Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2020

Spurning (eiginlega upprunnin í Svíþjóð)

Blogg sænsku veðurstofunnar vakti athygli á því á dögunum að lægsti lágmarkshiti júlímánaðar í Svíþjóð allri hefði verið lægri en lægsta lágmark júnímánaðar. Spurt var hversu oft þetta hefði gerst (það var sjaldan). Sömuleiðis var sjaldgæft að júlílágmarkið væri lægra en það í ágúst - og aldrei hafði það átt sér stað í Svíþjóð að júlílágmarkið hefði verið lægra en bæði júní- og ágústlágmark sama árs.

Þetta vakti forvitni ritstjóra hungurdiska. Eitthvað hefur hann gefið þessu gaum áður - en man ekki hvar eða hvenær. En júnílágmarkið í ár var alla vega lægra en júlílágmarkið hér á landi - þannig að 2020 er ekki á listanum - eins og í Svíþjóð.

Athugunin nær aftur til 1874 - og aðeins er leitað að lágmarkshita á byggðarstöðvum. Ekki að slíkt skipti svo miklu máli í þessu tilviki - nema að á árum áður var í allmörgum tilvikum athugað á hálendinu á sumrin - þá ekki í júní, heldur aðeins júlí og ágúst. Einfaldast er því að sleppa hálendinu alveg. 

Frá 1874 hefur það gerst 10 sinnum að júlílandslágmarkið hefur verið lægra en það í júní. Síðast gerðist það árið 2007, og á þessari öld líka 2003. 

Það er aðeins oftar að júlílágmarkið hefur verið lægra en ágústlágmarkið (kom ritstjóranum kannski dálítið á óvart). Hefur gerst 22 sinnum (við vitum ekki enn hvað gerist 2020). síðast 2006 og 2004. 

Eins og fram kom að ofan heftur það ekki gerst í Svíþjóð að júlílágmarkið hefur verið lægra heldur en bæði júní- og ágústlágmarkið sama ár. Hér á landi vitum við hins vegar um tvö tilvik, 1944 og 1986. 

Sem aukaafurð fannst að það er aðeins eitt sumar (júní, júlí og ágúst) sem hefur verið alveg frostlaust á íslenskum veðurstöðvum (í byggð). Það var 1880. Lægsti hiti þá mældist 0,2 stig. Nær öruggt er að þetta sumar hefði ekki sloppið við frost hefði verið mælt víðar en gert var - þessi árangur er því ómark. 


Hálfur ágúst

Hálfur ágúst. Meðalhiti fyrstu 15 daga ágústmánaðar er +11,1 stig. -0,5 stigum neðan meðallags áranna 1991 til 2020 og meðaltals sömu daga síðustu tíu árin. Hitinn er í 15.hlýjasta sæti (af 20) á öldinni. Þessir dagar voru hlýjastir árið 2004, meðalhiti þá +14,0 stig. Kaldastir voru þeir 2013, meðalhiti 10,4 stig. Á langa listanum er hitinn nú í 68. til 71.sæti (af 146). Hlýjast var 2004, en kaldast 1912, meðalhiti þá aðeins 7,4 stig.

Á Akureyri er meðalhiti dagana fimmtán 13,5 stig, 2,2 stigum ofan meðallags 1991 til 2020, og +2,6 stig ofan meðallags síðustu tíu ára - samt vantar meir en 1 stig upp á met.

Á landsvísu hefur hitanum verið mjög misskipt. Að tiltölu hefur verið kaldast við Breiðafjörð, þar er meðalhitinn í 16.hlýjasta sæti á öldinni, en hlýjast hefur verið á Austurlandi að Glettingi og á Austfjörðum, hiti þar í fjórðahlýajsta sæti aldarinnar.

Á einstökum veðurstöðvum hefur verið að tiltölu hlýjast á Skjaldþingsstöðum, +3,7 stig ofan meðallags síðustu tíu ára. Kaldast að tiltölu hefur verið á Garðskagavita, -1,4 stig neðan meðallags.

Mjög úrkomusamt hefur verið um landið sunnan- og vestanvert. Í Reykjavík hafa 75,1 mm komið í mælinn, meir en tvöföld meðalúrkoma sömu daga og það langmesta á öldinni, en talsvert vantar þó upp á met [109,6 mm, 1984]. Á Akureyri hafa mælst 28 mm, hátt í tvöfalt meðaltal. Allvíða vestan- og norðvestanlands hefur ekki mælst meiri úrkoma þessa daga áður.

Sólskinsstundir eru fáar í Reykjavík, 33,1 - hafa aðeins 7 sinnum mælst færri sömu daga síðustu 100 árin rúm, síðast 1995.


Um háan næturhita

Mjög hlýtt er austanlands þessa dagana og margir hafa tekið eftir því að síðastliðna nótt var mjög hlýtt langt frameftir kvöldi og fram á nótt á þeim slóðum. Í fljótu bragði sýnist þó að lands- eða landshlutamet hafi ekki verið slegin hvað slík næturhlýindi varðar. - En nóttin (aðfaranótt þ.14.) er þó ekki komin í sarpinn þegar þetta er ritað.

Fyrir 8 árum birtist hér á hungurdiskum stuttur pistill þar sem fjallað var um háan lágmarkshita. Hér verður hann rifjaður upp með smáviðbót og breytingum.

Ísland er norðarlega á hnettinum. Dægursveifla hita er þó mikil hér á landi og yfirgnæfir oftast hitasveiflur sem eiga sér aðrar ástæður. En - samspil vinds, fjalla og ákafs aðstreymis af hlýju lofti getur stöku sinnum valtað yfir dægursveifluna. Slíkt gerist reyndar helst að vetrarlagi - þegar sólarylur kemst ekkert að.

Eftir því sem næst verður komist er hæsti hiti sem lesinn hefur verið af lágmarksmæli hér á landi kl.9 að morgni 20,4 stig. Þetta var á Seyðisfirði 22. júlí árið 2000. Næsta mæling á undan var kl.21 daginn áður. Þetta er hæsta næturlágmark landsins. En lágmarkshiti beggja daganna, 21. og 22. júlí, var þó lægri en þetta [16,5 stig þann 21. og 17,0 þann 22.] - hitabylgjan stóð ekki nægilega lengi og hitti ekki nægilega vel í sólarhringinn til þess að gera þetta að hæsta lágmarkshita sólarhrings á landinu. Hvað á eiginlega að gera í svona máli?

Hæsta sólarhringslágmarkið sem enn hefur fundist mældist á Vatnsskarðshólum í hitabylgjunni frægu 11. ágúst 2004, 19,5 stig. Á sjálfvirku stöðinni á sama stað var lágmarkshitinn 19,8 stig [sé miðað við sams konar sólarhring, kl.18 til 18]. Hvor talan á að teljast Íslandsmetið (með greini)? Sé miðað við hefðbundinn sólarhring (0 til 24) er hæsti lágmarkshiti á Vatnsskarðshólum þessa daga 18,6 stig (þann 11.) - hiti fór niður fyrir 20 stig eftir kl.21 um kvöldið. Þann 30.júní árið 2000 var lægsti hiti sólarhringsins á Reykjahlíð við Mývatn 19,4 stig (sólarhringurinn þar er frá kl.21 til 21). Þann 25.júlí árið 1955 var lágmarkshiti í Fagradal í Vopnafirði 18,4 stig - mikil hitabylgja gekk þá yfir landið norðaustan- og austanvert en syðra haugrigndi (rétt eins og í gær, 13.ágúst).

Í ágústhitabylgjunni 2004 var lágmarkshiti sólarhringsins 10.ágúst 20,1 stig á stöð Vegagerðarinnar við Þrengslaveg. Vegagerðarstöðvarnar mæla hita á 10-mínútna fresti, á stöðvum Veðurstofunnar er slíkt gildi í raun meðaltal mælinga 2 mínútna (til samræmis við ætlaðan viðbragðstíma kvikasilfursmæla). Lágmarkshiti á stöðvum Veðurstofunnar er færður í skrár á 10-mínútna fresti, lægsta tala fimm tveggja mínútna mælitímabila undangenginna 10-mínútna. Á Vegagerðarstöðunum vitum við ekki hvort hiti einhvera hinna fjögurra 2-mínútna bila sem lenda á milli 10-mínútna mælinganna hafa sýnt hærri eða lægri gildi heldur en 10-mínútnagildin til beggja handa hvort um sig. Ákveðnar líkur eru á því. Við vitum heldur ekki hvort Vegagerðarstöðvarnar miðuðu í raun og veru við 2-mínútur árið 2004 - mögulega eitthvað annað. Lágmarkið áðurnefnda í Þrengslum, 20,1 stig, hefði því kannski orðið 20,0 eða 19,9 hefði enga mælingu „vantað“. En þetta er svosem sparðatíningur miðað við fjölmarga aðra óvissuþætti hámarks- og lágmarkshitamælinga.

Miðað við „rétta“ skiptingu sólarhringsins er hæsta lágmarkið sem við vitum um á sjálfvirku stöðvunum 18,7 stig. Það var á Þingvöllum 10.ágúst 2004 (enn þeirri sömu hitabylgju). Hæsti júlílágmarkshitinn á sjálfvirku stöðvunum er 17,2 stig, mældist á Siglufirði 22.júlí árið 2000 (sama dag og metið var á Seyðisfirði).

Hungurdiskar hafa oft minnst á hæsta lágmarkshita Reykjavíkur, 18,2 stig sem mældust 31. júlí 1980. Makalaus nótt - ritstjóri hungurdiska var þá á næturvakt. Metið á Akureyri er 17,2 stig, sett 9.ágúst 2012 (hlýindin þá urðu tilefni eldri bloggpistils). Á Krossanesbrautinni var lágmarkið þá 16,4 stig (en sólarhringurinn frá 0-24).

En höfum þó í huga að ekki hefur verið farið í saumana á öllum lágmarks- og hámarksmælingum einstakra daga á árunum fyrir 1949. Það er vonandi að íslensk veðurnörd reyni að standa sig í því seinlega verki - en það er ekki auðvelt að komast að samanburðarhæfri niðurstöðu - reglur um skráningu hámarks- og lágmarkshita voru með öðrum hætti og slíkir mælar mun færri.

Í viðhenginu eru listar yfir hæsta sólarhringslágmarkshita á landinu í öllum almanaksmánuðum. Nördin munu leggjast yfir þá.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Öflugt kerfi

Á fimmtudaginn fer kröftug lægð til austurs nokkuð fyrir norðan land. Henni fylgir bæði vindur og úrkoma - og e.t.v. verður mjög hlýtt um stund um landið austanvert. Þetta gengur hratt hjá, en kerfið er nægilega öflugt til þess að nokkuð spennandi verður að fylgjast með atburðum í kjölfarið - hvort breyting verður á veðurlagi eða hvort allt fer í svipað far aftur og aðallega hefur verið nú að undanförnu. 

w-blogg110820a

Kortið er úr ranni evrópureiknimiðstöðvarinnar. Heildregnar línur sýna hæð 500 hPa-flatarins, af þeim má ráða vindátt og vindhraða í rúmlega 5 km hæð, en litir sýna þykktina, hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Og svo sannarlega er það hlýtt loft sem fýkur hjá. Við sjáum að þykktin yfir landinu austanverðu á að fara yfir 5640 metra og reyndar má á nákvæmari kortum sjá 5660 metra sem er með því hæsta sem sést hér við land. Ekki er alveg víst að þessi þykktarspá standist - hún byggir ekki aðeins á aðstreymi hlýinda (sem er raunverulegt) heldur líka lögun landsins í líkaninu og hvernig hún magnar hlýindi hlémegin landsins - ekki víst að þar sé allt með felldu. 

En það er allt í lagi að benda á þetta - og jafnframt að mættishitaspá í 850 hPa er einnig með allra hæsta móti, 30 stig. En spár um hámarkshita í mannheimum eru öllu lægri og trúlega raunsæjar. En miði er möguleiki - eins og sagt er. 

Svo er aftur spurning hvað gerist í framhaldinu - þetta spark sem háloftahringrásin fær - nægir það til að veðurlag breytist? Við vitum ekkert um það enn - framtíðarreikningar eru út og suður (eins og oftast). 


Fyrstu tíu dagar ágústmánaðar

Meðalhiti í Reykjavík fyrstu tíu daga ágústmánaðar er 10,9 stig, -0,7 stigum neðan meðaltals sömu daga 1991 til 2020 og einnig neðan meðaltals síðustu tíu ára og í 18.hlýjasta sæti (af 20) á öldinni. Það sem af er öldinni voru dagarnir tíu kaldastir árið 2013, meðalhiti þá 10,4 stig, en hlýjastir voru þeir árið 2003, meðalhiti 13,5 stig. En ágúst hefur oftast verið hlýr á þessari öld. Á langa listanum er hitinn nú í 84.sæti (af 146), á þeim lista eru sömu dagar 2003 líka hlýjastir (ásamt 1944), en kaldastir voru þeir 1912, meðalhiti aðeins 6,4 stig.

Á Akureyri er meðalhiti dagana tíu 12,8 stig, +1,4 stigum ofan meðallags áranna 1991 til 2020, en +2,1 stigi ofan meðallags síðustu tíu ára [en hefur mjög oft verið hærri].

Hitanum hefur verið nokkuð misskipt. Á Suðurlandi er hitinn nú í 17.hlýjasta sæti aldarinnar og 16.hlýjasta við Faxaflóa. Aftur á móti eru dagarnir tíu þeir fjórðuhlýjustu á Austurlandi að Glettingi. Sé litið til einstakra stöðva er jákvæða vikið miðað við síðustu tíu ár mest á Skjaldþingsstöðum, þar er hiti +3,6 stig ofan meðallags, en neikvæða vikið er mest -1,7 stig á Garðskagavita.

Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 39,2 mm, nálægt tvöfalt meðallag, en 27,2 mm á Akureyri, meir en tvöfalt meðallag.

Sólskinsstundir hafa mælst aðeins 12,1 í Reykjavík og hafa aðeins einu sinni verið færri fyrstu tíu daga ágústmánaðar, það var 1916.

Loftþrýstingur hefur verið sérlega lágur þessa tíu daga, hefur aðeins einu sinni verið lægri síðustu 200 árin. Það var 1842, hann var jafnlágur 1876 - og ómarktækt hærri en nú 1867 og 1950.


Af árinu 1871

Tíðarfar var talið hagstætt á árinu 1871. Meðalhiti í Stykkishólmi var 3,3 stig, 0,7 stigum ofan meðallags næstu tíu ára á undan. Meðalhiti í Reykjavík var 3,6 stig og er giskað á 2,0 stig á Akureyri. Júnímánuður var sérlega hlýr, einn þeirra hlýjustu sem vitað er um. Í Stykkishólmi kom ekki hlýrri júní fyrr en árið 2007 (en auðvitað er óvissa nokkur í svona gömlum mælingum). Einnig var hlýtt í maí og fremur hlýtt í desember. Kalt var aftur á móti í mars, apríl, ágúst, september og nóvember.

ar_1871t 

Sérlega kaldir dagar voru 8 í Stykkishólmi, 13., 14. og 15.mars, og 23.apríl þeirra kaldastir. Mjög hlýir dagar voru fjórir, 29.maí og 8., 9. og 10.júní. Síðastnefndu tvo dagana mældust 20°R [25°C í Hvammi í Dölum]. Þá mældist hiti 20,5°C í Reykholti að morgni 10.júní. Hitabylgjur voru ekki alveg óþekktar á 19.öld. 

Apríl var sérlega þurr í Stykkishólmi og einnig var nokkuð þurrt í febrúar, ágúst og nóvember. Aftur á móti var úrkomusamt í janúar. 

ar_1871p 

Þrýstingur var óvenjuhár í nóvember og hár í apríl, júní og september, en lágur í júlí og ágúst, og einnig í janúar og mars. Lægsti þrýstingur ársins mældist í Stykkishólmi þann 16.desember, 960,5 hPa, en hæstur var hann á sama stað 1035,2 hPa þann 30.nóvember. Þrýstiórói var með minnsta móti í apríl og júní. 

Hér að neðan eru blaðafrásagnir af tíð og veðri. Eins og venjulega er stafsetning að mestu færð til nútímaháttar. Að auki eru lítilsháttar upplýsingar úr öðrum áttum. 

Fréttir frá Íslandi birta yfirlit um veðráttu á Íslandi 1871 [s.24 og áfram]. Valdimar Briem tók saman. [Lítillega stytt hér]:

Þegar á allt er litið, var veðuráttufar á íslandi mjög gott næstliðið ár. Framan af vetrinum 1870—71 var víðast hlýtt veður og fannkoma lítil; hélst það hartnær fram að jólum; þá tók drjúgum að snjóa, og voru fannalög komin um allt land í árslok. Þegar eftir nýár tók upp snjó allan á Suðurlandi, Vesturlandi og um vesturhluta Norðurlands, en um austurhluta Norðurlands voru frost og fannkomur fram undir lok janúarmánaðar; þó hlánaði stundum dag og dag, og gjörði blota og kaföld; hlupu þá snjóflóð sumstaðar fram á Norðurlandi og gjörðu tjón nokkurt á fénaði manna og heyjum. Fyrri hluta febrúarmánaðar voru góðviðri um allt land; en er líða tók á mánuðinn, fór veðurátta mjög að spillast og gjörði nú um hríð hið óstöðugasta veður, en þó jafnan hart. Þá er kom fram í marsmánuð, harðnaði enn meir og kyngdi niður snjó miklum um allt land, en þó einkum norðanlands; þó tók yfir, er kom fram í miðjan mánuðinn; komu þá ákafir norðanstormar með hafróti og brimi og fylgdi þeim fannkoma mikil; gjörði þá stórhríð yfir allt Norðurland og Austurland; stóð hún í fjóra daga samfleytt (12.—15.mars). Þá er hríðinni létti af, sáu menn, að ís allmikill var kominn undir land, og var jaka þegar farið að reka inn á firði; sást nú eigi annað fyrir en hallæri; fénað allan varð að hafa á gjöf, en hey voru víða farin að minnka; allar bjargir voru bannaðar á sjó, en mörg heimili því nær þrotin að vistum. En nú var batinn í nánd; þá er leið á marsmánuð, komu vindar af landi ofan og hröktu ísinn á haf út, og varð hann brátt úr landsýn. Nú tók veður að batna um allt land, snjókomurnar að minnka, stormarnir að stillast, frostin að réna og sólin að hækka á lofti; þá tók jörð að þiðna og gróa, og fór nú svo fram langa hríð, að sólbráð var um daga, en hœg kœla um nætur. Nú voru úti allar vetrarhörkur sunnanlands og vestan, og fór veður batnandi eftir því sem meir nálgaðist vorið. En norðanlands og austan var ein skorpan eftir. Þá er eftir var ein vika aprílmánaðar, tók veðurátta þar aftur að harðna, og gjörði frost mikil og norðanstorma; rak þá aftur hafís að landi og miklum mun meir en fyrr; var sífelld ísbreiða fyrir öllu Norðurlandi, allt vestan frá Horni á Hornströndum og austur að Langanesi; horfðist nú mjög óvænlega á, en hér fór betur en á horfðist, því að ísinn náði eigi landfestu og tók þegar að reka undan landi; í öndverðum maímánuði var hann horfinn að fullu og öllu, og varð hans eigi vart síðar. Nú tók vorið við, og var það eitt hið blíðasta og gróðrarsælasta, er verið hefur á þessari öld. Á skömmum tíma leysti snjó allan úr hlíðum og grasið þaut upp í einni svipan víðsvegar um land; sunnanlands og vestan voru hlýjar vorskúrir og vætur tíðar, en norðanlands og austan voru hœgir þurrkar og sólskin um daga og döggfall um nætur. Allstaðar var hiti mikill, en þó einkum í dölunum norðanlands; seinustu dagana í maí og framan af júní var hitinn þar víða allt að 30 stigum (eftir Réaumurs mæli) móti sól um hádegi, en 20 stig í forsœlu, og þegar heitast var, 15 stig undir miðnætti. Um þær mundir er sláttur byrjaði skipti nokkuð um veðuráttu, og tók nú að þorna upp sunnan- og vestanlands, en aftur að rigna norðan- og austanlands; á Suðurlandi var þurrkurinn minnstur í Skaftafellssýslu, en á Norðurlandi voru rigningar minnstar í Húnavatnssýslu. Í lok ágústmánaðar skipti aftur um veðuráttu; tók nú að rigna sunnanlands og vestan, en þorna upp aftur norðanlands og austan; í sláttulok var aftur þurrkur um allt land. Í sumarmánuðunum höfðu hitar verið venju fremur, en nú tók smámsaman að kólna, er að haustaði; þó mátti veðurátta heita hin besta þar til í október; þá tóku að koma hret norðanlands með frosti og snjókomu, en þeim létti brátt af aftur og gjörði blíðviðri þar til seint í mánuðinum; þá gjörði enn hörð norðanveður norðanlands með brimróti miklu og fannkomu, og eyddust hagar allir; í nóvember gjörði aftur stillt veður og hœg, og stóðu þau nokkra hríð. Undir árslok tók veðurátta að harðna norðan- og austanlands, en þar á móti var besta tíð sunnan- og vestanlands allt til ársloka.

Þess er áður getið, að vorið var mjög gróðursælt, þar eð hvervetna voru hlýindi mikil og skin og skúrir skiptust á. Þegar í miðjum júnímánuði var grasvöxtur því nær hvervetna orðinn meiri en vanalega í miðjum júlímánuði; byrjaði sláttur því víða nær mánuði fyrr en vant er; leit nú út fyrir hið besta heyskaparsumar, en þá komu rigningar norðanlands og austanlands, og gekk mjög illa að þurrka heyið; lágu töður sumstaðar þrjár vikur á túnum og hröktust mjög; sunnanlands og vestanlands var heyþurrkur og hirðing hin besta framan af slætti, nema í einstöku sveitum. Seinni hluta sumarsins eða á engjaslætti gekk heyþurrkur aftur vel á Norðurlandi og Austurlandi, en illa á Suðurlandi og Vesturlandi; varð sláttur þar mjög endasleppur í mýrarsveitum, því að gras fór allt í kaf sökum rigninganna, og kom eigi aftur upp að mun, er upp þornaði; í hinum þurrlendari sveitum varð heynýting aftur góð áður en slætti lauk. Heybirgðir voru hvervetna miklar, og þegar á allt er litið, víðast allgóðar; reyndar höfðu töður nokkuð hrakist á Norður- og Austurlandi, og úthey á Suður- og Vesturlandi, en flestir voru þó að mestu ánœgðir með heyafla sinn. ... Kál, rófur og kartöflur spruttu einnig víðast í betra lagi og voru snemma fullþroska, en eigi varð arður af þeim að því skapi meiri en að vanda, sem heyaflinn var meiri. Þar sem sáð hafði verið höfrum og byggi, varð uppskera einnig í betra lagi; en slíkt er svo óvíða, að þess er naumlega getandi. Melurinn eða villikornið í Skaftfellssýslu spratt einnig í besta lagi.

Janúar. Hitafar var nærri meðallagi. Heldur snjóþungt var um landið norðaustanvert en sunnanlands tók snjó upp.  

Norðanfari segir frá þann 28.janúar:

[Þ.17. janúar] féll snjóflóð á Krakavöllum í Flókadal í Vesturfljótum, sem tók hús með 2 hestum og fjárhús með 5 sauðum, 40 hesta af heyi og 1 mann; af hverju ekkert var fundið þá seinast fréttist þaðan og hingað. Aðfaranótina hins 18. [janúar] féll snjóflóð á Grund í Ólafsfirði, sem tók þar fjósheyið með tveimur kýrfóðrum af töðu. Hústóft er sögð á bak við bæinn sem flóðið lenti fyrst í, og þegar það hafði fyllt hana fór það fram af bænum og mölvaði um leið bæjardyrahurðina. Allt fólkið hafði flúið úr bænum. — Í hríðunum 11.—13. féll snjóflóð á Ánastöðum í Sölvadal í Eyjafirði, sem braut inn hús, tók af hey og banaði 18 kindum. Fólkið fékk sér með naumindum bjargað út úr baðstofunni og bænum og komist yfir að Draflastöðum hinumegin í dalnum.

Gangleri segir frá 7.febrúar: 

Allt frá því fyrir nýár, var hér norðanlands fannkoma allmikil og stundum bleytufjúk, svo víðast var jarðlaust orðið, fyrir áfreða meðfram, fram til þess 24. [janúar] að þá þiðnaði og gjörði góða hláku allt til mánaðarloka, svo í öllum góðsveitum hér nyrðra er komin upp góð jörð og víða á útkjálkum nokkur. Af Suðurlandi er tíðarfar sagt mjög gott, allt til ársloka, en þó heldur ógæfusamt, svo treglega hefir gefið til fiskisóknar, enda er afli sagður þar almennt mjög lítill.

Febrúar. Tíð fremur hagstæð, sérstaklega um landið sunnanvert. Hiti nærri meðallagi.

Gangleri segir af febrúartíð þann 28.febrúar:

Af Suðurlandi er að frétta góða tíð og snjóleysi, og það allt norður að Yxnadalsheiði; hið sama má nú næstum segja að sé hér nyrðra, eftir því sem um er að gjöra um þetta leyti vetrar, en þó er nú ekki óvíða lítið um jörð fyrir spilliblota er gjörði 21. [febrúar]. Fyrir sunnan er sagt fiskilítið, nema suður í Garði hafði verið góður afli.

Mars. Erfið tíð, illviðrasöm  og köld. 

Gangleri segir af marstíð þann 28.mars:

Tíðarfar hefir verið yfir marsmánuð mjög óstöðugt hér nyrðra. og jarðskortur allmikill, svo flestur peningur hefir oftast verið á gjöf. Dagana 2.og 3.[mars] var hér ofsa sunnan- og vestanveður, svo við tjóni lá; hröktust þá 4 skip úr Fljótum, er voru í hákarlalegu, þrjú til Flateyjar og löskuðust þar dálítið, en einir náðu Grímsey eftir þriggja dægra hrakning, en héldu skipi sínu óskemmdu. 12. og 13. [mars] var hin mesta stórhríð með ofsa norðanveðri og brimgangi; rak þá nokkurn ís að landi, svo einstaka jaki kom inn á firði, en af Siglunesi sást töluverður ís útifyrír; eftir það rak hann heldur frá, því vindur hefir endur og sinnum, heldur staðið af landi ofan, en eigi mun þurfa langvinna hafátt til þess, að sá voðagestur heimsæki menn aftur. Snjór má nú heita í meira lagi um Eyjafjarðar- og Þingeyjarsýslu, en í mesta lagi um Skagafjörð, eftir því sem frést hefir. Af Suður- og Vesturlandi hefir eigi frést síðan um miðjan fyrra mánuð, en þangað til hafði þar verið góð tíð.

Þann 14. apríl segir Þjóðólfur af skiptöpum og hrakningum 2.mars:

[Eftir bréfi af Langadalsströnd dagsett 17.mars] Af skiptapanum frá Bolungarvík 2. mars. [Þ.2. mars] kom hér einhver mesti stormur, sem menn muna. Í Bolungarvík reru flest skip um morguninn til lóða, var þá hvasst nokkuð suðaustan eða út Djúpið og herti vindinn eftir því sem upp á daginn kom, svo að rok var orðið um dagmál; þeir, sem voru þá eigi komnir upp undir land, urðu undan að hleypa og komust flest skipin undir Stigahlíð norðanverða, og lágu þar fyrir akkerum góðan tíma; en þegar vindurinn gekk þar meir til vesturs, hleyptu þau inn með Stigahlíð aftur, urðu sum að liggja fyrir akkerum í rokinu, en náðu þó flest út í Bolungarvík um nóttina. Eitt skipið varð að hleypa upp í hlíðina sjálfa og upp í allt stórgrýtið, og bar það til þess að fyrst hafði brotnað af því stýrið og nokkrar árarnar, en síðan brotnaði skipið þar sjálft í stórgrýtinu, en mennirnir náðu að bjarga sér. Eitt skipið hrakti norður í Aðalvík um nóttina (norður yfir allt Djúpið og Jökulfirðina). En tvö skipin fórust alveg (og voru 6 manns á hvoru þeirra); átti annað skipið Gísli bóndi Bjarnason í Ármúla hér á Langadalsströnd, en hitt Eyjólfur prestur Jónsson á Melgraseyri; fórst skipið Gísla rétt við Stigahlíð, og rak þegar sama dag ýmislegt af því; en hitt skipið telja menn víst að hafi farist dýpra, og vita menn ekkert um með hvaða atvikum það hafi skeð. Bæði þessi skip voru sérlega vel mennt og vel út búin, og formenn hinir duglegustu á báðum. Hét Halldór Þorleifsson formaðurinn á prestsskipinu, og var vinnumaður hans, einhver besti aflamaður hér um pláss og hinn mannvænlegasti. En sá hét Jón Jónsson, er var fyrir Ármúlaskipinu, frá Bæjum á Snæfjallaströnd, og flestir þeir 12 samtals, er af skipum þessum drukknuðu, voru ungir menn af Snæfjallaströnd og hér af Langadalsströnd. — Víða urðu skemmdir á húsum og bátum af veðri þessu, en þó eigi að mun, það ég hafi frétt.

Þó að eigi leiddi skiptapi af eður manntjón, þykir þess vert að minnast, eftir bréfi norðan úr Blönduhlíð 23.[mars] að þann sama dag, sem skiptapinn varð í Bolungarvík 2.[mars], reru 4 skip norður í Fljótum í hákarlalegu; og rauk brátt og snerist til ofsaveðurs þar norðanlands eins og fyrir vestan, svo að eigi sáu þeir annað fangaráð á öllum þeim 4 Fljótaskipunum, en að hleypa undan og norður til Flateyardals (í Þingeyjarsýslu); náðu og 3 skipin þar lendingu með heilu, en [fjórða] skipið varð seinna fyrir og komst eigi þar inn undir land fyrr en dimmt var orðið, svo eigi sást til landtöku, lagðist það þá fyrir stjóra þar í öllu rokinu fyrir afdrepi nokkru, en þó eigi betra en svo, að skipverjar urðu að sitja uppi í andófi til styrktar við stjórann, og hrökk þó eigi til, því stjórafærið slitnaði von bráðar, og var þá eigi annað úrræða en setja upp segl í rokinu og hleypa undan norður til Grímseyjar; urðu þeir enn að leggjast þar fyrir andófi um hríð, í hlé af eynni, og haldast þar svo við, þar til veðrinu slotaði nokkuð þegar kom fram á næsta dag; þá náðu þeir þar lendingu með heilu. Öll þessi skip voru talin af þar um Skagafjörð, þangað til þau komu heim aftur að nokkrum dögum liðnum, með heilu og höldnu, án þess nokkur ætti þeirra von. Þeir sem til Grímseyjar hröktust, sögðu þaðan góðan fiskiafla í allan vetur og vellíðan eyjarbúa.

Þann 4.apríl birti Norðanfari tíðarfréttir, aðallega að austan:

[Þ.10.[mars] lagði Jón hreppstjóri Snorrason á Skógum á Þelamörk héðan austur í Múlasýslur, en kom hingað aftur 31.[mars] eftir 3 vikna ferð; hann hafði farið lengst áleiðis í Stöðvarfjörð og Breiðdal. Að austan segir hann harða veðurátt og fyrir seinustu hlákuna jarðlaust á Jökuldal, Fellum og Úthéraði, en allgott til haga í Skriðdal, Fljótsdal og Breiðdal. Heilsufar manna gott. ... Mikla hríðin, sem skall hér á 12. [mars] og hélst við sumstaðar í dagstæða 3 sólarhringa, hafði og farið yfir allt Austurland, en þó óvíða ollað stórkostlegu tjóni, nema á Eskjufirði, hvar albúið þilskip, er fara átti fyrst á Vopnafjörð með korn og síðan út til hákarlaveiða, slitnaði upp, rak þar á land og braut í spón. Skipverjar gátu með mestu herkjum bjargað sér, nema einn er týndist eða drukknaði. Skipverjar höfðu verið búnir að flytja miklar vistir handa sér í skipið, er allt fórst ásamt korninu. Kaupm C.D. Tulinius hafði átt hákarlaskip þetta. Enginn afli eystra. [Fjögur] hafskip höfðu sést fyrir stóru hríðina úti fyrir Berufirði, og sáust ekki aftur fyrr enn 22.—23.[mars] Fremur var það hald manna, að þetta mundu kaupför, heldur en fiskiskip. Víða um sveitir hafði verið kvartað um bjargar- og heyskort, og sumir farnir að reka af sér. Kornmatarlaust að kalla á öllum verslunarstöðum eystra, nema á Djúpavogi, enda hafði aðsóknin þar verið fjarskaleg. Hinn 17. [mars] hafði drengur orðið úti í Vopnafirði í útsunnan skaraveðri og frosti. ... 1.[apríl] voru hér staddir menn af Sléttu og úr Núpasveit til að sækja sér matbjörg, sem segja þar mikinn bjargarskort, og nokkrir farnir að skera af hinum fáu skepnum sínum. Sellaust er sagt í öllum veiðistöðum nyrðra. Flestir höfðu lagt nætur sínar á þorra, er hafa liðið marga slettu af útsynningsbyljum og sumstaðar alveg farið upp af sjógangi; t.a m. á Bakka á Tjörnesi hvar 6 nætur töpuðust í stóru hríðinni 12.— 14.[mars]. Á Látrum, ysta bæ á Látraströnd austan megin Eyjafjarðar, hafði opið vetrarskip, er nýlega var komið að úr hákarlalegu, tekið út með öllu er í því var af farvið, seglum, akkeristrengjum og veiðarfærum, skinnklæðum, skrínum og koffortum, af þessu hefir sumt alveg tapast en sumt rekið aftur skemmt og höggvið, og skipið brotið mjög, svo tæplega verður að því gjört. — Talsverður hafíshroði hefir sést hér norðan fyrir landi, frá Langanesi og vestur í Strandir. Einn hafísjaka hafði rekið inn að Málmey á Skagafirði, sem sagt er að sest hafi að á þrítugu, aðrir segja sjötugu dýpi. — Allt til skamms tíma halda menn að fiskur hafi verið hér úti fyrir, en vegna ógæfta eigi orðið sætt. ... [Þ. 31. janúar] hvolfdist bátur upp við lendingu undan bænum Eiði í Eyrarsveit í Snæfellsnessýslu, með 4 mönnum, er kom úr Stykkishólmskaupstað, 3 drukknuðu en einn komst á kjöl; veður stóð á land, og bar bátinn þegar með manninum upp að fjöru.

Gangleri segir 12.apríl frá tíð og skipsköðum:

Tíðarfar hefir á Suður- og Vesturlandi, verið um marsmánuð mjög líkt og hér nyrðra, heldur hart og mjög óstöðugt. Síðan 29.[mars] hefir hér verið hin æskilegasta tíð og staðviðri, stundum dálitlar þíður, en oftast sólskinsbráð, með dálitlum næturfrostum.

Skiptapar. 31. janúar fórst 4 mannafar vestur við Eyrarsveit, drukknuðu þar 3, en 1 komst af. 2. mars urðu tveir skiptapar í Bolungarvík og drukknuðu þar 12 menn. 22. [mars] fórst bátur við Kjalarnes suður með 4 mönnum, er allir drukknuðu.

Þjóðólfur segir þann 28.apríl frá skiptöpum og mannskaða í Mýrdal 28.febrúar og 20.mars:

Af skiptöpunum og mannskaðanum i Mýrdalnum 20.[mars] bárust nú með póstinum greinilegar skýrslur einkum frá sóknarprestinum til Sólheima og Dyrhóla herra Gísla Thorarensen á Felli, einnig frá Ingimundi hreppstjóra Eiríkssyni á Oddum í Meðallandi, mest samt um einstaklega bágborinn hag þeirra 5 ekkna og samtals 24 föðurlausra barna, þar sem 6 alls, þeirra er drukknuðu i Mýrdalnum, og þar af 5 búendur kvongaðir úr Meðallandinu sjálfu, voru allir úr Leiðvallarhreppi. Af þessum 5 búendum drukknuðu 2 fyrr í vetur, þ.e. 28. [febrúar], og hefir öldungurinn Einar Jóhannsson hreppstjóri í Dyrhólahreppi og bóndi í Þórisholti í Mýrdal skrifað oss greinilega skýrslu reyndar af skipskaðanum báða þessa daga, en þar hjá vísar síra G. Th. einmitt til skýrslu Einars hreppstjóra um skipskaðann 28. febrúar. Og þó að þá eigi færist nema einir 2 menn, sýna þó atvikin við þann skiptapa, sem oftar, að hársbreidd ein er einatt milli lífs og dauða á sama augnabliki, og milli þess að skipi, þar sem ýta skal eður lenda í brimsjó, lendist vel, en annað, er fer á hæla því, brotnar í spón og fleiri og færri drukkna og brimrotast. Skýrsla Einars hreppstjóra er þannig: [Þ. 28. febrúar] var hér almennt róið, gengu í Reynishöfn (milli Dyrhólaeyjar og Reynisfjallsdranga) 2 áttæringar og 1 sexæringur, stýrðu þeim synir mínir Hjalti, Finnbogi og Jón. Sjór var slæmur, en brimaði mjög er á leið, urðu þeir þá að leggja frá og út í Dyrhólahöfn (vestan undir Dyrhólaey); voru Eyjungar þá að lenda, er hinir komu og kölluðu sjó þar fullgóðan; en meðan þeir seiluðu og bjuggust í land, — því allir fiskuðu þá vel, mest af lúðu, — spilltist sjórinn. Tveimur lentist vel, en Jón, er seinast lenti, kæfði af gríðarstórum sjó, er strax mölbraut bátinn, því hann stóð undir (?). Maður var til hafður vaðborinn, sem vel gafst, svo öllum mönnunum var fljótt bjargað með aðfylgi þeirra er til náðu, nema 2 er aldrei sáust og ekki hafa rekið. Ýmsir meiddust af skipbrotunum, en lítið kvað að því. Menn þeir sem drukknuðu þarna vorn báðir giftir bændur úr Meðallandi, Jón frá Söndum Jónsson, kenndur við Langholt, og Jón frá Fjósakoti Jónsson.

En af mannskaðanum 20. [mars] er fyrrgreind skýrsla síra Gísla Thorarensens þannig: [Þ.20. mars] á góuþrælinn var hér gott veður og blítt; réru menn um morguninn alskipa, en ekki hafði sjór verið vel dauður, þegar róið var; en laust fyrir hádegi jós í þeirri veltu, á einu vetfangi, að sjór varð langt um ófær. Þegar brima tók, leituðu skipin undir Dyrhólaey þegar til lands; þau voru 4, þrír áttæringar og einn sexæringur, en þeim sóttist treglega róðurinn, því þeir áttu að sækja í gegn einstreymings vesturfalli og nokkrum kalda, náðu þeir fyrstir vörum formennirnir Stígur Jónsson á Brekkum og Jón Árnason í Garðakoti og lentu þeir þegar með heilu og höldnu: á hæla þeim kom þriðji áttæringurinn; var þar formaður Sigurður bóndi Sigurðsson frá Skarðshjáleigu (almennt nefndur: „hvíti“), og hélt þegar í land, er helst sýndist lag, kom hann og réttur í sandinn og var búinn að taka af sveilina, en í því skipið kenndi grunns kom slíkt ólag, að skipið langt um fyllti og dróst út síðan: varð þar bjargað 3 mönnum, en formaðurinn fórst og með honum 15 hásetar. Nú var sexæringurinn einn eftir úti á sjó; að leggja til Vestmanneyja sýndist ekki ráð; því báturinn var segllaus og mesti gangstampur, en leit út fyrir að komast á vestan, enda gaf raun vitni um að svo fór, því skip þau er ganga við Jökulsá lögðu þar frá, sökum brims, en þegar þau komu út á hin svo kölluðu Fjallahraun urðu þau að snúa aftur, hleyptu þeir þá upp við Jökulsá með heilu og höldnu. þegar líða tók undir sólarlagið, sýndist heldur að sljákka í sjóinn, réðu þá þeir sem á bátnum voru af, að leita lands, heldur en að liggja úti um nóttina, því hefði hvesst, var ekki nema opið haf að reka í. Í upphafi leit svo út, sem lendingin ætlaði að fara vel, því lagið var gott, en í því skipið kenndi sandsins reis upp hnykill er dró skipið flatt upp í topp sér og hvolfdi síðan, í sandinum voru báðir formennirnir, er lentir voru og 7 mennaðir; hinir voru farnir til bæja, má vera helst til seinna, þó þeir væri þjakaðir eftir daginn, björguðu þeir þar 6 mönnum en 10 þeirra fórust, bæði skipin fóru út með landi, kvað annað þeirra hafa rekið á Holtstjörn við Eyjafjöll en hitt á Önundarstaðatjörn í Landeyjum. Af hinum drukknuðu eru 17 reknir voru 13 lík jörðuð að Dyrhólakirkju, ... og hefi ég ekki á æfi minni staðið að jafnsorglegu embættisverki, eða heyrt slík kvein og harmkvæli sem þá voru í kirkjugarðinum á Dyrhólum. ... Ég þarf ekki að lýsa fyrir þér ástandinu í Dyrhólahreppi, það er aumara en frá verði sagt, en ég tek það til dæmis, að af 36 búendum, er hanga við hokur í Dyrhólasókn, eru 11 ekkjur. Af skýrslum þessum sjáum vér, að drukknað hafa samtals 28 manns, að meðtöldum þeim, er fórust 28.febrúar, af þeim voru 18 búendur eður heimilisfeður, 1 fyrirvinna, en 9 ungir menn ókvongaðir og öðrum háðir.

Gangleri segir af skipskaða og hrakningum í pistli 13.júní:

Hinn 28.apríl fórst hákarlaþilskipið Svalur, af Svalbarðströnd við Eyjafjörð, nálægt svonefndum Kögri fyrir vestan Strandahorn, þenna hinn sama dag var mikill stórhríðargarður; hröktust þá mörg skip vestur fyrir Strandir og voru mörg komin mjög grunnt þegar til lands sá, svo var og einnig með Sval; átti þá strax að leggja til djúps en það tókst ekki fyrir stórsjó og ofviðri, barst hann þá þegar á land upp í stórgrýtta fjöru og flúðir, og muldist síðan í spón. Skipverjar fengu bjargað sér á þann hátt að einn komst í land með vað en hinir færðust á eftir á honum. Fyrir dugnað háseta og formannsins Jóns Þórðarsonar á Espihóli fengu þeir bjargað miklu af farangri sínum, seglum og veiðarfærum. Á þriðja dægri eftir að skipið barst upp, eftir að hafa lengi vel farið með björgum fram og fært sig með handvöðum, ýmist fyrir forvaða eða upp á þá, náðu skipverjar bænum Atlastöðum við Fljótavík.

Apríl. Kalt í veðri, en tíð allhagstæð framan af, en síðan mjög óhagstæð nyrðra en skárri syðra. 

Séra Þóarinn í Reykholti segir frá sumarblíðu og mistri þann 9. og 10. 

Norðanfari segir af tíð og slysum í pistlum þann 2.maí:

Veðuráttufarið hefir nú lengi verið oftar stillt og kjurt nema dag og dag hvassviður, en frostin mikil svo víða í sveitum er ærinn gaddur og fram til sumra dala og á útkjálkum að kalla jarðlaust. Margir eru sagðir komnir að þrotum með hey sín.

[Þ.19.mars] höfðu [tveir] menn er áttu heima í Seyðisfirði, verið á ferð sjóleiðis sunnan úr Norðfirði, en lentu í myrkri um kvöldið of grunnt við Hánefsstaðaeyri í Seyðisfirði, svo bátnum hvolfdi í ólagi en skolaði öðrum manninum hálfdauðum á land, hinn drukknaði. Um kvöldið 10.[apríl] (annan dag páska), var róið úr Fljótum á þremur opnum skipum til hákarls; tvö af þessum skipum komu aftur eftir skamma útivist, því þá hafti gengið að norðanhvassviður og hríð með gaddhörku. Þriðja skipið var eigi komið aftur eftir hálfan mánuð, svo menn eru mjög hræddir um að það hafi týnst. Á því voru 10 menn og 8 af þeim giftir bændur, og meðal hinna völdustu úr sveitinni. Sagt er að konur eða ekkjur þessara manna eigi 37? börn. Þá síðast sást til þessa vantandi skips, var það á framsiglingu, eftir ágiskun annað hvort til þess að leita eftir meiri afla, eða þá skipverjar orðnir villtir því áttavitinn sem þeir höfðu, hafði verið bilaður, og enginn á skipinu vel vanur stjórn í ofviðri og sjóróti. Skipið var sagt gott og útbúnaður þar eftir. ... Í Vestur-Skaftafellssýslu hafði í vetur rekið 3 stórtré hvert 19 álnir ferstrend og á hvern veg alin úr aski, og fjórða tréð 13 álnir 3/4 alin á hvorn veg mahognje. Síðan hörkurnar hófust hefir frostið hér orðið mest 12 stig á Reaumur [-16°C], en til dala í Húnavatnssýslu 15—17 stig [-19 til -21°C]. Hákarlaskipin sem farið hafa í legu urðu fyrir dæmalausar sjóhörkur að leysa og fara til lands, því allt sem sjór eða ágjöf náði til, varð sem klakabunki t.a.m. þilfarið upp í miðjar styttur.

Maí. Hagstæð tíð og hlý, nema helst fyrstu vikuna nyrðra.

Gangleri segir af tíð þann 10.maí:

Tíðarfar hefir verið seinnipart aprílmánaðar allstaðar um Norður- og Austurland allt til 6. [maí] hið harðasta og frostamikið, svo það hefir stigið allt að 13 gr. Í góðsveitum hefir verið svo rautt, að jörð hefir verið fyrir útigangspening, en til dala og á útkjálkum hafa skepnur að miklu mátt standa við hey; skepnuhöld manna voru því víða orðin ískyggileg fyrir heyskort, ef eigi voraði vel héðan af. Í þessum harðviðrakafla rak nokkurn hafís undir land, allt frá Horni að vestan til Langaness að austan, en hvergi hefir hann orðið landfastur, nema ef vera skyldi við Horn og Langanes Síðan hinn 6. hefir verið hlýtt veður. 

Júní. Sérlega hlýtt og hagstætt veðurlag. 

Norðanfari birti þann 13.júlí bréf:

[Snæfellsnessýslu 30.maí]: Næstliðinn vetur mátti heita yfirhöfuð að tala hér í betra lagi að góu undantekinni, sem var ákaflega úfin og töstug, svo engan dag á henni viðraði vel til enda, heldur sífeldir umhleypingar, stundum blotar, en aftur grimmdarstormar og harðneskjukaföld; aldrei kom mikill snjór á láglendinu en talsverður til fjalla. Minnilegt ofviðri gjörði hér 22. mars og mátti það heita „eftirslæmur" góuillviðranna, en síðan hefir oftast verið góð veðurátta, og snjólaust mátti kalla hér á láglendi á sumarmálum. Vorið hefir verið kalt og blítt til skiptis, og þó oftar blítt, gróður kominn í betra lagi, þó er lítið af því látið, að farið sé að lifna nyt í kúm, sem líklega kemur af vetrargjöfinni, hinni fúnu og marghröktu töðu, sem reyndist í lakasta lagi, svo kýr héldust ekki við hold á henni, og komast valla í hálfa nyt. Slæm eru sumstaðar eða víðast gemlinga- og unglambahöld, einkum þar sem votlent er. Núna um hátíðina [hvítasunna 28.maí] hafa hér verið stórfelldar sunnan rigningar, sem heldur hafa ollað tjóni.

[Suðurmúlasýslu 8.júní] Tíðin er hér nú um þessar mundir hin indælasta og gróður þýtur upp. Áður voru fénaðarhöld slæm. Afli er víða kominn.

[Mýrasýslu 12.júní] Veðurátta góð og grasvöxtur í betra lagi.

Gangleri segir af tíð þann 13.júní:

Tíðarfar hefir mátt heita stillt og gott síðan síðasta blað vort kom út (10.maí), og síðan um 20.[maí] einkar mikil veðurblíða; hitinn hefir jafnaðarlega verið 12—18 gr. og það stundum dag og nótt, svo nú mun gróður víðust hér nyrðra kominn í besta lagi.

Norðanfari segir af góðri tíð 22.júní:

Síðan eftir miðjan [maí] hefir veðuráttan verið hér hverjum deginum betri og hagstæðari, með hitum og nokkrum sinnum úrkomu, svo horfur á grasvexti eru þegar orðnar hinar bestu. [Þ.8.júní] var hitinn 37 stig á R móti sól [46°C], 20 forsælunni [25°C] og 14 [17,5°C] um háttatíma.

Júlí. Óhagstæð rigningatíð norðaustan og austanlands, og jafnvel líka í Skaftafellssýslum, en mun betri um landið sunnan- og vestanvert. Hiti nærri meðallagi. 

Þórarinn í Reykholti segir frá þrumuveðri bæði þann 4. og 11. Þann 4. og 6. var þrumuveður á Grenjaðarstað í Suður-Þingeyjarsýslu og þann 29. á Flögu í Þistilfirði. 

Þann 28.júlí birti Norðanfari úr bréfi frá fylgdarmanni þeirra Johnstrups og Lundgren dagsett við Mývatn 21.júlí:

Bág er tíðin hér síðan við komum hingað 7.[júlí], hefir aldrei komið regnlaus dagur nema 19. og snjóaði nóttina fyrir ofan í miðjar hlíðar á Bláfelli og á ofanverð fleiri fjöll. Í gær kom hér stór haglhríð við Vatnið, en upp undir Kröflu var þó regn. 18.[júlí] var hitinn upp við Kröflu kl.12, 5° á R [6°R], en seinni part dags 3,5° [4°C]. Töður eru farnar að skemmast hér á túnum, og ekki kominn ein tugga í hlöðu.

Ágúst. Fremur svöl tíð og óhagstæð um landið norðan- og austanvert, en skárri syðra.

Þann 19.ágúst snjóaði ofan að bæjum við Grenjaðarstað og 2.ágúst segir séra Þórarinn í Reykholti frá hélu að morgni - ekki er þó víst að fryst hafi í lofti.  

Norðanfari ræðir heyskapartíð 7.ágúst:

Nær því allan júlímánuð hefir hér verið hafátt og þokur með meiri og minni úrkomu og nokkrum sinnum hellirigning, og í næstliðinni viku snjóaði á fjöllum, og sumstaðar ofan undir byggð. Dagana 23.— 26. var hér góður þerrir, náðu þá margir meira og minna inn af töðum sínum og einstakir hirtu alveg. Aftur hefir á sumum bæjum ekki náðst þurr baggi í næstliðnar 5 vikur, t.a.m. á Mýri í Bárðardal.

Norðanfari birti þann 7.nóvember úr bréfi úr Bjarnarnesi í Austur-Skaftafellssýslu, dagsett 12.ágúst: „Grasár hér svo slíkt hefir eigi komið síðan 1854, töður hirtust mikið til grænar“. 

Þjóðólfur rekur heyskapartíð í pistli 17.ágúst:

Grasvöxtur einstaklega mikill og góður, eins og fyrr var getið, og það yfir allt land eftir því sem af spyrst (samt ekki í hinni litlu Grafningssveit, vart meðal-grasár að þeir segja þaðan). Töðunýtingin hefir og verið afbragðsgóð hér neðanfjalls og um allt Vesturland og Borgarfjörð; hreppandi [svo] ofanfjalls austur undir Markarfljót, aftur fyrir austan Mýrdalssand austur úr til Lónsheiðar og í Húnavatnssýslu, svo að yfirborð töðunnar var náð skemmdalaust í garð um öll þessi héruð nú um framanverðan þennan mánuð Undan Eyjafjöllum er oss skrifað 6.[ágúst] „að heyskapurinn gangi stirt", og mun það hafa verið víðast þar um sveit, um sama leyti eða um byrjun þ.m., aðeins mikið eður jafnvel meira lá þar úti óhirt heldur en það, er komið var í garð. Líkt mun vera í Mýrdalnum og engu betra, ef eftir vanda lætur.— Nýkomnir menn að norðan segja, að engi töðubaggi hafi enn verið kominn í garð víðsvegar yfir Skagafjörð um lok [júlí] lengra að norðan hefir eigi spurst.

September. Fremur svalt, úrkomusamt syðra en heldur hagstæðari tíð norðaustanlands. 

Norðanfari segir af tíð 11.september:

Hér norðanlands hefir gengið mjög erfitt með þurrkana, þar til fyrir og eftir höfuðdaginn, var hér allgóður þerrir með köflum, náðu þá flestir því sem þeir áttu úti og svo í þeirri vikunni, sumu vel þurru, en meira og minna hröktu.

Gangleri segir af tíð í pistli þann 13. september:

Á Suðurlandi og sömuleiðis um Vesturland hefir tíðarfar verið hið besta um allan sláttartímann, sífeldir hitar og þurrkar; grasvöxtur allstaðar í besta lagi, heyafli er þar því talinn með langmesta móti. Á Suðausturlandi voru að vísu sagðar nokkrar rigningar, en þó eigi svo, að þær hafi gjört mikinn hnekki við heyskap manna. Um Norður- og Austurland hefir þar á móti verið mjög óþurrkasasamt síðan snemma í júlímánuði, svo heyskapur hefir fyrir þá sök gengið tregara en ella hefði orðið, þar grasspretta var í besta lagi; hey manna hafa því á mörgum stöðum hrakist og jafnvel skemmst það sem í garð var komið. Þó að óþurrkar og óstöðugt tíðarfar hafi nú nokkuð dregið úr heyafla manna hér nyrðra, þá mun þó mega fullyrða, að heyföng séu almennt orðin nokkuð meiri en í meðallagi, og gætu enn orðið í besta lagi ef nú færu að koma þurrviðri, eins og nú hefir verið í fjóra daga. Í Húnavatnssýslu er sögð betri nýting á heyjum en hér nyrðra, og heyafli mjög mikill.

Hin 9 þ. m. kom austanlands póstur Daníel Sigurðsson, með honum spurðust ekki aðrar fréttir, en að mjög óþurrkasamt hefði yfir höfuð að tala verið um Austurland, heilsufar manna gott, ...

[Berufirði 22.ágúst] Veðuráttan hefir allt til þessa í sumar mátt heita æskileg, grasvöxtur með betra móti, hirðing á heyi hin besta, nema í 2 miklum norðanveðrum hafa menn misst nokkuð af heyi. Afli hefir verið nokkur í sumar hér fyrir öllu Austurlandi, þó hefir hann hér í Berufirðinum verið talsvert minni en í fyrrasumar og ekki gengið eins innarlega á fjörðinn.

Þjóðólfur segir 14.september:

Með höfuðdeginum brá nú svo greinilega, að svo sem veðráttan var þurr og hagstæð til heyskapar og allra athafna, mátti segja alla 3 mánuðina þar næst á undan, og það með svo einstakri og stöðugri veðurblíðu að fæstir muna slíka, síst svo langgæða, þá heitir nú ekki að þurr dagur hafi komið síðan 29. [ágúst] og varla þurr stund hér sunnanlands; ekki að tala um, að neinn baggi hafi náðst undan síðan, svo hér eiga menn nú orðið feikimikið hey undir víðsvegar um Suðurland, og víða kvað vera farið að slá slöku við heyskapnum og senda frá sér kaupafólk, með því líka að vatnsfylling er farin að baga á flæði- og mýrarjörðum.

Október. Almennt hagstæð tíð fram eftir mánuði, en snerist undir lokin til töluverðrar snjókomu um landið norðanvert. 

Gangleri birti þann 3.nóvember úr bréfi af Suðurlandi (óstaðsett), dagsett 6.október:

Með höfuðdegi brá til storma og votviðra, er héldust fram í miðjan september, en þá þornaði upp aftur með norðankælu og frosti um nætur; varð því góður endir á heyskap manna og nýtingu. Fiskiafli er að kalla enginn. Skurðarfé reynist hvervetna rýrt, og fjárheimtur þykja slæmar í svo björtu og góðu fjárgangnaveðri. Aðfaranótt hins 24.[september] strandaði saltskip til Siemsens kaupmanns í Reykjavík nálægt Þórkötlustöðum í Grindavík; mennirnir komust af, en skipið var selt við opinbert uppboð 2.þ.m.

Þann 30.desember segir Norðanfari frá skipahrakningum á Húnaflóa í október, byggt á bréfi sem dagsett var 4.desember:

Þann 17. október lögðu kaupskipin af Skagaströnd og Hólanesi af stað heimleiðis, og er mælt að hríðin hafi komið á þau út af Eyjafirði, hröktust þau til baka vestur undir Strandir og voru þar hætt komin, Öðru skipinu hafði kastað á hliðina, og ekki getað rétt sig við fyrr en eitthvað slitnaði eða brotnaði. A Hólanesskipinu sigldi íslenskur maður Gunnlaugur að nafni, er mælt, að hann ásamt verslunarstjóra Jakob Holm, sem einnig tók sér far með því, hefðu mikið styrkt að því, að skipið fórst ekki. Bæði skipin hleyptu inn á Skagastrandarhöfn hinn 22.[október] til að fá aðgerð á ýmsu er bilað hafði, en fóru svo alfarin þaðan aftur 31 október.

Þjóðólfur segir af strandi í pistli þann 25.nóvember

[Þ.31.október] strandaði í Eyrarsveit skammt frá Kirkjufelli, (er sjómenn kalla „Sukkertoppen") fyrir vestan Grundarfjörð, jaktin „Elisabeth", eign kaupmanns H.E. Thomsen. ... skipstjóri M. Kjerulf; skip þetta var hlaðið með ýmsar vörur frá kaupmanni N.C. Gram til S.Richters í Stykkishólmi og borgaranna í Flatey. — Strand þetta orsakaðist með þeim hætti, að nóttina milli 30.—31. október þegar skipið var fyrir vestan Jökulinn, bilaðist það eitthvað og varð lekt, og daginn eftir um nónbilið, gjörði svo sterkan hvirfilbyl, að mastrið brotnaði, svo ekki varð eftir af því nema 2 [álna] langur bútur fyrir ofan þiljurnar; rak svo skipið lengra innmeð, þangað til það sást af Eyrarsveitungum (nefnilega bryggjumönnum) sem reru (bugseruðu) það upp á ströndina, hvar það og farmurinn átti að seljast 9.[nóvember] og eftirfylgjandi daga.

Gangleri greinir frá tíð í pistli þann 3.nóvember:

Haustveðuráttan hefir hér norðanlands mátt heita hin besta, oftast frostlaust nótt og dag. Fyrstu vikuna af október gjörði að vísu hret nokkurt með frosti og dálitlum snjó, en hann tók brátt upp aftur, og varð hið blíðasta veður til hins 25. [október] að aftur gjörði hret til mánaðarloka, en með frosti og snjóum, en þá gjörði aftur litla þíðu og síðan gott veður — Hinn 21.[október] nálægt kl.10 um kveldið, varð hér vart við ekki svo lítinn jarðskjálfta.

Norðanfari segir frá tíð í pistli þann 7.nóvember:

Dagana 25.-29. [október] var hér og um nærsveitirnar meira og minna snjófall með hafátt og hvassviðrum, svo víðast hér á útsveitum kom ókleyf fönn og sumstaðar sem að kindur fennti; þó varð áfellið norður- og austurundan enn stórkostlegra, því þar höfðu verið að kalla látlausar stórhríðar í 5 sólarhringa; fé fennti víða og margt af því ófundið þá seinast fréttist hingað. Sauðfé og hross komið sumstaðar á gjöf. Um leið og hríðin skall á, jós upp stórsjó og brimi, tók þá út 2 sexæringa á Tjörnesi, annar þeirra brotnaði mikið en hinn í spón, 3 för hafði og tekið út og brotnaði í Fjallahöfn í Kelduhverfi. Með austanpósti, sem kom hingað í gærdag (6. nóvember) fréttist, að hann hefði lagt af stað frá Eskjufirði 21. [október] og fengið þá og næstu daga, hina verstu vatnshríð, síðan stórhríðar og fannfergju, svo hann sumstaðar á leiðinni varð að sitja hríðartepptur og þá uppbirti fönnin ókleyf; hann hafði 3 hesta í ferðinni, og braust alltaf áfram með þá hingað, því óvíða var stórfenni; en fannfergjan jöfn. Allt til þess að spilltist, hafði veðuráttan eystra verið lík og hér. ... Um kvöldið 21. [október] kl.10—11 varð hér vart við talsverðan jarðskjálfta, sem hér er mjög sjaldgæft.

Nóvember. Stillt og hagstæð tíð lengst af, fremur svalt.

Þjóðólfur segir af tíð og gæftum þann 18.desember:

Fiskiaflinn heitir að hafa verið jafn tregur áfram hér víðsvegar um Faxaflóa fram á þennan dag, enda hefir nú og verið gæftalaust alla næstliðna viku síðan hann er genginn til sunnanátta með brimi og hvassveðrum. ... Árgæskan helst hin sama og veðurblíðan yfir allt land, að því sem fréttist, víst hér sunnan- og vestanlands og það allt norður að Yxnadalsheiði. Hér sunnanlands hefir eigi heitið að fest hafi snjó í fjöll, — þó að mikill snjór félli í svipinn um mánaðamótin, október-nóvember í uppsveitunum í Árnessýslu milli Þjórsár og Þingvallasveitar og aftur Vestanlands í sama mund eður aflíðandi veturnóttum allt vestan frá Reykhólasveit beggja megin Gilsfjarðar, — eigi gjört orð á um Dali, en aftur feikna snjókyngi um Fróðárfjöllin og Kerlingarskarð, svo að þeir er voru þar á ferð urðu að taka ofan klyfjar af hestum sínum og bera, svo þeir kæmist áfram. En allur sá snjór hvarf að fárra daga fresti, eins hér syðra sem vestanlands, og hafa síðan verið marauðar jarðir yfir allt. Eftir því hafa og verið frostleysurnar, og mun vanta mikið á að hitamælir hafi staðið á 0 R að meðaltali. En viljað hefir vera oftast næturhrím á jörð frá því um veturnætur og fram í [desember].

Gangleri segir lauslega af tíð í pistli þann 5. desember:

Tíðarfar var allt fram að 18.[nóvember] heldur hart og snjór kominn þá töluverður, sér í lagi um norðursveitir; en þá hlánaði og tók mikið upp af snjónum, síðan hefir verið hæg og stöðug veðrátta og næg jörð.

Desember. Fremur hlýtt og lengst af hagstæð tíð. 

Gangleri segir fréttir þann 30.desember:

Í dag (30.desember) kom austanpósturinn; með honum bárust þessar fréttir. Góður afli um Austfjörðu. Tíðarfar hið besta um allt Austurland allt fram að 15.[desember] að hann lagði á stað, en síðan hefði farið að leggja að með snjó og bleytuhríðum; töluverður snjór kominn um Þingeyjarsýslu og víða jarðlítið.Sömuleiðis hefir hér nyrðra verið hin besta veðrátta og mjög frostalítið allt til þess fyrir fám dögum, að lagði að með norðaustan bleytuhríð og snjó nokkrum, svo nú lítur út fyrir að víðast verði jarðlaust fyrir allan pening.

Norðanfari segir af tíð þann 30.desember:

Veturnáttaáfellið varð þar (á Austurlandi), sem hér, víða stórkostlegt, t.a.m. í Seyðisfirði hvar sumstaðar kaffennti fé og enda hross til dauðs; jarðlaust varð bæði í fjörum og á úthéraði. Á Völlum og línunni þar út að sjó, var farið að taka lömb og hýsa fé og hross, en þennan snjó tók að mestu upp aftur, þó er sagt að jarðbannirnar hafi vegna storku og áfreða alltaf haldist við á Eyjum og í Úthlíð. Frá því að batnaði í nóvember og til þess veðuráttan spilltist nú aftur, hafði verið yfir allar Múlasýslur, eins og hér norðanlands, hin æskilegasta veðurátta, frostleysur og stillingar, svo víða gekk fé sjálfala, og sumir eigi farnir að taka lömb.

Norðanfari birti þann 7.mars 1872 yfirlit um árferði í Múlasýslum 1871 (eftir bréfi):

Árið 1871 hefir verið eitt af hinum bestu árum sem ég man um allt Austurland. Veðuráttan var góð meiri hluta þess. Grasvöxtur og sjávarafli með besta móti, verslun nokkru hagkvæmari en hin fyrri árin og almenn heilbrigði að öllum jafnaði. Eftir nýárið í fyrra setti niður bleytusnjó og varð jarðlaust víðast um Austurland. En um miðjan vetur hlánaði dável í hinum snjóminni sveitum. þar sem harðast en vann það ekki á til nokkurrar hlítar. Enda komu bráðum aftur snjóar og jarðbannir. Þá hlánaði aftur seint á þorra, svo jarðir komu í jarðsælum sveitum. Og alla tíð voru frostin væg fram á góu, þá harðnaði tíðin. Lagarfljót lagði ekki allt, fyrr en í miðgóu — og er sjaldgæft það verjist svo lengi. Seint á góu kom hér mikið foraðsveður í 3 daga með grimmdarfrosti, snjókomu og ofviðri. Þá rak eitt kvöldið hákarlaskútu á Eskifirði er Tulinius kaupmaður átti og ferðbúin var út í legu. Voru mennirnir á og gjörði niðdimmt af nóttu og hvergi glórði fyrir ofviðri og snjókomu. Rak skútuna í þessu heljarveðri upp klöppum út með firði þar komust mennirnir af með lífi og misstu þó ungling, sem með þeim var í sjóinn, besta mannsefni. Skipið braut í mola. Þaðan af var frostameira fram undir pálma [2.apríl], þá batnaði um stund og tók mikið af snjónum. Eftir páska [9.apríl] gjörði kulda mikla með grimmdarstormum, en litlum snjókomum allt til Krossmessu, svo fénaði hrakaði niður þar sem ekki var nóg hey og gott, en þá voru margir orðnir heylitlir, og einstöku menn í harðindasveitum búnir að reka af sér. Upp úr Krossmessu skánaði enn um stund en kólnaði aftur, svo jörð greri lítið til fardaga. Varð sauðburður heldur bágur þar sem heyið skorti. Í fardögum byrjaði öndvegistíð og tók óðum að gróa, svo ég hefi nú lengi, ekki séð jörðu spretta jafnfljótt. Var víða komið sláandi gras með blettum í 8. og 9. viku sumars. Þessi blíðutíð hélst með litlum afbrigðum allt sumarið. Þó að þurrkar kæmi tvær til þrjár vikur eða lengur á sumum sveitum, þá var tíð allatíð blíð og þurrkar á milli. Þó hröktust hey heldur til skemmda framanaf slætti, þar sem snemma var byrjað. Grasvöxtur varð með mesta móti. En í votengjasveitum varð grasi valla náð í bestu engjum, fyrir vatni, fyrr en um höfuðdag og eftir hann. Menn fengu almennt hey í mesta lagi. Heldur eru heyin talin létt. Hausttíðin var og góð nærri alltaf; með litlum áfellum, og vetrartíð jafnan hin stilltasta til jóla, frostalítil og snjólaus oftast, nema í harðindasveitum lagði yfir bleytusnjó með jólaföstu og í inndalasveitum voru lengi storkur á jörðu. Með jólum gerði bleytusnjó og var víða orðið knappt um haga undir nýárið. Enginn hafís kom hér í vor eð var, nema hroðaflekar, sem skamma stund numu staðar. Þó sumarið væri hið besta, varð málnyta fénaðar sumstaðar í minna lagi og geldfé skarst ekki vel í haust. Kenna menn því um að hitar voru oft miklir og fjallalönd illa sprottin og grasið dáðlítið, sem verður að hafa komið til af því, að næturfrost komu til fjalla einar tvær nætur nálægt miðjum júnímánuði sem kyrktu grasvöxtinn og gjörðu það sem sprottið var kraftminna. Fjöll höfðu gróið nær jafnsnemma og byggðin.

Lýkur hér að sinni umfjöllun hungurdiska um veður og tíðarfar árið 1871. Fáeinar tölur eru í viðhenginu.    


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Úr talnaheimi

Stundum er spurt um það hvenær sumarsins er hlýjast. Því hefur reyndar oft verið svarað á hungurdiskum - nokkuð ítarlega jafnvel. Að þessu sinni lítum við aðeins á litla töflu.

w-blogg090820aa

Hér er litið til landsins alls - í 71 ár (árið í ár ekki með - um það vitum við ekki enn). Neðsta lína töflunnar sýnir í hvaða mánuði hæsti hiti ársins á landinu hefur mælst á þessum árum. Við sjáum að það er langoftast í júlí - í innan við fjórðungi tilvika mælist hann síðar. Einu sinni gerðist það að hæsti hitinn í október jafnaði það sem hæst hafði orðið áður á árinu (1973). 

Meðalhiti sólarhringsins, landsmeðalhámark og lágmark eru líka oftast hæst í júlí. Þó er það þannig að litlu munar á júlí og ágúst hvað hæsta meðallágmarkshitann varðar. Mjög hlýjar nætur koma gjarnan í ágúst - þó meðalhámarkshitinn sé sjaldan hæstur þá. Sól er farin að lækka á lofti - en jörð og haf enn hlý - sumarið endist betur í jörðu og hafi heldur en í lofti. 

Að meðaltali fer nú hiti að falla (hinni „stuttu gerð“ íslenska sumarsins sem hefst undir miðjan júlí lýkur á tímabilinu 8. til 14.ágúst). Meðalafl vestanvindabeltisins er yfir Íslandi er í lágmarki 8. til 10. ágúst og þrýstiórói sömuleiðis.  


Af árinu 1870

Árið 1870 markaði ákveðin þáttaskil, þá komu allt í einu fjórir hlýir mánuðir og í fyrsta sinn síðan 1857 að svo margir mánuðir sama árs væru hlýir. Almennt má segja að árin 1870 til 1880 hafi tíðarfar verið heldur skárra heldur en báða aðliggjandi áratugi. Varla þætti okkur það þó gott. Þeir fjórir hlýju mánuðir ársins 1870 voru maí, ágúst, október og nóvember. Kalt var hins vegar í mars, apríl, júní og september. 

Meðalhiti í Stykkishólmi var 3,8 stig, 1,3 stigum ofan meðallags næstu tíu ára á undan. Í Reykjavík var meðalhitinn 4,2 stig og er áætlaður 4,6 stig á Stórhöfða í Vestmannaeyjum (mælt var við Ofanleiti). 

ar_1870t

Í Stykkishólmi voru 15 dagar mjög kaldir, mikið kuldakast kom dagana 11. til 15. mars og einnig um mánaðamótin febrúar/mars og 8. til 10.september. Fimm dagar ársins voru að tiltölu mjög hlýir í Hólminum, 9. ágúst og svo fjórir dagar í röð 30.nóvember til 3.desember. Hinn 9.ágúst var (að þessu tali) fyrsti hlýi dagur í Hólminum síðan í nóvember 1857. 

Úrkoma í Stykkishólmi mældist 633,5 mm. Mjög úrkomusamt var þar í apríl og september og nokkuð úrkomusamt í júlí. Þurrt (að tiltölu) var aftur á móti í október, og úrkoma einnig nokkuð undir meðallagi í febrúar, ágúst, nóvember og desember.

ar_1870p 

Þrýstingur var óvenjuhár í ágúst og desember og einnig hár í febrúar, mars og nóvember. Lægstur var hann að tiltölu í apríl. Þrýstiórói var einnig með mesta móti í apríl, bendir það til órólegrar og vindasamrar tíðar. Lægsti þrýstingur ársins mældist í Stykkishólmi þann 6.febrúar 954,1 hPa, en sá hæsti þann 9.desember, 1039,7 hPa. Líklega var veðrið 21. til 22. september af völdum leifa Atlantshafsfellibyls númer 5 (1870).  

Janúar. Tíð þótti almennt hagstæð en snjór frá fyrri mánuðum var til ama.  

Norðanfari birti þann 19.mars bréf af Melrakkasléttu, Langanesi og úr Húnavatnssýslu:

[Melrakkasléttu 19.janúar] Um næstliðnar veturnætur, voru hér bærileg veður, en litlar hlákur, svo snjórinn sem kom í skaðaveðrinu og þar á eftir í október tók ekki upp nema að nokkru leyti; upp frá því spilltist tíðin með fannkomu og miklum frostum, og fyrir jólaföstuna gjörði tvívegis skemmdarrigning, með talsverðum krapaslettingi, svo heita mátti að jarðlaust yrði. Veðrin hörðnuðu æ meir frá 21.-30.nóvember með mikilli snjókomu og frostgaddi, enda var þá ísinn kominn, og jakar landfastir víðsvegar um Sléttuna. 2.desember var hér hlákubloti, svo nokkur jörð kom upp í Núpasveit og á vestur Sléttu, en að kalla engin á Austursléttu. 6.[desember] komu ísar að nýju, en þó varð fannkoman mest 8. og 9. s.m. og úr því stöðugar hríðar og veðragangur með frosthörku fram að jólum og á aðfangadaginn var ákafasta bleytuhríð, svo snjóþyngslin voru orðin eins og mest á ótíðarárunum að undanförnu; líka var þá komin talsverður hafíshroði hér inn á víkur og flóa, og víst magnís úti fyrir. Frá nýári gengu lenjuhríðar fram til þess 13. þ.m. Í gær var hér hláka, svo jarðarsnöp er komin í Núpasveit og á Vestursléttu, en engin á Austursléttu, enda tekur hér ávallt lítið nema í landsunnanátt. Það eru því verstu horfur með skepnuhöld manna, því að mun heyjaðist lítið í sumar til að þola slík harðindi. Víða hraktist hér nokkuð af töðu og hjá flestum allt úthey, og sumstaðar er af því enn nokkuð undir fönn, er slegið var í fjarlægð. Bjarndýr kom hér á land á Harðbak, sem varð unnið.

[Langanesi 20.janúar] Þetta næstliðna sumar [1869] færði þessari sveit með minnsta móti björg af sjó; ísinn sem lá framundir haust, tálmaði bæði selveiði og lágvaðaveiði og þann stutta tíma sem sjórinn var auður í haust, var fiskafli mjög lítill. Ekki fór heldur sveitin varhluta af grasbrestinum; úti á nesinu varð úthagi varla ljáberandi, og moðsalli einn upp úr túnunum. því urðu fóðurbirgðirnar allri venju framar minni, og fóðurpeningur — svo fár sem hann er nú orðinn — í mestu hættu staddur; því hrakningsveður voru svo mikil framanaf, og jarðlaust orðið á jólaföstu ; snjór með langmesta móti á þessum tíma. Bloti var hér í gærdag, svo að yddi á stöku hæð. Með jólaföstukomu rak inn íshroða dálítinn, sem fyllti fjörurnar með storku og fór síðan. En þótt lítill væri móts við íshellur fyrri ára færði hann óvenjulega gesti, heilmörg bjarndýr, ekki færri enn 8 héldu menn, og hefir eitt unnist; hin fóru sum með hroðanum aftur, sum eru hér enn að vappa en eru meinlaus og stygg og vinnast því síður.

[Húnavatnssýslu 1.febrúar] Miklar voru hér fannkomur, hríðar og illviður framan af í vetur; hygg ég að enginn muni jafnmikil fannalög í lágsveitunum hér í sýslu fyrri part vetrar, sem nú; mátti heita að bjarglaust væri orðið fyrir allar skepnur yfir gjörvalla Húnavatnssýslu, fyrir jól, mest af snjóþyngslum. En síðan á sólstöðum hefir verið blíðasta veðurátta og oft þíður, svo nú er komin víðast jörð, og hún nægileg í öllum lágsveitum.

Þjóðólfur segir þann 26.janúar:

Sjómenn þeir, er komið hafa norðan úr Húnavatnssýslu 23.-25. þ.mán. segja, að harðindi, jarðbannir og snjóþyngslin hafi verið og viðhaldist hin sömu allt til þess þeir lögðu af stað undir miðjan f.mán. Þá voru menn þar um sveitir farnir að skera niður af heyjunum, og Miðfirðingar ráku af sér hross og sauði (um 120) til hagagöngu vestur í Borgarfjörð. — Hér sunnanlands hefir verið mildasta og besta veðrátta (einstöku daga 4—6°R hiti [5-8°C]) síðan um miðjan [janúar], og eru nú allstaðar komnir hér upp bestu hagar fjær og nær.

Baldur segir frá 2.febrúar:

Ís kom á Húnaflóa á jólaföstu; hefir hann eigi legið við frá því í sumar, heldur er það víst nýr ís, sem sjá má af því að bjarndýr hafa gengið á land af honum. Upp úr sólstöðunum fór að hlána hér, og hefir verið við og við frostlaust síðan eða frostlítið, og nú að líkindum víðast auð jörð.

Febrúar. Lengst af allgóð tíð. Harðnaði nokkuð í lokin. 

Þann 26. segir veðurbók frá Flögu í Þistilfirði að hafís sé kominn í landsýn og daginn eftir rak hann inn. Hafísinn rak síðan þar frá landi 4. til 9. mars.

Norðanfari segir af tíð þann 21.febrúar:

Að svo miklu vér höfum frétt og oss hefir verið skrifað bæði að austan, norðan og vestan, eins og líka hér í nærsveitunum, hefir allan þorrann út, verið dæmafá um þann árstíma, öndvegistíð, ýmist þíður eða þá lítið frost svo víða í sveitum er orðið öríst og nálega í flestum ef ekki öllum byggðarlögum komin upp nokkur jörð. Sumstaðar hafa sauðir ekki verið hýstir og á stöku stöðum eigi heldur ær. Þó nú komi harður kafli, þá er sagt, að flestir muni hafa fóður framúr handa skepnum sínum.

Þjóðólfur birti þann 24.febrúar stuttan pistil um árferði:

Tíðarfarið hefir verið hið mildasta og besta víðsvegar um land að því frést hefir, og snjólaus jörð einkum síðan um miðjan [janúar], þó að til batans brigði út úr jólunum; sumstaðar hét ekki að vetrarharkanna í október til desember yrði vart, síst svo að fyrir haga tæki, t.d. ekki neinstaðar fyrir vestan Gilsfjörð, en einkum var það í Ísafjarðarsýslu og um allar sveitirnar milli Þjórsár og Mýrdalssands, að harðindanna hét ekki að verða vart.

Baldur segir frá 2.mars:

[Þ. 2.febrúar] fórst skip af Seltjarnarnesi í lending suður í Leiru; drukknuðu þar 8 menn, þar á meðal formaðurinn Einar Einarsson í Ráðagerði, en 2 varð bjargað. — Í lausum fregnum hefir borist, að skiptapi hafi orðið skömmu eftir nýár norðan undir jökli, hafi þar 6 menn farist, en 3 verið bjargað.

Eftir því, sem frést hefir vestan, hafði varla orðið vart þar harðindanna, sem gengu hinn síðasta fjórðung f.árs, t.d. fyrir vestan Gilsfjörð og einkum í Ísafjarðarsýslu. Hér og annarstaðar, þar sem frést hefir, hefir verið mildasta og besta tíð frá því á jólum; jörð alauð, og grænkaði hér jörð á nokkrum stöðum á þorranum. Síðari hlut vikunnar, sem leið, gjörði hér hörku-grimmd og norðanfrost með bálviðrisstormi, og helst það enn, nema hvað í gær og fyrradag hefir verið nokkuð minni stormurinn.

Mars: Kalt og illviðrasamt lengst af, en þó komu hlýindakaflar inn á milli. 

Í veðurbók frá Flögu í Þistilfirði segir: „22. til 26. mars: Allan þennan tíma voru hin mestu harðindi og jarðleysur stöðugt; frost meiri en nokkrir muna 21° og þar um bil móti sól“.

Baldur segir frá þann 19.mars:

Í Múlasýslum er sagt að hafi gengið blotar og snjór og harðindi hin mestu, frá því fyrir jól, og fram yfir miðjan janúar. Um 17. dag þess mánaðar hafði farið að hlána og þíða komið, og þar sem eigi voru því meiri snjóþyngsli, hafði jörð allvíða verið upp komin, einkum á uppsveitum í Fljótsdalshéraði og svo um suður-firðina við sjóinn. — Hér um sveitir hefir og síðan vér gátum síðast, verið nægst af þíðum og blíðviðri, þó snjóað hafi lítið eitt og stormar og frost hafi verið fáeina síðustu dagana, enda er þíðan nú komin aftur síðan í fyrradag. Austan yfir fjall er alveg hið sama að frétta og héðan.

Norðanfari segir þann 19.mars:

Að sunnan er að frétta bestu tíð svo þar sást varla klaki á mýri; og nokkrir, sem byrjaðir voru á túnasléttum. Á þorraþrælinn 19.febrúar um kvöldið, brast hér í norðanbyl með gaddi. Frá því og allt til 4 mars, var veðurstaðan norðan og oft hörkur miklar mest 10—19 gr. R [-12 til -24°C], en snjókoma lítil. En 4. mars skipti aftur um veðuráttuna með hlákum og blíðviðri, mest 12 gr. hita á R á daginn [+15°C], en 8 gr. á nóttunni [+10°C]. Á þorranum var á stöku stað farið að votta fyrir gróðri. Í seinustu þorravikunni var á Hofi í Skagafjarðardölum gengið til gras. 10. [mars] brast í norðanhríðargarð harðan, og alltaf til þess 17. dag þ.m. hafa verið meiri og minni heljur, frá 17—21 gr [-21 til -26°C] og snjófall nokkurt; mörgum þykir líklegt, að mikill hafís sé skammt undan landi, og fáir jakar hafa í seinustu illviðrunum orðið hér út með firðinum landfastir. Fyrir skömmu síðan hafði bjarndýr verið skotið fyrir ofan bæinn á Kilsnesi á Sléttu; og í vikunni sem leið hafði bjarndýr komið á land í Ólafsfirði. Með manni nýkomnum að sunnan, er að frétta sömu góðu tíðina og áður, og fiskafla mikinn um allt Suðurland.

Þjóðólfur segir af skipsköðum í pistli 24.mars:

Skiptapinn undir Jökli, sem getið var [áður], varð 20.janúar, frá Keflavík þar undir Jökli, og skal verða skýrt gjör frá honum von bráðar. — 2 menn fórust af bát í lendingu vestur á Snæfjallaströnd um síðustu mánaðamót; þriðja manninum var bjargað. — Laugardaginn 20. þ.mán. var hér syðra allgott veður framan af degi, en bráðhvessti af útnorðri þegar upp á daginn kom; margir reru þá um morguninn og fóru í aðrar sjóferðir; fór þá suður, meðal fleiri, báturinn frá Mýrarhúsum, voru 2 menn á skagfirskir: Pétur frá Nautabúi í Tungusveit, rúmlega 60 ára, og Sveinn Gottskálksson , nál. 40 ára, úr Lýtingsstaðahreppi; brot af bát þessum hafa fundist rekin, en til mannanna hefir eigi síðan spurst.  

Norðanfari birti þann 16.apríl bréf rituð í mars og tíðarpistil að auki:

[Melrakkasléttu 15.mars] Allur þorrinn var hér bærilegur og harðviðralaus, einkanlega seinni hlutinn, með þíðviðrum nótt og dag í viku. Með góukomu komu miklar frostgrimmdir með hafísreki, en eigi miklum snjó, og hélst þetta fram til hins 3. [mars] að bæði rak hafísinn frá og hlánaði og veðurblíður til hins 10. þ.m., skipti þá aftur um til hins sama með frosthörkum suma dagana 15 jafnvel yfir 20 gr á R [-25°C] og hafísreki svo nú eru hér hafþök, og mögru fé ekki líft að koma út þó jarðir séu. Líka eru nú farin að koma niður nokkur fönn.

[Húnavatnssýslu 28.mars] Tíðarfarið hefir mátt heita gott, og sjálfsagt mjög líkt og nyrðra. Íhlaupin á góunni voru hörð, bæði með frost og veðurhæð, en snjókoma lítil. Frostið varð stundum hér fast að 20 tröppum á R [-25°C]. Í fyrra kastinu kom mikill hafíshroði hér að Skaga, en í því síðara talsverður hér inn í fjörð. Síðan með einmánuði hefir verið góð veður og þíður.

Austanpósturinn Daníel Sigurðsson systurson Níelsar pósts, kom [til Akureyrar] að kveldi hins 10. [apríl], hafði hann farið frá Eskjufirði 2. s.m. Að austan er að frétta líkt um tíðarfarið og hér hefir verið. Hafísinn hafði rekið að og inn á Austfirði, og lengst suður að Eystrahorni. Frostgrimmdirnar 12—18 gráður á Reaumur [-15 til -23°C] og veðurharðneskjan oft verið dæmafá, svo varla var vært í húsum, hvað þá fyrir nokkra skepnu að vera úti. Aftur var þess á millum, sem hér, veðurblíða, stundum 9 gr. hiti [11°C] í forsælunni. Sjóhörkurnar hafa verið alstaðar eystra og nyrðra fjarskalegar og dæmafáar svo firðina hefir lagt og sumstaðar verið gengir, enda Skjálfandaflói frá Kaldbaksskerjum að Varganesi í Náttfaravíkum. Mestallan Vopnafjörð hafði lagt, og ísinn svo sterkur, að útselur lagðist upp á hann. Það er líka sagt að einn maður þar hafi skotið og náð um þær mundir 9 selum. Eyjafjörð lagði út fyrir Toppeyri; Ólafsfjörð út að Flyðrubekkjará og Siglufjörð út að Strákum. Nýlega hafa Grímseyingar verið hér á Akureyri staddir, og sögðu þeir hafísþök væri það augað eygði upp fyrir Grímsey. Ísinn var og sagður landfastur í Mánáreyjar, Sléttu og Langanes; en 12. [apríl] komu menn af Langanesi, er nú sögðu þar íslaust og meðfram Sléttu, og hverju hafskipi hægt að ná höfn á þessari leið.

Þjóðólfur greinir þann 4.apríl frá miklum skipsköðum:

Nóttina milli 23. og 24. [mars] rak frakkneska fiskiskipið Cauchoise, 126 tonneaux, ... inn undir Sandgerðisreka á Miðnesi, og var þá svo bilað og laskað annaðhvort í ofviðrunum undanfarna daga eður meðfram þá er lands kenndi, að skipverjar álitu óhaffært eftir, gengu af því og gáfu upp sem strand; þeir voru 18 tals að meðtöldum skipstjóra, og sakaði engan þeirra, og komu allir með heilu og höldnu hingað inneftir 2. [apríl]. — En þó skyldi samt skip þetta til stórslysa draga og manntjóns; því daginn eftir 25. [mars], þegar nálega 20 menn innlendir voru þar út á skipinu staddir, til að færa kost, fatnað og annan farm á land (þar á vitum vér eigi fulla grein), þá kastaðist skipið, í því það sökk, á hliðina, tók út 4 menn, 2 þerra úr reiðanum að sagt er, og drukknuðu þeir allir þá þegar; ... Þar að auk tvær fiskiduggur frakkneskar sagðar nýstrandaðar upp við Mýrar; alls 45 skipverjar komust af.

Að morgni mánudagsins 28.[mars] var spakt veður og kyrrt en næsta útlitsljótt. Þá reri almenningur víðsvegar hér og um allar syðri veiðistöðvarnar, en þegar leið að hádeginu, mátti hann heita bráðrokinn með ofsaveður fyrst af austri landnorðri, en gekk von bráðum fram í hafsuður. Hrakti þá almenning ýmist í landróðrinum syðra, ýmist yfirborð þeirra er héðan reru að innan af Álftanesi og Seltjarnarnesi, því mjög fáir voru þeir, er sneru til lands í tíma, en margir voru og í suðurleið, og er t.d. sagt, að nálega 300 sjóhraktra aðkomumanna hafi náð landi á Vatnsleysunum og verið þar um bæina hina næstu nótt. En ekki áttu nærri allir því láni að fagna, því þennan dag fórust 4 fjögramannaför og tveir bátar, að menn ætla, á rúmsjó; af einum bát, áralausum þó og fullum af sjó, var mönnunum bjargað af Kristni bónda Magnússyni í Engey, aðframkomnum hér á rúmsjó, og ýmsum bátum var bjargað þar um Ströndina og Voga, jafnt og þá bar að landi, bæði af Kristni og öðrum þar innlendum. Hið 7. skipið fórst eður brotnaði í uppsiglingu nærri landi í Keflavík; fyrir því skipi var Jón Finnsson bóndi á Hundastapa á Mýrum, var honum bjargað og öðrum manni, en hinir 5 drukknuðu allir; meðal þeirra er sagt að hafi verið sonur Guðmundar hreppstóra Sigurðssonar í Hjörtsey og einn af sonum ekkjunnar mad. Þórdísar Jónsdóttur í Knarrarnesi á Mýrum, báðir efnilegir menn. [Tvö] fjögramanna-förin, sem fyrr var getið, voru af Vatnsleysuströnd og annar báturinn; fyrir honum var formaður Símon Teitsson (Símonarsonar) bónda á Ásgarði í Andakíl [langalangömmubróðir ritstjóra hungurdiska], en háseti mágur hans Jón Jónsson (Pálssonar) bóndi á Hvanneyri [langalangafi ritstjóra hungurdiska]. Fyrir öðru 4 mannafarinu var formaður Helgi Guðbrandsson á Ásláksstöðum eður þar í hverfinu; Um 3 hásetana er með honum fórust vantar enn skýrslur; svo er og um hitt 4 mannafarið, er var frá Auðnum, og mun formaðurinn og flestir þeirra 3 háseta hans hafa verið útlendir menn. Eins ætlum vér verið hafi um hin tvö fjögramannaförin og bátinn er fórust, og voru öll þau fiskiför af Álftanesi með samtals 10 manns; báturinn er sagt að hafi verið eign Jens snikkara Steingrímssonar á Sviðholti; [fjögurramannaförin] voru annað frá Vigfúsi á Hliðsnesi, hitt frá Hliði og eign Helga, húsmanns þar, Guðmundssonar, og mun næsta blað geta fært greinilegri upplýsingar um þessa hina drukknuðu menn; en 4 af fiskiförum þessum fundust rekin á Akranesi, 2 að morgni 29. [mars] en hin 2 morguninn eftir; í öðru þeirra, er rak upp á Innrahólmi fyrradaginn, var lík eins manns, en annar var útbyrðis við skipið, flækt í stjórafæri og öðrum reiðskap, „EE“ var saumað í nærföt þess er í skipinu var og sömu stafir á signeti, er á honum_fannst (það er nú afhent á skrifstofu þessa blaðs). Lík Símonar Teitssonar fannst rekið síðarnefndan dag upp í hólmann hjá Ytra-Hólmi og þekktist þegar. En eigi var hér með lokið mannskaðanum, þótt ærinn mætti virðast orðinn. Föstudag 1. [apríl] var veður fremur gott víðsvegar hér syðra, og reri almenningur yfir allt; hefur og eigi annað spurst en að öllum hafi lenst vel fjær og nær og hrakningslaust. En er Pétur Jónsson, bóndi á Grjóteyri í Kjós og hreppstóri þar í sveit, sigldi nú upp á áliðnum degi til lendingar einnar þar við „Tangabúðina" „Bjeringstangann") í Brunnastaðahverfinu, var hann að sögn eigi frekar en svona vel hlaðinn af fiski, virtist reyndar komin kvika nokkur í sjóinn, enda sagði hann til háseta sinna, — þar sem hann sat undir stýri á uppsiglingunni „sitjið nú laust heldur og liðugt piltar, þegar þessi kemur", og í sama vetfangi reið holskefla, er hásetar eigi höfðu tekið eftir á skipið, og tók upp í mið siglutrén; færðist þá skipið óðar í kaf og hvolfdi síðan, en alla mennina tók útbyrðis; komust þeir þá brátt á kjöl nema Pétur formaðurinn, honum skaut aldrei upp svo að sæist; en um skammt kom nýtt ólag og skolaði þeim öllum af kjölnum, en þó náðu þangað 2 þeirra í annað sinn, og var þeim báðum einum bjargað og það með miklum dugnaði og fylgi af Magnúsi Eyjólfssyni bónda í Lykkju, er var fyrir nokkru lentur, en varð undan öllum öðrum til að manna skip sitt og fara út, en atburður þessi varð talsvert frá landi. — Að meðtöldum þeim 2 Skagfirðingum, er fórust á Mýrarhúsabátnum og getið var í síðasta blaði og þeim 4, er fyrr var getið að út tók af strandskipinu Cauchoise, þá hafa hér farist í sjó samtals 35 manns í veiðistöðvunum innanverðan Faxaflóa um næstl. ½ mánuð.

Enn segir Þjóðólfur af skiptöpum - bæði 16. og 30. apríl og svo í samantekt þann 18.maí:

[16.apríl]: Af skipströndunum vestur um Mýrar er það enn fremur að segja, að brátt eftir að þau tvö frakknesku fiskiskipin, sem fyrr var frá skýrt að orðið hefði að skipbroti, nóttina milli 28. og 29. [mars], og sem hétu annað St. Joseph, frá Portrieui, og hitt Puebla frá Dieppe — það var nálægt Gömlueyri á Mýrum, og þar björguðu skipverjarnir sér á land, — sannspurðist, að 20 lík af frakkneskum sjómönnum væri fundin rekin vestur um Staðarsveit, og hið 21.? nokkru vestar og all-langt frá, svo að auðsætt þykir, að þar um slóðir hafi hlotið að farast hið 3. skipið; og enda eigi líkindalaust, að jafnvel 4. skipið hafi tapast hér við austanverðar Mýrarnar, þar sem um framanverða fyrri vikuna hafði rekið farvið og annað góss á land við Hjörtsey og þar umhverfis, en ekki þykir það geta verið neitt af Gömlueyrarskipunum, og því síður hinu, sem dauðu mennirnir reknu voru af, sakir þess að veðurstaðan hafði verið þar, eins og hér var, öll af austurátt. — 12.? þ.m. rak frakkneska fiskiduggu, „L'Independent" upp undir Býasker á Miðnesi, skipverjar höfðu verið 21, og drukknuðu 7 þeirra, og varð að strandi. — Samtals 9 frakknesk fiskiskip hafa hleypt hér inn undanfarna daga, 4 löskuð, 2 með veika menn; 7 af skipum þessum lágu hér enn í morgun.

[30.apríl] Í [mars] fórst í hákarlaróðri skip eitt frá Finnstaðanesi á Skagaströnd, og týndust allir mennirnir, er á voru, 4 að tölu, og var mannaval að dugnaði, eftir því sem sagt er; formaðurinn var Sigurður Guðmundsson frá téðum bæ; ... Skiptapinn frá Keflavík undir Jökli, sem fyrrvar getið, bar að fimmtudaginn 20.janúar, með þeim atvikum að skipið var í sátri þennan dag fyrir fisk, og var nýbúið að vinda upp segl til að halda til lands; strax við fyrsta „rið" (sjó) hálffyllti skipið, svo formaðurinn, Bjarni frá Drápuhlíð, skipaði dragreipismanninum, er heitir Jón Sveinsson, kenndur við Hóla í Helgafellssveit, að „lækka", en stóð fast fyrir honum í blokkinni, svo að eigi lét að, reið þá samstundis að skipinu annað "riðið" og hvolfdi því þá þegar; von bráðar komst yfirborð skipverja á kjöl, en skipið tók þá veltu og alla mennina af kjölnum; en einir 3 náðu aftur að komast á kjöl, er Hákoni formanni frá Hellu þar í Keflavík (heldur en á „Sandi"), sem þar lá fyrir fisk eigi alllangt frá, auðnaðist að bjarga fyrir snarræði sitt; hann var að „draga lóðina", er hann sá skipið á hvolfi, og mennina á kjölnum, skar hann lóð sína í sama svip, og tók stjórann og fór sem hraðast þangað, er hinir voru í lífsháskanum; það var formaðurinn og dragreipismaðurinn, er fyrr voru nefndir, og Jón Gíslason frá Orraholi á Fellsströnd hinn 3. En hinir 6 drukknuðu allir.

[10.maí] Eftir því sem spurst hefir og minnst hefir verið smám saman í undanförnum blöðum Þjóðólfs, hafa um þá 3 næstliðnu mánuði af þessu ári drukknað í sjó samtals 62 manns; 46 hér á Suðurlandi, 8 norðanlands og 8 vestanlands.

[18.maí] Um skipaströnd frakkneskra fiskimanna fyrir Mýrasýslu og Staðarsveit í mannskaðaveðrinu 23.—29. mars, eftir að búið var að ganga og kanna rekana til hlítar strandlengju frá Miklaholti og út að Vatnsholtsá, og að selja allt, sem að landi bar, við opinbert uppboð dagana 20, 21. og 22. [apríl] ... þykir nú helst mega ráða, eftir því sem frá er skýrt í Stykkishólmsbréfum 4.-5. [maí], að fiskiskip þau, er hafi farist þar um slóðir, hafi verið samtals 6, auk þeirra 2, er fórust fyrir Gömlueyri og fyrr er frá skýrt. Alls ráku þar vestra 28 lík, er öll voru jörðuð að Staðastað; aðeins eitt líkið þekktist af fingurhring úr gulli, er sá maður bar, því innan í hringinn var grafið „L.le Corf", efnaður skipstjóri að sagt er, enda hafði einnig fundist á honum talsvert af gullpeningum. Eigi fundust reknar nema 2 fjalir, er bæri með sér nöfn skipanna, önnur í Miklaholti með nafninu Louis Philippe", hin vestar með nafninu „Josephine Binic“.

Apríl. Mjög kalt um tíma, en skánaði heldur þegar á leið. 

Norðanfari birti þann 1.júní fregn eftir bréfi úr Garði í Kelduhverfi, dagsett 26.apríl:

Á þriðjudaginn þann 12. [apríl] var í blíðviðri, sólskini og hægri sunnanátt, þilskipið „Veturliði" — eign ekkju Aðalbjargar Halldórsdóttur á Bakka á Tjörnesi, sett fram til hákarlaveiða, en þegar það var nýkomið á flot, snerist veðrið til norðurs með ofsa og stórsjó, samt gátu skipverjar búið svo um, að það lá fast fyrir akkerum, fóru þá 4 hásetarnir í land, eftir þurrum fötum og fæðu handa sér og þeim sem á skipinu voru, en litlu þar eftir hvolfdist skipið í einni svipan svo brot af möstrunum fóru að reka í land. Við þetta hörmungatilfelli drukknuðu ungir og efnilegir 6 menn.

Maí. Allgóð tíð og hlý, einkum þó síðari hluta mánaðarins, nokkuð var þó kvartað um næturkulda og sömuleiðis virðist hafa verið kalt við sjávarsíðuna um landið norðanvert. 

Norðanfari segir af tíð og hafís þann 1.júní:

(Af Vesturlandi). Veturinn var þar yfirhöfuð góður, og betri fyrri hluti hans, en hér á Norður- og Austurlandi. Á þorranum voru hlaðnir grjótgarðar og nokkrir sem byrjaðir voru á túnasléttun. ... Alltaf öðru hvoru, hefir tíðarfarið verið hér (við Eyjafjörð) kalt og með smáhretum og úrkomum, og oftar meiri og minni frost á nóttunni, en dag og dag gott veður og sunnanátt til landsins, en norðan eða austan til hafsins, sem haldið hefir hafísnum nær og fjær landi og sumstaðar landföstum, því fyrir skömmu fréttist hingað, að hafþök væru af ís frá því vestan fyrir Grímsey og austur fyrir Vopnafjörð, og víða á þessu svæði ísinn landfastur.

Júní. Allslæmt hret gerði snemma í mánuðinum, síðan var veður óstillt, en varð síðan aftur betra. Sem heild var mánuðurinn kaldur. 

Þann 22.júní getur Séra Þorleifur í Hvammi í Dölum um snjóhríðarkrapa. 

Þjóðólfur segir þann 11.júní: „Alla liðna viku kalsa-norðanstormar og gaddur til sveita“.

Gangleri (ódagsettur) rekur fréttir frá 1.apríl til 30.júní:

Tíðarfar hefir verið yfir höfuð að tala mjög gott, allan seinni part vetrarins, en þó sér í lagi á Suður-og Vesturlandi; og í sumum sveitum er veðurátta talin hin besta er menn muna eftir, svo sem í milli Þjórsár og Mýrdalssands. Snjór hefir allstaðar fallið mjög lítill, en umhleypingasamt hefir oft verið og frost nokkur. Á Norður- og Austurlandi hefir líka seinni partur vetrarins mátt heita góður og einkar snjólítill, en oft hafa hörkur verið all miklar þá hafátt hefir gengið, því hafís hefir sífellt verið fyrir norðan land og það allt suður fyrir Héraðsflóa að austan. Oft hefir ísinn á ýmsum stöðum verið landfastur, en þó einkum við Langanes; enda voru verslunarskip frosin inni á Austfjörðum, og komust eigi norður fyrir land allt fram í fardaga; tíðarfar hefir líka eftir því sem sögur hafa af borist nú í vor, verið kalt, eða kaldara en annarstaðar, á öllum útkjálkum austanlands og í nyrðri hluta Þingeyjarsýslu, en þó mun nú gróður vera kominn þar hér um bil í meðallagi á öllum úthaga, en tún kvað vera lakari, því þau hafði kalið mjög af vorhörkunum. Hér um Eyjafjörð, og víðar er til hefir frést upp til sveita, má fullyrða að grasvöxtur sé kominn í betra meðallagi, svo til góðs grasárs horfir, enda hefir grasveður oftast verið allgott, því þótt stundum hafi verið nokkuð kalt, þá hafa þó oftast komið hlýindi upp á og vætur góðar. Seinustu vikuna af maímánuði var hér hiti mikill, svo hann náði allt að 20 gr. á R [+25°C], en úr hvítasunnu [5.júní] eða hinn 8. [júní] og allt fram yfir trínitatis [12.júní] kólnaði mikið; gjörði þá snjó dálítinn, bæði á útkjálkum og fram til dala með frosti um nætur; síðan og til Jónsmessu hefir veðurátta líka verið heldur köld og óstillt, en nú hlýtt orðið aftur; í kuldum þessum kom nokkur kyrkingur í grasvöxt, en þó eigi mikill, því gróður var orðinn kjarkmikill.

Norðanfari segir fréttir af veðri og skepnuhöldum 27.júlí - og birtir úr bréfum:

Veðuráttan hefir yfirhöfuð í vor, verið hér á Norðurlandi oftast þurr en köld og stundum meiri og minni frost, einkum til fjalla og uppsveita; grasvöxturinn er því minni en horfur voru á um hvítasunnu [5.júní], einkum á mýrlendi; jörð er líka sumstaðar kalin. Tún og harðvelli er sagt víðast sprottið í meðallagi. Skepnuhöldin eru hér að kalla hvarvetna hin bestu. Málnyta er víðast sögð í meðallagi. Flestir byrjuðu nú heyskapinn með fyrra móti.

[Borgarfirði 24.júní] Vetur og vor í betra lagi, þó hefir oft í vor verið næðinga- og frostasamt einkum á nóttunni hér upp til fjallanna, og grasvöxtur því fengið hnekki, ekki síst utantúns.

[Reykjavík 24.júní og 1.júlí] Tíðin er indæl bæði til sjós og sveita, en ákaflegur grasmaðkur er sagður í Mýrdal austur og í Rangárvallasýslu, sem eyðileggur allt gras bæði á túnum og útjörð.

[Seyðisfirði 1.júlí] Veðuráttan hefir fram um mánaðamótin verið mjög storma- og vætusöm, en nú lítur út fyrir umskipti til batnaðar.

Júlí. Votviðrasamt syðra, en þurrara um landið norðaustan- og austanvert. 

Norðanfari birti þann 17.september bréf úr Berufirði, dagsett 29.júlí:

Almenn umkvörtun er undan grasbresti, og kenna menn kuldakasti um eða eftir hvítasunnuna [5.júní]. Aflast hefir nokkuð vel síðan fór að sumra. Æðarvarp hefir brugðist.

Ágúst. Heldur votviðrasamt suðaustanlands, en annars betri tíð. Hlýtt var í veðri, nema e.t.v. við sjávarsíðuna nyrðra og eystra. 

Norðanfari birti þann 17.september bréf að austan, dagsett í ágúst:

[Norðfirði 18.ágúst]: Grasvöxtur í rýrara lagi á túnum og eigi meira enn í meðallagi á engjum, harðvelli varla í meðallagi. Málnyta rýr hjá almenningi. Heyskapartíð góð, nema þessa viku óþurrkar.

[Fáskrúðsfirði 24.ágúst]: Mesti grasbrestur er á túnum og engjum, og versta ótíð af stormum, kalsa og rigningum í allt vor.

[Reyðarfirði 31.ágúst]: Mestu óþurrkar hafa verið hér í Reyðarfirði og fáir hafa náð töðu sinni óskemmdri, en í næstu sveitum hefir gengið betur, þar sem þokan ekki hefir skyggt á jörðina. Afli er hér út í firðinum, en lítill innar.

September: Fremur kalt og úrkomusamt. Síðari hlutinn hlýrri. Mikil hvassviðri gerði í mánuðinum.

Þann 7.september segir séra Þorleifur í Hvammi: „Kóffjúk og alsnjóa að nóttu, blindél“.

Gangleri - ódagsettur - rekur tíðarfar frá júlí fram til septemberloka:

Tíðarfar hefir yfir höfuð að tala, mátt heita í meðallagi gott. Í Skagafirði og Eyjafirði var tíðarfar hið besta allan júlímánuð og fram í miðjan ágúst, á þeim tíma heyjaðist líka vel í téðum sýslum og nýting varð hin besta; en á þeim tíma hafði á Austfjörðum og á Suðurlandi og allt norður í Húnavatnssýslu verið heldur votviðrasamt, svo hey manna höfðu hrakist nokkuð, og á Suðurlandi allmikið. Seinnipartur ágústmánaðar var hér nyrðra nokkuð vætusamur, en þann tíma hafði betri þerrir verið á Suðurlandi og annarstaðar þar sem óþurrkar voru áður. Eftir höfuðdag gjörði hér á Norðurlandi allmikið hret, er hélst til hins 10. september, með norðaustan hafátt, úrkomu mikilli og snjóhríð á fjöllum og það víða allt ofan í byggð, féll þá svo mikill snjór, að víða var ófært yfir fjöll, og við skaða lá með afréttarfé; en snjóinn tók brátt upp aftur, svo ekki hefir fé drepist það teljandi sé. Hret þetta gjörði mikinn hnekkir með heyföng manna, þar víða varð eigi verið við heyverk um viku og þar yfir. Um 10. þ.m. hefir líka kalt verið á Suðurlandi og gjört þar töluvert frost, svo t.d. tjörnin við Reykjavík hafði skænt nokkuð og ekki tekið af í tvo daga. Seinnipart mánaðarins hefir verið góð veðurátta, og oftast nær sunnan og vestan hlýindavindar, svo allir hafa náð heyrum sínum vel þurrum; en stundum hafa komið ofsaveður, t.d. hinn l. svo við tjóni hefir legið sem síðar mun sagt. Eftir því sem fregnir hafa af borist, má víst telja heyafla manna í fullu meðallagi, nema ef vera skildi á einstaka útkjálka þar sem grasvöxtur var rýr.

Aðfaranóttina hins 21. september og allan þann dag og aftur fram á nótt var fjarska sunnan- og vestan veður, fauk þá allvíða nokkuð af heyjum, — sem komin voru þó undir þak, — bæði hér og um Skagafjörð; líka fuku þök af húsum og stykki úr veggjum. Tvö timburbús höfum vér frétt að raskast hafi á grundvelli sínum, annað var kirkjan á Sjávarborg í Skagafirði, hafði hún næstum farið af grundvellinum; hitt var allstórt timburhús í Syðrihaga vestanmegin Eyjafjarðar.

Þjóðólfur segir þann 11.nóvember frá skipstrandi þann 15.september:

[Þ.15. september] þegar jagtin Vilhelmin Söeborg, skipstjóri Heinzemann, eign agents H.A.Clausens í Kaupmannahöfn en fermd með 190 tonnum hákarlslýsis er kaupmaður Sveinn Guðmundsson átti, lá seglbúin til Hafnar þar rétt fyrir utan skipaleguna við Búðir, rak hana þar í land, í hvassveðri, og laskaðist svo að ekki var sjófær svo að selt var bæði skip og farmur við uppboðið; mennirnir komust allir af lífs og heilir.

Norðanfari segir af tíð þann 17.september:

Síðan fyrir höfuðdag hefir hér verið mikil ótíð, fyrst rigningar og síðan fannkoma, svo sumstaðar varð alhvítt í byggðum. Víða til fjalla og afrétta kvað vera illkleyf fönn, svo líklegt þykir að fé hafi þar fennt, og í illviðrunum mikið hrakast. Sumstaðar er og kvartað yfir dýrbíti. Fyrir áfellið voru bestu horfur á því að fé mundi verða hið vænsta og gott til frálags. Vegna óþerranna og ótíðarinnar, sem nú er búin að standa í meir enn hálfan mánuð, er víða sagt fjarska mikið úti af heyjum, svo ef þau hrekjast mikið eða nást ekki, hnekkir það mjög heyaflanum; en það er að vona, að úr þessu rætist, og að enn sé í haust góð tíð fyrir hendi. Eftir seinustu fréttum að sunnan, þá hættu óþerrarnir þar, þegar þeir byrjuðu hér, og menn náðu þá heyjum sínum þar meira og minna hröktum, og töðurnar sumstaðar forskemmdar, jafnvel maðkaðar.

Norðanfari birti 29.október fréttir úr bréfum sem rituð voru í september:

[Að austan - ótilgreindur staður, 8.september] Héðan er allt að frétta bærilegt — tíð og heilsa manna um þessar mundir — því þó nú hafi gengið óþurrkar og kuldar rúma viku þá er það lítið að telja þegar minnst er hinnar löngu blíðu, sem var hér alla tíð síðan í 8. viku sumars. Það er ein hin stöðugasta blíðutíð, sem ég man eftir. Frostin sem komu eftir hvítasunnu [5.júní] kyrktu grasvöxtinn, svo lítið spratt lengi á eftir og varð mikill grasbrestur, en alltaf var að spretta fram undir höfuðdag, svo sum jörð varð á endanum sprottin í meðallagi, einkum þurrlendi. Mýrar hafa verið mikið lélegar hér á uppsveitum, nema þar sem vatn hafði staðið yfir framan af, þar spratt með besta móti. Fyrir grasbrestinn eru heyföng heldur lítil enn þá, mun verða í meðallagi ef það hirðist sem nú er úti. Í þessu hreti hefir snjóað á öll fjöll og víða í byggð. Lengi voru óþurrkar hér í Suðurfjörðum, meðan blíðurnar stóðu, þokur og úðar, þegar þurrviðri, hiti og sólskin var í Héraði.

[Melrakkasléttu 17.september] Síðan snemma í júlímánuði og til þess viku fyrir höfuðdag, var hér þægilegt tíðarfar, oftast suðaustlæg átt, en úr því gekk í hafhryglu með áhrunarigningum og kulda, sem fór vaxandi, og 5. [september] féll snjór yfir fjöll og byggð, en þetta varaði skamma stund, því næstliðna viku hafa gefist frægustu þerrar, svo bæði taða og úthey, sem úti var í áfellinu, hefir fengið bestu hirðingu. Grasspretta varð á endanum í meðallagi á úthaga, en vellir bráðónýtir af kali vegna vorkuldanna, voru þó geymdir venju framar eftir sprettu.

[Suðurlandi 12.september] Mikill hefir verið munurinn á veðrinu fyrir norðan og hér í sumar; fyrir norðan hafa verið þurrkar og æskilegasta veður, en hér einlægar svækjur og rigningar nálega í 2. mánuði, eða í júlí og fram yfir 20 ágúst. Síðan hafa hér verið þurrkar og kuldar, og frost nálega á hverri nóttu.

Þjóðólfur rekur veðráttu sumarsins í pistli þann 26.september - og segir einnig af ofsaveðri og skipströndum:

Hér á Suðurlandi, að minnsta kosti austur að Skeiðará, hófust rigningar og óþurrkar með lognmollum þegar í byrjun sláttarins, seint í 13. viku sumars, og hélst sama veðrátta við hundadagana út, svo að almennt má segja, að varla var baggi nokkurs staðar í garð kominn 23. ágúst, og leiddi af því, að töður allar voru meir eða minna hraktar, og jafnvel skemmdar, nema þar sem snemma var tekið til sláttar, svo sem í Viðey og á Bessastöðum. Sama veðurlag gekk yfir Borgarfjörð og allt Vesturland og vestari hluta Húnavatnssýslu; þó voru undantekningar nokkrar, svo sem hér í Kjósinni og fram til dala í Borgarfirði; þar komu flæsudagar svo, að töður náðust þar mjög lítt hraktar. Í Múlasýslum aftur á móti og mestum hluta Norðurlands er sagt að hafi verið þurrkatíð góð allan túnaslátt og nýting á heyjum hin besta. Að hundadögunum liðnum þornaði hér upp, og varð hér hin besta nýting á útheyi 3 vikna tíma; en nú hefir hinn síðasta hálfan mánuðinn aftur brugðið til óþurrka, svo að heyskapur varð sökum þess mjög endasleppur. 4.—11. [september] var hér norðanstormur allmikill og kuldi, og snjóaði þá aðfaranótt hins 7. talsvert niður eftir Esjunni; en í Þingeyjarsýslu og Eyjafjarðarsýslu snjóaði um þá dagana svo á fjöllum, að kviðsnjór varð, en slyddubylur í byggðum, en sagt er, að minna muni hafa orðið úr snjókomunni þar vestur undan.

Nóttina milli 21. og 22.[september] kom hér syðra slíkt ofsaveður af suðri, að menn minnast varla slíks, og hélst mestallan hinn 21. Skip það, sem getið er um hér á undan að komið hafi hingað til konsúls Smiths, lá hér á höfninni, og var aðeins búið að flytja úr því um 200 tunnur salts; en milli hádegis og dagmála tók það að reka undan, og var þá höggvið úr því annað siglutréð, en það hjálpaði eigi, og rak skipið upp á sker við Engey sunnanverða, og laskaðist þar, svo að mest það salt, sem í því var, rann í sundur og ónýttist, og við skipið eigi gjörandi hér. Skip kaupm. W. Fischers, Nancy, skipstjóri H. Fischer, sem kom frá Liverpool hinn 19.þ.m., hlaðið með salt, hamp og steinolíu, lá þá á Vogavík syðra, með því að flytja átti nokkuð af saltinu þar í land, en skip þetta rak upp þegar um nóttina, skömmu eftir að ofviðrið datt á, og rak á land, og brotnaði svo og skemmdist, að eigi varð sjófært. Hampurinn náðist allur, en saltið fór mestallt, og munu bæði þessi skip að líkindum verða seld við opinbert uppboð, og salt það, sem bjargað hefir orðið. Stórskaðar hefir enn eigi frést hingað að orðið hafi aðrir af óðviðri þessu, en hér á nesinu tók upp nokkur skip og báta, er löskuðust; trjágrindur féllu hér víða um í bænum, og helluþak reif hér nokkuð á einu húsi. Skip lá á Eyrarbakkahöfn, og slitnuðu festarnar, er það var bundið með í skerin og kastaði sjórinn því síðan langt á land upp; er reyndar sagt, að það sé heilt að öðru en því, að undirkjölurinn hafi farið undan, en óvænt þykir, að það verði sett á sjó, og muni því verða höggvið upp.

Október. Hlýtt í veðri. Rigningasamt austanlands, en lengst af þurrviðrasamt á Vesturlandi. 

Norðanfari greinir frá tíð í pistli 29.október:

Frá því 12. september næstliðinn og til þess 16. [október], var hér norðanlands stöðug sunnanátt og veðurblíða og suma daga 10—16 stiga hiti á R [13 til 20°C]; en þann 17. brá til norðanáttar, úrkomu og snjóa, svo víða kom mikil fönn í byggðum, og að sínu leyti meiri til innsveita og dala enn á útkjálkum, Nóttina hins 19 þ.m. var 8 gr. frost. Frá þeim degi fór veðrið að hlýna og sjaldan verið frost, en úrkomur fleiri daga, svo snjóinn tók upp í byggðum að mestu. Dagana 23.—25., var hér aftur öll þau dægur stórrigning, en snjókoma til fjalla. Af Suður-og Vesturlandi hefir nýlega frést hingað, að þegar góðviðrin gengu hér, þá hafi þar verið mikil ótíð í hvassviðrum og rigningum. Vegna hinnar hagstæðu veðuráttu, er var hér norðanlands yfir allan heyskapartímann, nema áfellisdagana í september, urðu heyföng manna víðast með meira móti, og nýting á þeim nálega allstaðar með besta móti. Ofsaveður var hér eitthvert hið mesta 21. og aftur um nóttina hins 28. [september], urðu þá víða miklir skaðar og skemmdir á heyjum og húsum t.a.m. á Kjarna í Möðruvallaklausturssókn, tók úr umbúnum heyjum 60—70 hesta af töðu og útheyi; í Syðri-og Ytri-Haga á Árskógsströnd 20—30 hesta af töðu og útheyi; á Syðrihaga ýttist stórt timburhús eitthvað til á grundvelli sínum og hefði farið um koll, ef eigi hefðu staðið sperrur við það. Á Völlum og Tjörn í Svarfafardal misstust af engjum á hverjum bænum fyrir sig, 20—30 hestar af heyi. Á Litlu-Hámundarstöðum tók baðstofuna báða veðurdagana ofan að veggjum, en skemmu alveg úr tóftinni á Stóru-Hámundarstöðum Fjós fauk á Hellu ofan að veggjum. Víða var það, sem veðrið braut minna og meira af veggjum og svipti þökum af húsum inní rjáfur og rafta. Á Kvíabekk í Ólafsfirði fuku af engjum hér um 60 hestar af heyi, og úr Gegnishólma, sem er millum Héraðsvatna í Skagafirði fuku 60 hestar af heyi. Kirkjan á Sjávarborg hafði ýst út af grundvelli sínum 6—8 álnir á annan veginn en 2 álnir á hinn.

Norðanfari birti þann 21.janúar 1871 bréf að austan:

[Breiðdal, 12.nóvember] Kuldakastið eftir hvítasunnu olli því, að grasvöxtur varð hér í minna lagi, og sumstaðar kól útjörð til skemmda en tún minna, en þó nokkuð; allt fyrir þetta hefir heyjast vel í meðallagi og góð hirðing á heyi. Um og eftir veturnæturnar gengu hér dæmafáar rigningar, svo hús hröpuðu og hey skemmdust sumstaðar.

[Norðfirði, ódagsett] Hausttíðin hefir mátt heita hin besta hér fyrir austan, að sönnu komu hér um veturnæturnar gróf rigningaköst, svo að víða hlupu skriður á beitilönd og engi manna. Flestir heyjuðu nú með betra móti.

Nóvember. Lengst af hlýtt og tíð almennt talin góð. 

Norðanfari greinir stuttlega frá tíð þann 28.nóvember:

Veðuráttan, hefir nú um tíma verið mjög úrkomusöm, og stundum stórrigning í byggð en bleytuhríð til fjalla, og nú sem stendur mun hér um flestar sveitir vera, vegna áfrefða og storku, mjög slæmt á jörð, nema fremst til dala og upp á fjöllum, hvar talsverður snjór er kominn.

Þann 20.desember fór Þjóðólfur yfir hausttíðina:

Eins og fyrr var frá skýrt, varð heyskapurinn mjög endasleppur allstaðar hér sunnanlands sakir stormviðra og illviðranna er gengu hér allan síðari helming september, en framanverðan þann mánuð urðu miklir gaddar hér syðra, en féll allmikill snjór norðanlands, einkanlega fyrir norðan Öxnadalsheiði og það austur til Múlasýslna; urðu um þær sveitir innistöður sakir snjókyngisins, og tók þar fyrir allan heyskap um rúman vikutíma. Aftur hefir allan október og nóvember mátt kalla hreina sumarblíðu til landsins og það víðsvegar yfir allt land að kalla má; eður þá víst um allt Vesturland og norður að Öxnadalsheiði, og austur til Breiðamerkursands að sunnan; úr Hornafirði eru skrifaðar miklar rigningar allan október, og svo, að nokkrir bændur áttu þar enn hey úti undir mánaðarlokin og þó engir að mun. Fyrir norðan Öxnadalsheiði gengu í fyrra mánuði [nóvember] krapaveður og bleytubylir með áfreðum þegar á mánuðinn leið, og það svo að hagskart mjög var þá orðið um Öxnadal eftir bréfum þaðan 24.[nóvember]; þá hafði þar aldrei komið meira frost en 5°R [-6°C]. En í öðru bréfi úr Skagafirði um sama mund er sögð hin besta og blíðasta tíð, svo hefir og verið allstaðar hér sunnanlands, allt fram til 16. [desember]; eigi sést snjór á jörð nema á efstu fjallatindum og frostlaust að öllu, oftari allan [nóvember]+ 5—8°R [6 til 10°C]. En sakir þess hvað töður manna nauðhröktust hér sunnanlands og í nærsveitunum hér að vestanverðu, þá er almenn kvartan yfir einstaklegum málnytubresti af kúm hér yfir allt.

Þess hefir og verið ógetið, af því engi vísbending kom um það til Þjóðólfs fyrr en nú um veturnæturnar, að næstliðinn vetur urðu 2 menn úti vestanlands, vinnumaður frá Rauðamel ytri, og kvenmaður einn á Fróðárheiði; hvorugt þeirra nú fundið um byrjun október.

Desember. Fremur hlýtt framan af og tíð almennt góð. Heldur síðra er á leið og fennti þá nokkuð fyrir norðan. 

Gangleri segir frá tíð í ódagsettum pistli undir lok árs:

Tíðarfarið hefir mátt heita hið besta allt til skamms tíma, og einkar frostalítið, allstaðar þar sem til hefir spurst. Hér norðanlands var góð hláka fyrripart októbermánaðar, en síðan stilling og dálítil frost til hins 24., að þá gjörði norðaustan hafátt og rigningar miklar í byggð, en snjóhríð á fjöllum, og hélst það því nær til mánaðarloka. Með nóvembermánaðarbyrjun þiðnaði aftur svo alla fönn tók upp og ár urðu marþíðar sem á sumardag; síðan kom stilling, oftast góðviður og frostlítið til hins 20., að þá gjörði norðaustan bleytuhríð; kom þá fönn allmikil á fjöllum og áfreði í byggð, svo jarðskarpt varð nokkra daga. Þá þiðnaði aftur um mánaðamótin, svo alla fönn tók upp og ís rann af ám og vötnum; frysti svo og hélst góð tíð til hins 11.desember, að þá gjörði fannkomuhríð af norðri, er haldist hefir að öðru hvoru til hins 20.; allmikill snjór er því nú kominn hér nyrðra, en beit er þó víða allgóð, þar sem til jarðar nær, því snjó þenna lagði á í hreinu. Frá því um sólhvörf í fyrra, að tíðarfar gekk til batnaðar, hefir árferðið mátt heita mjög gott og afleiðingasælt, bæði hvað veðuráttu og afla hefir snert.

Norðanfari birti þann 27.febrúar 1871 úr bréfi úr Múlasýslu þar sem farið er yfir tíðarfar ársins 1870 þar um slóðir:

Árið, sem nú er nýliðið, var eitt hið besta sem lengi hefir komið yfir okkur hér á Austurlandi í flestum sveitum. Frá því batinn kom um og eftir þrettándann í fyrra vetur, var jafnan auð jörð eða nógar jarðir í flestum sveitum hér og vetrarveðrátta harla góð allan veturinn það eftir var — fór snemma að gróa og skepnur gengu furðu vel undan, svo bágur sem undirbúningurinn var í fyrrahaust — féð margt og heyin lítil og skemmd. Um sumarmálin komu bleytu snjóveður og fraus krap, og snjódriftir, einmitt þegar gróðrarlíf var komið í rætur. Af þessu kól tún býsnamikið og eins þurrlendi í úthaga einkum í sumum fjarðasveitum og töluvert í Héraði. Eftir það var vorið eitt hið besta og lánaðist sauðburður vel. Var kominn mikill gróður um hvítasunnu [5.júní]. — En þá gerði kuldakast með snjóhreytu og næturfrostum. Þetta kyrkti grasvöxtinn og sýndist lítið spretta einar 3 vikur á eftir, þó tíð væri hin blíðasta. Fyrir þetta varð grasvöxtur lítill víðast hvar nema á vatns- og flæðiengjum, sem vatn lá yfir í frostunum. Sumartíðin var og hin allrabesta í Héraði, en þokur og muggur víða í fjörðum, svo töður hröktust meinlega. Í Héraði varð heyjanýting hin allrabesta, en heyin lítil. Um höfuðdag kom illviðrakast með snjó í byggð á sumum stöðum. Mátti þó víðast vera við heyskap nema 1 til 3 daga og losaðist víða töluvert af heyi. Eftir það komu bestu þurrkar og blíðutíð frameftir haustinu. Hirtust heyin vel. Um haustverslunartímann var og lengst af besta tíð. Undir vetur komu rigningar einkum í fjörðum, en síðan öndvegistíð og hélst hún lengst af það sem eftir var ársins — og var varla neinstaðar gefið fé nema lömbum, fram að nýári. Létt þykja mönnum heyin.

Norðanfari birti þann 13.júlí 1871 þýðingu á bréfi [J.H.=Jón Hjaltalín?] sem birtist í Berlinske í Kaupmannahöfn 17.nóvember 1870:

Reykjavík 12. október 1870. Bæði síðastliðið sumar og haustið, sem nú er þegar á enda, hefir verið mjög gott hér á landi. Hitinn var óvenjulega mikill, og jafnvel þótt næstum sífelldar þokur og rigningar hnekktu heyskapnum nokkuð, varð hann þó allgóður, því að í lok ágústmánaðar létti rigningunum, og í septembermánuði var mjög þægileg og hlý veðrátta; á Norðurlandi varð heyskapur jafnvel með besta móti, því að þar verður jafnan minna af rigningunum, með sunnanátt en á Suðurlandi, og valda fjöllin því: þau liggja í útnorður og austur, og dregst því regngufan frá sjónum sunnan að þeim og á það sér og stað í öllum löndum, þar sem fjöllin liggja í austur og vestur eð í útnorður og landsuður. Hin stöðugu, hlýindi og miklu rigningar á heitasta tíma árs hafa gjört það að verkum, að menn muna eigi til að svo vel hafi leyst af fjöllum sem í sumar. Hitinn í sjónum var og í meira lagi (í ágústmánuði komst hann upp í 12°R [15°C]), og hefir hann sjálfsagt unnið talsvert á hafísnum frá Grænlandi, sem vanur er að liggja í stórum spildum norðan fyrir landinu.

Lýkur hér að sinni frásögn og samantekt hungurdiska um árið 1870. Fáeinar tölur eru í viðhenginu.  


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Smávegis af júlí 2020

Vegna helgarinnar verða víst nokkrir dagar í hefðbundið mánaðaryfirlit Veðurstofunnar. Við tökum því smáforskot á sæluna. Mánuðurinn var í kaldara lagi - ef miðað er við aðra júlímánuði á þessari öld, víða um land er hann ýmist sá næstkaldasti á öldinni eða þriðjikaldasti. Meðalhiti í Reykjavík var 10,7 stig sem er -0,9 stigum neðan meðallags 1991 til 2020 og -1,3 neðan meðaltals síðustu tíu ára. - En reyndar er hann rétt ofan meðallags áranna 1961 til 1990. 

Á röðunarlista lendir hann í 18.hlýjasta sæti (af 20) - eða þriðjakaldasta. Lítillega kaldara var í Reykjavík í júlí 2018 og 2002. Hlýjast var auðvitað í fyrra, meðalhiti þá 13,4 stig - það var hlýjasti júlí allra tíma í Reykjavík, kaldast var hins vegar í júlí 1874, meðalhiti þá aðeins 8,4 stig, 2,3 stigum kaldara en nú. Svipað ástand var í júlí 1983 (eins og margir muna enn) meðalhiti aðeins 8,5 stig. 

Á Akureyri var meðalhiti nú 10,1 stig, -1,1 stigi neðan meðallags 1991 til 2020, en -1,3 neðan meðaltals síðustu tíu ára. 

w-blogg010820a

Taflan sýnir röðun hitans meðal júlímánaða 2001 til 2020 á spásvæðunum tíu. Á Suðausturlandi raðast hitinn við meðallag, í 16.sæti á Suðurlandi, en annars í 18. eða 19.sæti. Á svæðinu frá Breiðafirði norður og austur um til Suðausturlands, auk Miðhálendisins er júlí 2015 sá kaldasti á öldinni, en 2001 á Suðurlandi og 2002 við Faxaflóa. 

Hiti í mánuðinum var rétt ofan meðallags á fáeinum stöðvum suðaustanlands. Jákvæða vikið miðað við síðustu tíu ár var mest á Ingólfshöfða, +0,4 stig, en neikvætt vik var stærst á Vatnsskarði eystra, -2,3 stig. 

Úrkoma var í meðallagi í Reykjavík, en nokkuð ofan við á Akureyri. Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 209,7, (óyfirfarnar mælingar) og er það um 30 stundum fleiri en að meðaltali síðustu tíu árin. 

Það sem var e.t.v. óvenjulegast í mánuðinum var fjöldi frostnótta á landinu, 13 talsins. Oftast var ekki frost víða hverju sinni en heildarfjöldinn verður að teljast óvenjulegur. Ný mánaðarlágmarksmet voru slegin allvíða. 

Ritstjórinn mun e.t.v. bæta fleiri upplýsingum við þennan texta um helgina.


« Fyrri síða

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 20
  • Sl. sólarhring: 214
  • Sl. viku: 985
  • Frá upphafi: 2420869

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 864
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband