Færsluflokkur: Vísindi og fræði
23.12.2012 | 01:42
Jólakuldi?
Þegar þetta er skrifað (að kvöldi laugardags 22. desember) er enn hlýtt á landinu, frostlaust í byggð og hiti víða á bilinu 5 til 8 stig um landið sunnanvert. En nú fer hægt kólnandi. Það verður þó að segjast að tölvuspár í dag eru ekki alveg jafngrimmar með frostið eins og þær voru í gær. Kortið að neðan sýnir hæð 500 hPa og þykktina eins og evrópureiknimiðstöðin segir hana verða kl. 18 á aðfangadagskvöld.
Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru svartar en þykktin er sýnd með rauðum strikalínum. Allar tölur eru dekametrar (1 dam = 10 metrar). Bláu örvarnar sýna framrás kalda loftsins. Við sjáum að fyrir vestan land (og sennilega yfir landinu líka) stefnir kuldinn til suðausturs en fyrir norðan er framrásin meira til austurs heldur en í átt til okkar.
Það er 5160 metra jafnþykktarlínan sem þverar landið. Spár fyrir helgi nefndu þann möguleika að 4920 metra jafnþykktarlínan næði upp undir landsteina. Svo lítil þykkt telst mjög óvenjuleg á landsvísu - sérstaklega ef hún nær allt suður í háloftaathugun á Keflavíkurflugvelli. Í hádegisspánni í dag nær 5000 metra línan rétt að snerta Melrakkasléttu á annan jóladag. Í sömu spá leggur kuldakastið upp laupana strax að kvöldi sama dags um leið og lægð með suðaustanátt er mætt á svæðið.
Hvort þessi mynd evrópureiknimiðstöðvarinnar er rétt vitum við ekki - en ætli við göngum samt ekki út frá því að býsna kalt verði jóladagana.
Ef trúa má bandarísku endurgreiningunni hefur þykkt yfir Keflavíkurflugvelli aðeins fimm sinnum farið niður fyrir 5000 metra í desember á síðustu 90 árum. Lægst í kuldakastinu skammvinna og skemmtilega (?) milli jóla og nýjárs 1961, þá fór hún niður í 4920 metra yfir Keflavík og í sama kasti fór hún niður í 4883 metra við norðausturströndina.
Eins og áður hefur komið fram hér á hungurdiskum er þetta ákveðna kuldakast ritstjóranum sérlega minnisstætt vegna þess að þá sá hann hungurdiska í fyrsta skipti og sömuleiðis frostreyk. Jók það mjög áhuga hans á veðurfræði. Sömuleiðis frétti hann af því í fyrsta sinn - og sannreyndi - að rosabaugur um tungl í hörðu frosti að vetri boðaði hláku. Spekin sú er kannski ekki gegnheil eða fullmarktæk og aldrei er gildistími spárinnar nefndur. En fyrir tíma evrópureiknimiðstöðvarinnar varð að grípa þau spámerki sem gáfust og nýta varð þau til fullnustu.
Tungl er fullt um jólin og má leita rosabauga í háskýjabreiðum sem reiknimiðstöðin segir að fara muni hjá.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 13:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
22.12.2012 | 01:53
Hlýtt í tvo daga enn? - Hvað svo?
Allir reikningar (sem frést hefur af) gera ráð fyrir kólnandi veðri næstu daga. Laugardagur verður þó hlýr og sunnudagurinn að mestu leyti. Gærdagurinn (fimmtudagur) var nógu hlýr til þess að dægurhitamet voru sett á nokkrum stöðvum sem mælt hafa lengi, þar á meðal á Keflavíkurflugvelli. Rætist kuldaspáin falla trúlega dægurmet í hinn endann - en það kemur bara í ljós.
Sé að marka spár er aðdragandi kuldans frekar rólegur að þessu sinni - hann herðir tökin sígandi. Við lítum nánar á mánudagsstöðuna hér neðar en lítum fyrst - í fræðsluskyni - á spár um skynvarmaflæði í nágrenni okkar um hádegi á laugardag og svo aftur á sunnudagskvöld (Þorláksmessukvöld).
Bíðum við - skynvarmaflæði - hvað er það? Við gætum líka kallað það skynvarmaskipti eða skynvarmastreymi. Ef við stingum hendi niður í ísvatn streymir varmi úr hendinni út í vatnið. Við skynjum kuldann og um síðir fellur hiti handarinnar. Ef við stingum hendinni í heitt vatn (harla óþægilegt sé hitinn 40 til 50 stig), streymir varmi úr vatninu inn í höndina og við skynjum hann eða jafnvel sársauka.
Mælieining varmastreymis er Wött á fermetra. Á kortunum er sjónarhóll loftsins valinn þannig að ef yfirborðið hitar loftið er varmastreymið talið pósitíft, en kæli það loftið er streymið negatíft.
Skynvarmaflæðið er sýnt með litum. Kortið gildir um hádegi á laugardag 22. desember. Græni liturinn sýnir þau svæði þar sem loftið er að hita yfirborð lands og sjávar - loftið er hlýrra en yfirborðið. Rauðu svæðin sýna aftur á móti þau svæði þar sem sjórinn hitar loftið (og glatar við það varma). Rauð rönd liggur meðfram allri austurströnd Grænlands. Þar streymir kalt loft suður með landi. Sé kortið stækkað (þar er hægt) má þar sjá töluna 160 ekki langt austan við Kulusuk. Sömuleiðis er áberandi rauður blettur austast á kortinu. Þar streymir kalt loft af meginlandinu út yfir hlýjan Norðuratlantshafsstrauminn.
Á kortinu eru einnig dregnar svartar línur - þær afmarka svæði þar sem munur á yfirborðshita sjávar og hita í 925 hPa-fletinum (um 600 metra hæð) er meiri en 8 stig. Svona lítur skynvarmaflæðið út þegar vetrarhlýindi ríkja á Íslandi.
Á næsta korti er annað uppi - aðeins 36 klukkustundum síðar eða um miðnætti á Þorláksmessukvöld.
Svo má heita að allt kortið utan landa sé hulið rauðum lit. Kalt loft úr norðri hefur haldið innreið sína. Varmastreymið er orðið nærri 400 Wött á fermetra suðaustur af Scoresbysundi. Ef við teljum svörtu línurnar (þær byrja við 8 stig og eru síðan á 2 stiga bili) finnum við að hámarkið undan Norðaustur-Grælandi er 20 stig. Munur á sjávarhita og hita í 600 metra hæð er 20 stig. Loftið hlýnar því mjög mikið að neðan á leið til Íslands og allra versti broddurinn fer úr kuldakastinu. Það er umhugsunarvert að væri sjórinn þakinn hafís á leið loftsins til Íslands hlýnaði það mun minna.
Hlýnunin sem á sér stað á leið til landsins er ekki eingöngu háð hitamun lofts og sjávar heldur einnig vindhraðanum. Mikill vindur auðveldar að vísu hlýnun en eftir að einhverjum mörkum er náð skiptir meira máli að loftið er mun skemmri tíma yfir opnu hafi sé vindur mikill heldur en ef hann er lítill.
Ef koma á mjög köldu lofti norðan úr Íshafi suður til Íslands verður leið þess að liggja sem mestan hluta leiðarinnar yfir ís - og þar að auki að vera á hraðri ferð.
En lítum á norðurhvelskort reiknimiðstöðvarinnar sem gildir um hádegi á aðfangadag jóla.
Vísað er í pistil gærdagsins varðandi skýringar á táknmáli kortsins. En Ísland er rétt ofan við miðja mynd. Við sjáum að fyrirstöðuhæðin sem minnst var á í gær hefur nú myndað vegg á móti kaldasta loftinu á kortinu (það fjólubláa). Hversu langt kemst það suður?
Þetta virðist heldur ískyggilegt, en munum þó að lítill hafís er á leiðinni til Íslands og ekki er heldur spáð miklum vindi - við getum því vonað það besta.
21.12.2012 | 01:40
Ættum við að fara að trúa jólaspánni?
Hér verður fram haldið hringluleiknum frá í gær, við berum saman spár með sama gildistíma, en mun á byrjunartíma. Talsvert minni munur er nú á jólaveðrinu frá einum spátíma til annars heldur en undanfarna daga. Þrátt fyrir það getur mjög margt enn farið úrskeiðis.
En lítum fyrst á samanburð spárinnar frá hádegi og spárinnar frá hádegi í gær, þá sem við skoðuðum þá. Hér er táknmál það sama og áður. Jafnþrýstilínur eru svartar og heildregnar og munur á spátímunum tveimur er dreginn fram með litaflötum. Þar sem liturinn er rauður er þrýstingi í dag spáð lægri heldur en í gær en hærri sé liturinn blár. Á þessu korti má einnig sjá þrýstilínur úr spánni í gær merktar með strikalínum. Allt sést betur sé kortið stækkað.
Hádegisspáin í dag er nánast eins hvað Ísland varðar og var í gær (landið er litlaust), en við sjáum að lægðinni er nú spáð nokkru austar en er í dag. Tölurnar nærri lægðarmiðjunni eru enn nokkuð háar. Sömuleiðis er talsverð breyting fyrir norðan land, á bilinu 5 til 10 hPa.
Næsta kort sýnir nákvæmlega sömu jafnþrýstilínur og hið fyrra, en nú er miðað við spána frá miðnætti í samanburðinum.
Enn betri samsvörun er þarna á ferð í námunda við Ísland, lægðin hikast til norðausturs og er ótrúlega miklu minni heldur en hún var í spám fyrir sama tíma fyrir nokkrum dögum.
Ítrekum að alls ekki er víst að veðrið verði svona. Á kortinu eru 4 hPa á milli jafnþrýstilína og spáð er um það bil 3 hPa munur á þrýstingi í Reykjavík og á Snæfellsnesi utanverðu. Það reiknast sem um það bil 15 m/s þrýstivindur. Venjulegt er að reikna með að vindur í 10 m hæð yfir sjávarfleti sé um 70% af þrýstivindi. Hér er því spáð um 11 m/s af norðaustri á Faxaflóa, en minna yfir landi. Hvassara er í spánni við Suðausturland.
Lítum að lokum á stöðuna á norðurhveli eins og evrópureiknimiðstöðin segir hana verða um hádegi á laugardag (22. desember) - kortið í gær sýndi föstudagsspána.
Ísland er rétt neðan við miðja mynd en hún nær um meginhluta norðurhvels jarðar norðan við 30°N. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar, því þéttari sem þær eru því meiri er vindurinn. Þykktin er sýnd í litakvarða (hann sést skýrt sé myndin stækkuð), þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Mörkin á milli blárra og grænna lita er við 5280 hPa. Ísland er á myndinni vel inni á grænu (og tiltölulega hlýju) svæði.
Fyrirstöðuhæðin fyrir norðaustan og norðan land verndar enn á laugardegi. Aðalkuldinn er norður í Íshafi og yfir Síberíu (fjólublár litur). Svarta örin ofarlega til vinstri bendir á mikla fyrirstöðuhæð norður af Alaska. Þessi hæð er að stugga við norðurslóðakuldanum og ekki ljóst hvað úr verður.
Það er almenn reynsluregla að kuldinn sé heldur hreyfanlegri í spám, sem ná lengra fram í tímann en fjóra sólarhringa, heldur en í raunveruleikanum. Sé tekið mark á þeirri varúðarreglu verður útrás kuldans ekki spáð af teljandi öryggi fyrr en á morgun (föstudag 21. desember).
Þá upplýsist e.t.v. líka um hvers konar kuldakast yrði að ræða.
20.12.2012 | 00:56
Enn er óvissa um jólaveðrið
Í pistli í fyrradag var fjallað um óvissu í margra daga veðurspám, þá var vika til jóla og spár rokkandi til og frá með mjög djúpa (eða ekki svo djúpa) lægð fyrir sunnan og suðaustan land. Og enn hafa spárnar ekki náð ákveðinni festu. Til að sjá þetta skulum við líta á breytingu spár evrópureiknimiðstöðvarinnar um veður á aðfangadagskvöld milli tveggja síðustu spátíma. Kortið sýnir jafnþrýstilínur við sjávarmál úr spánni frá hádegi á fimmtudag, en litafletir mismun þeirrar spár og næstu á undan - frá miðnætti sama dags.
Kortið sýnir norðanvert Atlantshaf - Ísland er rétt ofan við miðja mynd, Spánn neðst til hægri - en Baffinsland efst til vinstri. Kortið batnar sé það stækkað og þá má sjá tölu við suðurströnd Íslands, 20,6 hPa, inni í stórum bláum flekki. Hér er þrýstingurinn á þessum stað 1004 hPa, en var 983 hPa í næstu spá á undan. Hér er gert ráð fyrir norðaustanstrekkingi, en hvassara verður úti fyrir Suðausturlandi.
Í heild má sjá að þrýstikerfið sem ríkir frá Grænlandi austur til Mið-Evrópu er mun austar í þessari spá heldur en þeirri næstu á undan. Nú verðum við að hafa í huga að vel má vera að næsta spá hér á eftir (reiknuð frá miðnætti aðfaranótt fimmtudags) bakki aftur með kerfið - en þó er varla hægt að segja að einhverjum stöðugleika sé náð fyrr en tvær til þrjár spár í röð hætti með tuga hPa hringl frá einum spátíma til annars.
En hvað veldur þessum gríðarmikla breytileika? Um það er ekkert hægt að fullyrða nema þetta venjulega - bylgjustaða á norðurhveli er mjög laus í rásinni. Kortið að neðan sýnir stöðuna um hádegi á föstudag (21. desember).
Hér er Ísland rétt neðan við miðja mynd en hún nær um meginhluta norðurhvels jarðar norðan við 30°N. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar, því þéttari sem þær eru því meiri er vindurinn. Þykktin er sýnd í litakvarða (hann sést skýrt sé myndin stækkuð), þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Mörkin á milli blárra og grænna lita er við 5280 hPa. Ísland er á myndinni vel inni á grænu (og tiltölulega hlýju) svæði.
Hér er landið enn undir vernd fyrirstöðuhæðar fyrir norðan og norðaustan land, kuldapollur er yfir Eystrasalti. Aðalkuldinn er norður í Íshafi og yfir Síberíu fjólublár litur). Svarta örin ofarlega til vinstri bendir á mikinn hrygg norður og vestur af Alaska. Sé hann skoðaður nánar sést að þar skerast jafnhæðar- og jafnþykktarlínur mjög. Vestan við hrygginn streymir mjög hlýtt loft norður fyrir 70. breiddarstig og myndar allmikla fyrirstöðuhæð sem næstu daga á að hreyfast í átt til Baffinslands.
Rúmmál kuldans yfir norðurslóðum breytist lítið frá degi til dags - ef stuggað er við honum á einum stað verður hann að hörfa eitthvað annað. Það mun nýja fyrirstaðan einmitt gera - hvert fer kuldinn þá? Einn möguleiki er að hann ryðjist í átt til okkar - en það er ekki víst. En hann gæti breytt stöðunni hér við land og það er einmitt það sem jólaspárnar hafa ekki gert upp við sig.
Framrás á köldu lofti hefur mikil áhrif á lægðaþróun. Nýjasta spáin gerir helst ráð fyrir því að framherjar kuldans verði aðeins á undan lægðinni - þannig að hún hörfi til austurs frá því sem áður var spáð. En munið að hungurdiskar spá engu um jólaveðrið - en ræða spár á frjálslegan hátt.
19.12.2012 | 00:43
Hláka í nokkra daga
Fyrirsögn þessa pistils átti eiginlega að vera hlýindi í nokkra daga en ýmsum aðilum á ritstjórninni þótti það full mikið í lagt. Í dag (þriðjudag) var frost um nær allt land - en á morgun, miðvikudag er spáð góðri hláku.
Lítum á þykktarspá frá evrópureiknimiðstöðinni sem gildir kl. 18 miðvikudaginn 19. desember.
Jafnþykktarlínur eru svartar og heildregnar, en litafletirnir sýna hita í 850 hPa-fletinum en hann verður á gildistíma kortsins í um 1300 metra hæð yfir Reykjavík. Það er þess virði að líta betur á línukraðakið yfir Íslandi (í lærdómsskyni). Við skulum byrja við gulleita blettinn milli Færeyja og Íslands. Það er 5380 metra jafnþykktarlínan sem sker hann norðanverðan. Athugið að kortið skýrist mjög við stækkun.
Við höldum nú til norðvesturs. Fyrst verður fyrir lægri þykkt, hringur sem umlykur örlítið svæði þar sem hún er undir 5360 metrum. Síðan förum við fljótt inn fyrir 5380 metra aftur, sú lína hringar sig í kringum mestallt landið vestan Vatnajökuls, en þar inni í eru þrír smáir hringir sem hver um sig markar 5400 metra. Inni í hringnum vestan Langjökuls er einn enn minni, 5420 metra jafnþykktarlínan. Hún er sú hæsta yfir landinu.
Við sjáum líka að austanvert landið er undir bláum lit í 850 hPa en gulur litur hylur landið vestanvert. Allt mynstrið yfir landinu sýnir ýmist uppstreymi (lág þykkt, blár litur) eða niðurstreymi (há þykkt, gulleitur litur). Nú er það svo að líkanið bregst við eigin landslagi - en ekki því raunverulega. Við þurfum talsvert nákvæmara líkan til að nálgast lögun hins raunverulega landslags. Hin raunverulega hámarksþykkt yfir landinu á gildistíma kortsins getur því verðið önnur en þessi spá sýnir - jafnvel þótt hún yrði rétt. [Ef staglast er nógu lengi á orðinu raunverulegur fer maður að trúa að það sé raunverulegt].
En mynstur af þessu tagi er algengt yfir landinu og fer auðvitað mikið eftir vindátt hverju sinni.
Þykktin síðdegis á miðvikudag verður trúlega á bilinu 5380 til 5400 metrar. Hversu hlýtt er það? Á vetrum hefur hámarkshiti á landinu farið í 13 til 15 stig við þessi þykktargildi. Heldur er það ólíklegt að þessu sinni. Við sjáum á kortinu að hæsta talan í 850 hPa er 5 stig - yfir Norðurlandi. Til gamans skulum við því líta á mættishitaspá í 850 hPa.
Þetta dæilega rauða kort sýnir hversu hlýtt loftið í 850 hPa yrði eftir niðurstreymi að sjávarmáli (strangt tekið niður í 1000 hPa). Jafnþrýstilínur við sjávarmál eru svartar og heildregnar. Sé kortið stækkað og rýnt í það má sjá töluna 17,9 við Siglufjörð.
Hver skyldi svo hámarkshiti miðvikudagsins verða? Ætli hann nái 8 stigum, 10, 12 eða meiru?
En við vitum alla vega að þegar vind lægir aftur og það léttir til er búið með öll hlýindi - jafnvel þótt þau séu rétt fyrir ofan. Í desember þarf alltaf vindkrækjur upp í hlýindin og teppi gegn útgeislun. Sólin hjálpar nákvæmlega ekkert til.
18.12.2012 | 01:19
Órólegar veðurspár
Nú fara að streyma inn spár um veður á jólum. Hér verður ekki (frekar en venjulega) tekin afstaða til þeirra en bornar saman tvær spár um veður nokkra daga fram í tímann. Báðar spárnar eru fengnar frá evrópureiknimiðstöðinni, munurinn er aðeins sá að önnur er frá því á hádegi í dag, mánudaginn 17. desember, en hin frá miðnætti sama dag. Sama líkan - gangsett með 12 stunda millibili.
Kortasyrpan sem við lítum á ber saman ákveðna gildistíma spánna. Fyrst er samanburður á spá fyrir hádegi á þriðjudag (18. desember, einn dagur fram í tímann), síðan fjóra daga fram í tímann. Þá er kominn föstudagur, þriðja kortið sýnir mismun spánna um hádegi á aðfangadag (7 dagar fram í tímann) og að lokum á miðnætti aðfaranótt þriðja í jólum (9,5 dagar).
Kortin batna talsvert við stækkun - en hér verður aðeins minnt á aðalatriði. Gildi litatónanna sjást í kvarðanum lengst til hægri á myndinni sé myndin stækkuð með tvísmellu. Litamerkingin byrjar við eitt hPa, fyrsta skipting er síðan við 5 hPa. Svæðið nær yfir allt norðanvert Atlantshaf, frá Labrador í vestri og austur á Eystrasalt, frá Spáni í suðri og langleiðina norður Grænland. Ísland er merkt með ör á fyrsta kortinu - en er á sama stað á hinum.
Best er fyrir langflesta að lesa hægt til að átta sig á kortum og texta. Blá svæði sýna hvar þrýstingur í seinni spánni er hærri heldur en í fyrri spá (12 tímum áður), en þau rauðu marka þau svæði þar sem þrýstingur er lægri í nýrri spánni.
Fyrsti dagur (hádegi á þriðjudag - efra kort til vinstri). Við sjáum að spárnar eru býsna sammála, á langstærsta hluta kortsins skeikar innan við einu hPa, en á fáeinum stöðum meira, t.d. meðfram austurströnd Grænlands - en það er erfitt svæði að reikna.
Fjórði dagur (hádegi á föstudag - efra kort til hægri). Hér er munurinn orðinn meiri, sums staðar meiri en 5 hPa. Rautt svæði nær alveg þvert yfir kortið. Það gæti bent til þess að meginbylgja í háloftunum hafi aðeins hnikast til í austurátt - miðað við samanburðarspána.
Sjöundi dagur (hádegi á mánudag - aðfangadag jóla - neðra kort til vinstri). Hér er allt kortið undirlagt af stórum mun. Mestur er munurinn í miðju rauða svæðinsins þar sem hann sprengir kvarðann - (smár hvítur blettur), er meiri en 50 hPa. Þetta þýðir að óvissa í spánni er gríðarmikil. Annað hvort er lægðin djúpa hliðruð um breidd rauða svæðisins (þar sem styst er út úr því) - eða þá að hún var ekki til í fyrri spá. Upplýsa má að hún var ívið grynnri og talsvert sunnar í fyrri spánni. Takið vel eftir því að hvorug spáin þarf að vera rétt - sú fyrri gæti líka verið réttari heldur en sú síðari. En - óvissan er gríðarleg.
Níundi (eða tíundi) dagur (miðnætti að kvöldi annars jóladags). Nú er megnið af kortinu orðið blátt. Það þýðir að þrýstingur í nýrri spánni er talsvert hærri en í þeirri fyrri. Það bendir til þess að spánum beri engan veginn saman um legu (eða ölduhæð) stóru norðurhvelsbylgnanna.
Þeir sem endilega vilja spá einhverju geta e.t.v. haldið því fram að líkur séu á því að djúp lægð verði á svæðinu um jólin - það er þó ekki alveg víst. Og að segja eitthvað nákvæmara en það, t.d. um vindátt eða vindstyrk er hálfpartinn út í bláinn enn sem komið er. En jólin nálgast hratt og spár verða væntanlega öruggari eftir því sem nær dregur.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 01:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.12.2012 | 01:11
Þrýstivik frá 1. apríl til 14. desember í ár
Mikil umskipti urðu í veðurlagi um mánaðamótin mars-apríl á þessu ári. Gengu þá stórgerðir umhleypingar niður og við tóku norðlægar og austlægar áttir sem ríkt hafa síðan. Að vísu hefur ríki þeirra ekki verið alveg friðsamt allan þennan tíma - en vestanáttardagar hafa verið harla fáir og máttlitlir.
Við skulum nú líta á loftþrýstivik þessa tímabils eins og það kemur fram í reikningum bandarísku veðurstofunnar.
Myndin sýnir hluta norðurhvels, frá 30 gráðum til 85 gráða norðurbreiddar og frá 70 gráðum vestur austur á 30 gráður austurlengdar. Hér eru vik í metrum - sýna hversu mikið 1000 hPa-flöturinn hefur vikið frá meðaltalinu 1981 til 2010.
Þrýstingur hefur verið hærri en að meðaltali vestan við landið - en neðan við það fyrir suðaustan land. Þarna er fullt af jafnþykktarlínum en kortið er sjálfkvarðað sem heitir og gerir kvörðunin vikin eins áberandi og hægt er. Línurnar eru dregnar á 5 metra bili, hæsta jafnvikalínan er 30 metrar - en sú lægsta -30. Hér munar 60 metrum í umframbratta 1000 hPa-flatarins. Nú eru 8 metrar í einu hPa og því er talan 60 jafngild um það bil 8 hPa.
Við skulum þó ekki smjatta mikið á þessum tölum - en lítum betur á þær þegar árinu er lokið og berum þá saman við meðaltöl. Mest spennandi verður að sjá hvort 2012 nái því að verða norðanáttarár í háloftunum eins og árið 2010 - en það er eina norðanáttarárið frá því að háloftaathuganir hófust. Norðanátt var að meðaltali í öllum mánuðum frá apríl til nóvember sem er einstaklega þrálátt. Um desember vitum við ekki enn - en fyrri hluti mánaðarins er nokkuð efnilegur.
16.12.2012 | 01:40
Litið á lítið
Í dag lítum við nær okkur og jafnvel upp á við frekar en að skima á heilu heimshöfin eða norðurhvelið allt. Fyrsta kortið er nærri því hefðbundið grunnkort. Það sýnir alla vega þrýsting við sjávarmál, úrkomusvæði og vind. Ef vel er gáð má einnig sjá hita í 850 hPa-fletinum og gerðarflokkun og ákefð úrkomunnar. Í lagi er að rifja upp gamlan pistil þar sem rýnt er í kort af þessu tagi. Krossar inni í úrkomusvæðum tákna snjókomu. Kortin að neðan gilda á kl. 18 síðdegis á sunnudag, 16. desember.
Landið er í heiðarlegri norðaustanátt, hæð er yfir Grænlandi en fremur grunn lægð er norður af Færeyjum á leið til vestnorðvesturs. Lægðin þjappar þrýstilínum heldur saman þegar hún hreyfist nær - en hún grynnist á sama tíma. Lægðin var við Hjaltland um hádegi á laugardegi og er spáð upp undir land á Austfjörðum á mánudag. Síðan er ekki ljóst hvað verður um hana. Hún kemst ef til vill vestur fyrir land áður en hún ferst í austanátt næstu stórlægðar.
En lítum nú upp á við. Fyrst upp í 925 hPa-flötinn. Á kortinu má sjá hæð hans ásamt vindi og hita.
Það er 700 metra jafnhæðarlínan sem liggur um Breiðafjörð. Þetta er því í fjallahæð. Lægðin er á nærri sama stað og á grunnkortinu og vindur ámóta nema norðvestan við lægðarmiðjuna þar sem hann er 25 m/s. Mörkin á milli bláu og grænu svæðanna eru sett við fjögurra stiga frost, en á brúnu svæðunum er hiti ofan frostmarks. Áberandi kaldara er við Norðaustur-Grænland þar sem fjólublái liturinn táknar -16 stiga frost. Þetta er afskaplega algeng staða, hlýjast syðst, kaldast nyrst.
Þá upp í 500 hPa. Það er 5280 metra jafnhæðarlínan sem liggur um Vestfirði. Það er nærri meðallagi árstímans.
Lægðin við Færeyjar er enn á sama stað, en tvær aðrar lægðir sjást á kortinu - mjög grunnar þó. Segja má að lægðardrag liggi um kortið á ská, frá suðvesturhorni þess til norðausturhornsins. Vindur er mikill norðvestanmegin á kortinu, 25 m/s, en annars lítill. Nú ber svo við að köld pulsa liggur eftir lægðardraginu öllu. Dálítill kuldapollur er rétt suðvestan við land. Þar er frostið -37 stig þar sem mest er. Þeir sem lesið hafa pistla hungurdiska undanfarna daga kannast hér við kalda loftið sem fleygaðist vestur um frá Noregi - með hlýju lofti á báða vegu.
En við lítum enn ofar - upp í 300 hPa og það er 8680 metra jafnhæðarlínan sem liggur um Vestfirði.
Enn er vindstrengurinn milli Vestfjarða og Grænlands áberandi, jafnvel enn meiri heldur en neðar. Nú bregður svo við að lægðin fyrir suðvestan land er orðin öflugri heldur en sú við Færeyjar og það sem meira er; hlýjast er í lægðardraginu langa og mjóa. Hvers vegna? Það er vegna þess að 300 hPa-flöturinn sker veðrahvörfin og á hlýja svæðinu erum við fyrir ofan þau.
Algengast er að hiti falli með hæð í veðrahvolfinu allt til veðrahvarfa. Þar fyrir ofan - í neðri lögum heiðhvolfsins fellur hiti ekki. Bláu svæðin á myndinni eru flest neðan veðrahvarfa - þar er hiti því enn fallandi með hæð. Undir græna svæðinu fellur hiti neðar jafnmikið með hæð og á svæðunum umhverfis - en þegar komið var að veðrahvörfum hættir hann því - þess vegna er hýrra á græna svæðinu heldur en hinum.
En hversu hátt liggja veðrahvörfin í spánni? Við athugum það á síðasta korti dagsins en það sýnir þrýstihæð veðrahvarfanna eins og evrópureiknimiðstöðin telur hana verða síðdegis þennan desembersunnudag.
Litirnir tákna ákveðin þrýstibil. Talan fyrir suðvestan land, 499, segir okkur að þar séu veðrahvörfin í 499 hPa hæð, við vitum af 500 hPa kortinu hvaða hæð það er í metrum, um 5290 metrar. Nú þarf að muna hið sjálfsagða: Þrýstingur minnkar með hæð, því lægri sem tölurnar eru því hærri eru veðrahvörfin. Á bláu svæðunum eru þau í yfir 240 hPa-hæð. Það eru um 10 kílómetrar.
Gula svæðið sýnir því langa og mjóa gjá í veðrahvörfin, gjáin er svo brött suðvestan við Ísland að litatóna vantar í myndina. Þar gæti verið brot í veðrahvörfunum.
Veðrahvörfin eru á sífelldu iði með hnútum og brotum, beygjuskrensi og ókyrrð og lega þeirra getur líka átt þátt í ofsaveðrum á jörðu niðri. Þess vegna er vel þess virði að gefa þeim auga rétt eins og lægðum, hæðum, skilum og úrkomusvæðum hefðbundinna veðurkorta.
15.12.2012 | 01:20
Nýútkomin bók um kolefnishringrásina - og það á íslensku
Nú er loksins komin út bók á íslensku þar sem hringrás kolefnis í náttúrunni og áhrifa mannsins á hana er lýst á greinargóðan hátt. Höfundur bókarinnar, Sigurður Reynir Gíslason, og nemendur hans hafa um árabil stundað rannsóknir á efnaskiptum vatns, bergs, lofts og lífvera í náttúrunni og á tilraunastofu með sérstakri áherslu á hringrás kolefnis.
Betur og betur kemur í ljós að áhrif mannsins á hringrás kolefnis og fleiri frumefna eru meiri en flestir hugðu. Þau hríslast um lofthjúpinn, höf, berg og lífkerfið allt. Þótt afleiðingarnar séu í eðli sínu illfyrirsjáanlegar fleygir þekkingu fram á þeim ferlum sem koma við sögu.
Margslungin hringrás kolefnis á stuttum og löngum tímakvarða er skýrð út í bókinni auk þess sem sérstaklega er fjallað um kolefnishringrásina á Íslandi bæði þann hluta hennar sem riðlast vegna athafna okkar sem og þann sem kalla má náttúrulegan.
Bókin fylgir rannsóknum á viðfangsefninu allt til þessa ársins í ár (2012) en óhætt er að segja að höfundurinn sé meðal fremstu vísindamanna á sínu sviði á heimsvísu. Alþjóðasamband jarðefnafræðinga hefur veitt honum viðurkenningu fyrir rannsóknir á veðrun basalts og mikilvægi hennar fyrir hringrás kolefnis á jörðinni. Sigurður er formaður vísindaráðs CarbFix verkefnisins en það er alþjóðlegt vísindasamstarf um bindingu kolefnis í bergi.
Bókin er skyldulesning fyrir bæði sérfræðinga og áhugamenn um náttúrufræði auk þess sem hún er uppbyggilegt innlegg í umræðuna um hnattrænar umhverfisbreytingar af manna völdum. Þær hæringar taka til fleiri hluta en loftslagsbreytinga eingöngu. Það er varla ástæða til að ganga lengur um í þoku um það grundvallaratriði sem kolefnishringrásin er - alveg sama hvort menn telja ástæðu til aðgerða eða ekki.
Kolefnishringrásin er fjórða bókin í flokki umhverfisrita Bókmenntafélagsins. Hinar þrjár eru: Náttúra, vald og verðmæti eftir Ólaf Pál Jónsson, Þar sem fossarnir falla eftir Unni Birnu Karlsdóttur og Gróðurhúsaáhrif og loftslagsbreytingar eftir Halldór Björnsson. Kolefnishringrásin kallast sérstaklega á við síðastnefndu bókina. Ættu menn að drífa sig í að koma höndum yfir þessar bækur allar og lesa þær sem fyrst. Fleiri rit eru í undirbúningi.
Í bókinni er ítarleg heimildaskrá þar sem þeir sem vita vilja enn meira fá ótalmargt á silfurfati. Bókin er 269 blaðsíður og er prýdd yfir 80 skýringarmyndum, auk sérkafla þar sem helstu efnahvörf sem koma við sögu eru tíunduð.
Kolefnishringrásin er gefin út af Hinu íslenska bókmenntafélagi og er fáanleg í öllum helstu bókaverslunum auk afgreiðslu Bókmenntafélagsins í Skeifunni 3b í Reykjavík.
Myndin sem prýðir forsíðu bókarinnar er Dansinn eftir Henri Matisse.
14.12.2012 | 00:42
Mynd af stórri lægð
Við skulum líta á hitamynd af lægðinni stóru fyrir sunnan land. Þegar myndin var tekin var lægðin um 950 hPa djúp og um hana er mikill skýjasveigur eins og lög gera ráð fyrir. Myndin sem er frá því kl. 22 fimmtudaginn 13. desember er fengin úr evrópska seviri safninu með aðstoð Veðurstofunnar.
Ritstjórinn er búinn að spilla myndinni með alls konar örvum og táknum. Langur hvítur skýjagarður liggur um myndina nærri þvera. En við skulum geyma umræðu um hann þar til undir lokin - þegar áhugalitlir eru búnir að skipta um rás.
Lægðarmiðjan sjálf hreyfist hægt til austurs - mjög hægt, því að um hádegi á sunnudag á hún ekki að vera komin lengra en til Írlands og ætti þá að hafa grynnkað talsvert. Við suðurjaðar myndarinnar er að myndast ný lægð, hún hreyfist heldur ekki mjög hratt en fer til norðnorðausturs um England næstu daga og veldur umskiptum í Evrópu.
Rauðu örvarnar sýna frekar hlýja loftstrauma. Annar fer til norðurs um Bretland, en sveigir þar til austurs, hikar vegna kalda loftsins norðan við skýjabakkann. Öll þessi beygja þokast austur á bóginn. Önnur sveigja er utan um hæðina hlýju yfir Grænlandi. Hún hörfar heldur til vesturs og daufhvíti eða grái skýjabakkinn sem á myndinni er fyrir norðan Ísland er trúlega afleiðing af því að kalda loftið er byrjað að þrýsta að úr austri.
Hvíti bókstafurinn S er til gamans settur við söðulpunkt hlýju straumanna, þar er óvissan mest. En kalda loftið yfir Noregshafi rennur í mjókkandi fleyg til vesturs og mun koma inn yfir Ísland þegar líður á föstudaginn. Þetta loft er þó ekkert sérlega kalt miðað við árstíma.
Trúlega hlýnar í innsveitum norðaustanlands þegar grunnstæð hitahvörf sem ríkt hafa á þeim slóðum undanfarna daga blandast upp. Það er dálítið furðulegt að hiti hækki að mun þegar kaldara loft tekur við af hlýrra. En það er svona þegar loftið í neðstu lögum hefur tapað fjarskiptasambandi við það sem ofar liggur.
En lítum aftur á skýjabakkann í suðri. Þarna teikna skilavinir samskil á grunnkort - og ekki verður því mótmælt hér. En það er alltaf dálítið spennandi að horfa á langa samskilabakka af þessu tagi - hvernig trosnar þessi í sundur? Því er þannig háttað að vindátt er nokkurn veginn samsíða garðinum, hér úr austri eða austsuðaustri. Vindurinn er trúlega mestur nærri miðju hans en heldur minni til beggja átta.
Við þessi skilyrði myndast bæði hæða- og lægðaiða í bakkanum, hæðaiða norðan við en lægðaiða fyrir sunnan hann. Þegar slaknar á vindstrengnum losnar um iðuna og fram koma sveipir - smálægðir sem skilavinir eiga gjarnan í erfiðleikum með. Ritstjórinn veit ekki hvort þetta gerist núna - margt getur truflað - en áhugasamir ættu að fylgjast með gervihnattamyndum á vef Veðurstofunnar næstu einn til tvo daga.
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (12.7.): 362
- Sl. sólarhring: 506
- Sl. viku: 2071
- Frá upphafi: 2484333
Annað
- Innlit í dag: 338
- Innlit sl. viku: 1863
- Gestir í dag: 324
- IP-tölur í dag: 316
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Júlí 2025
- Júní 2025
- Maí 2025
- Apríl 2025
- Mars 2025
- Febrúar 2025
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010