Bloggfærslur mánaðarins, október 2010

Nóvemberhiti í 200 ár

Hér er fjallað um meðalhita nóvembermánaðar í 200 ár. Hráir reikningar segja að hlýnað hafi um 1,8 stig á þessum tíma í Stykkishólmi. Það er nú eins og það er - einhvern veginn finnst manni það ekkert sérlega áberandi þegar horft er á gráu súlurnar á myndinni. En rauða línan sýnir reiknaða leitni. Mjög fáir nóvembermánuðir hafa meðalhita undir frostmarki á síðustu árum. En þeir voru mun fleiri en nú fyrir 1930. leitnin er því líklega raunveruleg. Munum þó að leitni fortíðar segir ekkert um leitni framtíðar.

stykkisholmur_hiti_nov

Græna línan sýnir heildardrættina. Af henni má sjá að sérlega hlýtt var í nóvember á árunum 1930 til 1960 en síðan kom mjög kalt tímabil og náði það lágmarki 1973. Einnig var mjög kalt í nóvember 1996 og var sá mánuður að tiltölu kaldari í Reykjavík heldur en í Stykkishólmi. Þessi kaldi nóvember var eins konar punktur á eftir kuldaskeiðinu sem staðið hafði linnulítið frá 1965. Nóvember hafði þó verið fremur hlýr alveg frá 1987 og hefur lítið sem ekki hlýnað síðan. Hlýindin á síðari árum vantar nokkuð upp á fyrri hæðir.

Nóvember 1945 er alveg í sérflokki hvað hita varðar. Hann er einnig sá hlýjasti á landinu í heild, en sé litið á Norðausturland eingöngu var nóvember 1956 hlýrri. Langkaldasti mánuðurinn var nóvember 1824, kuldi með ólíkindum. Hafa verður þó í huga að frá þessum tíma hafa aðeins fundist mælingar frá einum stað, þegar Jón Þorsteinsson landlæknir mældi við Nesstofu á Seltjarnarnesi. Vel má vera að ástæða finnist síðar til að endurskoða reikninga. Hugsanlega finnast fleiri mælingar.

Eftir mælingum Jóns að dæma kom hláka aðeins tvisvar í nóvember 1824. Hiti komst í núll stig þann 6. og síðan var tveggja daga hláka 21. og 22. Aðra daga var frostið oftast 4 til 8 stig og fór niður í -12,5 stig þann 19. Lágmarkshiti var ekki mældur sérstaklega. Kuldamet nóvembermánaðar i Reykjavík er þó mun lægra -16,7 stig, 30. nóvember 1893.  


Nokkur nóvembermet, hæsti hiti

Þá er að búa sig undir metavaktina í nóvember. Ekki er það þó þannig einhver met séu í spánum næstu daga. Hæsti hiti sem mælst hefur á landinu í nóvember er 23,2 stig, en sú ótrúlega háa tala kom fram á sjálfvirku stöðinni á Dalatanga 11. nóvember 1999. Mannaða stöðin á sama stað skráði hámarkið 22,7 stig í athugun kl.9 að morgni þess 12. En hiti var hæstur kvöldið áður eins og á sjálfvirku stöðinni. Á mönnuðum stöðvum er hámarkshiti nú athugaður tvisvar á dag, kl. 9 og 18.

Örfáum dögum eftir að metið var sett á Dalatanga, þann 19., gerði aðra hitabylgju og féllu þá stöðvamet víða um land og hiti komst yfir 20 stig á nokkrum stöðvum á Norður- og Austurlandi. Nóvembermet 59 sjálfvirka stöðva eru sett þennan dag. Nóvembermet Reykjavíkur eru frá þessum degi, sjálfvirka stöðin á veðurstofutúninu náði 13,2 stigum, en 12,6 stig mældust á mönnuðu stöðinni. Þennan óvenjulega dag mældist hámarkið í Bolungarvík 17,8 stig. Reykjavík á varla möguleika í það, en mér finnst að Reykjavík eigi að geta betur en 13 stig. Við eigum inni að minnsta kosti 14 stiga hámark í nóvember. - Hvenær sem það nú verður.

Á Akureyri er nóvemberhámarkið 17,6 stig, skrifað á 3. nóvember 1964. Sennilega varð hiti hæstur að kvöldi 2. Ég er ekki með gögn við höndina til að fastsetja það. Talan er í hærra lagi miðað við nálægar stöðvar þennan sama dag, en hiti fór þó lítillega hærra á metastaðnum Dalatanga. En við megum taka eftir því að hiti yfir 15 stigum í nóvember er óvenjulegur.

Gömul mæling er prentuð í Veðráttunni, 17,4 stig á Víðistöðum í Hafnarfirði 19. nóvember 1945. Þessi tala var slegin af í næsta ársyfirliti enda örugglega röng.

Áhugasamir geta fundið hæsta hita hvers dags í nóvember í textaviðhengi. Sennilega er hægt að opna það með excel, en sjálfgefið er oftast notepad eða wordpad. Þaðan er auðvelt að afrita í excel til nánari skoðunar.

Elsta metið í listanum eru 17,8°C þ. 17. og var sett í Fagradal í Vopnafirði 1933. Tími kominn á það, en tölurnar næstu tvo daga á undan, þ.15. og 16. eru lægri (15,2 og 15,5 stig) og þeir dagar eru því líklegri fórnarlömb nýrra meta.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Úr október inn í nóvember og - hver verður ársmeðalhitinn 2010?

Október veit ekkert um nóvemberhitann. Hins vegar vitum við að hér í Reykjavík kólnar að meðaltali um 2,9 stig milli þessara mánaða. Það er rétt tæplega 0,1°C á dag. Venjulega gerist það í einhverjum tilviljanakenndum stökkum frekar en jafnt og þétt.

Hitabreyting_okt-nov_rvk

Myndin sýnir hitabreytingu milli október og nóvember í Reykjavík frá 1866 til 2009. Ekki sést nein langtímaleitni. Breytingar á veðurfari hafa ekki aflagað þennan hluta árstíðasveiflunnar. Með góðum vilja má þó sjá sitthvað á myndinni. T.d. hefur kólnunin milli mánaðanna farið minnkandi síðustu áratugina og ef við hefðum aðeins þann hluta myndarinnar myndum við draga þá ályktun að minna kólni milli mánaðanna með hækkandi ársmeðalhita (veðurfarsbreytingar?). Það styður þá ályktun að munurinn var minni á fyrra hlýskeiði, frá 1925 til 1965 heldur en á kuldaskeiðinu sem síðan tók við. En - munurinn var ámóta mikill (eða lítill) á þeim hluta 19. aldar sem við sjáum á myndinni. Sem sagt - engar marktækar langtímabreytingar. 

Það er hins vegar athyglisvert að 10 sinnum var nóvember hlýrri en október (mest 1987) og einu sinni (1882) kólnaði um 8 stig milli mánaðanna.  

Í tilefni af því hversu hlýtt árið hefur verið til þessa hef ég talsvert verið spurður að því hvort árið verði methitaár í Reykjavík. Mér finnst allaf dálítið óþægilegt að gefa út spádóma af þessu tagi - þegar tveir mánuðir (rúmir) eru eftir af árinu. Sannleikurinn er hins vegar sá að mjög góð fylgni er á milli hitans fyrstu 10 mánuðina og árshitans. Er hún það góð að hægt væri að sleppa mælingum afgang ársins? Nei ekki alveg, en sé litið á allan tímann frá 1870 hefur langoftast munað minna en 0,4 stigum á raunveruleikanum og spá sem gerð er út frá hitanum fyrstu 10 mánuði ársins.

Aðeins einu sinni hefur spáin lent í algjörri klessu. Það var haustið 1880. Árið hafði verið hlýtt, sumarið fádæma hlýtt en haustið kaldara. Síðan kom kaldur nóvember og desember með ólíkindum. Þá var meðalhitinn í Reykjavík -6,9 stig!

En hvernig er þá ástandið nú? Október er nú ekki alveg búinn þannig að ég læt aðra um að gera spána, en hér er reynslujafnan fyrir þá sem vilja sjálfir setja tölurnar inn:

Ársmeðalhiti (áætlaður) = -0,411 + 0,937 x [meðalhiti fyrstu 10 mánaða árs] 

Takið eftir mínustölunni á undan 0,411. Útkoman - ja - hún er spennandi.

 

 


Metlægð yfir Minnesota

Veðurnörd hafa undanfarna daga fylgst af áhuga með lægðarmyndun yfir Bandaríkjunum. Fyrir nokkrum dögum hrukku þau upp við að verið var að spá metlágþrýstingi á meginlandi Norður-Ameríku. Lægðin olli ekki vonbrigðum og hefur alla vega sett nýtt lágþrýstimet fyrir stór svæði í Bandaríkjunum. Þrýstingur í lægðarmiðju fór niður í um 955 hPa (enn er verið að safna tölum) í Minnesota. Minnast menn þess að síðastliðinn vetur voru lágþrýstimet slegin víða vestan Klettafjalla þegar óvenju djúp lægð gekk yfir á þeim slóðum. Lágþrýsti- og háþrýstimet eru alltaf merkileg.

Ágætt yfirlit um atburðinn nú er að finna hjá einum helsta veðurbloggara Bandaríkjanna Jeff Masters á Wunderground. Hér er tengill beint á umfjöllun hans:

http://www.wunderground.com/blog/JeffMasters/article.html?entrynum=1674

Flestir veðuráhugamenn fylgjast reglulega með bloggi Jeff, en það fær mín bestu meðmæli. Sömuleiðis er annar mjög athyglisverður pistill uppi hjá nágranna Jeff á wunderground, Christopher C. Burt. Þar skrifar hann um keppinauta um heimsmetið í hámarkshita og trúverðugleika þeirra.

http://www.wunderground.com/blog/weatherhistorian/article.html?entrynum=3

Burt er höfundur ágætrar bókar um metaveður, Extreme Weather heitir hún. Þetta er skyldueign metafíkla. Áherslan er á Bandaríkin en fjölmörg önnur met eru í bókinni. Pantið hana strax ef þið eigið hana ekki.

Burt er ásamt öðrum manni, Maximilliano Herrera, í einskonar metahreinsunarherferð í heiminum. Herrera er líka með metasíður, bæði í eigin nafni og á Wikipedíu. Svo á að heita að alþjóðaveðurfræðistofnunin (WMO) sé líka að vinna að hreinsunarmálum og er með eigin metanefnd sem heldur úti metasíðu stofnunarinnar:

http://wmo.asu.edu/

Þar má einnig sjá upplýsingar um nefndina og skipan hennar ef smellt er á viðeigandi tengil á metasíðunni. Sannleikurinn er auðvitað sá að sannleiksnefnd þessi er heldur þung í vöfum - eins og fleira hjá hinum þörfu samtökum WMO. Burt og Herrera hafa unnið miklu hraðar en nefndin í hitametamálunum eins og sjá má af skrifum þeirra. Alþjóðaveðurfræðistofnunin er einhver þarfasta undirstofnun Sameinuðu Þjóðanna og hefur komið fjölmörgum málum til leiðar. Aldrei má vanmeta það. Veðrið þekkir engin landamæri. En eins og flestar aðrar alþjóðastofnanir ... (nóg um það).


Ísing á línum

Ætli sé ekki óhætt að fara að minnast á ísingu. Frægt ísingarveður gerði einmitt um þetta leyti árið 1972. Helstu sköðum er lýst svo: Mikið tjón varð vegna ísingar á raf- og símalínum í mörgum landshlutum 27. (október) og næstu daga. Um 500 síma- og rafmagnsstaurar brotnuðu eða lögðust niður. Girðingar eyðilögðust. Mest varð tjónið í Strandasýslu og hluta Húnavatnssýslu, en einnig mun víðar, á Snæfellsnesi, í Dalasýslu, í Hvalfirði, Ísafjarðardjúpi á Mýrdalssandi og í Grímsnesi, í Ólafsfirði og í Öræfum. Fleiri skaðar urðu.

Þetta veður fékk meira að segja sérstaka umfjöllun í tímaritinu Veðrinu sem félag veðurfræðinga gaf út á þessum árum (tilvitnun neðst í pistlinum). Mikið ísingartjón varð einnig í veðrinu mikla sem olli snjóflóðinu hræðilega á Flateyri fyrir 15 árum og fleiri ísingarveður í október mætti nefna.

Ísing er einkum af þrennu tagi: 1. Frostrigning, 2. slydduísing, 3. skýjaísing.

Rigning sem myndar ísingu er kölluð frostrigning. Hún á sér stað þegar hitahvörf liggja nærri jörð, frost er þá allra næst jörðu en frostlaust ofan við. Lagið neðan hitahvarfanna getur verið mjög þunnt en líka einhverjir tugir metra eða meira. Einnig myndast ísing ef rigning fellur á frosna jörð þó hiti í lofti sé ofan frostmarks. Sá myndunarháttur er algengari hérlendis. Blási vindur blandar hann kalda loftinu oftast saman við það hlýrra ofan við og færir hita við jörð því upp fyrir frostmarkið.

Vegna blöndunaráhrifa vindsins eru frostrigning og frostúði ekki eins algeng hér á landi og víða erlendis. Þetta veðurlag er mjög hættulegt vegna skyndilegrar hálkumyndunar. Ís sem hleðst á tré og línur veldur oft umtalsverðu tjóni, sérstaklega í Ameríku þar sem bæði orku- og símalínur eru yfirleitt ofanjarðar. Slæmt frostrigningarveður sem komast mun í sögubækur liggur örugglega í leyni í framtíðinni hér á landi. Hvenær það verður veit auðvitað enginn, en samt vonandi að því verði spáð rétt áður en vandræðin verða.

slydduising

Sú tegund ísingar sem veldur mestu tjóni hér á landi er slydduísing. Hún myndast í vindi þegar hálfbráðinn snjór (slydda) klessist á línur eða reyndar hvað sem er. Þar sem úrkoman fellur er loft ekki alveg mettað raka, úrkoman fellur úr skýi niður í örlítið þurrara loft. Myndin hér að ofan á að lýsa þessu. Þetta veldur því að uppgufun getur átt sér stað við raka fleti. Uppgufunin þarf orku og hún er tekin m.a. frá fletinum sjálfum sem þá kólnar að bræðslumarki og úrkoma sem fellur á hann klessist (frýs) við hann. 

Ísing getur orðið á raflínum þó hennar gæti lítið niður við jörð þar sem vindur er hægari en ofar og rakastig ívið hærra (100%).  Uppgufun er því minni og ísingar gætir síður. Hærra uppi þar sem raflínur liggja er vindur meiri. Hann færir því sífellt loft sem ekki er alveg rakamettað að línunni og uppgufun getur haldið þar áfram. Sé ákoma slydduflyksna meiri en sem nemur uppgufun safnast hún fyrir á línunni sem ísing.

Sé rakastig niður undir jörð lægra en 100% getur slydduísing auðvitað orðið þar líka. Fjölmörg dæmi eru um að ísing slagi girðingar.

Ef úrkoman stendur lengi hækkar gerist gjarnan annað tveggja, rakastigið hækkar upp í 100% og ísingin minnkar - eða bráðnun úrkomunnar sem fellur úr skýinu kælir loftið þannig að hiti fellur niður fyrir frostmark og ísingin hættir. Sé sífellt aðstreymi af ómettuðu lofti sem blandast inn í slydduna sem fellur getur ísingin haldið óhindrað áfram. Staðhættir geta mjög ýtt undir slíka blöndun þannig að ísingartilvik eru mjög algeng á sumum stöðum en sárasjaldgæf á öðrum.

Þriðja ísingartegundin er skýjaísing. Hún verður í rakamettuðu lofti þar sem undirkældir skýjadropar setjast á alla fleti og frjósa þar fastir sé hiti flatanna í frostmarki eða undir því. Ísing af þessu tagi getur myndað miklar furðumyndir þegar ís hleðst upp á móti vindáttinni. Hér á landi gætir hennar einkum á fjallatindum og bungum ofan við 600 m hæð yfir sjó.

Ísing á sjó er hættuleg vegna þess að hún breytir stöðugleika skipa. Við fjöllum ekki um hana að sinni.

Grein í Veðrinu sem mælt er með (aðgengileg um timarit.is):

Flosi Hrafn Sigurðsson og Eiríkur Sigurðsson (1975): Ísingarveðrið mikla 27.-28. október 1972. Veðrið. 19., bls. 8-18.


Um Austurgrænlandsísinn (3. lestur um hafís)

Hafís sem kemur til Íslands er hluti af mikilli ísbreiðu sem oftast þekur svæðið austur af Grænlandi norðanverðu. Þessi ísbreiða er ólík öðrum ís á jaðri heimskautasvæðanna vegna þess að hluti hennar er myndaður í Norður-Íshafinu sjálfu, þ.e. hafinu kringum norðurskautið. Megnið af öðrum jaðarsvæðaís er myndaður á jaðarsvæðinu sjálfu.

Þannig er með ísinn í Barentshafi. Hann myndast á svæðinu milli Svalbarða og Novaya Zemlia. Á leið ferðalanga til Svalbarða frá Noregi er hann kallaður austurís. Við köllum hann frekar Svalbarðaís. Í meðalári (sem maður veit varla hvað er núorðið), belgist hann upp í um milljón ferkílómetra síðla vetrar en hverfur að 8/10 hlutum á sumrin. Síðustu ár hefur hámarksútbreiðslan varla náð 800 til 900 þúsund ferkílómetrum og síðustu nokkur sumur hefur hann nærri því allur bráðnað.

Svalbarðaísinn gengur venjulega ekki mikið vestar en að suðurodda Svalbarða, en nær oft suður að Bjarnarey. Í stöku árum gengur Svalbarðaísinn vestur fyrir en oftast er þar íslaust. Í allra mestu ísárum getur Svalbarðaísinn tengst Austurgrænlandsísnum og lokar þá siglingaleið til Svalbarða. Vesturströnd Novaya Zemlia getur verið íslaus í hlýjustu árum. Þó ísinn í Barentshafi loki aldrei siglingaleiðum við strendur Norður-Noregs rekur þar stundum einn og einn jaka á fjörur. Það gerðist t.d. síðvetrar 1929, hlýindaveturinn mikla hér á landi, en þá ríktu stöðugar norðanáttir á Finnmörk. Einnig hefur komið fyrir að borgarís (sennilega frá heimskautaeyjunum) hafi komist inn í strandstrauminn við Noreg og borist þannig langt suður með landinu.

En lítum nú betur á Austurgrænlandsísinn. Síðla vetrar og á vorin liggur hann með allri austurströnd Grænlands allt suður að Hvarfi. Vor og sumar fer hann oftast vestur fyrir Hvarf og nokkuð norður með Vestur-Grænlandi og teppir siglingar til Eystribyggðar. Norðar, í námunda við Nuuk er oftast hafíslaust, en nokkuð um borgarís og lagnaðarís af fjörðunum. Norður við Diskóflóa er komið í annað jaðaríssvæði, Baffinsísinn.

a-graenlandsisinn_export

Kortið sýnir útbreiðslu Austurgrænlandsíssins síðla vetrar. Langt er síðan ísinn hefur verið jafnmikill og hér er sýnt. Kortagrunnurinn góði er eftir Þórð Arason, en krotið eftir mig. Við fréttum síðar af vestur-, norður- og austurís sem minnst er á á kortinu. Austurgrænlandsstraumurinn er sýndur sem breið, blá ör, en minni bláa örin sýnir Austuríslandsstrauminn (engin nákvæmni er í þessu).

Fyrir norðan og norðaustan Jan Mayen er hringstraumur í hafinu, andsólarsinnis. Hann dregur ís út úr meginsísstraumnum til austurs og síðan til norðurs, en myndar jafnframt autt svæði norðan og vestan ísstraumsins sunnan og austan við. Þessi mikli ístangi nefnist Oddinn. Við hann stunduðu norðmenn miklar selveiðar. Í mjög miklum ísárum geta norðausturendi hans og suðvestasti hluti Svalbarðaíssins náð saman. Það mun hafa gerst nokkrum sinnum á 19. öld. Því er haldið fram að talsvert af Svalbarðaís hafi komist inn í Austurgrænlandsísinn vorið 1917 og rekið suður á bóginn í austurjaðri hans (Koch, 1945). Kannski var frostaveturinn mikli 1918 þá í undirbúningi? Ekki er vitað til þess að þetta hafi gerst síðan.

Hingað til hefur megnið af ísnum við Austur-Grænland verið fjölær ís sem borist hefur úr Norður-Íshafi. Þar mátti greina bæði norðurpólsís sem myndaður er í íshafinu miðju og Síberíuís sem myndaður er á landgrunni Síberíu og þar nærri. Undanfarin ár hefur Síberíuísinn bráðnað nær alveg á sumrin og fjölær Síberíuís mun varla verða hluti Austurgrænlandsíssins fyrr en að liðnum nokkrum árum.

Sá ís sem kom að ströndum Íslands á árum áður var oftar Síberíuís en pólís. Sagt er að menn á Norðurlandi hafi þekkt þessar tvær ístegundir að, auk þeirrar þriðju sem er sá ís sem myndast hefur á þessum slóðum sama vetur og hann rekur til Íslands. Meira um það síðar.

Bók Lauge Koch:

Koch, L. 1945. The East Greenland Ice. Meddelelser om Grønland 130(3). Kommisionen for Videnskabelige Undersøgelser i Grønland. Copenhagen, 373 s.

 


Skaðar á Skagaströnd

Eins og fram hefur komið hjá mér á þessum vettvangi áður er ég að dunda mér við að taka saman veðuratburðaskrá. Í bili nær hún aftur til 1873 en er og verður auðvitað ansi gloppótt. En hún er þó komin á það stig að hægt er að leita eitthvað í henni, t.d. eftir staðarnöfnum. Ég hef reynt að forðast skipsskaða og aðrar slysfarir sem ekki tengjast veðri. Nú hef ég mér til gamans flett upp á Skagaströnd i þessu sambandi. Hvers vegna Skagaströnd? Það er engin sérstök ástæða fyrir því önnur en sú að í því sem nú er fyrsta lína skrárinnar er einmitt tjón þar.

Um 1870 og fyrr var mikil verslun á Skagaströnd og þar áttu viðdvöl verslunarskip frá útlöndum, komu með varning og tóku við öðrum. En færslan er þessi:

10. september 1873: Möstur brotnuðu á báðum kaupskipunum á Skagaströnd og þau urðu að strandi, fiskhjallur fauk þar með öllu.

Ári síðar varð annað ámóta óhapp:

29. september 1874: Kaupskip eyðilagðist við Skagaströnd, mannbjörg varð, veðrið sagt verra en það sem olli sköðum á Skagaströnd árið áður. Spákonufellskirkja hnikaðist um breidd sína. Miklir skaðar urðu víðar í þessu norðaustanveðri.  

13. desember 1877. Skip skemmdust á Skagaströnd. Hér er dagsetningin ekki alveg viss. Fleiri skaðaveður gerði nefnilega þessum mánuði með talsverðu tjóni.

Snemma í nóvember 1879 fórust skip frá Skagaströnd og víðar, ekki veit ég hvar.

2. eða 3. janúar 1887. Fimm skip fórust á Skagaströnd, 24 menn fórust.

18. eða 19. september 1893: Fiskibátur fauk yfir hús á Skagaströnd, lenti þar á manni sem slapp lítið meiddur.

27. apríl 1906: Fiskiskip strandaði við Skagaströnd, einn maður fórst. Þetta veður olli stórfelldu tjóni víða um land.

22. mars 1907: Maður varð úti 22. nærri Skagaströnd.

9. eða 12. janúar 1913: Fokskemmdir urðu á Skagaströnd og í grennd.

21. desember 1929: Varðskipið Þór strandaði við Skagaströnd, mannbjörg varð.

8. til 9. janúar 1935: Þak fauk af íbúðarhúsi á Skagaströnd.

26. nóvember 1935: Tveir menn meiddust við björgunarstörf í illviðri á Blönduósi og á Skagaströnd. Ekki er getið um hverju þeir voru að bjarga.

16. september 1936: Bryggjan á Skagaströnd skemmdist illa. Þetta veður olli gríðarlegu tjóni á landinu.

18. eða 19. desember 1945: Sex smábátar fuku á Skagaströnd. Íbúðarhús þar laskaðist svo mikið að það varð ekki íbúðarhæft, hafnarhúsið skemmdist og matarskúr fauk, fleiri hús löskuðust.

1. febrúar 1956: Krapahlaup drap 4 kindur á Efri-Mýrum á Skagaströnd.

2. febrúar 1956. Tjón varð talsvert á Skagaströnd og þar í grennd fauk þak af íbúðarhúsi á Syðra-Hóli og braut það fjósið, hlaða féll að nokkru á Brandaskarði, á Miðgili tók þak af íbúðarhús svo fólk þurfti að flýja bæinn. Vörubíll fauk af vegi í nágrenni Skagastrandar.

23. nóvember 1961: Vélbátur frá Skagaströnd fórst og með honum tveir menn.

13. janúar 1962: Skúr fauk á rafmagnslínur á Skagaströnd og braut staura.

12. til 15. janúar 1975: Rúður brotnuðu í nokkrum húsum á Skagaströnd í miklu hvassviðri.

31. janúar 1985: Bátur sökk í höfninni á Skagaströnd í ísingarveðri.

2. til 4. janúar 1991: Plötur fuku af fjölda húsa á Skagaströnd. Þetta veður er þekktast fyrir gríðarlegar ísingarskemmdir á raflínum á Norðurlandi.

16. janúar 1995: Kyrrstæð vöruflutningabifreið fauk útaf nærri Skagaströnd. Þetta veður er kennt við snjóflóðin í Súðavík.

24. til 26. október 1995: Verulegar skemmdir urðu á Skagaströnd, þak fauk þar af nýbyggðu parhúsi, þak af gömlu íbúðarhúsi fauk og húsið skekktist, skúrar fuku og fleira lauslegt. Þetta veður er kennt við snjóflóðið á Flateyri.

5. nóvember 2006: Skip slitnuðu upp í hvassviðri á Skagaströnd.

Ég sé nú sitthvað sameiginlegt með þessum veðrum, en þarf að athuga málið nánar til að ég átti mig nákvæmlega á því. Mér sýnist þó að ákveðin tegund veðra af vindátt á bilinu 50 til 70 gráður komi mjög við sögu, auk fáeinna úr öðrum áttum. Lýkur hér pistli um skaðaveður á Skagaströnd. Þau eru sjálfsagt fleiri en getið er um hér.


Árstíðasveifla vestanáttarinnar kringum Ísland

Í landafræðibókum er oft fjallað lítillega um veðurfarsbeltaskiptingu jarðar. Vestanvindabeltið er eitt veðurbeltanna. Þar er ríkjandi vindátt úr vestri og lægðir berast flestar til austurs, við Atlantshafið oft til norðausturs. Norðan við vestanvindabeltið er heimskautasvæðið, þar eru áttir úr austri ríkjandi. Ísland er að meðaltali rétt norðan við mörk beltanna - inni í austanáttinni. Þó vestanáttir séu alls ekki sjaldgæfar er ríkjandi vindur samt úr austri á Íslandi.

En austlægu áttirnar ríkja einungis í loftlagi sem næst er jörð - svonefndu jaðarlagi. Þegar kemur upp úr því - í 1 til 3 kílómetra hæð er komið upp í ríkjandi vestanátt. Vestanvindabeltið í háloftunum nær alveg sunnan úr hitabelti og langleiðina til norðurpólsins. Á sumrin er miðja þeirrar miklu háloftalægðar sem stýrir vestanáttinni að meðaltali nærri norðurskautinu. Um háveturinn skiptist meðallægðin í tvennt, önnur situr yfir Kanadísku heimskautaeyjunum, en hin yfir austanverðri Síberíu.

Vestanátt er því ríkjandi í háloftunum yfir Íslandi allt árið, þrátt fyrir austanáttina niður undir jörð. Á myndinni hér að neðan má sjá árstíðasveifluna í styrk þessara vindakerfa.

 

arstídasveifla_vestanattar

Tími ársins sést á lárétta ásnum og nær hann yfir meir en eitt ár (byrjar 1.febrúar), en endar 1. júní. Ástæða þess að ég vel að setja meira en ár á myndina er sú að ég vil að bæði sumar- og vetrarhámark/lágmark komist fyrir á sömu mynd. Lóðrétti ásinn er tala sem mælir þrýstimun milli 70°N og 60°N. Því meiri sem hann er því meiri er vestanáttin. Sé talan negatív er vestanáttin orðin að austanátt. Því meira negatív sem talan er, því meiri er austanáttin.

Á efri hluta myndarinnar sjáum við að vestanáttin (í háloftunum) er miklu sterkari að vetri heldur en á sumri. Lengst til vinstri er hámark í mars. Mikið styrkfall verður í apríl, reyndar í kringum sumardaginn fyrsta. Lágmarkið er í júní, en við tökum eftir því að veikust er vestanáttin snemma í ágúst, þar sem hún dettur nærri því alveg niður. Það gæti verið tilviljun vegna þess að árin sem liggja til grundvallar eru ekki nógu mörg (þau eru þó 45).

Í kringum höfuðdaginn eykst styrkur vestanáttarinnar tiltölulega snögglega. Síðan er óvíst hvort lágmarkið í október er raunverulegt. Áberandi hámark er í nóvember og desember en lágmark aftur í janúar. Það gæti verið raunverulegt. Styrkur vestanáttarinnar í háloftunum tengist meginvindröst þeirri sem hringar sig um norðurhvelið. Í janúar er hún í sinni syðstu stöðu og nær sjaldnar til Íslands heldur en bæði fyrr á vetrinum og eftir.

Við sjáum á neðri hluta myndarinnar að austanáttin við jörð er af svipuðum styrk mestallt árið, nema yfir blásumarið, frá því um 15. júní til 10 ágúst. Á þessum tíma árs liggur við að vestanátt nái undirtökunum á svæðinu milli 60 og 70°N. Það gerist þrátt fyrir að háloftavestanáttin er einmitt í lágmarki um sama leyti.

Ef við horfum aðeins á myndina tökum við fljótlega eftir því að austanáttin við jörð er að meðaltali einna sterkust þegar vestanáttin er öflugust. Þetta kemur jafnvel enn skýrar fram ef við reiknum mismun á styrk í háloftum og við jörð. Þessi munur á sér eigið nafn: Þykktarvindur (thermal wind). Ef mikill munur er á vindi við jörð og í háloftunum er þykktarvindurinn sterkur.

Nú tapa sennilega flestir lesendur þræði og biðst ég afsökunar á því, en pistillinn er þegar orðin of langur. Nýlega bloggaði ég lítillega um þykktina og setti skýringarpistil í viðhengi með henni.  


Kólnað hefur í veðri síðustu 5 milljón árin

Ekki er fyrirsögnin hér að ofan beinlínis nýjar fréttir. Þetta hefur verið þekkt mjög lengi. Hins vegar gengur betur og betur að magnsetja þessa kólnun og smáatriði sem voru óþekkt til skamms tíma hafa nú litið dagsins ljós. Það er að sjálfsögðu ekki hægt að gera grein fyrir því öllu í örstuttum bloggpistli - ekki einu sinni í þúsund pistlum. En ég held vonandi áfram að slefa mig í gegn um veðurfarssöguna á þessum vettvangi. Í dag er það einungis ein mynd - eða öllu heldur óskýr mynd.

samsætuvik-zachos-7-milljon

Hún er með vilja teiknuð óskýr vegna þess að hér er aðeins fjallað um tvö atriði myndarinnar. Fyrst þarf þó að nefna tilurð gagnanna sem notuð eru við gerð hennar og eitthvað þarf að skýra ása ritsins. Gögnin sýna niðurstöður mælinga á samsætum súrefnis í fjölmörgum sjávarkjörnum sem sóttir hafa verið í heimshöfin frá því á sjöunda áratugnum. Gríðarlegt verk var að taka gögnin saman og samræma. Ótrúlegt verk er einnig að baki aldursgreininganna. Samantektargreinin birtist í tímaritinu Science (sjá tilvísun í lok pistilsins - Zachos, 2001).

Á lárétta ásnum má sjá aldur setsins í milljónum ára aftur í tímann. Nútíminn er lengst til hægri á myndinni en elstu gögnin eru um 7 milljón ára. Lóðrétti ásinn sýnir svokallað samsætuhlutfallavik í seti á þessu tímabili. Takið eftir því að kvarðinn er öfugur, hæstu tölurnar eru neðst, en þær lægstu efst. Þetta er haft svona vegna þess að þegar samsætuhlutfallavikið er lágt er talið að hlýtt hafi verið í veðri, en sé það hátt hafi veðurfar verið kalt. Við erum vön því að hlýtt sé upp á myndum - bregðum ekki út frá því hér.

Skýringar á því hvernig þessu víkur við má lesa í meðfylgjandi pdf-skjali (sjá hér neðst) sem er vonandi að áhugasamir blogglesendur geti opnað. Í skjalinu er samantekt mín um samsætumælingar. Þar má örugglega finna bæði mikla ónákvæmni og villur, en ég vona að villurnar séu ekki mjög´misvísandi. Bent er á frekari og áreiðanlegri heimildir.

En þetta tvennt sem ég ætla að minnast á varðandi myndina er þetta: (i) Veður hefur kólnað síðustu 7 milljón árin. (ii) Breytileiki hefur aukist marktækt. Menn eru reyndar vissir um að breytileikinn hafi aukist. Hann hefur verið sérlega mikill síðustu 500 til 600 þúsund árin, enda hafa þá skipst á stórkostleg jökulskeið og dægileg hlýskeið eins og það sem við nú upplifum. Talsvert vantar þó upp á að hlýskeiðin (efstu punktarnir í dreifinni) sýni jafnháan hita og var fyrir 3 til 4 milljónum ára.

Rauðu sporöskjurnar á myndinni eiga að sýna breikkandi dreif. Nú eru mörk kvartertímans sett þar sem línan er á myndinni - ísöld hefst. Greinilegt er þó að útfrá myndinni er ekkert sjálfgefið að þau séu sett einmitt þarna. En smáatriði sem ekki eru sýnd hér (verða það e.t.v. síðar) rökstyðja línudráttinn.

Nú er ekki ólíklegt að eitthvað af auknum breytileika veðurfars skýrist af betri upplausn nýrri gagna en þeirra eldri.

Greinin:

Zachos, J., M. Pagani, L. Sloan, E. Thomas, and K. Billups.  2001. Trends, Rhythms, and Aberrations in Global Climate 65 Ma to Present. Science,  Vol. 292, No. 5517, pp. 686-693.
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Förulægð (gömul teikning)

Hér má sjá mynd sem fengin er úr frægri grein eftir veðurfræðingana Jakob Bjerknes og H. Solberg. Greinin birtist 1922 og er sú fyrsta þar sem fjallað er um svokallaða meginskilakenningu (Polar Front Theory) þeirra félaga. Bjerknes hafði skrifað grein í sama rit nokkrum árum áður þar sem hann fjallaði um lægðamyndun. Hér stökkva fram fullsköpuð hugtökin hita-, kulda- og samskil og gerð er grein fyrir hlut þeirra í þróun lægða- og lægðakerfa.

 

bjerknes_solberg_gp_1926-fig-1

Bognu örvarnar sýna loftstreymi í kringum lægðarmiðju. Strikalínuörin sýnir hreyfistefnuna. Skyggðu svæðin eru úrkomubelti skilanna og hlýr geiri er merktur milli hita- og kuldaskilanna. Efst á myndinni er þverskurður sem sýnir lóðrétta dreifingu lofts og skýja norðan lægðarinnar, en neðst er ámóta snið í gegnum hlýja geirann. Þar má sjá hita- og kuldaskilin og skýjategundir þeim tilheyrandi.

Þessi mynd hefur staðið lítið breytt síðan í flestum byrjendakennslubókum. Þótt miklar og skynsamlegar aflfræðipælingar væru á bakvið hugmyndina varð mesta gagnið af henni annars eðlis. Hún varð grundvöllur að miklu betri og samræmdari greiningu veðurupplýsinga heldur en áður þekktist. Reyndar má halda því fram að veðurskeytalyklum hafi verið breytt til þess að sem mest fengist af upplýsingum sem nýttust við þessa ákveðnu tegund greiningar.

Greiningaraðferðin stendur enn fyrir sínu, en reglur hennar eru lítt nýttar nú á dögum og oftast klæmst með það litla sem notað er. Tæki þau sem veðurfræðingar hafa nú yfir að ráða eru miklu betri en möguleiki var á að nota 1922 og þessar gömlu greiningaraðferðir teljast nú tímaeyðsla - nema sem skemmtilegur og trúlega þroskandi leikur.

Greinin:

Bjerknes, J. og H. Solberg (1922): Life Cycle of Cyclones and the Polar Front Theoryof Atmospheric Circulation. Geofysiske publikasjoner, vol 3, (1926) s.3-18.


Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg020125a
  • w-blogg020125a
  • w-blogg010125i
  • w-blogg010125
  • w-blogg271224a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.1.): 61
  • Sl. sólarhring: 1076
  • Sl. viku: 2732
  • Frá upphafi: 2426589

Annað

  • Innlit í dag: 58
  • Innlit sl. viku: 2435
  • Gestir í dag: 57
  • IP-tölur í dag: 57

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband