Á hillunni

Undanfarna daga hefur sólin skinið sunnanlands og fyrir norðan hefur veður verið meinlítið og víða gott. Vindar eru einnig hægir í háloftunum kringum landið eins og sjá má á kortinu hér að neðan.

w-blogg230820a

Það sýnir allstóran hluta norðurhvels jarðar - norðurskaut rétt ofan við miðja mynd og Ísland ekki langt þar fyrir neðan. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar - af þeim má ráða vindátt og vindstyrk. Sjá má að heimskautaröstin hringar sig nú nánast allan hringinn - ekki fjarri 50. til 55. breiddarstigi. Sunnan við hana eru mikil hlýindi (eins og vera ber) - en öllu svalara norðan við. Hitann greinum við af þykktinni sem hér er sýnd með litum. 

Vestan við land er dálítil hæð og hún sér um að halda nokkurn veginn hreinu hjá okkur - þó heldur veikburða sé. Ekki er gert ráð fyrir stórfelldum breytingum á þessari stöðu næstu daga. Nokkuð öflugar lægðir ganga með norðurjaðri rastarinnar austur um Bretland og Norður-Evrópu. Gríðarmikil hæð er yfir vestanverðum Bandaríkjunum og önnur yfir Asíu sunnanverðri. Þeir sem sjá vel greina tvo hitabeltisstorma sem örsmáa mjög hlýja bletti á þykktarkortinu - þykktin er yfir 5820 metrar í miðju þeirra. Marco er hér við strönd Mexíkóflóa - og Laura við Kúbu. Það mun óvenjulegt að tveir fellibyljir ógni sama landsvæði með aðeins tveggja daga millibili - og sæmilega áreiðanleg heimild ritstjórans segir slíkt ekki hafa gerst á þessu strandsvæði [Louisiana] á þeim tíma sem heimildir greina frá (230 ár). - En hvort þetta mun gerast er auðvitað óljóst á þessu stigi.

Á myndinni má sjá að rauð punktalína hefur verið dregin um 20 gráður vestur - norður að pól og þaðan aftur til suðurs um 160 gráður austur. Við lítum á 500 hPa-hæð eftir sniðinu.

w-blogg230820b

Hæðin er á lóðrétta ásnum - sýnd í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Lengst til vinstri er staður ekki langt frá Kanaríeyjum. Þar er hæð 500 hPa-flatarins rúmlega 5900 dekametrar. Ef við fylgjum ferlinum til hægri kemur þar sem hann fellur mjög ört - þar er heimskautaröstin með sinn stríða vestanvind. Norðan við hana er aftur flatneskja - hækkar aðeins nærri Íslandi (gætir hæðarinnar vestur undan). Norðan við 70.breiddarstig fellur hæðin hins vegar mjög ört aftur - þar komum við inn í stóran kuldapoll (sjá fyrri mynd) og handan hans er önnur flatneskja og svo dálítill kuldapollur - en mun veigaminni en hinn. Þá er aftur komið inn á áhrifasvæði heimskautarastarinnar. 

Á þessum árstíma eru ákveðin þáttaskil í veðrakerfinu - vindátt snýst úr austri til vesturs í heiðhvolfinu (meir en 20 km hæð) og örar fer að kólna á norðurslóðum. Kuldapollarnir taka að vaxa. Við sjáum að lægsta hæð 500 hPa-flatarins á kortinu er 5260 metrar. Í janúar - eftir um 5 mánuði verða lægstu tölur í kringum 4750 metrar - (nokkuð breytilegar frá degi til dags) - hæðin hefur fallið um 500 metra eða þar um bil. Suður við hvarfbaug hefur hæðin breyst mun minna - algeng hæð á þeim tíma árs er þar um 5800 metrar. Hæðarmunur milli kaldra og hlýrra svæða hefur því aukist um 400 til 500 metra, 7 til 8 jafnhæðarlínur hafa bæst á kortið - um það bil tvær á hverjum mánuði. Það samsvarar 4 til 6 stiga kólnun lofthjúpsins á norðuralóðum í hverjum mánuði. Undirlagið - meginlöndin tvö og úthöfin tvö kólna mishratt - höfin geyma varma sumarsins lengur og betur heldur en yfirborð meginlandanna. Norðuríshafið er síðan kapítuli út af fyrir sig. Þessi miskólnun veldur því að meiri sveigjur og beygjur verða til á röstinni - til allrar hamingju fyrir okkur því flutningur hennar á varma til norðurs (og kulda til suðurs) veldur því að haustkólnunin - og vetrarkuldinn verða hér mun minni en ella væri. - Óheft kólnun á norðurslóðum (án allrar blöndunar að sunnan) er um eitt stig á dag þegar kemur fram á haustið. 

Vetrarillviðrin eru því á sinn hátt sú greiðsla sem við þurfum að láta af hendi til að hita verði haldið uppi. Sagt er að ársmeðalhiti á Íslandi sé rúmlega 50 stigum hærri en hann væri ef geislunarbúskapur einn réði ríkjum. Ekki er algjört samkomulag um vægi einstakra flutningsþátta varma til okkar - enda eru þeir svo samtengdir að erfitt er að aðskilja þá fullkomlega. 

En á okkar mælikvarða er haustið í sjónmáli - það er mætt á svæðið - inni í kuldapollinum fyrir norðan okkur. Svo lengi sem hann heldur sig burtu sitjum við í sumri - eða einskonar sumri. Þessa dagana er hann óþægilega nærri - en er samt ekki spáð til okkar. Við vonum bara að sumarblíðan haldist sem lengst. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg200324b
  • w-blogg200324a
  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 18
  • Sl. sólarhring: 67
  • Sl. viku: 416
  • Frá upphafi: 2343329

Annað

  • Innlit í dag: 14
  • Innlit sl. viku: 374
  • Gestir í dag: 13
  • IP-tölur í dag: 13

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband