Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2024
31.8.2024 | 20:35
Alþjóðasumarið 2024 - landsmeðalhiti
Við lítum nú á meðalhita í byggðum landsins mánuðina júní til ágúst 2024, það er sumartímabil Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar. Veðurstofan telur september hins vegar með sumrinu. Meðalhiti reiknast 9,1 stig. Það er -0,7 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára og 0,6 stigum neðan meðallags 1991 til 2020.
Á línuritinu má sjá meðalhita aftur til 1823, en við tökum lítið mark á fyrstu 50 árunum. Þó er ábyggilega rétt að heldur hlýrra var fyrir 1860 heldur en næstu áratugi þar á eftir. Súlurnar á myndinni sýna hita einstakra alþjóðasumra, en breiðari línur eru 10-ára keðjumeðaltöl. Eftir sumarkuldana á síðari hluta 19. aldar hlýnaði talsvert um 1890 og svo aftur og meira um og eftir 1925. Sumarhlýindi náðu hámarki á fjórða áratugnum en síðan fór kólnandi, sérstaklega kalt var fram yfir 1985, en þá fór að hlýna. Fyrst hægt en síðan meira. Hámarki náðu hlýindin nýju fyrir um 15 árum.
Sumarið nú reynist það fjórðakaldasta á öldinni, reyndar aðeins eitt sumar (2015) áberandi kaldara, en hiti 2001 og 2011 var ámóta lágur og nú. Ritstjórinn hefur enn ekki reiknað vindavik sumarsins, en samt er ljóst að loft af mjög norrænum uppruna hefur leikið um landið lengst af, ýmist hingað komið úr suðvestri eða norðri. Sennilega hafa hlýindi meginlandanna mjög sótt að norðurslóðum - og loft þaðan orðið að leita hingað - einhver nefndi að svipað væri við vesturströnd Alaska - en það er óstaðfest. Hins vegar er ljóst að methlýtt var á Svalbarða í sumar - aldrei neitt orðið í líkingu við þá hita á þeim slóðum - og einnig vestan til á heimskautasvæðum Kanada. Eitthvað varð kalda loftið að fara.
En september er eftir af hinu formlega veðurstofusumri og sá mánuður hefur alls ekki alltaf verið í takti við hina. Afl háloftavestanátta norðurhvels vex mjög undir jafndægrin, það kólnar hratt á norðurslóðum og fellibyljir og annar hvarfbaugshroði kyndir undir á suðlægari breiddarstigum.
29.8.2024 | 22:40
Sumardagafjöldi í Reykjavík 2024
Talning sumardaga í Reykjavík og á Akureyri hefur verið fastur liður á bloggi hungurdiska frá því 2013. Uppgjörið hefur ætíð verið gert um mánaðamótin ágúst-september. Að meðaltali er aðeins einn dagur í september í Reykjavík sem nær þessum (algjörlega) tilbúna staðli ritstjórans. Skilgreiningu á hungurdiskasumardegi má finna í pistli [20.júní 2013] - (nokkuð frjálslegt - enda er þetta bara leikur).
Að þessu sinni er engin talning á sumardögum á Akureyri. Ástæðan er sú að mannaðar athuganir hafa verið felldar niður þar á bæ. Jú, það væri vel hægt að nota sjálfvirku athuganirnar - en eftir smáíhugun hefur ritstjórinn komist að þeirri niðurstöðu að það sé viðfangsefni yngri veðurnörda að búa til annað ámóta kerfi - kannski hefur ekkert þeirra áhuga á því - en það verður þá bara að hafa það.
Sumardagar reyndust 13 í Reykjavík. Það er 15 dögum undir meðallagi áranna 1991 til 2020. Þegar betur er að gáð er þessi fjöldi þó jafn meðallaginu 1961-1990 - ósköp venjulegur fjöldi á þeim árum - sem eru hið eðlilega tíðarfar í huga ritstjóra hungurdiska. Þessi (nú) löngu liðnu ár ákvarða hið eðlilega í hans huga. En jafnframt viðurkennir hann að yngra fólk, t.d. það sem fætt er eftir 1990 (og jafnvel um 1980) hlýtur að hafa komið sér upp öðru viðmiði, kannski er það 1991-2020 (26 dagar) eða síðustu 20 ár (32 dagar).
Þetta sumar vermir því botninn frá aldamótum ásamt 2013 og 2018 þegar sumardagarnir voru líka 13. Til að finna færri þurfum við að fara aftur til 1996 (10). Flestir voru dagarnir árið 2010, 51 og 50 árið 2012.
Einn sumardagur taldist í maí í ár, eins og meðaltalið 1991-2020, tveir voru í júní, 3 færri en að meðallagi, 5 í júlí (7 færri en í meðallagi) og líka 5 í ágúst (3 færri en í meðalári). Að meðaltali bætist einn sumardagur við í september, en hafa flestir orðið 11 í þeim mánuði (1958). Tvisvar kom sumardagur í október.
Síðan er sumareinkunn hungurdiska - ritstjórinn reiknar hana eftir að Veðurstofan hefur reiknað meðalhita, úrkomusummu og talið úrkomudaga og sólskinsstundir bæði í Reykjavík og á Akureyri (jú, þar ráðum við við Akureyri líka). Ekki er fullvíst að hún segi nákvæmlega sömu sögu (en það kemur í ljós).
En við minnum á að þetta er aðeins leikur - við gætum notað aðrar skilgreiningar og fengið út allt aðrar tölur. Ef svo ólíklega fer að sumardagar hrúgist inn í september (og október) verður myndin endurskoðuð.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 22:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.8.2024 | 13:37
Tuttugu ágústdagar 2024
20.8.2024 | 22:56
Hugsað til ársins 1962
Árið 1962 var í heild talið meðalár og ekki óhagstætt lengst af. Janúar var umhleypingasamur, en ekki talinn óhagstæður nema um landið norðvestanvert. Febrúar var einnig mjög umhleypingasamur og víðast talinn óhagstæður, einkum á Vesturlandi, gæftir voru slæmar. Mars var sérlega staðviðrasamur. Sérlega þurrt var á Suður- og Suðvesturlandi, en tíð talin óhagstæð norðaustanlands. Kalt var í veðri. Í apríl var tíð hagstæð lengst af, gróður tók við sér. Maí var þurrviðrasamur og fremur óhagstæður. Gróðri fór lítt fram. Tíð var óhagstæð í júní, mikið kal var í túnum. Í júlí var skúrasælt til landsins, en tíð meinlítil. Tíð í ágúst var nokkuð misjöfn og heyskapur gekk misvel. Í heildina var þó lengst af þurrviðrasamt. Tíð var sæmilega hagstæð í september, hey var með minna móti og garðauppskera fremur léleg. Október var umhleypingasamur um landið vestanvert, en tíð talin hagstæð um landið austanvert. Síðasta vikan var óhagstæð. Tíð var hagstæð í nóvember, einkum austanlands. Svipað var í desember, tíð talin hagstæð austanlands, en umhleypingasamt var fram að jólum um landið vestanvert.
Við förum yfir helstu veðurtíðindi ársins eins og þau komu fram í blöðum (timarit.is), hjá fáeinum veðurathugunarmönnum og í Veðráttunni, tímariti Veðurstofunnar. Við leyfum okkur að stytta textana (og stöku sinnum hnika til stafsetningu) Vonandi sætta höfundar sig við það. Í þetta sinn sækjum við mest til Tímans og Morgunblaðsins sem voru áberandi duglegust blaðanna við miðlun veðurupplýsinga þetta ár. Hungurdiskar hafa áður fjallað um veður á árinu. Eitt illviðri fékk sérstaka umfjöllun (hitabeltisstormurinn Celía) og tvenn afgerandi umskipti í veðri, í febrúar og um jólin. Vísað er í þá pistla - þar má finna fleiri veðurkort og almenna umfjöllun - þótt eitthvað sé endurtekið.
Árið er ritstjóra hungurdiska sérstaklega minnisstætt. Þetta var fyrsta árið sem hann fylgdist með veðri nánast hvern einasta dag og mundi lengi frá degi til dags. Þó flest þeirra smáatriða sé nú horfið eru enn fjölmargar myndir ljóslifandi í huganum.
Janúar var nokkuð ruddalegur og olli veður töluverðum vandræðum. Þó var ekki mikið um illviðri sem náðu til landsins alls. Mjög hart frost gerði skömmu fyrir áramót, milli jóla og nýárs 1961. Um það var fjallað í pistlinum um það ár. Enn voru þó leifar af fréttum af frostunum í blöðunum fyrstu daga ársins 1962. Tíminn segir frá 4.janúar (stytt):
Í frostunum um daginn [milli jóla og nýárs] voru talsverð brögð að því, að vatn frysi í leiðslum í húsum og nokkuð víða urðu skemmdir af. Þar sem pípur sprungu, varð talsvert tjón á gólfdúkum, teppum og öðru slíku, en víða tókst að koma í veg fyrir slíkt með því að þíða frostið úr pípunum með rafsuðutækjum, áður en þær sprungu. ...
Verkstjóri hitaveitunnar sagði litlar skemmdir hafa orðið á hitaveituleiðslum, en þó hefði frosið í fáeinum gömlum og gisnum húsum og skúrkofum.
Þá hringdi blaðið til vélsmiðjunnar Kyndils, og spurðist fyrir um, hvort mikið annríki hefði verið við þýðingar hjá þeim. Fyrirsvarsmaður þar játaði því, og taldi að verkefnin hefðu verið fleiri en þeir hefðu getað annað vegna mannfæðar. Einnig kæmi það til, að í vetur hefðu þeir ekki í gangi stærstu vélina, sem þeir hafa notað til þess að þíða með frost úr pípum, en það er þotustartari, þ.e. mótor, sem notaður er til þess að setja vélar þrýstiloftsflugvéla í gang, en sú vél er mjög dýr í rekstri og borgar sig varla nema við mikil verk. Sagði Kyndilsmaðurinn, að frostið hefði víða valdið talsverðum skaða í híbýlum, með því að sprengja vatnsleiðslur eða element [svo] í ofnum. Þá taldi hann furðu mikil brögð að því, að pípur hefðu sprungið í nýjum húsum, þar sem þær liggja milli hæða, og hefði talsvert tjón af þessu hlotist. Sums staðar hefði miðstöðvarlögnin eyðilagst öll, en það þýðir tugþúsunda tjón. Og svo miklar skemmdir þarf ekki til, til þess að tjónið verði mikið, ef pípa springur milli hæða, þarf að brjóta upp steininn með loftbor, síðan gera við hina skemmdu pípu, þá múra upp í gatið, og loks að kosta málun á herberginu, jafnvel nýjan gólfdúk.
Væg hláka var fyrstu tíu daga mánaðarins. Morgunblaðið segir frá 6.janúar:
Gífurleg hálka var á götum Reykjavíkur í gærdag og olli einhverjum versta dagi í umferðinni á götum borgarinnar til þessa. Klukkan hálf tíu í gærkvöldi höfðu 13 árekstrar orðið í Reykjavík og fjögur umferðarslys. Á Hringbraut varð 4 ára drengur fyrir stórum. vörubíl, við Dómkirkjuna rann bíll upp á gangstétt, lenti á manni og varpaði honum inn í Dómkirkjugarðinn, og var maðurinn í öngviti þar til á slysavarðstofunni. Á Sóleyjargötu fór ökumaður Volkswagenbíls með höfuðið í gegnum framrúðuna í hörðum árekstri og skarst og við Réttarholtsveg lentu tveir strákar á skíðasleða framan á bíl og meiddist annar strákanna. Má heita að lögreglan hafi verið á þönum frá einum slysstaðnum á annan í allan gærdag. Auk þessara slysa urðu 13 minni og meiriháttar árekstrar á götunum í gær og segir lögreglan að hálkunni og of hröðum akstri miðað við hana, hafi fyrst og fremst verið um að kenna.
Mjög djúp og víðáttumikil lægð fór austur með suðurströndinni sunnan land. Skil hennar fóru norður yfir landið og ollu talsverðu landsynningsveðri, en norðaustanátt á Vestfjörðum. Fleiri mjög djúpar lægðir komu síðan við sögu og ollu vondu sjólagi og mikilli ölduhæð í kringum landið. Morgunblaðið segir frá 9.janúar:
Vestmannaeyjum, 8. janúar Á þrettándanum s.l. laugardag gerði ofsarok af suðaustri og magnaðist þá mjög mikið brim. Var veðrið verst um morguninn, en lygndi upp úr hádeginu. Var komið sæmilegt veður seinni hluta dags, svo skátar og félagar úr knattspyrnufélaginu Tý, er voru búnir að aflýsa hinni árlegu blysför sinni um kvöldið, gátu haft hana. Hefur veðurhæðin vafalaust verið 12 vindstig meðan verst var og meira í hviðunum. Fyrir hádegið, þegar rokið var mest, var Magnús Magnússon, símstöðvarstjóri, á leið út í Sæfell í Volkswagenbifreið, til að sinna skyldustörfum sínum í fjarskiptastöðinni. Skarpur vindstrengur lá milli Snæfells Og Helgafells. Þegar Magnús kom þangað varð hann var við að bíllinn var tekinn að hreyfast til á veginum og sá að pollarnir þurrkuðust alveg upp í vindhviðunum. Hann var að beygja upp að fjarskiptastöðinni og að hugsa um að snúa við, þegar allt í einu kom vindhviða, er svipti bílnum upp í loftið Og 6 m út fyrir veginn, en þar kom hann niður á hjólin. Þá tók hann annar svipur bíllinn á loft og skellti honum niður á hliðina. Magnús slapp ómeiddur, en bíllinn er nokkuð mikið skemmdur. Bj. Guðm.
Vestmannaeyjum 8. janúar Í gær hvessti hér á suðvestan (eftir nokkurt hlé frá því í suðaustanveðrinu í fyrradag) og komst rokið upp í 8 vindstig. Myndaðist geysilegt brim. Segjast menn aldrei hafa séð annað eins. T.d. sá ég að sjórinn gekk alveg upp
í grös í Bjarnarey og flugvallarstjórinn, Skarphéðinn Vilmundarson, sem var á vakt í flugturninum og hafði þaðan góða yfirsýn, kveðst aldrei muna eftir öðru eins brimi, en hann hefur verið hér frá því flugsamgöngur hófust. Í þetta brim myndaðist gífurlegt sog í höfninni, enda mjög hástreymt. Er talið að munurinn í sogunum hafi verið upp undir 2 m. Sogaðist sjórinn inn og út, eins og fljót. Goðafoss var kominn hingað, til að lesta fisk. Í mestu sogunum um hádegisbilið sleit hann af sér afturvírana. í því sogaðist út úr Friðarhöfninni og lækkaði skipið því allt í einu um 2 m. Við það kubbuðust sundur framvírarnir. Sogið reif skipið þá með sér út á miðja höfn. Þó Goðafoss hefði bæði fram- og afturakkeri úti og væri með vélina í gangi, réðist ekki við neitt. Svo gífurlegt var sogið. Goðafoss rak þannig um höfnina og í einu soginu rak hann suður undir Básaskersbryggju, þar sem hann lenti á mótorbátnum Ófeigi og dældaði hann. Fyrir innan Ófeig, sem er stálbátur, lá mótorbáturinn Sídon við bryggju. Við höggin frá Goðafossi þrýsti Ófeigur svo að Sídoni, sem er tréskip, að hann brotnaði verulega. Brotnuðu í honum einar 8 stunnur", skjólborð o.fl. og dekkið laskaðist. Eru skemmdirnar ekki fullrannsakaðar, en víst er að viðgerð á bátnum tekur 810 daga. Báturinn var tilbúinn á veiðar og mannskapurinn skráður á hann, en nú missir hann róðra. Meðan á þessu gekk, fór Lóðsinn út og einnig báturinn Stígandi og tókst að ná Goðafossi aftur að bryggju. Er vandséð hvernig farið hefði, ef Lóðsinn hefði ekki komið til hjálpar, en hann hefur mjög kröftuga vél. Sást þarna hvílíkt þarfaþing þessi bátur er hér í höfninni. Bj. Guðm.
Sandgerði, 8. janúar Aðfaranótt [7.] sunnudagsins var hér brim. Gekk sjórinn langt upp á bryggju. Í bryggjuna hafa myndast nokkrar dældir. Þær fylltust af sjó um nóttina og daginn eftir synti í lónunum smáufsi, sem skolast hafði upp á bryggjuna með sjónum. Tveir bátar, Stefán Þór og Guðmundur Þórðarson, sem lágu við bryggjuna og brotnuðu lítilsháttar P. P.
Brimar á Stokkseyri. Stokkseyri 8. janúar Á sunnudaginn var hér mikið brim, með því mesta sem hér, gerist. Gekk sjórinn alveg upp að görðum. Engar skemmdir urðu. Bátarnir eru að búa sig, á vertíð Og allir í landi. ÁG
Óvenjumikils flóðs gætti við suðvesturströnd Íslands um sexleytið á sunnudagskvöldið og voru lesnar tilkynningar í útvarp þess efnis að veðurstofan byggist við því. Ástæðurnar til flóðsins voru þær að tungl var nýtt á laugardag, en áhrifa þess á sjávarföll gætir mest um tveimur sólarhringum eftir að tungl er nýtt. Þar við bætist að loftvog stóð mjög lágt, sérstaklega á Suðvesturlandi og á Vestfjörðum var stormur af norðaustri. Í gær var loftvog tekin að stíga og ekki var eins hvasst og á sunnudag. Þegar tungl er nýtt verka aðdráttaröfl tungls og sólar saman, en áhrif þeirra valda flóði og fjöru, svo sem kunnugt er. Þegar svo er nefnist stórstreymt. Þessi öfl eru sterkust við nýtt tungl, en áhrifanna gætir mest tveimur sólarhringum síðar eða svo. Í rokinu á Norðurlandi í nóvember fór þetta þrennt saman, nýtt tungl, lág loftvog og stormur af hafi, með þeim afleiðingum, sem allir muna. Ekki er að vita hvað gerst hefði í Reykjavík ef rok hefði staðið af hafi síðari hluta sunnudagsins, en þá var hér logn að heita.
Dagana 8. til 11. fór mjög djúp lægð (um 950 hPa) til norðurs fyrir austan land og kom síðan upp að norðausturströndinni og grynntist þar. Þyngdist nú færð norðanlands. Tíminn segir frá 11.janúar:
Fréttaritari Tímans á Akureyri tjáði blaðinu í gær, að loftvog hefði staðið óvenju illa þar um slóðir undanfarið, eiginlega fyrir neðan öll merki og á sama tíma hefði Veðurstofan reynt að koma þar á stórhríð [svo]. Í gær voru horfur á að það ætlaði að takast, því þá var komin stórhríð út með Eyjafirði og veður að versna inni á Akureyri. Færðin er óðum að þyngjast þar nyrðra. Áætlunarbíllinn fór í fyrradag frá Akureyri, og var þá þungt færi í Öxnadal og á Holtavörðuheiði. Trukkfært er til Dalvíkur, og í fyrradag kom bíll frá Húsavík til Akureyrar; hafði hann farið um Dalsmynni og var sjö tíma á leiðinni. Tíminn hafði samband við Vegamálaskrifstofuna í gær, og spurðist fyrir um færð um landið. Fært er frá Reyðarfirði upp á Hérað og um Héraðið, en Oddskarð er lokað. Í fyrradag var bylur á Snæfellsnesi. Tveir bílar reyndu að fara yfir Fróðárheiði, en urðu að snúa við, og svo var kófið mikið, að ganga varð fyrir bílunum niður að Vegamótum. Í gærmorgun fór annar bíllinn yfir Fróðárheiði í fylgd með jarðýtu og gekk allvel, en hinn bíllinn fór fyrir jökul og fylgdi honum bíll með ýtutönn. Eina fyrirstaðan, sem vitað var um á þeirri leið var hjá Beruvík, en þar er vegurinn niðurgrafinn og fullur af snjó Búlandshöfðavegurinn var einnig ófær í gær, en á honum voru mest smáhöft og stóð helst á því að engin verkfæri voru tiltæk til að ryðja leið. Í gær tilkynnti vegamálastjóri, að ákveðið væri að aðstoða bíla á Akureyrarleiðinni aðeins tvo daga í viku, þegar ófærð er, en það er á þriðjudögum og föstudögum. Er þetta gert í samráði við sérleyfishafa á þessari leið og umferðadeild Póststofunnar.
Íslendingur á Akureyri segir frá slysi í Grímsey í frétt 12. janúar:
Síðdegis s.l. þriðjudag [9.] varð það slys í Grímsey, að Jóhannes Magnússon féll ofan af þaki gripahúss, við heimili sitt að Sveinagörðum, og mun hafa meiðst all-mikið.
Morgunblaðið segir einnig af erfiðleikum í samgöngum og símasambandi. 11.janúar:
Símasambandslaust hefur verið við Vestfirði frá aðfaranótt sunnudags [7.], en ísing og veður hafa slitið niður mikið af símalínum vestra. Er unnið að viðgerð um eftir föngum og er búist við að símasamband við Ísafjörð komist á í dag. Radíó og skeytasamband hefur þó verið við Vestfirði. Viðgerðarmenn hafa unnið við símalínurnar eftir því sem veður hefur leyft en þeir hafa þó ekki komist út alla daga vegna hríðarveðurs. Á þriðjudagskvöldið og aðfaranótt þriðjudags [9.] kom enn ísing og sleit hún niður töluvert af því sem búið var að gera við. Hamlar það m.a. viðgerðum að rafmagnslínur hafa einnig slitnað á nokkrum stöðum og ekki hefur verið mannafli til þess að gera við hvorttveggja í einu. Í fyrrinótt slitnaði símalína niður á löngum kafla í Svínadal, en gert var við það í gær. Þá slitnaði mikið af línu frá jarðsímanum, sem liggur yfir Bitruháls og alla leið á Óspakseyri. Landsímasamband er komið á frá Ísafirði alla leið að jarðsímanum að Bitruhálsi, en ekki lengra. Var búist við að unnt yrði að gera við það, sem eftir var af bilunum í dag, kemst Ísafjörður þá aftur í landssímasamband. Í Reykhólasveit hefur mikið slitnað af símalínum, og mikið er slitið frá Króksfjarðarnesi að Þorskafirði. Allar leiðir eru ófærar til Reykhólasveitar og ekki hægt að senda viðgerðarmenn, nema hægt verði að fá Björn Pálsson til að fljúga með þá þangað.
Morgunblaðið segir fréttir að vestan 12.janúar:
Ísafirði, [fimmtudag] 11. janúar Norðaustan hríðarveður hefur verið hér síðan fyrir helgi og eru götur í bænum orðnar þungfærar bílum. Vegna veðursins hafa legið hér fimm togarar, 3 enskir og 2 íslenskir, Elliði og Norðlendingur. Ekkert símasamband hefur verið héðan nema við nærliggjandi sveitir. Nokkrar rafmagnstruflanir hafa orðið vegna veðurs. Rafmagnslínan frá Mjólkárvirkjun slitnaði og hefur bærinn og Eyrarhreppur haft rafmagn undanfarna daga frá rafstöðinni í Engidal. Aðfaranótt sunnudags slitnaði mótorbáturinn Trausti upp af legunni í Súðavík og rak upp í fjöru. Vélbáturinn Straumnes frá Ísafirði fór inn eftir á sunnudag og tókst að draga Trausta á flot og kom síðan með hann til Ísafjarðar. Vélbáturinn Trausti, sem er um 40 lesta bátur, er nú í slipp á Ísafirði. Reyndust þrír plankar brotnir í annarri síðunni. Á þriðjudagskvöldið sökk vélbáturinn Freyja II frá Súgandafirði i bátahöfninni hér á Ísafirði. Menn sem voru á ferli um höfnina kl.7 um kvöldið urðu ekki varir við neitt athugavert við bátinn, en kl. 10 um kvöldið var Freyja II sokkin og sá aðeins á masturstoppana. Álitið er að botnlokar hafi bilað. Freyja II er nýlegur 37 lesta bátur. Hafði hann legið hér í höfninni undanfarna tvo mánuði. A.K.S
Morgunblaðið segir enn af sjógangi 13.janúar:
Gjögri, Ströndum, 12. janúar S.l. laugardagskvöld [6. janúar] gerði austnorðaustan hvassviðri með miklum sjógangi og aftakaveðri í háflæðið. Talsverðar skemmdir urðu á söltunarplani hjá h.f. Djúpavík. Braut sjórinn upp um hálfs meters bil milli plans og uppfyllingar meðfram endilöngu planinu og flæddi upp að síldarverksmiðjunum. Bátar, sem settir höfðu verið hátt á land í Djúpavík, sakaði ekki þrátt fyrir að sjór gengi upp fyrir þá. Þó geta meiri skemmdir komið í ljós þegar snjó leysir, því geysiþykkt snjólag liggur á planinu og á bryggjunum í Djúpavík, Svo mikill snjór er nú í Djúpavík, að illfært er á milli húsa. Veðrið lægði mikið í fyrrinótt og var sæmilegt í gær. Regína.
Dagana 12. til 14. kom önnur mjög djúp lægð norður um Bretlandseyjar og grynntist síðan fyrir austan land. Þann 13. gekk austanveður yfir norður- og norðausturströndina. Morgunblaðið segir frá 14.janúar:
Skagaströnd 13. janúar. Norðaustan rok með þíðviðri var hér í nótt og fram eftir degi. Í veðri þessu fauk skúr hér i kauptúninu og lenti brak úr honum á rafmagnslínu og brotnuðu við það tveir staurar. Varð nokkur hluti staðarins rafmagnslaus. Mennt frá Rafmagnsveitum ríkisins hafa í dag unnið við að koma þessu í lag og var búist við að því verði lokið seint í nótt. ... Þórður
Tjón varð einnig á Vopnafirði. Morgunblaðið 16.janúar:
Vopnafirði, 15. janúar. Aðfaranótt laugardags s.l. [13.] gerði aftaka austanveður með stórbrimi. Í ofviðrinu eyðilögðust 150 fermetrar af síldarplani þeirra bræðranna Aðalsteins og Sveins Sigurðssona. Þetta gerðist á þann hátt, að brimið braut og velti um koll 9 metra löngum steypugarði, sem var sjávarmegin við timburplanið. Þá brotnaði timburplanið, og rak töluvert úr því á fjörur inn með firðinum. Þeir bræður hafa þarna orðið fyrir 80100 þúsund króna tjóni Þetta er mjög tilfinnanlegt tjón fyrir þá, ekki síst þar sem athafnaplássið var í minnsta lagi til söltunar, enda voru þeir búnir að ákveða að stækka planið fyrir næstu vertíð. Þrátt fyrir þetta tjón eru bræðurnir ákveðnir í að endurbyggja og stækka söltunarplanið, ef þeir geta fengið nauðsynleg peningalán til þess. Þess má geta, að þeir Aðalsteinn og Sveinn eru sérstaklega áhugasamir og duglegir menn, sem hafa af eigin rammleik byggt upp þessa söltunarstöð. Í henni hefur verið saltað 2530 þús. tunnur á þeim fáu árum, sem hún hefur verið starfrækt, og þar með bjargað milljónum verðmæta í þjóðarbúið og stóraukið atvinnu í þorpinu. Ennfremur tók út árabát í ofviðrinu, sem brotnaði í spón. Sigurjón
Mikill stormur hefur geisað í Vestmannaeyjum undanfarna daga, og í gær var enn, hvassvirði þar. Á sunnudag var stólparok allan daginn, og um kl. tíu að kvöldi var komið ofsaveður. Þá fór veðurhæðin upp í 14 vindstig. Sjómenn hafa hugað að bátum sínum í höfninni, en ekki er vitað um neinar skemmdir á þeim né á mannvirkjum í landi, nema nokkrar járnplötur munu hafa fokið af skúrum. Herðubreið átti að fara frá Vestmannaeyjum á sunnudag, en var þar enn veðurteppt í gær.
Gríðarlega djúp og kröpp lægð var fyrir sunnan land þann 14. til 16. Endurgreiningar segja þrýsting í lægðarmiðju hafa farið niður fyrir 935 hPa. Ekki varð mikið rof milli þessara þriggja djúpu lægða. Síðasta lægðin var þó á suðlægari braut heldur en hinar tvær.
Kortið sýnir stöðuna (japanska endurgreiningin) að morgni 16. janúar, þá var lægðin örlítið farin að grynnast en veðrið í hámarki hér á landi. Einna verst varð veðrið undir vestanverðum Öræfajökli. Í tímaritinu Veðrinu, 2. hefti 1963 má lesa bréf þar sem afleiðingum þess í Svínafelli er lýst.
Morgunblaðið heldur áfram illviðralýsingu 17.janúar:
Akureyri, 16. janúar Í dag hefur verið slæmt veður á Norðurlandi. Ekki er vitað, að það hafi valdið tjóni, en nokkrir bátar frá Eyjafjarðarhöfnum, sem lagðir voru af stað til Suðurlands á vertíð hafa snúið við, og liggja sumir þeirra hér í Akureyrarhöfn. Norðanstormurinn og snjókoman hafa aukist mjög síðari hluta dagsins, og má nú segja, að hér sé iðulaus norðanstórhríð. Þung færð mun vera sums staðar á Brekkunum. Öxnadalsheiði er með öllu ófær, og einnig vegirnir austur frá Akureyri. Bílar komu frá Dalvík í dag. St.E. Sig.
Tíminn segir frá sama dag, 17.janúar:
Frá fréttaritara Tímans í Stykkishólmi, 16. janúar. Klukkan 8:45 í morgun strandaði M.s. Skjaldbreið á Lágaboða, um 23 mílur út af Bjarnareyjum. Veður var vont, norðaustan hvassviðri og illt í sjóinn, en Lágiboði er að mestu á kafi, a.m.k. um flóð. Strax og fréttist um strandið fór Flóabáturinn Baldur á vettvang og skömmu síðar v.b. Svanur, SH 111. Þegar þeir komu á vettvang um klukkan 11 var Skjaldbreið laus af boðanum og lá fyrir akkeri, og hafði þá þrjá gúmmíbáta rekið frá skipinu með 9 menn.
Tíminn segir frekari fréttir af strandi Skjaldbreiðar 18.janúar og af roki undan Austfjörðum:
Um klukkan 9 í gærmorgun lagði varðskipið Þór af stað til Stykkishólms með Skjaldbreið í togi. Veður hafði þá lægt nokkuð, svo að hætt var á að reyna þetta. Ferðin gekk vel, og komu skipin til Stykkishólms rétt um hádegisbilið í gær. Rétt utan hafnarinnar í Stykkishólmi við Súgandey, tók Þór Skjaldbreið á síðuna, og fóru þá farþegarnir tveir, Sveinn Jónsson frá Flatey og Kristbjörg Kristófersdóttir frá Djúpavogi, yfir í varðskipið, en síðan var förinni haldið áfram inn í höfnina, þar sem hafið var að dæla úr skipinu og kafari fenginn til að kanna skemmdirnar.
Neskaupstaður, 17. janúar. Mikið rok hefur verið fyrir austan land að undanförnu, Og hafa fimm enskir togarar leitað inn til Neskaupstaðar vegna veðurs en engin spjöll hafa þó orðið á mannvirkjum.
Veðrið þann 14 til 16. varð verst syðst á landinu. Tíminn segir fyrst frá 19.janúar:
Skógaskóla, 17. janúar Versta veður hefur verið austur undir Eyjafjöllum síðan um helgina, vindur á norðan og norðaustan með slyddu og síðan snjókomu. Frost var heldur lítið til að byrja með, en hefur farið vaxandi. Símasambandslaust var til Víkur og Skógarskóla frá því á sunnudag [14.] fram á miðvikudagskvöld. Símastaurar hafa víða brotnað, m.a. brotnuðu 15 staurar austan Klifanda, en nú er unnið við viðgerð á línunni. Einnig varð rafmagnslaust undir Vestur-Eyjafjöllum fram á þriðjudag. Þakplötur hafa fokið af nokkrum húsum í óveðri þessu, og sums staðar brotnuðu rúður vegna steinkasts.
Morgunblaðið segir frá 19.janúar:
Vík, 18. janúar. Í byrjun vikunnar gekk yfir ofsaveður hér. Á laugardag [13.] var tekið allmikið að hvessa og rigndi talsvert. Stormurinn fór vaxandi á sunnudag [14.], og þá kólnaði og undir kvöld tók að snjóa. Seint um kvöldið var komið ofsaveður með mikilli snjókomu. Á mánudagsmorgun voru komnir skaflar um allt þorpið og vegir frá því ófærir með öllu. Einnig var rafmagnslaust í hluta af þorpinu lengst af á mánudaginn. Skóli féll niður þann dag, enda varla komandi út fyrir veðri. Nokkrar járnplötur fuku af einu húsi í þorpinu og bilanir urðu á rafmagnsheimtaugum í tveimur húsum. Þá slitnaði víða niður útvarpsloftnet. Strax á þriðjudag [16.] tók veðrið að ganga niður og í gær ]17.] var komið gott veður. Þjóðvegurinn út í Mýrdal var ruddur strax á þriðjudag, en ennþá er ófært austur Mýdalssand nema á trukkum með tvöföldu drifi. Í óveðrinu urðu miklar skemmdir á símalínum. Munu að minnsta kosti 30 símastaurar hafa brotnað í Mýrdal. Í gær, miðvikudag, hafði bráðabirgðaviðgerð farið fram, en fullnaðarviðgerð mun taka nokkurn tíma. Símasambandslaust er austur yfir Mýrdalssand og bilunin ófundin enn. Hér er nú mjög vetrarlegt um að litast. girðingar víða á kafi í snjó, og skaflar á annan meter á þykkt. Ekki mun snjókoman hafa náð yfir nema austurhluta Mýrdalsins og austur á Mýrdalssand. Jónas.
Morgunblaðið segir frá óhappi á Reynisfjalli í pistli 20.janúar:
Vík 18.janúar. Á mánudag [15.] fauk jeppi með tveimur mönnum í út af veginum uppi á Reynisfjalli. Starfsmenn við lóranstöðina þar hafa vaktaskipti kl. eitt á daginn. Venjan er að hafa jeppabíl staðsettan uppi á fjallinu á veturna en þegar vegurinn upp á fjallið teppist þurfa starfsmennirnir að ganga upp, en þeir eru síðan sóttir í jeppanum og fluttir til stöðvarinnar fremst á fjallinu. Í mesta ofsanum á mánudag áttu vaktaskipti að fara fram. Fóru menn þá gangandi upp fjallið og voru sóttir fram á brún. Er jeppinn var að aka fram hjá svonefndum Hraunhól, þar sem stuttbylgjustöð fyrir þráðlausa símann er staðsett, kom snögg vindhviða og svipti bílnum út af veginum. Mennirnir tveir, sem í bílnum voru, meiddust mjög lítið en mesta mildi var að ekki varð stórslys, því að þarna er allbrött brekka niður frá veginum. Urðu mennirnir síðan að fara gangandi fram fjallið, hina mestu glæfraför, enda urðu þeir oft að skríða á fjórum fótum til að komast áfram. Þótt þetta sé með verstu veðrum, getur oft verið hvasst á Reynisfjalli og erfitt að komast fram í stöðina. Hefur því verið lögð líflína á kafla fram fjallið, sverir staurar eru reknir niður með jöfnu millibili, og vír strengdur á milli þeirra. Hefur þessi lína oft komið sér vel fyrir starfsmennina.
Tíminn segir af tjóni í Öræfum í sama veðri í pistli 23.janúar:
Fagurhólsmýri, 22. janúar. Nóttina milli 16. og 17. janúar gerði ofsarok, og urðu spjöll á hlöðum við beitarhús frá Svínafelli, sem eru um 34 kílómetra frá bænum. Þar var svo hvasst, að steinar, allt að kvartkíló á þyngd, þutu um loftið og gegnum bárujárn á hlöðunum eins og skot. Veðrið var að því leyti skárra heima á Svínafelli, að þar fauk ekki grjót. SA
Tíminn segir 25.janúar af erfiðum samgöngum nyrðra í bréfi - og síðan að erfiðri færð víðar:
(Úr Akureyrarbréfi Ingvars Gíslasonar) Akureyri 19. janúar Tíðin hefur verið heldur rysjótt að undanförnu. Að vísu er nú komið bjartviðri, 1213 stiga frost og stilla. En fram að þessu hefur hríðað talsvert; flugsamgöngur verið ótryggar og samgöngur á landi víða erfiðar. Vaðlaheiði er ófær og Dalsmynnisleiðin er talin hættuleg vegna líklegra snjóflóða. Er er nú algerlega samgöngulaust um Öxnadalsheiði og ekki um neina flutninga að ræða á vörum eða fólki landleiðina milli Akureyrar og Reykjavíkur. Gæftir hafa verið slæmar við Eyjafjörð síðan um nýár og því lítið sem ekkert róið enn þá, þótt viðbúnaður sé óvenjumikill í flest um sjávarplássum við Eyjafjörð. Yfirleitt hefur verið ærið misviðrasamt í haust og það sem af er vetri. Fárviðri gekk yfir Norðurland í lok nóvembermánaðar og olli miklum skemmdum, einkum við utanverðan Eyjafjörð og víðar. Í mörgum sveitum hér nærlendis mun sumarið sem leið, hafa verið talið með hinum lakari í mörg ár vegna erfiðrar heyskapartíðar. Einkum var örðugt hjá þeim bændum, sem ekki hafa súgþurrkun. Munu því víða léleg hey til gjafar í vetur.
Reynihlíð, 23. jan. Fréttaritari blaðsins í Reynihlíð símar, að þar sé mikil ófærð og allar skepnur inni. Enginn bíll hefur komið til Reynihlíðar síðan á föstudag, en þá kom þangað trukkur með póst og annan flutning, og hefur hann ekki farið þaðan síðan. Ekki er hægt að fara neitt nema á snjóbíl, og mun hann verða notaður, þegar flytja þarf mjólk og póst á næstunni. Tíu stiga frost var í Reynihlíð í dag. PJ.
Í gærmorgun var orðinn mikill snjór á Hellisheiði, en unnið var að því í gær að ryðja heiðina, og var hún orðin fær flestum bílum í gærkvöldi. Þar var plógbíll að hjálpa bílum, ef með þyrfti í gær. Suðurlandsvegur var fær frá Reykjavík austur að Steinum undir Eyjafjöllum, og sömuleiðis komust bílar óhindrað um uppsveitir Árnes- og Rangárvallasýslu. Hins vegar hafði snjóað mikið í Vík í Mýrdal og í Vestur-Skaftafellssýslu, og var mjólkurbíll t.d. 7 tíma á leiðinni frá Vik að Steinum undir Eyjafjöllum í gær. Á Selvogsveginum var nokkur snjór í gærmorgun, en hann var ruddur í gær. Krísuvíkurvegurinn hefur ekki verið farinn upp á síðkastið, svo að vitað sé. Suðurnesjavegurinn mun fær alla leið til Keflavíkur. Vesturlandsvegur er fær fyrir Hvalfjörð um Borgarfjörð og vestur í Dali og Brattabrekka fær. Á Snæfellsnesi hafði fennt mikið í gærmorgun, en áætlunarbíll kom yfir Fróðárheiði frá Ólafsvík og aðrir bílar fóru sömu leið skömmu síðar. Einnig kom áætlunarbíll frá Hólmavík til Reykjavíkur í gær. Norðurlandsvegurinn er fær um Holtavörðuheiði á Blönduós, en þæfingsfærð er í Langadal og á Vatnsskarði. Innanhéraðs í Skagafirði er stórum bílum fært eftir því, sem best er vitað.
Í janúar og febrúar varð fjöldi slysa á sjó, allmargir menn fórust, en stundum tókst björgun giftusamlega. Sjólag var greinilega mjög erfitt og hafnaraðstaða sömuleiðis nokkuð frumstæð eftir því sem nú er algengast. Tíminn segir 26.janúar af einu slíku óhappi.
Þegar við komum til Grindavíkur í gær, lá Viktoría, RE 135, á annarri síðunni í stórgrýttri sandfjörunni í Járngerðarstaðahverfi, en á þeim slóðum strandaði hún í aftaka brimi og ofsaveðri, sem gekk yfir Grindavík í fyrrinótt. Sex manna áhöfn skipsins bjargaðist í land á gúmmíbát, en björgunarsveitin í Grindavík var þá einnig komin á staðinn. (innsiglingarljós voru biluð).
Síðustu viku mánaðarins gekk hver lægðin á fætur annarri til norðausturs fyrir vestan land eða í námunda við það. Skiptust á sunnan- og suðaustanveður og hvass útsynningur.
Morgunblaðið segir frá 30.janúar:
Vík, Mýrdal, 26. janúar. Aðfaranótt föstudags [26.] gekk á með hvössum éljum af vestri með miklum ljósagangi hér í Mýrdal. Í Vík varð veðursins lítt vart, þótt ljósagangur væri allmikill, en á Lóranstöðinni á Reynisfjalli varð i hins vegar versta veður í éljunum. Um klukkan 5:30 um morguninn sló eldingu niður í loftnet stuttbylgjustöðvarinnar á Hraunhól. Rofnaði þá allt samband á þráðlausa símanum. Gert var við þessa bilun strax um morguninn. Um klukkan 11 f.h. gerði aftur snarpt él, og sló aftur niður eldingu í sama loftnet og sambandið rofnaði á ný. Þegar veður lægði um hádegið, var strax gert við stöðina. Svona éljagangur með þrumuveðri er ekki nýtt fyrirbæri á Reynisfjalli, því að slík veður koma oft að vetrarlagi. Engar skemmdir urðu á sjálfri lóranstöðinni.
Ólafsfirði, 26. janúar. Hér hafa verið miklar ógæftir í janúar, en þó hefur gefið þessa viku og hefur afli verið upp í sex tonn. Er það tregara en í fyrra um þetta leyti og gæftir miklu lakari. Héðan eru gerðir út fjórir stórir bátar, frá 60 og upp í 150 tonn og sex minni þilfarsbátar, en auk þess nokkrar trillur. Hér eru allar samgöngur tepptar á landi og fara allir flutningar fram á hestum, sleðum eða beltisdráttarvélum. Jakob
Í fyrrinótt var mikil rigning víðsvegar um land og urðu nokkrar skemmdir á vegum af þeim sökum að því er vegamálastjóri tjáði blaðinu í gær. Skriður féllu á nýja veginn á Búlandshöfðanum á Snæfellsnesi og var unnið að því að hreinsa hann í gær. Hjá Varmahlíð undir Eyjafjöllum flæddi yfir veginn og var þar aðeins fært stórum bílum, og var veginum lokað síðdegis í gær. Þá fór Hverfisfljótið í Fljótshverfi austan við brúna, eins og jafnan verður í ísruðningum, og var þar ófært bílum. Á ýmsum öðrum stöðum rann úr vegum, en ekki svo að umferð tepptist. Snjór hefur minnkað nokkuð í Öxnadalnum, en þar hefur verið ófært bifreiðum að undanförnu, og var í gær verið að athuga hvort nú væri ekki tiltækilegt að ryðja veginn. Annars er fært frá Reykjavík norður í Skagafjörð. Afarmikill snjór hefur verið á Austurlandi og vegir þar mikið lokaðir.
Tíminn segir af sjóslysi í pistli 31.janúar:
Klukkan hálf átta í gærmorgun [30.] varð það slys í Látraröst, að vélskipið Særún fékk á sig brotsjó, sem braut af henni brúna og tók hana út með þrem mönnum sem í henni voru og öllum tækjum.
Í október 1961 varð allmikið eldgos í Öskju. Því lauk síðan í nóvember. Stöku sinnum um veturinn þóttust menn sjá til elds þar. Nú er talið heldur ólíklegt að um slíkt hafi verið að ræða - þó auðvitað ekki alveg útilokað. Hér er ein slík frétt, birtist í Tímanum 31.janúar og segir síðan af ófærð sem talin væri fullkomlega óviðunandi nú á dögum:
Pétur Jónsson í Reynihlíð, fréttaritari Tímans í Mývatnssveit hringdi eftirfarandi til blaðsins í gærkveldi [30.] Ég skrapp í dag fram í sveit og sá þá vel fram til Dyngjufjalla. Þar var mikill mökkur, þykkur og stóð hátt yfir fjöll og stirndi á hann í sólskininu. Þetta sáu margir menn en þótt vel hafi viðrað að undanförnu hefur ekkert sést úr þessari átt. Var ekki annað að sjá en Askja væri byrjuð aftur að gjósa af fullum krafti. Þessi tíðindi frá fréttaritara vorum koma svo sem ekki á óvart, þegar fyrri tíma saga Öskju er höfð í huga. Hitt er ekki vitað á þessu stigi málsins, hvort þarna er um að ræða hraungos, eins og í hið fyrra sinnið, eða vikurgos, en fyrir slíkt gos er hún frægust og þann veg olli hún mestum spjöllum seint á nítjándu öld. Tíminn sneri sér til Sigurðar Þórarinssonar, og færði honum fyrstu fréttirnar af þessu nýja gosi. Af frásögn sjónarvotta í gær varð ekkert ráðið um eðli gossins, en það mun hafa komið upp í líkan mund og Pétur tók eftir mekkinum. Þegar mökkurinn reis sem hæst fyrr í vetur, náði hann allt að sjö þúsund metra hæð. Sigurður sagði, að líkur væru til að þarna væri um áframhaldandi hraungos að ræða, en slíkum gosum gaus hún sjö sinnum á árunum 192030.
Akureyri, 30. janúar. Ófært hefur verið yfir Öxnadalsheiði í hálfa þriðju viku, en nú verður farið að ryðja veginn. Brotist var til Akureyrar frá Húsavík í dag, og tók sú ferð 12 klukkutíma og var þó farin með hjálp veghefils. Venjulega er þessi leið farin á tveimur tímum. Vegir til Dalvíkur, Svalbarðsstrandar og Grýtubakkahrepps eru færir, svo að segja má að færð sé góð innan sveitar. ED
Tíminn heldur áfram með Öskjufréttir 1.febrúar - ekkert gos var þar:
Það fór betur en á horfðist með Öskju. í gær flaug Sigurður Þórarinsson ásamt Birni Pálssyni yfir gömlu eldstöðvarnar og sáu þeir enga hræringu í þeim. Mun hafa verið um missýn að ræða í fyrradag, en þá þótti fólki í Mývatnssveit sem mikill mökkur væri yfir Öskju. Svo vildi til í gær, að Björn Pálsson hafði verið beðinn að fljúga til Þórshafnar, og þar sem flugleiðin þangað liggur beint yfir Öskju, tók Sigurður Þórarinsson sér far með vélinni til að líta á eldstöðvarnar. Hann sagði Tímanum í gærkvöldi, að snjór væri yfir þeim og allt niður í gígbotnana, sem virðast hafa kólnað skjótt. Stöku augu væru auð í hrauninu enn, en annars ekkert markvert að sjá. Á þessum slóðum væri mikið um hnyklaský (cumulus), og hefðu þau hæglega getað villt mönnum sýn, enda dökk undan sól að sjá. Flugvél frá FÍ var á leið frá Egilsstöðum um sex leytið í fyrradag, og voru þá einmitt slík ský yfir Öskju.
Morgunblaðið segir einnig af ófærð 1.febrúar:
Nokkur snjókoma hefur verið hér sunnan lands s.l. sólarhring svo vegir tepptust til Reykjavíkur í gærdag eða voru um það bil að teppast. T.d. var Hellisheiði svo til ófær stórum bílum síðdegis í gær og algjörlega minni bílum. Morgunblaðið hafði í gær samband við Vegamálaskrifstofuna, og tjáði Kristján Guðmundsson birgðavörður blaðinu, að Hellisheiði væri þá að lokast stærri bílum, en hefði um morguninn verið orðin ófær öllum minni bílum. Þó myndu mjólkurbílar reyna að brjótast yfir hana og hefðu lagt á heiðina einhvern tíma um daginn, enn ekkert hefði frést af því, hvernig þeim gengi.
Á Keflavíkurflugvelli hefur verið suðvestanéljagangur og skafhríð í allan dag og vindur komst í éljaganginum allt upp í 1012 vindstig. Tvær flotaflugvélar, sem lentu um eftirmiðdaginn, hafa tafist úti á flugbrautum vegna hálku og veðurhæðar. Er ekki talið fært að aka þeim inn á flugvélastæði fyrr en veðrinu slotar. Áætlunarflugvél Loftleiða frá Noregi sneri til Prestwick eftir um hálfrar stundar flug til Keflavíkurflugvallar. Áætlunarflugvél Pan American beið hins vegar í Prestwick. Flugvöllurinn hefur alveg lokast í éljunum, en verið sæmilega bjart á milli. Keflavíkurútvarpið tilkynnti í kvöld, að barnaskólinn yrði ekki starfræktur á morgun. Sem dæmi um veðurhæðina má geta þess að 50 manna rútubíll, sem var á leið upp á flugvöll frá Keflavík um fimmleytið í dag, fauk út af veginum, skammt fyrir neðan aðalhliðið að vellinum, og myndaði níutíu gráða horn við veginn. En hann var á keðjum og komst upp á veginn aftur. BÞ
Mjög umhleypingasamt var mestallan febrúar, en seint í mánuðinum urðu mikil umskipti. Um þau umskipti var fjallað í sérstökum pistli hungurdiska. Þar má finna fáein veðurkort og almenna umsögn. Óróinn til sjávarins hélt áfram. Morgunblaðið segir frá 2.febrúar:
Akranesi 2. febrúar. Svo mikið brim og hvítfyssandi brotsjóir eru inn allan Borgarfjörð, en hann er vestan og stendur upp á fjörðinn, að þá er Akraborg, sem átti að fara í Borgarnes laust eftir hádegið í dag, hafði stímað inn fjörðinn í þrjá stundarfjórðunga, sneri skipið aftur og lónaði síðan hér fyrir utan þangað til á áætlunartímanum 18:45, að hún lagðist að hafnagarðinum. Oddur.
Þann 3. gekk mjög kröpp lægð til norðausturs við Suðausturland og olli sköðum. Kortið sýnir tillögu japönsku endurgreiningarinnar um hádegi þennan dag (ekki kl.6 eins og misritast hefur í texta). Lægðin er þá um 945 hPa í lægðarmiðju. Hún kom á miklum hraða úr vestsuðvestri og sveigði til norðausturs undan Austurlandi. Þrýstingur á veðurstöð fór lægst niður í 952,8 hPa, á Hólum í Hornafirði. Símasambandslaust varð við Austfirði. Tíminn segir frá 4.febrúar:
Sambandslaust var við Austfirði í gær, og með öllu óvíst, hvenær sambandið kæmist á aftur. Fulltrúi Landssímans skýrði blaðinu frá því, að radíósambandið milli Víkur og Flögu væri bilað, og hefði veðurofsinn verið svo mikill í Vík í gærmorgun, að ekki hefði verið hægt að senda út menn til þess að athuga bilunina. Talið er, að þrumuveður það, sem fór yfir suðausturland aðfaranótt laugardags, hafi valdið biluninni. Símalínan til Austfjarða liggur gegnum Vík í Mýrdal, svo að sambandslaust verður, þar til hægt verður að gera við þessa bilun þar.
Skógaskóla, 3.febrúar. Í nótt var hér stórhríð og þrumuveður. Ekki er þó orðið ófært um sveitina, en heldur er þungfært. Veturinn í vetur hefur verið með harðasta móti og gamalt fólk undir Eyjafjöllum segist vart muna slík harðindi. Sauðfé hefur allt verið á gjöf síðan löngu fyrir jól, en það er ekki mjög óvanalegt, því að enda þótt ekki liggi snjór yfir öllu eins og og oft hefur verið í vetur, er haglítið, þar eð bændur hafa ekki aðgang að fjalllendi fyrir fénað sinn. Fréttaritari blaðsins í Vík símaði um hádegi í dag, að um kl.8 í morgun hafi byrjað að snjóa þar mikið, en stytt hafi svo upp um 10-leytið, og síðan gengið á með éljum. Mjólkurbílarnir, sem fóru frá Vík í morgun, komust ekki lengra en til Skarðshlíðar og eru þar. Radíóstöðin á Reynisfjalli bilaði í nótt, og er nú sambandslaust við Hornafjörð og Vestmannaeyjar J.H.
Þegar blaðið átti tal við Vegamálaskrifstofuna í gær og spurðist fyrir um færðina, var því tjáð, að hér sunnanlands hefði snjóað mikið í fyrrinótt, þungfært væri orðið víða í Rangárvallasýslu og Hellisheiði væri að lokast.
En fréttir bárust síðan að austan. Morgunblaðið 6.febrúar:
Í Neskaupstað 3.febrúar. Upp úr hádeginu í dag gerði hér vestan norðvestan fárviðri og olli það talsverðum skemmdum. Mb. Reynir, sem er 35 lestir, rak á land, er legufærin slitnuðu. Skemmdir eru ókannaðar. Trilla mölbrotnaði, nótabátur fauk, rúður brotnuðu í allmörgum húsum, járn fauk af húsum, raftaugar slitnuðu og staurar brotnuðu. Veðrinu slotaði um hálf fimm leytið. Er þetta mesta hvassviðri, sem hér hefur komið í allmörg ár. Fréttaritari.
Tíminn segir 6.febrúar af gæftaleysi:
Ástandið í verstöðvum sunnan lands er nú orðið mjög slæmt sökum hins langa gæftaleysis, en landlegudagar eru víðast hvar orðnir 12. Mikið er um aðkomufólk í verstöðvunum, og kemur atvinnuleysið ekki hvað síst hart niður á því.
Enn ein lægðin fór hjá 7. til 8. febrúar og síðan fór kröpp lægð til austurs með suðurströndinni þann 11. Sá dagur er ritstjóra hungurdiska minnisstæður vegna austanblindhríðar í Borgarnesi er slíkt óvenjulegt þar um slóðir. Hríðin stóð að vísu ekki lengi. - Vísir 8.febrúar:
Í gærkvöldi gerði snarvitlaust veður á Hellisheiði, með mikilli fannkomu og skafhríð. Einnig var slæmt veður hér fyrir ofan Lækjarbotna og lentu bílar þar á kaf í fönn og sátu fastir langt fram á nótt. Óli J. Ólason í Skíðaskálanum sagði í morgun, að austur á Hellisheiði myndu 12 bílar hafa orðið fastir. Fólkið í þeim varð að láta fyrirberast í bílunum klukkustundum saman. Munu vegagerðarmenn á snjóýtum hafa brotist gegnum skafla og hríð með alla bilalestina í nótt og komist yfir milli kl. 4:30 og 5 í morgun.
Tíminn segir frá 10.febrúar:
Um kl. 4 í fyrradag [8.] féllu snjóskriður yfir veginn í Hvalfirði beggja vegna við Staupastein. Vegheflar voru staddir þarna innfrá og fóru strax að ryðja veginn, og voru að því fram á kvöld. Þeir bílar, sem fóru yfir Holtavörðuheiði snemma í gærmorgun [9.], komust greiðlega áfram, en er líða tók á daginn, var færð orðin nokkuð erfið, sérstaklega norðan til. Nokkrar skemmdir urðu á vegum sunnanlands fyrr í í vikunni vegna þíðunnar, sem þá gerði, en unnið var að viðgerð, og henni lokið í fyrradag, og er nú aftur komið frost og snjór. Hellisheiði var ófær smáum bílum í gær.
Tíminn segir af illu veðri og síðan sjóslysi 11.febrúar:
Á fimmtudaginn [8.] gerði suðvestan kalsaveður hér í Reykjavík og víða í nágrenninu, og hefur það haldist síðan. Í gær var éljagangur um nær allt landið nema austan til. Í gærmorgun mældust 9 vindstig í Reykjavík, á Keflavíkurflugvelli, Eyrarbakka og Stórhöfða í Vestmannaeyjum, samkvæmt upplýsingum Veðurstofunnar. Í gær birtist í hádegisútvarpinu tilkynning frá fræðslustjóranum í Reykjavík, þar sem því var beint til foreldra að senda ekki börn sín í skóla eftir hádegið, nema þau yrðu sótt þangað aftur. Enn fremur var lesin upp tilkynning frá Austurbæjarskólanum um, að kennsla félli niður eftir hádegið vegna veðurs. Þegar blaðið | hafði samband við Veðurstofuna um tvöleytið í gær, var talið, að búast mætti við svipuðum éljagangi og vinstyrk það sem eftir var dagsins. Þegar spurst var fyrir hjá vegagerðinni í gær, var verið að ryðja Suðurlandsveginn upp frá Reykjavík. Krýsuvíkurleiðin var þá fær og Hvalfjarðarleiðin var það einnig í gærmorgun. Rokið og éljagangurinn nær yfir svæðið frá Hvarfi og langt suður í haf, en áttin er suðvestan. Klukkan átta í gærmorgun var Gullfoss staddur skammt suður af Reykjanesi í 10 vindstigum, er. veðurskip, sem þá var statt um 600 km. suður af landinu mældi einnig 10 vindstig. Milli Hvarfs og Íslands var mjög hvasst í gærmorgun, og veðurskip, sem þar var statt þá kl. 9, mældi 11 vindstig. Veðurfræðingar töldu í gær, að veðrið gengi niður í nótt og snerist til sunnanáttar, en þá var lægð yfir Nýfundnalandi. Kl. 2:30 í gær var orðið fært upp í Skíðaskála, en Hellisheiði annars lokuð. Reykjanesbraut mun þá hafa verið nokkurn veginn auð, svo og Vesturlandsvegur fyrir Hvalfjörð, en Brattabrekka var þá talin lokuð og Holtavörðuheiði sömuleiðis, en þar var orðið þungfært í fyrrakvöld.
Vestmanneyjum 10.febrúar: Óvenju mikið hafrót er nú við Eyjar og gekk sjór yfir Eiðið á flóðinu í morgun. Slíkt skeður ekki nema í aftökum, og mikill háski á ferð, sjórinn nær að brjóta sér leið inn í höfnina. Svo mikill kraftur var á briminu í morgun, að það ruddi grjóti úr malarkambinum og inn á veg, sem er hafnarmegin við kambinn. Fyrir nokkrum árum var byrjað á framkvæmdum til að styrkja Eiðið með því að hækka það með grjóti og byggingu garða sem ætlað var að brjóta ölduna. Þarna var aðeins um byrjunarframkvæmdi að ræða og vantar mikið á að verkið sé fullunnið. Eins og sást morgun er sú hætta enn til staðar að sjórinn brjótist þarna í gegn.
Klukkan langt gengin 11 í gærkvöldi sökk togarinn Elliði frá Siglufirði, 25 sjómílur vestur af Öndverðarnesi. Tuttugu og sex mönnum af áhöfn togarans var bjargað yfir í togarann Júpíter, en þegar blaðið fór í prentun var tveggja af áhöfninni saknað. Þeir höfðu slitnað í gúmmíbát frá Elliða fyrr um kvöldið.
Tíminn segir enn af sjóslysi 13.febrúar:
Eitt skipanna, sem tóku þátt í leitinni að gúmmíbát Elliða með mönnunum tveim, sem fórust, sökk á heimleið, en mannbjörg varð. Skarðsvík kom fyrst að gúmmíbátnum, er flugvélin hafði tilkynnt, að hann væri fundinn. Þegar blaðið átti tal við skipstjórann á Skarðsvík, Sigurð Kristjánsson í gær skýrði hann svo frá, að þegar að var komið, hefði gúmmíbátur Elliða legið á hvolfi, en mennirnir tveir örendir ofan á honum. Skarðsvík var nýlögð af stað heimleiðis, þegar leki kom að skipinu. Þá hafði Óðinn tekið líkin um borð úr gúmmíbátnum. Skarðsvík kallaði síðan á Óðin, og kom hann til hjálpar og ætlaði að draga hana áleiðis til lands, en hún sökk á meðan. Skipverjar fóru í gúmmíbát, og Stapafell bjargaði þeim úr honum eftir um það bil 5 mínútur.
Enn eru fregnir af illri tíð. Tíminn 15.febrúar:
Ólafsfirði 13. febrúar Í gær [12.] gerði mikið norðaustanrok á Ólafsfirði. Allir bátar lágu í höfn, en þegar á leið urðu stærri bátarnir allir að flýja til Akureyrar vegna brims. Höfnin á Ólafsfirði er mjög þröng og hættuleg fyrir báta í miklu brimi og óveðri, og er það mikið nauðsynjamál fyrir Ólafsfirðinga, að eitthvað verði gert í málinu, svo að bátar þeirra þurfi ekki að flýja að heiman, þegar hvessir. Veður fór batnandi í dag og gekk niður og póstbáturinn Drangur kom til Ólafsfjarðar eins og áætlað hafði verið. BS.
Eyrarbakka, 13. febrúar. Um síðustu helgi gerði mikla hríð á Eyrarbakka, og hafa allar götur í bænum verið ófærar síðan. Einnig varð að aflýsa leiksýningu Leikfélags Eyrarbakka sökum veðurs.
Morgunblaðið segir fréttir af Öskju 15.febrúar:
Á sínum tíma var sagt frá því hér i blaðinu að Mývetningar hefðu séð reyk eða gufu í átt til Öskju 30.janúar, en ekkert var þar að sjá daginn eftir, er Sigurður Þórarinsson flaug með Birni Pálssyni þar yfir, Samkvæmt upplýsingum frá Eysteini Tryggvasyni kom jarðskjálfti fram þennan dag á mælum í Reykjavík, Akureyri og Kirkjubæjarklaustri og upptök jarðskjálftans var á Öskjusvæðinu. Sýnir þetta að enn eru þarna umbrot í jörðinni, enda algengt að jarðhræringar haldi áfram eftir eldgos. Ekki þarf það þó að sanna að neitt hafi gerst á yfirborðinu þennan dag. Jarðskjálftar sáust á mælum nokkrum sinnum áður en Öskjugosið hófst eða eftir 6. október, og daginn sem það hófst 26. október, en síðan ekki fyrr en 30. janúar. Jarðskjálftar í sambandi við gos eru tíðastir meðan sprunga er að myndast eða hverir að brjótast upp, en fylgja gosinu sjálfu.
Morgunblaðið 16.febrúar
Keflavíkurflugvelli, 15. febrúar. Keflavikurflugvöllur lokaðist kl.15 í gær [þetta er reyndar sá 15. sem rætt er um, kafaldið varð þá]. Kafaldið var svo mikið, að á tveimur tímum féll fet af snjó. Logn var. Þremur tveggja hreyfla flugvélum, sem voru á leið til vallarins frá Gander, var snúið við. Um kl. 17 kom flugvél frá Flugfélagi Íslands til vallarins austan frá Hornafirði. Flutti hún lík varnarliðsmannsins, sem drukknaði þar fyrir skömmu. Lenti hún með aðstoð ratsjártækja. Um kl. 19 hafði birt upp, og hætt var að snjóa, en farið að skafa. B.Þ
Morgunblaðið segir frá borgarís á óvenjulegum slóðum 17.febrúar:
Veðurskipið Alfa tilkynnti kl.15:32 á föstudag: Stór borgarísjaki á 62 gráðum, 3 mínútum norður og 34 gráðum og tveim mínútum vestur. Hættulegur siglingum." Kl. 17:20 tilkynnti skipið: Jakinn er 29 metrar að hæð, 106 metrar að lengd og rekur um 114 gráður réttvísandi með 0,7 mílna hraða. Höldum okkur í nálægð jakans.
Þann 16.febrúar gerði óvenjulegt mannskaðaveður við Norðursjó. Mjög djúp lægð gekk frá Íslandi austur um sunnanverða Skandinavíu og olli norðvestan fárviðri á Norðursjó. Manntjónið varð mest í Hamborg. Morgunblaðið segir frá 20.febrúar:
Þetta óveður er hið mesta, sem orðið hefur í Evrópu á 20. öldinni. Öruggt er, að hátt á þriðja hundrað manna hefur farist og um tvö hundruð er ekki vitað, en óttast að þeir hafi týnt lífi. Nærri hundrað þúsund manns hafa misst heimili sín. Eignatjón nemur tugum milljarða króna.
Tíminn segir 20.febrúar frá langvinnri ófærð á norðurlandsvegi:
Akureyri, 14. febrúar. Vegurinn milli Akureyrar og Reykjavíkur er enn lokaður, og hefur nú verið það í um það bil mánaðar tíma. Er þetta óvenju langur tími. Vegir allir um hérað eru færir bifreiðum, og einnig má komast til Húsavíkur. Um síðustu helgi fór bíll frá Vegagerðinni til Raufarhafnar og gekk sú ferð vel. E.D.
Næstu tvær lægðir ollu aðallega rigningu samfara hvassviðrinu. Morgunblaðið segir frá 21.febrúar:
Suður-Reykjum, Mosfellssveit, 20. febrúar. Hér var í morgun ofsaveður með rigningu. Mikil hálka myndaðist á vegum. Börn, sem voru á leið í skólann að Brúarlandi fuku á girðingar og slösuðust. Tveir drengir 8 og 9 ára urðu fyrir því slysi að fjúka á girðingu við veginn. Annar hlaut skurð á enni en hinn sár á kinn og kjálki hans mun hafa brákast. Báðir drengirnir voru fluttir í skyndi til héraðslæknisins Guðjóns Lárussonar, og taldi hann rétt að annar færi til nánari skoðunar í Reykjavík og aðgerðar þar. Þá henti það að bílar fuku út af vegum í hálkunni, en ekki urðu slys á mönnum. Jeppi var á leið upp að Dverghamri en fauk þar til í brekkunni og lenti út af hárri vegarbrún en bílstjóranum tókst að halda honum á hjólunum. Skemmdir urðu þó nokkrar á bílnum. Jón.
Tíminn segir 23.febrúar frá enn einu sjóslysinu og óvenjulegum vatnavöxtum á Sauðárkróki:
Má nú telja fullvíst, að Stuðlaberg hafi farist s.l. laugardagskvöld um mílu út af Stafnesi á sama stað og Hermóður snemma árs 1959 og svipuðum slóðum og Rafnkell síðar. Mjög þykir líklegt, að nótin, sem er á floti undan Stafnesi, sé föst í bátnum og sé hann þar undir, því að hún hefur lítt eða ekki færst úr stað.
Sauðárkróki, 19.febrúar. Á aðfaranótt sunnudagsins [18.] gerði hér sunnanveður með regni og ofsa og urðu af miklir vatnavextir hér í bænum, en skemmdir ekki teljandi. Skriða féll á skúr við ysta húsið í bænum, en olli minna tjóni en ætla mætti. Í félagsheimilinu Bifröst stóð yfir samkoma, en um það leyti, sem samkomugestir voru að fara heim, tók að flæða inn um aðaldyr hússins. Var gestum ófært út þá leiðina, og urðu þeir að bjarga sér út bakdyramegin. Flóðið komst þó ekki nema inn í forstofuna og herbergi í kjallara, en aldrei inn í aðalsalinn. Varð að hlaða varnargarð úr sandpokum fyrir dyrnar, til þess að verja samkomuhúsið fyrir skemmdum. Þá féll skriða á ysta húsið í bænum, Helgafell, sem stendur uppi við Nafir. Skriðan féll á skúr við húsið og braut hann eitthvað, og vatn komst inn í húsið, en skemmdir urðu ekki stórvægilegar. Þessi vatnsflaumur varð svona mikill vegna þess, að allan daginn var logn og kafa snjókoma, en um kvöldið snerist og gerði sunnan veður með regni og ofsa. GÓ
Austurland [í Neskaupstað] segir 23.febrúar frá nípukollsveðri þar í bæ. Þetta er sama kerfið og olli sama dag sköðunum í Hamborg:
Aðfaranótt föstudagsins [16.] í síðustu viku gerði afspyrnurok hér í bænum, svokallað Nípukollsveður, en það eru hörðustu veður, sem hér koma. Eitthvað var um rúðubrot og slíkar smáskemmdir og á einu húsi varð verulegt tjón og heppni, að ekki hlutust af meiri meiðsli, en raun varð á. Það var Vilhjálmur Sigurbjörnsson, skattstjóri, sem fyrir þessu tjóni varð. Gömul útihús tilheyrandi Þórsmörk fuku og lenti brakið á svefnherbergisglugga Vilhjálms og eyðilagði hann að sjálfsögðu og olli auk þess öðrum skemmdum á húsinu. Húsmóðirin skrámaðist eitthvað, en hún var nýfarin frá glugganum þegar ósköpin dundu yfir. Ella hefði hún áreiðanlega orðið fyrir miklum meiðslum. Einnig meiddist eitt barnanna nokkuð. Tjón Vilhjálms er talsvert og mun hann verða að bera það bótalaust, þó hart sé. Þeir, sem eiga hálfónýta kofa hingað og þangað um bæinn, virðast enga ábyrgð bera á því, sem af þessum ræksnum kann að hljótast. Það er einkenni Nípukollsveðra meðal annarra, að þau geta skollið á þó ekkert sé að veðri í næsta nágrenni. Þannig var gott veður í Mjóafirði, rétt hinum megin við Nípuna, þessa nótt.
Þann 24. skrúfaðist snögglega fyrir lægðaganginn - og við tók óvenjuöflugt háþrýstisvæði. Þrýstingur reis hærra en gerst hafði um áratugaskeið, fyrst yfir Íslandi, en síðan settist hæðin að yfir Grænlandi og sat þar linnulítið í meir en mánuð. Úrkoma var nær engin allan þann tíma um landið sunnan- og vestanvert, en nokkuð snjóaði á Norðausturlandi og austast á landinu. Svo sannarlega óvenjuleg staða.
Kortið sýnir meðalhæð 500 hPa-flatarins, meðalþykkt og þykktarvik í mars 1962. Norðvestlæg átt er ríkjandi yfir Íslandi - með tilheyrandi niðurstreymi austan Grænlands. Mikil hlýindi voru vestan Grænlands, en miklir kuldar austur undan. Í stöðu sem þessari vanmetur þykktin kuldann við Ísland - niðurstreymishlýinda austan Grænlands nýtur aðeins í efri lögum, en neðar stinga kaldari vindar beint að norðan sér undir vestanloftið.
Morgunblaðið segir frá óvenjulegu útliti himins 27.febrúar:
Í gærkvöldi sáust óvenjuleg stjörnublik á himni og stöfuðu þau af hinu mikla háþrýstisvæði, sem nú er hér yfir landinu. Blaðið aflaði sér upplýsinga um þetta hjá Veðurstofunni og sagði veðurfræðingur að þetta stafaði af því að nú væru tvöföld hitahvörf yfir landinu þ.e. að tvisvar skipti á heitu og köldu lofti, sem er misþétt, og orsakar ljósbrot milli hins þétta og hins þunna lofts. Alla jafna er loftið heitast við jörðu og fer kólnandi eftir því sem ofar dregur, en nú, lá loftið í lögum. Við jörðu var í gærkvöldi sem svaraði 0° og fór hlýnandi upp í 300 m hæð og var 2ja stiga hiti, síðan kólnaði aftur og í 1000 m hæð var 6 stiga frost, enn hlýnaði ofar og í 1800 m hæð var 2ja stiga hiti. Þannig mynduðust 2 hitabelti í lofti með þynnra og léttara lofti og mynduðu þau ljósbrotin. Er stjörnurnar voru skoðaðar, einkum þær sem lægst voru á lofti, sást að þær blikuðu og skiptu litum eftir því hvernig ljósbrotið bar við þeim. Lofthreyfingin var hæg og því voru litaskipti og blik stjarnanna mjög greinileg.
Dagur [á Akureyri] segir 28.febrúar af atburðunum á Sauðárkróki:
S.l. laugardag [17.] kyngdi hér niður snjó í kyrrlátu veðri, svo að um kvöldið var kominn djúpur snjór, laus og jafnfallinn. Gerði þá asahláku, hvassviðri og stórfellda. rigningu, svo að allt rann í sundur. Var á tímabili um að litast eins og hafsjór um allt og fossandi vatnsföll niður yfir bæinn. Á nokkrum stöðum rann inn í kjallara húsa og urðu af einhverjar skemmdir. Á einum stað féll skriða niður á veg. Að morgni sunnudags var allur nýfallinn snjór horfinn og komið kyrrt veður og frost. Þannig hefur veðráttan verið umhleypingasöm um langt skeið.
Tíminn segir almennar tíðarfregnir frá Þórshöfn 28.febrúar:
Þórshöfn, 26. febrúar. Tíð hefur verið hér ákaflega rosasöm í allan vetur. Þó er ekki mikill snjór. Beitarjörð hefur notast mjög illa sökum veðra, og verða bændur að gefa mikið kjarnfóður með hinum hröktu heyjum frá síðastliðnu óþurrkasumri. Gæftir hafa verið stopular og afli fremur lítill. ÓH
Morgunblaðið er enn með fregnir af Öskju 28.febrúar - og síðan fregnir frá Hellnum:
Í gær, þegar Björn Pálsson flaug yfir Öskju í góðu skyggni, sá hann að talsvert mikla gufu lagði þar upp, bæði upp af og í kringum gígina frá í haust og einnig virtist gufu leggja upp úr Víti, gamla gígnum, sem varð til 1874. Björn fullyrti þó að ekki hefði verið neitt hraunrennslið ...
Hellnum, 20. febrúar. Síðan snemma í janúar hefir verið hér hin versta tíð, og sjaldgæft mun vera að svo langur ótíðarkafli komi, með jafn hörðum veðrum og verið hafa undanfarið, snjóar hafa þó ekki komið teljandi og vegir yfirleitt greiðfærir, en svellalög eru nú mikil og vegir illir yfirferðar. Áætlunarbíllinn hefir ekki farið um Útnesveg til Sands síðan um áramót, en mjólkurbíll fer hér á milli daglega. Vegurinn norðvestur með jöklinum er aðeins ruddur og því villugjarn í hríðarbyljum. Lenti mjólkurbílstjórinn fyrir stuttu í hinum mestu hrakningum á þessari leið, varð hann viðskila við bílinn í náttmyrkri og hríð, en leitarflokkar frá Sandi og Hellnum fundu hann, en þá hafði hann verið um 12 klst á leiðinni. En frá Hellnum til Sands er um klukkutíma akstur. Þorri hefir nú kvatt og munu fáir harma hann, svo harðneskjulegur sem hann hefir verið.
Morgunblaðið segir fréttir af vatnsflóði í Djúpi í pistli 1.mars:
Þúfum, Norður-Ísafjarðarsýslu 28.febrúar. Mikla rigningu og vatnsflóð gerði hér föstudaginn 23. þessa mánaðar. Rigndi ákaflega og kom mikið flóð í Langadalsá. Skemmdust girðingar og tún á fremstu bæjum, og slæmir skorningar komu víða í vegi. Um tíma var brúin á Langadalsá hjá Neðri-Brekku í hættu, en skemmdist þó ekki. Á Kirkjubóli og Fremri-Bakka flóði áin á tún og girðingar. Snjó leysti mjög i þessu veðri. Ágætt veður hefur verið síðan. P.P.
Morgunblaðið segir 6.mars frá hugmyndum um samband styrkleika þorskstofnsins og sólbletta. Það er fátt sem menn hafa ekki gert tilraunir til að tengja við þá - en aldrei neitt gengið til lengdar. Við lítum samt á þetta - stytt hér:
Í nóvemberhefti eins elsta og kunnasta náttúrufræðitímarits í Englandi, Nature, birtist grein eftir dr. Gunnar Böðvarsson og Jón Jónsson, fiskifræðing, þar sem sett er fram nýstárleg og mjög athyglisverð tilgáta um hugsanlegt samband milli styrkleika þorskstofnsins og annarra fiskstofna við Ísland annars vegar og sólblettanna hins vegar. En í sólblettunum er 11 ára sveifla, Telja þeir Gunnar og Jón að sterkir fiskárgangar kunni að klekjast út þegar sólblettir eru minnstir, og af gögnum, einkum um þorskveiðar, hér við land hafa þeir þóst merkja greinilegar 11 ára sveiflur, sem koma heim við þetta. Einnig telja þeir sig hafa seð merki um þetta, þó óglöggari séu, í skýrslum um síldveiði, laxveiði og hrognkelsaveiði. Tilgátur um áhrif sólblettasveiflunnar á ýmis líffræðileg fyrirbæri hafa viða komið fram áður, þó ekki varðandi fisk. Telur dr. Gunnar að ef sólblettasveiflan hafi einhvers staðar áhrif, þá eigi það að vera á þeirri breiddargráðu sem Ísland er, því miðin sunnan við Ísland eru einmitt í aðalnorðurljósabeltinu og ætti áhrifanna því helst að gæta hér. Nánar er skýrt frá þessari tilgátu í viðtali við Gunnar Böðvarsson á bls. 10.
Lengst af var kalt í mars, en kaldast þó undir miðjan mánuð þegar frost mældist meira í Möðrudal en gerst hafði frá því 1918 (rétt að taka fram að mælingar á staðnum voru ekki alveg samfelldar allan þennan tíma). Á þetta atvik var einnig minnst í fyrri pistli hungurdiska. En Tíminn segir frá 16.mars:
Í fyrrinótt [aðfaranótt 15.] var mjög mikið frost á ýmsum stöðum hér á landi, og hefur sums staðar ekki mælst annað eins síðan frostaveturinn mikla 1918. Blaðið hringdi í Jónas Jakobsson veðurfræðing til þess að fá staðfestingu á þessum miklu frostfréttum og sagðist honum svo frá: Í fyrrinótt mældist hér á landi meira frost en mælst hefur síðan veturinn 1918, en þá mældust 38 stig á Grímsstöðum. Frostið komst upp í 33 stig í Möðrudal í fyrrinótt, á Grímsstöðum urðu þau 30. Á Egilsstöðum komst frostið upp í 27 stig og á Staðarhóli í Aðaldal voru 25 stig. Á Akureyri var einnig nokkuð kalt eða 23 stig, en annars staðar komst frostið ekki yfir 20 stig. Í Möðrudal hefur frostið einu sinni komist nokkuð nálægt þessu síðan 1918, en það var rétt fyrir jól 1949, voru þar þá um 30 stig. En það var kalt annars staðar en á Íslandi i gærmorgun. T.d. mældust 19 stig í Osló kl. 6, 18 í Stokkhólmi og 9 í Kaupmannahöfn. Kuldinn náði einnig allt suður í Frakkland, og í París voru 2 stig, og er þetta mjög óvenjulegt á þessum árstíma, því að vorið á yfirleitt að vera að koma. ... Þegar við höfðum talað við veðurfræðinginn hringdum við í fréttaritara okkar á Grímsstöðum og Egilsstöðum og Vilhjálm bónda í Möðrudal. Vilhjálmur sagði, að menn fyndu lítið fyrir kuldanum, þar sem blæja logn væri, og hafði hann verið að koma frá því að flytja heim hey á bíl. Kvað hann vera fært um allt á bílum. Hann sagði, að frostið væri um 20 stig í forsælu (kl.17) og búast mætti við meira frosti þegar liði á daginn. Kristján á Grímsstöðum sagði, að hjá þeim væri blankandi logn og ekki ský á lofti. Þar væri allt haglaust að heita mætti og hefði verið síðan seint í nóvember og fé allt á gjöf. Litlar samgöngur eru við umheiminn, aðeins ein póstferð í viku. Einar Stefánsson á Egilsstöðum sagði logn hjá sér og ekki vottaði fyrir þessum mikla kulda í húsum, enda allsstaðar góð upphitun nú orðið. Kalt var á Egilsstöðum í gær og í fyrradag, en fólk lætur það ekki á sig fá og hefur verið mikil þátttaka í skíðagöngunni, sem er ný hafin. Fagridalur er ófær nema fyrir snjóbíl, en í ráði er að fara með ýtu þar yfir. Aðrir vegir eru færir.
Í þrjár vikur hefur verið frost og hreinviðri í Reykjavík, en samt hefur enginn komist á skauta á Tjörninni, því að hún hefur ekki verið sprautuð og ísinn er þakinn ryki og óhreinindum. Þegar blaðið spurðist fyrir um það hjá Kjartani Ólafssyni í gær, hvers vegna Tjörnin hefði ekki verið sprautuð, sagði hann, að íþróttafélögin í bænum ættu kost á styrk frá bænum til að sprauta skautasvell, en var ekki kunnugt um, hvers vegna það hefði ekki verið gert að undanförnu. Blaðið átti síðan tal við Baldur Jónsson, vallarstjóra Laugardalsvallarins, og sagði hann, að styrknum væri úthlutað íþróttabandalagi Reykjavíkur til ráðstöfunar. Fullur vilji hefði verið fyrir hendi að undanförnu til að sprauta Tjörnina og gera þar gott skautasvell, en þar eð oft hefði verið mikið rok og veðráttan umhleypingasöm þennan tíma, hefði ekki verið lagt í að sprauta svellið á Tjörninni, því að sandurinn hefði þá aðeins safnast saman í hauga og gert illt verra, en jafnframt hefði verið svo mikil sólbráð á daginn, að illmögulegt hefði verið að halda svellinu við, svo að vel væri.
Akureyri, 14. mars. Nokkuð mikil frost hafa verið á Akureyri að undanförnu, og pollurinn er nú allur ísi lagður allt út fyrir Oddeyri, en þar fyrir utan er töluvert íshröngl.
Morgunblaðið segir fregnir af heiðríkju 16.mars:
Um langt skeið hefur varla sést ský á lofti hér á Suðurlandi, en í gær brá svo við að komið var á himininn skýjaþykkni. Heiðríkjunum að undanförnu hefur fylgt kuldi og frost. Ætli skýjakoman sé nú ekki forboði vorsins? Við lögðum þessa spurningu fyrir Jónas Jakobsson veðurfræðing, sem sagði það rétt vera að hlýrra loft hefði verið að mjaka sér inn yfir suðurströndina, sunnan úr hafi, og ef það heldur áfram á sömu braut, þá mjakast hlýviðrið um leið norður yfir landið. Þessi breyting fer ofur hægt en gömlu mennirnir sögðu, að þegar batinn kæmi hægt, þá mundi hann vafa lengur. Spár veðurfræðinganna hljóða líka þannig, Lægðasvæðið fyrir sunnan Nýfundnaland hefur mjakast norður og sömuleiðis háþrýstisvæðið yfir Grænlandi.
Þurrkinum fylgdu sinubrunar. Tíminn segir 17.mars frá miklum bruna á Mýrum (ritstjórinn man eftir sögum af bruna þessum og orsökum hans):
Mikill sinubruni hefur verið í Borgarfirði að undanförnu og hefur reykinn jafnvel lagt niður í Borgarnes eins og um stórbruna væri að ræða og í fyrrakvöld var eldbjarmi á loftinu vestur um því að þá brunnu eldar glatt í Hraunhreppi. Yfirleitt hefur þessi sinubruni gengið vel, en í fyrradag misstu menn þó stjórn á eldinum, svo að hann fór yfir mestallt land Brúarlands og Hrafnkelsstaða í Hraunhreppi og varð ekkert við hann ráðið. Menn frá Brúarlandi höfðu ætlað að brenna sinu í landareign sinni, vindur var á norðaustan og heldur hvass. Fámenni var við sinubrunann, og áður en menn vissu af, réðst ekkert við eldinn, og fór hann, eins og áður segir, yfir land bæði Brúarlands og Hrafnkelsstaða. Sinan var mjög þurr, og því erfitt að eiga við eldinn, en tjón varð þó ekki eins mikið og ætla mætti, þar eð jörð var freðin, en engin beit verður á brunalandinu fyrr en fer að grænka í vor, og er það bagalegt, þar sem um svo mikið svæði var að ræða.
Veðráttan segir frá því að þann 19.mars hafi vélbátur sokkið á Ísafjarðarhöfn þegar lagnaðarís reif bátinn er hann sigldi inn á höfnina.
Kringum þann 20. gaf hæðin yfir Grænlandi aðeins eftir og flutti sig til Íslands í fáeina daga. Komst þá rakt loft inn á Faxaflóa. Þoku gerði líka í Borgarnesi, sem óvenjulegt er og þar af leiðandi minnisstætt ritstjóranum. Morgunblaðið segir frá 21.mars:
Í gær og fyrradag grúfði dimm þoka yfir Reykjavík og olli miklum töfum á flugsamgöngum. Þoka þessi stafaði af hlýju lofti, sem lagði inn Faxaflóa sunnan úr hafi, en nú er oss tjáð að norðanáttin sé að færa sig upp á skaftið og telja hinir vísu menn á Veðurstofunni að líkur séu á því að á næstunni verði hér stillt og bjart veður líkt og var hér lengi á dögunum.
Mikið illviðri gerði í Færeyjum 27. og 28. Svo virðist sem um svokallaða heimskautalægð (pólarlægð) hafi verið að ræða. Morgunblaðið segir frá 29.mars:
Gífurlegt óveður, norðanstormur með snjókomu, geisaði í Færeyjum í gær og fyrradag, að því er fréttaritari blaðsins á staðnum símaði. Samgöngulaust varð víða, svo og síma- og rafmagnslaust í Eysturoy brotnaði 200 m hátt mastur í lóranstöðinni laust fyrir hádegi. Óttuðust bændur um kindur sínar og reyndu að ná þeim inn. Í slíkri ferð fórst fertugur fjárhirðir, Ola Jakup Nielsen frá Vestmanna, tók snjóskriða hann með sér og var fallið 70 m. ... Óveðrið í Færeyjum var heldur að ganga niður í gærkvöldi, að sögn fréttaritarans. Það hafði verið svo slæmt að varla var fært milli húsa, og snjórinn svo mikill að bílar komust ekki leiðar sinnar. Hafði þá fennt sumstaðar í kaf. Þurfti t.d. að bera sjúkling í veðrinu um 5 km leið, eftir að sjúkrabíllinn hafði fest í snjó.
Kalt var um mánaðamótin, en nokkur umskipti urðu þá - dálítið snjóaði um landið sunnan- og vestanvert og heldur meiri vorsvipur komst á náttúruna um landið sunnanvert. Þó létu leysingar bíða eftir sér og norðanlands var vetrarveðrátta fram undir miðjan mánuð.
Morgunblaðið segir frá 11.apríl:
Raufarhöfn, 9. apríl. Stórhríð er nú hér á staðnum og skyggni ekki nema 100 m þessa stundina, á fimmta tímanum síðdegis. Í morgun fóru kranabíll, jarðýta og stór trukkur frá Húsavík áleiðis til Raufarhafnar, en ekkert hefur heyrst frá þeim. Lögðu bílar af stað á móti þeim, og ætluðu að komast til Húsavíkur í slóð þeirra.
Egilsstöðum, 10. apríl. Hér hefur verið látlaus ótíð um lengri tíma. Dag eftir dag hefur mokað niður snjó, svo að ekki er fært um héraðið nema á jarðýtum og snjóbílum. Vegagerðin hefur verið að reyna að halda opnum vegum, en það hefur ekki tekist því jafnharðan fennir í slóðir. Hefur verið tekið það ráð að flytja mjólk af héraði til mjólkurbúsins á Egilsstöðum á sleðum sem dregnir eru af jarðýtum og gengur það bæði seint og erfiðlega, vegna þess að snjólagið er slæmt. Um helgina var brotist á jarðýtum með tvö æki af fóðurbæti frá Reyðarfirði til Egilsstaða á vegum Kaupfélagsins. Síðan var haldið áfram með annað ækið að Hauksstöðum á Jökuldal. Þess má geta að um 70 km vegalengd er frá Reyðarfirði og þangað. Vegagerðin annaðist flutninginn. Þeir bændur sem ég hefi talað við, telja að veturinn hafi verið gjafafrekur og sökum þess hve tíð hefur vorið umhleypingasöm, hefur lítið verið hægt að beita sauðfé. Þó mun þetta hafa verið betra á efra Jökuldal. Í haust voru hey minni og í lakara lagi vegna þess hve sumarið var óhagstætt til heyöflunar. Ef þessu heldur áfram um lengri tíma, er ekki hægt að segja að útlitið sé gott hér á Héraði. Flugsamgöngur hafa verið óreglulegar sl. hálfan mánuð. A.B.
Rækileg umskipti urðu síðan þann 13. og næstu daga. Asahláku gerði með mjög mikilli úrkomu, flóðum, skriðum og samgöngutruflunum. Páskar voru seint þetta ár, páskadag bar upp á 22.apríl.
Morgunblaðið segir frá hvassviðri í pistlum 14.apríl:
Þorlákshöfn 13. apríl Um klukkan 8:55 í morgun slitnaði mb. Þorlákur ÁR 5 upp af legufærum sínum hér í höfninni. Bátinn rak upp í fjöru fyrir neðan frystihúsið, á líkum stað og mb. Faxa rak upp á. Hvass sunnanvindur var og kvika á legunni, þó ekki verri en það að þrír bátar lágu við bryggjuna. Kjölur bátsins er brotinn, og tveggja metra langt stykki úr honum þegar rekið í land.
Í gærmorgun var lögreglan í Kópavogi kvödd að Fögrubrekku 11, en þar fuku járnplötur af húsinu. Tjón mun ekki hafa orðið af plötunum. Lögreglan í Reykjavík var kölluð út nokkrum sinnum í gær morgun vegna þakjárns, sem fauk af húsum á nokkrum stöðum í bænum. Ekki munu plötur þessar hafa valdið tjóni eða meiðslum.
Grundarfirði. Aðfaranótt [13.gerði] hér afspyrnurok af suðri og hélst það veður allt til hádegis á föstudag [13.], en þá fór mesti veðrahamur inn að minnka. Geysimiklar skemmdir urðu á rafmagnslínunni frá Ólafsvík til Grundarfjarðar, og brotnuðu ekki færri en 17 staurar Grundarfjarðarmegin en skemmdir á línunni yfir Búlandshöfða eru ekki að fullu kannaðar. Allt er nú rafmagnslaust í Grundarfirði og gengur á ýmsu með matseld og upphitun þar sem allir nota rafmagn til eldunar og flestir til upphitunar. Vinnuflokkur frá Rafmagnsveitum ríkisins í Reykjavík er þegar farinn af stað vestur til viðgerða og standa vonir til að rafmagn komist aftur á innan fárra daga. Rafmagnsskorturinn veldur verulegum truflunum hjá fiskiðjuverunum á staðnum. Þrjár skriður féllu á Búlandshöfðaveginn og er hann nú ófær. Fjórir bílar lentu í hrakningum á Fróðárheiði í nótt. Fóru einhverjir þeirra útaf, en mjólkurbíll dró þá upp á veginn í morgun, og komust bílarnir til byggða. Í rokinu í nótt og morgun brotnuðu hér niður fiskhjallar og hafa flokkar manna unnið að því í dag að bjarga fiskinum frá frekari skemmdum. Þá tók verulegan hluta af járni af þökum tveggja íbúðarhúsa á staðnum. Saltskip, sem lá í Ólafsvík, átti að koma hingað í gærkvöldi og var maður kominn til Ólafsvíkur til þess að leiðbeina skipinu. Veðrahamurinn var hinsvegar svo mikill, að skipið treystist ekki frá bryggju og losnaði ekki fyrr en á hádegi í dag. Emil.
Tíminn segir frá sama veðri 14.apríl:
Í fyrrinótt gerði vonskuhret um Suðvestur- og Miðvesturland, með rigningu og roki á láglendi en skafrenningi eða snjókomu á fjöllum. Á Hellisheiði og Fróðárheiði tepptust bílar, og urðu sumir að dvelja í bílunum yfir nóttina. Meðal þeirra, sem létu fyrirberast á Fróðárheiði var 56 mánaða gamalt barn. ... Í Skíðaskálanum í Hveradölum var fyrrinótt ónæðissöm. Þegar hvessti undir kvöld í fyrradag tók að skafa mikið á Hellisheiði og varð þar fljótt ófært. Bíll frá vegagerðinni var á ferðinni fyrst framan af og hjálpaði vegfarendum á heiðinni, en bilaði áður en hann kæmist alla leið austur að Kambabrún. En skammt ofan við Kamba var lítill bíll fastur með þremur mönnum, og létu þeir þar fyrirberast og varð ekki meint, þótt þeir væru ekki klæddir fyrir útilegu í frosti og hríð, því þeir gátu látið bílinn ganga og þannig haldið hita. Um 20 manns úr bílum af heiðinni settust að í Skíðaskálanum en um 30 komust suður af með hjálp vegagerðarinnar. Í gærmorgun tók svo að hlána og hætti að skafa, og gekk mönnum vegagerðarinnar þá greiðlega að opna höftin, og var heiðin orðin vel akfær um hádegi. ... Á Búlandshöfðaveginn nýja féllu sex skriður, og lokuðu umferð algerlega, en í gær var unnið að því að ryðja þeim burt, og vonir stóðu til að það yrði ekki lengi gert. Á Hvalfjarðarveginum var mikill vatnselgur, en engar verulegar skemmdir, og sömuleiðis var mikill vatnselgur víða í Skaftafellssýslum. Við Kleifarvatn runnu skriður á Krísuvíkurveginn, og lokaðist hann um tíma í gærdag.
Eftir hvassviðrið gerði óvenjulegt úrhelli og leysingar. Tíminn 15.apríl:
Óhemju úrfelli var í fyrrinótt hér í Reykjavík og nágrenni bæjarins. Elliðavatn hefur aldrei verið vatnsmeira að sögn bóndans þar, og vegurinn upp að Lækjarbotnum var ófær á köflum. Einnig var fólki bent á að drekka ekki ósoðið vatn úr Gvendarbrunnunum þar sem óhreint vatn hefur runnið niður í þá. Blaðið hafði tal af Steingrími Pálssyni á Elliðavatni, og sagðist hann aldrei hafa séð annan eins vatnsflaum á þeim 20 árum, sem hann hefur búið á Elliðavatni. Um kl.4 í fyrradag var hann að koma frá Reykjavík og var þá afleggjarinn frá Elliðavatni að Suðurlandsbraut að verða ófær. Hann sagði, að oft hefði verið ófært smástund úr degi á vetri hverjum, en aldrei neitt þessu líkt. Svæði það, sem vatnið kæmi frá kvað hann feikilega stórt eða allt frá Hengli og svo öllum fjallahringnum þar suður af. Í gærmorgun lagði síðan Lækjarbotnavagninn af stað upp að Lækjarbotnum kl.7 að vanda, en bílstjórinn Magnús Jónsson treysti sér ekki til að fara lengra en upp að Hólmsárbrú. Sagði hann, að þarna væri allt á kafi og eins og hafsjór yfir að líta. Sá hann vatn á veginum á nokkrum stöðum milli Hólmsár og Gunnarshólma, og taldi ekki ráðlegt að leggja út á veginn þar með strætisvagninn. Túnið á Gunnarshólma var allt undir vatni og sömuleiðis afleggjarinn að Silungapolli. Auk alls þessa hefur tekið stór stykki úr veginum hér og þar og jafnvel inn í miðjan veg, þó möguleiki sé á að aka þarna um með gætni. Magnús sagðist hafa keyrt Lækjarbotnavagninn í 8 ár og hefði aldrei séð neitt þessu líkt, og ekki minntist hann þess, að hafa séð þetta fyrir þann tíma heldur. Í 10-ferðinni komst hann upp undir brúna hjá Lækjarbotnum. Þá biðu þar bílar beggja vegna og biðu þess að hægt væri að hefja viðgerð á veginum en hann er algjörlega eyðilagður á 200 m kafla. Menn frá vegagerðinni vinna nú að því, að gera veginn akfæran, og tjáði einn þeirra blaðinu að það ætti að takast fyrir kvöld í gærkvöldi. en þó yrði þetta að eins bráðabirgðaviðgerð. Mundu þeir eitthvað tefjast þar eð flætt hefði yfir veginn að Rauðhólum, eins og fyrr segir, og þangað væri ætlunin að sækja ofaníburð í veginn.
Einnig má geta þess að flætt hefur í Gvendarbrunnana, og er fólki bent á að drekka ekki vatnið án þess að sjóða það fyrst, því að enginn veit, hvaða óhreinindi geta verið í því eftir þennan feikilega vatnsflaum. Skemmdir á vegum urðu víða miklar á Suðurlandi, svo sem á Keflavíkurvegi, Krýsuvíkurvegi og einnig á Suðurlandsundirlendi. Þegar blaðið fór í prentun, var enn óljóst, hvað skemmdirnar höfðu orðið miklar.
Vegna skyndilegrar leysingar í kjölfar sjókomunnar að undanförnu, hafa víða orðið mikil flóð og vatnselgur miðað við það, sem við eigum að venjast. Bólgna þá upp allir lækir og flóa yfir bakka sína. Í fyrrinótt tók einn lækur á Egilsstöðum í Vopnafirði, að bólgna upp og flæddi síðan inn í steinsteypt fjárhús með þeim afleiðingum, að þegar að var komið í gærmorgun, voru 110 kindur dauðar í húsinu, ýmist drukknaðar eða króknaðar. Má búast við, að fleiri kindur hafi ekki þolað vatnið og kuldann, og eru því ekki öll kurl komin til grafar enn. Eigandi flestra kindanna var Björn Sæmundsson.
Tíminn heldur áfram flóðafregnum 17.apríl:
Flóðin, sem dundu á fyrir og um helgina, voru víðast hvar í mikilli rénun í gær. Sums staðar stóðu þau ekki nema tvo til þrjá klukkutíma, þar til úr tók að draga á ný, en víðast skullu þau á svo að segja á svipstundu. Um hádegi á sunnudaginn [15.] var Ölfusá komin upp á bakka hjá Selfossi. Flóðið náði hámarki á hádegi í gær, en þá var Tryggvaskáli hálfumflotinn vatni og kjallarinn fullur. Leigubílastöðin vestan við brúna var umflotin og ökklavatn í kjallara símstöðvarinnar, sem er næsta hús austan við skálann. Á mánudagsnóttina var flutt úr íbúðarkjallara austarlega í þorpinu. Þar var 10 cm vatn á gólfi í gær. Þetta er mesta flóð, sem komið hefur á Selfossi síðan 1948, en þá var Tryggvaskáli umflotinn og farið þar í kring á bátum. Flóðið var aðeins í rénun í gær.
Á laugardaginn [14.] hófst stórflóð í Hvítá. Áin flæðir nú upp móts við Ólafsvallahverfi á Skeiðum og nær flóðið suður undir Vorsabæ. Snemma á sunnudagsmorguninn braut áin fjóra staura í háspennulínunni hjá Auðsholti í Hrunamannahreppi, svo nú er rafmagnslaust í þrem sveitum, Hreppum og Skeiðum. Bærinn er umflotinn vatni og ís. Gert er ráð fyrir, að viðgerð reynist óframkvæmanleg fyrr en vatnið tekur að réna. Á laugardagskvöldið kom gífurlegt hlaup í Stóru-Laxá. Ungmennafélögin þrjú, Hreppum og Skeiðum, héldu kvöldvöku á Flúðum. Samkomugestir voru nýsloppnir upp yfir brúna á Stóru-Laxá, þegar hún ruddi sig og hljóp yfir þjóðveginn hjá brúnni á nokkur hundruð metra kafla. Einn bílanna, vörubíll, lenti í flóðinu og sat þar í þrjá tíma uns nokkuð fór að sjatna. Jakahrönn safnaðist kringum bílinn, og er hætt við, að minna farartæki hefði skolast burt. Hljómsveitin frá Selfossi átti að leika á skemmtuninni, en sneri frá við Laxá. Undir morguninn var farið að laga vegaskemmdirnar með jarðýtu. Samkomugestir biðu á Flúðum til klukkan að ganga átta, en þeir urðu að vaða elginn kringum brúna á heimleið. Mjólkurbílar komust upp yfir samdægurs. Litla-Laxá braust gegnum varnargarð hjá Grafarhverfinu, en var heft með sandpokum. Í gær var matur soðinn í hverum í Grafarhverfinu, en víða var hvorki til olía á prímusa né kerti til að lýsa sér með. Lakari vegir í Flóanum eru að verða ófærir. Þar hefur ekki flætt, en mjög vatnsfullt alls staðar því klaki er þykkur í jörðu og vatnið hefur lítið sigið niður.
Í Þykkvabænum var geysileg vatnskoma, en flóð mynduðust ekki, þar sem jörð var auð og vatnið rann óhindrað í skurðina. Vatnsmagnið í Markarfljóti óx mjög á sunnudaginn og náði hámarki klukkan 6. Var talin hætta á, að fljótið færi yfir svokallaðan Fauskagarð, skammt ofanvið Dalsel, en svo varð ekki. Undir kvöldið hætti að rigna og í gærmorgun hafði vatnsborðið lækkað um þrjú fet. Fljótið breiddi úr sér milli garðanna eins og jafnan í stórvöxtum. Mikið var í öllum vötnunum þar eystra á sunnudaginn. Vegaskemmdir eru litlar.
Undanfarna viku hafa 4 trukkar frá Olíufélaginu ekið austur í Öræfi. Allt gekk vel, þar til á föstu dag, en þá tók að rigna mjög mikið. Þeim gekk þó sæmilega það sem eftir var austur, fyrir helgina, en um leið komu þangað aðrir fjórir bílar frá vegagerðinni með efni í brú á Fjallsá. Meðan bílarnir voru á leiðinni austur, óx jafnt og þétt í öllum vatnsföllum á söndunum, og voru þeir því um kyrrt eystra, uns rigningunni slotaði í fyrradag, en þá lögðu þeir allir 8 af stað vestur á bóginn. Í fyrradag gekk þeim allvel, uns að Núpsvötnum var komið, en þau eru í nokkrum álum, og var þar geysimikið vatn. Þegar kom að vestasta álnum reyndist hann ófær, og hafði vatnið grafið svo mikið úr bakka eða öldu að vestan verðu við álinn, að bílarnir komust ekki þar upp. Gerðu þeir margar tilraunir til að komast upp ölduna, en allt kom fyrir ekki. Í einni þeirri tilraun munaði litlu, að þeir misstu einn olíufélagsbílinn alveg í kaf í álinn, og sáu þeir ekki nema í húshornið að framan og tankinn að aftan á tímabili, en bílstjórinn var í talsverðri hættu. Þó tókst hinum að bakka bíl út í álinn alveg að bílnum, sem fastur var, og stökk bílstjórinn úr sökkvandi bíl sínum upp á pallinn. Í fyrrinótt minnkaði vatnið í Núpsvötnum og héldu bílstjórarnir kyrru fyrir við vestasta álinn, þangað til þeir fengu öflugan trukkbíl frá Kirkjubæjarklaustri til að draga bílana upp ölduna í gær. Síðdegis í gær komu þeir að Kirkjubæjarklaustri, en héldu svo áfram til Víkur í gærkvöldi. Í Skaftafellssýslum voru geysimiklir vatnavextir í hlákunni og mikið í öllum ám. Víða rann úr vegum við ræsi og eru vegir sumstaðar allilla farnir, en þó hefur verið hægt að halda uppi samgöngum um allar sveitir fram að þessu.
Norðurland. Fréttaritari Tímans á Akureyri sagði í viðtali í gær, að Eyjafjarðará hefði víða flætt yfir bakka sína og valdið flóðum, og væri láglendið fram Eyjafjörð víða undir vatni. Ísinn hefur verið þykkur á ánni, og hefur vatnið sums staðar lyft honum upp, svo að hann er þar hærri en bakkarnir. Feikileg hláka hefur verið í héraðinu undanfarið, og var dagurinn í gær þriðji hlákudagurinn. Í sunnanáttinni hefur hitinn verið 1012 stig á nóttunni, en heitara á daginn. í gær var glaðasólskin á Akureyri, en aðeins svalara en verið hefur. Fyrstu farfuglarnir eru þegar komnir, lóa, tjaldur, stelkur og grágæs. Vegir eru yfirleitt vel færir nyrðra, en nú er lítilsháttar tekið að gæta aurbleytu. Í Svarfaðardalsá hljóp geysilegur vöxtur, og flæddi hún yfir veginn hjá Hrísum í gær; stórir bílar fóru þar þó um í gærmorgun. Í Hörgá kom smáklakahlaup. Þessar þrjár ár, Eyjafjarðará, Svarfaðardalsá og Hörgá hafa ekki gert neinn usla eða valdið skemmdum. Hins vegar urðu allir lækir skyndilega að ám í hlákunni og flæddu víða, meðan þeir voru að grafa sér farveg. Frekar væri því hægt að segja, að þverár, sem vanalega eru litlar, hefðu skemmt vegi, en engar umferðartruflanir hafa þó orðið, svo að teljandi séu.
Frá Blönduósi bárust þær fréttir, að Blanda hefði rutt sig aðfaranótt sunnudags, en þó var sá ruðningur ekki mjög mikill. Miklir vatnavextir urðu þó í Langadal af þessum sökum á laugar- og sunnudag, en í gær var vatnið farið að sjatna og orðið sæmilega bílfært, en aurbleyta þó farin að gera vart við sig. Meðan flóðið stóð sem hæst, var verst að fara veginn á kaflanum frá Æsustöðum og niður að Móbergi. Í Svartárdal urðu einhverjar smáskemmdir á veginum, en í gær var unnið að því að laga það, og stóð til, að vegurinn yrði öllum fær í gær. Verulegt flóð hefur ekki komið í Vatnsdalsá, og flóðin hafa verið minni í Húnavatnssýslu en oft áður og ekki valdið nema lítilsháttar skemmdum á vegum.
Í Skagafirði hafa orðið nokkrir vatnavextir, en skemmdir mjög litlar. Héraðsvötn runnu yfir veginn hjá Völlum í Vallhólmi á sunnudag, en þar var þó alltaf fært yfir og gert við á sunnudagskvöld. Hjá Hafsteinsstöðum rann einnig yfir veginn, og í fyrrakvöld var vont að komast þar yfir á litlum bílum, og mun einn þeirra hafa skemmst eitthvað. Þar var gert við veginn í gær. Í stöku stað tók möl úr veginum, en við það var gert í gær. Ákaflega mikið flóð hefur verið á Eylendinu í Skagafirði, en ekki valdið skemmdum. Í Fljótum var mikill elgur í öllum lækjum, en þar höfðu ekki orðið skemmdir. Þar er víða alautt. Í Skagafirði hefur eins og annars staðar verið mjög mikil, en fremur hæg hláka að undanförnu. Þar var í gær indælisveður og sterkjusólskin.
Austurland. Hlákan á Austfjörðum hefur verið mikil undanfarna daga, en engar skemmdir hafa hlotist af henni, nema á Vopnafirði. Á Egilsstöðum í Vopnafirði drukknuðu 110 kindur á föstudag er lækur flæddi inn í fjárhús. Einnig flæddi vatn inn í hlöðuna á sama bæ, og eyðilagðist nokkuð af heyi. Skaði bóndans á Egilsstöðum, Björns Sæmundssonar, er þeim mun meiri, þar eð hann hefur aðeins nýhafið búskap, og missti hann þarna mestan hluta bústofns síns. Annars er víðast hvar orðið snjólaust í Vopnafirði, og hitinn komst þar upp í 12 stig í gær. Færð er enn sæmileg á vegum úti, enda er umferð lítil, og aðallega jeppar, sem aka um vegina. Hlákan í Borgarfirði eystra hefur engum skemmdum valdið. Hún vatn hefur sigið jafnóðum í jörðu.
Veturinn hefur verið erfiður og hagleysur miklar, en nú er kominn hagi út með sjónum. Hitinn í gær var 910 stig. Snjór hefur verið mjög mikill á Egilsstöðum, en er nú alveg að hverfa. Þar hefur verið asahláka og þó ekki úrfelli. Finnst mönnum þar austur frá alveg ótrúlegt, hvað snjórinn hefur farið fljótt. Ekki hafa orðið vatnavextir á Héraði, en Eyvindará er einna hættulegust hvað það snertir. Hefur hún stundum flætt yfir flugvöllinn á Egilsstöðum. Bændur á Héraði voru orðnir hræddir um að ef til vill yrðu þeir uppiskroppa með hey, en sú hræðsla er nú orðin ástæðulaus og liggur því mjög vel á mannskapnum. Í gær var verið að ryðja Fagradal, sem hefur verið ófær mjög lengi. Enn er Fjarðarheiði lokuð, en verið er að opna vegina út í sveitirnar. Snjór bráðnar hægt á Reyðarfirði, en krap er nokkuð mikið. Engar skemmdir hafa orðið þar að þessu sinni, enda ekki verið um neina úrkomu að ræða. Ekki hefur heldur orðið skaði á Djúpavogi, og þar hefur ekki rignt neitt, sem orð er á gerandi. Mikil hlýindi hafa verið á Djúpavogi að undanförnu, en þar á undan voru frost og þurrkar, og voru allir brunnar á staðnum orðnir þurrir, af þeim sökum var hlákan mjög kærkomin. Að sögn fréttaritara blaðsins í Höfn í Hornafirði hefur ekki verið þar mikill snjór í vetur, og bráðnar hann nú með eðlilegum hætti og valda vatnavextir engum skemmdum.
Vesturland. Vestfirðir fóru fremur vel út úr hlýju- og leysingakastinu. Víða rann úr vegum, en það var allt fremur lítilsháttar og ekki tókst blaðinu að afla sér vitneskju um, að neinar skemmdir hefðu orðið á öðrum mannvirkjum. Vegurinn til Patreksfjarðar og frá Patreksfirði til Tálknafjarðar var illa farinn og ekki fær öðrum farartækjum en jeppum, og víða annars staðar voru vegir seinfærir, ekki síður vegna þess að frost er að fara úr jörð en vegna leysinganna. Á Snæfellsnesi voru vegir víða mjög slæmir og ógreiðfærir. Á Hömluholtadal undir Hafursfelli í Eyjahreppi fór á gegn um veginn við brúna. Þar lenti jeppi í og valt, svo að dráttarvél þurfti til að ná honum upp, og var hann allmikið skemmdur, og nokkru síðar bar að fólksbil úr Reykjavík sem var á leið til Ólafsvíkur. Bíll inn stakkst niður í raufina og brotnaði nokkuð, en ekki mun hafa orðið tjón á fólki.
Í Borgarfirði urðu mikil flóð í Ferjukotssíki og Hvítá við Hvítárbakka. Þar ruddist vatnið yfir veginn og varð nokkuð djúpt um tíma, en sjatnaði síðan ört og um hádegi í gær var aðeins feti hærra vatn í þessum ám en vant er. Á sunnudaginn féllu skriður á veginn úr Múlafjalli í Hvalfirði, en ekki meiri en svo, að vörubílar komust strax yfir þær. Nokkrir smálækir runnu á veginn, en skemmdu hann lítið. Vegurinn var hreinsaður á sunnudaginn og er greiðfær.
Morgunblaðið segir frá fjártjóni í Vopnafirði, skriðu undir Eyjafjöllum og stíflurofi við Elliðavatn í pistli 17.apríl:
Aðfaranótt laugardagsins [14.] hljóp mikill vöxtur í læk við bæinn Egilsstaði í Vopnafirði. Komst vatnið í fjárhús um 200 m frá og drukknuðu eða króknuðu 110 kindur i húsunum. Hefur bóndinn að Egilsstöðum, Björn Sæmundsson, orðið fyrir tilfinnanlegu tjóni. Í símtali við Morgunblaðið í gær sagði Björn að hann hefði sjálfur átt 8090 kindanna, sem drápust, en annað heimilisfólk að Egilsstöðum, þar á meðal móðir sín, hefði átt hinar. Fjárhúsin sem um ræðir eru byggð 1957. Standa þau framarlega í túninu á Egilsstöðum í um 200 m fjarlægð frá læknum og 400 m fjarlægð frá íbúðarhúsinu. Aðfaranótt laugardagsins hljóp skyndilega mikill vöxtur í lækinn. Fór hann upp úr farvegi sínum og skall hlaupið á fjárhúsunum. Fylltust þau nær af vatni en þannig hagaði til að skafl var fyrir framan húsin, og fylltust þau áður en vatnið náði að þrengja sér gegnum skaflinn. Einnig komst vatn í hlöðuna og skemmdist talsvert af heyi. Er vitjað var um féð á laugardagsmorguninn var heldur ófögur aðkoma í fjárhúsunum. Var mikið af fénu dautt, og höfðu gemlingarnir drukknað en ærnar króknað að því er Björn telur. Sagði hann Morgunblaðinu í gær að er hann hafi opnað dyrnar á húsunum hafi það verið líkast því að flóðgátt opnaðist. Streymdi vatnið út og lækkaði a.m.k. um fet. Klofdjúpt vatn var þá í húsunum. Milli 70 Og 80 ær lifðu af volkið. Er mest af fé þessu við sæmilega heilsu, en sumar ærnar allslappar. Taldi Björn að búast mætti við lambaláti eftir þetta. Ekkert af skrokkunum er nýtilegt, en gærur hafa verið teknar af þeim, og mun kaupfélagið á staðnum kaupa þær. Verða skrokkarnir nú grafnir. Björn bóndi hefur orðið fyrir tilfinnanlegu tjóni. Er hver kind metin á a.m.k. 1000 krónur með lambi, og nemur tjónið því á annað hundrað þúsund krónur.
Síðdegis á föstudag gerðist það að Hvolstungu, Steinum undir Eyjafjöllum, að skriða hljóp fram og þakti stóran hluta af túni bóndans leðju og stórgrýti. Fór skriðan á milli íbúðarhúss og fjóss og hljóp allt niður á veg. Lítið af henni mun þó hafa farið yfir
veginn sjálfan. Að Steinum er fimmbýli, og stendur bærinn Hvolstunga upp undir fjallinu. Um sexleytið á laugardaginn kom mikið hlaup í bæjarlækinn og féll aur og stórgrýtisskriða niður gamla farveginn, sem var á aðra mannhæð á dýpt Og fyllti farveginn. Fór skriðan milli íbúðarhússins og fjóssins, en á milli þeirra eru um 30 faðmar. Mikill hluti túnsins að Hvolstungu er nú undir leðju og grjóti.
Um kl. 56 síðdegis á laugardag [14.] brast stíflugarður rafveitunnar úr Elliðavatni og myndaðist um 20 m skarð í hann. Þegar flóðaldan mikla kom ofan af Sandskeiði og Lögbergi í Elliðavatnið myndaðist mikill þrýstingur á garðinn, þar eð ís var á vatninu, að sögn Ingólfs Ágústssonar, verkfræðings, sem fór upp eftir. Voru allar lokur þá opnaðar og fór rennslið í Elliðaánum upp í 100 teningsmetra á sekúndu. Flóðgáttirnar gerðu ekki meira en hafa við vatninu. Mjakaðist garðurinn fram og lét svo undan síðdegis. Hækkaði þrýstingurinn þá upp í 120130 teningsmetra og leit illa út um skeið, því takmörkuðu vatni er hægt að hleypa um Árbæjarstífluna. En þetta fór allt vel og á sunnudagsmorgun fór vatnið að sjatna. Þetta er annað mesta hlaup, sem komið hefur í árnar. Þess má geta til samanburðar við 120130 teningsmetra rennslið á laugardag, að meðalrennslið í ánum er 5 teningsmetrar.
Morgunblaðið heldur áfram að segja fréttir af vatnsvöxtum 18.apríl:
Blönduósi 16. apríl. Blanda ruddi sig hjá Blönduósi kl.7 í gærmorgun. Þykkur ís var á ánni, þar sem hún rennur í gegnum þorpið, og ósinn var mjög þröngur. Myndaðist þar stífla, en fljótlega náði ruðningurinn sér þó fram og lækkaði þá strax í ánni. Fyrsti ruðningurinn, sem kom niður hjá Blönduósi, átti sér skamman aðdraganda, og var ekki mikill, og hefði annars mátt búast við að illa hefði farið. Um kl.5 á sunnudagsnóttina hringdi Pétur bóndi Hafsteinsson í Hólabæ til Blönduóss, og lét vita að þá væri Blanda farin að flæða á nokkrum stöðum yfir veginn í Langadal. Var fólkinu sem býr í húsum á Blönduósi, næst Blöndu, gert viðvart. Hvergi rann inn í hús, en þar sem gatan liggur lægst, náði ruðningurinn að efstu brún hennar. Í ruðningnum í fyrra var djúpt vatn þar, og mikil jakahrönn varð þá eftir á götunni. Langadalsvegur var ófær í allan gærdag hjá Æsustöðum og vatn á honum á fleiri stöðum. Í Langadal var mjög mikið flóð í gærkvöldi, enda mikill ís á ánni, og stíflur á nokkrum stöðum, en þær voru þá að springa fram. Land-Roverbíll fór hjá Móbergi um 910 í gærkveldi. Þá var vatnið á veginum þar svo djúpt, að naumlega var hægt að vaða það á klofstígvélum. Bíllinn komist þó yfir á þann hátt að menn óðu á undan honum. Hjá Blönduósi var mikill jakaburður í ánni allt kvöldið og fram eftir nóttu. Svartá ruddi sig um kl. 10 í gærkvöldi, og brotnuðu þá þrír símastaurar hjá Fjósum. Ekki er vitað um annað tjón enda hefur verið símasambandslaust fram í dalinn síðan og vegurinn er ófær hjá Gili. Vatnsá var mikil í allan gærdag en hefur ekki rutt sig nema að litlu leyti. Skemmdir hafa ekki orðið þar af völdum vatnavaxta, nema hvað einn símastaur brotnaði hjá Hvammi, og nokkuð hefur runnið úr vegum á stöku stað. Vöxtur var ekki mjög mikill í ánni, og er hann nú að minnka. Vegir eru víða orðnir slæmir, bæði vegna aurbleytu og að skolast hefur úr þeim vegna vatnsgangs. Hafa lækir víða flætt yfir þá. Björn.
Eins og alengt var á þessum árum olli aurbleyta á vegum miklum vandræðum nærri því á hverju vori. Tíminn segir frá ástandinu á Snæfellsnesi á nokkuð skondinn hátt 4.maí (en sumt á því miður enn við vegi á þeim slóðum - þótt liðin séu meir en 60 ár):
[Úr grein um aurbleytu í vegum: Í aurbleytu] Þó að vafalaust séu mestu ófærurnar milli Hítarár og Haffjarðarár; þessara tveggja laxavelda, þá er vegurinn víða farinn að svitna, eins og það heitir á bílstjóramáli. En bílstjórar nefna það að vegur svitni, þegar farið er að sjá á blotann á yfirborðinu og þjóðvegurinn er að fara úr klakaböndum. Svo koma svartar mjóar sprungur í hart og slegið slitlagið, og svo dettur vegurinn niður. Að vegur detti niður er það á bílstjóramáli, þegar hjólin á þungu vörubílunum fara að skerast niður úr efra laginu. Þá myndast hvörf í veginn og aurvilpur ... svo loks nýlega, bar það til, að bílstjórar urðu að fara á prófessorabuxur sínar og smíða nýtt orð yfir verstu vilpurnar. Ljónagryfjur skyldu þær heita. Þó manni þyki það ólíklegt, að ljón sem félli í stóru gryfjuna rétt austan við Haffjarðará myndi halda lífi til lengdar, þá á orðið prýðilega vel við, enda breiddist það út örara en vegir svitnuðu í Mýrasýslu og er þá mikið sagt. Bílarnir börðust eins og ljón í gryfju; jusu dökkbrúnni leðjunni með snjódekkjunum eins og í vellandi hverum og tíu hjóla trukkarnir nötruðu stafna á milli í kraftgírunum. Mýrasýsluvegurinn var orðinn að tröllaukinni súkkulaðiverksmiðju með stríðsafköstum. Þeir lokuðu fyrir umferðina með opinberri tilskipan um helgina. Enda sjálfgert. Diamondinn úr Borgarnesi dró að vísu Ólafsvíkurrútuna í gegnum svöðin, en bílferðir voru annars nær engar. Menjar mikilla átaka lágu á víð og dreif, brotnir staurar, slitur af köðlum möruðu í vilpunum og í einu hjólfarinu flutu nokkur hundruð lítrar af mjólk, og stakk hvítur mjólkurliturinn í stúf við leirbrúnt umhverfið. Þegar neyðin er stærst er hjálpin næst og allt er hey í harðindum, stendur þar. Á einum stað miklu vestar hafði einhverjum hugkvæmst að nota spánnýja tegund af ofaníburði í ljónagryfju, miðstöðvarofna. Þrír laglegustu helluofnar frá Ofnasmiðjunni skutu upp kollinum í einni vilpunni. Þó að Ofnasmiðjan sé nú afkastamikið fyrirtæki, þá var ekki að búast við, að hún gæti lagt til ofaníburð í kílómetravís, og því var það, að víponinn okkar varð að gera sér það að góðu að mala eins og þreyttur slefbátur gegnum drulluhlössin. Við og við tók hann þungar byltur og það urgaði í beittum tönnunum í lágdrifinu. Á Snæfellsnesi í dag er sá einn hamingjusamur, sem hefur drif á öllum og það kemur meira að segja fyrir, að hann örvæntir líka. Það er sennilega eitthvað mislukkað efni í þessum vegi. Of leirkennt, og vantar gróft undirlag og svo er hann of lágur, sagði einhver. Annar sagði okkur, að þetta væri af því, að jörðin hefði frosið eftir miklar rigningar. En hvað sem öllu liður, þá ætluðu Mýramenn að hafa vaðið fyrir neðan sig, hvað framhaldið snertir, því þeir voru byrjaðir að aka möl í svitaholurnar sem voru að myndast við Langá og þaðan alla leið yfir í Borgarnes. Það voru líka síðustu forvöð, því hann var að byrja að detta niður. [Greinin er lengri - undirrituð jg]
Maí þótti heldur óhagstæður, mest vegna þurrks, en einnig var svalt með köflum. Klaki var talsverður í jörð víða um land.
Morgunblaðið segir af sinubruna 4.maí:
Reykjum, Mosfellssveit, 2.maí. Um kl. 15 í gær kom drengur til mín á skellinöðru. Sagði hann, að hann og félagi hans hefðu verið að fikta við eld í Hafrahlíð við Hafravatn. Kveiktu þeir bál, sem þeir ætluðu að slökkva aftur, en þeim tókst ekki að ráða við eldinn, svo að hann breiddist óðfluga út um sinuna. Sunnanvindur var á, og varð piltunum ljóst, að skógræktargerði Magnúsar Finnbogasonar, menntaskólakennara, sem er í svonefndu Hlíðarhorni var í hættu. Ég hringdi á slökkviliðið og sendi það einn bíl og þrjá menn upp eftir. Þeir höfðu meðferðis nóg af slökkvitækjum, og dreif að fjöldi fólks, sem var í skemmtiferðum um nágrennið, til þess að hjálpa við slökkvistarfið. Eldurinn komst inn fyrir skógræktargirðinguna, og mun um fjórðungur hríslnanna hafa brunnið. Eftir um hálfan annan tíma hafði eldurinn verið drepinn. Hafði vindur þá snúist til norðurs, og auðveldaði það slökkvistarfið. Einnig varð eldur laus í landi Hjaltastaða í Mosfellsdal. jón.
Leiðinlegt hret gerði þann 3. maí og næstu daga á eftir. Morgunblaðið segir frá því 5.maí:
Akureyri, 4. maí. Er Akureyringar litu út í morgun, brá mörgum í brún, því að í staðinn fyrir sumarið, sem verið hefur hér undanfarna daga, var kominn vetur, eða svo sýndist mönnum. Um nóttina hafði snjóað frá efstu brúnum og niður í sjó. Á láglendi var snjólagið þó þunnt. Var það að mestu horfið um hádegi. Í dag hefur verið norðanstormur og hitastig lítið farið yfir frostmark. St. E. Sig.
Tíminn segir frá starfi Jöklarannsóknafélagsins í pistli 16.maí - við rétt grípum niður í hann:
Á uppstigningardag [18.maí] leggur af stað tíundi vorleiðangur Jöklarannsóknafélagsins á Vatnajökul. Félagið hefur sent hóp manna á jökulinn á hverju vori síðan Guðmundur Jónasson fann Hófsvað á Tungnaá, svo að leiðin inn eftir opnaðist. ...
Jarðfræðingar eru að vonum orðnir ákaflega langeygir eftir gosi í Grímsvötnum, en frá síðasta gosi hefur liðið lengri tími en hefur liðið milli gosa í sögu Grímsvatna síðustu 400 árin. Leiðangurinn mælir m.a. yfirborð Grímsvatna, en það hækkar að meðaltali um 1015 metra á ári. ... Gildi þessara jöklamælinga hefur aukist mikið síðari ár, síðan undirbúningur að virkjun ýmissa jökulfljóta hófst. Nú er mikið rætt um virkjanir á Þjórsársvæðinu. Vatnið í þessum jökulám er að nokkru leyti bráðinn jökull. T.d. er 20% vatnasvæðis Tungnaár og 26% vatnasvæðis Köldukvíslar undir Vatnajökli. Undanfarna áratugi hafa jöklar hér minnkað ört og stafar því mikið vatnsmagn í ánum af bráðnun jöklanna. Ef bráðnun jöklanna minnkar eða eykst skyndilega, hefur það geysileg áhrif á þau orkuver, sem kunna að vera reist við þessar ár.
Morgunblaðið segir 20.maí frá hríð á Fagradal:
Í fyrradag sneru 3 bílar við á Fagradal á leið sinni upp á Fljótsdalshérað vegna blindhríðar, sem þar var. Var þá vonskuveður á Reyðarfirði. Óttast er að þetta valdi því að umferðatálmun verði á Fagradal og þá sambandslaust niður á Firði. Veðrið var lítið eitt skárra i gær fyrir austan.
Tíminn segir 22.maí frá hruni í Rauðanúp:
Nú um helgina gerðist það norður á Melrakkasléttu að Rauðinúpur í Axarfirði breytti sér. Brotnaði bjargið sem tengt hefur hina svokölluðu Sölvanöf við meginbjargið og seig í sjó. Gerðist þetta um 7 leytið á sunnudagskvöld.
Morgunblaðið segir 26.maí frá miklum sinubruna í Málmey á Skagafirði:
Morgunblaðið átti fyrir nokkru viðtal við Pétur Jóhannsson í Glæsibæ, sem er vitavörður í Málmey, um sinubrunann í Málmey, en frá honum var skýrt í Morgunblaðinu á miðvikudag [23.]. Sagði Pétur, að eldurinn myndi hafa slokknað á þriðjudag [22.]. Honum sagðist svo frá, að á mánudagsmorgun hefði sést bál í eynni. Talið var víst, að menn hefðu brotið bát sinn við eyna og gerðu vart við sig með því að taka upp eld. Lendingin í eynni er vond, og fá bátar þar oft ómjúk högg og skaddast. Verði bátur ósjófær í Málmey, er eina leiðin til að gera vart við sig að kveikja bál. Pétur fór þegar með þriðja mann fram i eyna, og þegar þeir komu vestur fyrir hana, mættu þeir trillu. Þar stóðu menn í austri og kváðust hafa laskað bátinn í lendingu kvöldið áður. Kveiktu þeir þá bál, en vegna þess að mikil sina er í eynni um þetta leyti, réðu þeir ekki við eldinn, sem breiddist óðfluga út. Kvað Pétur það vera mikið áhyggjuefni, að eina ráðið, sem skipbrotsmenn í eynni hefðu til þess að gera vart við sig, gæti valdið miklum bruna þar. Þar sem Pétri og félögum hans virtist mennirnir á trillunni hafa nóg að gera við að halda henni á floti og sigla henni til lands, vildu þeir ekki tefja þá, heldur héldu þrír út í eyna.
Geysilegur eldur var í eynni og óhemjumikill reykjarmökkur yfir henni. Vindur var hægur á norðaustan, u.þ.b. 3 vindstig, og hljóp eldurinn mjög hratt undan vindinum. Þeir Pétur tóku þegar til við að reyna að hefta útbreiðslu eldsins. Ekki var hægt um vik, þar sem þeir höfðu ekki annað en níu faðma kaðalviðju, sem þeir hönkuðu upp, til þess að lemja eldinn með. Ekkert vatn er í eynni nema brunnvatn og engin dæla eða ílát við höndina. Megináhersluna lögðu þeir á að verja vitann í eynni, sem stendur á grashóli vestast á miðri suðureynni. Fóru þeir oft yfir eldlínuna, Pétur sennilega átta sinnum, en sökum þess hve eldurinn fór hratt yfir, eins og logi yfir akur, var hann ekki mjög heitur í eldlínunni sjálfri. Þótt erfitt væri, tókst þeim að verja vitann, og þegar brunnið var út á sjávarbakka bæði norðan og sunnan hans, fóru þeir frá honum. Bálið var mun heitara og dýpra áveðurs, en þar sem hann hljóp undan vindi, var hann meira á yfirborðinu. Þeim félögum tókst að verja útihluta eyjarinnar, en sunnanmegin fór eldurinn yfir mestallt svæðið. Mun því rúmlega helmingur eyjarinnar vera óskaddaður. Slökkvistarfið var mjög örðugt og lýjandi og gerði reykurinn þeim mjög erfitt fyrir. Lengst, eða þangað til á þriðjudag, mun eldurinn hafa logað í lynghólma inni í miðju sinuhafinu. Pétur kvað skepnur ekki vera hafðar í eynni, því að þar væri ekkert vatn nema brunnvatn, eins og fyrr greinir, og enginn til að brynna þeim. Einhverjar nytjar mætti hafa af eggjatöku, selveiðum og reka. Pétur bað Morgunblaðið að lokum að geta þess, að menn færu ekki út í Málmey án hans vitundar, og lægju til þess ýmsar ástæður.
Þann 25. og 26. gerði allmikla suðvestanátt með hlýindum. Þá rigndi mikið suðvestan- og vestanlands. Sveitarstjórnarkosningar voru þessa helgi. Hungurdiskar hafa áður fjallað um veðrið sem þá var - með veðurkortum, en þó var þar aðeins rétt minnst á merkasta viðburðinn, mikla skriðu sem féll á Laugarvatni. Þegar ritstjóri hungurdiska dvaldi á Laugarvatni veturinn 1970 til 1971 var skriðufarið enn mjög áberandi - og heimamönnum var tíðrætt um skriðuna. Tíminn birti ítarlegar fréttir af skriðufallinu þann 29. maí:
Rétt fyrir klukkan hálftíu á laugardagskvöldið [26.] féll geysimikil skriða suðaustan úr Laugarvatnsfjalli. Hún rann yfir skógræktargirðinguna á 300 metra breiðum kafla, yfir veginn, og stöðvaðist ekki fyrr en á hlaði barnaskólans á Laugarvatni. Við vissum ekkert hvaðan á okkur stóð veðrið, sagði Jensína Halldórsdóttir, skólastýra húsmæðraskólans á Laugarvatni, er blaðið hafði samband við hana, en hún var ein af þeim, sem var sjónarvottur að skriðuhlaupinu. Það var eins og flugvél hefði farist í fjallinu. Eins og fjallið væri að hrynja. Fyrst sást ekkert, því þoka var efst í fjallinu, en drunurnar voru þeim mun ógurlegri. Svo sást ógnar skriða koma niður fyrir þokubakkann á breiðu svæði einmitt fyrir ofan byggðina. Hún virtist fyrst stefna á hús Ólafs Ketilssonar og Böðvars bróður hans. Þegar meginstraumurinn kom niður Vatnslekagilið, var eins og allt fjallið væri að hrynja; þetta var svo hrikalegt. Skriðan féll nokkru innar en við héldum í upphafi, og fór yfir veginn rétt við barnaskólann og hús dr. Haralds Matthíassonar, menntaskólakennara. Skriðan tók geysimikið af skógi, og er ljótt að sjá þetta fallega fjall núna, allt flakandi eftir skriðufallið. Önnur vitni skýrðu svo frá, að mikil vatnsgufa hefði stigið upp af skriðunni og jafnvel hefðu verið eldglæringar í henni, þegar stórgrýtið skall saman. Vegna vatnsgufunnar sást skriðufallið ekki vel, nema framveggurinn, þegar skriðan geystist fram. Mjög margir Laugvetningar sáu þessar hrikalegu náttúruhamfarir. Einn þeirra var dr. Haraldur Matthíasson, sem bjó rétt neðan við veginn, þar sem skriðan féll yfir hann. Haraldur tók eftir því, að eitt tjald var á tjaldstæðinu, þar sem ferðalangar tjalda venjulega á sumrin. Hann hljóp þangað til þess að vara fólkið við, en tjaldið var þá mannlaust. Tjaldið var rifið niður og því forðað undan skriðunni. Stóðst það á endum, að björgunarmenn þessir voru rétt sloppnir, er skriðan féll þar yfir. Þess má geta, að til stóð að reisa barnaskólann á þessari flöt, en því var síðan breytt og skólinn reistur nokkru neðar, og má það teljast mikil mildi. Ekki munu hafa liðið nema ein til tvær mínútur frá því er drunurnar heyrðust fyrst, þangað til skriðan stöðvaðist, svo þetta gerðist allt á örskömmum tíma.
Guðmundur Kjartansson, jarðfræðingur brá sér austur strax á sunnudaginn til þess að athuga vegsummerkin. Taldist honum til, að skriðan hefði byrjað í 474 m hæð á jafnsléttu. Hún rann rúmlega kílómetra í lárétta stefnu og var um 300 metra breið, þar sem hún var breiðust. Fyrst hefur skriðan runnið í mjórri rás, sem hún hefur skafið í fjallinu. Er hún kom niður í miðjar hlíðar, breiddi hún hins vegar mikið úr sér og rann í nokkrum kvíslum niður hlíðina. Mikill flaumur féll niður Vatnslekagil og fyllti það alveg út, eins og vatn hefði runnið um það. Hún féll yfir veginn á þremur stöðum, og voru hólmar á milli. Skriðan hefur komið upp í gegnblautum mel ofarlega í fjallinu, og er athyglisvert, hversu lítill bratti er þar, Guðmundur tók líka sérstaklega eftir því, að skriðan hefur ekki runnið á jarðklaka eins og oftast er í skriðuföllum. Þarna voru engin merki um klaka í jörðu. Allan laugardaginn hafði rignt óskaplega mikið þarna, svo að það var skýfalli líkast, og var melurinn líklegast orðin gjörsamlega vatnssósa, þegar skriðan féll. Guðmundur gat þess einnig, að engin vegsummerki voru um skriðuföll annars staðar í þessari löngu fjallshlíð og þó er hún víða brattari en þar sem skriðan kom upp. Mikil mildi er, að ekkert tjón skyldi verða á fólki né mannvirkjum, en hins vegar eru skemmdirnar á skóginum óbætanlegar. Þarna var búið að rækta mikinn og fallegan skóg innan girðingar en nú er þarna urð og aur á 300 metra breiðu svæði.
Tíminn segir 30.maí almennar tíðarfréttir úr Skagafirði:
[Úr fréttabréfi úr Hegranesþingi - Magnús Gíslason skrifar] Þegar þetta er ritað, hinn 20. maí, er norðansveljandi og loft þokuþrungið. Hefur norðanáttin verið hér ríkjandi að mestu, það sem af er þessum mánuði og lengst af kalt í veðri. Fyrir þann tíma hafði hins vegar verið góðviðri um sinn. Hinn 2. apríl brá til sunnanáttar með hlýviðri og hélst hún til 3. maí. Mátti þá segja, að hver dagur væri öðrum betri og blíðari og til þess páskahrets, sem ýmsir spá á ári hverju, spurðist ekkert. Leit óvenjulega vel út með gróður. En síðari hluta dags 3. maí rauk hann skyndilega upp á norðan með stormi og slyddu og síðan hefur verið kalsatíð. Úrfelli þó ekki mikið, en gránað hefur í fjöll og frosið að nóttunni þegar fjær hefur dregið sjó. Gróðri hefur því farið fram að undanförnu, jafnvel heldur hrakað. Sauðburður er yfirleitt alls staðar hafinn og þó víðast aðeins í byrjun, og gengur, að því er ég best veit, vegna þess hve þurrviðrasamt hefur verið, því að ef úrfelli hefði fylgt þessum kuldum, hefði mörgu lambinu orðið hætt.
Júní var bæði kaldur og votur, sérstaklega um landið norðanvert.
Tíminn segir 8.júní frá ferð inn í Dyngjufjöll og að Öskju. Litið var á breytingar sem þar höfðu orðið:
Akureyri, 7.júní. Um síðustu helgi [3. til 4. júní] var farið inn að Öskju í fyrsta sinn í vor og kom þá í ljós að talsverðar hreyfingar hafa orðið þar, síðan síðast var vitað í haust. Tvær nýjar sprungur hafa myndast við Víti og rýkur úr þeim. Svo virðist einnig, sem nýtt hraun hafi runnið við jaðar hraunsins, sem rann í fyrra. Það voru þeir félagar Angantýr Hjálmarsson og Valgarður Snæbjörnsson, sem fóru um síðustu helgi austur í Öskju. Vegurinn var sæmilega góður. Þeir töldu, að hraunið hefði ekki runnið neitt að ráði síðan í haust, en það vakti athygli þeirra, að gufumökkur mikill var austan í Dyngjufjöllunum við hraunjaðarinn og virtist sem hraun hafi runnið þar og sameinast aðalhrauninu. Allt var snjóhvítt þarna innfrá, en á hrauninu var ekki snjókorn. Það var kolsvart yfir að líta og víða rauk úr því, en enginn eldur sást í því. Inni í Öskju sá ekki dökkan díl. Hraunið var allt frauðkennt og verður sennilega auðvelt að ryðja veg yfir það. Við Víti að sunnan og austan var komin sprunga síðan í haust og rauk mikið úr henni. Önnur sprunga var komin milli Vítis og Bátshrauns, sem líka rauk mikið úr. E.D [Í Morgunblaðinu 13.júní var bætt við að Vatnið hefði lækkað um 1-2 metra].
Þann 13. dýpkaði lægð mikið suðaustur af landinu. Þá hvessti af norðaustri og gerði úrhellisrigningu um landið austan- og norðanvert, allt vestur á Vestfirði. Krapi og snjór var til fjalla og jafnvel niður undir byggð. Úrkoma mældist 108,5 mm á Seyðisfirði að morgni 15.
Kortið sýnir þessa óvenjudjúpu lægð, um 970 hPa í miðju. Lægstur þrýstingur á landi mældist á Kirkjubæjarklaustri 976,2 hPa. Þótt úrkoma í Borgarfirði hafi ekki verið mikið var veðrið mjög hryssingslegt þar. Tíminn segir frá 14.júní:
Fosshóli, 13.júní: Hér er nú grátt af snjó í brekkunum í kring, og í dag hefur gengið á með krapaéljum í byggðinni. Tún eru mjög kalin, meir en menn muna og urðu þó miklar kalskemmdir í fyrravor. Á sumum bæjum eru nú fleiri hektarar samliggjandi ónýtir, einkum í nýgræðum. Nokkuð af þessum túnum hefur verið herfað og sáð í þau, enda sjá menn ekki aðra leið til þess að túnin komi að gagni næstu ár. Kornakrarnir standa grænir, en nokkuð hefur andað köldu á þá undanfarið. FS.
Tíminn heldur áfram að segja frá áfellinu 15.júní:
Á miðvikudagsnóttina [13.] snjóaði í fjöll á Austurlandi, og á miðvikudaginn gekk á með krapaéljum allt niður í byggð á fjörðunum. Nóttina eftir byrjaði að rigna með hvassviðri af austnorðaustri, og í gær færðist veðrið í aukana með stórfelldri vatnskomu. Oddsskarð tepptist af snjó og Fjarðarheiði var aðeins fær bílum með drifi á öllum hjólum. Mikill vöxtur er hlaupinn í ár og læki, aurskriður afa fallið á vegi, en skemmdir eru víða lítt kannaðar, enda fáförult milli byggðarlaga í þessari veðráttu. Flugferðir til Þórshafnar og Kópaskers féllu niður í gær og flugvöllurinn á Egilsstöðum var lokaður fram eftir deginum. Áætlunarvélin, sem átti að fara til Egilsstaða klukkan þrjú, lagði upp klukkan hálf sex. Blaðið hafði tal af fréttariturum landi í gær, og fer umsögn þeirra hér á eftir:
Þórshöfn: Hér hefur verið austan ruddaveður með vatnskomu og krapa til heiða í fyrradag. Upp úr hádegi í gær fór að rigna á láglendi, og í dag hefur vatnskoma haldist með 67 vindstigum af austnorðaustri. Fjáreigendur eru smeykir um lömb í þessu veðurlagi. H.G.
Vopnafjörður: Austlægt vonskuveður hefur staðið hér yfir í nær tvo sólarhringa. Allar ár eru í hrokavexti, en spjöll hafa ekki orðið. Gera má ráð fyrir, að unglömbum sé hætt, ef veðrinu fer ekki að slota. KV.
Seyðisfjörður: Austan stórviðri með geypilegri vatnskomu hefur staðið hér yfir í nótt og dag. Enn hafa ekki orðið skemmdir, en hér eru fjórar nýjar bryggjur i smíðum, og vita menn ekki, hvað kann að gerast á næsta flóði. Í fyrrinótt og í gær snjóaði í fjöll, og var Fjarðarheiði þá aðeins fær bílum með drifi á öllum hjólum. I.H. Neskaupstaður: Úrfellið er nú meira en í morgun. Nokkur beygur er nú í fjáreigendum, að lömb krókni, ef þessu hrakviðri heldur áfram. V.S.
Eskifjörður: Hér hefur verið stórrigning og stormur í sólarhring, en miklu verra í dag en í nótt. Mikill vöxtur er í lækjum. Vegaskemmdir eru ókannaðar enda fáir á ferli. Má gera ráð fyrir, að talsvert hafi runnið úr vegum. Á.J.
Reyðarfjörður: Vatnsveðrið hefur staðið í dag og nótt, aurskriður hafa fallið á vegi og Oddsskarð lokaðist vegna snjókomu. Þá er farið að renna úr vegum, en um stórskemmdir er þó
varla að ræða enn sem komið er. M.S. Djúpivogur:
Óveðrið skall yfir um klukkan 1 í nótt. Síðan hefur verið látlaus vatnskoma. í dag hefur verið ófært upp á Hérað, strax á Berufjarðarströndinni er slíkur vöxtur i óbrúuðum lækjum, að bílar komast ekki yfir þá Nýbornar ær eru heima við hjá flestum bændum, svo að ekki er gert ráð fyrir lambadauða vegna illveðurs. Þ.S.
Hofsósi, 14. júní. Siglufjarðarskarð lokaðist um tíma í gær vegna fannkomu. Komst þá ekki nema annar áætlunarbíllinn út fyrir skarðið. Í morgun hafði færð batnað, og fóru þá jeppar um skarðið. Í dag er varið að moka þar og ýta.
Morgunblaðið segir einnig frá 15.júní:
Í gær var versta veður á Norður- og Austurlandi, stórrigning og hvassviðri. Kl.18 í gær var sólarhringsúrkoma á Hólum í Hornafirði 124 mm [en var bókuð á sitthvorn úrkomusólarhringinn]. Morgunblaðið átti tal við Jónas Jakobsson, veðurfræðing í gærkvöldi. Sagði hann að lægðin, sem er fyrir Suðausturlandi mundi fara að grynnast og mundi þá draga úr norðanáttinni í dag. Yrði samt trúlega slæmt veður á Norður- og Austurlandi en þó skárra en var í gær. Jónas sagði að á þessum árstíma mætti búast við slæmu veðri og minnti á að ekki væru nema þrjú ár síðan varnargarðurinn við Þingvallavatn brast eftir næturlangt stórviðri á norðan 17. júní 1959.
Morgunblaðið heldur áfram 16.júní:
Siglufirði, 15. júní. Í gær var hér ofsaveður úr norðaustri, sem herti er á daginn leið. Smásprænur í fjallshlíðinni uxu í beljandi elgi og fylltu niðurföll og holræsi og lægsti hluti bæjarins sökk í vætu. Hluti tunnustaflans við Tunnuverksmiðju ríkisins brá á leik og sigldi hraðbyri um götur. Þá munu allmörg hús hafa vöknað í kjallarann. Hvassviðrið reif þakjárn af nokkrum húsum og þeytti plötunum hátt í loft upp en íbúar í þeim húsum urðu varnarlitlir gegn vatnsveðrinu. Þriggja hæða vinnupallur með vesturhlið Útvegsbankahússins fauk á brott og lágu spýtur á víð og dreif um nærliggjandi götur. Trjágróður lagðist víða á hlið í görðum, planki fauk á miðaldra konu, sem marðist illa, ung stúlka, sem fermdist i vor, hófst á loft á vængjum vinda og hlaut af lærbrot. Fréttaritara er ókunnugt um önnur meiðsli á fólki í veðurhamnum. Hér er enn rigning og norðanátt, þó mun hægari.
Tíminn segir enn af illviðrinu í fréttum 17.júní:
Ólafsfirði, 16. júní. Hér hefur verið norðaustan stórrigning með krepjuhríð upp til fjalla öðru hvoru undanfarna daga og er enn. Þó tók út yfir í gærkvöldi, er hann gerði haglél, og á eftir gerði slíka stórdembu, að líkast var sem skrúfað hefði verið frá óteljandi krönum. Stóð demban fram eftir nóttu og núna fram á dag. Þegar menn vöknuðu í morgun runnu stórelfur eftir sumum götum bæjarins, svo varla var stígvélafært, og mun vatn hafa runnið inn í kjallara í sumum húsanna. Um klukkan 11 hljóp fram aurskriða úr fjallinu hérna fyrir ofan bæinn, og rann á tvö hús í brekkunni og stórskemmdi tvær lóðir. Einnig rann inn í annan kjallarann. Skriðan stórskemmdi Hornbrekkuveginn, gróf hann niður, og er hann nú ófær bílum. Skriðan tók sig upp um miðbik fjallsins, og var milli 40 og 50 m breið. Mest var um aur og leðju í henni, en minna af stórgrýti, og hefði hún eflaust valdið enn meiri skemmdum, ef hún hefði byrjað ofar í fjallinu. Um leið og skriðan féll, jókst vatnselgurinn mikið í bænum og rann þá víða vatn inn í kjallara húsa og hafa orðið að því nokkrar skemmdir. Menn minnast þess ekki að slík óveður hafi komið hér áður á þessum tíma árs, og eru nú margir hræddir um sauðfé sitt, sem gengið hefur úti nokkra daga. BS
Tíminn segir fyrst almennar fréttir úr Vatnsdal 20.júní, en birtir síðan bréf um úrfelli á Grenivík og í Svarfaðardal:
Ási, Vatnsdal, 14. júní. Hér hefur verið frekar kalt að undanförnu og gróður með seinna móti. Tíð var sæmileg um sauðburðinn, og bændur eru yfirleitt búnir að marka og ganga frá fé. Mikið hefur borið á kali í túnum, enda klaki lengi í jörðu. Mest hefur borið á þessu í Svínavatnshreppi. Hafa bændur jafnvel rætt um að rífa upp nýræktir og sá aftur, því að öðrum kosti er ekki búist við að spretta verði til gagns. G.J.
Grenivík, Fnjóskadal 14. júní. Hér hefur verið geysilegt vatnsveður í dag. Kalt er til fjalla og snjóar eflaust þar efra. Vorið hefur verið fremur kalt og erfitt. Sæmilega var þó ástatt með hey hjá bændum. Geysilegt kal er í túnum hér í sveit, það mesta sem komið hefur um áratugaskeið. Telja bændur það stafa af svellalögum, sem lögðust yfir í febrúar og héldust fram á vor. Aðallega er kalið í nýrækt, einkinn á uppþurrkuðum mýrum, þar sem flatlendi er mikið. Illa lítur því út með sprettu, enda allt hvítt enn þá á mörgum bæjum. Skepnuhöld hafa verið góð. S.G
Hóli, Svarfaðardal, 14. júní. Í dag var hér eitt alversta veður sem um getur á þessum tíma árs. Rigndi mjög mikið, og hefði eflaust getað gert stórflóð, ef ekki hefði verið kalt á fjöllum uppi, svo þar snjóaði en rigndi ekki. Góðar horfur eru um sprettu, og kal með minnsta móti í túnum. Skepnuhöld voru fremur slæm í vetur, og kemur það eflaust til af því, að fé voru eingöngu gefin hrakin hey, frá því í fyrrasumar, sem var mjög slæmt heyaflasumar. FZ
Dagur segir frá vatnsveðrinu í frétt 20.júní:
Fádæma vatnsveður gekk yfir Norðurland 13. til 15. júní s.l. Olli það skriðuföllum og skemmdum á engjum, túni og girðingum í Sörlatungu í Hörgárdal. Fremst í Sörlatungulandi í utanverðum Barkárdal vestan ár, féllu tvær skriður að kvöldi hins 14. þ.m. Urðu skriðuföll þessi úr hjalla, sem er á milli Hafrár að norðan og Féeggsstaðaár að sunnan. Hjalli þessi er ekki mjög brattur en víða sundurskorinn af giljum og grafningum. Óvenjumikill vatnsflaumur mun hafa valdið því, að jarðvegurinn sprakk fram efst í tveimur giljum við hjallabrún. Önnur skriðan, hin stærri, tók af hagaspildu og hluta túns, svo og girðingu um það hjallamegin. Var tún þetta ræktað fyrir nokkrum árum, þar sem fyrrum hafði verið afbýli frá Sörlatungu og talið er, eftir gömlum heimildum, að hafi heitið Oddugerði. Hin skriðan tók af engjaspildu góða. Auk þessa eyðilögðu skriðurnar vörslugirðinguna á tveimur köflum. Mjög er hætt við, að kindur hafi farist í skriðunum, þar eð þær hömuðu sig í giljum og lægðum meðan mesta hrakviðrið gekk yfir. Ekki er vitað að stórfelldar skriður hafi áður fallið á þessum slóðum. G.S.H.
Morgunblaðið segir almennar gróðurfréttir austan úr sveitum 24.júní:
Geldingaholti, Gnúpverjahreppi, 20. júní. Veðrátta hefur verið heldur köld á þessu vori. Klaki var óvenju mikill í jörð eftir veturinn og mun enn ófarinn allvíða hér. Af þessum ástæðum hefur gróðri farið mjög hægt fram og er nú hér illa gróið, miðað við árstíma og er sýnt að sláttur muni hefjast með seinna móti. Allmikið ber á kali í túnum á sumum bæjum.
Tíminn segir 26.júní fréttir af óvenjulegu særoki í Stykkishólmi í norðaustanillviðrinu um miðjan mánuð:
Stykkishólmi, 25.júní. Mjög lítið er sprottið hér í kauptúninu, og nágrenni þess. Mikið norðan rok hefur verið hér að undanförnu, og dagana 14.15. júní gekk yfir mikið norðan særok og eyðilagði það bæði tún og allan trjágróður hér í nágrenninu. Það er mjög óvenjulegt að særok sem þetta gangi þarna fyrir á þessum árstíma, síðast gerðist það 1956 en þá var það í vestanátt. Skemmdir virðast alvarlegar nú og tún öll gul. Ekki er talið líklegt að trjágróður nái sér í sumar. Einnig eru menn hræddir um að dúntekja og selveiðin hafi farið illa í þessu veðri.
Tíminn ræðir horfur í búnaðarmálum 27.júní:
Blaðið ræddi fyrir skömmu við Steingrím Steinþórsson búnaðarmálastjóra, um ástand og horfur í búnaðarmálum á þessu sumri. Búnaðarmálastjóra sagðist á þessa leið: Vorið var og er mjög kalt og erfitt, svo að segja um land allt. Einkum hefur síðari hluti vorsins reynst kaldur og erfiður, þó ekki sunnanlands sem í öðrum landsfjórðungum. Grasvöxtur er yfirleitt mjög skammt kominn áleiðis, og víða um land eru stórfelldar kalskemmdir. Á Norður- og Austurlandi eru kalskemmdirnar geysimiklar. Ekkert nema sérstaklega hlý og góð tíð gæti bjargað frá eyðileggingu af völdum kals héðan af, og er þó hæpið, að um björgun yrði að ræða. Sauðburður gekk yfirleitt vel og stóráfallalaust. Um sauðburðinn var tíð yfirleitt þurr og köld en sauðgrös sprottin þrátt fyrir kuldann. Slíkar aðstæður eiga vel við um sauðburð. Enn er of snemmt að ræða um uppskeru garðávaxta, en yfirleitt var seint sett niður í garða í vor, því klaki var lengi í jörðu og jarðvegurinn blautur Suðurland mun standa sig best þótt þar geti á bjátað og hafi gert í vor, en kalskemmdirnar norðan- og norðaustanlands, og ef til vill einnig á Vesturlandi, eru alvarlegt áfall. Á5 vísu hefur verið reynt að herfa kalflákana, en það er dýrt og óvíst, að það komi að gagni í sumar. Skepnur voru yfirleitt vel fram gengnar eftir veturinn og lítið bar á óáran í fénaði að frátöldum alvarlegum lambalátum á stöku bæ. Með yfirsýn um land allt verður þetta sennilega að teljast með verra meðalárferði, en mikið veltur á framhaldinu. Enn er tíðarfar óvenjukalt um land allt, sérstaklega frá Norðvesturlandi til Norðausturlands að báðum hlutum meðtöldum.
Tíminn segir fréttir af Snæfellsnesi 30.júní:
Hjarðarfelli, 25. júní. Veðrátta hefur verið köld hér í allt vor, og er spretta lítil sem engin. Ekki verður hægt að hefja slátt fyrr en í fyrsta lagi viku af júlí, en hann er oft byrjaður um þetta leyti. Hitinn hefur oft ekki verið nema um frostmark á næturnar að undanförnu og norðanstrekkingur verið tíður. Vinna nú bændur aðallega við jarðræktarframkvæmdir og byggingar, sem þó eru ekki eins miklar í vor og oft hefur veríð endranær. GG
Vindur snerist til suðlægrar áttar síðustu viku mánaðarins. Þá rigndi mjög sunnanlands og vestan, en fáeinir hlýir dagar komu á Norðurlandi. Morgunblaðið segir frá 30.júní:
Akureyri, 29. júní. Hér eru menn bullandi sveittir innan húss og utan eftir hitabylgju þá, sem gengið hefur yfir. Í gær komst hitinn í hér upp í 2122 stig, og í dag var hann tæp 20 stig. Lækir og ár eru í miklum vexti, grasið þýtur upp, enda mál til komið, því að spretta hefur verið treg. Frammi í Eyjafirði er búið að hirða nokkuð af heyi með góðri verkun.
Tíminn ræðir kal í túnum 1.júlí:
Kalið er höfuðáhyggjuefni margra austfirskra bænda nú um þessar mundir, og svo mun einnig vera víðar um land, víða eru fagrar túnsléttur gráar og dauðar og það sem verra er, eiga sér engrar viðreisnar von án umbyltingar og endursáningar. Við náðum tali af Páli Sigurbjarnasyni, ráðunaut á Egilsstöðum, sem manna kunnugastur er þessum málum, og inntum hann fregna. Þetta er misjafnt eftir sveitum, sama og ekkert í Fljótsdal, á Völlum og líka í Upp-Fellum. Í öllum öðrum sveitum á Héraði gætir þess meira eða minna. Það sem merkilegast er við þetta er það, að hér er um öðruvísi kal að ræða en algengast er. Algengasta kalið er það, sem kemur á vorin, þegar jörðin hefur þiðnað, en frýs svo aftur. Þá slitna ræturnar við frostþensluna í jörðinni. Þetta kal hefur hins vegar komið til af því að svell hefur legið á kalsvæðunum í allan vetur og fram á vor. Jurtin hefur eiginlega kafnað.
Veðurlagið síðasta dag júnímánaðar hefur einhvern veginn stimplast inn í hug ritstjóra hungurdiska. Þá gerði hvassan útsynning með hörkuskúrum í Borgarnesi, háreistum klökkum en bjart var á milli. Þetta er raunar afskaplega ódæmigert veðurlag að hásumri - þegar skúraklakkar myndast fyrst og fremst yfir landi en ekki yfir sjó. Líða oft mörg ár á milli þess að svona veðurlag sjáist í júlí. Í kjölfarið snerist vindur í skammvinna norðanátt. Sums staðar varð hvasst.
Kortið sýnir þessa hryssingslegu stöðu aðfaranótt 1. júlí. Kuldinn fór hratt hjá og við tók hæðarhryggur. Alþýðublaðið segir frá því 3.júlí:
Bílar sem komu yfir Mýrdalssand um helgina voru illa útlítandi, þegar komið var yfir sandinn. Svo mikið rok var þar austur frá, að þótt nokkuð vatnsveður væri, tætti sandinn upp, og hann reif lakk og málningu af bifreiðum og skemmdi rúður. Bílarnir voru rækilega sandblásnir öðru megin, er í byggð kom. Alþýðublaðið átti tal við vegamálastjóra og spurði, hvort einhverjar vegarskemmdir hefðu orðið um helgina í óveðrinu, sem þá var sunnan og suðvestan lands. Vegamálastjóri sagði, að sér væri ekki kunnugt um neinar verulegar vegaskemmdir, en einhverjar skemmdir hefðu þó orðið á vegum hér og þar, t.d. á Snæfellsnesi. Hann sagði ennfremur, að honum hefði ekki verið tilkynnt um sérstakt sandfok á Mýrdalssandi, en ekki þætti sér ólíklegt, að þar hefði blásið, og það væri ekki óvenjulegt, að sandrok þar sandblési bílana öðrum megin. Að því er fréttaritari Alþýðublaðsins á Hvolsvelli sagði í gær, var aftaka veður þar eystra um helgina. Það rann yfir vegi í Holtunum og ferðamenn, sem komu austan af Mýrdalssandi, sögðu sínar farið ekki sléttar, því að bifreiðar þeirra voru stórskemmdar.
Lítil sem engin síldveiði var um helgina, enda veður mjög slæmt á miðunum. Á sunnudag gerði ofsarok, og skall það svo skyndilega á, að nokkrir bátar, er voru að kasta, misstu nætur sínar eða urðu fyrir miklu tjóni er þær rifnuðu.
Júlímánuður var kaldur um land allt og sláttur hófst seint. Heyskapur gekk þó bærilega norðanlands, en skúrasælt var syðra. Tíminn segir af tíð og horfum 8.júlí:
Voríð hefur verið með þeim harðari. sem komið hafa hér á landi undanfarin ár. Sláttur byrjar almennt um hálfum mánuði síðar en venjulega vegna vorkuldanna og lítillar sprettu af þeirra völdum. Víða hafa tún orðið fyrir töluverðum kalskemmdum, og horfur eru á því að vond sprettutíð eigi eftir að draga dilk á eftir sér, þótt nú hafi brugðið til hins betra og hlýnað.
Tíminn segir 13.júlí af sprungu í Atlantshafshryggnum sem var farin að vekja athygli jarðvísindamanna. Nokkrum árum síðar voru hugmyndir gjörbreyttar:
Einn af þátttakendunum í alþjóðlegu náttúruvísindaráðstefnunni, sem hófst í gær í háskólanum, er bandaríski prófessorinn Bruce G. Heecen, sem er heimsþekktur fyrir kenningar sínar um sprunguna eftir endilöngu Atlantshafi, en sprungan liggur gegnum mitt Ísland. Hann ætlaði að flytja erindi um þetta á ráðstefnunni í dag. ... Var þetta ný hugmynd með sprunguna? Já, það held ég. Við Marie Tharp frá Colombia-háskóla vorum stödd á Azoreyjum fyrir svona átta til níu árum, þegar henni datt þetta í hug. Við vorum þá að rannsaka hrygginn eftir miðju Atlantshafinu, en á þessum hrygg er sprungan. Ég trúði þessu alls ekki fyrst. Það tók hann eiginlega fimm ár að sannfærast, skaut Marie Tharp inn í. ... Hvað segið þér um sprunguna? Er hún að stækka? Atlantshafshryggurinn, sem hún er á, er sennilega jafn gamall jarðsögulega og Alparnir og önnur fellingafjöll á jörðinni, sem urðu til, er hnötturinn skrapp saman. Mér finnst sennilegast, að sprungan hafi orðið til við, að jörðin þandist út aftur, og að hún sé enn að víkka.
Morgunblaðið ræðir heyskaparhorfur 22.júlí:
Blaðið hafði tal af fréttaritara sínum undir Eyjafjöllum, Markúsi Jónssyni, á laugardaginn og innti hann frétta af heyskaparhorfum þar um slóðir. Kvað Markús horfur vera mjög ískyggilegar og væri fyrirsjáanlegt, að heyskapur yrði með allra minnsta móti. Sjálfur kvaðst hann hafa byrjað að slá á föstudaginn var og væri líkt á komið með fleiri bændur í Rangárvallasýslu. Einstaka hefur þó náð að slá töluvert en mjög miklir erfiðleikar hafa verið með að þurrka heyið. Hafa menn náð því saman illa þurru og búast má við, að það verði ekki gott fóður. Enginn þurrkur hefur verið í sumar og má heita, að rignt hafi hvern einasta dag, þar til nú í síðustu viku. Tún hafa og orðið fyrir mjög miklum skemmdum.
Tíminn segir 25.júlí frá næturfrosti eystra:
Hákonarstöðum, Jökuldal og Egilsstöðum, 24. júlí. Aðfaranótt laugardagsins [21.] kom nokkurt næturfrost á Jökuldal. Héla var yfir öllu um morguninn, og mun frostið að öllum líkindum hafa komist niður í 5 stig. Í frostinu féll kartöflugras alveg á Hákonarstöðum, og gereyðilagðist. Hins vegar skemmdist kartöflugras ekki á Klausturseli, sem er beint á móti Hákonarstöðum, enda kemur sól þar upp mun seinna. Ekki mun hafa komið frost á Héraði að telja, en héluvottur var á laugardagsmorguninn. Hann hefur verið kaldur á norðan og norðaustan að undanförnu og bjart yfir.
Þann 31. júlí skemmdi elding jarðskjálftamæla á Kirkjubæjarklaustri (Veðráttan).
Ágústmánuður var ekki beinlínis óhagstæður, en heyskapur gekk mjög misjafnlega vegna þrálátra síðdegisskúra. Næturfrost gerði sumstaðar um og fyrir miðjan mánuð.
Tíminn segir af heyskapartíð 2.ágúst. Einnig er greint frá hlaupi í Fjallsá:
Heyskapur hefur gengið með afbrigðum illa það sem af er sumri um allt Suðurland. Þar hefur vart komið þurr dagur, og þrátt fyrir það, að vel hafi litið út að morgni, hafa bændur fengið rigningardembur niður í flekkina, þegar líða tekur á daginn. Telja sumir lán í óláni, að spretta var fremur treg framan af, því að öðrum kosti væri grasið nú orðið ónýtt vegna þess hversu það hefði verið úr sér sprottið. Svo virðist sem heyskapur hafi gengið einna best í neðanverðum Gaulverjabæjarhreppi, og á bæjunum næst Suðurströndinni. Ofar í Gaulverjabæjarhrepp hefur veðurfar verið afleitt allan júlí og ekki komið einn einasti þurrkdagur- Flestir bændur hafa þó náð einhverju inn, en heyskapur er mjög misjafnlega langt kominn í hreppnum. Kal var ekki í stórum stíl í túnum í vor, en sláttur hófst þar þó með seinna móti.
Svo mikið rigndi í Gaulverjabæjarhreppi í fyrradag, að menn muna vart annað eins. Í Gnúpverjahreppi hefur enginn dagur verið þurr í lengri tíma. Einstaka bóndi hefur náð þar einhverju af heyi í súgþurrkun, en ástandið er mjög erfitt hjá öllum fjöldanum. Spretta var treg framan af á Skeiðum, en má nú teljast viðunandi, þar var nokkurt kal í túnum, og hófst því sláttur í seinna lagi. Tíð hefur verið ómöguleg að undanförnu, og ekkert hægt við hey að eiga, nema þá helst að láta það í vothey. Þar hefur ekki komið þurrkdagur síðustu vikurnar. ... Sama hörmungarástandið virðist vera í Holtunum. Þar gengur heyskapurinn illa, og lítið hefur verið um þurrk. Oft þornar heyið fram eftir degi, en rignir svo í það seinnipartinn. Spretta var sæmileg, þar sem ekki var kal í túnum. Bóndi undir Eyjafjöllum sagðist muna eftir einum þurrkdegi frá því sláttur hófst þar. Grasspretta er yfirleitt góð í Mýrdal og undir Eyjafjöllum, og ekkert kal í túnum Rosatíð hefur verið, hey liggur lengi og hrekst, og er því mjög slæmt. Bændur umhverfis Vík í Mýrdal hafa verið að slá að undanförnu, enda máttu þeir til vegna sprettunnar. Veður hefur verið slæmt þar eins og annars staðar. Sömu sögu er að segja af svæðinu milli Mýrdalssands og Skeiðarársanda. Þar hafa aðeins komið tveir sæmilegir þurrkdagar frá sláttarbyrjun. Hey hefur legið allt á aðra viku, og er bæði hrakið og slæmt. Spretta var fremur hæg framan af, en er nú orðin sæmileg. Á Klaustri var ágætis veður fram undir kl. 11 í fyrradag, þá gerði rigningu og á tveimur tímum hafði dembt niður 30 mm. Í gær var veður þar sæmilegt. Það virðist einróma álit bænda á Suðurlandi, að útlit sé með versta móti, og haldi þessu áfram geti orðið lítið um hey í vetur. Hins vegar reyna menn að bera sig vel og segja, að ekki sé öll nótt úti enn, og vel geti brugðið til hins betra í ágúst.
Nú er nýafstaðið hlaup í Fjallsá, en það kom úr lóni við Breiðamerkurfjall. Ekki var annað að sjá en nýja brúin á ánni, sem vígð var fyrir skömmu stæðist þessa eldskírn með prýði. Hlaupið kemur úr lóni við Breiðamerkurfjall, sem myndast í dalbotni. Það er 2 km á lengd, en hálfur á breidd og er alldjúpt. Lónið mjókkar inn til dalsins, og þar lokar skriðjökull fyrir dalinn og stíflar framrennsli vatnsins. Þegar lónið er orðið fullt, lyftir vatnið jöklinum, og fær það þá framrás. Gerist þetta venjulega, á hverju sumri í júlí eða ágúst. Hlaupin valda því, að þá losnar um jaka í lóninu við nýju Fjallsárbrúna, en eins og fyrr segir, stóð brúin af sér allan vatnsflauminn með sóma. SÁ
Morgunblaðið segir 8.ágúst af skátamóti á Þingvöllum og hvassviðri í lok þess:
Skátamótinu á Þingvöllum var slitið á mánudagskvöld [6.ágúst] og fóru norsku og bandarísku og hollensku skátarnir heim í gær, aðrir erlendir skátar fóru út á land, 56 enskir til Akraness, 4 skoskir til Hafnarfjarðar og írskur til Stykkishólms. Sagði Páll Gíslason mótstjóri í gær, að mótið hefði tekist mjög vel. Þrátt fyrir óhagstætt veður, oft rigningu og rok, hefðu skátarnir borið sig mjög vel og allt farið skv. áætlun, enda væri allur viðleguútbúnaður nú orðinn mjög góður. Í fyrrinótt gerði mikið rok á Þingvöllum og verst undir morgun. Fauk þá nokkuð af tjöldum, þar á meðal stóru tjöldin, sem notuð voru fyrir sjúkrahús og pósthús, en pósti og öðru var bjargað yfir í annað tjald. Voru erfiðar aðstæður við póstafgreiðslu í gærmorgun, en gekk þó.
Alþýðublaðið segir einnig af mótinu 8.ágúst:
[Af landsmóti skáta á Þingvöllum] Blaðið átti í gærkveldi tal við Magnús Stephensen, framkvæmdastjóra mótsnefndar. Magnús var þá austur á Þingvöllum. Sagði hann að þar væri hávaðarok og kuldi, allir skátarnir voru þá farnir til síns heima, nema þeir sem voru að vinna að því að taká niður tjöldin. Sagði Magnús að þá um nóttina hefðu fokið ein fimm stór tjöld, hefðu sum þeirra rifnað nokkuð og súlur brotnað. Magnús sagði, að það væri ekki hægt annað en að vera ánægður með mótið, þótt veðrið hefði ekki alltaf verið upp á það besta.
Þjóðviljinn segir 8.ágúst frá snjókomu á fjöllum nyrðra:
Siglufirði 7.ágúst, frá fréttaritara. Siglufjarðarskarð tepptist s.l. nótt vegna snjóa. Ýta var þó send upp strax í morgun til að ryðja veginn. Hann opnaðist aftur í morgun, þó var færðin á honum allþung, svo að það tók áætlunarbílinn rösklega 3 1/2 klst að fara þá vegalengd, sem venjulega er farin á tæpri klst. Mikill fjöldi bíla tepptist fyrir innan Skarð (Fljótamegin) og varð fólk úr þeim bílum að útvega sér gistingu í Haganesvík, Hofsósi og víðar. Fjöll eru hér enn alhvít oní miðjar hlíðar og lítið sem ekkert hefur rignt hér seinni partinn í dag.
Morgunblaðið segir af þjóðhátíð í Eyjum 8.ágúst:
Vestmannaeyjum 7.ágúst [Þjóðhátíð í Eyjum tókst vel, en ... ] í dag og gær var töluvert norðanrok, sem algjörlega hamlaði flugsamgöngum og bíða hundruð manna eftir fari til lands. Hefur Herjólfur verið í stöðugum ferðum og auk þess fór stór hópur með Lagarfossi, sem kom hér við á leið til Keflavíkur. Um miðjan dag í dag biðu enn um 500 manns eftir fari og eru margir orðnir hraktir, enda auralitlir eftir gleðskapinn á þjóðhátíðinni. Verður að flytja alla með skipum, því ekkert útlit er fyrir að lægi í bráð. GG.
Alþýðublaðið spyr 9.ágúst afskaplega kunnuglegrar spurningar - sem heyrst hefur ítrekað nú í sumar - meir en 60 árum síðar (eitthvað eru þýðingar á hugtökum óljósar):
Hvað er að veðrinu? Hvenær fáum við loksins sumar? Þessar spurningar eru algengar á meginlandinu í sumar, eins og síðustu ár, og sömuleiðis hér uppi á Íslandi, og stafa af því, að rigningar hafa verið óvenju tíðar á sumrum undanfarin ár. Vera má að ný og fróðleg skýring sé fundin á þessu vandamáli á grundvelli athugana og mats á veðurathugunum á síðustu áratugum. Samkvæmt þeirri kenningu virðist hitajafnvægi jarðar hafa truflast vegna síaukins magns af koldíoxíði í andrúmsloftinu. Hið geysilega og vaxandi magn af brunaefnum úr skorsteinum verksmiðja og reykur úr dísil og bensínvélum kunna ef til vill að vera helsta orsök þessa ástands. Áður fyrr var það svo, að plöntur tóku til sín svo til allt það koldíoxíð, sem framleitt var í loftinu með útöndun manna, og dýrarotnun, gasmyndun í eldfjöllum og gerjun. Veðrun grjóts, kletta og málma bindur einnig koldíoxíð. Samkvæmt vísindalegum athugunum hefur 100.000 miljónum tonna af kolum verið brennt síðan árið 1900 og hafa úrgangsefni úr öllum þeim bruna farið út í andrúmsloftið. Meðal olíu- og bensínneysla árlega í dag er um 900 milljónir tonna og vex stöðugt. Orsökin hefur orðið sú, að hið eðlilega jafnvægi hefur truflast, þar sem koldíoxíðvinnsla plantna og koldíoxíðbinding veðrunar hefur ekki haft við aukningu framleiðslunnar á þessu efni. Koldíoxíðmagnið í loftinu hefur því stöðugt verið andrúmsloftsstuðull, sem er grundvallaratriði í geislun hita út í geiminn, hafa einnig breyst; vegna aukins koldíoxíðinnihalds hefur loftið yfir jörðinni orðið betri einangrari og má líkja því við gler yfir gróðurhúsi. Hitinn undir þessu einangrunarlagi mun aukast. Hver kynslóð mun að sjálfsögðu ekki verða þessa vör, þar eð lofthitinn vex mjög hægt, en afleiðingin er að sjálfsögðu sú, að meira vatn gufar upp en áður. því að útgufun hita út í geiminn hefur minnkað og hitinn lokast inni. Það vatn, sem gufar upp, hlýtur að falla aftur til jarðar sem úrkoma. Þetta veldur stöðugri úrkomu, munurinn á árstíðunum verður minni, vor, sumar, haust og vetur renna saman í eitt. Mælingar þær, sem gerðar voru um allan heim á alþjóðajarðfræðiárinu [1957-58] leiða í ljós að meðalhiti lofts yfir jörðinni hefur aukist um 1,22 gráður frá aldamótum. Þetta kann að virðast mjög lítið, en ef hiti ykist áfram með sama hraða, gæti það haft ægilegar afleiðingar fyrir komandi kynslóðir. Því að samkvæmt mælingum sem ameríski vísindamaðurinn W.J. Humphries hefur gert, mundi aðeins þriggja stiga aukning á hita til viðbótar bræða gífurlegt magn af ís á heimskautasvæðunum, hið gífurlega vatnsmagn, sem þá kæmi fram, mundi valda því að yfirborð hafsins snarhækkaði og flæddi yfir stór svæði í öllum heimshlutum. Hjá þessari geigvænlegu þróun sem er bein afleiðing vélaaldar okkar yrði aðeins hægt að komast, að áliti vísindanna ef í stað þeirra aflgjafa, sem áður hafa verið notaðir, kæmu aflgjafar, sem ekki láta eftir sig neitt úrgangsgas eða önnur brennsluefni. (Lauslega þýtt úr Neue RuhrZeitung)
Tíminn segir 30.ágúst frá 100 ára afmæli Akureyrarbæjar:
Frá blaðamanni Tímans á Akureyri í gær. Aðalhátíðardagur 100 ára afmælis Akureyrarbæjar var í dag. Hátíðahöldin voru fjölmenn og fóru fram samkvæmt áætlun. Veður var þurrt og fremur kalt, en sólskinsstundir öðru hverju.
Morgunblaðið birtir 30.ágúst fregnir af heyskap:
Blaðið hefur spurst fyrir um það hjá Búnaðarfélagi Íslands hvernig heyskapur hafi gengið í sumar. Heyskapur byrjaði með seinna móti um land allt en í meðalári, enda var vorið kalt og seint spratt. Telja má að sláttur hafi almennt byrjað að minnsta kosti þremur vikum síðar en venja er. Sláttur hófst í lágsveitum kringum 20. júní í fyrra, en í sumar hófst hann ekki fyrr en um miðjan júlí. Á Suðurlandi viðraði illa til heyþurrks fyrst eftir að sláttur hófst. Nú er talið að furðanlega hafi ræst úr með sprettu og verkun heyja, jafn illa og leit út í byrjun. Mun heyfengur vera orðinn sæmilegur víðast, en þó minni en í meðalári. Kal var mikið í túnum á Norður- og Austurlandi, en sama máli gegnir með tjónið af völdum þess, það mun er minna en í upphafi var ætlað, þótt á einstökum bæjum hafi það orðið verulegt. Heyskapur er því víðast minni en í meðalári, en þó ekki svo slæmur að til vandræða horfi.
Tíð var lengst af talin hagstæð í september. Blöð komu ekki út dagana 2. til 10.september vegna verkfalls og vildi svo til að á meðan hélt veðrið sig að mestu til hlés - tíðindi lítil. Næturfrost voru nokkur.
Tíminn segir af garðávöxtum 16.september:
Kristján Benjamínsson, gjaldkeri Sölufélags garðyrkjumanna, sagði Tímanum í gær, að uppskera garðávaxta á undirlendi Suðurlands og í Borgarfirði virtist ætla að verða ágæt, miklu betri en á horfðist um mitt sumar. Síðari hluti sumarsins hefur verið miklu hlýrri, og frostnæturnar, sem komu nýlega, hafa ekki komið að sök. ... Uppskeruhorfur norðanlands eru ekki eins góðar, en þar eru menn ekki farnir að skera neitt upp að ráði vegna heyskaparanna og gangna. Þó mun óhætt að segja að uppskeran sé ekki nema í meðallagi, þar sem best er.
Og fregnir bárust einnig af kornuppskeru. Tíminn 19.september:
Kornskurður er nú hafinn í Gunnarsholti, og enda þótt kornið hafi í sumar haft 2ja vikna lengri vaxtartíma en í fyrra, virðist uppskeran ætla að verða heldur lakari. Um er kennt hinum miklu rigningum, sem verið hafa þar og vorkuldunum lengi framan af í vor.
Fosshóli, 14. september. Heyskapur hefur verið hér fremur rýr í sumar, því spretta var léleg og tún mikið kalin. Menn hafa slegið allt, sem hægt var að slá. Fyrir viku kom hér talsvert næturfrost, 46 stig, og gras er því yfirleitt gjörfallið í görðum. Hér er talsverð kornrækt á tveimur stöðum, á Axarármóum og Einarsstöðum, og virðist kornið vera vel þroskað. Það eru margir bændur, sem eiga kornið, og munu akrarnir vera til samans um 60 hektarar.
Tíminn segir 20.september frá hrakningum í fjárrekstri í nágrenni Reykjavíkur:
Klukkan að ganga sex á þriðjudaginn lögðu 89 Reykvíkingar af stað með rekstur úr Hafravatnsrétt til Reykjavíkur. Mennirnir voru gangandi og ráku hátt á þriðja þúsund fjár. Ætlunin var að reka féð í Breiðholtsgirðinguna, en rekstrarmenn lentu í svartamyrkri og illviðri og töpuðu fénu.
Þann 23. gerði verulegt illviðri þegar kröpp og djúp lægð, afkomandi hitabeltisstormsins Celíu gekk yfir landið norðvestanvert. Sagt var frá veðri þessu í sérstökum pistli hungurdiska fyrir nokkrum árum, aðdraganda þess og eðli. Hér bætum við í fregnir af tjóni af völdum veðursins:
Tíminn segir frá 25.september:
Mikið fárviðri gekk yfir sunnan og vestanvert landið nú um helgina og urðu af því miklar skemmdir bæði á sjó og í landi, en mannskaðar munu ekki hafa orðið. Bátar sukku í höfnum í Þorlákshöfn og í Reykjavík og uppslættir fuku á Suðurnesjum. Veðrið skall á aðfaranótt sunnudagsins og var fyrst á suðaustan, en þá var lægð að nálgast suðvestan úr hafi. Í gær snerist áttin til suðvesturs hér við Faxaflóa, enda var lægðin þá komin undir Snæfellsnes, en ekki dró úr veðurhæðinni. Hér í Reykjavík komst vindhraðinn upp í rúmlega hundrað kílómetra á klukkustund, eða ellefu vindstig. Í fyrrinótt og gærmorgun lægði svo veðrið hér sunnanlands en þá var komin snjókoma norðanlands og vestan.
Í Þorlákshöfn sökk vélbáturinn Skýjaborg úr Reykjavík. Það var nýr tólf lesta bátur, kom fyrst á sjó í apríl síðastliðnum. Báturinn kom inn til Þorlákshafnar s.l. fimmtudag til að landa, en beið svo eftir sjóveðri. Báturinn var bundinn við bryggju, en sex aðrir bátar lágu fyrir legufrum á legunni. Um borð í Skýjaborginni voru þrír menn af áhöfninni og höfðu nóg að gera við að binda bátinn, en hann var í sífellu að slitna frá. Ber öllum saman um, að þeir hafi verið eins lengi um borð og hægt var og lagt sig í mikla hættu. Rétt eftir hádegið á sunnudag reið ólag yfir bryggjuna og bátinn. Fór hann þá næstum á hliðina og hálffyllti af sjó. Hann rétti sig þó við aftur, en þá notuðu mennirnir tækifærið og forðuðu sér í land. Skömmu síðar reið annað ólag yfir bátinn og slitnaði hann þá að mestu frá og rak út á höfnina, hvolfdi og sökk um tíu faðma fyrir utan garðsendann. Ekki hefur þó Skýjaborgin slitnað algerlega frá, því um þrjátíu faðma stálvír, sem skipstjóranum tókst á síðustu stundu að festa milli báts og bryggju, mun hafa haldið og er enn fastur í bátnum. Menn frá Björgun h.f. fóru austur í gær til þess að athuga möguleika á björgun. Ekki urðu neinar alvarlegar skemmdir á þeim sex bátum, sem lágu við legufærin, þó fékk einn þeirra, m.b. Ísleifur, á sig brotsjó og brotnaði eitthvað ofandekks og veiðarfæri sópuðust út. Þá fékk einnig mótorbáturinn Helgi Hjálmarsson frá Hafnarfirði á sig sjó, og var vélarrúm hans hálffullt, þegar bátsverjar komust um borð í gær, en engu að síður tókst þeim strax að koma vélinni, sem er af June Munktell gerð, í gang.
Í Vestmannaeyjum gerði mikið fárviðri, en skemmdir urðu þar ekki mjög miklar. Þó fauk þar uppsláttur að fiskverkunarstöð, sem Eyver er að láta byggja. Fauk uppsláttur að norður- og austurvegg, en allt var tilbúið undir steypu. Er talið, að tjónið nemi a.m.k. 15 þúsundum króna.
Í Sandgerði fauk uppsláttur fyrir nokkrum hluta af mjölhúsi sem Guðmundur Jónsson er að láta byggja í sambandi við síldarverksmiðju. Þar var veðrið fyrst af suðaustri og létu þá norður og austurveggurinn undan en féllu ekki alveg. Þegar veðrið snerist til vesturs, rétti það vegginn fyrst við og felldi hann síðan alveg á hina hliðina.
Í Keflavík urðu miklar skemmdir á landi. Þar fauk uppsláttur að síldarverksmiðju, sem Fiskiðjan h.f. er að láta byggja og var búið að járnbinda. Þá fauk einnig uppsláttur ofan af tveimur fiskvinnslustöðvum, sem byggja átti ofan á. Hjá Axel Pálssyni var búið að slá upp fyrir fimm til sex hundruð fermetra plássi og fór sá uppsláttur alveg. Hjá Helga Eyjólfssyni fór einnig gafl úr samskonar uppslætti.
Í Hafnarfirði strandaði lítill bátur, Vífill GK 144, er annar eigenda hans, Þórður Magnússon, Laufási 5, ætlaði að færa hann innan hafnarinnar. Vél bátsins stöðvaðist og rak hann upp í kletta vestan gömlu bryggjunnar. Báturinn náðist þó fljótlega af klettunum og var dreginn upp að bryggjunni. Þá, kom í ljós, að leki var kominn að honum, og var farið með hann upp í sandfjöru sunnan til í höfninni. Í Reykjavík gerði einnig ofsaveður og varð hér allmikið tjón á bátum í höfninni. Aðfaranótt sunnudagsins slitnaði Freyja RE 97, sem er 24 tonna bátur, frá bryggju og rak yfir að, næstu bryggju og lenti þar á Aðalbjörgu RE 5 og skemmdi hana mikið. Þá sukku fjórir litlir trillubátar við Verbúðarbryggjurnar og stóðu bátaeigendur og lögreglumenn í ströngu um nóttina við að reyna að bjarga bátum, en aðbúnaður að litlum bátum hér í höfninni er slæmur.
Á Akranesi urðu ekki skemmdir á mannvirkjum en mikill skeljasandur fauk þar úr bing Sementsverksmiðjunnar yfir nærliggjandi götur og lóðir, en í sumar hefur verið flutt þangað mikið af skeljasandi, fyrst með Sandsu og síðar með Sandey. Stendur bingurinn hátt yfir nærliggjandi götur, og eru íbúar nærliggjandi gatna ekkert hrifnir af þeim félagsskap, eftir því sem fréttaritari blaðsins tjáði okkur.
Á Vestfjörðum var einnig vonskuveður. Fréttaritari blaðsins á Ísafirði sagði blaðinu í gær, að þar væri þá snjókoma og snjóaði um allt Djúp, og Breiðadalsheiði og Botnsheiði væru orðnar ófærar. Á Drangsnesi fórst báturinn Kristín aðfaranótt sunnudagsins, en mannbjörg varð. Verið var að flytja bátinn til, en honum hafði verið lagt í vari fyrir utan svonefnt Malarhorn, þar sem verið er að gera við bryggjuna á Drangsnesi. Vél bátsins bilaði og rak hann upp í kletta í Malarhorni. Mennirnir komust i land en báturinn brotnaði í spón.
Morgunblaðið segir einnig frá 25.september:
Um helgina gekk ofsaveður yfir suðvesturströndina, og komst rokið upp í 1213 vindstig á sunnudag. Hásjávað var og fylgdi veðrinu mikið brim. í öllum höfnum á Suðvesturlandi voru sjómenn önnum kafnir við að bjarga bátum sínum. Á Þorlákshöfn slitnaði Skýjaborgin frá Reykjavík frá bryggju og sökk, en náðist upp í gær.
Í Reykjavíkurhöfn sukku 3 trillur og vélbáturinn Freyja slitnaði frá og rakst á Aðalbjörgu, sem brotnaði. Óveðrið náði einnig norður á Strandir, þar sem 12 lesta þilfarsbátinn Kristínu rak upp í kletta og tveir menn sluppu naumlega í land. Á landi varð nokkurt tjón af veðri í verstöðvum, einkum fauk uppsláttur að byggingum, sem átti að fara að steypa, og í Reykjavík fuku járnplötur af skúrum, girðingar lögðust niður og margra áratuga gömul ösp slitnaði upp.
Óveðrið hófst á laugardagskvöld er þykknaði upp með suðaustanátt og hvassviðri og rigningu um nóttina, en gekk í suðvestan á sunnudagsmorgun og var veðrið verst um miðjan daginn á sunnudag. Samtímis gekk hann í norðaustur á Vestfjörðum með slydduhríð og síðan snjókomu og var hvöss norðanátt um allt norðanvert landið. Í gær var lægðin komin norðaustur fyrir og að fjarlægjast.
Norður á Drangsnesi á Ströndum fór þilfarsbáturinn Kristín upp í kletta og björguðust tveir menn naumlega á land. Blaðið átti i gær tal við Guðmund Halldórsson á Drangsnesi, eiganda Kristínar, og sagðist honum svo frá: Við sóttum bátinn á laugardagskvöld í legufærin og fórum með hann inn fyrir Horn. Þar er skjól fyrir sunnan- og suðvestanáttinni og eru bátar oft hafðir þar í þeirri átt. Við ætluðum að fá skjól til að vinna við hann. Við komumst ekki að bryggju á Drangsnesi, því verið var að steypa ofan á hana. Við unnum svo við bátinn allan laugardaginn og ætluðum að fara með hann aftur í legufærin á laugardagskvöld, en þá fór vélin ekki í gang. Við sendum þá eftir öðrum báti frá Drangsnesi, en eigandinn þurfti að fara á árabát út í hann og tók það nokkurn tíma. En á meðan skall skyndilega á ofsarok með stórsjó og breyttist áttin á augabragði yfir á austan. Þetta gerðist svo snöggt að hinn báturinn náði ekki til okkar. Kristín slitnaði frá akkerinu að aftan og skipti það engum togum að báturinn kastaðist upp í klettana. Með mér um borð var Pétur Ingvarsson. Við stukkum strax upp og ef við hefðum ekki farið á þessari báru þá hefðum við ekki sloppið. Sjógangurinn var svo mikill að hann mölvaði stýrishúsið og allt ofan af bátnum og það kom á eftir okkur upp í klettana. En báturinn kom ekki upp aftur. Svartamyrkur var og klettarnir sleipir, svo við áttum í örðugleikum með að fóta okkur. En okkur varð ekki meint af. Kristín var 12 lesta þilfarsbátur, byggður 1942. Og við ætluðum að fara að byrja vertíð.
Fréttaritari blaðsins í Þorlákshöfn símaði: Skýjaborgin úr Reykjavík lá hér við bryggju í óveðrinu á sunnudaginn og gengu ólög öðru hverju yfir hana. Milli kl. 12 og 1 kom nokkuð stórt ólag og fyllti bátinn og fór skipshöfnin, 3 menn, þá í land, en 15 mínútum seinna kom aftur brotsjór og sleit bátinn frá bryggjunni. Lagðist hann á hliðina, rak út á leguna og undir afturendann á mb. Klæng, og sökk þegar. Hefðu mennirnir ekki verið farnir í land, þá hefðu þeir varla sloppið lifandi, því þó þeim hefði tekist að komast út úr bátnum, þá var ekki hægt að setja fram bát. Vír lá úr Skýjaborginni og upp á bryggjuna og þannig fundu björgunarmenn hvar báturinn lá í morgun, en það var skammt undan hafnargarðinum. Mótorbáturinn Friðrik Sigurðsson krækti í Skýjaborgina með dreka og gat lyft henni og síðan var hún dregin á vírnum, sem hafði verið í land, upp að bryggjunni. Var unnið að björgunarstarfinu allan daginn. Kl.7 lyftu síðan tveir kranar bátnum úr sjó og var verið að dæla úr honum, er fréttaritarinn símaði áður en-símanum var lokað. Og var ekki enn hægt að sjá hve mikið brotinn hann væri. Eigandi Skýjaborgarinnar er Þórarinn Sigurðsson, ljósmyndari, og skipstjóri Magnús Þórðarson úr Reykjavík. Í óveðrinu gerðist það einnig að mb. Ísleifur lagðist á hliðina, þar sem hann lá á legunni, og köstuðust veiðarfæri fyrir borð. En báturinn rétti sig aftur.
Veðurhamsins gætti mest í Reykjavík á sunnudagsnótt og sunnudag. Hafnarverðir kölluðu út bátaeigendur og aðvöruðu þá, og komu þeir yfirleitt á vettvang. Aðfaranótt sunnudags slitnaði 24 lesta vélbáturinn Freyja upp við. Verbúðarbryggjurnar og rak yfir á næstu bryggju, þar sem Aðalbjörg RE 5 var og brotnaði dekkið á henni við áreksturinn. Einnig urðu skemmdir á Freyju. Þá sukku 3 trillubátar og ein trilla með dekki, en þær lágu við baujur í höfninni. Rak þær upp í garðinn og sukku. Var dekktrillunni náð upp á sunnudagsmorgun, en ekki munu eigendur hafa verið farnir að huga að hinum í gær. Lögreglan var mikið kölluð út í óveðrinu, þangað sem járn var að fjúka af skúrum. Einnig voru brögð að því að fánastengur brotnuðu og grindverk fóru við Grænuborg og víðar. T.d. fauk geymsluskúr, sem áfastur var við íbúðarbragga við Bústaðaveginn og járn fór af nýjum byggingaskúr í Álftamýri. Stór ösp, fjögurra áratuga gömul, sem gnæfði upp yfir einnar hæðar hús, með risi og kjallara, á Njálsgötu 42, tók á sunnudag að hallast og berjast utan í húsið. Fóru 8 lögregluþjónar á vettvang, vopnaðir köðlum og felldu þeir þetta mikla tré. Mótauppsláttur af stórum fiskhúsum fauk í verstöðvunum á Suðurnesjum varð mikið tjón af því að uppsláttur að fiskhúsum í byggingu fauk.
Fréttaritari í Keflavík símaði: Veðurhæðin var hér gífurleg um helgina og mest um 4 leytið á sunnudag, þá 65 hnútar eða yfir 120 km vindhraði á klukkustund. Í Njarðvíkum slitnaði vélbáturinn Vöggur frá bryggju og rak upp á milli bryggjanna, en náðist lítið skemmdur. Í Keflavík varð mikið tjón á byggingum. Var búið að slá upp steypumótum fyrir um 945 ferm síldarþró, sem Fiskiðjan á. Átti að fara að steypa í mótin, en þau lögðust alveg niður og eru gjörónýt. Einnig var verið að byggja ofan á tvö stór fiskvinnsluhús á Vatnsnesi. Fór allur uppsláttur að efri hæð á 450 ferm. fiskvinnsluhúsi hjá Axel Pálssyni og mikið af mótauppslætti á fiskhúsi hjá Helga Eyjólfssyni fór einnig. Á nokkrum stöðum í Keflavík brotnuðu auk þess gluggar og járnplötur fuku. Átti að steypa mjölgeymsluna í gær. Fréttaritarinn í Sandgerði símaði að þar hefði ekkert orðið að í höfninni í ofsaveðrinu. En 65 m langur og 5 m hár uppsleginn veggur í mjölgeymslu, sem Guðmundur Jónsson er að reisa í sambandi við síldarverksmiðju, lagðist út af. Var uppslátturinn alveg til og átti að steypa í gær. Seinkar verkinu nú um 3 vikur og er tjónið tilfinnanlegt.
Fréttaritari blaðsins í Hafnarfirði símaði: Í veðurofsanum á sunnudaginn voru bátarnir, sem lágu við bryggjurnar, í allmikilli hættu, því suðvestanáttin er hin versta hér. Ekki slitnaði þó neinn bátur frá, en trillubátur, Vífill GK 144, sem verið var að flytja út að hafnargarðinum, rak að uppfyllingunni fram undan Hellyershúsunum og festist þar á skeri. Stöðvaðist vél bátsins á leiðinni út í garð og rak hann þá á fyrrnefndan stað. Er þetta rétt við gömlu bryggjuna og var hægt að koma taug út í hann og síðan dró jeppi hann af skerinu og menn, er voru á bryggjunni. Var þá kominn leki að honum. Maðurinn um borð í trillunni var að sjálfsögðu í lífshættu um tíma, en allt fór þó betur en á horfðist. Ekki varð annað teljandi tjón í þessu óveðri, utan þess að uppistöður við hús skammt frá kirkjugarðinum fuku. G.E.
Fréttaritari blaðsins á Stokkseyri sagði, að þar hefði verið mikið brim og sjórinn gengið upp undir sjógarðana, en bátana í höfninni sakaði ekki. Mikið flóð var og gekk sjórinn upp að Hraunsárbrú, því þar er opið ármynnið.
Suðaustanrokið náði alla leið til Hornafjarðar og þar fuku plötur af húsum. Þó kvað fréttaritarinn veðrið varla hafa verið eins slæmt og helgina áður, en þá fuku einnig plötur af húsum. Á sunnudag var rokið svo mikið að menn treystu sér ekki með bíla niður fyrir Almannaskarð og biðu þess að lægði fyrir norðan. Einnig beið Lóðsinn frá Vestmannaeyjum í höfninni, því mikið brim var. Aftur á móti voru bátar ekki í hættu, því höfnin er mjög örugg.
Akranesi: Gríðarmikinn landsynning gerði aðfaranótt sunnudags. Fyrri hluta nætur þyngdi hann æ meir og kl.3:30 um nóttina rauk hann á með ofsa. Ellefu járnplötur fuku af þaki á húsinu Stekkjarholti 20. Lenti ein á rúðu á næsta húsi og braut hana. Afturtaugarnar ruku í sundur á einum bát hér í höfninni. Aðrar skemmdir urðu ekki hér, svo vitað sé. Oddur.
Í Vestmannaeyjum var æði hvasst, að sögn fréttaritara, fór rokið allt upp í 1213 vindstig. En engar skemmdir urðu af völdum veðurs, annað en uppsláttur að fiskverkunarhúsi, skemmdist.
Óveðursins um helgina gætti á sunnanverðu Snæfellsnesi, en lítið norðan megin. Flóðhátt var og geysimikið brim sunnan á nesinu og allir uppteknir við að bjarga bátunum, að sögn fréttaritarans á Hellnum. Voru bátarnir í uppsátri þar, en það neðarlega að þeir voru í hættu. En ekkert tjón varð á bátum eða mannvirkjum. Þegar svona veður er, er stórkostlegt að sjá þegar sjórinn þrýstist inn í gjárnar við Arnarstapa og spýtist upp um götin, svo strókurinn stendur hátt í loft, og þannig var það nú um helgina.
Einnig hafði verið mikið brim á Bolungarvík, eitthvert það mesta sem þar hefur komið, að sögn fréttaritarans. Giskar hann á að um 30 m brim hafi verið við brimbrjótinn, en tjón varð lítið. Grjót gekk þó yfir brjótinn, og ljósker fóru á hafnarbakkanum.
Í fyrrinótt og gær snjóaði á vestanverðu Norðurlandi, og mest á Vestfjörðum. Náði snjókoman suður á Snæfellsnes, þar sem snjóaði niður á láglendi, og austur í Eyjafjörð. Siglufjarðarskarð lokaðist í gær og voru bílar tepptir beggja megin við það. Blaðið átti tal við nokkra fréttaritara sína á þessu svæði, er fluttu eftirfarandi snjófréttir:
Á norðanverðu Snæfellsnesi voru fjöll hvít. en í gær var þó farið að blotna þar og snjór að hverfa aftur. Á Hellnum hafði snjóað niður á láglendi. Við Patreksfjörð fennti í fjöll. Í Rauðasandshreppnum átti að fara í leitir í gær en leitum var frestað vegna snjókomu. Einnig var göngum, sem áttu að hefjast í gærmorgun frá Flateyri, frestað. Voru gangnamenn síðbúnir vegna veðurs og voru fyrst að leggja upp kl. 10 um morguninn Fréttaritarinn í Bolungarvík, sagði að í gær hefði snjóað töluvert og væri alveg hvítt ofan í byggð. Í Skagafirði snjóaði í fjöll og einnig við Eyjafjörð. En fréttaritari blaðsins á Akureyri sagði að enginn snjór væri í Vaðlaheiði og fréttaritarinn á Húsavík sagði að þar væri enginn snjór.
Tíminn segir 27.september af hretinu í kjölfar illviðrisins:
Akureyri, 26. september. Hér hefur verið norðan krapahríð og snjóað niður í byggð i morgun, en vindur er nú hægur. Ökkladjúpur snjór er kominn á Vaðlaheiði. E.D.
Tíminn segir 28.september af tjóni sem illviðrið olli á kornrækt:
FB-Reykjavík, 27.september. Talsvert tjón varð á kornræktinni í Gunnarsholti í óveðrinu, sem gekk yfir landið um síðustu helgi. Um korntilraunir Atvinnudeildarinnar er það að segja, að mikill hluti kornsins, sem í þeim var, hafði þegar verið skorinn upp, en ein áburðartilraun eyðilagðist þó alveg. Um þriðjungur af svokölluðu jötubyggi, sem ræktað hefur verið í Gunnarsholti skemmdist algjörlega í veðrinu, en það hafði verið á 15 hektara landssvæði. Hjá SÍS tapaðist þriðjungur til helmingur af Sjellabyggi, og eins og fyrr segir eyðilagðist áburðartilraun Atvinnudeildarinnar algjörlega. Er að því mikill skaði, því ekki er hægt að draga neinar ályktanir af því, sem vitað var um sprettu kornsins áður en það fauk. Hins vegar hefur Atvinnudeildin gert um 20 samanburðartilraunir á korni í sumar, og skemmdust þær ekki, enda var búið að skera mikinn hluta þeirra upp, þegar óveðrið skall á. Í Gunnarsholti var í gær búið að skera upp 40 hektara af um 170, og búist var við að skornir yrðu upp 10 hektarar í gærdag. Hertabygg, sem mikið er ræktað af í Gunnarholti hefur ekkert skemmst í óveðrinu, og þolir það vind betur en flestar hinna tegundanna. Um hafrana er það að segja, að þeir hafa lagst og þvælst á ökrunum, en þeir eru ekki eyðilagðir, og þykir furða hvað þeir þola.
Tíminn segir fréttir af Norðausturlandi 29.september:
Kópaskeri, 20. september. Um helgina gerði hér vont veður og snjóaði í fjöll, en síðustu daga hefur verið gott veður og snjó tekið aftur upp. Heyskap er hér nú að mestu lokið, þótt illa liti út fyrir skömmu, hefur ræst úr síðustu dagana. Þ.B.
Þórshöfn, 20. september. Illviðri í göngunum um daginn á Hvammsheiði og Dalsheiði, nema síðasta daginn. Úrkoman var að vísu lítil, en veðurhæð mun hafa verið 89 stig og frost um 10 stig. Fé var alls staðar í skjóli og vart sást kind á beit, en heimtur munu þó sæmilegar. Heyskap er hér nú alls staðar lokið eða að ljúka og er hann langt undir meðallagi. Ó.H.
Október var nokkuð umhleypingasamur og síðasta vikan erfið. Hvassviðri gerði um mánaðamótin og í byrjun október þegar mjög djúpar lægðir voru á ferð sunnan við land.
Morgunblaðið segir frá 2.október:
Um helgina gekk hvöss norðaustanátt yfir landið, byrjaði á Austurlandi og gekk síðan vestur yfir. Mestur vindhraði mældist í Reykjavík, 9 vindstig, að því er Veðurstofan upplýsir. En mjög hvasst var einnig á Stórhöfða í Vestmannaeyjum, sem er ákaflega áveðurs. Ekki hefur blaðið fregnað að verulegt tjón hafi orðið af völdum veðursins þó helst í Reykjavík þar fuku plötur af nokkrum stöðum af húsum, eins og t.d. í Bankastræti, Traðakotssundi 3 og á tveimur stöðum í Skerjafirði. Þá fuku kassar af Laufásvegi 12 og uppsláttur fór á Laugarnesvegi 114. Voru tveir vinnu flokkar frá bænum allan sunnudaginn á ferðinni. í veðrinu fuku járnplötur á 3 bíla á Ruðalæk 69 og skemmdu þá nokkuð. Í höfninni var mjög hvasst og sökk ein trilla.
Fréttaritarinn á Patreksfirði símaði í gær að þar inni lægju vegna veðurs 12 breskir togarar og varðskipið Russel. Á sunnudag var þar úti í firðinum stórsjór, með stærstu sjóum sem sést hafa þar.
Tíminn segir einnig frá 2.október:
MBReykjavík, 1.október. Mikið hvassviðri gekk yfir landið nú um helgina og fylgdi því mikil úrkoma, mest um austanvert landið. Samkvæmt upplýsingum Veðurstofunnar fór að hvessa um níuleytið á sunnudagsmorguninn [30.september] af norðaustri. Fór veðrið síðan versnandi og náði víðast hvar hámarki síðdegis á sunnudag. Í dag gekk veðrið niður og fór þá jafnframt hlýnandi, t.d. var í gærdag 11 stiga hiti bæði í Reykjavík og á Akureyri, en í gærdag fór hitinn niður í 4 stig á Akureyri. Í Reykjavík varð veðurhæðin mest 9 vindstig i gær. Úrkoman varð mest á Austurlandi, frá kl. 918 í gær mældist úrkoman á Hólum í Hornafirði 27 mm og á Kambanesi 19 mm. Samkvæmt upplýsingum frá fréttariturum blaðsins á Austurlandi i dag, var þar þá enn vonskuveður. Ekki var kunnugt um annað tjón af völdum veðursins, en sagt er frá hér á siðunni, þó sagði fréttaritari blaðsins á Höfn, að menn þar væru hræddir um að korn hefði skemmst, en það slapp í óveðrinu um daginn, og var talið líta vel út með uppskeru. Á sunnanverðum Austfjörðum voru vegir sums staðar orðnir illfærir vegna rigningarinnar, en ekki var vitað, hvort um alvarlegar skemmdir hefði verið að ræða. Hér í Reykjavík var mikill sjógangur seinni part dagsins í gær, en ekki var blaðinu kunnugt um annað tjón í höfninni en það, að ein trilla sökk.
Mikið tjón varð í óveðrinu um helgina undir Eyjafjöllum. Þök fuku þar af hlöðum og fjárhúsum á þremur bæjum og heyvagnar fuku um loftið. Tjónið varð á Núpi, Vallnatúni og Efstu-Grund. Samkvæmt frásögn fréttaritara blaðsins á Hvolsvelli og bænda fyrir austan, mun veðrið hafa versnað mjög um kl. fjögur í gærdag, og var á hánorðan. Þá fauk þak af hlöðu í Vallnatúni, þök af fjárhúsum og hlöðu á Núpi og þak af hlöðu á Efstu-Grund, svo og nýbyggður skúr. Þakið af hlöðunni á Núpi fauk af í heilu lagi, með sperrum og böndum og barst langa leið. Sumt af járninu er fundið alla leið niður undir sjó, í um þriggja kílómetra fjarlægð, en sumt af því er ófundið. Það járn, sem fundið er er allt stórskemmt og ónýtt. Bóndinn á Núpi, sem átti hlöðuna og fjárhúsin, er Ragnar Guðmundsson. Guðmundur Guðmundsson, sem einnig býr á Núpi, var að koma heyvagni í skjól í gærdag, þegar vindhviða reið yfir. Skipti það engum togum, að vindurinn svipti vagngólfinu af hjólunum og vissi Guðmundur ekki fyrr en það sveif fram yfir hann og lenti fyrir framan hann, brotnaði þar og fauk í allar áttir. Guðmundur sat á dráttarvél og varð hann að beygja sig, svo hann yrði ekki fyrir vagngólfinu, svo sjá má, að ekki hefur miklu munað. Þetta var með verri veðrum, sagði bóndinn á Efstu-Grund, Karl Sigurjónsson. í viðtali við blaðið. Veður verður hér verst í norðaustanátt og mjög slæmt í norðanátt, eins og hér var um að ræða. Veður verða hér oft svo vond. að fólk, sem ekki hefur kynnst þeim af eigin raun, trúir því ekki. Þakið af hlöðunni hjá mér fauk stutt i heilu lagi, en svo tvístraðist úr því og mikið af járninu er ónýtt. Bóndinn á Vallnatúni heitir Axel Ólafsson. Ekki var fréttaritara blaðsins á Skógum kunnugt um tjón undir Austur-Eyjafjöllum, utan það, að eitthvað fauk af tjöldum brúarsmiða við Skógá.
Tíminn segir af skriðuföllum í Hvalfirði 9.október:
BÓReykjavík, 8.október. Um klukkan 11 fyrir hádegi á sunnudaginn {7.] hljóp skriða úr Múlafjalli sunnan Hvalfjarðarbotns og færði veginn í kaf á 20 metra kafla. Mikil vatnskoma var Hvalfirði á sunnudagsnóttina. Skriðan hljóp undan stuðlabergi sem er efst í fjallinu, en það er mjög bratt í sjó fram. Aurdyngjan á veginum var nær tveggja metra þykk, en engin björg fylgdu henni. Vegagerðin sendi jarðýtu og tvo veghefla á vettvang um hádegið, en vegurinn var tepptur í nær fjóra klukkutíma og 1520 bílar töfðust beggja vegna skriðunnar. Fyrir nokkru hrundi spilda af stuðlabergi úr Múlafjalli og skemmdi girðingu, en kom ekki á veginn. Skriðuföll eru þó sjaldgæf á þessum slóðum.
Mjög hlýtt var í veðri í nokkra daga í kringum þann 20. Morgunblaðið segir frá 20.október:
Grímsstöðum á Fjöllum 10. október. Hér er 10 stiga hiti í dag, sumarblíða og brúsandi þurrkur. Hefði maður sannarlega þegið slíkan dag á heyskapartímanum í sumar. Veðrið hér í haust hefur verið með eindæmum gott, og bætir það upp lélegt sumar. Áætlunarferðir frá Vopnafirði og Reyðarfirði til Akureyrar eru nú hafnar aftur, en þeim lýkur yfirleitt um mánaðamótin september-október. Er það mjög óvanalegt að áætlunarferð sé haldið áfram svo seint. ... Hér hefur verið sérstaklega gott tíðarfara í haust og bætir það upp sumarið, en þá voru fáir sólskinsdagar hér um slóðir. Júníkuldar stóðu lengi og var sumarið í heild eins óhagstætt og frekast mátti vera.
Morgunblaðið birti 21.október nokkuð hráslagalega haustlýsingu úr Reykjavík, en í sama blaði eru fréttir af hlýindum fyrir norðan:
Í gær grúfði haustið yfir borginni. Útsynningurinn rak skúrirnar hverja á fætur annarri inn Flóann, göturnar voru hráblautar, krakkarnir ösluðu í pollunum og fullorðna fólkið spennti upp regnhlífarnar eða bretti upp kápukragana í vonlausri vörn gegn vætunni, sem allsstaðar leitaði á. Laufið var að mestu fallið af trjánum og fauk um torg og stræti, fölnað og gult. Eitt og eitt lauf stritaðist ennþá við að halda sér fast á greinum trjánna, sem berjast við húsveggina.
Akureyri, 20. október. Mikill hiti hefur verið hér á Akureyri og í Eyjafirði að undanförnu, t.d. fór hitinn á Akureyri upp í 17 gráður í gær, en var kl. 9 í morgun 14 gráður og fer vaxandi. Þetta er jafn mikill hiti og þegar best var í sumar. Allir vegir í nágrenninu eru vel færir bifreiðum og einnig um Austurland. Bifreiðastjórar frá Raufarhöfn og Vopnafirði segja, að færðin sé síst lakari en s.l. sumar. St. E. Sig.
Hámarkshitinn dagana 20. og 21. október stendur enn sem dægurhitamet á Akureyri og hámarkið á Seyðisfirði þann 20. (20,0°C) er enn dægurhitamet þess dags (sjá talnaviðhengið). Hlýindunum fylgdi mikið úrfelli um landið vestanvert. Þótt atburðurinn sem slíkur hafi staðið tæpan sólarhring skiptist úrkomumælingin (eins og oft vill verða) á tvo daga. Talan sem nefnd er hér að neðan úr Kvígindisdal er því ekki í Veðráttunni.
Tíminn segir frá 23.október:
MB-Reykjavík, 22. október. Geysilegt úrfelli gekk yfir mikinn hluta landsins frá föstudagskvöldi síðastliðnu til laugardagskvölds og olli það víða miklum skemmdum á vegum. Rigningin jókst eftir því, sem vestar dró, og mest úrkoma mældist í Kvígindisdal, en þar mældist hún 94 mm frá því klukkan 18 á föstudagskvöldi til jafnlengdar á laugardegi. Þótt dregið hafi úr úrkomu á laugardagskvöldinu rigndi samt enn víða drjúgt á sunnudagsnóttina, t.d. í Kvígindisdal, en þar mældist úrkoman 27 mm á sunnudagsnóttina. Samkvæmt upplýsingum Páls Bergþórssonar veðurfræðings voru orsakir þessarar miklu úrkomu mjög hlýtt og rakt loft, sem hingað barst langt sunnan úr höfum, og kaldara loft, sem var að ryðja sér til rúms úr vestri. Sem dæmi um hlýindin má nefna það, að á föstudag mældist hvorki meira né minna en 19 stiga hiti á Dalatanga og 18 stiga hiti var á Akureyri á laugardaginn. Sagði Páll, að svo mikil hlýindi væru mjög óvenjuleg á þessum tíma árs.
Tíminn spurði Jón Víðis, á Vegamálaskrifstofunni um vegaskemmdir. Þær hafa orðið miklar, einkum á Vestfjarðakjálkanum. Á Hjallahálsi og Kletthálsi komu skörð í veginn. Í Djúpafirði rofnaði vegurinn á mörgum stöðum. Galtará og Eyrará í Kollafirði, sem eru óbrúaðar, hafa grafið sig niður og Fjarðarhornsá hefur rifið veginn sundur á 10 metra kafla, rétt við brúna, Ræsi hefur bilað hjá Illugastöðum og Skálmardalsá hefur hlaupið úr farvegi sínum og rofið stórt skarð í veginn. Þar hefur einnig ræsi bilað. Ekki mun unnt að gera við þær skemmdir nú, heldur verður ruddur bráðabirgðavegur. Í Vattarfirði hafa mörg skörð komið í veginn, m.a. um þrjátíu metra skarð rétt hjá Þverá. Við það verður ekki unnt að gera nú í haust heldur verður rutt upp að klettunum; þar verður fær leið en vond. Á Barðaströndinni hefur bilað ræsi hjá Litluhlíð, skarð hefur komið í veginn hjá Hvammi og skriða hefur hlaupið yfir veginn hjá Arnórsstöðum. Búið mun að gera við þær skemmdir. Skemmdir á veginum yfir Þingmannaheiði munu hafa orðið litlar og er hún fær. Hinn nýi Vestfjarðavegur hefur staðist þessa úrkomu vel. Þó hafa einhverjar smávegis skemmdir orðið í Peningsdal. Suðurfjarðarvegur, milli Patreksfjarðar og Arnarfjarðar, mun bilaður á mörgum stöðum, en skemmdir eru ekki miklar á hverjum stað. Ketildalsvegur í Dýrafirði mun eitthvað bilaður hjá. Bakka og Fífustöðum. Eins og áður segir urðu mestu skemmdirnar á Vestfjarðakjálkanum. Víðar urðu þó nokkrar skemmdir. Á Skógarstrandarvegi hljóp Kársstaðaá úr farvegi sínum og olli skemmdum. Norðurá í Borgarfirði flæddi yfir veginn milli Hraunsstaða [svo] og Brekku og var um tíma meters djúpt vatn á veginum. Vatnið þar hefur nú sjatnað og bráðabirgðabrú verið sett á ræsi, sem bilaði og leiðin nú fær. Grjótá í Svínadal flæddi upp að veginum á stórum kafla og leit út fyrir, að þar gætu orðið miklar skemmdir. Fyrir norðan urðu ekki miklar skemmdir. Öxnadalsá rauf að vísu skarð í veginn við nýju brúna, en hægt er að notast við gömlu brúna, svo umferð tefst ekki. Skriða hljóp yfir veginn við Bakkasel, en hún mun fljótlega hafa orðið fær.
Morgunblaðið segir einnig af rigningunum 23.október:
Síðari hluta síðustu viku gengu miklar rigningar á Vestfjörðum. Rigndi upp undir 100 mm á nokkrum stöðum. Þess má geta að í Kvígindisdal rigndi frá því kl. 18 á föstudagskvöld til jafnlengdar á laugardagskvöldi 94 mm. Er þetta, að sögn Veðurstofunnar, sérlega mikil úrkoma á jafn skömmum tíma. Í sumar var t.d. á Suðurlandi rigningasamt, einkum austan Fjalls, en þó var mánaðarúrkoma aldrei yfir 6070 mm. Á mörgum stöðum á landinu kemur aldrei jafnmikil úrkoma og þetta. Þessi sólarhringsútkoma jafngildir einum sjöunda hluta ársúrkomu hér í Reykjavík og þykir þetta dágóð mánaðarúrkoma í úrkomumestu sveitum landsins. Á sama tíma og þessi mikla úrkoma var á Vestfjörðum voru hitar óvenju miklir á Norður- og Austurlandi. Á föstudag var 19 stiga hiti á Dalatanga og á laugardag 18 stig á Akureyri. Er þetta kennt hinum svonefndu fönvindum, sem ganga yfir hálendið. Á uppleið losna vindarnir við mikla úrkomu en tapa ekki hita að sama skapi og á niðurleið.
Úrkoman á Vestfjörðum hafði í för með sér miklar vegaskemmdir, svo nú er vegurinn til Ísafjarðar algerlega lokaður og á nokkrum öðrum stöðum hafa orðið vegaskemmdir. Unnið var í gær að lagfæringu veganna, sem víða verða þó aðeins til bráðabirgða, einkum þar sem ræsi hafa skolast í burtu eða fallið úr sambandi. Er unnið að því að gera fært með ruðningi nývega utan við skemmdirnar eða jöfnun i farvegum ánna, sem farið hafa framhjá brúm. Einnig hafa skriður fallið og hefur þeim verið rutt af Vegunum. Sem fyrr segir hafa vegirnir á Vestfjarðaleið víða teppst, en ekki hafði Vegagerðin frétt af því að Þorskafjarðarheiði væri ófær í gærkvöldi. Víðast var farið að gera við skemmdir með þeim tækjum öllum er Vegagerðin hefur yfir að ráða á þessum slóðum. Verið var þó enn í gær að kanna skemmdirnar. Hvorki var í gær fært til Patreksfjarðar né Ísafjarðar.
Norðurlandsvegur tepptist vegna vatnsflaums í Norðurárdal í Borgarfirði en var lagfærður mjög bráðlega og var fær í gær. Í Öxnadal reif Öxnadalsá sundur veginn við hina nýju brú, en það sakaði ekki umferðina, þar sem gamla brúin stendur enn og var því hægt að beina umferðinni um hana. Á Vestfjarðaveginum urðu skemmdir sem sér segir: Á Hjallahálsi og Klettshálsi urðu rof í veginn og í Dýrafirði skemmdist vegurinn á mörgum stöðum. Í Kollafirði rifu árnar Galtará og Eyrará sig niður á vöðum sínum svo ófært varð, en þær eru báðar óbrúaðar. Í Fjarðarhornsá, í botni Kollafjarðar, hafði áin hlaupið framhjá brúnni og rifið þar stórt skarð. Hjá Illugastöðum í Skálmarfirði urðu miklar skemmdir og Skálmardalsá hljóp fram hjá brúnni, svo og sökk ræsi í veginum, og er sýnilegt að gera verður bráðabirgðaveg niður undir sjó á þessum slóðum. Í Vattarfirði eru mörg og stór skörð í veginn, t. d. hjá Þverá 30 m skarð í geysiháan veg, og því ekki unnt að byggja hann upp fyrr en að vori. Á sjálfri Barðaströnd tók ræsi af hjá Litlu-Hlíð og skarð myndaðist hjá Hvammi og skriða lokaði veginum hjá Arnarstöðum og miklar skemmdir urðu hjá Brjánslæk. Þá er Suðurfjarðarvegur í Arnarfirði skemmdur, svo og Ketildalavegur. Þá munu vegir á Þingmannaheiði eitthvað úr lagi færðir. Í ísafjarðarsýslu urðu mestar skemmdir í Dýrafirði. Þar skemmdist vegur hjá Hvammi, Ketilseyri og Drangahlíð. Skriðuföll urðu í Valþjófsdal, Brekkudal og Keldudal. Skemmdir urðu á vegi á Skógarströnd á Snæfellsnesi hjá Kálfastaðaá í Álftafirði, þar sem áin hljóp úr farvegi sínum og framhjá brúnni. Skemmdir munu og hafa orðið á vegum í Borgarfirði og var vitað að Grjótá í Svínadal var að brjóta niður veginn þar í dalnum.
Tíminn segir af fellibyl 24.október, ekki er með góðu móti hægt að segja að hans hafi gætt hér á landi - og þó]:
MBReykjavík, 23. október. Um miðja síðustu viku var fellibylur á ferðinni suðaustur af Florida í Bandaríkjunum. Fékk hann nafnið Ella. Nú er mesti móðurinn úr Ellu og er hún orðin að lægð, sem stefnir hingað til lands. Páll Bergþórsson, veðurfræðingur, sagði blaðinu í dag, að Ella hefði farið hægt yfir í fyrstu, eins og fellibylja sé háttur. Þegar Ella var komin norður undir fertugustu breiddargráðu, þar sem vestlægir vindar eru ríkjandi í háloftunum, tók hún að breiða úr sér og hraða för sinni. Nú í dag er hún um 600 kílómetra suður af Hvarfi í Grænlandi og stefnir í norðaustur. Er því vafalítið, að hún mun hafa einhver áhrif á veðrið hérlendis. Það er ef til vill í einhverju sambandi við hana, sem smálægð myndaðist út af Vestfjörðum í nótt, en hún hreyfist nú austur og hefur valdið snjókomu á Vestfjörðum í nótt og í dag, sagði Páll. Ella mun valda vaxandi suðaustanátt í nótt og sennilega hvassviðri á morgun, ef svo fer sem horfir, rigningu um sunnan og vestanvert landið, en ekki mun mikil hætta á snjókomu, því veður mun fara hlýnandi.
Tíminn segir frekar af skemmdum á vegum og viðgerðum á þeim í pistli 26.október:
MBReykjavík, 25.október. Lokið mun nú bráðabirgðaviðgerð á vegum þeim, er skemmdust í úrfellinu um daginn, en vegir eru nú víða teknir að spillast vegna snjóa og hálku. Í Barðastrandarsýslu, þar sem mestar skemmdir urðu, mun lokið við að gera við alla vegi til bráðabirgða, en víða munu þeir þó torfærir. Þá má geta þess, að þar að svo fljótt frysti eftir úrfellið, eru vegir víða mjög hálir vestur þar, t.d. yfir Hjallaháls. Þingmannaheiði varð þungfær vegna snjóa í gær, en í morgun fór ýta vestur yfir heiðina og ýtti burt snjósköflum og lagfærði einnig læki, sem höfðu bólgnað upp. Mun heiðin nú fær, a.m.k. bæði vörubílum og jeppum. Ekki mun hafa tekist að gera vel við veginn í Vattarfirði, en hann mun þó fær. Vegurinn til Akureyrar er fær, en hált mun vera á Öxnadalsheiði og ekki ráðlegt að vera þar keðjulaus á ferð. Siglufjarðarskarð er lokað, en í dag átti að athuga hvort unnt myndi að opna það, en það verður ekki gert fyrr en á morgun. Fjarðarheiði og Oddsskarð tepptust, en í dag var Fjarðarheiði opnuð og á morgun á að reyna að opna Oddsskarð, ef veður leyfir. Þó mun ekki þurfa að hvessa nema lítillega, til þess að Fjarðarheiði lokist alveg aftur. Breiðdalsheiði og Vatnsskarð eystra munu orðin þungfær . Möðrudalsöræfi eru einnig þungfær, þó hafa jeppar farið yfir þau í dag. Veghefill er staddur efst í Jökuldal og er ætlunin að senda hann á morgun upp á Öræfin til þess að laga veginn. Upplýsingar þessar eru fengnar hjá Jóni Víðis á Vegamálaskrifstofunni.
Morgunblaðið segir af snjókomu 26.október. Af einhverjum ástæðum stendur snjókoma þessi ritstjóranum enn lifandi fyrir hugskotssjónum - þótt ekki sé hún merkileg á neinn hátt.
Nokkru fyrir ljósaskiptin í gærkvöldi tók að snjóa í Reykjavík, lítið í fyrstu en undir kvöldmat var komin kafaldshríð og festi snjó í bænum. Krakkarnir létu ekki lengi á sér standa að fagna fyrsta vetrarsnjónum. Sleðar voru dregnir út og snjókerlingar prýddu brátt garða víðsvegar um bæinn. Bílstjórar fögnuðu snjónum hinsvegar lítt, enda sköpuðust sums staðar umferðaröngþveiti af völdum hálkunnar. Í Öskjuhlíð varð t.d. geysileg hálka og komust bílar hvorki afturábak né áfram um tíma. Urðu þeir, sem á eftir komu, að taka það til bragðs að sveigja suður fyrir veginn sjálfan og upp á grasið, en þar var ekki eins hált.
Allmikið illviðri gekk yfir þann 26. þegar djúp lægð fór til austurs fyrir sunnan land. Ekki olli hún þó teljandi vandræðum. Það gerði hins vegar næsta lægð á eftir. Hún fór aðeins sunnar heldur en hin fyrri og henni fylgdi heldur kaldara loft. Þá gerði mikla austanhríð um landið sunnanvert, m.a. varð mikil ófærð í Reykjavík. Í Borgarnesi snjóaði hins vegar nærri því ekki neitt (veðurnördinu unga til mikilla vonbrigða).
Hér má sjá lægðina á veðurkorti sem birtist í Morgunblaðinu 30. október og gildir á hádegi daginn áður, kl.11 að íslenskum miðtíma (væri kl.12 í dag). Þá er illviðrið gengið niður í Reykjavík og á Suðurlandi - og ritstjóri hungurdiska síðdegis klórandi sér í höfðinu yfir ófærðarfréttum úr Reykjavík - og örsmáum sköflum í Kaupfélagsfjörunni í Borgarnesi.
Lægðin hélt síðan áfram til austurs, snerist þar og olli síðan mjög slæmu hríðarveðri um landið norðan- og austanvert, óvenjuslæmu miðað við árstíma, ekki síst á Austurlandi þar sem snjódýpt á Egilsstöðum mældist 100 cm þann 30. og 31., það langmesta þann veturinn. Fregnir af þessu veðri birtust blöðum næstu daga. Tíminn segir frá 30.október:
MB-Reykjavík, 29.október. Síðastliðna nótt gekk hvassviðri með snjókomu yfir allt landið. Mest veðurhæð mældist í Vestmannaeyjum eins og fyrri daginn, þar mældist veðurhæðin 13 vindstig í nótt. Veðrið gekk niður snögglega í morgun á Suðvesturlandi og austur um Suðurland og um klukkan fimm í dag var veðrið orðið gott austur í Hornafirði. Það hefur verið einkenni þessa veðurs, að það skall snögglega á og gekk einnig mjög snögglega niður. Til dæmis má geta þess, að klukkan tvö í dag var veðurhæðin 9 vindstig á Hólum í Hornafirði, en klukkan fimm var komið þar blæjalogn. Um allt norðanvert landið hélst hins vegar sama veðrið. Á Hornbjargsvita voru 9 vindstig klukkan fimm og þá voru yfirleitt 8 vindstig og stórhríð um allt norðanvert landið og suður eftir Austfjörðum. Taldi veðurstofan að hríðin myndi haldast enn um sinn á Norðurlandi, en ganga norður yfir Austfirði, þar myndi veðrið ganga til norðanáttar og lægja. Veðurfræðingar bjuggust við köldu veðri um allt land næstu daga. Ekki er blaðinu kunnugt um mikla skaða í veðri þessu. Þó mun eitthvað af fé hafa fennt, til dæmis í Fljótshlíð og austur á Héraði. Í Fljótshlíð hraktist einnig fé í Þverá. Á bænum Teigi í Fljótshlíð fauk gafl úr fjósi og var þar allt orðið uppfennt og illa farið, þegar Árni bóndi kom þar að í morgun. Einnig fuku tíu plötur af nýlegri fjárhúsbyggingu í Smáratúni í Fljótshlíð.
MB-Reykjavík, 29. október. Eins og við er að búast hafa margir vegir teppst í áhlaupinu nú um helgina. Blaðið hafði samband við Vegamálaskrifstofuna og fréttaritara og spurðist fyrir um þessi mál. Á Vestfjörðum hafa Breiðadalsheiði og Botnsheiði lokast og Þingmannaheiði er gjörsamlega ófær. Vegurinn í Barðastrandarsýslu er víða mjög slæmur, má til dæmis geta þess, að fólk, sem lagði upp um sexleytið í gærkvöldi frá Firði á Skálmarnesmúla var 12 stundir á leiðinni að Kleifum í Gilsfirði á jeppabifreið. Í Gilsfirði varð ófært í gærdag, en búist er við því, að þar verði rutt á morgun, en þar er nú stytt upp. Norðurleiðin mun enn fær. ... Á Austfjörðum er nú blindhríð og allir fjallvegir lokaðir; Fagridalur mun einnig vera orðinn ófær. Á Suðurlandi munu vegir ekki ófærir. Hellisheiði er að vísu algerlega ófær, en Þrengslavegurinn nýi er vel fær. Þar snjóaði að vísu nokkuð, en vegurinn var ruddur strax í morgun.
Morgunblaðið segir einnig frá 30.október:
Blaðið átti í gær tal við nokkra fréttaritara sína á Suðurlandi um skaða af veðurofsanum, sem gerði í fyrrinótt. Vitað er þegar, að fé hefir fennt og ófærð er á nokkrum stöðum, ennfremur að eitthvað hefir fokið í rokinu. Spá er nú sú að frost geri ofan á hretið og má því búast við að jarðlaust verði, einkum í uppsveitum, og verður þá að taka fé á gjöf, sem bændur munu illa undir búnir, þar sem heyskapur var víða lélegur á Suðurlandi í sumar. 10 vindstig voru í gær á Hólum í Hornafirði og úrkoma í fyrrinótt mældist 33 um á 15 klst. Veðurofsinn hafði færst til Austurlands í gærkvöldi, enda gekk lægðin yfir sunnanvert landið.
Kirkjubæjarklaustri, 29. október. Mesta ótíð hefir verið hér í vikutíma og hefir nú alveg keyrt um þverbak, því blindhríð var alla s.l. nótt og er það alveg óvenjulegt að svo mikið hríðarveður geri á þessum tíma árs. Úrkoman var a.m.k. 30 cm. jafnfallinn snjór, en þar sem hvassviðri var rak snjóinn saman í mikla skafla og eru þeir sumstaðar yfir 2 m háir. Hætt er við að margt fé hafi fennt í þessum byl og hafa allmargar kindur þegar verið grafnar úr fönn. Ekki er enn hægt að gera sér fulla grein fyrir því hve miklir fjárskaðarnir hafa orðið. Þó má geta þess, að þegar hafa fundist 10 kindur dauðar í Landbroti og á einum bæ í Meðallandi fórust 7 kindur. Þær hrakti í krapa. Færð er sæmileg, nema hvað ófært er í giljum og lautum. Mjólkurbíllinn frá Vík stansaði í Skaftártungu á austurleið, en ýta er á leiðinni til hans og mun ryðja honum braut austur. Er hann væntanlegur hingað í nótt ef vel gengur. G. Br.
Höfn, Hornafirði. Ófærð er hér orðin mikil og má segja að allt sé á kafi í snjó. Er útlit hér mjög ljótt, því fjöldi fjár er langt inni í fjöllum. Haglaust verður strax og frystir, en nú er einmitt spáð frosti. Hér snjóaði í alla nótt, og krapahríð hefir verið í dag og því bætt á snjóinn. Alls er ófært í fjöllum og ekki þýðir að leita fjár fyrr en veður batnar. Gunnar.
Borgareyri, Eyjafjöllum. Hér var hið versta veður í nótt, en ekki er vitað af skemmdum af völdum þess enn sem komið er. Snjó festi ekki að ráði á láglendi. Markús.
Geldingaholti, Gnúpverjahreppi. Færð er ágæt hér um sveitir enn sem komið er, en komin eru harðindi og mun þurfa að taka fé á gjöf á efstu bæjum. Fé er illa búið undir vetur, því það hefir hrakist í haust í ótíðinni. Lokið er nú öllum leitum og hafa fjallmenn sumstaðar fengið vondar ferðir. Hrunamannahreppsmenn hrakti í eftirleit og munu þeir hafa verið 11 daga í stað 8, fengu rigningar og þokur. Hér komu fram tvær útilegukindur, sem lifað höfðu á afréttinum s.l. vetur. Voru það tvö lömb frá Ásum og hafa gengið vel fram. Er talið að þau hafi verið á Flóamannaafrétti. Margt fé fór vestur yfir Þjórsá frá Holtamönnum og er talið að það hafi verið nær 100 talsins. Er það allt drepið og talsvert tjón fyrir Holtabændur þar sem hér er um ungar ær að ræða. Jón.
Mykjunesi, Holtum. Hér var ofsaveður í nótt en ekki mikil snjókoma, en snjór var fyrir og því alhvítt hér. Flutningar ganga með eðlilegum hætti, en hálka er á vegum. Nú er frost og verður því að fara að gefa fé inni, en það tekur fyrir jörð er krapinn frýs. Menn eru ekki við því búnir að fara að gefa svona snemma. Stórgripaslátrun er að hefjast og verður venju fremur miklu slátrað af kúm, vegna lítilla heyja. Lambaásetningur er með minnsta móti af sömu sökum. Magnús.
Selfossi. Ófært er nú yfir Hellisheiði og er Þrengslavegur farinn og hefir verið svo í nokkra daga Fyrstu mjólkurbilunum gekk illa um þrengslin fyrst í morgun, en færð var orðin sæmileg er á daginn leið. Mjólkurflutningar um sveitir hér sunnanlands tepptust ekki að ráði, nema í Grafningi. Þar varð bíllinn að snúa við hjá Hlíð. Óljósar fréttir ganga hér um að fé hafi fennt í Fljótshlíð og plötur hafi fokið af húsum í Holtum. Ó. J.
Keflavík. Í óveðrinu er yfir gekk í nótt brotnuðu eða lögðust niður alls 17 rafmagnsstaurar á Vatnsleysuströnd. Mikil ísing hlóðst á raflínur svo staurarnir gátu ekki borið þær uppi. Skemmdirnar urðu á leiðinni frá spennistöðinni undir Vogarstapa inn yfir Voga og Brunnastaðahverfi. Staurarnir eru allir úr tré. Rafmagn fór einnig af á Keflavíkurlínunni af sömu sökum og var því rafmagnslaust hér frá kl.6:30 í morgun til kl. 9. Á sama tíma var símasambandslaust, en engin vararafstöð er fyrir símann. Unnið hefir verið að viðgerðum í dag og verður haldið áfram í nótt og er vænst að þetta verði komið í lag á morgun. Helgi S.
Bergþórshvoli. Ofsaveður var í Fljótshlíð í fyrrinótt og hríð mikil. Dró í skafla og fé fennti á túnum hjá bændum. Ennfremur hrakti það í skurði. Á einum bæ, Heylæk, var í dag búið að draga 18 kindur úr fönn, er ekkert af því var dautt. Enn sem komið er hefir ekkert fundist af fé, sem farist hefir, en saknað er allmargs fjár ennþá. Eggert
Undanfarnir vetur hafa verið blíðir og mildir og við höfum ekki fengið að kenna á vetri kóngi eins og hann gerist harðastur og allra síst er búist við snjókomu og ófærð í október. Það bar þó við í fyrrinótt að kóngsi lét til sín taka og finnst sennilega tími til kominn að reka af sér slyðruorðið. Hann gerði það svo rækilega, að við efumst ekki lengur um hæfileika hans til fannkyngi og annarra óknytta. ... Kópavogsbúar, sem seint voru á ferli í Reykjavík í fyrrinótt, veðurtepptust þar margir hverjir, og raunar einnig þeir Reykvíkingar, sem á stjái voru um nóttina. Var um tíma að heita ógerlegt að fá bíl og stundum hjálpaði það ekkert að fá hann, því að bíllinn vildi gjarnan sitja fastur í næsta snjóskafli.
Tíminn heldur áfram að segja af illviðrinu 31.október:
VV-Kirkjubæjarklaustri, 30. október. Fyrir algera tilviljun varð komið í veg fyrir fjárskaða hér á Kirkjubæjarklaustri á mánudagsmorguninn í lok illveðursins, sem hér gekk yfir þá um nóttina. Þá fundust yfir hundrað kindur í fönn í gili skammt fyrir austan og tókst aS bjarga þeim öllum lifandi. Á mánudagsnóttina gerði hér mikið illveður, snjókomu og rok, og hélst veðrið fram til klukkan tíu um morguninn. Muna menn hér vart annað eins veður. Rétt áður en veðrinu slotaði sá Lárus Siggeirsson á Kirkjubæjarklaustri hvar tvær kindur stóðu við hlið á girðingu skammt fyrir ofan bæ hans. Fór hann þangað, til þess að. hleypa kindunum inn fyrir. Sá hann þá, hvar nokkrar kindur stóðu upp úr snjóskafli í gili þar skammt fyrir austan. Fór hann þangað, en komst að raun um, að fleira fé var þar en sást í fljótu bragði, þar var margt fé fennt. Sótti hann strax hjálp og var gengið_ í að rífa féð upp úr fönninni. Í ljós kom, að þarna var yfir hundrað fjár fennt í gilinu, hvað ofan á öðru. Um hádegi var búið að bjarga öllu fénu úr fönninni ,og var það allt lifandi, en hefði ekki verið unnt að bregða svo skjótt við til bjargar, er lítill vafi á því, að illa hefði farið. Eins og áður segir, var veðrið mjög vont. Fé mun víða hafa fennt hér um slóðir, þótt sennilega séu ekki miklir fjárskaðar hjá neinum einstökum bónda. Þó mun tíu kindur hafa hrakið í skurð á bæ einum í Landbroti og drápust þær allar og fé mun hafa hrakið eitthvað suður í Meðallandi. Svo mikil var snjókoman, að fé fennti kringum hús heima á túnum, og hafa bændur í Landbroti og á Síðunni í dag verið að tína fé úr sköflum, bæði dautt og lifandi. Búast má við því, að ekki séu enn öll kurl komin til grafar í því efni, þar eð fé hafði ekki verið tekið á hús og því dreift út um hvippinn og hvappinn.
Morgunblaðið segir frá veðrinu 31.október:
Versta veður hefur gengið yfir Austfirði með mikilli fannkomu. Hefur fé fennt á nokkrum stöðum, t.d. bæði á Fjöllum og Héraði en vegna veðurs hefur ekki verið unnt að huga að fénu enn og er því ekki náið vitað um ástandið. Símalínur hafa víða slitnað vegna ísingar og staurar brotnað og er símasambandslaust við ýmsa staði á Suðausturlandi. Í Möðrudal var sjö bíla lest veðurteppt í gær ásamt ýtu og veghefli, og hafa sumir bílarnir verið fastir í Möðrudal síðan um miðja síðastliðna viku. Var áformað að reyna að brjótast af stað í gærkvöldi. Fréttaritarar Morgunblaðsins símuðu í gær eftirfarandi fréttir:
Grímsstöðum, Fjöllum, 30. október. Hér gekk á stórhríð í allan gærdag og er fyrst að slota nú síðdegis. Bílar hafa verið að stranda í Möðrudal frá því í miðri síðustu viku og eru nú sjö bílar fastir þar. Ýta og veghefill komu austan af Héraði um hádegið í gær, og höfðu verið sólarhring á leiðinni frá Jökuldal í Möðrudal. En þegar ýtan og hefillinn komu loks á áfangastað var skollin á iðulaus stórhríð og ekkert hægt að aðhafast. Síðdegis í dag, er veðrinu tók að slota, fóru menn að búast af stað og var ráðgert að leggja upp með kvöldinu. Hér er um að ræða fjóra þunghlaðna flutningabíla á leiðinni til Austfjarða og þrjá jeppa. Alls eru 15 manns með bílalest þessari. Benedikt.
Egilsstöðum, 30. október. Hér hefur verið iðulaus stórhríð í heilan sólarhring og kyngt niður feikna snjó, svo menn muna vart annað eins á svo skömmum tíma. Eru allir vegir á Héraði ófærir bílum. Víða mun vanta fé á Héraði og er mjög hætt við að það hafi fennt. Hér var einmunatíð til 26. október og fé hefur verið uppi um öll fjöll, Þetta áfelli kom svo snöggt að menn höfðu ekki tíma til þess að ná fé sinu saman. Frá Eskifirði berast þær fréttir að þar hafi snjóað mikið, og mun nú ófært milli Eskifjarðar og Reyðarfjarðar. Varð að fá snjóbíl til þess að flytja mjólk frá bæjum í kauptúnið, þar eð ófært er öllum öðrum farartækjum. Hér hafa orðið rafmagnstruflanir vegna veðursins og í dag unnu menn að því að berja klaka af raflínum í Egilsstaðakauptúni. Ari.
Fréttaritari Mbl. á Egilsstöðum, Ari Björnsson, hafði í gær samband við fréttaritara blaðsins á Seyðisfirði og Neskaupstað og símaði eftirfarandi fréttir þaðan í gærkvöldi.
Seyðisfjörður: Þar hlóð niður snjó og eru götur þar illfærar. Unnið er að því að hreinsa göturnar. Rafmagnstruflanir voru miklar vegna þess að ísing hlóðst á línurnar og einn staur brotnaði undan þunganum. Neskaupstaður: Versta veður hefur verið hér síðan á föstudagskvöld og hlóð niður bleytusnjó. Götur eru illfærar en unnið er að því að ýta af þeim. Rafmagnstruflanir urðu vegna þess að ísing hlóðst á raflínur og þurfti að ganga á þær og berja af þeim klakann. Björgunarsveitin var kölluð út í gær vegna þess að óttast var um mann, sem var að koma gangandi yfir Oddsskarð. Sem betur fór var ekkert að manninum og mætti hann björgunarsveitinni í Oddsdal.
Reyðarfirði, 30. október. Hér hefur verið sleitulaus norðaustanátt í tvo daga og snjókoma mikil. Allir vegir hér um slóðir eru nú ófærir. ófært er til Eskifjarðar og Egilsstaða. Háir það mjög vegna flugsins, og mjólk hefur ekki komist frá Egilsstöðum í þrjá daga. Ekki er kunnugt um tjón á mannvirkjum vegna veðursins. Enn er hér stórhríð í kvöld. Arnþór.
Þá hafði blaðið samband við fréttaritara sinn á Kirkjubæjarklaustri. Kvað hann litlu við að bæta frétt blaðsins í gær. Menn hefðu leitað fjár í allan gærdag og fyrradag en ekki væri kunnugt um árangur umfram það sem áður væri komið fram. Fréttaritarinn sagði að mjólkurbílinn frá Vík, sem væntanlegur var í fyrrinótt, hefði ekki komist og væri enn ókominn. Ekki hefði verið lagt í að ryðja Eldhraun, en ýta er að hjálpa bílnum austur Meðalland. Ekki hefur frést af árangri. G. Br
Víða urðu símabilanir á Austurlandi í gær og fyrradag vegna óveðursins sem þar geisaði. Í gær kvöldi var símasambandslaust frá Reykjavík við allt svæðið milli Hornafjarðar og Reyðarfjarðar eða við Fáskrúðsfjörð, Stöðvarfjörð, Breiðdalsvík og Berunes. Síminn var bilaður beggja vegna Djúpavogs og sambandslaust var við Borgarfjörð eystra. Magnús Oddsson, fulltrúi, tjáði Morgunblaðinu í gærkvöldi að hægt væri að ná til Seyðisfjarðar, Egilsstaða, Eskifjarðar og Reyðarfjarðar gegnum Akureyri eða Möðrudalslínuna svonefndu. Magnús sagði að það hefði verið ísing, sem skemmdunum olli á símalínunum. Ekki væri vitað hve skemmdirnar væru víðtækar því að menn hefðu enn ekki komist til eftirlits vegna veðurs. Strax og lægði yrðu skemmdirnar kannaðar. Þá gat Magnús þess að síminn í sveitunum inn af Hornafirði væri víða slitinn og 23 staurar brotnir. Þá væri einnig slitið milli -Fagurhólsmýrar og Kvískerja.
Tíminn heldur áfram 1.nóvember:
ES-Egilsstöðum, 31. október. Illveðrið gekk niður hér í gær eftir tveggja daga iðulausa stórhríð. Er hér kominn geysimikill snjór, eins mikill og stundum er eftir heilan vetur. Vegir eru allir ófærir og bílar voru sumir á kafi í sköflunum, þegar veðrinu slotaði. Ekki er enn neitt vitað um fjárskaða, því hvort tveggja er að ekki var viðlit að huga að fé, meðan veðrið gekk yfir og svo hitt, að símalínur eru mjög víða slitnar og því ekki unnt að hafa samband við sveitirnar hér í kring. Síðan veðrinu slotaði hafa menn leitað að fé og hafa fundið margt uppistandandi, en féð er ákaflega illa verkað í klakabrynju og getur ekki hreyft sig nema lítið. Menn eru smeykir um að fé hafi fennt bæði á Jökuldal og í Skriðdal, en sambandslaust er við báðar sveitirnar. Unnið hefur verið við að hreinsa flugvöllinn í dag og standa vonir til að unnt verði að ljúka því verki í kvöld. Bílarnir, sem voru tepptir í Möðrudal, lögðu upp í dag með aðstoð manna frá vegagerðinni. Um fimmleytið í dag voru þeir hálfnaðir til Skjöldólfsstaða og gerðu menn sér vonir um að þeir myndu ná þangað í kvöld. Snjóbíllinn frá Reyðarfirði braust hingað í dag og snjóbíll og ýta eru lögð upp frá Seyðisfirði.
Morgunblaðið segir enn af sama veðri 1.nóvember:
Kirkjubæjarklaustri 31. október. Hér á Klaustri voru grafnar um 100 kindur úr fönn í gili rétt hjá húsum. Víðast eru hér allir skurðir fullir af fönn og krapa og er ekki enn gengið úr skugga um hvort fé hefir hrakið í þá umfram það er fregnir hafa þegar birst af. Í Heiðarseli voru grafnar 16 kindur lifandi úr fönn. G. Br.
Höfn, Hornafirði. Þótt allmargt fé sé hér komið á hús og hafi verið nærri þeim, er óveðrið skall á um helgina, mun talsvert af fé vera inni í fjöllum og verður það enn að bíða þar sem það er niður komið þar sem ófærð er mikil og víða var versta veðrið hér í gær, t.d. slitnaði þá niður sími hjá Hoffelli. Einnig hafa raflínur bilað þótt ekki séu langar hér. Vegir um Almannaskarð og Lónsheiði eru ófærir. Gunnar.
Reyðarfjörður. Símalínur eru hér víða bilaðar t.d. er sambandslaust suður á firði, en ókunnugt er hve bilanirnar eru miklar. Veður er sæmilegt hér eins og er, en útlit er slæmt. Allir vegir eru ófærir. Snjóbíll fór yfir Fagradal í dag.
Vopnafjörður. Ekki er vitað til að hér hafi orðið stórvægilegir skaðar af völdum veðursins. Þó vantar enn víða fé og er ekki kunnugt um afdrif þess. Veður var hér verst á mánudags- og þriðjudagsnótt. Hingað kom olíuskip, sem átti að taka hér lýsi, en varð frá að hverfa því þá var hér versta vetrarbrim. Þilfarsbátur lá hér við bryggju og mun hann hafa slegist í hana, því að honum er kominn leki. Framkvæmdir, sem fyrirhugaðar voru í haust, hafa nú stöðvast. T.d. átti að brjóta aukið land til kornræktar, en við það verður nú að hætta. Bílar festust hér og hvar um byggðir og heiðar. Sigurjón.
Egilsstaðir. Raflínur biluðu hér á Héraði. Vallalína bilaði á mánudaginn fram að Hallormsstað og er væntanlegt að hún komist í lag í kvöld eða fyrramálið. Á laugardaginn biluðu raflínur að Eiðum og út í Eiðaþinghá en þó ekki nema tíma úr deginum. Álitið er að eitthvað hafi týnst af fé. Vantar það t.d. víða á Jökuldal og í Jökulsárhlíð. Menn eru nú að leita þess og finnst það sumt langt inni á heiðum. Ekki er þó haldið að það hafi farist, a.m.k. ekki í stórum stíl. Ekki muna menn annan eins snjó jafn snemma vetrar, því segja má að hér sé slétt af öllu og ekki sér á dökkan díl. Mjólkurskortur er á Austfjörðum vegna samgönguleysis. Til dæmis er alvarlegur mjólkurskortur á Fáskrúðsfirði. Flugvöllurinn hér á Egilsstöðum er alls ófær og er um meters snjór á honum. Tekið er að ryðja hann en gengur hægt. Snjóbíll kom neðan yfir Fagradal í dag og var 67 tíma á leiðinni. Ari.
Grímsstaðir á Fjöllum. Menn eru hér að leita fjár í dag. Margt af því var þegar búið að hafa saman. Logn er og úrkomulítið en frost 12.15 stig. Bílar þeir, sem voru hér veðurtepptir, brutust austur yfir Möðrudalsfjallgarðana í dag og voru komnir niður undir Rangalón síðdegis. Fyrir þeim fór jarðýta, veghefill og trukkur. Snjór er ekki mikill hér á Fjöllum. Póstur fór á jeppa inn í Mývatnssveit í dag og gekk vel. Mývetningar fóru í dag að huga að fé sínu.
Akureyri. Þæfingsfærð var á Öxnadalsheiði í gær, en þó tókst bílum að komast yfir hana viðstöðulítið. Rekið hafði í driftir á veginum frá Bakkaseli og niður að Hólum. Vegurinn hefir nú verið ruddur í dag og er fær öllum bílum. Bílar fóru yfir Vaðlaheiði í dag, að vísu kraftmiklir og vel búnir. Húsavíkurrútan var væntanleg hingað í kvöld. Ekki er vitað hvort hún fór heiðina eða Fnjóskadal um Dalsmynni, en þar var talið að minni fyrirstaða væri. St. E. Sig
Tíð var lengst af hagstæð í nóvember. Veðurstofan fékk loks lóð og um tíu árum síðar var flutt í nýtt hús - nærri Golfskálanum. Tíminn segir frá 3.nóvember:
KH-Reykjavík, 2.nóvember. Gústav E. Pálsson, borgarverkfræðingur, skýrði blaðinu frá því í dag, að ákveðið hefur verið að veita Veðurstofu Íslands lóð undir byggingu veðurstofu. Verður væntanlega ákveðið endanlega á fyrra helmingi næsta árs, hvar lóðin verður, en hún verður örugglega á Öskjuhlíðinni, einhvers staðar í grennd við gamla golfskálann.
ES-Egilsstöðum, 2. nóvember. Nú er komið hér ágætt veður, en síðast í gær var hér bylur. Ekki er enn vitað um hvort fjárskaði hefur orðið hér, en víða vantar allmargt fé. Vitað er, að allmargt fé hefur hrakið í Kappeyri við Fáskrúðsfjörð og hafa nokkrar kindur fundist þar reknar. Ekki er búið að ryðja flugvöllinn hér nema að litlu leyti, þó er hægt að nota 500 metra braut og lenti Tryggvi Helgason hér í dag. Ætlaði hann að koma aftur, en gat ekki vegna veðurskilyrða. Um mittissnjór er á vellinum og verður að fá ýtu frá Akureyri til þess að ryðja hann og er hún væntanleg hingað á firðina með skipi. Ellefu bilar, sem voru tepptir í Möðrudal um daginn eru ekki enn komnir hingað, en menn gera sér vonir um að þeir nái hingað í kvöld.
Morgunblaðið segir af ís á Elliðavogi 6.nóvember:
Lögreglu- og hafnsögumenn voru kvaddir til óvenjulegs verkefnis um níuleytið s.l. laugardagskvöld, er tilkynning barst um að bátur væri fastur í ís á Elliðavogi, og kæmist hvorki afturábak né áfram. Hafnsögumenn fóru ásamt lögreglu á staðinn á bátnum Nóra, sem er minnsti hafnsögubáturinn. Stóð heima að miðja vegu milli slippsins og Elliðaárbrúnna sat íshafsfarið, 3 tonna trilla, föst í ísnum, sem var nokkuð þéttur. Á trillunni var einn maður, og sagðist hann hafa sett bátinn upp í Elliðavogi en verið rekinn brott þaðan og því ætlað niður á höfn. Hafnsögumenn renndu Nóra nokkrum sinnum á ísinn, gátu brotið hann og náð trillunni. Liggur hún nú uppi á Loftsbryggju en gat brotnaði á hana í ísnum.
Tíminn segir enn af heyskapartíð sumarsins 7.nóvember:
MB Reykjavík, 6. nóvember. Slæmt heyskaparsumar víðast um land er liðið. Sumarið byrjaði víða illa, tún kólu og spretta varð mjög rýr. Þar við bættist, að víða um land var sjálf heyskapartíðin léleg og heyfengur varð því að öllu samanlögðu víðast hvar mjög rýr.
Þann 10. fór djúp lægð norðaustur um Grænlandssund og olli hvassri sunnanátt með hlýindum og mikilli úrkomu um landið sunnan- og vestanvert. Í kjölfarið gerði mjög kalt norðanskot um land allt.
Tíminn segir frá 13.nóvember:
GS-Ísafirði, 12. nóvember. Í suðvestan roki, sem gerði hér síðastliðinn laugardag [10.] rak vélbátinn Kristján á land í Álftafirði og er hann talinn ónýtur og þegar búið að rífa innan úr honum það, sem nýtilegt er talið.
Tíminn segir af tjóni í Bolungarvík í pistli 14.nóvember:
Krjúl-Bolungarvík, 13. nóvember. Mörg undanfarin haust hafa menn staðið í byggingarframkvæmdum hér vestra, þar sem ekki hefur verið hægt að leggja eins mikla áherslu á þær yfir sumartímann og nauðsynlegt hefur verið, sökum anna. Hafa byggingar dregist nokkuð fram á haustið og hændur orðið að treysta á að haustverðáttan yrði þeim hagstæð. Pétur Jónsson, bóndi í Meiri-Hlíð, var einn þeirra, sem seint urðu fyrir með byggingar í haust. Hóf hann byggingu á stóru og nýju fjósi, eftir að heyannatímanum lauk, og ætlaði að vera búinn að útibyrgja bygginguna, áður en vetrarveður byrjuðu fyrir alvöru. En veður hafa verið hér válynd í haust og verk hafa því tafist meira en menn ætluðu. Aðfaranótt s.l. laugardags [10.] gerði hér suðvestan hvassviðri mikið og hélst rokið fram eftir degi, með snörpum sviptibyljum. Valda slík veður hér oft meiri eða minni skemmdum. Pétur í Meiri-Hlíð varð fyrir því tjóni, að annar stafninn á fjósi því, sem hann er að byggja, féll inn í bygginguna. Hrundu um 2 metrar af stafninum, eða niður fyrir glugga, er þar áttu að vera. Þrír menn voru þarna við vinnu. þeir Pétur bóndi, Gestur Pálmason, byggingameistari og Jónatan Ólafsson, mágur Péturs. Höfðu þeir nýlokið við að hlaða upp gaflinn, en fjósið er hlaðið úr steyptum holsteinum, og voru að búa sig undir að reisa sperrur á bygginguna. Stóðu þeir i skjóli við stafninn á meðan hryðjan fór yfir. Vissu þeir þá ekki fyrr til, en hrunið féll yfir þá. Snerti það bök þeirra Péturs og Gests, en einn steinninn lenti á hægri fæti Jónatans og braut ristarbein. Var það hin mesta mildi, að ekki varð alvarlegra slys. Þetta er ekki í fyrsta skipti, sem skemmdir verða á húsum í Meiri-Hlíð, því að í tíð Ólafs Hálfdánssonar, tengdaföður Péturs, fauk þak af fjósi og heyhlaða til grunna. Var það mikið tjón og sér lagi, þegar þess er gætt, að árið áður hafði Ólafur orðið fyrir því tjóni, að íbúðarhúsið brann.
Þá gerist það einnig í Meiri-Hlíð á laugardaginn, rétt áður en þessar skemmdir urðu á fjósbyggingunni, að í einni vindhviðunni s)ó svo ofan í miðstöðvarketilinn, að loginn stóð út úr honum, með þeim afleiðingum, að olíublöndungurinn blátt áfram bráðnaði af eldinum. Logaði allt í kringum hann, þegar að var komið, en sem betur fór varð eldurinn fljótlega slökktur. Má því segja, að Pétur hafi orðið fyrir tilfinnanlegu tjóni þar sem hver dagur er dýrmætur til byggingarframkvæmda, þegar þessi tími er kominn. Þess má að lokum geta, að Meiri-Hlíð er þannig í sveit sett, að veður ná sér bar einna mest upp úr ýmsum áttum og er því talið hið mesta veðravíti. Segja kunnugir, að þar komi hin sterkustu veður, sem menn þekkja.
Morgunblaðið ræðir 23.nóvember við Jón Eyþórsson um jöklamælingar:
Við hittum að máli Jón Eyþórsson, veðurfræðing, í þeim tilgangi að rabba við hann um jöklamælingar hér á landi. Eins og kunnugt er eru jöklar á Íslandi stórlega að láta undan síga, og fáir, ef nokkur, munu hafa fylgst betur með því undanhaldi en Jón. Hvernig stóð á því Jón að þú fórst að gera mælingar á breytingum jökla? Þetta mun ekki beinlínis heyra undir þína grein. Meðan ég dvaldist í Noregi tók ég eitt sumarið þátt í rannsóknum á jöklinum Jötunheimar með prófessor Ahlmann, sem síðar varð einn af fremstu jöklafræðingum að minnsta kosti norðan Alpafjalla. Mitt hlutverk í þeim leiðangri var aðallega að gera veðurathuganir og bera saman breytingarnar á jöklinum Og veðurlagið. Þú hefur þá fengið áhuga á að athuga sambandið milli þessa hér heima, Sumarið 1930 var ég búinn að fá nokkur hundruð króna styrk frá Menningarsjóði, og notaði sumarleyfið mitt til að setja upp merki við Sólheimajökul og fleiri jökulsporða úr Eyjafjallajökli. Með mér í þessu var Haraldur Jónsson, sem núna er kennari í Gröf í Breiðuvík á Snæfellsnesi. Hann var þá nemandi í Kennaraskólanum, og vann það á sínum námsárum að rita upp mikið af ferðabók Sveins Pálssonar. Handrit hans var svo seinna lagt til grundvallar við þýðingu og útgáfu bókarinnar. Við hlóðum nokkrar vörður við hvern jökulsporð, og mældum fjarlægðina þaðan að jökulröndinni.
Hefur nokkuð verið hægt að gera sér grein fyrir breytingum á jöklunum fram að þeim tíma? Ekki náttúrlega nákvæmlega, en þó má láta sér renna grun í margt þar að lútandi samkvæmt gömlum heimildum. Til dæmis segir frá því í riti eftir Árna Magnússon, Chorografica Islandica, að Sólheimajökull sé jökulsporður úr Mýrdalsjökli, sem beygi til vesturs neðst og hafi þá þannig lokað fyrir klettagil þar sem upptök Jökulsár á Sólheimasandi séu. Þarna safnaðist svo mikið vatnsmagn og myndaði yfir hundrað metra djúpt lón sem ruddi sig svo nokkrum sinnum hvert sumar. Kringum 1940 dró jökullinn sig það langt til baka að hann lokaði ekki lengur gilinu. Af þessu hef ég dregið þá áætlun, að jökullinn sé núna svipaður og hann var skömmu áður en Árni Magnússon ritaði þetta, eða um 1680. Þá var hann að ganga fram, en núna er hann á undanhaldi. Það hefur verið álit margra vísindamanna, að veðurfar hafi versnað snögglega á 13. öld, og þá valdið mikilli þjóðfélagslegri hnignun. Ég hef hins vegar verið þeirrar skoðunar að aðalharðindatímabil í sögu okkar hafi ekki hafist fyrr en á 17. öld. Þú hefur farið víðar þetta fyrsta sumar? Ég fór líka þetta fyrsta sumar vestur á Snæfellsnes og setti merki við Snæfellsjökul. Gígurinn, sem Jón Loftsson hefur látið taka vikurinn úr, var þá fullur af snjó, og það var hægt að ganga beint af vestari gígharminum út á jökulinn. Nú hefur þetta breyst mikið, og jökullinn þynnst svo mikið, að til þess að komast af gígnum yfir á jökulinn, verður að klífa niður 6080 metra djúpt gil. .
Geturðu nú að lokum sagt mér hvað Sólheimajökull hefur dregið sig mikið í hlé? Á þessum 32 árum, sem ég hef fylgst með honum hefur hann styst um rúman kílómeter, eða nánar tiltekið um 1041 meter.
Snarpa vestanátt gerði á landinu þann 25. þegar lægð fór til norðausturs með austurströnd Grænlands og langt norður í haf, tjón varð þó furðulítið. Tíminn segir frá 27.nóvember:
KH Reykjavík, 26.nóvember. Í ofsaveðrinu sem geisað hefur bæði í gær og dag hér um sunnan-, vestan- og norðanvert landið, hafa engir skoðar orðið, svo teljandi sé, hvorki á sjó eða landi. Má það furðulegt teljast, en stafar líklega af því, hve veðrið var lengi að ná sér upp, svo að nægur tími var til undirbúnings. Vindhraðinn fór allt upp í 12 stig í Vestmannaeyjum og á Siglunesi, og flokkast það undir fárviðri. Í Grímsey og á Hornbjargi fór vindhraðinn upp í 11 stig, sem telst ofsaveður, en á fjölmörgum stöðum voru 10 vindstig. Veðurstofan skýrði blaðinu frá þessu í dag og þar með, að ekki hefði komið fyrr í haust svo mikið og langvarandi stormaveður sem þetta. Annars væri ekkert sérstakt með þetta veður, slíkt fylgdi alltaf þessari árstíð, en þó hefði það nú borið óvenju snemma að. Spáð er hægt lægjandi á morgun. Þegar veðrið var að ganga upp á sunnudagsmorgun, var hitinn allt að 5 stig, en um þrjú-leytið í dag var komið eins stigs frost í Reykjavík. Innanlandsflug lá alveg niðri í gær og dag, og millilandavélar lentu í Keflavík. Engin sérstök óhöpp hafa orðið á landi í þessu óveðri, að því er blaðið best veit, þó rofnaði símasamband við Vestfirði í dag, og var ekki enn farið að gera við bilunina um kl.8 í kvöld, af því að veðrið var svo slæmt. Síldveiðibátarnir komu allir til hafna á laugardagskvöldið og hafa legið þar síðan. Í dag lágu fjölmörg skip í vari undir Garðsskaga, þar á meðal stór rússneskur verksmiðjutogari (skuttogari). Engar hjálparbeiðnir höfðu borist til slysavarnarfélagsins eða Landhelgisgæslunnar, hvorki í gær eða dag, og yfirleitt virðist svo sem veðrið hafi hvergi valdið tjóni. Vegamálastjórninni hafði ekki borist fregnir af ófærð á vegum, seint í dag, en bjóst við slíkum fréttum á morgun, þegar vindinn hefði lægt og snjó næði að festa. Í Reykjavík var mikil hálka á götum í dag og talsvert um árekstra, en engin stórvægileg slys.
Síðustu fréttir: Vitað er nú, að nokkurt tjón varð í Grímsey. Þar mun eitthvert magn af síldartunnum, sem voru á bryggjunni, hafa farið í sjóinn og a.m.k ein trilla sokkið Fregnir af þessu eru enn óljósar.
Morgunblaðið segir fréttir af veðrinu 27.nóvember:
Vestmannaeyjum, 26. nóvember. Veður hefur verið hvasst hér og gengið á með éljum. Ekki er samt kominn mikill snjór. Engar skemmdir hafa orðið og allt er með kyrrum kjörum í höfninni. Einn bátur kom inn með 700 tunnur af síld. Síldin var mjög smá og ánetjaðist talsvert. Fór megnið af henni i bræðslu, en eitthvað í frystingu.
Borgarnesi, 26. nóvember. Hér hefur veður verið byljótt en ekki ofsalegt. Gengið hefur á með dimmum og hvössum éljum, en ekki verið neitt ofsaveður. Ferðir Akraborgar, bæði laugardag og sunnudag féllu niður.
Mykjunesi, 26. nóvember. Stórrigningu gerði hér á laugardag og hélst þar til í gær. Þá breyttist veður í hvassa vestanátt og í nótt og dag hefur gengið á með hvössum éljum. Leitarmennirnir, sem fyrir nokkru fóru í eftirleit á þrem bílum lentu í miklum hrakningum, og fundu ekki féð sem sést hafði úr flugvél þegar flogið var yfir svæðið skömmu áður. Engu að síður komu þeir með 124 kindur af fjalli. Magnús
Morgunblaðið segir 2.desember frá tjóni í þessu veðri í austanverðum Skagafirði:
Bæ á Höfðaströnd. Um síðustu helgi (24. og 25. nóvember.) gekk suðvestan og vestan ofsastormur yfir hér í Austur-Skagafirði. Olli þetta veður nokkrum skemmdum á húsum og öðrum mannvirkjum. Járn fauk af þökum rúður brotnuðu og hurðir á útihúsum fuku upp og brotnuðu. Við hafnargarð á Hofsósi lágu tveir þilfarsbátar. Gekk sjór mjög yfir varnargarðinn, en þar var hægt að verja bátana áföllum. Um tíma var þó tvísýnt um afdrif þeirra. B.
Tíminn segir 1.desember almennar tíðarfarsfréttir af Ströndum:
GPV-Trékyllisvík (Úr fréttabréfi dags. 9. nóv.). Eins og ég hefi áður sagt ykkur voru túnin hér í hreppnum mjög illa farin af kali eftir s.l. vetur. Eftirtekja af þeim var því mjög rýr. Yfirleitt er taðan þriðjungi minni en í fyrra og hjá einstaka bændum er hún ekki nema helmingur þess, sem hún hefur verið í meðalári. Ofan á þetta bættist, að heyskapartíð var ekki góð. Allan ágústmánuð voru samfelldir óþurrkar. Aðeins tvo daga í þeim mánuði sá til sólar. Hins vegar komu ágætir þurrkar á tímabilunum 20. júlí til mánaðamóta og aftur frá septemberbyrjun fram til 15. september. Töluvert var heyjað á útengjum, en óþurrkurinn í ágúst dró mjög úr að það yrði að þeim notum, sem annars hefði orfið, og nauðsynlegt var. Heyfengur er því víðast minni en verið hefur og þó mun lakari að gæðum. Sú taða, sem heyjaðist, er þó yfirleitt vel verkuð, enda mest hirt í vothey.
Mjög hlýtt var fyrstu daga desembermánaðar. Vísir segir frá 4.desember. Veðráttan segir að einnig hafi flætt yfir veg í Eldhrauni:
Fyrri hluta dags í gær [3.] kom jakastífla í Blöndu í ofanverðum Langadal, og varð það til þess að hún flæddi yfir bakka sína og yfir veginn fyrir neðan Æsustaði, þannig að hann varð ófær öllum bifreiðum. Var aðvörun komið á framfæri í Ríkisútvarpið til bifreiðarstjóra að vegurinn um Langadal væri ófær. Urðu þeir, sem voru á norður eða suðurleið, að fara um Blöndubrú hina efri og um Ása. Orsökin fyrir stíflunni mun hafa verið sú, að mikill jakaburður kom úr Svartá í gærmorgun. Þegar hann barst niður á eyrarnar fyrir neðan Æsustaði eru þar viðamiklar grynningar fyrir, svo að jakahrannirnar hlóðust upp og stífluðu ána. Er þetta ekki óalgengt fyrirbæri á þessu svæði og næsta oft sem Blanda hefur flætt fyrir neðan Æsustaði. Seint í gærkveldi bárust fregnir norðan úr Langadal um það að flóðið í Blöndu væri tekið að sjatna.
Hlýindunum olli mikil hæð yfir Bretlandseyjum. Af henni bárust minnisstæðar fréttir. Er þessa veðurs enn getið í mengunarritum - og frásögnum um baráttuna gegn henni. Morgunblaðið segir frá 6.desember:
London, París, 5. desember. (NTB-AP) Banvænt sambland þoku og reyks hélt London í heljargreipum í dag. Þokan, sem er mjög þétt, blandast eiturefnum úr óteljandi reykháfum. 1952, fyrir rúmlega 10 árum, varð slík þoka 4 þúsund mönnum að hana í Englandi. Þokan lagðist yfir London og ýmsa aðra staði í Englandi s.l. mánudag og telja veðurfræðingar, að henni muni ekki létta fyrr en á föstudag. Frá því á þriðjudagsmorgun hafa 60 menn látist í Englandi af völdum þokunnar og talsmaður veðurstofunnar skýrði frá því, að hún væri nú eins eitruð og hún var 1952, þó að hún hefði ekki staðið í eins marga daga.
Desember var umhleypingasamur fram að jólum. Þá urðu mikil umskipti - eins og fjallað var um í sérstökum pistli hungurdiska fyrir nokkrum árum - og verður það ekki endurtekið hér.
Minnisstæð lægð kom sunnan úr höfum þann 7., dýpkaði mjög ört og fór yfir landið. Illa þótti takast til með veðurspá. Veðrið varð einkum slæmt á Vestfjörðum. Tíminn segir frá 8.desember:
MB-Reykjavík, 7.desember. Í morgun skall á aftakaveður á Vestfjörðum og miðunum þar út af og hefur haldist í dag og er búist við því að það muni haldast næsta sólarhring. Þessu veðri olli djúp lægð, sem fór hratt yfir, og varð veðrið miklu verra en við var búist. Vestfjarðabátar voru flestir á sjó og þegar síðast fréttist voru þeir annað hvort komnir til hafnar eða að komast í var, en höfðu margir orðið fyrir miklu veiðafæratjóni. Bátarnir reru flestir í gærkvöldi, enda var veður þá sæmilegt á þessum slóðum og spáin ekki slæm. Klukkan 22:00 í gærkvöldi var alldjúp lægð 900 km suður af Reykjanesi og þokaðist hún norður eftir og var ekki búist við því, að veður versnaði skyndilega. En lægðin hraðaði för sinni miklu meir í nótt og í dag, en búist var við og einnig dýpkaði hún ört. Strax í morgun var komið afspyrnuveður á miðunum og hurfu þá margir bátar frá því að draga línu sína. Í dag og kvöld hélst sama óveðrið. Klukkan fimm var veðurhæðin í Æðey tólf vindstig, þar var þá fimm stiga frost, á Hornbjargi voru 9 vindstig og 4 stiga frost og klukkan 8 í kvöld voru 9 vindstig á Galtarvita og 6 stiga frost. Það kom fram hjá fréttariturum, að sjómenn vestra eru eru mjög óánægðir með það hversu til tókst með veðurspána, en veðurfræðingur á Veðurstofunni gaf þau svör, er að framan greinir. Seint í kvöld hafði blaðið samband við fréttaritara sína á Vestfjörðum og spurðist fyrir um bátana. Fréttaritarinn á Ísafirði sagði að allir bátarnir þaðan væru komnir að landi, en hefðu orðið fyrir miklu veiðarfæratjóni. 6 bátar myndu hafa misst 85100 bala, tveir þeirra, Víkingur og Gunnhildur, 20 hvor.
Morgunblaðið segir af sama veðri 8.desember:
Flateyri í Önundarfirði, 7.desember. Afspyrnuveður af norðaustri hefur verið hér í dag, og á miðunum fyrir utan var hreint fárviðri. Hafa margir bátar lent í örðugleikum, orðið að skilja línuna eftir og hleypa suður fyrir Látrabjarg. Kl.10 í morgun var kominn allmikill stormur og upp úr hádegi hvínandi rok. Nú í kvöld hefur veðrið gengið niður inni á fjörðum, en fyrir utan er vitlaust veður enn. Bátarnir héðan náðu allir í heimahöfn, en einn varð að fara suður til Þingeyrar í Dýrafirði. Margir bátanna, einkum norðanbátarnir, urðu að skilja línuna eftir. Veit ég um einn, sem varð að fara frá 20 bölum, og annan frá 10. Margir bátar eru á leið suður fyrir Látrabjarg, þar sem þeir ætla að liggja af sér veðrið yfir nóttina. Sumir komu þangað í dag, eftir að hafa dregið línuna. Munu þar vera a.m.k. þrír bátar frá Súgandafirði, tveir frá Dýrafirði, tveir frá Bíldudal og einhverjir frá Patreksfirði. Ekki er vitað til, að neitt hafi orðið að á nokkrum bátanna. Kristján
Tíminn heldur áfram að segja frá veðrinu 11.desember:
Krjúl-Bolungavík, 10. desember. Óveðrinu, sem gekk hér yfir á dögunum, slotaði ekki fyrr en a aðfaranótt sunnudagsins [9.]. Hér í Bolungavík urðu skemmdir á brimbrjótnum vegna ölduróts. Brotnaði um 13 metra skarð í skjólvegg garðsins fyrir framan þann hluta, sem endurbyggður var á síðastliðnu sumri. Óttast er að meiri skemmdir verði á hafnargarðinum, ef oftar gerir álíka brim á vetrinum, en útilokað er að gera við þessar skemmdir í vetur. Þann hluta öldubrjótsins, sem skemmdist, átti að endurbyggja og styrkja á komandi sumri. Legan sjálf lendir ekki í hættu vegna þessara skemmda, en hins vegar getur stafað af þeim hætta fyrir innsiglinguna sjálfa.
Morgunblaðið segir frá sama veðri 11.desember - í lok fréttar er orðalag sem nú yrði varla notað:
Húsavík, 10. desember. Undanfarið hefur tíð verið hér mjög stirð, þótt stórviðri hafi ekki verið fyrr en aðfaranótt sunnudags [9.], þegar stórhríð var hér. Fylgdi veðrinu þó nokkuð mikið brim. Í þessu veðri urðu þeir skaðar, að ein fjögurra tonna trilla, Kristinn, eign aðkomumanns hér, dró legufærin út úr höfninni, og rak hana síðan á land suður undir Haukamýrum. Brotnaði hún þar í tvennt, svo að hún er gjörónýt. Vél og dýptarmæli hefur verið bjargað, þó eitthvað skemmdu Engar aðrar skemmdir urðu hér. Áætlunarbíllinn á leiðinni frá Akureyri, sem fór tvær ferðir á laugardag, fékk gott veður í fyrri ferðinni og var ekki nema þrjá tíma frá Akureyri og hingað. í seinni ferðinni, sem hann fór frá Akureyri kl. 19, lenti hann í blindistórhríð á Vaðlaheiði og alla leiðina eftir það. Var hann átta tíma á leiðinni, þótt snjór væri ekki til fyrirstöðu, heldur eingöngu veðrið. Með bílnum voru allmargir farþegar, mestmegnis kvenfólk.
Eins og áður sagði kom þetta veður á óvart. Kortið hér að ofan birtist í Morgunblaðinu 7. desember, daginn sem veðrið skall á. Í texta er ekki minnst á dýpkun lægðarinnar - enda sumarsvipur á kortinu. Talað er um Lundúnaþokuna skæðu.
Kortið hér að ofan er úr smiðju japönsku endurgreiningarinnar - gildir síðdegis þann 6. Heildarsvipur þess er mjög líkur kortinu sem birtist í Morgunblaðinu. Lægðir og hæðir þær sömu. En á þessu korti má sjá smáatriði sem reyndist skipta höfuðmáli, ört vaxandi lægðarbylgju vestsuðvestur af Írlandi. Hún hefur trúlega komið fram á veðurskipinu Juliette (sjá fyrra kort) þá um kvöldið - kannski hefur hún rétt sloppið austan við það. En alla vega undir morgun á veðurskipinu Indía, suður af Íslandi.
Síðdegis þann 7. var komin foráttulægð við Suðurland, um 966 hPa í miðju, átti eftir að verða enn dýpri á leið norður yfir landið þá um kvöldið. Veðrið varð sérlega vont á Vestfjörðum, vestan lægðarmiðjunnar, en gætti ekki eins austan hennar. Á þessum árum voru veðurspár öllu erfiðari en nú gerist - ekki auðvelt að fá þróun sem þessa í hausinn (mælt af biturri eigin reynslu).
Morgunblaðið birti 13.desember frétt tíð í Árnessýslu:
Úr Árnessýslu: Árið sem nú er að renna sitt skeið til enda, hefur verið fremur óhagstætt fyrir íslenskan landbúnað hvað tíðarfar snertir, hér sunnanlands var vetur frá áramótum snjóléttur en nokkuð frost harður, vorið fremur kalt, klaka leysti seint úr jörð, gróður allur síðbúinn og tún víða allmjög kalin. Sláttur hófst seint, grasspretta allstaðar undir meðallagi, veðurfar um sláttinn mjög votviðrasamt, nýting heyja því nokkuð misjöfn, og heybirgðir á haustnóttum víðast hvar með minna móti. Uppskera garðávaxta var og víða mjög rýr. Þrátt fyrir mikil votviðri s.l. sumar, var ríkjandi stöðugt hægviðri, kýr mjólkuðu ágætlega og haustbeit fyrir þær nýttist vel allt fram um miðjan október. Vetrarveðráttan hófst með vetri, frost og snjór nokkur, svo víðast varð að taka sauðfé að húsi. Að vetur lagðist svo snemma að, gerði bændur varfærnari um ásetning en annars hefði orðið.
Tíminn segir 14.desember frá hrakningum á Breiðafirði (mikið stytt hér):
JK-Reykjavík, 13. desember. Feðgar úr Hvallátrum á Breiðafirði lentu í talsverðu ævintýri í nótt, er þeir fóru á litlum báti í kaupstaðarferð til Króksfjarðarness. Þeir komust aldrei á leiðarenda fyrir ísreki, og urðu að snúa við og taka sér næturstað í Akureyjum. sem komnar eru í eyði. Þeir höfðust þeir við í versta veðri í nótt, en héldu af stað heim á leið síðdegis í dag, þegar veður hafði lægt. Þá var farið að óttast um þá og leit hafin.
Fleiri lægðir fóru hjá næstu daga, en ollu ekki tjóni sem getið er um. Mjög kalt var suma dagana. Mikill lægðagangur var dagana 17. til 23. desember og skiptust á austan-, sunnan- og suðvestanáttir og oft var hvasst. Tíminn segir frá óhappi á sjó 19.desember:
MB-Reykjavík, 18. desember. Skömmu eftir hádegi í dag var hringt til Slysavarnafélags Íslands sunnan úr Sandgerði og tilkynnt, að mölbrotinn bátur lægi í brimgarðinum út af Stafnesi. Slysavarnafélagið brá skjótt við og hafði strax samband við varðskipið Gaut, sem statt var þar [ nágrenninu. Kom þá í ljós, að beiðni hafði borist til varðskipsins frá Höfnum um að huga að bátnum Gullþóri GK-285, sem hefði slitnað upp í Höfnum s.l. nótt. Sigldi Gautur inn til Keflavíkur og fóru varðskipsmenn með bíl á strandstaðinn og gengu úr skugga um, að báturinn, sem lá í brimgarðinum, var sá hinn sami og saknað var úr Höfnunum.
Morgunblaðið segir af illviðri 20.desember:
Seinni hluta dags í gær og í gærkvöldi [19.] urðu bílar fyrir miklum töfum af völdum veðurofsans á leiðinni norður. Á Kjalarnesi héldu margir bílar kyrru fyrir, þar sem bílstjórarnir treystust ekki til að aka í rokinu. Töldu sumir jafnvel, að vegurinn væri ófær á verstu köflunum. Lítill sem enginn snjór var þarna, en hálka á blettum. Undir Hafnarfjalli var geysihvasst. Þar voru 5 eða 6 flutningabílar frá Akureyri á leið suður sem áttu í erfiðleikum. Hafði einn bíllinn misst af sér seglið, þótt það hefði verið vandlega fest, og annar framrúðuna. Kl.23:30 var langferðabíllinn að norðan að komast á móts við sæluhúsið á Holtavörðuheiði. Þar kyngdi niður snjó og hvassviðri var á. Ætlunin var að halda áfram í nótt, enda var jarðýta í för með bílnum. Einn bíll hafði lent út af veginum á heiðinni, en honum var komið upp á veginn aftur.
Akranesi, 19. desember. Hann var ofsahvass á mánudaginn {17.] vestan undir Hafnarfjalli á austan-landsunnan. Í þessari átt verður loftþrýstingurinn svo kynngimagnaður yfir Skarðsheiði að stormbyljir gusast fram óvænt og óútreiknanlega, þeyta mölinni eins og lausamjöll og skrúfa upp sjóinn stranda milli, svo að Borgarfjörður er eins og úfin röst tilsýndar. Í slíku veðri lenti langferðabíll Sæmundar og Valdimars, M-303, kl.2 s.l. mánudag, utarlega í Hafnarskógi, á suðurleið, eins og rennt væri undir hann stórri reku. Brotnuðu allar rúður í þeirri hlið, sem niður sneri, og sex rúðurnar á bílþakinu. Þrír voru í bílnum, og sakaði engan þeirra. Kranabíll héðan rétti langferðabílinn við. Oddur.
Tíminn segir enn af óveðri í pistli 21.desember:
SJPatreksfirði, 20. desember. Í gærmorgun gerði hér suðaustan hvassviðri með mjög mikilli úrkomu. Var bleytukafald í byggð, en hríð á fjöllum. Strandferðaskipið Esja kom hingað um klukkan níu í gærmorgun en vegna veðursins lagði skipið ekki í að fara héðan út fyrr en seinnipartinn í nótt. Í gærkveldi rofnaði rafstraumurinn til Tálknafjarðar og Patreksfjarðar frá Mjólkárvirkjun og er nú vitað að tveir staurar hafa brotnað í háspennulínunni þaðan á vestanverðum Hálfdáni. Ekki er vitað um meiri skemmdir.
Morgunblaðið segir af sama veðri - en í öðrum landshluta 21.desember:
Þykkvabæ, 20. desember. Í rokinu í gær bar svo til að bænum Bala í Þykkvabæ að þriðjungur þaksins á nýju íbúðarhúsi fauk. Gengu járnplötur af húsinu og fylgdi smábrot af veggnum með. Íbúðarhúsið að Bala brann í vor og er nýlokið við að ganga frá nýja húsinu að utan. Ekki er kunnugt um annað tjón á mannvirkjum hér um slóðir í þessu roki. Magnús
Tíminn segir 23.desember frá roki, rigningu og skriðuföllum:
KH-Reykjavík, 22. desember. Rok og rigning hafa herjað á landið að undanförnu, mest þó um sunnan- og vestanvert landið. Ekki er kunnugt um teljandi skaða neins staðar vegna veðursins, og vegir hafa víðast haldist færir. Þó féllu skriður hjá Skeiðhóli í Hvalfirði um hálfellefuleytið í morgun, og tepptust tugir bíla í rúma þrjá tíma, meðan unnið var að hreinsun vegarins. Smávægilegar skemmdir hafa víðar orðið á vegum, en ekki til mikilla trafala. Vindáttin hefur ýmist verið að suðvestan eða suðaustan, og samkvæmt upplýsingum Veðurstofunnar eru engar horfur á breytingum á því á næstunni. Allmjög hefur hlýnað frá því í fyrri viku, t.d. komst hitinn upp í 12 stig á Siglunesi í morgun. Mestur vindhraði í nótt var 11 stig í Kjörvogi, og mest hafa orðið 9 vindstig hér í Reykjavík í nótt. Veðrið er svipað um allt landið, þó miklu hægara, þegar komið er austur fyrir Eyjafjörð, og er þurrt á Austurlandi, að heita má. Blaðið hafði tal af fréttariturum sínum víðs vegar um landið í dag, og bar þeim flestum saman um, að hjá þeim væri vitlaust veður, en engum var kunnugt um tjón af þess völdum. Vegir hafa lítið spillst í veðri þessu enn sem komið er. Þó féllu skriður á Hvalfjarðarveginn um hálfellefuleytið í morgun, og komust bílar ekki leiðar sinnar, fyrr en Vegagerðin hafði hreinsað veginn til bráðabirgða. Höfðu skriður fallið allvíða á veginn, en mest fyrir innan Skeiðhól. Meðan á viðgerðinni stóð, myndaðist biðröð bíla báðum megin, m.a. voru áætlunarbílar á leið til Ólafsvíkur, Akureyrar og í Dali. Um tvöleytið var orðið svo fært, að bílum var hleypt yfir. Enn er talsverð hætta á skriðuföllum í Hvalfirði, einkum ef veðrið verður lengi svona.
Tíminn segir 29.desember fréttir af skriðuföllum á Ströndum - þau urðu í illviðri rétt fyrir jólin:
GV-Trékyllisvík, 28. desember. Á Þorláksmessudag var slíkt ofsarok og regn, að það orsakaði stórflóð í lækjum og ám hér um slóðir. Urðu víða skemmdir á vegum, þar sem yfir flæddi, og skriða féll í Krossneslandi. Steinsteypta brú tók af Reykjanesgili, sem er á veginum frá Gjögri til Trékyllisvíkur. Gjöreyðilagðist brúin, og myndaðist 10 metra gat í gilið, þar sem tveggja metra breið brúin var áður. Er nú vegasambandslaust við Gjögur. Vikuna fyrir jólin var hér stöðug vestanátt og hvassviðri með éljagangi og frosti. Á Þorláksmessu gerði óhemju rigningu með ofsaroki fyrri hluta dagsins, samkvæmt veðurathugun á Kjörvogi mældist úrkoman yfir 30 mm frá því um kl.7 og fram yfir hádegi. Varð af þessu stórflóð í lækjum og ám, og víða rann flaumurinn ofan á hjarnfönninni, og urðu af þessu skaðar á vegum. Á veginum frá Gjögri til Trékyllisvíkur tók af steinsteyptu brúna í Reykjanesgili. Komst vatnsflaumurinn þar á bak við annan brúarstöpulinn, ræsti sig þar fram og undan stöplinum, svo að brúin féll og gjöreyðilagðist. Hefur myndast 10 metra gat þarna í gilið, en brúin var að eins um tveggja metra breið. Er nú vegasambandslaust héðan við Gjögur, en ætlunin er að gera eitthvað við til bráðabirgða. Sama dag féll skriða í Krossneslandi, skammt utan við Kaupfélag Strandamanna í Norðurfirði. Skriðan féll ofan úr fjallshlíð í sjó fram. Þegar kom niður fyrir hlíðarrætur, breiddi skriðan úr sér og rann yfir á u.þ.b. 60 metra breiðu svæði og flutti með sér mikinn aur og grjót. Skriðan flæddi yfir veginn hjá Krossnesi, skemmdi hann á kafla og gerði stór spjöll á engi Krossneslands. Um þennan veg er ekki svo mikil umferð, að taki því að gera við hann, fyrr en í vor, þegar snjóa leysir með öllu. Nú er hér hjarn yfir allt og stillt veður. Hefur svo verið um hátíðina.
Eins og áður sagði urðu nú mikil umskipti - og höfðu áhrif á öllu norðurhveli jarðar. Um þau var fjallað í eldri pistli.
Við notfærum okkur eitt Morgunblaðsveðurkort til viðbótar - það birtist á gamlársdag og sýnir veðurstöðuna snemma morguns daginn áður. Þrýstilínur eru sárafáar á kortinu - og engar lægðir ógna veðri. Fremur hlýtt var á landinu, hiti ekki fjarri frostmarki við sjávarsíðuna. Kuldar hins vegar farnir að herja á nágrannalöndin, -8 stiga frost í París og meira að segja -1 stig á suðvestur-Írlandi - annað hvort á Shannonflugvelli eða í Valentia.
Lýkur hér samantekt hungurdiska um veður og veðurlag ársins 1962. Að vanda er þykk talnasúpa í viðhenginu. Þar má finna sitthvað sem ekki er minnst á í textanum hér að ofan.
19.8.2024 | 21:13
Afmælisdagur hungurdiska
Ritstjórn hungurdiska þykir sjálfsagt að minnast þess að í dag (19. ágúst) eru 14 ár frá stofnun bloggsíðunnar. Það þykir sumum langur tími - og vissulega hefur ómældur tími farið í misvelheppnuð pistlaskrifin [3241]. Umfjöllunarefnin hafa öll verið tengd veðri - og ótalmargt er óskrifað enn. En svo er komið að ritstjórinn man ekki lengur öll umfjöllunarefnin og verður jafnvel hissa þegar hann flettir gömlum pistlum.
Pistlarnir hafa hin síðari ár verið færri en áður, minna um frumleg skrif, en meira um samantektir úr gömlum fréttum og þess háttar. Er það vonandi vel þegið hjá einhverjum lesendum.
Á undanförnum árum hefur langstærsta verkefnið verið að taka saman pistla um veðurlag og atburði einstakra ára. Vantar nú aðeins þrjú ár upp á að pistlar hafi litið dagsins ljós um öll árin 1801 til 1974 hvert fyrir sig - auk fáeinna ára á 18. öld (eftir eru 1962, 1963 og 1944). Þegar því lýkur er ætlunin að fara á hundavaði yfir helstu atburði áranna 1975 til 2024 - ekki alveg ljóst enn hvernig að því verður staðið. Hvort þrek og heilsa endist til frekari skrifa verður bara að koma í ljós.
Ritstjórinn notar tækifærið til að þakka góðar undirtektir í áranna rás og Morgunblaðinu fyrir hýsingu og það utanumhald sem henni fylgir.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 21:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
16.8.2024 | 12:53
Hálfur ágúst
Hálfur ágúst. Meðalhiti í Reykjavík er 11,1 stig, -0,4 stigum neðan meðallags sömu daga á árunum 1991 til 2020 og -0,2 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára. Hitinn raðast í 17. hlýjasta sæti (af 24) á öldinni. Hlýjastir voru sömu dagar árið 2004, meðalhiti 14,0 stig, en kaldastir voru þeir árið 2022, meðalhiti þá 10,0 stig. Hitinn er nærri miðju á langa listanum, í 71. sæti af 152. Á honum er 2004 líka á toppnum (hvað annað), en kaldastir voru þessir sömu dagar árið 1912, meðalhiti þá aðeins 7,4 stig.
Á Akureyri er meðalhiti fyrri hluta ágúst 10,8 stig, -0,5 stigum undir meðallagi 1991 til 2020 og -0,1 stigi neðan meðallags síðustu 10 ára.
Að tiltölu hefur verið kaldast á Austfjörðum, þar raðast hitinn í 20. sæti (af 24), en hlýjast að tiltölu hefur verið á Norðausturlangi og Austurlandi að Glettingi - þar sem hitinn er í 12. hlýjasta sæti (miðju röðunar).
Á einstökum stöðvum hefur verið kaldast að tiltölu á Vattarnesi. Þar er hiti -1,2 stigum neðan meðallags síðustu 10 ára. Hlýjast að tiltölu hefur verið á Hraunsmúla í Staðarsveit, hiti +0,6 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára.
Það hefur verið úrkomusamt. Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 75,9 mm og hefur aðeins fimm sinnum mælst meiri sömu daga, síðast 1983 og 1984. Þetta er hátt i þreföld meðalúrkoma. Á Akureyri hefur úrkoman mælst 32,9 mm og er það um 80 prósent umfram meðallag. Á Dalatanga hafa mælst 220,8 mm, hátt í fjórfalt meðaltal - og vantar ekki mikið upp á hæstu tölu sömu daga, 237,1 mm (2009).
Sólskinsstundir hafa mælst 57,8 í Reykjavík, 23,6 færri en í meðallagi. Á Akureyri hafa stundirnar mælst 50,7, 19 stundum undir meðallagi.
Loftþrýstingur er enn með afbrigðum lágur. Mæliröð nær aftur til 1822 og hefur meðalþrýstingur fyrri hluta ágústmánaðar aldrei verið jafnlágur þessi 200 ár rúm. En keppnin í lágþrýstingi ágústmánaðar í heild er langt í frá útkljáð. Það fer eftir því hvernig á málin er litið hversu óvenjulegt þetta telst. Líkur á því að einhver hálfur mánuður ársins slái 200 ára gamalt met sömu almanaksdaga eru alltaf töluverðar - gerist að meðaltali á fáeinna ára fresti. En okkur veðurnördum finnst þetta samt harla athyglisvert (en engum öðrum).
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 14:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.8.2024 | 13:49
Fyrstu tíu dagar ágústmánaðar 2024
10.8.2024 | 23:08
Upprifjun á pistli um heimshita og hita hér á landi
Vorið 2016 skrifaði ritstjóri hungurdiska nokkra alllanga pistla um heimshita (og hita í Stykkishólmi) og í framhaldinu um meintan bláan blett á Norður-Atlantshafi. Það er varla kominn tími til að endurskrifa þessa pistla - þeir standa enn fyrir sínu - og auðvelt að finna þá á hungursdiskum (sá fyrsti birtist í apríllok 2016 og hinir síðan frameftir maímánuði).
Á þessum sjö árum hefur heimshlýnun auðvitað haldið áfram eins og ekkert sé og við var búist. Hér á landi hefur hins vegar lítið sem ekkert hlýnað í 20 ár - enda fór hlýnunin um og fyrir aldamót langt fram úr væntingum - skyndilega var tekin út hlýnun sem hefði staðið í marga áratugi hefði hún verið í sama takti og heimshlýnunin. Svo vill til að það var einmitt árið 1998 sem ritstjóri hungurdiska skrifaði grein í Lesbók Morgunblaðsins þar sem hann þóttist sýna fram á með góðum rökum að hlýnun fram að þeim tíma væri meiri en heimshlýnun gæfi ein og sér til kynna - en eins og langminnugir muna hafði þá um 20 ára skeið lítið sem ekkert bólað á henni hér á landi. Svo kom stökkið mikla - og ámóta stökk höfðu átt sér stað áður - í báðar áttir - bæði til hlýnunar og kólnunar - svo lengi sem mælingar sýna (rúm 200 ár). Þessi stóru stökk geta ýmist falið eða ýkt þá undirliggjandi hlýnun sem hefur verið í gangi í heiminum í meir en 100 ár - og hefur farið vaxandi eftir 1980.
Rétt er að taka fram að textinn hér að neðan er ekki léttlesinn - þeir sem ekki hafa sérstakan áhuga á málefninu ættu ekki að eyða tíma í að lesa hann. En þeir sem á annað borð lesa eru beðnir um að lesa vel (ábendingar um pennaglöp vel þegin).
Fyrsti greinarstúfurinn 2016 birtist 28. apríl undir titlinum: Heimshiti - hiti hér á landi. Í honum voru þrjár myndir, línu- og punktarit. Við skulum nú líta aftur á tvær þeirra - uppfærðar til ársins 2023 (fyrri myndir náðu til 2015). Skýringartexti hér að neðan er að nokkru leyti sá sami og í fyrri pistli.
Fyrri myndin sýnir hitabreytingu frá ári til árs á heimsvísu - á móti hitabreytingu frá ári til árs í Stykkishólmi. Heimshitinn er fenginn úr gagnaröð Hadleymiðstöðvarinnar (hadcru5). Röðin er í sífelldri endurskoðun - (árið 2016 hét hún hadcru4) - tölur breytast lítillega eftir því sem þekking á hitafari fortíðar batnar. Þeir sem framleiða röðina kusu að miða hana við tímabilið 1961 til 1990 - vikin eru miðuð við meðaltal þess tímabils. það er -0,07 stigum kaldara heldur en meðaltal tímabilsins alls (1850 til 2023).
Lárétti ásinn sýnir mun á heimshita hvers árs og ársins á undan, en sá lóðrétti það sama fyrir Stykkishólm. Hér er Stykkishólmskvarðinn sexfaldur miðað við heimskvarðann.
Sé fylgin reiknuð (og myndin rýnd) kemur fram væg neikvæð fylgni á milli árlegra heimshitabreytinga og hitabreytingar í Stykkishólmi. Með öðrum orðum að líkur eru til þess að hlýni snögglega milli ára á heimsvísu muni kólna milli ára í Stykkishólmi. Þessi fylgni er hins vegar ekki marktæk á tímabilinu öllu (finna má styttri tímabil þar sem hin neikvæða fylgni er vægt marktæk). Hadleymiðstöðin býður upp á þáttun hitaraðarinnar, norður- og suðurhvel sér, og haf og land sér. Þegar ritstjórinn gerði samskonar rit fyrir þáttaraðirnar kom hin neikvæða fylgni heldur betur fram fyrir norðurhvel og landhlutann heldur en heiminn í heild. (Þetta var 2016 - ekki er víst að sama eigi við nú - ritstjórinn reiknaði nú aðeins fylgnina fyrir breytingar heimshitans og hitans í Stykkishólmi.
Við sjáum að það eru þrisvar á tímabilinu sem heimshitinn hefur tekið stór stökk upp á við, í fyrra 2023, 1977 og 1877. Árið 1877 var (líklega) mesti el-nino 19.aldar í uppsiglingu. Í öllum tilvikunum þremur kólnaði milli ára í Stykkishólmi - reyndar mjög lítið í fyrra.
Á hinum vængnum finnum við árið 1879 - þá kólnaði um -0,3 stig á heimsvísu - sem er reyndar á mörkum þess trúverðuga - en við getum ekkert sagt við því, el-nino datt út. Þá hlýnaði hins vegar um 0,8 stig í Stykkishólmi frá því árið áður (sem við sjáum af myndinni að er alvanalegt).
Við skulum nú ekki fara að gera neitt úr þessu - en það sýnir alla vega svart á hvítu að snögg hlýnun á heimsvísu er ekkert endilega vísun á einhver skyndileg aukahlýindi hér á landi - nema síður sé. Hlýnun eða kólnun á heimsvísu frá ári til árs segir ekkert um breytingar hér á landi. Finna má ýmsar skýringar á þessu háttalagi - en kannski mjög erfitt að finna rétta skýringu - við látum það liggja milli hluta. Tökum þó fram að það er skoðun ritstjóra hungurdiska að blái bletturinn svonefndi hafi ekkert með þessa mynd að gera.
En - hins vegar hefur hlýnað bæði á heimsvísu og hér á landi síðustu 170 árin - þannig að býsna góð fylgni er á milli heimshita og hita í Stykkishólmi. Sú fylgni er hins vegar ekki tilkomin af breytileika frá ári til árs - heldur eingöngu af lengri þróun - og aðallega af mjög langri þróun (lengri en 50 ár).
Hin myndin sem við endurtökum sýnir heimshita á móti Stykkishólmshita - frá ári til árs. Rétt að taka fram að ásunum hefur verið snúið (frá birtingu 2016 - það er viljandi gert).
Heimshitavik eru á lárétta ásnum - ársmeðalhiti í Stykkishólmi á þeim lóðrétta. Munur á hæsta og lægsta ársmeðalhita í Stykkishólmi er nærri því 5 stig, en aðeins 1,7 stig á heimshitanum. Lóðrétta og lárétta strikalínan sýna meðaltölin - þær skerast þar sem bæði heimshiti og Stykkishólmshiti eru nærri meðallagi alls tímabilsins (1850-2023). (Það er pínulítið skemmtilegt að einmitt þar er gat í punktaskýinu).
Við sjáum vel að framan af var alls ekkert samband á milli heimshitans og hitans í Stykkishólmi - hlý ár hér á landi - eins og t.d. 1929 og 1933 eru undir meðallagi á heimsvísu. Köldustu árin í Stykkishólmi eru þó köld á heimsvísu. Kaldast var 1859 og 1866 og einnig 1892. Ritstjórinn hefur - til gamans - sett þar inn bláa strikalínu - sem liggur síðan upp á við til hægri nærri Stykkishólmslágmörkum punktadreifarinnar. Við sjáum að árið 2023 (rautt) er við þessa bláu línu - það var kaldara í Stykkishólmi heldur en heimshitinn einn og sér segir - sama má svo segja um 2015 og 1998. Á sama tíma skulum við taka vel eftir því að langflest ár á þessari öld eru ofan fylgnilínunnar (svarta punktalínan) - ár sem hafa verið hlýrri heldur en vænta mætti út frá heimshitanum einum og sér eru mun fleiri en hin. Samband Stykkishólmshita við heimshita er orðið til - en var ekki.
En tökum nú vel eftir einu: Hin nýlegu köldu ár sýna mun minni vik frá heimshitalínunni heldur en hin gömlu (bláa punktalínan nálgast þá svörtu eftir því sem á liður). Þetta leiðir af sér grunvallarspurningar: Er einhver sérstök ástæða til þess að halda að hiti hér á landi fylgi heimshitanum betur í hlýjum heldur en í köldum heimi? Getum við verið viss um að auða svæðið á myndinni haldist autt - og stækki bara (hlutfallslega) eftir því sem heimshitinn hækkar? Það er hægt að búa til skýringar á því hvers vegna það kunni að vera svo. Annars vegar að hafís sé að hverfa úr sögunni við Ísland - og hins vegar (ekki alveg ótengt) að munur á hita norðurslóða og tempraða beltisins minnki - þar með verði lengra í mikinn kulda en áður - þrálátari norðan- eða vestanáttir þurfi til að kæla heldur en áður.
Ýmislegt bendir til þess að þannig hafi það verið síðustu áratugi. Ísinn hefur alla vega ekki sýnt sig - og norðanáttir hafa orðið hlýrri en áður. Við höfum því elt heimshitann betur en áður.
Það er svo annað mál að ritstjóri hungurdiska þykist - af reynslu - vita að þegar til mjög langs tíma er litið - þúsund ár eða meira - mun þetta línurit fyllast að mestu - það munu detta inn punktar álíka - eða lengra fyrir neðan svörtu strikalínuna heldur en nítjándualdartilvikin sýna okkur - og þegar það gerist er það bara eðlilegur atburður í veðrakerfinu - sem ekki segir neitt um hlýnun vegna aukinna gróðurhúsaáhrifa - hún gengur sinn gang. Þessir punktar gætu birst fyrirvaralítið - en komi einn eru líkur á að fleiri fylgi í kjölfarið. Ekkert sérstakt bendir þó til þess að slíkt sé yfirvofandi.
Vísindi og fræði | Breytt 11.8.2024 kl. 03:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.8.2024 | 19:27
Þrjár nýlegar dembur
Ritstjóri hungurdiska hefur nú litið lauslega á mælingar á þremur miklum skúradembum. Tvær þeirra féllu þann 25. júlí (2024), annars vegar í Borgarfirði, en hins vegar austur í Þjórsárdal. Sú þriðja kom við á Veðurstofunni 1.ágúst.
Til að setja demburnar í samhengi er rétt að rifja upp tvær eldri reykjavíkurdembur. Tökum fram í upphafi að það er ekki fyrr en á allrasíðustu árum að almennt er farið að mæla úrkomuákefð. Úrkoma var yfirleitt aðeins mæld einu sinni eða tvisvar á sólarhring (örfáum sinnum þrisvar). Síriti var þó snemma settur upp í Reykjavík og var hægt að mæla ákefð með honum. Einnig voru síritar lengi á Hveravöllum og Kvískerjum í Öræfum, en rekstur þeirra gekk alla vega. Það var ekki fyrr en um aldamótin síðustu að sjálfvirkum stöðvum fjölgaði - og þar með síritandi mælum. Allskonar erfiðleikar hafa þó komið upp við mælingarnar og verst er að síðustu þrjú árin hefur alls ekki verið farið yfir þær í leit að villum. Sem stendur er því ekki hægt að kalla fram tölur um dembutíðni á landinu eða einstökum stöðvum. Hugtökin demba eða skýfall hafa ekki einu sinni verið skilgreind hér á landi eins og gert hefur verið í öllum nágrannalöndunum.
Ljóst er að ákafar dembur geta valdið umtalsverðum ama og jafnvel stórtjóni þótt þær standi aðeins mjög stuttan tíma. Mikilvægt er því að ná tökum á tíðnirófi þeirra til að hægt sé að hanna frárennsli (í stóru og smáu) - en rétt hönnun er forsenda þess að koma megi í veg fyrir tjón - eða lágmarka ama af því.
Við látum Pál Berþórsson lýsa eigin mælingu á mikilli dembu í Reykjavík 10.júlí 1948, (tekið úr merkri grein Páls: Hvað getur úrfelli orðið mikið á Íslandi? Veðrið 1968 s.52-58:
Það var á júlímorgni árið 1948, að hann gerði ofsalega rigningarskúr strax eftir að úrkoman hafði verið mæld í Reykjavík. Þegar rigningin hafði staðið í klukkutíma, datt mér í hug að fara út og mæla þessa dembu. Hún reyndist vera 17,3 millimetrar, en það þýðir eins og flestum mun kunnugt, að hún hafi skilið eftir sig 17,3 mm djúpt vatn á jafnsléttu, ef ekkert hefði runnið burt eða sigið niður. Þegar þetta gerðist, var enginn síritandi regnmælir á Veðurstofunni, en í allar þær 150 þúsund klukkustundir, sem hann hefur verið í gangi síðan, er aldrei vitað til, að í Reykjavík hafi mælst svo mikið regn á einni stundu.
Getið var um þetta veður í blöðum, m.a. Morgunblaðinu sem segir að þrumuveður hafi fylgt úrhellinu og að þetta hafi verið snemma morguns. Á þessum tíma voru þrjár úrkomumælingar á dag í Reykjavík, kl.6, kl.9 og kl.18. Var nýbúið að mæla kl.6 þegar skúrin féll. Heldur heppilegt allt saman. [Sjá líka pistil hungurdiska um árið 1948].
Að kveldi 16.ágúst 1990 gekk einkennileg skúr yfir Reykjavík. Henni er lýst í pistli á vef Veðurstofunnar um úrkomumet á Íslandi. Þar segir um skúr þessa:
... er rétt að geta óvenjumikillar dembu sem gerði í mæla Veðurstofunnar að kvöldi 16. ágúst 1991. Ekki var þá langt síðan veðurratsjá stofnunarinnar hafði verið tekin í notkun og síðdegis þennan dag kom fremur fyrirferðarlítið ský inn á sjána úr suðsuðaustri og stefndi á ströndina suður og vestur af Selvogi.
Skemmst er frá því að segja að skýið fór yfir Bláfjallasvæðið, Reykjavík og til norðurs, skammt vestur af Akranesi. Mikið úrfelli gerði á litlu svæði í Reykjavík svo frárennsli hafði ekki undan og vatn komst í allmarga kjallara, einkum í námunda við Hlemm. Fyrir tilviljum fór mesta demban því sem næst nákvæmlega yfir Veðurstofuna. Vestast í bænum og austan til rigndi mun minna og ekkert tjón varð þar.
Smáskúrir hafði gert fyrr um daginn, en kl. 21:30 byrjaði skyndilega að hellast úr lofti og þegar úrkomunni lauk kl. 23:40 höfðu, samkvæmt síritanum, fallið 21,2 mm. Klukkustundina frá 21:30 til 22:30 féllu 18,2 mm, hálftímann frá 21:30 til 22:00 13,2 mm, tuttugu mínúturnar frá 21:50 til 22:10 10,4 mm, frá 21:50 til 22:00 féllu 7,2 mm og fimm mínúturnar 21:55 til 22:00 féllu 4,7 mm. Taka verður fram að ekki er víst að klukkan í síritanum hafi verið nákvæmlega rétt og gæti hæglega skeikað 5 til 10 mínútum. Sömuleiðis er ætíð aðeins álitamál hversu nákvæmur aflesturinn er, en varla skeikar miklu.
Hér að ofan var skipt milli tímabila á heilum 10 mínútum. Hæstu 10 mínúturnar hafa væntanlega verið lítillega hærri en áðurnefndir 7,2. Sökum gagnaskorts er óvíst hversu algengar svona dembur eru hér á landi, en fráleitt er að sú mesta hafi einmitt fallið á Veðurstofunni. Í þrumuveðri í júlí 1998 féll geysimikil úrkoma í Stíflisdal og mældist heildarúrkoma dagsins 43,2 mm. Veðurathugunarmaður segir í athugasemdum að mestur hluti úrkomunnar hafi fallið á u.þ.b. 10 mínútum. Líklegt er að mestu dembur hér á landi komi einmitt í þrumuveðrum að sumarlagi.
Í þessum tveimur dembum var úrkomuákefðin annars vegar 17,3 mm/klst (1948) og 18,2 mm/klst (1990). Við vitum ekki um 10-mínútna ákefð 1948, en aðferð sú sem Páll notar í greininni áðurnefndu bendir á að hún hafi líklega verið að minnsta kosti 7 mm, svipað og mældist í úrhellinu 1990 - þar sem klukkustundarákefðin var svipuð. Í sumar (2024) hefur frést af allmiklum dembum. Þann 25. mældist mikil demba á Hvanneyri í Borgarfirði og sama dag gerði einnig mikla dembu austur við Búrfellsstöð í Þjórsárdal. Þrumuveður var samfara dembum þessum - alla vega á Hvanneyri og þar í grennd.
Hér að ofan má sjá 10-mínútna úrkomu á Hvanneyri (grænar súlur) og Búrfelli (rautt) þetta síðdegi, frá kl.14 til kl.22 um kvöldið. Mikla skúr gerði á Hvanneyri upp úr kl.16, mældist hún alls 6,8 mm, þar af 2,6 mm á 10 mínútum. Varla stytti alveg upp fram að skúrinni miklu sem hófst rétt fyrir kl.19. Rúmri klukkustund síðar höfðu fallið 19,9 mm, þar af 19,5 mm á 60 mínútum. Mesta 10-mínútna ákefðin mældist 9,2 mm milli kl.19:30 og 19:40 og 5,8 mm næstu 10-mínúturnar þar á undan.
Pétur Davíðsson, bóndi á Grund í Skorradal benti mér á að í grenndinni væru fáeinar stöðvar reknar af einkaaðilum. Vel má við þessar aðstæður treysta mælingum þeirra (að öðru leyti en því að ritstjóri hungurdiska veit ekki hvernig nánasta umhverfi mælanna er háttað - né hvort þeir eru í löglegri hæð).
Á Horni í Skorradal rigndi hvað ákafast í skúrinni milli kl.16 og 17. - komst upp í um 12,4 mm á klst. Í Meltúni, sem er skammt frá Skeljabrekku, rigndi svipað og á Hvanneyri - og um svipað leyti dags.
Ekki er vitað um svona mikla úrkomuákefð áður í mælingum á Hvanneyri, en athuga ber að ekki hefur verið farið ítarlega yfir þær.
Einnig má sjá mikla skúr við Búrfell á myndinni (rauður ferill). Þar komst 10-mínútna ákefðin reyndar upp í 10,0 mm þegar mest var, en heildarúrkoma varð aðeins minni heldur en á Hvanneyri. Þetta er svipaður atburður. Í báðum tilvikum standa skúrirnar meira en í 10-mínútur, engin vissa er því fyrir því að þær 10-mínútur sem mælirinn velur séu einmitt þær sem hittu á mestu ákefðina. Kannski var hún aðeins meiri en sýnt er.
Síðastliðinn fimmtudag, 1. ágúst, rigndi hressilega í Reykjavík. Ekki er víst að ákefðin hafi verið mest á Veðurstofunni, reyndar ólíklegt, því eitthvað mun hafa flætt í kjallara í skúrinni. Vill til að ekki er mikið um kjallara á Hvanneyri.
Sem stendur eru þrír sjálfvirkir úrkomumælar í notkun við Veðurstofuna. Myndin sýnir úrkomumælingar tveggja þeirra - sá þriðji sýnir efnislega það sama. Ákveðið var að halda sama kvarða og á fyrri mynd. Við sjáum að ákefðin er mun minni heldur en á Hvanneyri og í Búrfelli, allmikil þó, mest 3,7 mm á 10-mínútum og heildar úrkoma á báðum stöðvum í kringum 9 mm á klukkustund. Það er ekki sérlega algengt í Reykjavík. Grænleitu súlurnar sýna mælingar í nýja mælireitnum við Háuhlíð - það er eins og úrkoman hafi byrjað aðeins síðar þar heldur en við mælinn á Veðurstofutúni (rauður ferill) - eða eru klukkur mælanna ekki alveg samstíga? Í báðum tilvikum dreifist mesta úrkoman á tvennar tíu mínútur. Það er því alveg hugsanlegt að mesta 10-mínútna ákefð hafi verið t.d. 5 mm.
En notum þessar myndir - og eldri demburnar tvær - til að norma okkur. Bætum tilfinningu okkar fyrir því hvað er óvenjulegt og hvað ekki. Mjög mikilli úrkomu fylgja ákveðnar breytingar á ásýnd lofts og jarðar - þeir sem oft lenda í slíku læra að mæla ákefðina gróflega með huganum einum saman. Ekki er ritstjóri hungurdiska svo langt kominn í náttúrusambandinu - en hann er samt á leið þangað - og fer enn fram þótt gamall sé orðinn.
2.8.2024 | 17:27
Smávegis af júlí 2024
Eins og fram kom í júlíyfirliti Veðurstofunnar var verðri nokkuð misskipt hér á landi í júlí. Úrkomusamt og svalt var um landið sunnan- og vestanvert, en hlýtt um landið norðaustanvert - þótt þær gerði nokkrar óþægilegar úrkomugusur líka. Vestanátt var heldur minni í háloftunum en vant er, en sunnanátt hins vegar allstríð, loftþrýstingur lágur og veðrahvörfin stóðu lágt.
Kortið sýnir greiningu evrópureiknimiðstöðvarinnar á hæð 500 hPa-flatarins (heildregnar línur), þykkt (daufar strikalínur) og þykktarvik (litir). Köld stroka liggur til suðurs meðfram vesturströnd Grænlands og þaðan austur um haf fyrir sunnan land. Að öðru leyti er hlýrra á kortinu heldur en að meðaltali. Kuldapollar hafa stöðugt brotist suður úr Íshafinu og sést slóð þeirra á þykktarvikunum. Loftið hér suðurundan hefur ekki bara verið svalt, heldur líka óstöðugt - hlýindi sjávar (miðað við kulda loftsins að norðan) ýta undir óstöðugleikann.
Ritstjórinn finnur skyldleika með fyrri júlímánuðum helst árin 2014, 1994, 1947 og 1937. Óþurrkar ríktu á Suður- og Vesturlandi mestallt sumarið, 1937 og 1947, en blandaðra ástand var 1994 og 2014 - júlímánuður óþurrkasamur syðra, en síðan batnaði í báðum tilvikum. Hvað gerist nú vitum við auðvitað ekki.
Taflan sýnir röðun meðalhita á spásvæðunum í samanburði við aðra júlímánuði á þessari öld. Mjög hlýtt var á Norðurlandi eystra, fjórðihlýjasti júlímánuður aldarinnar. Einnig var hlýtt á spásvæðunum þar í kring, alveg suður á Austfirði. Í öðrum landshlutum telst mánuðurinn í meðallagi, svalast þó á Suðurlandi og við Faxaflóa.
Eins og getið er um í yfirliti Veðurstofunnar var úrkoma óvenjuleg víða Vestanlands og júlíúrkoma mældist meiri en áður á fáeinum stöðvum sem mælt hafa í nokkra áratugi.
Við þökkum BP að vanda fyrir kortagerðina.
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 3
- Sl. sólarhring: 266
- Sl. viku: 2382
- Frá upphafi: 2434824
Annað
- Innlit í dag: 3
- Innlit sl. viku: 2113
- Gestir í dag: 3
- IP-tölur í dag: 3
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010