal sem Íslandsmet.

Um lágmarksmetið 1918 er fjallað í ítarlegum fróðleikspistli mínum á vef Veðurstofunnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sumarliði Einar Daðason

Áhugaverður pistill hjá þér. Er einhver regla eða mynstur í því hvernig vindhraði og vindátt eru þegar frostmet eru slegin hér á landi? Þá er ég að aðallega hugsa um þegar frostið hefur verið um -30° til -40°C hér á landi.

Sumarliði Einar Daðason, 13.1.2011 kl. 13:46

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Sumarliði. Hiti verður lægstur hér á landi þegar lægir í kjölfar snarpra norðanáhlaupa. Um þetta fjalla ég á blaðsíðu 18í ritinu Kuldaköst og kaldir dagar sem aðgengilegt er á vef Veðurstofunnar. Undirfyrirsögnin er: Hvað getur hiti orðið lágur á Íslandi?

Trausti Jónsson, 14.1.2011 kl. 00:38

3 Smámynd: Sumarliði Einar Daðason

Takk fyrir þetta. Er vitað um einhver met sem tengjast vindkælingu hér á landi?

Sumarliði Einar Daðason, 14.1.2011 kl. 09:01

4 Smámynd: Trausti Jónsson

Sumarliði. Nei, ekki er samkomulag um vindkælireikninga við þær aðstæður sem ríkja í illviðrum hér á landi. Vindkælitöflur eru marklitlar fari vindur yfir 20 m/s. Þá er erfitt að greina á milli vinds- og annarra kælingarþátta svosem snjóbráðnunar/uppgufunar í fötum og mæðikælingar. Þessir tveir þættir eru enn hættulegri (stærrri) en vindáhrifin auk fleiri atriða sem gera reikningana óvissa.  

Trausti Jónsson, 15.1.2011 kl. 00:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.4.): 79
  • Sl. sólarhring: 88
  • Sl. viku: 2001
  • Frá upphafi: 2350870

Annað

  • Innlit í dag: 68
  • Innlit sl. viku: 1785
  • Gestir í dag: 64
  • IP-tölur í dag: 63

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband