Af árinu 1874

Tíð var talin mjög óhagstæð á árinu 1874, veturinn sérlega kaldur og illviðrasamur. Sagt var að árið hafi verið eitt hið versta á öldinni. Enginn mánuður ársins var hlýr, en 9 teljast kaldir. Janúar var einn þriggja köldustu janúarmánaða sem vitað er um í Stykkishólmi og var þar að auki óvenjuillviðrasamur. Ársmeðalhiti í Stykkishólmi var 2,0 stig, -0,7 stigum kaldari en meðaltal næstu tíu ára á undan. Ársmeðalhiti í Reykjavík var 3,1 stig og giskað er á 1,5 stig á Akureyri (en mjög óviss tala).

ar_1874t

Hæsti hiti ársins mældist á Djúpavogi 18.júní, 22,1 stig, en mest frost í Stykkishólmi 19.janúar, -22,4 stig - en höfum í huga að engar áreiðanlegar mælingar voru inn til landsins á þessu ári og frost vafalítið meira þar. Frostið mældist t.d. -24 stig í Hvammi í Dölum þann 11. og 13.janúar en á ókvarðaðan mæli. Telja má 21 óvenjukaldan dag í Stykkishólmi, þar af 11 í janúar. Að tiltölu varð kaldast 18. og 23.janúar. Einn dagur telst mjög hlýr, 13.júní. 

Mikill hafís var við land langt suður með Austfjörðum og var sérlega þrálátur við Hornstrandi. Hann truflaði siglingar mjög. Miklir lagnaðarísar voru víða á fjörðum.

Úrkoma mældist 738,2 mm í Stykkishólmi, það er í ríflegu meðallagi. Að tiltölu var úrkomusamast í febrúar og október, en þurrast í ágúst og desember. Enginn mánuður var þó tiltakanlega þurr. 

ar_1874p

Loftþrýstingur var óvenjulágur í apríl og þrýstiórói með meira móti í janúar. Lægsti þrýstingur ársins mældist í Stykkishólmi þann 20.janúar, 957,9 hPa, en sá hæsti á Djúpavogi þann 7.febrúar, 1039,1 hPa. Djúpar lægðir gengu yfir landið um sumarið, t.d. fór þrýstingur niður í 965,2 hPa í Stykkishólmi þann 28.ágúst. 

Hér að neðan eru blaðafrásagnir af tíð og veðri. Eins og venjulega er stafsetning að mestu færð til nútímaháttar. Að auki eru lítilsháttar upplýsingar úr öðrum áttum.

Séra Valdimar Briem ritar tíðarfarsyfirlit ársins í „Fréttir frá Íslandi“:

Veðuráttufar á Íslandi árið 1874 var í kaldasta lagi, einkum um veturinn framan af árinu. Þegar fyrir nýár voru hörkur miklar komnar víðs vegar um land, en eftir nýárið fóru þær mjög vaxandi. Þó mátti skaplegt veður kallast hina fyrstu viku ársins, enda þótt býsna hart væri, en eftir það brá til hríða og illviðra, og kyngdi niður snjó miklum víða. Yfir tók þó fyrst um miðjan janúarmánuð. Íshroði hafði verið að rekast fyrir landi frá því í nóvembermánuði, og stundum komið inn á firði fyrir norðan land, en aldrei orðið reglulega landfastur; þar á móti voru frost svo mikil, að víða lagði víkur og firði. Um um miðjan janúarmánuð lagðist hafísinn fast að landinu og varð samfrosta við lagnaðarísinn; urðu þá hafþök af ísi fyrir miklum hluta Norðurlands. Meðan hafísinn var að leggjast að landinu og fyrst eftir það, voru harðindin mest. 11. og 12. janúar gjörði stórhríð nálega yfir allt land, einkum Norðurland og Austfirði; þar með fylgdi stormur ofsalegur; í einni þeirri svipan tók upp timburkirkjur 2 á Austfjörðum (Berunesi og Berufirði) og brotnuðu báðar; margt varð þá fleira fyrir tjóni. Þessa daga var og grimmdarfrost mikið; í Reykjavík var frostið yfir l8 stig (Réaumur, -22,5°C), en viða norðanlands 24—26 stig [-30 til -32,5°C]. Hinn 13. janúar létti upp stórhríðinni, en eigi létti enn af harðindunum; því nær til mánaðarloka voru sífelldar kólgur og kafaldsbyljir, frost og fannkomur; svellalög og fannfergja voru yfir allt land og jarðbönn fyrir allar skepnur. Tóku þá bœndur víða að sjá sitt óvænna með fénað sinn, þar sem harðindin voru svo samfelld, að aldrei mátti beita, en allan pening varð að hafa á stöðugri gjöf; var nú eigi annað ráð fyrir hendi en að fækka fénaði svo sem mátti, og skáru menn í mörgum sveitum með þorrakomu. Síðustu dagana í janúar og fyrstu dagana í febrúar gjörði hláku, en þá komu aftur kalsahríðir og snjógangur með blotum á milli. Undir miðjan mánuðinn kom aftur hláka og talsverð leysing; losnaði þá um hafísinn og hörfaði hann frá um stund, en jörð kom enn eigi upp til muna. Síðari hluta mánaðarins var veðurlag víða óstöðugt, en eigi mjög hart. Í mars kom hafísinn aftur að landi og harðnaði þá um hríð, einkum á Norðurlandi; í sumum sveitum, svo sem víða í Þingeyjarsýslu voru hin verstu harðindi þann mánuð allan og fram í apríl. Aftur fóru sumstaðar að koma upp hagar, sér í lagi á Suðurlandi, en lítt urðu þeir þó enn notaðir, því að umhleypingasamt var og oft illt ástöðuveður. Í apríl var veðurátta lík, nema nokkru mildari; um miðjan þann mánuð (14—17.) voru ofsaveður mikil sunnanlands; hröktu þá skip víða, net eyddust og nokkrir menn týndust. Upp frá þessu fór veður batnandi, og má telja, að með vetrarlokum hafi harðindin verið úti. Svo hafa margir gamlir menn sagt, að eigi myndu þeir annan vetur, er hefði verið jafnharður og jafnlangur yfir allt land sem þessi; er það almæli, að hann hafi verið einhver hinn harðasti á allri þessari öld og með hinum harðari vetrum, er getið er í annálum, þótt afleiðingar hans yrðu eigi jafnhörmulegar sem margra vetra fyrrum. Nöfn hafa menn gefið þessum vetri eins og mörgum hinum fyrri harðindavetrum; hafa sumir kallað hann „Hreggvið stóra", en aðrir „svellavetur hinn mikla"; má hvorttveggja heita sann-nefni, því að bæði var hann mjög hreggviðrasamur, og eins voru svell og ísalög þá í mesta lagi. — Með sumarkomunni brá veðuráttu mjög til batnaðar því nær allstaðar um land, og tók nú snjó og svell upp að mestu leyti á fáum dögum. Enn lá hafísinn þó fyrir mestöllu Norðurlandi og allt þangað til seint í maímánuði; þá losnaði hann loksins frá landi og rak til hafs; hafði hann þá verið landfastur því nær samfellt í 18 vikur. Meðan ísinn var við land, var sífellt nokkuð kalsasamt nyrðra og vestra, en upp frá því voru hlýindi mikil það sem eftir var maímánaðar og fyrra hluta júnímánaðar; aftur var að tiltölu kaldara um þenna tíma syðra og eystra. í miðjum júní kom hafísinn enn að landi fyrir Ströndum og var þar að hrekjast fram og aftur því nær mánaðartíma; eftir það hörfaði hann frá til hafs, en var þó nærri landi lengi fram eftir sumri. Síðara hluta júnímánaðar og nokkuð framan af júlí voru kuldahret við og við nyrðra, vestra og eystra með krapaskúrum og snjó ofan í byggð. 9.júlí snjóaði lítið eitt víða um land í byggðum. Miðsumarmánuðirnir voru víðast hvar kaldir, en fremur þurrviðrasamir, nema í stöku sveitum syðra og vestra. Að áliðnu sumri tók mjög að kólna, en allgóð tíð mátti þó kallast þar til síðast í september. Þá gjörði illviðrakafla mikinn og ofsaveður, er stóð til hins 5. október, og kvað einkum rammt að því á Norðurlandi. Skip slitu upp, hús fuku, hey fauk og hrakti, fé hrakti og fennti; þá voru fjárrekstrar miklir á fjöllum, er ofviðrið dundi yfir, og týndist talsvert af fé, hafðist sumt aftur, en sumt ekki. Það sem eftir var af október og þó einkum framan af nóvember var mjög óstöðugt veður og umhleypingasamt, en sjaldan frost mikið. Eftir það var svalt veður en stillt fram í desember, en síðan að mestu þítt og hlýtt, en nokkuð vindasamt allt til ársloka.

Heyskapur varð víða fremur lítill síðastliðið sumar, og allvíða enn minni en sumarið áður. Framan af vorinu virtist svo sem grasvöxtur mundi verða góður, þar sem jarðvegur var óskemmdur af kali, en þá komu kuldanæðingar með ísnum, er hann rak aftur að landinu í miðjum júní, og komu kyrkingi í grasvöxtinn, svo að lítið spratt úr því. Lakast voru tún sprottin og annað harðlendi, og þar á ofan bœttist það, að víða voru stór svæði í túnum kalin eftir veturinn, og á stöku stað skemmdust þau einnig af grasmaðki. Engjar og votlendi voru að tiltölu betur sprottin, og þó óvíða vel. Svo er að sjá sem grasvöxtur hafi yfir höfuð að tala verið betri á Norðurlandi og Austurlandi en á Suðurlandi og Vesturlandi. En þótt grasvöxturinn væri hvervetna í minna lagi, þá var heynýtingin aftur góð víðast mestan hluta sumars. Heyaflinn að haustinu varð þannig lítill, en góður, eins og árið áður, en nú voru heyfyrningarnar frá fyrra ári langtum minni, og sumstaðar engar eða því nær. Þó að nokkrir heyskaðar yrðu í illviðrakastinu um haustið, gætti þessa eigi allmikið fyrir almenning. Heybrunar voru einnig mjög óvíða. Kál, rófur, kartöflur, hafrar og bygg spruttu í meðallagi; melurinn í Skaftafellssýslu í betra lagi, fjallagrös í lakara lagi.

Janúar: Mjög köld og erfið tíð, hart frost með köflum og úrkomusamt.

Nóttina milli 11. og 12.janúar fauk snjómælir á Teigarhorni í fárviðri og eyðilagðist.

Norðanfari segir þann 17.janúar:

Aðfaranóttina hins 12.[janúar] og um daginn og nóttina eftir fram undir háttatíma var hér grimmasta norðanstórhríð með 18° frosti [-22°C], en þann 13. var heiðríkt, kjurt og bjart veður með 21° frosti [-26°C]. Sást þá að fjörðurinn var orðinn fullur með hafís inn fyrir Oddeyri, nema dálítil rifa í hann landa á millum fyrir utan Ósgrunn. Enn hefir ekki heyrst, að nokkur höpp hafi komið með þessum ís, nema dálítið af spýtum. ... Í byrjun stórhríðarinnar 11.[janúar] hafði vinnumaður frá Draflastöðum í Fnjóskadal orðið úti, ... 

Víkverji segir lýsir veðri næstliðnar vikur þann 17.:

[Þ.] 3. janúar og 4. norðangola með miklu frosti, 5. landsynningur og hláka 6. útsynningsstormur með éljahríðum, 7. hæg vestanátt, 8. norðangola, 9. og 10. umhleypingar, höfuðáttin á sunnan, 11. hörkufrost og norðanbylur, 12., 13., 14. hörkufrost og norðangola, 15. snjókoma töluverð í logni, 16 norðangola, gjörði blota um kveldið. ... Reykjavíkurhöfn fór að leggja 11. allt út að skipinu, sem enn er á höfninni. Skerjafjörður er lagður og hefir verið genginn síðan 13. þ.m. Ágætur fiskiafli helst við í Garðs- og Leirusjó, 9. fóru ein 15. skip héðan suður, þau komu aftur 14. og 15. og höfðu fiskað allvel, ...

Þjóðólfur segir af illri tíð þann 19.janúar:

Veðráttan hefir síðan um nýárið verið hér fjarskaköld, frostasöm og umhleypingasöm. Mest hefir frostið orðið 7. og 12. janúar hátt á 18. mælistig R [-22,5°C], og aðeins (5. og 6. þ.m.) hefir hitinn verið yfir 0°R, Allir vogar og víkur um Kollafjörð lagðar ísi, og síðan 11.þ.m. talsverður ís á Reykjavíkurhöfn, sem þó sjaldan ber við. Úr sveitum höfum vér lítið frétt enn, sem áreiðanlegt sé.

Víkverji segir þann 24.janúar [á timarit.is er blaðið ranglega sett á 24.apríl]:

[Þann 17. og 18. janúar] norðangola, 19. um kvöldið hleypti í lini, 20. og 21. austan og útsunnangola, 22. útsunnan hvassviðri með byljum 23. norðangola. [Þ.] 20. um morguninn var ísinn rekinn burt frá höfninni í austanveðrinu, sem þá var, en nú er höfnin aftur lögð út að skipinu, sem er hér kyrrt enn. 19. og 20. komu þeir menn er róið höfðu suður héðan, aftur, en sögðu nú fiskilaust fyrir sunnan eins og hér.

Norðanfari birti þann 18.febrúar bréf víða að, dagsett í janúar:

[Suður-Múlasýslu, 22.janúar] Mikið hefur á gengið síðan ég ritaði af stormum, frostum og snjóum; frá 20. desember [2873] var tíð mjög óstillt, gjörði ýmist snjóa og frost, eða blota, og fylgja því jafnan stormar. Voru jarðir víðast er veður leyfði. Eftir sólstöðurnar tóku hörkur að harðna og veðrin að vaxa, jafnan af norðvestri; gjörði þá svo harða svipi, að allt járnþakið sleit af annarri hliðinni á Liverpool, verslunarhúsi Jakobsena á Seyðisfirði; höfðu sperrurnar staðið einar eftir; þá fauk hús er Norðmenn höfðu byggt á Seyðisfirði og selt í sumar seyðfirskum manni; til þess sjást enginn merki nema grunnurinn, timbur fauk allt á sjó út. Í því bjó enginn. Þá fuku og hjallar víða um fjörðu. Það má annars heita að stormurinn hafi aldrei slitnað til þessa. En út yfir allt tók þó stormurinn 11.—12.jan. Það veður muna menn mest. Þá var 15° frost á R. í Fjörðum, en 24° á R [-30°C] á Jökuldal, þá var ekkert hús svo rammbyggt né frosið, að ei hrykkti og skylfi, sem á þræði léki. Mátti þá peningur víða standa málþola. Þá nótt fór stormbylur um Berufjörð. Voru þá kirkjur í Berufirði og Berunesi (annexía bóndaeign) á sömu stundu uppnumdar til skýja, og síðan á jörð aftur kastað með miklu afli; var þá engin taug heil í þeim, en síðan sópaði vindurinn brotunum í sjóinn, svo eigi kvað sjást annað eftir af þeim en gólfið af Berufjarðarkirkjunni. Þær voru báðar fornar en af tré, og heyri ég suma segja að þær muni helst til lengi hafa lafað, og séu þarna best komnar. Þá hina sömu nótt, er mér sagt, að vindmylla ein á Djúpavogi hafi vængbrotnað algjörlega. 4 bátar fuku í fjörðum fyrir jólin. Á sunnudaginn fyrir jól [21.desember], varð maður úti á túninu á Ketilstöðum í Jökulsárhlíð, hann kom úr Vopnafirði. Maður fórst ofan um ís á Lagarfljóti fyrir jólin. Margir hafa úti legið, en engir hreppt skemmdir miklar; oft rétt við bæi. Kalbletti má nú daglega sjá á kinnum og fingrum. Síðan um nýár hefur frostið verið frá 8—15° stöðugt [-10 til -19°C], og er það engin furða, þar sem hafísinn er fyrir öllu Austurlandi, þó eigi sé hann orðinn landfastur enn. Hafísinn þykir vágestur mikill, og býst enginn við góðu af honum; muna menn eigi að hann hafi komið jafnsnemma, en hugga sig við það að „sjaldan er mein að miðsvetrarís*. Flestir eru byrgir enn að heyjum, en tómahljóð, mun fara að heyrast, áður þorri líður, ef þessu vindur fram. ... ".

[Seyðisfirði 22.janúar]: Rosarnir og illviðrin hafa verið framúrskarandi, stormarnir fjarskalegir, frostin fágæt; snjóþyngsli hafa ekki haldist til lengdar , þó talsverðu hafi annað slagið sallað niður, því stórviðrin hafa sópað að mestu öllu upp og saman, og stundum jafnvel heilum og hálfum þúfunum með, svo svört flögin hafa staðið eftir. Sauðfé hefur svo að kalla ekki séð út fyrir dyr, síðan fyrir og um veturnætur nema geldsauðir dag og dag; það má því ætla, að talsvert sé farið að sneiðast um heybirgðir manna; annars munu birgðir flestra í haust, hafa verið í fyllsta lagi, en þó er síst fyrir að taka, að þær gjöri betur en að hrökkva, ef öðru eins skyldi fara fram hér eftir og til sumars. Tvívegis hafa þó veðrin orðið hér mest, í fyrra skiptið 16.—18. desember byltust hér um 2 timburhús og hjallur, og ónýttist að mestu leyti; meginhluti þaksins fór af hinu þriðja nýlegu verslunarhúsi Jakobsens, svo aftur varð að leggja annað nýtt; hey tók upp að kalla ofan að veggjum, og bátur fauk, svo varla sást neitt eftir af; þar fyrir utan urðu ýmsir fleiri minni skaðar. Síðara veðrið var 11.[janúar] ásamt stórhríðarbyl og grimmdarfrosti; þá sligaðist niður eitt af húsum Norðmanna, og annan stafn þess tók alveg burt, svo ekkert sást eftir af, einnig reif þá af hálft þak af nýjum timburhjalli og gluggar brotnuðu flestir í húsum kaupstaðarins, svo ekki allfáir hlutu að vera á fótum alla nóttina, eigi síður en í fyrra veðrinu; í þessu síðara veðri var hríðin svo dimm og skaraþeytingurinn svo mikill, að ekki varð vitjað fjárhúsa á stöku bæ, þótt heima á túnum væru, hvað þá heldur farið á beitarhús og ekki náð til vatns einn daginn. Slík aftaka illviður koma naumast í Eyjafirði 18. [desember] sást fyrst til hafíssins hér úti fyrir; eru nú strax farnar að berast sögur af bjarndýrum. Músagangur þykir víða hvar dæma fár, og jafnvel orðið vart við að þær hafi lagst á skepnur. Hey hafa reynst létt og gagn af kúm með minna móti. Tveir menn er sagt að hafi orðið úti í Héraði, annar á Útmannasveit en hinn í Fellum.

[Siglufirði 22.janúar]: Harðindin og frostið ætla að nísta allt helklóm, frá 11.—13. f.m. (desember? - líklega samt átt við janúar), var hér norðaustan stórhríð með ákafri snjókomu og 16° frosti (R) [-20°C]. Þann 19. f.m. (líklega átt við janúar) varð frostið mest 20°R [-25°C] og í dag er það 19° [-24°C]; 11. [janúar] fyllti fjörðinn með hafís.

[Þistilfirði 27.janúar]: Tíðin er hér í voðalegasta lagi, oftast stórhríðar með dæmafáum frosthörkum. Snjóþyngsli eru að vísu hér ekki mjög mikil, því snjórinn hefur ekki haft hér viðnám fyrir stöðugum ofsaveðrum. Nóttina fyrir 18.desember, var hér svo mikið norðaustan stórviðri með hríð, að rosknir menn segjast ekki muna annað eins; það gjörði á nokkrum stöðum skaða á skipum og heyjum, en fjárskaða gjörði það ekki, enda var þá fé geymt í húsum. [Þ.] 11.—12.[janúar] voru óstjórnlegar stórhríðar, svo röskum mönnum var illa út fært, fyrir veðurhæð, dimmu og grimmd. Hafísinn, er búinn að vera gestur hér æði lengi; engin höpp hefur hann fært okkur þistlum, en hann færði Langnesingum þau, því í Skoruvík náðust 76 höfrungar í vök 60 faðma undan landi. Á Langanesi hefur og unnist einn bjarndýrshúnn; fleiri birnir hafa sést þar og hér, en hvorki hafa þeir gjört mein né aðrir þeim.

[Mývatni 28.janúar]: Fátt er það sem fréttir megi telja nema tíðarvonskan, svo menn muna varla aðra eins, einkum síðan um nýár, sífelldar hríðar og frostbitrur. Mesta frost sem komið hefur í vetur í Reykjahlíð var 19.[janúar] 24° á Reaumur [-30°C]. Hér hefur á sumum bæjum í þessari sveit, mátt gefa hverri skepnu inni síðan um veturnætur, þó hefur nokkuð af hestum gengið á fjöllum allt að þessu, en eru nú allir komnir í hús og fleiri fremur magrir. 10.[janúar] lögðu af stað úr Vopnafirði 2 vinnumenn af Hólsfjöllum, og voru á heimleið, var þeim fylgt nær á miðjan Dimmafjallgarð, en seinni part dagsins brast í stórhríð, sem varaði í 3 daga, höfðu þeir hest og æki; báðir þessir menn urðu úti, og fundust bæði líkin á fjallgarðinum skammt frá vegi, eftir 13 sólarhringa, og hesturinn lifandi hjá með tauminn frosinn niður.

[Jökuldal 29.janúar]: Síðan ég skrifaði yður seinast, hefur mikið gengið á og margt færst úr lagi. Ég man eigi hvert ég gat þess, að hinn 10. desember. næstliðið kom hið óttalegasta veður, er víða gjörði feiknaskaða, einkum við Seyðisfjörð; ... borð og plankar sundruðust í smámola; þess eru fá dæmi að borð eitt fauk eitt sinn beint á endann á stafninn á einni mörbúðinni við Seyðisfjörð og í gegnum þilið og saltkassa þar fyrir innan, sem var úr heilum borðum. Í veðrinu milli hins 17. og 18. fuku og allar ferjur við Lagarfljót, nema Ásferjan, og brotnuðu flestar í spón; þá urðu og víða heyskaðar. Annað óskapa veðrið kom hinn 12.[janúar] er sleit upp freðinn gaddinn og allan jarðveg er til hans náði, en fyllti hús og bæi með dæmafáu innfoki, svo víða var það, að hvorki varð komist út eða inn, nema að brjóta hurðir af járnum, þá fauk og eitt af húsum Norðmanna við Seyðisfjörð, þá fauk og Berufjarðarkirkja, svo ekkert stóð eftir nema predikunarstóllinn, en Beruneskirkja skekktist öll af grundvellinum. [Tvær] júffertur tók upp að Langhúsum í Fljótsdal og fleygði þeim meðalbæjarleið, yfir Jökulsá og út á svo kallað Dranganes, fram og niður af Valþjófsstað; þar lágu þær samari eins og systur. Síðan um nýár hafa oftast verið 18—20° á R og þar yfir, og tíðin svo fjarskalega óstöðug, að þó ekki hafi sést skýdepill á lofti að kvöldi eða morgni, þá hafa allt í einu skollið á hin verstu og grimmustu veður. Það má svo heita, að á Efra-Dal og sumum bæjum hér út frá, hafi verið jarðlaust síðan í 22. viku sumars, og muna menn engan vetur slíkan síðan blóðveturinn 1822. Jarðleysurnar hygg ég að nái í vestur að Skjálfandafljóti. Á öllu Úthéraði hefir verið hin mesta jarðsæld í vetur og eins í Fljótsdal, Skógum og Fellum en aftur lakara á Völlum, og mjög hart í Eiðaþinghá, en það er svo sjaldan sem skepnur hafa nokkurt viðnám. Hafísinn kvað kominn suður fyrir Fáskrúðsfjörð og bjarndýr víða gengin á land. Eitt þeirra sá maður nokkur á Hellisheiði, það var rauðkinnótt og geysistórt, en gjörði honum ekkert mein; annað lagði hramminn inn um glugga á Heiðarseli í Tungu, piltar hlupu ofan og var þá bangsi að halda af stað, en hafði hrifsað pils, er úti hékk og reif það í sig. Þriðja dýrið sá drengur nokkur að Dalhúsum, hann sigaði hundi sínum í það, en hljóp sjálfur undan og hefir rakkinn eigi sést síðan. Þótt smásmugulegt sé, er eigi úr vegi að geta þess, að í veðrinu mikla hinn 12.[janúar] fauk steinmoli innum glugga á Stórabakka í Tungu, án þess að sprengja hið minnsta út frá sér. Glerrúðan er steinninn flaug í gegnum var úr skipsdekki og mjög þykk. Það er gagn, ef harðindin halda lengi áfram, að margir góðir drengir eru fyrir austan Fljótsheiði, og hafa sumir Efradalsmenn þegar rekið sauði og hross þangað, og fundið bræður fyrir. Heymagn er víðast hvar lítið á Efradal; engjarnar eru snöggar og brugðust mjög í sumar, þar eð maðkurinn eyðilagði allt harðvelli. Aðalheyskap sinn höfðu menn í flóum, norður og austur á heiðum, og þótt menn fengju talsvert að vöxtunum, þar eð sumartíðin var svo hagstæð, þá er þetta heiðarhey hálfu ódrýgra afgjafa en það hey er menn venjulega afla í heimaslægjum. Jökuldalur hefir jafnan verið talin einhver hin snapasælasta sveit, hvað útbeit snertir, en um nokkur ár hefir hver veturinn verið öðrum verri og útbeitin gjörsamlega brugðist, en því verður ekki neitað, að meðan niðri nær, mun óvíða jafnhollt og kjarngott beitiland nema á Fjöllum, því að þar er landið að mun betra. Í gær héldu menn að mundi fara að batna, því að þá var hláka með 5° hita og loft fagurt og blíðlegt, en í gærkveldi var farið að drífa. Í morgun var tveggja stiga frost en stillt veður svo fé var látið út á ofurlitla hnjóta, er komu upp í gær, en allt í einu brast á hroða dimmviðri með talsverðri fannkomu. Kl.3 slotaði veðrinu og gjörðist þá heiðríkt allt í einu og því nær logn, nú er aftur að hvessa kl. 9. e.m. og frostið að harðna.

[Núpasveit 25.janúar] Hér eru harðindi svo úr hófi keyra og jarðbannir um nálægar sveitir. Hafísinn kom algjört um miðjan þennan mánuð svo mikill, að ekki sést út fyrir hann, og saman frosið sjór og land. Þrjú bjarndýr hafa sést á Sléttunni, eitt braut baðstofuglugga á Rifi, norðasta bæ á Sléttu, og rak inn hausinn, fóru menn þá að hlaða byssur sínar og leita dýrsins en fundu eigi, því að hríð var og náttmyrkur. Annað sást á Raufarhöfn, sýndist mönnum það á stærð við vetrung, á hið þriðja var skotið en komst undan út á ísinn. Víðar hefir heyrst til þeirra og sést eftir þau slóðir en engu orðið náð, þau hafa heldur hvergi gjört skaða.

[Reykjadal í Þingeyjarsýslu 31.janúar] Héðan eru að frétta dæmalaus harðindi; má svo heita að í Reykjadal hafi verið jarðlaust síðan á veturnóttum; frá 1. janúar til þess 24. komu hér 3 dagar hríðarlausir, og allan þann tíma var frost 10—24° á R [-12 til -30°C], oftast þetta frá 16—20°, en 25.[janúar] var hér þíða, en þó ekki svo að neitt tæki að gagni, enda er hér svo mikill snjór, að fullorðnir menn, sem hér hafa verið alltaf, muna eigi slíkan. Haldi þessu fram, munu menn almennt verða heylausir um miðgóu. Síðan 25.[janúar] hefir verið minna frostið, mest 11° [-14°C] og stundum hefir orðið frostlaust. Við Mývatn er sagt að mann hafi kalið á beitarhúsleið, sem varla sé lífvænt.

[Viðvíkurhreppi í Skagafirði 28.janúar]: Héðan er að frétta ærið bága veðuráttu, oftast síðan mánuði fyrir vetur; þá settust að kýr og lömb til fulls, og fullorðið fé sumstaðar fyrir jó1 og líka folöld og tryppi, og nú allvíða eftir nýár, fullorðin og feit hross: nú er að vísu þíða og nokkuð farinn að síga gaddurinn, en mikils þarf ef duga skal. Nýlega var hér maður á ferð úr Fljótum, sem sagði að þar væri engu meiri snjór en hér, og er það þá nýtt, og merki til þess hvað hér hefir kyngt niður af fönn.

[Húnavatnssýslu 30.janúar] Það má svo að orði kveða, að alljafnt síðan frá jólum og til næstu helgar hafi verið hörkur og hríðar, og nú nálega jarðlaust yfir allt sem tilspyrst, nema lítil snöp fyrir hross á stöku stað. Í stórhríðinni 11. og 12.[janúar] varð gamall og vesæll maður úti á svonefndri Laxárdalsheiði sem liggur millum Gönguskarða og Ytra-Laxárdals í Skagafjarðarsýslu, Skaga-Davíð nefndur, fannst poki hans og stafur en hann ekkí sjálfur. Í þessari sömu hríð lágu úti 3 menn hér í sýslu, og 1 í Skagafirði, er alla kól meira og minna, þá var og hér 20° frost á Reaumur [-25°C]. Um þessar mundir fyllti hér allt með hafís, en ekki hefur hann fært neitt, en bjarndýr er sagt að komið hafi á land nálægt Sauðárkrók og farið til fjalla. Á jólaföstu komu 4 bjarndýr á land á Ströndum. Eitt lagði til sunds út á ísinn, er þá lónaði aftur frá, annað var elt út á auðan sjó af einum manni á báti og skotið á sundi; þykir það allfrægt að leika þannig við fullorðið bjarndýr. Maður þessi heitir Jóhann og er ættaður úr Miðfirði. [Tvö] dýrin voru unnin nálægt bæjum, þau voru bæði ung. Þetta virðist vottur til að ísinn muni eigi alllítill.

Víkverji birti þann 14.febrúar tvö bréf rituð í janúar:

[Síðunni 16.janúar] Tíðin hefir alltaf verið stirð, síðan ég skrifaði yður siðast; hér hefir allur fénaður verið á gjöf frá því um jól, en um þrettándann keyrði fram úr, hljóp þá allt í svell, svo nú er með öllu jarðbann. 11. og l2.[janúar] gjörði hér ofsa norðan gaddbyl, eitt hið mesta harðveður, sem hér kemur; blés þá snjór nokkuð burt, og öll grasrót með, svo ekki er þar annað eftir en svört mold. Margir eru hér búnir að skera af sér, bæði kýr og lömb, ég hefi frétt af 10 kúm skornum, og almenningur illa staddur ef þetta stendur lengi. Betra er að frétta austan úr eystri sýslu og Múlasýslum, en þó sama eður lík veðurreynd og hér.

[Miðfirði 30.janúar]: Ísinn rak inn 10.—12.[janúar], þá daga var hér 16—18°R frost [-20 til -22,5°C] í þykku lofti og hríð. Mest hefir frosið hér 24°R [-30°C]. Ekki eru margir enn farnir að kvarta um heyskort og fáir farnir að skera fénað sinn svo nokkru nemi, en illa lítur út fyrir almenningi, ef þessi tíð helst til lengdar. Engin höpp hefir ísinn fært nema lítið eitt af viði, sem hann rak undan sér. Þrjú bjarndýr komu í haust á hafíshroða inn á Kaldbaksvík og Gjögur á Ströndum og voru unnin þar.

Þjóðólfur greinir þann 4.febrúar frá veðri síðari hluta janúar:

Veðráttan var 18.- 26.[janúar] öllu óbreytt frá því, sem hún hafði verið fyrri hluta mánaðarins, frost mikil og einlægir bylir; en 27. og 28. var hér allgóð hláka, og 3 mælistiga hiti, og minnkaði þá ís og snjór talsvert hér við sjóinn; en sú hláka var eigi langæð; því að 29. fór að snjóa aftur, og hafa síðan gengið stöðugir útsynningar með kafaldséljum, en frost litið. Að austan höfum vér litlar fréttir fengið, er áreiðanlegar sé, enda er austanpósturinn enn eigi kominn; en harðindin eru þar hin sömu og annarstaðar, og sagt er, að ýmsir muni hafa skorið þar nokkuð af heyjum, þó eigi til stórriða [svo]; einkum höfum vér heyrt til nefnt í Hreppunum í Árnessýslu, og einstaka menn í Rangárvallasýslu. Um 20.janúar fengum vér fréttir úr Borgarfjarðarsýslu, og hefir þar og gengið sama veðurharkan sem hér, víðast alveg haglaust síðan um nýár enda eigi ástöðuveður, þótt hagar væri. Núna fyrir helgina komu 2 menn hingað norðan úr Skagafirði, og sögðu þeir hin sömu harðindi um allt Norðurland, og allt fullt af hafís vestur að Húnaflóa, en þar nú íslaust. ... Í gær og í dag [3. og 4. febrúar] góð hláka.

Víkverji rekur veðrið um mánaðamótin janúar/febrúar í pistli þann 7.febrúar:

[Þ.24.janúar] Norðangola, um kvöldið brá til hláku, 25. útsunnanstormur með regnskúrum, 26. útsunnanhvassviðri, 27. sunnanrigning, 28. hægur á sunnan, 29. útsunnanstormur með frosti, 30. hægur á sunnan, hláka og rigning eftir miðjan dag, 31. sunnanrigning, 1.[febrúar] útsunnankafald, 2. og 3. sunnanrigning, 4. sunnangola með frosti, 5. og 6. norðangola.

Febrúar: Óstöðugt og hart tíðarfar með blotum og hríðum.

Víkverji birti þann 4.apríl bréf úr Strandasýslu, dagsett 10.febrúar:

Hafísinn kom hér fyrst með jólaföstu, og á honum nokkrir hvítabjarnarhúnar, svo sem hálfvaxnir; fjórir urðu unnir, nefnilega 1. á Kleifum í Kaldbaksvík, 2. á Gjögri, 3. frá Bæ í Trékyllisvík, og 4. á Horni. Hafísinn fór frá aftur fyrir jól, en síðan kom hann aftur fyrir miðjan janúar svo mikill, að nú fyrir viku sá hvergi í vök af Krossanesfjalli, einhverju hæsta í Trékyllisvík, þar með lagði alla firði út að hafísnum. Það sem af er árinu hefir hér eigi gengið á öðru en norðan hvassviðrum með mikilli snjókomu og einstökum óþrifa-blotum, helst um næturtíma, þar með hörku frost, mest í Árnesi 21°R [-26°C] og á Stað í Steingrímsfirði 18°R [-22,5°C]. Hér um sveitir sést hvergi á beran stein á fjöllum eða dökkan díl í byggð, og muna elstu menn naumast slík harðindi. Lömb eru búin að vera á stöðugri gjöf í 18 vikur, og annar fénaður ásamt hrossum að því skapi. Engin höpp heyrast að komið hafi með þessum mikla hafís. Heilsufar tjáist hvervetna gott bæði á mönnum og skepnum
— en aumingja rjúpurnar eru farnar að hordeyja.

Víkverji birti þann 7.mars bréf austan af Síðu, dagsett 11.febrúar:

Eftir að ég skrifaði yður síðast, hefir fátt borið til tíðinda, sömu harðindi hafa alltaf gengið hér hvervetna, sem tilspyrst, og sífelld illveður; allur fénaður á gjöf. Hið sama er sagt austan úr Austur-Skaftfellssýslu. Margir eru orðnir heytæpir, og fáir sem geta gefið út góuna. Á sumum útigöngujörðum þar sem aldrei hefir tekið fyrir haga áður, en heyskaparlaust er, hefir að sögn nokkuð bráðhungrað af fé en ekki hef ég sannspurt hve mikið; á einum bæ köfnuðu yfir 40 sauðir, í hellisskúta, rétt um þorrakomuna. Það var í Fljótshverfi. Hér í Kleifahrepp er búið að skera af heyjum 18 kýr og talsvert af lömbum. Fáir eru sem geta hjálpað að mun ef til lengdar leikur við. Nú í fyrra dag brá til lins, og hefir verið góður þeyr síðan, en ekki er von á að hagar komi hér fyrr en eftir vikuhláku.

Þjóðólfur rekur tíð í pistli þann 18.febrúar:

Vér gátum þess í síðasta blaði voru [4.] að 3. og 4. dag [febrúar] hefði verið góð hláka, en hún varð eigi langgæð, því að þegar um miðjan dag 4. fór að snjóa aftur. Síðan var oftast frostlítið og jafnvel frostlaust til þess 10. þ.m.; þá kom marahláka, og stóð hún í 2 daga; leysti þá talsvert hér nálægt sjó, svo að hagar urðu víða góðir, enda var þá daga um 3—4 mælistiga hiti. Síðan hafa hér verið hægviðri, en þó ókyrrt í sjóinn, frostlaust oftast, en þó enginn þeyr eða þíða. Austanpósturinn kom loksins 9.[febrúar] eftir meir en 3 vikna ferð frá Prestbakka sökum illviðra. Með honum komu hinar sömu fréttir sem annarstaðar frá um harðindi og hagleysur. Hafa i austursýslunum ýmsir skorið af heyjum, en greinilegar fréttir höfum vér eigi fengið um fénaðarfækkun, ... Hlákan hinn 10.—11. hefir bætt nokkuð þar úr hagleysinu, en þó næsta lítið upp til dala eða á flatlendi, sem allt var undir.

Víkverji segir frá veðri undangenginnar viku í pistli þann 14.febrúar:

[Þ. 7. og 8.febrúar] hvassvirði af austri, 9. austangola með frosti, 10. og ll. [sama veður] en hláka, 12. norðangola með vægu frosti, 13. landnorðan hvassviðri. ... — Skipin Ida og Lucinda, sem legið hafa veðurteppt hér og í Hafnarfirði síðan um jólin, fóru bæði til Spánar 9.[febrúar].

Tíminn birti þann 25.mars bréf af Ísafirði, dagsett 24.febrúar:

Hérna er mikill harðindavetur, ísinn hefir legið hér síðan rétt eftir nýár og enginn dráttur hefur fengist úr sjó síðan þann tíma og lítur út fyrir hin mestu harðindi yfir höfuð. ... Skipskaði varð rétt fyrir jólin í Súgandafirði. Var formaður á skipinu Brynjólfur í Bæ og drukknuðu 9 [aðrir segja 5] menn með honum.

Norðanfari birti þann 16.maí bréf ritað í febrúar:

[Trékyllisvík á Ströndum 27.febrúar]: Veturinn kom hér á 26. september í haust eð var, eins og víða annarsstaðar með frostum og fjúki, svo víða varð hér haglaust fyrir miðjan októbermánuð, þó kom hér upp góð jörð í nóvember, en bráðum tók fyrir hana aftur, og gjörði með öllu haglaust, bæði fyrir hross og sauðfé, og hafa jarðbönn og hagleysur haldist síðan til þessa dags, bæði af snjóum, sem hér eru miklir, og áfreðum; oftast hafa hér í vetur verið norðan og útnorðan kafaldshríðar með 10—21° frosti á Reaumur. Í nóvember rak hér fyrst að landi hafíshroða; með honum komu hingað bjarndýr, og voru 3 drepin hér í sveitinni; þau voru öll fremur lítil, rúmlega hálfvaxin, og munu feldirnir af þeim hafa verið rúmar 3 álnir á lengd; dýrin voru mjög illileg þegar menn komu nærri þeim, og blésu og urruðu sem köttur en þau forðuðust þó mennina. Strax eftir nýárið rak hér að ströndunum afarmikinn hafís, sem fyllti Húnaflóa, og svo langt út í haf, sem menn gátu séð; síðan hefur ísinn legið hér, nema hvað hann fyrir fáum dögum er farinn að losna frá útnesjum og kominn á stað austur eftir. Enginn hér fyrir norðan Trékyllisheiði talar ennþá um heyleysi, og munu flestir komast af fram um páska; við erum hér einatt vanir við harðindi og hagleysur. Viðarreki var hér víða allgóður í sumar er var og haust, þangað til ísinn kom.

Víkverji lýsir veðri undangenginnar viku í pistli þann 28.febrúar:

[Þ. 21.febrúar] landsunnangola, hláka, 22. stormur af útsuðri með krapaéljum, 23. sunnan hvassviðri með snjóhríðum, mikil snjókoma um nóttina, 24. og 25. útsunnan og austan gola, 26. hláka, vestanátt, rigndi um nóttina og 27. um morguninn, síðan hægt veður er hvessti um kvöldið. [Þ.] 25. vitjuðu menn neta sinna eftir 4 daga legu, enginn fiskur en óvanalega stór hámeri hafði flækst í einu neti. 27. var aftur vitjað um net en engin fiskur. Þar á móti fiskuðu tvennir er réru á Bollaslóð, er svo er kölluð, og leituðu með færi ágætlega, annar hlóð.

Norðanfari segir 18.febrúar:

Nýlega hafa komið hingað fréttir að sunnan yfir Holtavörðuheiði, að snjóþyngslin og jarðbannirnar séu þar hinar sömu og hér. Einnig að aflalítið sé af fiski vegna ógæfta.

Norðanfari birti þann 29.apríl bréf rituð í febrúar:

[Reykhólasveit 20.febrúar] Sumarið var hér gott að því er þerrana snerti, en grasvöxtur mjög rýr, og varð því heyfengur manna í minna lagi. Snjókomur og illviðri byrjuðu litlu eftir leitir, og fyrir vetur varð að taka inn fé á sumum bæjum, og héldust þá norðanhríðar til þess um þriðju vetrarhelgina, þá kom þíða í viku og önnur [vika] með hreinviðri og miklum frostum; eftir það hófust aftur einlægar stórhríðar norðan, sem að kalla héldust stöðugt til þess á þorra; síðan hefur verið vægari veðurátta, með smákrapablotum á milli. Til jóla voru sumstaðar jarðsnapir, en menn höfðu lítil not þess, því að stórhríðarnar og brunafrost bægðu mönnum frá að nota útbeitina, en síðan á jólum hefur mátt heita haglaust yfir því nær allar sveitir, og sama er að frétta úr Dala-, Snæfellsness-, Borgarfjarðar- og Mýrasýslum, svo nú vomir yfir stór neyð með heyleysi því margir segjast ekki hafa hey lengur en til páska [5.apríl] og sumir eru nú komnir að þrotum. Nú er Vesturland umgirt ís, og hann er sagður kominn suður fyrir Látrabjarg og inn á Breiðafjörð, sem þó mun sjaldgæft. Svo er nú ísað hér á Breiðafirði, að farið verður með hesta út í Eyjar, og svell yfir allar Vestureyjar, svo bjarglaust er yfir allt. Engin höpp hafa komið með ísnum. ... Jagt sem átti að flytja vörur til Stykkishólms og Flateyjar, komst í Hólminn fyrir jól, og varð þar innifrosta til þess á þorranum, að hún losnaði og komst til Flateyjar; þar er hún enn og á nú bráðum að fara til Kaupmannahafnar.

[Broddaneshreppi í Strandasýslu 28.febrúar] Sumarið, sem leið var hagstætt, en grasbrestur einkanlega á túnum, svo töður urðu þriðjungi minni, en venjulega. Málnytan varð með rýrara móti vegna hinna miklu illviðra, sem gengu svo lengi fyrir og eftir fráfærur. Heyin reynast létt og kýr gjöra lítið gagn, fé víðast tekið á gjöf viku fyrir vetur, síðan má heita ein harðindaskorpa, nema svo sem hálfsmánaðartíma í nóvember. Þá kom upp nógur hagi, en áður var allstaðar orðið haglaust; hross komu víða á gjöf strax eftir veturnætur, og er komin hér víða 16 vikna innistaða og jarðbannir þær mestu. Talsverðan hafís rak hér inn á jólaföstu, ern það fádæmi svo snemma, en algjörlega fylltist hér allt fyrir, og liggur hér svo ekki sér auða vík; engin höpp hefur hann fært. Hákarlslaust þar sem reynt hefur verið að vaka á hann.

Tíminn birti þann 25.mars bréf úr Gnúpverjahreppi, dagsett 7.mars:

Héðan er fátt gott að frétta, heyskortur er mjög almennur, tíðin umhleypingasöm, síðan að hún breyttist, einlægar smáhlákur sem enda með krapsnjóum hér til fjallanna, svo það hefur orðið haglaust 1—3 daga.

Mars: Harðviðri nyrðra, en skárra syðra.

Þjóðólfur segir frá veðráttu í tveimur pistlum í mars:

[7.] Veðráttan hefir þennan fyrri hluta góunnar verið heldur óstöðug, þótt eigi frostasöm. Góan byrjaði með ákafri hláku, en þegar eftir 2 daga féll aftur allmikill snjór; eftir það var heldur blítt veður til 1.[mars]; þá kom aftur hláka og mikil leysing, en 3. fór aftur að snjóa og hefir síðan gengið á útsynningum með smáéljum. Frost hefir mjög lítið verið. Jörð mun nú víða komin allgóð hér sunnanlands, nema upp til fjallsveita. Eftir þeim fréttum, sem vér höfum fengið síðastar að norðan, mun þar allstaðar haglítið enn eða haglaust. Hafísinn er þar og enn fyrir landi.

[21.] Sunnudaginn hinn 8.[mars] var hér syðra talsvert frost, rúm 7 mælistig R, en linaði þegar daginn eftir, og var fremur milt veður úr því alla vikuna, en hinn 9.[svo] tók aftur að frysta, og hélst frost það til þess í gær [20.], að aftur hlánaði; frostið varð mest þessa dagana 7 1/2 mælistig R. Stormar hafa eigi verið hér miklir, en stormasamt til sjávarins mest af útnorðri og útsuðri, og ókyrr sjór. Eftir bréfum, sem vér höfum fengið með póstunum hafa sömu harðindin gengið yfir allt land, jarðbönn víðast, og þótt jarðir hafi sumstaðar verið, hefir sjaldan ástöðuveður verið fyrir skepnur, og hefir því gjafatíminn orðið fjarska langur allstaðar, og litlir hagar enn komnir víðast. Þó er svo að orði komist, að almenningur bæði nyrðra og vestra muni halda út til sumarmála, en þá muni og flestir komnir á þrot fyrir allan sauðfénað og hesta.

Norðanfari segir 17.mars frá tíð:

Í hlákunum sem hér komu fyrri hluta góunnar, er sagt að víðast hafi komið upp meiri og minni jörð; og jafnframt rak þá úr augsýn ísinn hér frá öllu Norðurlandi. Samt eru nú flestar fjörur sagðar enn þaktar klakagarði, og allur innrihluti Eyjafjarðar út á Arnarnesvík þakinn hafís og lagís, og því ekkert sýnna en að þau 9 þiljuskip er hér standa á Oddeyri komist ekki út fyrr en kemur fram á vor og þá heldur ekki að kaupskip nái hér höfn. Nú seinustu dagana hafa borist hingað þær fréttir, að hafísinn sé kominn aftur og sumstaðar landfastur. ... Í einum blotanum á dögunum, hafði vatn hlaupið í fjárhús á Hofi í Fellum og banað þar inni 49 sauðum. Jafnframt þessu hafði vatnið hlaupið þar í tóft eða hlöðu, sem mikið af heyi var í, og ónýttist að miklu.

Norðanfari birti þann 31.mars bréf:

[Þistilfirði 17.mars] Síðan á þorra hefur tíðin verið hér langtum þolanlegri en áður, því að þá blotaði svo að hnjótar komu upp á stöku stað, síðan hafa komið smáblotar svo rýmkað hefur til um hnjótana. Hafísinn hvarf sýnum um tíma, enn nú eru aftur komin hafþök og snjókyngja mikil á tveim dægrum, svo að alveg er orðið jarðlaust aftur, þar sem léttir, sem var hvergi nærri allstaðar hér í sveit, og því síður á Langanesi og Sléttu, þar kom víðast mjög lítil jörð og sumstaðar engin; það er því ofmjög farið að brydda á heyskorti nú þegar, og stöku menn heylausir, og nokkrir munu geta sagt: „í dag þér á morgun mér“. ... Núna á góunni vannst eitt bjarndýr í Sköruvík [svo] á Langanesi.

[Hálshrepp í Þingeyjarsýslu 17.mars] Enn helst óstillingin, frost og og snjóar síðan mánuði fyrir vetur. Allvíða er orðið heylítið og skepnur grannar.

Norðanfari birti þann 16.maí bréf ritað í mars:

[Borgarfirði austur 28.mars]: Tíðarfar var hér um sveitir gott í sumar [1873]. Tún og útengi voru miður vaxin en að undanförnu og heyin vegna sinu, mjög létt til afgjafa, þó munu skepnur víðast hér vera í allgóðu standi og ekki borið talsvert á veikindum í fénaði. Fádæma frosthörkur og ofviðri hafa gengið hér eystra í vetur, svo víða er jörðin lík graslausu flagi eftir þau. Hafíshroði kom hér inn fyrir þorra, en meginísinn úti fyrir; þá gengu hér óvanalega mörg bjarndýr á land. Snemma í vetur varð trjáreki hér í mesta lagi, mestanpart smáviður; engin höpp af hvölum eða þesskonar hafa borið hér að landi.

Almennar tíðarfréttir Norðanfara 31.mars:

Með vorinngöngudeginum [jafndægrum] brá hér til betri veðuráttu, svo að nú er komin upp í flestum byggðarlögum meiri og minni jörð, enda var þess ærin þörf, því margir eru sagðir komnir á nástrá, og áður enn batinn kom, á fremstu hlunnum að skera, þeir sem ekki hafa efni til að gefa skepnum sínum korn, sem fæstir munu vera, fáir líka svo heybirgir að öðrum geti bjargað. Bæði Húnaflói og Skagafjörður eru nú sagðir íslausir, en aftur töluvert af honum fyrir Sigluneslandi og Héðinsfirði allt norður að Ólafsfirði, en íslítið í álunum fyrir austan og vestan Hrísey og þaðan inn á Arnarnesvík, en fjörðurinn úr því landa á millum þakinn einnar til tveggja álna þykkum hafís og lagís. Nokkrir hafa hér ytra, beggja megin fjarðarins, lagt lagvaði og farið í legu og fengið dálítið af hákarli, og fáeinir svo mikið af lifur að tunnum hefur skipt. Á meðan hafísinn var hér nyrðra landfastur, höfðu margir fundið í honum talsvert af rekavið t.a.m. bændur úr Hegranesi í Skagafirði hér um á 70 hesta. Einnig er sagt að á sumum bæjum við Hrútafjörð og Miðfjörð hafi fundist á 20 til 30 hestar af við. Í miklu hríðinni og frostgaddinum í vetur, 12.janúar, hafði frosið fyrir Jökulsá í Axarfirði svo hún stíflaðist og hljóp í gamlan farveg sinn, eða svo nefnda Sandá , sem ekki gat rúmað hana, svo hún flóði víðsvegar um Sandinn; að 9 dögum liðnum náði hún aftur farveg sínum og reif sig þá út í sjó, gegnum 70—80 faðma breiðan malarkamb. Hana hafði og lagt í vetur fram til fjalla, svo langt er menn eigi vita dæmi til. [Þ. 15.mars] höfðu 2 menn eystra, orðið úti í hríðarbyl, annar á Seyðisfjarðarheiði, en hinn á Möðrudalsheiði. 19.[mars] brast á annar stórhríðarbylurinn í Kelduhverfi, svo þar urðu fjárskaðar, einkum á bæjunum Garði, Austurgörðum, Krossdal og Tóvegg. Maður hafði þá verið á leiðinni innan yfir Tunguheiði er hét Friðrik, sonur Erlendar alþingismanns í Garði, en þá er hann kom ofan á svo nefnda Gerðibrekku, tók veðrið hann upp á skíðunum og hund sem var með honum í háa loft og fleygði langa leið, en þá niður kom meiddist lítið; þegar hann kom ofan fyrir Spóagil, tók veðrið hann aftur upp, meiddist hann þá töluvert, og enn í þriðja sinn skammt fyrir ofan Fjallabæ, meiddist hann þá mjög og gat ekkert komist, en þegar hann fannst máttfarinn og rænulítill, var sagt að hann væri kalinn á andliti og annar handleggurinn stokkbólginn svo ekki varð sagt, hvort hann væri brotinn eða öxlin gengin úr liði; auk þessa þótti tvísýnt hvort maður þessi mundi geta haldið lífi. [Friðrik lýsir atvikum nánar sjálfur í bréfi sem birtist í Norðanfara 24.júlí og er þá fullhress orðinn.] ... [Þ.17.mars] hafði unglingsmaður, er hét Vilhjálmur Guðlaugsson frá Kaðalstöðum í Hvalvatnsfirði, lagt af stað út yfir Leirdalsheiði og orðið úti, og var ekki fundinn þá seinast spurðist hingað.

Norðanfari birti þann 29.apríl bréf ritað í mars:

[Hrútafirði 24.mars] Nú er nýkominn hagsnöp hér fyrir hesta og sauði, en þó er oft á milli snjókoma af útsuðri; vestan Hrútafjarðar er haglaust enn. Það getur varla hjá því farið, að mikill kvikfjárfellir verði í Miðfirði vegna heyleysis hjá fleiri bændum þar. Þeir vita ekki, eða muna ekki, að flest hallæri, sem komið hafa yfir Ísland, hafa að miklum hluta orsakast af óskynsamlegum ásetning, því að varla kemur svo góður vetur, að sumir gefi þar ekki hey sín á endann; enda hefur þessi vetur veri svo langur að snjókomum og hagleysum, að fá munu finnast dæmi til um Húnavatnssýslu.

Apríl: Mildari tíð frá sumarmálum og snjóa tók upp. Kalsamt á hafísslóðum.

Norðanfari birti þann 29.apríl bréf ritað snemma í apríl:

[Húnavatnssýslu 4.apríl] Hér á Skaga ber sjaldan mikið til titla eða tíðinda og eigi heldur nú. Tíðarfarið er og hefur verið óttalegt. Næstliðið vor frá miðju maímánabar var hér hið versta, sem ég til man, með sífeldum úrfellum og herpingsstormum; hér af leiddi grasbrest; hinn stutti heyskapartími var hretasamur og kaldur, eigi að síður var hér góð nýting heyja; með síðari göngum byrjuðu hríðar og ströngustu illviðri, svo nær því aldrei gaf á sjó í heilu haustvertíðinni. Öndverðlega í nóvember var hér orðið við það bjarglaust af snjóþyngslum, þar eftir kom hláka mikil svo öríst varð, en slíkt stóð ekki lengi, því viku fyrir jólaföstu byrjuðu aftur hinar verstu brunahríðar, í hverjum ísinn kom alskapaður; síðan hafa gengið viðvarandi megnustu harðindi, og má efalaust telja þennan vetur þann harðasta, sem komið hefur á þessari öld; hér á Skaga var þó veturinn 1866—67 úrtöku harður, og engum í þessu plássi mundi hafa komið til hugar, að yfir þá liði verri vetur, þó er það nú orðið. Það er næstum því undravert, hvað menn hafa barist áfram á þennan dag með pening sinn, enda munu nú flestir á nástrái, og óumflýjanlegur peningsfellir fyrir hendi, ef ekki batnar nú vel úr hátíðinni. Þann 28.[mars] lagði skipstjóri Nielsen út á „Jason" félagsskipi okkar, og hefur hann að öllum líkindum komist vestur fyrir land, því þá var lítill ís úti fyrir, vegna undangenginna sunnanstorma; nú er aftur orðið fullt af ís til hafs til að sjá, svo Elliði má hýrast hér á höfninni fyrst um sinn, félagsverslun Húnvetninga til mikils tjóns og óhæginda.

Ísinn sást frá Djúpavogi þann 24.apríl og daginn eftir kom hann inn á Berufjörð og fyllti voginn (veðurkýrsla). 

Víkverji segir þann 11.apríl:

Í Miðfirði og Hrútafirði kvað hvergi vera kominn upp jörð enn. Þar í móti er sögð allgóð tíð austur í Húnavatnssýslu, í Skagafirði og Eyjafirði. Allir firðir eru enn fullir af lagnaðarís, en hafísinn halda menn hafi rekið frá landinu í fyrstu viku góu, 24. febrúar fór ísinn þannig frá Húsavík, og varð opinn sjór á Skjálfanda.

Norðanfari segir þann 10.apríl:

Maður er nýkominn hingað að austan, úr Breiðdal, sem sagði jafnvel betri tíð og jarðir eystra en hér. Allur hafís hafði verið horfinn frá Austfjörðum, en sumir firðir enn þaktir lagísum. Fjöldi af útlendum fiskiskipum hafði verið komin að austurlandinu en engin inn á hafnir, og enn síður nokkurt kaupskip frá Danmörku eða Noregi.

Tíminn segir af tíð þann 15.apríl:

Sífeldir kuldaþræsingar með norðan- og landnyrðingsstormum, frosti og snjó til fjalla, hafa gengið hér sunnanlands síðan fyrir bænadaga [skírdagur 2.apríl]. Sumstaðar austanfjalls er enn jarðlaust. Á Lyngdalsheiðarbæjunum í Grímsnesi og fjallabæjunum í Þingvallasveit, má að mestu telja jarðlaust. — Í gær, þann 14.[apríl] var eitthvert hið mesta landsynnings ofsaveður, með vatnshríð og snjógangi til fjalla; um kl. 1 — 2 gengu þrumur með eldingum, síðan gekk veðrið til útsuðurs með éljagangi og brimi. Um morguninn var almennt róið hér af Seltjarnar- og Álftanesi, en hvort allir hafa náð landi, hefur eigi en frést. — Í dag er sami útsynnings éljagangur, og í nótt er leið var brimrót mikið, svo frönsk fiskiskúta er lá upp í Reykjavíkursandi, brotnaði svo, að hún verður algjört strandgóss.

Þjóðólfur lýsir afla, hrakningum og manntjóni í pistli þann 18.apríl:

Dagana 11. og 13. [apríl] var alróið hér yfir allt og fiskaðist enn mætavel, mest í netum, en nokkrir urðu og vel varir á færi; mátti enn kalla hér mokfiski þessa dagana og vænn fiskur. Þá var og alróið enn þriðjud. 14. fyrir og um sólarupprás; var þá fyrst um morguninn hæg austræna og spakt og gott veður, en þegar leið að dagmálum tók að hvessa snarpan, gekk þá brátt fram í til aust-austurlandsuðurs fyrst með ofsaveðri og krapa-snjógangi, síðan til hafsuðurs og síðast til útsuðurs, og herti storminn æ meir og meir; treystust þá fæstir til að ná lendingu sinni, þeir er eigi höfðu tekið stjórann í tíma, urðu nokkrir að hleypa ýmist upp á Akranes, ýmist hér inn um Gufunessund, aftur þeir af Vatnsleysuströnd sumir til hinna syðri veiðistaðanna, en nokkrir bátar hér af Nesinu og héðan úr staðnum lögðust við stjóra í hlé af Akurey, og biðu svo þar af sér veðrið, en úr fór að draga nokkuð er að sólsetri leið, — þar til þeir ýmist áræddu sjálfir að halda til lands, eður þeir voru sóttir á vel mönnuðum skipum. Eigi er enn til spurt um hrakninga þá, og manntjón, ef til vill, er af ofsaveðri þessu hafi staðið. Það eina er spurt og þó í óljósum fréttum, að 4-mannafar eitt með 5 manns, frá Auðnum á Ströndinni, er hleypti undan suður í Njarðvíkur téðan dag, og náði þar lendingu með heilu og höldnu, hafði lagt þaðan morguninn eftir 15., heimleiðis,— þá var enn útsynningur með éljagangi og brimróti svo á hverjum boða braut, en vægara veður miklu, — hafi þá borið upp á boða einhverja (fram af Brunnastaðatöngum?) og drukknað hafi þar 3 mennirnir en 2 orðið bjargað. Báti einum hafði hvolft í lendingu þar á Ströndinni téðan dag en mönnum var bjargað. — Bát og fjögramannafar vantaði enn í gær af Álftanesi. Almennt kvíða menn því, að öll þorskanet manna og hrognkelsanet muni hafa hrakið og týnst í brimróti þessu og stormatíð, er stóð lotulaust alla 3 dagana til þess i gær, svo að ekki varð litið að sjó og engi maður gat átt kost á að vitja um eða bjarga eign sinni.

Víkverji segir þann 25.apríl:

Síðan síðasta blað kom út, hefir eigi verið róið héðan nema á mánudaginn 20. þ. m. og sumardaginn fyrsta [23.apríl]. Báða dagana fiskuðu menn vel frá 10 upp að 30 og enda þar yfir. Í gær gátu menn eigi komist á sjó fyrir hvassviðri, en í dag er besta veður heiðríkt og kyrrt og hefir almenningur rórið héðan. — Menn er komu hingað í fyrradag frá Leiru og Garði þykjast nú mega fullyrða, að eigi vanti nema 4 báta af Suðurnesjum, síðan óveðrið skall á, með alls 9 manns (2 á 3 bátum og 3 á einum). Í öllum veiðistöðum hér syðra hafa verið hinar sömu ógæftir og hér, en fiskur allstaðar talinn fyrir. — Nú fréttist smámsaman um vogrek eftir óveðrið og er þannig sagt, að sexróið skip og bát hafi rekið á Álftanesi á Mýrum, og 1 eða 2 báta í Melasveit. Vér höfum aðeins ógreinilega heyrt getið um mörk á þessu reki, og vér skulum benda mönnum á, að það væri æskilegt, að þeir, er urðu fyrir skaða af sjónum, lýstu sem fyrst í blöðunum einkenni á því, sem tapast hefir. — Allstaðar að er getið um harðindi og horfir víðast hvar til fellis, ef eigi kemur bati. Maður úr Biskupstungum, er kom hingað um næstliðna helgi, sagðist hafa riðið um þvert Þingvallavatn á ís, og að hvergi sæist á dökkvan díl yfir alla Mosfellsheiði. Af Rangárvöllum hefir verið skrifað oss 13. [apríl] á þessa leið: Tíðin til lands hefir mátt heita síðan á níuviknaföstu heldur góð hefði eigi veturinn fram að þeim tíma verið eins ógurlega stirður og hann var, og fyrir það er nokkuð víða farið að brydda á heyleysi og skepnur ekki í nærri góðu standi, og líklega missist nokkuð, nema vorið verði því blíðara. Sjógæftir hér fyrir Landeyjasandi hafa engar verið það, sem af er þessari vertíð, fyrr en núna hinn 9. þ.m, gátu nokkur skip róið og öfluðu frá 10-20 í hlut.

Norðanfari segir af tíð og sköðum þann 29.apríl:

[Þ.] 14—15.[apríl] var hér mikið ofviður landsunnan, en gekk um nóttina í vestanrok, er þá sagt að skip eitt af Tjörnesi hafi verið í hákarlalegu, sem ekki var spurt til þá seinast fréttist hingað. Í hinu sama veðri höfðu Grímseyingar komið úr hákarlalegu og náð undir eyjuna að austan, og lagst þar ásamt öðru skipi, er var úr landi, en eftir nokkra tíma slitnuðu Grímseyingar upp; er haldið að þeir hafi brotið skipið, því að austan á eyjunni eru engar lendingar. [Þ.] 26.[apríl] barst hingað í lausum fréttum að í mikla vestanrokinu, sem var hér um nóttina hins 15.[apríl], hafði skip eitt, er var frá Höfða á Höfðaströnd og var í hákarlalegu týnst með 8 mönnum; formaðurinn hét Jón Jónatansson frá Höfða. Skip þetta hafði verið gamalt og fúið, og að kunnugra sögn alls eigi sjófært, er Jón engu skeytti, því að hann var hinn mesti ofurhugi og kappsmaður og aflaði hér nyrðra manna mest úr sjó, af fugli, fiski, hákarli, sel og hnísum. Fyrir þetta sama veður höfðu og 2 skip róið til hákarls úr Fljótum, náði annað þeirra með mestu herkjum landi aftur í svonefndri Breiðuvík, sem er millum Stráka og Engidals vestan megin Siglufjarðar. Skipið sem var þungað af hákarli og lifur og er það tók niðri, brotnaði gat á það, ... en menn allir komust af. Á sumardaginn fyrsta [23.apríl], höfðu 9 norðmenn komið á 2 bátum upp á Dali eða Siglufjörð, er höfðu verið við selaveiðar, en brotið skip sitt í ísnum og það sokkið, þeir höfðu verið allslausir og nær dauða en lífi. [Tólf] dagana af mánuði þessum [apríl], var hafátt með meiri og minni snjókomu og hörkum, var þá en víða í sveitum komin mikil fönn ofan á gaddinn, er fyrir var og jarðlaust, en hér að kalla allt norðan fyrir landi stappað með hafís. Með sumarmálum, eða einkum frá hinum 23. [apríl] skipti um veðuráttuna til hins betra, svo að síðan hefur hver dagurinn verið öðrum betri, og meiri og minni jörð komin upp víðast hvar í sveitum. ...

Víkverji birti þann 11.maí nokkur bréf rituð í apríl:

[Skógarströnd 20.apríl] Síðan ég hinn 28. febrúar ritaði héðan, hefir verið áframhald óstilltrar og umhleypingasamrar veðráttu og snjóað eins af suðri sem öðrum áttum. Hinn 7. mars gjörði hér norðanáhlaup. Hinn 8. var austnorðangarður með 15°R [-19°C] frosti. Hinn 17. var norðan og -12°R [-15°C]. Einstaka dag kom hlýviðri og nokkurra stunda bloti. Jökullinn á jörðunni hefir mjög lítið þiðnað eins og nærri má geta, þegar meðaltal hitans í mars varð -2,0°C. Aprílmánuður byrjaði með harðviðris-norðangarði og byljum til fjalla. Hinn 5. var hér -11°R [-14°C] um morguninn. ... Eftir að norðanveðrinu slotaði hinn 8. hafa verið frostvægðir, - 1° til 3° á nóttum + 1° til 6° um hádaginn og þiðnað lítið. ... Hér í sveit eru því megn snjóþyngsli ennþá, nema rétt við sjóinn; fyrir framan bæi er alt einn jökull. Heyja- og bjargarskorturinn þrengir að, og haldist líkt tíðarfar fram að sauðburði er fyrirsjáanlegur stórskaði á búsmalanum. Fénaðarhöld mega til þessa heita góð og eins heilsufar fólks.

[Dalasýslu 28. apríl] Nú er drottinn búinn að gleðja oss hér með blessuðum sumarbata, og hefir hér verið hagstæðasta veðrátta og reglulegt hlýviðri (5°R í nótt [7,5°C]) síðan um helgina. Allstaðar komnir dálitlir hagar og koma óðum, og haldist þetta nokkurn tíma, snýst vetrarharkan upp í gróður.

[Strandasýslu 25. apríl] Allt fram á þennan dag hafa haldist norðanfannkomur með hagleysi fyrir allar skepnur, svo allur þorri manna er orðinn heylaus, nema hvað sumir treina meir og minna fyrir kýr. Fjöldi bænda er búinn að reka fé sitt og hesta á haga í aðrar sveitir, og getur það orðið að góðu fyrir þann fénað, sem ekki er orðinn of mjög aðþrengdur, áður en rekið var. Hafís er hér að hrekjast út og inn um Húnaflóa og fyrir norðan land, enda er veðráttan alveg samkvæm því ferðalagi hans.

[Mjóafirði - ódagsett] Í 2. viku þorra [um mánaðamót janúar/febrúar] lagði hér fjörðinn út fyrir öll nes. Þennan lagís mátti ganga um innri hlut fjarðarins, en ytri hlutinn þótti ótryggur. Hingað og þangað hafa bjarndýr gengið á land, og komist upp í hérað. Hér (nálægt á Brekku) voru 2 drepin, vannst annað skjótt, því það var skotið með kúlu, en með hitt gekk það öllu lakar. Við komum sunnan frá Reykjum, og brýndum bátnum í fjörunni, urðum við þá varir við þenna óboðna gest í hjallinum fremra. Svo var orðið skuggsýnt, að eigi sást til að miða á dýrið inn í hjallinn. En á meðan að við vorum á reiki kringum hjallinn, rak björninn hausinn út um vindaugað, var þá þegar skotið á hann, kom skotið í bóginn, og særðist hann töluvert. Hljóp hann þá út úr hjallinum og inn með sjó, og Halldór Hjálmarsson bóndans á Brekku á eftir, Komst hann að hlið við björninn, sem þegar er hann sá, að maðurinn var eigi nema einn, reisti sig upp og bjó sig til að stökkva á hann. Halldór skaut þá í hóstið á honum, með stórum selahöglum, hafði skotið þá verkun, að hann datt aftur á bak, og veltist í sjóinn, og synti undan landi. Við fórum þá á bát á eftir honum, og skutum hlaðstokk úr járni gegnum hálsinn á honum, svo digrari endinn sat í barkanum eftir; en hann var eigi dauður að heldur. Voru þá skotfærin þrotin, en við höfðum skarexi, og með henni klufum við hausinn, og þá var hann frá. [Enn ítarlegri lýsing á þessum aðförum er í Norðanfara 29.júní].

Norðanfari birti þann 16.maí bréf rituð í apríl:

[Beruneshrepp í Suðurmúlasýslu, 11. og 26.apríl]: Veturinn var hér ærið harður frá jólum og fram yfir miðjan mars, úr því fór að koma upp jörð, svo alveg varð rautt, og haldist þetta er vonandi að allur þorri manna haldi skepnum sínum, útlitið áður þessi umskipti urðu var hörmulegt. Ég verð að geta þess, sem nýlundu, að í vetur í miklu stórhríðinni 12.janúar, var hér svo mikið norðanveður að elstu menn muna eigi slíkt með 16° frosti á Reaumur [-20°C]. Þá rak Hamarsfjörð fullan með lagís, en þegar því slotaði var hann allur gengur, og fannst þá á ísnum fiskurinn í hrúgum, samanfrosinn niður í krapinu, sumir höfðu legið flatir, aðrir stóðu á höfði, og sumir með hausinn rétt upp úr ísnum; þetta héldu menn að komið hefði til af því, að sjórótið varð svo mikið, að það hafi náð til botns, en fjörðurinn grunnur og fiskinum fleygt upp, og hann þá strax frosið fastur; einnig fundust nokkrir æðarfuglar frosnir niður á löppunum og nokkuð af silungi frosið í ísnum. 1. dag apríl næstliðinn kom verslunarskipið „Jenny“ á Djúpavog eftir 16 daga ferð frá Kaupmannahöfn. Það hafði sætt miklum stormum og heljum á leiðinni hingað til lands. ... Hjálmar, sem fara á til Húsavíkur, kom hér 7. apríl, og varð vegna íssins að snúa aftur við Langanes. 18. þ.m kom Harriet einnig á Djúpavog, eftir að hafa gjört margar tilraunir til þess að komast inn á Vopnafjörð, er stafaði af látlausum dimmviðris stormum og hafís, var hún þá (þann 18.) búin að vera tæpar 7 vikur í sjó og oft á þeim tíma komist í mikinn háska innanum ísinn. 24.[apríl] fyllti Berufjörð með hafís, og hafði hann ekki komið hér fyrri á umliðnum vetri.

[Norðfirði 26.apríl] Næstliðið sumar [1873] var hér fremur góð heyskapartíð, en mjög graslítið, einkum í úthaga en tún í meðallagi sprottin. Með Mikaelismessu [29.september] brá til illviðra, kaupstaðarferðir urðu því mjög erfiðar, einkum yfir fjallvegi. 10.október lagði hér alveg að með snjókomu og stórviðrum til þess á Marteinsmessu [11.nóvember] að þá komu þíður og góðviðri í hálfan mánuð, en þá lagði aftur að með snjókomu og hörkum; bloti kom að sönnu á jólaföstunni en þá,fram um sólstöður kom, hófust að nýju snjókomur með hvassviðrum og miklum frostum. Viku fyrir þorra var hafíshroði kominn hér að Austurlandi, lagði þá alla firði. Í fyrstu viku gón hlánaði víðast vel hér um sveitir. Allur mars mátti fremur heita góðviðrasamur, nema dag og dag áhlaupaveður. Með apríl lagði enn að nýju að með illviðrum og grófum snjóþyngslum, og þann 18.[apríl] fylltust hér allir firðir með hafís, svo til vandræða horfðist með heybjörgina, og lítur mjög illa út, komi ekki snöggur bati; ...
[Þ.14.apríl] kom skip kaupmanns C. D. Tuliniusar á Eskifjörð, það hafði lagt af stað 12 mars frá Kaupmannahöfn.

Norðanfari birti 23.maí bréf dagsett í apríl:

[Sléttuhlíð í Skagafirði 22.apríl]: Harðneskja tíðarinnar helst jafnt og þétt og hretin eru iðin hvert ofan í annað. Í fyrradag byrjaði eitt með bleytuhríð, er skemmdi mjög á jörð, frosthríð var í gær svo engin skepna sá út, en í dag er að birta. Enginn ís hefir komið inn í þessu skoti nú hingað til. Margir eru á nástrái með hey fyrir kindur og tæpir fyrir kýr, ... Um fyrri helgi réru þrennir úr Sléttuhlíð í fyrsta sinni í vetur, og komu að aftur að kveldi hins 13. með besta afla, ... Ætluðu þeir að róa strax um hæl á þriðjudaginn hinn 14. en þá rauk hann í einn ofsabylinn, er hrakti Sæmund á Mói og Björn á Stórholti norður í Fjörðu, mölvaði Björn þar skip sitt nokkuð; en til Jóns á Höfða hefir eigi spurst síðan, reri hann með 8 á hinn 13. [apríl].

[Húnavatnssýslu 30.apríl, nokkuð stytt hér]: [Nú] getur hver með hressum huga og fagnaðarsælli von óskað hver öðrum góðs og gleðilegs sumars, sökum hinnar dýrmætu sumargjafar er Drottinn hefur nú öllum veitt með því mesta blíðviðri nú í 3—6 daga er nálega svo undrum sætir hefur brætt hinn beinharða og feikimikla jökulgadd án þess þó að skemmdir hafi orðið af hinum mikla vatnsgangi eða skriðuhlaupum, það ég til veit, því rigning hefur verið mjög lítil. Menn geta því verið glaðari, sem að þessu sinni hefur verið þreytt stríð við einhvern hinn harðasta vetur er þessi öld hefur haft að færa, sjálfsagt, ef ekki eins, þá samt næstan vetrinum 1802, en þó fáir skorið í vetur og hvergi orðið fellir eða útlit til hans, svo mér sé kunnugt, nema máski í Miðfirði. Á nokkrum stöðum hefur verið með öllu jarðlaust í 27 vikur, enda voru menn á þeim stöðum og víðar mjög að þrotum komnir, og margir búnir að reka fénað sinn í snjóléttari sveitir á haga og hjúkrun. ... Vakalaus helluís var stöðugt fram um sumarmál af Vatnsnesi vestur til Bitrufjarðar langt norður fyrir Heggstaðanes. Allir firðir í Strandasýslu kringum Breiðafjörð og víðar voru fullir af lagís, og það enda útum eyjar (Breiðafjarðareyjar) ... Svo hafa mikil ísalög verið á vetri þessum að menn muna ekki þvílíkt, og að því mér er kunnugt hvorki sunnanlands né norðan ... Mér þætti því vel hlíða, að árstíða ritendur vorir einkenndu vetur þennan með því að kalla hann svellavetur hinn mikla. ... Eins og kunnugt er, lónaði hafísinn hér frá landi á góunni, en þó ekki svo að strandskip þau er hér hafa legið í vetur á Skagastrandarhöfn og endurbætt voru, sæju sér fært að leggja út, þar til 28.[mars] að skipið „Jason" eign verslunarstjóranna J. Holm og C.Seristius létti akkerum, ætla menn þó að það muni, máski allt til þessa hafa verið að hrekjast hér fyrir norðan land. Hitt skipið „Elfríður" lagði út 27. [apríl].

Tíminn segir frá því þann 6.maí að jarðskjálfta hafi orðið vart 29.apríl, kl.10 1/4. 

Maí: Bærileg tíð.

Þjóðólfur fer yfir tíð og síðan mannskaða í maípistlum. Rétt að taka fram að ekki eru hér allir mannskaðar fram komnir:

[4.] Með sumrinu hefir veðráttan hingað til farið dagbatnandi, og segja póstar hið sama hvervetna frá. Þó er það nú fyrst, að gjöra má ráð fyrir að hagar séu upp komnir í hinum hörðustu héruðum. Almennur fellir hefir hvergi frá spurst enn í dag, og vona menn að enn fari betur en áhorfðist. Hefir vetur þessi 1874 reynst einn meðal hinna harðari, er menn muna, og hefði verið talinn annálsverður á fyrri dögum. þola menn miklu harðari vetra nú en fyrir 2—3 mannsöldrum, og er það bæði skynsamari meðferð sauðfjárins að þakka, og einkum korneldi, þar sem í korn næst.

[30.] Veðrátta þennan maímánuð mestallan hin besta og blíðasta og fiskiafli góður. Í sjó hafa týnst 26 manns af 9 bátum og skipum; þar af 21 af Suðurlandi, en 5 af Vesturlandi. Að norðan og austan höfum vér ekki heyrt skipskaða [þeir urðu þó]. Úti hafa orðið 7—8 menn, allir á norðausturfjöllum Íslands. Í ám hafa látist 5 manns, 3 fórust í vötnunum í Árnessýslu, í fjallréttum, ... Tveir menn hafa horfið, eða týnt sér.

Norðanfari lýsir tíð í pistli 16.maí:

Síðan seinast, er vér lýstum veðuráttunni, hafa verið þurrviðri og hreinviðri og oftar meira og minna frost á nóttunni svo lítið tekur upp þar sem gaddurinn er. Fyrstu dagana af [maí] var farið að votta hér og hvar fyrir gróðri, en síðan hefur honum lítið farið fram, og jafnvel að hann sé að deyja aftur út. Frá því á dögunum og allt að þessu hefur hér verið upp um ísinn meiri og minni reytingsafli af fiski. [Þ. 4.maí] hafði „Erama Arvigne", komið hingað inn að Hrísey og litlu átur Hertha til Skagastrandar, höfðu þau orðið fyrir tæpt 3 vikum síðan, að hverfa frá ísnum fyrir Austfjörðum og sigla hér vestur og norður fyrir land. ... Fyrir uppstigningardaginn 14.[maí] höfðu flest eða öll hákarlaþilskipin komið heim úr fyrstu leguferð sinni í vor, og opnu skipin úr annarri eða 3. ferð sinni, með meiri og minni afla, ... nokkrir af skipverjum þeirra, er vér höfum átt tal við, segja, að nú megi kallast íslaust það augað hefði eygt af dýpstu hákarlamiðum til hafs, frá Hornströndum að vestan og austur að Rauðanúp á Melrakkasléttu, eða jafnvel að Langanesi. Eigi að síður situr nú enn haft af hafísnum hér inn á firði landa á millum, frá Gæseyri, og inn að Oddeyri, svo ekkert skip kemst inn eða út, sem fjörðurinn væri víggirtur.

Norðanfari segir af tíð í pistli þann 23.maí:

Dagana síðan 16.[maí], að næsta blað hér á undan kom út, hefur veðuráttan verið meira suðlæg og blíðari en áður og ekkert frost á nóttunni, svo mikið hefur tekið upp og gróðrinum talsvert farið fram, enda hafa smáúrkomur verið stöku sinnum. ... [Þ. 18.maí] kvaddi hafísinn hér loksins, líklegast fyrir fullt og allt í þetta skipti, hafði hann dvalið hér á firðinum í fullar 18 vikur, svo sjóferðirnar á innfirðinum voru allan þann tíma tepptar.

Víkverji lýsir tíð í maí:

[21.] Eftir nærfellt 4. vikna þerri, oft með frosti um nætur, kom hér besta rigning aðfaranóttina mánudags 18. [maí] og hefir síðan verið sannkallað grasveður, hæg rigning og þýð sumargola. Það er vonandi að þetta veður hafi náð norður; eftir því sem fréttist í fyrradag ofan úr Borgarfirði eftir mönnum, er þá voru nýkomnir norðan af Holtavörðuheiði, hafði þíðan sem kom með sumri gert þar lítið að verkum. Hrútafjörður hafði verið riðinn á ís, og á Holtavörðuheiði hafði allt verið jökull og einungis einstakir auðir blettir.

[28.] Í nótt gjörðist norðanátt en þangað til höfðu verið suðlægir vindar síðan frostin hættu. Í gær gaf eigi á sjó en annars hefir verið róið á virkum dögum alla síðastliðna viku og fiskað mæta vel, en flestir kaupmenn aðrir en norska verslunin eru sagðir saltlausir.

Þann 30.júní birti Þjóðólfur bréf að vestan, virðist ritað 9. til 11.maí - en staðar er ekki getið:

Næstliðinn vetur var hér vestra, sem hvervetna annarstaðar á landinu, einhver hinn allraharðasti vetur, sem komið hefir yfir oss a þessari öld (veturinn 1802 var máski jafnharður). Voru hér ísalögin og frostgrimmdin fram úr öllu hófi, — mest í janúar; lagði álnarþykkan ís yfir mikinn hluta Breiðafjarðar, svo ríða mátti og renna beint í Svefneyjar af nesjum ofan í samfleyttar ll vikur. Á þorranum komst jagtskip inn á Flateyjarhöfn með nauðsynjavörur, en áður var vöruskortur mikill. Fóru menn þá hópum saman með hesta eða sleða til Svefneyjar og lánuðu þar menn og skip til Flateyjar fram og aftur.

Víkverji birt þann 4.júní tvö bréf af Suðurlandi, dagsett í maí:

[Síðunni 8. maí]: Síðan í síðustu viku þorra, og fram að miðgóu voru hér ýmist blotar, og frostlitlir austanstormar, eða þá útsynningséljagangur, svo aldrei komu svo upp jarðir, að dregið yrði hey við fénað, en þó gjörðu það sumir um of, vegna heyhræðslu, en sér til stórskaða. Hinn 8. mars hljóp upp á með grimmdar norðanstormi og hörkufrosti, en þó í snjólausu, og lagði þá hvert vatn, og það sumt sem ekki frýs nema í aftökum. Ekki get ég sagt, hvað frostið varð þá mörg stig, því hitamælir minn var þá fyrir skömmu brotinn. Síðan hafa hér gengið sífelldir umhleypingar, og austannæðingar, svo vel flestir eru með öllu búnir að gefa upp hey sín, en margir orðnir heylausir. Það var fyrst þann 13. þ.m. [apríl?], að hér kom verulega hlýtt veður, og það helst nú enn þá við, og vonum við, að nú loksins sé sumarið í garð gengið, enda er þessa nú full þörf orðin. Yfir höfuð vona ég, að hér í Kleifahrepp verði ekki fénaðarfellir svo teljandi sé; hjá einstöku manni hefir hrokkið úr ám og gemsum, en ekkert að mun, en mjög víða er allur fénaður fremur magur og langdreginn; en ef þessi veðurblíða helst við, þá rétta allar skepnur við, sem ekki eru of vesælar til að þola gróðurinn. ... Hér á milli sanda (Mýrdalssands- og Skeiðarársands) hefir aldrei verið komið á sjó í vetur né vor, en í Öræfum og Hornafirði heyri ég sagt aflavart, einkum í Suðursveitinni. Tíðarfar þar líkt og hér, nema nokkru betra í Öræfum og Nesjum.

[Rangárþingi 5.maí] Hinn síðastliðni vetur hefir yfir höfuð að tala verið einhver inn stormsamasti og umhleypingasamasti, er elstu menn muna eftir hér eystra. Veðráttu brá hér til kalsa og umhleypings þegar með septembermánuði í sumar er leið, og helst hin sama kalsa- og hrakningsveðrátta með tíðum stormum, frá þeim tíma og þangað til hin miklu jarðbönn og harðindi byrjuðu með hörðum gaddbyl, er hér gjörði inn 21. desember. Hörkur þessar stóðu yfir með fullkomnu bjargarbanni fyrir allar skepnur þangað til hér kom fyrstur bloti 25. janúar, og helst síðan á víxl blotar eða snjóhroði af útsuðri þangað til 8. febrúar, að gjörði veður nokkuð mýkra, og mátti þá heita komnir viðunandi hagar víðast hvar. Það sem eftir var vetrar, voru stöðugir umhleypingar og oftar stormar af hafi. Með sumrinu brá veðri fullkomlega til batnaðar; fyrstu daga sumarsins var að vísu austanstormur, en hvorki fylgdi honum mikill kuldi né úrferð. Nú hefir um vikutíma verið spakt veður og heitt, gróður er hér í góðu lagi og horfir heldur vel með tíðarfar ef eigi spillist. Sjógæftir hafa, eins og vænta má í þessari veðráttu, mátt heita engar. Sjómenn, er héðan úr sveitunum róa í Vestmanneyjum, komust þangað fyrst í norðanveðri hörðu, er hér gjörði 8. til 11. mars, og var þetta hið fyrsta hlér á vetrinum, var þá róið í Landeyjum, en aflalaust. Síðan tók aftur fyrir gæftir þangað til um sumarmál, að vermenn komu aftur úr Vestmannaeyjum, höfðu þeir aflað lítið ..., og gæftir hjá þeim verið mjög stirðar. Fyrir Söndum varð alls 2 sinnum komist á sjó liðinn vetur og var aflalaust í hvorttveggja skipti, í gær mun almenningur hafa róið bæði í Landeyjum og undir Eyjafjöllum, en undir Eyjafjöllum varð að eins lítið vart, hæst er þar nefnt 9 í hlut af samtíningsfiski. Af fiski- og gæftaleysi þessu er, eins og við er að búast, mjög hart manna á milli, því hér er margur sem treystir björg af sjó síðari hluta vetrar og á vorin, það mun því víst eigi of hermt, að almenningur manna hafi litla aðra björg sér til viðurværis, en mjólkina úr kúnum. Fénaðarhöld mega heldur heita í lakara lagi, ber það helst til, að haustið lagðist þegar með „réttum" svo hart á, með kulda og umhleyping, svo að ær tóku engum haustbata, og voru því horaðar undir veturinn, og allur fénaður með rýrasta móti. Nú munu flestir hafa gefið upp öll hey sín og sumstaðar var farið að brydda á hordauða, þó munu óvíða mikil brögð að því.

Júní: Kalt með köflum, sérstaklega á hafísslóðum, en skárri kaflar á milli.

Norðanfari birti 29.júní bréf dagsett á Seyðisfirði 9.júní (mikið stytt hér):

Veðuráttan hefur verið indæl fyrirfarandi, en loftkuldi er mikill; á laugardagsnóttina 6.[júní] lagði hér sjóinn töluvert og nú í morgun hefur verið snjókoma ofan í byggð.

Þjóðólfur segir frá júnítíð í örstuttu máli:

[11.] Tíðarfar nú um hríð kalsa- og votviðrasamt; krapi til fjalla, svo snjóað hefir nokkrar nætur í miðja Esju. Þó má vor þetta kallast gott hér á Suðurlandi. Fiskiafli hinn besti.

[23.] Veðrátta óþurrkasöm mjög og grasvöxtur enn sárlítill; fiskiafli góður, og sigling fjörleg, en verðlag afarhátt á útlendri vöru.

Tíminn birti þann 20.október kafla úr bréfi sem ritað var í Eyjafirði 15.júní:

Veturinn og vorið fram á sumarmál var hér kringum Eyjafjörð í þyngra lagi, en víðar verri, engir töpuðu samt til muna skepnum sínum, en ekki er ég því samþykkur að líkja honum við veturinn 1802, ég á uppteiknun yfir veðráttufar þann vetur og vor, þá mátti ganga á hafís í fardögum yfir Eyjafjörð milli Glæsibæjar og Svalbarðsstrandar; en í vor leysti ísinn af firðinum í 4. viku sumars eftir 18 vikna legu, og síðan á sumarmálum hefur verið hagfelld tíð, einir 5 kuldadagar, aldrei snjór; en þá 1802, kom aldrei bati allt vorið, öðruvísi en sólbráð á daginn en frost um nætur; það er sjálfsagt að í vetur var einhver hinn kaldasti vetur, 20° frost mest.

Júlí: Skiptust á hlýir dagar og kaldir. Kyrkingur í grasvexti.

Þorleifur í Hvammi segir að 8.júlí hafi snjóað að nóttu niður í miðjar hlíðar og daginn eftir voru krapakskúrir um kvöldið. 

Norðanfari birti bréf þann 31.júlí:

[Fáskrúðsfirði 8.júlí]: Þjóðhátíðin var haldin hér í héraðinu 2. [júlí] og hafði þar mikið gengið á, en ekki gekk minna á fyrir náttúrunni, því að mikill snjór kom, svo að sumstaðar hafði fé fennt á fjöllum.

[Breiðdal 22.júlí]: Héðan er fátt af fréttum, nema að tíðin hefur oftar verið í vor bæði þurrkasöm og heit 20 stig mest á R [25°C], þess á millum kuldi og frost á nóttunni, og með byrjun [júlí] snjóaði ofan í mið fjöll. Grasvöxtur er hér yfir höfuð með langversta móti, vegna þurrviðranna, en nú seinustu dagana hafa verið úrkomur og hlýviðri.

Norðanfari birti þann 31.ágúst bréf úr Húnavatnssýslu, dagsett þann 14.júlí:

Síðari hluta [júní] og fram til þess 7. [júlí], voru stöðugir þurrkar, stundum norðan- og norðaustanstormar og oft talsvert næturfrost. Síðan norðan kalsavætur og talsverð snjókoma þann 10. en nú þurrt og fremur hlýtt í 4 daga, grasvexti hefur því lítið farið fram, einkum á túnum og harðvelli og suœstabar farið að brenna af túnum; það lítur því út að töður verði með rýrara móti, en raklendar engjar líta fremur vel út.

Tíminn birtir fréttir að vestan og austan þann 23.júlí:

[Að vestan] Þann 4. júní gjörði ofsaveður á sunnan upp úr hægviðri, þá fórst skip í Ólafsvik með 6 mönnum á; að kveldi hins 7. sama mánaðar, drukknaði ungur og efnilegur maður í Búðará. [Af Reyðarfirði 3.júlí] Sumarið, sem af er, hefur oftast verið þurrt og kalt, en þó sterkir hitar á milli, svo grasvöxtur er heldur lítill, einkum á valllendi og túnum, sem einnig eru kalin til stórskemmda. Afli er kominn góður í sumum veiðistöðum af smáfiski og lúðu, einnig hafa hákarlaskipin aflað vel.

Norðanfari segir af tíð í pistli þann 18.júlí:

Það af er [júlí] hefur veðuráttan, eins og oftast að undanförnu í vor, verið hér nyrðra fremur þurr og köld með hafátt og stundum frosti á nóttum, jörð er því víða graslítil, kalin og tún brunnin; hér og hvar hefir líka orðið vart við grasmaðk helst á harðvelli utan túns. Fyrst eftir fráfærurnar hafði málnyta verið furðu góð, en eftir fáa daga kólnaði og frostin urðu svo mikil fram til dala og fjalla, að polla lagði, og þar sem lygnt var á lækjum og ám; minnkaði málnyta þá að þriðjungi og smjör varð þó að sínu leyti enn minna. Vegna þurrviðranna og kuldanna hefir fjallagrasatekt í vor og sumar eigi orðið stunduð sem undanfarin ár, sem eykur bjargarskortinn ...

Ágúst: Tíð almennt ekki talin óhagstæð þó kalt hafi verið. 

Þorleifur í Hvammi segir frá hélu að nóttu þann 5.ágúst og þann 24. var mikið mistur á suðurlofti allt til kvölds.

Í Þjóðólfi eru smáfréttir af veðri við konungskomuna:

[Þ.4.ágúst, úr grein um konungskomuna 30.júlí]: Veður var skúrasamt, en tók nú að batna, og stóð regnbogi mikill beint yfir höfninni, og þótti oss all-fagurt.

[12.ágúst] Þjóðhátíð í Reykjavík 2.ágúst. Þennan minnisstæða dag var svalt íslenskt sumarveður, sólbjart mikinn hluta dags, og fór batnandi með kveldi. ... Kl. 5 hafði múgur manns safnast saman á Austurvelli, og var síðan gengið upp á hinn fyrirbúna hátíðarstað bæarins, Öskjuhlíð. Var þar rudd slétta mikil, tjöld tvö sett og sölubirgi tvö, og ræðustóll, en stengur í kring með dönskum flöggum á. Norðan gola var, og fylgdi rykfok mikið, og þótti mörgum sem heppilegra hefði verið að halda þennan mikla mannfagnað á túnum niðri. ... [um brottför konungs 11. ágúst]: Veður var bjart og hýrt.

Ísafold birti þann 19.september frétt af Akranesi sem dagsett er þann 20.ágúst:

Tíðarfar hefur verið hér gott í sumar það sem af er, grasvöxtur í lakara meðallagi á túnum, á úthaga í góðu meðallagi; nýting hin ágætasta til þessa dags. Síðasta vetrarvertíð var hér einhver hin besta er elstu menn muna, þótt vindasöm væri; þess vegna varð og afli nokkuð misjafn, af því fiskur gekk eigi á grunn til neinna muna; hlutir urðu frá 2—600 af vænum þorski á færi. Auk þess voru þeir, er þorskanet áttu, búnir að fá frá 50—150 í hlut af netfiski, áður en færafiskur fór að fást, og höfðu þó flestir þeirra helmingaskipti. Vorvertíðin var einnig góð, og aflaðist á henni í þetta sinn mestmegnis þorskur og stútungur, og mun óhætt að telja meðalhlut á henni um 250. Síðan um Jónsmessu hafa og nokkrir menn aflað mæta-vel, og munu sumir þeirra vera búnir að fá f hlut 4 skippund af söltuðum þorski; en af því svo langt hefur þurft að sækja fisk þenna, nálægt 6 vikur sjóar eða meir, þó hafa margir orðið útundan, og eigi náð í hann; gjörir það og samtakaleysi og deyfð, að fleiri hafa eigi sameinað sig, að róa þangað hinum stærri skipum, til að ná í þessa miklu björg. Hér hefur því á þessu ári borist mikill auður á land upp, úr djúpi hafsins, fyrir þá, sem kunna með að fara; hinum verður aldrei neitt úr neinu, það hverfur eins fljótt og það kemur.

Þjóðólfur segir lauslega af tíð 22. ágúst:

Síðan sláttur byrjaði, hefir veðrátta mátt heita kalsa- og umhleypingafull. Grasvöxtur hvervetna undir meðallagi; nýting misjöfn. Hafísar ávallt nærri landi.

Norðanfari segir frá tíð þann 31.ágúst:

[Þ. 21.ágúst] var hér mesta stórviður sunnan. Brunnu þá um daginn að kalla öll bæjarhús á Gröf í Kaupangssveit til kaldra kola, ásamt nokkru af matvælum og innanstokksmunum, og utanbæjar fjárhús og yfir 30 hestar af töðu. ... Allt að þessum tíma hefur heyskapartíðin hér nyrðra verið hin hagstæðasta svo nálega hver heybaggi, sem undir þak er kominn, er með bestu verkun. Víða hafði töðufallið orðið með minna móti, enda hefur almenn umkvörtun verið um að tún væru brunnin eða kalin. ... Í næstliðinni viku, eða um þann 20. [ágúst] komu öll hákarlaskipin, er hér höfðu úti verið, úr sinni seinustu ferð og að kalla alveg aflalaus. Svipverjar þeirra segja enn mikinn hafís norðan fyrir landi, og allt upp á venjuleg hákarlamið og að eins 6 mílur frá honum upp að Hornströndum.

Ísafold birti þann 1.október bréf úr Mývatnssveit, dagsett 4.september:

Tíðin hefir í sumar allajafna verið köld og þurr, og oft hefur hér snjóað í fjöll ofan undir byggð. Grasbrestur var mikill á túnum og þurrengi, en flæðiengi spratt í meðallagi og betur. Samt hefur furðanlega reyst saman af heyjum, sökum ágætrar nýtingar, svo ég hygg að heyafli verði í meðallagi og sumstaðar betur.

Norðanfari birtir bréf þann 30.september (mikið stytt hér):

[Húnavatnssýslu 29.ágúst] Í sumar hefur mátt heita hér besta og hagkvæmasta tíð, og hey náðst hingað til með góðri nýtingu, grasvöxtur á túnum, náði allt að því meðallagi.

[Suður-Múlasýslu 5.september] Tíðin hefur verið oftar köld og þurr í sumar þangað til um höfuðdag; þá rigndi nokkra daga. Nú er aftur þurrkur. Grasbrestur hefur verið hér mikill, einkum á túnum, svo vantað hefur 1/3 til 1/2 við meðalár. Tún gjörðust of þurr og brunnu eða hálfbrunnu, sama var með mýrar að þær gerðust of þurrar, nema votengi og spratt það sumstaðar vel. Gras fór að sölna hér fyrir miðjan ágúst af næturfrostum. Þá snjóaði oft í fjöll og var stundum éljatíð, lítil úrkoma í byggð, en meiri á fjöllum. Heyföng eru lítil víðast hvar enn orðin og verða lítil hér eftir, því grasið sem var lítið, er orðið hálfvisið.

[Hnappadalssýslu, 24.ágúst] Veðuráttan má kallast góð, þó hún sé köld, er menn kenna hafísnum. Tún hafa verið hér talsvert miður sprottin en í meðallagi, og vantar 1/3 upp á í góðu ári, nýting aftur hin besta bæði á töðu og útheyi. Grasvöxtur á vallendi er rýr, en á mýrum máski í góðu meðallagi.

[Húnavatnssýslu 11. september] Mjög hefur grasvöxtur orðið misjafn í sumar, því kalla má að lítið hafi sprottið síðan í [júnílok]. Tíðin hefir verið mjög köld og einatt mikil næturfrost, en þurrkar góðir, svo nýting hefur orðið hin besta. Tún voru almennt í lakasta lagi og sömuleiðis engjar, sér í lagi harðvelli; flæðiengi hafa víðast verið rétt góð. Fiskafli oftast lítill og gæftir tregar.

September: Allgóð tíð framan af, en síðan gerði mikil illviðri, sérstaklega undir lok mánaðarins.  

Þorleifur í Hvammi í Dölum segir að 14.september hafi snjóað á fjöll og „jókst ofan í byggðina“ síðdegis. Daginn eftir segir hann snjóhrafl áveðra í sjó niður. 

Norðanfari segir stuttlega þann 14.september:

Það má kalla, að veðuráttan hér á Norðurlandi, sé hin sama og hún oftast hefir verið, þurr og köld, og heyskapar tíðin allajafna hin æskilegasta.

Þjóðólfur segir stuttlega þann 14.september:

Veðrátta helst enn sviplík og verið hefir í allt sumar, kaldranaleg, óstillt, en ekki óhagstæð til nýtingar. Sumstaðar hér nærri sjávarsíðunni eru menn þegar hættir heyskap, þar eð engjar enda í meðal-grasári endast mörgum ekki lengur en til höfuðdags. ... Úr Strandasýslu: „Hin mestu hafísrek í allt sumar norður í höfunum, og stundum ekki fjærri Horni“.

Ísafold segir þann 19.september:

Snjór. Aðfaranótt þriðjudags 15.[september] snjóaði ofan í byggð um allar nærsveitirnar hér við Reykjavík, og gerði kaffenni á fjöllum. Síðan hefur veður verið nokkuð kalt, talsvert frost á hverri nóttu.

Norðanfari birt 26.nóvember bréf rituð í september:

[Vatnsfirði 30.september] Sumar hér kalt og jafnast þurrt fram að réttum. Grasvöxtur í minna lagi einkum á hörðum túnum, en nýting fremur hagstæð. Margir hafa því heyjað allsæmilega. Nú virðist haustið ætla að byrja enn hrikalegar en í fyrra. Næstliðinn laugardag [26.] byrjaði norðangarður, og síðan á sunnudag má heita að hafi verið upprofslaust, með ofsaveðri, einkum mánudaginn, fannkomu og töluverðu frosti, svo snemma á tíma, og er enn ekki afléttilegt. Kýr eru alkomnar inn, fé sumt ófundið og fennt í afréttum, hey úti og óþakin, hús í óstandi og opin, og eldiviður óheimfluttur.

[Landeyjum í Rangárvallasýslu 18. september] Héðan eru fá fögur tíðindi að segja. Vertíðarafli varð hartnær enginn, vorafli næsta lítill, og heyskapur er bæði vegna grasbrests og vætu með rýrara móti á flestum bæjum hér í Landeyjum.

Ísafold birti þann 17.október bréf af Skógaströnd, dagsett 1.október:

Veðrátta hefir síðari hlut ágústmánaðar, og framan af september verið hagkvæm til heyskapar, austanlandsynningar með tilgönguvindum og norðanuppþotum og nægum þerri. Hinn síðari hluta mánaðarins ókyrrðist veðráttufarið, var þá ýmist norðanrokviðri með snjógangi (þann 14., 19., 27.—30.), eða þá sunnanofviðri (þann 24.), eða umhleypingar af ýmsum áttum. Það tók því fyrir heyskap þann 20., og kýr fóru almennt á gjöf þann 28. Fyrirboðar vetrarins, sem í hönd fer, eru svipaðir þeim, sem voru í fyrra og hitteðfyrra, því meðal annars eru nú, eins og þá, öll fjöll og víða hvar byggðir snæþaktar. ... Þetta útlíðandi sumar verður víst eitt með hinum köldustu, en þó, þá alls er gætt, eitt með hinum hagkvæmari. ... Í dag fréttist úr Dölunum, að stórfannir séu þar komnar til fjalla og mikil vandkvæði á að ná fénaði úr fönnum. Enn fremur eru hin mestu líkindi til, að í þessum langvinna rokgarði með stórflóði hafi mjög spillst útselskópaveiðin, það er að skilja, kóparnir hrakist ofan úr bólum sínum á skerjunum, og flækst hingað og þangað, því þeir reka eins og kefli fyrir vindi, meðan þeir eru í snoðinu.

Þann 29. október lýsir Ísafold fjársköðum og hrakningum í septemberlok:

Fjárskaðar hafa orðið allmiklir víða í illviðrum þeim, sem gengið hafa lengst af, það sem af er haustinu. Mánudaginn í 23. viku sumars (28. september) lögðu 12 menn af stað með 240 kinda rekstur úr Reykholtsdal í Borgarfirði suður Okleið til Reykjavíkur. Á miðju fjallinu gerði á þá ofviðri svo mikið, með myrkviðrisfjúki, að þeir urðu að yfirgefa þar féð og forða sér norður af aftur til byggða. Af rekstri þessum fundust síðar 70—80 kindur lifandi, en 40 dauðar, í fönn eða rotaðar. Hitt er ófundið enn, og talið af allt saman. — Í sama bylnum varð Eggert bóndi Eggertsson á Skógtjörn á Álftanesi til á Kaldadal með 200 kinda rekstur norðan úr Húnavatnssýslu, og missti fjöldann af því út í veðrið. Samt hefir það fundist flestallt aftur. — Að vestan hefir frést, að Indriði Gíslason, fyrrum alþingismaður á Hvoli, hafi misst á annað hundrað fjár í fönn um réttirnar í haust.

Október: Óstöðugt og umhleypingasamt tíðarfar. Kalt.

Norðanfari segir af illviðrum í pistli þann 24.október:

Frá því 28.[september] og til 5.[október] linnti hér nyrðra ekki landnorðan stórrigning og síðan krapa- og frosthríðum, svo varla var út úr húsum farandi. Víða í byggðum, einkum til sumra dala, kom mikil fönn og til fjalla nær því ókleyf, svo fé fennti, t.d. á einum bæ í Skíðadal yfir 40 fjár; á nokkrum stöðum lentu kindur í snjóflóðum, eða hrakti í sjó eða vötn, þó hvergi eins margt frá einum bæ, sem á Vakursstöðum í Hallárdal í Húnavatnssýslu, hvar 60 fjár hrakti til dauðs í ána. Í illviðrum þessum varð veðrið fjarskalegt, en þó hvergi að það gerði jafnmikið tjón og á bænum Ásum í Svínavatnshrepp, hvar sagt er að fokið hafi um 200 hestar af útheyi og allur eldiviður; einnig fauk þar smiðja, sem var með vallgrónu þaki. Í hinni sömu stórhríð færðist kirkjan á Spákonufelli á Skagaströnd alveg af grundvelli sínum og suður að kirkjugarðinum. Á Hólanesi spennti veðrið inn torfvegg, sem var þar áveðurs undir húsi einu sem fyrir þetta féll niður. Þá sleit og upp af Skagastrandarhöfn jagtina „Ellen", sem stórkaupmaður F.Guðmann á, er að sögn hefði rekið þar upp í kletta, ef skipverjar eigi hefðu tekið það ráð að höggva mastrið um koll, því þá stöðvaðist skipið á rekinu. Aðfaranóttina hinn 2.[október] er sagt að eitt af skipum Borðeyrarfélagsins (Elfríður) hafi í stórhríðinni er þá var, rekið á land nálægt Oddstöðum á Melrakkasléttu, svo botninn liðaðist undan því, en menn allir komist af; nokkrum tunnum með korni í, er voru í skipinu, var búið að bjarga þá seinast fréttist hingað og hinn setti sýslumaður kand. Skapti Jósepsson kominn norður að ráðstafa strandinu og bjóða það upp. Það hefur og spurst hingað, að á Sauðanesi á Langanesi, hafi fyrir illviðrin brunnið framhýsi, hvar geymt var mikið af æðardún, ull og kornmat, en þó nokkru af því orðið bjargað, en skaðinn eigi að síður metinn 3000 rd.

Árdegis 22.[október] kom austanpóstur Sigbjörn Sigurðsson hingað að austan; hann hafði farið frá Djúpavogi 10.[október] og fengið erfiða færð vegna ótíðar, af stórrigningum og snjóum. Seinustu dagana sem hann beið á Djúpavogi, voru dæmafáar rigningar og vatnavextir en þó hæg veður, sem náði yfir allar Múlasýslur. Aðfaranótt hins 9.[október] að Fossárdal í Berufjarðarkirkjusókn, hafði á sem þar rennur nálægt bænum, hlaupið úr farveg sínum og inn í bæinn, svo fólkið gat aðeins með hörkubrögðum bjargað sér. Nokkuð af matvælum tapaðist og eitthvað af heyi skemmdist. 

Norðanfari birti bréf þann 6.nóvember:

[Skagaströnd 2.október] Mánudaginn 28. september var hér ofsaveður á landnorðan, er herti eftir því sem á daginn leið. Jaktskipið „Ellen“, skipstjóri E.M. Schou lá hér á höfninni ásamt jaktskipinu „Anina“ skipstjóri Rasmussen, sem nýkominn var hingað frá Kaupmannahöfn. Eftir því sem á leið aðfaranóttina hins 29., harðnaði veðrið æ meir svo að öllum ber saman um, að þetta veður sé öllu meir en það er skipin strönduðu í hér í fyrra. Kl.4 um nóttina slitnaði landfesti jaktskipsins „Ellen", og voru þá eigi önnur úrræði fyrir skipstjóra Schou, en að höggva mastrið fyrir borð til þess að frelsa líf manna sinna og sitt, hætti þá skipið að reka, samt var svo stutt á sker, sem það rak að, að mastrið, sem þeir eigi slepptu heldur, höfðu á stuttri taug aftan við skipið, lá upp í boðanum á skerinu. Veðrinu slotaði eigi fyrri en á leið þriðjudaginn, og var þá reynt að ná mönnum úr „Ellen", því eigi þótti víst að hún mundi fá legið ef veðrið gengi upp að nýju, var sexæring með 8 mönnum komið út, og var þó með hörkubrögðum, því veðrið var fjarskalegt, taug var og höfð á bátnum, því svo var vetrið, að eigi var hægt að ná landi aftur á árum einsömlum; skipstóri Rasmussen var formaður farar þessarar, eftir [...] verslunarstjóranna á Hólanesi og Skagaströnd. En eigi tókst þessi för, svo að mönnum yrði náð, því báturinn komst aldrei að skipinu, hverju sem það hefur verið að kenna, skal ég láta ósagt, en í lendingunni brotnaði báturinn og mennirnir komust með illan leik á land aftur. Þegar nokkur tími var liðinn, setti skipstjóri Schou upp „Nödflag", því engir sem í skipinu voru hefðu komist lífs af, ef skipið hefði farið að reka aftur. Var þá enn mannaður bátur með 5 mönnum og var fyrir þeirri för Jón bóndi Jasonsson, sem er einhver besti formaður hér um pláss, og tókst honum að ná skipshöfninni, og þótti það frækin för, en úrvalssjómenn voru með honum. Strand þetta er því hroðalegar, þegar maður hefur litið til þess, að í vor sendi stórkaupmaður Gudmann þessa keðju er slitnaði hingað, og svarar hún, eftir sögn skipstjóranna, til skips er væri 200 lestir, en jaktskipið „Ellen“ aðeins 30 lestir. Skömmu eftir að mönnunum varð náð, slotaði veðrinu nokkuð, og liggur skipið enn við festarslitrin og sín eigin akkeri. Það er og hryggilegt að vita, að þetta skuli vera þriðja haustið, sem þetta ólán hendir skipstjóra Schou og reiðara hans; skipstjóri er þó kunnur að dugnaði, sem sést af því, að hann hvert árið eftir annað fær skip að færa hjá Gudmann, jafnt og það vottar vanalegt veglyndi stórkaupmanns Gudmanns, sem alkunnugt er hér norðanlands. „Anina“ lá af sér storminn og þótti það mesta furða, þar sem festarnar, er hún lá við eru grannar og gamlar. Spákonufellskirkja fluttist í veðrinu breidd sína, og er það þó stór og vönduð timburkirkja; einnig skekktist og rifnaði í sundur í veðrinu stórt timburbús á Hólanesi; víða reif gróin þök af húsum og fuku hey; fjárskaði varð á Vakurstöðum í Hallárdal, og missti bóndinn þar 20 til 30 kindur.

[Norðfirði í Suður-Múlasýslu 2.október] Sumarið hefur verið kalt og snjóasamt, grasbrestur mikill, töður þriðjungi og allt að því helmingi minni enn í meðalári, svo illa lítur út með heybirgðirnar, enda hefur þetta þjóðhátíðarár verið fremur bágindaár, það sem nú er af því liðið, og nú í dag er hér í sveit ófært snjóbleytuveður.

Ísafold lýsir tíð í örstuttum pistlum í október:

[1.] Veðrátta hefur verið mjög stirð um hríð hér syðra, og sama er að frétta að norðan og vestan: vikuna sem leið miklar rigningar, og það sem af er þessari viku aftakaveður af norðri, með fjúki til fjalla og ofan í byggð. [17.] Veðrátta óvenjulega hörð það sem af er þessum mánuði. Stórfannir til fjalla. [29.] Veðrátta hefir verið mjög stirð, það sem af er vetrinum, þangað til núna síðustu dagana, að verið hafa þíður og hægviðri.

Þjóðólfur segir þann 3.október:

Síðan daginn fyrir Mikaelismessu [29.september] hefir nú staðið eitt hið grimmasta norðankast; kom það því óhentuglegar, sem fjárrekstrar, lesta- og ferðamenn eru þessa daga sem óðast á ferðum hingað suður. Hafa ýmsir mætt háska og hrakningum, 2 skólasveinar t.d. lágu 2 nætur úti norður á heiðum; lestamenn er fóru fyrir Ok, urðu hraktir frá hestum sínum og farangri, og rekstrarmenn einir eða fleiri komu slyppir ofan í Þingvallasveit, en týndi fénu. Manntjón hefir þó ekki enn spurst. Snjólaust er enn í byggð, en fjöll kominn undir fönn og gadd. Allar haustathafnir annaðhvort ómögulegar, eða torveldar.

Þjóðólfur segir fréttir 16. október:

Af hinu stirða veðráttufari síðan um næstliðin mánaðamót, er víðast að bágt að frétta, heyja- og fjárskaðar, hrakningar, og önnur vandræði. Á Fellsströnd vestra tók upp skip í einu aftakaveðrinu, braut og feykti á sjó út. Reykhyltingar þeir, er getið var um í síðasta blaði að hröktust á Okveginum, söknuðu enn, er síðast fréttist yfir 100 fjár; var sumt dautt af því sem fannst. Þá Eggert bónda á Skógtjörn á Álftanesi, er sömu dagana komu að norðan, vantar og stórum af þeirra rekstri. Eru slíkir hrakningar og fjármissar hin mestu vandræði, er bláfátækt fólk missir ef til vill allt sumarkaup sitt, og þar með vetrarviðurværi. En þessum og öðrum slysum mega menn enn framvegis búast við, uns vér verðum þeir menn, að fá skipaferðir kringum landið, því þá væri ekki fjöll eða fannir að óttast, er koma þyrfti kaupi manna hingað suður. Spurst hefur að Indriði bóndi Gíslason á Hvoli í Dalasýslu hafi misst fjölda af fé sínu, og ýmsir aðrir þar um sveitir; hafði það ýmist fennt eða farist á annan kátt. ... Af Ísafirði er oss skrifað: Sumarið þurrt og kalt, grasvöxtur og heyafli fremur lítill; fjársala með mesta móti.

Þjóðólfur segir þann 19. október:

Vestanpósturinn kom 13. þ.m., en norðanpósturinn þ.14., sögðu báðir mikið af illviðri og ófærð; varð norðanpóstur einkum fyrir hrakningi á Holtavörðuheiði; sagði hann fjárskaða víða norðan úr sýslum sakir ofviðra og fanna, sem kom yfir menn i miðjum fjárleitunum. Skip þeirra Hoeffners á Skagaströnd var nýstrandað.

Tíminn rekur þann 20. október tíð í september og fram eftir október:

Veðráttan í septembermánuði ... og það sem liðið er af þessum mánuði var hér á þessa leið: Fyrstu dagana var norðan kólguveður, gekk síðan þann 6.[september] í sunnanstorma í 2 daga og í rigningu þann 8. Hinn 10.—12. var logn og blíðviðri, og var hitinn 14°; þann 10. Þann 14. og 15. var norðanstormur með krapa og snjófalli til fjalla, svo þau urðu alhvít af snjó, og 4° frost þann l6.; eftir það komu staðviðri og þíður nokkra daga til 24., gekk þá veðráttan í útsunnanstorma og snjógang til fjalla, en þann 28. kom ofsa-norðanstormur með kólgu og gaddi til fjalla með snjókomu, er hélst við í sífellu til 3.[október], létti þá og gjörði allgott veður til hins 8., en frost var á nóttum 5—7°. 9.—10. gjörði aftur ofsaveður á austan landnorðan með bleytubyl og snjókomu til sveita, svo jarðlaust varð fyrir allan fénað sumstaðar til sveita. 11. til 17. var gott veður og stillt, og þíða seinustu dagana, svo snjó tók lítið eitt upp til fjalla. ... Í þessum illviðrakafla, sem getið er að ofan, stóðu réttir yfir og almenningur var í ferðalagi og með fjárrekstra, og misstu menn meira og minna af þeim á fjöllum uppi, helst á Okvegi og Kaldadal, en sjálfir náðu þeir byggðum með illan leik og urðu að yfirgefa fé og hesta til að halda lífinu, er talið sjálfsagt, að fé hafi fennt 100 saman á afréttum, því eigi voru af gengnar sumstaðar nema fyrstu leitir. ... Vestanpósturinn kom 14.[október], hafði hann fengið illviðri, frost og hríðar á leiðinni. Fréttust með honum mestu harðindi af Vesturlandi, helst í Dala-, Barðastrandar- og Ísafjarðarsýslum, hvar víða var jarðlaust fyrir skepnur, kýr og sauðfénaður var kominn á gjöf. Fjártjón hið mesta, sem bæði hraktist fyrir stormum og fennti, helst í Dalasýslu, sagt er að Indriði Gíslason á Hvoli hafi misst 130 fjár, og hefur fundist af því rúmur helmingur. Norðanpósturinn kom 15. s.m. eftir harða útivist, sökum illviðra og snjóa. Sömu harðindi var að frétta úr Norðurlandi og að vestan, fjárskaðar töluverðir.

Ísafold birti þann 28.nóvember bréf af Skógarströnd, dagsett þann 11.

Tíðarfarið á hinum næstliðna októbermánuði hefir verið fjarska-umhleypingasamt, ýmist með austnorðan frostgörðum (þann 1.—6.) eða með suðlægum bleytukaföldum og fannfergju, og loks með ofviðrisbleytukafaldsbyl af landsuðri, þann 7.—10.; úr því varð loftstraumurinn hæglátari, en sama óstilling á honum allan mánuðinn út, og vindar af öllum áttum, með litlu frosti en fönnum og blotum á milli. Þegar frysti ofan á snjóinn og illviðrið, sem kom þann 7.—10., gjörði víða haglaust til Dala, svo fénaður af fjallbæjum var bæði rekinn eða rásandi niður í lágsveitir. Af hinum tíðu blotum síðari hluta mánaðarins hefir leitt, að nægileg jörð er víðast hvar niður til sveita, en hagskarpt eða haglaust til allra fjallbyggða. Loftið er jafnast með ábúð. Uppgöngur eru úr útsuðri, sem austnorðanvindur blæs á móti, meðan þykknið er að jafna sig um loftið, þá kemur kafaldsbylur nokkrar stundir, síðan gengur veðrið til suðurs-landsuðurs, kafaldið verður að krapa eða regni, svo birtir upp með útsunnanvindi, sem helst, uns ný uppganga kemur. Það er einleikið mál um það, að engir menn hér um sveitir muna um þetta leyti eins langa né stranga illviðratíð, og ég, sem á veðráttufarsbækur yfir 50 ár, finn slíkrar veðráttu hvergi getið um þennan tíma árs. ... Afleiðingarnar af norðanhretinu mikla síðast í september og fyrst í október urðu mjög slæmar. Hretið skall á einmitt eftir leitardagana í sumum sveitum, urðu svo þær fjallleitir að litlu liði, og óheimt fé líkast til víða orðið undir fönn. Smáskaðar á fénaði og heyjum urðu víða, en stórskaðar þessir: Á Hvoli í Saurbæ fennti að sögn 130 fjár, og náðust af því fé aðeins 10 kindur lifandi, flest hið dauða mun hafa fundist. Á Hóli í Hvammssveit varð mikill heyskaði. Á Harastöðum á Fellsströnd sleit áttróið skip úr höndum bóndans, sem var að búa um það. Brot af því skipi rak á Hrísa- og Svelgsárfjörum. Á Gunnarsstöðum og Dunkurbakka í Hörðudal fennti 30 fjár, sem mun hafa fundist dautt, að eins ein kind lifandi.

Nóvember: Umhleypingasamt framan af, en síðan stillt.

Þann 27.apríl segir Ísafold loks frá skipstrandi í nóvember:

Laugardaginn 7. nóvember í haust lagði kaupskip Tulinius kaupmanns út frá Eskifirði á leið til Kaupmannahafnar, en komst ekki nema rétt úr firðinum, og varð að hörfa undan sunnan stórviðri inn í Breiðuvík. þar er gott lægi í þeirri átt, en morguninn eftir var komið norðanrok, er stóð beint á land þar í víkinni. Hrukku þá í sundur akkerisfestarnar, og rak skipið á drykklangri stundu upp í sandinn. þar eru hamrar á tvær hendur, og mundi skipið hafa farið í spón, hefði það lent þar. Fyrir dugnað og snarræði Breiðvíkinga náðust skipverjar allir í land á kaðli, áður en skipið rak upp. Hafa þeir orðið að sitja hér vetrarlangt. Síðan var haldið uppboð á skipinu og vörunum ...

Þjóðólfur segir frá tíð í stuttum pistlum í nóvember:

[2.] Veðurátt gengur afarstirð og umhleypingasöm yfir allt, enda geta margir til, að harður vetur sé í nánd. [19.] Veðurátta síðan póstskip fór sífellt stirð og umhleypingasöm blotar eða frost af ýmsum áttum. [28.] Norðanpóstur kom 24.[nóvember]. Að norðan er helst að frétta strand Elfríðar, Borðeyrarskipsins við Melrakkasléttu 2. október; það var í ofsastormi; þar varð mannbjörg en skip brotnaði og farmur spilltist. Var allt selt við uppboð fyrir lítið verð. — Veðurátta á Norður- og Austurlandi jafnbetri en hér syðra frá því eftir réttir. — Vestanpóstur kom 25. þ.m.; hann segir stirða og umhleypingasama veðuráttu að vestan.

Ísafold birti þann 31.desember bréf af Síðunni, dagsett 26.nóvember:

Allur júlímánuður var hér fremur vætusamur, en hlýtt var, og gæða grasveður; en lítill varð samt grasvöxtur, einkum á túnum, því jörð náði sér ekki eftir vornæðingana. Almennt var farið að slá seint í 13. vikunni. Nýting mátti kallast fremur góð, en þó þerrilint væri. Ágústmánuður var kaldari, og veðrátta mjög óstöðug, snjóaði þá einatt á fjöll. Hélst þessi umhleypingur fram til jafndrægra; en eftir það hljóp í með sífellda snjókrassa og gaddköst, með einstöku spakveðursdögum á milli, þangað til út úr allraheilagramessu; hefir mátt heita æskileg tíð, einkum nú í hálfan mánuð, með spakveðurs rigningu og blíðu, svo hér sést nú ekki svell né snjór í byggð né búfjárhögum, enda eru engir farnir að heyja lömb sín, og sumir beita nú þessa daga kúm geldum. Heyskapur var hér almennt með minnsta móti vegna grasleysis og margir hafa lógað talsverðu af lömbum og nautpeningi, því ekki voru heyleifar eftir í vor til að styðjast við. Þar á mót var meltak í Skjaldbreið með besta móti, jafnvel meira en í fyrra, og er það til mjög mikilla fóðurdrýginda.

Norðanfari birti þann 19.janúar 1875 nokkur haustbréf:

[Hnappadalssýslu 11.nóvember 1874]: Hér er illfarandi í byggðum vegna snjókyngju og bleytu og fjallvegir ófærir. 17.[nóvember] átti að kjósa að Staðastað alþingismann fyrir Happadals- og Snæfellsnessýslur, sem vegna ótíðar og snjóa ekki gat á komist; kosningunni er því frestað til 1. júní 1875. Í Eyrarsveit og Helgafellssveit eru sögð ómuna snjóþyngsli, því að á eyraroddum og sjávarbökkum taki fönnin í buxnastreng; hina sömu ótíð er að frétta úr Dölunum og Hvammssveit og flestar skepnur í húsum og á heyjum nú í fullan hálfan mánuð. Margir eru því að sögn, þegar búnir að lóga 1 og 2 kúm fram yfir það sem upphaflega var ætlað að farga, og svona giska menn á að sé um allt Vesturland, en hér um kring er allt minni snjór og alltaf beitt út á fullan haga, og hvergi farið að gefa fé eða jafnvel ekki lömbum nema á stöku bæ. Um fiskafla fyrir vestan Jökul hefur ei með vissu frést hingað, mun hann ekki mikill vera, því gæftir eru eftir útliti að ráða víst ekki góðar.

[Borgarfirði 28.nóvember]: Sumarið til rétta var hið hagstæðasta, svo heyskapur nýttist vel og varð nær því í meðallagi víðast hvar. Síðan um réttadaga og fram í miðjan þennan mánuð var allra mesta ótíð með sífelldri snjókomu og bleytingsblotum á milli, svo oft var nær því haglaust hér niður til dala, en ófönn og hagleysur til fjalla; heimtur af afréttum hinar verstu, og hlýtur fé að hafa fennt í bunkum á fjöllum hér syðra. Svo bættist það á fyrir Reykdælum að þeir lögðu hér á fjall fyrir Ok á leið til Reykjavíkur 28.september, með á þriðja hundrað fjár og komust í svokallaða Skurði, sem er undan suðurenda Oksins. Rauk þá á eitthvert mesta ofsaveður af norðri með snjókyngi, lágu þar 12 menn yfir í 4 1/2 dægur, þá brutust þeir til byggða aftur með illan leik, því alltaf var samur bylur. Þegar upp stytti var leitað að fénu, farangrinum og tjöldunum, sem allt var sokkið í fönn. Af fénu fannst um 70 tórandi, sumt fast niður, en um 30 er fundið dautt í fönnum og enn vantar yfir 100, flest fullorðnir sauðir, sem allt er víst í fönn. Héðan úr dalnum og þangað sem féð fórst, er gildur hálfur áfangi. Margir fátækir misstu þar hrapallega og mjög bagalega vetrarbjargræði sitt og kaupafólks gjald.

[Norðfirði í Suður-Múlasýslu 19.nóvember] Hausttíðin hefur verið mjög óstöðug og veðrasöm, en jarðir hafa haldist góðar allt til þessa. [Þ.9. október] kom hér rigning mikil, vatnsgangur og grjóthlaup svo víða varð tjón að, en hvergi, sem ég hefi frétt jafnmikið og hjá sjálfseignarbónda Ólafi Guðmundssyni á Firði í Mjóafirði, þar rann fjárhús og 30 hestar heys alveg burtu en til hamingju var ekkert af fé í húsinu, líka tók skriða þessi talsvert af túninu, sem að ekki verður viðgjört.

[Beruneshrepp 20.nóvember 1874]: Sumarið graslítið yfir meginhluta Austurlands allt að Lónsheiði svo ekki mátti heita að ljár væri berandi í jörð á útengi. Vestan Lónsheiðar og suður með landi skárra helst til fjalllendis, en miklu verr á láglendi. Nýting í heyjum til höfuðdags fremur góð. Sumarið á þessum austurhluta landsins í kaldara lagi, frost og snjór oft niður í byggð. Tíbarfarið frá seinni hluta september til miðs [nóvember] mjög umhleypingasamt og það stundum úr ýmsum áttum sama daginn, en síðan kyrrara en þó aðaláttin landnorðan og útsunnan með hægu frosti.

Ísafold segir þann 28.nóvember: „Veðrátta hefir verið mjög stirð, það sem af er vetrinum, þangað til núna síðustu dagana, að verið hafa þíður og hægviðri“.

Norðanfari birti þann 29.janúar 1875 nokkur bréf dagsett fyrir áramót.

[Suðurmúlasýslu 2.desember] [Þ.7.nóvember] lögðu út bæði skipin af Eskifirði, stóð kaldi af landi fram á miðjan dag; Theodor, skip D. Jonsens leysti fyrir dag, og gaf vel byr til hafs, en „Otto" skip kaupmanns Tuliniusar varð síðbúnara og komst út í fjörðinn móts við Breiðuvíkurnar um nónbil. Gjörði þá austanbyl mikinn, var þá eina ráðið að snúa aftur til Eskifjarðarlegu, eða leggjast á Litlu-Breiðuvík, sem er afbragðs lægi í hafveðrum, og það var gjört; um nóttina gekk veðrið meir í vestur og frá birtingu hins 8 nóvember fram til nóns, gjörði þá rokviður af norðvestri, og var þá sem haf og hauður léki á þræði. Kl.10 brustu báðar festar „Ottos“ í sömu öldu, og var eigi annað líklegra en skipið ræki að klettum þegar, því nálægt hafði lagst verið í austanáttinni, er stóð þar af landi. Skipstjóri Hansen greip þegar stjórnvöl, en stýrimaður vatt upp eitt framseglið; komu þeir skipinu þannig upp í sand. Nú braut hver alda yfir skipið, og enginn komst í land, fyrr en menn komu hlaupandi af næstu bæjum; var þá kaðli komið í land, og menn allir dregnir á honum, fór stýrimaður fyrst, en skipstjóri síðastur; voru þeir mjög þrekaðir flestir. ... Skipshöfn allri varð bjargað, farmi að mestu óskemmum, en skipið var allt liðað sundur og óhaffært.

[Skriðdal 30.nóvember] Hausttíðin hefur verið hér mikið óstöðug, en sjaldan staðið degi lengur á stormum eða illviðrum — oft verið mörg veður á sama degi. Gæftir hafa verið sjaldgæfar á sjó, og þó víða afli fyrir. Jarðir hafa alla tíð verið góðar eða bærilegar; það gjörði bleytuveður 7. [nóvember] er spillti sumstaðar mikið jörðu, en nokkrum sinnum hlánaði og bætti um. Nóttina fyrir 8. [nóvember] gjörði grimmdarhvasst norðanveður og varð ofsamikið eftir dagmál ...

Desember: Veðrátta almennt talin góð en nokkuð vindasöm. Yfirleitt þurrviðrasamt.

Þjóðólfur segir stuttlega þann 17.desember: „Veðrátta síðan fyrir byrjun [jóla]föstunnar all-frosthörð (6—10°R) hér í Reykjavík. Hvöss norðanátt en fannkomulítil; hagar góðir hvervetna.

Tíminn lýsir árferði á Suðurlandi í pistli 21.desember:

[Þ. 22.nóvember] gjörði hagstæða hláku yfir allt, og tók upp allan snjó, svo öríst varð að fullu, mun þessi bati hafa komið víðsvegar um land, og hélst þíðan og stöðugt góðviðri til þess 1.[desember], þá skipti um til norðanáttar, hreinviðris og frosta, er varð hæst 10° þ.5. og hélst það til 14.; [Þ.] 15. gjörði bleytuhríð, svo illt varð til jarðar til hins 17. að snjóinn tók upp með hægri hláku. Líkt var að frétta úr öðrum fjórðungum landsins með póstunum er hér komu: Austanpóstur 20.[nóvember], norðanpóstur 24. og vestanpóstur 25. s.m.

Ísafold segir af tíð framan af vetri í pistli þann 9.janúar 1875 - einnig greinir af slysi:

Veðrátta hefur þennan vetur, sem bráðum er hálfnaður, verið líkari haustveðráttu en vetrar. Varla komið eitt öðru hærra, hér sunnanlands að minnsta kosti. Nokkuð umhleypingasamt að vísu, einkum framan af, en þó oftast þíðviðri með austanátt eða landsunnan, stundum hægð og blíða heila viku eða lengur (21.—29. nóv.). Frost varla staðið lengur en 2—3 daga í senn, nema fyrri hluta desembermánaðar, 1.—13.; þá var frost á hverjum degi en ekki meira en þetta 1—9 stig (á Celsius). Fyrst eftir veturnæturnar urðu fannkomur nokkrar, en síðan lengst af autt á jörðu. ... Á þorláksmessukvöld (23. desember) týndust 2 menn ofan um ís á Norðurá í Borgarfirði. Það voru bændur úr Andakílshrepp, Hannes Jónsson á Ausu og Ólafur Ólafsson á Bárustöðum, og voru á leið upp að Hreðavatni í Norðurárdal. Á bæ, sem þeir komu við á fyrir sunnan ána, var þeim sagt, að hún væri viðsjál þar sem þeir ætluðu yfir um hana, og boðin fylgd. En þeir þáðu eigi fylgdina; þeir voru ríðandi og vildu eigi hafa töf af fótgangandi fylgdarmanni. Skuggsýnt var orðið, en mennirnir að sögn eigi algáðir; riðu þeir út i vök á ánni og drukknuðu báðir.

Þjóðólfur greinir frá slysi í desember í frétt þann 29.janúar 1875:

[Þ.11. desember] urðu tveir smalamenn, annar frá Norður-Vík en hinn frá Suður-Vík (í Skaftafellssýslu), fyrir snjóflóði. Hljóp það niður á þá ofan snarbratta brekku, en flughamrar voru undir. Þótti mikil guðs mildi að hvorugur þeirra fór þar ofan fyrir með skriðunni; báðir héldu lífi, lærbrotnaði annar, en hinn síðubrotnaði.

Ísafold birti þann 16.febrúar 1875 bréf dagsett á Hornströndum 30.janúar - aðallega er þó fjallað um sumar- og hausttíð 1874:

Sumarið sem leið var hér eitt hið kaldasta sem ég man eftir, enda lá hafísinn hér landfastur allan júlímánuð; grasvöxtur varð hér mjög rýr, og heyföng manna lítil, enda var heyskapur endasleppur, því 24. september tók algjörlega fyrir hann; þá gjörði hér mesta hret með fjarskalegri snjókomu og stormi, og áttu þá margir úti talsvert af heyi sem aldrei náðist. Haustveðráttan var storma og snjóasöm til jólaföstu; síðan allgóð veðrátta til þess.

Lýkur hér að sinni umfjöllun hungurdiska um veður og tíðarfar ársins 1874. Finna má ýmsar tölur í viðhenginu.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg230424
  • Slide10
  • Slide8
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.4.): 125
  • Sl. sólarhring: 150
  • Sl. viku: 1749
  • Frá upphafi: 2349709

Annað

  • Innlit í dag: 116
  • Innlit sl. viku: 1587
  • Gestir í dag: 111
  • IP-tölur í dag: 107

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband