Mynd af stórri lægð

Við skulum líta á hitamynd af lægðinni stóru fyrir sunnan land. Þegar myndin var tekin var lægðin um 950 hPa djúp og um hana er mikill skýjasveigur eins og lög gera ráð fyrir. Myndin sem er frá því kl. 22 fimmtudaginn 13. desember er fengin úr evrópska seviri safninu með aðstoð Veðurstofunnar.

w-blogg141212

Ritstjórinn er búinn að spilla myndinni með alls konar örvum og táknum. Langur hvítur skýjagarður liggur um myndina nærri þvera. En við skulum geyma umræðu um hann þar til undir lokin - þegar áhugalitlir eru búnir að skipta um rás.

Lægðarmiðjan sjálf hreyfist hægt til austurs - mjög hægt, því að um hádegi á sunnudag á hún ekki að vera komin lengra en til Írlands og ætti þá að hafa grynnkað talsvert. Við suðurjaðar myndarinnar er að myndast ný lægð, hún hreyfist heldur ekki mjög hratt en fer til norðnorðausturs um England næstu daga og veldur umskiptum í Evrópu.

Rauðu örvarnar sýna frekar hlýja loftstrauma. Annar fer til norðurs um Bretland, en sveigir þar til austurs, hikar vegna kalda loftsins norðan við skýjabakkann. Öll þessi beygja þokast austur á bóginn. Önnur sveigja er utan um hæðina hlýju yfir Grænlandi. Hún hörfar heldur til vesturs og daufhvíti eða grái skýjabakkinn sem á myndinni er fyrir norðan Ísland er trúlega afleiðing af því að kalda loftið er byrjað að þrýsta að úr austri.

Hvíti bókstafurinn S er til gamans settur við söðulpunkt hlýju straumanna, þar er óvissan mest. En kalda loftið yfir Noregshafi rennur í mjókkandi fleyg til vesturs og mun koma inn yfir Ísland þegar líður á föstudaginn. Þetta loft er þó ekkert sérlega kalt miðað við árstíma.

Trúlega hlýnar í innsveitum norðaustanlands þegar grunnstæð hitahvörf sem ríkt hafa á þeim slóðum undanfarna daga blandast upp. Það er dálítið furðulegt að hiti hækki að mun þegar kaldara loft tekur við af hlýrra. En það er svona þegar loftið í neðstu lögum hefur tapað fjarskiptasambandi við það sem ofar liggur.

En lítum aftur á skýjabakkann í suðri. Þarna teikna skilavinir samskil á grunnkort - og ekki verður því mótmælt hér. En það er alltaf dálítið spennandi að horfa á langa samskilabakka af þessu tagi - hvernig trosnar þessi í sundur? Því er þannig háttað að vindátt er nokkurn veginn samsíða garðinum, hér úr austri eða austsuðaustri. Vindurinn er trúlega mestur nærri miðju hans en heldur minni til beggja átta.

Við þessi skilyrði myndast bæði hæða- og lægðaiða í bakkanum, hæðaiða norðan við en lægðaiða fyrir sunnan hann. Þegar slaknar á vindstrengnum losnar um iðuna og fram koma sveipir - smálægðir sem skilavinir eiga gjarnan í erfiðleikum með. Ritstjórinn veit ekki hvort þetta gerist núna - margt getur truflað - en áhugasamir ættu að fylgjast með gervihnattamyndum á vef Veðurstofunnar næstu einn til tvo daga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 22
  • Sl. sólarhring: 372
  • Sl. viku: 1847
  • Frá upphafi: 2350583

Annað

  • Innlit í dag: 22
  • Innlit sl. viku: 1650
  • Gestir í dag: 22
  • IP-tölur í dag: 22

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband