Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2020
31.8.2020 | 23:52
Sumardagafjöldi 2020
Ritstjóri hungurdiska skilgreinir sumardaga og telur þá. Lesa má um skilgreininguna í eldri pistlum. Í Reykjavík hafa langflestir sumardagar ársins skilað sér í lok ágúst - meðaltalið er aðeins tveir til þrír dagar í september (hafa þó orðið ellefu þegar mest var).
Í ár eru sumardagar í Reykjavík til þessa orðnir 21 (1 fleiri heldur en langtímameðaltal 70 ára segir), en 12 dögum færri en að meðallagi á þessari öld. Þrjú sumur á öldinni hafa skilað færri sumardögum heldur en þetta, 2001, 2013 og 2018. Komi sumardagar í september fer fjöldinn nú einnig yfir 2002 og jafnvel 2005 líka. Langflestir urðu sumardagarnir í Reykjavík 2010, 2011 og 2012. Þó sumardagar ársins í ár (hingað til) séu fáir miðað við það sem algengast hefur verið að undanförnu (í fyrra voru þeir t.d. 43) eru þeir samt fleiri en var nokkru sinni öll árin frá 1961 til og með 1986. Kannski megum við því vel við una.
Á Akureyri eru sumardagarnir nú orðnir 49 - 3 fleiri en meðaltal þessarar aldar. Að auki bætast að jafnaði um fjórir í september (en þar er auðvitað ekki á vísan að róa). Þó sumardagarnir hafi verið flestir á Akureyri 1955 og 1976 (mikil rigningasumur syðra) er meðalfjöldi á þessari öld samt 6 dögum meiri heldur en langtímameðaltalið segir til um. Það eru aðeins tvö ár á þessari öld sem skiluðu frekar fáum dögum, 2011 og 2015.
Eftir nokkra daga lítum við svo á sumareinkunn hungurdiska (enn er beðið eftir lokatölum ágústmánaðar). Talsvert samhengi er á milli mælitalnanna tveggja þannig að líklegt er að einkunnin í Reykjavík verði lægri en hún hefur oftast verið á öldinni - en við sjáum til.
30.8.2020 | 23:40
Af hitafari á þremur fjallvegum
Hér verður hitafar þriggja fjallvega borið lauslega saman. Aðaláhersla er á árstíðasveiflu. Fjallvegirnir þrír eru: Holtavörðuheiði (veðurstöð í 370 metra hæð yfir sjávarmáli=, Steingrímsfjarðarheiði (440 m) og Vatnsskarð í Húnavatnssýslu (420 m). Landslag á Vatnsskarði er mjög ólíkt því sem er á hinum heiðunum. Hæðarmunurinn er ekki mikill, en skapar þó einn og sér lítilsháttar mun í meðalhita, mestan á milli Holtavörðuheiðar og Steingrímsfjarðarheiðar þar sem hann er um 70 metrar - eða um 0,5°C.
Myndin hér að ofan sýnir meðalhita hvers mánaðar á heiðunum þremur - þeir sem hafa áhuga geta flett tölunum upp í viðhenginu. Gulu súlurnar sýna hita á Steingrímsfjarðarheiði. Þær eru í öllum tilvikum lægri en hinar. Við sjáum líka að meðalhiti er þar undir frostmarki fram í maí og kominn aftur niður í frostmark í október. Í fljótu bragði virðist sem meðalhiti sé neðan frostmarks um hálfum mánuði lengur vor og haust heldur en á hinum heiðunum tveimur - sumarið mánuði styttra.
Við skulum nú líta nánar á þennan hitamun stöðvanna.
Hér er byrjað á því að reikna meðalhita hvers almanaksdags árið um kring þessi 23 ár. Síðan er munur stöðvanna reiknaður. Blái ferillinn sýnir mun á hita á Holtavörðuheiði og Steingrímsfjarðarheiði - jákvæðar tölur sýna daga þar sem hlýrra er á fyrrnefndu heiðinni. Það er nærri því alla daga ársins - fáeinir dagar í júlílok þar sem munurinn er enginn eða Steingrímsfjarðarheiði lítillega í vil. Hvort slíkt heldur til lengri tíma litið er aldeilis óvíst. Aftur á móti getum við verið harla viss um að megindrættir ferilsins eru raunverulegir. Munurinn er áreiðanlega minnstur í júlí og framan af ágúst - vex síðan upp í um 0,7 stig og - sem skýrist líklega að mestu af 70 metra hæðarmun stöðvanna. Helst munurinn svipaður allt haustið og vel fram yfir áramót. Seint í febrúar eða framan af mars fer munurinn að aukast - vex síðan nokkur hratt og nær hámarki síðari hluta maímánaðar. Hann er síðan miklu minni í lok júní heldur en í upphafi mánaðaris. - Bíðum smástund með skýringar.
Rauði ferillinn sýnir mun á hita á Holtavörðuheiði og Vatnsskarði. Það er kaldara allt árið á fyrrnefndu heiðinni - fáeinir dagar að vísu þegar þar er hlýrra, en í aðaldráttum er munurinn 0,4 stig haust og vetur fram í mars, en vex síðan og er mestur í júní. Þá er áberandi kaldara á Holtavörðuheiði - munar hátt í 1 stigi - þrátt fyrir að stöðin á Vatnsskarði sé 60 metrum hærra yfir sjávarmáli heldur en stöðin á Holtavörðuheiði.
Síðasta mynd sem við lítum á að þessu sinni sýnir árstíðagang dægursveiflu hitamunar stöðvanna á Holtavörðuheiði og Steingrímsfjarðarheiði. Hver mánuður er sjálfstæður - strikalínur sýna mörk milli mánaða. Hitamunur kl.1 að nóttu er lengst til vinstri í hverjum mánuði, en hiti kl.24 lengst til hægri. Í janúar er hitamunur að meðaltali 0,7 stig, bæði dag og nótt. Í maí er ann minnstur seint að nóttu, um 1,0 stig, en vex upp í meir en 2,5 stig síðdegis. Sá munur sem við sáum að var á hita stöðvanna tveggja í maí er því ekki síst orðinn til við það hve miklu kaldara er á Steingrímsfjarðarheiði að deginum heldur en á Holtavörðuheiði á þessum tíma árs. Munurinn að næturlagi er að vísu meiri heldur en á öðrum árstímum, en ekki svo mjög miklu meiri.
Við getum auðvitað ekki (án nánari athugunar) verið viss um hvað veldur þessari hegðan. Svo virðist sem á tímanum nóvember og fram í febrúar sé munurinn á hita stöðvanna (bæði dag og nótt) að mestu skýranlegur af hæðarmun þeirra. Hinn mikli munur seint á vetri og fram í júní er nær örugglega tengdur mismunandi snjóalögum við stöðvarnar. Þar koma nokkrir þættir við sögu. Í fyrsta lagi er ekki útilokað að snjó leggi meira að Steingrímsfjarðarheiðarstöðinni þannig að hitamælirinn sé undir vor ekki í réttri hæð yfir yfirborði (of neðarlega - vegna þess að snjórinn er of ofarlega). Í öðru lagi - og það er áhrifameiri skýring - er ábyggilega miklu meiri snjór í bæði nær- og fjærumhverfi Steingrímsfjarðarheiðarstöðvarinnar heldur en á Holtavörðuheiði - þessi snjór þarf að bráðna og í það fer orka - sem annars færi í að hita autt yfirborð - sem síðan hitar loftið. Yfirborðshiti liggur því stöðugt í núlli, jafnvel í miklu sólskini. Í þriðja lagi er hugsanlegt - það vitum við ekki - að meira sé um þoku við stöðina á Steingrímsfjarðarheiði heldur en á Holtavörðuheiði á þessum árstíma. Einhvern veginn finnst ritstjóra hungurdiska þessi síðasta skýring ekki sérlega líkleg - eða vægi hennar í heildinni sé ekki mikið.
Þá sitja júlí og að nokkru leyti ágúst eftir. Við sjáum (já, þeir sjá sem rýna í línuritið) að í báðum þessum mánuðum dregur Steingrímsfjarðarheiði mjög á Holtavörðuheiði undir kvöld -svo mjög meira að segja að (ómarktækt) hlýrra er á Steingrímsfjarðarheiðinni. Spurning hvað þessu veldur. Vel má vera að þetta hafi með hafgolu að gera - eða hvað við eigum að kalla Hrútafjarðarstrenginn. Steingrímsfjarðarheiðin er miklu betur varin fyrir slíku - sjávar- og lyftingaráhrif gætu verið minni heldur en á Holtavörðuheiðinni.
Ferlarnir í september og október minna á vorferlana, en eru þó miklu veigaminni. Kannski sjáum við hér áhrif þess að snemma fer að snjóa á Steingrímsfjarðarheiði - að meðaltali þrálátar heldur en á Holtavörðuheiðinni.
Veðurfarslega er margt dularfullt á fjöllum á Vestfjörðum. Drangajökull er alveg sér á parti meðal jökla landsins. Enginn teljandi jökull er við Tröllakirkju á Holtavörðuheiði - þó hærri sé en hábungur Drangajökuls. Enginn jökull er heldur á Glámu (og hefur að sögn fróðra ekki verið - þó haldið sé fram). En mælingarnar á Steingrímsfjarðarheiði sýna okkur þó að sumarið er um mánuði styttra þar heldur en í samsvarandi hæð í nágrenninu.
Mun betur mætti rýna í þessar mælingar - t.d. með því að tengja þær við vindáttir. Þá gætum við betur séð hvort það er eitthvað sérstakt veðurlag sem mest hefur að segja um þennan mun - eða hvort hann er svipaður flesta daga.
Látum þetta duga að þessu sinni.
30.8.2020 | 14:19
Árin 1846 til 1860 - inngangur
Í samantekt hungurdiska um veður og tíðarfar áranna 1749 til 1924 er nú komið að árunum 1846 til 1860. Væntanlega mun taka nokkra mánuði að afgreiða þau. Hér lítum við mjög lauslega á hitafar þessara ára. Hægt er að halda því fram að eins konar hlýskeið hafi ríkt hér á landi frá því um eða upp úr 1820 og fram á miðjan sjötta áratug aldarinnar. Þetta hlýskeið er það fyrsta af þremur sem við þekkjum frá því mælingar hófust. Biðin eftir næsta hlýskeiði á eftir varð mjög löng - það hófst ekki fyrr en um og upp úr 1920 - þó að vísu megi segja að verstu kuldarnir væru hjá upp úr 1890. Þriðja hlýskeiðið hófst síðan um síðustu aldamót og stendur enn.
Nítjándualdarhlýskeiðið sem við nefnum svo var þó bæði kaldara og slitnara heldur en síðari skeiðin tvö. Munar að líkum mest um það að mun meiri hafís var í norðurhöfum heldur en síðar varð. Það þýddi að norðlægar áttir voru (þegar þær gerði á annað borð) mun kaldari heldur en norðanáttir hinna hlýskeiðanna tveggja. Á því hlýskeiði sem við nú upplifum er það einmitt norðanáttin sem hefur hlýnað mest - langt er í hafískuldann. Sunnan- og suðvestanáttir hafa hlýnað mun minna. Um þetta hefur verið fjallað hér á hungurdiskum - og verður trúlega gefinn frekari gaumur síðar.
Það var sumsé þannig að þrátt fyrir nokkuð hagstæða tíð þessa gamla hlýskeiðs komu inn á milli bæði afspyrnukaldir mánuðir og jafnvel árstíðir og ár sem spilltu ásýnd þess. Það er auðvitað varla hægt að segja nákvæmlega hvenær því lauk, hvort það gerist strax 1855 - eða tveimur eða þremur árum síðar er ekki gott að segja - enda skiptir það raunar engu.
Hér má sjá 12-mánaða keðjumeðaltöl hita í Stykkishólmi á árunum 1845 til 1861. Það einkennist af gríðarlegum sveiflum - allt frá hinu mjög svo sérstaka og hlýja ári 1847 yfir í árið illa 1859. Fyrra árið er eitt allrahlýjasta ár 19.aldar, ásamt hugsanlega 1828. Hlýindin 1880 sem voru jafnvel meiri hittu ekki eins vel í almanaksárið.
Eins og við sjáum á myndinni eru hlýindi sem þessi bara á við meðalár í núverandi hlýskeiði.Rauða línan þvert yfir myndina sýnir meðalhita síðustu tíu ára. Það er aðallega einn gríðarkaldur mánuður sem sá um að draga hitann árið 1848 niður á við - og sama má segja um lágmarkið sem sjá má árið 1855. Bláa línan sýnir meðalhita áranna 1861 til 1875 og sú svarta kalda meðaltalið 1961 til 1990.
Af þessari einföldu mynd getum við ráðið að við eigum eftir að sjá tíð hrósað mjög - og sömuleiðis kveinað undan henni þegar við litum á fréttir af tíðarfari einstakra ára.
Rauða strikalínan sýnir 12-mánaða keðju loftþrýstings. Á þessum tíma eru nokkrir merkir há- og lágþrýstimánuðir, en almennt er þrýstifar ekki mjög afbrigðilegt lengi í senn.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 14:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.8.2020 | 15:03
Af árinu 1875
Tíð var talin hagstæð, sérstaklega voru vetur og vor mild. Ársmeðalhiti í Stykkishólmi var 3,9 stig, 1,3 stigum hærri en meðaltal næstu tíu ára á undan. Meðalhiti í Reykjavík var 4,9 stig og er áætlaður 4,0 stig á Akureyri (sú tala þó nokkuð óviss). Fimm mánuðir voru hlýir, mars og apríl hlýjastir að tiltölu. Þetta var í fyrsta skipti síðan 1853 að fimm mánuðir væru hlýir á sama ári. Aðeins tveir voru kaldir, júní og júlí.
Mikil eldsumbrot urðu í Öskju og á Mývatnsöræfum, mest var þó sprengingin á annan dag páska, 29.mars. Gríðarlegt öskufall varð þá víða um landið austanvert. Eru bréf sem greina frá þessum atburðum nokkuð fyrirferðarmikil í textanum hér að neðan. Rétt þótti að taka þau með í þessu yfirliti.
Hæsti hiti ársins mældist á Djúpavogi 7.júlí, 19,1 stig. Stöðvar með kvörðuðum mælum voru þó engar inn til landsins og næsta víst að hiti hefur orðið hærri. Í Hvammi í Dölum mældust t.d. 20 stig þann 2.ágúst. Lægsti hitinn mældist í Grímsey þann 27.janúar, -16,1 stig. Meira frost hefur efalítið orðið inn til landsins. Þorleifur í Hvammi mældi t.d. -18,8 stig þann sama dag. Mjög kaldir dagar í Stykkishólmi voru aðeins sjö, kaldastur að tiltölu 26.júlí. Í Reykjavík var 31.maí kaldastur að tiltölu.
Úrkoma mældist 868,5 mm í Stykkishólmi, sú mesta frá upphafi mælinga þar (1856) og mældist ekki svo mikil aftur fyrr en 1896. Úrkoma var einnig mikil á Djúpavogi og í Grímsey. Þurrviðrasamt var í apríl og einnig fremur þurrt í ágúst og nóvember, en úrkoma var óvenjumikil í maí og einnig nokkuð mikil í september og desember.
Þrýstingur var óvenjuhár í nóvember, en sérlega lágur í maí og júní. Lægstur mældist þrýstingurinn á Djúpavogi 22.desember, 941,6 hPa, en hæstur á sama stað 16.mars, 1044,4 hPa.
Hér að neðan eru blaðafrásagnir af tíð og veðri [og eldsumbrotum]. Eins og venjulega er stafsetning að mestu færð til nútímaháttar. Að auki eru lítilsháttar upplýsingar úr öðrum áttum.
Séra Valdimar Briem ritar yfirlit um tíðarfar 1875 í Fréttir frá Íslandi:
Veðuráttufar á íslandi 1875 var yfir höfuð að tala eitthvert hið besta, sem verið hefur á þessari öld, og það nokkurn veginn jafnmilt allt árið í kring. Veturinn var þó fyrir sitt leyti mildastur og var hann næsta ólíkur vetrinum á undan; þann vetur kölluðu gamlir menn harðastan hafa verið í sinni tíð, en þennan vetur kváðu margir hinn blíðasta í manna minnum. Þó var veðurfar nokkuð mismunandi eftir landslegu og landsháttum. Á Suðurlandi var allra mildast. Í sjávarsveitum þar voru að sögn einir 8 frostdagar á vetrinum allt frá nýári, og meðalfrost aldrei meira en 8 stig (R, -10°C). Á Norðurlandi var nokkru kaldara, en þó eigi að mun, enda voru nú hafísar engir. Þó að hlýviðri væru, var úrkoma jafnan fremur lítil. Mestur snjór féll á Austurlandi, en mestar rigningar voru í Skaftafellssýslu. Vorið var að sínu leyti hin kaldasta árstíð. Þó voru blíðviðri mikil framan af vorinu nokkuð fram yfir sumarmál, en þá tók að kólna og snúast til hrakviðra og rigninga. í miðjum maímánuði gjörði kuldakast með hretum og hríðum á Norðurlandi og Vestfjörðum, og aftur annað enn meira í lok mánaðarins; urðu þá skip víða norðanlands fyrir hrakningum, og 9 þilskip týndust. Upp frá því snerist aftur til batnaðar. Sumarið var milt og hægviðrasamt víðast. Á Suðurlandi voru oft molluveður, þerrilítið en rigningalítið. 10. júlí gjörði í ofanverðum Biskupstungum dæmafáa haglhríð í hitaveðri. Haglkornin voru á strð við tittlingsegg, og mörg 3 föst saman. Á 2 stundum huldu þau alla jörð, svo að varla sá í gras, og var fönnin svo hörð, að varla markaði spor. Hríðinni fylgdi ofsastormur með ógurlegum þrumum og eldingum, og töldu menn allt að 100. Hríðin stóð i 3 stundir. Ekki kom hún yfir nema lítið svæði, en gjörði þar talsverðar skemmdir. Kál barðist niður í görðum, gras sligaðist og brotnaði, lauf barðist af skógum o.fl. Á Vesturlandi var veðurátt nokkuð óstöðugri. Á Norðurlandi og Austurlandi voru miklir þurrkar og hitar meiri hluta sumars, einkum framan af. Vart varð við hafís fyrir Ströndum vestur um sumarið, en hann hvarf bráðum aftur. Um haustið var víða óstöðug veðurátt framan af. Snemma í október gjörði hríðaráfelli víða um land með nokkurri fannkomu, en brátt blíðkaði aftur. Þó var á Vesturlandi víða kalsasamt og hryðjusamt allt til ársloka. Á Suðurlandi voru lengstum þíður og rosar um haustið og fyrri hluta vetrar, en á Norðurlandi og Austurlandi voru lengstum stillingar og blíðviðri.
Heyskapurinn varð víða um land í góðu meðallagi. Gróðurinn kom mjög snemma eftir hinn góða vetur, og um sumarmál var jörð víða orðin svo gróin sem endrarnær um fardaga. En þá komu vorkuldarnir, og kipptu úr grasvextinum, svo að í sláttarbyrjun var hann eigi meiri en í meðallagi í flestum sveitum. Þó voru tún, einkum á Suðurlandi, betur sprottin en í meðalári, en útengi miður, einkum mýrar og votlendi. Lakastur grasvöxtur var yfir höfuð á Vesturlandi, og þar varð nýting einnig að tiltölu lakari en annars staðar. Þó að þerrilítið væri á Suðurlandi, nýttist heyskapur þar vel, helst til sveita, en nokkru miður við sjávarsíðu. Á Norðurlandi og Austurlandi varð nýting best. Heybirgðir manna að haustinu urðu víðast allgóðar, með því líka að talsverðar heyfyrningar höfðu orðið hjá flestum eftir veturinn áður.
Janúar: Hagstæð tíð, nokkrar hríðar suðaustanlands.
Norðanfari birti þann 29.janúar bréf úr Mývatnssveit þar sem greinir frá upphafi eldsumbrota.
[Mývatni 8.janúar]: Rúmri viku fyrir jól, fór fyrst að bera á jarðskjálftum, og fóru þeir smá vaxandi. Ekki voru kippirnir harðir né langir, en svo tíðir að ekki varð tölu á komið, þó brakaði mikið í húsum í stærstu kippunum, og allt hringlaði sem laust var. Mest voru brögð að þessum ósköpum 2.[janúar], því svo mátti heita, að einlægur jarðskjálfti væri frá morgni til kvölds þann dag. Reykjarmökkur hafði sést í suðri nokkra daga á undan þegar heiðríkt var, en að morgni þess 3.[janúar] laust fyrir dag, sást héðan eldur mikill, litlu austar en í hásuður. Lagði logann hátt á loft upp, og var hann býsna breiður um sig niður við sjóndeildarhring, en bráðum dró ský fyrir svo ekkert sást. Síðan hefur oftast verið þykkviðri og líka dregið mikið úr jarðskjálftunum, og lítið gætt í dag og í gær. Hvar eldur þessi muni vera, er ekki auðvelt að segja, en sé hann í Vatnajökli hlýtur hann að vera nokkru vestar en sumarið 1867. [Svo bætir blaðið við]: Víða hér norðanlands er sagt að hafi orðið vart við jarðskjálfta þessa, helst fram til dala og fjalla t.a.m. í Möðrudal á Fjöllum, en minna á útsveitum.
Þjóðólfur ræðir afla og tíð í janúarpistlum:
[11.] Veðrátta hefur nú lengi gengið hin þýðasta, en þó vindasöm. Fiskiafli í Leiru og Garðsjó hinn besti, og hafa menn einkum nú um jólin sótt þangað héðan af Innnesjum með miklu kappi og dugnaði, enda hafa flestallir aflað prýðilega vel.
[29.] Í ýmsum sveitum hér syðra fullyrða menn að sést hafi til eldgosa yfir austurjöklum, á líkum stöðvum og undanfarin ár. Viljum vér óska að þeir menn er tekið hafa eftir þessu, vildu gefa oss skýrslu um það. Hin einmuna góða vetrartíð hefur haldist óbreytt til þessa dags, hvervetna þaðan er frést hefur.
Norðanfari birti 19.febrúar bréf dagsett í janúar:
[Saurbæ í Dalasýslu 16.janúar] Héðan úr Dölum er að frétta besta tíðarfar frá því fyrir jólaföstu, og voru það blessuð umskipti frá því sem áður var í allt haust frá réttum; víða voru hér slæmar heimtur, því ekki var búið að leita hér afréttir þá ótíðin byrjaði. Á stöku bæ í Mikaelismessuveðrinu [29.september] fauk hey, og er það, veðrið, talið með mestu veðrum sem hér hafi komið. Allur útigangspeningur er magur eftir hretið í haust og hagleysurnar. Heyskapur varð í meðallagi í sumar, því nýtingin varð svo æskilega góð, þó víða væri snöggslægt.
[Múlasýslu 22. janúar]: Síðan ég skrifaði þér í nóvember hefur tíðin mátt heita góð, frostlaust að kalla og alveg snjólaust yfir allar sveitir og því jarðir nógar þar til 13. [janúar] gjörði krapahríð og ákafan snjó hinn 14.; hljóp síðan í frost og gjörði þá haglaust í flestum fjarðasveitum, síðan hafa verið hæg frost og landnorðan blástur og nú er vindur af norðri.
Ísafold greinir frá eldsumbrotum og tíð þann 27.janúar:
Síðan rétt eftir nýárið hafa ýmsir menn hér í Reykjavík þóst sjá merki þess, að eldur væri uppi einhversstaðar í Vatnajökli, helst nálægt sömu stöðvum og síðast í hittiðfyrra. Með mönnum, sem komu norðan úr Eyjafirði fyrir fáum dögum, fréttist, að þessi sami(?) eldur hefði átt að sjást þaðan skömmu eftir nýárið. Sömuleiðis á hann að hafa sést úr Hvítársíðu í Borgarfirði, og eins úr Hreppunum í Árnessýslu. Hvergi hefir þó orðið vart við öskufall, svo til hafi spurst. Jarðskjálfta kvað hafa orðið vart víða um Eyjafjörð og Skagafjörð um og eftir jólin. Þeir voru tíðir, en eigi miklir.
Vetrarfar hið besta um allt land, eftir því sem frést hefir með ferðamönnum að norðan og vestan, og með austanpóstinum, sem kom hingað 18.[janúar]. Hér syðra hefir verið stök blíða síðan á nýári.
Norðanfari birti þann 17.mars bréf úr Bjarnanesi í Hornafirði, dagsett 1.febrúar.
Eftir því sem maður segir, sem hér er kominn norðan af Akureyri, og ýmis bréf og blöð skýra frá, hefur veðuráttan i haust verið mjög lík um land allt. Mánuðurinn, sem liðinn er af þessu ári, hefur sýnt okkur veturinn í sinni réttu mynd, með stormum, hríðum og snjókomum, svo víða var orðið haglítið; tvo síðustu daga hans var hér hláka, en í nótt brá því svo skyndilega í norðan grimmdarveður með aftaks frosti; fyrstu þorravikuna var oftast fjúk með feiknagrimmdum, sem ekki gáfu eftir þeim í fyrra. Vegna grasbrestsins næstliðið sumar, varð hér hjá flestum mjög lítið hey og vegna illrar ásetningar, er hætt við, að mörgum reiði illa af með skepnuhöldin, nema að því betur vori.
Febrúar: Hagstæð tíð, einkum sunnanlands.
Norðanfari segir 11.febrúar:
Síðan um næstliðið nýár hefur veðuráttan oftast verið óstillt en frostlítið, 27°R og stundum frostlaust, nema dagana 27. og 28.[janúar] 1516° á Reaumur [-18 til -20°C]. Í öllum snjóléttum sveitum hefur oftast verið jörð, en þá út af því hefur brugðið, hefur það meir verið vegna áfreða en snjóþyngsla. En aftur víða á útsveitum, er kvartað um snjóþyngsli og jarðbannir, svo að sauðfé og hross hafa allajafna verið á gjöf síðan í haust; aftur á stöku stað við sjó, fé gengið allt að þessu að kalla sjálfala. Víða hefur fjárpestin eða bráðafárið drepið að mun, en þó mest á Silfrastöðum í Skagafirði allt að 60 fjár. Síðan fyrir jól hafa fáir róið til fiskjar, bæði vegna ógæfta og af því beituna hefur oftast vantað, og það sem aflast hefur af fiski verið smátt og fátt. Aldrei hefur, það vér til vitum, í vetur það af er, orðið róið til hákarls. Vart hefur orðið við útsel hér innfjarðar og fáeinir af þeim komnir á land. Ennþá í vetur hefur ekkert orðið vart við hafís hér norðan fyrir landi, og enginn vottur þess að hann sé á ferðinni hingað. Um tíma hefur þess hvergi hér verið getið, að vart hafi orðið við jarðskjálfta.
Norðanfari birtir 19.febrúar eldgosafréttir frá Mývatni:
[Mývatni 5.febrúar] Það er orðið augljóst, að eldgosið, sem í vetur hefur orsakað jarðskjálftana, er í Öskju- eða Dyngjufjöllum, hinum syðri, er svo eru nefnd á landkorti B. Gunnlaugsens. [Svo bætir blaðið við] Sagt er að jarðskjálftarnir hafi í vetur orðið stórkostlegastir í Möðrudal á Fjöllum, einnig þar á næstu bæjum Víðidal og Grímsstöðum, og sumt af húsum í Möðrudal legið við hruni. Nýlega hefur frést að 4 eða 6 Mývetningar hafi haft í áformi að leggja af stað að heiman 15.[febrúar] suður á fjöllin til að skoða upptök eldsins.
Ísafold birti þann 18.mars nokkur bréf:
[Hornströndum, 30.janúar]: Héðan er með öllu fréttalaust; heilbrigði og vellíðun manna yfir höfuð. Sumarið sem leið var hér eitt hið kaldasta sem ég man eftir, enda lá hafísinn hér landfastur allan júlímánuð; grasvöxtur varð hér mjög rýr, og heyföng manna lítil, enda var heyskapur endasleppur, því 24. september tók algjörlega fyrir hann; þá gjörði hér mesta hret með fjarskalegri snjókomu og stormi, og áttu þá margir úti talsvert af heyi sem aldrei náðist. Haustveðráttan var storma- og snjóasöm til jólaföstu; síðan allgóð veðrátta til þess. Fiskiafli varð hér rétt góður í haust allstaðar kringum Húnaflóa, en mjög viðarrekalítið hefir verið hér á Ströndunum, það sem er af þessum vetri. Ekki er hafísinn komin hér ennþá að landi, en mjög er veðrátta því lík sem hann fari bráðum að sýna sig; hann er oft ónotagestur, sem hefir komið hér á hverjum vetri í mörg undanfarin ár, stundum legið hér landfastur langt fram á sumar.
[Ísafjarðardjúp 19.febrúar]: Veturinn er vægari en í fyrra, þó hefir nú um tíma að undanförnu verið allstaðar haglaust. Hvergi heyrist getið um hafís. Fiskiafli heima í haust og vetur með allrarýrasta móti, en góður síðan vertíð byrjaði í Bolungarvík eftir nýárið, en sjaldróið vegna ógæfta; ...
[Skógarströnd, 1.mars]: Frá 1. janúar til hins 24. voru austanlandsynningar, oftar hvassir með 6 til 7° frosti, þá gjörði frostbyl með 914° frosti til 29.; síðan blotaði snöggvast, eftir það komu austanlandsynningar aftur, og héldust til 15. febrúar með frostlinjum og frostvægðum, nema 3. febrúar þá var -10°. Við þann 16. brá til sunnanáttar og má svo kalla að síðari hluta mánaðarins hafi vindstaðan verið frá landsuðri til vesturs útsuðurs moð frostlinjum og hægðarþíðum.
Ísafold birti þann 31.maí bréf úr Vestmannaeyjum, dagsett 26.febrúar:
Veturinn hefir verið hér mjög mildur, frosta og snjóalaus, en mjög hvassviðrasamur; frá þriðja í jólum og og fram yfir miðjan janúar voru sífeldir austanstormar á hverjum degi og var aldrei á sjó komið allan þenna tíma. Jólafastan var og mjög hvassviðrasöm, og lítill fiskur, þá sjaldan róa gaf. Nokkur skip fóru til hákarla á jólaföstu, en aðeins eitt þeirra aflaði nokkuð að mun, nálægt 20 tunnum í 3 ferðum. Síðan um miðjan [janúar] hafa austanstormar verið mjög tíðir og sjógæftir því sjaldgæfar og illar, en fiskur nokkur á miðum, þegar menn hafa getað á sjó komist; nú í viku hafa verið góð sjóveður en fiskur lítill.
Ísafold segir af tíð þann 11. mars:
Veðrátta er enn hin sama og verið hefir í allan vetur; sífeldar þíður og blíðviðri, svo að varla sést föl á jörðu. Núna þessa dagana dálítið útsynningskast.
Þann 3.mars birti Norðanfari skýrslu um eldgosin sem Jón Sigurðsson á Gautlöndum ritaði 26.febrúar:
Í bréfi 8.[janúar] til ritstjóra Norðanfara gat ég nokkrum orðum um jarðeld þann er vart hafði orðið við í Þingeyjarsýslu, og um jarðskjálfta þá er honum voru samfara. Síðan hefur margt gjörst sögulegt í þessu efni. Það mátti ráða það fljótt af ýmsum líkum, að eldsupptökin mundu vera norðar en í Vatnajökli, og þótti nauðsynlegt að komast eftir hvar helst þau mundu vera. Sökum þessa voru 4 menn gjörðir út héðan úr sveit, til að leita að eldinum, og lögðu þeir af stað 15.[febrúar]. Þeir fóru beinustu leið suður eftir endilöngu Ódáðahrauni, og stefndu á Dyngjufjöll hin fremri sem hér eru kölluð svo og er stíf sólarhringsganga úr byggð, suður undir fjöllin, þegar þessi leið er farin. Þeir fengu gott veður og bjart mestalla leiðina til og frá. En er voru komnir svo sem á miðja leið, fóru þeir að heyra dunur miklar og dynki, og jafnframt fundu þeir sterka eldlykt, og fór þetta alltaf vaxandi eftir því sem þeir nálguðust fjöllin. Þegar lengra dró suður eftir sáu þeir reykjarmökkinn bera við loft vestan undir fjöllunum. Eins og sjá má á landabréfinu stóra eftir Gunnlaugssen, mynda Dyngjufjöllin fremri mikinn fjallahring, og er hraunbreiða mikil innan í bugnum, sem nefnd er Askja á landabréfinu. En lakast er, að eftir sögn kunnugra manna, eru fjöll þessi ekki sett rétt eða nákvæmlega niður á kortinu, svo þessvegna getur lýsing á afstöðunni ekki orðið svo glögg eða skýr fyrir þá sem ekki hafa annað við að styðjast en kortið sjálft. Þarna í Öskjunni, vestanundir eystri fjallgarðinum, fundu þó leitarmenn eldsupptökin, og hafa þeir skýrt svo frá, að þar sé mikill gígur eða hver, sem kasti grjóti og leireðju fleiri hundruð feta í loft upp En sökum grjótkastsins komust þeir ekki nær gígnum en svo, að nema mundi 6070 föðmum. Varir urðu þeir við fleiri hveri í grennd við hinn mikla hverinn, og héldu þeir að úr einum þeirra mundi hafa komið dálítið hrauntagl, en ekki gátu þeir heldur komist nærri þeim. Vatn rann úr sumum hverunum og hafði það myndað dálitla tjörn þar í hrauninu Allt í kring var jörðin - eða réttara sagt hraunið umhverfð og sundurrifin með stórum gjám og sprungum, og á sumum stöðum sigin niður, svo ekki mun hafa verið árennilegt að ganga nærri þessu tröllavirki náttúrunnar. Síðan hefur reykjarmökkurinn sést daglega úr byggð þegar heiðskírt hefur verið, engu minni en áður. Smákippir hafa fundist við og við, en engir hafa þeir verið stórfelldir; má og vera að þeir eigi rót sína í þeim atburðum sem síðar hafa gjörst, og sem ég skal leyfa mér að skýra frá með fáum orðum.
Að kvöldi hins 18.[febrúar] sást frá Grímsstöðum á Fjöllum eldur mikill í vestri, á sléttu þeirri hinni miklu, sem liggur milli Mývatnssveitar og Jökulsár á Fjöllum, og sem einu nafni nefnist Mývatnsöræfi, en öðru nafni Austurfjöll. Eftir því sem frést hefur hingað sýndist eldurinn koma fyrst upp á fleiri stöðum, og renna síðan saman í eitt mikið bál, sem sýndist taka yfir svo mikið svæði, að nema mundi fleiri túnlengdum. þetta mun og vera rétt eftir því sem síðar prófaðist. Þegar þessar fréttir bárust hingað, tóku nokkrir menn sig saman um að rannsaka þetta hið nýja eldgos, og var ég einn í þeirra tölu, og var þessari rannsókn lokið í gær. Eldsupptökin eru hér um bil 45 mílur frá byggð héðan, vestanvert við svonefnda Sveinagjá á Austurfjöllum. Þegar við komum þangað var hvergi eldur uppi, en að ætlun okkar mundi hafa logað uppúr á sumum stöðum hina næstu daga á undan, því en var hraun það er myndast hafði, sjóðandi heitt á sumum stöðum. Eldurinn hefur auðsjáanlega haft upptök sín (brotist út) á fleiri stöðum, og myndað marga gíga, suma stóra en suma litla. Uppúr sumum gígunum hefur ollið hálfstorkið hraun, og myndað háar borgir eða hraunhryggi í kringum þá. En úr sumum gígunum hefur komið bráðin hraunleðja, sem runnið hefur áfram og myndað flatt hraun. Voru allir gígarnir nú hættir störfum sínum og voru sumir þeirra tilbyrgðir af hraunvikri því er oltið hafði aftur ofan í þá, en sumir voru opnir, og sá í botnlausar gjárnar í botni þeirra. Úr flestum þeirra rauk enn heit gufa. Stærstu gígarnir höfðu kastað upp óbræddum steinum, og voru sumir allt að því manntak að þyngd. Höfðu þeir eigi komist nema upp á gígbarmana, en hinir minni samt hraun og vikur höfðu kastast 3040 faðma frá, og komið niður á sumum stöðum í snjóinn, og brætt hann undan sér. Ekki sáust nein merki til þess að aska né leir hefði fylgt eldgosi þessu. Hraun það sem komið hefur úr öllum gígunum til gamans, er allt að hálfri bæjarleið á lengd, og 34 hundruð faðmar á breidd þar sem það er breiðast. Það hefur fyllt upp dæld nokkra sem legið hefur skammt frá eldsupptökunum, og er því býsna þykkt á sumum stöðum. Nú var hraunið farið að storkna allt að ofan, en í gegn um hraunsprungurnar sá víða í eldinn hvítglóandi undir, og mun skorpan hafa verið orðin 24 feta á þykkt. Var eigi hættulaust að ganga þar um, því hraunið er mjög brunnið og laust í sér, og þoldi því illa mannsþungann. Skór okkar og sokkar skemmdust einnig af hitanum. Á 2 eða 3 stöðum höfðu myndast smáborgir úr bráðinni hraunleðju holar innan, og á stærð við 24 tunnu ílát. Var ein þeirra minnst en mjög fögur ásýndum, og líktist hún hinu fegursta og smágjörfastajárnsteypusmíði. Mundi hún kölluð kjörgripur ef hún væri i konungahöllum. Umhverfis hraunið var jörðin víða rifin í sundur og sprungin; höfðu þar komið miklar og voðalegar gjár, sem verða hættulegar fyrir menn og skepnur á meðan þær eru að fyllast aftur. Það er ætlan mín að eldgangi þessum sé nú lokið á þessum stað, en eigi þyki mér ólíklegt, að eldurinn kunni að brjótast út aftur á öðrum stað hér í grennd, áður langir tímar líða. Ritað 26. dag febrúar 1875. Jón Sigurðsson.
Ísafold birtir 27.mars einnig bréf úr Mývatnssveit sem lýsir aðstæðum í Öskju um miðjan febrúar:
Hinn 16.[febrúar]kl.11 um morguninn voru leitarmenn komnir fram að fjöllunum austarlega. Þar eru þau lág og hali gengur þar austur úr þeim; þar gengu þeir upp, og var það fjallsdrag eða hali ekki meir en hálfs tíma ganga á breidd; þá varð fyrir þeim gildrag eða mjög þröngur dalur, sem lá beint í vestur og austur; ásinn, sem þeir gengu yfir, var lágur og þó nokkuð bratt suður af, en hátt og bratt fjall fyrir sunnan; það náði samt ekki langt til vesturs, því að gilið beygðist bráðum í suður, og skar þannig í sundur fjöllin í vinkil". Við þetta fjall vestantil sáu þeir reykinn, og héldu þá að hann væri enn langt burtu og gengu því ekki eftir gildraginu heldur þvert suður yfir fjallið, sem þeir sögðu að verið hefði á að giska 2000 fet. Fjallið var mjótt, og þegar þeir komu á syðri brúnina, sáu þeir það sem þeir voru að leita að, þeir sáu þar fyrir neðan sig (fyrir sunnan og vestan) djúpa og marflata hvilft eða hverfi, nálega hálfri mílu á hvern veg, fjöllum lukt á allar hliðar, háum og bröttum, að austan og sunnan með hamrabeltum, en að vestan nokkru lægri og flatari, og norðvestan; gildragið, sem ég áður minntist á, myndaði þröngt op eða inngang norðan í hverfið, þar sem það (gilið) beygðist suður á við fyrir vestan fjallið. Jafnfallinn snjór var í öllu þessu hverfi. Syðst og austast í því, næstum fast uppi undir suðurfjallinu, var gígurinn, sem mest hefir sést rjúka úr, á sléttu, en þar var ekkert nýtt hraun í kringum hann, sem menn skyldu þó hafa ímyndað sér; í kringum sjálft opið var að eins kominn hraunhringur, þó ekki hár, en eftir því sem þeir giskuðu á hér um bil 4050 faðma að þvermáli millum barmanna; barmarnir voru brattir ofan í sjálft gatið, svo að það hefir ekki getað verið mjög miklu mjórra en hraunhringurinn, sem sást. Svo nálægt komust þeir gígnum, að ekki voru nema hér um bil 70 faðmar að honum, nær þorðu þeir ekki. Ekki spúði hann einlægt jafnt og þétt, heldur með rokum, og þó einlægt nokkuð. Fyrir ógurlegum reykjarmökkvum gátu þeir ekki gjörla séð hverju hann gaus. Þeir sögðu að það hefði í reyknum sýnst líkast óheillegum druslum eða flyksum, sem hefir náttúrlega verið leðja og bráðið grjót. Mestallt féll þetta ofan í hann aftur eða á barmana og hrundi svo niður í hann, og þá urðu voðalegir brestir og dunur niðri. Því sem hann hafði lengst fleygt i burtu, hafði hann þó aðeins kastað um 20 faðma frá sér, en engu af því þorðu þeir að ná, því að einlægt gekk þessi grjóthríð og leðjuhríð logandi að ofan. Geysilega hátt hafði hann kastað hinu smæsta. en þeim ber ekki saman um hvað hátt, sumir segja yfir 100 faðma, sumir miklu meira, og það þykir mér líklegra. Engar eldstrokur sáu þeir koma upp úr honum. Nokkru fyrir vestan þennan gíg, hér um bil 8090 föðmum, hafði að því er þeim þótti líklegast og hér um bil sjálfsagt við þessi gos myndast jarðfall, hér um bil 1012 dagsláttur að stærð; lægst var það útnorðantil og þar stóðu þá björg eftir, hér um bil 6 faðma há, og svona var allt þetta stykki umgirt af björgum allt um kring, en langhæstum útnorðantil. Niðri í jarðfalli þessu sunnantil var annar gígur, nokkru minni en hinn, en spjó jafnara og ekki eins hátt; úr honum hafði runnið dálítil hrauná eftir jarðfallinu í útsuður. Úr henni kom líka lækur, með nokkurn veginn hreinu vatni, og rann hann norðvestur að björgunum og var þar komin stór tjörn. Niður í jarðfallið þorðu þeir ekki og gátu heldur ekki komist, því að bæði var snjórinn og björgin með svo stórum sprungum, að ekki var hægt að komast yfir, og svo voru hamrarnir svo háir að ómögulegt var fyrir þá að komast niður, en þeir höfðu engan útbúnað með sér til að síga ofan. Dálitlu fyrir vestan þenna gíg var einn lítill, sem þó nokkuð rauk úr, en ekkert rann úr. Margar smáar sprungur voru hingað og þangað, en engin svo stór, að úr ryki. Þessi hvilft liggur hér um bil eins lágt og Mývatnssveit, þó litlu hærra. Ef fjarska mikil hraunleðja rynni úr þessum gígum, gæti hún ekki runnið annað en fyrst um allt hverfið, og síðan norður um gildragið og svo austur eftir því, og þar taka við fjarska stórar og flatar sandauðnir austur að Jökulsá. Til þess að gefa þér greinilegri bugmynd um lögun þessa hverfis, skal ég, eftir þeirra sögusögn, sem fóru, lýsa því fyrir þér sem skeifu í lögun, táin (bungan) snýr suður, en hælar noröur, en með fjallalínu dreginni milli beggja hælanna. Á austanverðu fjallinu fyrir austan þetta hverfi þóttust þeir verða varir við eldgamla hraun-á, sem úr þeim hafði runnið í austurátt, en hvergi þóttust þeir á sjálfum fjöllunum hafa séð þess merki, að þau hefðu gosið, ég á við; gíga, eða skálmyndaðar hæðir eða hóla; en þó eru öll fjöllin brunnin; það eru að vísu ekki svo grófgerðir hraunsteinar eins og í hinum vanalegu hraunum vorum, heldur smágjörvari. Sökum fannar, sem var á fjöllunum, var ómögulegt að njósnast neitt um hvers konar mineralia" (steintegundir) þar væru; en það mætti má sko takast í sumar, því að þá ætla héðan ég veit ekki hvað margir. Norðaustur um Fjöllin (Austurfjöll) hefir aska borist, og þar hafa jafnvel í jarðskjálftunum, sem hér komu um nýársleytið, komið stórar og margar gjár, þar sem slétt var áður. Mjög líklegt er að þetta öskufall hafi töluverð áhrif á grassprettuna í af réttinni að sumri, því að víða hvar er hún nú í vetur mjög snjóber, svo að askan fellur þar ofan í bera grasrótina. Frétt höfum við að jafnvel norður í Kelduhverfi hafi hér um daginn fallið töluverð aska. Jarðskjálfta fundu leitarmenn mjög tíða og næstum alltaf í kringum hverinn sjálfan, og þar ekki alllangt frá byggðu þeir sér snjóhús undir hamri einum í gildraginu austanverðu, en urðu að flýja þaðan fyrir jarðskjálfta svo ógurlegum, að þeir óttuðust að hamarinn mundi falla ofan á þá.
Mars: Hagstæð tíð og hlý.
Þjóðólfur segir í mars fréttir af tíð og einnig af eldgosunum:
[6.] Hin milda veðurblíða hefur haldist til þessa dags. Ern það fádæmi á voru landi að jörð hafi haldist þelalaus nálega um allt land fram til mið-góu.
[23.] Sviplíkt veðráttufar yfir allt land. þó telja Ísfirðingar, Strandamenn og Þingeyingar vetur þennan ekki mikið betri en meðalvetur fram að þorra; enda lágu sumstaðar áfreðar frá hausthretunum yfir högum fjallbænda. En allvíða vita menn eigi dæmi til jafnharðindalauss vetrartíma. Þegar póstur fór um í Skagafirði, var þar víða búið að sleppa öllu fé til útigangs. Landvindar, frostleysi og þurrviðri hafa víðast og tíðast yfir gengið: mestur snær á Austurlandi, en rigning tíðust í Skaftafellssýslum. Hafísar engir. Fiskiafli síðan vertíð byrjaði spyrst góður nálega úr öllum veiðistöðum á landinu, en fyrir vertíð rýr afli á Vesturlandi, en drjúgur við Faxaflóa. Gæftalítið hefur verið þar sem veiðistöður liggja við suður og landsuðurátt.
Norðanfari birti 9.apríl skýrslu úr Mývatnssveit sem dagsett er þann 15.mars:
Að kvöldi hins 10.[mars] sást hér úr sveitinni mikill eldur í austri nálægt sömu stefnu og fyrri, og mun hafa verið stöðugt þá nótt alla, daginn eftir gjörði reykurinn svo ógnarlegan skýbólstrabakka við sjóndeildarhringsbrúnina, að hann tók yfir fullkomna eyktarlengd; þá var líka allhvass sunnanvindur, sem mun hafa gjört nokkuð að því, Á öðrum degi, eður þann 12.[mars] fórum við 3 saman austur, og vorum frá kl. 25 e.m. svo nærri hinum nýju eldsupptökum sem fært var, og skal ég nú með nokkrum línum, reyna að lýsa glögglega því, sem þá fram fór og að gjörst hafði á þessum 34 dægrum. Á að giska 700800 föðmum norðar en hraun það, sem lýst er í síðari hluta hinnar áminnstu skýrslu, voru nú komnir 1416 eldgígar stærri og smærri í nokkurn veginn beinni línu frá suðri til norðurs, á nálægt 20 faðma [svo - leiðrétt síðar í 200 faðma) löngu svæði; með grenjandi hljóði og hvellum, gusu þeir í sífellu mjög hátt í loft glóandi hraunflygsum stórum og smáum, sem fellur niður umhverfis gígana, og virtist okkur allt að helmingi meiri hraði á því sem upp fór, en hinu sem niður var að falla og sem hvíldarlaust fór á víxl hvað við annað. Vestanmegin við gígana hafði myndast jafnlangur hraunmalarkambur líklega 5060 feta hár, þar sem áður var slétt eða jafnvel dæld, og að undanteknu litlu eiði vestan á þennan kamb, var allt umhverfis útrunnið hraunflóð, mikið til suðurs og austurs, en langmest til norðurs; að ætlan minni var það orðið 500 faðmar á breidd sunnanvert, en framundir míla á lengd, með afar háum kömbum og misjöfnum; skorpið og svart var það ofan, sem önnur hraun, en undir því var að ólga fram og færast út hvítglóandi leðja líkust gjalli, svo var hún brennandi þegar hún kom í ljós útúr hraunröðinni, að við þoldum ekki nema með mesta hraða að seilast til hennar með göngustöfunum , en innan 2 mínúta er komin svört skorpa á þetta, sem hlýtur að springa aftur og spyrnast frá nýrri ólgu, þannig gengur hvað af öðru, og þóttumst við sjá að hinir miklu kambar og mishæðir, myndist á þann hátt. Yfir öllu hrauninu lá hvítblá gufa til að sjá með hristing líkt því sem vér nefnum landöldu", en sumir kalla tíðbrá", nema hvað þetta var þeim mun meira, að fjöll þau er við blasa hinsvegar við hraunið, sýndust sem í gagnsærri þoku, en svo er gufa þessi smágjör, að við sáum hana ekki innann 60 faðma fjarlægðar, þegar við stóðum við hraunið. Til að reyna að sjá sem best yfir, gengum við um eiði það er ég áður nefndi upp á hraunmalarkambinn norðast, og var þá hvervetna yfir hraunið að líta, sem í kolagröf, þegar loginn er í þann veginn að brjótast upp úr kurlinu, og austan undir kambinum nærri þverhnípt ofan í tvær geysimiklar kvosir, eins og sprungið hefði kamburinn og hrunið ofan í gígana, sem norðastir hafa verið, og voru nú hættir að gjósa fyrir hér um bil 78 klukkutímum, eftir sem við sáum á austurleiðinni; þarna urðum við snögglega um að litast, vegna hitans í mölinni, mikil sprunga var í kambröðinni glóandi rauð upp í barma, og yfir höfuð ærið geigvænlegt útsýni. Svo ógurleg og svipmikil sem okkur þótti nú, þessi sjón, er ég hefi skýrt frá að framan, þá sáum við þó þess ýmis merki, að það voru smámunir einir hjá því sem fram hafði farið næstu dægrin á undan, svo sem það eitt, að þetta geysistóra hraun skyldi koma á, 2 sólarhringum, og svo mikill malarkambur annað það, að hraunmöl úr gosinu lá í 300 faðma fjarlægð norðvestur, og 160 faðma í vestur fundum við líka fjærstu hraunagnirnar, en varla féll nú gosið lengra en 10 faðma frá gígunum, líka var víðifláki nokkur á þessu svæði svo sviðinn að hvítbitktur kvisturinn stóð upp úr mölinni. Þegar náttmyrkrið kom yfir okkur á heimleiðinni, urðu gosin til að sjá sem bál, og mun svo jafnan vera að það er gosið sjálft en ekki bál, er menn sjá þannig í fjarlægð þegar eldur er uppi. Áður en þetta hvarf okkur var uppkomið gos norðan til við hraunröðina, hvar við höfðum oft um daginn séð gufukúfa koma upp og hverfa aftur. Og næsta kvöld (hinn 13.) sýndist þeim er til sáu það hafa aukist, og vegna þess sleppi ég í þetta sinn að lýsa frekar hinum eyðileggjandi afleiðingum, að það hlýtur líklega að koma framhald síðar. Grímsstöðum við Mývatn 15. dag marsmánaðar 1875. Jakob Hálfdánarson.
Jarðskjálftar og eldgos. Síðan snemma í febrúar hafa jarðskjálftar verið tíðir norður í Bárðardal og Mývatnssveit (þó ekki í Húsavík), enda hefur þaðan sést til eldgosa fram á fjöllum, jafnvel tvo aðskilda gufustróka. Höfðu nokkrir röskvir Mývetningar gjört leiðangur fram á fjöllin til að kanna eldana, en voru ekki aftur komnir, er síðast fréttist. Þykir líklegt að eldgos þessi standi upp úr Trölladyngjum er liggja austanvert við Ódáðahraun. ... Nýjustu bréf að norðan segja að nýr Geysir sé upp kominn nálægt eldgosstöðvunum í Þingeyjarsýslu hér um bil 10 mílur suður frá Mývatni.
Þorleifur í Hvammi nefnir í veðurskýrslu sinni: Að morgni heyrðust margir dynkir sem við eldsuppkomu.
Apríl: Blíðviðri lengst af, kólnaði í lok mánaðar.
Þorleifur í Hvammi segir nokkrum sinnum frá miklu mistri í apríl: [16] Dymmumistur allan daginn. [17] Óskýrt sólfar af mistri. [18] Dauft sólfar af mistri. [21] Gekk upp misturbakki í S. [22] Mikið mistur á suðurfjöllum, svo sjaldan sá til sólar.
Norðanfari segir fréttir af tíð þann 9.apríl:
Hér og allstaðar hvað tilfréttist um land allt, hefur verið allt að þessu enn hin sama veðurblíðan og lengst af í vetur nema dag og dag, (t.a.m. 26.[mars] var 10° frost) og víða fyrir nokkru síðan farið að votta fyrir gróðri (um 12.[mars]). Eigi að síður er þó sagður talsverður hafís kominn hér undir land og stangl af honum inn á Siglufjörð. Og fyrir löngu síðan hafði hann verið kominn inn á Ísafjarðardjúp allt að Ögurshólma. Úr flestum vetrarveiðistöðum hér nyrðra hefur í vetur verið róið til hákarls, ... Alveg er nú sagt aftur fisklaust, segja þó Grímseyingar, að þar hafi í allan vetur verið fiskur fyrir og aflast meira og minna þá róið hefur orðið. Nýlega hefur ekkert frést hingað greinilega um eldgosið, nema að það hefur að öðru hverju allt undir þetta, haldist við, og seinast, eftir sögn, komið upp á nýjum stöðum og nokkru framar en getið er um í skýrslunni hér að framan. Það er því enn, eins og oftar fyrri, sem að oss íslendingum sé sýnt í tvo heimana, þar sem eldgosið og hafísinn er að norðan en fjárkláðinn að sunnan.
Norðanfari segir af eldgosinu þann 13.apríl:
Nýlega höfum vér fátt áreiðanlegt frétt af eldgosinu, nema að það væri alltaf að brjótast víðar upp, t.a.m. í útsuður, skammt frá Möðrudal og austanmegin Jökulsár. Og á Mývatnsöræfum er það sagt komið norður á svo nefndan Hraunháls, svo að þjóðvegurinn er í bráð og máski héðan af aftekinn. Austurlandspósturinn á nú á að leggja leið sína yfir Reykjaheiði eða Tunguheiði að Skinnastöðum í Axarfirði og þaðan yfir Hólssand að Grímsstöðum. Svo hafði mikið af hraunleðju og vikri fallið í Jökulsá á Fjöllum, að hún varð nær því óferjandi, sem í mesta ísreki og krapaburði á haustdag, og flóði meira og minna á land upp allt í sjó út, en þó óvíða til stórskemmda. Hraunleðjan og vikurinn, er nú sagt rekið á land aftur fyrir Kelduhverfi, Núpasveit og Vestursléttu.
Norðanfari segir enn af eldgosum þann 17.apríl - og hefur nú loks einhverjar fréttir að austan.
Um eldgosið á Mývatnsfjöllum. Þann 4.[apríl] að kvöldi dags, sást mikill eldroði um allt austurloft nokkru sunnar að sjá úr Laxárdal en fyrr hafði verið; tóku því nokkrir menn sig saman og lögðu af stað upp að gosinu. Það hafði í þetta skipti komið upp suður og austur af Búrfelli, töluvert austar en miðja vega milli þess og Jökulsár. Þá er vér komum austur að Hvannfelli heyrðum vér miklar dunur í fjallinu, en sökum þess að veðrið var töluvert hvasst á norðan og vestan, héldum vér að þetta væri veðurþytur. Undir Búrfelli varð þessi þytur svo mikill með köflum, að okkur fór að furða á þessum mikla dun í fjallinu, því líkast var sem margir stórfossar steyptust fram af fjallsbrúninni og þó þótti okkur dunurinn meiri. Þessum dunum slotaði með köflum og uxu þær svo aftur fjarska mikið. Er vér komum austur fyrir Búrfell heyrðum vér ekkert til dunsins um stund en er vér færðumst nær sjálfu gosinu, fór hann að vaxa og var líkastur því sem heyrist í fossnið. Eldurinn sjálfur gaus upp úr þremur hraunborgum hver suður af annarri, hafði hann hlaðið þær utan um sig af jafnsléttu. Nyrsta borgin var stærst og mest um sig. Í beinni stefnu norður og suður hér um bil 50 til 80 faðma vestur af borgunum, hafði í umbrotunum myndast stór jarðsprunga og landið allt sokkið niður hér um bil 3 mannhæðir eða jafnvel meira og hallaðist upp á við til austurs; um þessa kvos hafði hraunið runnið mestmegnis austur og suður af borgunum, en nú rann hraunið suður og vestur af syðri borgunum og sáum vér hversu eldstraumurinn þokaðist áfram. Sú hin nyrsta borgin sýndist oss vera aflöng og eldopið var hér um bil 300 faðmar á lengd; upp úr þessu opi stóðu eldstöplar jafnt og þétt, og spýttist sjóðandi hraunið hér um bil 2 til 300 fet í loft upp í samanhangandi stöpli, líkt og þá hver gýs. Toppurinn á stöplinum breiðist síðan út og fellur niður í smápörtum eina og dropar úr vatnsgosi og dökknuðu þeir jafnharðan og þeir losnuðu við stöpulinn og klofnuðu í marga parta og sprungu æ meir og meir eftir því sem þeir kólnuðu, en þó voru þeir svo bráðnir er þeir komu niður á barminn, að tár þeim skvettust og flöttust út líkt og vatni hefði verið skvett, og stendur líklegast svona á steinum þeim sem menn hafa talað um að kæmu upp með eldinum, að þeir eru í raun og veru ekki annað en hálfstorknir partar úr hraunleðjunni, logar sáust að sjálfsögðu hvergi og allur eldbjarminn kemur af eldstöplum þessum og hinni vellandi leðju sem er í gosborgum (Krater) þessum. Slíkir eldstöplar komu upp hingað og þangað í gosborginni, mest þó til endanna, og gátum við stundum talið millum 20 og 30, því ekki var alltaf jafnmikill kraftur í gosinu, heldur slotaði í því með köflum, og hertist svo aftur og þessir eldstöplar báru ekki ætíð yfir alveg á sama stað í brúninni og af því dreg ég að gosborgin hafi verið full af sjóðandi hraunleðju, þar sem þessir stöplar tóku sig upp úr, með því að fjarskalegt gufuafl þrýsti á eftir. Verulegur reykur var eigi gosinu samfara, heldur blá gufa, sem þandist út og hvítnaði eftir því sem ofar dró og var svo mikið afl í gufunni, að þó að hvasst væri mjög, hafði hún sig beint i loft upp um mörg hundruð faðma. Dunur þær sem ég áður nefndi að vér hefðum heyrt undir fjöllunum komu frá gosinu, af suðunni og vellandanum niðri í gosborginni, og var hann líkur fossnið, en svo mikill að vér vorum allir samdóma um, að vér hefðum aldrei heyrt láta eins hátt í neinum fossi; innan um þenna nið heyrðust stórir smellir eins og þá hleypt er úr fallbyssu eða jafnvel meiri, og tókum vér eftir að samfara þessum brestum kom upp blár gufustrókur, og ímynduðum vér oss að orsökin til brestanna, væri sú að loftbólur springi í yfirborði hraunleðjunnar. Af eldstróknum og falli hans niður var alls enginn hávaði; gosið í hinum borgunum hagaði sér að öllu eins og hér er sagt. Þessum gosum fylgir alls engin aska, þetta gos er víst hið sjötta síðan byrjaði á fjöllunum, og hafa þau alltaf farið vaxandi með 10 til 12 daga millibili og hefur eldurinn komið upp ýmist norðar eða sunnar í línu, sem nær frá Ódáðahrauni og lítið eitt norður fyrir veginn austur frá Reykjahlíð, jafnhliða Jökulsá, og eru hér um bil 2/3 partar vegar frá Reykjahlíð og austur að Jökulsá af, þá er komið er austur að hrauninu. Gjá sú er vér nefndum að framan, liggur fram með öllu hrauninu, sem allt hefur sigið niður og eiga að vera enn meiri brögð að þessu nyrst, heldur en þar sem vér komum að því. Dyn þann er vér nefndum, heyrðum vér glöggt þá er vér vorum aftur komnir ofan í Mývatnssveitina og höfðum vér verið rétta 12 tíma á leiðinni frá Reykjahlíð og þangað aftur. Stóðum vér hér um bil 3 tíma við hjá gosinu.
Annan í páskum [29.mars] sást úr Möðrudal á Fjöllum strókur mikill taka sig upp fyrir sunnan Herðibreið og giskuðu menn þar á, að gos mundi komið upp í Vatnajökli; úr öðrum stöðum, bar þessi strókur svo við eins og hann hefði komið upp sunnan til í Möðrudalslandi og var þar sagður eldur uppi, sem þó reyndist ósatt. Hvar sem nú þessi eldur hefur komið upp, hvort það er úr Vatnajökli eða úr tungu þeirri er myndast af kvíslum Jökulsár, eins og sumir hafa getið sér til, eða úr Dyngjufjöllum, þá varð honum samfara mikill vikur (Pimpsteen), og það svo, að Jökulsá var óferjandi um nokkra daga, sökum vikurburðar. Þá var vindur vestlægur og barst því ský- og vikur-strókurinn yfir Jökuldal, Fljótsdal og Seyðisfjörð. Á þessum stöðum varð fjarska mikið ösku- og vikurfall, sem þó minkaði eftir því sem austur dró. Var svo mikið af því í loftinu að á Jökuldal varð svo dimmt að um 5 klukkustunda bil varð að kveikja, þótt um albjartan dag væri. Þetta myrkur stóð hér um bil 3 tíma í Fljótsdalnum en 2 á Seyðisfirði eftir því sem sagt er. Vikurfallið er sagt svo mikið, að það sé 6 þumlungar á þykkt ofan til á Jökuldalnum, en ekki nema 2 á Seyðisfirði og eiga vikurstykkin innanum á Jökuldalnum að vera eins og framan af þumli. Ekki hefur frést af vikurfalli víðar en hér er greint. Ferðalangur.
Í sama blaði er bréf frá Jóni á Gautlöndum, dagsett 10.apríl og síðan almennar fréttir.
[Gautlöndum 10.apríl] Það er ekki orðin nein létt sök að lýsa greinilega þeim ósköpum, sem hér áganga, því eins er og eldurinn sé alltaf að magnast. Núna þessa dagana hefur hann verið svo mikill, að hálfljóst er í húsum um hánótt og dynkir og dunur með mesta móti. Þó eldurinn liggi niðri dag og dag í senn, er hann jafnskjótt uppi aftur, hingað og þangað á þessari línu, sem hann virðist halda við og sem er orðin á 3. mílu á lengd. Á sumum stöðum kvað hraunið orðið 1/2 mílu á breidd [3 km eða svo]. Aska féll hér 5.[apríl], en ekki svo mikil að hún verði að meini ef ekki bætir á. Voðalegri eru fréttirnar að austan, sem borist hafa hingað nýskeð. Á annan í páskum, kom svo mikið öskufall á Jökuldal og sveitunum þar í grennd, að nema mundi kvartilsþykkt á auðri jörð á sumum stöðum. Um hádag var svo dimmt, að naumast var lesljóst í húsum. Vera má að þetta sé eitthvað ýkt, en sannspurt er, að Jökuldælingar hafi ætlað að flýja með fénað sinn út í Vopnafjörð fyrir bjargarskort. Þetta öskufall hefur að líkindum komið úr Dyngjufjöllum, nema svo sé, sem ekki er ólíklegt, að eldurinn sé komin austar norðan í Vatnajökli, eða norðan við hann. Í Dyngjufjöll hefur enginn komið síðan þeir 5 sem fóru héðan úr sveit á þorranum, en þar eru efalaust mikil umbrot í náttúrunni, því nú uppí heilan mánuð hefur rokið þar fjarskalega og í fleiri stöðum ýmist austar eða vestar. Þegar fram á vorið kemur, mun verða rannsakað bæði eystra og syðra, og mun ég þá ef ég tóri til, gefa svo nákvæma lýsingu, sem unnt er af öllum ummerkjum".
Eitt hákarlaskipið, sem var nýlega á ferð fyrir norðan Grímsey, hafði hitt þar fyrir sér miklar rastir af vikri og hraunleðju. Flest eða öll hákarlaskip eru nú úti, og því ekki enn frést af afla þeirra.
Norðanfari birtir úr bréfum þann 29.apríl (nokkuð stytt hér):
[Húnavatnssýslu 17.apríl] Alltaf helst hin sama góða tíð. Allar ár eins og um hásumar, og sumstaðar farin að koma nál í jörð. Eldmistur hefur verið fjarskalegt í gær og í dag, og það var svo með köflum, að vart hefur sést til fjalla yfir mílu vegar.
[Langanesi 7.apríl] Veðuráttan er einmuna góð, sífelldar þíður og blíður; skepnuhöld í góðu lagi; og væntanlegar heybirgðir í vor. Fiskafli töluverður hér á austanverðu Langanesi og er það sjaldgæft á þessum tíma árs. Hákarlaveiði og selveiði hefur miður gefist.
[Þistilfirði 12.apríl]: Engin skip rétt nýlega komin við allt Austurland. Selafli er sárlítill á Sléttunni, en enginn á Langanesi, þar er aftur orðið fiskvart að mun, varð það fyrst í seinustu viku góu. Tíð er hin ákjósanlegasta, hér sem annarstaðar, svo skepnuhöld hljóta að verða góð, ef afleiðingar af eldgosinu snúa því ekki á aðra leið. Einlægt logar í kolagröfinni á austurfjöllum og eins í Dyngjufjöllum. ... Vikurhrannir eru með allri Jökulsá kringum Núpasveit og Sléttu, og vart hefur orðið við samkyns reka hér.
Ísafold birti þann 31.maí bréf af Skógarströnd, dagsett 20.apríl:
Veðuráttufarið í mars var hér fremur breytilegt, umhleypinga- og votviðrasamt. Vindstaðan var lengst af frá landsuðri til útsuðurs. Fáeina daga var vindur í austan eða austnorðan. Tvívegis gjörði stórhríð, þann 10. og 31. Þann 29. heyrðust hér miklir dynkir, líklega af eldgosi nyrðra. Hiti var oftar á R hitamæli. Að kvöldi hins 26.[mars] varð hér ll° frost. Fremur var létt í lofti, sem menn kalla nema þann 25. ... Fyrstu 9 dagana af apríl hélst áfram hið breytilega veðurlag og vindstaðan af öllum áttum með krapahryðjum, einkum hinn 9. var sunnan ofviðri. Hinn 4. var blíðviðri. Frá þeim 10. til þess í gær hafa verið einstök blíðviðri með andvarakuli, ýmist af landsuðri eða útnorðri, en þessum kyrrviðrum hafa fylgt hin mesta móða og mistur suma daga, svo aðeins hefir grillt fyrir sólu.
Askan barst til Noregs og Svíþjóðar. Hér má sjá áætlaða leið og hraða hennar. Mynd úr: Mohn, H. (1877): Askeregnen den 29de-30te Marts 1875. Christiania vidensk.-selsk. forhandlinger 10, s.3-12.
Þann 13.maí birti Norðanfari bréf frá Mývatni og Seyðisfirði:
[Mývatni, 1.maí] Þegar ég skrifaði þér seinast, hafði ég von um að undraverk náttúrunnar mundu hvíla sig um stund; en á þriðjudaginn seinastan í vetri [20.apríl] virtist mönnum annað, því aldrei hafði hinn nýi eldgangur látið meira til sín heyra en þann dag; dunur, brestir og dynkir voru ákaflegir og reykurinn fjarskalega mikill. Á sumardaginn fyrsta [22.apríl] riðum við 4 austur á fjöllin til að sjá hið nýja eldsumrót. Þegar við komum austur að Kollóttafjalli, sáum við eldborgina gnæfa hátt upp, sem dálítið fjall á Sveinagjárbarminum, skammt utan við fjárgjána; þar voru áður fagrar grasi vaxnar sléttur, en nú er þar tilsýndar að sjá, sem hrikalegur fjallhryggur, með einlægum eldgígum stórum og smáum, sem liggja frá suðri til norðurs. [Þrír] eldgígarnir létu nú mikið til sín heyra, svo við fengum nóg af að horfa á þau undur; hávaðinn var svo fjarskalegur, skellirnir svo voðalegir og hristingurinn, sem allt ætlaði um koll að keyra, gígarnir köstuðu óaflátanlega grjóti og gjalli, þeir stóru steinar sem við misstum ekki sjónar af, voru 45 sekúndur eða 1 mínútu á niðurleið, gjall og smærri steinar fóru svo hátt, að við gátum ekki fylgt því með augunum, og kom svo aftur úr þokunni, sem hríðardrífa langar leiðir frá gígunum. Við gengum dálítið inn í hraunið og brenndum við það skó okkar; hraunið var svo illa storkið og víða sem að logaði í hraunsprungunum. Úr stærstu gígunum rann hvítglóandi eldá og stefndi til vesturs, það var mikilfengleg og hroðaleg sjón að sjá og heyra hana grenja á jafn fögru landi. Ekki vita menn hvað gjörist fram í Dyngjufjöllum, en líkur eru til, að þar séu undur mikil á ferðum, því alltaf rýkur þar stanslaust.
Þann 19.maí birti Norðanfari langt bréf frá Ísleifi Einarssyni á Bergstöðum um öskufall í Múlasýslum, dagsett í maí. Í sama blaði birtist einnig bréf úr Húnavatnssýslu. Bæði bréfin eru nokkuð stytt hér:
Vikuröskufall í Múlasýslum á 2. í páskum (29.mars) 1875. Seint á næstliðnu ári (1874) varð hér um Austurland oft vart við jarðskjálfta, einkum um jólin, og svo í byrjun þessa árs. Þá sáust og hér af fjöllum tveir digrir og háir reykjarmekkir upp úr jarðeldagjám inn og vestur af Herðabreið, svo sem væri í Dyngjufjalladal (Öskjunni). Sýndist mér hér af Hallormsstaðahálsi viðlíka langt milli þeirra, sem frá hinum ytra til Herðabreiðar. Þó ætla ég það bil væri lengra. Þá sá ég eigi til eldsins út á Mývatnsöræfum. Jarðskjálftarnir urðu strjálli og sjaldgæfari, þegar framleið á veturinn. Á annan í páskum (29. mars) heyrðust mjög snemma um morguninn dunur miklar og umbrot í vestri, og leiddi dunreiðarnar norðaustur til ytri Héraðsfjalla og svo inn suðurfjöllin, því vindur hefur verið á vestan eða sunnan við vestur, þar sem eldgosið var, og borið hljóðið.
Loft var þykkt og kolsvart til norðurs og norðausturs. Ég var staddur að Þingmúla í Skriðdal, þegar þetta var, og var þar logn. Um dagmálabil fór að rigna ofan úr loftinu hvítgráum vikri stórgerðum kornið á digurð við grjón, en mikið lengri. Sortinn ytra færðist inneftir, og var alla tíð að dimma, og vikurregnið jókst. Rúmri stundu fyrir hádegi varð að kveikja ljós í húsum. Þá sá ég eigi lengur á bók. Þegar leið að hádegi var orðið svo dimmt úti, sem í gluggalausu húsi, og sá enginn á hendur sér (úti) fáa þumlunga frá augum. Þetta niðamyrkur hið svartasta, hélst rúma stund. Þá urðu allir glergluggar að skuggsjám, þeim er inn voru við ljósin eins og kvikasilfur væri utan á glerinu. Alls voru það um 4 stundir, er ljós varð að hafa. Heima hjá mér, rúmri mílu norðar, var niðamyrkrið 2 stundir. Meðan á því stóð, hrundi vikuraskan úr loftinu, og var á utangola hæg. Þá gekk lengi, svo lítið bil var milli, á eldingum og þrumudunreiðum miklum, svo allt fannst skjálfa við. Loftið var hlaðið rafurmagni, svo að logaði á turnatoppum og stafabroddum, sem upp var snúið stundum og á höndum manna, er menn réttu upp dunreiðarnar, sem fylgdu með reglulegu bili eldingunum, voru nokkuð ólíkar þrumuöskri því hér var loftið hlaðið ösku og mótspyrnan meiri en í auðu lofti var sem hvellur tæki við af hvell yfir þveran himinn. Þegar mesti myrkvinn leið af og öskufallið minnkaði, færðist mökkurinn inn til dala, en sýndist standa þar kyrr, því golu andvari kom þar móti og færði mökkinn aftur hægt og hægt út yfir dalinn. þá féll smá aska enn úr honum og varð skuggsýnt. Þar, sem ég var staddur, varð vikuröskulagið á hólum rúmlega 1 1/2 þumlungur á þykkt. Heima hjá mér og um ytri hluta Fljótsdals rúmir 2 þumlungar. Meira dálítið þegar út kom í Fell og um Völlu, hið innra allstaðar þykkra í lágum, því golan feykti vikrinum af bungum. Á efra Jökuldal varð vikurlagið 4 til 8 þumlunga þykkt og vikurinn stærri, margir molar hnefastórir og sumir á borð við 2 hnefa. Þar var og askan glóðheit, er hún kom niður hér aðeins volg og fá vikurkorn stærri en kaffibaun. Fyrst, þá askan féll, fylgdi henni megn brennisteinsfýla, síðan hvarf hún. Lítið bragð fannst að öskunni, þó virtist saltbragð og járnkeimur vera að hinni smæstu, er sat föst á steinum og staurum, er upp stóðu. Hér í fjörðunum, þar sem þessi aska féll, varð lagið þynnra og smærri vikurinn 1 þumlungur eða rúmlega það á þykkt allt að 2 þumlungum. Askan lá logndauð 3 daga. Jörð var hér öll auð í byggðum á undan öskufallinu. Engin skepna mátti úr húsum koma. Féð varð sem hamstola úti, rann og hljóp eitthvað út í bláinn. Á 4 degi kom hér býsna hvass suðvestanvindur. Þá reif öskuna víða í skafla, og fauk af þúfum, nema hið smæsta sat eftir í skóf; sumir skaflar urðu 1 til 2 álnir á þykkt. Næsta dag kom norðvestanveður, en eigi nógu hvasst. Skemmdi það aftur þar, sem áður reif af.
Ég hefi nú frétt nærri glöggt um það, hvað víða þessi aska féll hér, og sést hefir hér af hálsinum eldsuppkoman, sú er þessi mikla aska hefir líklega komið úr. Hún sýndist vera í Dyngjufjöllum suðvestur af Herðabreið nokkru innar en gjárnar þær í vetur, svo sem hún væri innst í Dyngjufjalladal eða þar um bil. Þaðan stefnir ytri brún öskufallsins um hnúkana innan við Möðrudal svo um Fossvöll, svo innan við Unaós í Hjaltastaðaþinghá, um Vatnsdalsfjall. Þó nokkur aska sé utan við þessa línu, þá er hún lítil, eins innan við hana, næst henni miklu minni en þá er innar dregur á öskusvæðið. Innri hlið öskufallsins er yfir Laugarvalladal innan til (nærri 4 mílum inn og vestur frá Brú), um l 1/2 mílu vegar innan við Aðalból í Hrafnkelsdal, svo innan við Kleif í Fljótsdal, innan við Skriðdal, svo til Fáskrúðsfjarðar. Þó nokkur aska sé inn frá þessari stefnu, t.a m. í Breiðdal og Stöðvarfirði innan til, þá er hún lítil og rignir fljótt ofan í jörðina. Eins er og askan þunn utan til í flestum fjörðum, er spýjan stefndi á, því, þegar þar kom, var meiri hluti öskunnar fallinn. ...
Það eru 7 sveitir í Fljótsdalshéraði, sem verst eru farnar af þessu stórkostlega vikurfalli. Jökuldalur, Fell, Fljótsdalur, Skógar, Skriðdalur, Vellir og Eiðaþinghá. Svo er og skaðleg og mikil aska í Norðfirði, Reyðarfirði, Mjóafirði, Seyðisfirði og Loðmundarfirði. Þar sem mosamýrar eru til eins og sumstaðar í Skriðdal, á Völlum og í Eiðaþinghá, vona menn helst að askan sökkvi í vor og sumar á mörgum blettum ef rigningar fást, svo hagar komi upp og jafnvel nokkrir sláandi blettir. Um harðlendu sveitirnar eru menn vonardaufari, að þar komi gripahagar. Þó býsna mikil aska (viða um 1 þumlungur eða meira) félli einkum innra í mörgum fjörðum, vona menn að nokkurn hluta hennar rigni af í vor og sumar, ef úrkomur fást, því þar er miklu rigningasamara enn í Héraði og víða bratt. Skrifað á Hallormsstað 24. apríl 1875. Sigurður Gunnarsson.
[Húnavatnssýslu 29.apríl] Vetrar þess, sem nú er nýliðinn, mun lengi minnst verða, sem einhvers hins besta, er vér íslendingar getum búist við að lifa. Hann hefur frá því batnaði eftir veturnæturnar verið svo jafnblíður, að trautt muna nú lifandi menn eins góða og stöðuga vetrarveðuráttu. Engar stórhríðar né hörð frost. Hér varð frostið mest 12 stig 9. desember og 27. janúar, og á öllum vetrinum, eru það einir 78 dagar, sem hitamælirinn hefur ekki einhverntíma á deginum stigið yfir 0. En nokkra vetur muna menn, sem hagar hafa verið betri, fyrir þá skuld að snjóþyngslin í haust urðu svo ákaflega mikil í sumum fjallabyggðum og útsveitum að öllu hleypti í gadd, sem ekki tók kipp fyrri en á þorra og góu og seinna sumstaðar. En eins og áður er sagt, hlýtur þó vetur þessi yfir höfuð að teljast með hinum bestu; ... Rétt fyrir sumarmálin komu hér inn á Skagaströnd 2 hákarlaskip (annað þeirra Akureyri). Sögðu skipverjar mikinn ís í hafinu og að hann væri þá 2 mílur undan Skagatá. Eigi að síður er hið sama blíðviðri, tún orðin algræn og mikill gróður kominn sumstaðar í úthaga. Mikið eldmistur var hér á sumardaginn fyrsta og eins næstliðinn sunnudag og mánudag. Fiskvart var orðið hér utarlega á ströndinni og út í Nesjum fyrir sumarmál. Hrognkelsaafli hinn besti; einnig er sagt orðið alsett Drangeyjarbjarg og menn þegar í undirbúningi að flytja þangað til verstöðu, sem er óvanalega snemma.
[Mývatni, 5.maí] Nú eru 11 dagar liðnir, síðan seinasta gosið datt niður, og er þess óskandi, að slíkum undrum væri nú lokið. Það er ekki unnt að gjöra grein fyrir hvað gosin hafa verið mörg og þétt, en þau sem mönnum verða minnisstæðust, fyrir það, að þau hafa látið mest til sín heyra hingað í sveitina, eru þessi: Fyrst og næst eftir því sem lýst er í skýrslunni, var það er uppi var 18.19. mars, það var fram undir Ódáðahrauni; um nóttina vöknuðu menn í rekkju sinni við einn brest, þar næst 23.[mars], þá kom eldurinn upp nálægt veginum, og hefur verið sagt af Hólsfjöllum, að 40 eldar hafi verið taldir uppi til og frá það kvöld, svo það sem skýrt er frá í Norðanfara 20. blaði og kom upp 4. apríl og seinast þann 20., sem og varaði til hins 24. það var nálægt eða á sama stað, og 10. mars; og þaðan ætla ég mest hraun útflotið fyrst og seinast. Þess hefur verið getið, að hið nýja hraun mundi vera á [þriðju] mílu á lengd, og er ég því ókunnugur, en eftir sem ég hefi séð yfir það, þá ætla ég breidd þess hvergi yfir 1000 faðma, og þar sem það er mjóst 400500 faðma, er þetta kippkorn sunnan við veginn; það er fjarskalega hroðafengið, óslétt og laust í sér, svo varla mun nokkur skepna fara sjálfráð á það, en sumir halda að það megi ryðja veg yfir það; ferðamenn láta illa af vegi þeim, sem nú er farinn fyrir norðan það, en ekki er það mjög mikill krókur. Að framanverðu kvað hraunið vera mikið á hagleysu og söndum, en gott haglendi hefir tapast við það norðar, þó það sé ekki mikill hluti svo víðlendra afrétta, sem liggja umhverfis. Hestaganga verður að vetrarlaginu óviðfelldnari og hættusamari en áður, og hættur fyrir allar skepnur hafa aukist í bráðina. Um langan tíma hefir nú rokið miklu meira í Dyngjufjöllunum, en í vetur áður og um það bil mennirnir gengu suður.
[Seyðisfirði 29.apríl]: Hér hafa nú dunið þau heimsins undur yfir Austurland, að slíkt man enginn núlifandi manna. Hér á Seyðisfirði og víðar, mun því annar í páskum lengi í minnum hafður. Dagurinn byrjaði nú raunar samt eins og hver annar dagur, sem Guð gefur yfir, þó var lítið eitt skuggsýnna fyrst, en kl. 9 dimmdi skyndilega og varð svo myrkt, að engin nótt getur orðið svo svört, því þótt menn stæðu í bæjardyrum var ómögulegt að vita, hvort það var úti eða inni, nema með áþreifingu. Þrumur gengu óteljandi með eldingum, líkt eins og gjörvallur heimur með brestum og braki ætlaði til grunna að ganga. Sumt af kvenþjóðinni hugði líka heimsendirinn kominn og lagðist upp í rúm, sjálfsagt með fyrirbænum. Stafalogn var úti, þegar þetta gjörðist Öskufallið varð hér um 1 1/2 þumlungur áður hún seig; sumstaðar hér hefur nú rifið dálítið, einkum norðanvert við fjörðinn. Menn eru nú í óða önn að verka tún sín, og væri óskandi að eigi fyki á þau aftur. Menn hyggja að lítið verði hér um heyskap í sumar, nema ef tún kynnu að verða notandi. Sumir segja að fénaður sé orðinn skinnlaus í munninum, hvað sem satt er í því Fiskafli var hér dálítill um tíma, en nú er hann enginn og er kennt vöðusel. Lítið eitt hefur aflast af hákarli eða hákallagotum, sem vart er teljandi, enda er hákarlaútgjörð Seyðisfirðinga í miklum barndómi, sér í lagi hvað skipin snertir. ... Tíðarfar er hér annars hið æskilegasta.
Þann 16.júní birti Norðanfari allítarlegt bréf úr Loðmundarfirði dagsett 9.apríl. Er þar lýst öskufalli þar um slóðir:
Veturinn hefir víðast hér eystra verið dæmalaust góður hvað tíð og jarðir snertir, þó var i þessari sveit gefið öllu stöðugt inni frá nýári til þess í miðgóu, þá komu nægar jarðir og veðurblíða sú mesta er menn muna til þessa dags; en þó er nú svo komið, að þessi vetur verður hinn þyngsti Austurlandi og þyngri nokkrum öðrum sem komið hefur á þessari öld, ef ekki frá landnámstíð. Á annan í páskum, þegar vaknað var hér kl.6 um morguninn, sást dimmur mökkur í vestri, leiddi hann skjótt yfir svo kl.7 var sem hálfrökkur af öskufalli, varð þá einnig vart við eldingar og ógurlegar þrumur í lofti, kl 8 birti litla stund, kl. 1/4 til 9 leiddi aftur yfir öskumökkinn, og kl. hálf 9 var orðið eins dimmt og í gluggalausu húsi; stóð það niðmyrkur í 3 klukkustundir. Það var dimmra en nokkurt svartnætti, því enginn kostur var að glöggva dyr eða stóran glugga þó maður stæði rétt fyrir innan; þegar ég stóð úti hjá piltum mínum var enginn kostur við sæjum hver annan, þó við værum hver við annars hlið. Á meðan á þessu helmyrkri stóð, riðu eldingarnar og þrumurnar svo þétt að eitt sinn taldi ég 4 á mínútu, hefi ég heyrt þrumur áður en aldrei þvílík undur, það var sem allt væri á reiðiskjálfi og ætlaði ofan að rífa og umrótast. Það var stórkostlegt og óttalegt að heyra í helmyrkvanum um hádaginn, enda mun enginn hér eystra í öskusveitunum verða eldri en það hann muni þá stund. Kl. hálf tólf fór aftur að birta og þrumurnar að strjálast, og kl.12 nokkurn veginn bjart, og munu allir hafa orðið því fegnir. En að sjá þá yfir jörðina, var allt annað en skemmtilegt, mógrátt öskulagið lá jafnt yfir allt, eins efstu fjallatinda sem láglendi því blíða logn var meðan á þessu stóð. Ég mældi strax öskulagið á sléttu og var það þriggja þumlunga þykkt. Á þriðja var nokkurt öskufall svo nokkuð rökkvaði, en þess gætti minna því vestan gola var með, svo öskuna leiddi meira yfir. Síðan hefir ekki aska fallið að mun. Á fjórða sendi ég mann í Hérað til að vita um hvort allstaðar hefði fallið eins, eða hvort hvergi væri að flýja með sauðpening og hesta héðan, þegar hann kom aftur, sagði hann allstaðar eins, milli Smjörvatnsheiðar að norðan og Axar að sunnan þó grynnra í sjálfu Héraðinu en hér, en öskulausan Vopnafjörð og þar fyrir norðan, einnig öskulítið í Úthlíð, Úttungu og ystu bæjum í Hjaltastafaþinghá, hafði verið norðaustan gola þar inn af flóanum er bægði nokkuð frá um daginn, en sökum þess að hér var hvass VNV-vindur á páskadaginn og fram eftir nóttinni sem hefir borið öskumökkinn en stíflaði með utanhaldi á annardagsmorgun, hefir öskufallið orðið einna verst hér í fjörðum; þó kvað það vera þykkra og með vikursteinum á Efra-Jökuldal, svo haldið er hann sé að miklu leyti eyðilagður um stund.
Norðanfari birti þann 3.júní stutta klausu úr Mývatnssveit. Hún er dagsett 20.maí:
Aldrei hefur rokið meira í Dyngjufjöllum en í gærkvöld (19.[maí]), stóð reykjarstólpinn eldrauður upp á háloft, og var til að sjá nokkru vestar en áður. Nú hefur eldurinn á Austurfjöllum legið niðri um tíma, og vona menn, að hann sé hættur til fulls.
Þjóðólfur segir þann 16.apríl: Fiskiafli hvervetna hér hinn besti, en veðrátta æði rosasöm.
Ísafold hrósar tíð þann 22.apríl:
Veðrátta að kalla eins og um hásumar. Mun sjaldnast hafa verið kominn upp meiri gróður mánuð af sumri en nú er hér syðra fyrir sumarmál. Hinn 8.[apríl] drukknuðu 2 menn af skipi hér úr Reykjavík, á heimsiglingu vestan af Sviði, í landsunnanveðri. Voru 7 á, og varð 5 bjargað af öðru skipi, er sigldi þar nærri, er hinu hvolfdi.
Ísafold segir óljósar fréttir af jarðeldi í pistli þann 27.apríl, trúlega er hér átt við Öskjugosið - ranglega staðsett:
Jarðeldur hafa menn þóst verða varir við að uppi muni vera í Vatnajökli sunnarlega. Hefir fyrir skömmu sést þar reykjarmökkur mikill af Rangárvöllum og víðar að. Um páskana heyrðust og elddynkir allmiklir viða um Suðurland, eins og mesta fallbyssuskot er oss skrifað úr Hreppunum.
Þjóðólfur hrósar vetri í pistli þann 27.apríl:
Sumarmál: Þess mun getið í árbókum hinna síðari 1000 ára Íslands, að þeirra fyrsti vetur hafi liðið til loka, sem minnisstæður blíðuvetur. Skepnuhöld hafa verið almennt með skárra móli, að fráteknum fjárkláðanum og bráðapestinni á ýmsum stöðum. Aflabrögð hin bestu við allan Faxaflóa, eins við Snæfellsjökul og víðar á Vesturlandi; en í austurveiðistöðum sunnlendingafjórðungs hefur afli ekki náð meðalupphæð til þessa. Lökust aflabrögð eru oss sögð úr Vestmannaeyjum; er þaðan sagt hið mesta harðæri. Slysfarir hafa orðið með allra minnsta móti, og hefur enginn maður á Suður- og Vesturlandi orðið úti á vetrinum, að því oss er kunnugt, en fáeinir týnst af öðrum slysum.
Þann 29.apríl segir Þjóðólfur af öskufallinu eystra. Efnislega er fréttin að mestu framkomin hér að ofan, en við lítum samt á fáeinar setningar síðast úr pistlinum:
Ótíðindi að austan. ... Tvennum fer sögum um, hvaðan askan hafi komið. Á þrem aðalstöðvum segja menn að brunnið hafi í vetur, nefnilega í hinum efri Trölladyngjum (Dyngjufjöllum), í Vatnajökli, og fjöllin vestur af Jökuldal. Líkast er að askan hafi komið ofan úr Vatnajökli ekki úr Kröflu, sem sumir geta til. Mælt er að vindurinn hafi verið vestlægur þennan öskudag. Þann sama dag heyrðust dynkir miklir á Rangárvöllum (í Odda og víðar). Árnessýslubúar þykjast og sífellt sjá öskumökk yfir austurjöklum, og nokkrir segjast enda hafa séð til elda. Mistur mikið fylgir blíðviðrinu, og þykir það eins all-ótryggilegt og engi góðsviti. Úr Suður-Múlasýslu fyrir austan Héraðsfjöll heyrist ekki enn talað um plágu þessa; heldur ekki höfum vér heyrt skýrslur úr Þingeyjarsýslu; en mjög er hætt við, að hin hagasælu öræfi frá Mývatni og austur undir Jökuldal, séu meir eða minna ösku og eitri hulin. Er þetta allþung tíðindasaga, hvernig sem úr rætist, eldur að austan, eitur að sunnan, þarf nú að brýna hinar betri eggjar lífsins, sálarþrek og samheldi.
Maí: Sæmileg tíð í byrjun mánaðar,en síðan hrakviðri og rigningar, snjóahret nyrðra.
Þorleifur í Hvammi segir um hretið í lok mánaðarins:
[30.maí] Fennti á fjöll [að morgni] krapafjúk að degi, en stórhríð að kvöldi. [31] Fjúkkóf [síðdegis] og snjór í byggð að kvöldi. [1.júní] Alsnjóaði að aftni.
Ísafold segir frá tíð þann 25.maí:
Síðari hluta [apríl] og fyrstu vikuna af þessum mánuði stóðu sömu hlýviðrin og að undanförnu, en vætur miklar, og lágu fiskiföng manna mjög undir skemmdum. En viku fyrir hvítasunnu, 10.[maí], kólnaði allt í einu, og hafa síðan verið sífelldir stormar með rigningum og fjúki til fjalla. Eru menn mjög hræddir um, að veðrabrigði þessi standi af hafís, enda hefir nýlega frést, að hann væri kominn inn á Skagafjörð. [Blaðið bætir svo við þann 31.maí]: Veðrátta enn hin sama, í nótt snjóað ofan í sjó.
Ísafold birti þann 26.júní frétt um skipstrand í maí (eftir bréfi úr Vestmannaeyjum 2.júní):
Fáar eru fréttir héðan; sífellt gæftaleysi af stormum og þar af leiðandi aflaleysi af sjó; 20.[maí] strandaði hér briggskip St. Jörgen frá Mandal, skipst. Thorvald Nielsen; þenna dag var hér hið grimmasta austanrok; slitnaði landfesti skipsins, og rak það þá fyrir einu akkeri, uns það um nónbil fór að höggva á svonefndu Básaskeri (fyrir innan verslunarstaðinn Tangabúð eða í norðvestur af honum); urðu þá skipverjar að
höggva á reiðann og fella siglutrén útbyrðis.
Ísafold birti þann 26.júní úr bréfi sem ritað er á Eskifirði þann 26.maí.
Nú halda menn að eldgosið sé hætt; nú er líka tíðin farin heldur að kólna; hér kom mikil rigning um daginn og sýndist okkur askan minnka nokkuð við það, sumstaðar rann hún með rigningunni ofan úr fjöllunum ofan á tún manna og skemmdi þau. Ég ímynda mér að nokkuð fáist af túnum í sumar ef tíðin verður góð, jafnvel líka í Héraði, því menn hafa víst víðast hvar hreinsað þau, en reyndar skemmast þau fljótt aftur hjá þeim, því undir eins og hvessir kemur sandfok eða öskufok yfir þau; en engjar og stórgripahagar verða víst víðast hvar lítt nýt; en furða er samt hvað grasið teygist upp úr öskunni og er orðið fremur venju hátt það sem upp úr kemst, en það er aftur á móti svo gisið. Menn voru orðnir varir við, að skepnur voru orðnar skinnlausar á grönunum, en þetta hefir samt ekki orðið til skaða, því ég trúi þeim versni ekki, heldur batni þetta aftur af sjálfu sér.
Þann 26.júlí segir Ísafold frá illviðri og mannsköðum nyrðra í maílok:
Sunnudaginn 30. maí var mesta illviðri fyrir norðan: aftakaveður með myrkviðrisfjúki, meira en nokkurn tíma kom í allan vetur. Hákarlaskip Eyfirðinga og Siglfirðinga voru flest úti og fengu hin verstu hrakföll. Þegar síðast fréttist voru þau þó öll heimt, nema 3, er sjálfsagt hafa farist, enda kvað eitt þeirra hafa fundist á hvolfi mannlaust fram undan Trékyllisvík á Ströndum. Það hét Hreggviður, og var eign Snorra Pálssonar alþingismanns, verslunarstjóra á Siglufirði. Þar hafa týnst 11 manns. Formaðurinn hét Sófonías Jónsson, frá Grund í Svarfaðardal. Draupnir hét annað skipið, formaður Steinn Jónsson, frá Vik í Héðinsfirði, afbragðssjómaður gamall, með lO hásetum, einvalaliði. Það skip átti Snorri líka, og hefir ekkert til þess spurst. Þriðja skipið hét Hafrenningur, frá Hellu á Árskógaströnd, formaður Gunnlaugur Vigfússon, skipverjar lO alls. Enn fremur missti Snorri alþingismaður 3 menn af 3. skipi sínu, Skildi, í sama veðrinu. Loks var bróðir Snorra, Jón Pálsson, einn af þeim, sem týnst hafa á Hafrenningi, mesti efnismaður. Allt voru þetta þilskip, nema Hreggviður. Margir þessara 25 sjómanna, er þannig hafa látist í einu á besta skeiði, láta eftir sig mikla ómegð.
Norðanfari segir af tíð í pistli þann 9.júní:
Seinustu dagana af næstliðnum maímánuði voru hér frost og illviður landnorðan með snjókomu, svo alhvítt varð í byggðum og mikill snjór til fjalla og á sumum afréttum; menn eru því hræddir um að eitthvað af geldfé því sem búið var að reka þangað hafi fennt, og jafnvel það sem nýrúið var og bert króknað. Hafísinn er alla jafnan sagður hér úti fyrir ýmist grynnra eða dýpra, og stundum hamlað hákarlaskipunum að ná vanalegum djúpmiðum, sem þrátt fyrir það eru þó búin flest þeirra að fá góðan lifrarafla.
Júní: Framan af hagstæð tíð nyrðra, en þerrilítil syðra og hraksöm syðra. Kuldahret síðari hlutann norðanlands.
Þjóðólfur segir af veðráttu og aflabrögðum í pistli þann 11.júní:
Mjög hrakviðrasöm tíð síðan síðasta blað kom út, stundum snjókoma til fjalla; gróður því miklu minni en fyrst á horfðist. Fiskiafli sár-lítill síðan vorvertíð byrjaði, og þar hjá almenn vandræði með þurrk og hirðingu á fiski, svo að menn eru í mesta vanda ef veðrátta ekki fer óðum að batna.
Ísafold segir af júnítíð í pistli þann 26.júní:
Veðrátta hefir verið mjög stirð hér syðra mestallan þennan mánuð: stormar og vætur, og nógur kuldi. Regluleg sumarveðrátta að eins dag og dag í bili, þangað til núna á Jónsmessunni, að veðrið snerist í sumarblíðu, hvað lengi sem það stendur.
Ísafold birti þann 10.ágúst bréf á Skógarströnd, dagsett 24.júní:
Eftir 20. apríl tók veðurblíðan að verða stopulli, þó máttu góðviðri heita mánuðinn út. Með maímánuði brá til rigninga og fremur óveðra af útsuðri fram í hann miðjan, síðan kom góðviðri fáeina daga, en úr því rann á austnorðangarður, sem hélst með litlu hleri mánuðinn út, og síðustu dagana var moldbylur, svo víða fennti ofan í sjó og stórfannir komu á fjöll. Fyrstu 6 dagana af júnímánuði hélst sama óveðrátta. Þá kom í 4 daga gott veður, en úr því þangað til í gær hafa gengið austnorðanstormar með næturfrostum og kófi með köflum til fjalla. ... Síðan kuldarnir komu, hefir gróðri og grasvexti lítið munað, og komi ekki bráðum ágætt grasveður, þá verður grasár varla i meðallagi.
Þann 26.júlí birti Ísafold allítarlegan pistil um eldgosin á Mývatnsöræfum. Efni hans er að mestu framkomið hér að ofan, en við lítum þó á brot:
... Eldgosin byrja, eftir því sem þau hafa nú komið oss hér fyrir sjónir, stundum með aðdraganda, en stundum í snöggri svipan. Kemur þá fyrst upp svartur reykjarkúfur, stundum með öskulit. Reykurinn fer ákaflega hátt í loft upp (líklega 20003000 fet) og gjörir þar ótrúlega mikla þokubólstra. Neðan til er reykurinn fyrst svo þéttur, að ekki sést á dagtíma til eldsins í fjarlægð, en þegar lengra líður þynnist reykurinn og verður eins og gufa, jafnvel gagnsæ, en sem þó safnast saman uppi og sýnist svo miklu meiri í fjarlægð, en hún er í raun og veru. Þá er að sjá til eldsins álengdar á dagtíma undir sól, sem svartir stólpar séu á einlægu iði, en þegar sólin skín þeim megin á eldinn, sem maður er staddur, fær hann sinn rauða lit, og þegar dimmt er af nótt, þá er ekki einungis eldurinn sjálfur sem logi á að líta, heldur líka gufan, sem upp af leggur, einkanlega í fjarska. Jarðeldurinn er ekki logi, heldur bráðið, glóandi grjót, sem spýtist með undra-afli beint í loft upp, ég ætla 100200 fet, og máski nokkru meira stundum. Þessu fylgir drynjandi mikill, líkastur fossnið, en með meiri urganda, og svo brestum meðfram, sem líkjast fallbyssuskotum. Nokkuð af þessu berst út í loftið og dreifist víða sem áður er sagt (vikurmulið). En mestur hlutinn dettur niður aftur með miklu minni hraða, en það fer upp, og hleður þannig hólana eða borgirnar. Þetta gengur að kalla jafnt og stöðugt; þó lækkar gosið annað veifið í sumum gígunum, en espast þá í öðrum um leið. Jafnframt rennur glóandi hraunflóðið frá, en kemst mjög skammt áður skorpan kemur á það. En það heldur eigi að síður áfram í ýmsar áttir undir niðri, og spyrnir skorpunni af sér jafnóðum og hún kemur. Úr skorpunni verða þá hellur, sem reisast á rönd og stífla eldflóðið að nokkru leyti. Við þá tálmun vex flóðmegnið og sprengir þá aftur af sér skorpuna, sem myndast hefir á ný, og svona gengur koll af kolli, með sífelldum skruðningum og smábrestum. Meðan á þessu stendur, er hraunið líkast á að sjá og þegar nýlega er dottinn niður logi á steinkolaglóð fyrir smiðjuafli. Þá er hvítblá gufa yfir hrauninu, með svo miklum hristingi, að ekki verður neitt, sem gagnvart er, glöggvað í gegnum hana, þó það sjáist. Gufa þessi er svo þunn, að maður sér hana ekki nærri sér; þar að auki leggur á ýmsum stöðum sterkari gufu upp í loftið, og einkum úr gígum, sem hættir eru að gjósa. Úr þessari gufu verða stundum svo miklir reykjarbólstrar, að menn halda þar eld uppi, sem enginn eldur er. Gufan dreifist svo um landið, (hún hefir roðablæ), og er hún það, sem kallað er brunamóða (mistur). Hún var hér mest dagana frá 12. til 18. apríl, og svo dimm, að ekki sá til hóla né hæða meira en mílu frá sér. En ósaknæma ætla ég hana vera, því ekki virtist neitt falla úr henni. ... Ritað í öndverðum júní 1875. Mývetningur.
Ritstjóri Norðanfara virðist hafa misst prentsmiðjuna og/eða útgáfuleyfi í júní í hendur á öðru blaði [Norðlings] og varð um 4 mánaða útgáfuhlé á blaðinu. Í október birti hann hins vegar nokkuð af bréfum sem dagsett eru um sumarið:
Þann 26.október birti Norðanfari tvö bréf rituð af Sigurði Gunnarssyni á Hallormsstað (talsvert stytt hér):
[Hallormsstað 11.júní] Síðan ég skrifaði 24.[maí] um vikuröskufallið yfir Múlasýslur, hefir mikið breyst til batnaðar á vikuröskusvæðinu. Þykir mér það eiga vel við, að ég skýri frá, hvernig hér er nú útlits og horfa sýnist til um hag manna. Tíðarfarið hefir oftast verið æskilegt síðan askan féll, nema 2 áfelli hafa komið; hið fyrra til lítils meins, og dreif þá býsna snjó á Upphéraði, en með hægviðri en hið síðara, 30.[maí] með háskalegu snjóbleytuveðri, sem deyddi víða nýrúnar kindur, einkum innan til á Jökuldal, í Fossvallalandi var fjöldi fjár, því þar var nærri öskulaust. Flest af því var nýrúið, þegar veðrið datt á það kom um nótt eftir blíðuveður, og varð svo sem engu af fénu bjargað í hús. Nú fyrir viku var búið að finna um 80 fjár dautt og vantaði margt. Hvassviðri, sem komið hafa endur og sinnum, hafa feykt öskunni til og frá og minnkað hana furðanlega á þúfum og hæðabungum öllum stórrigning kom í fjörðum og nokkur í Upphéraði 22.[maí], sem hreinsaði víða í fjörðunum, og dró allstaðar hið smæsta af öskunni ofan í rótina, og nú kom fyrir skömmu skaðaáfellið sem vann að hinu sama, þegar snjórinn bráðnaði. Fyrir allt þetta, rifveður nokkur, úrkomur og veðurblíðu á milli, hefir fyrir kraft hans, sem tilsendi hitann" komist furðumikill gróður upp úr öskunni, svo fénaður fær nú orðið nóga björg í úthögum víðast hvar nema á efra Jökuldal er líklega smátt um haga ennþá kýr eru nú látnar út hér allstaðar og geta náð töluverðu af gróðri sem léttir gjöfina inni, og sumstaðar er hætt að gefa þeim. Hestar hafa og nú fengið nokkra björg. Gróðurinn er gisinn ennþá því þétt öskuskóf og vikurmöl er í rótinni allstaðar en furðu kjarngóður er hann svo sauðburður hefir orðið miklu farsælli, en menn væntu, einkum þeim, sem börðust með ærnar heima. Flestir hafa nú rekið heim geldfé sitt og hesta úr sveitunum, sem björguðu okkur margir, sem flýðu í vor með ær sínar, komnir heim með þær eða eru á leiðinni þetta ætta ég sé rétt hermt um allar öskusveitir hér nema Efra-Jökuldal, þar er allt sagt í eyði því fólkið flýði á eftir gripunum, flestallt á Vopnafjörð. Ég hefi heyrt að það sé aðeins ein fátæk ekkja, sem eftir sé og ætli að vera með heimilisfólk sitt á Efradal, og hafi flutt sig að Aðalbóli en fénaðinn inn í afrétt um eina og hálfa mílu inn frá bænum.
Varir höfum við orðið þess hér nokkrum sinnum, síðan askan féll hér yfir okkur, að eldgos hafa verið að koma upp, bæði inn í Dyngjufjöllum og út á Mývatnsöræfum. En ég hefi eigi getað náð af sjón eða raun fullkominni vissu um þau, eða sett á mig dagana, þá menn segjast hafa séð eða orðið varir þessara eldgosa. Eins og hér um sveitir er nú eitt besta árferði á landi, svo er það og á sjónum. Hér kom aflahlaup snemma í vor mjög víða í fjörðum varð mikil björg að því svo hvarf sá fiskur. Nú er aftur kominn hér góður afli í mörgum fjörðunum, einkum utan til.
[Viðbætir 19. júlí 1875]: Síðan ég skrifaði fyrir 38 dögum um útlitið hér í öskusveitunum, hefir lítið breyst og gróðri í úthögum minna farið fram en á undan, því bæði var lengi þurr kalsatíð eftir rigninguna 22. maí og síðan sífelldir þurrkar og stundum frost um nætur. Nú meira en viku hafa verið miklir hitar, svo hólatún eru farin að brenna og öll jörð of þurr til þess að grasvöxtur aukist mikið. Hærð tún eru því varla sem hálfsprottin og hýið upp úr öskunni á mýrlendi svo sem engu þéttara en fyrir 5 vikum þó það hafi hækkað nokkuð. Í öskulausu eða öskulitlu sveitunum þykir of þurrt og heldur litið vaxið. Það hefi ég frétt með sanni af Efra-Jökuldal, að par eru víðast komnir fénaðarhagar og stórir blettir á túnunum, þar sem af hefir rifið (sumstaðar nærri hálf allt að tveim þriðjupörtum) eru silgrænir orðnir og nærri sláandi, eða velsláandi. Til fjalla eru flóar enn lítið vaxnir, því askan varnaði svo lengi snjónum að bráðna og víða eru haugar af snjó enn undir öskunni. En þar sem farið er að gróa á fjöllum og aska hefir sokkið í bleytuflóa, sýnist líklegt að dálítið megi heyja, þegar á sumar líður: 4. til 6. [júlí] var hér hvass vestanvindur, þá var hér öskudimmviðri sem grynnti sumstaðar skafla en reif sumstaðar á, þá sýndist gisinn gróðrarhýjungur gulna eða skrælna upp. Hallormsstað 19. júlí 1875. Sigurður Gunnarsson.
Júlí: Góð tíð nyrðra, mjög þurrt eystra, en óþurrkar og kuldi suðvestanlands.
Ísafold flytur fréttir að norðan þann 26.júlí:
Norðanpóstur segir eld enn uppi á Mývatnsöræfum. Hefir hann brotist þar út á nýjum stöðvum, austar en áður (nær Jökulsá), þar sem heitir Fjallagjá. Þar var haglendi mikið og gott, og mun það nú allt orðið að hrauni. Gos þetta hófst 2. júlí, og er mælt að það hafi verið engu minna en þegar mest gekk á í vetur. Það var ókannað, þegar póstur fór. Til allrar hamingju fylgdi því ekkert öskufall. Þrettán enskir ferðamenn voru komnir (á Fifeshire) að skoða vegsummerkin eftir eldgosin; þar á meðal Burton og A. Locke. Watts Vatnajökulsfari var kominn alla leið norður af jöklinum (að Grímstöðum á Fjöllum).
[Seyðisfirði 18. júlí]: Tíðin er og hefir mátt heita góð og hagstæð hér í fjörðum. Grasvöxtur er eftir vonum og nú sumstaðar byrjað að slá, og láta menn mjög illa yfir að ná grasinu, því askan situr í rótinni.
[Breiðdal 23.júlí]: Hér hefir varla komið deigur dropi úr lofti í 5 vikur. Hér eru menn almennt farnir að slá tún sín, sem gengur seint vegna öskunnar og þurrkanna; túnin eru í betra lagi sprottin en útengi miður og víða engu betri heldur en í fyrra.
[Reyðarfirði 24 júlí]: Síðan um Jónsmessu hafa steinar varla vöknað hér, grasvöxtur er því rýrari enn annars hefði orðið, þó má kalla að tún sé sprottin í meðallagi víðast hvar og sumstaðar betur, úthagi er og sprottinn að grashæð í meðallagi, en vegna öskunnar ógnarlega gisið, hefir sandurinn víða drepið mosann og stráin með; menn kvarta um hvað seinunnið sé, enda ná menn hvergi til rótar fyrir sandi.
Ísafold birtir þann 6.september úr bréfi úr Mývatnssveit, dagsett 1.ágúst:
Engin stórtíðindi er nú að segja héðan sem einu gildir. Eldgosa hefir lítið orðið vart. Þó munu þau hafa skotist upp snöggvast stöku sinnum í sumar, helst 1. júlí. En Dyngjufjallamökkurinn hverfur ekki nema stund og stund í senn. Nú hafa ýmsir skoðað sig þar um, og munu þeir sjálfir gefa skýrslu um það, einkum herra Watts hinn enski og förunautar hans, er þegar hafa aflað sér frægðar með jökulför sinni, svo erfið og hættusöm sem hún hefir verið. Það er illa farið, að sumt af því, sem sagt hefir verið frá eldgosunum hér á Austurfjöllum er ýkt, og ranghermt, og verst, að hvert blað tekur þetta eftir öðru. ... Þó vetur væri hér blíður og vorið framan af eitt hið besta, sem ég man, er ekki árferði nú svo gott að öllu hér um sveitir. Grasbrestur er á harðvelli og hálfdeigu engi í meira lagi, en vatna- og flæðiengjar sprottnar og tún víða allgóð. Málnyta kvikfénaðar þar sem ég veit til sú rýrasta, sem menn muna og var þó fé víðast í besta standi.
Þann 5.ágúst segir Þjóðólfur af tíð - og greinir frá merkilegu hagléli í Haukadal í Biskupstungum:
Veðrátta hefur nú um stund verið fremur þerrilítil, en á dögunum héldust í marga daga hvassir og kaldir norðanvindar. Þeir sem fljótir hafa verið með tún sín hafa því náð góðri nýtingu, en hinir miður. Grasvöxtur á túnum víða undir meðallagi; útengjar víðast hvar með lakasta móti.
Nýtt eldgos. [Annan] júlí var enn stórkostlegur eldur uppi nálægt Jökulsá og nokkru austar en fyrr. Greinilegar fregnir vantar enn.
[Haukadal 20.júlí] Óvanalegt haglél. Laugardaginn hinn 10. júlí næstliðinn var hér fyrra hluta dags logn og hiti. Loftið var að miklu leyti heiðríkt, nema í austri og vestri voru hvítir þokudampar. Kl. 1 e.m. drógust dampar þessir saman og urðu kolsvartir til að sjá, og sýndust smámsaman dragast saman yfir þvert loft héðan að Bjarnarfelli. En undir eins og þeir sýndust mætast brast á hin óttalegasta haglhríð sem enginn hér man slíka. Haglkornin voru á tærð við tittlingsegg og mörg þrjú föst saman; voru þau ísstykki eitt og á tveim tímum, huldu þau hér jörð alla svo að varla sá á nokkurt strá, og svo hart, að varla markaði spor. Þessu hagli fylgdi ofsastormur með óttalegustu þrumum og eldingum, er voru nálega óteljandi; sýndust stundum margar ganga undir eins; sumir þóttust hafa talið allt að hundrað. Þessi ósköp stóðu nálega 3 tíma. En afleiðingarnar urðu, að allt kál í görðum skemmdist, svo að þeir verða að litlum notum í ár. Tún og útjörð skemmdist líka að mun, því að grasið er bæði sligað niður og mölvað sundur, og er það kalið og dautt að ofan. Lauf barðist burt af skógum, og líta þeir út sem skógur á hausti, þegar hann er að fella lauf. Haglhríð þessi stóð á svæðinu með fjallgarðinum frá Haukadal að Úthlíð, er nema mundi fjórðungi þingmannaleiðar, en á breidd var hún stutt bæjarleið, þó eimur af þessu fyndist nokkuð lengra varð það ekki að neinu tjóni fyrir utan svæði það er fyrr var nefnt; en víða í sveitinni kom ekkert úr loftinu þann dag. Þessa fáorðu lýsingu mætti yður þóknast að taka í blað yðar, herra ritstjóri. Haukadal, 20. dag júlí 1875. Sigurður Pálsson.
Ágúst: Sæmileg tíð, en fremur kalt.
Norðanfari birti 26.október fáein bréf rituð í ágúst:
[Austur-Skaftafellssýslu 16.ágúst]: Fréttir eru héðan fáar. Jöklarnir standa kyrrir hérna hjá oss, því umbrotin öll hafa verið fyrir norðan þá, vér höfum að mestu orðið fyrir sunnan öskurokurnar, þó höfum vér fengið öskuryksköst nokkrum sinnum í sumar að stundum hefir varla séð til fjalla, sjaldan hafa þau varað lengur enn einn dag í senn. Grasvöxtur allgóður á túnum en lakari í úthaga, nema þar sem vötn vökva hann; nýting allt til þessa ágætlega góð, regn og þurrkar til skiptis. Fiskafli í vor í betra lagi, eftir sem hér hefir verið mörg undanfarin ár, og sjálfsagt enn meiri skötuafli á línur, ef nokkur kæmist til að leita hans. Æðarvarp allstaðar í lakasta lagi og dún og egg fullum þriðjungi minni víðast, heldur en í fyrra, og þykist enginn vita hvar af það kemur í svo góðu ári, nema ei vera skyldi þeim vikurhrönnum að kenna frá eldinum, sem vötnin nyrðra og eystra hafa borið í sjó út, og flotið hafa hér meðfram ströndunum, og meiri eða minni rastir rekið af upp á allar fjörur.
[Vatnsfirði við Ísafjarðardjúp 17.ágúst] Árferðið er fremur örðugt og dýrt, nauðsynjar og kostnaður til alls einkum sjóarútgjörðanna fer jafnan vaxandi, svo þótt mikið veiðist verður arðurinn lítill en skaðinn mikill þegar það bregst. Við hér við Djúpið höfum vetrarvertíð í betra lagi, hefði ekki fiskur orðið í svo lágu verði og vorvertíðin varð hlutaminni en í meðallagi. Vorið byrjaði vel, en varð þó kalt og stórhrotasamt, svo grasvöxtur fékk mesta hnekki og æðarvörp okkar urðu fyrir ærnum skemmdum. Þurrkar hafa nú síðan sláttur byrjaði verið sjaldfengnir, en þó hafa töður náðst óhraktar. Túnin voru víðast tæplega í meðallagi, en þó er lakar látið af engjunum.
[Reyðarfirði 30.águst] Tíðin hefur að mestu verið þurr, þó hafa verið úrkomur síðari hluta mánaðarins, en litlar. Grasvöxtur á útengi í versta lagi. Mun það óvíða að karlmaðurinn slái bagga á dag. Eru menn því leiðir og örvæntingarfullir margir hvorir af þessu sem von er. Tún gáfu talsvert hey af sér og víða undir það í meðallagi og allstaðar góð hirðing. Slátturinn er þessutan svo torsóttur sökum sandsins og bitleysis, að ei mun það ofhermt, að 1 maður hafi slegið þá viðáttu áður, sem 34 slá nú á sama tíma. Ljáir eyðast margfalt við það sem áður var, svo enskur ljár hefur enst tæplega túnið út. Fé þykir með fallegasta móti á hold og ull, einkum lömb.
Þjóðólfur birti þann 2.september bréf frá W.L. Watts um ferð hans yfir Vatnajökul - þar segir m.a.:
Víð fórum þar nálægt yfir háan ás einn sem ég ætla að sé einhver með hæstu stöðum þar, 6150 fet yfir sjó. En vera kunna enn hærri toppar á jöklinum. Á hrygg þessum lágum við 3 daga í hinu ógurlegasta veðri sem hugsa má og ég hef verið úti í, nema ef til vill í hinum mikla snjóbyl 1872 í Minnesota, er varð svo mörgum mönnum og skepnum að bana. 7. júlí komumst við ofan á norðurtá jökulsins og fórum þar niður nokkuð þverhnípta leið ofurlítið til austurs við Kistufell. Þar hefur sigið ofan stór jökultunga milli Kverkfjalla og Kistufells, er alveg hylur slóð þá er herra Gunnlaugssen fór um forðum daga, og breytt höfuðuppsprettu Jökulsár á Fjöllum, eins og hún er sett á kortinu. Vatnsfall þetta streymir, eins og nú er, framan úr áðurnefndri tungu, en alls ekki undan Kistufelli, en töluvert leðju-árdrag fellur nú eftir hinum stóra eldra fljótsfarveg, sem táknar stefnu er jökulvötnin höfðu í fyrri daga. Hér höfðum vér fagurt útsýni til Dyngjufjalla og stóðu upp úr þeim geysistórir reykjarstrókar, í lagi líkt og stórvaxnir ætisveppar beint upp úr fjallstindunum. Við sáum líka á þrem stöðum reyk leggja upp úr Kverkfjöllum. ... Mjög líklegt þykir mér að eldur sá, sem var uppi vorið 1872 hafi verið í Kverkfjöllum, þótt hin mikla fannkyngja, sem ég ímynda mér falli nálega jafnt allt árið um kring, breiði óðara yfir öll ummerki.
Annað bréf frá honum honum er í blaðinu þann 20.september [þar sem hann lýsir aðkomu sinni í Öskju] og þýðing úr frásögn hans í ensku blaði birti Þjóðólfur þann 30.september. Í síðastnefndu frásögninni lýsir Watts eldgosinu á Mývatnsöræfum 15.ágúst vel. Hann snemma í frásögninni:
... gisti ég að Stóruvöllum við Skjálfandafljót sunnudaginn 15. ágúst; þar heyri ég þau tíðindi að aska hafi fallið þá um morguninn, þar á næsta bæ. Gekk ég þá upp á hæðir nokkrar fyrir ofan Stóruvelli til þess að skoða lögun og eðli landsins í kíki; þá sé ég þegar reykjarstrók mikinn, hvítleitan og þykkan, standa hátt í loft upp frá Mývatnsöræfunum, og enn aðra sex hálfu minni stróka þar út frá á sömu stöðvum. Frá hæðunum, sem ég stóð á, var hið besta útsýni suður til Dyngjufjalla og Kverkfjalla, sem liggja langt í suður af öræfunum. Þau fjöll sýndust að engu breytt heldur sami ætisvepp-myndaði reykjarstrókur upp úr Dyngjufjöllunum, sem þar hefur sést í allt sumar, og ekki voru þeir þrír mjóu gufustrókar, sem ég áður hafði tekið eftir upp úr Kverkfjöllum, neitt gildari að sjá. Í austri lá þoka yfir landinu líklega gufa og aska frá hinu nýja gosi og var hún að dreifast upp til Vatnajökuls. Vonum bráðara hvarf mér hinn mikli reykjarstrókur yfir Öræfunum, og skildi eftir þunna, dökkleita gufu, en að fáum augnablikum liðnum hóf hann sig aftur upp í þremur kastgosum, sem ég sá glöggt og fór hærra en áður. Ég flýtti mér að vörmu spori heim, tók hesta mína og þeysti af stað á leið til eldgossins. Um nóttina gisti ég að Grænavatni í Mývatnssveit, en næsta dag var bráð-ófært veður og varð ég nauðugur viljugur að fresta ferð minni. [Síðan greinir frá ferðinni á eldstöðvarnar].
Ísafold segir af tíð og eldi þann 6.september:
Tíðarfar hefir verið i lakara lagi í sumar um land allt, það er vér höfum til spurt. Grasvöxtur rýr, einkum á útengi. Nýting á töðu ekki góð. Fyrir vestan og norðan sumstaðar tún einnig mjög snögg. Hafís fyrir Hornströndum, er síðast fréttist.
Nýtt eldgos. 15.[ágúst] kvað eldur hafa komið upp á nýjum stöðvum á Mývatnsöræfum: nokkuð sunnar en áður og austar, upp frá Sveinagjá. Er látið mikið af því, en nána lýsingu á því höfum vér eigi fengið enn.
September: Óstöðug tíð, en fremur hlý.
Ísafold birti þann 1.október bréf af Hornströndum, dagsett 7.september:
Veðrátta er hér umhleypingasöm og mjög köld, enda var hafíshroði töluverður að flækjast fyrir Hornströndum allan ágústmánuð sem leið. Hér er og hefir verið i sumar óvenjulegur grasbrestur, og það svo, að gamlir menn muna eigi slíkt grasleysi á engjum.
Norðanfari birti 26.október bréf úr Skagafirði ritað í september (ódagsett):
[Skagafirði dagsett seint í september]: Héðan er nú heldur gott að frétta, heilbrigði manna yfir höfuð, heyskapur varð heldur góður, þó engjar væru víðast snöggar, þá vannst vel að heyskap fyrir hagfelldustu tíð; töðufall varð í meðallagi, heyfyrningar voru viða í vor í mesta lagi, og eins mun vera um alla Húnavatnssýslu.
Þjóðólfur segir af tíð í september:
[20.] Veðráttan lengst af köld, og nú þessa síðustu viku vætusöm mjög; heyskapur mun allvíða hér syðra mega heita orðinn í meðallagi sökum ágætrar nýtingar, en útengjar hafa nálega allsstaðar verið laklega sprottnar. Austur undir fjöllum og í Skaftafellssýslu er nýting sögð lakari orðin. Fiskiafli hefur ekki verið teljandi hér um nesin til þessa frá því í vor.
[30.] Tíðarfar til þessa allgott, nema nokkuð hryðjusamt nú um nokkra daga. Engin sérleg tíðindi að frétta með kaupafólki og skólasveinum, tíð í allgóðu meðallagi yfir land allt. Fiskiafli mikill í Húnavatnssýslu, en lítill enn hér syðra.
Norðanfari rekur sumartíð stuttlega í pistli þann 26.október:
Síðan í næstliðnum júnímánuði hefir tíðin allajafnan, nema dag og dag, verið hér norðanlands hin æskilegasta fyrir heyskapinn, svo nýting á heyjunum yfir höfuð varð hin besta. Þótt öll deiglend jörð væri graslítil og harðvelli seinunnið vegna þurrkanna, munu heyin víðast vera, að meðtöldum í fyrningum sem voru meiri og minni hjá flestum, með meira móti. Töðurnar urðu víða hvar allt að því í meðallagi og á stöku stað meiri. Málnyta af peningi var sögð fremur rýr, og kenndu menn það þurrkunum og að stundum hefði orðið vart við sand, enda var hér oft meira og minna mistur, og stundum svo, að varla sá til næstu fjalla; eldurinn hefir líka alltaf verið sagður uppi, sér í lagi í Dyngjufjöllunum, en enginn síðan áleið sumarið á Mývatnsfjöllunum.
Október: Hríðarveður snemma í mánuðinum, en annars var betra veðurlag.
Þann 17.desember segir Ísafold frá skipskaða á Vatnsnesi 16.október (úr bréfi að norðan):
Laugardaginn 16. október reru menn hér almennt, en nokkuð var þó hvasst og fórst þá í þeim róðri annar báturinn, sem reri frá Stöpum. Á þeim bátnum var Agnar Jónsson frá Gnýstöðum formaður ... Það var að eins stundarkorn, sem nokkuð var hvasst, en lygndi svo bráðum aftur, og gjörði logn þegar leið á daginn. Það var fram á rúmsjó, sem báturinn týndist.
Þjóðólfur segir stuttlega þann 18.október:
Veðráttufar það sem af haustinu er hefur verið all stormasamt; þ. 8.[október] og þá daga gengu illviðri mikil, svo menn og skepnur urðu fyrir hrakningum, og fennti fé, bæði undir Hafnarfjalli og Esjunni.
Ísafold rekur tíð þann 20.október:
Framan af þessum mánuði var fremur hrakviðrasamt hér syðra, jafnvel kafaldshríðir með fannkomum eigi litlum, svo að fé fennti sumstaðar. Sömu fréttir segir pósturinn að norðan, og bjuggust Húnvetningar við að hafa misst talsvert fé í fannir. Núna síðustu vikuna hefir veðrátta aftur verið hin blíðasta.
Norðanfari birti þann 13.nóvember bréf af Suðurlandi, dagsett 21.október:
Sumar þetta sem nú er að enda hefir mátt heita hagstætt á Suðurlandi, vorið var nokkuð kalt og gróðurlítið og grasbrestur í meira lagi, en nýting á heyjum var allgóð og oftast hirt eftir hendinni, oft voru þokur með mollum og sjaldan skarpir þerrar, hita dagar fáir, að frátöldum 23.24.júní er hitinn var mestur 16°, 17. júlí 17° og 29.30. ágúst 1516°. 20. ágúst gjörði norðankólgu, með hreti til fjalla svo snjóaði á þau, og þann 19. varð vart öskufalls i Árnessýslu. Rigningar voru aldrei miklar fyrr enn dagana frá 25.27. september var mikið úrfelli, liðu svo nokkrir dagar með hægviðri þar til að kom norðanátt 6.[október] sem gekk í versta norðangarð með snjó og frosti 8.[október], var frostið þá 6° til sjávar niður, en snjóhríð gjörði svo mikla að fannir komu til fjalla og alhvítt varð í byggð, og mun fé hafa fennt við fjallgarða. Hinn 10. var landnorðanstormur og bleytubylur og norðankólga hinn 11., eftir það batnaði veðuráttan og hefir síðan verið stillt veður, fagurt og með hægu næturfrosti. Í gær og í dag er sunnan mari með hægri úrkomu. Í sumar hefir verið hið mesta aflaleysi, en núna um tíma hefir það heldur verið líflegra, af þorski og ýsu.
Ísafold birti þann 20.október bréf af Skógarströnd, dagsett 1.október:
Síðan ég ritaði síðast héðan eru liðnir þrír mánuðir, júlí, ágúst og september og vil ég nú rita stutt yfir þá: 1. til 6. júlí gengu sunnan útsynningar með skúrum; 7.13. voru austnorðan stórviðri með kalsa; 14.-31. vindar af ýmsum áttum áttum, ýmist hregg eða þerristundir. ... Í ágústmánuði hélst áþekk veðrátta og verið hafði í júlí fram til hins 14. Þá kom 4 daga samstæður þerrir af norðri, síðan brá til sunnanáttar nokkra daga og úr því austnorðan átt til mánaðarins enda. Hinn 3.[ágúst] gjörði aftakaveður af landssuðri; fauk þá víða hey. ... Allan septembermánuð hefir verið hin hagstæðasta haustveðrátta; austan landsynningar eða vestan útnyrðingar með einstaka uppþotum, helst af suðri. ... Grasvöxtur varð i lakara lagi á túnum, með lakasta móti á votlendismýrum og flóum, en á valllendi allgóður. Sumir veittu því eftirtekt, að töðufall varð minna enn útleit fyrir, og kenndu því um, að allt smágresið hefði kulnað út í kuldunum framan af sumrinu. Málnyta var með rýrara móti, en út lítur fyrir að geldfé verði gott til frálags.
Ísafold birti þann 2. desember nokkur bréf utan af landi:
[Skógarströnd 1. nóvember]: Næstliðin októbermánuð hefir verið ein hin besta haustveðrátta hér um sveitir, sem hugsast getur. Að vísu voru nokkrir kuldavindar fyrri hluta mánaðarins af austnorðri og kafaldshret þann 4.-8., svo að fé fennti á stöku stað og fáeinar kindur fórust hér og þar, en upp frá þeim 13. til mánaðarenda voru að heita mátti sífelld landsunnan blíðviðri. Mest frost hér að morgni hins 9. -5°R.
[Þingeyjarsýslu 28. október]: Sumar þetta, sem nú er liðið, mátti teljast eitt með hinum betri sumrum hér í sýslu, sökum veðurgæða, og stillingar. Grasbrestur var að vísu nokkur sumstaðar, en sökum ágætrar nýtingar hefir heyafli manna yfir höfuð að tala orðið í meðallagi og sumstaðar betur. Sláturfé er með vænna móti. ... Í haust hefir verið sannnefnd öndvegistíð, að frá teknu einnar viku kuldakasti um mánaðamótin september og október. Nú í hálfan mánuð hafa verið stöðug blíðviðri, og jafnaðarlega 610 gr. hiti á daginn. Ekki er eldgosinu með öllu lokið. Sumardaginn síðastan í sumri gaus upp í einu vetfangi ógurlegur reykjarmökkur í landsuðri, og fylgdu því dunur miklar og dynkir, svo hvein í hverju fjalli.
[Eyjafirði 8. nóvember]: Tíðin hefir verið hin æskilegasta í allt haust, sífelld blíðviðri og stillingar dæmafáar; elstu menn muna eigi annað eins. Núna nokkra daga hefir verið hríðarveður, en snjókoma hér um bil engin. Mjög lítill snjór kominn. Fiskiafli í rýrara lagi, en þó komnir allgóðir hlutir, því að gefið hefir að róa á hverjum degi allt haustið, og aldrei þurft að fara í skinnklæði. Má kalla, að hér hafi verið stök árgæska nú upp í hálft annað ár, síðan á sumarmálum 1874.
[Breiðafjarðareyjum 10. nóvember]: Haustið hefir verið hér óvenjublítt og jafngóðan fjárskurð muna menn ekki.
[Hornafirði 13.október]: Tíðin var góð hér í sumar og heyskapur í góðu lagi. Reyndar var oft þurrklítið, einkum eftir höfuðdag, en hey nýttist þó bærilega.
Norðanfari birti þann 26.febrúar 1876 úr bréfi úr Ísafjarðardjúpi, dagsett 11.janúar:
Haustið og fyrripartur vetrar, hefir mátt góður heita í samanburði við 2 ár undanfarin, þó komu kýr inn 6. október, og 8.[október] var hér stórkafald.
Þjóðólfur segir 5.nóvember:
Af veðráttu þeirri, sem gengið hefur, hafa menn ætlað, að eldar séu uppi austur í jöklum. Uppi í Hvítársíðu hafa menn og þóst sjá til eldgosa nokkra undanfarna daga. Geta menn til að þeir eldar hafi enn upptök sín í hinni miklu kolagröf Íslands, Vatnajökli. Nú ganga allhörð norðanveður með frosti (23° R.), en snjór hefur ekki fallið á Suðurlandi frá því í septembermánuði.
Nóvember: Hryðjusamt um suðvestanvert landið, en mun skárra norðaustanlands.
Ísafold segir af tíð og slysförum í nóvemberpistlum:
[12.] Síðustu dagana af [október] og það sem af er þessum hefir staðið hér norðangarður allsnarpur, með talsverðu frosti (45°R), en lítið sem ekkert snjóað nema á fjöll.
Að kvöldi hins 15. [október] lagði skip, sem átti heima suður í Leiru og var hér í beitufjöru, af stað héðan suður þangað í góðu veðri, en um nóttina hvessti mjög á norðan, og kom skipið hvergi fram. Er haldið að það hafi fyllst á siglingu og sokkið með öllum mönnunum skammt undan Hólmsbergi, er svo er nefnt. Skipverjar voru 5: formaðurinn Þorgeir Jónsson frá Litla-Hólmi, ungur maður og hinn röskvasti.
[22.] Hinn 15. [nóvember] slotaði norðangarðinum og gjörði þíðu, sem staðið hefir síðan, nema hinn 19., hátíðardaginn, þá var frost með austanblásanda. Ekkert er farið að fiskast enn. [Hátíðin var samkoma á Austurvelli þegar afhjúpuð var stytta Thorvaldsen sem þar stóð lengi síðan].
Ísafold segir þann 4.febrúar 1876 af slysförum (stytt hér):
[Ísafjarðardjúpi 12.janúar 1876]: Hinn 22. nóvember [1875] barst á báti í landtöku norður á Sléttu (í Aðalvíkursókn). Þar er boðótt brimlending. Drukkaði formaðurinn og einn háseta, eu 2 skolaði upp lifandi. ... Hinn 20. desember fórst bátur með 4 mönnum í fiskiróðri frá Arnardal í Skutulsfirði; rak bátinn upp fyrir innan Hnífsdal hinu megin fjarðarins, með einum manni dauðum í. Á gamlárskveld týndust 4 vinnumenn Einars snikkara Hálfdánarsonar á Hvítanesi, á heimleið úr kaupstað í niðamyrkri og kafaldi, höfðu lent í svonefndum Fótarboða hinumegin við Hestfjörð, og fundust 3 líkin upp rekin morguninn eftir þar í nesinu, og báturinn skammt þar frá óbrotinn á steini.
[Af öðrum heimildum blaðsins]: Kona frá Rifgirðingum í Hvammsfjarðareyjum varð úti aðfaranótt hins 6. nóvember á ferð frá Arnarbæli að Galtardal.
Norðanfari birti þann 31.desember úr fáeinum bréfum:
[Suðurlandi 30. nóvember]: Frá því ég ritaði þér seinast um árferðið af Suðurlandi hefir það verið á þessa leið: Það sem eftir var af október voru sunnanáttir, úrkoma 26. og síðan blíðasta veður, sem á vordegi. Með nóvember brá til norðanáttar og storma; var hinn 3. mistur mikið, líkast því sem Logi gamli þeytti upp ösku sinni þarna í norðrinu eins og ætíð, í hvert skipti sem norðanátt hefir komið síðan 2. í páskum; dagana frá 5.14. var norðankólga með frosti, varð það hæst 6. 12. og 13., 48°. Seinni dagana féll snjór og var harðviðrishríð til fjalla hin eina er komið hefir. Þann 15.[nóvember] kom hláka og ofsastormur á sunnan með rigningu; hinn 20. daginn og nóttina fyrir, eins hinn 22. tók upp allan snjó af láglendi og mikið úr fjöllum; hefir síðan verið góðviðri, og stundum austanstormur.
[Barðastrandarsýslu 8.nóvember]: Vegna grasbrests næstliðið sumar varð heyskapur hér með rýrara móti, en vegna heyfyrninganna geta þó flestir sett á sig pening líkt og i fyrra.
[Borgarfirði 1.desember]: Veðuráttan hefir verið einstaklega góð, alltaf þurrviðri með hægum frostum.
Desember: Hagstæð tíð framan af, mjög hlýtt var norðaustanlands. Síðan var óstöðugra, einkum um landið sunnan- og vestanvert.
Þann 23.desember birti Norðanfari fyrri hluta af löngu bréfi frá Sigurði á Hallormsstað - við styttum það mikið hér. Einnig er hér brot úr tveimur öðrum bréfum úr sama tölublaði:
[Fréttir úr öskusveitum í Múlasýslum 1. desember 1875]: Það var 19. júlí í sumar, að ég skrifaði seinast um útlit hér i öskusveitum. Eftir það voru oftast þurrkar og hitar einkum í Héraði, út allan sláttartíma; kom sjaldan votur dropi úr lofti. Grasið var alla tíð að spretta hægt og hægt fram yfir höfuðdag þar sem deigt var undir og askan yfir rótinni, þó litill sæist munurinn. Slegin öskutún spruttu og mikið upp, svo sumstaðar var slegið aftur. Vegna þurrkanna og vikursins í rótinni, voru menn mjög lengi að slá túnin, því enga stund beit. ...
Fyrir það, hvað lengi var verið að berja í túnunum, varð út heyskapartíminn mikið of stuttur, enda tóku hin gisnu strá að visna af næturfrostum eftir miðjan september, svo nærri lá þau hyrfi. ... Árangurinn af heyskapar-baráttunni varð víðast sá í Héraðs-öskusveitum, að menn fengu af töðu 1/2 til 2/3 móti meðalári óvíða meira eða minna, ... Annars var þar [í fjörðum] víða mikill grasbrestur, eigi síst þar sem engin aska var teljandi, því jörð varð þar óvanalega þurr, enda hafði komið þar kyrkingur í gróður í kuldum, sem komu etir snjóáfellið um lok maímánaðar í vor, einkum þar sem engin aska var til að hlífa rótinni. Varð útheyskapur sumstaðar hér í fjörðum, engu meiri en í Héraðs-öskusveitum enda byrjuðu þeir slátt miklu seinna flestir en við í Héraði og askan tafði þar fyrir. Þar sinntu margir sjávargagni fram yfir mitt sumar því afli var fyrir og mikil gagnsvon af honum.
Nokkur rifveður komu hér í sumar, sum velhvöss. Þá var oft glórulítið af öskuryki. Reif öskuna úr sköflunum út um grasbletti og mela. Fjarska mikið lenti í lækjum, ám og vötnum og sumt rauk yfir fjarlægar sveitir öskulausar, svo þar varð eins og sporrækt og rauk úr jörðunni þá gengið var. Af þessu minnkaði stórskeflið hjá okkur og dreifðist, svo eigi má telja eftir af því þriðjung í sama stað, varla meira en fjórðung. Af mýrum gat aldrei rifið, bætti heldur á, svo þar er enn öskulagið yfir öllum mosa og sinu 1 til 3 þumlungar á þykkt nema á þúfnakollum. Þar kalla ég að mikil aska hafi fallið, sem hún hylur enn allan mosa, svo hvergi sér til, á hverjum mýrarbletti. ...
Margir trúa að vetur verði afbragðsgóður ef jarðeldurinn verður uppi alltaf annað veifið (eins og hingað til í Dyngjufjöllum) og er það eigi ólíklegt, þegar hitaofninn er eigi fjær. þó held ég þetta geti dável brugðist og mikil áfelli með snjókyngjum geti komið á milli, því oft liggur eldurinn niðri tímum saman. (Enda getur hann hætt að gjósa).
Lík því hefir tíðin verið í haust og vetur sem af er. Hér var blíðutíð fram yfir byrjun októbermánaðar. Svo komu rigningar og bleytusnjóar, fram að veturnóttum, svo blíðutíð, eins og um sumar fram yfir byrjun nóvember. Síðan gjörði bleytuveður og harðindi um 3 vikur, svo mjög víða varð lítið um jörð. Nú um 20.[nóvember] kom aftur þíða og er síðan stilling og góð tíð.
[Austurskaftafellssýslu 14.nóvember]: Með septembermánaðarbyrjun brá hér til votviðra og storma, sem hélst við til þess í dag, að nú er grimmdarveður á norðan með snjókomu;
[Grímsstöðum á Fjöllum 8.desember] Síðan á sunnudaginn seinastan í sumri, hefir ekki sést héðan eldur í Sveinagjá, en alltaf er reykjareimur úr því hrauni, og úr Dyngjufjöllum rýkur stöðugt; í gær var reykjarkúfurinn með meira móti, svo hann tók hátt á loft upp, og var mjög stór ummáls.
Þjóðólfur segir þann 4.desember:
Nóvembermánuður var fremur rosasamur framan af, en undir lok hans gjörði stillur og góðviðri.
Ísafold segir stuttlega af tíð í desember:
[7.] Veðrátta er enn góð og oft blíð, frostlítil og snjóar að kalla engir. Hélufall mikið nokkra daga um mánaðamótin.
[18.] Veðrátta er enn hin sama og áður; sífelldar þíður og hægviðri. Fiskileysi algjörlegt, eins og að undanförnu í haust.
[30.] Nú um jólin hafa hér gengið grimmilegir útsynningar, með stórrigningum á milli. Gjörsamlegt fiskileysi enn í öllum veiðistöðum hér syðra.
Ísafold birti þann 4.febrúar 1876 úr bréfi af Skógarströnd (ódagsett):
Fyrri hluta nóvembermánaðar [1875] gekk norðanátt og landnyrðingar, með allsnörpu frosti stöku sinnum (12° hinn 14.); síðari hlutann landsynningar með þíðum og blíðviðrum. Fyrri hluta desembermánaðar héldust landsunnangóðviðri áfram og komu þá héluföll mikil, en síðari hlutann voru sunnanútsynningar með blotum og bleytukaföldum.
Lýkur hér að sinni umfjöllun hungurdiska um árið 1875. Tölur má finna í viðhengi.
Í öðru viðhengi er tafla sem sýnir atburðaröð í eldsumbrotunum - hún er fengin úr: Reck, H. (1910): Das vulcanische Horstgebirge Dyngjufjöll mit den Einbruchscalderen der Askja und des Knebelsees sowie dem Rudloffkrater in Centralisland. Abhandlungen der königlich preussischen Akademie der Wissenschaften. Physikalisch-matematische Classe, II s.1-99.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 18:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.8.2020 | 14:26
Af árinu 1874
Tíð var talin mjög óhagstæð á árinu 1874, veturinn sérlega kaldur og illviðrasamur. Sagt var að árið hafi verið eitt hið versta á öldinni. Enginn mánuður ársins var hlýr, en 9 teljast kaldir. Janúar var einn þriggja köldustu janúarmánaða sem vitað er um í Stykkishólmi og var þar að auki óvenjuillviðrasamur. Ársmeðalhiti í Stykkishólmi var 2,0 stig, -0,7 stigum kaldari en meðaltal næstu tíu ára á undan. Ársmeðalhiti í Reykjavík var 3,1 stig og giskað er á 1,5 stig á Akureyri (en mjög óviss tala).
Hæsti hiti ársins mældist á Djúpavogi 18.júní, 22,1 stig, en mest frost í Stykkishólmi 19.janúar, -22,4 stig - en höfum í huga að engar áreiðanlegar mælingar voru inn til landsins á þessu ári og frost vafalítið meira þar. Frostið mældist t.d. -24 stig í Hvammi í Dölum þann 11. og 13.janúar en á ókvarðaðan mæli. Telja má 21 óvenjukaldan dag í Stykkishólmi, þar af 11 í janúar. Að tiltölu varð kaldast 18. og 23.janúar. Einn dagur telst mjög hlýr, 13.júní.
Mikill hafís var við land langt suður með Austfjörðum og var sérlega þrálátur við Hornstrandi. Hann truflaði siglingar mjög. Miklir lagnaðarísar voru víða á fjörðum.
Úrkoma mældist 738,2 mm í Stykkishólmi, það er í ríflegu meðallagi. Að tiltölu var úrkomusamast í febrúar og október, en þurrast í ágúst og desember. Enginn mánuður var þó tiltakanlega þurr.
Loftþrýstingur var óvenjulágur í apríl og þrýstiórói með meira móti í janúar. Lægsti þrýstingur ársins mældist í Stykkishólmi þann 20.janúar, 957,9 hPa, en sá hæsti á Djúpavogi þann 7.febrúar, 1039,1 hPa. Djúpar lægðir gengu yfir landið um sumarið, t.d. fór þrýstingur niður í 965,2 hPa í Stykkishólmi þann 28.ágúst.
Hér að neðan eru blaðafrásagnir af tíð og veðri. Eins og venjulega er stafsetning að mestu færð til nútímaháttar. Að auki eru lítilsháttar upplýsingar úr öðrum áttum.
Séra Valdimar Briem ritar tíðarfarsyfirlit ársins í Fréttir frá Íslandi:
Veðuráttufar á Íslandi árið 1874 var í kaldasta lagi, einkum um veturinn framan af árinu. Þegar fyrir nýár voru hörkur miklar komnar víðs vegar um land, en eftir nýárið fóru þær mjög vaxandi. Þó mátti skaplegt veður kallast hina fyrstu viku ársins, enda þótt býsna hart væri, en eftir það brá til hríða og illviðra, og kyngdi niður snjó miklum víða. Yfir tók þó fyrst um miðjan janúarmánuð. Íshroði hafði verið að rekast fyrir landi frá því í nóvembermánuði, og stundum komið inn á firði fyrir norðan land, en aldrei orðið reglulega landfastur; þar á móti voru frost svo mikil, að víða lagði víkur og firði. Um um miðjan janúarmánuð lagðist hafísinn fast að landinu og varð samfrosta við lagnaðarísinn; urðu þá hafþök af ísi fyrir miklum hluta Norðurlands. Meðan hafísinn var að leggjast að landinu og fyrst eftir það, voru harðindin mest. 11. og 12. janúar gjörði stórhríð nálega yfir allt land, einkum Norðurland og Austfirði; þar með fylgdi stormur ofsalegur; í einni þeirri svipan tók upp timburkirkjur 2 á Austfjörðum (Berunesi og Berufirði) og brotnuðu báðar; margt varð þá fleira fyrir tjóni. Þessa daga var og grimmdarfrost mikið; í Reykjavík var frostið yfir l8 stig (Réaumur, -22,5°C), en viða norðanlands 2426 stig [-30 til -32,5°C]. Hinn 13. janúar létti upp stórhríðinni, en eigi létti enn af harðindunum; því nær til mánaðarloka voru sífelldar kólgur og kafaldsbyljir, frost og fannkomur; svellalög og fannfergja voru yfir allt land og jarðbönn fyrir allar skepnur. Tóku þá bndur víða að sjá sitt óvænna með fénað sinn, þar sem harðindin voru svo samfelld, að aldrei mátti beita, en allan pening varð að hafa á stöðugri gjöf; var nú eigi annað ráð fyrir hendi en að fækka fénaði svo sem mátti, og skáru menn í mörgum sveitum með þorrakomu. Síðustu dagana í janúar og fyrstu dagana í febrúar gjörði hláku, en þá komu aftur kalsahríðir og snjógangur með blotum á milli. Undir miðjan mánuðinn kom aftur hláka og talsverð leysing; losnaði þá um hafísinn og hörfaði hann frá um stund, en jörð kom enn eigi upp til muna. Síðari hluta mánaðarins var veðurlag víða óstöðugt, en eigi mjög hart. Í mars kom hafísinn aftur að landi og harðnaði þá um hríð, einkum á Norðurlandi; í sumum sveitum, svo sem víða í Þingeyjarsýslu voru hin verstu harðindi þann mánuð allan og fram í apríl. Aftur fóru sumstaðar að koma upp hagar, sér í lagi á Suðurlandi, en lítt urðu þeir þó enn notaðir, því að umhleypingasamt var og oft illt ástöðuveður. Í apríl var veðurátta lík, nema nokkru mildari; um miðjan þann mánuð (1417.) voru ofsaveður mikil sunnanlands; hröktu þá skip víða, net eyddust og nokkrir menn týndust. Upp frá þessu fór veður batnandi, og má telja, að með vetrarlokum hafi harðindin verið úti. Svo hafa margir gamlir menn sagt, að eigi myndu þeir annan vetur, er hefði verið jafnharður og jafnlangur yfir allt land sem þessi; er það almæli, að hann hafi verið einhver hinn harðasti á allri þessari öld og með hinum harðari vetrum, er getið er í annálum, þótt afleiðingar hans yrðu eigi jafnhörmulegar sem margra vetra fyrrum. Nöfn hafa menn gefið þessum vetri eins og mörgum hinum fyrri harðindavetrum; hafa sumir kallað hann Hreggvið stóra", en aðrir svellavetur hinn mikla"; má hvorttveggja heita sann-nefni, því að bæði var hann mjög hreggviðrasamur, og eins voru svell og ísalög þá í mesta lagi. Með sumarkomunni brá veðuráttu mjög til batnaðar því nær allstaðar um land, og tók nú snjó og svell upp að mestu leyti á fáum dögum. Enn lá hafísinn þó fyrir mestöllu Norðurlandi og allt þangað til seint í maímánuði; þá losnaði hann loksins frá landi og rak til hafs; hafði hann þá verið landfastur því nær samfellt í 18 vikur. Meðan ísinn var við land, var sífellt nokkuð kalsasamt nyrðra og vestra, en upp frá því voru hlýindi mikil það sem eftir var maímánaðar og fyrra hluta júnímánaðar; aftur var að tiltölu kaldara um þenna tíma syðra og eystra. í miðjum júní kom hafísinn enn að landi fyrir Ströndum og var þar að hrekjast fram og aftur því nær mánaðartíma; eftir það hörfaði hann frá til hafs, en var þó nærri landi lengi fram eftir sumri. Síðara hluta júnímánaðar og nokkuð framan af júlí voru kuldahret við og við nyrðra, vestra og eystra með krapaskúrum og snjó ofan í byggð. 9.júlí snjóaði lítið eitt víða um land í byggðum. Miðsumarmánuðirnir voru víðast hvar kaldir, en fremur þurrviðrasamir, nema í stöku sveitum syðra og vestra. Að áliðnu sumri tók mjög að kólna, en allgóð tíð mátti þó kallast þar til síðast í september. Þá gjörði illviðrakafla mikinn og ofsaveður, er stóð til hins 5. október, og kvað einkum rammt að því á Norðurlandi. Skip slitu upp, hús fuku, hey fauk og hrakti, fé hrakti og fennti; þá voru fjárrekstrar miklir á fjöllum, er ofviðrið dundi yfir, og týndist talsvert af fé, hafðist sumt aftur, en sumt ekki. Það sem eftir var af október og þó einkum framan af nóvember var mjög óstöðugt veður og umhleypingasamt, en sjaldan frost mikið. Eftir það var svalt veður en stillt fram í desember, en síðan að mestu þítt og hlýtt, en nokkuð vindasamt allt til ársloka.
Heyskapur varð víða fremur lítill síðastliðið sumar, og allvíða enn minni en sumarið áður. Framan af vorinu virtist svo sem grasvöxtur mundi verða góður, þar sem jarðvegur var óskemmdur af kali, en þá komu kuldanæðingar með ísnum, er hann rak aftur að landinu í miðjum júní, og komu kyrkingi í grasvöxtinn, svo að lítið spratt úr því. Lakast voru tún sprottin og annað harðlendi, og þar á ofan bttist það, að víða voru stór svæði í túnum kalin eftir veturinn, og á stöku stað skemmdust þau einnig af grasmaðki. Engjar og votlendi voru að tiltölu betur sprottin, og þó óvíða vel. Svo er að sjá sem grasvöxtur hafi yfir höfuð að tala verið betri á Norðurlandi og Austurlandi en á Suðurlandi og Vesturlandi. En þótt grasvöxturinn væri hvervetna í minna lagi, þá var heynýtingin aftur góð víðast mestan hluta sumars. Heyaflinn að haustinu varð þannig lítill, en góður, eins og árið áður, en nú voru heyfyrningarnar frá fyrra ári langtum minni, og sumstaðar engar eða því nær. Þó að nokkrir heyskaðar yrðu í illviðrakastinu um haustið, gætti þessa eigi allmikið fyrir almenning. Heybrunar voru einnig mjög óvíða. Kál, rófur, kartöflur, hafrar og bygg spruttu í meðallagi; melurinn í Skaftafellssýslu í betra lagi, fjallagrös í lakara lagi.
Janúar: Mjög köld og erfið tíð, hart frost með köflum og úrkomusamt.
Nóttina milli 11. og 12.janúar fauk snjómælir á Teigarhorni í fárviðri og eyðilagðist.
Norðanfari segir þann 17.janúar:
Aðfaranóttina hins 12.[janúar] og um daginn og nóttina eftir fram undir háttatíma var hér grimmasta norðanstórhríð með 18° frosti [-22°C], en þann 13. var heiðríkt, kjurt og bjart veður með 21° frosti [-26°C]. Sást þá að fjörðurinn var orðinn fullur með hafís inn fyrir Oddeyri, nema dálítil rifa í hann landa á millum fyrir utan Ósgrunn. Enn hefir ekki heyrst, að nokkur höpp hafi komið með þessum ís, nema dálítið af spýtum. ... Í byrjun stórhríðarinnar 11.[janúar] hafði vinnumaður frá Draflastöðum í Fnjóskadal orðið úti, ...
Víkverji segir lýsir veðri næstliðnar vikur þann 17.:
[Þ.] 3. janúar og 4. norðangola með miklu frosti, 5. landsynningur og hláka 6. útsynningsstormur með éljahríðum, 7. hæg vestanátt, 8. norðangola, 9. og 10. umhleypingar, höfuðáttin á sunnan, 11. hörkufrost og norðanbylur, 12., 13., 14. hörkufrost og norðangola, 15. snjókoma töluverð í logni, 16 norðangola, gjörði blota um kveldið. ... Reykjavíkurhöfn fór að leggja 11. allt út að skipinu, sem enn er á höfninni. Skerjafjörður er lagður og hefir verið genginn síðan 13. þ.m. Ágætur fiskiafli helst við í Garðs- og Leirusjó, 9. fóru ein 15. skip héðan suður, þau komu aftur 14. og 15. og höfðu fiskað allvel, ...
Þjóðólfur segir af illri tíð þann 19.janúar:
Veðráttan hefir síðan um nýárið verið hér fjarskaköld, frostasöm og umhleypingasöm. Mest hefir frostið orðið 7. og 12. janúar hátt á 18. mælistig R [-22,5°C], og aðeins (5. og 6. þ.m.) hefir hitinn verið yfir 0°R, Allir vogar og víkur um Kollafjörð lagðar ísi, og síðan 11.þ.m. talsverður ís á Reykjavíkurhöfn, sem þó sjaldan ber við. Úr sveitum höfum vér lítið frétt enn, sem áreiðanlegt sé.
Víkverji segir þann 24.janúar [á timarit.is er blaðið ranglega sett á 24.apríl]:
[Þann 17. og 18. janúar] norðangola, 19. um kvöldið hleypti í lini, 20. og 21. austan og útsunnangola, 22. útsunnan hvassviðri með byljum 23. norðangola. [Þ.] 20. um morguninn var ísinn rekinn burt frá höfninni í austanveðrinu, sem þá var, en nú er höfnin aftur lögð út að skipinu, sem er hér kyrrt enn. 19. og 20. komu þeir menn er róið höfðu suður héðan, aftur, en sögðu nú fiskilaust fyrir sunnan eins og hér.
Norðanfari birti þann 18.febrúar bréf víða að, dagsett í janúar:
[Suður-Múlasýslu, 22.janúar] Mikið hefur á gengið síðan ég ritaði af stormum, frostum og snjóum; frá 20. desember [2873] var tíð mjög óstillt, gjörði ýmist snjóa og frost, eða blota, og fylgja því jafnan stormar. Voru jarðir víðast er veður leyfði. Eftir sólstöðurnar tóku hörkur að harðna og veðrin að vaxa, jafnan af norðvestri; gjörði þá svo harða svipi, að allt járnþakið sleit af annarri hliðinni á Liverpool, verslunarhúsi Jakobsena á Seyðisfirði; höfðu sperrurnar staðið einar eftir; þá fauk hús er Norðmenn höfðu byggt á Seyðisfirði og selt í sumar seyðfirskum manni; til þess sjást enginn merki nema grunnurinn, timbur fauk allt á sjó út. Í því bjó enginn. Þá fuku og hjallar víða um fjörðu. Það má annars heita að stormurinn hafi aldrei slitnað til þessa. En út yfir allt tók þó stormurinn 11.12.jan. Það veður muna menn mest. Þá var 15° frost á R. í Fjörðum, en 24° á R [-30°C] á Jökuldal, þá var ekkert hús svo rammbyggt né frosið, að ei hrykkti og skylfi, sem á þræði léki. Mátti þá peningur víða standa málþola. Þá nótt fór stormbylur um Berufjörð. Voru þá kirkjur í Berufirði og Berunesi (annexía bóndaeign) á sömu stundu uppnumdar til skýja, og síðan á jörð aftur kastað með miklu afli; var þá engin taug heil í þeim, en síðan sópaði vindurinn brotunum í sjóinn, svo eigi kvað sjást annað eftir af þeim en gólfið af Berufjarðarkirkjunni. Þær voru báðar fornar en af tré, og heyri ég suma segja að þær muni helst til lengi hafa lafað, og séu þarna best komnar. Þá hina sömu nótt, er mér sagt, að vindmylla ein á Djúpavogi hafi vængbrotnað algjörlega. 4 bátar fuku í fjörðum fyrir jólin. Á sunnudaginn fyrir jól [21.desember], varð maður úti á túninu á Ketilstöðum í Jökulsárhlíð, hann kom úr Vopnafirði. Maður fórst ofan um ís á Lagarfljóti fyrir jólin. Margir hafa úti legið, en engir hreppt skemmdir miklar; oft rétt við bæi. Kalbletti má nú daglega sjá á kinnum og fingrum. Síðan um nýár hefur frostið verið frá 815° stöðugt [-10 til -19°C], og er það engin furða, þar sem hafísinn er fyrir öllu Austurlandi, þó eigi sé hann orðinn landfastur enn. Hafísinn þykir vágestur mikill, og býst enginn við góðu af honum; muna menn eigi að hann hafi komið jafnsnemma, en hugga sig við það að sjaldan er mein að miðsvetrarís*. Flestir eru byrgir enn að heyjum, en tómahljóð, mun fara að heyrast, áður þorri líður, ef þessu vindur fram. ... ".
[Seyðisfirði 22.janúar]: Rosarnir og illviðrin hafa verið framúrskarandi, stormarnir fjarskalegir, frostin fágæt; snjóþyngsli hafa ekki haldist til lengdar , þó talsverðu hafi annað slagið sallað niður, því stórviðrin hafa sópað að mestu öllu upp og saman, og stundum jafnvel heilum og hálfum þúfunum með, svo svört flögin hafa staðið eftir. Sauðfé hefur svo að kalla ekki séð út fyrir dyr, síðan fyrir og um veturnætur nema geldsauðir dag og dag; það má því ætla, að talsvert sé farið að sneiðast um heybirgðir manna; annars munu birgðir flestra í haust, hafa verið í fyllsta lagi, en þó er síst fyrir að taka, að þær gjöri betur en að hrökkva, ef öðru eins skyldi fara fram hér eftir og til sumars. Tvívegis hafa þó veðrin orðið hér mest, í fyrra skiptið 16.18. desember byltust hér um 2 timburhús og hjallur, og ónýttist að mestu leyti; meginhluti þaksins fór af hinu þriðja nýlegu verslunarhúsi Jakobsens, svo aftur varð að leggja annað nýtt; hey tók upp að kalla ofan að veggjum, og bátur fauk, svo varla sást neitt eftir af; þar fyrir utan urðu ýmsir fleiri minni skaðar. Síðara veðrið var 11.[janúar] ásamt stórhríðarbyl og grimmdarfrosti; þá sligaðist niður eitt af húsum Norðmanna, og annan stafn þess tók alveg burt, svo ekkert sást eftir af, einnig reif þá af hálft þak af nýjum timburhjalli og gluggar brotnuðu flestir í húsum kaupstaðarins, svo ekki allfáir hlutu að vera á fótum alla nóttina, eigi síður en í fyrra veðrinu; í þessu síðara veðri var hríðin svo dimm og skaraþeytingurinn svo mikill, að ekki varð vitjað fjárhúsa á stöku bæ, þótt heima á túnum væru, hvað þá heldur farið á beitarhús og ekki náð til vatns einn daginn. Slík aftaka illviður koma naumast í Eyjafirði 18. [desember] sást fyrst til hafíssins hér úti fyrir; eru nú strax farnar að berast sögur af bjarndýrum. Músagangur þykir víða hvar dæma fár, og jafnvel orðið vart við að þær hafi lagst á skepnur. Hey hafa reynst létt og gagn af kúm með minna móti. Tveir menn er sagt að hafi orðið úti í Héraði, annar á Útmannasveit en hinn í Fellum.
[Siglufirði 22.janúar]: Harðindin og frostið ætla að nísta allt helklóm, frá 11.13. f.m. (desember? - líklega samt átt við janúar), var hér norðaustan stórhríð með ákafri snjókomu og 16° frosti (R) [-20°C]. Þann 19. f.m. (líklega átt við janúar) varð frostið mest 20°R [-25°C] og í dag er það 19° [-24°C]; 11. [janúar] fyllti fjörðinn með hafís.
[Þistilfirði 27.janúar]: Tíðin er hér í voðalegasta lagi, oftast stórhríðar með dæmafáum frosthörkum. Snjóþyngsli eru að vísu hér ekki mjög mikil, því snjórinn hefur ekki haft hér viðnám fyrir stöðugum ofsaveðrum. Nóttina fyrir 18.desember, var hér svo mikið norðaustan stórviðri með hríð, að rosknir menn segjast ekki muna annað eins; það gjörði á nokkrum stöðum skaða á skipum og heyjum, en fjárskaða gjörði það ekki, enda var þá fé geymt í húsum. [Þ.] 11.12.[janúar] voru óstjórnlegar stórhríðar, svo röskum mönnum var illa út fært, fyrir veðurhæð, dimmu og grimmd. Hafísinn, er búinn að vera gestur hér æði lengi; engin höpp hefur hann fært okkur þistlum, en hann færði Langnesingum þau, því í Skoruvík náðust 76 höfrungar í vök 60 faðma undan landi. Á Langanesi hefur og unnist einn bjarndýrshúnn; fleiri birnir hafa sést þar og hér, en hvorki hafa þeir gjört mein né aðrir þeim.
[Mývatni 28.janúar]: Fátt er það sem fréttir megi telja nema tíðarvonskan, svo menn muna varla aðra eins, einkum síðan um nýár, sífelldar hríðar og frostbitrur. Mesta frost sem komið hefur í vetur í Reykjahlíð var 19.[janúar] 24° á Reaumur [-30°C]. Hér hefur á sumum bæjum í þessari sveit, mátt gefa hverri skepnu inni síðan um veturnætur, þó hefur nokkuð af hestum gengið á fjöllum allt að þessu, en eru nú allir komnir í hús og fleiri fremur magrir. 10.[janúar] lögðu af stað úr Vopnafirði 2 vinnumenn af Hólsfjöllum, og voru á heimleið, var þeim fylgt nær á miðjan Dimmafjallgarð, en seinni part dagsins brast í stórhríð, sem varaði í 3 daga, höfðu þeir hest og æki; báðir þessir menn urðu úti, og fundust bæði líkin á fjallgarðinum skammt frá vegi, eftir 13 sólarhringa, og hesturinn lifandi hjá með tauminn frosinn niður.
[Jökuldal 29.janúar]: Síðan ég skrifaði yður seinast, hefur mikið gengið á og margt færst úr lagi. Ég man eigi hvert ég gat þess, að hinn 10. desember. næstliðið kom hið óttalegasta veður, er víða gjörði feiknaskaða, einkum við Seyðisfjörð; ... borð og plankar sundruðust í smámola; þess eru fá dæmi að borð eitt fauk eitt sinn beint á endann á stafninn á einni mörbúðinni við Seyðisfjörð og í gegnum þilið og saltkassa þar fyrir innan, sem var úr heilum borðum. Í veðrinu milli hins 17. og 18. fuku og allar ferjur við Lagarfljót, nema Ásferjan, og brotnuðu flestar í spón; þá urðu og víða heyskaðar. Annað óskapa veðrið kom hinn 12.[janúar] er sleit upp freðinn gaddinn og allan jarðveg er til hans náði, en fyllti hús og bæi með dæmafáu innfoki, svo víða var það, að hvorki varð komist út eða inn, nema að brjóta hurðir af járnum, þá fauk og eitt af húsum Norðmanna við Seyðisfjörð, þá fauk og Berufjarðarkirkja, svo ekkert stóð eftir nema predikunarstóllinn, en Beruneskirkja skekktist öll af grundvellinum. [Tvær] júffertur tók upp að Langhúsum í Fljótsdal og fleygði þeim meðalbæjarleið, yfir Jökulsá og út á svo kallað Dranganes, fram og niður af Valþjófsstað; þar lágu þær samari eins og systur. Síðan um nýár hafa oftast verið 1820° á R og þar yfir, og tíðin svo fjarskalega óstöðug, að þó ekki hafi sést skýdepill á lofti að kvöldi eða morgni, þá hafa allt í einu skollið á hin verstu og grimmustu veður. Það má svo heita, að á Efra-Dal og sumum bæjum hér út frá, hafi verið jarðlaust síðan í 22. viku sumars, og muna menn engan vetur slíkan síðan blóðveturinn 1822. Jarðleysurnar hygg ég að nái í vestur að Skjálfandafljóti. Á öllu Úthéraði hefir verið hin mesta jarðsæld í vetur og eins í Fljótsdal, Skógum og Fellum en aftur lakara á Völlum, og mjög hart í Eiðaþinghá, en það er svo sjaldan sem skepnur hafa nokkurt viðnám. Hafísinn kvað kominn suður fyrir Fáskrúðsfjörð og bjarndýr víða gengin á land. Eitt þeirra sá maður nokkur á Hellisheiði, það var rauðkinnótt og geysistórt, en gjörði honum ekkert mein; annað lagði hramminn inn um glugga á Heiðarseli í Tungu, piltar hlupu ofan og var þá bangsi að halda af stað, en hafði hrifsað pils, er úti hékk og reif það í sig. Þriðja dýrið sá drengur nokkur að Dalhúsum, hann sigaði hundi sínum í það, en hljóp sjálfur undan og hefir rakkinn eigi sést síðan. Þótt smásmugulegt sé, er eigi úr vegi að geta þess, að í veðrinu mikla hinn 12.[janúar] fauk steinmoli innum glugga á Stórabakka í Tungu, án þess að sprengja hið minnsta út frá sér. Glerrúðan er steinninn flaug í gegnum var úr skipsdekki og mjög þykk. Það er gagn, ef harðindin halda lengi áfram, að margir góðir drengir eru fyrir austan Fljótsheiði, og hafa sumir Efradalsmenn þegar rekið sauði og hross þangað, og fundið bræður fyrir. Heymagn er víðast hvar lítið á Efradal; engjarnar eru snöggar og brugðust mjög í sumar, þar eð maðkurinn eyðilagði allt harðvelli. Aðalheyskap sinn höfðu menn í flóum, norður og austur á heiðum, og þótt menn fengju talsvert að vöxtunum, þar eð sumartíðin var svo hagstæð, þá er þetta heiðarhey hálfu ódrýgra afgjafa en það hey er menn venjulega afla í heimaslægjum. Jökuldalur hefir jafnan verið talin einhver hin snapasælasta sveit, hvað útbeit snertir, en um nokkur ár hefir hver veturinn verið öðrum verri og útbeitin gjörsamlega brugðist, en því verður ekki neitað, að meðan niðri nær, mun óvíða jafnhollt og kjarngott beitiland nema á Fjöllum, því að þar er landið að mun betra. Í gær héldu menn að mundi fara að batna, því að þá var hláka með 5° hita og loft fagurt og blíðlegt, en í gærkveldi var farið að drífa. Í morgun var tveggja stiga frost en stillt veður svo fé var látið út á ofurlitla hnjóta, er komu upp í gær, en allt í einu brast á hroða dimmviðri með talsverðri fannkomu. Kl.3 slotaði veðrinu og gjörðist þá heiðríkt allt í einu og því nær logn, nú er aftur að hvessa kl. 9. e.m. og frostið að harðna.
[Núpasveit 25.janúar] Hér eru harðindi svo úr hófi keyra og jarðbannir um nálægar sveitir. Hafísinn kom algjört um miðjan þennan mánuð svo mikill, að ekki sést út fyrir hann, og saman frosið sjór og land. Þrjú bjarndýr hafa sést á Sléttunni, eitt braut baðstofuglugga á Rifi, norðasta bæ á Sléttu, og rak inn hausinn, fóru menn þá að hlaða byssur sínar og leita dýrsins en fundu eigi, því að hríð var og náttmyrkur. Annað sást á Raufarhöfn, sýndist mönnum það á stærð við vetrung, á hið þriðja var skotið en komst undan út á ísinn. Víðar hefir heyrst til þeirra og sést eftir þau slóðir en engu orðið náð, þau hafa heldur hvergi gjört skaða.
[Reykjadal í Þingeyjarsýslu 31.janúar] Héðan eru að frétta dæmalaus harðindi; má svo heita að í Reykjadal hafi verið jarðlaust síðan á veturnóttum; frá 1. janúar til þess 24. komu hér 3 dagar hríðarlausir, og allan þann tíma var frost 1024° á R [-12 til -30°C], oftast þetta frá 1620°, en 25.[janúar] var hér þíða, en þó ekki svo að neitt tæki að gagni, enda er hér svo mikill snjór, að fullorðnir menn, sem hér hafa verið alltaf, muna eigi slíkan. Haldi þessu fram, munu menn almennt verða heylausir um miðgóu. Síðan 25.[janúar] hefir verið minna frostið, mest 11° [-14°C] og stundum hefir orðið frostlaust. Við Mývatn er sagt að mann hafi kalið á beitarhúsleið, sem varla sé lífvænt.
[Viðvíkurhreppi í Skagafirði 28.janúar]: Héðan er að frétta ærið bága veðuráttu, oftast síðan mánuði fyrir vetur; þá settust að kýr og lömb til fulls, og fullorðið fé sumstaðar fyrir jó1 og líka folöld og tryppi, og nú allvíða eftir nýár, fullorðin og feit hross: nú er að vísu þíða og nokkuð farinn að síga gaddurinn, en mikils þarf ef duga skal. Nýlega var hér maður á ferð úr Fljótum, sem sagði að þar væri engu meiri snjór en hér, og er það þá nýtt, og merki til þess hvað hér hefir kyngt niður af fönn.
[Húnavatnssýslu 30.janúar] Það má svo að orði kveða, að alljafnt síðan frá jólum og til næstu helgar hafi verið hörkur og hríðar, og nú nálega jarðlaust yfir allt sem tilspyrst, nema lítil snöp fyrir hross á stöku stað. Í stórhríðinni 11. og 12.[janúar] varð gamall og vesæll maður úti á svonefndri Laxárdalsheiði sem liggur millum Gönguskarða og Ytra-Laxárdals í Skagafjarðarsýslu, Skaga-Davíð nefndur, fannst poki hans og stafur en hann ekkí sjálfur. Í þessari sömu hríð lágu úti 3 menn hér í sýslu, og 1 í Skagafirði, er alla kól meira og minna, þá var og hér 20° frost á Reaumur [-25°C]. Um þessar mundir fyllti hér allt með hafís, en ekki hefur hann fært neitt, en bjarndýr er sagt að komið hafi á land nálægt Sauðárkrók og farið til fjalla. Á jólaföstu komu 4 bjarndýr á land á Ströndum. Eitt lagði til sunds út á ísinn, er þá lónaði aftur frá, annað var elt út á auðan sjó af einum manni á báti og skotið á sundi; þykir það allfrægt að leika þannig við fullorðið bjarndýr. Maður þessi heitir Jóhann og er ættaður úr Miðfirði. [Tvö] dýrin voru unnin nálægt bæjum, þau voru bæði ung. Þetta virðist vottur til að ísinn muni eigi alllítill.
Víkverji birti þann 14.febrúar tvö bréf rituð í janúar:
[Síðunni 16.janúar] Tíðin hefir alltaf verið stirð, síðan ég skrifaði yður siðast; hér hefir allur fénaður verið á gjöf frá því um jól, en um þrettándann keyrði fram úr, hljóp þá allt í svell, svo nú er með öllu jarðbann. 11. og l2.[janúar] gjörði hér ofsa norðan gaddbyl, eitt hið mesta harðveður, sem hér kemur; blés þá snjór nokkuð burt, og öll grasrót með, svo ekki er þar annað eftir en svört mold. Margir eru hér búnir að skera af sér, bæði kýr og lömb, ég hefi frétt af 10 kúm skornum, og almenningur illa staddur ef þetta stendur lengi. Betra er að frétta austan úr eystri sýslu og Múlasýslum, en þó sama eður lík veðurreynd og hér.
[Miðfirði 30.janúar]: Ísinn rak inn 10.12.[janúar], þá daga var hér 1618°R frost [-20 til -22,5°C] í þykku lofti og hríð. Mest hefir frosið hér 24°R [-30°C]. Ekki eru margir enn farnir að kvarta um heyskort og fáir farnir að skera fénað sinn svo nokkru nemi, en illa lítur út fyrir almenningi, ef þessi tíð helst til lengdar. Engin höpp hefir ísinn fært nema lítið eitt af viði, sem hann rak undan sér. Þrjú bjarndýr komu í haust á hafíshroða inn á Kaldbaksvík og Gjögur á Ströndum og voru unnin þar.
Þjóðólfur greinir þann 4.febrúar frá veðri síðari hluta janúar:
Veðráttan var 18.- 26.[janúar] öllu óbreytt frá því, sem hún hafði verið fyrri hluta mánaðarins, frost mikil og einlægir bylir; en 27. og 28. var hér allgóð hláka, og 3 mælistiga hiti, og minnkaði þá ís og snjór talsvert hér við sjóinn; en sú hláka var eigi langæð; því að 29. fór að snjóa aftur, og hafa síðan gengið stöðugir útsynningar með kafaldséljum, en frost litið. Að austan höfum vér litlar fréttir fengið, er áreiðanlegar sé, enda er austanpósturinn enn eigi kominn; en harðindin eru þar hin sömu og annarstaðar, og sagt er, að ýmsir muni hafa skorið þar nokkuð af heyjum, þó eigi til stórriða [svo]; einkum höfum vér heyrt til nefnt í Hreppunum í Árnessýslu, og einstaka menn í Rangárvallasýslu. Um 20.janúar fengum vér fréttir úr Borgarfjarðarsýslu, og hefir þar og gengið sama veðurharkan sem hér, víðast alveg haglaust síðan um nýár enda eigi ástöðuveður, þótt hagar væri. Núna fyrir helgina komu 2 menn hingað norðan úr Skagafirði, og sögðu þeir hin sömu harðindi um allt Norðurland, og allt fullt af hafís vestur að Húnaflóa, en þar nú íslaust. ... Í gær og í dag [3. og 4. febrúar] góð hláka.
Víkverji rekur veðrið um mánaðamótin janúar/febrúar í pistli þann 7.febrúar:
[Þ.24.janúar] Norðangola, um kvöldið brá til hláku, 25. útsunnanstormur með regnskúrum, 26. útsunnanhvassviðri, 27. sunnanrigning, 28. hægur á sunnan, 29. útsunnanstormur með frosti, 30. hægur á sunnan, hláka og rigning eftir miðjan dag, 31. sunnanrigning, 1.[febrúar] útsunnankafald, 2. og 3. sunnanrigning, 4. sunnangola með frosti, 5. og 6. norðangola.
Febrúar: Óstöðugt og hart tíðarfar með blotum og hríðum.
Víkverji birti þann 4.apríl bréf úr Strandasýslu, dagsett 10.febrúar:
Hafísinn kom hér fyrst með jólaföstu, og á honum nokkrir hvítabjarnarhúnar, svo sem hálfvaxnir; fjórir urðu unnir, nefnilega 1. á Kleifum í Kaldbaksvík, 2. á Gjögri, 3. frá Bæ í Trékyllisvík, og 4. á Horni. Hafísinn fór frá aftur fyrir jól, en síðan kom hann aftur fyrir miðjan janúar svo mikill, að nú fyrir viku sá hvergi í vök af Krossanesfjalli, einhverju hæsta í Trékyllisvík, þar með lagði alla firði út að hafísnum. Það sem af er árinu hefir hér eigi gengið á öðru en norðan hvassviðrum með mikilli snjókomu og einstökum óþrifa-blotum, helst um næturtíma, þar með hörku frost, mest í Árnesi 21°R [-26°C] og á Stað í Steingrímsfirði 18°R [-22,5°C]. Hér um sveitir sést hvergi á beran stein á fjöllum eða dökkan díl í byggð, og muna elstu menn naumast slík harðindi. Lömb eru búin að vera á stöðugri gjöf í 18 vikur, og annar fénaður ásamt hrossum að því skapi. Engin höpp heyrast að komið hafi með þessum mikla hafís. Heilsufar tjáist hvervetna gott bæði á mönnum og skepnum
en aumingja rjúpurnar eru farnar að hordeyja.
Víkverji birti þann 7.mars bréf austan af Síðu, dagsett 11.febrúar:
Eftir að ég skrifaði yður síðast, hefir fátt borið til tíðinda, sömu harðindi hafa alltaf gengið hér hvervetna, sem tilspyrst, og sífelld illveður; allur fénaður á gjöf. Hið sama er sagt austan úr Austur-Skaftfellssýslu. Margir eru orðnir heytæpir, og fáir sem geta gefið út góuna. Á sumum útigöngujörðum þar sem aldrei hefir tekið fyrir haga áður, en heyskaparlaust er, hefir að sögn nokkuð bráðhungrað af fé en ekki hef ég sannspurt hve mikið; á einum bæ köfnuðu yfir 40 sauðir, í hellisskúta, rétt um þorrakomuna. Það var í Fljótshverfi. Hér í Kleifahrepp er búið að skera af heyjum 18 kýr og talsvert af lömbum. Fáir eru sem geta hjálpað að mun ef til lengdar leikur við. Nú í fyrra dag brá til lins, og hefir verið góður þeyr síðan, en ekki er von á að hagar komi hér fyrr en eftir vikuhláku.
Þjóðólfur rekur tíð í pistli þann 18.febrúar:
Vér gátum þess í síðasta blaði voru [4.] að 3. og 4. dag [febrúar] hefði verið góð hláka, en hún varð eigi langgæð, því að þegar um miðjan dag 4. fór að snjóa aftur. Síðan var oftast frostlítið og jafnvel frostlaust til þess 10. þ.m.; þá kom marahláka, og stóð hún í 2 daga; leysti þá talsvert hér nálægt sjó, svo að hagar urðu víða góðir, enda var þá daga um 34 mælistiga hiti. Síðan hafa hér verið hægviðri, en þó ókyrrt í sjóinn, frostlaust oftast, en þó enginn þeyr eða þíða. Austanpósturinn kom loksins 9.[febrúar] eftir meir en 3 vikna ferð frá Prestbakka sökum illviðra. Með honum komu hinar sömu fréttir sem annarstaðar frá um harðindi og hagleysur. Hafa i austursýslunum ýmsir skorið af heyjum, en greinilegar fréttir höfum vér eigi fengið um fénaðarfækkun, ... Hlákan hinn 10.11. hefir bætt nokkuð þar úr hagleysinu, en þó næsta lítið upp til dala eða á flatlendi, sem allt var undir.
Víkverji segir frá veðri undangenginnar viku í pistli þann 14.febrúar:
[Þ. 7. og 8.febrúar] hvassvirði af austri, 9. austangola með frosti, 10. og ll. [sama veður] en hláka, 12. norðangola með vægu frosti, 13. landnorðan hvassviðri. ... Skipin Ida og Lucinda, sem legið hafa veðurteppt hér og í Hafnarfirði síðan um jólin, fóru bæði til Spánar 9.[febrúar].
Tíminn birti þann 25.mars bréf af Ísafirði, dagsett 24.febrúar:
Hérna er mikill harðindavetur, ísinn hefir legið hér síðan rétt eftir nýár og enginn dráttur hefur fengist úr sjó síðan þann tíma og lítur út fyrir hin mestu harðindi yfir höfuð. ... Skipskaði varð rétt fyrir jólin í Súgandafirði. Var formaður á skipinu Brynjólfur í Bæ og drukknuðu 9 [aðrir segja 5] menn með honum.
Norðanfari birti þann 16.maí bréf ritað í febrúar:
[Trékyllisvík á Ströndum 27.febrúar]: Veturinn kom hér á 26. september í haust eð var, eins og víða annarsstaðar með frostum og fjúki, svo víða varð hér haglaust fyrir miðjan októbermánuð, þó kom hér upp góð jörð í nóvember, en bráðum tók fyrir hana aftur, og gjörði með öllu haglaust, bæði fyrir hross og sauðfé, og hafa jarðbönn og hagleysur haldist síðan til þessa dags, bæði af snjóum, sem hér eru miklir, og áfreðum; oftast hafa hér í vetur verið norðan og útnorðan kafaldshríðar með 1021° frosti á Reaumur. Í nóvember rak hér fyrst að landi hafíshroða; með honum komu hingað bjarndýr, og voru 3 drepin hér í sveitinni; þau voru öll fremur lítil, rúmlega hálfvaxin, og munu feldirnir af þeim hafa verið rúmar 3 álnir á lengd; dýrin voru mjög illileg þegar menn komu nærri þeim, og blésu og urruðu sem köttur en þau forðuðust þó mennina. Strax eftir nýárið rak hér að ströndunum afarmikinn hafís, sem fyllti Húnaflóa, og svo langt út í haf, sem menn gátu séð; síðan hefur ísinn legið hér, nema hvað hann fyrir fáum dögum er farinn að losna frá útnesjum og kominn á stað austur eftir. Enginn hér fyrir norðan Trékyllisheiði talar ennþá um heyleysi, og munu flestir komast af fram um páska; við erum hér einatt vanir við harðindi og hagleysur. Viðarreki var hér víða allgóður í sumar er var og haust, þangað til ísinn kom.
Víkverji lýsir veðri undangenginnar viku í pistli þann 28.febrúar:
[Þ. 21.febrúar] landsunnangola, hláka, 22. stormur af útsuðri með krapaéljum, 23. sunnan hvassviðri með snjóhríðum, mikil snjókoma um nóttina, 24. og 25. útsunnan og austan gola, 26. hláka, vestanátt, rigndi um nóttina og 27. um morguninn, síðan hægt veður er hvessti um kvöldið. [Þ.] 25. vitjuðu menn neta sinna eftir 4 daga legu, enginn fiskur en óvanalega stór hámeri hafði flækst í einu neti. 27. var aftur vitjað um net en engin fiskur. Þar á móti fiskuðu tvennir er réru á Bollaslóð, er svo er kölluð, og leituðu með færi ágætlega, annar hlóð.
Norðanfari segir 18.febrúar:
Nýlega hafa komið hingað fréttir að sunnan yfir Holtavörðuheiði, að snjóþyngslin og jarðbannirnar séu þar hinar sömu og hér. Einnig að aflalítið sé af fiski vegna ógæfta.
Norðanfari birti þann 29.apríl bréf rituð í febrúar:
[Reykhólasveit 20.febrúar] Sumarið var hér gott að því er þerrana snerti, en grasvöxtur mjög rýr, og varð því heyfengur manna í minna lagi. Snjókomur og illviðri byrjuðu litlu eftir leitir, og fyrir vetur varð að taka inn fé á sumum bæjum, og héldust þá norðanhríðar til þess um þriðju vetrarhelgina, þá kom þíða í viku og önnur [vika] með hreinviðri og miklum frostum; eftir það hófust aftur einlægar stórhríðar norðan, sem að kalla héldust stöðugt til þess á þorra; síðan hefur verið vægari veðurátta, með smákrapablotum á milli. Til jóla voru sumstaðar jarðsnapir, en menn höfðu lítil not þess, því að stórhríðarnar og brunafrost bægðu mönnum frá að nota útbeitina, en síðan á jólum hefur mátt heita haglaust yfir því nær allar sveitir, og sama er að frétta úr Dala-, Snæfellsness-, Borgarfjarðar- og Mýrasýslum, svo nú vomir yfir stór neyð með heyleysi því margir segjast ekki hafa hey lengur en til páska [5.apríl] og sumir eru nú komnir að þrotum. Nú er Vesturland umgirt ís, og hann er sagður kominn suður fyrir Látrabjarg og inn á Breiðafjörð, sem þó mun sjaldgæft. Svo er nú ísað hér á Breiðafirði, að farið verður með hesta út í Eyjar, og svell yfir allar Vestureyjar, svo bjarglaust er yfir allt. Engin höpp hafa komið með ísnum. ... Jagt sem átti að flytja vörur til Stykkishólms og Flateyjar, komst í Hólminn fyrir jól, og varð þar innifrosta til þess á þorranum, að hún losnaði og komst til Flateyjar; þar er hún enn og á nú bráðum að fara til Kaupmannahafnar.
[Broddaneshreppi í Strandasýslu 28.febrúar] Sumarið, sem leið var hagstætt, en grasbrestur einkanlega á túnum, svo töður urðu þriðjungi minni, en venjulega. Málnytan varð með rýrara móti vegna hinna miklu illviðra, sem gengu svo lengi fyrir og eftir fráfærur. Heyin reynast létt og kýr gjöra lítið gagn, fé víðast tekið á gjöf viku fyrir vetur, síðan má heita ein harðindaskorpa, nema svo sem hálfsmánaðartíma í nóvember. Þá kom upp nógur hagi, en áður var allstaðar orðið haglaust; hross komu víða á gjöf strax eftir veturnætur, og er komin hér víða 16 vikna innistaða og jarðbannir þær mestu. Talsverðan hafís rak hér inn á jólaföstu, ern það fádæmi svo snemma, en algjörlega fylltist hér allt fyrir, og liggur hér svo ekki sér auða vík; engin höpp hefur hann fært. Hákarlslaust þar sem reynt hefur verið að vaka á hann.
Tíminn birti þann 25.mars bréf úr Gnúpverjahreppi, dagsett 7.mars:
Héðan er fátt gott að frétta, heyskortur er mjög almennur, tíðin umhleypingasöm, síðan að hún breyttist, einlægar smáhlákur sem enda með krapsnjóum hér til fjallanna, svo það hefur orðið haglaust 13 daga.
Mars: Harðviðri nyrðra, en skárra syðra.
Þjóðólfur segir frá veðráttu í tveimur pistlum í mars:
[7.] Veðráttan hefir þennan fyrri hluta góunnar verið heldur óstöðug, þótt eigi frostasöm. Góan byrjaði með ákafri hláku, en þegar eftir 2 daga féll aftur allmikill snjór; eftir það var heldur blítt veður til 1.[mars]; þá kom aftur hláka og mikil leysing, en 3. fór aftur að snjóa og hefir síðan gengið á útsynningum með smáéljum. Frost hefir mjög lítið verið. Jörð mun nú víða komin allgóð hér sunnanlands, nema upp til fjallsveita. Eftir þeim fréttum, sem vér höfum fengið síðastar að norðan, mun þar allstaðar haglítið enn eða haglaust. Hafísinn er þar og enn fyrir landi.
[21.] Sunnudaginn hinn 8.[mars] var hér syðra talsvert frost, rúm 7 mælistig R, en linaði þegar daginn eftir, og var fremur milt veður úr því alla vikuna, en hinn 9.[svo] tók aftur að frysta, og hélst frost það til þess í gær [20.], að aftur hlánaði; frostið varð mest þessa dagana 7 1/2 mælistig R. Stormar hafa eigi verið hér miklir, en stormasamt til sjávarins mest af útnorðri og útsuðri, og ókyrr sjór. Eftir bréfum, sem vér höfum fengið með póstunum hafa sömu harðindin gengið yfir allt land, jarðbönn víðast, og þótt jarðir hafi sumstaðar verið, hefir sjaldan ástöðuveður verið fyrir skepnur, og hefir því gjafatíminn orðið fjarska langur allstaðar, og litlir hagar enn komnir víðast. Þó er svo að orði komist, að almenningur bæði nyrðra og vestra muni halda út til sumarmála, en þá muni og flestir komnir á þrot fyrir allan sauðfénað og hesta.
Norðanfari segir 17.mars frá tíð:
Í hlákunum sem hér komu fyrri hluta góunnar, er sagt að víðast hafi komið upp meiri og minni jörð; og jafnframt rak þá úr augsýn ísinn hér frá öllu Norðurlandi. Samt eru nú flestar fjörur sagðar enn þaktar klakagarði, og allur innrihluti Eyjafjarðar út á Arnarnesvík þakinn hafís og lagís, og því ekkert sýnna en að þau 9 þiljuskip er hér standa á Oddeyri komist ekki út fyrr en kemur fram á vor og þá heldur ekki að kaupskip nái hér höfn. Nú seinustu dagana hafa borist hingað þær fréttir, að hafísinn sé kominn aftur og sumstaðar landfastur. ... Í einum blotanum á dögunum, hafði vatn hlaupið í fjárhús á Hofi í Fellum og banað þar inni 49 sauðum. Jafnframt þessu hafði vatnið hlaupið þar í tóft eða hlöðu, sem mikið af heyi var í, og ónýttist að miklu.
Norðanfari birti þann 31.mars bréf:
[Þistilfirði 17.mars] Síðan á þorra hefur tíðin verið hér langtum þolanlegri en áður, því að þá blotaði svo að hnjótar komu upp á stöku stað, síðan hafa komið smáblotar svo rýmkað hefur til um hnjótana. Hafísinn hvarf sýnum um tíma, enn nú eru aftur komin hafþök og snjókyngja mikil á tveim dægrum, svo að alveg er orðið jarðlaust aftur, þar sem léttir, sem var hvergi nærri allstaðar hér í sveit, og því síður á Langanesi og Sléttu, þar kom víðast mjög lítil jörð og sumstaðar engin; það er því ofmjög farið að brydda á heyskorti nú þegar, og stöku menn heylausir, og nokkrir munu geta sagt: í dag þér á morgun mér. ... Núna á góunni vannst eitt bjarndýr í Sköruvík [svo] á Langanesi.
[Hálshrepp í Þingeyjarsýslu 17.mars] Enn helst óstillingin, frost og og snjóar síðan mánuði fyrir vetur. Allvíða er orðið heylítið og skepnur grannar.
Norðanfari birti þann 16.maí bréf ritað í mars:
[Borgarfirði austur 28.mars]: Tíðarfar var hér um sveitir gott í sumar [1873]. Tún og útengi voru miður vaxin en að undanförnu og heyin vegna sinu, mjög létt til afgjafa, þó munu skepnur víðast hér vera í allgóðu standi og ekki borið talsvert á veikindum í fénaði. Fádæma frosthörkur og ofviðri hafa gengið hér eystra í vetur, svo víða er jörðin lík graslausu flagi eftir þau. Hafíshroði kom hér inn fyrir þorra, en meginísinn úti fyrir; þá gengu hér óvanalega mörg bjarndýr á land. Snemma í vetur varð trjáreki hér í mesta lagi, mestanpart smáviður; engin höpp af hvölum eða þesskonar hafa borið hér að landi.
Almennar tíðarfréttir Norðanfara 31.mars:
Með vorinngöngudeginum [jafndægrum] brá hér til betri veðuráttu, svo að nú er komin upp í flestum byggðarlögum meiri og minni jörð, enda var þess ærin þörf, því margir eru sagðir komnir á nástrá, og áður enn batinn kom, á fremstu hlunnum að skera, þeir sem ekki hafa efni til að gefa skepnum sínum korn, sem fæstir munu vera, fáir líka svo heybirgir að öðrum geti bjargað. Bæði Húnaflói og Skagafjörður eru nú sagðir íslausir, en aftur töluvert af honum fyrir Sigluneslandi og Héðinsfirði allt norður að Ólafsfirði, en íslítið í álunum fyrir austan og vestan Hrísey og þaðan inn á Arnarnesvík, en fjörðurinn úr því landa á millum þakinn einnar til tveggja álna þykkum hafís og lagís. Nokkrir hafa hér ytra, beggja megin fjarðarins, lagt lagvaði og farið í legu og fengið dálítið af hákarli, og fáeinir svo mikið af lifur að tunnum hefur skipt. Á meðan hafísinn var hér nyrðra landfastur, höfðu margir fundið í honum talsvert af rekavið t.a.m. bændur úr Hegranesi í Skagafirði hér um á 70 hesta. Einnig er sagt að á sumum bæjum við Hrútafjörð og Miðfjörð hafi fundist á 20 til 30 hestar af við. Í miklu hríðinni og frostgaddinum í vetur, 12.janúar, hafði frosið fyrir Jökulsá í Axarfirði svo hún stíflaðist og hljóp í gamlan farveg sinn, eða svo nefnda Sandá , sem ekki gat rúmað hana, svo hún flóði víðsvegar um Sandinn; að 9 dögum liðnum náði hún aftur farveg sínum og reif sig þá út í sjó, gegnum 7080 faðma breiðan malarkamb. Hana hafði og lagt í vetur fram til fjalla, svo langt er menn eigi vita dæmi til. [Þ. 15.mars] höfðu 2 menn eystra, orðið úti í hríðarbyl, annar á Seyðisfjarðarheiði, en hinn á Möðrudalsheiði. 19.[mars] brast á annar stórhríðarbylurinn í Kelduhverfi, svo þar urðu fjárskaðar, einkum á bæjunum Garði, Austurgörðum, Krossdal og Tóvegg. Maður hafði þá verið á leiðinni innan yfir Tunguheiði er hét Friðrik, sonur Erlendar alþingismanns í Garði, en þá er hann kom ofan á svo nefnda Gerðibrekku, tók veðrið hann upp á skíðunum og hund sem var með honum í háa loft og fleygði langa leið, en þá niður kom meiddist lítið; þegar hann kom ofan fyrir Spóagil, tók veðrið hann aftur upp, meiddist hann þá töluvert, og enn í þriðja sinn skammt fyrir ofan Fjallabæ, meiddist hann þá mjög og gat ekkert komist, en þegar hann fannst máttfarinn og rænulítill, var sagt að hann væri kalinn á andliti og annar handleggurinn stokkbólginn svo ekki varð sagt, hvort hann væri brotinn eða öxlin gengin úr liði; auk þessa þótti tvísýnt hvort maður þessi mundi geta haldið lífi. [Friðrik lýsir atvikum nánar sjálfur í bréfi sem birtist í Norðanfara 24.júlí og er þá fullhress orðinn.] ... [Þ.17.mars] hafði unglingsmaður, er hét Vilhjálmur Guðlaugsson frá Kaðalstöðum í Hvalvatnsfirði, lagt af stað út yfir Leirdalsheiði og orðið úti, og var ekki fundinn þá seinast spurðist hingað.
Norðanfari birti þann 29.apríl bréf ritað í mars:
[Hrútafirði 24.mars] Nú er nýkominn hagsnöp hér fyrir hesta og sauði, en þó er oft á milli snjókoma af útsuðri; vestan Hrútafjarðar er haglaust enn. Það getur varla hjá því farið, að mikill kvikfjárfellir verði í Miðfirði vegna heyleysis hjá fleiri bændum þar. Þeir vita ekki, eða muna ekki, að flest hallæri, sem komið hafa yfir Ísland, hafa að miklum hluta orsakast af óskynsamlegum ásetning, því að varla kemur svo góður vetur, að sumir gefi þar ekki hey sín á endann; enda hefur þessi vetur veri svo langur að snjókomum og hagleysum, að fá munu finnast dæmi til um Húnavatnssýslu.
Apríl: Mildari tíð frá sumarmálum og snjóa tók upp. Kalsamt á hafísslóðum.
Norðanfari birti þann 29.apríl bréf ritað snemma í apríl:
[Húnavatnssýslu 4.apríl] Hér á Skaga ber sjaldan mikið til titla eða tíðinda og eigi heldur nú. Tíðarfarið er og hefur verið óttalegt. Næstliðið vor frá miðju maímánabar var hér hið versta, sem ég til man, með sífeldum úrfellum og herpingsstormum; hér af leiddi grasbrest; hinn stutti heyskapartími var hretasamur og kaldur, eigi að síður var hér góð nýting heyja; með síðari göngum byrjuðu hríðar og ströngustu illviðri, svo nær því aldrei gaf á sjó í heilu haustvertíðinni. Öndverðlega í nóvember var hér orðið við það bjarglaust af snjóþyngslum, þar eftir kom hláka mikil svo öríst varð, en slíkt stóð ekki lengi, því viku fyrir jólaföstu byrjuðu aftur hinar verstu brunahríðar, í hverjum ísinn kom alskapaður; síðan hafa gengið viðvarandi megnustu harðindi, og má efalaust telja þennan vetur þann harðasta, sem komið hefur á þessari öld; hér á Skaga var þó veturinn 186667 úrtöku harður, og engum í þessu plássi mundi hafa komið til hugar, að yfir þá liði verri vetur, þó er það nú orðið. Það er næstum því undravert, hvað menn hafa barist áfram á þennan dag með pening sinn, enda munu nú flestir á nástrái, og óumflýjanlegur peningsfellir fyrir hendi, ef ekki batnar nú vel úr hátíðinni. Þann 28.[mars] lagði skipstjóri Nielsen út á Jason" félagsskipi okkar, og hefur hann að öllum líkindum komist vestur fyrir land, því þá var lítill ís úti fyrir, vegna undangenginna sunnanstorma; nú er aftur orðið fullt af ís til hafs til að sjá, svo Elliði má hýrast hér á höfninni fyrst um sinn, félagsverslun Húnvetninga til mikils tjóns og óhæginda.
Ísinn sást frá Djúpavogi þann 24.apríl og daginn eftir kom hann inn á Berufjörð og fyllti voginn (veðurkýrsla).
Víkverji segir þann 11.apríl:
Í Miðfirði og Hrútafirði kvað hvergi vera kominn upp jörð enn. Þar í móti er sögð allgóð tíð austur í Húnavatnssýslu, í Skagafirði og Eyjafirði. Allir firðir eru enn fullir af lagnaðarís, en hafísinn halda menn hafi rekið frá landinu í fyrstu viku góu, 24. febrúar fór ísinn þannig frá Húsavík, og varð opinn sjór á Skjálfanda.
Norðanfari segir þann 10.apríl:
Maður er nýkominn hingað að austan, úr Breiðdal, sem sagði jafnvel betri tíð og jarðir eystra en hér. Allur hafís hafði verið horfinn frá Austfjörðum, en sumir firðir enn þaktir lagísum. Fjöldi af útlendum fiskiskipum hafði verið komin að austurlandinu en engin inn á hafnir, og enn síður nokkurt kaupskip frá Danmörku eða Noregi.
Tíminn segir af tíð þann 15.apríl:
Sífeldir kuldaþræsingar með norðan- og landnyrðingsstormum, frosti og snjó til fjalla, hafa gengið hér sunnanlands síðan fyrir bænadaga [skírdagur 2.apríl]. Sumstaðar austanfjalls er enn jarðlaust. Á Lyngdalsheiðarbæjunum í Grímsnesi og fjallabæjunum í Þingvallasveit, má að mestu telja jarðlaust. Í gær, þann 14.[apríl] var eitthvert hið mesta landsynnings ofsaveður, með vatnshríð og snjógangi til fjalla; um kl. 1 2 gengu þrumur með eldingum, síðan gekk veðrið til útsuðurs með éljagangi og brimi. Um morguninn var almennt róið hér af Seltjarnar- og Álftanesi, en hvort allir hafa náð landi, hefur eigi en frést. Í dag er sami útsynnings éljagangur, og í nótt er leið var brimrót mikið, svo frönsk fiskiskúta er lá upp í Reykjavíkursandi, brotnaði svo, að hún verður algjört strandgóss.
Þjóðólfur lýsir afla, hrakningum og manntjóni í pistli þann 18.apríl:
Dagana 11. og 13. [apríl] var alróið hér yfir allt og fiskaðist enn mætavel, mest í netum, en nokkrir urðu og vel varir á færi; mátti enn kalla hér mokfiski þessa dagana og vænn fiskur. Þá var og alróið enn þriðjud. 14. fyrir og um sólarupprás; var þá fyrst um morguninn hæg austræna og spakt og gott veður, en þegar leið að dagmálum tók að hvessa snarpan, gekk þá brátt fram í til aust-austurlandsuðurs fyrst með ofsaveðri og krapa-snjógangi, síðan til hafsuðurs og síðast til útsuðurs, og herti storminn æ meir og meir; treystust þá fæstir til að ná lendingu sinni, þeir er eigi höfðu tekið stjórann í tíma, urðu nokkrir að hleypa ýmist upp á Akranes, ýmist hér inn um Gufunessund, aftur þeir af Vatnsleysuströnd sumir til hinna syðri veiðistaðanna, en nokkrir bátar hér af Nesinu og héðan úr staðnum lögðust við stjóra í hlé af Akurey, og biðu svo þar af sér veðrið, en úr fór að draga nokkuð er að sólsetri leið, þar til þeir ýmist áræddu sjálfir að halda til lands, eður þeir voru sóttir á vel mönnuðum skipum. Eigi er enn til spurt um hrakninga þá, og manntjón, ef til vill, er af ofsaveðri þessu hafi staðið. Það eina er spurt og þó í óljósum fréttum, að 4-mannafar eitt með 5 manns, frá Auðnum á Ströndinni, er hleypti undan suður í Njarðvíkur téðan dag, og náði þar lendingu með heilu og höldnu, hafði lagt þaðan morguninn eftir 15., heimleiðis, þá var enn útsynningur með éljagangi og brimróti svo á hverjum boða braut, en vægara veður miklu, hafi þá borið upp á boða einhverja (fram af Brunnastaðatöngum?) og drukknað hafi þar 3 mennirnir en 2 orðið bjargað. Báti einum hafði hvolft í lendingu þar á Ströndinni téðan dag en mönnum var bjargað. Bát og fjögramannafar vantaði enn í gær af Álftanesi. Almennt kvíða menn því, að öll þorskanet manna og hrognkelsanet muni hafa hrakið og týnst í brimróti þessu og stormatíð, er stóð lotulaust alla 3 dagana til þess i gær, svo að ekki varð litið að sjó og engi maður gat átt kost á að vitja um eða bjarga eign sinni.
Víkverji segir þann 25.apríl:
Síðan síðasta blað kom út, hefir eigi verið róið héðan nema á mánudaginn 20. þ. m. og sumardaginn fyrsta [23.apríl]. Báða dagana fiskuðu menn vel frá 10 upp að 30 og enda þar yfir. Í gær gátu menn eigi komist á sjó fyrir hvassviðri, en í dag er besta veður heiðríkt og kyrrt og hefir almenningur rórið héðan. Menn er komu hingað í fyrradag frá Leiru og Garði þykjast nú mega fullyrða, að eigi vanti nema 4 báta af Suðurnesjum, síðan óveðrið skall á, með alls 9 manns (2 á 3 bátum og 3 á einum). Í öllum veiðistöðum hér syðra hafa verið hinar sömu ógæftir og hér, en fiskur allstaðar talinn fyrir. Nú fréttist smámsaman um vogrek eftir óveðrið og er þannig sagt, að sexróið skip og bát hafi rekið á Álftanesi á Mýrum, og 1 eða 2 báta í Melasveit. Vér höfum aðeins ógreinilega heyrt getið um mörk á þessu reki, og vér skulum benda mönnum á, að það væri æskilegt, að þeir, er urðu fyrir skaða af sjónum, lýstu sem fyrst í blöðunum einkenni á því, sem tapast hefir. Allstaðar að er getið um harðindi og horfir víðast hvar til fellis, ef eigi kemur bati. Maður úr Biskupstungum, er kom hingað um næstliðna helgi, sagðist hafa riðið um þvert Þingvallavatn á ís, og að hvergi sæist á dökkvan díl yfir alla Mosfellsheiði. Af Rangárvöllum hefir verið skrifað oss 13. [apríl] á þessa leið: Tíðin til lands hefir mátt heita síðan á níuviknaföstu heldur góð hefði eigi veturinn fram að þeim tíma verið eins ógurlega stirður og hann var, og fyrir það er nokkuð víða farið að brydda á heyleysi og skepnur ekki í nærri góðu standi, og líklega missist nokkuð, nema vorið verði því blíðara. Sjógæftir hér fyrir Landeyjasandi hafa engar verið það, sem af er þessari vertíð, fyrr en núna hinn 9. þ.m, gátu nokkur skip róið og öfluðu frá 10-20 í hlut.
Norðanfari segir af tíð og sköðum þann 29.apríl:
[Þ.] 1415.[apríl] var hér mikið ofviður landsunnan, en gekk um nóttina í vestanrok, er þá sagt að skip eitt af Tjörnesi hafi verið í hákarlalegu, sem ekki var spurt til þá seinast fréttist hingað. Í hinu sama veðri höfðu Grímseyingar komið úr hákarlalegu og náð undir eyjuna að austan, og lagst þar ásamt öðru skipi, er var úr landi, en eftir nokkra tíma slitnuðu Grímseyingar upp; er haldið að þeir hafi brotið skipið, því að austan á eyjunni eru engar lendingar. [Þ.] 26.[apríl] barst hingað í lausum fréttum að í mikla vestanrokinu, sem var hér um nóttina hins 15.[apríl], hafði skip eitt, er var frá Höfða á Höfðaströnd og var í hákarlalegu týnst með 8 mönnum; formaðurinn hét Jón Jónatansson frá Höfða. Skip þetta hafði verið gamalt og fúið, og að kunnugra sögn alls eigi sjófært, er Jón engu skeytti, því að hann var hinn mesti ofurhugi og kappsmaður og aflaði hér nyrðra manna mest úr sjó, af fugli, fiski, hákarli, sel og hnísum. Fyrir þetta sama veður höfðu og 2 skip róið til hákarls úr Fljótum, náði annað þeirra með mestu herkjum landi aftur í svonefndri Breiðuvík, sem er millum Stráka og Engidals vestan megin Siglufjarðar. Skipið sem var þungað af hákarli og lifur og er það tók niðri, brotnaði gat á það, ... en menn allir komust af. Á sumardaginn fyrsta [23.apríl], höfðu 9 norðmenn komið á 2 bátum upp á Dali eða Siglufjörð, er höfðu verið við selaveiðar, en brotið skip sitt í ísnum og það sokkið, þeir höfðu verið allslausir og nær dauða en lífi. [Tólf] dagana af mánuði þessum [apríl], var hafátt með meiri og minni snjókomu og hörkum, var þá en víða í sveitum komin mikil fönn ofan á gaddinn, er fyrir var og jarðlaust, en hér að kalla allt norðan fyrir landi stappað með hafís. Með sumarmálum, eða einkum frá hinum 23. [apríl] skipti um veðuráttuna til hins betra, svo að síðan hefur hver dagurinn verið öðrum betri, og meiri og minni jörð komin upp víðast hvar í sveitum. ...
Víkverji birti þann 11.maí nokkur bréf rituð í apríl:
[Skógarströnd 20.apríl] Síðan ég hinn 28. febrúar ritaði héðan, hefir verið áframhald óstilltrar og umhleypingasamrar veðráttu og snjóað eins af suðri sem öðrum áttum. Hinn 7. mars gjörði hér norðanáhlaup. Hinn 8. var austnorðangarður með 15°R [-19°C] frosti. Hinn 17. var norðan og -12°R [-15°C]. Einstaka dag kom hlýviðri og nokkurra stunda bloti. Jökullinn á jörðunni hefir mjög lítið þiðnað eins og nærri má geta, þegar meðaltal hitans í mars varð -2,0°C. Aprílmánuður byrjaði með harðviðris-norðangarði og byljum til fjalla. Hinn 5. var hér -11°R [-14°C] um morguninn. ... Eftir að norðanveðrinu slotaði hinn 8. hafa verið frostvægðir, - 1° til 3° á nóttum + 1° til 6° um hádaginn og þiðnað lítið. ... Hér í sveit eru því megn snjóþyngsli ennþá, nema rétt við sjóinn; fyrir framan bæi er alt einn jökull. Heyja- og bjargarskorturinn þrengir að, og haldist líkt tíðarfar fram að sauðburði er fyrirsjáanlegur stórskaði á búsmalanum. Fénaðarhöld mega til þessa heita góð og eins heilsufar fólks.
[Dalasýslu 28. apríl] Nú er drottinn búinn að gleðja oss hér með blessuðum sumarbata, og hefir hér verið hagstæðasta veðrátta og reglulegt hlýviðri (5°R í nótt [7,5°C]) síðan um helgina. Allstaðar komnir dálitlir hagar og koma óðum, og haldist þetta nokkurn tíma, snýst vetrarharkan upp í gróður.
[Strandasýslu 25. apríl] Allt fram á þennan dag hafa haldist norðanfannkomur með hagleysi fyrir allar skepnur, svo allur þorri manna er orðinn heylaus, nema hvað sumir treina meir og minna fyrir kýr. Fjöldi bænda er búinn að reka fé sitt og hesta á haga í aðrar sveitir, og getur það orðið að góðu fyrir þann fénað, sem ekki er orðinn of mjög aðþrengdur, áður en rekið var. Hafís er hér að hrekjast út og inn um Húnaflóa og fyrir norðan land, enda er veðráttan alveg samkvæm því ferðalagi hans.
[Mjóafirði - ódagsett] Í 2. viku þorra [um mánaðamót janúar/febrúar] lagði hér fjörðinn út fyrir öll nes. Þennan lagís mátti ganga um innri hlut fjarðarins, en ytri hlutinn þótti ótryggur. Hingað og þangað hafa bjarndýr gengið á land, og komist upp í hérað. Hér (nálægt á Brekku) voru 2 drepin, vannst annað skjótt, því það var skotið með kúlu, en með hitt gekk það öllu lakar. Við komum sunnan frá Reykjum, og brýndum bátnum í fjörunni, urðum við þá varir við þenna óboðna gest í hjallinum fremra. Svo var orðið skuggsýnt, að eigi sást til að miða á dýrið inn í hjallinn. En á meðan að við vorum á reiki kringum hjallinn, rak björninn hausinn út um vindaugað, var þá þegar skotið á hann, kom skotið í bóginn, og særðist hann töluvert. Hljóp hann þá út úr hjallinum og inn með sjó, og Halldór Hjálmarsson bóndans á Brekku á eftir, Komst hann að hlið við björninn, sem þegar er hann sá, að maðurinn var eigi nema einn, reisti sig upp og bjó sig til að stökkva á hann. Halldór skaut þá í hóstið á honum, með stórum selahöglum, hafði skotið þá verkun, að hann datt aftur á bak, og veltist í sjóinn, og synti undan landi. Við fórum þá á bát á eftir honum, og skutum hlaðstokk úr járni gegnum hálsinn á honum, svo digrari endinn sat í barkanum eftir; en hann var eigi dauður að heldur. Voru þá skotfærin þrotin, en við höfðum skarexi, og með henni klufum við hausinn, og þá var hann frá. [Enn ítarlegri lýsing á þessum aðförum er í Norðanfara 29.júní].
Norðanfari birti þann 16.maí bréf rituð í apríl:
[Beruneshrepp í Suðurmúlasýslu, 11. og 26.apríl]: Veturinn var hér ærið harður frá jólum og fram yfir miðjan mars, úr því fór að koma upp jörð, svo alveg varð rautt, og haldist þetta er vonandi að allur þorri manna haldi skepnum sínum, útlitið áður þessi umskipti urðu var hörmulegt. Ég verð að geta þess, sem nýlundu, að í vetur í miklu stórhríðinni 12.janúar, var hér svo mikið norðanveður að elstu menn muna eigi slíkt með 16° frosti á Reaumur [-20°C]. Þá rak Hamarsfjörð fullan með lagís, en þegar því slotaði var hann allur gengur, og fannst þá á ísnum fiskurinn í hrúgum, samanfrosinn niður í krapinu, sumir höfðu legið flatir, aðrir stóðu á höfði, og sumir með hausinn rétt upp úr ísnum; þetta héldu menn að komið hefði til af því, að sjórótið varð svo mikið, að það hafi náð til botns, en fjörðurinn grunnur og fiskinum fleygt upp, og hann þá strax frosið fastur; einnig fundust nokkrir æðarfuglar frosnir niður á löppunum og nokkuð af silungi frosið í ísnum. 1. dag apríl næstliðinn kom verslunarskipið Jenny á Djúpavog eftir 16 daga ferð frá Kaupmannahöfn. Það hafði sætt miklum stormum og heljum á leiðinni hingað til lands. ... Hjálmar, sem fara á til Húsavíkur, kom hér 7. apríl, og varð vegna íssins að snúa aftur við Langanes. 18. þ.m kom Harriet einnig á Djúpavog, eftir að hafa gjört margar tilraunir til þess að komast inn á Vopnafjörð, er stafaði af látlausum dimmviðris stormum og hafís, var hún þá (þann 18.) búin að vera tæpar 7 vikur í sjó og oft á þeim tíma komist í mikinn háska innanum ísinn. 24.[apríl] fyllti Berufjörð með hafís, og hafði hann ekki komið hér fyrri á umliðnum vetri.
[Norðfirði 26.apríl] Næstliðið sumar [1873] var hér fremur góð heyskapartíð, en mjög graslítið, einkum í úthaga en tún í meðallagi sprottin. Með Mikaelismessu [29.september] brá til illviðra, kaupstaðarferðir urðu því mjög erfiðar, einkum yfir fjallvegi. 10.október lagði hér alveg að með snjókomu og stórviðrum til þess á Marteinsmessu [11.nóvember] að þá komu þíður og góðviðri í hálfan mánuð, en þá lagði aftur að með snjókomu og hörkum; bloti kom að sönnu á jólaföstunni en þá,fram um sólstöður kom, hófust að nýju snjókomur með hvassviðrum og miklum frostum. Viku fyrir þorra var hafíshroði kominn hér að Austurlandi, lagði þá alla firði. Í fyrstu viku gón hlánaði víðast vel hér um sveitir. Allur mars mátti fremur heita góðviðrasamur, nema dag og dag áhlaupaveður. Með apríl lagði enn að nýju að með illviðrum og grófum snjóþyngslum, og þann 18.[apríl] fylltust hér allir firðir með hafís, svo til vandræða horfðist með heybjörgina, og lítur mjög illa út, komi ekki snöggur bati; ...
[Þ.14.apríl] kom skip kaupmanns C. D. Tuliniusar á Eskifjörð, það hafði lagt af stað 12 mars frá Kaupmannahöfn.
Norðanfari birti 23.maí bréf dagsett í apríl:
[Sléttuhlíð í Skagafirði 22.apríl]: Harðneskja tíðarinnar helst jafnt og þétt og hretin eru iðin hvert ofan í annað. Í fyrradag byrjaði eitt með bleytuhríð, er skemmdi mjög á jörð, frosthríð var í gær svo engin skepna sá út, en í dag er að birta. Enginn ís hefir komið inn í þessu skoti nú hingað til. Margir eru á nástrái með hey fyrir kindur og tæpir fyrir kýr, ... Um fyrri helgi réru þrennir úr Sléttuhlíð í fyrsta sinni í vetur, og komu að aftur að kveldi hins 13. með besta afla, ... Ætluðu þeir að róa strax um hæl á þriðjudaginn hinn 14. en þá rauk hann í einn ofsabylinn, er hrakti Sæmund á Mói og Björn á Stórholti norður í Fjörðu, mölvaði Björn þar skip sitt nokkuð; en til Jóns á Höfða hefir eigi spurst síðan, reri hann með 8 á hinn 13. [apríl].
[Húnavatnssýslu 30.apríl, nokkuð stytt hér]: [Nú] getur hver með hressum huga og fagnaðarsælli von óskað hver öðrum góðs og gleðilegs sumars, sökum hinnar dýrmætu sumargjafar er Drottinn hefur nú öllum veitt með því mesta blíðviðri nú í 36 daga er nálega svo undrum sætir hefur brætt hinn beinharða og feikimikla jökulgadd án þess þó að skemmdir hafi orðið af hinum mikla vatnsgangi eða skriðuhlaupum, það ég til veit, því rigning hefur verið mjög lítil. Menn geta því verið glaðari, sem að þessu sinni hefur verið þreytt stríð við einhvern hinn harðasta vetur er þessi öld hefur haft að færa, sjálfsagt, ef ekki eins, þá samt næstan vetrinum 1802, en þó fáir skorið í vetur og hvergi orðið fellir eða útlit til hans, svo mér sé kunnugt, nema máski í Miðfirði. Á nokkrum stöðum hefur verið með öllu jarðlaust í 27 vikur, enda voru menn á þeim stöðum og víðar mjög að þrotum komnir, og margir búnir að reka fénað sinn í snjóléttari sveitir á haga og hjúkrun. ... Vakalaus helluís var stöðugt fram um sumarmál af Vatnsnesi vestur til Bitrufjarðar langt norður fyrir Heggstaðanes. Allir firðir í Strandasýslu kringum Breiðafjörð og víðar voru fullir af lagís, og það enda útum eyjar (Breiðafjarðareyjar) ... Svo hafa mikil ísalög verið á vetri þessum að menn muna ekki þvílíkt, og að því mér er kunnugt hvorki sunnanlands né norðan ... Mér þætti því vel hlíða, að árstíða ritendur vorir einkenndu vetur þennan með því að kalla hann svellavetur hinn mikla. ... Eins og kunnugt er, lónaði hafísinn hér frá landi á góunni, en þó ekki svo að strandskip þau er hér hafa legið í vetur á Skagastrandarhöfn og endurbætt voru, sæju sér fært að leggja út, þar til 28.[mars] að skipið Jason" eign verslunarstjóranna J. Holm og C.Seristius létti akkerum, ætla menn þó að það muni, máski allt til þessa hafa verið að hrekjast hér fyrir norðan land. Hitt skipið Elfríður" lagði út 27. [apríl].
Tíminn segir frá því þann 6.maí að jarðskjálfta hafi orðið vart 29.apríl, kl.10 1/4.
Maí: Bærileg tíð.
Þjóðólfur fer yfir tíð og síðan mannskaða í maípistlum. Rétt að taka fram að ekki eru hér allir mannskaðar fram komnir:
[4.] Með sumrinu hefir veðráttan hingað til farið dagbatnandi, og segja póstar hið sama hvervetna frá. Þó er það nú fyrst, að gjöra má ráð fyrir að hagar séu upp komnir í hinum hörðustu héruðum. Almennur fellir hefir hvergi frá spurst enn í dag, og vona menn að enn fari betur en áhorfðist. Hefir vetur þessi 1874 reynst einn meðal hinna harðari, er menn muna, og hefði verið talinn annálsverður á fyrri dögum. þola menn miklu harðari vetra nú en fyrir 23 mannsöldrum, og er það bæði skynsamari meðferð sauðfjárins að þakka, og einkum korneldi, þar sem í korn næst.
[30.] Veðrátta þennan maímánuð mestallan hin besta og blíðasta og fiskiafli góður. Í sjó hafa týnst 26 manns af 9 bátum og skipum; þar af 21 af Suðurlandi, en 5 af Vesturlandi. Að norðan og austan höfum vér ekki heyrt skipskaða [þeir urðu þó]. Úti hafa orðið 78 menn, allir á norðausturfjöllum Íslands. Í ám hafa látist 5 manns, 3 fórust í vötnunum í Árnessýslu, í fjallréttum, ... Tveir menn hafa horfið, eða týnt sér.
Norðanfari lýsir tíð í pistli 16.maí:
Síðan seinast, er vér lýstum veðuráttunni, hafa verið þurrviðri og hreinviðri og oftar meira og minna frost á nóttunni svo lítið tekur upp þar sem gaddurinn er. Fyrstu dagana af [maí] var farið að votta hér og hvar fyrir gróðri, en síðan hefur honum lítið farið fram, og jafnvel að hann sé að deyja aftur út. Frá því á dögunum og allt að þessu hefur hér verið upp um ísinn meiri og minni reytingsafli af fiski. [Þ. 4.maí] hafði Erama Arvigne", komið hingað inn að Hrísey og litlu átur Hertha til Skagastrandar, höfðu þau orðið fyrir tæpt 3 vikum síðan, að hverfa frá ísnum fyrir Austfjörðum og sigla hér vestur og norður fyrir land. ... Fyrir uppstigningardaginn 14.[maí] höfðu flest eða öll hákarlaþilskipin komið heim úr fyrstu leguferð sinni í vor, og opnu skipin úr annarri eða 3. ferð sinni, með meiri og minni afla, ... nokkrir af skipverjum þeirra, er vér höfum átt tal við, segja, að nú megi kallast íslaust það augað hefði eygt af dýpstu hákarlamiðum til hafs, frá Hornströndum að vestan og austur að Rauðanúp á Melrakkasléttu, eða jafnvel að Langanesi. Eigi að síður situr nú enn haft af hafísnum hér inn á firði landa á millum, frá Gæseyri, og inn að Oddeyri, svo ekkert skip kemst inn eða út, sem fjörðurinn væri víggirtur.
Norðanfari segir af tíð í pistli þann 23.maí:
Dagana síðan 16.[maí], að næsta blað hér á undan kom út, hefur veðuráttan verið meira suðlæg og blíðari en áður og ekkert frost á nóttunni, svo mikið hefur tekið upp og gróðrinum talsvert farið fram, enda hafa smáúrkomur verið stöku sinnum. ... [Þ. 18.maí] kvaddi hafísinn hér loksins, líklegast fyrir fullt og allt í þetta skipti, hafði hann dvalið hér á firðinum í fullar 18 vikur, svo sjóferðirnar á innfirðinum voru allan þann tíma tepptar.
Víkverji lýsir tíð í maí:
[21.] Eftir nærfellt 4. vikna þerri, oft með frosti um nætur, kom hér besta rigning aðfaranóttina mánudags 18. [maí] og hefir síðan verið sannkallað grasveður, hæg rigning og þýð sumargola. Það er vonandi að þetta veður hafi náð norður; eftir því sem fréttist í fyrradag ofan úr Borgarfirði eftir mönnum, er þá voru nýkomnir norðan af Holtavörðuheiði, hafði þíðan sem kom með sumri gert þar lítið að verkum. Hrútafjörður hafði verið riðinn á ís, og á Holtavörðuheiði hafði allt verið jökull og einungis einstakir auðir blettir.
[28.] Í nótt gjörðist norðanátt en þangað til höfðu verið suðlægir vindar síðan frostin hættu. Í gær gaf eigi á sjó en annars hefir verið róið á virkum dögum alla síðastliðna viku og fiskað mæta vel, en flestir kaupmenn aðrir en norska verslunin eru sagðir saltlausir.
Þann 30.júní birti Þjóðólfur bréf að vestan, virðist ritað 9. til 11.maí - en staðar er ekki getið:
Næstliðinn vetur var hér vestra, sem hvervetna annarstaðar á landinu, einhver hinn allraharðasti vetur, sem komið hefir yfir oss a þessari öld (veturinn 1802 var máski jafnharður). Voru hér ísalögin og frostgrimmdin fram úr öllu hófi, mest í janúar; lagði álnarþykkan ís yfir mikinn hluta Breiðafjarðar, svo ríða mátti og renna beint í Svefneyjar af nesjum ofan í samfleyttar ll vikur. Á þorranum komst jagtskip inn á Flateyjarhöfn með nauðsynjavörur, en áður var vöruskortur mikill. Fóru menn þá hópum saman með hesta eða sleða til Svefneyjar og lánuðu þar menn og skip til Flateyjar fram og aftur.
Víkverji birt þann 4.júní tvö bréf af Suðurlandi, dagsett í maí:
[Síðunni 8. maí]: Síðan í síðustu viku þorra, og fram að miðgóu voru hér ýmist blotar, og frostlitlir austanstormar, eða þá útsynningséljagangur, svo aldrei komu svo upp jarðir, að dregið yrði hey við fénað, en þó gjörðu það sumir um of, vegna heyhræðslu, en sér til stórskaða. Hinn 8. mars hljóp upp á með grimmdar norðanstormi og hörkufrosti, en þó í snjólausu, og lagði þá hvert vatn, og það sumt sem ekki frýs nema í aftökum. Ekki get ég sagt, hvað frostið varð þá mörg stig, því hitamælir minn var þá fyrir skömmu brotinn. Síðan hafa hér gengið sífelldir umhleypingar, og austannæðingar, svo vel flestir eru með öllu búnir að gefa upp hey sín, en margir orðnir heylausir. Það var fyrst þann 13. þ.m. [apríl?], að hér kom verulega hlýtt veður, og það helst nú enn þá við, og vonum við, að nú loksins sé sumarið í garð gengið, enda er þessa nú full þörf orðin. Yfir höfuð vona ég, að hér í Kleifahrepp verði ekki fénaðarfellir svo teljandi sé; hjá einstöku manni hefir hrokkið úr ám og gemsum, en ekkert að mun, en mjög víða er allur fénaður fremur magur og langdreginn; en ef þessi veðurblíða helst við, þá rétta allar skepnur við, sem ekki eru of vesælar til að þola gróðurinn. ... Hér á milli sanda (Mýrdalssands- og Skeiðarársands) hefir aldrei verið komið á sjó í vetur né vor, en í Öræfum og Hornafirði heyri ég sagt aflavart, einkum í Suðursveitinni. Tíðarfar þar líkt og hér, nema nokkru betra í Öræfum og Nesjum.
[Rangárþingi 5.maí] Hinn síðastliðni vetur hefir yfir höfuð að tala verið einhver inn stormsamasti og umhleypingasamasti, er elstu menn muna eftir hér eystra. Veðráttu brá hér til kalsa og umhleypings þegar með septembermánuði í sumar er leið, og helst hin sama kalsa- og hrakningsveðrátta með tíðum stormum, frá þeim tíma og þangað til hin miklu jarðbönn og harðindi byrjuðu með hörðum gaddbyl, er hér gjörði inn 21. desember. Hörkur þessar stóðu yfir með fullkomnu bjargarbanni fyrir allar skepnur þangað til hér kom fyrstur bloti 25. janúar, og helst síðan á víxl blotar eða snjóhroði af útsuðri þangað til 8. febrúar, að gjörði veður nokkuð mýkra, og mátti þá heita komnir viðunandi hagar víðast hvar. Það sem eftir var vetrar, voru stöðugir umhleypingar og oftar stormar af hafi. Með sumrinu brá veðri fullkomlega til batnaðar; fyrstu daga sumarsins var að vísu austanstormur, en hvorki fylgdi honum mikill kuldi né úrferð. Nú hefir um vikutíma verið spakt veður og heitt, gróður er hér í góðu lagi og horfir heldur vel með tíðarfar ef eigi spillist. Sjógæftir hafa, eins og vænta má í þessari veðráttu, mátt heita engar. Sjómenn, er héðan úr sveitunum róa í Vestmanneyjum, komust þangað fyrst í norðanveðri hörðu, er hér gjörði 8. til 11. mars, og var þetta hið fyrsta hlér á vetrinum, var þá róið í Landeyjum, en aflalaust. Síðan tók aftur fyrir gæftir þangað til um sumarmál, að vermenn komu aftur úr Vestmannaeyjum, höfðu þeir aflað lítið ..., og gæftir hjá þeim verið mjög stirðar. Fyrir Söndum varð alls 2 sinnum komist á sjó liðinn vetur og var aflalaust í hvorttveggja skipti, í gær mun almenningur hafa róið bæði í Landeyjum og undir Eyjafjöllum, en undir Eyjafjöllum varð að eins lítið vart, hæst er þar nefnt 9 í hlut af samtíningsfiski. Af fiski- og gæftaleysi þessu er, eins og við er að búast, mjög hart manna á milli, því hér er margur sem treystir björg af sjó síðari hluta vetrar og á vorin, það mun því víst eigi of hermt, að almenningur manna hafi litla aðra björg sér til viðurværis, en mjólkina úr kúnum. Fénaðarhöld mega heldur heita í lakara lagi, ber það helst til, að haustið lagðist þegar með réttum" svo hart á, með kulda og umhleyping, svo að ær tóku engum haustbata, og voru því horaðar undir veturinn, og allur fénaður með rýrasta móti. Nú munu flestir hafa gefið upp öll hey sín og sumstaðar var farið að brydda á hordauða, þó munu óvíða mikil brögð að því.
Júní: Kalt með köflum, sérstaklega á hafísslóðum, en skárri kaflar á milli.
Norðanfari birti 29.júní bréf dagsett á Seyðisfirði 9.júní (mikið stytt hér):
Veðuráttan hefur verið indæl fyrirfarandi, en loftkuldi er mikill; á laugardagsnóttina 6.[júní] lagði hér sjóinn töluvert og nú í morgun hefur verið snjókoma ofan í byggð.
Þjóðólfur segir frá júnítíð í örstuttu máli:
[11.] Tíðarfar nú um hríð kalsa- og votviðrasamt; krapi til fjalla, svo snjóað hefir nokkrar nætur í miðja Esju. Þó má vor þetta kallast gott hér á Suðurlandi. Fiskiafli hinn besti.
[23.] Veðrátta óþurrkasöm mjög og grasvöxtur enn sárlítill; fiskiafli góður, og sigling fjörleg, en verðlag afarhátt á útlendri vöru.
Tíminn birti þann 20.október kafla úr bréfi sem ritað var í Eyjafirði 15.júní:
Veturinn og vorið fram á sumarmál var hér kringum Eyjafjörð í þyngra lagi, en víðar verri, engir töpuðu samt til muna skepnum sínum, en ekki er ég því samþykkur að líkja honum við veturinn 1802, ég á uppteiknun yfir veðráttufar þann vetur og vor, þá mátti ganga á hafís í fardögum yfir Eyjafjörð milli Glæsibæjar og Svalbarðsstrandar; en í vor leysti ísinn af firðinum í 4. viku sumars eftir 18 vikna legu, og síðan á sumarmálum hefur verið hagfelld tíð, einir 5 kuldadagar, aldrei snjór; en þá 1802, kom aldrei bati allt vorið, öðruvísi en sólbráð á daginn en frost um nætur; það er sjálfsagt að í vetur var einhver hinn kaldasti vetur, 20° frost mest.
Júlí: Skiptust á hlýir dagar og kaldir. Kyrkingur í grasvexti.
Þorleifur í Hvammi segir að 8.júlí hafi snjóað að nóttu niður í miðjar hlíðar og daginn eftir voru krapakskúrir um kvöldið.
Norðanfari birti bréf þann 31.júlí:
[Fáskrúðsfirði 8.júlí]: Þjóðhátíðin var haldin hér í héraðinu 2. [júlí] og hafði þar mikið gengið á, en ekki gekk minna á fyrir náttúrunni, því að mikill snjór kom, svo að sumstaðar hafði fé fennt á fjöllum.
[Breiðdal 22.júlí]: Héðan er fátt af fréttum, nema að tíðin hefur oftar verið í vor bæði þurrkasöm og heit 20 stig mest á R [25°C], þess á millum kuldi og frost á nóttunni, og með byrjun [júlí] snjóaði ofan í mið fjöll. Grasvöxtur er hér yfir höfuð með langversta móti, vegna þurrviðranna, en nú seinustu dagana hafa verið úrkomur og hlýviðri.
Norðanfari birti þann 31.ágúst bréf úr Húnavatnssýslu, dagsett þann 14.júlí:
Síðari hluta [júní] og fram til þess 7. [júlí], voru stöðugir þurrkar, stundum norðan- og norðaustanstormar og oft talsvert næturfrost. Síðan norðan kalsavætur og talsverð snjókoma þann 10. en nú þurrt og fremur hlýtt í 4 daga, grasvexti hefur því lítið farið fram, einkum á túnum og harðvelli og sustabar farið að brenna af túnum; það lítur því út að töður verði með rýrara móti, en raklendar engjar líta fremur vel út.
Tíminn birtir fréttir að vestan og austan þann 23.júlí:
[Að vestan] Þann 4. júní gjörði ofsaveður á sunnan upp úr hægviðri, þá fórst skip í Ólafsvik með 6 mönnum á; að kveldi hins 7. sama mánaðar, drukknaði ungur og efnilegur maður í Búðará. [Af Reyðarfirði 3.júlí] Sumarið, sem af er, hefur oftast verið þurrt og kalt, en þó sterkir hitar á milli, svo grasvöxtur er heldur lítill, einkum á valllendi og túnum, sem einnig eru kalin til stórskemmda. Afli er kominn góður í sumum veiðistöðum af smáfiski og lúðu, einnig hafa hákarlaskipin aflað vel.
Norðanfari segir af tíð í pistli þann 18.júlí:
Það af er [júlí] hefur veðuráttan, eins og oftast að undanförnu í vor, verið hér nyrðra fremur þurr og köld með hafátt og stundum frosti á nóttum, jörð er því víða graslítil, kalin og tún brunnin; hér og hvar hefir líka orðið vart við grasmaðk helst á harðvelli utan túns. Fyrst eftir fráfærurnar hafði málnyta verið furðu góð, en eftir fáa daga kólnaði og frostin urðu svo mikil fram til dala og fjalla, að polla lagði, og þar sem lygnt var á lækjum og ám; minnkaði málnyta þá að þriðjungi og smjör varð þó að sínu leyti enn minna. Vegna þurrviðranna og kuldanna hefir fjallagrasatekt í vor og sumar eigi orðið stunduð sem undanfarin ár, sem eykur bjargarskortinn ...
Ágúst: Tíð almennt ekki talin óhagstæð þó kalt hafi verið.
Þorleifur í Hvammi segir frá hélu að nóttu þann 5.ágúst og þann 24. var mikið mistur á suðurlofti allt til kvölds.
Í Þjóðólfi eru smáfréttir af veðri við konungskomuna:
[Þ.4.ágúst, úr grein um konungskomuna 30.júlí]: Veður var skúrasamt, en tók nú að batna, og stóð regnbogi mikill beint yfir höfninni, og þótti oss all-fagurt.
[12.ágúst] Þjóðhátíð í Reykjavík 2.ágúst. Þennan minnisstæða dag var svalt íslenskt sumarveður, sólbjart mikinn hluta dags, og fór batnandi með kveldi. ... Kl. 5 hafði múgur manns safnast saman á Austurvelli, og var síðan gengið upp á hinn fyrirbúna hátíðarstað bæarins, Öskjuhlíð. Var þar rudd slétta mikil, tjöld tvö sett og sölubirgi tvö, og ræðustóll, en stengur í kring með dönskum flöggum á. Norðan gola var, og fylgdi rykfok mikið, og þótti mörgum sem heppilegra hefði verið að halda þennan mikla mannfagnað á túnum niðri. ... [um brottför konungs 11. ágúst]: Veður var bjart og hýrt.
Ísafold birti þann 19.september frétt af Akranesi sem dagsett er þann 20.ágúst:
Tíðarfar hefur verið hér gott í sumar það sem af er, grasvöxtur í lakara meðallagi á túnum, á úthaga í góðu meðallagi; nýting hin ágætasta til þessa dags. Síðasta vetrarvertíð var hér einhver hin besta er elstu menn muna, þótt vindasöm væri; þess vegna varð og afli nokkuð misjafn, af því fiskur gekk eigi á grunn til neinna muna; hlutir urðu frá 2600 af vænum þorski á færi. Auk þess voru þeir, er þorskanet áttu, búnir að fá frá 50150 í hlut af netfiski, áður en færafiskur fór að fást, og höfðu þó flestir þeirra helmingaskipti. Vorvertíðin var einnig góð, og aflaðist á henni í þetta sinn mestmegnis þorskur og stútungur, og mun óhætt að telja meðalhlut á henni um 250. Síðan um Jónsmessu hafa og nokkrir menn aflað mæta-vel, og munu sumir þeirra vera búnir að fá f hlut 4 skippund af söltuðum þorski; en af því svo langt hefur þurft að sækja fisk þenna, nálægt 6 vikur sjóar eða meir, þó hafa margir orðið útundan, og eigi náð í hann; gjörir það og samtakaleysi og deyfð, að fleiri hafa eigi sameinað sig, að róa þangað hinum stærri skipum, til að ná í þessa miklu björg. Hér hefur því á þessu ári borist mikill auður á land upp, úr djúpi hafsins, fyrir þá, sem kunna með að fara; hinum verður aldrei neitt úr neinu, það hverfur eins fljótt og það kemur.
Þjóðólfur segir lauslega af tíð 22. ágúst:
Síðan sláttur byrjaði, hefir veðrátta mátt heita kalsa- og umhleypingafull. Grasvöxtur hvervetna undir meðallagi; nýting misjöfn. Hafísar ávallt nærri landi.
Norðanfari segir frá tíð þann 31.ágúst:
[Þ. 21.ágúst] var hér mesta stórviður sunnan. Brunnu þá um daginn að kalla öll bæjarhús á Gröf í Kaupangssveit til kaldra kola, ásamt nokkru af matvælum og innanstokksmunum, og utanbæjar fjárhús og yfir 30 hestar af töðu. ... Allt að þessum tíma hefur heyskapartíðin hér nyrðra verið hin hagstæðasta svo nálega hver heybaggi, sem undir þak er kominn, er með bestu verkun. Víða hafði töðufallið orðið með minna móti, enda hefur almenn umkvörtun verið um að tún væru brunnin eða kalin. ... Í næstliðinni viku, eða um þann 20. [ágúst] komu öll hákarlaskipin, er hér höfðu úti verið, úr sinni seinustu ferð og að kalla alveg aflalaus. Svipverjar þeirra segja enn mikinn hafís norðan fyrir landi, og allt upp á venjuleg hákarlamið og að eins 6 mílur frá honum upp að Hornströndum.
Ísafold birti þann 1.október bréf úr Mývatnssveit, dagsett 4.september:
Tíðin hefir í sumar allajafna verið köld og þurr, og oft hefur hér snjóað í fjöll ofan undir byggð. Grasbrestur var mikill á túnum og þurrengi, en flæðiengi spratt í meðallagi og betur. Samt hefur furðanlega reyst saman af heyjum, sökum ágætrar nýtingar, svo ég hygg að heyafli verði í meðallagi og sumstaðar betur.
Norðanfari birtir bréf þann 30.september (mikið stytt hér):
[Húnavatnssýslu 29.ágúst] Í sumar hefur mátt heita hér besta og hagkvæmasta tíð, og hey náðst hingað til með góðri nýtingu, grasvöxtur á túnum, náði allt að því meðallagi.
[Suður-Múlasýslu 5.september] Tíðin hefur verið oftar köld og þurr í sumar þangað til um höfuðdag; þá rigndi nokkra daga. Nú er aftur þurrkur. Grasbrestur hefur verið hér mikill, einkum á túnum, svo vantað hefur 1/3 til 1/2 við meðalár. Tún gjörðust of þurr og brunnu eða hálfbrunnu, sama var með mýrar að þær gerðust of þurrar, nema votengi og spratt það sumstaðar vel. Gras fór að sölna hér fyrir miðjan ágúst af næturfrostum. Þá snjóaði oft í fjöll og var stundum éljatíð, lítil úrkoma í byggð, en meiri á fjöllum. Heyföng eru lítil víðast hvar enn orðin og verða lítil hér eftir, því grasið sem var lítið, er orðið hálfvisið.
[Hnappadalssýslu, 24.ágúst] Veðuráttan má kallast góð, þó hún sé köld, er menn kenna hafísnum. Tún hafa verið hér talsvert miður sprottin en í meðallagi, og vantar 1/3 upp á í góðu ári, nýting aftur hin besta bæði á töðu og útheyi. Grasvöxtur á vallendi er rýr, en á mýrum máski í góðu meðallagi.
[Húnavatnssýslu 11. september] Mjög hefur grasvöxtur orðið misjafn í sumar, því kalla má að lítið hafi sprottið síðan í [júnílok]. Tíðin hefir verið mjög köld og einatt mikil næturfrost, en þurrkar góðir, svo nýting hefur orðið hin besta. Tún voru almennt í lakasta lagi og sömuleiðis engjar, sér í lagi harðvelli; flæðiengi hafa víðast verið rétt góð. Fiskafli oftast lítill og gæftir tregar.
September: Allgóð tíð framan af, en síðan gerði mikil illviðri, sérstaklega undir lok mánaðarins.
Þorleifur í Hvammi í Dölum segir að 14.september hafi snjóað á fjöll og jókst ofan í byggðina síðdegis. Daginn eftir segir hann snjóhrafl áveðra í sjó niður.
Norðanfari segir stuttlega þann 14.september:
Það má kalla, að veðuráttan hér á Norðurlandi, sé hin sama og hún oftast hefir verið, þurr og köld, og heyskapar tíðin allajafna hin æskilegasta.
Þjóðólfur segir stuttlega þann 14.september:
Veðrátta helst enn sviplík og verið hefir í allt sumar, kaldranaleg, óstillt, en ekki óhagstæð til nýtingar. Sumstaðar hér nærri sjávarsíðunni eru menn þegar hættir heyskap, þar eð engjar enda í meðal-grasári endast mörgum ekki lengur en til höfuðdags. ... Úr Strandasýslu: Hin mestu hafísrek í allt sumar norður í höfunum, og stundum ekki fjærri Horni.
Ísafold segir þann 19.september:
Snjór. Aðfaranótt þriðjudags 15.[september] snjóaði ofan í byggð um allar nærsveitirnar hér við Reykjavík, og gerði kaffenni á fjöllum. Síðan hefur veður verið nokkuð kalt, talsvert frost á hverri nóttu.
Norðanfari birt 26.nóvember bréf rituð í september:
[Vatnsfirði 30.september] Sumar hér kalt og jafnast þurrt fram að réttum. Grasvöxtur í minna lagi einkum á hörðum túnum, en nýting fremur hagstæð. Margir hafa því heyjað allsæmilega. Nú virðist haustið ætla að byrja enn hrikalegar en í fyrra. Næstliðinn laugardag [26.] byrjaði norðangarður, og síðan á sunnudag má heita að hafi verið upprofslaust, með ofsaveðri, einkum mánudaginn, fannkomu og töluverðu frosti, svo snemma á tíma, og er enn ekki afléttilegt. Kýr eru alkomnar inn, fé sumt ófundið og fennt í afréttum, hey úti og óþakin, hús í óstandi og opin, og eldiviður óheimfluttur.
[Landeyjum í Rangárvallasýslu 18. september] Héðan eru fá fögur tíðindi að segja. Vertíðarafli varð hartnær enginn, vorafli næsta lítill, og heyskapur er bæði vegna grasbrests og vætu með rýrara móti á flestum bæjum hér í Landeyjum.
Ísafold birti þann 17.október bréf af Skógaströnd, dagsett 1.október:
Veðrátta hefir síðari hlut ágústmánaðar, og framan af september verið hagkvæm til heyskapar, austanlandsynningar með tilgönguvindum og norðanuppþotum og nægum þerri. Hinn síðari hluta mánaðarins ókyrrðist veðráttufarið, var þá ýmist norðanrokviðri með snjógangi (þann 14., 19., 27.30.), eða þá sunnanofviðri (þann 24.), eða umhleypingar af ýmsum áttum. Það tók því fyrir heyskap þann 20., og kýr fóru almennt á gjöf þann 28. Fyrirboðar vetrarins, sem í hönd fer, eru svipaðir þeim, sem voru í fyrra og hitteðfyrra, því meðal annars eru nú, eins og þá, öll fjöll og víða hvar byggðir snæþaktar. ... Þetta útlíðandi sumar verður víst eitt með hinum köldustu, en þó, þá alls er gætt, eitt með hinum hagkvæmari. ... Í dag fréttist úr Dölunum, að stórfannir séu þar komnar til fjalla og mikil vandkvæði á að ná fénaði úr fönnum. Enn fremur eru hin mestu líkindi til, að í þessum langvinna rokgarði með stórflóði hafi mjög spillst útselskópaveiðin, það er að skilja, kóparnir hrakist ofan úr bólum sínum á skerjunum, og flækst hingað og þangað, því þeir reka eins og kefli fyrir vindi, meðan þeir eru í snoðinu.
Þann 29. október lýsir Ísafold fjársköðum og hrakningum í septemberlok:
Fjárskaðar hafa orðið allmiklir víða í illviðrum þeim, sem gengið hafa lengst af, það sem af er haustinu. Mánudaginn í 23. viku sumars (28. september) lögðu 12 menn af stað með 240 kinda rekstur úr Reykholtsdal í Borgarfirði suður Okleið til Reykjavíkur. Á miðju fjallinu gerði á þá ofviðri svo mikið, með myrkviðrisfjúki, að þeir urðu að yfirgefa þar féð og forða sér norður af aftur til byggða. Af rekstri þessum fundust síðar 7080 kindur lifandi, en 40 dauðar, í fönn eða rotaðar. Hitt er ófundið enn, og talið af allt saman. Í sama bylnum varð Eggert bóndi Eggertsson á Skógtjörn á Álftanesi til á Kaldadal með 200 kinda rekstur norðan úr Húnavatnssýslu, og missti fjöldann af því út í veðrið. Samt hefir það fundist flestallt aftur. Að vestan hefir frést, að Indriði Gíslason, fyrrum alþingismaður á Hvoli, hafi misst á annað hundrað fjár í fönn um réttirnar í haust.
Október: Óstöðugt og umhleypingasamt tíðarfar. Kalt.
Norðanfari segir af illviðrum í pistli þann 24.október:
Frá því 28.[september] og til 5.[október] linnti hér nyrðra ekki landnorðan stórrigning og síðan krapa- og frosthríðum, svo varla var út úr húsum farandi. Víða í byggðum, einkum til sumra dala, kom mikil fönn og til fjalla nær því ókleyf, svo fé fennti, t.d. á einum bæ í Skíðadal yfir 40 fjár; á nokkrum stöðum lentu kindur í snjóflóðum, eða hrakti í sjó eða vötn, þó hvergi eins margt frá einum bæ, sem á Vakursstöðum í Hallárdal í Húnavatnssýslu, hvar 60 fjár hrakti til dauðs í ána. Í illviðrum þessum varð veðrið fjarskalegt, en þó hvergi að það gerði jafnmikið tjón og á bænum Ásum í Svínavatnshrepp, hvar sagt er að fokið hafi um 200 hestar af útheyi og allur eldiviður; einnig fauk þar smiðja, sem var með vallgrónu þaki. Í hinni sömu stórhríð færðist kirkjan á Spákonufelli á Skagaströnd alveg af grundvelli sínum og suður að kirkjugarðinum. Á Hólanesi spennti veðrið inn torfvegg, sem var þar áveðurs undir húsi einu sem fyrir þetta féll niður. Þá sleit og upp af Skagastrandarhöfn jagtina Ellen", sem stórkaupmaður F.Guðmann á, er að sögn hefði rekið þar upp í kletta, ef skipverjar eigi hefðu tekið það ráð að höggva mastrið um koll, því þá stöðvaðist skipið á rekinu. Aðfaranóttina hinn 2.[október] er sagt að eitt af skipum Borðeyrarfélagsins (Elfríður) hafi í stórhríðinni er þá var, rekið á land nálægt Oddstöðum á Melrakkasléttu, svo botninn liðaðist undan því, en menn allir komist af; nokkrum tunnum með korni í, er voru í skipinu, var búið að bjarga þá seinast fréttist hingað og hinn setti sýslumaður kand. Skapti Jósepsson kominn norður að ráðstafa strandinu og bjóða það upp. Það hefur og spurst hingað, að á Sauðanesi á Langanesi, hafi fyrir illviðrin brunnið framhýsi, hvar geymt var mikið af æðardún, ull og kornmat, en þó nokkru af því orðið bjargað, en skaðinn eigi að síður metinn 3000 rd.
Árdegis 22.[október] kom austanpóstur Sigbjörn Sigurðsson hingað að austan; hann hafði farið frá Djúpavogi 10.[október] og fengið erfiða færð vegna ótíðar, af stórrigningum og snjóum. Seinustu dagana sem hann beið á Djúpavogi, voru dæmafáar rigningar og vatnavextir en þó hæg veður, sem náði yfir allar Múlasýslur. Aðfaranótt hins 9.[október] að Fossárdal í Berufjarðarkirkjusókn, hafði á sem þar rennur nálægt bænum, hlaupið úr farveg sínum og inn í bæinn, svo fólkið gat aðeins með hörkubrögðum bjargað sér. Nokkuð af matvælum tapaðist og eitthvað af heyi skemmdist.
Norðanfari birti bréf þann 6.nóvember:
[Skagaströnd 2.október] Mánudaginn 28. september var hér ofsaveður á landnorðan, er herti eftir því sem á daginn leið. Jaktskipið Ellen, skipstjóri E.M. Schou lá hér á höfninni ásamt jaktskipinu Anina skipstjóri Rasmussen, sem nýkominn var hingað frá Kaupmannahöfn. Eftir því sem á leið aðfaranóttina hins 29., harðnaði veðrið æ meir svo að öllum ber saman um, að þetta veður sé öllu meir en það er skipin strönduðu í hér í fyrra. Kl.4 um nóttina slitnaði landfesti jaktskipsins Ellen", og voru þá eigi önnur úrræði fyrir skipstjóra Schou, en að höggva mastrið fyrir borð til þess að frelsa líf manna sinna og sitt, hætti þá skipið að reka, samt var svo stutt á sker, sem það rak að, að mastrið, sem þeir eigi slepptu heldur, höfðu á stuttri taug aftan við skipið, lá upp í boðanum á skerinu. Veðrinu slotaði eigi fyrri en á leið þriðjudaginn, og var þá reynt að ná mönnum úr Ellen", því eigi þótti víst að hún mundi fá legið ef veðrið gengi upp að nýju, var sexæring með 8 mönnum komið út, og var þó með hörkubrögðum, því veðrið var fjarskalegt, taug var og höfð á bátnum, því svo var vetrið, að eigi var hægt að ná landi aftur á árum einsömlum; skipstóri Rasmussen var formaður farar þessarar, eftir [...] verslunarstjóranna á Hólanesi og Skagaströnd. En eigi tókst þessi för, svo að mönnum yrði náð, því báturinn komst aldrei að skipinu, hverju sem það hefur verið að kenna, skal ég láta ósagt, en í lendingunni brotnaði báturinn og mennirnir komust með illan leik á land aftur. Þegar nokkur tími var liðinn, setti skipstjóri Schou upp Nödflag", því engir sem í skipinu voru hefðu komist lífs af, ef skipið hefði farið að reka aftur. Var þá enn mannaður bátur með 5 mönnum og var fyrir þeirri för Jón bóndi Jasonsson, sem er einhver besti formaður hér um pláss, og tókst honum að ná skipshöfninni, og þótti það frækin för, en úrvalssjómenn voru með honum. Strand þetta er því hroðalegar, þegar maður hefur litið til þess, að í vor sendi stórkaupmaður Gudmann þessa keðju er slitnaði hingað, og svarar hún, eftir sögn skipstjóranna, til skips er væri 200 lestir, en jaktskipið Ellen aðeins 30 lestir. Skömmu eftir að mönnunum varð náð, slotaði veðrinu nokkuð, og liggur skipið enn við festarslitrin og sín eigin akkeri. Það er og hryggilegt að vita, að þetta skuli vera þriðja haustið, sem þetta ólán hendir skipstjóra Schou og reiðara hans; skipstjóri er þó kunnur að dugnaði, sem sést af því, að hann hvert árið eftir annað fær skip að færa hjá Gudmann, jafnt og það vottar vanalegt veglyndi stórkaupmanns Gudmanns, sem alkunnugt er hér norðanlands. Anina lá af sér storminn og þótti það mesta furða, þar sem festarnar, er hún lá við eru grannar og gamlar. Spákonufellskirkja fluttist í veðrinu breidd sína, og er það þó stór og vönduð timburkirkja; einnig skekktist og rifnaði í sundur í veðrinu stórt timburbús á Hólanesi; víða reif gróin þök af húsum og fuku hey; fjárskaði varð á Vakurstöðum í Hallárdal, og missti bóndinn þar 20 til 30 kindur.
[Norðfirði í Suður-Múlasýslu 2.október] Sumarið hefur verið kalt og snjóasamt, grasbrestur mikill, töður þriðjungi og allt að því helmingi minni enn í meðalári, svo illa lítur út með heybirgðirnar, enda hefur þetta þjóðhátíðarár verið fremur bágindaár, það sem nú er af því liðið, og nú í dag er hér í sveit ófært snjóbleytuveður.
Ísafold lýsir tíð í örstuttum pistlum í október:
[1.] Veðrátta hefur verið mjög stirð um hríð hér syðra, og sama er að frétta að norðan og vestan: vikuna sem leið miklar rigningar, og það sem af er þessari viku aftakaveður af norðri, með fjúki til fjalla og ofan í byggð. [17.] Veðrátta óvenjulega hörð það sem af er þessum mánuði. Stórfannir til fjalla. [29.] Veðrátta hefir verið mjög stirð, það sem af er vetrinum, þangað til núna síðustu dagana, að verið hafa þíður og hægviðri.
Þjóðólfur segir þann 3.október:
Síðan daginn fyrir Mikaelismessu [29.september] hefir nú staðið eitt hið grimmasta norðankast; kom það því óhentuglegar, sem fjárrekstrar, lesta- og ferðamenn eru þessa daga sem óðast á ferðum hingað suður. Hafa ýmsir mætt háska og hrakningum, 2 skólasveinar t.d. lágu 2 nætur úti norður á heiðum; lestamenn er fóru fyrir Ok, urðu hraktir frá hestum sínum og farangri, og rekstrarmenn einir eða fleiri komu slyppir ofan í Þingvallasveit, en týndi fénu. Manntjón hefir þó ekki enn spurst. Snjólaust er enn í byggð, en fjöll kominn undir fönn og gadd. Allar haustathafnir annaðhvort ómögulegar, eða torveldar.
Þjóðólfur segir fréttir 16. október:
Af hinu stirða veðráttufari síðan um næstliðin mánaðamót, er víðast að bágt að frétta, heyja- og fjárskaðar, hrakningar, og önnur vandræði. Á Fellsströnd vestra tók upp skip í einu aftakaveðrinu, braut og feykti á sjó út. Reykhyltingar þeir, er getið var um í síðasta blaði að hröktust á Okveginum, söknuðu enn, er síðast fréttist yfir 100 fjár; var sumt dautt af því sem fannst. Þá Eggert bónda á Skógtjörn á Álftanesi, er sömu dagana komu að norðan, vantar og stórum af þeirra rekstri. Eru slíkir hrakningar og fjármissar hin mestu vandræði, er bláfátækt fólk missir ef til vill allt sumarkaup sitt, og þar með vetrarviðurværi. En þessum og öðrum slysum mega menn enn framvegis búast við, uns vér verðum þeir menn, að fá skipaferðir kringum landið, því þá væri ekki fjöll eða fannir að óttast, er koma þyrfti kaupi manna hingað suður. Spurst hefur að Indriði bóndi Gíslason á Hvoli í Dalasýslu hafi misst fjölda af fé sínu, og ýmsir aðrir þar um sveitir; hafði það ýmist fennt eða farist á annan kátt. ... Af Ísafirði er oss skrifað: Sumarið þurrt og kalt, grasvöxtur og heyafli fremur lítill; fjársala með mesta móti.
Þjóðólfur segir þann 19. október:
Vestanpósturinn kom 13. þ.m., en norðanpósturinn þ.14., sögðu báðir mikið af illviðri og ófærð; varð norðanpóstur einkum fyrir hrakningi á Holtavörðuheiði; sagði hann fjárskaða víða norðan úr sýslum sakir ofviðra og fanna, sem kom yfir menn i miðjum fjárleitunum. Skip þeirra Hoeffners á Skagaströnd var nýstrandað.
Tíminn rekur þann 20. október tíð í september og fram eftir október:
Veðráttan í septembermánuði ... og það sem liðið er af þessum mánuði var hér á þessa leið: Fyrstu dagana var norðan kólguveður, gekk síðan þann 6.[september] í sunnanstorma í 2 daga og í rigningu þann 8. Hinn 10.12. var logn og blíðviðri, og var hitinn 14°; þann 10. Þann 14. og 15. var norðanstormur með krapa og snjófalli til fjalla, svo þau urðu alhvít af snjó, og 4° frost þann l6.; eftir það komu staðviðri og þíður nokkra daga til 24., gekk þá veðráttan í útsunnanstorma og snjógang til fjalla, en þann 28. kom ofsa-norðanstormur með kólgu og gaddi til fjalla með snjókomu, er hélst við í sífellu til 3.[október], létti þá og gjörði allgott veður til hins 8., en frost var á nóttum 57°. 9.10. gjörði aftur ofsaveður á austan landnorðan með bleytubyl og snjókomu til sveita, svo jarðlaust varð fyrir allan fénað sumstaðar til sveita. 11. til 17. var gott veður og stillt, og þíða seinustu dagana, svo snjó tók lítið eitt upp til fjalla. ... Í þessum illviðrakafla, sem getið er að ofan, stóðu réttir yfir og almenningur var í ferðalagi og með fjárrekstra, og misstu menn meira og minna af þeim á fjöllum uppi, helst á Okvegi og Kaldadal, en sjálfir náðu þeir byggðum með illan leik og urðu að yfirgefa fé og hesta til að halda lífinu, er talið sjálfsagt, að fé hafi fennt 100 saman á afréttum, því eigi voru af gengnar sumstaðar nema fyrstu leitir. ... Vestanpósturinn kom 14.[október], hafði hann fengið illviðri, frost og hríðar á leiðinni. Fréttust með honum mestu harðindi af Vesturlandi, helst í Dala-, Barðastrandar- og Ísafjarðarsýslum, hvar víða var jarðlaust fyrir skepnur, kýr og sauðfénaður var kominn á gjöf. Fjártjón hið mesta, sem bæði hraktist fyrir stormum og fennti, helst í Dalasýslu, sagt er að Indriði Gíslason á Hvoli hafi misst 130 fjár, og hefur fundist af því rúmur helmingur. Norðanpósturinn kom 15. s.m. eftir harða útivist, sökum illviðra og snjóa. Sömu harðindi var að frétta úr Norðurlandi og að vestan, fjárskaðar töluverðir.
Ísafold birti þann 28.nóvember bréf af Skógarströnd, dagsett þann 11.
Tíðarfarið á hinum næstliðna októbermánuði hefir verið fjarska-umhleypingasamt, ýmist með austnorðan frostgörðum (þann 1.6.) eða með suðlægum bleytukaföldum og fannfergju, og loks með ofviðrisbleytukafaldsbyl af landsuðri, þann 7.10.; úr því varð loftstraumurinn hæglátari, en sama óstilling á honum allan mánuðinn út, og vindar af öllum áttum, með litlu frosti en fönnum og blotum á milli. Þegar frysti ofan á snjóinn og illviðrið, sem kom þann 7.10., gjörði víða haglaust til Dala, svo fénaður af fjallbæjum var bæði rekinn eða rásandi niður í lágsveitir. Af hinum tíðu blotum síðari hluta mánaðarins hefir leitt, að nægileg jörð er víðast hvar niður til sveita, en hagskarpt eða haglaust til allra fjallbyggða. Loftið er jafnast með ábúð. Uppgöngur eru úr útsuðri, sem austnorðanvindur blæs á móti, meðan þykknið er að jafna sig um loftið, þá kemur kafaldsbylur nokkrar stundir, síðan gengur veðrið til suðurs-landsuðurs, kafaldið verður að krapa eða regni, svo birtir upp með útsunnanvindi, sem helst, uns ný uppganga kemur. Það er einleikið mál um það, að engir menn hér um sveitir muna um þetta leyti eins langa né stranga illviðratíð, og ég, sem á veðráttufarsbækur yfir 50 ár, finn slíkrar veðráttu hvergi getið um þennan tíma árs. ... Afleiðingarnar af norðanhretinu mikla síðast í september og fyrst í október urðu mjög slæmar. Hretið skall á einmitt eftir leitardagana í sumum sveitum, urðu svo þær fjallleitir að litlu liði, og óheimt fé líkast til víða orðið undir fönn. Smáskaðar á fénaði og heyjum urðu víða, en stórskaðar þessir: Á Hvoli í Saurbæ fennti að sögn 130 fjár, og náðust af því fé aðeins 10 kindur lifandi, flest hið dauða mun hafa fundist. Á Hóli í Hvammssveit varð mikill heyskaði. Á Harastöðum á Fellsströnd sleit áttróið skip úr höndum bóndans, sem var að búa um það. Brot af því skipi rak á Hrísa- og Svelgsárfjörum. Á Gunnarsstöðum og Dunkurbakka í Hörðudal fennti 30 fjár, sem mun hafa fundist dautt, að eins ein kind lifandi.
Nóvember: Umhleypingasamt framan af, en síðan stillt.
Þann 27.apríl segir Ísafold loks frá skipstrandi í nóvember:
Laugardaginn 7. nóvember í haust lagði kaupskip Tulinius kaupmanns út frá Eskifirði á leið til Kaupmannahafnar, en komst ekki nema rétt úr firðinum, og varð að hörfa undan sunnan stórviðri inn í Breiðuvík. þar er gott lægi í þeirri átt, en morguninn eftir var komið norðanrok, er stóð beint á land þar í víkinni. Hrukku þá í sundur akkerisfestarnar, og rak skipið á drykklangri stundu upp í sandinn. þar eru hamrar á tvær hendur, og mundi skipið hafa farið í spón, hefði það lent þar. Fyrir dugnað og snarræði Breiðvíkinga náðust skipverjar allir í land á kaðli, áður en skipið rak upp. Hafa þeir orðið að sitja hér vetrarlangt. Síðan var haldið uppboð á skipinu og vörunum ...
Þjóðólfur segir frá tíð í stuttum pistlum í nóvember:
[2.] Veðurátt gengur afarstirð og umhleypingasöm yfir allt, enda geta margir til, að harður vetur sé í nánd. [19.] Veðurátta síðan póstskip fór sífellt stirð og umhleypingasöm blotar eða frost af ýmsum áttum. [28.] Norðanpóstur kom 24.[nóvember]. Að norðan er helst að frétta strand Elfríðar, Borðeyrarskipsins við Melrakkasléttu 2. október; það var í ofsastormi; þar varð mannbjörg en skip brotnaði og farmur spilltist. Var allt selt við uppboð fyrir lítið verð. Veðurátta á Norður- og Austurlandi jafnbetri en hér syðra frá því eftir réttir. Vestanpóstur kom 25. þ.m.; hann segir stirða og umhleypingasama veðuráttu að vestan.
Ísafold birti þann 31.desember bréf af Síðunni, dagsett 26.nóvember:
Allur júlímánuður var hér fremur vætusamur, en hlýtt var, og gæða grasveður; en lítill varð samt grasvöxtur, einkum á túnum, því jörð náði sér ekki eftir vornæðingana. Almennt var farið að slá seint í 13. vikunni. Nýting mátti kallast fremur góð, en þó þerrilint væri. Ágústmánuður var kaldari, og veðrátta mjög óstöðug, snjóaði þá einatt á fjöll. Hélst þessi umhleypingur fram til jafndrægra; en eftir það hljóp í með sífellda snjókrassa og gaddköst, með einstöku spakveðursdögum á milli, þangað til út úr allraheilagramessu; hefir mátt heita æskileg tíð, einkum nú í hálfan mánuð, með spakveðurs rigningu og blíðu, svo hér sést nú ekki svell né snjór í byggð né búfjárhögum, enda eru engir farnir að heyja lömb sín, og sumir beita nú þessa daga kúm geldum. Heyskapur var hér almennt með minnsta móti vegna grasleysis og margir hafa lógað talsverðu af lömbum og nautpeningi, því ekki voru heyleifar eftir í vor til að styðjast við. Þar á mót var meltak í Skjaldbreið með besta móti, jafnvel meira en í fyrra, og er það til mjög mikilla fóðurdrýginda.
Norðanfari birti þann 19.janúar 1875 nokkur haustbréf:
[Hnappadalssýslu 11.nóvember 1874]: Hér er illfarandi í byggðum vegna snjókyngju og bleytu og fjallvegir ófærir. 17.[nóvember] átti að kjósa að Staðastað alþingismann fyrir Happadals- og Snæfellsnessýslur, sem vegna ótíðar og snjóa ekki gat á komist; kosningunni er því frestað til 1. júní 1875. Í Eyrarsveit og Helgafellssveit eru sögð ómuna snjóþyngsli, því að á eyraroddum og sjávarbökkum taki fönnin í buxnastreng; hina sömu ótíð er að frétta úr Dölunum og Hvammssveit og flestar skepnur í húsum og á heyjum nú í fullan hálfan mánuð. Margir eru því að sögn, þegar búnir að lóga 1 og 2 kúm fram yfir það sem upphaflega var ætlað að farga, og svona giska menn á að sé um allt Vesturland, en hér um kring er allt minni snjór og alltaf beitt út á fullan haga, og hvergi farið að gefa fé eða jafnvel ekki lömbum nema á stöku bæ. Um fiskafla fyrir vestan Jökul hefur ei með vissu frést hingað, mun hann ekki mikill vera, því gæftir eru eftir útliti að ráða víst ekki góðar.
[Borgarfirði 28.nóvember]: Sumarið til rétta var hið hagstæðasta, svo heyskapur nýttist vel og varð nær því í meðallagi víðast hvar. Síðan um réttadaga og fram í miðjan þennan mánuð var allra mesta ótíð með sífelldri snjókomu og bleytingsblotum á milli, svo oft var nær því haglaust hér niður til dala, en ófönn og hagleysur til fjalla; heimtur af afréttum hinar verstu, og hlýtur fé að hafa fennt í bunkum á fjöllum hér syðra. Svo bættist það á fyrir Reykdælum að þeir lögðu hér á fjall fyrir Ok á leið til Reykjavíkur 28.september, með á þriðja hundrað fjár og komust í svokallaða Skurði, sem er undan suðurenda Oksins. Rauk þá á eitthvert mesta ofsaveður af norðri með snjókyngi, lágu þar 12 menn yfir í 4 1/2 dægur, þá brutust þeir til byggða aftur með illan leik, því alltaf var samur bylur. Þegar upp stytti var leitað að fénu, farangrinum og tjöldunum, sem allt var sokkið í fönn. Af fénu fannst um 70 tórandi, sumt fast niður, en um 30 er fundið dautt í fönnum og enn vantar yfir 100, flest fullorðnir sauðir, sem allt er víst í fönn. Héðan úr dalnum og þangað sem féð fórst, er gildur hálfur áfangi. Margir fátækir misstu þar hrapallega og mjög bagalega vetrarbjargræði sitt og kaupafólks gjald.
[Norðfirði í Suður-Múlasýslu 19.nóvember] Hausttíðin hefur verið mjög óstöðug og veðrasöm, en jarðir hafa haldist góðar allt til þessa. [Þ.9. október] kom hér rigning mikil, vatnsgangur og grjóthlaup svo víða varð tjón að, en hvergi, sem ég hefi frétt jafnmikið og hjá sjálfseignarbónda Ólafi Guðmundssyni á Firði í Mjóafirði, þar rann fjárhús og 30 hestar heys alveg burtu en til hamingju var ekkert af fé í húsinu, líka tók skriða þessi talsvert af túninu, sem að ekki verður viðgjört.
[Beruneshrepp 20.nóvember 1874]: Sumarið graslítið yfir meginhluta Austurlands allt að Lónsheiði svo ekki mátti heita að ljár væri berandi í jörð á útengi. Vestan Lónsheiðar og suður með landi skárra helst til fjalllendis, en miklu verr á láglendi. Nýting í heyjum til höfuðdags fremur góð. Sumarið á þessum austurhluta landsins í kaldara lagi, frost og snjór oft niður í byggð. Tíbarfarið frá seinni hluta september til miðs [nóvember] mjög umhleypingasamt og það stundum úr ýmsum áttum sama daginn, en síðan kyrrara en þó aðaláttin landnorðan og útsunnan með hægu frosti.
Ísafold segir þann 28.nóvember: Veðrátta hefir verið mjög stirð, það sem af er vetrinum, þangað til núna síðustu dagana, að verið hafa þíður og hægviðri.
Norðanfari birti þann 29.janúar 1875 nokkur bréf dagsett fyrir áramót.
[Suðurmúlasýslu 2.desember] [Þ.7.nóvember] lögðu út bæði skipin af Eskifirði, stóð kaldi af landi fram á miðjan dag; Theodor, skip D. Jonsens leysti fyrir dag, og gaf vel byr til hafs, en Otto" skip kaupmanns Tuliniusar varð síðbúnara og komst út í fjörðinn móts við Breiðuvíkurnar um nónbil. Gjörði þá austanbyl mikinn, var þá eina ráðið að snúa aftur til Eskifjarðarlegu, eða leggjast á Litlu-Breiðuvík, sem er afbragðs lægi í hafveðrum, og það var gjört; um nóttina gekk veðrið meir í vestur og frá birtingu hins 8 nóvember fram til nóns, gjörði þá rokviður af norðvestri, og var þá sem haf og hauður léki á þræði. Kl.10 brustu báðar festar Ottos í sömu öldu, og var eigi annað líklegra en skipið ræki að klettum þegar, því nálægt hafði lagst verið í austanáttinni, er stóð þar af landi. Skipstjóri Hansen greip þegar stjórnvöl, en stýrimaður vatt upp eitt framseglið; komu þeir skipinu þannig upp í sand. Nú braut hver alda yfir skipið, og enginn komst í land, fyrr en menn komu hlaupandi af næstu bæjum; var þá kaðli komið í land, og menn allir dregnir á honum, fór stýrimaður fyrst, en skipstjóri síðastur; voru þeir mjög þrekaðir flestir. ... Skipshöfn allri varð bjargað, farmi að mestu óskemmum, en skipið var allt liðað sundur og óhaffært.
[Skriðdal 30.nóvember] Hausttíðin hefur verið hér mikið óstöðug, en sjaldan staðið degi lengur á stormum eða illviðrum oft verið mörg veður á sama degi. Gæftir hafa verið sjaldgæfar á sjó, og þó víða afli fyrir. Jarðir hafa alla tíð verið góðar eða bærilegar; það gjörði bleytuveður 7. [nóvember] er spillti sumstaðar mikið jörðu, en nokkrum sinnum hlánaði og bætti um. Nóttina fyrir 8. [nóvember] gjörði grimmdarhvasst norðanveður og varð ofsamikið eftir dagmál ...
Desember: Veðrátta almennt talin góð en nokkuð vindasöm. Yfirleitt þurrviðrasamt.
Þjóðólfur segir stuttlega þann 17.desember: Veðrátta síðan fyrir byrjun [jóla]föstunnar all-frosthörð (610°R) hér í Reykjavík. Hvöss norðanátt en fannkomulítil; hagar góðir hvervetna.
Tíminn lýsir árferði á Suðurlandi í pistli 21.desember:
[Þ. 22.nóvember] gjörði hagstæða hláku yfir allt, og tók upp allan snjó, svo öríst varð að fullu, mun þessi bati hafa komið víðsvegar um land, og hélst þíðan og stöðugt góðviðri til þess 1.[desember], þá skipti um til norðanáttar, hreinviðris og frosta, er varð hæst 10° þ.5. og hélst það til 14.; [Þ.] 15. gjörði bleytuhríð, svo illt varð til jarðar til hins 17. að snjóinn tók upp með hægri hláku. Líkt var að frétta úr öðrum fjórðungum landsins með póstunum er hér komu: Austanpóstur 20.[nóvember], norðanpóstur 24. og vestanpóstur 25. s.m.
Ísafold segir af tíð framan af vetri í pistli þann 9.janúar 1875 - einnig greinir af slysi:
Veðrátta hefur þennan vetur, sem bráðum er hálfnaður, verið líkari haustveðráttu en vetrar. Varla komið eitt öðru hærra, hér sunnanlands að minnsta kosti. Nokkuð umhleypingasamt að vísu, einkum framan af, en þó oftast þíðviðri með austanátt eða landsunnan, stundum hægð og blíða heila viku eða lengur (21.29. nóv.). Frost varla staðið lengur en 23 daga í senn, nema fyrri hluta desembermánaðar, 1.13.; þá var frost á hverjum degi en ekki meira en þetta 19 stig (á Celsius). Fyrst eftir veturnæturnar urðu fannkomur nokkrar, en síðan lengst af autt á jörðu. ... Á þorláksmessukvöld (23. desember) týndust 2 menn ofan um ís á Norðurá í Borgarfirði. Það voru bændur úr Andakílshrepp, Hannes Jónsson á Ausu og Ólafur Ólafsson á Bárustöðum, og voru á leið upp að Hreðavatni í Norðurárdal. Á bæ, sem þeir komu við á fyrir sunnan ána, var þeim sagt, að hún væri viðsjál þar sem þeir ætluðu yfir um hana, og boðin fylgd. En þeir þáðu eigi fylgdina; þeir voru ríðandi og vildu eigi hafa töf af fótgangandi fylgdarmanni. Skuggsýnt var orðið, en mennirnir að sögn eigi algáðir; riðu þeir út i vök á ánni og drukknuðu báðir.
Þjóðólfur greinir frá slysi í desember í frétt þann 29.janúar 1875:
[Þ.11. desember] urðu tveir smalamenn, annar frá Norður-Vík en hinn frá Suður-Vík (í Skaftafellssýslu), fyrir snjóflóði. Hljóp það niður á þá ofan snarbratta brekku, en flughamrar voru undir. Þótti mikil guðs mildi að hvorugur þeirra fór þar ofan fyrir með skriðunni; báðir héldu lífi, lærbrotnaði annar, en hinn síðubrotnaði.
Ísafold birti þann 16.febrúar 1875 bréf dagsett á Hornströndum 30.janúar - aðallega er þó fjallað um sumar- og hausttíð 1874:
Sumarið sem leið var hér eitt hið kaldasta sem ég man eftir, enda lá hafísinn hér landfastur allan júlímánuð; grasvöxtur varð hér mjög rýr, og heyföng manna lítil, enda var heyskapur endasleppur, því 24. september tók algjörlega fyrir hann; þá gjörði hér mesta hret með fjarskalegri snjókomu og stormi, og áttu þá margir úti talsvert af heyi sem aldrei náðist. Haustveðráttan var storma og snjóasöm til jólaföstu; síðan allgóð veðrátta til þess.
Lýkur hér að sinni umfjöllun hungurdiska um veður og tíðarfar ársins 1874. Finna má ýmsar tölur í viðhenginu.
24.8.2020 | 23:10
Af árinu 1873
Tíðarfar ársins 1873 var heldur óhagstæðara en næstu ár á undan, en taldist samt í meðallagi þess tíma. Meðalhiti í Stykkishólmi var 3,0 stig, +0,4 stigum ofan meðallags næstu tíu ára á undan. Í Reykjavík var meðalhiti 3,6 stig og 4,2 stig á Stórhöfða í Vestmannaeyjum (mælt var við Ofanleiti). Ekki hefur verið giskað á meðalhita ársins á Akureyri 1873. Vetur lagðist illa að um haustið. Allmikið eldgos varð í Vatnajökli snemma árs.
Tveir mánuðir, mars og apríl teljast hlýir, mars sá hlýjasti frá 1856, en aftur á móti var kalt í janúar, maí, júní, júlí og síðustu þrjá mánuði ársins. Október var sérlega kaldur. Í Stykkishólmi var einn dagur mjög hlýr, 9.apríl, en 15 dagar mjög kaldir, kaldast að tiltölu 25.nóvember. Í Reykjavík var kaldast að tiltölu 17. og 18.júlí og 29.ágúst.
Úrkoma mældist 775 mm í Stykkishólmi. Óvenjuúrkomusamt var þar í mars og desember, en þurrt í apríl og maí - og sérstaklega í nóvember. Apríl, maí, ágúst, september og nóvember voru með þurrara móti á Teigarhorni.
Þrýstingur var lágur í janúar, júní og ágúst, en tiltölulega hár í febrúar, apríl og nóvember. Lægstur mældist þrýstingurinn á Teigarhorni þann 18.janúar, 945,0 hPa, en hæstur 1043,5 hPa þann 10.febrúar, einnig á Teigarhorni. Þrýstiórói var óvenjumikill í október.
Hér að neðan eru blaðafrásagnir af tíð og veðri. Eins og venjulega er stafsetning að mestu færð til nútímaháttar. Að auki eru lítilsháttar upplýsingar úr öðrum áttum.
Séra Valdimar Briem ritar tíðarfarsyfirlit ársins í Fréttir frá Íslandi:
Veðuráttufar á íslandi næstliðið ár var yfir höfuð að tala í meðallagi. Í byrjun ársins var víðast hart. Framan af janúarmánuði voru frost og fannkomur því nær um allt land; um miðjan mánuðinn komu blotar víða, en seinni hlutann spilltist aftur veðuráttan, og gjörði stórhríðar og harðindi yfir allt Norðurland, Austurland og svo Vestfirði; syðra var veðuráttan nokkru mildari. Um mánaðamótin brá aftur til bata, en það stóð eigi lengi, því að þá kom hafísinn undir land, og harðnaði þá enn meir en áður; ísinn var að rekast fyrir landi nokkra hríð, en hvarf aftur seint í marsmánuði. Meðan ísinn var undir landi voru hörkur allmiklar norðanlands og austan, en umhleypingar, stormar og rosar sunnanlands og vestan. Þegar ísinn var rekinn frá, batnaði mjög tíðin yfir allt land; gjörði þá hlákur, þíður og blíðviðri, og leysti víða upp snjó allan. Upp frá því mátti kalla gðatíð víðs vegar um land það sem eftir var vetrar, og var sumstaðar kominn talsverður gróður um sumarmál. Hafís sást aftur fyrir norðan og vestan land um vorið; hann hvarf þó bráðum aftur, en vart varð hans enn við og við fram eftir sumrinu. Um vorið og framan af sumri voru kuldar og þurrviðri norðan- og vestanlands, en hlýtt veður og vætusamt sunnan- og austanlands; þó komu stundum kuldahret á milli, er spilltu mjög gróðrinum, og náðu þau yfir mestan hluta landsins; harðast var hríðaráfellið, er gjörði seint í maímánuði, og kvað einkum að því á Norðurlandi. Síðari hluta júnímánaðar og fyrri hluta júlímánaðar var veðurátta víðast köld með hornriða, kólgum og krapaskúrum, en eftir miðjan júlí hlýnaði aftur, og upp frá því var oftast hlýtt og blítt veður fram í miðjan september. Seinast í september gjörði stórrigningar sunnanlands, en él og hríðir nyrðra. Þá tók veðurátta óðum að harðna, en einkum er á leið októbermánuð. Seinustu dagana af október voru stórhríðar nálega yfir allt land með miklu frosti og fannkomu, og tók þá skjótlega fyrir haga alla; en víða var það, að fé náðist eigi, og ýmist fennti eða hrakti í vötn og sjó, einkum á Hvalfjarðarströnd syðra og í Skagafirði og Bárðardal nyrðra. Í miðjum nóvember hlýnaði aftur, og var nú um hríð allgóð tíð víða, einkum á Suðurlandi; var þá hg norðankla um daga en stirðnandi um nætur. Framan af desember fór veðurátta aftur kólnandi; um miðjan mánuðinn hlýnaði nokkuð, en harðnaði aftur drjúgum undir árslokin. Ís kom undir land nyrðra seint í nóvembermánuði og rak sumstaðar hroða inn á firði; en það er sjaldan, að ís kemur svo snemma vetrar.
Heyskapur landsmanna næstliðið ár var víðast í minna lagi. Vorkuldarnir á Norðurlandi og Vesturlandi spilltu mjög grasvextinum. Á Suðurlandi og Austurlandi var grasvöxturinn talsvert meiri, en þó vart í meðallagi. Af túnum fékkst víða allt að þriðjungi og sumstaðar allt að helmingi minna en næsta ár áður, en þó voru tún og harðvelli því nær allstaðar betur sprottin að tiltölu en engjar og mýrlendi. Við grasmaðk varð víða vart í túnum, einkum nyrðra, og dró hann mjög úr grasvextinum. Sláttur byrjaði víðast á venjulegum tíma, en sumstaðar nokkru seinna. Þótt grasvöxturinn væri fremur lítill, þá btti það aftur úr, að nýting varð víðast góð; þrátt fyrir óþerrana, sem gengu framan af slættinum, þá voru tún að jafnaði alhirt í miðjum ágústmánuði; aðeins í einstökum sveitum, svo sem á Sléttu nyrðra, hröktust töður manna; úthey náðist því nær allstaðar óhrakið, nema það, sem úti var í sláttulok, þegar brá til rigninganna og hretviðranna. Á nokkrum stöðum nyrðra varð hey úti undir snjó, og náðist aldrei. Heyafli manna varð þá um haustið yfir höfuð að tala fremur lítill, en allvíðast góður eða vel hirtur. Heyfyrningar frá undanförnum árum bttu og úr heyskortinum hjá mörgum. Kál, kartöflur, hafrar, bygg og aðrar sáðjurtir spruttu víðast í meðallagi.
Janúar. Umhleypingasamt og kalt í veðri.
Tíminn birti þann 25.apríl dagsett í janúar:
[Þingeyjarsýslu á nýársdag 1873]: Nú sem stendur er hér fremur snjómikið og jarðlítið, því mikil snjókoma hefir verið um öll jólin. Afli var hér inn á firði (Eyjafirði) fast fram að jólum, því síld fékkst alltaf til beitu á jólaföstunni.
[Múlaþingi 31.janúar] Tíðin hin stirðasta í allan vetur og haust, hefir snjórinn verið ákaflega mikill til sveita og fjalla, og aldrei meiri síðan 1836, en við sjó og í fjörðum hefir jarðgrunnt verið, en svellalög mikil og jarðleysur víða, sökum blota og umhleypinga af norðri; afli hefir verið í Reyðarfirði í allan vetur til þessa, en ótíðin svo mikil, að ekki hefir orðið róið nema einu sinni í viku, og stundum alls ekki. Flestir eru víst allvel staddir með hey, því heyskapur gekk mæta vel í sumar. Sagt er að rekar séu til og frá, mol úr hafskipi, í fjörðum, Vopnafirði, Héraðsflóa og Ströndum, er sagt að rekið hafi steinolíutunnur fullar og tómar. Nú hefir verið hláka í 4 daga, með 45° hita, er vel autt orðið með sjó fram og líklega jörð upp í Héraði. Dunur heyrðust miklar hér eystra frá 31. desember til 14. janúar, og eldur sást jafnvel úr Héraði í landsuðri, en um þann ll.[janúar] féll aska mikil, var hún svo mikil í Héraði öllu, Vopnafirði og Álftafirði, að snjór varð dökkur allur um tíma sem auð jörð væri, og mönnum gekk illa að koma skíðum áfram fyrir stemmu, í fjörðum varð hún minni, en þó dökknuðu öll fjöll meira og minna.
Þjóðólfur segir af eldgosi í pistli þann 21.janúar:
Að morgni fimmtudags 9. [janúar] milli kl. 3 og 4 sást héðan úr Reykjavík, og eins víðsvegar austanfjalls, eftir því sem síðar spurðist, mikill eldur koma upp, héðan að sjá í austri lítið hallanda til norðurs eftir hádegisátt héðan að sjá úr miðri Reykjavík (Grjótaþorpinu) bar eldinn norðanhalt við bæinn að Lágafelli. [Sá var stefnumunur, héðan að sjá frá sama punkti, á þessu eldgosi og því er gaus upp 29.ágúst 1867, að þá bar eldgosið yfir norðanverða Lágafellshamra og þaðan yfir Grímannsfell þar sem hæst er, og eftir þeirri sömu línu, beint í austu réttvísanda í suðvesturkrika þann á Skaftárjökli, þar sem sett eru Tungnárupptökin á Íslands-kortinu, var því þá talið líklegra, að það gosið hefði ekki verið í jöklinum sjálfum, heldur í fjallaóbyggðum þeim, fyrir sunnan og austan Fiskivötn, beggja megin Tunguár, er þar liggja að jöklinum, en aftur var stefna þessa eldgoss sú, að eldinn var nú að sjá norðanhalt við þingstaðinu að Lágafelli, Sé lína dregin á kortinu beint eftir þessari stefnu, gengur hún yfir Sandey í Þingvallavatni, þá nálega miðja vega milli bæjanna Vatnsleysu og Bræðratungu í Biskupstungum, um norðurenda eldfjallsins Rauðukamba, um suðurenda fjallsins Búðarháls, þá yfir Fiskivötn og nálega miðjan Stórasjó til Skaftárjökuls, og þannig nálega 2 [til] 2½ mílum norðar heldur en áætlað var um eldgosið 1867]. Það var að sjá með fyrsta, einn hinn mesti eldur ummáls, er menn hafa séð, enda héðan aukheldur austanfjalls. Á Eyrarbakka og víðar þar sunnan og utantil í Árnessýslu hugðu menn í fyrstu, er eldurinn sást, að hann hlyti að vera í Heklu, svo mikilfengur og samfelldur var hann til að sjá, og ummálsmikill í fyrsta bili, og gat því engi gjört sér í lund að hann væri í slíkum fjarska sem þó varð raunin á. En er betur birti og reykjarmökkinn lægði og til fjalla sást, kom brátt í ljós, að eldurinn var í miklum fjarska. Hér og hið efra um Árnessýslu héldu og allir að slíkur eldur gæti eigi í miklum fjarska verið, og af og frá lengra undan en í Rauðukömbum eður um þær fjallastöðvar. Aftur austur um Holtasveit og Landeyjar, sáu menn brátt af stefnunni þaðan, að eldurinn væri austar miklu, þótt hann væri öllu mikilfengari þaðan að sjá, heldur en úr ytri sveitunum. Þegar morgna tók, lægði eldbálið eður eldstrókinn sjálfan nokkuð svo, að minnsta kosti héðan að sjá, og doðnaði niður, en smærri eldfleygum fór aftur að skjóta upp úr mekkinum og víðsvegar utan í honum að vestan og norðan, en þess á milli sló eldleiftri um mökkinn allan ofanverðan. Þessu gekk áfram um kvöldið og fram á næsta morgun fram yfir birtingu eður svo lengi sem dagsbirtan byrgði eigi fyrir auganu; en strjálli miklu urðu eldflugin, hér að sjá, þegar fram á vökuna kom, víst með köflum, og eins hina næstu nótt og morgun; aftur urðu þau mjög tíð um eitt skeið kvöldið eftir (10.) milli kl. 79. Svona gjörði eldurinn vart við sig við og við hina næstu 2 dagana 11. og 12., og sá þá jafnan meiri og minni mökk, einnig virtust nokkrar menjar sjást 13. þ. mán. (mánudag) en síðan eigi neinstaðar að, það spurst hefir. Hvorki á undan gosinu né síðar urðu neinir jarðskjálftar, eigi heldur heyrðust neinar dunur eða dynkir í jörðu fjær né nær, allt austur að Markarfljóti, en lengra að austan hafa eigi fregnir borist. Öskufalls hefir og hvergi vart orðið, né annarskonar elddufts eður móðu. En jökulfýla var mjög megn yfir allt einnig hér í Reykjavík, fram eftir deginum 10. Landeyingar sögðu að svo hefði einnig verið þar eystra fyrsta daginn gossins, en hér urðu menn þess eigi varir þann dag, en þar á móti fannst sumum hérað loftið væri mjög þungt og strembið fyrri daginn, einkum frá kl. 3-5 e.m., með allmiklum brennisteins- og púður-eim, líkast og úr byssu sem nýbúið er að hleypa skoti úr. Aldrei brá sólin lit né tunglið, og eigi dapraðist sólarbirtan; heiðríkjan var og hrein og tær yfir allt loft alla þessa daga, nema yfir mekkinum og í kringum hann. Hér var og vindstaðan mest utanátt alla þá dagana, frá útnorðri og til vestur útsuðurs, og fremur hægt og spakt veður. 10. þ.m. eður annan dag gossins hafði hann verið á austan landnorðan með stinningskalda þar austur um Landeyjar, hafði þá mekkinum slegið hátt á loft upp og eldmistrið byrgt allt austurloftið, en eigi vart neins öskufalls þá að heldur. Til þess að geta ætlað nokkuð á um það, um hvaða bil að eldstöðvar þessar eður eldgjá muni vera, höfum vér leitast við að fá sem nákvæmasta skýringu ýmsra manna og úr ýmsum plássum um það, í hvaða stefnu að eldurinn hafi sýnt sig frá þeirra bæjum hvers fyrir sig. Þannig var eldinn að sjá frá Sumarliðabæ í Holtum í há-landnorður (hálfgenginni sól til miðsmorguns) mitt á milli Búrfells (á Hreppamannaafrétti) og Heklu. Partabæjum (sem kallaðir eru) í Flóa fast austur við útfall Þjórsár, laust fyrir norðan Heklu (en þó eigi norðan í fjallinu). Miðey í Landeyjum eystri (litlu austar en Kross) yfir Tindfjallajökul miðjan. Þegar sín bein línan eftir hverri þessari stefnu, er tekin á Íslands-kortinu og lengd síðan austurnorður eftir þar til þær, hver fyrir sig snerta eður skera stefnulínuna héðan úr Reykjavík, þá er segir hér að framan, (því Reykjavík er norðust, að hnattarafstöðu, allra þessara staða er nefndir voru), þá lendir skurðarpunktur sá í Skaftárjökli (vestur til suðvestur hallanda Vatnajökuls) rétt austur af Stórasjó; skerst Reykjavíkurlínan í vestar af Partabæja-línunni, en hún er og fastast og glöggast ákveðin, heldren af hinum 2 er ganga báðar lítið eitt (nál. 1/31/2 mílu) austar og ofar á jökulinn áður þær snerti Reykjavíkurlínuna. Yrði eftir því í eldsupptök þessi að vera milli 64°7' 64°10'N og 30°45'30°55'V frá hádegisbaugi Kaupmannahafnar.
Af tíð [í Reykjavík] Skakviðri og gæftaleysi hefir verið her framúrkeyrandi allan þenna mánuð, svo að eigi hefir almenningur getað róið og setið nema 1 dag.
Þjóðólfur segir enn af eldgosinu í pistli þann 8.febrúar:
Af Eldgosinu 9.[janúar] hafa síðar borist nokkrar fregnir austanyfir, ýmist á stangli úr prívatbréfum, eða munnlegar, og svo dagaskýrsla ein, dags. 27. f.m., rituð af hr. Guðmundi Guðmundssyni skrifara sýslumannsins á Velli á Rangárvöllum. Þar í skýrslunni segir frá upptökum og framgangi eldsins m.fl. hina næstu daga mjög áþekkt því, er um það var sagt í síðasta blaði; stefna sú er gosið sást í frá Velli, raskar ekki á áætlun síðasta blaðs um eldstöðvarnar. Um dynki og jarðskjálfta segir svo í skýrslunni. Hérumbil kl. 7 1/2 [fyrir hádegi] (fyrsta daginn 9.f.mán.) heyrðust fáeinir lágir dynkir. Um miðnætti (milli 9. og 10.[janúar] heyrðist þungur dynkur, og fannst hægur en nokkuð langur jarðskjálfti; seinna um nóttina heyrðist aftur dynkur. Þ. 12.[janúar] snarpur kippur fannst kl. 7 1/2 [síðdegis] Þegar um kl.8 [árdegis] (þ.9.) fór að finnast megn brennisteinsfýla, er hélst við allan daginn og næsta dag, en hvarf svo að mestu. Um öskufall eður móðu á jörðu segir svo: kl.1 [síðdegis] (9.) þegar rofaði til, sást að snjófjöll þau sem hér eru norður af tóku að verða dökkleitari. 10. (annan dag eldgossins) þegar framyfir dagmál kom, tók mistrið að leggja um allt norðrið, sortnaði það og dreifðist um allt hvolfið, þá á daginn leið; þó sást lítið sem ekkert á snjóföli sem var í byggðinni, en menn sem úti voru um kvöldið sögðust hafa fundið braka undir tönn lítið eitt. Svo virðist, eftir því sem enn hefir til spurst, að hvað mest hafi borið á öskufallinu þar austur um hvorutveggju Hreppana ofantil, og svo úteftir um Grímsnes hið efra og út í Laugardal; þar um byggðina sá reyndar aðeins grána lit á snjónum en aftur á Ytri-hrepp, umhverfis Hruna er sagt að snjórinn hafi orðið dökkmórauður. Skýrslunni frá Velli og öllum fregnum víðsvegar að ber saman um það, að eigi hafi neitt til eldgoss þessa sést síðan mánudaginn 13. [janúar], og þó engir blossar, þann dag, heldur aðeins lágamökkur um morguninn.
Nægir og góðir hagar allstaðar her nærsveitis, síðan um byrjun þessa mánaðar [febrúar], en fremur ill ástöðuveður og hrakningasöm þessa viku. Fjárhöld hin bestu yfir allt.
Norðanfari segir frá tíð og öskufalli í pistli þann 21.janúar:
Nú í meira en viku hafa hér gengið hríðar á hverjum degi og óvanalega mikil fönn komin hér yfir Eyjafjarðar- og Þingeyjarsýslur og haglaust víðast hvar; en aftur snjólítið í Skagafirði og víðast hvar í Húnavatnssýslu. 16. og 17. þ.m. blotaði hér og komu upp þar sem snjógrunnt var, dálitlar snapir, en nú komnar aftur stórhríðar og fannfergja ofan á gaddinn sem fyrir var.
Aðfaranótt hins 11.[janúar] og daginn eftir varð hér vart við sandfall og það sumstaðar töluvert, einkum fremst í Eyjafirði, þó miklu meir um miðbik Þingeyjarsýslu. Jafnframt sandfallinu sást og eldur uppi, hér um í hádegisstað. Úr Skagafjarðardölum, hefir oss verið skrifað: Föstudaginn þann 10.[janúar] í hálfrökkrinu, heyrði ég dynk mikinn, og hér um bil að hálfum tíma liðnum sást eldur austan til við hádegisstað, sem hélst við til þess kl.12 um nóttina að farið var að hátta. Næstu kvöld til mánudags [13.] sást hið sama; ekki varð þess vart, að sandi eða ösku rigndi, en fyrsta kvöldið, sem eldurinn sást, var sem mökkur eða reykur deyfði birtu logans, er oft tók hátt á loft.
Norðanfari birti þann 31.janúar úr bréfi úr Siglufirði dagsett 17.janúar:
Á hverjum degi síðan á jólum, hafa verið hér hríðar og illviður. Laugardaginn 11.[janúar] var snjórinn hér öskulitaður um morguninn, og þegar nákvæmar var aðgætt, var þetta sandur; nóttina og daginn á undan var vindur að sunnan og suðaustan, og mun því sandfall þetta vera af eldi þeim, sem sagður er nú uppi suður á fjöllum, eftir ágiskun í Vatnajökli.
Enn segir Þjóðólfur af eldgosinu í pistli þann 26.febrúar:
Af eldgosinu í Skaftárjökli, því er upp kom í [janúar], hafa nú ritstjórn þessa blaðs enn borist skýrslur og fregnir úr ýmsum héruðum, og kvað nákvæmastar úr sveitunum milli Mýrdalssands og Skeiðarársands í Skaftafellssýslu vestari, með sunnanpósti, er kom nú hingað aftur 17.[febrúar] úr miðsvetrarpóstferð sinni, frá Kirkjubæ á Síðu. Voru það einkum þessir 4 menn, síra Jón prófastur Sigurðsson á Mýrum, Ingimundur hreppstjóri Eiríksson á Oddum í Meðallandi, Jón Jónsson bóndi á Seglbúðum, og síra Páll alþingismaður Pálsson á Prestbakka, er góðfúslega gjörðu það, -fyrir tilmæli sem póstur færði þeim héðan i austurleið sinni, að senda nú greinilegar skýrslur um aðfarir eldgossins og ýmis þau atvik er af honum stafaði, og helst myndi mega þykja nokkurs um vert fjær og nær. Skýrslur þessar eru skráðar og dagsettar 4.7.[febrúar], og segja tvær þeirra (síra J.S. og síra P.P.), að gossins hafi þar vart orðið 8.[janúar], aftur segir í Seglbúðaskýrslunni að þar hafi eigi verið eftir eldinum tekið fyrr en 9. um morguninn, en Oddaskýrslan til nefnir reyndar fimmtudaginn 8., er af því líklegra, að dagsetningin 8 sé pennafeill, en fimmtudagur (9.[janúar]) sé rétt; af Prestbakkaskýrslunni er helst að ráða, að eigi hafi það verið jafnvel nema öskumökkur er sást þaðan af Síðunni 8. Var mestan eldinn að sjá dagana 8.11. af Siðunni, og úr Meðallandi, á morgnana fyrir daginn og á kvöldin þegar dimma tók; þessi kvöldin (segir í skýrslu hr. I.E.) var það líkt eins og þegar blossi skýst uppúr kolabrennu, fyrst þegar eldurinn fer að blossa upp. Eldingar þær sáust ýmist rétt niður við, ýmist skaut þeim hátt á loft upp og í ýmsar áttir. En mest held ég hafi kveðið að eldganginum sunnudagskvöldið næsta eftir þrettánda (12.[janúar]; þá eftir dagsetrið eftir því sem flestum hér ber saman um var í landnorðrinu að sjá allt einn eldblossa, víst uppá mitt loft, sem aldrei slokknaði, að heita mátti fyrr en undir kl.9 um kvöldið.
[Innskot] Þetta mikla eldbál er eigi framtekið í hinum skýrslunum sérstaklega, og í engri þeirra er heldur lýst bálinu eins feikimiklu og samfelldu eftir því sem það kom fyrir sjónir hér og víðsvegar um Árnes- og Rangárvallasýslu um dægramótin 9.[janúar], eins og lýst var. ... Til þessa liggja þær náttúrlegu orsakir, að þegar veðurstaðan og vindurinn um eldstöðvarnar, er sú að öllum reykjar- og misturmekkinum heldur undan eður frá þeirri áttinni er í móti horfir og fram á þann er að eldinum snýr, þá hlýtur mökkurinn að byrgja sjálft eldgosið og eldblossann upp úr gígnum, fyrir sjónum manna, svo að eigi sést annað þeim megin [er í móti veðurstöðunni horfir] heldur en eldfleygar þeir og eldglæringar er skýtur upp úr mekkinum að utan allt um kring, eins og hér í skýrslu hr.I.E. er lýst hvernig eldurinn kom í ljós þá fyrstu 3 dagana þar suðaustast í Meðallandi. Aftur þegar veðurstaðan, um sjálfan eldgíginn, stendur af sömu átt eða svo að vindurinn þar standi beint af þeim sem á horfir, þá slær öllum reyk og mökk undan og af eldstöðvunum, svo að eldbálið eftir eldgosið sjálft hlýtur þá að sjást fyrirstöðulaust eins og það er, hvort sem meira er eður minna.
Á fimmtudagsmorguninn (9.[janúar] fyrir daginn, mun hann hafa verið litlu minni. Aftur í skýrslu síra P.P. segir svo: Eldurinn sást héðan mestur 8.11.janúar, svo að auðsætt var, að niðri við upptökin væri sífeldur logi, sem þó eigi sást héðan (frá Prestbakka), nema sem ákaflega þéttar (tíðar) eldingar upp af gjánni sem lögðu í allar áttir. Í öllum skýrslunum segir, að til eldsins hafi þar séð síðast 23.[janúar], en lítið annað en til mökksins síðustu 45 dagana. Hvergi þar um héruð heyrðust dynkir né merktust jarðskjálftar. Öskufalls og móðu varð þar víða vart, meira og minna, 10. og 11. um Síðubyggðina, svo, að ferilrækt varð eftir fénað á auðri jörð; í Meðallandi og Álftaveri 10. og 12., mistur og móða ( eigi vikuraska eða öskufall) svo að hvítur leirdiskur mundi hafa alsvartur orðið.
Sendimaður einn er hér kom norðan frá Húsavík 7. þ.mán. sagði þar hafa öskufall orðið svo dagana 9. og 10., að dökkar eður svartar hefði orðið fannir þar um Húsavík og víðar fyrir norðan Vöðluheiði, en 13. hefði öskufallsins helst orðið vart um Akureyri og víðar þar um kring. í skýrslu síra P.P. segir enn fremur svo um öskufallið: Um næstu daga, 11.13. brá hér vindinum fyrir af útnorðri (NV), og þá veitti öskufallinu austur af jöklinum; í Suðursveit (þ.e. Borgarhafnarhreppur, næsta sveitin fyrir austan Breiðamerkursand) og á Mýrum (næsta sveit þar fyrir austan, eður Einholtssókn, vestari hluti Bjarnarneshrepps, vestan Hornafjarðarfljóta), varð að sögn nálægt í skóvarp askan, þar, en svo aftur minni eftir því sem austar kom. þarí móti varð öskufalls varla vart í Öræfum (Hofshrepp, milli Breiðamerkur- og Skeiðarársands) og í Fljótshverfi (Kálfafells sókn á Síðu). Allar skýrslurnar segja greinilega afstöðu eldsins eftir því sem hún varð miðuð við þau kennileiti til fjallanna sem alþekkt eru þar um sveitir í og norður-norðaustur af Síðubyggðinni; en eigi þykir þörf að fjölyrða um það hér, þar sem fæstir lesenda vorra þekkja þau, enda fæst þeirra nefnd á uppdrætti Íslands. Síra Páll miðaði eldinn frá Kirkjubæjarklaustri, og Kárstöðum í Landbroti, um kvöldið 11. janúar í heiðskýru veðri, ásamt fleiri greindum mönnum; og með því Kirkjubæjarklaustur og Kirkjubæjarheiði (fjallsbrúnin rétt upp yfir staðnum) og enn fremur fjallið Kaldbakur eru þríhyrningspunktar á landkorti voru, og afstaða þeirra er því óyggjandi, þá skal þeirrar (Kirkjubæjar-)stefnu hér getið, eftir bréfi síra P.P. að eldinn var að sjá (frá Klaustri) yfir Keldunúpsháls og austanvert við Kaldbaksöxl, og er þar bætt við: En mjög norðarlega. En þessi Kirkjubæjar-Kaldbakslína sker Beykjavíkurlínuna þá sem einkennd var í blaðinu 21. f.mán., einmitt um sama punkt, sem Austur-Landeyja- og Holtalínan, eða þá aðeins litlu einu austar. En að Reykjavíkurlínan sé dregin eður áætluð nærhæfis rétt, þ.e. hvorki sunnarlega né norðarlega um of að neinum mun, það staðfestist enn ítarlega af stefnu eldsins frá Gilsbakka í Borgarfirði, þeirri er síra Jón Hjörtsson hefir tekið, og skrifað oss að sé í austur-landsuður þaðan, skammt fyrir austan Húsafell og yfir norðanverðan Geitlandsjökul; austurlandsuður stefnulína (réttvísandi áttar) frá Gilsbakka, mun skera Reykjavíkurlínuna nærhæfis um sama punkt sem fyrr var getið, eður lítið eitt austar. Í skýrslu síra P.P. segir enn, «að eldinn hafi borið beint í norður af Núpstaðarskógum; sú stefna verður nú hvergi tekin, svo áreiðanleg sé, nema af þeim sem staddur væri vestantil á Skeiðarársandi beint suður af skógunum; getur og vel verið, sð svo hafi gjört greindar-bóndinn þar á Núpstað Eyjólfur Stefánsson, eður og Öræfingar er fóru út yfir Skeiðarársand um þá dagana. Þessi stefna yfir Núpstaðarskógana í hánorður kemur og nærhæfis heim við hinar stefnurnar og rekst hún á Reykjavíkurlínuna litlu eður engu austar en þær, síst þegar þess er gætt, að dagsmörk öll munu haldi þar um byggðir, eins og víðast er til sveita, nokkuru fyrr (allir þekkja búmannshádegið), heldur en réttvísanda hádegi eður sólskífu-hádegi; en hér af leiðir, að allar höfuðáttir (hádegisstaður, dagmálastaður o.s.frv.), eru einnig haldnar ofar nokkuð eður norðar, heldur en réttvísandi áttir eru. Vér sjáum því eigi, að eldur þessi geti verið norðar í jöklinum heldur en fyrr var áætlað hér í blaðinu, eður rétt austur af Stórasjó; þar í móti er eigi ólíklegt að hann kunni að vera frá 2030'(eður 4-7 mílum austar í jöklinum, heldur en áætlað var í blaðinu 21. [janúar].
Hlaupin Skeiðará [Eftir bréfi síra Páls Pálssonar í Prestsbakka, 4.[febrúar]. Eftir rúm 6 ár, (sem er talinn almennur meðgöngutími Skeiðarár), fór Skeiðará nú í vetur á jólaföstunni að þverra, og um jólin sást ekki hvar hún var, var þá talið víst að hún mundi þegar hlaupa, enda leið ekki lengra um en til 6. janúar þá hljóp hún fram árdegis, en Súla kom ekki fram fyrr en um kvöldið sama dag, en hún er einatt vön að hlaupa 12 dögum síbar. Vatnsflóðið varð að vísu fremur með minna móti við það sem vant er, en þar á móti brotnaði eður sprakk fram í mesta lagi, Jafnvel meira en nokkurntíma áður, af jöklinum einkum að vestanverðu, svo stórt gljúfur skarst inn í jökulinn, og jökulhrönnin lá eftir farveg Núpsvatnanna langt fram á sanda. Engan skaða ætla menn vatnsflóðið hafi gjört, nema ef vera kynni að nokkur ferköntuð tré hafi tekið út á austurfjörunum. [Mælt er að eigi fá rekatré og köntuð tré hafi rekið, öll með fjörumörkum og einkennum, út á Eyrarbakka er sjálfsagt mun vera af þeim trjám er hlaupið hefur tekið].
Norðanfari birti þann 8.febrúar bréf ritað í Húnavatnssýslu 23.janúar:
Frá því á jólum hafa oftast verið hríðar norðan og landnorðan, og mikill snjór fallið hér í vestursýslunni, en austan til lítið, þar til nú fyrir viku, að þá gjörði fyrst blota og bleytuhríð 16.[janúar] svo allt flóði í krapaelg og vatni, og svo kom frosthríð ofan á þetta allt saman. Síðan hafa oftast verið meiri og minni hríðar með frekustu fannkomu, og langverst á mánudaginn 20.[janúar] og ofsaveður um nóttina. Það er því mikið víða lítið um jörð fyrir fé og og sumir búnir að taka hross. Snjófall þetta er sagt jafnmikið, eða þvínær, vestur að Breiðafirði.
Norðanfari birti 26.febrúar nokkur bréf rituð í janúar:
[Berufjarðarströnd, 30.janúar]: Síðan um Mikaelismessu [29.september] hefur veðuráttan verið óstöðug og umhleypingasöm, svo sjaldan hefur komið lognstund, og veðurstaðan oftast norðan, nema einstaka sinnum hlaupið í hroða útsynninga; snjókomur hafa því orðið miklar og hagleysur upp til lands, en meðfram sjávarsíðunni, hefir oftast mátt heita auð jörð, og best á útnesjum, og sama er sagt hér suður með öllu landi allt suður yfir Öræfi, og snjór að kalla enginn komið. Um jólaleytið varð hér fyrst vart við eldgos, en mest eftir nýárið, og þá með dunum og dynkjum; einnig sást til elds víða frá bæjum, héðan nokkru sunnar en í miðaftansstað. Öskufall er sagt að mikið hafi komið yfir Nesja-, Mýra og Suðursveitir, svo víða sé þúfnafyllir á auðri jörð, og flestan pening hafi orðið að taka á gjöf. Bæði hér og um uppsveitir hefur og orðið vart við öskufall, en enn ekki orðið að tjóni það ég til veit. Menn geta helst til, að eldsupptökin séu í austanverðum Vatnajökli. Allt til skamms tíma hafa menn þóst sjá reykjarmökkinn. Svo mikið vatnsflóð hafði hlaupið í Skeiðará, að hún síðan hefir verið bráðófær fyrir menn og skepnur nema fuglinn fljúgandi.
[Suðurmúlasýslu 30.janúar]: Tíðin var hér óstöðug og gæftaleysi við sjó; veturinn bleytu- og snjóasamur og jarðbannir lengi hér; þar sem sjaldan verður jarðlaust var eigi bragð í mánuð, en nú komu stórrigningar og stórviðri, svo hvorki snjór eða svell hefur staðið fyrir, var þó svellið orðið ótrúlega þykkt, en hér nú orðið bráðum alrautt.
[Seyðisfirði 31.janúar]: Veðuráttufarið hefur verið hér svo afdæmislegt, að menn eru orðnir hreint orðlausir af undran yfir þrálæti þess. Fyrir utan það að hér hefur verið ókleyft millum húsa, hvað þá millum bæja, af fannfergju svo ekki hefur upp úr staðið nema hæstu klettar í byggð og ekkert jarðarbragð fyrir neina lifandi skepnu síðan um sólstöður, já sumstaðar ekki síðan fyrir jólaföstu. Þá hafa illviðrin og rosarnir geisað svo gífurlega, eða ýmist froststormar og stórhríðar, eða þá hvessings kuldablotar og stórviðri af hafi, svo illstætt hefur verið stundum á bersvæði. Sauðfé hefur því sumstaðar ekki séð út fyrir dyr síðan hér um bil mánuð af vetri, nema til brynningar, og hestar á sumum stöðum staðið við síðan um miðja jólaföstu. ... Í vikunni eftir þrettánda bar hér á eldgosvottum, bæði með dynkjum og öskufalli. Ýmislegt timbur og brot af skipspörtum hefur að sögn verið að smáreka hér á austurströndum í vetur, og þykir það órækur vottur þess, að skip hafi týnst hér einhverstaðar úti fyrir í haust eða vetur, og er helst getið til, að það hafi verið timburskip norskt eða finnskt. Steinolíuáma kvað og hafa rekið á Húseyjarreka, kirkjujarðar frá Kirkjubæ og flösku með bréfmiða í, og eitthvað þar á, einhverstaðar annarstaðar á Héraðssöndunum, og ætla menn að hvortveggja þetta sé af sama skipi.
[Fljótum í Skagafirði 28.janúar]: Fannfergja er hér mikil komin, enda bregður okkur Fljótamönnum ekki við það; alveg bjarglaust fyrir allar skepnur; hey reynast vel;
Norðanfari birti 1.mars bréf úr Laxárdal í Þingeyjarsýslu, dagsett 3.febrúar:
Héðan er ekkert merkilegt að frétta, tíðin var hér hin harðasta til þorrakomu, fannfergi gróft og haglaust yfir allt, síðan má heita að verið hafi góð tíð, sunnanátt og lítið frost, en engar verulegar þíður, sumstaðar hefur skotið upp litlum hnjótum, til dálítils léttis, meðan svona stendur, en einskis þegar ofan á kemur aftur; heyin munu reynast almennt heldur vel, og langtum betur enn í fyrra, enda munu þau allstaðar með góðri verkun, en þó þykja mönnum kýr ekki reynast að því skapi vel.
Norðanfari segir í pistli þann 8.febrúar:
Nú er sagt víðast hvar í Skagafirði komin nóg jörð og eins í Húnavatnssýslu. Í hríðunum á dögunum höfðu 4 hestar, frá Bjarnastöðum í Kolbeinsdal, lent í snjóflóði. Næst undanfarna daga hefur hér um sveitir verið gott veður, svo dálítið hefir rýmst um, þó best 4.[febrúar] og aðfaranóttina hins 7. og nokkur snöp komin þar sem snjógrynnst var.
Febrúar. Óstöðug tíð. Nokkuð hlýtt var fram eftir mánuði, en síðan kólnaði verulega.
Tíminn segir 26.febrúar af tíð - (og eldgosi - en endurtekur þar Þjóðólf):
Tíðarfarið hefir verið nokkuð vindasamt á sunnan og útsunnan og óstöðugt síðan 22.[janúar]. Þíðviðri og rigningar miklar hafa öðru hverju gengið til þess 15. [febrúar], og gekk þá í vestan átt og éljagang er hélst til hins 19. Síðan hefir verið norðankólga með gaddfrosti, sem varð 14° [-17,5°C] hér í Reykjavík þann 22. þ.m. Með austanpóstinum fréttist að væri besta tíð, en rigningar miklar þar eystra. Nóttina milli hins 18.19. [febrúar] gjörði ofsa sunnanveður, er gekk til útnorðurs daginn eftir með 5° frosti, sleit þá upp á Vogavík þilskipið Dagmar, eign þeirra síra Þ. Böðvarssonar í Görðum, Þ. Egilssonar faktors í Hafnarfirði o.fl. Það var að leggja út á hákarlaveiðar, en hleypti þar inn, mennirnir komust af, en skipið laskaðist eitthvað. Eigi hefir heyrst getið um annan skaða af veðri þessu.
Tíminn birti þann 25.apríl bréf úr Þingeyjarsýslu, dagsett 26.febrúar:
Almennustu fréttir eru: Öndverðlega vetrar hófust hér harðindi, með jarðbönnum af áfreða og snjó, oftast norðaustan, fyrst með bleytu (krapa)- hríðum sem olli áfreða og jarðbönnum þegar fraus, síðan snjókomuhríðir með frosti frá því á jólaföstu til miðsvetrar, þá var kominn hér svo mikill snjór, að tíðum hefir ekki orðið meiri yfir heilan vetur. Með þorra má kalla að batnaði nokkuð veðurátt, létti þá hríðum og linaði frost, hafa síðan verið smáblotar með köflum, snjór sigið mikið við það, og víða komið upp nokkur jörð fyrir sauðfé, en í seinustu viku þorra gjörði norðan snjóhríðar með frosti og snjókomu, svo nú er mjög jarðlítið og tíðarfarið ískyggilegt, það má því segja að harðindin séu eigi búin að skilja við oss Þingeyinga ennþá.
Tíminn segir 8.maí frá strandi franskra skipa 6.mars. Finna má ítarlegri lista yfir skipin í Þjóðólfi þann 3.maí:
Skipströnd á 4 frakkneskum fiskiduggum urðu aðfaranóttina 6.mars í Hornafirði, komust lífs af 31 af öllum skipunum en hinir allir týndust [56 að sögn Þjóðólfs].
Norðanfari segir þann 1.mars:
Síðan aðfaranótt hins 19. [febrúar] og til þess í gær hafa stöðugt verið illviður með hvassviðri, fannkomu og hörkum, er hér urðu mestar 27.[febrúar] 15 stig á R [-19°C], en hríðarnar grimmastar 19.21., svo víða er komin mikil fönn, og fé eigi beitandi vegna hörku og harðviðra. En þá þykjast menn smátt og smátt hafa orðið varir þess, að sandi hafi rignt. Kvartað er á sumum stöðum um veikindi í fé, helst þar, sem því hefir verið mest beitt, kenna menn það sand- eða öskufallinu. ... Aðfaranótt hins 20.[febrúar] lágu 7 menn að norðan, úti í stórhríð í svonefndri Hallandsvík, gagnvart Oddeyri, er grófu sig í fönn, en sakaði þó ekkert; voru þó sumir þeirra meira og minna votir og 2 alveg upp í mitti. Síðan að hríðunum létti af, er sagt að hafís hafi sést norður um Grímsey. ... [Þ.] 18. [febrúar] höfðu 6 eða 7 menn á báti úr Svarfaðardal lagt á stað þaðan, er ætluðu á hvalfjöruna [hval rak á Látraströnd], en um nóttina brast í landnorðan garð og snjókomu. svo ekkert sást, en tunglskinslaust; urðu því áttavilltir og þorðu hvergi að leita lands, þar til daginn eftir að dálítið birti upp og sást til lands og náðist í Hrísey, var þá einn maðurinn látinn, ... og 2 aðrir langt leiddir, er lakast höfðu verið útbúnir ...
Norðanfari birti þann 12.mars bréf úr Siglufirði dagsett 3.mars:
[Þ.] 20.[febrúar] lögðu 3 vetrarskip héðan, úr Fljótum hlaðin af kornvöru og nokkrum hákarlsafla, eitt þeirra, sem síbast kom inneftir, gat ekki lent vegna þess hvað lágsjávað var og var það því lagt á floti og beðið flóðs, enn um kvöldið gekk í blindbyl, sleit þá skipið upp og hvolfdist; drukknuðu þar 2 menn, sem höfða átt að ausa skipið, einnig fórst þar mikið af kornvöru, sem fátækir menn í Fljótum áttu.
[Blaðið bætir við] Auk þessa hefir oss verið sagt frá tildrögum að tjóni þessu þannig: Að nefndar 3 skipshafnir hefðu öndverðlega á þorranum róið til hákarls, og fengið dálítinn afla, en vegna ofviðurs legið stutt og með herkjum náð Siglufirði, síðan gengið frá skipunum og heim. Að nokkrum tíma liðnum var farið aftur að vitja skipanna og lagt af stað umgetinn dag úr Siglufirði í góðu veðri, en þá áleið daginn laust á nefndum blindbyl; þeir fyrstu höfðu náð Mósvík í Fljótum og hleypt þar skipinu flötu upp, til þess að það fylltist síður, Hinir er næst komu héldu að fyllt hefði hjá þeim er á undan voru, sneru því við frá Mósvíkinni og austur á Haganesvík og lögðust þar, var þá þriðja skipið komið fyrir upp í sand, lét þá formaður þess sækja mennina á byttu fram á skipið, nema 2 af þeim, sem áður er getið, urðu eftir, ... er átti að sækja í næstu ferð sem ómögulegt varð. Svo hafði hríðin verið grimm, að strengdur var kapall úr skipinu og upp í búðirnar til að fara eftir, að suma sleit af honum. Um síðir höfðu þó skipverjar allir, er á land komust, náð einni búðinni og orðið að láta þar berast fyrir um nóttina.
Úr bréfi úr Flatey á Skjálfandaflóa, [4.mars] Fátt er héðan að frétta nema framúrskarandi óstillingu í veðuráttunni. Oftast nær rok úr hvaða átt sem veðrið er. Hér á eyjunni, er nú sem stendur góð jörð og líka á Flateyjardal handa útigangspeningi. Þriðjudaginn 18. [febrúar] kl.4 e.m. lagði bytta sem átti hér heima, með 3 karlmönnum og 2 kvenmönnum úr Naustavík í Náttfaravíkum (þaðan og hingað eru rúmar 3 vikur sjáar), en um kveldið brast í austan hríðargarð, svo byttan fórst, líkast til fram undan Þorgeirshöfða, sem gengur fram milli fjarðanna hér vestur frá, því að þar hefur rekið ýmislegt úr byttunni árar og fleira, en engan manninn hefur enn rekið.
Mars. Fremur hlýtt í veðri en nokkuð úrkomu- og umhleypingasamt, sérstaklega framan af.
Úrkomumælir á Teigarhorni fauk á hliðina í stormi þann 18.mars. Illa var gengið frá þessum mælum fyrstu árin.
Þjóðólfur segir af mannsköðum og tíð í pistlum þann 14.mars:
Mánudaginn 3.[mars] fóru nokkur [46?] skip af Álftanesi inn í Fjörð" (Hafnarfjörð), til þess að sækja sér salt og aðrar nauðsynjar til vertíðarinnar; fyrir einu því skipi var Sveinn Sigurðsson bóndi í Árnakoti, við 6. mann; urðu þeir síðbúnari til heimferðar úr Firðinum heldur en hinir, og þó eigi frekar en svo, að sá er var næst á undan þeim, Jón trésmiður Steingrímsson í Sviðholti, var einmitt nýbúinn að ná lendingu í sínum vörum, þegar datt á um miðmundabil með él sem haldið er, að skipi þessu hafi grandað þar á Brekkugrynningum framundan Hliðsnesi. Skipinu hvolfdi þarna með öllum mönnunum, og var það brátt róið upp í Hliðsnes, og voru þá 2 skipverjanna fastir í öðru seglinu. Unglingstúlka ein 14 vetra (átti að verða staðfest í vor), stjúpdóttir bóndans í Húki í Miðfirði, var send út yfir Hrútafjarðarháls fimmtudaginn síðastan í þorra (20.[febrúar] og var eigi undrast um hana, þótt eigi kæmi hún aftur um kveldið, né næsta daginn, enda hafði þá verið illt veður þar nyrðra; en von bráðar spurðist vestanyfir, að stúlkan hafði lagt á stað samdægurs (20.f.m.) heim á leið, upp á hálsinn, fannst einnig nokkru síðar örend um þær stöðvar.
Norðanfari segir 19.mars:
Með Pétri Ólafssyni, sendimanni Lárusar sýslumanns Sveinbjörnssonar á Húsavík, er kom hingað 14.[mars] úr ferð sinni sunnan úr Reykjavík og austan af Eyrarbakka, ... fréttist, að syðra hefðu alltaf verið nægar jarðir, því að einlægt hafði verið blóðrautt, en hvassviðra samt og stundum stór veður, svo víða fauk meira og minna úr heyjum, en þó mest hjá einum manni í Lundareykjadal, er tapaði um 30 hestum, og bátur hafði fokið á Hvalfjarðarströnd. Fyrir austan Hellisheiði hafði varla sést snjór millum fjalls og fjöru, og Ölfusá marauð og skaralaus í sjó út.
Þjóðólfur segir enn af eldgosinu þann 21.mars:
Hvergi að er það að heyra, að vart hafi orðið eldgossins, eður neinna menja þess nær né fjær, síðan um 23.[janúar] eftir því sem hermt var hér í blaðinu 26.[febrúar], eftir skýrslum Skaftfellinga, því hvergi hér um vestari sveitirnar urðu menn eldsins varir, svo að til hafi spurst eða vissa þyki fyrir, lengur en til 13.14. janúar. Reyndar voru nokkrir sjómenn úr Biskupstungum og Laugardal á því, að laugardaginn. 15.[febrúar] hefði þar um slóðir sést glögglega mökkur, um sömu stöðvar sem eldurinn sást í janúar; og vera má að svo hafi verið, en getur líka hafa verið missýning.
Tíminn segir þann 19.mars:
Pósturinn að norðan kom hér kl. 9 að morgni. Hann fór hinn 3.[mars] frá Friðriksgáfu [Möðruvöllum í Hörgárdal], og fékk sífellda ófærð sökum snjóa er dreif niður 1. og 2. [mars]
Úr bréfi að vestan: Hin blíða sumarveðrátta endaði með septembermánuði, því með byrjun október tóku til kaföld og frostgangur með sunnan og landsunnanbleytu-kaföldum og blotum og þessi veðurátta hélst þar til með byrjun desember, þá kom hér um 20 daga hagstæð veðurátta, eftir það tóku til norðankaföld og kólgugarður, þar til síðustu dagana af janúarmánuði, þá gerði blota og síðan hláku, er hélst enn í dag 7.febrúar. Vetrarfarið hefir því sumstaðar verið í harðara lagi og janúarmánuður að samtöldu sá 3.4. kaldasti nú í 30 ár (-5°R).
Tíðarfarið síðan 20.[febrúar] hefur verið á þessa leið: Norðanátt oftast með töluverðum stormi og frostum, frá 21. til 27.[febrúar] frost hæst 14° [-17,5°C] þann 25. Þ. 28. var þítt og gott veður. 1. og 2. [mars] dreif hér niður hinn mesta snjó er menn muna eftir á Suðurlandi um þenna tíma árs, snjó þenna tók upp aftur að mestu með sólbráði og hláku þann 14. og 15.; frá þeim 3. til 11. var vindasamt af landsuðri og vestri og óstöðugt ýmist með blotum eða frosti. 11.14. var heiðríkt og gott veður, 12° frost hinn 13.
Þjóðólfur segir þann 9.apríl frá skipskaða sem varð 24.mars:
Mánudaginn 24.[mars] lögðu nokkur skip og bátar héðan að innan út í syðri veiðistöðvarnar; 2 þessara báta átti Geir Zöega; þegar kom suður á móts við Seltjarnarnes hvessti hann og varð þverari, svo að jafnvel báðir þeir bátarnir leituðu lendingar að Hliði á Álftanesi, en víst annar, sá er Guðmundur vinnumaður G. Zöega var formaður fyrir. Hann var aðeins við annan mann, Ingólf, er kallaður hefir verið hinn sterki hér syðra, Sigmundsson, upprunninn af Skagaströnd og bóndi þar um mörg ár, en fluttur nú fyrir fám árum norður á Höfðaströnd í Skagafjarðarsýslu. Kvenmaður einn fór með þeim héðan að innan. Nú er þeir voru lentir fyrir nokkru þar á Hliði, virtist þeim, að veðrinu lægði svo að alfært væri í Vogana þaðan, og ýttu þeir svo fram aftur og lögðu af stað, hversu sem þeir voru þess afeggjaðir af Hliðsmönnum; fóru þeir þá 2 einir, því kvenmaðurinn lattist fararinnar, enda var eigi sjálf áfram um það, og varð hún svo eftir. Hefir eigi spurst síðan til báts þessa né manna. ...
Norðanfari birtir nýleg bréf og segir fréttir þann 9.apríl
[Suðurmúlasýslu 21.mars] Í gær frétti ég úr lausafregn, að ofsaveður sunnan, sem kom hér 6.[mars] hafi rekið á land suður í Lóni 4 fiskiskútur og brotið flestar í mola.
[Barðastrandarsýslu 10.mars] Heilsufar manna hefir verið bæði árið sem leið, og það sem af þessu er liðið með besta móti. Veðuráttufar á þessum vetri hefur verið fremur vinda- og umhleypingasamt en víðast hefur alltaf verið jörð fyrir útigangspening. Fiskiafli er og hefir verið allt af meiri og minni við Ísafjarðardjúp, ... Frost hefur hér orðið mest 12° á R [-15°C] en ekki nema fáa daga, því strax á eftir var komið 1° hiti.
[Svo segir blaðið] Í einu stórviðrinu vestra höfðu 30 hestar af heyi fokið á Ballará á Skarðsströnd í Dalasýslu og timburþak af hlöðu á Óspakseyri við Bitrufjörð í Strandasýslu. ... Síðan um miðjan fyrra mánuð [mars], hefir nálega á hverjum degi verið hér nyrðra um allar sveitir hin mesta öndvegistíð, hlákur eða þíður svo í öllum snjóléttum sveitum er að kalla orðið öríst, og enda sumstaðar farið að votta fyrir gróðri. Hér og hvar er sagt að geldfé sé farið að liggja úti.
[Reyðarfirði 24.mars] Mjög hefir verið óstöðugt og veðrasamt þorrann og góuna og oft komið harðsnúnir byljir og hroðalegir. Frostlítið og snjólítið um alla Fjörðu, en meiri snjór í Héraði. Þó eru þar nú allstaðar jarðir nema á Útmannasveit og svo í Tungu, þar eru mikil svellalög og jökull. Veturinn hefir verið harður sumstaðar og sumir orðnir heylitlir.
[Eskifirði 21.mars] Veturinn frá þorrabyrjun hefir verið einkar góður, svo hér í sveit er nú marautt upp undir fjallatinda. Út á Héraði er enn jarðlaust og á Jökuldal nýkomin snöp fyrir sauði. Aflast hefir hér þegar leitað hefir verið, en sökum vangæfta hefir eigi verið hægt að fiska nema stöku sinnum. Nóttina milli hins 6. og 7. [mars] var hér ákaflega hvasst austanveður, svo aldrei linnti roki; Drengur varð hér úti 16.[febrúar] á Vöðlavíkurheiði, sem liggur millum Reyðarfjarðar og Vöðlavíkur; þann dag var ofviður mikið og blindhríð, sáu menn, þá drengurinn fannst, að honum hafði slegið niður.
Og enn segir Þjóðólfur af eldgosinu í pistli þann 22.apríl:
Hið eina er barst með póstum í [mars] um eldgosið upp úr Skaftárjökli eður Vatnajökli 9. janúar, að því leyti að eigi hefir verið fyrri minnst á hér í blaðinu, er það, hvenær og hvernig eldgos þetta kom í ljós í Norðurmúlasýslu. Um þetta þykir kafli sá, er hér kemur úr bréfi frá síra Þorvaldi Ásgeirssyni á Hofteigi dags. 26. janúar verður þess, að hann komi fyrir allra augu: Þegar komið var út um morguninn 11. þ. mán., sást ekki á dökkan díl fyrir öskufalli, og í Möðrudal á Fjöllum tók eigi að birta í húsum fyrr en sól var komin upp, því að þá fór að birta í suðrinu. Öskufall þetta nær um allt Austurland, en mest á fjöllum uppi. Í Möðrudal mun aska hafa verið fingurs þykk, og einnig á fjöllunum. Dunur og dynkir heyrðust hér hinn 12., en þá var öskufallinu létt. Ekki vita menn neitt hér hvaðan þessi ófögnuður stafar, þá að helst sé grunur um Vatnajökul þar eð eldroði síst mikill í þeirri átt að kvöldi hins 11., og það svo, að miklu meir lýsti af honum en tunglinu er þá var í fyllingu. Þessi aska er nú öll komin í kaf, og var það máski mikið lán, að hún skyldi koma ofan á svo mikinn snjó".
Apríl. Hlý tíð og hagstæð lengst af.
Norðanfari birti þann 28.maí bréf úr Seyðisfirði, dagsett 28.apríl:
Þá er nú komið sól og sumar, og það meira en að nafninu einu, og má segja, áð tvennar séu tíðirnar, núna um miðsvetrarleytið í vetur, þegar engri skepnu var vært né stætt fyrir stórhríðum og snjókyngi. Nú er svo langt frá, að nokkurstaðar sé svell eða snjó að sjá í byggð, að túnin eru talsvert farin að grænka og haginn að lifna, allstaðar orðið ristu- og stunguþítt, og víða búið að vinna á túnum. Sauðfé og hross ganga sjálfala um hlíðar og haga og eru þegar farin að taka bata og bragðast, og þó kúm sé ennþá haldið inni af því nú mun víðast nóg fóðrið, þá má fullyrða að þær hafi einatt endrarnær verið leystar út á lélegri haga á skömmu fyrir fardaga enn nú eru komnir. Sjávarafli er kominn góður, bæði af fiski og hákarli, og sumir þegar búnir að hluta vel.
Tíminn segir 8.maí:
Norðanpóstur kom hingað 3. [maí]. Úr bréfum sem bárust með honum er bestu tíð að frétta um allt Norðurland síðan í mars, skip komu inn þar snemma venju framar, hafíslaust, síldarafli viðunarlegur á Eyjafirði og aflavart orðið. Vestanpóstur kom hingað 5. [maí], með honum fréttist, að besta tíð sé á Vesturlandi, og einmánuðurinn hafi verið sérlega góður; fiskilítið undir jökli, en ágætur fiskafli á Ísafirði. Í fyrri mánuði ráku 2 hvalir á land í Strandasýslu undan hafíshroða, er snöggvast rak þar inn.
Maí. Köld og þurr tíð. Slæmt hret um og uppúr miðjum mánuði.
Séra Þorleifur í Hvammi segir í athugasemdum í maí: [19.] Festi snjó í byggð og fjöllum að nóttu. [21.] Snjóhríð að nóttu með hvassviðri og kófi að deginum. [23.] Snjóhríð með éljum [síðdegis].
Norðanfari segir af tíð þann 28.maí:
Síðan eftir kóngsbænadag [9.maí] hefur oftast verið hafátt og kuldar og stundum 46° frost á nóttunni og einstöku sinnum frost á daginn. Gróðurinn sem kominn var, hefur því varla getað haldist við, jörðin líka af hinum langvinnu þurrkum orðin svo skræld, en fyrir það óvíða kalin. Heybirgðirnar eru allstaðar sagðar nægar og skepnuhöldin með besta móti. Áður en kuldarnir byrjuðu, voru nokkrir farnir að láta út kýr sínar. Vegna hinnar góðu veðuráttu, sem var í vor, hófst útivinna miklu fyrr en að undanförnu sem mörgum hefur komið vel. ... Hafísinn er sagður mikill, þá kemur 1216 mílur [væntanlega danskar] undan landi, og skipin því oft orðið að flýja undan honum frá meiri eða minni afla.
Júní. Fremur kalt og fremur þurrt lengst af, þó vætti nokkuð þegar á leið.
Tíminn segir þann 16.júní:
Síðan norðanveðrinu slotaði, er varaði frá 15.24.[maí], með gaddi og snjó til sveita helst á Norðurlandi; í Mýrdalnum var þúfnafyllir af snjó á uppstigningardag [22.maí], en síðan hefir verið dágott veður á Suðurlandi en þó oftast kalt. Sagt er að endrum og sinnum sjáist i Skaftárjökli reykjarmökkur á þeim stöðvum er eldgosið var í vetur, og öskufalls varð vart víða þar eystra í fyrra mánuði þegar póstur var þar á ferðinni.
Norðanfari segir af tíð 17.júní:
Lengst af í vor, hafa hér nyrðra verið þurrviðri og kuldar svo gróðrinum hefur lítið farið fram, allt til þess í næstliðinni viku, að hér rigndi dálítið, svo nú eru allgóðar horfur á grasvexti; þá er aftur kvartað víða yfir grasmaðki, einkum á harðvelli, sem menn segja að þegar sé orðið töluvert mein að, og skepnur flýi. Lítið hefur síðan á dögunum aflast af hákarli, bæði vegna sífelldra ógæfta og hafísþaka upp fyrir hin dýpri mið. Aftur hafa nokkur skipin fengið svo tugum skiptir af sel, er sleginn hefir verið á ísnum. Mikill fiskafli er nú sagður kominn hér úti fyrir þá beita er góð. Að sunnan er að frétta miklar rigningar og ótíð, á meðan þurrkarnir voru hér, en hlaðfiski þá gaf að róa.
Júlí. Kalt í veðri lengst af. Nokkuð slæmt hret upp úr miðjum mánuði.
Þann 10.júlí hófust veðurathuganir aftur í Grímsey. Séra Pétur Guðmundsson athugaði. Þar segir hann frá krepju þann 18. - og hiti um miðjan dag var 0,0 stig.
Séra Þorleifur í Hvammi segir þann 18.: Fjöll alsnjóa að nóttu.
Tíminn birti þann 12.ágúst bréf úr Suður-Múlasýslu, ritað 11.júlí:
Hér hafa gengið rigningar hálfan mánuð, svo menn muna varla aðrar eins á þeim tíma. Grasvöxtur er allgóður, sauðburðurinn gekk allstaðar vel, því féð var vel fært í vor. ... Afli er nú góður við allt Austurland; vörp skemmdust í miðjum júní af rigningum.
Tíminn greinir af tíð þann 12.júlí:
Árferðið hefir verið síðan Tíminn kom seinast út, á þessa leið: Oftast þurrviðri, austanátt og stundum landnyrðingur með krapakalsa og hornriða til fjalla, hitadagar hafa fáir verið, nema dagana frá 18.22., 26. og 30. [júní] Grasspretta er enn talin víðast í minna lagi, einkanlega á túnum. Fiskiafli hefir verið hér innan Faxaflóa í meðallagi, eins kringum Jökul og á Breiðafirði. Um tíma hefir verið gæftalítið, en þá gefið hefir, hefir verið líflegur afli af þorski og smáfiski. Þilskipaafli hefir verið allgóður síðan á dögunum. Nú er um þessa daga norðanátt og þerrir.
Norðanfari birti þann 9.ágúst bréf úr Aðaldal í Þingeyjarsýslu, dagsett 21.júlí:
Fimmtudaginn þann 17.[júlí] var hér allra versta veður, fyrst með stórrigningu viðlíka og á hausti og upp út því snjókomuhríð ákaflega mikil, svo alhvítnaði hér um dalinn, en norður undan er að sjá svo mikinn snjó til heiða og afrétta, að menn halda að fé hafi fennt sumstaðar, þó það ef til vill hafi seinna skriðið úr fönn við vatnsverið, sem tók við eftir snjófallið. Síðan bága sumarið 1848, muna menn ekki eftir jafnlitlum grasvexti og nú bæði á túni og engi, sem hvortveggja lítur hörmulega út, þó jörð sýnist hvergi rótkalin, er þó svo mikill kyrkingur í grasvextinum að furðu gegnir.
Víkverji greinir frá tíð þann 4.ágúst:
Af tíðarfari á Vesturlandi sunnan Breiðafjarðar er það að segja, að allan júlímánuð allt til hins 20. hafa gengið norðan- og austnorðanstormar með kalsakrapa, og einstaka sinnum snjógangi til fjalla. Hitinn um hæstan daginn hefir verið mest: 11°, minnst: 2°R. í skugganum. Loftþyngdin hefir verið milli 27"28" [franskar, 974 til 1010 hPa], og varla nokkurn tíma þar yfir. Grasvöxtur á túnum mjög lítill og sláttur byrjaður allstaðar í síðasta lagi; málnytja mjög rýr.
Þjóðólfur segir enn af eldgosinu í Vatnajökli þann 9.ágúst:
Eldsins þess er upp kom í Vatnajökli eftir nýárið, varð að því leyti vart þar eystra, um Síðu og Meðalland, fram eftir öllu vori og fram yfir miðjan júnímánuð að jafnaðarlega sást reykjarmökkur um sömu stöðvarnar þegar heiðskírt var, meira og minna; en aldrei sást eldur og einskis öskufalls varð vart, svo að eftir væri tekið. En eftir því sem síra Jóhann prófastur Briem hafði skrifað Guðmundi kaupmanni Thorgrímssen nú um mánaðamótin (bréf G.Th. hingað 6. [ágúst] um þetta, hefir oss góðfúslega sýnt verið, en þar er eigi getið dagsetningar á bréfi síra J.K.Br.), heldur segir þar, aðeins: Um þessa dagana hefir þar um Ytri-hrepp (ofantil?) komið öskufall svo mikið, að miklu meira varð en þegar mest var í janúar er leið, og hafði allur málnytufénaður hríðgelst eður dottið úr honum öll málnytan.
Ágúst. Hretasamt veðurlag, sérstaklega norðanlands. Sumir telja þó hagstætt veðurlag þegar á heildina litið.
Þann 2.ágúst hófust veðurathuganir í Papey. Jón Þorvarðsson athugaði. Aðaláhersla var lögð á sjávarhitamælingar.
Séra Þorleifur í Hvammi segir: Snjóaði að nóttu ofan í miðjar hlíðar, f.m. éljadrög að aftni.
Norðanfari segir frá 9.ágúst:
Á útkjálkum og fram til dala varð hér í Eyjafjarðarsýslu og sumstaðar fyrir vestan alhvítt ofan í sjó og ár, enda um miðjar sveitir. Þegar uppbirti var að sjá ærinn snjó til fjalla, og öll líkindi til að fé hefði fennt, en vegna þess að snjóinn tók fljótt upp aftur, hefir líklega ekki orðið tjón að honum til muna. Nú í seinustu óveðrunum, er sagt að víða hafi hér norðanlands rekið talsvert af rekavið, er þetta nýlunda, þar sem um mörg undanfarin ár, hefur alls ekkert rekið.
Endur og sinnum hafa menn þóst verða varir við, að sandi og ösku hafi rignt, sem eðlilegt er, þar sem fullyrt er að eldur sé enn uppi í Vatnajökli. Yfir allt hér nyrðra er kvartað um málnytubrest mikinn. Alltaf haldast hér óþerrar miklir, svo töðurnar liggja undir skemmdum.
Þann 11.september segir Víkverji fréttir að vestan - virðast dagsettar 27.ágúst:
Um 20.júlí eður með byrjun hundadaga brá til hlýviðra eftir hina langvinnu kuldastorma, sem áður höfðu gengið. Voru útnyrðingar og landsynningar á víxl, sem hér eru taldar hagstæðustu áttir, í fullan hálfan mánuð. Hitinn var frá 10 til 14°R. Loftþunginn fyrst milli 29 30" og síðar milli 2928". Eftir það gjörði austnorðanstorma með kulda og snjó til fjalla (14.15. ágúst) og á Vestfjörðum snjóaði sumstaðar i sjó. Hitinn varð þá að eins frá 8 til 4° og loftþunginn lék á milli 28 og 27". Því næst hlýnaði aftur (89°) og létti í lofti (28") og gjörði logn eður andvara fram til hins 20., en síðan hafa verið hægviðri að jafnaði með nokkurri rigningu og er hvað mest regn af landsuðri í dag, hinn 27.ágúst.
Víkverji segir þann 4.september (dálítið stytt hér):
Veðráttufar í Reykjavík í 19.viku sumars: [Þ.28.ágúst] Stormur af norðri, við og við sólskin, hafði snjóað í fjöll um nóttina, 29. stinningsnorðankul, heiðríkt loft, 30. hæg norðangola, heiður himinn, 31. um morguninn þykkt loft, eftir dagmál hægur norðankaldi, heiður himinn. 1., 2. og 3.[september] Lygnt veður og heiðríkt. Engin úrkoma alla vikuna.
Norðanfari birti þann 27.október bréf úr Hrútafirði, dagsett 6.september:
Frá aprílmánaðarlokum og fram í miðjan júlí var köld veðurátta með smá snjóhretum og frostum, varð því mjög graslítið bæði á túnum og engjum, þó er nokkuð betur sprottið gras til fjalla og hálsa þar sem graslendi er. Eftir miðjan júlí hefir oftast verið hlýrra veður og nægir þurrkar, þó hafa síðan komið 2 snjóhret. Það sem liðið er af þessum mánuði, hefur verið logn og blíða nema í dag.
Tíminn birti þann 15.október bréf af Austfjörðum, dagsett þann 8.september:
Tíðarfarið hefir verið hér eitthvert hið hagfelldasta á þessu sumri, þegar á allt er litið, einkum í fjarðarsveitunum, þar sem sjaldan sem aldrei býðst nóg, hvað þá heldur of mikið af þurrviðrunum; upp til dala og uppsveita, hafa þurrkarnir jafnvel orðið heldur til miklir og orðið því til grashnekkis, grasbrestur hefir annars verið tilfinnanlegur í sumar, sér í lagi á útengi, en vegna þurrkanna hefir nýtingin gefist svo, að heyafli manna víðast hvar lítur út fyrir að verði viðunandi eða jafnvel í góðu meðallagi; þá hefir eigi síður látið í ári fyrir þeim er við sjóinn búa, hefir hann i sumar mátt heita krökkur upp í þurra landsteina af flestum fiskitegundum, og að því skapi mun dæmafár afli á land kominn, um þetta leyti árs hjá sumum þeirra er því hafa sætt.
September. Lengst af nokkuð hagstæð tíð, en þó ekki illviðralaus.
Þjóðólfur segir þann 6.október frá slysförum nærri réttum í september:
Mánudaginn 22. og þriðjudaginn 23.[september] þá almennt stóðu yfir fjallgöngur og afréttasöfn hér sunnanlands var hér slagveðursrigning yfir allt, eigi síst til fjalla, og mátti [vantar línu í ljósmynd af blaðinu] er fellur um afrétt Gnúpverja og í Þjórsá. Fyrra daginn (22.) koma 4 Flóamenn (er ætluðu að starfa að fjallsafninu og framrekstri þess til réttar neðan héraðið og ætluðu uppyfir Þverá, riðu 2 þeirra út í ána og slarkaðist öðrum uppyfir, en hinn Helgi Helgason frá Hellukoti S Eyrarbakka, losnaði við hestinn í kafinu og fórst hann þar", því straumurinn og iðukastið, sem mikið var, bar hann brátt ofan í Þjórsá, en hesturinn komst upp úr. Daginn eftir 23. í áliðnum degi, var afréttarsafn þeirra Hreppamanna og Flóamanna, því Flóamenn og Skeiða eiga afréttarlönd sín mitt í milli afrétta þeirra Gnúpverja og Hrunamanna komið fram undir byggð; riðu þá frá safninu og safnsmönnum öðrum, er lágu þar í tjöldum sínum og tluðu fram til efstu byggðar, jafnvel allir að bænum að Hrunakrók, 5 menn, flestir eður allir neðan úr Flóa; riðu þrír þeirra útí Stóru-Laxá ófæra, gagnvart Hrunakrók, slarkaði einn yfir en 2 losnuðu við hestana og drukknuðu báðir: Guðmundur Þórarinsson frá Þorleifskoti hjá Laugardælum og Jón Magnússon frá Sölvholti; segir sú fréttin að 2 hafi horfið frá, er þeir sáu harðar farir hinna og eigi lagt út í ána; en önnur frétt og hún enda skrifuð segir að mennirnir hafi verið aðeins 4 alls og allir riðið út í, hafi einn komist yfir og 2 farist, eins og nú var mælt, en hinum 4 er losnað hafi við hestinn, hafi skolað upp (við ytra landið og komist lífs af.
Víkverji birtir þann 16. október úr bréfi af Skógarströnd, dagsett 30.september:
Hinn 28. ágúst brá til þurr- og kyrrviðra og næturfrosta -2°R og hélst til 5.september, þá rigndi 2 daga; eftir það máttu heita þurr- og hlýviðri, oftast á austan landsunnan, til hins 17., þá gjörði norðangarð með frosti. Að morgni hins 20. var útnorðan andvari, en 4° frost [-6°C]. Hinn 21. gekk veðrið til suðurs með ofviðri og rigningu. Hinn 22. sneri veðrinu til norðurs, og gjörði mikla fönn til fjalla og enda nokkra sumstaðar í byggð. Í dag er útnorðanhægð, þokuslegið loft og í morgun 6° frost [-7,5°C].
Víkverji lýsir veðri í Reykjavík í nokkrum pistlum (nokkuð stytt hér):
[18.september] Veðráttufar í Reykjavík í 21.viku sumars: Þ.11. og 12. hægur landnyrðingur, heiður himinn. 13., 14., 15. og 16. hvassviðri af suðri og austri með regnskúrum. 17. hægur austræningur, hálfskýótt loft.
[25.september] Veðráttufar í Reykjavík í 22. viku sumars: Þ.18., 19., 20. hægur landnyrðingur, heiður himinn. 21. hægur landsynningur, skúrahryðjur. 22. sunnanstormur með helliskúrum. 23. sunnanstormur með skúrahryðjum. 24. sunnangola, hálfskýótt loft, einstakar skúrir.
[2.október] Veðráttufar í Reykjavik í 23. viku sumars. Þ.25 hægur landsynningur með skúrum; 26., 27., 28., 29., 30.[september] og l.[október] stöðugt norðanveður, mjög hvasst 27., en lygnara hina dagana. 28. um miðaftan kom él, er gjörði snjóföl á jörðu, annars engin úrkoma en heiður himinn með frost, snjór í öllum fjöllum.
[9.október] Veðráttufar í Reykjavik í 24. viku sumars: Þ.2. landnyrðingur, þegar á daginn leið austan og landsunnangola, rigning um kveldið. 3. hvass útsynningur með skúrahryðjum, 4. landsynningsrigning. 5. hvass á útnorðan með krapaskúrum, 6. hæg norðangola, 7. hvassviðri af norðri, 8. andnyrðingsgola.
[16.október] Veðruáttufar í 25. viku sumars: Þ. 9., 10. og 11. rokviðri af austri síðar af landnorðri, 12. og 13. norðangola, 14. hægviðri af austri, hafði snjóað ofan í sjó um nóttina, 15. hvassviðri af austri með suddarigning.
[25.október] Veðráttufar í Reykjavík í 26. viku sumars og á veturnóttum: Þ.16 útsynningsstormur og rigning, 17. og 18. lygn útsynningur með éljadrögum , 19. snjóaði fyrri hluta dags, hvassviðri af norðri, þegar á daginn leið, 20 austangola, 21. logn, síðan norðangola, 22., 23. og 24. norðanrok, lygndi um miðjan dag 24. og var komið logn um miðaftan.
Október. Óhagstæð tíð, illviðrasöm og köld.
Norðanfari birti úr bréf að austan 31.desember, bréfið er dagsett 9.október:
Tíðarfar og árangur síðan um seinasta nýár hefur verið þessi í stuttu máli: Mikil jarðbönn og áfrerar frá nýári til þorra þá rigningar og eyður ýmist krapaveður, frost og svellalög út þorra og góu gafst mikið hey. Á einmánuði besta tíð og sauðgróður um sumarmál og fé í besta standi, Frá krossmessu til fardaga kuldar, en fé lifði á gróðri. Sauðburður hinn besti og fénaðargagn mikið eftir fráfærur, þá komu kuldarigningar í 3 vikur og óx ekkert gras, en málnyta minnkaði meira en um þriðjung; síðan besta þurrkatíð fram í 22. viku; grasvöxtur lítill á útengi og túnum, þó voru tún í Fjörðum í meðallagi; nýting almennt hin besta og heyföng í meðallagi hér víðast. ... Hausttíð hefur verið umhleypingasöm og rigningalítil, en frostasöm. Í dag er mesta illviðri landnorðan.
Tíminn segir þann 15.október.
Síðan Tíminn kom út seinast 24. [september] hefir oftast verið norðanátt með kulda og stormum til þessa tíma; 26. og 28. kyngdi miklum snjó niður á fjöllum, og þann síðarnefnda festi svo á þau, að hvítt varð af snjó, niður til sjávar. 5° frost var bæði þann 26. og aftur 1.[október].
Norðanfari segir af tíð og fleiru þann 27.október:
Aðfaranótt föstudagsins 10.[október] var hér nyrðra stórrigning með krapa og ofsaveðri landnorðan, svo að möstrin brotnuðu á [tveimur] kaupskipum er lágu á Skagastrandarhöfn, Jasyni og Alfredu, eign stórkaupmannanna Guðmanns og Hillebrandts. Aftara mastrið á Jason hafði brotnað niður við kjöl og um leið 6 plankar í þilfarinu. 2 járnfestar, er héldu Jason frá landi, höfðu báðar hrokkið í sundur. Fiskibát hafði veðrið tekið upp á Árbakka á Skagaströnd og fleygt fram á sjó, og síðan ekki sést. Um þetta leyti hafði fjártakan á Skagaströnd og Hólanesi staðið sem hæst yfir. Á Skagaströndinni hafði fyrir göngurnar verið mikill afli af þorski og ýsu. Veðuráttan hefur oftast verið í haust úrkomu og hretviðrasöm, einkum síðan á leið, svo að þeir sem seinast voru að heyskap, eiga enn meira og minna undir gaddinum og í Skagafirði eru á stöku stað sagðir enn úti frá 50100 hestar heys. Nokkrir eiga og úti mestan sinn eldivið og víða óborið á tún. Vegna ótíðarinnar hefur sjaldan orðið róið til fiskjar, en þó talið víst að fiskur muni fyrir; nýlega voru Sigfirðingar hér, og sögðu þeir þar nokkurn afla þá gæfi að róa. Fjártakan hefur verið hér og á Húsavík (annarstaðar að höfum vér enn ekki frétt) með mesta móti, sem leiðir af grasbrestinum, því flestir munu hafa heyjað með minna móti, líka hið háa verð á kjötinu, einkum því besta; svo munu skuldirnar hafa knúð margan til að farga úr búi sínu, meira enn hann máski hefði mátt missa til að geta heitið þolanlega birgur heima. Féð hefur reynst með vænna móti á hold, en tæpast í meðallagi á mör.
Norðanfari birti 17.janúar 1874 bréf úr Húnavatnssýslu, dagsett 12.október 1873:
Mjög víða var tilfinnanlegur grasbrestur næstliðið sumar, og víða gjörði grasmaðkur mikið tjón, og mun það hafa orðið hvað mest þar ég hefi tilspurt í Skagafjarðardölum, og varð þar sumstaðar ekki byrjaður sláttur fyrr enn í 14 viku sumars. Yfir höfuð hefur sumar þetta verið með þeim kaldari og frost orðið mjög skörp, t.a.m. 2° seinast í ágúst og fyrst í september í samfleyttar 3 nætur eður meir, og mun slíkt fágætt um þann tíma; féll þá gras mjög, einkum á valllendi og vöxtur í sáðgörðum skemmdist. Að öðru leyti var heyskapartíð hin hagkvæmasta yfir allan sláttinn, þurrkar og votviðri til skiptis, svo harðvelli vannst vel fyrir þessa skuld, og líka hinsvegna, að engjar voru að spretta fram eftir sumri allt að höfuðdegi, varð útheyskapur ríflegri en líkindi voru til í fyrstu, en töðubrestur varð mjög tilfinnanlegur, og hafa flestir fengið frá þriðjungi allt að helmingi minni töður en fyrirfarandi ár, og er því mjög lógað nautpeningi, sem orðinn var með flesta móti. Um réttaleytið brá til meiri úrkomu með snjó til fjalla, og þann 27.[september] byrjaði algjörð snjókoma í byggð og hefir síðan verið mjög óstöðug, með iðulegum hríðarbyljum, stundum með litlu frosti, en þó tók yfir í fyrradag hinn 10.[október], var þá hið mesta ofsaveður á austan landnorðan með bleytuhríðardimmu, brotnuðu þá möstur af báðum kaupskipunum á Skagaströnd, en mennirnir voru sóttir á áttæringi, og vart eða ekki var stætt á landi stuðningslaust; fiskhjall, sem stóð fyrir vestan húsin á Skagaströnd tók burtu með öllu í var. Fuglafli var með besta móti við Drangey næstliðið vor, og fengu nokkrir, sem höfðu góðan flekaútbúnað 1000 til hlutar, ...
Þjóðólfur segir af skipströndunum fyrir norðan þann 22.nóvember:
Bæði skipaströndin þar við Skagastrandarkaupstaðina Hólanes og Höfðakaupstað báru að í ofsalandnyrðingsveðri 10.[október]. Það var á föstudag; var hér þá einnig landnyrðingsrok mikið sama dag. Úr báðum skipunum hafði verið búið að flytja i land og heim til búða svo að segja alla útlendu vöruna er þau höfðu haft að færa; aftur var búið að skipa út nokkru af tólg og gærum og nálega 150 tunnum af saltkjöti. Undir eins og ofsaveðrið brast á, höfðu bæði skipin höggvið burtu möstur sín, rak þau síðan í land, löskuðust lítið að öðru, en fóru alveg í strand. Voru skipin bæði og allt þetta strandgóss selt við uppboð 20. f. mán. ... Þess var fyrr getið (á 190 bls, 25. árs) að annað haustskipa þeirra tveggja er Húnaflóa- eður Borðeyrar-Grafaróss-félagið hafði átt von á með vörubirgðir í haust frá Bergen, hefði náð höfn á Borðeyri að kvöldi 9.[október] en þá var eigi frétt til hins er á Grafarós skyldi fara, annað en þetta, að það hefði lagt út frá Bergen 2 dögum fyrri heldur en Borðeyrarskip þetta, er Pétur Fr. Eggerz forstjóri félagsins kom nú sjálfur á. En síðar fréttist, að Grafarós-skipið hefði náð þar höfn einmitt sama daginn, 9. f. m. Má telja það sérstaklega hamingju, að bæði félagsskip þessi skyldi ná svona höfn einmitt þar sem til var ætlað, kvöldinu fyrir þetta mikla veður daginn eftir (10.) er bæði Skagastrandarskipin sleit upp, eins og fyrr var sagt; og var talið vist þar nyrðra, að ekkert skip hefði getað haldist við eða verið líft þar á Húnaflóa téðan dag. Á Borðeyrarhöfninni kvað ekkert skip geta sakað í hvaða stórviðri sem er, en aftur vildi þá svo vel til fyrir Grafarósskipinu, þar sem skipalegan kvað vera miklu ótryggari fyrir ofsaveðri af norðvestri og hánorðri, að ofsaveður þetta stóð af landnorðri eðr norðaustan, en sú átt kvað eigi skæð vera þar við Grafarós.
Víkverji birti þann 6.desember bréf úr Steingrímsfirði, dagsett 27.október:
Vetrarveðráttan hófst á þessum kjálka landsins um og framúr Mikaelsmessu [29.september] og hefir haldist síðan, snjókoman hefir verið svo mikil, að yfir ýmsa fjallgarða er alveg ófært nema á skíðum, og illfært með hesta í byggð, svo að segja haglaust á sumum stöðum, en kýr teknar inn 5 vikum fyrir vetur. Fiskiafli hefir verið í minna lagi í haust vestra við Ísafjarðardjúp, en hér við Steingrímsfjörð með minnsta móti. Sauðfé hefir skorist í besta lagi, heilsufar manna er og hefir verið gott. Það er sagt, að allt sé fullt af hafís fyrir Hornströndum enda sýnist veðráttan eigi leyna því.
Víkverji segir frá fjárskaða í frétt 1.nóvember:
Í norðanroki því, er var 23.[október], hrakti víða fé, þó eigi yrði til stórskaða, að því er heyrst hefir, nema í Þverárkoti á Kjalarnesi. Féð hélt þar við hús í rokinu, en veðrið sleit það frá húsunum og hrakti það í ána sem þá var næst fyrir, og köfnuðu þar milli 20 og 30 fullorðins fjár. Líkur fjárskaði er sagður frá Hlíðarfæti í Borgarfirði.
Þjóðólfur segir frá þann 5.nóvember
Póstskipið Diana, er átti að leggja héðan heimleiðis eftir fararskránni, 18.[október] árdegis, komst eigi af stað fyrr en að morgni 20. (mánudag); var hér besta veður allan þann dag, hægur andvari á norðan, og eins alla aðfaranóttina þriðjudagsins [21.]. Kom það því flatt á alla ofan, er Diana sást koma kæfandi hér norður og inn Flóann, aftur aflíðandi dagmálum, með fullu gufuafli í móti útbyrnum eftir því sem veðurstaðan var hér, og hafði verið síðan morguninn fyrir; en þetta var samt, sem sýndist; póstskipið Diana kom þarna aftursnúið, í móti veðrinu eftir því sem vindstaðan var hér, því norðanrokið sem hér stóð yfir hina næstu 2 dagana, var þá einmitt í hægum uppgangi 21., en náði mestum ósköpunum 22. og 23., þá dagana stóð garðurinn hér lotulaust, en lægði nokkuð og sneri til niðurgangs aftur föstudag 24. Alla þessa fleygibyrsdaga, þegar svona var beint á eftir, suður á leið, lá nú Díana hér, og lagði um síðir af stað í annað sinn að morgni 25.[október]. ... Með síra Páli Jónsyni á Hesti, er hafði riðið norður að Melstað rétt fyrir byrjun fyrra (22.25.[október] norðanveðursins, og hreppti þá svo hart veður á Holtavörðuheiði að hann náði eigi norðuryfir til byggða, heldur varð að grafa mágkonu sína, er hann fylgdi norður, í fönn, binda hestana á streng en varð að vera sjálfur á rjátli alla nóttina, en kom aftur norðan yfir heim til sín 27.-28.[október] ...
Enn reið hér að sterkur norðangarður með ofsaveðri, er stóð yfir dagana 30.31.[október] og fram eftir deginum 1.[nóvember] og var hann engu vægari en fyrri 22.-24., er teppti póstskipið, eins og fyrr var minnst. Í þeim (fyrra) garðinum varð frost hér aldrei meira en 3-4°R og eigi nema lítinn tíma, oftast 1l 1/2 R, en á Gilsbakka í Borgarfirði náði frostið þá dagana -12°C 2.[nóvember], um morguninn var hér - 5,5 R [-7°C].
Norðanfari ræðir tíð stuttlega þann 7.nóvember og birtir kafla úr bréfum sem rituð voru í október:
Veðurátta hér nyrðra var næstliðinn mánuð [október] oftast landnorðan úrkomu- og stormasöm, ýmist með mikilli kraparigning eða snjókomu, en þó mest 10.12. og aftur 22.24., var þá hér að kalla stórhríð með fjarska fannkomu, svo kindur, enda hesta fennti til dauðs. Víðast er nú sagt haglaust vegna áfreða og snjóþyngsla og víðast farið að gefa fullorðnu fé og hrossum.
[Djúpavogi 4.október] Tíðarfar hefur verið hér í sumar um allt Austurland eitthvert hið besta, svo elstu menn muna ekki jafnmikið blíðviðri og langvinna þurrkatíð; grasvöxtur varð með rýrara móti, en nýtingin hin ákjósanlegasta; fyrst 16 september fór veðuráttan að kólna; fölvað hefur hér nokkrum sinnum ofan í mið fjöll.
[Berufjarðarströnd 6.október] Sumar þetta hefur verið eitthvert hið ágætasta hér um svæði með veðuráttufar. Í júlí kom nokkurra daga bras með talsverðum snjó á fjöllum og nokkru frosti ofan að sjó, sem orsakaði hnekki á grasvexti, samt varð hann í meðallagi á túnum og valllendi, en mikið lakari á mýrlendi; helst er á orði að heybirgðir hjá mönnum, muni vera líkastar þeim í fyrra. Frá miðjum júlí voru einstök logn, þokumollur oftast og maðkatíð, en hitinn 121416° á R [15 til 20°C]. Sama tíð mátti beita þrjá fjórðu hlutana af ágúst, en þá kom norðanbras, sem ég er viss um að Norðurland hefur fundið til. Aftaks blíða aftur með september, og mátti heita þrjá fjórðu hluta hans; síðan hefur veðuráttan breytt sér, svo nú eru þessa dagana umhleypingar með hroðaútsynningi og landátt.
[Jökuldal 10.október] Blessað sumarið er nú þegar á enda, það var farsælt og nýting hin besta, en grasbrestur var víða að mun. Fé er með vænsta móti á hold en ekki mörvað að því skapi. Heldur hefur tíðin verið ískyggileg síðan um göngur og mun fjarska snjór kominn á heiðar. Í gær var landnorðan krapahríð, en í dag norðlægari og hroðahvass með köflum.
[Húsavík 29.október] Héðan er ekkert nýtt að frétta, nema að hér eru sífelld norðan stórveður og feikna fannkoma, svo hér má kalla jarðlaust. Harríet komst heil á húfi héðan sunnudaginn 27.f.m. [sennilega er átt við október, 27. en sá dagur var mánudagur, 27.september var hins vegar laugardagur] eftir að hafa staðið af sér hið mikla norðan ofsaveður, er byrjaði 21. og hélst við til þess 24.[október?] og í hverju festarnar, er lágu frá landi í skipið, hrukku í sundur, svo að ekkert var sjáanlegra en að það mundi reka á land, en til allrar hamingju héldu akkeri og festar skipsins þar til veðrinu slotaði. Það má geta nærri, hve áhyggjufullur tími þetta var fyrir skipshöfnina, eins og fyrir okkur í landi; dag og nótt var vörður haldinn, og á nóttunni var ljósið í landi látið standa í gluggunum; vökumennirnir gengu með ljós í luktum, því að menn hugsuðu eigi annað, en að veslings skipið mundi á hverju augnabliki reka á land; en Drottinn hélt sinni verndarhendi yfir því.
[Skagaströnd 29. október] Hér er nú um þessar mundir mesta illviður, sem menn muna eftir, og ég man ekki eftir jafnmiklum snjó um veturnætur sem nú er kominn. Hingað hefur frést að bær hafi brunnið á Sveðjustöðum í Miðfirði. ... Mælt er að jarðskart sé orðið um allan Skagafjörð og hross víða komin á gjöf.
[Svarfaðardal 30. október] Héðan er að frétta mestu ótíð, síðan eftir miðjan september og fyrir nokkru síðan er hér komin svo mikil snjókyngja, að hestar komast varla dagsláttu lengd frá húsi, og því samfara er aflaleysi og stöðugar ógæftir til sjóar.
Nóvember. Hlýtt um tíma fyrir miðjan mánuð, en annars mjög kalt. Úrkomulítið lengst af.
Víkverji birti 6.desember bréf úr Skagafirði, dagsett 14.nóvember:
Mikið hefur tíðin verið stirð það sem liðið er af haustinu. Þegar eftir réttir komu norðankaföld mikil, og varð því heyskapurinn víða endasleppur, og erfiðleikar miklir á því að eiga við ýmis haustverk; sumstaðar urðu hey úti og það að mun. Mestallan fyrra mánuð [október] gengu sífelld illviðri og mun víst meira hafa fennt og hrakið af fé og hrossum, en mönnum enn er kunnugt, og er það þó eigi lítið; á Sjávarborg hrakti þannig um 60 fjár í Miklavatn og fórst það þar allt.
Norðanfari birti 17.janúar 1874 bréf úr Barðastrandarsýslu, dagsett 15.nóvember 1873:
Hið síðastliðna sumar var stutt en hagstætt hvað veðuráttu snertir um heyskapartímann, og fyrir það heyjaðist hér í meðallagi, einasta voru töður töluvert minni en í fyrra og úthey léttara því nýslægja var hvergi ljáberandi, en fornslægja sinumikil, því grasvöxtur var góður í fyrra. ... Síðan í 23. viku sumars og til þessa bata sem nú er, var mjög stirð veðurátta norðanstormar og fannkoma og mest frost 5° á R var svo víða orðið nema til nesja jarðlaust áður þessi bati kom, nú er hvervetna komin upp nóg jörð.
Víkverji birti 10.desember bréf úr Miðfirði, dagsett 14.nóvember:
Veðráttufar hefir verið hér hið stirðasta, svo að elstir menn muna eigi þvílíka tíð allt frá réttum og til 8. nóvember, að brá til sunnanáttar og hláku. Það er, ef til vill, eitthvað hið ónotalegasta, sem fyrir sveitamanninn getur komið slík haustáfelli. Öll haustverk voru ógjörð, hús niðri og óborið á tún og allar skepnur hafa hrakist fjarskalega í staðinn fyrir að taka haustbata, sem er svo einkar áríðandi með búsmala, sem lítið fitnar fyrr en á haustum, þegar hætt er að mjalta hana. Í einum af moldviðrisbyljunum í fyrra mánuði brann til kaldra kola bærinn á Sveðjustöðum.
Tíminn birti þann 23.desember tvö bréf af Norðurlandi, dagsett í nóvember:
[Úr Húnaþingi 10.nóvember] Ég hygg ekkert efunarmál, að nú höfum við Norðlendingar lifað að minnsta kosti að sumu leyti eitthvert hið bágasta haust sem ég hefi heyrt um getið, það mátti heita sífeldar hríðar ýmist með frosti eða krapasletting í sveitum, og mikilli fannkomu jafnast frá 27. september til 2. nóvember, og algjörð innistaða á fé við hús og hey á mörgum stöðum frá 22. október, og sumstaðar voru tekin inn hross, og þó nú hafi verið lítil þíða 2 daga, er þó með öllu jarðlaust á sumum stöðum. Þetta hygg ég dæmalaust, um jarðbannir fyrir allraheilagramessu. Þó illviðrin hafi verið svona stórkostleg, hef ég samt eigi heyrt getið um stórfellda fjárskaða nema á Sjávarborg og Höfða í Skagafirði.
[Úr Eyjafirði, 9.nóvember] Í allri Eyjafjarðar- og Þingeyjarsýslu, er komin meiri fannfergja en elstu menn muna, og allstaðar allar skepnur á gjöf nú i hálfan mánuð, en kýr og lömb voru tekin inn mánuði fyrir vetur. Voru þegar komnar jarðbannir fyrir allraheilagramessu, er það fágætt; að sönnu tók almennt fyrir jörð á þeim tíma hér norðanlands af eintómum snjóþyngslum harðindaveturinn 18011802. Í gær og í dag er hlákubloti, svo fönnin sígur nokkuð, þó sést hvergi á dökkan díl. Hér má heita lítill sem enginn afli vegna gæftaleysis og lasleika, þar honum verður eigi sætt.
Víkverji segir af nóvemberveðri í Reykjavík (nokkuð stytt hér):
[8.nóvember]: [Þ.1. og 2.nóvember] norðanstormur, 3. og 4. norðangola hreinviðri, hvessti um kveldið 4., en lygndi aftur 5., og um dagmál var komið hér lygnt hreinviðri er helst daginn eftir. 7. austangola dimmt loft. Engin úrkoma alla vikuna.
[15.nóvember] [Þ.] 8., 9. og 10. dimmt loft, 11. heiður himinn, 12. hrímþoka mikil, birti upp um nón, 13. heiður himinn; alla þessa daga hæg austanátt eða logn, 14. hægt landsynningur. Menn reru á Svið alla virku dagana og fiskuðu allvel.
[22.nóvember] Að norðan í fyrradag kom kaupstjóri Húnvetninga Pétur Eggerz og Böðvar bóndi á Sveðjustöðum Böðvarsson hingað. Með þeim spurðust meðal annars þessi tíðindi: Um sama leyti og hér brá til hlýinda hafði komið hláka á Norðurlandi og 10. [nóvember] voru komnir upp hagar um alla Húnavatnssýslu. [Hér] blíðviðri, hæg sunnanátt og dimmt loft alla vikuna, 18., 20. og 21. var brim um morguninn og leit hvassviðrislega út. Jafnvel þó næstliðin vetrarvertíð í ýmsum veiðistöðum innan Faxaflóa, t.d. Njarðvíkum, Vogum og Vatnsleysuströnd gæfi langt undir meðalafla, mun samt að öllu samtöldu mega fullyrða, að ár það, sem nú er að líða, muni vera hið þriðja besta aflaár síðan 1858, og munum vér að nokkru leyti eiga það að þakka framförum þeim, er sjómenn vorir sýna í því að bæta skip sín bæði til siglinga og annarra sjósókna.
[29.nóvember] Veðráttufar í 5.viku vetrar. Aðfaranóttina að 22. um óttu snerist veðrið í norðanátt með frosti og helst það við alla vikuna 24. kom nokkur snjór, en 26. var hér þykkur landnorðan snjóbylur, er þó stytti upp um kveldið eftir nokkra fannkomu. ... [Þ.] 28. reyndu 2 menn að róa, en urðu að snúa aftur, fyrir hvassviðri, þegar komið var út fyrir eyjar. Hina dagana var eigi að hugsa til að róa.
Þjóðólfur hrósar tíð þann 22.nóvember:
Blíðviðrin sem nú var minnst og haldist hafa stöðugt allan þennan mánuð, hafa verið eins einstakleg, og það yfir allt Suðurland, og sjálfsagt norðanlands með; því hæg hafátt með lygnum hefir jafnan verið hér veðurstaðan, eins og gjörvallur [október] var hörkukenndur og stormasamur og með fannkomu norðanlands, og blindbyljum einstöku daga, [t.d. norður í Miðfirði 22.[október]]. Frostharkan var eigi nærri að því skapi, vart meir en -1 til 2°R að meðaltali allan [október], þótt frostið yrði hér einn morguninn -5,5°R [-7°C]. Nú það sem af er, nóvember hefir blíðan og frostleysan farið saman, mjög sjaldan stirðnandi um nætur með -1°R, en oftar +2,5-3°R og 17.18 þ. mín. +6 [7,5°C] um hádaginn. Gæftirnar til sjóarins hafa því verið fágætar allan þennan mánuð hér yfir allar veiðistöður, og haustaflinn einstaklega góður og mikill hér yfir allt frá byrjun þessa mánaðar.
Norðanfari birti úr bréf af Héraði 31.desember, dagsett 23.nóvember:
Hausttíðin var hér frostasöm og lagði mjög snemma snjókyngi á fjöll. 10 október var hér mesta foraðsveður, stórrigning með stórviðri á hafaustan, en var allt snjór á fjöllum niður undir bæi og sumstaðar varð haglaust, urðu öll fjöll ófær og fjöldi manna tepptist í kaupstöðum. Síðan voru jafnan vetrarveður frost og snjór til 1. [nóvember], þá kom annað bleytuillviðrið, sem gjörði haglaust um flestar sveitir, þar sem áður var hagi. Síðan voru hægviðri og nú til 21. þ.m. oft frostlítið og þítt um 3 nætur, svo hagi kom þar sem eigi var orðið nema storka áður. Mikið gæftaleysi hefir verið á sjó fram á þennan mánuð og enginn afli, en nú orðið víða vel vart.
Norðanfari birti þann 29.apríl bréf úr Steingrímsfirði ritað 28.nóvember 1873:
Enginn kom sá mánuður yfir allt sumarið, að ekki snjóaði nokkuð, sem von var, því hafísinn lá alltaf skammt undan Hornbjargi. Síðan eftir fjallgöngur hafa verið frost og hríðar. Heyskapur varð hér endasleppur, víða urðu hér hey úti undir gaddinum, og ekki varð tyrft kringum þau er heim komust. Víða hrundu snjóflóð og urðu sumstaðar skepnur manna undir þeim.
Norðanfari segir frá þann 3.desember:
Í Bárðardal er sagt að í hríðunum á dögunum hafi tapast yfir 100 fjár sumt fennt og sumt hrakist í vötn; nokkuð af þessu fé hafði verið ofan frá Mývatni. 8.[nóvember] fór hríðunum að létta af og veðrið að birta og batna, en 14.[nóvember] fyrst að hlána, og síðan var nær því á hverjum degi meiri og minni þíða, svo að í snjóléttum sveitum var kominn upp næg jörð fyrir fullorðið sauðfé og hross, en aftur í snjóþungu sveitunum mátti heita, að varla sæist á dökkan díl. 24.[nóvember] spilltist veðuráttan að nýju með norðanátt hörku og snjókomu, svo víða mun verða lítið um jörð haldist þessi tíð til lengdar. [Þ.] 25.[nóvember] var frostið 15° á Reaumur [-19°C]. Eftir miðjan [nóvember] aflaðist hér svo tunnum skipti af vænni spiksíld, sem þegar var róið með og öfluðu allir meira og minna mestpart af smáum fiski;
Þriðjudaginn hinn 11.[nóvember] voru sjómenn að beita línu í Syðri-Haga á Árskógsströnd, sáu þeir þá glampa mikinn á norðvesturloftinu í stefnu yfir Krossahnjúk, brátt varð glampi þessi svo mikill, að svo var sem eldi eða loga slægi á loft upp fjöllum hærra, og varaði nokkra stund. Nú lögðust menn þessir til svefns. Morguninn eftir reru þeir til fiskjar og námu þar staðar á miði, er Hagabær var í stefnu við Krossahnjúk. Litlu fyrir dag sáu þeir aftur glampa eða eld í svipaðri eða sömu átt, en miklu meiri en kvöldinu fyrir, bæði meiri um sig og miklu hærra á loft upp, en svo virtist, sem vindur stæði á logann af vestri, því logann lagði mjög til austurs. Þegar lína er dregin á uppdrætti Íslands frá Haga yfir Krossahnjúk lendir hún norðan við Hornstrandir. Þannig hefir Jóhann timbursmiður í Syðri-Haga skýrt frá sýn þessari og fullvissaði um, að menn þeir, sem sáu, væru aðgætnir og sannorðir menn. ... Í fyrradag [1.desember] fréttist með mönnum, sem hér voru utan af Látraströnd, að hafís sé kominn hér undir land, og hroði af honum inn í fjarðarmynnið en fáeinir jakar inn að Hrísey; mun það fádæmi að ís hafi kornið hér svona snemma.
Desember. Óhagstæð tíð og fremur köld.
Norðanfari birti 17.janúar 1874 bréf dagsett í desember 1873:
[Húnavatnssýsla óstaðsett 6.desember] Það hygg ég einmælt, að næstliðið haust hafi verið hið lakasta er menn til vita, með stöðugum hríðarbyljum og grimmustu fannkomu til allraheilagramessu svo allstaðar var farið að gefa fullorðnu fé fyrir veturnætur. Víða jarðlaust með öllu, og á sumum stöðum var búið að taka öll hross á gjöf, og mun með öllu dæmalaust bæði að fornu og nýju, og þannig hafi tekið fyrir jörð hér í sýslu um þann tíma. Um þriðju vetrarhelgina svíaði nokkuð um hálfsmánaðartíma, og mátti fremur kalla að það væri góðviðri en verulegar þíður, þá kom upp nokkurn veginn jörð, og á sumum stöðum í lægstu sveitum varð snjólaust. Næstliðinn hálfan mánuð hafa oftast verið norðaustanharðviðri og stundum hríðar. Fiskur er alltaf fyrir þá róið verður, en ógæftir hinar mestu. Hafísjakar voru fyrir jólaföstu komnir bæði á Húnaflóa og Skagaströnd, og ætla ég fá eður engin dæmi til að það hafi fyrr orðið.
[Víðidal 9.desember] Héðan er að frétta harða tíð og snjókomu allmikla. Nú er mjög mikill snjór, en þó er hér eigi jarðbönn, nema langt fram til dala. Ís er sagður kominn inn á firði. Að undanteknum miðhluta nóvember hefir tíðin verið þannig, síðan með byrjun októbermánaðar, og má þó öllu fremur telja það frá 27. september. Nú fyrir fáum dögum rak upp skip með seglum á Vatnsnesinu lítið brotið í roki miklu er þá var; vita menn enn eigi neitt um það hvaðan skipið var, ... eða hve margir menn hafa verið á því, fyrri en nú í þessari svipan að fréttist, að föstudaginn 5.[desember] týndist bátur með 3 mönnum á, ...
Tíminn segir þann 23.desember:
Norðanpósturinn kom hingað 29.[nóvember] hafði hann fengið óveður og illa færð á leiðinni, 30. s.m. kom vestanpóstur, og hafði hin sömu illviðri og ófærðir. Eru sömu harðindi að frétta af Vesturlandi sem að norðan, haust þetta og það af er vetrinum.
Þjóðólfur segir af tíð í pistli þann 12.desember
Veðráttan hefir hinar síðustu 3 vikur verið mjög stirð, og nú um rúma viku hafa hér verið hinir verstu útsynningar, með svo að segja stöðugu kafaldi, en eigi allhörðu frosti, og er því fallinn talsverður snjór og víða orðið hagskart og megn ófærð á fjallvegum. Nú í gær og dag hefir verið góð hláka. Eigi hafa hér á nesinu verið nein tiltök til róðra um þennan tíma, því að eigi hefir mátt heita fært þverfirðis á sjó, og komst norðanpósturinn því eigi af stað héðan úr bænum fyrr en í fyrradag, með því hann varð að sæta sjóvegsferð upp á Kjalarnes.
Víkverji rekur veður í 7. og 8. viku vetrar í pistli þann 24.desember
[Þ.6.desember] útsunnangola, 7., 8. og 9. útsunnanstormur, 10. sunnangola, 11. hvassviðri af suðri með rigningu, 12., 13., 14., 15., og 16. landsunnan og austangola, 17.hvassviðri og rigning af austri, 18. austangola, 19.norðangola og frost. ... Síðan er lygndi 10. þ.m. hafa fleiri menn hér af Seltjarnarnesi róið á Svið og Grunn, en hvergi orðið fiskvarir þar í mót hefir mikill fiskur verið fyrir í Garðs- og Leirsjó, og hafa menn farið þangað suður þessa dagana og fiskað ágætlega.
Norðanfari segir af tíð til loka árs þar um slóðir í pistli 17.janúar 1874:
Veðuráttan hefur verið hér nyrðra síðan 22. nóvember og til 13.[janúar] oftast hvassviðra- og frostasöm með meiri og minni snjókomu nema dag og dag, svo varla, hefur fé orðið beitt þó góð jörð væri sumstaðar til hins 28. desember að gjörði regnskúr um miðjan daginn en frysti aftur um kvöldið, svo mikið skemmdi á jörð. ... [Þ.] 18.19. desember var hér norðanbylur, misstist þá á stöku stöðum bátar og byttur, og á 2 bæjum í Þistilfirði fauk úr heyjum allt að 30 hestum. Einnig hafði tekið út á Tjörnesi eitthvað af kornmat, er nýlega hafði verið komið með úr kaupstað.
Þjóðólfur segir þann 7.janúar 1874 frá desembertíðinni:
Veðráttan var síðari hluta [desember] mjög umhleypingasöm og óstöðug hér sunnanlands. Snjór féll reyndar eigi mjög mikill hér við sjóinn; en aftur á móti gjörði nokkra blota, svo jörð hljóp öll í svell, svo nú má telja jarðbann fyrir allan fénað, og svo er, að því vér höfum frétt, hér í nágrenninu og austur um allar sveitir. Frost varð á, þessum tíma hér í bænum mest (22.desember) 13°R [-16°C], en oftast var það 37°R. Hér hefir því verið mikið vetrarríki, og lítur enn eigi út til neins bata, og fáir menn munu muna, að vetur hafi lagst hér svo snemma að sem í ár;
Víkverji rekur veður í Reykjavík síðasta hluta desember:
[Þ.] 20. norðan gola, 21., 22. og 23. norðan stormur, 24., 25. og 26., norðan gola, 27. hvassviðri af austri, 28. austan gola, 29. sunnan rigning, 30. landsunnan gola, 31. landnorðan gola, en hvessti um kvöldið, 1. og 2. [janúar] Umhleypingar, en höfuðáttin á norðan.
Norðanfari birti þann 18.febrúar bréf dagsett í desember og janúar. Við grípum hér þær lýsingar bréfanna sem eiga við árið 1873:
[Austur-Skaftafellssýslu 24.desember 1873] Héðan er lítið að frétta, nema grasbrest, í sumar sem leið, en gæftir góðar og stöðuga þurrkatíð, þar til með október, að brá til kulda og snjóa og mestu stormatíðar; aftur var oftast í nóvember mild og stillt tíð. Í [desember] hefur verið umhleypingasamt og tvívegis óttaleg grimmdarveður, með óvanalega hörðu frosti, þó hafa hér oftast verið jarðir uppi. ... Sagt er að nýlega hafi enn sést loga upp úr Vatnajökli um sömu stöðvar og í fyrra.
[Húnavatnssýslu 25.desember 1873] Frá 9.20. [desember] var allgóð veðurátta og stundum blotar, en 21.22. landnorðan harðviðrishríð, síðan hreinviðri og mikið frost. 5.[desember] fórst bátur á Miðfirði með 3 mönnum, er haldið að þeir hafi rekist á hafísjaka eða bátnum hvolft af vangá, ... 16.[desember] lagði skip af Vatnsnesi úr Skagastrandarkaupstað heimleiðis, en vindur suðlægur, eftir það gekk veðrið meira til útsuðurs og vesturs, svo lítil líkindi þykja til að þeir hafi getað náð nesinu.
[Berufirði 9.janúar 1874] Veðuráttan var sífellt hörð frá því í haust með norðanátt, frostum og snjóum til þess vika var af jólaföstu, þá brá til útsynninga og vestanáttar, svo meira og minna hlánaði víðast um allt Austurland, komu þá upp meiri og minni hagar, en áður höfðu verið jarðbannir. Á jólaföstunni var stilling og gott vefur í hálfan mánuð, síðan óstilling með umhleypingum, ýmist landnorðan eða útsynningar ...
[Suður-Múlasýslu 22.janúar 1874] Mikið hefur á gengið síðan ég ritaði af stormum, frostum og snjóum; frá 20.desember. var tíð mjög óstillt, gjörði ýmist snjóa og frost, eða blota, og fylgja því jafnan stormar. Voru jarðir víðast er veður leyfði. Eftir sólstöðurnar tóku hörkur að harðna og veðrin að vaxa, jafnan af norðvestri; gjörði þá svo harða svipi, að allt járnþakið sleit af annarri hliðinni á Liverpool, verslunarhúsi Jakobsena á Seyðisfirði; höfðu sperrurnar staðið einar eftir; þá fauk hús er Norðmenn höfðu byggt á Seyðisfirði og selt í sumar seyðfirskum manni; til þess sjást enginn merki nema grunnurinn, timbur fauk allt á sjó út. Í því bjó enginn. Þá fuku og hjallar víða um fjörðu.
[Seyðisfirði 22.janúar 1874] Rosarnir og illviðrin hafa verið framúrskarandi, stormarnir fjarskalegir, frostin fágæt; snjóþyngsli hafa ekki haldist til lengdar, þó talsverðu hafi annað slagið sallað niður, því stórviðrin hafa sópað að mestu öllu upp og saman, og stundum jafnvel heilum og hálfum þúfunum með, svo svört flögin hafa staðið eftir. Sauðfé hefur svo að kalla ekki séð út fyrir dyr, síðan fyrir og um veturnætur nema geldsauðir dag og dag; ... Tvívegis hafa þó veðrin orðið hér mest, í fyrra skiptið 16.18. desember. Byltust hér um 2 timburhús og hjallur, og ónýttist að mestu leyti; meginhluti þaksins fór af hinu þriðja nefnilega verslunarhúsi Jakobsens, svo aftur varð að leggja annað nýtt; hey tók upp að kalla ofan að veggjum, og bátur fauk, svo varla sást neitt eftir af; þar fyrir utan urðu ýmsir fleiri minni skaðar. [Um síðara veðrið lesum við í samantekt um árið 1874]
[Siglufirði 22.janúar] Nóttina fyrir 18. desember, var hér svo mikið norðaustan stórviðri með hríð, að rosknir menn segjast ekki muna annað eins; það gjörði á nokkrum stöðum skaða á skipum og heyjum, en fjárskaða gjörði það ekki, enda var þá fé geymt í húsum.
Lýkur hér að sinni yfirliti hungurdiska um veður og tíðarfar ársins 1873 - fáeinar tölur er að finna í viðhenginu.
Vísindi og fræði | Breytt 25.8.2020 kl. 03:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.8.2020 | 20:46
Á hillunni
Undanfarna daga hefur sólin skinið sunnanlands og fyrir norðan hefur veður verið meinlítið og víða gott. Vindar eru einnig hægir í háloftunum kringum landið eins og sjá má á kortinu hér að neðan.
Það sýnir allstóran hluta norðurhvels jarðar - norðurskaut rétt ofan við miðja mynd og Ísland ekki langt þar fyrir neðan. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar - af þeim má ráða vindátt og vindstyrk. Sjá má að heimskautaröstin hringar sig nú nánast allan hringinn - ekki fjarri 50. til 55. breiddarstigi. Sunnan við hana eru mikil hlýindi (eins og vera ber) - en öllu svalara norðan við. Hitann greinum við af þykktinni sem hér er sýnd með litum.
Vestan við land er dálítil hæð og hún sér um að halda nokkurn veginn hreinu hjá okkur - þó heldur veikburða sé. Ekki er gert ráð fyrir stórfelldum breytingum á þessari stöðu næstu daga. Nokkuð öflugar lægðir ganga með norðurjaðri rastarinnar austur um Bretland og Norður-Evrópu. Gríðarmikil hæð er yfir vestanverðum Bandaríkjunum og önnur yfir Asíu sunnanverðri. Þeir sem sjá vel greina tvo hitabeltisstorma sem örsmáa mjög hlýja bletti á þykktarkortinu - þykktin er yfir 5820 metrar í miðju þeirra. Marco er hér við strönd Mexíkóflóa - og Laura við Kúbu. Það mun óvenjulegt að tveir fellibyljir ógni sama landsvæði með aðeins tveggja daga millibili - og sæmilega áreiðanleg heimild ritstjórans segir slíkt ekki hafa gerst á þessu strandsvæði [Louisiana] á þeim tíma sem heimildir greina frá (230 ár). - En hvort þetta mun gerast er auðvitað óljóst á þessu stigi.
Á myndinni má sjá að rauð punktalína hefur verið dregin um 20 gráður vestur - norður að pól og þaðan aftur til suðurs um 160 gráður austur. Við lítum á 500 hPa-hæð eftir sniðinu.
Hæðin er á lóðrétta ásnum - sýnd í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Lengst til vinstri er staður ekki langt frá Kanaríeyjum. Þar er hæð 500 hPa-flatarins rúmlega 5900 dekametrar. Ef við fylgjum ferlinum til hægri kemur þar sem hann fellur mjög ört - þar er heimskautaröstin með sinn stríða vestanvind. Norðan við hana er aftur flatneskja - hækkar aðeins nærri Íslandi (gætir hæðarinnar vestur undan). Norðan við 70.breiddarstig fellur hæðin hins vegar mjög ört aftur - þar komum við inn í stóran kuldapoll (sjá fyrri mynd) og handan hans er önnur flatneskja og svo dálítill kuldapollur - en mun veigaminni en hinn. Þá er aftur komið inn á áhrifasvæði heimskautarastarinnar.
Á þessum árstíma eru ákveðin þáttaskil í veðrakerfinu - vindátt snýst úr austri til vesturs í heiðhvolfinu (meir en 20 km hæð) og örar fer að kólna á norðurslóðum. Kuldapollarnir taka að vaxa. Við sjáum að lægsta hæð 500 hPa-flatarins á kortinu er 5260 metrar. Í janúar - eftir um 5 mánuði verða lægstu tölur í kringum 4750 metrar - (nokkuð breytilegar frá degi til dags) - hæðin hefur fallið um 500 metra eða þar um bil. Suður við hvarfbaug hefur hæðin breyst mun minna - algeng hæð á þeim tíma árs er þar um 5800 metrar. Hæðarmunur milli kaldra og hlýrra svæða hefur því aukist um 400 til 500 metra, 7 til 8 jafnhæðarlínur hafa bæst á kortið - um það bil tvær á hverjum mánuði. Það samsvarar 4 til 6 stiga kólnun lofthjúpsins á norðuralóðum í hverjum mánuði. Undirlagið - meginlöndin tvö og úthöfin tvö kólna mishratt - höfin geyma varma sumarsins lengur og betur heldur en yfirborð meginlandanna. Norðuríshafið er síðan kapítuli út af fyrir sig. Þessi miskólnun veldur því að meiri sveigjur og beygjur verða til á röstinni - til allrar hamingju fyrir okkur því flutningur hennar á varma til norðurs (og kulda til suðurs) veldur því að haustkólnunin - og vetrarkuldinn verða hér mun minni en ella væri. - Óheft kólnun á norðurslóðum (án allrar blöndunar að sunnan) er um eitt stig á dag þegar kemur fram á haustið.
Vetrarillviðrin eru því á sinn hátt sú greiðsla sem við þurfum að láta af hendi til að hita verði haldið uppi. Sagt er að ársmeðalhiti á Íslandi sé rúmlega 50 stigum hærri en hann væri ef geislunarbúskapur einn réði ríkjum. Ekki er algjört samkomulag um vægi einstakra flutningsþátta varma til okkar - enda eru þeir svo samtengdir að erfitt er að aðskilja þá fullkomlega.
En á okkar mælikvarða er haustið í sjónmáli - það er mætt á svæðið - inni í kuldapollinum fyrir norðan okkur. Svo lengi sem hann heldur sig burtu sitjum við í sumri - eða einskonar sumri. Þessa dagana er hann óþægilega nærri - en er samt ekki spáð til okkar. Við vonum bara að sumarblíðan haldist sem lengst.
21.8.2020 | 02:35
Tuttugu ágústdagar
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 14:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.8.2020 | 20:49
Tíu ár
Nú hefur blogg hungurdiska þraukað í tíu ár. Fyrsta færslan birtist 19.ágúst 2010. Pistlarnir eru að sögn teljara orðnir 2677. Hin síðari ár hefur birtingatíðni verið heldur minni en framan af - og ekki eru pistlarnir allir efnismiklir. Mjög margt er ósagt - svo margt að ritstjóranum óar við og alveg ljóst að aldrei kemur það allt fram - ekki einu sinni það sem liggur innan seilingar. Um þessar mundir er tímafrekust samantekt ritstjórans á fréttum af veðri og tíð áranna 1749 til 1924. Miðar því nokkuð, birt hafa verið yfirlit um 80 ár af 176 - stutt í að helmingur þeirra hafi verið lagður að velli. Það verður bara að koma í ljós hvort verkefninu lýkur - eða hversu lengi verður áfram haldið.
Nota hér tækifærið og þakka jákvæðar undirtektir lesenda - sem enn virðast furðumargir.
19.8.2020 | 20:19
Af árinu 1872
Tíð var talin hagstæð árið 1872. Meðalhiti í Stykkishólmi var 3,3 stig, 0,7 stigum ofan meðallags næstu tíu ára á undan. Meðalhiti í Reykjavík var 4,1 stig og 4,7 stig á Stórhöfða. Ekki hefur verið giskað á meðalhita ársins 1872 á Akureyri. Kalt var í janúar, október og desember, en hlýtt í febrúar, júlí og ágúst. Júlimánuður er meðal þeirra hlýjustu sem vitað er um, var þá sá hlýjasti sem komið hafði í Stykkishólmi (frá 1846). Ámóta hlýtt var þó þar í júlí 1855 og ágiskanir benda til þess að sömuleiðis hafi orðið ámóta hlýtt eða hlýrra í júlí 1838. Ágúst var líka sá hlýjasti sem komið hafði fram til þessa í Hólminum.
Í apríl urðu gríðarlegir jarðskjálftar norðanlands, mest við Skjálfandaflóa.
Sérlega kaldir dagar voru aðeins tveir í Hólminum (8. mars og 2. október), og tveir dagar voru sérlega hlýir (16.júní og 24.ágúst). Í Reykjavík voru 31.maí og 2.október köldustu dagar ársins (að tiltölu), en 14.júní og 20.ágúst hlýjastir.
Árið 1872 var mjög þurrt í Stykkishólmi, ársúrkoma mældist aðeins 483 mm. Þetta var þurrasta ár frá upphafi úrkomumælinga (haustið 1856) - en enn þurrara varð síðan 1878 og 1881.
Loftþrýstingur var að tiltölu hæstur í ágúst, en lægstur í janúar. Þrýstingur var einnig tiltölulega lágur í júní. Þrýstingur mældist lægstur í Stykkishólmi þann 17.janúar, 950,8 hPa, en hæstur þann 20.apríl, 1039,5 hPa.
Fréttir frá Íslandi taka saman veðurlag ársins:
Veðuráttufar á Íslandi næstliðið ár var eitt hið besta, er verið hefur á þessari öld; raunar voru vetrarhörkur miklar og langar í einstökum héruðum, en í flestum sveitum mundu menn varla að öllu samtöldu jafngóða tíð. Framan af vetrinum 187172 var veðurátta allgóð sunnanlands og vestan, en mjög breytileg norðanlands og austan, og svo var allt til ársloka. Eftir nýár tók veður að verða nokkuð óstilltara sunnanlands og vestanlands, en þó einkum á Vesturlandi. Þó var snjófall þar mjög lítið, og sömuleiðis á Norðurlandi allt austur að Yxnadalsheiði. Milli Yxnadaisheiðar að vestan og Reykjaheiðar að austan var aftur allmikil fannkoma i janúarmánuði, einkum þegar á leið mánuðinn; en er lengra kom austur, varð fannkoman minni, bæði í Norður-Þingeyjarsýslu og svo um allt Austurland. Snjóflóð hlupu fram um þær mundir á nokkrum stöðum nyrðra, og ollu nokkru fjárljóni, einkum í Suður-Þingeyjarsýslu. Frostlítið var víðsvegar um land framan af janúarmánuði, en seint í mánuðinum kom kuldakast, er náði um allt land; í Reykjavík varð frostið mest 12 stig (eftir Réaumurs mæli [-15°C]), en 20 stig [-25°C] á Akureyri. Bráðum hlýnaði aftur og gjörði nú stillt veður og frostlítil viðast um land þar til seint í marsmánuði; þá kom annað kuldakast, er náði yfir allt land, en varð minnst á Austurlandi; fylgdi því fannkoma og stormar; þá rak ís undir land nyrðra,fyrst fyrir Hornströndum, en síðan austur með öllu landi og austur fyrir Langanes; þó varð hann hvergi landfastur að mun. Í miðjum aprílmánuði hörfaði ísinn aftur nokkuð frá, og brá þá veðuráttu aftur mjög til batnaðar. Síðari hluta aprílmánaðar og meginið af maímánuði var allgóð tíð, einkum á Suðurlandi og Austurlandi; nyrðra og vestra var veðurátta nokkuð óstilltari, og var einkum stormasamt á Vesturlandi. Síðast í maí gjörði síðasta kastið, og var það allhart, en eigi langt; 29.30. maí var stórhríð nálega yfir allt land. Fyrstu dagana af júnímánuði var einnig kalt og stormar miklir, en upp frá því gjörði hvervetna algjörðan bata. Allt þangað til hafði hafíshroði öðru hverju sést fyrir Norðurlandi, en nú hvarf hann úr landsýn að fullu og öllu. Þegar á allt er litið, hafði veturinn verið ágætur á Austurlandi og Suðurlandi, og sömuleiðis í betra lagi á Vesturlandi og meginhluta Norðurlands; að vísu hafði verið nokkuð stormasamt, en frost og fannkoma að öllu samtöldu mjög lítil. Í einum hluta landsins hafði veturinn verið bæði harður og langur, og einhver hinn lakasti, er nú hefur komið í mörg ár, en það var í Suður-Þingeyjarsýslu, eða héruðunum milli Vaðlaheiðar að vestan og Reykjaheiðar að austan. Frá veturnóttum og fram að nýári hafði þar verið allhart, og að jafnaði harðara en í öðrum sveitum. Eftir nýár harðnaði þar enn meir, og upp frá því máttu þar heita sífelld harðindi og megn snjóþyngsli allt fram að fardögum. Harðast var hríðaráfellið í lok maímánaðar; kyngdi þá niður feikimiklum snjó, og fennti fé víða og lömb króknuðu; á Höfðaströnd voru fannalögin svo mikil, að prestur gekk á skíðum á útkirkju sína 2.júní. En nú var og veturinn á förum. Frá fardögum (6.júní) og til höfuðdags (29.ágúst) voru sífelldir hitar og blíðviðri um allt land, og kom varla deigur dropi úr lofti allan þann tíma. Hitinn var mestur í miðjum júlímánuði; í Reykjavík varð hann 18 stig í skugga, en 24 stig á Akureyri. Þegar leið á sumarið, tók hitinn nokkuð að þverra, en þó mátti heita veðurblíða fram í miðjan septembermánuð. Íshroða hafði orðið vart seinast í ágústmánuði fyrir utan Hornstrandir og Skagaströnd, en hann hvarf bráðum aftur. Seinast i ágúst og fyrst í september rigndi dag og dag, en þó svo lítið, að þurrviðri mátti kalla um allt land fram í miðjan mánuðinn. Ertir miðjan septembermánuð brá veðuráttu norðanlands og austan; komu þá köld norðanveður nyrðra með frosti og fannkomu, en eystra gjörði austanátt með rigningum og umhleypingum. Sunnanlands og vestan brá fyrst veðuráttu snemma í októbermánuði, og kyngdi þá niður miklum snjó í sumum sveitum. Um þær mundir harðnaði enn meir norðanlands og austan. Þó létti hretviðrunum bráðum af aftur víðsvegar um land, og gjörði góða tíð þar til seinast í októbermánuði; þá komu aftur hörkur og hretviðri, er stóðu yfir þangað til í miðjum nóvember. Eftir miðjan nóvembermánuð brá aftur til bata, og var tíðarfar hvervetna allgott upp frá því fram að árslokum. Undir árslokin var aftur farið að harðna; síðari hlutann af desember var stormasamt víða, en veður þurrt og kalt og hreint.
Þrátt fyrir hinar litlu jarðabtur, sem gjörðar hafa verið, var þó heyskapurinn hvervetna í betra lagi næstliðið ár, og sumstaðar ágætur; olli því veðurblíðan og hið ágæta árferði. Reyndar byrjaði vorið seint í sumum sveitum, en þegar það kom, þá þaut gras upp á skömmum tíma, og þar einna mest, er snjór hafði legið lengst yfir. Rigningaleysið dró nokkuð úr grasvextinum, en hitinn var aftur nógur, og sumstaðar jafnvel of mikill; var það eigi óvíða, að jarðvegurinn sviðnaði og gras skrælnaði af of miklum hita. Eigi að síður spratt harðvelli að jafnaði betur en mýrar og votlendar engjar. Sláttur byrjaði almennt í fyrra lagi. Rigningar og óþurrkar um sláttinn spilla oft góðum heyskap á Íslandi, svo að það kemur að litlu gagni, þótt jörð sé vel sprottin, en nú voru þar á móti sífelldir þurrkar meginið af slættinum, og varð því nýting á heyjum hin besta um allt land, einkum um túnasláttinn og sömuleiðis talsvert framan af engjaslætti. Þó varð heyskapurinn endasleppur sumstaðar, einkum austanlands, og ollu því rigningarnar og votviðrin, sem gengu síðari hluta septembermánaðar. Heybirgðir manna undir veturinn voru þrátt fyrir það í besta lagi, eigi að eins að vöxtum, heldur og einnig að gðum. Kályrkja og kartöflurkt heppnaðist víðast í besta lagi. Hafrar og bygg spruttu einnig vel, þar sem þeim hafði verið sáð. Melurinn í Skaftafellssýslu spratt einnig vel, en eyddist af stormum.
Janúar. Kalt í veðri og nokkuð óstillt. Mikill snjór norðaustanlands en lítill suðvestanlands.
Þjóðólfur birti þann 22.febrúar bréf ritað í Vestmannaeyjum 23.janúar:
Frá Vestmannaeyjum er skrifað 23. f.mán. að þar hafi að vísu verið besti vetur, en hretviðra og hrakningasamt, svo að útifénaður var megri vonum, eftir svo gott haust og vetur; mest -6°R [-7,5°C] (á Gilsbakka 19°C, hér í Reykjavík -1213°R [-15°C]); bráðapest lítil sem engi, eigi heldur í Elliðaey þar sem einmitt kvað drepast frá þriðjung til helmings af lömbum sem þangað eru sett til haust- og vetrargöngu. Síðustu dagana af nóvember og hina fyrstu af desember, og aftur 19.22.[janúar], (allan desember og fyrri hluta janúar var þar gæftalaust), aflaðist þar langa og lúða að miklum mun; í seinni róðrunum (í janúar) varð og þorskvart.
Norðanfari segir af tíð 29.janúar:
Síðan um næstliðið nýár hafa hér um sveitir verið einlægar jarðbannir af áfreðum og snjóþyngslum, en oft frostlítið og gott veður. 27. [janúar] hér 16° frost [-20°C] en 19° [24°C] á Þverá í Laxárdal. Aflalaust er hér nú með öllu og gæftalítið.
Þjóðólfur segir þann 8.febrúar:
[Frá] 26.27. [janúar] og þar til 3.[febrúar] tók hér fyrir gæftir svo almennt ræði hefir eigi mátt heita hér inn frá fyrr en dagana frá 5. þessa mánaðar og þar til í dag.
Tíminn segir 14.febrúar:
Eftir bréfum og blöðum að norðan, sem komu hinn 5.[febrúar] með sendimanni frá Akureyri fréttist, að veðráttu hafi brugðið til snjóa og frosta um jólaleytið í Eyjafjarðar- og Þingeyjarsýslum, svo að um miðjan janúarmánuð hafi víða verið jarðbönn um þau héruð. Aflalítið á Eyjafirði. ... Hér sunnanlands hefir haldist hin sama veðurblíða, en frost hafa verið stöku sinnum sérdeilis dagana 21. og 22. [janúar] m. 812° frost á R. Snjófall aldrei, nema 3. [febrúar] var að eins sporrakt um morguninn, enn tók af strax aftur samdægurs. Um þetta leyti árs hafa menn ekki átt að venjast jafngóðu fiskiríi, sem nú hefir verið hér.
Febrúar. Hagstæð tíð og hlý. Snjór sjatnaði nokkuð norðaustanlands.
Norðanfari segir tvisvar frá tíð í febrúar:
[14.] [Þ.10.febrúar] bárust hingað þær fréttir, að meðfram sjó á Langanesi, Þistilfirði og Sléttu væri snjólítið, jarðir því nægar og lítið búið að gefa fullorðnu sauðfé; aftur hart í Núpasveit, Axarfirði, Kelduhverfi og um allan innri hluta sýslunnar eða millum Reykjaheiðar og Vaðlaheiðar; einnig hafa hér um Eyjafjarðarsýslu verið miklar jarðbannir þar til nú næstliðna daga að hér hefir oftast verið þítt nótt og dag, svo snjórinn hefir sígið og þar sem snjóléttast er skotið upp hnjótum, en svellalögin eru svo mikil, að skepnur varla geta komist millum hnjótanna. Í Skagafjarðar- og Húnavatnssýslum, er víða sagt gott til haga.
[20.] Veðuráttufarið hefir enn verið hér um sveitir hin sama stillta og blíða, sem í næsta blaði hér á undan er sagt frá, 46 enda 8° hiti [+10°C] á daginn og oftast frostlaust um nætur, svo nokkuð hefir rýmst um í þeim sveitum þar sem gaddurinn var minnstur. 16 þ.m. kom austanpóstur hingað; hann hafði farið 1.[febrúar] síðla dags frá Eskjufirði og komist þá um kvöldið að Þuríðarstöðum í Reyðarfjarðardölum, en um nóttina og daginn eftir var blindbylur svo hann náði með herkjum til póststöðvanna, sem eru á Egilsstöðum á Völlum, hvar bréfin frá Seyðisfirði, eru látin í töskuna eða tekin upp. Fréttist þá þar, að sendimaðurinn úr Seyðisfirði Pétur Eyjólfsson frá Pétursborg á Vestdalseyri hefði orðið úti og fundist allslaus hjá svonefndum Miðhúsum nálægt Egilsstöðum; nokkru síðar fannst það maðurinn hafði af bréfum og öðru meðferðis, þetta tafði fyrir svo póstur komst ekki frá Egilsstöðum fyrr en þann 4 þ.m. Að austan er að frétta líka veðuráttu og hér, og jarðbannir yfir allar Múlasýslur.
Mars. Hagstæð tíð lengst af, en nokkuð kast um miðjan mánuð. Hiti ekki fjarri meðallagi. Þurrt um landið vestanvert.
Tíminn segir frá 21.mars:
Sama veðurblíðan hefir haldist við síðan blað vort kom út síðast; vestan- og norðanpóstar komu hingað hinn 15.[mars], er það helst að frétta, er vér höfum fengið í bréfum og blöðum. Á Vesturlandi hefur verið lík veðurátta og hér sunnan lands. Við Ísafjarðardjúp hefur verið afli með minna móti næstliðið haust og vetur; kringum Jökul hefur og aflast lítið, enn nú er sagt að fiskiríið sé farið að aukast nokkuð, og fiskur hafi gengið inn eftir Breiðafirði; hefir hans orðið vart á Stykkishólmi. Úr Norðurlandi tökum vér lesendum vorum til fróðleiks almennar fréttir úr bréfum þessum: (Frá Austfjörðum 30172). Vetrarfarið hefir að þessu verið næsta mislint; fyrst gjörði íhlaup í haust um veturnæturnar; svo að víða varð jarðlaust með öllu, og skepnur fenntu sumstaðar, hélst það hálfan mánuð, síðan hlánaði aftur, að allan snjó tók upp, og varð þannig öríst fram að jólum, og allt þangað til gefið fullorðnu fé, enn með jólum skipti aftur um, og snerist til ískomu og snjóburðar, og hefir því jafnaðarlegast farið fram síðan, og nú hefir verið alveg jarðlaust samfleytt á aðra viku, og engin skepna séð út fyrir dyr, þann tíma; snjórinn er illa lagður og blotar hvað eftir annað, enn hey eru með fyllsta lagi, og þola menn því nokkra skorpu. Fiskiafli var ágætur í haust; bráðapestin hefir gjört vart við sig hér og þar, en ekki orðið eins mögnuð og á Norðurlandi. Kornbirgðir voru litlar í austurkaupstöðum, nema á Djúpavogi. ... (Úr þingeyjarsýslu 26.2.72): Vetrartíðin til jóla var góð, spilltist þá veðuráttan og gjörði snjó mikinn, með blotum og áfreðum, og urðu jarðbönn yfir allt; þorratíðin var allgóð, enn frost voru nokkur fyrst á honum, síðan blotar með landsunnan vindi, seig þá snjór nokkuð, og komu upp hnjótar, enn gaddur og hjarn í milli og fljúgandi færi um allt. (Úr Vaðlaþingi 27.-2.-72): Tíðin er nú góð, hinn liðni þorri er einn með hinum bestu, er ég hefi lifað, enn á honum hefir þó komið hið mesta frost, er komið hefir á þessum vetri, það af er, það var laugardaginn fyrstan í þorra, 13°R [-16°C], allt fyrir það, hefir frostið að meðaltali, ekki orðið meira enn 1/2 gráða. Hafíshroða rak um jólin að Sléttu og inn á voga í Þistilfirði, og tveir ísjakar komu inn á Fjörðu. Íshroði þessi fór strax aftur.
Norðanfari birti þann 25.maí bréf úr Strandasýslu, dagsett 25.mars:
Veturinn sem að nú er næstum liðinn hefir mátt heita veðuráttugóður og frostalítill, en stöðugar jarðleysur hér í sýslu síðan á jólum af blotum og áfreðum, svo víða er nú kominn 15 vikna innistaða fyrir allt sauðfé, og sumstaðar eins lengi hross; þetta er að sönnu alvenja í þessari sýslu, og því er hún svo fjárfá.
Apríl. Erfið kuldatíð lengst af.
Norðanfari birti tvo tíðarpistla og bréf að auki í apríl:
[8.] [Þ.2.apríl] um háttatíma kom norðanpóstur Magnús Hallgrímsson aftur að sunnan hingað í bæinn; hann hafði farið úr Reykjavík 21.[mars]. Að sunnan og vestan, er að frétta góða tíð og snjóleysur allt norður á Yxnadalsheiði. Úr bréfi úr Húnavatnsýslu dagsett 20.mars. Tíðin er alltaf hin sama frostalítið og frostleysur og oftast stillt, nema 7. og 8.[mars] var hér norðanhríð.
[19.] Veðuráttan hefir nú um tíma verið stillt og oftar úrkomulítið og frostin eigi mikil, en vegna hafáttar, dimmviðra og þoku sjaldnast getað notið sólar, og heldur ekki hlánað. Gaddurinn er því mikill og óvíða jörð, og sumstaðar engin síðan um veturnætur millum Yxnadalsheiðar og Axarfjarðarheiðar. Nokkrir eru vegna heyleysis farnir að reka af sér, og nokkrir sagt að hafi við orð að skera. Heyin hafa líka verið sögð yfir höfuð mikilgæf. Aftur er sagt að hafi verið hinn besti vetur í flestum plássum meðfram sjó, t.a.m. á Langanesi, Þistilfirði, Sléttu og Tjörnesi. Fyrir vestan og og sunnan, er alltaf sögð hin besta tíð og snjóleysur.
Með Pálmasunnudegi [24.mars] breyttist tíðin til landnorðanáttar, élja og nokkurrar snjókomu nú í páskavikunni. 6. mars lagði unglingsmaður, Árni Friðriksson, frá heimili sínu Garði í Fnjóskadal til ferðar norður á Melrakkasléttu og ætlaði að fara Gönguskarð, sem er fjallvegur milli Fnjóskadals og Köldukinnar hér um ½ þingmannaleið bæja á millum. Þegar nú Árni var komin meiri hlutar leiðar eftir fjallveg þessum, fór veður og færi versnandi, svo hann treysti sér eigi að rata og settist því að, en næstu dagana voru einlægar stórhríðar með frostgaddi, svo hann lá út í 6 dægur og réði það af með veikum burðum að snúa til baka heim að Garði, talsvert kalinn á fótum. Litlu eftir þetta var hann fluttur inn í Akureyri. Álitið er að piltur þessi missi tærnar af báðum fótunum og máski meira af öðrum.
Úr bréfi úr Hjaltastaðaþinghá Norðurmúlasýslu dagsett 2.apríl. Fréttir eru fáar héðan, nema það sem almennt gafst veðurblíðan og jarðirnar hér í harðindasveitunum. Á þorranum höfðu mýrar í Borgarfirði hér eystra, verið ristuþíðar á þorra.
Tíminn segir af tíð í pistli þann 5.apríl:
Um næstliðin mánaðamót, hefir hér syðra, skipt um hina góðu veðráttu, og verið oft norðan eður landnorðan kuldastormur; nóttina milli hins 2. og 3. [apríl] og morguninn eftir setti og niður töluverðan snjó, og má það í raun réttri heita sá fyrsti snjór, er hér á suðurnesjum hefir sést í vetur. Fiskafli er sagður fremur lítill og misjafn, hér við sjávarsíðuna, um þessar mundir.
Tíminn segir aprílfréttir þann 1.maí:
Með vestanpóstinum, er kom 29.[apríl] fréttist hörð kuldaveðrátta af Vesturlandi, og víða bágt manna milli á Vestfjörðum, sökum þess að fiskur hefir brugðist þar í vetur; kaupför voru komin á Ísafjörð, þá póstur fór þaðan; Hafíshroði hafði sést við Strandir um sumarmálin.
Norðanfari birtir fréttir úr mars- og aprílbréfum 3.maí - þar á meðal af jarðskjálftunum miklu:
Úr bréfum úr Þingeyjarsýslu, dagsett 30. mars og 18. apríl 1872. Úr Laxárdal: Héðan er ekkert gott að frétta, jarðbönnin hið sama og verið hefur í allan vetur og nú daglega stórhríðar og fannkoma og margir komnir í heyþrot; heyin hafa reynst mjög létt og uppgangssöm. ... " Úr Bárðardal: Harður hefir þessi vetur verið hér í framsveitum Þingeyjarsýslu, svo sem Reykjadal, Mývatnssveit, Bárðardal, Kinn og fram Fnjóskadal, þar sem sumstaðar hefur staðið tíð gjöf fé og hross síðan á jólaföstu, enda eru nú hartnær allir orðnir örþrifsráða og uppnæmir og margir búnir að gefa út fé sitt fram til fjalla. Héðan úr Bárðardal, er komið nær 1000 fjár fram á afrétt á litla hagabletti, því þar hefir verið snjógrynnra en útsveitunum. Ekki get ég kennt þetta slæmum ásetningi, því um þessar sveitir voru menn vel að heyjum komnir í haustið var, heldur kenni ég það heyléttu og jarðbönnum". Frá Húsavík: Harðindi og heyleysi hér nyrðra er orðið svo almennt, að það er talið víst, að hér í sýslunni verði grófur skepnufellir; einkum mun vera mest hætta búin: í Reykjadal, Kinn og Bárðardal. Mývatnssveit er sögð yfir höfuð mikið illa stödd. Aðfaranótt hins 18. þ.m. hafa hér verið svo miklir jarðskjálftar, að búast hefur mátt við á hverju augnabliki að húsin hryndu ofan yfir menn. Margir smábæir hér í kring hafa hrunið meira og minna, svo fólkið hefur ekki haft önnur ráð en flýja burt í hin húsin, sem enn standa minna brákuð og brotin; jarðskjálftarnir hafa komið á hverjum 5 mínútum. Hér er því orðið mikið tjón á húsum og öllu brothættu". Eftir munnlegum fregnum hingað, er sagt að 14 smábæir kringum Húsavík séu hrundir að grundvelli og sýslumannshúsið og assistentshúsið liðið miklar skemmdir, svo í þeim sé alveg óbúandi. Nær því 100 manns, er sagt húsvillt og bjargarlaust. Frá Þorvaldsstað og út á Húsavíkurleiti, kvað jörðin vera með einlægum smærri og stærri sprungum, og ein þeirra hátt á aðra alin á breidd, er nær yfir langa leið. Á nokkrum mógröfum hafði ísinn og jörðin langt að neðan sprengst upp, og á einum stað á Húsavíkurbakka var sem ryki upp úr jörðunni, menn eru því á glóðum um, að eldnámi sé þar undir eða í grennd. Hér og hvar um aðrar sveitir, höfum vér heyrt, að hús hafi meira og minna skekkst, brotnað eða hrunið. Á Kaðalstöðum í Hvalvatnsfirði í Þingeyjarsýslu, hafði einn jarðskjálftinn sprengt fram snjóflóð úr fjalli, ofan á allt fullorðna féð sem þar var á heimilinu, er búið var að reka til beitar í fjöruna. Á Látraströnd er sagt að fjöldi af snjóflóðum hafi fallið, en hvergi til tjóns, það er menn en vita, Úr sumum björgum hafði fallið hver stórskriðan af annarri, og grjóthrunið orðið hið ógurlegasta. Menn telja víst að slík ósköp hafi víðar gengið á hér nyrðra. Seinna vonum vér að geta greinilegar sagt frá afleiðingum jarðskjálfta þessa, einkum á Húsavík, hvar hann, að því leyti vér höfum frétt, hefir orðið lang stórkostlegastur og ollað mestu tjóni. Undanfarna daga hefir hér verið snjókoma og ekkert rýmt um á daginn, og á nóttunni 67° frost; enda er nú sagður svo mikill hafís hér norðan fyrir landi, að skipstjóri óðalsbóndi Jónas Jónsson á Látrum, er lagður var af stað frá sér að heiman til hákarlaveiða út í Grímsey, gat eigi komist nema eitthvað út á sundið, hvar hann varð að snúa heim aftur.
Þann 24.maí greinir Þjóðólfur frá jarðskjálftunum nyrðra:
Góðfúslega meðdeilt Þjóðólfi af hr. stúdent Páli Þorlákssyni frá Stórutjörnum. Seint um kvöld 17. dag [apríl] urðu menn varir við jarðskjálfta á Norðurlandi og víðar; fannst til þeirra aftur og aftur næstu nótt, einkum nær kl.4. Daginn eftir 18. [apríl] bar mest á þeim um kl.10, l0½ og 11 f.m. og þóttust menn verða varir við smákippi af og til í 2 sólarhringa eða meir. Eigi má með vissu segja, hve lengi kippirnir hafa varað í hvert skipti, en mestur og lengstur þótti sá sem kom hér um kl. 11 f.m. þann 18.; þá var það, að skaðinn varð mestur á Húsavík. Þar hrundu 23 kot meir og minna og 3 timburhús skekktust og röskuðust á grundvellinum, svo að eigi þóttu byggileg að svo stöddu. Viða á Húsavík og þar í kring sáust eftir á sprungur í jörðu, og kvað mest að einni, lá hún í gegnum höfðann fyrir norðan bæinn, frá sjó og upp eftir svonefndum Laugardal. Í húsunum hrundi allt það niður, sem laust var á hillum og í skápum, og brotnuðu öll leirílát og annað, það sem brothætt var. Enginn maður eða skepna fórst eða meiddist í jarðskjálftum þessum, en talið er, að 100 manns hafi orðið húsvilltir. Þóttust menn finna, að jarðskjálftinn kæmi frá útsuðri. Ekki varð víðar tjón að jarðskjálftunum, að því er spurst hafi, en hvervetna, þaðan er frést hefir af Norðurlandi, hafa þeir fyllilega fundist; eigi hafa menn enn frétt úr Norður-Þingeyjarsýslu.
Í Norðanfara þ.17.maí birtist löng umfjöllun um jarðskjálftana á Húsavík - við styttum hana lítillega hér:
Aðfaranóttina þess 18. apríl kl.11 um kvöldið, kom hér jarðskjálfti svo mikill, að mönnum leist ekki ugglaust að vera inn í húsum, ef annar kæmi jafn snarpur; en litlu þarna á eftir komu þeir svo títt, að ekki liðu nema 48 mínútur milli þeirra. Engir voru þeir mjög stórkostlegir fyrr en kl.4 um nóttina; þá kom einn svo harður, að húsin léku til og frá, teygðust sundur og saman, og mikið af því sem rótast gat gekk úr sínum skorðum. Smábæirnir hérna í kringum kaupstaðinn urðu þá strax fyrir svo miklum skemmdum, að fólkið flúði úr sumum þeirra til hinna bæjanna, er minna hafti sakað. Allt fólk hér á Húsavíkurbakkanum fór nú á flakk við þessi undur, því ekki var lengur friðlegt í húsunum. Að afliðnum þessum mikilfenga jarðskjálfta kl.4, kom um nokkurn tíma enginn er gæti álitist hættulegur, þó alltaf væru smáskjálftar með litlu millibili þangað til kl.10 daginn eftir.
Þá var ég staddur á veitingahúsinu, og ætlaði mér eftir venjulegum hætti að fá mér snæðing; en rétt í sömu andránni laust á húsið svo óttalegum jarðskjálfta, að mér kom til hugar að ég væri knúður til að mölva mig út um glugga, því með því móti hugsaðist mér, að ég kynni að hafa mig út áður en húsið væri fallið, því ekki var annað sjáanlegt en það mundi á svipstundu falla til grunna; en af því að rykkirnir voru svo grimmúðlegir ýmist fram og aftur eða þá á hlið, gat ég enga stjórn á mér haft meðan á þessum ósköpum stóð, sem vafalaust hafa staðið í hálfa aðra mínútu; loksins eftir að ég var kominn út varð mér fyrst að líta í kringum mig, til að vita hvort nokkuð af smábýlunum hér í kring mundu uppistanda; sá ég þá að fólkið streymdi hópum saman hingað ofan eftir með þá sorglegu fregn, að allir húskofar sínir væru fallnir til grunna; þetta er það sviplegasta augnablik sem ég hef lifað, því mæðurnar komu með börnin á bakinu hálfnakin, þær einnig sjálfar ekki betur útbúnar; enginn vissi hvert flýja skyldi til að geta verið óhultur um líf sitt, og nú bættist það ofan á, að jarðskjálftarnir voru svo miklir og tíðir meðan fólkið var að þyrpast saman, að ekki gátu staðið á bersvæði nema styrkustu menn; hér var ekkert til ráða nema flýja, og streymdi fólkið því sumt út á Tjörnes og aðrir inn í Reykjahverfi. Allan þennan dag voru jarðskjálftarnir, og leið mikið skammt á milli, en engir þeirra voru eins voðalegir og sá sem kom kl. 10 um morguninn, eins og að framan er getið. Allir bæir hér í kring eru fallnir og fólkið úr þeim komið eitt í hverja áttina. Húsavíkurbærinn stendur ennþá að því leyti, að fólkið hefir ekki yfirgefið bann, en kvað þó vera mjög mikið fallinn og alveg óbyggilegur nema með viðgjörð með framtíðinni; annar bær stendur hér uppi ennþá, sem Sigmundur Þorgrímsson á, og eru þá talin þau torfhús, sem uppi standa og búið var í. Nú er að minnast á timburhúsin hérna, 3 af þeim sem höfð voru til íbúar urðu fyrir svo miklum skemmdum, að eins og þau standa nú, eru þau aldeilis óbyggileg; fyrst er hver einn einasti steinn fallinn úr reykháfunum, og annað hitt, að ofnarnir eru í mörgum pörtum og í þriðja lagi eru húsin sjálf öll rammskökk og að sumu leyti brotin, þökin rifin svo víða að snjóar inn um þau. Þú munt vilja fá að vita hverjir bjuggu í þessum húsum, og eru það: sýslumaður okkar, verslunarmaður S.Jacobsen og veitingamaður S. Jónatansson; þessir máttu allir yfirgefa hús sín og er ekki að hugsa til að þeir geti haft þeirra not fyrr en þau hafa fengið mikla viðgjörð.
Hús það, sem Factor Gudjohnsen býr í, sætti einna minnstum skaða af húsum þeim sem hér voru í grenndinni, en samt ber það víða á sér ljósan vott þess hvað mikið það hefir reynst; til allrar lukku stóð meiriparturinn af skorsteininum, og hrundu þó allir ofnar niður. Hefði þetta hús farið eins og hin, þá hefði ekki legið annað fyrir, en að allir úr timburhúsunum hefðu orðið að leita sér húsaskjóls annarstaðar. Miklar skemmdir urðu á ýmsum vörutegundum hér, einkum á öllu leirtöje og vínflöskum.
Ég hef enn þá sleppt því að minnast þess, hvernig jörðin varð í þessum miklu umbyltingum. Fyrst og fremst meðan á mestu hræringunum stóð, gekk hún öll í smáöldum, síðan rifnaði hún þvert og endilangt, sumstaðar voru rifurnar svo breiðar, að þær álitust að vera fullkomin 2 kvartil á breidd, og ein þeirra, er liggur ofan frá svo nefndu Húsavíkurfjalli og ofan allan Laugardal, skammt fyrir norðan Húsavík, var í fyrstu l 1/2 alin á breidd þar sem hún var breiðust, og víða kvað hafa legið heil jarðarstykki, sem kastað hefir upp úr jarðrifunni; ein liggur líka að norðanverðu í höfðanum skammt fyrir utan og neðan Húsavík sem svo mikill hiti er í, að það rauk upp úr henni stöðugt í 4 sólarhringa. Ég var ásamt fleirum héðan að skoða þessi undur, og þá var svo mikill hiti í rifunni, að maður aðeins þoldi að halda hendinni yfir efst viðjarðbrún. Nú kvað reyknum vera slotað og rifan farin að lykjast aftur. Ennþá ganga hér jarðskjálftarnir, þó ekki svo mikilfenglegir að þeir olli skemmdum, enda væri óskandi að fólk ætti ekki eftir, að líða annað eins og hér er gengið á undan. Við þetta ógurlega tilfelli hafa 104 manns orðið hér húsnæðislausir, og það litla, er flestir þeirra höfðu undir höndum hefir skemmst, og sumt tapast til fulls og alls, og geta þeir því ekki átt neina von fyrir að geta brúkað það með framtíðinni. Skepnutjón varð eigi mikið vegna þess að þær munu flestar hafa verið úti þegar mestu ósköpin dundu yfir; en bóndinn Sigurjón Björnsson á Kaldbak, sem býr hér skammt frá, missti 6 ær, sem orsakaðist með þeim hætti, að skepnur hans voru í fjöru skammt frá bænum, en mjög háir hamrar voru yfir, hafði því sprungið úr björgunum og þær orðið undir hruninu. Víðar hafa orðið nokkrar skemmdir enn í þessu plássi, þó ekki sé í neinni líking við það sem hér er, t.a.m. á Héðinshöfða skekktust og hrundu að nokkru 4 fjárhús, einnig baðstofa á Mýrarseli kvað vera hrunin að mestu og á Núpum urðu flest bæjarhús fyrir miklum skemmdum, og miklu víðar þó eigi sé hér upptalið.
Til þess að nokkurn veginn sé hægt að gjöra sér hugmynd um það, hvað sterkur jarðskjálfti þessi hafi verið, af þeim sem ekki hafa reynt hann, vil ég geta þess, að 100 pd. lóð, sem stóðu á bekk niður við gólf í vigtarbúðinni hér á staðnum, köstuðust fram af bekknum og nokkuð út á gólfið. Einnig hentist efra lagið af brennivínsfötum, sem lágu á hliðinni upp í pakkhúsi, ofan á gólfið og stóðu þar á endum hérumbil 1 alin frá því sem þau voru áður. Þegar að þessi ógurlegi jarðskjálfti kom, hurfu tveir lækir sem hér runnu ofan í jörðina, öðrum skaut upp aftur eftir nokkra stund en hinum ekki. Einnig tóku menn eftir því, að strax við byrjun jarðskjálftanna urðu allar ár hér í grenndinni með jökullit; ár þessar eru ætíð mjög tærar, einkum um þennan tíma, þegar ekki eru hlákur og vatnsrennsli í þær. Mest bar á lit þessum í Köldukvísl hér á Tjörnesinu og Búðaránni, sem rennur hér fast við verslunarhúsin, og hefir þessi jökullitur haldist allt fram að byrjun maímánaðar. Fjaran hér neðan við Húsavíkina, sprakk öll í sundur við jarðskjálftann og varð um leið heit að mun, upp úr sprungunum spýttist vatn og lagði þar upp af bláa gufu er líktist bláum eldsloga; margir kváðust og hafa séð bláleita gufu eða eld skjótast upp úr jörðinni hér utan við höndlunarhúsin hjá svonefndum Brennisteinshrísum, er féllu í jarðskjálfta fyrir 5 árum, og líka út á svo nefndum Húsavíkurhöfða. Skrifað í maímánuði. L.J. Finnbogason.
Norðanfari birti þann 25.maí fáein bréf dagsett í apríl:
Úr bréfi að austan 30 apríl 1872. Veturinn hefir verið hér hinn frostaminnsti, sem lengi hefir komið, svo hér um bil mílukafli af Lagarfljóti hefir aldrei lagt, nema skæning endrum og sinnum. Fram að jólum var mjög snjólítið víðast hvar, en áfrerar tíðir einkum inn til dala Frá jólum fram yfir þrettánda komu býsna miklir snjóar og varð víða jarðlaust en þá komu hlákur með miklum rigningum og leysti meiri hluta snjóa. Voru síðan fram til einmánaðar ýmist þíður eða bleytusnjóar og lítil frost milli. En skarpt varð stundum um jörð, einkum inn til dala af storkum og varð sjaldan beitt til hlíða. Síðan um pálma [24.mars] hefir verið hretasamt og hvikul tíð og þó frosta lítil en jarðir víðast, og svo er enn. Þó veturinn hafi mátt heita mikið góður og mildur hafa gefist mikil hey fullt eins og í meðalvetri því beit hefir verið létt og heyin eins en fénaður heilsulítill.
Úr bréfi Álftafirði 9.apríl Héðan er fátt að frétta nema góðan vetur, en heyfrekan, og eru nú margir komnir í mestu vandræði af heyleysi; versta skorpan sem komið hefir í vetur stendur en yfir, síðan þriðjudaginn eftir pálmasunnudag.
Úr bréfi af Flateyjardal í Þingeyjarsýslu dagsett í apríl 1872. Á fimmtudaginn 18.[apríl], um hádegisbil, kom hér voðalegur jarðskjálfti, svo menn hafa orðið fyrir miklum skaða, og eigi hægt að lýsa því nákvæmlega, meðan snjór er á jörð og húsveggir frosnir. Á flestum bæjum hafa hús skekkst og rótast meira og minna, sum alveg hrunið niður og veggir og þekjur sprungið. Á Eyri hér á dalnum, hrundu flest bæjarhús svo fólkið flúði úr bænum, og hefir þar enginn verið síðan. Á Kaðalstöðum töpuðust í snjóflóðum um 60 kindur, og fór það allt í sjóinn, en nokkuð af því rak á land aftur í Flatey og upp á Vargsnesreka. Það gegnir allri furðu, að sjá hvernig jörðin hefir farið, og er þó minnst af því hægt að sjá núna; úr öllum fjöllum hafa hlaupið snjóflóð, og allt er sundursprungið á láglendinu, sumstaðar sér langt ofan í jörð, á tjörnum er allur ísinn sundursprunginn og stórir leirgarðar báðu megin við sprungurnar upp úr botninum, og það þótt djúpar tjarnir séu. Jarðskjálftarnir fundust fyrst 16. þ.m., og hafa alltaf gengið að þessu, en engir stórir nema tveir".
Norðanfari birti þann 1.mars 1873 bréf úr Flatey á Skjálfanda, dagsett 18.desember 1872 þar sem greint er frá jarðskjálftunum í apríl það ár:
Aðfaranóttina hins 18.apríl urðu menn varir við jarðskjálfta en þó allir litlir er héldust alla nóttina en um morguninn kl.10 f.m. kom einn stór, svo hlutum lá við hruni, og hér um kl.11 kom annar er tók langt yfir hina alla; sjórinn sogaðist fyrst út, og í sama vetfangi skelltist hann aftur á land, sem stór alda; jörðin gekk í bylgjum, við hvað hún sprakk víða í sundur, og upp um sprungurnar gekk sjór og sandur. Öll hús skemmdust, nokkur hrundu, og tveir bæir alveg; i einum bænum urðu 2 kvenmenn undir hruninu, en náðust þó lítið meiddar. Kirkjan hér rótaðist á grundvelli sínum, er hún þó bundin með 5 járnböndum. Jörðin sprakk víða hér í Þönglabakkaprestakalli svo í sundur að ómögulegt var að fá heila torfu eða streng. Skaðinn á húsum og munum var metinn allt að 600 rd. Fiskiafli var hér í sumar kringum Flatey í meðallagi af þorski, nokkur af skötu en með minnsta móti af heilagfiski. Gæftir voru einstaklega góðar fram að göngum, þar á móti í haust og allt að þessu framúrskarandi ógæftir og sífelld brim, svo haustaflinn varð mjög lítill.
Þjóðólfur greinir frá mannsköðum og skipsköðum í pistli þann 4.maí (nokkuð stytt hér):
Á siglingunni hér vestur með landinu 26.[apríl] ... hreppti herskipið Fylla ofsaveður og ósjó mikinn; féll þá inn og brotnaði um leið á skipinu holskefla ein mikil og tók út 4 skipverjana með útsoginu, og auðnaðist eigi að bjarga nema 2 þeirra, en 2 drukknuðu. Eftir bréfi frá Sigurði bónda á Vífilsstöðum, Vigfússyni, [dagsett á] Auðnum á Vatnsleysuströnd 21.[apríl] Í fréttaskyni leyfi ég mér að láta yður vita að í gær [20.apríl] var hér hörð norðankæla en illt sjólag; samt reru allmargir, en engir sátu lengi því veður spilltist, sigldu því allir í land tómkjala; en á uppsiglingunni fórst bátur með 2 mönnum af útveg Guðmundar bónda Guðmundssonar hér á Auðnum; formaður var Þorbjörn Jónsson frá Hvanneyri í Andakíl, sonur Jóns bónda Símonarsonar á Efstabæ í Skorradal, ungur maður og mætavel að sér gjör til munns og handa. Hinn maðurinn var Ásmundur Jónsson, Sigurðssonar frá Ferstiklu á Hvalfjarðarströnd ... ". Sama dag (laugardag 20.apríl] varð skipskaði fyrir Loftstaðasandi í landróðri; drukknuðu þar 4 menn en 2 varð bjargað, eins og gjörr er frá skýrt í skýrslu þeirri, er hér kemur, og sóknarpresturinn síra Páll Ingimundarson hefir góðfúslega sent oss: 20. apríl 1872, fórst á uppróður í stinnhvössum norðanvindi bátur frá vestri Loftsstöðum, líklega af ofhleðslu í slæmum sjó. Voru á honum þennan dag 6 menn sá 7. náði ekki. Af þeim 6 drukknuðu 4. ...
Maí. Kuldatíð lengi vel, en skárri kaflar komu þegar á leið. En mánuðinum lauk þó með slæmu hreti.
Norðanfari birti þann 25.maí bréf dagsett í Laxárdal í Þingeyjarsýslu þann 9.maí:
Ástand manna hér um pláss er óttalegt, gaddur yfir allt og hvergi jarðarbragð, meiri og minni hríð og frost á hverjum degi (í gærkveld 910 stig á R [að 12°C]); einlægt er rifið út kornið handa fénaðinum og hann víða farinn að falla, dregnar og horaðar skepnur reknar, ýmist inn í Eyjafjörð eða út að sjó, eða hvort þangað, sem einhver von væri að draga í því lifið, en allt sýnist muni koma fyrir ekkert, að hér verði sá almennasti og stórkostlegasti fellir, sem við höfum lifað, því þeir fáu, sem voru sjálfbjarga, eru orðnir eins fyrir hjálp við hina, sem fyrst urðu þrotum, og þannig er hjálpin orðin að engu og allir í jöfnum voða, sem þó er voðalegast.
Þann 30.maí segir Tíminn af tíð:
Síðan Tíminn kom út seinast, hefir mátt heita hér sunnanlands stillt veðurátta, en fremur köld, sökum hafíshroða sem enn er sagður liggja við Norðurland. Næturfrost voru hér allt að 34°, bæði kringum hinn 9. og 18. þ.m. hefir því gróður farið lítið fram, þar til vikuna sem leið, er veðuráttunni brá til vestanáttar með hægri úrkomu.
Norðanfari segir þann 3.júní frá hreti í maílok:
[Þ. 29.30. maí] skall hér á enn eitt stórhretið, svo víða kom mikil fönn, og sumstaðar illkleyf; og nokkuð af fé sem úti lá, fennti eða hrakti til dauðs; auk þess sem skepnufækkunin með ýmsu móti öðru heldur áfram og lambadauðinn sem yfir tekur. Lítið sem ekkert aflast nú úr sjó; það virðist því, sem að hinni almennu velfarnan sé nú sýnt í tvo heimana. Fátt hefur frést af hákarlaskipunum, sem flest höfðu verið á hafi úti og
mikil hætta búin, af ísnum og stórhríðinni er var austanlandnorðan, og einhver hin mesta með snjókomu og veðurhæð er í manna minnum hefir um þennan tíma komið hér.
Norðanfari birti 13.júlí bréf úr Austur-Skaftafellssýslu, dagsett 26.maí:
Veturinn var góður og frostvægur til loka febrúarmánaðar, en miklar rigningar og súld, en síðan úrkomulítið og stöku sinnum norðan stormar, og alltaf frostvægara en menn hafa minnt til. Fyrir hvítasunnu [19.maí] kom hér grimmdarveður, sem hélst fulla viku, og skemmdi mikið gróðurinn; alltaf er úrkomulítið en loftið kalt ...
Norðanfari segir fréttir af tíð og afkomu þann 14.júní- aðallega fjallað um áfellið í maílok:
Í stórhríðinni 29.30.[maí] hafði eitt hákarlaskipið, er Veturliði hét, frá Bakka á Tjörnesi með 10 mönnum, farist og fundist á hvolfi, brotið þvert yfir fyrir framan káetu og fast þar við akkeri, festar og vaðarhöld m.fl. er lágu til botns. Einn maður af því fannst á Botnsfjöru í Þorgeirsfirði, ásamt mulinu úr afturhluta skipsins og fleira, og þar á meðal gaflfjöl með nafni skipsins. Á Stóru-Reykjum í Reykjahverfi, hafði í stórhríðinni á dögunum 50 fjár hrakið til dauðs í svo nefnda Reykjakvísl, og fé víðsvegar fleira og færra fennt. Á Grenjaðarstað, Múla og Narfastöðum í Reykjadal, eru á hverjum bænum fyrir sig, dáin 60 lömb. Á nokkrum bæjum er sagt að muni verða sauðlaust. Sumstaðar er fannfergjan sögð enn svo mikil, að varla sjáist á dökkan hnjót, og eigi verði komist bæja né sumra byggða á milli nema á skíðum, og ekkert nú, í 7 viku sumars, að gefa kúm nema við og korn. Með manni af Hólsfjöllum fréttist hingað 10. [júní] að áfellið seinasta, hafi þar verið minna en hér og fyrir norðan, og skepnuhöldin yfir höfuð allgóð. 9. þ.m. voru dregnar hér á Akureyri á land yfir 500 tunnur af síld, sem öll var gengin út á 2 dögum, ... Að sunnan er að frétta aflaleysi, og jörð þar mjög skrælnaða og gróðurlitla. Víðast hvar eru meiri og minni vanhöld á skepnum. Einkum í Hrútafirði og Skagafirði hafa sést ormar eða pöddur í snjóum, að stærð sem flær, sem menn halda að skriðið hafi upp úr jörðunni, og meðal annars, geti verið orsök til þess, að svo víða hefur orðið vart við yrmlinga í innyflum fénaðarins. Á þingeyrasandi hafði nýlega rekið 2 seli dauða, en 9 í Hrútafirðinum á tveimur bæjum, 7 á öðrum en 2 á hinum, og víðar hefir orðið vart við reka þennan. Það eru því getgátur manna, að einhver dáran sé í selnum, sem getur verið eins og í skepnunum á landi.
Júní. Mánuðurinn byrjaði með kuldatíð, en fór mjög batnandi er á leið.
Norðanfari birti 13.júlí tvö bréf, dagsett í júní:
[Vesturlandi 13.júní]: Veturinn var mildur allt fram á pálmasunnudag [24.mars]. Síðan hefir verið mikil kulda- og harðviðratíð og er enn með mjög stuttum góðviðraköflum. Gróður er í minnsta lagi. Sauðfénaður er af langvinnum, drætti og næðingum orðinn mjög grannur, en óvíða hefir drepist að mun. Lambadauði er talsverður í sumum sveitum. Um Breiðafjarðardali munu fénaðarhöld vera einna best hér vestra.
[Þorgeirsfirði í Þingeyjarsýslu 19.júní]: Miðvikudagskvöldið 29. maí skall hér á landnorðan stórhríðarbylur með mesta ofsaveðri og grófustu fannfergju ofan á gamla gaddinn, sem mikill var fyrir, stórhríðin hélst alla nóttina og fimmtudaginn fram undir kveld, fór þá að rofa lítið eitt; það fylgdist allt að, veðurhæðin snjókoman, dimman og stórbrim. Nú í viku hefir verið gott veður og mikið tekið upp snjóinn, þó er eigi meira en hálf tekið fyrir framan bæinn hjá mér, og hálft túnið enn undir gaddinum. Ám og hestum er ég nú búinn að sleppa en kýr komast vart út þó tíð verði góð, fyrri enn 10 vikur af sumri, og er það langur gjafatími síðan í fyrra sumar 5 vikum fyrir vetur (41 vika). Ekki er mikill fellir hér á fullorðnu fé, en lambadauði talsverður.
Þjóðólfur segir 1.júlí: Grasveður hið besta síðastliðnar 3 vikur, og horfir grasvöxtur á túnum vel við, en miður á útjörð.
Júlí. Óvenjuhlý og hagstæð tíð.
Norðanfari birti tíðarfarspistil þann 13.júlí:
[Þ.9.júní] fór veðuráttan að batna. en þó einkum er kom fram í miðjan mánuðinn og síðan hefur verið sumarleg öndvegistíð og nú horfur á því, að grasvöxtur verði í meðallagi ef eigi betri. Skepnufækkunin er í sumum sveitum orðin mikil, einkum á sumum bæjum í Reykjadal, Kinn og Bárðardal og við Mývatn. Af fénu, sem búið var að reka fyrir hretið fram til afrétta, er sagt að Bárðdælingar hafi tapað á þriðja hundrað fjár, er sumt fennti, sumt drap dýrið og sumt féll af hor. Mývetningar höfðu og misst talsvert. Þó tekur lambadauðinn yfir því að hann hefir gengið meira og minnanlega yfir allar sveitir og að sama hlutfalli er málnytubresturinn, Nokkrir eru farnir að byrja slátt. Víða hér fyrir Norðurlandi er nú sagður kominn meiri og minni afli af fiski, og fremur vænn, einkum þá síld ...
Tíminn segir af blíðu þann 16.ágúst:
Sama veðurblíðan helst alltaf við hér sunnanlands, með staðviðrum og hitum, sem verið hefir í júní og júlí. Fiskiafli má heita enginn hér á Seltjarnarnesi og Suðurnesjum. Frakkneska herskipið Le Cher, er fór héðan 28. [júlí] vestur um land, og um leið ætlaði norður til Akureyrar, kom hingað aftur í gær, en ekki komst það til Eyjafjarðar sökum hafís og þoku útifyrir, eftir því sem skipverjar segja; ýmislegt, er fara átti til Akureyrar t.a.m. bækur, var sent með skipinu, sem kom með því aftur.
Norðanfari ritar um þurrka og veðurblíðu þann 23.júlí:
Veðurblíðan hefur að kalla alla jafna haldist, og eigi komið dropi úr lofti frá því 6.[júlí] og til hins 17.[ágúst] að hér var nokkur úrkoma, er samdægurs stytti þó aftur upp. Þessa munu fá dæmi hér á landi, að 41 dagur hafi liðið millum skúra, eða að enginn dropi eða fjúk hafi komið úr lofti. Það má því nærri geta, að töður og úthey, sem er í garð komið sé með hinni bestu nýtingu. 12. júlí var hér mestur hiti 24° á Reaumur [30°C], en 18° [22.5°C] um kvöldið í forsælunni, en 16. þ.m. 20° [25°C], en 14° [17,5°c] um kveldið.
Norðanfari birti þann 2.nóvember bréf úr Bjarnarneshrepp í Hornafirði, dagsett 18.ágúst:
Allan maímánuð var köld og stormasöm tíð, sem hélst til sólstaða; síðan og til 15. þ.m., hefur verið æskilegasta tíð, úrkomulaust, hægveður og tíðum sólskin og logn; 15. og 16. var hér hin mesta steypirigning. Grasvöxtur á túnum og harðvelli var vel í meðallægi, en þó víðast miður en í fyrra; töður allar hirtust grænar hér og í nærsveitum og muna menn ekki slíka nýting.
Richard Burton lýsir morgni [23.júlí] á Reynivöllum, tíðarfari - og svo heilsufari í Reykjavík [úr bók hans Ultima Thule 2.bindi (1875).
Ágúst. Hlý og hagstæð tíð um land allt.
Tíminn segir 3.september:
Síðan að seinasta blað Tímans" kom út, hefur hér á Suðurlandi verið lík veðurátta og áður, að fráteknum 2 eða 3. rigningardögum seinast í næsta mánuði; hitar hafa verið miklir og langvarandi venju framar í sumar, þó munu þeir ei hafa orðið meiri en 1718 gráður við sjávarsíðuna, ... Í sumar hefur hér verið alveg aflalaust, nema litið eitt af þaraþyrskling og það næsta óverulegt.
Tíminn birtir úr bréfum að austan og norðan þann 27.september:
[Frá Austfjörðum 22.ágúst]: Tíðarfarið er eitthvert hið ágætasta er orðið getur, grasvöxturinn góður, þurrkurinn og nýtingin á heyinu þar eftir; hver vogur og vík krökkt af fiski, svo varla þarf annað en fara út á tanga og klappir til að fá í soðið, má slíkt heita að taka hlut á þurru landi.
[Frá Eyjafirði 23.ágúst] Veðuráttan stillt og þurr, sem er hið affarabesta til heyskaparins.
September. Lengst af hagstæð tíð, en mikið illviðri um miðjan mánuð.
Norðanfari birti þann 2.nóvember bréf úr Berufirði, dagsett 20.september:
Af fréttum er það helsta, að tíðarfar var hér um svæði hið ákjósanlegasta í sumar, einkum í júlí og ágústmánuði, með logni, hita og mollum oftast, en síðan með september fremur óstillt 17. [september] kom hér mesta austanveður, og eins til sjós með einstaklegri stórrigning, svo skaðar urðu á Austfjörðum á hjöllum og fiski við sjó; einnig urðu öll 4 hákarlaskipin, er voru héðan af Djúpavog á sjó, fyrir meira og minna tjóni, því 3 þeirra voru næstum týnd, og 1 maður misstist alveg af einu þeirra.
Norðanfari segir 26.september:
[Þ.16.18. september] skall hér á norðanátt með hvassviðri, rigning í byggðum en snjókomu á fjöllum, svo hvítt varð ofan undir bæi, Allir eru búnir að heyja með mesta móti og fá hey sín í garð með bestu verkun; þó eiga margir enn hey úti og flestir eldivið sinn. Fremur eru horfur á því, að jarðeplin muni hér verða með meira móti, hjá þeim er höfðu gott útsæði í vor.
Október. Kalt í veðri og nokkuð umhleypingasamt. Úrkomusamt um landið vestanvert.
Norðanfari segir 15.október frá kaldari tíð:
[Sjöunda september] og síðan, nema dag og dag, hefir veðuráttan verið norðlæg og köld og stundum frost á nóttunni, krapi og snjókoma, svo sumstaðar var alhvítt orðið ofan í sjó og ár. Nokkrir eiga hey úti.
Norðanfari birti þann 2.nóvember bréf að austan, bæði dagsett í október:
[Breiðdal, 10.október] Héðan er fátt að frétta, nema að heilsa manna er góð og tíðin einnig í sumar, en nú umhleypingasöm. 22.[september] fórst bátur á Berufirði með 10 manns á, meðal þeirra 5 börn kammerassessors Weywadt, 2 fullorðin, cand. juris N. Weywadt og elsta dóttir hans og þrjú ung, tveir drengir og ein stúlka, undirkaupmaður Meilbye og tveir beykjar danskir og drengur, sonur Jóns bónda Jónssonar á Borgargerði og hin 10 var stúlka fyrir innan fermingu. Ekki er nema einn maðurinn fundinn af þessum aftur, og heldur ekki báturinn.
[Seyðisfirði 13. október] Tíðarfarið hefur verið heldur óstöðugt um næstliðnar 3 vikur, bæði að stormum, úrkomum og enda töluverðum frostkuldum. Heyskapurinn varð því fremur endasleppur, og ekki sem affara bestur að lokunum, en þó svo að flest allir munu nú byrgir af góðum heyjum eftir þetta blessaða sumar.
Þann 23.nóvember segir Þjóðólfur nánar af slysinu hörmulega á Berufirði, eftir bréfi sem ritað er í Papey 29.september:
Þeir fóru frá bújörð assessors Weywadts, Teigarhorni, er liggur viku sjávar fyrir innan Djúpavog, og ætluðu að sigla út í kaupstaðinn. Var hægur norðanvindur og gott leiði úteftir firðinum; þegar þeir voru komnir nokkuð út með ströndinni, sáu menn af landi, að báturinn lítið fjögramanna far sökk allt í einu að framan, og stóð það ekki á svipstundu, að hann var allur sokkinn. Ekkert hefir annað fundist enn þá af mönnunum og bátnum, nema nokkrar húfur, segl, möstur og árar; hund, er verið hafði með í bátnum, hefir rekið dauðan á land.
Dagana 16. og 17. [september] var hér á Austfjörðum ofsaveður svo mikið á austan, að gamlir menn muna eigi annað eins af þeirri átt. Sjórinn umhverfðist og rauk allur sem þyt mjöll. Misstu margir hjalla sína með öllum sumarafla í, víða tók og hey manna og báta í loft upp, og sást nálega ekkert af síðan. Með ótta og kvíða biðu menn eftir að frétta af hákarlaskipunum (sem nú eru 4 á Berufirði, 3 eign þeirra kapt. Hammers og stórkaupmanns Melchiors í Kaupmannahöfn, og 1 eign assessors Weywadts), er þá voru öll úti; en nú eru þau öll komin til skila, meir eða minna brotin. Hafði þremur þeirra reitt mjög illa af í ofviðrinu. Eitt þeirra, Else", skipstjóri Kristján Jónsson bróðir Jóns þess, er fórst 22. þ.m. og getið er um hér að framan, missti einn mann útbyrðis, Arnbjörn nokkurn Rögnvaldsson, og náðist hann eigi aftur. Hafði seglfestan (ballasten) og allur farmurinn losast í Else" og kastast í aðra hliðina, svo skipinu sló flötu og lá þannig lengi, uns það reisti sig við aftur. Eins var það og með hin tvö skipin, Ingolf" er hinn alþekkti dugnaðar- og heppnismaður Jóhann Malmqvist stýrir og Þórdísi", skipstjóri Keyser, að allur farmurinn losnaði í þeim og kastaðist til, svo þau voru í miklum háska stödd. Af Þórdísi " hafði 2 eða 3 menn tekið út, en varð náð aftur. Skip þessi hafa öll brotnuðu mjög ofansjávar; og nálega öllu því, sem á þilfarinu var, bæði lausu og föstu, hafði sjórinn sópað burt; þau munn því naumast verða gjörð almennilega sjófær, fyrr en efniviður kemur frá Kaupmannahöfn til að bæta áföllin. Fjórða skipið, Bonnesen", skipstjóri Einar Jónsson, það er eign assessors Weywadt, varð best reiðfara skemmdist lítið.
Norðanfari birti þann 21.desember bréf úr Strandasýslu, dagsett 25.september:
Tíðarfarið hefir verið hið blíðasta og besta síðan í 8.viku sumars [seint í júní], þó vorið væri kalt, varð þó grasvöxtur með mesta móti og nýting á heyjum hin besta, og eru því hey með mesta móti og eftir því góð að sjá, 4 vætudagar hafa verið allan þennan sláttartíma, og þó ekki nema smáskúrir.
Þjóðólfur segir þann 22.október af skiptapa í september:
Mánudag 16. [september] lagði kaupafólk, 4 karlar og 4 konur, eður samtals 8 manns frá landi frá Keiksbakka [Keisbakka] á Skógarströnd, á sexrónum báti og ætluðu suður til heimila sinna í Eyrarsveit og máski í Neshreppunum; Formaðurinn var Finnur Bergsson úr Eyrarsveit, maður á besta aldri og röskur sjóliði; en af því hvorki var hann né neinn hinna kunnugur sjóleiðinni (af Skógarströnd þar út eftir), þá tóku þeir kunnugan mann til leiðsagnar, Benedikt frá Gerðey þar á Skógarströnd. Veður var hvasst af austri með rigningu, urðu þeir samt vel reiðfara allt suðurundir eður á móts við Stykkishólm þar sem Svartitangi heitir og sást um það leyti til bátsins þaðan úr Hólminum; þar við Svartatanga kvað leiðir skilja (eftir því hvort maður vill lenda í Hólminum eður halda lengra út eftir), og hafði þá veðurstaðan verið sú, að annaðhvort hefði orðið að beita upp í nokkuð til þess að komast fyrir tangann, eður halda undan og inn á Maðkavík, og nálægt eður innundir Bauluhólma. Þegar skömmu síðar var farið til að gá að hvað bátnum liði, sást hann á hvolfi rétt hjá Bauluhólma og einn maðurinn á kjöl; var þá undið við og farið þangað en eigi varð öðru bjargað en þessum eina manni, það var leiðsögumaðurinn Benedikt, en hinir átta höfðu drukknað allir þá þegar; rak þá 4 kvenmenn nokkru síðar, en allir 4 karlmennirnir voru ófundnir er síðast spurðist. Aftur rak mestallan farangurinn þegar á land, og hafði verið seldur við uppboð.
Þann 26.nóvember birti Tíminn bréf af Austfjörðum, dagsett 14.október:
Tíðin hefir nú verið stirð næstliðinn 3 vikna tíma, sífelldir rosar annað slagið með frostkuldum og úrkomum, heyskapurinn varð endasleppur, en þó allmikill og góður, fiskiaflinn sem var ágætur í sumar, fór nú að réna eftir miðjan september og hefir hann nú um tíma verið mjög reytingssamur, auk þess sem ógæftirnar hafa spillt fyrir.
Tíminn segir 15.nóvember frá slysi við Brákarsund, eftir bréfi úr Mýrasýslu, dagsett 27.október:
[Úr Mýrasýslu, 27.október]: Ég fór úr Rvík þann 13. og upp á Akranes, var þá hroðaleiði, hvass og regn; þann 17. á fimmtudag fórum við af Akranesi, og voru í samflota 4 skip, var þá gott leiði fyrst á sunnan, en hvessti þegar upp á daginn leið, svo þegar við komum inn hjá Höfn, var komið sterkviðri, og undan Þjófaklettum gátum við ekki siglt nema með litlum lappa af framseglinu yfir á Brákarpoll. Þar urðum við að liggja nærri því 5 tíma til að bíða eftir aðfallinu; á þessum 4 skipum voru formenn: Björn hreppstjóri á Svarfhóli, Runólfur Jónsson á Haugum, Jón Jónasson frá Arnarholti, og Jón nokkur frá Brennistöðum í Borgarhrepp; hann bar af skipi sínu þar í Borgarnesi. Kl.4 1/2 fór Jón Jónasson af stað undan eyjunni, þar höfðu skipin legið, því hvergi var hlé annarstaðar; lagði hann út suður sundið; sundið er örmjótt og ákafur straumur í því, en stórviðrið sama, var þar öldugangur mikill og tíður og sjókrappur mjög, þó gekk okkur vel þar út og settum upp segl, þegar við komum skammt út úr sundinu, sigldum síðan tafarlaust upp í Norðurá, var þá um dagsetur, er við lentum. En þegar Jón var að seglbúa, lagði Runólfur á stað og Björn þegar á eftir, en í því Runólfur kom út í sjálft sundið, nálægt því er kaupskip hafa legið, sló skipi hans flötu, fyllti þegar og fór um, örstutt var í land, en landtaka ill, klettar og sjógangur mikill; 9 menn voru á skipinu og komust 5 þeirra á kjöl, og gátu haldið sér þar uns skipið bar að klettunum, og brotnaði það þar i spón, en þessir 5 gátu þó bjargað sér upp á klettana, einn kvenmaður náðist á floti, en 3 drukknuðu, formaðurinn Runólfur Jónsson frá Haugum, Jón bóndi Magnússon frá Arnarholtskoti og yngisstúlka Vilborg Melkjörsdóttir frá Hreðavatni. Lík Runólfs sáluga fannst um nóttina; var Björn á Svarfhóli þar nóttina yfir til að bjarga farangri þeim er náðist, og mun hafa náðst mestur hluti þess er á skipinu var, en margt skemmt; síra Stefán í Stafholti átti skipið. Lík stúlkunnar fannst nokkru síðar, en lík Jóns er ófundið enn. Þannig tókst þetta til bæði mæðulega og slysalega; var mikil eftirsjá að Runólfi sáluga, því hann var bæði góður bóndi, og einhver með greindari leikmönnum í þessari sýslu.
Nóvember. Hlýindi um miðjan mánuð, en annars fremur kalt og tíð talin fremur stirð. Þó var óvenjuþurrviðrasamt bæði austanlands og vestan.
Eftirfarandi frásögn er í Norðanfara 11.desember. Þar segir E.E. Möller verslunarstjóri frá hrakningum sem enduðu með skipskaða snemma í nóvember:
Skonnortbrigg Frederik" sigldi héðan af höfninni 1.nóvember í hálfslæmu veðri og komst heppilega héðan, því að þann dag lagði hér allan Pollinn. Þann dag komst skipið ekki lengra en út fyrir framan Glæsibæ, og lá það þar næsta dag í hríðarveðri. 3. nóvember fór skipið frá Glæsibæ, og komst út að Hrísey þann dag og lagðist þar. 4.nóvember var komið bjart veður og suðvestan froststormur; lagði þá Frederik" frá Hrísey og fékk besta leiði út fjörðinn. Sama dag kl.4 e.m var skipið komið út hjá Grímsey, gekk þá vindur til suðausturs og fór að hvessa, var svo haldið til hafs um nóttina. 5.nóvember var komið austan hvassveður með hríð, svo minnka þurfti öll segl því að alltaf herti veðrið og stórsjóinn, svo að næsta morgun þann 6. var búið að binda öll segl nema aðeins tvö alrifuð; jókst alltaf ofviðrið og eins ósjórinn, svo stöðugt gekk yfir skipið og færðist vindur þá til norðausturs. Kl.5 sama morgun kom brotsjór einn mikill, sem gekk yfir skipið, fleygði því á hliðina, mölvaði 15 stólpa og alla háreiðina niður við þilfar framan frá kinnungi, aftur fyrir miðju og stórseglsásinn, reif um þvert stórseglið, sleit skonnortuseglið frá mastrinu, mölvaði eldhúsið og tvær vatnsámur, sleit lausan stórbátinn, sem þó ekki skolaði út, molaði í sundur pramma, sem var á þilfarinu, og allt sem ofan þilfars var skolaði út eða brotnaði. 7.nóvember var sama ofveður með stórhríð, svo ekki réðist við neitt, nema láta reka; kl.7 um kvöldið gekk yfir skipið annar brotsjór, sem mölvaði eldhúsið að nýju, það sem búið var að lappa upp á það og reif stagfokkuna. 8.nóvember um morguninn fór að lægja veðrið og sáu þá skipverjar, að þeir voru útaf Skagafirði, og réðu þá af að halda inn á Hofsóshöfn, sem var nst, því eftir brotið á stórseglsásnum gátu þeir ekki stjórnað skipinu til að beita neitt nema halda undan veðrinu. Kl.3 e.m. sama dag, komst Frederik" inn að Hofsós og lagðist þar á vanalegri skipalegu. Var þá strax tekið til að gjöra að skipinu sem best mátti og efni voru til, og var starfað að því verki með miklum dugnaði, og af því veður var gott þá dagana, var búið að gjöra að öllu þann 12. um kvöldið, og var þá skipið alveg seglbúið og átti að leggja af stað snemma næsta morgun. En um nóttina milli 12. og 13. gekk upp suðvestan ofsaveður, voru þá látin út bæði akkeri og festar gefnar út á enda. Kl.3 um nóttina hrökk í sundur önnur festin og tók þá skipið að reka með hinu akkerinu, allt til þess grynnsla kenndi, voru þá höggvin möstrin og jafnframt, var skipið strax orðið svo laskað, af að höggva niðri á grynnslunum, að sjór var genginn upp í lestina. Komust skipverjar í land um morguninn, með því að skríða á mastrastúfunum. Skipið bar að landi mitt á milli óssins og nafarinnar við Hofsós.
Þann 8.janúar 1873 birti Norðanfari bréf rituð í nóvember:
[Barðastrandarsýslu, 6. nóvember]: Síðastliðið sumar, var hér á Vesturlandi, eins og víst hvervetna, óminnilegt að veðurblíðu, og yfir höfuð sem menn segja, veltiár til lands og sjóar; heyafli hér með mesta móti og nýtingin þar eftir. Þessi góða tíð hélst til þess 1. október; en síðan til þess í dag fremur stirð, norðan með frosti og nokkurri snjókomu. Heilsufar manna hefir einnig verið með besta móti;
[Steingrímsfirði 9. nóvember]: Eftir að ég skrifaði yður, varð veturinn hér æði harður, og vorið fram eftir bætti ekki um, urðu því slæm höld á fé manna, og sumir misstu mikið og unglambadauðinn varð fjarskalegur. Málnyta varð sárlítil, mun það mest hafa verið af vatnsleysi. Hafís lá hér á öllum Húnaflóa, samt varð nokkur afli á Gjögri, og bestur vegna þess, að hákarlinn var allur fluttur í land fram á miðjan maímánuð. ... Næstliðið sumar var hér grasvöxtur og nýting á heyjum hin besta og heilsufar manna eins. Votengi spratt best, en þar grunnt var ofan á grjót, brann grasið af til stórskaða; fífa spratt hér svo mikil, að ég held hún gjöri heyin óæt og kenni fé að éta af sér ullina. Í ágúst strandaði hér frakknesk fiskiskúta frá Paimpol á skeri við Steingrímsfjörð, ... Síðan í 23. viku sumars hafa verið sífelld illviðri og snjóhríðar; skurðarfé reyndist í haust mjög rýrt; heimtur voru með versta móti, sem kennt er hinni góðu tíð og vatnsleysinu, þar sem margir lækir og enda smáár þornuðu upp. ...
Tíminn segir af tíð í pistli þann 15.nóvember:
Árferði hér sunnanlands hefir verið síðan blað þetta kom út 16.[október] á þessa leið: Oftast norðanátt með stormum, og frost nokkur seinni hluta októbermánaðar, en með þessum mánuði og það sem af honum er, hafa frostin orðið meiri 56° og snjókoma nokkur verið til sveita en tók upp aftur, 14.15. þessa mán. Sjógæftir hafa sjaldgæfar verið sökum storma það sem af er haustvertíð þessari, en fiskast hefir nokkuð af þorski og stútungi þá gefið hefir að neyta þess.
Tíminn segir þann 27.nóvember frá skipbroti á Bíldudal - dagsetning óviss:
Úr bréfum er bárust með vestanlandspóstinum fréttist að jaktin Trende Brödre frá Bergen, er færa átti vörur til Hákonar kaupmanns á Bíldudal, og mjöl hingað í Rvík til norska bakarans, hafi slitið upp á dögunum af ofviðri á Bíldudal, og rekið í land; sagt er að brotnað hafi gat á hana, og mjölið að líkindum farist, en vörur kaupmannsins voru allar áður í land komnar.
Norðanfari birti þann 21.desember úr bréfi úr Húnavatnssýslu, dagsett 30.nóvember:
Veðuráttan um fjártökutímann svo ill, að oft mátti ófært heita, einkum yfir ár, og sumir höfðu lofað fé til Englendinga, þó að vísu sá fastsetti tími væri útrunninn, áður en fjártakan var úti. Eins og annarstaðar var æskilegasta heyskapartíð hér í sumar og grasvöxtur góður, jafnvel á sumum stöðum eins og í fyrra. Á stöku stöðum einkum fram til dala, varð vart við grasmaðk, helst í úthaga, en ekki varð það til stórskaða, en meiri skaði varð að því, hvað brann af harðvellistúnum, með því þau unnust líka seint vegna þurrkanna og kvefveikinda, sem þá voru hér mjög almenn. Heyskapur varð yfir höfuð í betralagi og hey almennt meiri og betri en nú hefir verið í mörg ár. Með október fór tíð að verða mjög óstöðug með talsverðum fannkomuíhlaupnm og blotum á víxl. 2. október varð hér sumstaðar til sveita 12 stiga frost á Reaumur [-15°C], og daginn eftir 10 [stig]. Fyrstu vikuna af þessum mánuði (nóvember), voru oftast norðaustanhríðar, og kom mikill snjór, en 3 og 4 vika vetrar var besta tíð oftast þíður. Nú er aftur komin nokkur snjór. Mjög hefir verið storma- og ógæftasamt, svo víða hefir haustafli orðið rýr, en þó fiskur fyrir þegar róið hefir verið.
Norðanfari birti þann 21.desember úr bréfi úr Skagafirði, dagsett 4.desember:
Tíðin er stirð með slögum, eins og mun vera fyrir norðan, og gæftaleysi afleitt fyrir Sléttuhlíð; hefir svo verið jafnaðarlegast í haust, að gefið hefir á sjó aðeins einu sinni í viku, helst á mánudögum og þó eigi í hverri viku, því er afli hér mjög lítill og ekki meiri en um 200 og þar fyrir innan. Aftur er á Höfða kominn hlutur á 6. hundrað og viðlíka á öðrum stað á Höfðaströnd. Aðeins hefur rekavart orðið, en eigi að neinum mun.
Þjóðólfur segir af skipbroti og tíð í pistlum þann 7.desember:
Einhvern síðustu daganna [í nóvember] hafnaði sig á Ísafirði skipið Louise, nálega 30 farmlesta, skipstjóri Rasmussen, frá Kaupmannahöfn eftir 89 vikna útivist. Skipið var eign Clausen generalkonsúls og stórkaupmanns, hlaðið kornvöru, kaffi, sykri og annarri nauðsynjavöru, er skyldi vera til vetrarforða við verslanir hans á Ísafirði og Stykkishólmi. Skipið lagðist fyrir akkerum inni á Pollinum", en hann var þá með allmiklum ískrapa, er setti í hrönn utanum skipið og varð allt samfrosta hina fyrstu nótt; en er frá leysti, daginn eftir (líklega af þey er þá gerði eður dró úr frosti), og tók að brotna utan af skipinu, losaðist þar með tjöruverks-diktingin" milli byrðingsplankanna, á ýmsum stöðum, svo skipið tók þegar mikinn leka, og gekk svo sjór í lestina, að við ekkert varð ráðið, áður en nokkru yrði upp skipað, heldur tók skipið mjög að sökkva. Var þá af ráðið að gefa upp skip og farm sem annað strand, og var allt selt við opinbert uppboð 2. [desember] fyrir nálega. l0.000 rd. allt til samans; ...
Tíðarfarið frá því um höfuðdag og fram til jólaföstunnar hefir mátt heita gott að vísu til landsins yfir höfuð að tala; eiginleg illviðri óvíðast, og því síður hörkur eða umhleypingar; haustið og fyrstu 6 vikurnar af vetrinum hefir verið einstaklega þurrt og rigningalaust, milt og frostvægt nálega yfir allt; október og nóvember talsvert yfir eða +0°R að meðaltali. En snjóasamt víða um útsveitir norðanlands, og stormasamt yfir allt með köflum. Eftirtektarvert er því hve svo einstaklega hagstætt sumar sem þetta er leið, mátti kalla yfir allt land, varð erfitt og hjáleitt í einstökum héruðum, og batt þar endahnútinn á með verulegum spilli þess bjargræðis, sem í þeim héruðum eru sérstakleg og til stórra bóta. Ofsa-austanveður af austri og landsuðri eyddu eigi aðeins fílungatekjunni í Vestmanneyjum og í Mýrdalnum meir en til helminga við vanalega eftirtekju, heldur skóku þau veður svo villikorn eður melstöngina í Skaftafellssýslu vestari einkum um Álftaver og Meðalland, af því nú var axið einstaklega vel þróað sakir hins óvanalega sumarhita, að þegar kom að uppskerunni, þá var burtu skekinn víðast hvar, meira en 2/3 kornsins, og það svo, að um hina efri bæi í Álftaveri mátti engi heita eftirtekjan þegar til melskurðarins kom. Það var og eftirtektavert með héruðin í Vestur-Skaftafellssýslu milli Skeiðarársands að austan og Steigarháls eða einkum Reynisfjalls að vestan, að þar náðu menn mjög litlu undan af töðu sinni fyrr en komið var fram um 20. ágúst, svo þurrt og hagstætt til töðuverkunar og annarra heyanna sem sumar þetta reyndist annarstaðar yfir land allt; en þá tóku við þar eystra stormveður þau, er fyrr var minnst, og voru þau svo afarhörð, að röskir menn austan yfir Mýrdalsand, urðu að liggja þau af sér hér megin sandsins, um 3 daga, af því þeir treystust eigi að komast austur yfir í móti, rétt sem vetrarbylur hefði verið hinn harðasti. Álíka snjóhríð, með ofsa-austanveðri, skall á þar eystra 1. dag [nóvember]; kyngdi þá niður svo miklu snjófergi þar um byggðir og Mýrdalsand, þann dag og 2 dægrin næstu, að menn er ætluðu vestur yfir sandinn með fé, og svo öðrum héraðsmönnum þótti alófært yfir sandinn að komast hinn næsta 1/2 mánuð sakir ófærðar; en fé fennti víða um sveitirnar fyrir austan sandinn, og var verið að grafa það upp úr fönn smámsaman fram undir miðjan [nóvember], flest að vísu tórandi er það var fundið, en margt þá ófundið. Bóndinn á Strönd í Meðallandi (nýbýli frá Rofabæ) missti þá í bylnum milli 20 150 lamba og eitt hross er allt hrakti í Kúðafljót og fórst þar, en fljótið sjálft rak þá saman með helluís þá eina nótt (milli 1. og 2. [nóvember]) og munu þess engi dæmi, síst svo snemma vetrar, því það er allra vatna tregast að leggja og ekkert vatn, svo menn þekki að ísinn þeyi af eður bili jafn treglega, sem á Kúðafljóti, enda hefir í almælum verið þar um sveitir, að lagnabarís á Kúðafljóti þyldi 1/2 mánaðar þey jafnvel þótt fram á útmánuði væri komið.
Desember. Kalt í veðri, en ekki miklar úrkomur. Tíð almennt talin óstöðug.
Þann 8.janúar 1873 birti Norðanfari úr nokkrum bréfum sem rituð voru í desember auk frétta úr póstferð í sama mánuði:
[Eiðaþinghá 6. desember] Það er merkilegt að ég hefi hvergi séð þess getið að í sumar 21. ágúst heyrðist bæði hér á hæ og víðar hér nálægt dynkir og ógurlegir brestir; þeir voru tíðastir um morguninn, og taldi ég 30 frá því kl.9 til 11 f.m. Brestirnir virtust að vera hér um nónstað og leiða til útsuðurs, en það er héðan í stefnu á öræfin inn af Fljótsdal. Menn töldu víst, að þetta væri eldgosabrestir, en ekkert hefir heyrst um það meira".
[Breiðdal 12.desember] Með allraheilagramessu setti niður stórsnjó, en hann tók aftur upp að mestu eftir Marteinsmessu [11.nóvember], því þá gekk í þíður og rigningar nokkra daga, en eftir það fór tíðin að kólna með snjókomum og blotum; eftir aðventu varð haglaust fyrir allar skepnur, er síðan hafa staðið við gjöf.
[Reyðarfirði 13. desember]: Veðrið hefir verið mjög bágt þetta haust og það sem af er vetri, stöðugt norðaustanátt og norðan með stormum og ógæftir einstakar, en þá sjaldan hefir verið róið, er afli víðast, helst utarlega á fjörðum, Snjólítið hefir verið og jarðir allstaðar til þess fyrir hálfum mánuði síðan, gjörði þá krapahríðar og frost á milli, varð láglendi allt gaddað og síðan setti niður snjó, svo nú má heita jarðlaust í hálfan mánuð yfir allt Austurland. Ef það helst lengi við, mun sneiðast um heybirgðir manna þótt miklar þættu víðast í haust.
[Úr öðru bréfi úr Reyðarfirði, 15.desember] Ég man aðeins eftir 8 logndögum í 12 vikur.
[Fljótsdalshéraði 14. desember]: Hausttíðin var mjög óstillt og gæftir á sjó mjög bágar, svo haustaflinn varð lítill og víða enginn, þó afli væri fyrir. Oft rigndi býsna mikið og ýmist snjóaði. Í byrjun þessa mánaðar snjóaði mikið, og er nú orðið haglaust að öllu eða mestu um allt Austurland, nema ofarlega á Jökuldal. En ég hefi frétt úr mörgum sveitum. Í dag er að byrja þíða hvað mikið sem úr henni verður".
[Þann 22.desember 1873] kom norðanpósturinn hingað aftur að sunnan. Skiptapi hafði orðið á Hrútafirði 10.[desember] með 5 manns, er voru að flytja sig heim úr fiskiveri austur yfir fjörðinn, ... 4. desember voru 4 menn á Kjalarnesi staddir sjóleiðis í Reykjavík, og tóku að sér að flytja 2 menn upp á Akranes, en þaðan á heimleiðinni höfðu þeir drukknað, er haldið þeir hafi farist í svonefndu Músarsundi. Morguninn eftir fannst skipið rekið ásamt 2 árum og spriti fram á Skipaskaga á Akranesi. Þá er Níels póstur lagði héðan austur um næstliðin mánaðamót nóvember og desember var komin svo mikil fönn, að hann varð að fara í kring Tjörnes. Hann hafði hest í eftirdragi, er sleit frá honum í svonefndum Hallbjarnarstaðakambi og hrapaði þar ofan í fjöru til dauðs, og aftur á Hólssandi var Níels nærri því búinn að missa annan hest af ófærð og klakabrota, en þá er hann kom að Hofteigi fékk hann þar gisting og lét farangur og reiðtygi sín nema pósttöskuna inn í skemmu þar á hlaðinu, en seint um kvöldið þá út var komið, var skemman brunnin að mestu með því sem í henni var til kaldra kola. ... Níels póstur kom aftur að austan hingað 26.[desember] hafði hann alla leiðina að austan fengið illviður og illkleyfa færð.
Norðanfari segir af tíð þann 11.desember:
Yfir höfuð hefir veðuráttan hér nyrðra alltaf verið óstillt og oft úrkomu- og hríðasöm, og nú er víða komin mikil fönn, og hagskart sumstaðar vegna harðfennis og áfreða.
Norðanfari birti þann 26.febrúar 1873 bréf úr Hornafirði, dagsett 20.desember:
Héðan er ekkert að frétta nema góða heyjatíð til loka og næg hey, en síðan í septembermánaðarlok, hefur alltaf verið stormasöm og óstöðug tíð. [Þ.2.nóvember] kom hér mikill fjárskaðabylur; fennti þá víða fjölda fjár, því frost og fannkoma var óskapleg og óvanaleg hér um þann tíma árs, en til allrar hamingju stóð það ekki nema eitt dagsmark. Flest féð er fundið, sumt dautt og sumt lifandi.
Norðanfari segir almennt um tíð þann 21.desember:
Síðan að seinasta blað Nf kom hér út (11.þ.m.) hefur veðuráttan verið tilkomulítil nema 17.þ.m. að töluvert rigndi, en daginn eftir frost, svo nú er talsvert lakara til jarðar en áður. Hvergi er þess getið, ... Maður var hér af Flateyjardal 18. þ.m. er sagði að þar væri búið að gefa fé inni í 7 vikur. Einnig sagði hann að þar hefði nýlega orðið vart tveggja jarðskjálfta og að annar þeirra hefði verið býsna harður.
Tíminn segir af veðráttu 31.desember:
Síðan að Tíminn kom út seinast, hefir veðuráttufarið verið á þessa leið: oftast norðanátt með frostum, er mest hafa orðið 11°. Kólga og norðanstormur var um hátíðina, en mestur á Þorláksmessu, 2. og 3. í jólum. Í árbókum 19. aldar þessa lands, má telja ár þetta sem nú er að renna út, eitthvert hið besta og hagfelldasta í flestum greinum, af þeim 72 árum, sem af henni eru liðin í skaut eilífðarinnar.
Þjóðólfur segir af tíð í desember í pistli þann 3.janúar 1873:
Veðráttan hefir allan [desember] verið köld fremur, og snjóa sem úrkomulaus, en fjarska norðanstormar hér dagana 26.-29.; síðastnefndan dag framanverðan var hér snarpast frostið 10°R [-12,5°C]. Útjörð öll mjög veðurbarin og hæst, einkum þar sem berlendi er og hátt liggur; nú komin jarðbönn.
Tíminn birti þann 3.maí 1873 bréf úr Þingeyjarsýslu, dagsett á nýársdag:
Nú sem stendur er hér fremur snjómikið og jarðlítið, því mikil snjókoma hefir verið um öll jólin. Afli var hér inn á firði (Eyjafirði) fast fram að jólum, því síld fékkst alltaf til beitu á jólaföstunni.
Lýkur hér að sinni yfirliti hungurdiska um veður og tíðarfar ársins 1872.
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.12.): 120
- Sl. sólarhring: 144
- Sl. viku: 955
- Frá upphafi: 2420770
Annað
- Innlit í dag: 111
- Innlit sl. viku: 843
- Gestir í dag: 106
- IP-tölur í dag: 105
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010