Eldgos og veðurfar - stutt yfirlit

Eldgos geta haft mikil áhrif á veðurfar til skemmri tíma, en til þess að svo megi verða þurfa þau að vera mjög stór eða „vel“ staðsett og helst hvoru tveggja. Langflest stór gos eru eru sprengigos. Þau dreifa miklu magni tiltölulega grófra gosefna í veðrahvolfið en gosefnin falla tiltölulega fljótt út og því er það lítið magn sem nær að breiðast yfir stórt svæði. Næst gosstað geta skammtímaáhrif á dægursveiflu hita og jafnvel úrkomu verið veruleg.

Mest áhrif hafa fín gosefni sem berast upp í heiðhvolfið. Þessi fínu gosefni eru smágert ryk, en einnig brennisteinssambönd margs konar. Sé gosið í hitabeltinu berast gosefnin um alla jörð á fáeinum mánuðum. Heiðhvolfið er ofan við veðrahvörfin sem eru hér á landi venjulega í 9 til 10 km hæð (stundum neðar - stundum ofar). Í hitabeltinu eru veðrahvörfin í 14 til 18 km hæð.

Eldgosið sem varð í Pinatubofjalli á Filippseyjum í júní 1991 var sennilega það stærsta á 20. öld. Mjög vel var fylgst með gosinu og afleiðingum þess. Öskuskýið sást vel hér á landi haustið eftir og blámi himinsins varð hvítgrár á annað ár. Sérkennilegur hringur (baugur Bishop - „biskupsbaugur“) sást um sólu. Heiðhvolfið var vel á annað ár að jafna sig og lítilsháttar kólnun varð í veðrahvolfinu.

Skaftáreldagosið 1783-84 var allt annars eðlis, sprengi- og gjóskuvirkni var lítil (miðað við stærð gossins) en framleiðsla brennisteinssambanda því meiri. Áhrif Skaftáreldagossins var því líkara því sem um stórfellda iðnaðarmengun væri að ræða, en slík mengun virðist lækka hita þar sem hennar gætir. Málið getur þó verið flóknara. Bestu lýsinguna á þessum þætti Skaftáreldagossins og afleiðingum þess um heiminn má lesa í grein eftir Þorvald Þórðarsson og Stephen Self, tilvitnun er hér að neðan.

Veðrahvolfsmengun getur haft áhrif á meginhringrás lofthjúpsins en þau eru flókin, t.d. bundin upprunabreiddarstigi mengunarinnar. Því þarf af herma hvert gostilvik fyrir sig í lofthjúpslíkani ef finna á óbein áhrif þess.

Allar eldfjallaafurðir sem berast í lofthjúpinn hafa einhver áhrif á geislunarbúskap hans. Það er af tvennum meginástæðum, annars vegar hækkar endurskinshlutfall lofthjúpsins í heild en hins vegar tekur heiðhvolfið til sín meiri geislunarorku heldur en venjulega. Þetta samanlagt veldur því að heiðhvolfið hitnar en veðrahvolfið kólnar.

Sé eldgosið í hitabeltinu hitnar heiðhvolfið þar meira en yfir heimskautasvæðunum. Þetta hefur þær lúmsku afleiðingar að vestanvindabeltin styrkjast. Þar með berst meira af hlýju lofti frá höfunum inn yfir meginlönd. Fyrsti vetur eftir stórt eldgos í hitabeltinu hefur því tilhneigingu til að vera hlýrri þar sem aukinna hafvinda gætir.

Sú skoðun er útbreidd og studd af geislunarlíkönum að tímabil tíðra stóreldgosa séu kaldari en skeið þegar eldvirkni er lítil. Yfirgripsmesta vísindagreinin um áhrif stórra eldgosa á veðurfar og mér er kunnugt um er eftir Alan Robock og er tilvitnun hér að neðan. Því miður er hvorug greinanna sem hér er vitnað í aðgengileg um landsaðgang (nema ágripið) þar sem þær eru úr safni ameríska jarðeðlisfræðisambandsins (AGU). Hægt er þó að gúggla þessa höfunda og greinarnar og má þá átta sig á flestu sem þar stendur.

Þessi pistill er uppkast að ívið ítarlegra svari við spurningu sem til mín var beint frá vísindavef H.Í. (Hvenær sem ég nú lýk við það).

Greinar:

Robock, A. (2000) Volcanic eruptions and climate REVIEWS OF GEOPHYSICS 38 2 s. 191-219

 

 

Thordarson, T, Self S. (2003) Atmospheric and environmental effects of the 1783-1784 Laki eruption: A review and reassessment JOURNAL OF GEOPHYSICAL RESEARCH-ATMOSPHERESIssue: D1Article Number: 4011   Published: JAN 8 2003

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Sæll Trausti

Ætli þetta sé greinin eftir Alan Robock sem er hér á vef Rutgers háskóla?

climate.envsci.rutgers.edu/pdf/ROG2000.pdf

Ágúst H Bjarnason, 15.10.2010 kl. 15:11

2 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Ágúst H Bjarnason, 15.10.2010 kl. 15:13

3 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Mér tókst eitthvað illa að gera krækjuna virka .

Reyni einu sinni enn. Annars verður að afrita hana í vefskoðarann:

climate.envsci.rutgers.edu/pdf/ROG2000.pdf

Ágúst H Bjarnason, 15.10.2010 kl. 15:15

4 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Sigurður Þór Guðjónsson, 15.10.2010 kl. 17:45

5 Smámynd: Trausti Jónsson

Já, Ágúst þetta er greinin. Ég las hana mjög fljótlega eftir að hún kom út og var þá ekki ánægður með hana, en hún batnaði síðan af einhverjum ástæðum. Það er nefnilega farið í gegnum fjölmörg atriði - sem maður auðvitað man ekki - en gott er að geta flett þeim upp í fljótheitum sé þörf á. Síðan hafa skýringarmyndirnar (merktar plate1 og plate 9) reynst mér vel. Á web of science (sjá hvar.is) má t.d. sjá (minnir mig) að á fjórða hundrað greinar hafi síðan vitnað í þessa og vísanir í þær allar eru fáanlegar á þeim stað. Greinin er því orðin að einskonar vegvísi um slóðir eldgosaveðurfarsfræðanna. Robock skrifaði seinna eitthvað skott í sama tímarit (RG) 2007 - en ég hef ekki athugað hvort hann er þar að bæta úr einhverju eða hvað. Ég rekst á það síðar.

Trausti Jónsson, 16.10.2010 kl. 00:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

 • w-blogg250524b
 • w-blogg250524a
 • Slide10
 • Slide9
 • Slide11

Heimsóknir

Flettingar

 • Í dag (27.5.): 5
 • Sl. sólarhring: 301
 • Sl. viku: 1845
 • Frá upphafi: 2357238

Annað

 • Innlit í dag: 5
 • Innlit sl. viku: 1724
 • Gestir í dag: 5
 • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband