Næsti kuldapollur takk (snarpur 3.)

Nú hefur Snarpur 2. linað tökin - meira að segja segist veðurstöðin á Steinum undir Eyjafjöllum hafa mælt nærri 13 stiga hita nú í kvöld (trúa því?? - gæti verið rétt!), enda þykktin yfir landinu komin yfir 5200 metra.

Næsti kuldapollur rennur suður um Vestfirði á sunnudag (sé spáin rétt). Aðstæður eru hins vegar þannig að hann verður meira hringlaga en sá fyrri og síður líklegur til hvassviðris, treystið mér þó ekki alveg hvað það varðar og kíkið á spár Veðurstofunnar eða annarra. Kuldapollar eru lúmskir.

snarpur-3-100111-hirlam

Kortið er af brunni Veðurstofu Íslands - HIRLAM spá gerð í kvöld (7.1. 2011) - gildir á hádegi þ.9.

Myndin sýnir hæð 500 hPa flatarins kringum Ísland (svartar línur) eins og henni er spáð um hádegi á sunnudag. Háloftalægðin sem fylgir pollinum verður þá við Vestfirði á leið suður. Rauðu strikalínurnar sýna þykktina í dekametrum (1 dam = 10 m). Innsta jafnþykktarlínan er við 4920 metra - álíka kuldi og í Snarp 2. á þrettándanum.  

Ef kíkt er á smáatriði má sjá að rauðu línurnar skera þær svörtu. Það þýðir að þar er riði til staðar og þar með fóður í lægðamyndanir. Sjórinn kyndir undir (eykur þykktina)- en mismikið og uppstreymi skapast. Verði uppstreymið nægilega mikið myndast úrkoma sem hækkar þykktina enn meir. Þessi spá gerir ráð fyrir smálægðamyndunum bæði fyrir sunnan og norðaustan land, en myndun þeirra er enn mjög óstöðug í spánum og varla hægt að segja til um það með fullri vissu hvar lægðirnar myndast. Kringum þær eru snjókomubakkar. Á þessu korti má sjá eins og fingur hærri þykktar pota inn í kuldapollinn suður af landinu og norðausturundan.

Upphitun sjávar er gjarnan vanmetin undir svona öflugum kuldapollum og þess vegna ekki víst að þykktin verði alveg svona lág og spáð er í miðju pollsins. Þessar lægðir - ef þær myndast falla líklega í pólarlægðaflokk - en ekki enn víst hvern þeirra - fylgjumst með á vef Veðurstofunnar og brunni og stillum á sunnudaginn 9. janúar 2011.

Munið að hungurdiskar eru ekki spáblogg - þar er hins vegar stundum bloggað um spár - en það er ekki það sama.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Oft pælt í því hvort eitthvað sé að marka þennan háa hita sem stundum kemur á Steinum, stundum mikli hærri en annars staðar, á kaldari helmingi ársins. En  svona er þetta búið að vera siðan stöðin byrjaði. Um tíma var Hvammur undir Eyjafjöllum líka svona en eins og hann hafi dottið fremur út með það. Hef líka pælt í því hvað valdi þessum mikla hita ef mælarnir eru ekki neitt að klikka. 

Sigurður Þór Guðjónsson, 8.1.2011 kl. 09:34

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Þótt ég hafi alloft ekið framhjá Steinum hef ég ekki athugað stöðina sérstaklega eða aðstæður við hana. Hámarkshiti dagsins í gær (7.1.) er með nokkrum ólíkindum í janúarmánuði miðað við þykktina. Tölur frá öðrum stöðvum voru líka frekar háar en þó talsvert trúlegri. Það kemur í ljós þegar meðalhiti mánaðarins verður reiknaður hvort kvarði mælisins hafi hnikast til. Svo getur auðvitað verið að þetta sé rétt. Miðað við háloftaathugun á miðnætti í Keflavík hefði loftið þurft að komast óblandað niður úr um 4 km hæð til að verða 13 stiga heitt á Steinum. Um samband hámarkshita og þykktar má m.a. lesa í greinargerð minni um Hitabylgjur og hlýja daga.

Trausti Jónsson, 8.1.2011 kl. 15:22

3 Smámynd: Sigurbjörn Sveinsson

Þetta er gaman og oft menningarlegra en sumt.

Sigurbjörn Sveinsson, 8.1.2011 kl. 23:01

4 Smámynd: Trausti Jónsson

Villutímabilið á Steinum hófst kl.24 þann 6. jan. og stóð þar til kl.10 þann 11. Mælrinn virðist hafa verið 5 til 6 stigum of hár. Ekki veit ég hvers vegna né hvort hann er endanlega kominn í lag.

Trausti Jónsson, 11.1.2011 kl. 14:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.4.): 3
  • Sl. sólarhring: 79
  • Sl. viku: 1601
  • Frá upphafi: 2350878

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 1400
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband