Hlýtt í tvo daga enn? - Hvað svo?

Allir reikningar (sem frést hefur af) gera ráð fyrir kólnandi veðri næstu daga. Laugardagur verður þó hlýr og sunnudagurinn að mestu leyti. Gærdagurinn (fimmtudagur) var nógu hlýr til þess að dægurhitamet voru sett á nokkrum stöðvum sem mælt hafa lengi, þar á meðal á Keflavíkurflugvelli. Rætist kuldaspáin falla trúlega dægurmet í hinn endann - en það kemur bara í ljós.

Sé að marka spár er aðdragandi kuldans frekar rólegur að þessu sinni - hann herðir tökin sígandi. Við lítum nánar á mánudagsstöðuna hér neðar en lítum fyrst - í fræðsluskyni - á spár um skynvarmaflæði í nágrenni okkar um hádegi á laugardag og svo aftur á sunnudagskvöld (Þorláksmessukvöld).

Bíðum við - skynvarmaflæði - hvað er það? Við gætum líka kallað það skynvarmaskipti eða skynvarmastreymi. Ef við stingum hendi niður í ísvatn streymir varmi úr hendinni út í vatnið. Við skynjum kuldann og um síðir fellur hiti handarinnar. Ef við stingum hendinni í heitt vatn (harla óþægilegt sé hitinn 40 til 50 stig), streymir varmi úr vatninu inn í höndina og við skynjum hann eða jafnvel sársauka.

Mælieining varmastreymis er Wött á fermetra. Á kortunum er sjónarhóll loftsins valinn þannig að ef yfirborðið hitar loftið er varmastreymið talið pósitíft, en kæli það loftið er streymið negatíft.

w-blogg221212a

Skynvarmaflæðið er sýnt með litum. Kortið gildir um hádegi á laugardag 22. desember. Græni liturinn sýnir þau svæði þar sem loftið er að hita yfirborð lands og sjávar - loftið er hlýrra en yfirborðið. Rauðu svæðin sýna aftur á móti þau svæði þar sem sjórinn hitar loftið (og glatar við það varma). Rauð rönd liggur meðfram allri austurströnd Grænlands. Þar streymir kalt loft suður með landi. Sé kortið stækkað (þar er hægt) má þar sjá töluna 160 ekki langt austan við Kulusuk. Sömuleiðis er áberandi rauður blettur austast á kortinu. Þar streymir kalt loft af meginlandinu út yfir hlýjan Norðuratlantshafsstrauminn.

Á kortinu eru einnig dregnar svartar línur - þær afmarka svæði þar sem munur á yfirborðshita sjávar og hita í 925 hPa-fletinum (um 600 metra hæð) er meiri en 8 stig. Svona lítur skynvarmaflæðið út þegar vetrarhlýindi ríkja á Íslandi.

Á næsta korti er annað uppi - aðeins 36 klukkustundum síðar eða um miðnætti á Þorláksmessukvöld.

w-blogg221212b

Svo má heita að allt kortið utan landa sé hulið rauðum lit. Kalt loft úr norðri hefur haldið innreið sína. Varmastreymið er orðið nærri 400 Wött á fermetra suðaustur af Scoresbysundi. Ef við teljum svörtu línurnar (þær byrja við 8 stig og eru síðan á 2 stiga bili) finnum við að hámarkið undan Norðaustur-Grælandi er 20 stig. Munur á sjávarhita og hita í 600 metra hæð er 20 stig. Loftið hlýnar því mjög mikið að neðan á leið til Íslands og allra versti broddurinn fer úr kuldakastinu. Það er umhugsunarvert að væri sjórinn þakinn hafís á leið loftsins til Íslands hlýnaði það mun minna.

Hlýnunin sem á sér stað á leið til landsins er ekki eingöngu háð hitamun lofts og sjávar heldur einnig vindhraðanum. Mikill vindur auðveldar að vísu hlýnun en eftir að einhverjum mörkum er náð skiptir meira máli að loftið er mun skemmri tíma yfir opnu hafi sé vindur mikill heldur en ef hann er lítill.

Ef koma á mjög köldu lofti norðan úr Íshafi suður til Íslands verður leið þess að liggja sem mestan hluta leiðarinnar yfir ís - og þar að auki að vera á hraðri ferð.

En lítum á norðurhvelskort reiknimiðstöðvarinnar sem gildir um hádegi á aðfangadag jóla.

w-blogg221212c

Vísað er í pistil gærdagsins varðandi skýringar á táknmáli kortsins. En Ísland er rétt ofan við miðja mynd. Við sjáum að fyrirstöðuhæðin sem minnst var á í gær hefur nú myndað vegg á móti kaldasta loftinu á kortinu (það fjólubláa). Hversu langt kemst það suður?

Þetta virðist heldur ískyggilegt, en munum þó að lítill hafís er á leiðinni til Íslands og ekki er heldur spáð miklum vindi - við getum því vonað það besta.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Níels A. Ársælsson.

Eru líkur á einhverju svona í vetur http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=121645&pageId=1674522&lang=is&q=%ED%20Hvalfir%F0i%20%ED

Níels A. Ársælsson., 22.12.2012 kl. 09:15

2 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ég trúi nú varla þessu dægurmeti á kvikasilfrinu á Keflavíkurflugvelli, 11,2° þegar skálfvirki mælirinn fór ekki hærra en 8.2°. Og heldur ekki á 10.eitthvað stiginn í Stykkishólmi daginn eftir, minnir mig, meðan sá sjálfvirki var í lægðum. En ég mun sannfærast ef vantrú mín verður rekin ofan í mig.

Sigurður Þór Guðjónsson, 22.12.2012 kl. 16:16

3 Smámynd: Trausti Jónsson

Níels. Ekki veit ég hvort svona gerist í vetur en svipaðar aðstæður munu koma upp. Annars er mér sagt að fiskræktin sé mun betur viðbúin kulda í fjörðum heldur en var í árdaga hennar. Vonandi er það rétt. Sigurður. Þetta er trúlega rétt hjá þér með mælinguna á Keflavíkurflugvelli - en verður athugað eftir mánaðamótin - kannski að hreyflagjóstur úr flugvél hafi farið hjá. Stöðvarnar eru reyndar ekki á sama stað.

Trausti Jónsson, 23.12.2012 kl. 01:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg160424b
  • w-blogg160424a
  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 16
  • Sl. sólarhring: 111
  • Sl. viku: 1507
  • Frá upphafi: 2348752

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 1313
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband