Færsluflokkur: Vísindi og fræði
16.9.2021 | 10:57
Hálfur september
Fyrri hluti september hefur verið hlýr á landinu. Meðalhiti í Reykjavík er +10,7 stig, +1,4 stigum ofan meðallags 1991-2020 og +1,5 stigum ofan meðallags sömu daga síðustu tíu árin. Hitinn raðast í 5. hlýjasta sæti (af 21) á öldinni. Hlýjast var 2010, meðalhiti þá 12,2 stig, en kaldastir voru dagarnir 15 árið 2012, meðalhiti 7,7 stig. Á langa listanum er hitinn nú í 13.hlýjasta sæti (af 145). Kaldast var þessa sömu daga 1992, meðalhiti +5,6 stig.
Á Akureyri er meðalhiti nú +11,6 stig, +2,5 stigum ofan meðallags 1991-2020 og +2,7 yfir meðallagi síðustu tíu ára. Þrjátíu daga meðalhitinn á Akureyri er enn yfir 13 stigum (13,3 stig).
Að tiltölu hefur verið hlýjast um landið norðan- og norðaustanvert, þar raðast hitinn í 4.hlýjasta sæti á öldinni, en kaldast að tiltölu hefur verið á Suðausturlandi þar sem hiti raðast í 7.hlýjasta sæti.
Á einstökum veðurstöðvum hefur verið hlýjast að tiltölu á Gjögurflugvelli þar sem hiti er nú +3,7 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Kaldast að tiltölu hefur verið á Höfn í Hornafirði, hiti þar +0,6 stig ofan meðallags.
Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 52,6 mm, fjórðung umfram meðallags. Á Akureyri hefur úrkoman mælst 21,1 mm og er það um 80 prósent meðalúrkomu.
Sólskinsstundir hafa verið fáar í Reykjavík, aðeins 24,4, það er 40 stundum færri en að meðaltali 1991-2020. Aðeins er vitað um 6 tilvik með færri sólskinsstundum í Reykjavík síðustu 100 árin rúm. Síðast 2009. Fæstar voru sólskinsstundirnar í fyrri hluta september árið 1943, aðeins 4,1, en flestar 2011, 119,8.
11.9.2021 | 12:01
Fyrstu tíu dagar septembermánaðar
Fyrstu tíu dagar september hafa verið hlýir, en þó hefur aðeins slegið á vikin miðað við ágúst. Meðalhiti í Reykjavík er 11,1 stig, +1,4 stigum ofan við meðaltal 1991-2020 og +1,6 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Hitinn í Reykjavík er sá þriðjihæsti á öldinni (af 21). Hlýjastir voru sömu dagar 2010, meðalhiti þá 13,8 stig, en kaldastir voru þeir 2012, meðalhiti 8,1 stig. Á langa listanum er hitinn nú í 10.hlýjasta sæti (af 145). Kaldastir voru sömu dagar árið 1977, meðalhiti þá 5,7 stig.
Á Akureyri er meðalhitinn fyrstu tíu daga mánaðarins 12,6 stig og er það +2,9 stigum ofan meðallags 1991-2020, en +3,0 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Meðalhiti síðustu 30 daga á Akureyri er 13,8 stig.
Hitinn á spásvæðunum er í 3. til 6.hlýjasta sæti á öldinni. Hann er í því þriðjahlýjasta um landið suðvestan og vestanvert (á Suðurlandi, við Faxaflóa, Breiðafjörð og á Vestfjörðum), í því fjórðahlýjasta á Ströndum og Norðurlandi vestra, Norðausturlandi, Austurlandi að Glettingi og á Miðhálendinu, en í 6.hlýjasta sæti á Austfjörðum og Suðausturlandi.
Að tilölu hefur verið hlýjast á Gjögurflugvelli, +4,0 stig ofan meðallags síðustu tíu ára, en kaldast á Höfn í Hornafirði þar sem hiti hefur verið +0,3 stigum ofan meðallags sama tímabils.
Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 21,0 mm og er það um 75 prósent meðalúrkomu. Úrkoman á Akureyri hefur mælst 8,1 mm sem er tæpur helmingur meðalúrkomu.
Sólskinsstundir í Reykjavík eru óvenjufáar, hafa aðeins mælst 12,1 og er það um 28 stundum minna en að meðallagi. Þær hafa aðeins þrisvar sinnum verið færri sömu daga síðan mælingar hófust (1911, 1993 og 1943). Síðastnefnda árið voru sólskinsstundir aðeins 1,8 fyrstu 10 daga septembermánaðar.
9.9.2021 | 20:00
Hlýskeiðametingur
Hér á hungurdiskum höfum við stundum leikið okkur með samanburð núverandi hlýskeiðs og þess næsta á undan. Við vitum raunar ekki upp á ár hvenær þau byrjuðu. Hér veljum við árin 1927 og 2001 - og höldum áfram jafnlengi - rúm 20 ár, fram í ágústlok nú og árið 1947. Það er meðalhiti í byggðum landsins sem borinn er saman.
Búnar eru til 12-mánaðakeðjur hitans. Hver punktur á línuritinu sýnir hita undangenginna 12 mánaða. Hitasveiflur á tímabilunum báðum sjást mætavel. Engin leitni er í hitanum þau 21 ár sem valin voru - hvorki þá né nú. Svo vill til að bæði tímabilin byrja um það bil í sama hita (það var auðvitað val ritstjóra hungurdiska) - og enda líka í nærri því sömu tölu - sem er aftur á móti tilviljun.
Meðalhiti núverandi hlýskeiðs (eins og hér var valið) er 0,4 stigum hærra heldur en meðalhiti þess fyrra. Hæsti 12-mánaða meðalhitinn er líka nærri 0,4 stigum hærri heldur en hæst varð á fyrra skeiðinu. Aftur á móti munar um 0,7 stigum á lægstu 12-mánaðagildum skeiðanna tveggja - fyrra skeið dvaldi alllöngum stundum neðan við 3,5 stig - sem ekki hefur enn gerst á þessari öld.
Almennt má segja að hiti hafi verið öllu jafnari á núverandi hlýskeiði heldur en því fyrra - sérstaklega var hann það á tímabilinu 2005 til 2013. Sérstakir hitatoppar eru þrír á núverandi hlýskeiði - en voru fimm á því fyrra. Á núverandi hlýskeiði er varla hægt að tala um kuldaköst - nema e.t.v. árið 2015, en á fyrra skeiðinu eru fjögur meiri heldur en það, en ekkert þeirra er þó neitt á við það sem verst gerðist fyrir - og eftir.
Við vitum hvað gerðist eftir 1947 - sumur og vor kólnuðu næstu ár, en vetrar- og hausthiti hélst (með örfáum undantekningum) hár allt fram undir miðjan sjöunda áratuginn - um 1965. Þá kólnaði líka haust og vetur. Varla er þó hægt að nefna nákvæmlega hvenær þessi stóru umskipti urðu - hvorki þau fyrr- eða síðarnefndu.
Nú vitum við hins vegar ekkert hvað gerist í framtíðinni. Víst er að engin sérstök regla gildir um það. Flestir veðja þó á hlýnun - í takt við hina miklu hlýnun sem virðist í sjónmáli á heimsvísu. Hvort hún yrði meiri eða minni hér á landi vitum við ekki - við getum þó giskað á að einhver stökk fram og til baka séu líkleg - einstök svæði eru ekki sífellt í takti við heiminn. Við getum minnt á að hlýskeiðið fyrra náði ekki yfir allan heiminn - og sömuleiðis fór að hlýna á heimsvísu (fyrir um 40 árum) meðan veruleg hlýnun lét bíða eftir sér hér á landi í um það bil 20 ár. - Sama var á Grænlandi - þar sem fyrstu hlýju árin á heimsvísu voru óvenjuköld.
7.9.2021 | 16:57
Meira af hlýindum á Akureyri
3.9.2021 | 13:21
Enn af ágúst
Eins og fram hefur komið á þessum vettvangi og víðar var veðurfar í ágúst mjög afbrigðilegt hér á landi. Sérstaklega hlýtt var um allt norðanvert landið.
Myndin sýnir meðalhæð 500 hPa-flatarins (heildregnar línur), meðalþykkt (daufar strikalínur og þykktarvik - litir - eftir greiningu evrópureiknimiðstöðvarinnar. Gríðarlegt jákvætt þykktarvik er við Ísland. Evrópureiknimiðstöðin segir að meðalþykkt yfir landinu hafi verið 5390 metrar - um 90 metrum meiri en að meðaltali í ágúst. Það þýðir að hiti í neðri hluta veðrahvolfs hefur verið um +4,5 stigum yfir meðallagi, sem er reyndar svipað og hitavikið á háfjöllum á Norður- og Austurlandi, t.d. Vaðlaheiði og Gagnheiði. Þetta er meiri þykkt en vitað er um í nokkrum öðrum mánuði. Næstu tölur eru 5523 metrar í júlí 1984 og 5822 í ágúst 2006.
Hæðarvik voru einnig óvenjuleg. Meðalhæð 500 hPa-flatarins í greiningu evrópureiknimiðstöðvarinnar var 5648 metrar. Endurgreiningum ber ekki alveg saman um hvort þetta er hæsta tala sem við þekkjum - eða ekki. Sú ameríska heldur fram júlí 1968 sem hæðarmeti, en evrópureiknimiðstöðin er með lítillega lægri tölu. Ágúst 1960 er ekki mjög langt undan sem og júlí 1967. Mánaðarhæð 500 hPa-flatarins nú er sú sama yfir Keflavík og var í júlí 1968. Ætli við verðum ekki að telja þennan hæðarmun ómarktækan - en þykktarvikið er marktækt met.
Þess má svo geta að frostlaust var á öllum veðurstöðvum í ágúst (og reyndar í júlí líka). Það hefur ekki gerst síðan sumarið 1950 - og líka 1947. Bæði þau sumur var frostlaust í þessum tveimur mánuðum. Hafa verður í huga að veðurstöðvar voru mun færri en nú og kann að hafa áhrif. Veðurlag sumarsins 1947 var ekki mjög óskylt því sem var nú, en sumarið 1950 var hins vegar gjörólíkt.
Við þökkum Bolla P. að vanda fyrir kortagerð.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 19:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.9.2021 | 19:45
Sumareinkunn 2021
Ritstjóri hungurdiska hefur nú reiknað einkunn sumarsins 2021 í Reykjavík og á Akureyri. Aðferðin hefur verið skýrð áður (og er auðvitað umdeilanleg). Sumarið nær hér til mánaðanna júní til ágúst - aðferðin gæti gengið fyrir maí líka en varla september. Hæsta mögulega einkunn í þessu kerfi er talan 48 - ekkert sumar hefur náð slíkum hæðum - hvorki í Reykjavík né á Akureyri. Lægsta talan er núll, sumarið 1983 komst nærri henni - einkunn þess sumars var einn. Rétt er að taka fram að einkunnin er háð hverjum stað - hún gefur engan tölulegan samanburð milli stöðva (sem sumardagatalningin sem hér var fjallað um fyrir nokkrum dögum gerir frekar).
Sumareinkunn Reykjavíkur 2021 er 22. Það má heita í meðallagi síðustu 99 sumra (meðaltalið er 23), en 4 stigum undir meðallagi aldarinnar til þessa. Súlurnar á myndinni sýna einkunn hvers árs. Tvö sumur síðustu 10 ára voru áberandi lakari en nú, það var 2013 og 2018, staðan 2014 og í fyrra (2020) var ómarktækt lægri en nú. Júlí gaf flest stig (10 af 16 mögulegum), ágúststigin voru 8, en ekki nema 4 í júní. Mjög hlýtt var í ágúst og lengst af sumarsins var fremur þurrt - þessi atriði gáfu af sér stig. Sumarið gaf hins vegar aðeins eitt sólskinsstig (af 12 mögulegum).
Það vekur alltaf athygli á sumareinkunnarmyndinni í Reykjavík hversu tímabilaskipting er mikil. Tíuárameðaltal fór lægst niður í 15 stig á árunum 1975 til 1984, en hæst í 32 stig, á árunum 2003 til 2012 - árin 2009 til 2012 skera sig sérstaklega úr fyrir gæði. Eins og áður sagði er meðaltal síðustu tíu ára 26 stig, alveg á pari við bestu tíu ára skeið í kringum 1930 og á sjötta áratugnum. - Hvað síðan verður næstu árin vitum við auðvitað ekki, en 2015, 2016, 2017 og 2019 voru öll í flokki öndvegissumra í Reykjavík.
Ritstjórinn reiknar einnig einkunn á kvarðanum 1 til 10, sumarið nú fær 6,0 í einkunn á þeim kvarða - það er ekki falleinkunn. Hæsta einkunn fær sumarið 2009, 9,31, en lægst er sumarið 1983 (auðvitað) með 0,9 í einkunn.
Þess má geta að maí fékk 10 (af 16 mögulegum) í einkunn í Reykjavík.
Sumarið var afburðagott fyrir norðan - náði 43 stigum og hefur aldrei náð jafnhátt. Júlí og Ágúst fengu fullt hús stiga (16 hvor mánuður), en júní 11. Það hefur ekki gerst áður að tveir mánuðir sama sumars hafi náð fullu húsi.
Heildaútlit línurits fyrir Akureyri er nokkuð annað en fyrir Reykjavík. Lægsta tíu ára meðaltalið er þannig 19 (1966 til 1975) og það hæsta 29 (2000 til 2009) - munar 10 stigum, en 17 í Reykjavík. Ritstjóri hungurdiska túlkar það svo að meiri þráviðri séu syðra heldur en nyrðra - mánuðirnir sjálfstæðari á Akureyri heldur en í Reykjavík. Þannig eru það 6 sumur í Reykjavík sem ekki ná 10 stigum, en aðeins 1 á Akureyri (1985). Ellefu sumur ná 35 stigum eða meira í Reykjavík - en ekki nema sex á Akureyri. Þetta bendir til þess að mánuðir í Reykjavík vinni fremur sem heild heldur en fyrir norðan. Ekki er þó á þessari hegðan byggjandi við langtímaveðurspár.
Það er nákvæmlega ekkert samband á milli sumareinkunnar nyrðra og syðra. Þó eru fleiri sumur góð á báðum stöðum (samtímis) heldur en vond á báðum. Frábærlega góð á báðum stöðum voru 1931, 1939, 1957, 2004, 2007, 2008 og 2012, en 1959, 1969 og 1992 voru slök á báðum stöðum - 1983 var ekki sérlega gott á Akureyri heldur - á mörkum hins laka.
Ritstjóri hungurdiska hefur gert tilraunir með aðrar reikniaðferðir. Efnislega verður útkoman nánast sú sama - innbyrðis röð sumra breytist þó auðvitað lítillega. Til dæmis má reyna að bæta vindhraða við. Gallinn er hins vegar sá að vindmæliröð Reykjavíkur er mjög ósamfelld. Mjög mikil breyting varð við mæliskipti í maí árið 2000. En hægt er að nota mælingar síðan þá og gera samanburð á þeim 20 sumrum sem liðin eru síðan.
Munum að lokum að þetta er bara ábyrgðarlaus leikur - ekki má nota þessar niðurstöður í neinni alvöru.
1.9.2021 | 17:09
Sérlega hlýr ágústmánuður
Nýliðinn ágústmánuður var (rétt eins og júlí) sérlega hlýr á landinu. Methlýindi voru um allt norðanvert landið, hafa aldrei verið meiri í ágúst á fjölmörgum veðurstöðvum og á nokkrum stöðvum var mánuðurinn hlýrri en nokkur annar mánuður hefur verið til þessa, t.d. bæði í Stykkishólmi og í Grímsey, en athuganir hafa verið gerðar á þeim stöðum frá því á 19.öld. Þetta er líka hlýjasti mánuður sem við vitum um á Hveravöllum. Í Reykjavík er þetta næsthlýjasti ágústmánuður allra tíma - lítillega hlýrra var 2003. Á Teigarhorni var hann næsthlýjastur, ásamt ágúst 1947, lítillega hlýrra var þar í ágúst 2003 rétt eins og í Reykjavík. Heldur svalara að tiltölu var syðst á landinu. Á Stórhöfða í Vestmannaeyjum var hitinn í 6.hlýjasta sæti ágústmánaðar. Við bíðum endanlegrar staðfestingar á tölum í yfirliti Veðurstofunnar sem ætti að vera tilbúið á morgun (fimmtudag) eða á föstudag.
Taflan sýnir eins konar uppgjör fyrir einstök spásvæði. Víðast hvar er mánuðurinn sá hlýjasti á öldinni. Það er aðeins á Suðausturlandi, Suðurlandi og við Faxaflóa þar sem hitinn er ekki í fyrsta sætinu.
Meðalhiti í byggðum landsins í heild reiknast 12,2 stig. Það jafnar fyrra met, úr ágúst 2003 og meira en hæst hefur orðið í öllum öðrum mánuðum ársins.
Ágústmeðalhámarkshiti veðurstöðvar varð nú hærri en áður, 19,0 stig, það var í Ásbyrgi. Hæsta eldri tala sem við hiklaust viðurkennum er 18,4 stig (Staðarhóll í ágúst 2004). Lágmarksmeðalhitamet var slegið - ekki aðeins fyrir ágúst heldur fyrir alla mánuði. Hann mældist nú hærri en nokkru sinni. Það gerðist á Bíldudal, 11,6 stig. Eldri met (fyrir hvaða mánuð sem er) er 11,0 stig (Garðar í Staðarsveit, júlí 1991, Surtsey, júlí 2012 og Arnarstapi á Snæfellsnesi, júlí 1943 (vafasamt)). Hæsti meðallágmarkshiti í ágúst til þessa var 10,9 stig, í Vestmannaeyjakaupstað 2003.
Það er líka óvenjulegt að hiti komst upp fyrir 20 stig 20 daga í mánuðinum. Er það með mesta móti, mest er vitað um 23 slíka daga í einum mánuði (ágúst 2003) síðustu 70 árin rúm.
Uppgjör Veðurstofunnar með endanlegum hita-, úrkomu- og sólskinsstundatölum mun eins og áður sagði væntanlega birtast fljótlega. Úrkoma var lítil víða norðaustan- og austanlands, sumstaðar minni en í ágúst í fáeina áratugi. Úrkoma var einnig neðan meðallags víða á Suður- og Vesturlandi, en á því voru samt nokkrar undantekningar, sérstaklega á utanverðu Snæfellsnesi og á stöku stað austanfjalls.
Suðvestanlands var sólarlítið, sólskinsstundir hafa ekki verið jafnfáar í Reykjavík í ágúst síðan árið 1995, en mjög sólríkt inn til landsins norðaustanlands. Mögulegt er að sólskinsstundamet ágústmánaðar verði slegið á Akureyri - eða alla vega nærri því - við Mývatn mældust sólskinsstundir nú ámóta margar og í ágúst 2004. Endanlegar tölur ættu að liggja fyrir næstu daga.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 17:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.8.2021 | 21:48
Sumardagafjöldi 2021
Ritstjóri hungurdiska skilgreinir sumardaga og telur þá. Lesa má um skilgreininguna í eldri pistlum. Í Reykjavík hafa langflestir sumardagar ársins skilað sér í lok ágúst - meðaltalið er aðeins tveir til þrír dagar í september (hafa þó orðið ellefu þegar mest var).
Í ár eru sumardagar í Reykjavík til þessa orðnir 24 (4 fleiri heldur en langtímameðaltal 70 ára segir), en 9 dögum færri en að meðallagi á þessari öld. Þrjú sumur á öldinni hafa skilað færri sumardögum heldur en þetta, 2001, 2013, 2018 og 2020. Komi sumardagar í september fer fjöldinn nú einnig yfir 2005 og jafnvel 2015 líka. Langflestir urðu sumardagarnir í Reykjavík 2010, 2011 og 2012. Þó sumardagar ársins í ár (hingað til) séu fáir miðað við það sem algengast hefur verið að undanförnu (2019 voru þeir t.d. 43) eru þeir samt fleiri en var nokkru sinni öll árin frá 1961 til og með 1986. Kannski megum við því vel við una, þó rúma viku vanti upp á þann fjölda sem við höfum vanist á þessari öld. Í Reykjavík voru aðeins tveir sumardagar í júní, 10 í júlí og 12 í ágúst.
Á Akureyri eru sumardagarnir nú orðnir 70 - 22 fleiri en meðaltal þessarar aldar - og hafa aldrei verið fleiri þann tíma sem talningin nær yfir. Að auki bætast að jafnaði um fjórir í september (en þar er auðvitað ekki á vísan að róa). Aldeilis einstakt sumar á Akureyri. Þar voru 5 sumardagar í maí, 12 í júní, 23 í júlí og 30 í ágúst (allir dagar mánaðarins nema einn).
Eftir nokkra daga lítum við svo á sumareinkunn hungurdiska (enn er beðið eftir lokatölum ágústmánaðar). Talsvert samhengi er á milli mælitalnanna tveggja þannig að líklegt er að einkunnin í Reykjavík verði lægri en hún hefur oftast verið á öldinni - en við sjáum til.
31.8.2021 | 14:27
Atlaga að loftþrýstimeti ágústmánaðar
Þegar þetta er skrifað er þrýstingur á Önundarhorni undir Eyjafjöllum kominn í 1036,3 hPa. Þetta er meira en opinbert eldra met ágústmánaðar, sett í Grímsey 13.ágúst 1964 (1034,8 hPa) og vel yfir því sem hæst hefur áður mælst á þessari öld (1032,2 hPa á Gufuskálum 25.ágúst 2003).
Eitt hærra gildi er til í gögnum Veðurstofunnar, 1036,7 hPa sem mældust í Stykkishólmi þann 28.ágúst árið 1869 - fullleiðrétt til frostmarks, sjávarmáls og breiddarstigs. Við vitum þó ekki mikið um þessa loftvog eða hversu rétt stillt hún var við framleiðslu. Það styður þó þetta met að sama dag mældi Sr. Björn Halldórsson í Laufási við Eyjafjörð 1037,6 hPa á loftvog sína, bæði að morgni og kveldi. Í þeim tölum eru þó engar leiðréttingar - og talan nær örugglega nokkuð of há. - En þetta er þó hæsta tala sem Björn festi á blað í ágústmánuði á löngum mæliferli sínum (1854 til 1882).
Ágúst 1964 er mjög eftirminnilegur. Veðráttan segir um tíðarfarið:
Tíðarfarið var sæmilega hagstætt fyrrihlutann, en síðar mjög kalt og óhagstætt. Fjallvegir urðu þungfærir og jafnvel ófærir með köflum norðanlands, og fé fennti á stöku stað. Sunnanlands féll kartöflugras í frostum og hvassviðri. Góður þurrkur var um sunnanvert landið, og náðist hey inn, en nýting var víða slæm.
Hiti fór yfir 20 stig fimm daga mánaðarins, en á móti kom að næturfrost var einhvers staðar í byggð 15 daga. Snjódýpt mældist 7 cm á Hólum í Hjaltadal að morgni þess 21. og daginn eftir lokaði snjóflóð veginum um Siglufjarðarskarð. Þann 20. varð allmikill jarðskjálfti á Suðurlandi - sem lítið er um talað. Þó urðu talsverðar skemmdir, húsveggir hrundu, innveggir hrundu í húsum í byggingum, hitakerfi eyðilögðust og jörð sprakk.
Ritstjóri hungurdiska minnist veðurlags háþrýstidagana vel - eins og það var í Borgarnesi. Það hefði átt að vera sæmilega hlýt - og hefði átt að vera sólskin. Sólin sýndi sig að vísu í gegnum ískaldar þokuslæður sem lögðust inn af Faxaflóa. Hiti komst þessa daga í tæp 19 stig í Síðumúla og kannski hefur verið enn hlýrra fram í Hvítársíðukrók og á Húsafelli - en þar var ekki mælt. Rúmri viku síðar (21.) var sólarhringsmeðalhiti á landinu ekki nema 4,6 stig.
Hér má sjá kort japönsku endurgreiningarinnar 13.ágúst 1964. Allt virðist í lukkunnar velstandi. Mikið og hlýtt háþrýstisvæði í háloftum yfir landinu - og þykktin vel yfir 5500 metrum (rétt að geta þess að ameríska endurgreiningin sýnir minni þykkt þennan dag).
Við norðurjaðar kortsins er mjög snarpur kuldapollur. Hann átti aldeilis eftir að valda leiðindum. Þokaðist suður og réðist að landinu aðfaranótt þess 15. og yfirgaf okkur ekki fyrr en á höfuðdaginn (29.ágúst).
Fyrirsögn úr dagblaðinu Tímanum laugardaginn 22.ágúst 1964.
Mikill kuldi fylgdi háþrýstingnum undir lok ágúst 1869, meðalhiti þá daga í kringum 5 stig í Stykkishólmi. Stórrigning var næstu daga á undan fyrir norðan, en mikil hríð á fjöllum (sjá ítarlega umfjöllun hungurdiska um árið 1869).
Annað er uppi á teningnum nú - til allrar hamingju.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 21:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.8.2021 | 22:18
Af höfuðdegi
Í dag er höfuðdagur - tengdur sögunni af lífláti Jóhannesar skírara. Þessi dagur hefur löngum verið tengdur veðrabrigðum - halla tekur að hausti. Dagurinn hefur ætíð tengst þeim hluta kirkjuársins sem fylgir almanaksdögum, eins og flestir dýrlingadagar og jólin. Höfuðdagurinn er 29.ágúst ár hvert, rétt eins og jólin eru 25.desember. Í kirkjuárinu eru líka það sem er oft kallað hræranlegar hátíðir - allar meira og minna tengdar páskum. Leifar úr gömlu tungltímatali gyðinga og þar með vorkomu á Gyðingalandi.
Hin ýmsu kirkjuþing fjórðu aldar reyndu að búa til eins konar samræmt kirkjutímatal - fella páskatímatalið á reglubundinn hátt að hinu rómverska tali sem langoftast er kennt við Júlíus Cæsar - júlíanska tímatalið.
Smám saman kom í ljós að árið var örlítið of langt í júlíanska talinu, munaði tæpum þremur dögum á því og réttu sólarári á hverjum 400 árum. Þetta þýddi að bæði sólstöður og jafndægur fluttust smám saman til - urðu fyrr og fyrr á dagatalinu. Þannig séð skipti það ekki svo stóru máli fyrir flesta hluti - hver kynslóð fyrir sig varð ekkert vör við þetta misræmi - jól voru eftir sem áður alltaf 25.desember. Hins vegar fóru páskar á flot - vegna þess að þeir eru tengdir fullu tungli nærri jafndægrum. Reiknimeistarar kirkjunnar sáu að um síðir myndi stefna í óefni, þeir hugsuðu nefnilega langt fram í tímann. Að því myndi koma að níuviknafasta fyrir páska færi að rekast á jólahaldið - var orðið furðustutt í það á 16.öld - og að því kæmi. Og á endanum (eftir þúsundir ára að vísu) rækjust páskarnir á jólin.
Þessi hugsun var nægilega óþægileg til þess að ljóst var að eitthvað yrði að gera. Margt kom til greina. Það hefði einfaldlega verið hægt að festa páskana í ákveðinna daga fjarlægð frá jólum - en dálítið subbuleg lausn ein og sér - almanaksárið væri enn of langt miðað við sólarárið. Það hefði líka verið hægt að láta þá villu sem safnast hafði fyrir halda sér - en sjá til þess að árið yrði af réttri lengd eftir það - og gera ekki meir.
Ritstjóri hungurdiska þekkir hinn trúarlega þátt umræðunnar lítið sem ekki neitt - en honum er þó ljóst að það var mikilvægt að ekki væri unnt að efa réttmæti dagsetningar páskanna. Þar var ákveðin samkeppni við gyðinga, rétt skyldi vera rétt - var augljóslega orðið vitlaust þegar komið var fram á 16.öld. Það var hins vegar kannski bara ágætt að jólin var að reka frá sólstöðunum (og sólstöðuhátíðum heiðingja).
Fyrst ákveðið var að flytja páskana á réttan stað gagnvart sólargangi (og þar með vori) þurfti að ákveða hvernig það skyldi gert. Einfaldast þótti að sleppa þeim 10 aukadögum sem júlíanska tímatalið hafði í ófullkomleika sínum bætt við árið frá því kirkjuþingin voru haldin á fjórðu öld.
Í kaþólskum löndum var þetta gert haustið 1582, en misvel gekk að leiðrétta annars staðar, hér á landi ekki fyrr en haustið 1700. Þá hafði 11 dagurinn bæst við villuna. Leiðrétta tímatalið er kennt við Gregoríanus páfa, en oftar er hér á landi talað um nýja og gamla stíl þegar fjallað er um breytinguna.
En hvað hefur þetta allt með höfuðdaginn og veðurspávísi þá sem honum tengist að gera?
Jú, í gamla stíl var höfuðdagurinn eins og nú 29.ágúst. Haustjafndægur voru hins vegar 12.september. Í íslensku almanaki sem gefið ver út á Hólum í Hjaltadal 1671 segir: Þann 12. september gengur sól í metaskálar (vogarmerkið), þá er dagur og nótt aftur jöfn, frá uppgöngu sólar að reikna til niðurgöngu.
Höfuðdagur var þannig 14 dögum fyrir jafndægur árið 1672 - í nýja stíl eru jafndægur að hausti hins vegar 22.september. Höfuðdagurinn er því 24 dögum fyrir jafndægur nú á dögum. Allir sem fylgjast með veðri vita að sé einhver tímatalsregla á því á annað borð tengist hún fremur gangi himintungla (sólar) heldur en heilagramannadögum. Þetta olli því að veðurreglur tengdar messudögum urðu allar á svipstundu fremur ótrúverðugar. Margir héldu þó enn í og töluðu um gamla höfuðdaginn - 14 (eða 13) dögum fyrir jafndægur - sem þann sem taka skyldi mark á, 8. eða 9. september í nýja stíl.
Fleiri messudagareglur komust við þetta í uppnám - við rekjum það ekki hér og nú (kannski síðar?).
En tökum annað dæmi. Árið 1672 bar fyrsta vetrardag upp á 12.október - hann var þá 30 dögum á eftir jafndægrum - og að meðaltali var hann í gamla stíl jafnlangt á eftir jafndægrum og er nú á dögum - um mánuði. Íslenska misseratímatalið var nákvæmara heldur en það júlíanska, en var hins vegar ekki tekið upp fyrr en í kringum árið 1000. Ekkert þurfti því að hringla með veðurreglur gagnvart því. Gallinn er hins vegar sá að flest gömul veðurspeki er innflutt, tengd annað hvort kirkjuárinu eða gangi himintungla - samin suður í Evrópu. Hér er hvorki vit né rúm til að rekja þau mál - þó ritstjóri hungurdiska gæti malað sitthvað - án ábyrgðar (hann er ekki menntaður í forn- eða miðaldaspeki).
Eftir að nýi stíll var tekinn upp var hægt að leita á náðir misseristímatalsins og velja fimmtudag í 21.viku sumars þann dag sem mark skyldi taka á - þá hófust réttir.
Útgefandi Hólaalmanaksins 1671 getur ekki veðurreglu tengda höfuðeginum, en nefnir aðra - sem reyndar er enn á floti á okkar dögum - eða var það alla vega þegar ritstjóri hungurdiska var ungur maður. Þar segur um Egedíusarmessu 1.september:
Þurrt veður á Egedísusarmessu halda sumir merki þurrt haust.
Ritstjóri almanaksins tekur ekki afstöðu til reglunnar - segir aðeins að sumir haldi. Við gætum tekið eftir því í ár hvort reglan gengur eftir - svo gætum við líka litið til gömlu Egedíusarmessu sem er (miðað við jafndægur) þann 11.september í ár (eða þann 12. ef það hentar betur).
Þessi breyting - að sleppa 11 dögum úr árinu - hefur verið mörgum meiriháttar höfuðverkur. Nú á dögum væri þetta einfaldlega ekki hægt - ímyndum okkur öll tölvuvandræðin sem myndu af þessu skapast.
En hvað með höfuðdaginn í ár, 2021?
Hér má sjá stöðuna á Egedíusarmessu (miðvikudag 1.september) úr ranni evrópureiknimiðstöðvarinnar. Jafnhæðarlínur eru heildregnar af þeim má ráða vindátt og styrk. Litir sýna þykktina, en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Eitt helsta átakasvæði norðurhvelsins er við Ísland. Óvenjuöflug hæð vestan Skotlands dælir til okkar mjög hlýju lofti úr suðri. Þykktin er mikil, þó ekki alveg jafnmikil og í mestu hlýindunum í síðustu viku. Reiknilíkön eru helst á því að hæðin gefi heldur eftir í lok vikunnar, afl hennar minnki og að hún hörfi heldur austur á bóginn. Ekkert er þó enn gefið í þeim efnum.
Ógurlegur kuldapollur er yfir Norðuríshafi - og haustsvipur á honum. Hann er búinn að vera þarna um nokkra hríð - sækir heldur í sig veðrið með lækkandi sól. Langtímaspám gengur ekki mjög vel að ráða í framtíð hans - þær sjá þó að hann mun færa sig nær Kanada næstu daga - en hvort eða hvernig hann kemur hér við sögu er enn óljóst - fer af því fjölmörgum sögum sem við getum ekki verið að rekja hér. En vel má vera að þessi kuldapollur nái að gangsetja haustið hér á landi.
Til gamans (fyrir þrekmikla) er hér meira um tímatalsbreytinguna:
Tímatalsbreytingin gekk hratt fyrir sig hér á landi - tilkynning konungs er dagsett 10.apríl og skyldi lesin upp á Alþingi um sumarið: Forordning om Almanakkens Forandring til Brugelighed paa Island og Færöe. Ritstjóri hungurdiska hefur ekki aðgang að prentaða frumritinu, en tilkynningin er prentuð í Lovsamling for Island, 1.bindi, s.550 til 552. En dagatal nóvembermánaðar fylgdi. Þar má sjá Marteinsmessu 11.nóvember, fullt tungl þann 15., laugardag 16. og síðan er næsti dagur sunnudagur 28.nóvember, 1.sunnudagur aðventu. [Enginn svartur föstudagur þetta árið] - og jól bar brátt að.
Alþingi brást við og gaf út sérstaka tilkynningu um hvernig skyldi farið með íslenska misseristalið (sama heimild, s.553-554). - Hún hefst svona - orðalag í svokölluðum kansellístíl sem ritstjóri hungurdiska hefur stundum verið sakaður um að nota (en er því miður ófær um):
Hans Kóngl. Maj[st] allranáðugustu befalníng, sem hér fyrskrifuð er, með stærstu undirgefni að hlýða og eptir lifa, var af lögmönnum með ráði forstandugra manna innan og utan vebanda svo skikkað og fyrir sett (eptir því sem þeim skiljanlegt er) um eptirkomandi ára timatal þess nýja stíls, sem næst kynni gánga tímatali fyrirfarandi ára eptir þeim gamla stíl, sem ei er svo allt glöggt í dönsku almanaki að finna, en þarf þó, eptir nauðsynlegu landsins og búskaparins háttalagi að aðgætast, svo enginn misskilningur og tvídrægni útaf hljótist meðal innbyggjaranna:
Síðan koma fyrirmæli: i) um vetrar komu [og miðsvetrar þorrakomu, sumar komu og fardaga tíð], ii) um vertíðar hald, iii) vinnuhjúa skildaga, iv) auxaráralþing, v) hey-annir.
Að lokum segir:
Hverir helzt sem vera kunna hér i landi, andlegrar stéttar eður veraldlegrar, sem lærðir eru uppá rímtal, eru vinsamlega umbeðnir (eptir sínu viti) íslenzkt rím uppsetja eptir þeim nýja stíl, undir approbationem eður staðfestu eðla og velæruverðugra herra biskupanna þessa lands, svo því síður misskilningur eður sérvizka kunni meðal þess fáfróða almúga af hljótast, heldur sérhver láti sig af sér hyggnari manni góðmannlega sannfæra, svo því síður nokkur verði fundinn í því, sig mót Hans Kóngl. Maj[st] allranáðugustu befalningum óhæfilega að forgrípa.
Allt til þess að gera mjög einfalt - en samt ótrúlega ruglandi. Fyrir breytinguna voru jólin komin 14 dögum aftur fyrir sólstöður - í stað þeirra 3 sem rétt var talið (eins og var á tíma Níkeuþingsins árið 325). Til leiðréttingar þurfti að sleppa 11 dögum úr árinu - nóvember varð fyrir valinu.
En hér á landi gekk tímatalsbreytingin þó mun betur heldur en bæði í Englandi og Svíþjóð. Svíar lentu í óttalegri martröð - í þeirra dagatali er m.a. 30.febrúar 1712 en í Englandi þurfti að flytja áramótin líka - þau voru áður á jafndægrum eða sýndarjafndægrum (ég veit ekki hvort). Páskadagsetningar milli 1582 fram að nýja stíl eru líka hálfgerð martröð - misjafnar eftir löndum.
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (18.7.): 73
- Sl. sólarhring: 104
- Sl. viku: 1610
- Frá upphafi: 2485581
Annað
- Innlit í dag: 65
- Innlit sl. viku: 1423
- Gestir í dag: 56
- IP-tölur í dag: 56
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Júlí 2025
- Júní 2025
- Maí 2025
- Apríl 2025
- Mars 2025
- Febrúar 2025
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010