Bloggfærslur mánaðarins, maí 2022
31.5.2022 | 21:17
Smávegis af maí
Það hefur farið vel með veður í maí. Nokkuð kalt var um tíma framan af mánuðinum en síðan hefur hiti aðallega verið vel yfir meðallagi. Nokkur landshlutamunur er þó á hitanum.
Taflan sýnir röðun meðalhita á spásvæðunum, miðað við aðra maímánuði aldarinnar. Á Suðurlandi er þetta fjórðihlýjasti maímánuður aldarinnar - (þar sem mánuðurinn er ekki alveg búinn þegar þetta er skrifað gæti hliðrast til um sæti til eða frá). Svipuð staða er við Faxaflóa, á Suðausturlandi og á Miðhálendinu, nyrðra er hitinn víðast hvar í kringum meðallagið, nema á Ströndum og Norðurlandi vestra þar sem hitinn raðast í 14. hlýjasta sætið (9. kaldasta).
Myndin sýnir reiknaðan meðalhita í byggðum landsins (mjög óáreiðanlegt fyrir 1874). Þegar til lengri tíma er litið hefur hlýnað í maí eins og í öðrum mánuðum ársins. En eins og fjallað var um í gömlum hungurdiskapistli (26.janúar 2017], sker maí sig nokkuð úr fyrir það að hann hefur kólnað frá því var á árunum 1930-40 - nokkuð sér á parti með slíkt. Maí nú í ár (2022) er töluvert hlýrri en sá í fyrra - þá var stöðug norðaustanátt ríkjandi með sólskinsstundameti í Reykjavík. Allt er miklu hóflegra nú.
Vorið (apríl og maí) hefur líka verið hagstætt, meðalhiti í byggðum landsins er 4,0 stig, rétt ofan meðallags áranna 1991 til 2020 og +0,8 stigum ofan meðallags áranna 1961-1990.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 22:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.5.2022 | 19:34
Fyrstu 20 stigin á árinu
Í dag, sunnudaginn 29.maí náði hiti á landinu 20 stigum í fyrsta sinn á árinu. Landshámark dagsins virðist hafa orðið 22,5 stig í Hjarðarlandi í Biskupstungum. Þetta er heldur seinna en algengast hefur verið á síðari árum.
Myndin er kannski ekki alveg auðveld (gerð í flýti), en hún á að sýna dagsetningu fyrsta 20-stiga landshámarkshita 1961-2022. Blágráu súlurnar eiga við mannaðar stöðvar. Þeim hefur farið mjög fækkandi á síðustu árum - og líkur á því að þær hitti í snemmbæran, stakan 20 stiga hita fara minnkandi. Þó er það þannig að meðaldagsetning áranna 1961 til 1990 var 5. júní, en 1991 til 2020, 26.maí. Atburðurinn í dag er því 2 dögum á eftir þessu síðara meðaltali, en viku á undan því gamla.
Sjálfvirkum stöðvum hefur fjölgað mjög - og líkur á því að þær veiði 20 stig fara því vaxandi. Enda er meðaltal þeirra á þessari öld, 14. maí, sem við erum hálfum mánuði á eftir í ár.
Vegna þessara kerfisbreytinga er eiginlega óráð að reikna leitni, vafalítið er þó að tuttugustigum er nú oftast náð fyrr að vori en var fyrir hálfri öld eða svo - væntanlega vegna hlýnandi veðurfars. Ef við tækjum allar tölur bókstaflega væri flýtingin orðin nærri þrjár vikur - sá mikli munur er að einhverju leyti kerfisbreytingunni að þakka. Með því að ráða betur í kerfin má þó trúlega komast að sæmilega áreiðanlegri niðurstöðu. En við látum framtíðina um það.
26.5.2022 | 23:37
Hlýtt háþrýstisvæði
Svo virðist sem hlýtt háþrýstisvæði rísi nú upp úr suðri og komi við yfir landinu og nágrenni þess. Kortið hér að neðan sýnir spá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir síðdegis á sunnudag, 29. maí.
Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar, en þykktin er sýnd með litum. Mjög hlýtt loft fylgir hæðinni, sem spáin setur yfir vestanvert landið. Verði sól - og dálítill vindur af landi er ekki ólíklegt að hiti nái 20 stigum einhvers staðar á landinu í fyrsta sinn á þessu ári. Slík er þó (eins og venjulega) sýnd veiði en ekki gefin.
Þótt ritstjóri hungurdiska fagni hlýindunum auðvitað, er hann samt svona rétt hóflega hrifinn af hæðum sem þessum - á viðkvæmum tíma árs. Hlýindaruðningur af þessu tagi stuggar ætíð við kuldapollum norðurslóða - þeir taka á rás - og útkoman ætíð eins konar rússnesk rúlletta. Þótt kuldapollurinn við Vestur-Noreg sé ekki mjög öflugur veldur hann samt afskaplega leiðinlegu veðri þar um slóðir - og síðan í kjölfarið á Skotlandi á leið sinni til suðvesturs - sunnan við hæðina.
Kuldapollurinn við Norðvestur-Grænland er hins vegar mjög illilegur. Spár gera að vísu ekki ráð fyrir allsherjarárás hans (til allrar hamingju) - en reiknimiðstöðin er hins vegar að stinga upp á hvítasunnukasti sem afkvæmi hans bæru ábyrgð á. Bandaríska veðurstofan vill hins vegar ekkert af slíku vita - og fer allt öðru vísi að.
Af framhaldinu höfum við sum sé engar áreiðanlegar fregnir - aðeins kviksögur - verðum því bara að vona það besta og láta sem ekkert sé.
24.5.2022 | 21:41
Af árinu 1782
Árið 1782 var erfitt. Við getum rakið veður frá degi til dags með hjálp veðurathugana Rasmusar Lievog í Lambhúsum á Álftanesi. Sömuleiðis eru til dagbækur frá þessum tíma sem lýsa veðri. Ritstjóri hungurdiska hefur aðgang að uppskrift Haraldar Jónssonar á dagbókum Sveins Pálssonar frá þessum tíma og ber lýsingum Sveins vel saman við mælingar Lievog. Sveinn dvaldi lengst af á Hólum í Hjaltadal, en fór suður til Hafnarfjarðar í júlí - en síðan aftur norður.
Astrid Ogilvie rekur veðurlag ársins 1782 nokkuð ítarlega í grein sinni The climate of Iceland 1701-1784. Greinin birtist í tímaritinu Jökli 1986 (s.57 og áfram). Megináhersla er á veðurlýsingar í skýrslum embættismanna til stjórnvalda. Í þessum skýrslum má finna ýmsar upplýsingar sem ekki koma fram í hinum hefðbundnu annálum, sérstaklega er þar að finna ítarlegri hafísupplýsingar en annars staðar er að sjá.
Astrid segir að árið 1782 hafi verið óvenjukalt um land allt, kaldara heldur en árið áður, 1781, og mikið hafísár. Heimildir frá Norðurlandi segi ísinn hafa komið þar um miðjan mars, en að Austurlandi frá miðjum Febrúar og þar hafi hann legið áfram, allt fram í september. Mikill lagnaðarís var á Breiðafirði. Ísinn fór víðast hvar í ágúst.
Hafísinn fór suður fyrir land. Sýslumaðurinn í V-Skaftafellssýslu sagði ís hafa fyrst komið þangað 19.maí og hafi ekki horfið fyrr en 23. ágúst. Sýslumaður Rangárvallasýslu nefndi 13. maí og þá hafi ís þakið sjó að mestu í þrjár vikur. Hann kom svo þangað aftur 14. ágúst. Haft er eftir Skúla Magnússyni (landfógeta) sem sigldi til Kaupmannahafnar seint í ágúst að ísinn hafi verið fyrir norðan fram í ágúst, en þá hafi hann rekið austur með og síðan vestur, allt til Vestmannaeyja. Skip hans hafði þurft að hörfa af stefnu sinni sem var til suðausturs - til suðvesturs - til að komast framhjá ísnum á þeim slóðum. Astrid segir, að eftir öllu að dæma, hafi 1782 verið eitt mesta ísár 18. aldar.
Astrid vitnar í Jón Jónsson í Eyjafirði og segir hann að á tímabilinu nóvember til febrúarloka hafi aðeins ein vika verið mjög hörð. Annan tíma hafi oftast verið einhver jörð. Mars segir Jón kaldan, allt til miðs aprílmánaðar. Thodal amtmaður á Bessastöðum sagði veturinn til þess að gera mildan til 6. janúar, en þá hafi brugðið til frosta og snjóa. Hann segir veturinn þann harðasta til þessa á sínum tíma á Íslandi (frá 1770).
Sýslumaður Dalasýslu (Magnús Ketilsson í Búðardal á Skarðsströnd) segir frá snjókomu í júlíbyrjun og aftur 16. ágúst.
Myndin sýnir hitamælingar (að morgni, um miðjan dag og að kvöldi) í Lambhúsum 1782. Ákveðin vandamál fylgja mælingunum í Lambhúsum. Hitamælirinn er óvarinn og greinilegt er að á hann skein alloft sól á morgnana (þá er óeðlilega hlýtt miðað við hádegisathugun). Trúlega sýnir hann hins vegar of lágar tölur í úrkomu. Einnig er greinileg hliðrun í mælinum, að sögn Lievog slitnaði kvikasilfursúla mælisins, hann reyndi að leiðrétta fyrir slitinu, en varð í janúar árið eftir að skipta um mæli. Við vitum ekki hversu mikilli ónákvæmni þetta slit olli. Séu mælingarnar teknar bókstaflega reiknast meðalhiti ársins 2,0 stig. Þetta er kaldara heldur en öll ár sem við höfum mælingar frá í Reykjavík. Sömuleiðis eru mánuðirnir júní, júlí og september þeir köldustu sem við vitum um. Mjög kalt var einnig í janúar, mars, ágúst og október, en febrúar, apríl, maí og nóvember mun skárri, febrúar og apríl tiltölulega hlýjastir. Ber því ekki illa saman við lýsingar embættismanna í samantekt Astrid Ogilvie og annálaheimildum.
Lievog mældi ekki úrkomumagn árið 1782, en úrkomudagar voru fáir - miðað við meðallag athugunarskeiðs hans - í mars, maí og ágúst 1782. Í maí og ágúst var úrkoma aðeins á 11 og 12 athugunartímum (af 94), en var yfirleitt á rúmlega þriðjungi þeirra á þessum árum. Það var helst febrúar sem skar sig út hina áttina. Það snjóaði allan daginn þann 22. maí, í frosti, síðasta snjókoma að vori í athugunum Lievog. Aftur var getið um snjókomu þann 21. september. Júní 1782 sker sig nokkuð úr öðrum júnímánuðum athuganasyrpunnar fyrir tíðni hvassviðra.
Sveinn Pálsson hélt einfalda veðurdagbók þetta ár. Hann getur oftast um vindátt og einkennandi veður - en oft mjög stuttaralega þó, sérstaklega í janúar og desember. Hann segir frá ofsaveðri af suðvestri þann 30. janúar, væntanlega því sama og feykti kirkjunni á Eyri í Skutulsfirði. Hann segir frá stuttum hlákuköflum í febrúar og hörku í dymbilvikunni. Þann 2. apríl segir hann að ísinn hafi rekið að, en daginn eftir var sólskin, hiti og heiðríkt. Góður kafli kom í apríl, um þann 17. var sólskin og leysing á daginn, en hart frost á nóttum. Í maí var stöðug norðan- og norðaustanátt, hríð þann 8. og 9., og 22., en annars oftast sólskin á daginn, en hel og frost á næturnar. Þann 1. til 5. júní var vestanþíða með ýmist éljagarra eða skúrum. Þann 6. suðvestan og blessaður hiti, leysing og flóð þann 8. og 9., en síðan gekk til norðurs, fyrst hægur, en þann 11. heljar kuldi, 12., sama og 13. lítið betra og þ.14. sama veður. Síðan komu vestanáttardagar, með fínu veðri, blessuðu veðri, heíðríku og 18. suðvestan blessuðum hlýindum og sama þann 19. til 21. Þann 22. var hins vegar vestan ofvirði og reif hús, sama daginn eftir. Þann 27. gekk aftur í norður og 29. snjóaði í fjöll. Þann 1. júlí snjóaði.
Í júlí fór Sveinn suður um heiðar, allt til Hafnarfjarðar. mest í suðvestanátt. Þann 17. er hann á leið norður aftur. Um mánaðamótin var norðanþoka. Í ágúst var aðallega norðanátt, nema 11. til 12., þá var hann á suðvestan. Þann 16. var norðan kafald, og síðan alls konar úrkoma. Hann getur um að 30 hollenskar duggur séu komnar á Siglufjörð, væntanlega hafa þær hrakist þangað undan ís (sjá annálana hér að neðan). Þann 8. september er suðvestan stórviðri og óvenjusandfok. Þ.13. er aftur kominn norðan heljarkuldi og þann 16. til 19. ýmist stormur, kuldi fjúk eða frost. Fyrri helming október er stundum allgott veður og hláka, en síðan snýst í norðan, ofboðs harður þann 20. til 25.
Í nóvember er oft getið um blíðu, þann 1. til 5. heiðríkja með heljarfrosti, en síðan sunnan. Öríst varð 18. til 20. og 22. til 30. segir hann alltaf sama blessað veður og hlýveður og stilling. Á aðfangadag var fyrst fjúk, en svo góð hláka um kvöldið. Á jóladag var vestan harðviðri mesta - síðan snerist til norðurs og 30. var hreinviðri og sterkt frost.
Við lítum á annálana, og röðum eftir árstíðum. Leyfum okkur að stytta lítillega, helstu endurtekningar (s - tölur benda á blaðsíðutöl - í misjöfnum bindum annálasafnsins. Stafsetningu er stundum hliðrað til (til að auðvelda yfirlestur).
Vetur:
Vatnsfjarðarannáll yngsti [vetur]: Vetrarveðurátta frá nýári og fram á gói stórkafalda- og frostasöm, svo batnaði nokkuð um tíma, (s402) en harðindi aftur, þá fram á leið. Vorið var óstöðugt, með kafaldshríðum, sterkum frostum og allmiklum ísalögum yfir flesta firði fram til nesja. Ísafjarðardjúp mátti ríða út til miðs fram yfir páska [31. mars]. Fylgdu hér með hafísar miklir, einkum fyrir Ströndum, samt austan- og norðanlands, hvar ísarnir fyrst tóku að losna frá seinast í ágúst. Voru nú og síðla um veturinn og vorið allvíða stór harðindi og bjargræðisskortur manna á meðal og sér í lagi mikið hallæri í Múla- og Þingeyjarsýslum. ... Þann (s403) 31. [janúar] braut sterkur stormvindur kirkjuna að Eyri við Skutulsfjörð í grunn niður. Þann 12. apríl drukknaði maður, ... niður um ís á Reykjarfirði í Vatnsfjarðarsveit [prestþjónustubók segir 12. apríl]. Þann 19. maí, eður sjálfrar hvítasunnu kveld, annar maður ... ofan um ís í Mjóafirði í sömu sókn. [prestþjónustubók segir 15. maí].
Úr Djáknaannálum: [vetur]: g1. Stöðug veðrátta til þess í seinustu viku þorra [konudagur 24.febrúar], gjörði þá miklar fjúkhríðir, sem gengu öðruhvörju þar til vika var af einmánuði [vika af einmánuði 2.apríl], með skelfilegum frosthörkum svo víða varð vatnslaust, hvar elstu menn ei til mundu að þrotið hefði. Jörð sprakk mjög í sundur, einkum háir túnhólar svo koma mátti mannsfæti ofan í sprungurnar og sást til þeirra mörg ár eftir. Firði lagði mjög og meir en menn til mundu; lagnaðarís kom út í milli allra Breiðafjarðareyja, svo riðið varð fram í Flateyju; lagði og með landi allt út á Hellissand undir Jökli svo bágt var um sjóróðra. Álftir drápust hrönnum vestra við sjóinn. Jarðbönn á góunni nyrðra af spillingarblotum fram undir sumarmál. Vetur þessi var af nokkrum kallaður Frosti, meintu mann hann yfirganga að frostum Frostavetur 1772. Á góu, 16. mars, kom mikill hafís, sem ei sást út yfir, mundu menn það ekki, að sjór hefði eins þakinn verið af hafísi, bæði til hafs og innfjarða; lá hann fyrir Norðursýslu til höfuðdags. Þrisvar sinnum kom hann um sumarið að Eyrarbakka, svo á Michaelismessu [29. september] varð ei róið fyrir honum, fór hann þaðan með vetri. (s235) Milli þrettánda og kyndilmessu [2.febrúar] gjörði 2 skaðaveður; reif í öðru þeirra timburkirkju til grunna og fleygði í sjó niður á Eyri í Skutulsfirði ... (s240). Fyrir hafís komu ekki kaupförin til Húsavíkur né Skagastrandar, það síðara lagði út aftur frá Hólminum syðra. Akureyrar- og Hofsósskip komu vestan fyrir land. Undir veturnætur kom annað skip á Akureyri, (s241) ... Á Húnafirði varð ei skipgengt fyrir ísi fyrr en undir mitt sumar. (s 242).
Höskuldsstaðaannáll [vetur]: Skiptapi 9 manna vestur í Keflavík fyrir nýtt ár [21. desember 1781]. ... Veturinn 1782 var kaldur. Frá Knút [7.janúar] gengu oftast sterk frost til kyndilmessu og stundum fjúk, svo fraus fyrir vatnsból viða. Síðan linara veður til miðgóu (7. mars). Aftur sterk frost og stórhríð norðan í viku. Sást þá hafís fyrir. 17. mars sérlegur spillingarbloti af sunnan stórregni og strax norðanfjúk og síðan þau miklu frost jafnlega til 15. apríl. Frosta- og fjúkapáskar [páskadagur var 31. mars], svo óvíða var kirkna vitjað, enda rak þá ísinn að öllu Norðurlandi. Skip, sem fór með góss úr kaupstað, nefnilega Skutulsfjarðareyri, á þorranum, steytti um nótt á skeri ei langt frá landi með 6 mönnum. Fundust næsta dags eftir allir örendir af kulda og frosti, en skipið fast. (s586) Harðindi til sjós og lands þar norður á Sléttu og annarstaðar norður. Selatekjan brást, og ísinn lá þar við og fyrir Langanesi fram yfir höfuðdag [29.ágúst], svo skip komust engin þá leið á norðurhafnir. Þar til stórkostlegur grasbrestur um sumarið, svo fólk margt gekk frá af bjargarleysu. Ekkert skip kom í Húsavík, ekkert í Höfða, eitt á Akureyri, eitt í Hofsós fyrir vestan land og annað skip kom út að Akureyri nærri veturnóttum. ....
Viðauki Íslands Árbókar [vetur]: Gjörðist vetur mjög harður bæði norðan og austan lands, svo mikill peningur féll í Austfjörðum. Vorið var ei betra, því hafís kom um sumarmál (s103) fyrir allt Norður- og Austurland allt suður til Eyrarbakka, sem víðast lá við fram yfir höfuðsdag. Það má og teljast merkilegt, að danskir duggarar þóttust hafa merkt til íss 15 mílum [meir en 100 km] fyrir sunnan Ísland, hvar við vöruskipin hindruðust að uppsigla norðurhafnirnar, einkanlegast Húsavík og Skagaströnd, en flestar austurhafnirnar vöntuðu nokkur af þeim útsendu skipum. ...
Espihólsannáll [vetur]: Kaldur vetur norðan lands og hafísþök með góu. Losnaði ís fyrst um mitt sumar. Versnaði heldur en batnaði veðurátt eftir því sem voraði að. ... Svo var graslítið, að skepnur fylltu sig ei, þó einkum við sjóinn. Ekki óx heldur í sáðgörðum. Fjöldi var og drepinn af kúm. (Vetur kaldur og frostamikill. Vorið eins. Lá þá ís fyrir Norður- og Austurlandi fram á mitt sumar. Voru frost svo sífelld um sumarið, að fyrir norðan land voru 2 nætur frostlausar um hundadaga. Grasbrestur mesti. Haust hríðasamt. Þá drápu menn pening sinn af heyskorti. Vetur til jóla áfreðasamur).
Viðaukar Espihólsannáls (1): Eins harða sumar- og hausttíð mundi enginn í Múlasýslu. Fennti þar á héraðinu bæði sauðfé og hesta um Michaelsmessu [29.september]. En á allraheilagramessu [1.nóvember] voru orðnar 7 innistöður í Jökulsárhlíð. (s229)
Ketilsstaðaannáll [vetur]: Vetur harður frá nýári til einmánaðar fyrir norðan land og austan. Hafís kom með gói og viðhélst fyrir Austfjörðum fram í september, hvers dæmi gamlir menn þar ei þóttust muna.
Vor:
Úr Djáknaannálum: [vor]: Eftir páska (sem voru fyrsta sunnudag í einmánuði, páskadagur var 31. mars) stilltist veðrátt með frostum og hreinviðrum til 15. apríl. Með sumri kom góður bati og leysti gadd af jörðu með hægviðrum, kólnaði aftur fyrir krossmessu [3.maí] með fjúki og frosti, var þá gengið af Reykjaströnd í Drangeyju. Norðanáttin hélst til fardaga [6.júní], brá þá veðráttu til sunnanáttar. ... Vorkuldarnir ollu sterklegu gróðurleysi, tók fyrst að grænka í fardögum, varð grasvöxtur hinn minnsti einhver í manna minnum, þó tók yfir grasleysið í Þingeyjarþingi, því á sumum bæjum þar fékkst ei nema kýrfóður; sumum vetrungsfóður og jafnvel minna. Tveir og þrír bæir hjálpuðust að að halda lífi í einni kú um veturinn eftir. Á 8 bæjum á Langanesi urðu ei hærð tún. Á Vestfjörðum gekk heyskapur vel, þó nokkur grasbrestur væri þar, var samt nýting heyja hin besta. Um haustið var mjög víða lógað kúm og lömbum nær öllum af heybresti. (s237) ... Í þeim mikla hafís, sem kom á þessu vori, var fjöldi dauðra hvala... .Harðindi til sjós og lands í Þingeyjarþingi, einkum á Sléttu. ... Um sumarið skáru sumir sauðkindur sér til bjargar og fólk tók um haustið upp að flosna. Á þorra og góu tók fólk við sjósíðu að deyja af bjargarleysi. (s237) ... Nóttina milli 13. og 14. janúar týndist skip á Ísafjarðardjúpi með 6 mönnum. (s239).
Höskuldsstaðaannáll [vor]: Vorið var þurrt og kalt, oftlega frost og alltíð norðanátt til fardaga [6.júní]. Þá grænkaði fyrst og kom sunnanátt. Um vorkrossmessu [3.maí] gengið af vestara landi í Drangey. Flest fé þar dautt. Ísinn rýmdist ei á Húnafirði, svo skipgengt væri fyrir hann, fyrr en í júlí, 11. eður 12. viku sumars [12. vika sumars byrjaði 11.júlí]. Fór Strandakaupmaður á íslensku skipi í 10. [mánaðamót júní/júlí] úr Höfða til Strandakaupstaðar, urðu af ísnum (s588) umkringdir, hétu fyrir sér í lífsháska komnir, sögðu happ þeir komust heilir til baka. ... Þrjár hollenskar fiskiduggur umkringdar af ís á Ísafirði, steyttu á skeri eður grynningum, að fortalað var. ...
Sumar:
Vatnsfjarðarannáll yngsti [sumar]: Sumarið var mjög kulda- og þurrkasamt og grasvöxtur í allra minnsta máta víðast hvar, svo að sumstaðar í Norðursýslu varð ekki borinn ljár í gras um sumarið, og sumstaðar lögðu menn saman að fá fyrir eina kú; þó var nýting á því sem heyjaðist, hin besta vegna sumarþurrkanna.
Úr Djáknaannálum [sumar]: Sumar þurrt með jafnaðarlegum næturfrostum svo að einar 2 nætur um hundadaga voru frostlausar. Hret kom um Jónsmessu og annað stærra 7. og 8. júlí; snjóaði þá ofan í byggð svo kýr og fé var hýst í 2 nætur fyrir norðan.
Höskuldsstaðaannáll [sumar]: Sumarið var þurrt og kalt, sérdeilis þá á leið. (Hret um Jónsmessu og aftur eftir þingmaríumessu [2.júlí]). Stórmikill grasbrestur yfir allt norðan lands, þó næsta misjafnt á bæjum í sveitunum.
Viðauki Íslands Árbókar [sumar]: Um sumarið var hinn mesti grasbrestur víðast um land, svo tún varla gáfu þriðjungstöðu að reikna mót meðalgrasári. Var því víða lógað miklum nautpeningi. ...
Ketilsstaðaannáll [sumar]: Þá var sumar svo kalt að einasta tvær nætur í hundadögunum voru frostlausar [neðanmáls: og 4. ágúst fraus nærri þumlungs þykkur ís á vatnspotti er úti stóð á Hofi í Vopnafirði b.v. ágrip], hvar af orsakaðist þvílíkur grasbrestur, að fólk fékk ei hálfar töður af túnum og enn minna af engjum, og um sláttinn tókst mönnum varla að brýna ljáina alloftast fyrir frosti á morgnanna. Slátturinn byrjaði þá ei heldur fyrr en í 16. viku sumars [8.ágúst]. Þann 19. september aðlagði með frost og snjóa [neðanmáls: og mátti fara að gefa kúm annað slagið 6 vikum fyrir vetur [um 15.september], b.v. ágrip].
Espólín [sumar]: Þá var grasbrestur mikill og hríðasamt, og drápu menn pening sinn; varð svo lítt sprottið í Þingeyjar þingi, að ekki urðu hærð tún á 8 bæjum á Langanesi; komust ei skip á hafnir fyrir ísum, og gengu sumir menn frá heimilum; er sagt: á því ári og hinu fyrra hafi dáið á 8 mánuðum 9 hundruð 80 og 9 menn. (s 35). Var vetur áfreðasamur til jóla ...
Haust og vetur til áramóta:
Vatnsfjarðarannáll yngsti [haust og vetur til áramóta]: Haustveðráttan kuldasöm, með frostum og snjóhríðum á milli, sömuleiðis frá veturnóttum til nýárs mjög rosasamt, þó ei stórar jarðleysur. ...
Úr Djáknaannálum [haust og vetur til áramóta]: Haustið frostasamt með fjúkhríðum. Á Michaelismessu [29. september] var kominn hestís á læki og keldur. Kom á algjörlega með imbruviku [14. september] meir en mánuð fyrir vetur. Með nóvember gjörði góða hláku, síðan víðast bærilegt til jóla, gjörði þá útsynningssnjóa, sérdeilis vestra. Fyrir norðan féllu hross nokkur fyrir hirðingarleysi, líka syðra, en ei annar peningur, því hey voru allstaðar gnógleg og fyrntust. Útigangsfé drapst flest í Drangeyju.
Höskuldsstaðaannáll [haust og vetur til áramóta]: Haustið og svo kalt og frostasamt. Kom á með imbruviku meir en mánuði fyrir vetur. Það viðhélst, nema einn vikutíma var gott. Var víða lógað kúm og lömbum af heyleysi. ... Veturinn vægur eftir allraheilagramessu [1. nóvember] til jóla. Súld og óveður á jóladag, svo óvíða gaf til kirkna. ... Laugardaginn fyrsta í vetri, 26. október, hröktust (s589) fiskimenn fjórir á bát frá Þangskála á Skaga í suðvestanveðri. Kom norðanhríð með sunnudegi. Voru úti til mánudags. Bar bátinn með þá að Bæjarfjöru á Höfðaströnd. Var þeim hjálpað af manni þeim sem þá fyrst sá. Komust þrír lífs af, þó kalnir og skemmdir. (s590)
Viðauki Íslands Árbókar [haust og vetur til áramóta]: Haustið var mjög kalt og snjósamt, en batnaði þó með allraheilagramessu. (s104)
Ketilsstaðaannáll [haust og vetur til áramóta]: um Michaelsmessu [29. sept] kom svo mikið snjóveður, að fé fennti víða á útsveitum í Fljótsdalshéraði, hver harðindi viðhéldust fram eftir haustinu og það með svoddan frekju, að um allraheilagramessu hafði sauðfé bænda í Jökulsárhlíð, sem í norðanátt er einn veðurnæmur reitur, fengið 6 eða 7 innistöður. Þá fannst varla sá bóndi, sem ei svo fyrir norðan sem austan fækkaði kúm sínum um haustið. En úr því allraheilagramessa leið og fram til nýárs voru harðindin vægari. (s454)
Brotabrot úr tíðavísum Jóns Hjaltalín 1782:
Æddi góa einsog ljón,
ypti þungum nauðum,
þakti snjóum fjöll og frón
færði hungur sauðum.
Harðla þéttur hafís grár
hart fékk grandi ollað.
hann hefur þetta heila ár
hér við landið tollað.
Grasár lítið víða var,
vann ei ljár á jörðu,
góð þó nýting blíða bar
bót við fári hörðu.
Af skólabókum minnar kynslóðar var helst að ráða að harðindi hefðu hafist með Skaftáreldum, árin á undan hefðu verið allgóð. Vonandi sýnir þessi samantekt að svo var alls ekki. Árið 1782, árið áður en eldgosið mikla hófst, var eitt hið kaldasta sem við vitum um. Móðan færði landsmönnum öðruvísi vanda, mengun brennisteins og annarra eiturefna sem þar að auki var mest nærri gróandanum sjálfum. Við skulum greina þarna á milli. Það má líka hugsa til þess hvað hefði orðið hefði gosið verið í hámarki á vindatíð á vetri og mengun fokið burt og rignt niður. En við förum síðar - ef þrek ritstjóra hungurdiska endist - líka í gegnum veðurfar áranna 1783 og 1784 á þessum vettvangi.
Annálarnir eru prentaðir í útgáfu Bókmenntafélagsins Annálar 1400-1800. Þakka Sigurði Þór Guðjónssyni fyrir innslátt á meginhluta tilvitnaðs texta þeirra hér að ofan og Hjördísi Guðmundsdóttur fyrir innslátt Árbóka Espólíns (stafsetningu hnikað hér - mistök við þá aðgerð sem og allan annan innslátt eru ritstjóra hungurdiska). Eins og áður er getið vann Haraldur Jónsson í Gröf í Breiðuvík það afrek að lesa dagbækur Sveins Pálssonar - við margþökkum þá vinnu. Sem kunnugt er skrifaði Haraldur upp ferðabók Sveins - þá sem út kom á sínum tíma.
22.5.2022 | 21:13
Hugsað til ársins 1927
Hlýindaskeiðið mikla var nýhafið, en menn höfðu enga hugmynd um það. Allt gat gerst, viðsnúningur til 19. aldarveðurlags mögulegur. Jón Þorláksson fyrrverandi forsætisráðherra lofaði tíðarfar ársins 1927 í áramótapistli í Morgunblaðinu 31.desember:
Árið 1927 hefir verið af náttúrunnar hálfu eitthvert hið allra besta, sem núlifandi menn muna. Hagstæð veðrátta, góður grasvöxtur, nýting á heyjum í besta lagi og fiskafli óvenjulega góður. Veðurblíðan hefir verið jafnari um landið, en menn eiga að venjast, en þó auðvitað ekki alveg jöfn. Er talið að Austfirðir hafi helst farið nokkuð varhluta af sumarblíðu og aflabrögðum.
Eins og Jón lýsir var yfirleitt hagstæð tíð á árinu 1927. Það var hlýtt ár, miðað við það sem á undan var gengið, en þætti ekki hlýtt nú. Meðalhiti í Reykjavík var 4,8 stig. Janúar var talinn frekar erfiður, en var þó ekki snjóþungur. Febrúar var umhleypingasamur framan af, en síðasti þriðjungurinn góður. Hlýtt var í veðri - og sömuleiðis í mars sem var bæði hægviðrasamur og snjóléttur. Apríl byrjaði vel, en um miðjan mánuð hljóp í hret sem stóðu fram í fyrstu daga maímánaðar. Þá gekk til góðrar tíðar, en fullþurrt þótti svo hamlaði sprettu. Í júní var nokkuð góð tíð, einkum síðari hlutann. Júlí var hagstæður og hlýr og þurrkar góðir, sérlega hlýtt var inn til landsins á Norðausturlandi. Ágúst var líka talinn hagstæður, en þurrkar voru þó daufir norðaustanlands. September var hagstæður og mjög þurr syðra og vestanlands, en óhagstæður nyrðra eftir miðjan mánuð. Október var umhleypingasamur og tíð norðaustanlands óhagstæð. Veðurlag var óstöðugt í nóvember, þá var mjög úrkomusamt á Suður- og Vesturlandi, en annars var tíð talin hagstæð. Desember var hagstæður, sérstaklega fyrir norðan þar sem var mjög þurrt. Úrkomusamt var sunnanlands.
Ekki var mikið um eftirminnileg stórviðri á árinu. Þann 24. janúar olli óvenjudjúp lægð fyrir suðvestan og sunnan land miklu austanveðri á landinu. Í júlí var um tíma óvenjuhlýtt norðaustanlands, spurning hvort á að trúa því. Meðalhámarkshiti á Grímsstöðum á Fjöllum reiknast 21,8 stig og 19,7 stig á Þorvaldsstöðum í Bakkafirði. Þetta hafa ætíð þótt ótrúverðugar tölur, en segja okkur samt að í þessum mánuði var fjöldi mjög hlýrra daga mjög óvenjulegur á þessum slóðum. Þann 22. júlí var hámarkshiti á Þorvaldsstöðum talinn 30,3 stig - ekki viðurkennd tala. [Um þessa og fleiri háar tölur - margar grunsamlegar - er fjallað í gömlum hungurdiskapistli]. Hæsti hiti á Grímsstöðum í þessum mánuði var 26,0 stig og 20 daga í röð mældist hámarkshiti 20 stig eða meiri. Í hinum ofurhlýja júlí 2021 var meðalhámarkshiti á Grímsstöðum 19,9 stig, þá var mánaðarmeðalhitinn 14,2 stig, en ekki nema 11,9 í júlí 1927. - En auðvitað eigum við þessar tölur áfram á lager handa síðari kynslóðum að fást við.
Í ágúst fóru leifar fellibyls hjá landinu austanverðu á miklum hraða. Þá mældist þrýstingur lægri á landinu en vitað er um fyrr og síðar í ágúst. Fyrir miðjan september voru þurrkar og vatnsskortur farnir að valda áhyggjum sumstaðar á Suður- og Vesturlandi, verður að teljast fremur óvenjulegt á þeim tíma árs - úr því rættist þó. September 1927 er sá næstþurrasti í meir en 160 ára sögu úrkomumælinga í Stykkishólmi. Desember var sérlega þurr norðaustanlands, sá þurrasti sem við vitum um á Akureyri og á Húsavík. Úrkomumælingar á þessum stöðum teljast þó ekki sérlega áreiðanlegar á þessum árum, sérstaklega í mánuðum þegar úrkoma var mjög lítil.
Hér að neðan er farið í gegnum helstu veðurtíðindi ársins með aðstoð dagblaða, tímaritsins Veðráttunnar og athugana Veðurstofunnar. Á þessum árum var starfrækt fréttastofa, kennd við Blaðamannafélagið. Flest blöð birtu fréttir þessarar stofu með sama orðalagi. Birting fréttanna í blöðunum virðist þó hafa verið nokkuð tilviljanakennd. Vaknar ákveðin forvitni um þessa starfsemi þessarar stofu og hvort fréttir hennar hafi varðveist í frumeintökum. Einkaútvarpsstöð starfaði í Reykjavík með nokkuð fjölbreyttri dagskrá (hún var auglýst í blöðum). Þar voru lesnar veðurfréttir en annars var ekki auðvelt að koma veðurspám á framfæri nema um símstöðvar.
Við berum (nokkuð tilviljanakennt) niður í yfirlitstextum veðurathugunarmanna (styttum þá stundum):
Lambavatn (Ólafur Sveinsson): Janúar: Yfir mánuðinn hefir hér verið mjög snjólétt, en fremur óstöðug tíð og vindasöm. Hagi oft ekki góður og notast illa.
Húsavík (Benedikt Jónsson): Janúar: Óstillt veðrátta, en ekki stórfelld. Úrkomur tíðar, en ekki miklar. Fremur snjólétt, en áfreðar, svo að jarðlaust varð 28. og 29. og varð hér algerð innistaða fyrir allar skepnur hér við sjávarsíðuna en löngu fyrr upp í hásveitunum.
Vík í Mýrdal (Haraldur Jónsson): Janúar: Slæm tíð í þessum mánuði. Í rokinu þ.24. varð tjón á húsum í Eyjafjallasveit, hlöður fuku í Steinum, á Þorvaldseyri og Núpakoti. Baðstofa í Hlíð.
Stórhöfði í Vestmannaeyjum (Gunnar Jónatansson): Janúar: Umhleypingasamt og stormasamt. Aðfaranótt 24. sló eldingu í rafmagnsþráð í bænum. 24. gerði aftakveður og urðu talsverðar símabilanir. Fórst bátur með 8 mönnum, slitnaði upp saltskip sem lá á höfninni og hraktist um höfnina en gerði samt engar skemmdir. Mér þætti gott ef Veðurstofan geti sett hér vindhraðamæli, þar sem er oft ágreiningur með veðurhæðir. Sumir telja of háa og aðrir of lága. Og eins langar mig að vita hvort eigi aldrei að hafa veðurhæð 12, því mér hefur verið sagt eftir Veðurstofunni að það ætti aldrei að hafa 12 því menn (væru ekki að mæla það).
Haraldur í Vík og Gunnar á Stórhöfða geta um mikið illviðri sem gerði þann 24.
Gríðarlega djúp lægð var þá fyrir suðvestan land. Þrýstingur fór niður í 941,3 hPa á Stórhöfða síðdegis þann 24. Við höfum á síðustu árum séð fáeina ættingja hennar. Veðurstofan gaf út viðvörun, en erfitt var að koma henni til skila. Tjón varð ekki stórfellt, en við lítum á nokkrar blaðafréttir - þar sem m.a. er fjallað um erfiðleika á dreifingu viðvarana.
Morgunblaðið 25.janúar (nokkuð stytt):
Í fyrrakvöld [23.] sá Veðurstofan það af veðurskeytunum, að ofsaveður væri í nánd hér á Suðurlandi af norðaustri. Hafði veður þetta náð til Hornafjarðar í fyrrakvöld (eða lengra) og var þá veðurhæðin þar 11, en mesta veðurhæð sem mæld er er 12. Klukkan 7 í fyrrakvöld sendi svo Veðurstofan út aðvörunarskeyti til verstöðvanna hér syðra, en annað hvort hafa skeyti þau ekki náð formönnum fiskibátanna, eða þá að menn hafa eigi tekið mark á þeim, því að í flestum veiðistöðvum munu bátar hafa róið. Um hádegi í gær [24.] brast veðrið á hér og mátti um tíma kalla, að vart væri stætt á götum bæjarins. Lygndi þó aftur um tíma, en undir kvöldið hvessti aftur. Víða mun þó hafa verið verra veður en hér. Svo var rokið mikið í Mosfellssveit að snjó og hjarn reif þar svo upp að renningurinn stíflaði alveg aðrennsli Elliðaánna og varð ljóslaust og rafmagnslaust hér í bænum um tíma.
Frá Keflavík. Héðan reru 8 bátar í morgun [24.]. Var þá veður sæmilegt, en svo tók að hvessa. Brast svo á ofviðri og hefir versnað allt fram að þessu. Af þessum 8 bátum hafa 2 náð höfn í Sandgerði, 1 komst hingað svo snemma, að skipshöfnin komst í land, en 3 liggja hér út á höfn og komast mennirnir alls eigi í land fyrir ofviðri, enda stendur beint upp á höfnina. Er sjórokið svo mikið að mannlausir bátar eru borðstokkafullir á höfninni. Tveir af þessum bátum sem liggja hér á höfninni með fullri áhöfn hafa misst smábáta sína; sjórokið gengur alltaf yfir þá og hljóta mennirnir að eiga illa æfi um borð. ... Bifreiðir voru sendar héðan í gærmorgun upp að Lögbergi til þess að sækja þangað vermenn er komnir voru austan yfir heiði. En er þær komu aftur niður að Baldurshaga var veðrið orðið svo mikið að lífsháski var að aka í bifreiðum. Gengu þá mennirnir af þeim. Sumir þeirra fóru gangandi til bæjarins, en aðrir settust að á Baldurshaga og treystust ekki til að halda áfram til Reykjavíkur nema veðrinu slotaði eitthvað. Milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur gátu bifreiðir ekki farið eftir hádegi í gær.
Morgunblaðið 26. janúar:
Eins og kunnugt er sendir Veðurstofan veðurskeyti til flestra verstöðva hér nærlendis, síðari hluta dagsins kl.7 að kvöldi. Hún gerði það og á sunnudagskvöldið var og taldi austanrok í aðsigi. En þess er að gæta að símstöðvum í sumum þessara verstöðva er lokað kl.6 á kvöldin og fá sjómenn því enga vitneskju um veðurspána. Er hún þeim gagnslaus þegar svo stendur á. Þetta þarf nauðsynlega að lagfæra. ... Í ofviðrinu í fyrradag brotnuðu tveir símastaurar í Öskjuhlíðinni. En þó var samband við Hafnarfjörð eftir sem áður. Þak rauf af öðru þvottalaugarhúsinu í ofviðrinu í fyrra dag svo ekki var tætla eftir. Var mesta mildi að það lenti ekki á íbúðarskúr sem þar stendur mjög nærri.
Morgunblaðið 30. janúar:
Í Mýrdal urðu engar verulegar skemmdir í veðrinu [þann 24.], aðeins smávægilegar. Öðru máli gegnir um Eyjafjallasveit, enda er hún vön að fá að kenna á veðrum sem þeim, er kom þann 24. Sagði presturinn í Holti blaðinu að þetta veður hafi verið eitt mesta fárviðri sem menn muna eftir að hafi komið þar. Það olli líka tilfinnanlegu tjóni þar í sveitinni. Skulu nefnd þau helstu: Í Steinum (Hvoltungu) fauk hlaða með áföstum skúr. Lítil skemmd varð þó á heyjum. Í Hlíð fauk þak af hlöðu og sjálfsagt 20 hestar af heyi. Í Núpakoti rauf þak af fjósi. Í veðrinu losnaði stór steinn úr fjallinu fyrir ofan Núpakot og kom hann niður á hesthús er stóð neðan við fjallið. Lenti steinninn á mænir hesthússins, braut hann en sakaði ekki hesta er inni voru. Á Þorvaldseyri fuku 48 þakplötur af hlöðunni miklu sem ferðamenn er þar fara um veita eftirtekt. Einnig fuku 6-8 plötur af íbúðarhúsinu á Þorvaldseyri. Á Núpi fuku 20 þakplötur af íbúðarhúsinu. Svo mikið var veðrið á Núpi að fólkið flúði allt í kjallara hússins því það hélt að húsið myndi fjúka á hverju augnabliki. Sem dæmi upp á það hversu mikið fárviðri var þarna, má nefna að sláttuvél er stóð heima við bæinn á Núpi tók í loft upp í einni hrinunni og fauk hún 8 faðma og kom hvergi niður á leiðinni. Hest tók þar einnig í loft upp og fauk hann tvær lengdir sínar en kom standandi niður. Á símalínunni urðu li mitlar skemmdir, aðeins fjórir staurar brotnuðu.
Febrúar var órólegur vestan lands framan af, en fékk betri dóma nyrðra: Þann 7. varð mikið snjó- og vatnsflóð í Öræfum, tjón varð mest á Svínafelli og eyðilagði þar rafstöð.
Morgunblaðið segir frá þessu í pistli þann 4. mars - vitnar í samtal við Vík í Mýrdal:
Aðfaranótt 7. febrúar s.l. gerði svo mikið snjó- og vatnsflóð í innri hluta Öræfa, að menn þar muna ekki dæmi annars þvílíks nokkru sinni fyrr. Varð víða talsvert tjón af völdum flóðsins, en mest var tjónið í Svínafelli. Þar skall flóðið yfir túnið, og bar mikla skriðu á það. Ennfremur skall flóðið á rafmagnsstöðina, sem stóð í gili nokkuð fyrir ofan bæina. Sópaði flóðið öllum mannvirkjum rafmagnsveitunnar burtu, svo gersamlega, að engin verksummerki þeirra sáust eftir. ... Eigi urðu skemmdir á öðrum húsum í Öræfum af völdum flóðsins, og ekkert slys, hvorki á mönnum né skepnum.
Veðurathugunarmenn lýsa tíð í febrúar:
Hvanneyri (Þorgils Guðmundsson): Febrúar: Fram til þess 20. var veðráttan í þessum mánuði mjög slæm, svo ekki notaðist beit þrátt fyrir það að jörðin væri oftast nær alauð. Síðustu 8 daga mánaðarins var mjög fagurt veður, en þó allmikið frost um nætur.
Húsavík: Febrúar: Frá 1. til 4. stillt og svalt veður. Frá 5. til 20. þýður og rosaveður á víxl, oftast hvassviðri. Frá 21. til 28. stillur oftast logn og léttskýjað. Yfirhöfuð framúrskarandi blíð vetrarveðrátta. Mjög snjólétt við sjávarsíðu, en mjög mikill gaddur á fjöllum og í efri sveitum lítil snöp og rennihjarn.
Vísir segir 16. mars frá óvenjumikilli bólgu í Þjórsá mánuði áður:
Þjórsárbrú, 16. febr. FB. Tíðarfar er gott. Þíðviðri. Þjórsá hefir hlaupið upp hjá Sauðholti i Ásahreppi. Hefir áin flætt alveg kringum bæinn, er stendur mjög lágt, og hefir fólk ekki komist til sauðahúsa. Eru aðstæður bóndans afskaplega örðugar sem stendur. Hefir verið um það ráðgast að senda bát að Sauðholti, því ef flóðið eykst er fólkið í hættu statt og kæmist ekki í burtu. Aðeins einu sinni, svo menn muna, hefir áin flætt upp þarna svo mikið. Áin hefir ekki hagað sér eins og i vetur í manna minnum.
Mars fékk mjög góða dóma:
Lambavatn: Mars: Yfir mánuðinn hefir mátt heita gott vorveður, fremur en vetur. Alltaf mátti heita alautt og úrkomulítið. Kringum hús í í lautum er komin þó nokkur græn nál.
Húsavík: Mars: Framúrskarandi blíð veðrátta yfirleitt. Jörð að mestu alauð hér en allmikill snjór til sveita. Sást fyrst gróðurvottur 19., en í mánaðarlokin nokkur grænka á túnum og sjávarbökkum. Sjór nokkuð ókyrr og nokkur brim, þótt hér væri löngum logn eða hægvirðri.
Gæðaveðrið hélt áfram fram í apríl, en þá gerðist tíð erfiðari og í innsveitum norðaustanlands var marga daga samfellt hríðarveður síðustu vikuna. Þann fjórða gerði allmikið austanhvassviðri á Suðurlandi, togarar á Selvogsbanka fengu stór áföll auk fleiri skipa. Margir menn slösuðust. Fimm menn drukknuðu er bátur fórst í brimgarðinum við Eyrarbakka. Sérlega kalt var undir lok mánaðarins og þann 27. og 28. hlánaði ekki í Reykjavík.
Lambavatn: Apríl: Fyrri hluta mánaðarins var óvenju góð tíð, svo allur gróður var farinn að lifna. Þann 17. skipti um, gerði þá snjó og kulda. Snjóaði þá svo mikið að aldrei á vetrinum kom jafnmikill snjór. Og helst þessi snjógangur enn.
Húsavík: Apríl: Veðráttan miklu verri en í mars: Umhleypingar, kuldar og hret, en lítil snjókoma. Vorgróður sem kom í mars aldauða nú.
Möðrudalur (Jón A. Stefánsson): Apríl: Mánuðurinn yfirleitt kaldur, þó yfirtæki eftir 21. - 30. sífelldar hríðar.
Maí byrjaði mjög kuldalega, en eftir tæpa viku batnaði og síðan þótti tíð allgóð.
Kortið sýnir háloftastöðuna þann 1. maí. Þá er mjög kalt lægðardrag að fara til suðausturs yfir landið. Trúlega var dragið snarpara heldur en endurgreiningin sýnir. Töluvert snjóaði.
Hvanneyri: Maí: Nokkra fyrstu dagana fremur kalt, en eftir það góð og hagstæð veðrátta.
Lambavatn: Maí: Fyrstu viku mánaðarins var kalt en þurrt. En mánuðurinn hefir verið óvenju góður og einstök blíða og kyrrð til lands og sjávar.
Húsavík: Maí: Mánuðurinn allur fremur kaldur og sólarlítill að frádregnum nokkrum dögum. 1. til 10. miklir kuldanæðingar en ekki mikil úrkoma. Eftir það hlýrra en of þurrt til þess að gróðri færi vel fram. Jafnaðarlega næturfrost í hærri sveitum og heiðríkar nætur. Hærri fjöll alhvít. Ís á stöðuvötnum í mánaðarlokin.
Vík í Mýrdal: Maí: Fjúkhreytingur og kuldi fyrstu dagana fram á þ.4. Úr því er mánuðurinn hinn blíðasti bæði til lands og sjávar. [Alvítt var í Vík 2., 4. og 5. (2 cm) og 15 cm á Stórhöfða þ.1. og 5 cm , 2. til 5.
Júní var góður, en eitthvað var kvartað um sólarleysi norðaustanlands.
Lambavatn: Júní: Óminnanleg blíða til lands og sjávar og hagstæð tíð. 16. til 18. gerði norðan stórviðri sem skemmdi hér garða, einkum fræ. Grasvöxtur er orðinn víðast í góðu meðallagi.
Húsavík: Júní: Mánuðurinn var sólarlítill við sama hér. Veðurfarið var stillt. Sífelld barátta milli sunnan- og norðaustanáttar. Snöggar breytingar hita og kulda eftir snöggum áttaskiptum. Auðsæ áhrif frá ekki fjarlægum pólís. Gróður hægfara. Tún yfirleitt vel sprottin, en úthagagróður rýr. Eitt tún hér í sýslunni nú slegið og hirt.
Júlí var einnig góður - víðast hvar. Farið að kvarta um þurrk - Ólafur á Lambavatni á Rauðasandi kvartar þó um votviðri. Einnig er talað um síðdegisskúrir og þrumuveður.
Morgunblaðið segir 27. júlí frá þrumuveðri. Þennan sama dag voru einnig þrumur í Vestmannaeyjum og austur á Kirkjubæjarklaustri.
Þrumuveður, stórfellt, gekk yfir Rangárvallasýslu seinnipart mánudags síðastliðinn [25. júlí] að því er Matthías Þórðarson þjóðminjavörður sagði Morgunblaðinu í gærkvöldi. Hann var á Bergþórshvoli og kom þaðan í gær. Veðrið skall yfir kl.2 e.m. og hélst til kl.5. Rak hver þruman aðra og eldingar leiftruðu í sortanum, regnið stórfellt með afbrigðum og haglél með köflum. Eftir því sem séð varð frá Bergþórshvoli mun veðrið hafa skollið yfir Eyjafjallasveit, Landeyjar, Fljótshlíð, Rangárvelli, Landsveit og sennilega Hreppa. Uppi í Þórsmörk kom ekki dropi úr lofti.
Dagur segir af þrumuveðri í frétt 11. ágúst. Víðar var getið um þrumur þessa daga, t.d. á Hvanneyri og Þingvöllum:
Þrumur og eldingar gengu bæði í uppsveitum Skagafjarðar og Húnaþings fyrstu dagana í þ.m. Þeirra varð einnig vart eystra, í Mývatnssveit og alt austur á Fljótsdalshérað. Hér í Eyjafirði bar ekkert á þeim. Eru þær mjög sjaldgæfar hér norðanlands.
Veðurathugunarmenn lýsa júlímánuði:
Hvanneyri: Júlí: Ágætis veður oftast, og það miklir þurrkar að veðráttan má teljast hagstæð til heyskapar.
Lambavatn: Júlí: Það hefur verið votviðrasamt, en hlýtt nema frá 25. til 28. var norðan krapa blástur og kalt. Hér hefur verið lítið um þurrk nema fyrstu viku mánaðarins.
Suðureyri (Kr. A. Kristjánsson) Júlí: Kyrr - heitur, mjög hagstæður til lands og sjávar.
Fagridalur í Vopnafirði (Kristján N. Wiium) Júlí: Fádæma góð (tíð). Stillt, hlýtt og þurrt, heldur of þurrt fyrir garða- og grasvöxt, og vatnsskortur sums staðar t.d. í brunnum á Vopnafirði. Þoka og regn síðasta daginn.
Vík í Mýrdal: Júlí: Afbragðsgóð heyskapartíð. Grasvöxtur tæplega í meðallagi.
Morgunblaðið segir af tíð:
Morgunblaðið segir af tíð 30.júlí og snemma í ágúst:
Borgarnes 30. júlí. Tíðarfarið ágætt og eru menn nú sem óðast að binda inn töðuna sem hirt er jafnóðum, en stöku menn eru komnir á engjar. Á harðvellisengjum er illa sprottið vegna þurrkanna í vor.
Morgunblaðið 31. júlí:
Veðráttan í vikunni sem leið var yfirleitt hagstæð bæði til lands og sjávar. Vindur hefir alltaf verið norðlægur vestanlands en oftar austlægur á Norðurlandi. Sunnanlands hefir verið þurrkasamt en Norðanlands hefir rignt öðru hvoru einkum við sjávarsíðuna. Í Reykjavík hefir aldrei verið nein mælanleg úrkoma en á Þingvöllum hefir rignt 3,4 mm af fjallaskúrum. Á Hraunum í Fljótum hefir rignt 12 mm. og á Lækjamóti í Húnavatnssýslu 8 mm. Veðráttan hefir verið í kaldara lagi Norðanlands.
Morgunblaðið 7. ágúst:
Veðráttan í vikunni sem leið: Mjög kyrrt veður og fremur hlýtt. Mestan hluta vikunnar var óþurrkasamt á Norður- og Austurlandi, oftast þoka og dumbungsveður, en aldrei stórfeld rigning. A Suður- og Vesturlandi hefir verið skúrasamt mjög til fjalla, en oftar úrkomulaust við sjávarsíðuna. Á þriðjudaginn {2. ágúst] kom snörp þrumuskúr á Þingvöllum. Varð úrkoman 12.5 mm., regn og hagl, á lítilli stundu. Á föstudaginn glaðnaði til um alt land og hefir haldist allgóður þurrkur síðan, nema á Austurlandi. Þar þyngdi fljótt aftur í lofti. Úrkoma hér í bænum alls 1 mm, á Þingvöllum 22.
Ágúst var lengst af góður, en þó gerði athyglisvert illviðri undir lok mánaðar. Leifar fellibyls komu sunnan úr hafi og fór hann hratt til norðausturs nærri Suðausturlandi aðfaranótt og að morgni þess 27. Loftþrýstingur fór þá neðar en nokkru sinni hefur mælst í ágústmánuði hér á landi. Tjón varð ekki mikið, einna mest vegna brims á Siglufirði. Eldsumbrota er getið í Öskju. Þar rak hvert smágosið annað á þessum árum, allt fram til 1929.
Lambavatn: Ágúst: Það hefir verið mjög hagstætt á landi og sjó, nema seinustu viku mánaðarins hefir (verið) óstöðug og rosafengin tíð. Yfir mánuðinn hefur heyskapur allstaðar gengið ágætlega.
Húsavík: Ágúst: Veðráttan yfirleitt blíð og stillt. Lítið um sólskin og smáskúrir einkum til landsins. Nýting heyja því sein og tafsöm. Mjög mikil hey úti nú og sums staðar skemmd. Gæftir á sjó fágætlega góðar. Dagana 27.-28. gerði norðan óveður og mjög mikið brim, en brá aftur til blíðu 29. ágúst og síðan blíðviðri en skúrir. Eldur sagður uppi í Öskju enda sést móða og mistur nokkrum sinnum.
Teigarhorn (Jón Kr. Lúðvíksson): Ágúst: Góður, hey hirtust öll græn og gott veður allan mánuðinn. 27. gerði sjávar fyllir mikinn. Gerði ekki tjón.
Kortið sýnir hæð 1000 hPa-flatarins að kvöldi 26. ágúst, 40 metrar samsvara 5 hPa. Bandaríska endurgreiningin nær lægðinni allvel, setur miðjuþrýsting niður í um 966 hPa, raunveruleikinn hefur líklega verið um 959. Þrýstibratti yfir landinu er heldur minni en hann var í raun og veru.
Braut fellibylsins (númer 1, 1927) og síðar lægðarafkvæmis hans. Myndin af wikipediu, en byggð á gögnum fellibyljamiðstöðvarinnar í Miami. Lægðin mun hafa valdið talsverðu tjóni í Nova Scotia í Kanada áður en hún kom hingað.
Myndin sýnir lægsta mældan þrýsting á landinu síðari hluta ágústmánaðar. Þann 24. nálgast kerfi og loftvog fellur mjög aðfaranótt 25. Þrýstifallið á undan fellibylsleifunum byrjar þann 26. og lægsti þrýstingurinn mældist í Hólum í Hornafirði kl.6 að morgni þess 27. Þrýstifallsins gætti mun minna um landið vestanvert og á Vestfjörðum þannig að þrýstispönn yfir landið varð umtalsverð, mest 24,4 hPa milli veðurstöðva (en þær voru ekki margar). Þetta er með því mesta í ágúst. Tók þetta fljótt af.
Íslandkortið að morgni þess 27. sýnir mjög þéttar jafnþrýstilínur yfir landinu. Átta stiga hiti er í Reykjavík og á Akureyri, en ekki nema 4 stig á Ísafirði. Það rigndi um land allt.
Blöðin segja lítillega frá tjóni:
Morgunblaðið 30. ágúst 1927:
Morgunblaðið átti í gær tal við Siglufjörð til þess að spyrjast tíðinda af óveðrinu sem þar var fyrir helgina. Þangað (til Siglufjarðar) hafði frést að norskt fiskveiðiskip hafi sokkið nálægt Ásmundarstöðum á Sléttu. Mennirnir komust allir í annað skip. ... heyrst hafði að allmikil síld hafi verið í lest skipsins, hafi síldin kastast til í lestinni og hvolft skipinu. ... Veðrið var svo slæmt á laugardag og sunnudagsnótt að menn voru smeykir um skipin sem úti voru. Brim var óvenjulega mikið á Siglufirði í norðangarðinum á laugardaginn og brotnuðu nokkrar bryggjur. Í síldarstöð Óskars Halldórssonar, Bakka, brotnaði ein stór bryggjan alveg í spón og önnur laskaðist. Ein af bryggju Goos stórskemmdist, og ein bryggja Lúðvíks Sigurjónssonar. Flóð var svo mikið að sjór gekk yfir alla eyrina og var hnédjúpt vatn um allar götur á eyrinni. Bylgjurnar skullu á hlaðana af tómu tunnunum og sundruðu þeim mörgum svo tunnurnar flutu um allt, út á Pollinn og alla leið inn á Leiru. Voru menn í gær önnum kafnir við að leita uppi tunnur er frá þeim höfðu flotið og gekk sú leit seint og erfiðlega.
Vísir 30. ágúst:
Akureyri 29. ágúst. FB. Í óveðrinu á laugardaginn urðu mörg síldveiðaskipin fyrir meiri og minni áföllum. Norska skipið Fiskeren sökk undan Ásmundarstöðum á Sléttu og björguðust mennirnir nauðuglega í annað skip. Enn þá eru nokkur skip ókomin fram. Í gær alhvítt niður í miðjar hlíðar. Í dag aftur sumarblíða.
Vísir 30. september:
Háskaför. Í ofviðrinu 27. [ágúst] lenti Steindór Sigurðsson prentari í Grímsey í miklum og merkilegum hrakningum. Kvöldið áður en ofviðrið skall á var hann að fiski, einn á báti, norðaustur af eynni. Náði hann ekki eynni um kveldið og hrakti undan stórsjó og stormi alla nóttina. Þegar birti um morguninn var hann kominn inn i Eyjafjarðarmynni. Kom þá skip honum til hjálpar og flutti hann til Hríseyjar. Þykir það stórfurðulegt að Steindór skyldi sleppa heilu og höldnu úr þessari svaðilför. (Verkamaðurinn).
September var nokkuð tvískiptur, sérstaklega fyrir norðan: Farið var að kvarta undan þurrkum bæði á Suður- og Vesturlandi. Þann 16. kom hlaup í Dalsá í Fáskrúðsfirði, upptök þess voru í smájökli við Lambatind. Ritstjóri hungurdiska hefur því miður ekki fundið frumheimild fyrir þessum atburði.
Hvanneyri: September: Veðráttan mjög góð; óvenju þurrviðrasamt og gott veður, en þó sjaldan verulegt frost. Mest þann 26.. -7,4.
Lambavatn: September: Það hefir verið mjög hagstætt. Þurrt og hlýtt, aldrei snjóað ennþá í byggð, aðeins tvisvar gránað á fjöllum og nokkrar nætur frosið jörð. Vöxtur í görðum er allstaðar góður og sumstaðar óvenju góður. Heyskapur allstaðar góður og nýting svo góð sem hægt er að ákjósa.
Hraun í Fljótum (Guðmundur Davíðsson): September: Tíðarfarið í þessum mánuði var ágætt til 14., ýmist norðan andvari eða logn, eða þá suðlæg átt, oftast hæg, sólskin og þurrkur lengst af; og til sjávarins mátti heita öldulaust allan tímann. En þann 14. breyttist allt í einum svip. Skall þá á geypilegt óveður, sem hélst til 17. og úr því var enginn sólarhringur úrkomulaus til mánaðamóta; jafnvel þótt mest kvæði að því 15. og 16. og 28. og 29. Var og einlægt ókyrrð til sjávarins síðari hluta mánaðarins, jafnvel þó ekki væri stórbrim nema 15., 16. og 17. og 29. og 30. Margir áttu hey úti þegar óveðrið skall á þann 14. og náðist það þvínæst hvergi fyrir mánaðamót. Snjór kom mikill í fjöll og varð ófærð á Siglufjarðarskarði með hesta og tepptist algjört umferð þann veg í nokkra daga. Reykjaheiði á milli Ólafsfjarðar og Svarfaðardals var lengi ófær með hesta. Á fremsta bæ í Stíflu var ekkert hægt að vinna heyvinnu 1 dag vegna snjávar. Voru fjöll að mestu hvít um mánaðamót. [Úrkoma á Hraunum mældist samtals 100,0 mm þann 16. og 17. og 60 mm samtals þann 29. og 30.].
Vík í Mýrdal (Júlíus Páll Steindórsson): September: Rosakafli framan af, en svo kom þurrkur. 16. til 17. urðu heyskaðar töluverðir undir Eyjafjöllum og nokkrir í Mýrdal hjá þeim sem ekki voru búnir, en þeir voru margir sem lokið höfðu heyskap.
Stórhöfði: September. Góð tíð. Snjóstengurnar brotna á hverju ári og veit ég ekki hvort ég bý til nokkrar núna.
Hretið um miðjan mánuðinn virðist hafa verið leiðinlegt. Það olli þó ekki miklu tjóni en skip lentu í vandærðum á sjó og talsverðir heyskaðar urðu undir Eyjafjöllum í hvassviðrinu.
Morgunblaðið 17. september:
Blindbylur var á Vestfjörðum í fyrradag [15.]. Ætlaði Þórólfur, einn Kveldúlfstogarinn, suður frá Hesteyri, en varð að hætta við vegna stórhríðar. Þá voru og þrír Kveldúlfstogararnir á veiðum á Húnaflóa þegar bylurinn skall á, en leituðu inn á Steingrímsfjörð og lágu þar veðurtepptir í fyrradag.
Vísir 24. september:
Stykkishólmi, 23. september. FB Vatnsleysi. Stöðug norðanátt og hvassviðri. Sökum þurrka er farið að bera á vatnsleysi hér. Haldi þurrviðrið áfram, má búast við, að sækja verði vatn í árnar, en það er 34 tíma ferð.
Vísir 26. september:
Þjórsá, 27. september FB Tíðarfarið síðasta hálfa mánuðinn: Stormar, norðanátt og kuldar. Þurrkar svo miklir, að á Skeiðum og í Flóa voru skepnur farnar að þjást vegna vatnsleysis. Nú í nótt kom rigning. Engin kartöflusýki hér nærlendis. Uppskera úr görðum ágæt og viðast óvenjulega góð.
Í september ritaði Vísir um athyglisverða jarðskjálftahrinu í Borgarfirði. Koma skjálftarnir vorið 1974 í hugann - og einnig jarðskjálftasyrpa um 1870:
Landskjálftar í Borgarfirði. Skýrsla frá Runólfi Runólfssyni í Norðtungu. FB. 25. sept. Í fyrra haust byrjuðu landskjálftar eftir veturnætur og héldust fram yfir nýár. Á þessum bæjum varð mest vart við þá: Örnólfsdal, Helgavatni, Hömrum, Högnastöðum og Norðtungu. Sömuleiðis lítilsháttar neðst í Hvítársíðu og á nokkrum bæjum í Stafholtstungum og Norðurárdal. Þessir landskjálftar virðast ganga frá NA til SV og ber mest á þeim á fjallabæjum, sérstaklega Örnólfsdal, og hafa brotnað þar rúður. Nú eru byrjaðir landskjálftar aftur og ber fullt svo mikið á þeim og í fyrra.Aðfaranótt þ.24. þ.m. lék alt á reiðiskjálfi í Örnólfsdal og varð bóndinn að fara út í fjós til þess að gæta kúnna. Oftast smáhristist öðru hverju og í haust komu afarmiklar drunur á undan kippunum, en í fyrra bar lítið á þeim. Þessir landskjálftar virðast halda sig aðallega á bringunni milli Litlu-Þverár og Örnólfsdalsár úr stefnu innan Kjarrárdals, undan Eiríksjökli, eða dálitið norðar. Í fyrrinótt varð snarpur kippur í Norðtungu um kl. 4. Landskjálftar eru alveg óvenjulegir á þessum slóðum. Þegar landskjálftarnir gengu fyrir austan 1896, hristist einnig í Borgarfirði, en virtist ganga jafnt yfir. (Eftir símtali milli R. R. og Jóns Eyþórssonar veðurfræðings kl. 15 þ. 25. sept. Afrit af skýrslunni sent FB, að ósk skýrsluhöfundar).
Af skrifum veðurathugunarmanna afgang ársins má ráða að tíð hafi verið nokkuð umhleypingasöm í október, nóvember og fram í desember. En ekki eru þeir þó á einu máli. Það er hins vegar ljóst að veður var ekki til vandræða og ekki var mikið um tjón af þess völdum síðustu mánuði ársins. Ekki var mikið um fréttir af sköðum eða vandræðum af völdum veðurs í blöðum. Eftir farandi frétt birtist þó í Morgunblaðinu þann 4. nóvember:
Símslit. Í fyrradag var ofsaveður og urðu símabilanir víða. Mestu símslitin voru á Fjarðarheiði og á Dimmafjallgarði. Ennfremur slitnaði síminn milli Ögurs og Skálavíkur og milli Ögurs og Ísafjarðar. A mörgum öðrum stöðum urðu smábilanir á símanum.
Athugunarmenn lýsa nóvember og desember:
Hvanneyri: Október: Sérlega mild og góð veðrátta fram yfir miðjan mánuðinn. Eftir þann 15. þ.m. dálítil frost, en þó ágætasta veðrátta, svo tíðarfarið má teljast mjög gott.
Lambavatn: Október: Fyrri helmingur mánaðarins var hér hlýr, en töluverð væta. Þann 16. gekk í norður og hefir verið norðan næðingur og kuldi síðan. 23. var krapakafald um kvöldið og nóttina og harðviðri dagana á eftir svo fé var hýst hér nokkrar nætur. Nú er alautt í byggð en töluverður snjór á fjöllum.
Húsavík: Október: Veðráttan þennan mánuð getur ekki kallast höst, en afar óhagstæð fyrir landbúnað. Hey mjög víða orðið úti meira og minna, og vonlaust að hirðist héreftir. Aldrei þerrir þótt úrkomulaust hafi verið dag og dag. Snjór lítill í sveitum en allmikill á fjöllum og heiðum. - Austanátt ríkjandi, sífelld kólga á fjöllum og sjór ókyrr en ekki stórbrim.
Hraun í Fljótum: Nóvember: Tíðarfarið í þessum mánuði hefur verið mjög óstillt, að undanteknum dögunum 7.- 12. og 16.- 22. Síðasta hluta mánaðarins var ýmist hríð eða þíða. Stormur var þ.2., og nóttina þ. 30. Þann 30. fuku ca. 25 hestar heys á einum bæ og þak af nýbyggðri baðstofu á einum bæ.
Stórhöfði: Nóvember: Tíðin umhleypingasöm og stormasöm.
Hvanneyri: Desember: Óvenju milt og gott veður fram til þess 13, en þó dálítil úrkoma. Frá 13. og fram til þess 24. allmikil frost, en hægviðri. Síðustu dagana töluvert úrfelli og stormasamt. Veðráttan yfirleitt hagstæð.
Lambavatn: Desember: Tíðarfarið yfir mánuðinn líkist meir haustveðrátt en vetrar. Miðstykkið einlæg stilla og blíðviðri. En seinustu vikur rigning og rosi. Það getur ekki heitið að sjáist snjór á fjöllum né í byggð.
Þórustaðir (Hólmgeir Jensson) 27. desember: Grænka tún, blóm sprungu út.
Húsavík: Desember: Einmuna góð veðurátt. Frá 1.-10. þíðviðri, alauð jörð að kalla um allar sveitir. Frá 11.-26. stillur, oft heiðríkjur og hæg sunnanátt; lítið þurrkföl á jörðu. Besti hagi. 22.-31. marahlákur og alautt að kalla. Sauðfé lá víða úti allan mánuðinn. Sumstaðar hýst, en lítið gefið. ... Halastjarna sást fyrst 18. svo nærri sól að hún sást í dagsbrún kvölds og morgna, fyrst mjög skýrt, en dofnaði fljótt og sást ekki eftir 23.
Nefbjarnarstaðir (Jón Jónsson) Desember: Tíðarfarið má teljast hið hagstæðasta. Mjög snjólítið, aðeins lítilsháttar snjór um miðbik mánaðarins. Annar var alautt, nema í brekkum og lægstu dældum. Þess má geta að 5. og 6. rigndi afarmikið upp til landsins. Hljóp þá snögglega geysimikill vöxtur í Jökulsá og Lagarfljót, sérstaklega í Jökulsá, svo menn muna hana ekki meiri. Hvort sem það hefur stafað meðfram af jökulhlaupi. Tók hún 5 ferjur en annan skaða mun hún ekki hafa gert.
Eiðar (Erlendur Þorsteinsson): 6. desember: Vatnavextir svo miklir að elstu menn muna ekki slíkt.
Vík í Mýrdal (Júlíus Steindórsson) Desember: Mild og góð tíð framan af. Svo gerði snjóhríð með nokkru frosti. Hvergi hafa orðið skaðar tíðarfarsins vegna. Brim hefur oft verið ákaflega mikið í þessum mánuði, flætt inn yfir fjöruna. Reki lítill.
Lýkur hér að sinni ferð hungurdiska um árið 1927. Tölur og fleira má sjá í viðhengi.
21.5.2022 | 13:45
Fyrstu 20 dagar maímánaðar
Meðalhiti í Reykjavík fyrstu 20 daga maímánaðar er +6,8 stig, +0,8 stigum ofan meðallags sömu daga 1991-2020 og +1,1 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Hitinn raðast í tíundahlýjsasta sæti (af 22) á öldinni. Hlýjastir voru þessir sömu dagar árið 2008, meðalhiti þá var 8,1 stig, kaldastir voru þeir 2015, meðalhiti 3,7 stig. Á langa listanum raðast hitinn í 36. hlýjasta sæti af 148. Hlýjast var 1960, meðalhiti +9,3 stig. Kaldast var 1979, meðalhiti +0,5 stig.
Á Akureyri er meðalhiti nú +5,6 stig, +0,2 stigum ofan meðallags 1991 til 2020 og +0,7 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára.
Nokkur munur er á vikum eftir landshlutum. Hlýjast að tiltölu hefur verið á Suðurlandi. Þar raðast dagarnir 20 í 7. hlýjasta sæti aldarinnar. Kaldast, að tiltölu hefur verið á Ströndum og Norðurlandi vestra, þar sem hitinn raðast í 15. hlýjasta sætið.
Jákvæð vik eru mest í Önundarhorni og á Steinum undir Eyjafjöllum þar sem hiti er +1,9 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Kaldast, að tiltölu, hefur verið á Reykjum í Hrútafirði þar sem hiti er -0,7 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára.
Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 32,9 mm og er það um fjórðungi umfram meðallag. Á Akureyri hefur úrkoman mælst 40,6 mm sem er hátt í þreföld meðalúrkoma.
Sólskinsstundir hafa mælst 134,8 í Reykjavík, og er það nærri meðallagi 1991-2020. Á Akureyri hafa sólskinsstundirnar mælst 96,1 og er það tæpum 13 stundum færri en í meðalári.
16.5.2022 | 20:56
Hugsað til ársins 1955
Í huga veðuráhugamanna tengist þetta ár fyrst og fremst rigningasumrinu mikla. Ekkert fasttengt veðri man ritstjórinn frá árinu 1955, rétt of ungur til þess, en heyrði sífellt um það talað. Flestir viðmælendur voru sammála um að þetta hefði á Suður- og Vesturlandi verið verst allra rigningasumra. Einn og einn gamall maður minntist á 1913 sem einhvers ámóta. Síðan fékk þetta sumar verðugan keppinaut árið 1983 sem var jafnvel enn verra, alla vega kaldara heldur en 1955.
Árið 1955 var stórviðralítið á landsvísu, ólíkt flestum nágrannaárunum. Margt gerðist þó sem glatt gat veðurnörd. Hér er valið úr slíku, með hjálp blaðanna og timarit.is og gagnasafns Veðurstofunnar. Eins og venjulega í yfirferð sem þessari er nokkuð tilviljanakennt hvar borið er niður. Svo vill til að fréttir dagblaðsins Tímans hafa oftast orðið fyrir valinu, en flestum atburðum er einnig lýst í öðrum blöðum.
Árið í heild var talið sæmilega hagstætt, nema sumarið á Suður- og Vesturlandi, eins og áður er á minnst. Úrkoma var talsvert undir meðallagi á landinu, en hiti ekki fjarri meðallagi, þó kaldara en við höfum löngum átt að venjast á nýju öldinni. Í janúar var tíð talin stirð nema fyrstu vikuna. Frost urðu talsverð um tíma, klaki kom í ár og læki og ófærð gerði um tíma. Í febrúar var hæglát tíð, en allmikill snjór. Gæftir mjög góðar. Fremur þurrviðrasamt. Hiti var undir meðallagi. Svipað var með mars tíð var sæmileg, en samt haglítið, gæftir misjafnar. Apríl byrjaði vel, en tíð varð síðan verri. Í maí var mjög kalt og þurrviðrasamt fyrri hluta mánaðarins, en síðan hlýnaði. Grasspretta var léleg vegna þurrka. Tíð var allgóð í júní og vel rættist úr sprettu. Bæði júlí og ágúst voru mjög óhagstæðir á Suður- og Vesturlandi, úrkoma þrálát og veður oft vond. Norðaustan- og austanlands var hins vegar mikil gæðatíð. Votviðrin héldust framan af september, en eftir það var tíð talin allgóð. Október var þurr og hagstæður og nóvember sömuleiðis. Desember þótti óhagstæður víða var mjög snjóþungt og samgöngur voru erfiðar.
Áður hefur hér á hungurdiskum verið minnst á frostakaflann í janúar og febrúar hér á hungurdiskum í pistli um Vatnsveitu Borgarness - það verður ekki endurtekið hér.
Víðáttumikið háþrýstisvæði réði ríkjum á landinu fyrstu viku mánaðarins, góðviðri var þá á landinu. Hæðin þokaðist síðan vestur á bóginn og settist að yfir Grænlandi. Var hún þaulsetin þar allt fram á vor, en þó auðvitað ekki samfellt. Kortið sýnir hæð 1000 hPa-flatarins. Jafnhæðarlínan 320 metrar fellur saman við 1040 hPa sjávarmálsþrýsting.
Tíminn segir frá 4.janúar:
Mikil hlýindi eru nú svo að segja um allt land og var sérstaklega gott veður á Norðurlandi um nýárshátíðina. Á Akureyri var jörð hvít á nýársdag en logn og blíða og nutu Eyfirðingar hátíðaveðursins vel. Í gær var þar 9 stiga hiti, jörð orðin auð í byggð og fjallvegir færir, bæði austur og vestur. Svo að segja um allt land var hitinn 47 stig. Þoka var víða við suðausturströndina.
Hæðin réði áfram ríkjum en það kólnaði nokkuð hratt. Fór að bera á lagnaðarís, klakastíflum fjölgaði í ám og lækjum og víða truflaðist rennsli og eftir 10 daga frost eru menn farnir að telja þau langvinn.
Tíminn 16.janúar 1955:
Lagísinn á Pollinum [á Akureyri] færist nú utar og utar með degi hverjum, og er nú kominn út undir Oddeyri. Er kominn ís fram undir Torfunesbryggju, en skip geta þó hæglega brotið hann enn, er þau fara eða koma að bryggju.
Tíminn 18.janúar:
Í gær hafði lítil bergvatnsá, sem heitir Ljósá, sem fellur í Markarfljót rétt hjá brúnni undir Eyjafjöllum, bólgnað svo upp og hlaupið yfir bakka og flætt allvítt um eyrarnar. Hafði vatnselgurinn umkringt alveg hús Eysteins Einarssonar vegaverkstjóra, en það stendur rétt við fljótsbrúna að austan, Var það alveg umflotið í gær og hætta á að skemmdir yrðu af völdum þessa vatns og krapaelgs á húsinu. Markarfljót hefir bólgnað nokkuð upp en annars eru nú vötn víðast frosin austur þar.
Frá fréttaritara Tímans í Vík í Mýrdal:
Þessi harði og langvinni frostakafli hefir nú haft það í för með sér, að mjög margar heimilisrafstöðvar Skaftfellinga, einkum á Síðu og í Skaftártungu standa vegna vatnsskorts, og er það allt annað en þægilegt í þessum kuldum. Stöðvar þessar eru flestar gerðar við fjallalæki eða smáár, og vatn þeirra þverr í frostunum. Einkum kveður mjög að þessu á Síðu, þar sem margar slíkar rafstöðvar eru. Rafstöðin á Kirkjubæjarklaustri gengur þó enda er þar góð vatnsmiðlun úr Systravatni. Ár hafa töluvert bólgnað upp viða, en þó er vel fært austur yfir sand og vegir léttir, því að snjólaust er að kalla.
Frá fréttaritara Tímans á Fosshóli. Nýja rafstöðin við Laxá stendur nú [orðað svo], þar sem klakastífla í ánni hindrar að vatn geti runnið frá frárennslispípu hennar. Er rafmagn skammtað á orkuveitusvæðinu. Gamla stöðin, sem er ofar, hefir eðlilega vinnslu, en við frárennsli neðri stöðvarinnar hefir klakinn hrannast svo upp, að hefti frárennsli og var þá ekki um annað að gera en stöðva hana. Má búast við, að svo verði þar til frosti kippir úr. Laxá er annars sögð hin versta viðureignar. Leggur hana venjulega seint vegna mikilla kaldavermsla, en krap hleðst upp. Í fyrradag var hún svo ill viðureignar, að Pétur póstur i Árhvammi í Laxárdal komst ekki yfir hana, hvorki á hest eða bát eða ísi, og komst ekki í póstferð. Er þetta talið sjaldgæft. Í fyrradag var allhvasst og nokkur snjókoma í Eyjafirði og Þingeyjarsýslu. Vaðlaheiði er ófær en fært um sveitir. Í dag er 1318 stiga frost hér um slóðir. Hefir þessi frostakafli verið óvenjulega harðleikinn. Í Svartárkoti í Bárðardal komst frostið upp í 28 stig s.l. fimmtudag [13.], en það var mesti frostadagurinn. Í Mývatnssveit mun það eina nóttina hafa náð 30 stigum [mældist mest -24,5 stig í Reykjahlíð, það var þann 13.].
Strandferðaskipið Herðubreið laskaðist í ísalögum á Hornafirði í gærmorgun, gat ekki losað neitt teljandi af vörum þar og ekki haldið áfram strandferð norður. Varð að ráði að draga skipið til Reykjavíkur til viðgerðar, og er það nú á leiðinni þangað.
Síðdegis þann 18. tók lægð að dýpka á Grænlandshafi - háloftalægðardrag, barmafullt af kulda, kom vestan yfir Grænland og virkjaði lægðamyndunina.Þessi lægð olli töluverðri úrkomu og leiðindum í samgöngum næstu daga. Ein af þeim lægðum sem veðurnörd eins og ritstjóri hungurdiska hafa sérlega gaman af því að fylgjast með (úr fjarska).
Tíminn 22.janúar:
Að því er Davíð Jónsson, fulltrúi á vegarnálaskrifstofunni, skýrði blaðinu frá í gærkveldi, voru óskaplegir erfiðleikar á vegum í nágrenni Reykjavíkur og raunar alls staðar suðvestan lands í gær, og margar leiðir alveg tepptar. Gekk á með hvössum og dimmum éljum, og tafði blinda för bifreiða auk ófærðar. Hvalfjörður var algerlega ófær í gær. Var þar hið versta veður, allmikil snjókoma og blinda. Fjórar áætlunarbifreiðar, tvær úr Stykkishólmi, ein úr Staðarsveit og ein frá Akureyri lögðu af stað frá Reykjavík í gærmorgun. Komust þær upp í Kollafjörð, en urðu að snúa þar við og komust við illan leik til Reykjavíkur um sexleytið í gærkveldi og voru þá miklir snjóskaflar komnir víða á veginn. Um klukkan níu í gærkveldi bárust fréttir um það, að öll umferð væri stöðvuð á Keflavíkurvegi við Kálfatjörn, en bifreiðir höfðu komist leiðar sinnar þar í gær. Munu það hafa verið litlar bifreiðar, sem stönsuðu og tepptu veginn. Vegagerðin sendi þegar dráttarbíl þangað og síðar ýtu. Er það mjög fátítt að ryðja þurfi snjó af þeim vegi. Tafir austan fjalls. Fréttaritarar blaðsins austan fjalls símuðu í gær, að færð hefði verið þung. Mjólkurbílar töfðust allmikið, einkum vegna blindu í éljunum úr uppsveitunum. Bifreið var um þrjár stundir milli Selfoss og Eyrarbakka í gær. Holtavörðuheiði var alófær í gær og reyndi enginn bíll að fara yfir hana. Kerlingarskarð var ófært en átti að ryðja vörubílum með fóðurbæti leið yfir það í gær.
Mikil ófærð var komin' víða í Borgarfirði, og áætlunarbílar til Reykjavíkur urðu að hætta við ferðir. Hafnarfjarðarbílarnir gengu alveg fram á kvöld, en erfitt var og smábílar sátu fastir og tepptu leiðina og gátu þeir því ekki haldið áætlunartímum. Kópavogsbílar hættu að fara upp á Digranesháls kl. sex. Víða urðu tafir á strætisvagnaleiðum í úthverfi Reykjavíkur en lögðust þó ekki niður.
Þegar flóabáturinn Eldborg var að leggja frá bryggju í Borgarnesi í gærdag síðdegis lenti hún í ísreki og laskaði skrúfuna svo, að ekki þótti fært að halda suður, og var henni lagt við akkeri þar efra. Í henni er mikil mjólk.
Tíminn 23.janúar:
Eins og sagt var frá hér í blaðinu í gær var öngþveiti á Keflavíkurvegi. Þar voru 50100 bílar stórir og smáir, sem ekki komust leiðar sinnar einkum vegna þess að smábílar sátu fastir og tepptu leiðina. Vegagerðin sendi dráttarbíla og ýtur þangað og tókst að greiða úr og komust fólk og bílar leiðar sinnar, en nokkuð var liðið á nótt, er greiðfært var orðið. Áætlunarbílarnir frá Reykjavík voru um 89 stundir og komu ekki til Keflavíkur fyrr en kl. 12 í nótt. Í gær var færð sæmileg þarna. Að því er Grétar Símonarson mjólkurbústjóri tjáði blaðinu í gærkveldi var mjög þungfært um sveitirnar austanfjalls í gær. Voru mjólkurbílarnir mjög á eftir áætlun og voru að koma alveg fram á kvöld. Fimm eða sex bílar munu hafa öxulbrotnað í gær í ófærðinni. Heiðskírt veður var þar í gær, en skóf nokkuð. Í gær var unnið að snjómokstri á Hvalfjarðarleiðinni sem varð ófær í fyrradag. Var þar mikill snjór, einkum hjá Þyrli. Var unnið báðum megin frá, og í gærkveldi mátti heita lokið við að opna leiðina, svo að hún verður væntanlega fær í dag. Ekkert viðlit er talið að koma bílum yfir Holtavörðuheiði. Til dæmis má nefna, að tveir Akureyringar lögðu af stað frá Fornahvammi í gærmorgun, en um hádegi voru þeir aðeins komnir að Krókslæk, og skruppu þá heim í Fornahvamm til að borða.
Frá fréttaritara Tímans í Hornafirði í gær. Hornafjarðarbátar komust í hann krappan í fyrradag, er ofsaveður skall snögglega á af suðaustri, er þeir voru í róðri. Urðu þeir að hverfa frá hálfdreginni línu, því að sjór rótaðist upp á skammri stundu. Fengu tveir bátanna áföll og brotnuðu nokkuð ofan þilja, og tveir þeirra urðu að liggja úti um nóttina.
Næstu daga komu mjög djúpar lægðir að landinu úr suðvestri. Austlæg átt þrengdi mjög að köldu lofti sem streymdi til suðurs við Grænland norðaustanvert. Úr varð versta veður á Vestfjarðamiðum og um tíma líka á Vestfjörðum. Ísing var mikil og skip lentu í verulegum eftirleikum. Þrír togarar fórust, þar á meðal einn íslenskur. Veðrið er stundum kennt við nöfnin á togurunum, Egil rauða eða breska togarann Roderigo. Um þessi slys má víða lesa, t.d. í fróðlegri grein sem Ásgeir Jakobsson ritaði í Sjómannadagsblaðið 1987 (timarit.is - leitið að Roderigo). Borgþór H. Jónsson veðurfræðingur ritaði einnig grein þar sem þetta veður kemur við sögu (Veðrið 1. árgangur 1956, s.16 og áfram).
Kortið sýnir stöðuna síðdegis þriðjudaginn 25.janúar. Glögglega má sjá hinn gríðarlega vindstreng úti af Vestfjörðum. Skil lægðarinnar komu fyrst úr suðri og þá hvessti nokkuð um landið sunnan- og vestanvert, langmest á Stórhöfða í Vestmannaeyjum, en síðan voru skilin að dóla fram og til baka við Vestfirði, vindstrengurinn norðan og vestan þeirra náði oftast ekki langt inn á land.
Tíminn 27.janúar:
Í fárviðrinu, sem geisaði síðdegis í gær [26. janúar] norðvestur af Horni og Veðurstofan telur helst nálgast veðrið, þegar norsku selveiðiskipin fórust um árið [apríl 1952], er talið víst, að tveir breskir togarar hafi farist, og var annar þeirra stærsti og fullkomnasti togari Breta, mjög nýlegur.
Tíminn 28.janúar:
Síðdegis í gær hafði tekist að bjarga alls 29 mönnum af togaranum Agli rauða, sem strandaði innst víð Grænuhlíð í fyrrakvöld, en fimm menn fórust, því að á togaranum voru 34 menn. Björgun mannanna hófst skömmu fyrir hádegi og var lokið um klukkan þrjú. Björgunarsveitin bjargaði 16 mönnum á land, en 13 mönnum var bjargað af bátum og skipum við strandstaðinn. Á Agli rauða voru 15 íslendingar og 19 Færeyingar.
Blöðin halda áfram að birta fréttir af ís og ófærð í febrúar og fram í mars.
Tíminn 5.febrúar:
Frá fréttaritara Tímans á Hellissandi. Vélbáturinn Valdís, sem rak á land við Sand í fárviðri á dögunum, liggur enn í stórgrýttri fjörunni þar og má báturinn teljast ónýtur. Er hann mikið brotinn og fullur af sjó.
Frá fréttariturum Tímans á Egilsstöðum og Reyðarfirði. Í gær var hér tíu stiga frost og allmikill snjór er nú á jörð. Gengur því erfiðlega að komast leiðar sinnar, og að halda uppi samgöngum við firðina. Mikinn póst þarf nú að flytja héðan frá Egilsstöðum, þar sem einu samgöngurnar eru loftleiðis. Flogið er hingað fjórum sinnum í viku.
Tíminn 23.febrúar:
Ísinn á Akureyrarpolli sprengdur með dýnamíti grær voru starfsmenn bæjarins að sprengja ísinn með dýnamíti við; Torfunesbryggju. Reykjafoss kom í gær til Akureyrar með mikið af vörum, og átti að reyna í gærkvöldi hvort skipið gæti brotist inn að bryggju gegnum þær vakir, sem myndast höfðu við sprengingarnar.
Síðasta dag febrúarmánaðar kom dýpsta lægð ársins að landinu og fór yfir það. Á Suðurlandi gerði hríðarveður sem náði hámarki í kjölfar lægðarinnar, en norðanlands varð tjón af völdum hvassviðris af suðvestri.
Tíminn 5.mars:
Frá fréttaritara Tímans í Húsavík. s.l. mánudagskvöld [28. febrúar] gerði ofsarok hér um slóðir af suðvestri og var hvassast í norðanverðu Reykjahverfi og Aðaldal. Á nokkrum bæjum í utanverðu Reykjahverfi urðu töluverðir skaðar at veðrinu, mestir í Skógahlíð. Þar fuku þök af hlöðum og nokkuð af heyi. Tvö steinolíuföt, sem stóðu full við bæinn, fuku, og fannst annað þeirra tómt uppi í heiði en hitt hefir ekki fundist enn. Bóndi í Skógahlíð er Sigurður Pálsson. Á öðrum bæjum í hverfínu urðu skemmdir nokkrar einkum á heyjum. Munu flest hey, sem uppborin stóðu á víðavangi, hafa fokið að meira eða minna leyti. Einnig urðu nokkrar skemmdir í Aðaldal, en annars var veðrið langmest á belti, sem lá yfir norðanvert Reykjahverfið, en miklu kyrrara bæði í Húsavík og sunnar í sýslunni.
Tíminn 2.mars:
Frá fréttaritara Tímans á Selfossi. Óhemjumikinn snjó gerði á skömmum tíma í uppsveitum Árnessýslu í gærmorgun og var síðdegis í gær kominn jafnfallinn hnédjúpur snjór á þessum slóðum. Mjólkurbílar, sem fóru í uppsveitirnar, voru að brjótast áfram í allan gærdag og sumir á uppleið enn á sjöunda tímanum í gærkvöldi og ekki von til baka fyrr en einhvern tíma í nótt. Var sums staðar svo mikil blinda á vegum, að ríðandi menn voru fengnir til að fara bæ frá bæ á undan bílunum til að marka slóð á veginn. Snjórinn var mestur í Biskupstungum, Laugardal, Grímsnesi og Grafningi. Var þar hnésnjór jafnfallinn og allt að því eins mikill í Hreppum og talsverður í Landsveit. Í Flóanum var kálfasnjór. Snjókoman hófst í fyrrinótt og var mest snemma í gærmorgun. Mjólkurbílar úr Rangárvallasýslu og úr austurhreppum Árnessýslu komu nokkurn veginn á eðlilegum tíma. En bílar, sem fór í Grafning og Grímsnes komu ekki fyrr en kl. 8 í gærkveldi. Bíll, sem fór frá Selfossi kl. 7 í gærmorgun, var ekki kominn nema upp að Minniborg kl. 1 í gær. Þó kastaði tólfunum hjá þeim þrem bílum, sem fóru upp í Biskupstungur og í Laugardal. Biskupstungnabílarnir tveir voru enn á uppleið um kl. 8 í gærkveldi. Var þar jöfn ófærð og óskapleg blinda, sem tafði mjög. Voru bílstjórarnir búnir að síma á bæina á undan sér og biðja þess, að ríðandi menn yrðu sendir eftir veginum bæ frá bæ til þess að marka slóð á veginn, svo að til hans sæist. Ekki var búist við þessum bílum til mjólkurbúsins fyrr en einhvern tíma í nótt, ef þeir komast þá leiðar sinnar. Ef veður hvessir á þennan lausa og jafnfallna snjó, verður alófært á skammri stundu, telja bílstjórarnir. Hellisheiði var vel fær í gær, en þó versnaði færð heldur er á daginn leið.
Tíminn 6.mars:
Frá fréttaritara Tímans á Hornafirði. Svo lítið er nú í vötnum, sem falla hér undan jöklum, að einsdæmi er talið. Er og þykkur ís á öllum vötnum. Menn, sem fóru nýlega út að Jökulsá á Breiðamerkursandi gátu vart sé að hún næði að renna fram til sjávar og væri alveg þurr við ós. Er þykkur ís á ánni, og vafalaust um stíflur að ræða við upptök, og það litla, sem fram nær að renna, hverfur í sand.
Þó ekki væri mikið af hafís í norðurhöfum um þetta leyti (þó meira en nú orðið) komst íshrafl samt til landsins undir miðjan mars - ekki mikið en olli samt ákveðnum vandræðum.
Tíminn 16.mars:
Hafísinn fyrir Vestfjörðum rak allhratt að landi í fyrrinótt, og var íshrafl víða landfast í gær og olli það nokkrum töfum fyrir skip og báta. Bolungarvík er full af íshroða og urðu bátar að fara þaðan til Ísafjarðar. Talið er, að ísbreiðan við landið sé um sjö mílna breið, en utan við hana er auður sjór og talið, að greið siglingaleið sé þar norður og austur um Horn. Hinn landfasti íshroði nær sunnan frá Önundarfirði og norður að Straumnesi. Fréttaritari Tímans á ísafirði símaði í gær, að allmikill íshroði væri undir Óshlíð og Stigahlíð og einnig að norðanverðu við Djúpið en sæmilega greið leið um mitt Djúpið. ... Bolungarvík full. Fréttaritari blaðsins í Bolungarvík símaði, að heita mætti, að Bolungarvík væri full af íshroða. Ísjaki byrjaði að reka inn á víkina fyrir miðnætti í fyrrakvöld. Er þetta mest smáhrafl en þó nokkuð af stórum jökum. Bátarnir urðu að fara til Ísafjarðar. Jónas Halldórsson bóndi í Skálavík sagði að það en sæist mikil ísspöng frá landi.
Fréttaritari Tímans á Flateyri símaði, að samfelld breiða af rekís hefði verið út af Önundarfirði, og í gærmorgun hefði ís verði orðinn landfastur að norðanverðu við fjörðinn. Þó voru raufar í breiðuna svo að skip og bátar gátu farið ferða sinna. Tveir bátar réru þaðan en annar sneri við vegna íssins. Hinn hélt vestur til Bíldudals. Meðan ísinn rak að landi var norðvestan átt, en í gær hafði snúist til norðaustanáttar, og getur það valdið því, að ísinn lóni heldur frá.
Hér kemur í ljós í frétt að ófært hafði verið landleiðina norður til Akureyrar um mánaðarskeið frá því um miðjan febrúar.
Tíminn 19.mars:
Norðurleiðin allt til Akureyrar er nú að verða fær aftur, en hún hefir verið ófær bifreiðum um mánaðartíma. Í gær fóru allmargar bifreiðar yfir Holtavörðuheiði og norður á Blönduós, en í dag munu ýtur ryðja snjó á veginum yfir Öxnadalsheiði, og bifreiðar að sunnan fara alla leið þangað.
Ekki var það hafís sem talað er um í frétt úr Búðardal, heldur lagnaðarís á Hvammsfirði. Tíminn segir frá 25.mars:
Frá fréttaritara Tímans i Búðardal. Samfelldur ís hefir verið hér út í fjarðarkjafti síðan í lok janúar og því engin skip komist hingað. Ofan á það hefir bæst, að ferðir á landi hafa verið mjög takmarkaðar, og nú er svo komið að ýmsan smávarning vantar.
Þann 1. apríl gerði allmikla jarðskjálftahrinu í Ölfusi. Stærsti kippurinn fannst um allt suðvestanvert landið og olli tjóni, en ekki miklu. Veðráttan segir þetta mesta jarðskjálfta á landinu í 20 ár, frá 1935.
Talsverður ís var á Þingvallavatni þennan vetur:
Tíminn 16.apríl:
Ís er nú óðum að leysa af Þingvallavatni, enda er hér þeyr á hverjum degi. Meyrnar ísinn mikið og stórar vakir eru komnar í hann fyrir framan Þingvelli og í Vatnsvíkinni. Að öðru leyti er hellan enn heil á vatninu. Um tíma í vetur var hellan 70 cm á þykkt.
Þann 18. urðu töluverð skriðuföll á Siglufirði og sama dag fórst ungt barn í skriðu sem féll á bæinn Hjalla í Kjós eftir stórrigningu.
Morgunblaðið segir af skriðunni við Hjalla 19.apríl:
Valdastöðum, Kjós. Sú fregn barst út um sveitina um klukkan 6 í kvöld [18.apríl], að skriða hefði hlaupið á bæinn Hjalla, undir Meðalfelli, í landi Eyja. Klukkan um hálf tólf, er menn frá bæjunum, sem fóru þangað til hjálpar, komu heim aftur, skýrðu þeir frá því að tveggja ára ... hefði farist. Aðra sakaði ekki, ... Hjalli er nýbýli og stendur að sunnanverðu undir Meðalfelli, en úr því hljóp skriðan á bæinn. sem stendur skammt frá fjallsrótunum. Skriðan kom á íbúðarhúsið, aðaldyramegin. Beljaði aurinn og vatnselgurinn inn í húsið, inn um dyrnar, sem moluðust. Þar sem dýpst var náði aurinn manni í mitt læri, en ekki var allsstaðar svo þykkt á. Heimilisfólk var allt heima er skriðan skall á bæinn. Litla barnið sem fórst grófst undir aurleðjunni í húsinu og náðist ekki fyrr en eftir fullan klukkutíma. Skriðan hljóp ekki á útihúsin, og skemmdirnar á íbúðarhúsinu munu ekki eins miklar og ástæða hefði verið til að ætla. Fregnir hafa borist af skriðuhlaupum hér og þar í sveitinni, en óhemju rigning hefur verið hér í dag. Í mannaminnum munu skriður ekki hafa fallið þarna úr Meðalfelli.
Tíminn rekur skriðuföllin á Siglufirði í frétt þann 20. apríl:
Frá fréttaritara Tímans í Siglufirði. Seint í fyrrakvöld [18. apríl] urðu mikil skriðuföll í Siglufirði, sem ollu miklu tjóni. Fjórar skriður féllu á kaupstaðinn og skemmdu lóðir og götur, en tjón varð ekki teljandi á mannvirkjum. Meðan mest gekk á flutti margt fólk sem næst fjallinu bjó úr húsum sínum, en flestir fóru heim til sín aftur, þegar mestu skriðuföllin voru afstaðin nokkru eftir miðnætti. Það var á ellefta tímanum í fyrrakvöld, að skriðuföllin byrjuðu. Varð skjótt ljóst, að miklar drunur í lofti stöfuðu af skriðuföllum. Þeir sem næst fjallinu búa og töldu hættu á að skriður gætu fallið á hús sín yfirgáfu margir hús sín og leituðu á náðir fólks í öðrum bæjarhlutum, þar sem minni hætta var. Mikil rigning var í Siglufirði í fyrradag og stóð fram yfir miðnætti. Þegar mestu drunurnar og skriðuföllin voru um garð gengin um kl. eitt í fyrrinótt héldu flestir heim til sín. Í gær var unnið að því að rannsaka skemmdirnar, en þær eru miklar. Fjórar skriður féllu á kaupstaðinn og skemmdu 1215 lóðir og Hlíðarveginn, sem illfær var gangandi fólki, hvað þá farartækjum á 1215 metra löngum kafla. Skriða féll á eitt íbúðarhús en skemmdi það ekki, enda var það mikið úr skriðufallinu dregið, þegar að húsinu kom. Aurleðjan eftir skriðurnar er víða um heill metri á þykkt og flutti hún með sér stóra steina. Er til dæmis talið, að tveir steinar, sem komu með skriðunum í byggð, séu meira en heil smálest að þyngd. Í gær var kalt veður í Siglufirði, og hríðarhraglandi.
Minnstu munaði, að Lagarfljótsbrúin færi alveg, er íshrannir af fljótinu gerðu öðru sinni árás á hana í fyrradag. Þann dag ruddi fljótið sig nær alveg og lagðist ísinn fast að brúnni, en það bjargaði henni, að hægviðri var. Hefði verið nokkur kaldi, mundi hún vafalaust hafa brotnað undan þunganum. Brúin hefir og látið á sjá. Hún hefir svignað og járnbitarnir undir pallinum hafa hnikast til á stöplunum. Áður var búið að gera við ísbrjótana, er brotnuðu um daginn. Voru gríðarstórir símastaurar settir skáhallt í strauminn. Voru menn síðan til taks til að reyna að hamla gegn ísnum og tókst að verja. brúna, en ísinn færði hina miklu staura nokkuð upp og munaði minnstu að þeir létu undan. Nú er vöxtur allmikill í fljótinu sem og öðrum vatnsföllum hér um slóðir.
Kuldatíð gerði seint í apríl og fram yfir miðjan maí. Sunnanlands mátti þó heita sæmileg tíð þar til vika var af maí. Um þetta kuldakast má lesa í pistli sem Ólafur Einar Ólafsson veðurfræðingur ritaði í tímaritið Veðrið 1. tölublað 1956 og nefnir Vorhretið 1955. Hann er aðgengilegur á timarit.is.
Tíminn 26.apríl:
Frá fréttaritara Tímans á Fáskrúðsfirði. Undanfarna þrjá sólarhringa hefir mikið óveður gengið yfir sunnanverða Austfirði. Á Fáskrúðsfirði var í gær kominn meira en hnédjúpur snjór og umferð öll orðin erfið á landi, f gær gerði svo úrhellisrigningu með hvassviðri. Má heita, að varla hafi verið fært út úr húsi á Fáskrúðsfirði þessi dægur, enda lítið við að starfa úti, þar sem róðrar liggja að sjálfsögðu niðri í slíku veðurfari. Vegir frá kauptúninu tepptust vegna snjóa en akfært var víðast um sjálft þorpið. Áður en þetta illviðriskast kom var farið að verða sumarlegt um að litast, tún að byrja að grænka og hlýindi í lofti. Í óveðrinu slitnaði símasamband við Austurland um Hornafjörð og var unnið að því að gera við skemmdir á símalinum í gær.
Tíminn rekur hretið í nokkrum pistlum:
[12.maí]: Frá fréttaritara Tímans í Húsavik. Hér er nú óskaplegur kuldi. Var hvít jörð niður að sjó í gærmorgun og tók varla úr hlíðum í dag, enda sá vart til sólar. Heljarfrost hefir verið hverja nótt alllengi. Kippir kuldinn úr öllum gróðri og tefur vorstörf. Sauðburður er nú almennt að hefjast í héraðinu, og eru bændur áhyggjufullir vegna kuldanna.
[13.maí]: Heljarfrost hefir verið síðustu nætur og nýgróður sölnað. Batnandi veðri spáð í dag. Í gærmorgun brast á hið versta stórhríðarveður um meginhluta Norður- og Norðausturlandsins. Var veðurhæð 79 vindstig, frost allmikið í fyrrinótt en við frostmark um hádaginn. Snjókoma var mikil, og voru víða komnir allmiklir skaflar, þegar á daginn leið, en þá tók heldur að rofa til. Var veður þetta á borð við verstu stórhríðarveður, sem í vetur hafa komið. Á Austurlandi skall hríðarveðrið ekki á fyrr en undir hádegi. Veður var yfirleitt verra á annesjum en í innsveitum. Búist er við, að veður fari batnandi í nótt og dag. Fréttaritarar Tímans hafa látið blaðinu í té upplýsingar þær, sem hér fara á eftir um veðrið.
[14.maí]: Frá fréttaritara Tímans í Mosfellssveit. Í morgun fauk bifreið út af veginum á Kjalarnesi í svonefndum Kleifum. Þetta var éppabifreið úr Skagafirði, skrásetningarnúmer K-187. Einn maður var í henni á leið til Skagafjarðar. Var hann að koma frá vertíð í Eyjum. Skall snarpur stormsveipur á éppann, með þeim afleiðingum að maðurinn missti stjórnina. Kom éppinn niður á þakið og laskaðist húsið mikið, en manninn mun ekki hafa sakað.
[17.maí]: Hríðarveðri því, sem gengið hefir yfir Norður- og Austurland síðustu dagana og mun vera hið versta maíhret, sem komið hefir hér á landi mörg síðustu ár, er nú slotað. Í gær var komið bjartviðri og hægviðri, og vegir þeir, sem lokast höfðu, voru flestri ruddir síðdegis. Menn óttast, að eitthvað af geldfé hafi fennt, einkum í uppsveitum Þingeyjarsýslu og á afrétti Bárðdæla. Fréttaritari Tímans á Dalvík símaði í gær, að mikil snjór væri í Svarfaðardal og á leiðinni til Akureyrar, svo að þungfært hefði verið. Geldfé, sem búið var að sleppa, hefir ekki náðst allt. og óttast menn, að það hafi fennt. Sauðburður stendur yfir og eru erfiðleikar við að verða að hafa allt fé í húsi. Mikið frost í uppsveitum. Fréttaritari Tímans á Akureyri símaði, að frost hefði verið mikið í innsveitum Eyjafjarðar í fyrrinótt. Þungfært er víða á vegum. Venjulegum flutningabilum er aðeins fært út fyrir Svalbarðseyri austan fjarðar, en þaðan farið á jeppum út í Höfðahverfi. Fréttaritari Tímans á Fosshóli símaði, að þegar upp stytti í gær, hefði ýta rutt veginn yfir Vaðlaheiði, og hefðu bilar farið yfir hana síðdegis í gær, og mun hún nú vera fær. Einnig var Fljótsheiði rudd. Mikill snjór er á þessum slóðum.
[18.maí]: Frá fréttaritara Tímans á Egilsstöðum í gær. Hér er nú fyrsti bjarti dagurinn síðan hríðarveðrið skall á í vikunni sem leið. Kalt er þó enn og búist við miklu næturfrosti. Snjór er hér mikill, skaflar mannhæðarháir í lautum og við hús. Í dag var unnið að því að ryðja snjó af vegunum, og eru þeir nú flestir færir aftur. Vegurinn yfir Fagradal opnaðist í dag, og vegir á Út-Héraði eru að opnast. Flugvöllurinn hefir verið ófær þangað til í gær, en þá var hreinsað af honum, og kom þá ein flugvél hingað en tvær i dag. Ekki er talið, að fé hafi fennt að ráði, þótt úti væri í hríðinni. Hafa menn verið að leita að því fram að þessu. Sauðburður er í miðjum klíðum og gengur sæmilega, en erfiðleikar miklir vegna þrengsla í fjárhúsum.
Talsvert tjón varð í kartöflu- og kálgörðum í illviðri sem gerði af austri og suðri um hvítasunnuna [29.maí].
Tíminn 2.júní:
Frá fréttaritara Tímans í Þykkvabæ. Hvassviðrin um hvítasunnuna urðu Þykkbæingum þung í skauti, og má búast við, að þau hafi valdið bændum þar tugþúsunda tjóni, er sandurinn fauk ofan af nýniðursettum kartöflum á stórum svæðum, svo að þær liggja ofan á sandinum. jafnframt hefir áburðurinn fokið með sandinum út í veður og vind. Þykkbæingar verða oft fyrir slíku tjóni af völdum veðra á vorin, en þó hefir það aldrei orðið eins mikið og nú. Óvenjulega mikil og löng þurrkatíð hefir verið síðustu vikurnar, og upp úr henni kom svo hvassviðri, er var mest á hvítasunnudag, en þá um kvöldið, þegar fokið var ofan af kartöflunum, tók að rigna, og síðan hefir rignt nokkuð.
Snemma í júlí árið áður, 1954, gerði gríðarleg skriðuhlaup í Skagafirði í stórrigningum, m.a. í Norðurárdal. Í miklum vorleysingum, þó ekki miklum rigningum, nærri hvítasunnu vorið 1955, hreinsuðu Kotá og Valagilsá í Norðurárdal sig af þessum skriðum ársins áður - og tepptu þjóðveginn svo dögum skipti. Af þessu bárust daglegar og allítarlegar fréttir í blöðum dag eftir dag. Við lítum aðeins á síðustu fréttina sem birtist í Tímanum 8. júní:
Frá fréttaritara Tímans á Akureyri. Kotá var mjög mikil í fyrrakvöld, og tók hún þá af göngubrúna, sem sett hafði verið á hana til bráðabirgða, svo að fólk komst ekki yfir, þótt bílar biðu þess hinum megin. Þarna var kranabíll frá Norðurleið, en engin ýta frá vegagerðinni, og þykir ferðafólki, sem farið hefir þarna um síðustu daga, að vegagerðin hafi verið tómlát um að hjálpa vegfarendum yfir þennan tálma síðustu daga. Kranabíll Norðurleiða dró áætlunarbílana yfir, og einnig hjálpaði hann fleiri bílum, svo sem stórum bíl með bresku ferðafólki. Í gærmorgun voru þarna komnar á nýjan leik ýtur frá vegagerð ríkisins, og mun nú helst í ráði. að reyna að ryðja frá Kotárbrúnni og sjá, hvort hún er óbrotin, og hvort fært reynist að veita ánni á ný undir hana. Annars rennur áin nú öll vestan brúarinnar. og sér þar í enda hennar. Valagilsá rennur nú að mestu undir brúnni aftur, en hún hefir brotið veginn víða við brúna, og er yfir óslétta urð að fara á ca. 200 metra kafla. Árnar eru litlar á morgnana, enda er nú kaldara í veðri, en vaxa mjög er á daginn líður.
Seint í júní varð mikið jökulhlaup á Mýrdalssandi. Deila menn enn um hvort um gos í Kötlu var að ræða eða ekki.
Tíminn 28.júní:
Mikið jökulhlaup frá Kötlu-svæði Mýrdalsjökuls en ekki gos enn. Brýrnar tók af Múlakvísl og Skálm. Álftaver einangrað og varnargarðar skemmdir Frá fréttaritara Tímans í Vík i Mýrdal. Um klukkan átta á laugardagskvöldið urðu menn þess varir, að allmikið hlaup var komið undan Mýrdalsjökli og féll fram á Mýrdalssandi með töluverðum jakaburði. Bjuggust menn þá við, að Kötlugos væri að hefjast. Þó leið nóttin, án þess að til frekri tíðinda drægi, hlaupið sjatnaði og í gær var vatnsmagn i ánum Múlakvísl og Skálm orðið með eðlilegum hætti. Hins vegar svipti hlaupið af í fyrstu atrennu brúnum af báðum þessum ám, og er nú leiðin milli Víkur og Klausturs teppt, Álftaverið einangrað en síma hefur ekki sakað.
Vorhretið hafði afleiðingar fyrir farfugla - ekki er vitað hvenær nákvæmlega þetta átti sér stað, né hvort það gerðist samtímis. Tíminn segir frá þessu í pistli þann 29. júní:
Margir munu búast við ýmsu öðru en að sjá farfugla í hrönnum uppi á hájökli, og þótti jöklarannsóknarmönnum það kynleg sjón og kaldranaleg, er þeir óku yfir Mýrdalsjökul á dögunum og sáu farfugla liggja þar hundruðum ef ekki þúsundum saman í snjónum helfrosna. Segjast þeir ekkert hafa séð slíkt í jöklaferðum áður, aðeins fugl og fugl á stangli. Þarna lágu lóur, spóar, hrossagaukar, lóuþrælar, sendlingar o.fl. tegundir. Þótti þeim sýnt, að fuglar þessir myndu hafa hrakist inn á jökulinn undan veðri í maíhretinu illræmda í vor og farist á jöklinum.
Júnímánuður bar ekki á sér sérstakt yfirbragð rigningasumars. Lengst af var fremur kvartað undan þurrkum og lélegri grassprettu - og fyrstu umkvartanir um úrkomutíð bárust að norðan.
Tíminn segir frá 2.júlí:
Frá fréttaritara Tímans á Akureyri. Stöðug rigning hefir verið síðan þriðjudag [29.júní] hér um slóðir og er grasið farið að liggja í legum á túnum. Er þetta mjög slæmt og það sem búið er að losa af heyi liggur flatt og undir skemmdum. Útlitið er því slæmt eins og er. Veður er mjög hlýtt og sprettur því ákaflega vel þessa daga.
En síðan hrökk hann í rigningagírinn á Suður- og Vesturlandi. Ekki er auðvelt að dæma um hvert versta rigningasumarið er. Við getum stillt málum þannig upp að 1955 verði það versta, en það var þó hlýrra heldur en sumarið 1983. Á sumareinkunnarkvarða ritstjóra hungurdiska fyrir Reykjavík er 1983 verra vegna þess hversu kalt var. Fleiri mælikvarða má þó nota. Ef við einblínum á júlí og ágúst eina og sér má nefna eftirfarandi atriði:
1. Úrkomudagafjöldi var óvenjulegur. Við getum talið þá. Rigni á öllum veðurstöðvum alla daga á einhverju tilteknu tímabili gefum við úrkomueinkunnina 1000, rigni alla daga á helmingi stöðvanna verður einkunnin 500, og svo framvegis. Á Suðurlandi, en það teljum við svæðið frá Reykjanesi, austur um til Stöðvarfjarðar fá júlí og ágúst 1955 einkunnina 712. Þetta er næst hæsta úrkomuhlutfall allra júlí og ágústmánaða frá 1925 að telja. Það var lítillega hærra 1997, en það sumar var talið óhagstætt suðaustanlands. Næstu sumur fyrir neðan 1955 eru síðan 1937, 1969, 1983, 1976 og 1926 - allt vel mjög vel þekkt rigningasumur á Suðurlandi. Á Vesturlandi, en það skilgreinum við sem svæðið frá sunnanverðum Faxaflóa og norður í Skagafjörð lenda júlí og ágúst í fyrsta sæti, úrkomudagar flestir (frá og með 1925 að telja). Í næstu sætum koma svo 1976, 1969 og 1972 - allt rigningasumur.
2) Þrýstióróavísir er eins konar mælikvarði á lægðagang, vísar að einhverju leyti á illviðri. Hann eigum við reiknaðan allt aftur til 1823. Jú, júlí og ágúst 1955 eru þar í efsta sæti, meira að segja talsvert ofan við þau næstu, 1989, 1983 og 1959.
3) Meðalþrýstispönn mælir mun á hæsta og lægsta þrýstingi á landinu 8 sinnum á sólarhring. Þetta er eins konar mælir fyrir þrýstivind. Meðalspönn í júlí og ágúst 1955 er meiri en í öllum öðrum almanaksbræðrum (gögn aftur til 1949).
4) Vindátt var líka óvenjustöðug, suðvestanáttin hefur ekki verið eindregnari í júlí og ágúst svo lengi sem við höfum upplýsingar um.
Hér má sjá meðalsjávarmálsþrýsting í júlí og þrýstivik frá meðallagi - eins og endurgreining evrópureiknimiðstöðvarinnar metur. Einna næst í áttfestu kemst sumarið 1950, en þá var staðan alveg öfug, stöðugar austan- og norðaustanáttir voru ríkjandi með endalausum rigningum á Norðaustur- og Austurlandi.
Óhætt er því að taka undir skoðun þeirra sem telja þessa mánuði sumarið 1955 þá verstu um landið sunnan- og vestanvert - þeir sem vilja blanda hita í málið geta þó haldið 1983 fram.
Í tímaritinu Veðrinu 1956 (1.tölublaði) er góð samantekt um veður sumarsins sem Páll Bergþórsson ritaði. Nefnist pistillinn Langviðrasumarið 1955 og má finna hann á timarit.is.
Við lítum hér á frásagnir af tíðarfari sumarsins, eftir því sem því vatt fram. Sumum kann að finnast samantektin löng, en þetta var langt og erfitt sumar. Að auki höfðu gengið mikil verkfjöll um vorið. En þjóðin sat þó saman á rigningarkvöldum og hlustaði á framhaldssögu í útvarpinu, Hver er Gregory?.
Tíminn 9.júlí:
Í gær voru miklir vatnavextir undir Eyjafjöllum. Hefir verið hér rigning i sólarhring samfara miklum hlýindum og eru því öll jökulvötn í miklum ham. Kaldaklifsá undir Austur-Eyjafjöllum flóði yfir bakka sína. Hjó hún skarð í veginn rétt utan við brúna og slitnaði þá vegarsambandið austur í Mýrdalinn þar sem engri bifreið var fært yfir skarðið í gær. Vatn er nú mikið í Skálm og Múlakvísl, eins og öðrum ám eystra. Hins vegar fjarar vatnið mjög fljótt úr ánum aftur, þegar snjóbráð hættir á jökli. Verður strax undinn bugur að því að fylla upp í skarðið í veginn hjá Kaldaklifsá, er vatnsaginn fer að minnka. Má því búast við að vegarsambandið komist bráðlega á aftur. Vötnin þarna eystra fara nú að verða æði uppivöðslusöm. Múlakvísl og Skálm brúarlausar og svona komið með veginn hjá Kaldaklifsá. Miklir flutningar fara fram eftir veginum á þessum slóðum, t.d. hefir Kaupfélag Vestur-Skaftfellinga fjóra til sex stóra flutningabíla í förum.
Tíminn 10.júlí;
Frá fréttaritara Tímans á Selfossi. Hér er búíð að rigna alveg óvenju mikið að undanförnu og er mikið flóð í öllum ám hér fyrir austan. Er þetta líkast því, sem er, þegar vorleysingar standa yfir. Talið er að Ölfusá hafi aldrei verið í öðrum eins ham að sumri til og hún er nú. Til marks um flóðið í Sandá má geta þess, að á vaði yfir hana, þar sem hún er vanalega í hné, varð að sundríða í fyrradag.
Tíminn 21.júlí:
Enn hefur ekki þurr baggi verið hirtur af Suðurlandi. Óþurrkasvæðið liggur frá Mýrdalnum til Holtavörðuheiðar að viðbættum Vestfjörðum. Þorsteinn Sigurðsson, Vatnsleysu, formaður Búnaðarfálags íslands, skýrði blaðinu frá því í gær, að ástand hjá bændum á Suðurlandi væri nú orðið mjög alvarlegt með heyskap á þessu sumri. Síðasta mánuð hefðu aðeins verið tveir þurrir dagar, en hvorugur þó góður, og ekki hefði enn þurr baggi af heyi verið hirtur á Suðurlandi. Blaðið átti í gær tal við Sigurð Tómasson bónda í Bakkaseli í Fljótshlíð og skýrði hann frá því, að bændur í Rangárvallasýslu og eins í Skaftafellssýslu eftir því sem hann hefir frétt til, væru yfirleitt ekki byrjaðir að slá tún sin, enda hefði stöðugt illviðri verið síðasta hálfan mánuð, vestan hafátt, rok og stórkostleg úrkoma, svo að menn minnast vart verra sumars þar um slóðir. Fyrir þann tíma var ekki það vel sprottið, að bændur væru byrjaðir að slá, enda voru miklir vorkuldar og lítil spretta framan af sumri. Nú er hins vegar kafgras alls staðar, og grasið að verða úr sér sprottið. Lítur því ákaflega illa út með heyskap í sumar, ef ekki bregður til hins betra þegar í stað. Þá sagði Sigurður, að örfáir bændur, sem hafa súrheysgryfjur, hefðu lítils háttar slegið tún sín, en ekki hefir verið vinnuveður undanfarið, svo að slegið hey hefir aðeins hrakið og velkst, og ekki hefir verið unnt að koma því í gryfjurnar. Einmunafíð á austanverðu Norðurlandi. Þá hafði blaðið þær fregnir frá fréttariturum sínum á austanverðu Norðurlandi og Austfjörðum og hefir heyskapar tíð á því svæði verið góð og !sums staðar með afbrigðum þæg, svo að búið er að hirða tún. Eftir því sem vestar dregur á Norðurlandi, hefir tíðin verið stirðari, þótt engir teljandi erfiðleikar hafi verið, nema á stöku stað, svo sem í Fljótum, en þar er Suðurlandsveðrátta. Tíð hefir verið stirð á Vestfjörðum, það sem af er þessu sumri. Rignir þar mikið, en spretta er góð og menn á milli steins og sleggju, þar sem grasið sprettur úr sér, en vont að losa það undir rigninguna. Sömu sögu er að segja úr Borgarfirðinum. Þar hefir tíðin einnig verið stirð. Svo virðist sem óþurrkasvæðið nái frá Mýrdal til Holtavörðuheiðar með Vestfirði innifalda.
Hlýjasti dagur sumarsins 1955. Nærri því 15 stiga hiti er í rigningunni í Reykjavík, en 18 uppi í Borgarfirði, 17 vestur á Galtarvita og fór í 21,5 stig í Kjörvogi á Ströndum. Slíkt er ekki algengt þar. Á Blönduósi er 22 stiga hiti og 24 á Sauðárkróki, einhver hæsti hiti sem mældist þar meðan stöðin starfaði.
Tíminn 31.júlí:
Nú þegar þrotlausar rigningar hafa gengið sunnan lands og allt flýtur í vatni, hefir horft allt öðru vísi við hjá okkur á Ströndum. Síðan sláttur hófst, hefir verið hér ágæt heyskapartíð, oftast þurrt veður og þurrkur, en þó kastað skúrum flesta daga, einkum bó á nóttunni. Það, sem af er, hefir heyskapur því gengið vel og margir búnir að hirða töluvert af töðu með ágætri verkun og heyskaparhorfur góðar.
Bændur í Fáskrúðsfirði muna varla annað eins sumar. Allan júlímánuð hefir ekki nema tvisvar dregið ský fyrir sól og hægt hefir verið að hirða hey jafnóðum af ljánum og aldrei þurft að sæta upp undan rigningu allan túnasláttinn. Nokkrir eru lítils háttar byrjaðir á síðara slætti og margir alveg búnir að hirða upp töðuna.
Margar illskeyttar lægðir fóru hjá þetta sumar. Hugsanlega kom ein þeirra við sögu er mannskaði varð við Úlfsvatn á Arnarvatnsheiði í kringum 10. júlí. Tveir menn drukknuðu, en enginn er til frásagnar um hvað gerðist. Langdýpsta lægð sumarsins kom að landinu þann 18. ágúst. Þrýstingur fór niður í 965,9 hPa á Stórhöfða þann 19. og hefur aðeins tvisvar mælst lægri í ágúst hér á landi. Vindhraði fór þar í 37 m/s, það mesta sem vitað er um í byggð ágúst.
Kortið sýnir þessa merkilegu lægð að morgni þess 18. Endurgreiningin segir hana um 963 hPa í miðju. Er það ekki fjarri lagi miðað við áðurnefnda tölu frá Stórhöfða.
Tíminn 20.ágúst:
Ofsarok brast á eftir þurrkinn og feykti tugþúsundum heyhesta út í veður og vind. Á mörgum bæjum fauk allt að 200 hestum, og síðan hellirigndi yfir beðjur og dreifar Bændur á óþurrkasvæðinu á Suðurlandi hafa enn orðið fyrir reiðarslagi af völdum tíðarfarsins á þessu illviðrasumri. Vart var eini góði þurrkdagurinn, sem þeir hafa fengið á slættinum liðinn, er skall á ofsarok og feykti nýuppsettu heyi þeirra, ýmist hröktu eða nýlega slegnu út í veður og vind, en síðan kom hellirigning að nýju yfir dreifar og beðjur, svo að mikill hluti þessa heyfengs er farinn forgörðum, og er það í mörgum tilfellum fyrsti heyfengur sumarsins. Af fregnum fréttaritara blaðsins í Rangárþingi er ljóst, að tugþúsundir heyhesta hafa fokið í fyrrakvöld. Horfir nú enn verr með heyskap en nokkru sinni fyrr. A miðvikudaginn var sem kunnugt er allgóður þurrkur á Suðurlandi, einkum austur í Rangárþingi og austar. Gott veður var fram um hádegi á fimmtudag, en þá rignd nokkuð allvíða og eftir það tók að hvessa og varð ofsarok, en þurrt víðast meðan veðurofsinn var mestur. Um nóttina lægði, en jafnframt tók að hellirigna og hélt svo áfram fram eftir degi í gær.
Frá fréttaritara Tímans í Vik: Bændur hér í Mýrdal fengu tvo þurrkdaga um miðbik vikunnar, hirtu allmikið en settu annað i sæti og galta. Þegar hvassviðrið skall á hér, fauk þetta hey mjög víða. Samtímis hvassviðrinu var úrhellisrigning, og mun mikið af þessu heyi algerlega ónýtt, nema veður batni mjög næstu daga og hægt verði að ná einhverju af því upp. Nú er stytt upp og komin hægari vestanátt. Frá fréttaritara Tímans undir Eyjafjöllum. Í fyrradag geisaði ofsastormur undir Eyjafjöllum og olli hann stórkostlegum heysköðum. Höfðu dagarnir tveir á undan verið allgóðir þurrkdagar og vonuðu menn að nú færu þeir loksins að ná inn einhverju af heyi eftir langvarandi og mikla óþurrka. Hvessir um hádegið. Eftir þurrkdagana var búið að sæta nokkuð af nýlega slegnu heyi, en sumt lá enn flatt á fimmtudagsmorguninn. Þennan morgun var rigning, en upp úr hádeginu létti til og fór að hvessa. Skall brátt á ofsarok af austri. Þornaði flata heyið fljótt og fauk, og það hey, sem var komið í sæti, fauk einnig. Reynt var að njörva heysætin niður, en það dugði lítið. Rigndi um kvöldið. Þegar stormurinn hafði rifíð og tætt heyið allan daginn, fór að rigna oní það með kvöldinu. Blotnaði þá aftur það hey, sem hafði verið sætt, þar sem hálffoknir bólstrarnir voru illa varðir fyrr vatninu. Hlýtur það hey, sem eftir er, að stórskemmast en nú er stöðug rigning. Talið er að mörg hundruð hestar af heyi hafi fokið undir Eyjafjöllum. Er þetta því tilfinnanlegra, þar sem þetta mun hafa verið fyrsti eiginlegi heyfengurinn á sumrinu.
Frá fréttaritara Tímans á Rauðalæk. Á miðvikudaginn var hér sæmilegur þurrkur, og náðu bændur allmiklu heyi upp, en áttu einnig allmikið nýlega slegið flatt. Á fimmtudag var hægt veður til hádegis hér í Rangárþingi, en þá rigndi nokkuð, síðan skall rokið á og stytti upp um leið. Þúsundir heyhesta fuku. Bændur höfðu keppst við að ná upp heyinu, og var geysimikið í sæti og göltum, en einnig flatt. Þetta hey fauk allt saman. Mest var fokið í Hvolhreppi, Fljótshlíð og Rangárvöllum, svo og í ofanverðum Landeyjum. Minna fauk í lægstu sveitunum. Á hverjum einasta bæ urðu miklir heyskaðar, og á sumum bæjum allt að 200 hestum. Veðrið var svo mikið, að það svipti um þriggja vikna gömlum og signum göltum og feykti út í veður og vind. Munu þúsundir heyhesta hafa fokið hér um slóðir, og mjög óséð, hversu takast muni að hirða eitthvað af þessu fokheyi, því að jafnskjótt og veðrið lægði kom hellirigning yfir dreifar og beðjur.
Frá fréttaritara Tímans á Selfossi. Á miðvikudaginn var sæmilegur þurrkur í Árnessýslu, en þó rigndi eitthvað í uppsveitum. Bændur kepptust við að þurrka, og fór fólk frá Selfossi nokkuð í heyvinnu í nærsveitir. Mikið var sett upp. Á fimmtudaginn hvessti, en þó ekki svo að heyskaðar yrðu miklir. Þó flatti víða sæti og galta og rigndi síðan í það. Í gær flæddi sjór á land á Seltjarnarnesi. Gerði nokkurn storm seinni hluta dags í gær og brotnaði þá skarð í malarkambinn suðvestan á nesinu. Á háflæði, klukkan átta í gærkvöldi flæddi töluverður sjór í gegnum skarðið og flaut eftir skurðum allt upp að Nesvegi. Nokkur hætta var á því, að flóðið yili tjóni á mannvirkjum. Um tíma var íbúðarhús, sem er í byggingu umflotið sjó, en þar í grennd var byggingarefni, sem var í hættu.
Sjórinn flæddi sums staðar upp úr skurðunum og að nokkrum íbúðarhúsum, án þess þó að hætta væri á skemmdum.
Tíminn 23. ágúst:
Frá fréttaritara Tímans á Hvanneyri. Á föstudaginn var [19.ágúst] gerði óvenjulega mikið sjávarflóð inn Borgarfjörð og upp í Hvítá. Fóru allar engjar í kaf meðfram ánni upp að brú, og flæddi hey það, sem á engjunum var og flaut mikið af því burt með straumnum eða færðist til. Þennan dag var stærstur straumur, og jafnframt var stinningskaldi inn fjörðinn, og þegar svo ber undir, er hætta á stórflóðum, þetta flóð varð þó meira en venjulegt er, jafnvel þótt svona standi á, og jafnaðist á við mestu vetrarflóð. Ekki var mikið búið að losa á engjunum við ána, en þó allmikið á Hvanneyrarfit, en miklu af því heyi var þó búið að bjarga heim. Þá munu nokkur hundruð heyhestar hafa farið í flóði þessu, og einnig allmikið af öðrum bæjum. Alltaf eru sömu óþurrkarnir hér í héraðinu. Bændur hafa litið byrjað háarslátt enn. Á túnum á sunnanverðu Snæfellsnesi má nú sums staðar sjá þá óhugnanlegu sjón, að fyrrisláttartaðan liggur i mórauðum hrúgum alveg að verða ónýt, en síðan hafa bændur slegið hána milli sætanna og rignir sú slægja einnig niður þessa dagana. Lítur helst út fyrir að bæði fyrri og síðari sláttur verði ónýtur. Hvar standa bændur þá?
Tíminn 27. ágúst:
Mikill vöxtur er nú í ám og fljótum á Suðurlandi, einkum jökulám, vegna undanfarandi hlýinda og úrkomu. Ölfusá er í allmiklum vexti en flæðir þó ekki yfir bakka. Hins vegar er Markarfljót farið að skemma land skammt neðan við brúna. Síðustu dagana hefir vaxið mjög í fljótinu, og það hefir brotist fram hjá varnargarði þeim, sem á að varna því, að það fari yfir land Dalhverfis. Rennur nú allmikið vatn yfir graslendi þar sem var áður engi Dalbæjanna, en ekki nytjað lengur. Þarna hefir fljótið aukið landbrotið og hætta á meira broti. Austar með Eyjafjöllunum flæða ár einnig yfir og gera nokkurn usla. Má búast við nokkru tjóni á landi þarna, ef ekki sjatnar bráðlega i vötnunum
Tíminn 28. ágúst:
Sólskin um allt land í gr: Bændur á óþurrkasvæðinu náðu þó litlu upp af heyjum.Í gær var gott veður um allt land, sólskin og hiti frá 12 til 15 stig. Logn var víða á Suðurlandi og hefir þurrkurinn því ekki nýst sem skyldi, enda er jörðin svo gegnblaut á óþurrkasvæðinu sunnan og vestan lands, að það þarf meira en einn góðan dag til þess, að hún þorni eitthvað að ráði. Bændur Sunnanlands náðu inn nokkru af heyi, sem var í sætum og göltum, en lítið mun hafa náðst upp af því, sem var flatt.
Undir lok ágústmánaðar tók ein lægðin heldur austlæga stefnu og gerði allsnarpt norðanveður í kjölfar hennar. Þá kólnaði mjög í veðri og snjóaði allt niður í byggð. Alhvítt varð á Hornbjargsvita og Skriðulandi í Kolbeinsdal.
Tíminn 31. ágúst:
Frá fréttaritara Tímans á Ísafirði í gærkveldi. Í dag hefir verið hér hvasst af norðaustri og hið versta veður, mikil snjókoma sem nálgast stórhríð með kvöldinu. Liggur nærri, að snjó festi alveg niður að sjó en fjöll eru alhvít niður fyrir miðjar hlíðar. Hefir slíkt veður ekki komið hér um mitt sumar um langt skeið, svo að menn muni. Veðurlag þetta hefir verið í dag a.m.k. um norðanverða Vestfirði.
Tíminn 1.september:
Aðfararnótt s.1. þriðjudags gerði hríð og snjóaði niður í mið fjöll, en í fyrrinótt var hvasst og mikil snjókoma. Tepptist þá Siglufjarðarskarð alveg. Í Fljótunum snjóaði ofan í byggð, og í Stíflunni var jörð alhvít ofan að vatni. Áætlunarbifreið ætlaði í gær frá Siglufirði yfir skarðið, en varð að snúa við vegna snjóskafla, sem tepptu veginn yfir skarðið. Í gær var ágætis veður á þessum slóðum, og var þá unnið að því að ryðja skarðið er er búist við því, að það verði fært í dag.
Tíminn 2.september:
Þurrt veður mátti heita í lágsveitunum á Suðurlandsundirlendinu í gær svo og við Faxaflóa og í sumum sveitum Borgarfjarðar. Bændur þar gátu því fylgt þurrkinum í fyrradag nokkuð eftir með hirðingu hinna langhröktu heyja. Var miklu af þessum linþurra hálmi ekið í hlöður. Í uppsveitum á Suðurlandi var hins vegar skýjað og gekk á með skúrum, svo að þar var enginn friður til hirðinga. Urðu menn að láta við það sitja, sem upp náðist í fyrradag. í sveitunum upp af Faxaflóa var einnig þurrt að kalla, aðeins smáskúrir í gærmorgun. Þar var víða unnið mikið að hirðingu. Ósýnt er um framhald þurrksins i dag eða næstu daga.
Fréttir bárust af miklum brennisteinsfnyk - vangaveltur voru uppi um það hvað væri á seyði. Það reyndist síðan vera Skaftárhlaup. Fyrir þennan tíma voru þau óalgengari heldur en við höfum átt að venjast síðan.
Tíminn 6.september:
Undanfarna daga hefir mjög kveðið að sterkum brennisteinsþef, sem lagt hef*r yfir byggðir Þingeyjarsýslna og Eyjafjarðar, einkum framsveitir. Kveður svo rammt að þessu, að miklar líkur eru taldar benda til, að eldur sé uppi einhvers staðar á hálendinu, eða ný jarðhitasvæði að myndast eða koma undan jökli. Brennisteinslykt þessari hefir við og við brugðið fyrir í sumar, en tvo síðustu dagana hefir hún verið mjög megn og fundist víða. Í Mývatnssveit fannst megn brennisteinslykt á laugardaginn og sunnudaginn, en minni í gær. Í Bárðardal var hún mjög römm þessa sömu daga og fannst einnig greinilega í gær. Á Húsavík og miðsveitum Þingeyjarsýslu hefir hún einnig fundist mjög greinilega. Eftir veðuráttinni að dæma mætti ætla, að lykt þessi bærist frá vesturjaðri Vatnajökuls eða svæðinu þar vestur af. Gera menn sér í hugarlund, að þarna geti verið eldur uppi eða ný jarðhitasvæði, brennisteinsrík, séu komin þar fram. Þess má geta, að seint i ágúst fóru nokkrir Þingeyingar í skemmtiferð suður á öræfin og var Kjartan Sigurjónsson, bílstjóri. Getur hann þess, að þeir ferðafélagar hafi þá séð mjög mikla reyki við brún Vatnajökuls við Tungnárbotna og meiri en þeir bjuggust við þar á jarðhitasvæðinu, en veittu því ekki nánari athygli þá, hvort sem setja má þetta í samband við brennisteinslyktina nú. Flugmenn á leiðinni norður hafa síðustu daga fundið megna brennisteinsfýlu, er þeir hafa verið staddir yfir inndölum Eyjafjarðar. Dimmt hefir verið yfir hálendinu síðustu daga, en jafnskjótt og bjart veður fæst munu jarðfræðingar fljúga yfir hálendið og skyggnast þar um.
Svo fór loks að stytta upp, eftir um áttatíu daga nær samfellda vætutíð. Tíminn segir 14. september fyrst frá þurrki (sem þó var ekki alls staðar), en síðan er fróðlegur pistill um afkomu garðyrkjubænda þetta sumar:
Í fyrrinótt rigndi allmikið á Suðurlandi, og var hey og jörð því mjög blautt í gærmorgun. En á þessum tíma er heyið fljótt að taka við sér. Í Borgarfirði var þurrkurinn lélegri. Fram að hádegi var dimmt yfir þar, en birti síðan og var sæmilegur þurrkur með norðan kalda síðdegis. Lítið mun þó hafa verið hægt að hirða, en vatn verið hægt að þurrka úr heyi og búa þannig í haginn fyrir næstu þurrkdaga. sem vonandi fylgja á eftir. Vestur á Mýrum og Snæfellsnesi var þurrkurinn betri mátti heita góður, og mun hafa komið að miklu gagni. Ef framhald verður á þurrkinum, mun mikið hey nást inn og ástandið mjög batna, þótt heyin séu yfirleitt létt eða ruddi.
Afkoma garðyrkjubænda eftir þetta votviðrasama og sólarlausa sumar mjög slæm Það voru bjartsýnir menn, sem í apríl s.l. unnu vorstörfin í görðum og gróðurhúsum sínum, sagði Arnaldur. Um mánaðamótin aprílmaí voru sumir, sem höfðu heita garða búnir að sá rófum, gulrótum og fleiru, og í fyrstu viku maí var farið að planta káli og leggja kartöflur í mold Svo kom frostið. Frostin, sem komu um miðjan maí, þurrkuðu út kálið sem var að byrja að vaxa. Rokið um hvítasunnuleytið sópaði upp jarðveginum og feykti burt áburði og eyðilagði nýgræðing. Þetta var þó aðeins forsmekkur þeirra óskapa, sem síðar dundu yfir. Rigningarnar í júlí og ágúst hafa gert hag garðyrkjubænda með því versta, sem menn muna. Tómatar og gúrkur, salat, gulrætur og margt annað kom með fyrra móti á markað, og í júní leit út fyrir uppskeru í góðu meðallagi. Þeir, sem plöntuðu út káli fyrrihluta júní, fengu flestir sæmilega uppskeru, en mest það kál, sem plantað var eftir þann tíma, nær ekki þroska. Illgresið blómgast. Vöxtur grænmetis er miklu hægari í úrkomunni, en illgresið þreifst aftur ágætlega í vætunni. Fólk hefir staðið í vosklæðum úti dag eftir dag og borið arfann burt, því að ónóg var að losa hann, þar sem hann festi þegar rætur aftur. Jurtakvillar hafa verið ágengir, einkum fúi og myglusveppir. En kartöflumyglan hefir þó verið með minnsta móti þrátt fyrir vætuna, sennilega vegna kuldanna. Gróðurhúsaframleiðslan lætur líka á sjá, og er nú þrátt fyrir mikið magn i vor svo komið, að hvergi nærri er hægt að fullnægja eftirspurninni, og hefir ekki í mörg ár verið skortur á tómötum og gúrkum í ágúst. Sama er að segja um blómin. Þótt unnt sé að halda sæmilegum hita í húsunum, verða að vera rétt hlutföll milli birtu og hita. Blómamagnið, sem fæst úr húsunum á haustin og fyrrihluta vetrar byggist mjög á þeirri birtu, sem jurtirnar fá í júlí og ágúst.
En ekki var allt jafnslæmt sunnanlands Tíminn segir af laxveiði þann 17.september:
Laxveiði lauk s.1. fimmtudag. Laxgengd hefir verið mikil í ár í sumar og hafa veiðst fleiri laxar en um langt árabil. Mikið hefir verið um smálax. Veiðin var nokkuð misjöfn í einstökum landshlutum. Best var hún í ám við Faxaflóa og í Húnavatnssýslum, en lakari í Dalasýslu. Veiðin í Laxá í Þingeyjarsýslu var neðan við meðallag, enda var veðurfar þar nyrðra óhagstætt til veiða vegna langvarandi bjartviðris og hlýinda. Í Þjórsá var ágæt veiði og í Ölfusá og Hvítá veiddist vel í net, þar sem veiði var við komið fyrir vatnavöxtum, en stangarveiði hefir verið þar rýr, nema við Selfoss.
Friður var að mestu fyrir veðri í október, vindar oftast hægir en þó þótti heldur svalt. Um mánaðamótin kom aftur köld kveðja frá Grænlandi, barmafullt lægðardrag, rétt eins og veturinn áður, nú nærri beint úr norðri, skammt fyrir vestan land. Snerist þar út mjög kröpp lægð á skömmum tíma.
Tíminn lýsti tjóni á Siglufirði og undir Hafnarfjalli í frétt 3.nóvember, tjón varð einnig Á Sauðárkróki og enn einn breski togarinn fórst við Vestfirði þegar verið var að draga hann bilaðan til hafnar. Fimm menn fórust. Þýskur togari laskaðist allmikið í brotsjó og fleiri bátar lentu í vandræðum:
Frá fréttaritara Tímans í Siglufirði. Fárviðri mikið var í Siglufirði í fyrrinótt og gærdag og mátti heita að skæðadrífa af járnplötum, er losnuðu af húsum, og öðru, er fokið gat, væri í kaupstaðnum, svo ekki var laust við að lífshætta væri fyrir fólk að fara út fyrir dyr meðan hvassast var. Mestur var veðrahamurinn klukkan fjögur til fimm í fyrrinótt. Fuku þá að mestu þök af fjórum eða fimm húsum, en járnplötur fuku af mörgum húsum öðrum. Voru þessar hamfarir heldur hrikalegar í náttmyrkrinu, þegar eldtungurnar léku öðru hvoru um loftið, er járnplötur lentu á rafleiðslum, svo að samsláttur varð milli póla. Af þessum sökum urðu mörg hús í kaupstaðnum rafmagnslaus, en manntjón varð ekki og engar íkviknanir og mátti það heita vel sloppið eftir þessa miklu fárviðrisnótt í Siglufirði. Er þetta eitt mesta hvassviðri, er þar hefir komið í mörg ár. Miklar skemmdir. Járnplötur og annað lauslegt, er fauk, skemmdi bæði hús og bíla, er urðu fyrir. Þannig brotnuðu nokkrar mjög stórar rúður í verslunum, meðal annars í sölubúðum verslunarfélagsins og Áfengisverslunar ríkisins. Skorsteinn fauk af einu húsi, eða hrundi öllu heldur ofan á húsþak og sligaði þakið niður.
Í gærdag fuku þrír stórir heyflutningabílar um á veginum undir Hafnarfjalli í Borgarfirði. Voru bílar þessir allir á suðurleið með fullfermi af heyi og voru þeir því með mikið háfermi á palli. Í þeirri vindátt, sem var í gær, rekur á mjög snarpar rokur undir Hafnarfjalli og er þetta ekki í fyrsta sinn, að bílar fjúka þar um og út af vegi, þótt manntjón hafi ekki af hlotist. Tveir bílanna fuku alveg út af veginum með stuttu millibili, en sá þriðji fauk á hliðina og lenti ekki út af veginum. Önnur farartæki komust þó framhjá vegna þess, að melur er í kring, þar sem bíllinn lá.
Myndin sýnir veðrið á landinu síðdegis þann 1. nóvember. Sérlega hvasst er við suðurströndina og um landið norðvestanvert. Þann 8. nóvember sagði Tíminn af fjársköðum í þessu veðri í Dýrafirði:
Fyrsta nóvember síðastliðinn gerði fárviðri með snjókomu í Dýrafirði vestra. Var fé allt úti, enda hafði verið góð tíð undanfarið. Gekk mjög illa að ná saman fénu, einkum í Lambadölum, sem eru innstu bæir í Mýrarhreppi. Enn vantar um 30 kindur af þessum bæjum og um 20 kindur hafa fundist dauðar. Margt af því fé, sem fundist hefir, var ill farið og hrakið. Veðrið hélst jafnvont 2.nóvember en slotaði nokkuð á 3. degi. Bóndinn í Innri-Lambadal, Guðmundur Bjarnason, er einn karlmanna á bænum. Var hann allan þriðjudaginn að reyna að ná saman fé því, sem var heima við. Náði hann þó engri kind vegna veðurofsans. Vantaði 170 kindur. Næsta dag kom nágranni hans Gunnar Friðfinnsson á nýbýlinu Grænavatni honum til hjálpar og tókst þeim að ná eitt hundrað fjár í hús á Grænanesi, sem er nokkru utar með firðinum, en engri kind varð komið heim í hús í Innri-Lambadal. Vantaði þá enn um 170 kindur frá Innri-Lambadal og mest allt frá Grænanesi. Bóndinn á Ytri-Lambadal var þessa sömu daga að reyna að ná sínu fé í hús, en gekk erfiðlega. Undanfarna daga hafa svo bændur á þessum bæjum verið að leita að fé því, sem vantaði. Hafa þeir grafið margt fé úr fönn. Var margt af því dautt í fönninni eða hafði rotast í veðurofsanum. Sumt hafði hrakið í sjóinn og yfir fjörðinn. Vantar enn.um 30 kindur frá þessum bæjum, sem flest er talið dautt og auk þess hafa drepist 20 kindur af þeim, sem fundist hafa.
Fleiri fréttir bárust af illviðrum og vetri þann 13. nóvember, en nokkrir dagar eftir það urðu hins vegar óvenjuhlýir, sá 16. var með hlýjustu nóvemberdögum, einkum um landið austanvert. Þá var blíðuveður um mestallt land, en hvessti um kvöldið.
Tíminn 13.nóvember:
Í fyrrinótt gerði aftaka hvassviðri á Norðfirði og stóð veðrið allan daginn í gær og fram undir kvöld, en þá lygndi. Í veðri þessu slitnuðu tveir vélbátar upp á höfninni og rak á land. Er annar þeirra mikið skemmdur.
Frá fréttaritara Tímans á Hofsósi. Mikill snjór er nú kominn á jörð í útsveitum Skagafjarðar. Á Hofsós og í nágrenni hefir snjóað svo mikið, að ófært er með öllu eftir bílveginum norður frá kaupstaðnum og þung færð á öðrum vegum út frá kauptúninu. Mest var hríðin aðfaranótt föstudagsins. Samfara hríðinni var mikill sjógangur, en það bjargaði, að engir bátar voru á sjó er hríðin brast á. Bændur höfðu flestir tekið fé sitt á gjöf fyrir hríðina og hafði ekki í gærkvöldi frést um skaða á fé, eða mannvirkjum af völdum veðursins.
Tíminn 17.nóvember:
Einmuna veðurblíða var um mestan hluta landsins í gær [16. nóvember] og hefir raunar verið síðustu dagana. Samkvæmt frásögn fréttaritara blaðsins á Egilsstöðum í gær var þar 10 stiga hiti, logn og þurrt veður.
Tíminn 18.nóvember:
Frá fréttaritara Tímans á Dalvík í gær. Í nótt sem leið [aðfaranótt 17.] gerði hér afspyrnurok af suðvestri sem varð af nokkurt tjón bæði hér í kauptúninu og frammi í sveit. Fauk grind stórrar bifreiðaskemmu, sem verið var að reisa. Bifreiðaskemma þessi átti að vera yfir fjórar stórar bifreiðar, byggð af útibúi KEA og mjólkurflutningunum í sameiningu. Átti að byggja skemmuna úr timburgrind, klæddri asbesti. Var búið að reisa grindina og klæða að nokkru leyti. Fauk grindin að mestu og skemmdust viðir, en mun þó vera hægt að nota þá að mestu aftur. Asbest það, sem búið var að negla á grindina, mun hafa eyðilagst. Ekki urðu teljandi skemmdir aðrar hér í kauptúninu, en á bæjum hér frammi i dalnum urðu nokkrar skemmdir, einkum heyfok. Á Syðra-Hvarfi, Hofsá og Þverá fauk nokkuð af heyi, og á Bakka fuku tvö hey upp borin um og ódrýgðust. Á Þorsteinsstöðum fuku járnplötur af húsum og á Urðum skemmdist asbestþak á fjósi og hlöðu.
Þegar kom fram yfir 10. desember varð tíð erfiðari. Hvassvirði voru tíð, aðallega af austri. Mjög hvasst var í Vestmannaeyjum þann 13. og eins varð tjón austanlands vegna ísingar á línum. Tíminn segir frá 14. og 15. desember:
[14.] Í fyrrinótt og gærdag var afspyrnurek í Vestmannaeyjum og olli það nokkru tjóni. Fréttaritarar Tímans á Suðurlandi höfðu svipaða sögu að segja, nema hvað hvergi virðist hafa orðið verulegt tjón af veðrinu nema í Vestmannaeyjum. Þar var veðurhæðin gífurleg bæði í fyrrinótt og gærdag, en lygndi með kvöldinu. Leiddi mikið hafrót inn í höfnina og olli það miklum skemmdum á bátum, enda gekk sjórinn yfir bryggjurnar. Vinnupallar og annað lauslegt við byggingar fauk, en olli ekki meiðslum á fólki enda urðu menn að halda sig sem mest innan dyra meðan veðurhæðin var mest. Virtist mönnum, að hin nýju hafnarmannvirki austarlega í höfninni yrðu til þess að auka heldur sjógang inn í höfninni og sogið. Í þessum hamförum rak tvo báta á land. Svo heppilega vildi þó til að bátarnir ráku upp á sandfjöru í svonefndum Botni. Mátti þó eigi miklu muna, að annar báturinn, Ísleifur II, ræki upp í kletta og hefði þá illa farið. Voru horfur á, að hægt myndi að ná Ísleifi út á kvöldflóðinu en hinn báturinn, Týr, náðist út rétt eftir að hann rak á land. Í hvassviðrinu slitnuðu rafleiðslur við höfnina og miklir vinnupallar, sem stóðu við stórhýsi Vinnslustöðvarinnar sem er í smíðum fuku niður og brotnuðu. Margt báta var í höfninni, margir bátar nudduðust og skemmdust- þar sem þeir lágu við bryggjurnar.
[15.] Símabilanir hafa orðið talsverðar á Austurlandi í fárviðrinu, sem staðið hefir undanfarna daga. Þannig var í gær símasambandslaust með öllu við Austfirðina flesta, nema norður um Akureyri. Höfðu símalínur slitnað og staurar brotnað á suðausturhorni landsins. Um annað tjón var ekki vitað í gær, en veðrið var mjög illt og mun Esja hafa orðið að sleppa viðkomu á höfnum eystra vegna óveðurs.
Dagana fyrir jól snjóaði talsvert í austlægri átt á Suðurlandi. Óvenjulegt er að snjókoma sé svona þrálát í þeirri átt um landið sunnanvert. Austanáttin gekk að með suðvestlægri átt í háloftunum (hornriða).
Tíminn lýstir samgöngutruflunum í pistlum 22. desember:
Frá fréttaritara Tímans á Selfossi. Snemma í gær morgun byrjaði að snjóa hér og var linnulaus norðaustan stórhríð í allan gærdag. Allir vegir urðu gersamlega ófærir bílum, er leið á daginn og hafa því mjólkurflutningar til Mjólkurbús Flóamanna algerlega teppst. Bylurinn varð stöðugt svartari eftir því, sem leið á daginn, og skóf snjóinn í gríðarmikla skafla, í gærkveldi var talið vonlítið, að mjólkurbílar gætu nokkuð komist í dag.
Um miðjan dag í gær lokaðist vegurinn til Keflavíkur og kom til alvarlegra umferðartruflana. Í gærkvöldi voru á annað hundrað bílar fastir á ýmsum stöðum á leiðinni frá Hafnarfirði suður til Keflavíkur. Sátu bílarnir ýmist fastir í snjósköflum, eða gátu sig ekki hreyft vegna stórhríðar og skafrennings. Áætlunarbílar sem fara áttu frá Reykjavík síðdegis í gær, fóru ekki, en tveir stórir áætlunarbílar voru meðal þeirra sem sátu fastir í snjósköflunum. Stórar jarðýtur vorn sendar til hjálpar á leiðinni í gærkvöldi og var búist við að hægt væri að brjóta bílunum leið í nótt, ef veður færi ekki versnandi. Mikið af fólkinu, sem er í bílunum, er illa búið og nestislausir allt að heita má. Samkvæmt upplýsingum, sem Tíminn fékk seint i gær kvöldi á bifreiðastöðinni í Borgarnesi, var þá enn vel fært bílum um alla helstu vegi Borgarfjarðar. Færðin á Hvalfjarðarleiðinni var hins vegar orðin afar þung og vegurinn alveg að lokast á köflum. Áætlunarbíll frá Akranesi, sem venjulega er á þriðju klukkustund milli Akraness og Reykjavíkur, fór úr Reykjavík klukkan fimm í gærdag og var ekki kominn upp á Akranes um klukkan tíu í gærkvöldi.
Á Þorláksmessu varð bóndinn á Hjaltastöðum í Skíðadal fyrir snjóflóði og lést. Norðan hvassviðri og mikil snjókoma var á.
Lýkur hér þessari löngu yfirferð um árið 1955. Ýmsar tölur má að vanda finna í viðhenginu.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 23:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.5.2022 | 13:35
Fyrri hluti maímánaðar
Meðalhiti fyrstu 15 daga maímánaðar er +5,4 stig í Reykjavík, -0,4 stigum neðan meðallags áranna 1991 til 2020, en í meðallagi síðustu tíu ára. Hitinn raðast í 13. hlýjasta sæti (af 22) á öldinni. Hlýjast var 2008, meðalhiti 8,3 stig, en kaldast 2015, meðalhiti 2,8 stig. Á langa listanum raðast hitinn í 71. sæti (af 148). Hlýjastur var fyrri hluti maí 1960, meðalhiti þá 9,4 stig, en kaldastur var hann 1979, meðalhiti +0,3 stig.
Á Akureyri er meðalhiti fyrri hluta maímánaðar 3,8 stig, -1,4 stigum neðan meðallags 1991-2020, en -0,7 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára.
Að tiltölu hefur verið kaldast við Breiðafjörð og á Vestfjörðum, þar raðast hitinn í 20. hlýjasta sæti á öldinni (þriðjakaldasta), en hlýjast hefur verið á Suðurlandi þar sem hitinn raðast í 10. hlýjasta sætið.
Jákvæð hitavik, miðað við síðustu tíu ár eru mest undir Eyjafjöllum, +1,2 stig á Steinum og í Önundarhorni. Neikvæð vik eru mest á Vestfjörðum, -1,5 stig á Klettshálsi og -1,4 í Bolungarvík.
Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 24,8 mm og er það í meðallagi. Á Akureyri hefur úrkoman mælst 30,5 mm, meir en tvöföld meðalúrkoma sömu daga.
Sólskinsstundir hafa mælst 106,9 í Reykjavík og er það í meðallagi. Á Akureyri hafa sólskinsstundirnar mælst 54,6, 23 stundum færri en í meðalári.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 13:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.5.2022 | 11:37
Fyrstu tíu dagar maímánaðar
Meðalhiti fyrstu 10 daga maímánaðar er +5,6 stig í Reykjavík, í meðallagi sömu daga árin 1991 til 2020, en +0,9 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Hitinn raðast í tíundahlýjasta sæti (af 22) á öldinni. Hlýjastir voru þessir dagar árið 2011, meðalhiti þá +8,6 stig. Kaldastir voru þeir 2015, meðalhiti +1,7 stig. Á langa listanum er hitinn í 64. sæti (af 148). Hlýjast var þessa daga árið 1939, meðalhiti +9,1 stig, en kaldast 1979, meðalhiti -1,0 stig.
Á Akureyri er meðalhiti fyrstu tíu daga maí 3,8 stig. Það er -1,1 stigi neðan meðallags 1991 til 2020 og -0,3 neðan meðallags síðustu tíu ára.
Röðunarstaða er nokkuð misjöfn eftir landshlutum. Á Suðaustur- og Suðurlandi eru dagarnir tíu þeir 8. hlýjustu á öldinni, en á Vestfjörðum er hitinn í 18. hlýjasta sæti (5. kaldasta).
Jákvæða vikið er mest við Skarðsfjöruvita, hiti +2,1 stigi ofan meðallags síðustu tíu ára. Kaldast, að tiltölu, hefur hins vegar verið á Þverfjalli (nærri Bolungarvík), þar hefur hiti verið -1,3 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára.
Úrkoma hefur mælst 20,9 mm í Reykjavík og er það í ríflegu meðallagi. Á Akureyri hefur úrkoman mælst 22,3 mm og er það nærri þrefalt meðallag.
Sólskinsstundir hafa mælst 59,1 í Reykjavík, í rétt tæpu meðallagi, en á Akureyri hafa sólskinsstundirnar mælst 39, 9 stundum færri en í meðalári.
10.5.2022 | 23:37
Hugsað til ársins 1967
Hér er hugsað til ársins 1967. Ritstjóri hungurdiska hafði þá fylgst náið með veðri í ein sex ár. Honum fannst veðurlag þessa árs lausara í sniðum en verið hafði árin á undan, minni þráviðri, meiri tilbreyting. Þótt sumarið geti ekki talist hlýtt á síðari tíma vísu er það samt allgott í minningunni. Við lestur blaða og annarra heimilda rifjast samgönguvandræði og vondir vegir þessara ára mjög upp. Eins það að vandræði af völdum flóða eru áberandi, fannburður í þær með tilheyrandi krapa og klakastíflum - og síðan leysingar voru fylgifiskar kaldrar umhleypingatíðar. Stafsetning er færð til nútímahorfs að mestu.
Menn töldu tíðarfar á árinu 1967 óhagstætt lengst af. Sumarið fékk þó góða dóma syðra. Janúar var óhagstæður framan af, en batnaði síðan. Mjög umhleypingasamt var í febrúar og gæftir stirðar, en tíð þó talin fremur hagstæð til landsins. Í mars var tíð mjög óhagstæð og kalt var í veðri, snjóþyngsli voru mikil og færð erfið. Kuldi og gróðurleysi ríktu í apríl. Maí var sólríkur syðra, en kalt var í veðri og mjög dauf tíð nyrðra. Júní var líka talinn óhagstæður. Kal kom fram í túnum. Tíð var hagstæð í júlí og langt fram eftir ágúst á Suður- og Vesturlandi, en óhagstæð nyrðra og grasvöxtur lítill. Í september var tíð hagstæð, sérstaklega á Norður- og Austurlandi. Rysjótt tíð var norðaustanlands í október, en hagstæð tíð syðra. Nóvember var stormasamur, gæftir slæmar og snjór í meira lagi, svipað tíðarfar hélst fram í desember.
Ýmislegt minnisstætt gerðist í veðri á árinu. Hafís var viðloðandi við land allt fram á sumar, en þó í talsvert minna magni heldur en 1965 og aftur næstu ár á eftir. Vindur mátti vart snúast til norðlægrar áttar án þess að frost yrðu mjög hörð. Sé blöðunum flett eru þar stöðugar fréttir af ófærð og samgönguerfiðleikum. Morgunblaðið segir frá slíku strax í upphafi árs, þann 3.janúar:
Mikil ófrð á Vestfjörðum, ... en þar lokaðist allt á gamlársdag. Þó er fært frá Ísafirði að flugvellinum, og unnið að mokstri frá kaupstaðnum til Bolungavíkur. Í Skagafirði, Eyjafirði og Þingeyjarsýslu er sama ástand og á Austfjörðum, alls staðar gífurlegt fannkyngi og ófærð, og vart fært nokkurs staðar.
Ritstjóri hungurdiska var um þessar mundir við nám á Akureyri og til að komast norður varð að fljúga. Það var í fyrsta sinn á ævinni að hann kom upp í flugvél. Í það skipti var flogið með DC-6 vél, sem var ekki það algengasta. Þann annan janúar voru ákveðin vandræði í flugi. Tíminn segir frá þann 4.:
KJ;Reykjavík, þriðjudag. Óvenjulega mikil þoka lagðist yfir Reykjavík og nágrenni um miðjan dag í gær [mánudag 2.], og þéttist stöðugt eftir því sem á daginn leið. Olli þokan miklum truflunum á flugsamgöngum, og urðu flugvélar að snúa frá flugvöllunum í Reykjavík og Keflavík, bæði í millilanda og innanlandsflugi. Þokan mun hafa verið einna þéttust um miðnættið hér í Reykjavík, og hafði þau áhrif á umferðina að ökumenn fóru sér hægar, enda skyggni slæmt, og ökumenn óvanir slíkum aðstæðum á götum borgarinnar. Það sem olli þokunni voru hitaskil [hitahvörf köllum við það nú] í lítilli hæð yfir jörðu, en rakt loft hafði borist inn yfir landið sunnan af sjónum. Úr lofti að sjá virtist ekki um mikla þoku að ræða, að minnsta kosti skartaði Reykjavík sínu fegursta þegar landhelgisgæsluflugvélin Sif flaug yfir með blaðamenn, en eftir lendingu kom í ljós að skyggni á jörðu niðri var mjög slæmt, og einkennilegt að sjá flugvélar koma inn til lendingar.
Framan af janúar voru þó hlýindi og úrkoma minnisstæðari en annað. Um tíma lék óvenjuhlýtt loft um landið.
Kortið sýnir stöðuna í 500-hPa að kvöldi þess 8.janúar. Þykktin er í hæstu hæðum, hefur sárasjaldan orðið svona mikil norðan við landið í janúarmánuði. Hiti fór í 15,0 stig í Hólum í Hornafirði og komst í meir en 10 stig á mörgum stöðvum á Vestfjörðum. Næstu dagar voru líka hlýir flestir. Þessa daga, 9. til 11. sáust mikil glitský um allt norðan- og austanvert landið. Var það í fyrsta sinn sem ritstjóri hungurdiska sá þetta merka fyrirbrigði.
Lægðir gerðust ágengari og þann 12. fuku hlöður, hey og eitthvað af gripahúsum í Hörðudal í Dölum og sama dag fuku þakplötur í Neskaupstað. Helgina 14. til 15. var mikil úrkoma sunnanlands og leysing um land allt. Við skulum líta á fréttir dagblaðsins Tímans af vatnavöxtunum, þótt langar séu - en styttum aðeins:
Tíminn þriðjudaginn 17.janúar:
Reykjavík, mánudag. Blaðamenn og fréttamenn Tímans öfluðu í dag frétta af hinum óvenjumiklu flóðum og vegaskemmdum, sem urðu víða um land nú um helgina, sunnanlands, vestanlands og fyrir norðan. Flóðin fylgdu í kjölfar mikils úrfellis á þessum landssvæðum og asahláku, sem kom á freðna jörð. Vatnssöfnunin varð því gífurlega mikil og á mörgum stöðum var sem hafsjór yfir að líta, en bæir stóðu upp úr eins og eyjar. Báðar Hvítárnar flæddu yfir bakka sína, Blanda lokaði Langadalsvegi. Vegna jakaburðar rofnuðu raflínur og símalínur. Af þeim sökum hafa Biskupstungur og Skeið verið rafmagnslaus í gær og í dag. Fyrir utan að vegir hafa víða rofnað, er brúin yfir Jökulsá á Sólheimasandi að hrynja, og óvíst, hvenær tekst að opna hana fyrir umferð.
Blaðamaður Tímans flaug í dag austur á flóðasvæðið á Skeiðum, og var þar sums staðar yfir að líta sem hafsjór væri. Margir bæir voru umflotnir vatni, eins og Austurkot í Hraungerðishreppi, Ólafsvallahverfið og Útverk á Skeiðum. Voru bændur og búalið í Ólafsvallahverfinu að flytja mjólk frá bæjunum og upp á veginn á litlum pramma, sem róið var á milli. Hross og sauðfé stóð á þurru við útihús, og voru ekki í neinni hættu. Er blaðið símaði þangað austur í kvöld, sagði Ingimar í Björnskoti, að vatn hefði komið í tvo kjallara, og hefði fólk staðið við austur í dag. Hann sagði, að þeir í Ó1afsvallahverfinu væru ekki óvanir flóðum, en þó væri þetta með því mesta sem kæmi. Flóðið náði þó ekki heyjum, og komst ekki í útihús.
Útverk á Skeiðum voru eins og eyja { hafi, þar sem húsin stóðu upp úr vatnshafinu. Þar er enginn um þessar mundir, svo að flóðið kemur ekki svo mikið að sök þess vegna. Fyrir austan gekk á með svörtum éljum í dag, og varð því ekki af frekari könnun á flóðasvæðinu úr lofti. Jakastífla var í Hvítá og veitti vatninu upp á undirlendið, og var mikill jakaburður í ánni úr lofti að sjá. Álftavatn hafði flætt yfir veginn við sumarbústaðahverfið, og voru jakahrannir við austurhluta vatnsins. Allir engjavegir og hliðarvegir voru umflotnir vatni eða á kafi. Í Flóanum hafa ekki orðið neinar verulegar vegaskemmdir, runnið hefur yfir Hamarsveg, og Gaulverjabæjarveg, en ekki skemmst að ráði, og einnig yfir Vorsabæjarveginn, og hann varð ófær í gær, en verið að laga hann í dag, rann úr nýgerðu ræsi.
Laugardalsvegur lokaðist fyrir neðan Eyvindartungu, vegurinn að Haukadal varð ófær fyrir neðan Neðra-Dal, og Gullfossvegurinn stórskemmdist ofan við Tungufljótsbrú. Þar festist mjólkurbíllinn svo illa, að jarðýta varð að koma honum til aðstoðar. Stórflóð með miklum jakaíburði varð við Hvítá, svo hún flæddi suður yfir Auðsholtsmýri með miklum jakaburði, og braut þar staura í háspennulínunni, sem liggur í Hreppa og Skeið, og varð þá rafmagnslaust um mestan hluta uppsveita Árnessýslu í gærmorgun, en komst þó á aftur vestan Hvítár eftir fimm klukkustundir en á 1. tímanum í nótt gerði mikið flóð í Brúará, og braut þá þrjá staura til viðbótar í háspennulínunni fyrir Biskupstungur og er rafmagnslaust þar, og verður í dag, þar sem viðgerð getur ekki hafist sökum mikils vatnsflóðs á þessu svæði. Svo hafa símastaurar við Tungufljót brotnað, í það minnsta tveir svo vitað sé.
Þetta eru einhver mestu flóð sem hafa komið síðast liðin tuttugu ár. Rafmagnsleysið veldur mjög miklum erfiðleikum alls staðar, en þó mestu á stóru kúabúunum, þar sem mjaltavélar eru stöðvaðar. Eru dæmi til þess, að bændur með 4050 kýr og lítinn mannskap eru mestan hluta sólarhringsins að mjólka. Einnig veldur miklum erfiðleikum, að víðast hvar ganga vatnsdælur fyrir rafmagni og sækja verður vatn í brúsum bæði fyrir kýr og fénað, einnig hefur kennsla í skólum fallið niður vegna rafmagnsleysisins. Pálmi Eyjólfsson á Hvolsvelli sagði að geysilegt vatnsveður hefði verið þar undanfarna tvo sólarhringa. Rignt hefur í logni og hiti verið átta til níu stig. Á Sámsstöðum í Fljótshlíð hefur verið úrkomumælir um áratugi, og hefur aðeins einu sinni mælst meiri úrkoma, en það var í september 1933, þá mældust 76 mm á sólarhring, en núna 68 mm á sólarhring. Í dag hefur verið unnið að því að kanna vegaskemmdir eystra, og eru vegir víða skemmdir. Þykkvabæjarvegur rann í sundur á móts við bæinn Hrafnstóftir, og er það 60 m skarð. Jeppar gátu brotist yfir með mjólk í dag, en mjólkurbíllinn fór ekki. Við Strandasýki, sem er á þjóðveginum til Reykjavíkur, rofnaði vegurinn, en strax var gert við skemmdirnar. Vegurinn í Fljótshliðinni er mikið skemmdur, og komust mjólkurbílar, sem aka þangað ekki nema móts við Uppsali í Hvolshreppi, þar var vegurinn í sundur og urðu þeir því að snúa við og aka austur Landeyjar og upp hjó Stóra-Dímon og í Fljótshlíðina. í Landhreppnum komust mjólkurbílar nokkurn veginn leiðar sinnar, þó er vegurinn grafinn á móts við Strandarhöfða, en hefur nú verið lagfærður. Í Austur-Landeyjahreppi lét sig brúarhol á afleggjara, sem liggur í Hólmarhverfið í A-Landeyjum. Mestu skemmdirnar hér um slóðir sagði Pálmi munu vera við Seljalandsá, en þar var byggð ný brú á ána í sumar. Hefur vatnsflaumurinn rofið um tíu metra skarð í uppfyllinguna vestan við brúna, og rann áin þar um. Í dag var byrjað að lagfæra skemmdirnar.
Hlaup kom í Markarfljót og rauf skarð í varnargarðinn við Þórólfsfell í Fljótshlíð. Skörðin voru þó ekki það djúp að rynni þar um eftir að sjatna tók, en ýtur eru nú á leið til að lagfæra skemmdirnar eftir hlaupið. Þá hljóp Gljúfurá við Hamragarða úr farvegi sínum, og raunin austur með þjóðveginum, en er nú komin í sinn venjulega farveg, og engar skemmdir urðu á veginum. Mjólkurbíll austan úr Vík komst ekkí leiðar sinnar við Seljaland.
Áin Klifandi rann yfir bakka sína á þjóðveginum austan við Pétursey. Komu skörð þar í veginn, en stórir bílar komust þar um í gær. Uppfyllingin við brúna á Skógá undir Eyjafjöllum mun eitthvað hafa látið sig, en ekki svo að umferð tepptist. Talið er að klaki sé að mestu úr jörð í Austur-Eyjafjallahreppi, og örlar fyrir grænni slikju á túnum vegna hita og úrkomu. Aftur á móti er mikill klaki í jörð í utanverðu héraðinu, og vegir því þungir og holóttir. Í gær byltu allir lækir og ár sér yfir bakka sína, í nótt stytti svo upp, og nú er grátt-fyrir, því gengið hefur á með éljum í dag.
Í nótt grófst undan einum stólpa um miðbik brúarinnar yfir Jökulsá á Sólheimasandi og í dag var hallinn á brúargólfinu orðinn 40 gráður og brúin öll skökk og skæld á kafla. Engir bílar hafa að sjálfsögðu farið yfir brúna í dag, og ferðir gangandi fólks voru takmarkaðar þar yfir vegna hins mikla halla á brúnni og hættu á að hún færi alveg. Í miklum vatnavöxtum á árinu 1965 fór stöpull undan enda brúarinnar, og var engin bílaumferð leyfð um hana í marga daga á meðan gert var við skemmdirnar. Skemmdirnar núna eru erfiðari viðfangs en þá, og má því búast við umferð verði ekki hleypt á brúna í nokkra daga a.m.k.
Engin umferð um Mýrdalssand. Mikið skarð er við eina brúna á Mýrdalsandi, sem er eiginlega beint suður af Hafursey. Stendur brúin þar í dálítilli kvos á sandinum, og 1015 metra skarð við brúna. Mikið vatn var þar í gær, en var farið að fjara í dag. Engin umferð mun hafa verið um Mýrdalssand í dag.
Frá því á sunnudagsmorguninn og þangað til um klukkan tíu í morgun var þjóðvegurinn á milli Síkisbrúnna í Borgarfirði ófær bifreiðum vegna skarðs, sem flóð hafði brotið í veginn og einnig var vegurinn við Hvítárvelli undir vatni. Umferðinni var beint um Kljáfossbrúna á meðan vegurinn beggja megin Ferjukots var ófær, en í dag var umferðin um aðalþjóðveginn að færast í eðlilegt horf. Í gær komst klakastífla í Grímsá og flæddi þá yfir veginn hjá Hesti. Klakastíflan brast í nótt og við það jókst vatn töluvert í Hvítá. Frá Kolási voru Stafholtstungurnar yfir að líta eins og hafsjór í gær, en í dag var vatnið mikið farið að sjatna, en jakar víða. Sævar Guðmundsson í Arnarholti í Stafholtstungum sagði, að skarð hefði komið í þjóðveginn fyrir ofan bæinn í gær, en núna væri orðið sæmilega fært þarna um. Hann sagði, að þetta væri með meiri flóðum, sem kæmu þarna, en nú væri mikið farið að sjatna í. Ekki náði flóðið útihúsum eða íbúðarhúsum, þar sem þau standa hátt, en flóðið náði um mýrar á milli bæja. Sveinn Jóhannsson að Flóðatanga í Stafholtstungum sagði, að mikið af jökum hefði borist upp á veginn neðst í Stafholtstungunum. Svona flóð væru ekki óalgeng á þessum slóðum. Frá Sólheimatungu í Stafholtstungum fengust þær fréttir, að bakkar Norðurár hefðu farið í kaf, og væri þetta með mestu vetrarflóðum þar um slóðir, en vorflóð væru þó hærri. Flóðið náði hámarki sínu í gærkvöldi, en var farið að sjatna mikið í dag. Reykjadalsá í Miðdölum, Dalasýslu flæddi yfir veginn og urðu skemmdir á honum þar en ekki þó mjög alvarlegar, að því er talið er.
Þormóður Pétursson, verkstjóri á Blönduósi, sagði blaðinu, að í nótt hefði Blanda rutt sig og lokað Langadalsveginum. Flæddi hún yfir veginn á fjórum stöðum á um 100 metra kafla. Setti Blanda í sig miklar klakastíflur frammi í dalnum. Mikil klakahrönn er á veginum, og mikið magn af vatni rennur nú yfir veginn. Liggur klakahrönnin yfir allt láglendið og yfir veginn rétt hjá Æsustöðum í Langadal. Þormóður kom að veginum, þar sem áin flæðir yfir hann, um kl. 15 í dag, og var þá mikið vatn á veginum og klakahrönn. Þá lokaðist Svínadalsvegurinn einnig, vegna úrrennslis á tveim stöðum. Í dag var gert við veginn, og var hann fær í kvöld. Annars sagði Þormóður, að skemmdir á öðrum vegum væru litlar, einungis smávegis úrrennsli. Hefðu vegirnir yfirleitt sloppið vel í þessum miklu leysingum.
Í Skagafirði eru vegir sundurskornir á nokkrum stöðum, en hvergi munu þeir þó vera alófærir. Mikill vatnselgur hefur verið á veginum yfir Vallabakka í Hólmi, en stærri bílar og jeppar hafa komist þar um. Héraðsvötnin flæddu yfir veginn hjá Völlum á stóru svæði í gær og í dag. Asabálka var í Skagafirði á laugardaginn og á sunnudaginn rigndi mikið, en flóð eru víðast hvar í rénum núna. Rann víða úr vegum. Blaðið hafði tal af Guðmundi Benediktssyni vegaverkstjóra á Akureyri, og sagði hann að á tveim stöðum í sinu umdæmi hefðu orðið alvarlegar vegaskemmdir af völdum vatnavaxta, en á mörgum stöðum hefði runnið úr vegum og yfir þá. Alvarlegustu skemmdirnar hafa orðið á Köldukinnarvegi við Ófeigsstaði, þar sem vatn flæðir yfir veginn á um 70 metra kafla og við brúna á Skjálfandafljóti. Hjá Stóruvöllum í Bárðardal var vatn að brjóta stórt skarð í veginn seinnipartinn í dag. Guðmundur sagði, að þessar vegaskemmdir væru ekki fullkannaðar, þar sem vatnið er mjög gruggugt og erfitt að átta sig á vegaskemmdunum sem stendur, en það yrði gert á morgun. Svarfaðardalsá flæddi yfir þjóðveginn og sömuleiðis Hörgá, en ekki svo að umferð stöðvaðist um vegina.
Tíminn heldur áfram að segja frá flóðunum þann 18. janúar:
KJ Reykjavík, þriðjudag. Alls urðu 275 bæir í Árnessýslu rafmagnslausir er jakaburður braut rafmagnslínustaura við Brúará og í Auðholtsmýri. Í dag komst rafmagnið aftur á á um 100 bæjum í Grímsnesi og Biskupstungum, og í kvöld eða fyrramálið fá bæir á Skeiðum og í Hreppum rafmagn frá dieselrafstöð sem verið er að setja upp að Flúðum í Hrunamannahreppi. Guðjón Guðmundsson deildarstjóri hjá Raforkunálaskrifstofunni fór ásamt fleirum í dag í þyrlunni EIR, og könnuðu þeir aðstæður til viðgerðar, en vont er að komast þarna um vegna vatnselgs.
Í þessum langa texta var minnst á hlaup í Markarfljóti - rétt í framhjáhlaupi. Í ljós kom að það var óvenjulegra heldur en allir aðrir vatnavextir þessa daga.
Innstihaus, fjallhnjúkur við Steinsholtsjökul (í norðurhliðum Eyjafjallajökuls) hrundi sunnudaginn 15. janúar. Tíminn segir þann 24. janúar:
Jökulhlaupið kom að Markarfljótsbrú rétt fyrir kl. 4 um daginn, og mun það því hafa tekið um tvo tíma að brjótast undan jöklinum og fara niður Markarfljótsauranna að brúnni. Taldi Guðmundur [Kjartansson], að þetta væri ekki ósennilegt. Guðmundur sagði, að rætur Innsta-hauss, sem er eins og þverhníptur veggur upp frá ísröndinni, væru í um 300 metra hæð yfir sjávarmál, en toppur haussins væri í um 700 metra hæð. Væri sjálft fjallið því 300400 metrar, og mætti segja, að klofnað hefði framan af fjallinu, frá toppnum og niður úr. Virðist svo, sem þessi spilda hafi gengið út að neðan líklega sem heilleg hella og hún sunkað" niður í lónið sem væntanlega hefur verið undir jöklinum. Til þess að þessi fjallshluti kæmist ofan í lónið varð jökullinn að færast til hliðar.
Um þennan mikla atburð má lesa í ítarlegri grein sem Guðmundur Kjartansson ritaði í Náttúrufræðinginn (3-4 tölublað 1968, byrjar á s. 120), við rekjum hann ekki frekar hér.
Þann 27. janúar gerði mikið austanveður. Þak fauk af hlöðu á Úlfsstöðum í Blönduhlíð í Skagafirði og hluti af kornhlöðu fauk á Sámsstöðum í Fljótshlíð. Skip slitnuðu upp í Vestmannaeyjum. Fyrri hluti febrúar var mjög illviðrasamur og miklar fréttir af samgöngutruflunum og hrakningum ferðalanga í blöðum. Hefur veður í kringum 11.febrúar 1967 komið við sögu á hungurdiskum áður og verður sú umfjöllun ekki endurtekin hér.
Ekki voru þó allir óánægðir með tíðarfarið, betri dagar greinilega innan um. Tíminn segir frá 18. mars (hvers vegna fréttin birtist ekki fyrr er ekki ljóst, þorranum lauk 18. febrúar):
Þorrinn var óvenju mildur að þessu sinni og góa heilsaði með hlýindum. Um miðjan febrúar voru komnir blómhnappar á vetrargosa, dvergliljur og vorboða sunnan undir húsveggjum í Reykjavík og blöð margra garðblóma voru farin að spretta. Grænir flekkir sáust í grasblettum og brum byrjuðu að þrútna á sumum trjám og runnum. En síðustu sólarhringana í febrúar gerði 69° frost, sem stöðvaði þorragróðurinn". 4. mars var komin hláka og laukblómin héldu áfram að vaxa eins og ekkert hefði í skorist. 8. mars var komið föl á jörð, en ekkert bítur það á þessi harðgerðu fjallablóm, sem við ræktuðum í görðum okkar.
Mikil ótíð var í mars. Tíminn segir af snjó og ófærð þann 3.:
Mikið fannfergi er á Austur- og Norð-Austurlandi og samgöngur mjög slæmar. Verst mun ástandið vera á Raufarhöfn og nærsveitum, en þar hafa samgöngur að mestu legið niðri í marga daga. Þegar Tíminn hafði tal af fréttariturum sínum á þessum slóðum, geisaði þar enn stórhríð og ekki viðlit að halda vegum opnum. Á Raufarhöfn er mjólkurlaust orðið, og sloti veðrinu ekki innan skamms fá þorpsbúar ekki mjólk fyrr en strandferðaskipið Blikur kemur þar, en það er ekki væntanlegt fyrr en eftir viku. Vart er fært milli húsa í þorpinu, en reynt hefur verið að halda aðalvegunum þar opnum með snjóplóg til að hægt sé að koma olíu í húsin. Sum húsin hefur nærri fennt í kaf, og á einum stað þurfti maður að skriða út um glugga á efri hæð húss til að komast út. Á Þórshöfn er ástandið nokkuð skárra, en þó hvergi nærri gott, og bátar þaðan hafa ekki getað stundað veiðar um hálfsmánaðarskeið vegna gæftaleysis. Talsverðir samgönguerfiðleikar hafa einnig verið á Austurlandi. Snjó kyngir niður jafnskjótt og vegir hafa verið ruddir, og samgöngum er að mestu haldið uppi á snjóbilum. Fjallvegir eru vitaskuld allir lokaðir.
Þessa daga voru einnig fréttir af ís, Tíminn segir m.a. þann 5. mars:
Í nótt færðist ísinn töluvert suður eftir Vestfjörðum og í morgun voru ísjakar reknir á fjörur við Sæból á Ingjaldssandi. Látlaus snjókoma er fyrir vestan og skyggni mjög slæmt og því erfitt að segja um hve mikill ís er úti fyrir landinu. Samkvæmt upplýsingum Veðurstofunnar er hér um að ræða ísspangir á reki en aðalísinn er fjær landinu. Vélbáturinn Mímir tilkynnti í nótt um jaka á reki út af Galtarvita og sáust þeir ekki i radar. Undan Stigahlíð er íshröngl en ekki sér nema. um 200 metra frá landinu. Í Látravík er breið ísspöng landföst og ís á reki fyrir utan og ís er út af Straumnesi og austur fyrir Kögur. Ekki er hægt að fara í ískönnunarflug vegna veðurs og því ógjörningur að segja hve mikill ís er úti fyrir en íshröngl er á öllum siglingaleiðum fyrir Vestfjörðum.
Margir muna e.t.v. enn eftir stórbruna sem varð við Lækjargötu og Vonarstræti í Reykjavík þann 10. mars.
Myndin sýnir annars vegar mun á hæsta og lægsta sjávarmálsþrýstingi á landinu (þrýstispönn) á 3 stunda fresti frá 13, mars 1967 og út mánuðinn(ljósblátt þreparit), en hins vegar lægsta þrýsting á landinu á sama tíma (gulbrúnn ferill). Snemma í mánuðinum komu nokkrir rólegir dagar (5. til 8.), en síðan tók við mjög órólegt veður. Dagana 13. til 20 gekk yfir mikill illviðrakafli, fjórar stórar lægðir gengu hjá með og blés af ýmsum áttum. Hvert þessara illviðra stóð þó ekki lengi. Þann 21. til 23. var aftur rólegt veður, en síðan gerði mjög hvassa norðanátt, páskahret, sem stóð í 3 til 4 daga. Náði hámarki á laugardag fyrir páska og á páskadag (26.). Síðustu daga mánaðarins var ekki hvasst.
Ung veðurnörd máttu hafa sig við ef fylgjast átti með atburðum. Upplýsingar lágu ekki alveg á lausu. Veðurskeytalestur útvarpsins mikilvægastur ásamt veðurkortum Morgunblaðsins. Veðurfregnir voru nýhafnar í sjónvarpi, en útsendingar náðu ekki til landsins alls og voru þar að auki ekki daglegar.
Þetta kort birtist í Morgunblaðinu laugardaginn 18. mars, í lægðafárinu miðju. Lægð númer tvö í syrpunni rétt gengin yfir. Miklar fréttir voru í blöðunum af veðri þessa daga. Við grípum niður í fáeinum fréttum Tímans:
14.mars: Reykjavík mánudag [13. mars]: Versta veður var á SV-landi kvöld og voru vegir víða ófærir. f Vestmannaeyjum hefur verið blindhríð í allt kvöld, rafmagnslínur hafa slitnað, þak fauk af hænsnahúsi og tveir bátar héldu sjó fyrir utan Eiðið. Heldur er óvenjulegt að blindhríð geri í Eyjum, en í kvöld var þar orðinn þæfingur á götum og ekki fært bílum sums staðar. Nokkrir bátar réru í morgun og komust þeir allir í höfn nema tveir, Stígandi VE og Magnús IV., er áður hét Stígandi, og héldu þeir sjó fyrir utan Eiðið, en 13 vindstig mældust á Stórhöfða. Mörg sjónvarpsloftnet brotnuðu í veðrinu, og þar sem þau stóðu af sér veðrið lýsti af þeim, og var líkast því sem ljósagangur væri um allan bæ, en sumir hlutar hans voru rafmagnslausir, vegna þess að loftlínur höfðu slitnað. Vegurinn milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur var um það bil að lokast fyrir minni bíla í kvöld á Arnarneshæðinni og í Silfurtúni, en vegagerðarmenn komu með moksturstæki og ruddu veginn. Má búast við að skafið hafi fljótlega í slóðina Mikil hálka var á Keflavíkurveginum nýja, en færð sæmileg. Aftur á móti var vegurinn til Grindavíkur að lokast, og ekki búist við að hann yrði ruddur fyrr en í fyrramálið. Hér í Reykjavík skóf nokkuð, og sums staðar urðu umferðartafir, en ekki þó alvarlegar. Einn bíll fór útaf í Ártúnsbrekkunni af völdum hálku en þeir sem í bílnum voru sluppu ómeiddir.
17.mars: Enn eru vegir tepptir víða um land vegna snjóa og segja má að allir vegir á Norður- og Austurlandi séu ófærir allt frá Skagafirði austur um land og suður á Lónsheiði. Mikill snjór er á Vestfjörðum sérstaklega á norðanverðum kjálkanum og liggja þar niðri allar samgöngur á landi. Í dag voru stórir bílar aðstoðaðir við að komast frá Skagafirði til Reykjavíkur og norður á Strandir. Á morgun verða allir aðalvegir um Snfellsnes ruddir og opnast þá Kerlingarskarð og Fróðárheiði. En Ennisvegur milli Hellissands og Ólafsvíkur verður ekki ruddur. Miklar snjóhengjur hafa myndast ofan við veginn og er hætta á snjóflóðum, og þykir ekki ráðlegt að fara þá leið. Flestir vegir á Suðurlandi eru færir allt austur að Vík í Mýrdal.
21.mars: Mikið hvassviðri gekk yfir landið um síðustu helgi [18. til 19.] og olli víða skemmdum á rafmagns- og símalínum. Ófærð var víða um landið og flugsamgöngur lágu niðri innanlands. Veðurofsinn gekk að mestu niður í dag og síðari hluta dagsins var flogið til margra staða sem hafa verið einangraðir í allt að vikutíma. Þegar leið á daginn voru rafmagnslínur komnar í samt lag og sömuleiðis flestar símalínur. Ekki er kunnugt um að aðrir skaðar hafi orðið vegna veðursins. Fáir bátar voru á sjó og komust þeir allir til hafnar. Um 17 bátar leituðu vars í Rifshöfn á Snæfellsnesi og á Patreksfirði voru 20 bátar í höfninni í gær, þar af sjö heimabátar. Allir Eyrabakkabátar leituðu hafnar í Vestmannaeyjum, nema einn er í Þorlákshöfn og einn annar í heimahöfn og kemst ekki út vegna hafróts. Bátarnir sem ráku upp á Stokkseyri fyrir helgi eru báðir taldir ónýtir og hafa verið teknir á leigu tveir bátar til að vetrarvertíð leggist ekki niður á Stokkseyri, þeir eru Stefnir frá Hafnarfirði og Þorgrímur frá Þingeyri. Hólmsteinn og Hásteinn liggja enn á legunni við Stokkseyri og er ekkí hægt að koma þeim út vegna brimsins, en þegar gefur verður farið með þá til Vestmannaeyja til viðgerðar. Bjarmi II. liggur enn á fjörukambinum og er ekki í hættu. Vélbáturinn Auðunn GK-27 fékk á sig sjó út af Jökli á sunnudag. Brotnuðu rúður í brúnni og biluðu loftskeyta og fiskileitartæki bátsins. Tveir menn voru í brúnni þegar ólagið skall á og sluppu þeir báðir með smáskrámur. Skipverjar voru nýbúnir að taka upp netin þegar sjórinn reið yfir og voru með rúml. 15 lestir af fiski. Báturinn sigldi í var og ætluðu skipverjar að taka upp þau net sem enn voru í sjó og sigla til Hafnarfjarðar þegar veður batnar.
Á Raufarhöfn er fannfergi og hefur verið þar blindhríð síðan fyrir helgi. Sjúkraflugvél Tryggva Helgasonar hefur verið veðurteppt þar síðan á fimmtudag, en niðurkoman er svo mikil að ekki er viðlit að ýta snjó af flugvellinum, fyrr en hríðinni slotar. Flugvélin er vel bundin niður og er henni ekki hætta búin. í dag var flogið til Patreksfjarðar og höfðu þá allar flugsamgöngur legið niðri í vikutíma. Rafmagnstruflanir urðu á suðvestanverðu landinu á laugardag og sunnudag. Orsakaðist það af bilun í aðalrofa í Elliðaárstöðinni. Á sunnudagskvöld bilaði Hafnarfjarðarlínan og þar með línan í sendistöð útvarpsins á Vatnsenda og féllu útvarpssendingar niður í 15 mínútur. Á sunnudag urðu miklar rafmagnsbilanir í Rangárvallasýslu. Bilunin varð á linunni frá Hellu til Hvolsvallar. Varð það svæði og austur til Víkur í Mýrdal rafmagnslaust mikinn hluta dagsins. Símatruflanir urðu víða á Norður- og Vesturlandi en flestar símalínur voru komnar í lag upp úr hádegi í dag. í morgun var fjölsímalínan milli Brúar í Hrútafirði og Akureyrar biluð. Þá bilaði línan milli Brúar og Hólmavikur. Línan milli Brúar og Patreksfjarðar hefur verið biluð síðan fyrir helgi og er enn ekki komin í lag. Þá er línutruflun milli Húsavíkur og Raufarhafnar, en sambandið ekki alveg rofið. Í morgun var símalínan milli Hafnar og Hornafjarðar og Víkur í Mýrdal biluð en gert var við hana í dag. Flestar þessar línubilanir hafa orsakast vegna samsláttar á línunum í rokinu. Línan milli Patreksfjarðar og Brúar er sennilega slitin.
Ástandið í vegamálum er svipið og fyrir helgi. Fært er um Suðurland allt til Víkur í Mýrdal, en ekki nema stórum bílum austur fyrir Mýrdalssand. Frá Reykjavík er fært upp í Borgarfjörð og vestur á Snæfellsnes, en fjallvegir þar eru ófærir. Kerlingarskarð og Fróðárheiði verða opnuð í dag og svo og Brattabrekka vestur í Dali. Á Vestfjörðum er mikið fannfergi og flestir vegir þar ófærir. Á morgun verður Holtavörðuheiði rudd norður í Skagafjörð og stórir bílar verða aðstoðaðir norður Strandir til Hólmavíkur. Á miðvikudag reynir Vegagerðin að aðstoða stóra bíla yfir Öxnadalsheiði og yfir í Eyjafjörð. Á Austurlandi eru nær allir vegir ófærir. Vegagerðin mun reyna að opna aftur leiðina til Skagafjarðar á fimmtudag og síðan aftur 23. þessa mánaðar.
En síðan kom smáhlé. Frétt sem birtist í Tímanum 23. mars (á skírdag) sýnir vel hversu erfitt var að spá um veður á þessum árum, hvað þá meir en sólarhring fram í tímann. Þættu það viðbrigði nú ef skipti til sömu hátta. Væntanlega hefur verið rætt við Veðurstofuna daginn áður.
Tíminn 23.mars:
Veðurútlit um páskahelgina er gott víðast hvar um landið. Samkvæmt upplýsingum Veðurstofunnar eru horfur á norðlægri átt sem væntanlega stendur fram yfir páska. Á Suðurlandi má reikna með að veðrið verði gott, hægviðri og sólskin. Norðanlands mun ganga á með éljum en sennilega verður veður þar gott að öðru leyti. Erfitt er að spá um veðurfar langt fram í tímann um þetta leyti árs og geta einhverjar breytingar á orðið en mestar líkur eru á að þessi spá standist. Færð á vegum er yfirleitt góð á Suður og Vesturlandi og er fært á litlum bílum um Suðurnes, um Þrengsli austur í Árnes- og Rangárvallasýslur austur að Vík.
Rétt var getið til um vindátt, en góðviðrisspáin fór algjörlega í vaskinn. Á skírdag (23.) snjóaði mikið allvíða, éljabakkar virðast hafa gengið yfir. Á föstudaginn langa fór veður mjög versnandi og gerði mikla hríð um stóran hluta landsins. Stóð þetta veður í hátt í fjóra sólarhringa. Ofankoma var ekki mjög mikil syðra, en þar skóf hins vegar mikið og samgöngur tepptust algjörlega. Er þetta næstöflugasta páskahret sem ritstjóri hungurdiska man, næst á eftir hretinu mikla 1963. Það bar þó allt öðru vísi að. Miklir kuldar höfðu verið ríkjandi nær allan marsmánuð. Frost á landsvísu náði hámarki á skírdag, þegar meðallágmarkshiti á landinu var -12,9 stig. Mikið frost hélst út mánuðinn.
Kortið sýnir páskahretið í hámarki, kringum hádegi á páskadag, 26. mars. Nær sama vindátt var í háloftum og við jörð, en hægari vindur efra.
Morgunblaðið rekur páskaveðrið í pistli þann 29. mars (miðvikudag eftir páska:
Páskarnir í ár voru fyrr en undanfarin ár og var veður um allt land mjög slæmt. Samkvæmt upplýsingum, sem Morgunblaðið fékk í gær hjá Jónasi Jakobssyni, veðurfræðing, var veður um hátíðina svipað um land allt og einkum slæmt hvað veðurhæð og frost snertir. Frost var alls staðar á landinu frá skírdag og fram á annan í páskum og allt upp í 10 stig, sem var eitt það mesta sem verið hefur á landinu í vetur. Á annan í páskum var mikil hríð á Norður- og Austurlandi, en úrkomulaust á Suðurlandi. Mikill skafrenningur var á Suðurlandi alla hátíðina, einkum föstudag og laugardag meðan mikið var um lausan snjó. Jörð var alhvít um land allt. Þessum mikla veðurofsa ollu djúpar lægðir austan undan Noregsströndum og mikil hæð yfir Grænlandi. Yfir alla hátíðina var djúp lægð á sveimi yfir hafinu á milli Noregs og Íslands, en hæð eins og fyrr getur yfir Grænlandi. Sökum þess lagði sterkan breiðan loftstraum norðan úr íshafi meðfram austurströnd Grænlands, þar sem er mjótt autt belti milli hafíssins norðanundan og lands, þá var frostharkan yfir hátíðina eins mikil og raun var á. Hafís barst að landinu norðan frá ísröndinni á öll svæðin frá Melrakkasléttu að Bjargtungu [svo]. Veðurstofan spáir nú góðu veðri framundan með nýrri lægð, sem er að myndast yfir Grænlandshafi.
Til þess að gera yfirlit um veðrið um hátíðina verður hér greint frá veðrinu um nónbil dag hvern. Á skírdag var hæg norðanátt yfir landinu, en léttskýjað á Suðurlandi. Frost var frá 28 stig á láglendi. Í Reykjavík var 2 stiga frost. Á föstudaginn langa var veður orðið mun verra um land allt. Veðurhæðin var meiri, víðast 58 vindstig, snjókoma víða á Suðurlandi og í útsveitum norðanlands og vestur á Firði, en þurrt var á Suðurlandi og talsverður skafrenningur víða. Frost var þá á Suðurlandi, 12 stig, en á Norðurlandi 710 stig. Í Reykjavík var á 4 stiga frost. Laugardaginn 25. var komið 8 stiga frost í Reykjavík. Á Norður- og Suðurlandi var talsverð snjókoma og frost víða 710 stig. Á páskadag var veðrið mjög svipað og norðanlands og daginn áður, mikil snjókoma norðanlands, en bjart fyrir sunnan. Á annan í páskum var 5 stiga frost í Reykjavík, norðanátt um land allt og mjög hvasst. Í gær [þriðjudag 28. mars] var veður betra, víða logn og sólskin.
Á annan páskadag [27.] féll snjóflóð úr Bjólfinum á Seyðisfirði og á mjölskemmu. Lagðist skemman saman, fleiri snjóflóð féllu í firðinum.
Þess má geta að í dymbilvikunni urðu miklar slysfarir á fjöllum í Noregi, bæði í Jötunheimum sem og á Saltfjalli í Nordlandfylki. Fjórtán urðu úti og margir björguðust naumlega. Voru þessir ólukkupáskar oft nefndir meðal veðurfræðinga og veðurfræðinema á tíð ritstjórans í Noregi fáeinum árum síðar - og eru ábyggilega enn.
Fyrstu dagar aprílmánaðar voru heldur hlýrri, og þann 6. til 7. gerði góða hláku. Hún var að vísu ekki mjög góð að því leyti að hún olli bæði miklum leysingaflóðum og ófærð á vegum. Á þessum árum óðust allir vegir upp í drullu og for og urðu algjörlega ófærir minni bílum.
Í blöðum eru fjölmargar fréttir af vatnavöxtum og skemmdum vegum þessa daga. Við veljum eina þeirra, nánast af handahófi. Hún birtist í Tímanum 14. apríl:
Vegir um land allt eru nú yfirleitt ófærir með öllu öðrum farartækjum en jeppum og létthlöðnum flutningabílum. Þetta ástand veganna skapast af vatnselg af völdum úrkomu og leysinga, aurskriður hafa víða fallið yfir vegi, ræsi flæða yfir þá og mikil úrföll eru víða úr vegunum. Sum staðar er ástandið svo slæmt að starfsmenn Vegagerðar ríkisins geta ekkert gert til að gera við vegina að sinni og verða að bíða eftir að þorni. Gífurleg vatnsflóð eru á Snæfellsnesi og Dalasýslu og margir vegir þar ófærir öllum farartækjum. Sérstaklega er útnesjavegur illa farinn og sífelld skriðuföll eru á Ennisvegi milli Ólafsvíkur og Hellissands. Mikil úrföll eru á veginum yfir Fróðár(heiði) og í Fróðárhreppi er vegurinn víða undir vatni. Skógastrandarvegur er lokaður hjá Ósi vega vatnavaxta. Á Vestfjörðum eru vegirnir einkum illa farnir vegna skriðufalla og aurbleytu. Samgöngur milli fjarða liggja þar víðast niðri. Í Húnavatnssýslu og Skagafirði er ástand nokkru betra, en talsvert hefur rignt þar í dag og fara vegir versnandi. Í Langadal hefur Blanda flætt yfir bakka sína og lokað veginum. Ekkert hefur rignt í Eyjafjarðarsýslu og Þingeyjarsýslum, en þar er 11 stiga hiti í dag og miklar leysingar, og vegir illa farnir af aurbleytu og úrrennslis, en víðast hvar færir. Á Dalvíkurvegi skarst vegurinn sundur þar sem ræsi flaut yfir hann. Þegar starfsmenn Vegagerðarinnar komu þar til að .gera við var bíll kominn ofan í ræsið og munu einhver slys hafa orðið á fólki, ók bílinn á fullri ferð út í vatnselginn og áttaði bílstjórinn sig ekki á að djúpur skurður var yfir þveran veg fyrr en um seinan. Á Austurlandi er ástandið í vegamálum hvað best og ekki teljandi tjón af leysingum það sem komið er. Sæmilega er fært um Suðurland til Víkur í Mýrdal á jeppum og stærri bílum en mikið rigndi þar í dag og fóru vegir versnandi.
Daginn eftir var fjallað um flóð í Hvítá í Árnessýslu og leysingaflóð fyrir norðan. En vorið var ekki komið því að um miðjan mánuð kólnaði verulega aftur og við tóku einhverjir köldustu apríldagar sem ritstjóri hungurdiska man eftir - meðallágmarkshiti á landsvísu var -11,9 stig þann 17., -11,3 þann 18. og -10,1 þann 22. Vantaði ekki mikið upp á hörkuna á páskahretinu 1963, en vindur var þó hægari en þá. Man ritstjórinn ekki betur en að útskriftarnemendur MA þetta vor hafi ekið um bæinn á dráttarvélum og heyvögnum þann 19. (daginn fyrir fyrsta sumardag) til að kasta kveðju á kennara sína. Er óvíst að sú athöfn hafi nokkru sinni farið fram í kaldara veðri - en þó var hríðarlítið þann dag.
Þann 22. apríl urðu töluverð tímamót í veðurspám hér á landi þegar tekið var á móti gervihnattamynd beint í fyrsta sinn. Það var útibú Veðurstofu Íslands, flugveðurstofan á Keflavíkurflugvelli sem naut fyrst góðs af. Myndir þessar bárust nú ótt og títt, en í fyrstu aðeins á sýnilegri rás. Innrauðar rásir bættust við síðar og var það mesta framförin. Þrátt fyrir að fyrstu myndirnar væru oft ógreinilegar og illráðanlegar voru þær samt ómetanlegar í leit veðurfræðinga að veðrakerfum sem áður gátu týnst gjörsamlega - eða myndast óvænt yfir Atlantshafi á leið til landsins. Auðvitað tók nokkurn tíma að læra að ráða í myndirnar. Á þessari mynd sést meginísjaðar norðan við land allvel, en mun síður miklar ísdreifar nær landi. Nokkur tími leið þar til veðurfræðingar í Reykjavík gátu notið myndanna, en úr því var bætt.
Maí var sólríkur syðra, en suddasamur og kaldur á Norðurlandi. Meðalhiti mánaðarins í Grímsey var 0,1 stig og -0,2 stig í Skoruvík á Langanesi. Allar meðalhitatölur ársins má finna í viðhenginu.
Tíminn segir af hríð í maí þann 6.:
Reykjavík, föstudag [5.maí]. Þótt komið sé fram í maímánuð og sumardagurinn fyrsti löngu um garð genginn, lætur vorið enn bíða eftir sér. Í gærdag snjóaði mikið á Suðvesturlandi og ísrek er fyrir Norðurlandi, ísjaka rekur á fjörur á Langanesi. Í gærmorgun [4.] snjóaði mikið á nokkru svæði sunnan- og vestanlands. Talsvert snjóaði í Reykjavik en snjóinn tók af eftir nokkrar klukkustundir. Aftur á móti snjóaði mun meira í fjöll í nágrenninu og lokaðist Hellisheiði um tíma. Mönnum var ráðlagt að fara ekki úr bænum á litlum bílum. Þegar leið á daginn, var heiðin rudd og eru nú allir vegir færir. Samkvæmt upplýsingum Veðurstofunnar lá hríðarbeltið eftir Reykjanesfjallgarði, innan við Hvalfjörð og upp í Borgarfjörð Beggja megin við það var heiðskírt og besta veður. Þar sem hríðarbeltið náði yfir var mikil niðurkoma og á Hólmi mældist snjólagið um 40 sentímetra þykkt í gærkveldi. Er það nálægt 20 mm úrkoma. Í dag hlýnaði í veðri og má búast við að snjóinn taki fljótlega af. ... Í Skoruvík á Langanesi hefur talsvert af ís rekið á fjörur. Úti fyrir ströndinni er rekís á siglingaleið og lengra úti í hafi sjást þéttari ísspangir. Rekís er dreifður á siglingaleiðum úti fyrir Hornbjargi og sést meiri ís úti fyrir. Ef núverandi vindátt helst, er líklegt að ísinn reki frá landinu. Að þessu sinni vorar óvenju seint hér á landi og er sömu sögu að segja um norðanverða Evrópu. Er vorið þar 23 vikum seinna á ferðinni en endranær.
Morgunn í maí. Ritstjóri hungurdiska var á leið frá Akureyri suður í Borgarfjörð þennan dag. Kuldi var um allt Norðurland og þarna um morguninn líka í Borgarfirði. Hiti um og ofan við frostmark yfir ísasvæðum Húnaflóa. Hámarkshiti dagsins á Horbjargsvita var 1,5 stig og um 3 stig í Hrútafirðinum. Austar á Norðurlandi varð sæmilega hlýtt síðdegis, hiti komst í 11,6 stig á Akureyri. Hæsti hámarkshiti dagsins var 14,5 stig á Víðistöðum í Hafnarfirði. Eftirminnileg aurbleytan á Hrútafjarðarhálsi sem og hinn mikli munur á vorgróðri við Hrútafjörð og í Borgarfirði.
Fyrir miðjan júní urðu aftur mikil leysingaflóð á Norðurlandi með skemmdum á vegum og landi. Síðar í mánuðinum voru sagðar fréttir af kalskemmdum í túnum um landið norðanvert.
Snemma í júlí gerði mikið úrhelli um landið norðvestanvert, sérstaklega á Ströndum. Mældist úrkoma á Hornbjargsvita (85,5 mm) og Kjörvogi (71,1 mm) meiri en fyrr og síðar í júlímánuði.
Tíminn segir frá 11. júlí:
Hér i Árneshreppi hefur verið gífurleg rigning síðustu daga og vegaskemmdir geysimiklar. Á Kjörvogi mældist úrkoman frá kl. 18 á laugardag til kl. 9 á sunnudagsmorgun 64,3 mm. Eru allir vegir ófærir, en stór stykki hafa runnið úr þeim á mörgum stöðum, einkum í Kleifunum. Eru viðgerðir þegar hafnar, en taka mun nokkra daga að gera vegina umferðarhæfa. Skriður hafa víða fallið hátt úr fjallshlíðunum yfir vegina og niður i sjó. Eru á nokkrum stöðum stórir haugar i flæðarmálinu. Hér í víkinni lenti skriða í vatnsbóli því, er bæirnir hér kring fá vatn úr. Stíflaðist vatnsleiðslan, sem er um km á lengd af aur, og er viðbúið að rífa þurfi upp alla leiðsluna til þess að hreinsa hana.
Í Tímanum 18. júlí er frétt um kólnandi veðurfar í heiminum. Hún er of löng til að hafa eftir hér en þó segir m.a.:
Veðurspáin fyrir árið 2000 gerir ráð fyrir kaldara veðri í heiminum en á þessu ári og á hitastigið að fara lækkandi ár frá ári. Virtustu vísindamenn á sviði veðurfræði telja að hin hægfara hækkunar tilhneiging hitastigsins á fyrra helmingi þessarar aldar hafi nú náð hámarki og nú hefjist lækkunin niður á við. Mun það hafa víðtækar efnahagslegar og þar af leiðandi pólitískar afleiðingar og áhrif. Bandaríski veðurfræðingurinn, dr. Murrey Mitchell, sem er í vísindaráði bandarísku stjórnarinnar hefur lýst þvi yfir í viðtali við vikuritið US News and World Report, að jörðin hafi smám saman verið að kólna síðan 1940. Dr. Mitchell gerir ráð fyrir aukningu jöklanna á Norðurhveli og muni það hafa í för með sér versnandi siglingaaðstöðu um nyrstu höf. Erfiðleikar munu skapast í heimskautahöfnum Sovétríkjanna og Kanada og í bandarískum höfnum í Norður-Alaska. ... Við erum því ekki á leiðinni inn í nýja ísöld, en hins vegar verðum við að gera ráð fyrir, að lækkun hitastigsins muni hafa veruleg áhrif á plöntu og dýralíf á hinum ýmsu svæðum jarðar.
Í síðari hluta júlí gerði allmikið hret og hálku gerði á fjallvegum norðaustanlands. Á Grímsstöðum á Fjöllum snjóaði.
Í júlílok urðu talsverðir jarðskjálftar á Suðurlandi. Upptökin voru nærri Villingaholti í Flóa. Stærstu skjálftarnir urðu þann 27. og 29. Stærð um 5 [á Richter]. Um mánaðamótin september/október varð talsverð jarðskjálftahrina við Grindavík.
Um mitt sumar var lengst af gott veður um landið sunnan- og vestanvert, en um og upp úr 20. ágúst brá til töluverðrar úrkomu. Annars voru þessir mánuðir, allt fram í nóvember stórtíðindalitlir í veðri.
Þann 22. ágúst gerði haglél og þrumuveður í Reykjavík. Tíminn segir frá þann 23.:
Haglél gerði í Reykjavík í morgun. Við hringdum á Veðurstofuna og spurðum, hvort slíkt veðurlag væri eðlilegt á þessum árstíma, en fengum þau svör, að svo yrði að teljast, því að ekki væri óvenjulegt, að haglél gengju yfir á sumrin. Yrði þetta helst, þegar svo háttaði um veðurlag, að mjög háir skúraklakkar gengju yfir, og gæti það orsakað bæði þrumuveður og hagl, en þó væri haglið algengara í slíkum tilvikum. Þetta gæti orðið í besta veðri, og t.d. hefur verið um 8 stiga hiti í Reykjavík undanfarið. Í kvöld um áttaleytið kom svo aftur hálfgert hagl hér í borginni og fylgdu því þrumur og eldingar úr þungbúnum skýjum, sem voru yfir borginni, en að sjá austur til Hengilsins var besta veður, sól og heiðskírt.
Veður gerðist órólegra þegar kom fram í nóvember og varð foktjón í nokkrum veðranna. Þann 12. nóvember fauk þak af söltunarhúsi á Seyðisfirði og járnplötur af síldarverksmiðju Ríkisins auk þess að gafl hennar sprakk. Maður varð fyrir járnplötu og meiddist. Pallur af heyvagni fauk á Egilsstöðum og skemmdi símalínu. Þann 18. sama mánaðar urðu miklar skemmdir í hvassviðri á Ísafirði, bátar löskuðust og bryggjur skemmdust. Kjallarar fylltust af sjó, rúður brotnuðu og þakjárn fauk á Ísafirði, í Hnífsdal og í Súðavík. Þrjár trillur löskuðust í Hrísey og járnplötur fuku af húsum, fiskhjallar fuku þar og á Árskógsströnd, en sjór gróf þar undan bryggjuhaus, heygeymsla fauk í Brimnesi og járnplötur á fleiri bæjum í nágrenninu. Þakplötur fuku af húsum í Ólafsfirði. Bátur fauk langa leið á Borgarfiðri eystra. Þann 3. desember fauk vörubíll af bryggju í sjóinn á Siglufirði og járn fuku af húsum. Þakplötur og hey fuku á bæ í Kelduhverfi.
Í lok nóvember gerði aftur mikla ófærð um mestallt land og skiptust á mjög kaldir dagar og asahláka fram eftir desember. Hafíss varð vart við Grímsey snemma í desember og reyndist hann mikill, aðdragandi mesta hafísvetrar allt frá árinu 1902.
Viku af desember gerði allmikil frost og varð þá afkastabrestur hjá hitaveitunni í Reykjavík í allmörgum eldri hverfum. Tíminn segir í frétt þann 8. desember að kuldabeltið" [nái] yfir allan Vesturbæinn og alveg austur að Rauðarárstíg eða þar um bil. ... í langflestum húsanna hvort sem um steinsteypt hús eða timburhús er að ræða er nístingskuldi. Í þessum húsum verður fólk að haldast við með börn sín. Gamalmenni verða einnig að þola kuldann. Fólk kappklæðist en það dugar lítið. Flestir reyna að hita upp, þó ekki væri nema eitt herbergi, með rafmagnsofnum.
Tíminn segir enn af hitaveituvanda 12. desember - en þá hafði hlánað og skemmdir komið í ljós:
Töluvert miklar skemmdir munu hafa orðið víðs vegar um borgina nú um helgina, þegar frostið tók að lina, og í ljós kom að fjöldi miðstöðvarofna og leiðsla hafði sprungið í kuldunum og vatnið tók að streyma úr rifum. Við höfðum samband við Gunnar Kristinsson verkfræðing hjá Hitaveitunni, og sagði hann að skemmdirnar nú væru þær mestu undanfarin ár, líklega helmingi meiri en í fyrravetur, en þá hefði fyrst orðið veralegar skemmdir vegna frostanna og hitaveitunnar svo nokkru hefði numið.
Enn meiri vandræði urðu svo í veitumálum fyrstu dagana eftir áramót. Um það kuldakast má lesa í gömlum pistli á hungurdiskum: Af kuldakastinu fyrir 50 árum.
Tíminn segir frá þann 12.:
Geysileg flóð hafa orðið úr ám og kvíslum í Skagafirði i dag [11. desember]. Ríkir sums staðar hálfgert neyðarástand, eftir því sem dæma má af fréttum að norðan, býli eru einangruð og sums staðar kemst fólk ekki út fyrir dyr vegna vatnsflaums, sem ríður yfir tún. Á fjórum stöðum í Skagafirði hafa orðið flóð, en ástandið er misjafnlega slæmt. Mesta flóðið er í Svartá í Lýtingsstaðahreppi, einnig mun talsvert flóð hafa orsakast af stíflu í Húseyjarkvísl. Þá flæðir Dalsá yfir veginn í Blönduhlíð og í Gönguskörðum var vegurinn næsta ófær í kvöld vegna flóða. Svo sem fyrr segir, er flóðið mest í Svartá í Lýtingsstaðahreppi. Stíflaðist hún snemma í dag af krapi skammt fyrir framan Reykjafoss, og gífurlegur vatnsflaumur streymdi yfir bakkana. Einangruðust tveir bæir af þessum sökum, Reykjaborg og Laugabakki, en býlin eru umflotin vatni, og vart viðlit að fara út úr húsi. Er sýnt var, hvernig komið var, ákváðu bændur á nærliggjandi bæjum, að freista þess að bjarga fólkinu. Hrintu þeir, báti á flot og voru nær komnir að húsinu á Laugabakka, er þeir urðu að snúa við, vegna hins gífurlega straumþunga við bæinn. ... Vel byggt er á báðum bæjunum, og er fólkinu talið óhætt, ef ástandið versnar ekki því meira. Á Laugabökkum, sem nær eru veginum er einlyft steinhús en Reykjaborg er nokkru fjær og þar er tvílyft steinhús. Vegurinn hjá Varmalæk er algjörlega ófær og túnið er á floti. Þá stíflaðist í dag Húseyjarkvísl fyrir innan Húsey hjá Vallhólmi. Flæðir yfir Vallhólma og straumurinn úr kvíslinni braut ræsi í veginn hjá Sólvöllum og er hann ófær. Er mjög erfitt um skepnuhirðingu á þessum slóðum, en túnin eru á kafi í vatni og sums staðar standa húsin eins og eyjar uppi úr flaumnum. Þá flæðir Dalsá yfir veginn hjá Akratorfu í Blönduhlíð, en vatnsmagnið er ekki eins gífurlegt og á hinum stöðunum tveimur, og ekki annað vitað, en fólk sé sæmilega statt. Einnig eru flóð í Gönguskörðum fyrir utan Sauðárkrók, og flæðir yfir veginn fyrir neðan Veðramót. Vatnsmagnið í Héraðsvötnum er óvenjulega mikið, en ekki er vitað til, að þau hafi stíflast að ráði. Hægt er að komast um Skagafjörðinn með því að fara leiðina frá Sauðárkróki og út á Hegranes. Fréttaritari blaðsins á Sauðárkróki sagði í kvöld, að ekki hefðu í manna minnum orðið svona mikil flóð á þessum slóðum. Svartá þar sem flóðin eru mest, er bergvatnsá, og að jafnaði mjög vatnslítil.
Miklar vegaskemmdir um helgina og í dag [mánudag 11. desember] rigninga og asahláku. Ár og lækir runnu viða yfir vegi og skörð mynduðust í vegina svo lokuðust margir þeirra í dag. Sérstaklega urðu miklar skemmdir á vegum á Suðurlandi og á Vesturlandi. ... Samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar var Suðsuðurlandsvegur fær í dag en þó varla nema stórum bílum og jeppum. En á mörgum stöðum voru komin stór skörð í veginn og hann hættulegur yfirferðar. Verstur er vegurinn milli Hvolsvallar og Hellu. Í Landeyjum liggur vegurinn að töluverðu leyti undir vatni. Ýmsir aðrir vegir á Suðurlandi eru alveg ófærir. Ár renna yfir vegina og í þeim eru stór og djúp skörð. Svo er ástatt með Fljótshlíðarveg, Þykkvabæjarveg, Landeyjarveg syðri og Leirnaveg i Austur-Eyjafjallahreppi. Aðrir vegir eru skörðóttir og mangir illfærir þótt aka megi eftir þeim með lagni. Vesturlandsvegur er illfær og flæðir víða yfir hann. Í Kollafirði liggur vegurinn undir vatni á kafla, en er þó fær stórum bílum. Í Hvalfirði er vegurinn mjög slæmur og um tíma í dag lokaðist hann alveg við Olíustöðina, en þar tókst að opna hann aftur. Í Borgarfirði er ástandið afleitt og flæða þar margar ár yfir bakka síma og loka vegum. Svo er til dæmis með Hvítá, en hún flæðir yfir veginn hjá Hvítárvöllum og er mikill jakaruðningur í ánni. Þá flæðir einnig yfir veginn hinu megin árinnar við Ferjukot. ... Hjá Hvammi [í Norðurárdal er] mjög djúpt vatn á veginum og við Dalsmynni, en þar geta stórir bílar ekið eftir veginum, en vatnið er gruggugt og jakaíburður mikill og því varasamt að reyna að aka þarna um og eiga bílstjórar erfitt með að átta sig á hvar vegurinn liggur undir vatninu.
Allt innanlandsflug lagðist niður í gærkveldi og í morgun vegna svartaþoku um land allt. Einnig urðu allmiklar tafir á millilandaflugi, t.d. varð þota FÍ að lenda á Reykjavíkurflugvelli í stað Keflavíkurflugvallar, og Friendshipvél félagsins, sem átti að lenda í Reykjavík, neyddist til að fljúga til Akureyrar og lenda þar í nótt. ... Tíminn segir þann 15.desember af mikilli hálku í Reykjavík daginn áður, þann 14.:
Mikil hálka var á götum Reykjavíkur og nágrennis i morgun. Fyrir kl. 10 var nær algjört umferðaröngþveiti í Kópavogi og á Hafnarfjarðarveginum af þessum sökum. Miklar brekkur eru á þessari leið og var hálkan slík að bilar komust hvergi nærri upp brekkurnar þótt þeir væru á snjódekkjum. Lögreglan í Kópavogi segist ekki muna annað eins öngþveiti. Fjöldi bíla fór út af veginum og nokkrir árekstrar urðu. Engin slys urðu á fólki og bílarnir skemmdust ekki að ráði, sem varla var von því þeir náðu aldrei þeim hraða í hálkunni að hætta stæði af, þótt þeir færu út fyrir vegkantinn.
Í sama blaði er sagt frá því að flóð væru í rénun, en á aðfangadag segir enn af flóðum í Ölfusá. Rætt er við Eyþór Einarsson bónda í Kaldaðarnesi:
... sem sagði Tímanum í dag að síðan 4. des. hafi hann aðeins komist fjórum sinnum með mjólk frá bænum, og sé ástandið nú með versta móti ... En samt ætlaði Eyþór að reyna að koma mjólk frá sér og taka varning til jólanna. Vegurinn frá bænum er allur undir ísi og á ísnum er mittisdjúpt vatn. Nær það langt yfir framhjól á dráttarvél. Mikið íshröngl fylgir flóðunum, og gerir það öll ferðalög enn erfiðari. Þegar hlánar lyftir áin ísnum upp og ryður honum yfir bakkana og kemur síðan undan honum hér og hvar uppi á landinu. Eru því víða djúpir álar þar sem að öllu jöfnu er þurrt land.
Hér lýkur þessari lauslegu (en löngu) hugleiðingum ritstjóra hungurdiska um árið 1967.
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.12.): 121
- Sl. sólarhring: 145
- Sl. viku: 956
- Frá upphafi: 2420771
Annað
- Innlit í dag: 112
- Innlit sl. viku: 844
- Gestir í dag: 107
- IP-tölur í dag: 106
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010