Samanburður á illviðrum - almenn lausmælgi 2

Þegar listar um helsta tjón af völdum veðurs eru skoðaðir 140 ár aftur í tímann koma breytingar á tjónnæmi í ljós. Það hefur mjög breyst eftir mannfjölda, atvinnuháttum og samgönguvirkni. Sömuleiðis fer það eftir verðmæti eigna, frágangi þeirra, en einnig eftir stöðunni í björgunar- og slysavarnamálum.

Fyrir 140 árum eða svo voru miklar breytingar að eiga sér stað í þjóðfélaginu. Í hinu eldra þjóðfélagi voru fénaðarhöld mikilvægari en flest annað. Mjög tilfinnanlegt tjón gat orðið vegna þess að fé hraktist til bana í hríðarbyljum á öllum árstímum eða í fóðurskorti í hörðum vorum. Sömuleiðis urðu oft miklir mannskaðar á sjó, sérstaklega á vetrarvertíðinni. Þau veður sem mestu tjóni ollu á þessum tíma myndu e.t.v ekki öll skora mjög hátt á veðralistum nútíma sem eingöngu byggjast á vindhraðamælingum.

Á síðari hluta 19. aldar jókst útgerð stórlega. Þá varð úthald í gangi lengri tíma ársins en áður hafði verið og bátar urðu stærri. Sömuleiðis jókst umferð kaupskipa við landið mjög. Þetta olli því að oft urðu nú miklir skaðar bæði á vondum hafnarlegum víða um land og mikið tjón varð á bátum á legum og í uppsátrum. Tjón vegna brima á haustin er mikið á þessum tíma.

Um 1900 varð algengara að farið var að hrófla upp hlöðum og byggingum úr timbri. Kirkjubyggingar urðu viðameiri. Fok á timburhúsum af öllu tagi verður áberandi og tjón oft mikið. Sjóskaðar halda áfram af engu minni tíðni en áður. Sumir þeirra eru reyndar ekkert tengdir veðri.

Samfara aukinni útgerð var farið að byggja bryggjur þó hafnaraðstaða væri léleg. Tjón á bryggjum og á húsum við þær vex samfara þessari þróun. Vetrarútgerð eykst um land allt, fleiri eru á bátum. Þrátt fyrir betri hlöðu- og útihúsabyggingar er tjón á slíkum húsum einnig mikið. Bárujárnsfok vex í beinu hlutfalli við aukningu bárujárnsnotkunar. Símalínur fara að slitna, því tíðar eftir því sem þær eru lengri. Rafmagnslínur bætast síðan við.

Þorp og þéttbýlisstaðir teygja sig út frá malareyrum og upp í hlíðar, við það vex skriðu- og snjóflóðatjón. Sambýli við ofanflóð virðist síðan hafa náð einhverju jafnvægi þar til ör vöxtur hljóp í byggingar eftir miðja öldina. Þá jókst það að nýju.

Á fyrri hluta aldarinnar er nokkuð algengt að menn verði úti. Fjölgun slíkra tilvika virðist ekki vera mikil - alla vega miðað við mannfjöldaþróun. Hrakningum fólks á bifreiðum fjölgar, bifreiðar teppast i hópum. Hrakningar í tómstundaleiðöngrum svosem skíðaferðum aukast.

Þótt framfarir yrðu snemma í hafnamálum virðast margar hafnir hafa verið illa varðar fram undir síðustu áratugi. Mikið var þá um tjón í höfnum þegar illviðri gerði. Bílar fóru að fjúka af vegum, ekki sér fyrir endann á aukningu slíkra atburða. Betri vegir auka hraða og umferð þannig að tjónnæmi gagnvart hvassviðrum hefur aukist talsvert miðað við það sem áður var. Bætt upplýsingagjöf mun þó vinna eitthvað á móti.

Miklar og kostnaðarsamar línuskemmdir upp úr 1970 ollu því að línuhönnun batnaði stórlega og tjón minnkaði. Þá urðu einnig mikil járnfoksveður sem ollu gríðarlegu tjóni, byggingastaðlar voru þá bættir. Það virðist hafa skilað einhverjum árangri.

Betri búnaður, slysavarnir og betri veðurspár fóru að skila árangri varðandi sjóslys og fækkaði þeim að mun þegar leið undir lok 20. aldar. Skipulögð viðbrögð voru hafin gegn ofanflóðatjóni. Mikil breyting varð til batnaðar í hafnamálum og hefur tjón í höfnum stórminnkað. Sóknarmynstur til sjávar hefur einnig breyst.

Spurning er því hvernig bera eigi saman norðanofviðri sem gerði t.d. í októberbyrjun 1896 við annað mikið veður í október 2004. Bæði ollu tjóni, fjárskaðar veigamestir 1896 en 2004 bar mest á járnplötufoki og miklum skemmdum á bifreiðum - hvorugt var til staðar 1896. Sauðfé miklu betur varið 2004.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mér finnst eiginlega kominn tími til þess að einhver fari að þakka fyrir þennan mikla fróðleik, sem birtist á þessum "hungurdiskum" sem höfundur kýs að kalla svo. Engum er ljósara en þeim, sem hafa stundað heimildavinnu og heimildaleit, hversu mikil vinna getur legið að baki tiltölulega stuttum og gagnorðum texta. Vonast bara eftir að eiga þess kost að lesa og njóta fleiri fróðleiksmola frá höfundi. Kærar þakkir.

Þorkell Guðbrandsson (IP-tala skráð) 14.10.2010 kl. 11:14

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Þakka hlýjar kveðjur Þorkell. Ég vona að þessi törn endist eitthvað áfram.

Trausti Jónsson, 15.10.2010 kl. 01:13

3 identicon

Sammála þeim sem skrifar hér að ofan, mjög flott og fróðlegt blogg hjá þér kæri frændi. Ég var einmitt að hugsa það sama og hann, hvað það hlyti að vera mikil vinna að baki hverrar færslu. Bestu kveðjur til þín :)  

Oddný Kristín

Oddný Kristín Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 15.10.2010 kl. 13:22

4 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Tek undir hér fyrir ofan, frábært að fá svona fróðlega pistla. Takk fyrir.

Höskuldur Búi Jónsson, 15.10.2010 kl. 14:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg200324b
  • w-blogg200324a
  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 31
  • Sl. sólarhring: 69
  • Sl. viku: 429
  • Frá upphafi: 2343342

Annað

  • Innlit í dag: 26
  • Innlit sl. viku: 386
  • Gestir í dag: 25
  • IP-tölur í dag: 24

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband