Um Austurgrænlandsísinn (3. lestur um hafís)

Hafís sem kemur til Íslands er hluti af mikilli ísbreiðu sem oftast þekur svæðið austur af Grænlandi norðanverðu. Þessi ísbreiða er ólík öðrum ís á jaðri heimskautasvæðanna vegna þess að hluti hennar er myndaður í Norður-Íshafinu sjálfu, þ.e. hafinu kringum norðurskautið. Megnið af öðrum jaðarsvæðaís er myndaður á jaðarsvæðinu sjálfu.

Þannig er með ísinn í Barentshafi. Hann myndast á svæðinu milli Svalbarða og Novaya Zemlia. Á leið ferðalanga til Svalbarða frá Noregi er hann kallaður austurís. Við köllum hann frekar Svalbarðaís. Í meðalári (sem maður veit varla hvað er núorðið), belgist hann upp í um milljón ferkílómetra síðla vetrar en hverfur að 8/10 hlutum á sumrin. Síðustu ár hefur hámarksútbreiðslan varla náð 800 til 900 þúsund ferkílómetrum og síðustu nokkur sumur hefur hann nærri því allur bráðnað.

Svalbarðaísinn gengur venjulega ekki mikið vestar en að suðurodda Svalbarða, en nær oft suður að Bjarnarey. Í stöku árum gengur Svalbarðaísinn vestur fyrir en oftast er þar íslaust. Í allra mestu ísárum getur Svalbarðaísinn tengst Austurgrænlandsísnum og lokar þá siglingaleið til Svalbarða. Vesturströnd Novaya Zemlia getur verið íslaus í hlýjustu árum. Þó ísinn í Barentshafi loki aldrei siglingaleiðum við strendur Norður-Noregs rekur þar stundum einn og einn jaka á fjörur. Það gerðist t.d. síðvetrar 1929, hlýindaveturinn mikla hér á landi, en þá ríktu stöðugar norðanáttir á Finnmörk. Einnig hefur komið fyrir að borgarís (sennilega frá heimskautaeyjunum) hafi komist inn í strandstrauminn við Noreg og borist þannig langt suður með landinu.

En lítum nú betur á Austurgrænlandsísinn. Síðla vetrar og á vorin liggur hann með allri austurströnd Grænlands allt suður að Hvarfi. Vor og sumar fer hann oftast vestur fyrir Hvarf og nokkuð norður með Vestur-Grænlandi og teppir siglingar til Eystribyggðar. Norðar, í námunda við Nuuk er oftast hafíslaust, en nokkuð um borgarís og lagnaðarís af fjörðunum. Norður við Diskóflóa er komið í annað jaðaríssvæði, Baffinsísinn.

a-graenlandsisinn_export

Kortið sýnir útbreiðslu Austurgrænlandsíssins síðla vetrar. Langt er síðan ísinn hefur verið jafnmikill og hér er sýnt. Kortagrunnurinn góði er eftir Þórð Arason, en krotið eftir mig. Við fréttum síðar af vestur-, norður- og austurís sem minnst er á á kortinu. Austurgrænlandsstraumurinn er sýndur sem breið, blá ör, en minni bláa örin sýnir Austuríslandsstrauminn (engin nákvæmni er í þessu).

Fyrir norðan og norðaustan Jan Mayen er hringstraumur í hafinu, andsólarsinnis. Hann dregur ís út úr meginsísstraumnum til austurs og síðan til norðurs, en myndar jafnframt autt svæði norðan og vestan ísstraumsins sunnan og austan við. Þessi mikli ístangi nefnist Oddinn. Við hann stunduðu norðmenn miklar selveiðar. Í mjög miklum ísárum geta norðausturendi hans og suðvestasti hluti Svalbarðaíssins náð saman. Það mun hafa gerst nokkrum sinnum á 19. öld. Því er haldið fram að talsvert af Svalbarðaís hafi komist inn í Austurgrænlandsísinn vorið 1917 og rekið suður á bóginn í austurjaðri hans (Koch, 1945). Kannski var frostaveturinn mikli 1918 þá í undirbúningi? Ekki er vitað til þess að þetta hafi gerst síðan.

Hingað til hefur megnið af ísnum við Austur-Grænland verið fjölær ís sem borist hefur úr Norður-Íshafi. Þar mátti greina bæði norðurpólsís sem myndaður er í íshafinu miðju og Síberíuís sem myndaður er á landgrunni Síberíu og þar nærri. Undanfarin ár hefur Síberíuísinn bráðnað nær alveg á sumrin og fjölær Síberíuís mun varla verða hluti Austurgrænlandsíssins fyrr en að liðnum nokkrum árum.

Sá ís sem kom að ströndum Íslands á árum áður var oftar Síberíuís en pólís. Sagt er að menn á Norðurlandi hafi þekkt þessar tvær ístegundir að, auk þeirrar þriðju sem er sá ís sem myndast hefur á þessum slóðum sama vetur og hann rekur til Íslands. Meira um það síðar.

Bók Lauge Koch:

Koch, L. 1945. The East Greenland Ice. Meddelelser om Grønland 130(3). Kommisionen for Videnskabelige Undersøgelser i Grønland. Copenhagen, 373 s.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

 • w-blogg230424
 • Slide10
 • Slide8
 • Slide6
 • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

 • Í dag (24.4.): 264
 • Sl. sólarhring: 416
 • Sl. viku: 1580
 • Frá upphafi: 2350049

Annað

 • Innlit í dag: 235
 • Innlit sl. viku: 1438
 • Gestir í dag: 232
 • IP-tölur í dag: 224

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband