Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Fyrstu 10 dagar nóvembermánaðar

Meðalhiti fyrstu tíu daga nóvembermánaðar í Reykjavík er +2,5 stig. Það er -0,6 stigum neðan meðallags sömu daga áranna 1991 til 2020 og -1,2 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára. Hitinn raðast í 15.hlýjasta sæti (af 21) á öldinni. Hlýjastir voru sömu dagar árið 2004, meðalhiti þá 6,1 stig, kaldastir voru dagarnir tíu árið 2010, meðalhiti +0,1 stig. Á langa listanum er hiti nú í 62. hlýjasta sæti (af 146). Hlýjast var 1945, meðalhiti +8,2 stig, en kaldast 1899, meðalhiti þá -4,0 stig (og 1996 var meðalhiti -3,6 stig).

Á Akureyri er meðalhiti fyrstu tíu daga mánaðarins +1,2 stig, -0,2 stigum neðan meðallags 1991 til 2020, en -0,4 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára.

Einna svalast (að tiltölu) hefur verið við Faxaflóa, þar er hiti í 15.hlýjasta sæti aldarinnar, en hlýjast hefur verið á Suðausturlandi og Miðhálendinu, þar raðast hiti í 12.hlýjasta sætið.

Á einstökum veðurstöðvum hefur verið hlýjast að tiltölu í Papey, þar er hiti +0,1 stigi ofan meðallags síðustu tíu ára, en kaldast hefur verið í Grímsey, þar sem hiti er -1,9 stigum neðan meðallags tíu ára.

Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 46,2 mm, um 50 prósent umfram meðallag. Á Akureyri hafa mælst 28,5 mm, tæp 30 prósent umfram meðallag.

Sólskinsstundir eru 10,2 í Reykjavík, - í minna lagi en samt ekki óvenjulegt.


Í febrúar 1971

Veturinn 1970 til 1971 var yfirleitt talinn hagstæður þó þá gengi á með töluverðum umhleypingum. Vatnavextir og skriðuföll komu þó við sögu bæði í október, desember og snemma í febrúar, um miðjan nóvember gerði snarpt veður af austri og vetrarlegt var þá norðaustanlands. Ritstjórinn minnist mikils tíðindaleysis í janúar - nema hvað sérlega kaldur dagur kom á höfuðborgarsvæðinu undir lok mánaðarins, frost fór í -19,7 stig á Reykjavíkurflugvelli, það mesta frá 1918 og ekki hefur komið jafnmikið frost síðan á Reykjavíkurstöðinni. Þá fór frost í -30 stig við Mývatn. Snjóflóð ollu nokkru tjóni í febrúar og mars, einkum þó í síðarnefnda mánuðinum og í apríl gerði eftirminnilegt hríðarkast. Veðurnörd máttu allvel við una þegar upp var staðið.

En við lítum hér á stöðuna einn ákveðinn dag, þriðjudaginn 9. febrúar. 

w-blogg081121d

Hér má sjá veðrið kl.15 þennan dag (kortið verður lesanlegra sé það stækkað). Í Reykjavík er austan kaldi, rigning og 5 stiga hiti. Það rignir um allt sunnanvert landið, allt austur á sunnanverða Austfirði. Uppi í Síðumúla í Borgarfirði er hins vegar allhvasst af norðaustri, þar snjóar, skyggni er aðeins 300 metrar og frostið er -7 stig. Við vitum ekki af meiri mun á hita á sama tíma á þessum tveimur veðurstöðvum, 11,3 stig [þegar vindur er meiri en 10 m/s í Síðumúla]. Frost er um allt landið norðanvert og víða dimm hríð. Frost er rúm -11 stig á veðurstöðvunum á Galtarvita, í Æðey og á Hornbjargsvita. Eftirtektarvert er einnig að -12 stiga frost er í Grímsey. Ekki var langt í hafís undan Norðurlandi og Vestfjörðum, allt vestan frá Bjargtöngum og austur á Melrakkasléttu. Hrafl af honum kom inn á firði og flóa. Þetta varð síðasti hafísveturinn í þessari syrpu (og hefðu fáir trúað því þá). 

w-blogg081121g

Klippa úr Morgunblaðinu daginn eftir segir af hríð og ófærð. Þar segir að færð hafi þyngst á Hellisheiði, en talið til tíðinda að heiðarvegir á Austurlandi, svosem Fjarðarheiði og Oddsskarð hafi verið færir. Rafmagnsbilanir urðu. 

Síðar fréttist af miklum snjóflóðum sem féllu víða á vegi í nágrenni Ísafjarðar og nokkrum dögum síðar féll snjóflóð á íbúðarhús (Hlíðarveg 1d) á Siglufirði og þar í firðinum fórust 75 kindur er snjóflóð féll á fjárhús. Sömuleiðis eyðilagðist sumarbústaður. 

w-blogg081121e

Það var alldjúp lægð sem kom að landinu þann 9. og fór síðan yfir landið sem olli þessu veðri. Hitaskil gengu inn á landið, en komust ekki yfir það. Hlýjasta loftið rann síðan til austurs en um leið og það var komið hjá slaknaði heldur á norðaustanáttinni og snerist meira til norðurs. Vindáttir voru síðan norðlægar flesta daga, allt fram til þess 21. 

w-blogg081121f

Háloftakortið á sama tíma sýnir mikla sunnan- og suðvestanátt yfir landinu. Hlýtt loft úr suðri er á leið yfir landið. Það náði til jarðar sunnanlands, en tókst ekki að hreinsa kalda loftið sem lá yfir landinu norðanverðu - en sunnanáttin uppi sá fyrir úrkomu vestanlands - þótt þar væri áttin austlæg eða norðaustlæg. 

Ritsjórinn sat þennan dag í helliregni á Laugarvatni - og furðaði sig á veðurfréttum úr Borgarfirði.


Af ákveðnum degi í desember 1980.

Á laugardaginn var (6.nóvember 2021) hittist þannig á að töluvert snjóaði í neðanverðum Borgarfirði, en sáralítið úti á Hafnarmelum, þar sunnan við og sömuleiðis ofar í Borgarfirði og vestan við. Þetta er út af fyrir sig ekki óalgengt, alla vega man ritstjóri hungurdiska eftir allmörgum slíkum tilvikum. Munur á veðri og hitafari getur verið býsnamikill þótt stutt sé milli staða - ekki síst í nágrenni brattra fjalla.

Af einhverjum ástæðum rifjaði þetta upp dag fyrir rúmum 40 árum. Þá var ritstjórinn á vakt á spádeild Veðurstofunnar og átti í símaviðskiptum við menn sem börðust við vinnu sína í miklum hríðarbyl uppi í Borgarfirði. Jú, veðurskeyti frá Síðumúla sýndu einmitt slíkan byl - engin ástæða til að efast um það, en það er sérstaklega minnisstætt að frá Veðurstofunni séð sást þá síðdegis vel til Skarðsheiðar og nánast þar upp á topp og í Reykjavík var besta veður, vindur hægur og góð hláka. 

w-blogg081121a

Hér má sjá veðurkort um hádegi þennan dag, mánudaginn 8.desember 1980 (sem er víst dagurinn sem John Lennon var myrtur á götu í New York). (Kortið skýrist nokkuð sé það stækkað). Sjá má að í Reykjavík er vindur hægur af norðaustri, lítilsháttar rigning og súld, skyggni 20 km og hiti 3 stig. Í Síðumúla var hins vegar vindur allhvass af norðaustri (15 m/s) í snjókomu, 500 metra skyggni og -3 stiga frosti. Úrkomulítið var vestur á Snæfellsnesi, en hríðarveður fyrir norðan - einkum þó í útsveitum. Eins snjóaði fyrir austan og vestur með suðausturströndinni. Slydda var í uppsveitum austanfjalls, en rigning við sjóinn - og á Þingvöllum rigndi líka. 

w-blogg081121b

Atlantshafskortið sýnir skarpt lægðardrag við Suðurland - lægðabylgjur berast í því til austurs fyrir sunnan land - á milli hæðar yfir Grænlandi og annarrar yfir Frakklandi. Við tökum eftir því að jafnhitalínur 850 hPa-flatarins eru mjög þéttar yfir landinu. Frostlaust er í um 1400 metra hæð yfir Suðurlandi, en hátt í -15 stiga frost í sömu hæð rétt norður af landinu. 

w-blogg081121c

Háloftakortið sýnir að ákveðin vestanátt er yfir landinu og mikill þykktarbratti. Af kortunum öllum má ráða að kalt loft úr norðri nær að stinga sér undir það hlýja. Við skilyrði sem þessi hafa fjöll mun minna að segja varðandi úrkomumyndun heldur en oftast er. Það sem ætti að vera þurr austanátt á Vesturlandi er það ekki - austanvindurinn er bara „plat“. Við höfum hér á hungurdiskum kallað þennan viðsnúning vindátta með hæð öfugsniða. Freistandi líka að grípa hið gamla heiti „hornriði“ - gott að eiga það á lager, en ritstjóranum er ekki alveg vel við að gera það að skilgreindu tækniheiti, því það er það ekki. 

Þetta veður olli engu tjóni svo vitað sé, en tafði þó ferðalanga og var útivinnandi mjög til ama í Borgarfirði. 

Á kortinu að ofan var munurinn á hita í Reykjavík og Síðumúla 6,1 stig. Hann hefur auðvitað oft verið enn meiri. Gerum við þá kröfu að vindur í Síðumúla sé meiri en 10 m/s - þar sé frost, en frostlaust í Reykjavík á sama tíma er mesti munur sem við finnum frá 1949 að telja 11,3 stig. Í næsta pistli skulum við rifja upp veðrið þann dag, 9. febrúar 1971. 


Smávegis af október

Í fljótu bragði virðist sem staðan í háloftunum hafi verið ekki fjarri meðallagi yfir Íslandi í október. Það eru þó atriði sem vekja eftirtekt. 

w-blogg011121va

Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar - meðalhæð flatarins var mjög nærri meðallagi. Slitnu, daufu línurnar sýna þykktina, en litir þykktarvikin. Við sjáum að þykktin var lítillega yfir meðallagi áranna 1981 til 2010. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Meðalvindátt var rétt norðan við vestur og vindstyrkur nærri meðallagi. Við jörð var norðaustanátt ríkjandi, talsvert meiri en að meðallagi - við sjáum það reyndar að nokkru á þessu korti því jafnþykktarlínurnar eru þéttar. Það eru hlýindin við Baffinsland sem eru auðvitað óvenjulegust á þessu korti - fyrir nokkrum dögum bárust fréttir af því að menn keyrðu enn um í drullu í Igaluit (Frobisher Bay). Það er mjög óvenjulegt seint í október og væntanlega ekki viðvarandi staða. 

Það var ekki sérlega auðvelt að finna ámóta (hálofta-) október. Sting kannski upp á október 1970. Þá var alla vega vestanorðvestanátt í háloftum, en norðaustanátt ríkjandi í neðribyggðum eins og nú - þykktar- og hæðarvik voru svipuð - en norðaustanáttin ekki jafnstríð og nú.

w-blogg011121vb

Þá var líka hlýtt á Baffinslandi - en ekki þó nærri því eins og núna. Heldur svalara var hér á landi og úrkomudreifing önnur. Þar réði miklu stór úrkomuatburður sunnanlands og vestan um miðjan mánuð. Mætti kannski rifja betur upp. Í atburðaskrá ritstjóra hungurdiska segir:

Þ. 16. til 17. október 1970: Mikil skriða féll við Eyri í Kjós, kringum bæjarhúsin en ekki á þau. Skriða féll á Tindstöðum á Kjalarnesi, tók vatnsleiðslu, fyllti vatnsból og eyðilagði skrautgarð. Vegaspjöll í Borgarfirði vegna stórrigninga.

Í nýliðnum október var úrkoma hins vegar í minna lagi suðvestanlands, en því meiri á Norðurlandi. Ekki hefur oft mælst meiri úrkoma á Akureyri í október. Sýnist í fljótu bragði að úrkoma í október hafi þar einu sinni mælst meiri en nú og að talan nú verði sennilega í 6. úrkomumesta sæti allra mánaða. En endanlegar tölur koma fljótlega frá Veðurstofunni. 

Við þökkum BP að vanda fyrir kortagerðina.

 


Nærri meðallagi víðast hvar

Í öllum aðalatriðum hefur farið vel með veður í október. Hiti á landinu í heild er nærri meðallagi (+0,1 stigi ofan meðallags 1991 til 2020). Heldur svalara hefur verið fyrir norðan heldur en á Suðurlandi. Taflan sýnir stöðuna þegar einn dagur er eftir af mánuðinum - röðin sem nefnd er hliðrast trúlega lítillega (sáralítill munur er á tölum nærri miðri röð).

w-blogg311021a

Á Suðurlandi er þetta sjöttihlýjasti októbermánuður aldarinnar, en sá 16.hlýjasti á Norðurlandi eystra (fimmtikaldasti). 

Úrkoma er neðan meðallags í Reykjavík (eins og reyndar í flestum mánuðum ársins), en á Akureyri hefur hún verið með allra mesta móti - þó líklega ekki metmikil. Það er á fleiri stöðvum á sömu slóðum sem úrkoma er nærri metmagni októbermánaðar. Við látum Veðurstofuna um að gera það upp. 

Sólskinsstundafjöldi er ofan meðallags í Reykjavík, en neðan þess á Akureyri. 


Landafræði lofthjúpsins - meðalhiti og breiddarstig

Fyrir 11 árum (19.nóvember 2010) birtist hér á hungurdiskum stuttur pistill sem bar yfirskriftina „Hlýtt er á Íslandi - miðað við landfræðilega breidd“. Þar segir m.a.: „Flestir vita að hér á landi er mjög hlýtt miðað við það að landið er á 65° norðlægrar breiddar, rétt við heimskautsbauginn nyrðri. Ein ástæðan er sú að landið er umkringt sjó sem geymir í sér varma sumarsins og mildar veturinn“. Fleiri ástæður koma við sögu - t.d. móta bæði Grænland og fjarlægir fjallgarðar tíðni vindátta - suðlægar áttir eru mun tíðari hér í háloftunum heldur en norðlægar (þó suðaustan-, austan- og norðaustanáttir séu algengastar við jörð). Í pistlinum var einnig að finna lítillega einfaldari gerð myndarinnar hér að neðan.

w-blogg261021b

Á láréttum ás myndarinnar má sjá breiddarstig, 20 gráður norður eru lengst til vinstri, en norðurpóllinn lengst til hægri. Lóðrétti ásinn sýnir ársmeðalhita. Svörtu punktarnir sýna ársmeðalhita á 87 veðurstöðvum víða um norðurhvel jarðar. Gögnin eru úr meðaltalssafni Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar (WMO) fyrir tímabilið 1961-1990. Þó hlýnað hafi síðan breytist halli línunnar nánast ekki neitt og hreyfing hennar upp á við svo lítil að varla sæist. Við tökum strax eftir því að mjög gott samband er á milli breiddarstigs stöðvanna og ársmeðalhitans. Ef við reiknum bestu línu gegnum punktasafnið kemur í ljós að hiti fellur um 0,7 stig á hvert breiddarstig norður á bóginn.

Það má taka eftir því að á köldustu stöðinni er ársmeðalhitinn nærri mínus 20 stigum, ívið kaldara en hér er talið hafa verið á ísöld. Á þeirri hlýjustu er meðalhitinn um 27°C. Spönnin er um 47 stig. Hver skyldi hafa verið halli línunnar á ísöld? - Breytist hann eitthvað í framtíðinni vegna enn ákafari hlýnunar?

Punktarnir ofan línunnar eru staðir þar sem hlýrra er en breiddarstigið eitt segir til um. Reykjavík er meðal þeirra. Sjá má að ársmeðalhitinn er um 6°C hærri en vænta má og svipaður og er að jafnaði á 55°N. Haf - og landfræðilegar aðstæður aðrar valda þessum mun eins og áður sagði.

En höldum nú aðeins áfram með smjörið og lítum til austurs og vesturs - innan bilsins sem lóðréttu línurnar á myndinni marka, 59 til 66 gráður norðurbreiddar.

w-blogg261021

Hádegisbaugur Greenwich er merktur sem núll (0°), austurlengd er jákvæð á myndinni - allt austur að 180°A og vesturlengd neikvæð vestur á 180°V. Allra austasti hluti Síberíu er handan 180° baugsins „vestast“ á þessari mynd. Lóðrétti ásinn sýnir meðalhita. 

En hér eru mislitar punktadreifar, sú græna táknar ársmeðalhitann - sú bláa er janúarhiti, en sú rauða júlíhiti. Ársmeðalhiti er óvíða hærri á þessu breiddarbili (59 til 66°N) heldur en hér á landi - Noregsströnd hefur örlítið betur. 

Í janúar er munur á meginlöndunum og hafi enn meiri, hiti hér á landi er ekki fjarri frostmarki við ströndina, en frostið meira en -40 stig að meðaltali austur í Síberíu og í kringum -30 stig á okkar breiddarstigi vestur í Kanada. Mun hlýrra er í janúar við norðanvert Atlantshaf heldur en á sama breiddarstigi við Kyrrahaf - enda er oft hafís í Beringshafi vestan Alaska og norðan Aljúteyja. 

Í júlímánuði ber svo við að óvíða er kaldara á sama breiddarstigi heldur en hér - á Grænlandi reyndar og austast í Kanada - og við Beringshaf - en annars staðar er hlýrra í júlí heldur en hér. 

w-blogg261021c

Myndin sýnir samband breiddarstigs og meðalhita júlímánaðar. Hér fellur hiti um um það bil 0,5 stig á hvert breiddarstig - heldur minna en í ársmeðaltalinu. Þó Ísland (hér Reykjavík) sé með kaldari stöðum á sama breiddarstigi er hiti hér samt ekki langt frá því sem almennt samband segir - punkturinn liggur mjög nærri aðfallslínunni. Við megum taka eftir því að flestar stöðvar norðan við 70. breiddarstig eru marktækt neðan hennar - bein áhrif frá þeirri vinnu sem fer í að bræða hafísinn í Íshafinu og vetrarsnjó á landi. Haldi hnattræn hlýnun sínu striki munu þeir staðir sem nú eru á jaðri hafíssvæðanna hlýna mest - færast nær aðfallslínunni - og sömuleiðis þeir staðir þar sem vetrarsnjór minnkar. Jan Mayen er t.d. hér meir en 5 stigum neðan aðfallslínunnar - Ammasalik á Grænlandi sömuleiðis. 

Sunnar er slæðingur af punktum langt neðan aðfallslínunnar - þar er talsvert kaldara heldur en breiddarstigið eitt greinir frá. Þar eru t.d. bæði Madeira og Kanaríeyjar. Á þessum eyjum er stöðug norðan- og norðaustanátt á sumrin og veldur því að kaldur sjór vellur upp undan ströndum meginlandanna og umlykur eyjarnar. Þannig hagar til víðar. Hlýjastar á línuritinu eru stöðvar við Persaflóa - og stöðvar á láglendum svæðum í Mið-Asíu eru líka langt ofan aðfallslínunnar. 

w-blogg261021d

Á janúarmyndinni er halli aðfallslínunnar 0,8 stig á breiddargráðu. Reykjavík er langt ofan línunnar - hér „ætti“ meðalhiti í janúar samkvæmt henni að vera um -15 stig. Janúarmeðalhiti í Reykjavík er svipaður og á 48. breiddarstigi aðfallslínunnar. Það eru stöðvar í Síberíu og Kanada sem lengst liggja neðan línunnar. 

Það er freistandi að halda áfram - reikna fleira og smjatta meira - en ritstjórinn lætur það ekki eftir sér að sinni.

 

 


Sumarmisserið 2021

Við gerum nú eins og oft áður - lítum á meðalhita sumarmisseris íslenska tímatalsins og berum saman við fyrri sumur. Sumarmisserið telst standa frá sumardeginum fyrsta fram að fyrsta vetrardegi. Þegar þetta er skrifað vantar enn einn dag upp á fulla lengd - en það skiptir litlu (engin hitamet í húfi).

w-blogg211021a

Myndin sýnir sumarhita í Stykkishólmi frá 1846 til 2021 (eitt sumar, 1919, vantar í röðina). Það sumarmisseri sem nú er að líða var hlýtt, sé litið til langs tíma, en er hiti þess var nærri meðallagi á þessari öld í Stykkishólmi. Ekkert sumar á árunum 1961 til 1995 var hlýrra en þetta - og aðeins þrjú mega heita jafnhlý (1961, 1976 og 1980). Reiknuð leitni sýnir um 0,7 stiga hlýnun á öld - að jafnaði - en segir auðvitað ekkert um framtíðina frekar en venjulega.

Hitinn í Stykkishólmi var í sumar ekki fjarri meðallagi landsins. Eins og flestir muna enn voru óvenjuleg hlýindi um landið norðan- og austanvert frá því um sólstöður og nokkuð fram í september. Áður en það tímabil hófst var öllu svalara - og einnig síðan. Sumarmisserið er samt í hlýrra lagi á þeim slóðum.

w-blogg211021b

Taflna sýnir röðun hita sumarsins á spásvæðum Veðurstofunnar. Röðin nær til þessarar aldar (21 sumarmisseri), en vikin reiknast miðað við síðustu tíu ár. Vonandi er rétt reiknað. 

Að þriðjungatali telst sumarmisserið hafa verið kalt við Faxaflóa, en hlýtt á Ströndum og Norðurlandi vestra, Norðausturlandi og á Austurlandi að Glettingi. Hiti er í meðallagi á öðrum spásvæðum.

Ritstjórinn er (eins og margir aðrir í hans stétt) mjög spurður um veðurfar vetrarins - hvernig það verði. Lítið hefur hann um það að segja - en minnir á gamla fyrirsögn úr Morgunblaðinu 24. febrúar 1954:

mbl_1954-02-24_ekki-a-faeri-vedurfraedinga

Og er svo enn. - En það þýðir ekki að ástæðulaust sé fyrir menn að halda áfram að reyna, ekki síst nú þegar búið er að spilavítisvæða slíkar spár eins og flest annað. Miklir fjármunir eru undir - vonandi stundum til verulegs hagræðis - en oft verða líka margir illa úti eins og í svartapétri barnæskunnar. 


Fyrstu 20 dagar októbermánaðar

Fyrstu tuttugu dagar októbermánaðar hafa verið fremur kaldir víðast hvar á landinu (miðað við sömu almanaksdaga á þessari öld). Meðalhiti í Reykjavík er 5,8 stig, +0,2 stigum ofan meðallags áranna 1991 til 2020, en -0,2 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára. Meðaltalið raðast í 12.hlýjasta sæti (af 21). Hlýjastir voru sömu dagar árið 2016, meðalhiti þá 9,1 stig, en kaldastir voru þeir 2008, meðalhiti 4,2 stig. Á langa listanum er hitinn nú í 49.hlýjasta sæti (af 146). Hlýjastir voru sömu dagar 1959, meðalhiti þá 9,5 stig, en kaldastir voru þeir 1981, meðalhiti -0,3 stig.
 
Á Akureyri er meðalhiti nú 3,3 stig, -1,1 stigi neðan meðallags áranna 1991 til 2020, og -1,4 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára (en í meðallagi 1961-1990).
 
Að tiltölu hefur verið hlýjast á Suðausturlandi, hiti raðast þar í 11.hlýjasta sæti aldarinnar, en kaldast hefur verið á Vestfjörðum þar sem dagarnir eru í 19.hlýjasta sæti (þriðjakaldasta).
 
Hiti í Skaftafelli er +1,0 stig ofan meðallags síðustu tíu ára, en kaldast að tiltölu hefur verið á Þverfjalli, hiti -2,5 stig neðan meðallags.
 
Úrkoma hefur mælst 41,6 mm í Reykjavík, um þrír fjórðu hlutar meðalúrkomu, en hefur úrkoman mælst 96,8 mm, eða rúmlega tvöfalt meðallag.
 
Sólskinsstundir hafa mælst 76,6 í Reykjavík, 15 fleiri en í meðalári. Sólskinsstundir hafa verið færri en í meðalári á Akureyri.

Enn af öfugsniða

Nú er uppi sú staða að allsnarpur kuldapollur er á leið til suðurs um Grænlandshaf vestanvert. Jafnframt sækir hlýrra loft fram úr suðri - tengt miklu lægðarkerfi austan við Nýfundnaland. Hitabratti vex við Ísland. Við lítum á nokkur veðurkort sem sýna stöðuna kl.3 aðfaranótt sunnudags 17.október. Staða sem þessi er ekki beinlínis óalgeng, en henni fylgir nær ætíð veruleg óvissa, bæði hvað varðar vindstyrk, úrkomumagn og úrkomutegund. Hér að neðan er ekki leyst úr þessari óvissu - Veðurstofan reynir það hins vegar - en við lítum samt á stöðuna. Þetta er ekki auðveld lesning.

w-blogg161021a

Daufu heildregnu línurnar sýna sjávarmálsþrýsting. Hæð er yfir Grænlandi en lægð langt suður í hafi, miðjan utan kortsins. Rauðar strikalínur sýna þykktina, en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Það er 5400 metra jafnþykktarlínan sem er rétt við Suðurland, en 5160 línan rétt norðan Vestfjarða. Þetta segir okkur að 12 stiga hitamunur (bratti) er yfir landið. Vindörvarnar á kortinu sýna svonefndar þykktarvind - hann er því meiri sem hitabrattinn er. Bláir litir sýna þau svæði þar sem þykktin er minnkandi - það kólnar, en gulir og rauðir litir sýna svæði þar sem þykktin vex - það er að hlýna. Við sjáum berlega að það er á kólna yfir Vestfjörðum, en yfir Suðurlandi er að hlýna. Kalda loftið úr norðri fer undir það hlýja úr suðri, skil myndast og skerpast. 

w-blogg161021b

Hér má sjá stöðuna í 500 hPa-fletinum - í rúmlega 5 km hæð. Snarpur kuldapollur er við Grænland - hann á að fara til suðurs næsta sólarhringinn - við það leitar hlýja loftið sem á leið hans verður til austurs og norðausturs og vindur snýst þá úr vestsuðvestri til suðvesturs, suðurs og síðan suðausturs og austurs yfir Íslandi. Þetta tekur 2 til 3 daga. 

Mikil barátta er einnig á milli kalda og hlýja loftsins niður undir jörð.

w-blogg161021c

Kortið sýnir hæð 925 hPa-flatarins á sama tíma og kortin að ofan. Hér er vindátt alveg andstæð við það sem hún er í efri lögum. Blæs mjög ákveðið af austri og norðaustri yfir landinu vestanverðu. Fjöll hafa við þessar aðstæður minni áhrif á úrkomudreifingu heldur en venjulega - úrkomumyndunin á sér stað annað hvort uppi í suðvestanáttinni - eða í þeirri hæð þar sem vindur er hægur á milli hinna andstæðu átta. Úrkoman myndast eins og venjulega sem snjór. Fyrsta úrkoman fellur niður og gufar upp - við það kólnar loftið frekar - um síðir rakamettast það nokkurn veginn þannig að snjórinn fer neðar og neðar - hann fer að lokum niður í hita ofan frostmark og fer að bráðna - við það kólnar loftið þannig að snjórinn kemst neðar og neðar. Verði úrkomuákefðin nægilega mikil kemst hann alveg til jarðar - það snjóar - og sé vindur nægilegur gerir hríðarveður. 

w-blogg161021d

Hér má sjá spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um úrkomu og vind kl.3 aðfaranótt sunnudags - á sama tíma og kortin að ofan. Undan Reykjanesi er úrkomuákefð mikil, 5 ti 10 mm á klukkustund, en minni yfir landi. Litlir krossar tákna snjókomu - þeir eru nær einráðir yfir landi. 

Á tímanum frá desember fram í apríl getur maður gengið út frá því að spá sem þessi væri ágæt ábending um snjókomu á láglendi. Meira vafamál er um það svona snemma hausts. Það getur líka verið að það snjói t.d. við norðanverðan Faxaflóa - þó það geri það ekki í lágsveitum höfuðborgarsvæðisins. 

Svo er líka spurning hversu mikil úrkoman (snjórinn?) verður - og hversu lengi snjóar - geri það það á annað borð. Spár virðast - þegar þetta er skrifað - hins vegar sammála um að það hláni þegar háloftaáttin hefur náð að snúa sér úr suðvestri í suður og suðaustur. 

En við fylgjumst eins og venjulega með spám Veðurstofunnar og tökum mark á. 

 


Fyrri hluti októbermánaðar

Meðalhiti fyrri hluta októbermánaðar er +6,3 stig í Reykjavík, það er +0,3 stigum ofan við meðallag sömu daga áranna 1991 til 2020, og í meðallagi síðustu tíu ára. Hann raðast í 11. hlýjasta sæti (af 21) á öldinni. Hlýjastir voru dagarnir 15 árið 2010, meðalhiti þá 9,5 stig, en kaldastir voru þeir 2005, meðalhiti þá 3,8 stig. Á langa listanum er hitinn í 42.hlýjasta sæti (af 146). Hlýjast var 1959, meðalhiti þá +10,2 stig, en kaldast var 1981, meðalhiti -0,7 stig.
 
Á Akureyri er meðalhiti fyrri hluta október +4,0 stig, -0,8 stigum neðan meðallags 1991 til 2020 og -1,2 neðan meðallags síðustu tíu ára.
 
Að tiltölu hefur verið hlýjast á Suðausturlandi, hiti raðast þar í 9. hlýjasta sæti á öldinni, en kaldast hefur verið á Vestfjörðum þar sem hiti raðast í 18. hlýjasta sæti (fjórðakaldasta).
 
Jákvæð hitavik miðað við síðustu tíu ár eru mest í Skaftafelli og við Lómagnúp, +1,0 stig, en kaldast að tiltölu hefur verið á Þverfjalli, hiti -2,1 stig neðan meðallags síðustu tíu ára.
 
Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 29,8 mm og er það um 60 prósent meðalúrkomu. Á Akureyri hefur úrkoman mælst 77,4 mm sem er um tvöföld meðalúrkoma.
 
Sólskinsstundir hafa mælst 62 í Reykjavík, 15 umfram meðallag og fleiri en í september öllum.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg170925b
  • w-blogg170925a
  • w-blogg130925-ak-a
  • w-blogg130925a
  • w-blogg130925b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.9.): 171
  • Sl. sólarhring: 347
  • Sl. viku: 1501
  • Frá upphafi: 2500091

Annað

  • Innlit í dag: 140
  • Innlit sl. viku: 1343
  • Gestir í dag: 137
  • IP-tölur í dag: 135

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband