Árstíðasveifla hafíss

Nú virðist hafísinn í norðurhöfum vera í lágmarki þannig að ekki er úr vegi að troða inn lítilsháttar fróðleik honum tengdan Fyrir um 10 dögum virtist lágmarkinu náð, en svo mikið er af þunnum í N-Íshafi að vindar náðu að hreinsa þá aukningu aftur burt um tíma. En nýmyndun er byrjuð.  

Lágmarkið í ár mun hafa orðið það þriðja minnsta síðan samanburðarhæfar mælingar hófust 1979. Útbreiðslan fer á hverjum vetri upp í 13 til 15 milljónir ferkílómetra. Í meðalárferði er sumarlágmarkið um 7 milljónir ferkílómetrar en á síðari árum hefur það farið niður fyrir 5 milljónir og þannig var það nú.  

Helmingur vetraríssins eða meira bráðnar á hverju sumri. Gamall ís er því í minnihluta og sagt er að hlutur hans hafi aldrei verið minni en nú. Á vetrum þekur ísinn stóran hluta innhafa norðurhvels þó sjór sé auður norður með Noregi öllum og allt til Svalbarða. Straumar og ríkjandi vindáttir verða til þess að við vestanvert Atlantshaf nær innhafaísinn suður á Lárentsflóa við Kanada og til Norður-Japan vestast í Kyrrahafi.  

Á suðurhveli er árstíðasveiflan enn stærri. Meðalútbreiðsla á vetrum er þar milli 15 og 16 milljónir ferkílómetra en fer niður í 2 til 3 milljónir á sumrin. Þar nær samfelld ísþekja á vetrum norður undir 60°S, en á sumrin fer hann lítið norður fyrir 70°S. Hámarkið er nærri jafndægrum á vori (september á suðurhveli), en lágmark við jafndægur að hausti (mars á suðurhveli).  

Hafísinn í suðurhöfum hefur lítið aðhald, vindur er sífellt að mynda vakir í honum og eru þær fljótar að frjósa á vetrarhelmingi ársins. Hann breiðir því mjög fljótt úr sér, gjarnan um 2,5 milljón ferkílómetra á mánuði. Þegar kemur fram yfir sólstöður hægir heldur á nýmyndun, en hún heldur þó áfram og er samtals um 4 milljónir ferkílómetra síðustu tvo mánuðina fyrir jafndægur. 

Síðustu árin hefur hafís verið heldur meiri í í suðurhöfum en meðaltalið segir til um, sérstaklega á haustin og fram að árstíðarhámarki útbreiðslunnar. Ég veit ekki með vissu hver skýringin er, margt kemur þó til greina. Hafi vestanvindabelti suðurhvels t.d. þokast til suðurs á kostnað austanvindanna næst Suðurskautslandinu veldur það aukinni dreifingu íssins og stuðlar þannig að aukinni nýmyndun. Rekstefna hafíss er til vinstri við vindáttina á suðurhveli. Meira er þá af opnum í ísnum til að frjósa meðan sól er lægst á lofti. Ástæða hniks vestanvindabeltisins gæti verið hlýnun jarðar á síðustu árum. Fleiri skýringar koma til greina, sjálfsagt er einhver þeirra líklegri en sú sem ég nefni.

Á norðurhveli er vöxturinn líka langákafastur að hausti, frá miðjum október fram að sólstöðum, jafnvel er aukningin yfir 4 milljónir ferkílómetra í nóvember einum. En land takmarkar talsvert útbreiðslu íssins þannig að tiltölulega minna myndast af ís síðustu tvo mánuði fyrir vorjafndægur heldur en á suðurhveli. Síðustu tvo mánuði fyrir jafndægur bætast aðeins 2 til 3 milljónir ferkílómetra við ísþekjuna en á suðurhveli er viðbótin kringum 4 milljónir eins og áður sagði.  

Fyrir rúmum 150 árum þótti vísindamönnum ótrúlegt að hafís gæti náð mjög langt út frá ströndum eyja og meginlanda. T.d. var sú skoðun ríkjandi að ef ekki væri land við norðurskautið væri þar enginn ís. Margir leiðangrar fóru því inn í ísinn með það fyrir augum að komast í gegnum hann og í auðan sjó fyrir norðan. Nú vitum við að þetta var tálsýn.  

Hið eiginlega N-Íshaf milli Grænlands og Kanada annars vegar og Síberíu er hins vegar þakið ís mestallt árið. Á síðustu árum, hafa stór svæði þó orðið alveg íslaus seint á sumrin og siglingar óvenjugreiðar bæði meðfram Síberíuströndum og það sem óvenjulegra er, einnig á milli kanadísku heimskautaeyjanna. Rétt er þó að benda á að þótt leiðirnar hafi opnast er það aðeins í fáeinar vikur á ári. Norðvesturleiðin norðan við Kanada er sérstaklega erfið því þar er ekki langt í þann gamla ís sem enn er í Íshafinu og getur hann rekið inn í sundin. Ef það gerist gætu liðið nokkur ár þar til leiðin opnaðist aftur jafnvel þótt ís héldi áfram að minnka annars staðar í Íshafinu.  

Enn skal minnt á að útbreiðslutölur hafíss eru tvenns konar: Annars vegar greinir gervihnöttur ísútbreiðsluna sjálfvirkt og sér ekki mun á auðum sjó og ís sem þakinn er vatni (e. ice area = ísflatarmál), hins vegar er reiknuð heildarútbreiðsla þar sem reynt er að hafa síðarnefndu svæðin með (e. ice extent = ísútbreiðsla).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

 • Slide10
 • Slide9
 • Slide11
 • w-1945v
 • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

 • Í dag (21.5.): 362
 • Sl. sólarhring: 364
 • Sl. viku: 1908
 • Frá upphafi: 2355755

Annað

 • Innlit í dag: 338
 • Innlit sl. viku: 1762
 • Gestir í dag: 318
 • IP-tölur í dag: 317

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband