Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2018

Af árinu 1823

Árið er ef til vill helst í minnum haft fyrir Kötlugos sem hófst 26.júní. Eyjafjallajökulsgosinu var lokið, en þó sást rjúka úr tindi hans stöku sinnum. Kötlugosið var minna en þau næstu á undan. Aska lagðist fyrst um Mýrdal og mikill vatnagangur var á Mýrdalssandi. Annað gos mun hafa orðið í Vatnajökli fyrr á árinu, en fregnir af því eru harla óljósar. Veðurdagbækur úr Eyjafirði geta reykjarmóðu um sumarið - líklega er hún tengd Kötlugosinu.

Jón Þorsteinsson mældi hita í Nesi við Seltjörn og má ráða hitafar um landið sunnanvert af mælingum hans. Svo virðist sem fremur hlýtt hafi verið þar í janúar, apríl og júlí, en kalt í febrúar, mars, maí, júní, október, nóvember og desember. Sérlega kalt var í maí - fram yfir þann 20. og einnig virðist hafa verið mjög kalt að tiltölu í október. 

Eins og venjulega er stafsetning að mestu færð til nútímahorfs. 

Annáll 19.aldar dregur saman tíðarfar ársins:

Um veturinn frá nýári var árgæska hin mesta yfir allt land, og hélst hún, að minnsta kosti syðra, fram í maí. Eftir það kom ótíð mikil með kuldum og hretum nyrðra; gjörði þann snjó um hvítasunnu {18.maí], að hestum tók í kvið á jafnsléttu og lá hann sumstaðar í fulla viku eða meir. Þurrara var þá syðra, en þó hretasamt, varð grasvöxtur víðast lítill nema undir Eyjafjöllum og þar í grennd. Mátti hann kallast þar í besta lagi. Nýting var góð syðra, en hin bágasta nyrðra. Kom snjór snemma um haustið og urðu hey víða úti. Var síðan hörð tíð til ársloka. 

Ís kom seint í júní og lagðist um Vestfirði og norður með landi. Eystra og syðra var hlutatala í hæsta lagi og eins undir Jökli, en víða var fiskur talinn í rýrara lagi að vexti. Í apríl voru nær 150 smáhveli rekin á land í Njarðvíkum og á Vatnsleysuströnd, í september álíka mörg á Útskálareka, og viku síðar 450 á Seltjarnarnesi [þ.17.]. Fuglaafli við Drangey í betra lagi. 

ar_1823t

Grái ferillinn á myndinni sýnir hitamælingar utandyra, en þær sem merktar eru með rauðu sýna hita í óupphituðu herbergi á norðurhlið Nesstofu. Við sjáum að ferlarnir fylgjast gróflega að, en sveiflur eru mun minni inni við heldur en úti. Sömuleiðis virðist húsið halda allgóðum varma í haustkuldunum. Árið 1823 mældi Jón hita um hádegið. 

Kuldakastið í maí sker sig nokkuð úr, þá fór frost á útimælinum í -5 stig. Sömuleiðis eru júníkuldaköstin nokkuð snörp - það fyrra ofan í góð hlýindi í síðustu viku maímánaðar. Hiti var yfir 15 stigum á hádegi á hverjum degi mestallan júlímánuð. 

ar_1823p

Loftþrýstingur var lengst af mjög hár í janúar, meðaltalið hefur ekki mjög oft verið hærra, en í febrúar og mars var tíð órólegri. Óvenjulítil hreyfing var á loftvog í apríl og maí, en  um miðjan júní komu nokkrir dagar með óvenjuháum þrýstingi. Mögulega hefur þá orðið mjög hlýtt í innsveitum - alla vega einhvers staðar á landinu. 

Brandsstaðaannáll:

Sama veðurblíða hélst í janúar. Fyrri part febrúar gerði frost og snjó, en gott jarðlag, seinni part blotar og og góðviðri. Í mars óstöðugt, lengst þó allgott. Hríðarkast í góulok um 3 daga, svo góðviðri á eftir og auðar heiðar.

Með sumri, 24. apríl, kom norðanfjúk og kuldi með hörku, svo féð var inntekið á gjöf til hvítasunnu., 18. maí. Mikla hríð gerði 2 maí og stórhríð laugardag 17. maí. Eftir það gott veður og gróður.

Aftur með júní frost og norðankuldar um 9 daga, svo lítill gróður dó út af, síðan oft vestanátt, hvöss og köld og aftur milli messna [þ.e. Jónsmessu, 24, júní og Pétursmessu og Páls, 29. júní] frost og hret, er víða frestaði fráfærum, með (s88) norðanstormi, er verndaði landið fyrir sandfalli úr Eyjafjalajökli [reyndar Kötlu]. Sumir færðu frá 2.júlí og lestir fóru suður 5.-7. og almennt með allar vörur sínar. Gaf þeim vel, því sífellt voru þurrviðri og næturfrost. Mesta grasleysi var nú þegar yfir allt. Sláttur byrjaði 28.júlí. Hafði slíkt grasleysi ei orðið 21 ár. Þurrkar, kuldar og þokur gengu til 24.ágúst, eftir það sunnan-og vestanátt, þó sjaldan rigningar.

Í göngum 14. sept. mikið hret og snjór um 4 daga og votviðri á eftir. Síðslegið hey náðist 1. okt. Þar eftir þurrviðri og miklar hörkur, 15.-16. okt þíða, svo óstöðug vestanátt til 27., þá hríðar og hörkukast 9 daga, þaðan mjög rosasamt með vestanátt og ofsaveðrum. Jólafasta hin versta, með hríðum úr öllum áttum. Mikill áhlaupsbylur þann 11. Hrakti fé víða og menn kól. 7. des spillibloti og 21. jarðleysi. Hross víða tekin inn. Hér með kom varla kafaldslaus dagur. ... Hey voru sáralítil. (s89) 

Klausturpóstur Magnúsar Stephensen lýsir tíðarfari ársins 1823 allnákvæmlega í nokkrum pistlum. 

Klausturpósturinn 1823 (VI, 3, bls.46)

Sérlegasta árgæska til lands og sjávar, mildasta og besta vetrarfar, og ríkuleg blessan af sjó gleður í ár allt Ísland. Veturinn, sumri líkur, framfleytir skepnunum við bestu hold og höld. Sjórinn hleður nú þegar veiðistaðanna fiskiskip austan- sunnan- og vestanlands óvenjulega snemma, mikilfengum afla. Eyjafjallajökull vonast að mestu genginn vera til gamallar hvíldar. [...] Óheillir spyrjast og fáar: Þó brann nokkuð af bæjarhúsum Sigmundarstaða í Borgarfirði. Ein kona skammbrenndi sig þar og 6 gemlingar köfnuðu í þeim.

Klausturpósturinn 1823 (VI, 4, bls.62)

Mildi og blíða vetrarins viðhelst, en fiskiafli tjáist lítill enn þá austanmeð, eður í sunnanverðu landi. Í Faxafirði samt víða dágóður, enn þótt af rýrðar fiski. Hér um 150 smáhvalir vóru reknir á land á Strönd og í Njarðvíkum. Í febrúar sáust reykjarmekkir í óbyggðum uppundan Síðusveit í Vestur-Skaftafellssýslu, hér um 4 mílur þaðan rétt í norður eða norðaustur; halda menn þar framkomin ný eldsupptök í Skaftárjökli nálægt fornu eldgos opi hans, en vita þó enn ógjörla staðinn. Ennþá fara samt hingað litlar sögur af því nýja gosi, nema að þann 14. febrúar féll með norðanstormi nokkur aska gráleit á Síðumanna- og Skaftártungusveitir. Máski lendi þar við, eða það verði vægt, sem Eyjafjallajökuls, hvers óskaðnæm dampa-gufa sést enn við og við.

Klausturpósturinn 1823 (VI, 6, bls.97)

Sú vetrarblíða og sá ríkulegi fiskiafli, sem ég í no.4 á bls.62 nefndi, viðhéldust stöðugt til þess í maí, en í þessum mánuði gjörði langsöm, hörð áhlaup með sífelldum stormum, kulda steytingi, frostum og um sjálfa hvítasunnu miklum kafalda og snjóa kyngjum allvíða; allur fénaður fékk þá í mörgum héröðum innistöður; hey og útigangur, þó nægir hagar og góð vetrar veðurátt stöðugt héldust við, reyndust mjög þrotalétt, uppgangssöm og dáðlaus; fénaður þreifst sárilla víða; lömb og ær féllu hrönnum í ýmsum sýslum; hross gengu mögur fram, en nokkur féllu; mjólk gafst óvíða af heyjum. Fiskiafli þar á mót varð hinn frábærasti austan- og sunnan-lands, rétt við landssteina, eins kringum Snæfellsjökul; fiskur þó allstaðar magur og rýr. Undir Eyjafjöllum þreifst útiganspeningur betur, en kýr sárilla, og urðu þar nokkrar sem víðar, reisa, hvað sumir eigna þar liða- og beinaveiki. [Hér fylgir frásögn af leiðangri Magnúsar Sigurðssonar á Leirum á Eyjafjallajökull á hvítasunnu 19. maí].

Klausturpósturinn 1823 (VI, 7, bls.111)

Frá vorri eyju er fátt gleðilegt að fregna. Ógæftir í vor gjörðu afla af sjó víða sár-rýran. Sífelldur kuldasteytingur og þurrkar til þessa – í flestum héruðum – gróðurlausa jörð, nema í Eyjafjallasveit, hvar hann frábær gafst, en málnytin annarstaðar víða sár-gagnlausa til þessa, hvará bætist að hafísar seint í júní umspenntu Vestfirði, en ekki er enn sannfrétt um norðurstrendur Íslands, eða um Austfirði, og reyndust hestar því mörgum sár-magrir og þróttlausir, eftir þann milda vetur. Nýr, óttalegri jarðeldur tjáist, þann 22ann junii þ.á. uppkominn í Mýrdalsjökli, sem sést hefir glöggt bæði úr Vestmannaeyjum og Árnessýslu, en lengra að austan er fregn enn ókomin, er þetta ritast (þ. 5.júlí). Eftir afstöðunni halda og segja menn hann vera úr Kötlugjá gosinn, sem nú í 68 ár hefir þó hvílst eður frá 1755, þá gos hennar varð mjög skaðvænt. Í flugufregn er að lestarferðir úr Skaftafellssýslu senn þá teppist, vegna geysilegs falls ösku og vikurs og vatnsflóða úr jöklinum, einkum fyrir Mýrdalssveit, en til eldbjarmans má um nætur sjá jafnvel af Seltjarnarnesi. Á ný útkomið kaupskip í Hafnarfirði féll þ. 28. – 29.júní mikið af bláleitri ösku, þá í 20 mílna fjarlægð, en sannfrétt er nú þ. 6.júlí að eldgosið hafi bylt miklum jökulhlaupum fram í haf, lagt mikið af út Mýrdalssveit undir leðju og vatnsflóðu, og eyðilagt Sólheima jörð m.fl.

Klausturpósturinn 1823 (VI, 8, bls.128)

Árgangur: Sami kuldasteytingur, þurrkar, norðanstormar og oftast brunasólskin viðhelst til þessa (7. ágúst) og gjörir jörð allvíða mjög gróðurlitla, en slátt harðan og seinfæran, svo til stórfellis heyjapenings horfir í mörgum sveitum. Þurrkarnir ýttu mörgum kaupskipum snemma héðan frá landi, svo flest syðra munu farin í miðjum ágúst. [Lýsing Sveins Pálssonar á Kötlugosinu er á bls. 129] [Lýsing á ferð Séra Jóns Austmann á Mýrdalsjökul 12. ágúst byrjar á bls. 144 (9. tölublaðs)].

Klausturpósturinn 1823 (VI, 10, bls.160)

Sumarið kveður oss þegar; reyndist fyrir norðan og austan kalt og óþerrasamt, víðast hvar um land gróðurlítið, helst á mýrarjörðum, en syðra og vestra sífellt heitt og þurrt, svo taða varð mörgum rýr og brann af hörðum túnum; sumstaðar engu minni en venjulega, og sérlegasta nýting í þeim síðari landsplássum, bætti úr margra grasbresti. Á Mikaelsmessu mátti þar enn velta sér um venjuleg kviksyndi að harðvellu orðin, og í ár voru þar slegnar starartjarnir og seilur, út í hver enginn áður, sem botnlaus áræddi.

Espólín segir frá heldur hraklegu síðsumar- og haustveðri nyrðra:

CXXXII. Kap. Þá var jafnan kalt, með hríðum fyrir norðan, og áðu sumri lauk gjörði klyfjabrautir af snjóum, urðu hey úti, og tók fyrir allan heyskap fyrir norðan Yxnadalsheiði, en náðist lítið þaðan af; var hvervetna lítið heyjað, og nýtingin ill, en veðrátt stilltist aldrei eða mýktist, og tók þar við eðlilegur vetur sem þraut vetrarveður sumarsins. Afli var þó þá mikill fyrir norðan land á útkjálkum; viðrekar höfðu einnig allmiklir verið. (s 139).

CXXXV. Kap. Þá gjörði þegar óstöðugt vetrarfar, og illt til jarða fyrir norðan land, urðu sumstaðar menn úti, og horfði mjög þunglega, þó það yrði ei mjög að meini fyrir þá skuld, að gott kom á eftir seinna. (s 142).

Suðurnesjaannáll greinir frá því að skip Bjarna Sívertsen í Hafnarfirði hafi strandað í október á innsiglingunni á Naustarifi innan Útskála. Mannbjörg varð og eitthvað af farmi náðist. 

Sveinn Pálsson lýsir í skýrslu sinni um Kötlugosið (birt í Safni til sögu Íslands bls.264 og áfram) veðurlagi fyrir gosið:

Ofan á nær því frostalausan og snjóalítinn vetur, allt fram um sumarmál 1823, fylgdi í kaldara lagi vor, að framanverðu óstöðugt, snjóasamt með hörðum frostaköflum og landnorðanstormum, þá líkara lagi gróðri hér eystra nálægt fjöllum, þangað til um trínitatishelgi seint í maímánuði, að veðrið snerist upp í stöðuga norðlæga þyrringa með náttfrostum og sífeldum brælum — eða þræsingsvindum á austan eða vestan, hvort heldur loftið var þykkfengið eða heiðríkt, svo nú tók nálega fyrir gróður, er menn mest kenndu um hafísum, til hverra fréttist úr Múlasýslu, kringum Langanes til Hornafjarðar, jafnvel síðast í aprílmánuði. Vertíðarfiskirí var hér í Mýrdal í betra lagi en allt fiskikyn óvenjulega magurt og lifrarlítið, hvað þá helst var eignað þeim í fyrravetur geysandi eldi í Eyjafjallajökli, jafnvel þó menn ekki til vissu hann síðan næstliðin jól (1822) gosið hefði öðru en hvítum vatnsgufureyk. Eftir því tóku fleiri en færri á ofanverðu sumri 1822, að allur austari hluti Mýrdalsjökuls um kring og niður frá Kötlugjár afstöðu var sem lækkaði, svo ýmsir hnjúkar þar í nánd virtust komnir fram, er ei sáust áður. Þó var auðsýnileg þessu samfara einhver þurða í jökulvötnum á Mýrdalssandi allt þetta vor, fram undir hlaupið, svo að í Múlakvísl og Eyjará, sem koma undan vestanverðum Kötlufalljökli, hvar oftast hefur hlaupið, sást ekki jökulvatnslitur og lítið eitt í Leirá.

Þann 26, júní sama ár um morguninn einsog nokkra daga á undan, eindræg norðanátt, þó hér vestra ekki sérlega hvasst, en jökullinn í fullt norður frá Vík svo óvenjulega bunkaður hvítum skýjum, hverju á bak við annað og ofan á öðru eins og ofsaveður eða mesti kafaldsbylur væri í vændum, úr hverju þó ekkert varð hér, heldur fór sem sjatnandi fram um miðjan dag, gjörði hægviðri og útrænu vestra, en þó áttin væri einlæg norðan.

(s285): Þ. 19. [júlí] fóru fyrst að berast hingað fréttir úr útsveitunum [þ.e. að vestan] með heimkomandi kaupferðamönnum, seint í næstiðinni viku. Segja þeir slíka þyrringa vestra, að varla mætti sig væta á sokkaleistum í Flóa, og hvervetna sárauman grasvöxt, lengst af næturfrost, og svo kalt, að trautt höfðu menn getað haldið sér vörmum. Að norðan besta árferði og hafísar á burtu.

(s288-89): Síðasta dag júlímánaðar var svo fjallabjart, sem orðið gat, gafst þá besta sýni yfir allan jökulinn, hvar þó var tilsýndar neðan frá rótum einsog kolsvartasta, nýtt brunahraun alt vestur á Sólheimajökul, að fráteknu allra efst kringum eldvarpið, hvar auðséð var, að snjór hafði drifið, síðan eldurinn dó, líklegast sunnudaginn næstan eftir, er allan daginn var hlýindaregn í byggð niðri. Um þessar mundir skipti aftur um veðurátt, til sömu en hvassari norðlægu þyrringa, sem áður voru, og þá sjaldan að úrkomu gjörði var það snjór til fjalla, alt til hins 18. ágúst. Varð ekki á haganlegra kosið úr því sem ráða var hér í Mýrdal og Álftaveri, hvar mestum sandi hafði rignt, því nú reif hann svo öfluglega af og dreif í sjó út, að strax var sjónarlegt, víðast mundi jörð jafngóð verða. Og svo var megnt sandkafaldið um kring Sólheima þann 3. ágúst, að ekki sást til um hádaginn að lesa sunnudagshúslesturinn. Eftir þann 18. dró áttin sig meir til hafs og rigninga, og þess á milli austanstorma, hvað allt lagðist á jafntök í að sundurþvæla og burtu feykja sandinum, en láta það fínasta rigna niður í jörðina til að snúast henni upp í bestu frjóvgun eftirleiðis.

Þannig lauk nú eldgosi þessu á 28 dögum, og verður ekki annað með sanni sagt, en að það hafi gjört langminnst af sér allra þeirra, er menn nú vita og þekkja til, líklega
þess vegna, að vatnsmegnið í sjálfu eldvarpinu hefur aldrei orðið svo mikið, að brotið gæti töluvert af falljöklinum, né borið með sér fram yfir sandinn, einsog í hinum fyrri hlaupum. En í þess stað sýnist, sem fá hlaup hafi eftir skilið eins mikinn jökulaur á Mýrdalssandi, sem þetta, hækkað hann allan og fyllt alla farvegi og lágar, svo hann nú er að kalla sléttur, og virðist góðum mun fljótari yfirferðar en áður, einkum á Tunguveginum.

(s291) ... þó gjörðu hauststormarnir, sem áður er á drepið við 30.júlí, að burtu feyktu strax ógrynni þaðan af sandi, ásamt regn, frostleysur og blíðviðri frá veturnóttum allt fram á jólaföstu, er heldur mátti kalla og var gróðrar en vetrar veður, það að verkum, að bæði hestar og fé komust þar vel af veturinn næsta á eftir, ... 

Ólafur Eyjólfsson á Uppsölum í Öngulstaðahreppi segir í dagbókarfærslu (ÍBR 36 8vo) daginn sem Kötlugosið hófst (26.júní): „Krapahríð og kaldur norðanstormur fyrst, síðan hríðarél mikil“.  Þann 29. var hjá honum norðanbleytuhríð fyrst en síðan stórrigning. Dagana þar á eftir var talsvert skárra. Þann 5.júlí segir hann frá miklum hita. Þann 16. júlí fer hann að segja frá móðu - trúlega kemur hún frá Kötlugosinu og þann 23. og 24. nefnir hann beinlínis reykjarmóðu. 

Reykjavík 21-1 1823 (Geir Vídalín biskup):

Frá sólstöðum til þess 13. janúar einlægar þíður með stormum á milli. Nú spakara veður með frosti og (s208) ekki rétt gott á jörðum. Norðlendingar úr Húnavatnssýslu komu hér fyrir skömmu, sögðu þeir þaðan sól og sumar. (s209) Í gærkveldi frétti eg eftir manni að austan, sem var nýkominn í Keflavík, að gosið úr jöklinum [Eyjafjalla-] skyldi hafa farið daglega minnkandi síðan á jólum, og nú seinast hefði hann engum sandi eða bleytu spúð. (s210)

Reykjavík 16-3 1823 (Geir Vídalín biskup):

... þó veturinn kannski ekki hafi verið að öllu leyti eins góður og konferensráð lýsir honum í Klausturgrána, hefur hann þó verið mikið góður, einkum síðan fyrir jól og til þess nú fyrir viku ... (s211)

Þess má geta að Geir var hér orðinn farinn heilsu. Þann 17. september kom mikil höfrungavaða kom inn á Reykjavíkurhöfn og voru hundruð rekin á land við Hlíðarhús. Biskup fór út og fylgdist með, en varð innkulsa í norðansteytingi sem þá gekk og lést fáum dögum síðar. 

1-3 1823 (Jón Þorsteinsson athsemd):

… som er paafaldende ulig den over forrige Vinter thi ligesom den forrige Vinter var temmelig stræng, dog meere ved idelige Storme og Sneefog end en höj Kulde Grad, saa er denni i begge henseende en af de mildeste Mand i nogle Aar har havet her.

Í lauslegri þýðingu segir hér að veturinn (fram til 1.mars) hafi verið sérlega ólíkur næstliðnum vetri. Sá hafi verið harður, ekki þó vegna frosta heldur vegna storma og skafrennings, en þessi aftur á móti einn sá mildasti sem komið hafi um margra ára skeið.

Viðeyjarklaustri 5-3 1823 (Magnús Stephensen):

(s39) Þó berst sú flugufregn eftir kalli að austan, að Öræfajökull sé tekinn til við að brenna, en því ei trúandi ...

Viðeyjarklaustri 14-7 1823 (Magnús Stephensen):

(s41) Ég kemst nú ei til, fyrr en um fáa daga, að rita um mikið útbrot úr Kötlugjá, hvörs fyrirboðar með jarðskjálftum, eldingum, stórbrestum skulu byrjað hafa 22. Junii, en útbrotið sjálft eiginlega 26ta næsteftir, þá geysi öskufall og vikur, og jökulstykki stór úr Mýrdalsjökli, í hverjum hún er, og byltust ofan yfir Mýrdalinn vestanverðan, og fram í sjó með ofsaflóðum, og setti undirlendið undi öskugrautar leðju. 3 bæir fóru hreint af – NB í bráð, þarámeðal Sólheimarnir 100c jörð [jarðarmat hundrað hundruð]. – Bændur flúðu með pening sinn í nauð, fátt eitt drapst, Mýrdalssandur varð og er enn ófær, svo lestamenn urðu austurfyrir að fara, og svo á Fjallabaki suður eftir að norðanverðu. Álftaver tjáist enn undir vatnsflóðum. ... Við og við fór gosum og jökulhlaupum fram til fyrsta júlí, síðan óglöggt frétt að austan, en vægð meiri á þaðan sögð. Gróðurleysi almennt, hafís á Vestfjörðum, og fyrir Ströndum og skammt fyrir utan Norðurland, sífelldir kuldasteytingar, þurrkingar og aldrei regn frá Aprílis byrjun. Kaupverslun hin aumasta. Fiskiafli góður, en sárgrannur. Eggvarp hið lakasta, og enn ei nóg hreinsað í vöggusvæfilinn orðið.

Hér er rétt að taka fram að það mun hafa verið öskufall mikið sem spillti hag Sólheimabænda en ekki jökulhlaup. 

Viðeyjarklaustri 2-8 1823 (Magnús Stephensen): (s44)

... og ekkert merkilegt að rita, nema um sífellda ofsa-þurrka allt til júlí með langvinnum kulda en síðan megnum hitum. Af Kötlugjá fara nú í 1 mánuð litlar sögur, og engin merkileg gos hennar, síðan þau þrjú fyrstu, ... meina menn hún hafi stórum hægt á sér síðan, þó mokkur (svo) uppaf henni við og við sjáist héðan frá Viðey, og hefir hún enn ei orsakað skaða nema í Mýrdalssveit, og þar helst 3 bæjum í bráð, en engan mann eða skepnu þar enn drepið, því ei má henni kenna, að 6 dauðvona horær á Sólheimum þoldu ei hörð haglél í vor. ... þeirri síþurru og í vor langsamlega köldu veðurátt er samt að kenna sérlegasta gróðurleysi víðast hvar um land, svo sjáanlegt er að peningur munir hrönnum falla og lógast í haust, víðast til helmingar, sumstaðar meir vegna heyleysis, einkum skipti nú bráðlega um, sem óttast má, til langsamra úrfellis óveðra.

11-8 1823 (Hallgrímur Jónsson á Sveinsstöðum - Andvari 98/1973): (bls. 172)

Bág er nú tíð á fósturjörðu vorri, eldur uppi í Kötlu, grasbrestur mikill yfir mestallt land, og þar til sumstaðar — svo sem hér um pláss — stakir óþurrkar af sífelldum norðanþokum, fúlviðrum og snjóhretum á víxl.

Saurbæ Eyjafirði 25-9 1823 [Einar Thorlacius]

(s11) Rétt sem náttúran hefði gleymt vana sínum, fengum við eftir dæmafáan góðviðra- (s12) vetur, kalt vor með sífelldum kaföldum, gróðurlítið sumar, svo snjór hefur lengst af hulið öll fjöll og frostin allajafnt yfirtakanleg á þessu stykki norðanlands og víða hey undir fönn.

Tíð er lýst gróflega í vísum Jóns Hjaltalín. Hann minnist á vorhretin, þurra tíð um landið vestanvert, votviðri nyrðra og haust- og snemmvetrarhríðar.

Góðum vetur lýsir letur lands um haga,
kvikfé lét þó kanna baga
kuldahret um vorsins daga.

Missti engi lífgun lengi, lauka rætur
því ei fengu þroska bætur
þurrkar gengu dag og nætur

---
Hér varð vestra heyja brestur helst á töðum
nærði frest á neyð og sköðum
nýting best í flestum stöðum

Nyrðra mengi mætti lengi meiri regnum,
sem um engin svo hjá þegnum
sumars fenginn vætti gegnum

Rosum hreyfði haust og reifði hrími moldu,
líka dreifði fönn um foldu,
firðar leifðir hretin þoldu.

Byljir mestu fold um festu fanna köstu,
þjóðin lest af þreki höstu
þáði vestu jólaföstu.

Lýkur hér að sinni umfjöllun hungurdiska um árið 1823. Sigurði Þór Guðjónssyni er þakkað fyrir innslátt Brandstaðaannáls og Hjördísi Guðmundsdóttur fyrir innslátt Árbóka Espólins (stafsetningu hnikað hér - mistök við þá aðgerð sem og annan innslátt eru ritstjóra hungurdiska). 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hálfur ágúst

Nú má heita að hálfur ágúst sé liðinn. Meðalhiti hans í Reykjavík er 11,1 stig, +0,3 stigum ofan meðallags 1961-1990, en -0,7 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára. Talan er í 14.hlýjasta sæti á öldinni (af 18), en í því 66. á 144-ára listanum. Hlýjastur var fyrri hluti ágúst árið 2004, meðalhiti sömu daga þá var 14,0 stig í Reykjavík. Kaldastir voru þessir dagar árið 1912, meðalhiti þá 7,5 stig.

Á Akureyri er meðalhiti fyrri hluta ágústmánaðar 10,2 stig, -0,3 stigum neðan meðaltals 1961-1990, en -1,1 stig neðan meðallags síðustu tíu ára.

Meðalhiti er rétt ofan meðallags síðustu tíu ára á fáeinum stöðvum á austur- og suðausturlandi. Mesta jákvæða vikið sem stendur er við Lómagnúp, +0,7 stig og +0,5 í Seley og Hvalsnesi. Kaldast að tiltölu hefur verið við Siglufjarðarveg, neikvæða vikið þar er -2,3stig, og -2,1 stig á Gjögurflugvelli.

Úrkoma hefur mælst 15,4 mm í Reykjavík, um helmingur meðalúrkomu, og 22,1 mm á Akureyri, það er um 50 prósent umfram meðallag þar.

Sólskinsstundir hafa mælst 81,6 í Reykjavík og er það nærri meðallagi.


Af árinu 1924

Árið 1924 fylgdi tísku áranna á undan, hlýr vetur, kalt vor, kalt sumar. Vetri ætlaði aldrei að ljúka um landið norðaustanvert, það snjóaði talsvert þar seint í maí og aftur var tekið til við hríðarveður þegar september var stutt genginn. Sunnanlands og vestan skein sólin linnulítið um vorið og fram eftir sumri. 

Fjórir mánuðir ársins voru hlýir á landsvísu, janúar, febrúar, nóvember og desember, en sex mánuðir kaldir mars til júní og síðan ágúst og september. Sá síðastnefndi kaldastur að tiltölu. Hiti í júlí og október var nærri langtímameðaltali. Það var ekki fyrr en 1966 að aftur birtist ár með sex köldum mánuðum hér á landi. 

Hæsti hiti ársins mældist á Grænavatni í Mývatnssveit þann 28.júlí, 23,7 stig. Við trúum ekki tölunni 29,9 sem birtist á Eyrarbakka þann 25.júlí og ekki heldur 24,1 stigi sem mældust á Eyrarbakka 9.júní. Síðari talan gæti þó hlotið einhverja viðurkenningu síðar.   

Lægsti hiti ársins mældist á Núpi í Dýrafirði 1.mars, -23,1 stig. Líklega er þessi mæling ekki rétt heldur, við skulum samt ekki afskrifa hana alveg. Hiti á „þurra“ mælinum þá um morguninn var -18,3 stig. Þessa nótt mældist frostið á Suðureyri -15,2 stig, ekki algeng tala þar um slóðir. Næstmesta frost ársins mældist á Grænavatni þann 10.mars -20,5 stig. 

ar_1924t-rvk

Myndin sýnir hámarks- og lágmarkshita hvers dags í Reykjavík á árinu 1924. Fyrstu tvo mánuði ársins fór frost lítið niður fyrir -5 stig og fór upp fyrir frostmark flesta daga. Mesti frost ársins mældist í Reykjavík á hlaupársdaginn, -13,6 stig. Þetta er kaldasti hlaupársdagaur sem vitað er um í Reykjavík, og líklega á landinu öllu. Eftir þetta gekk á með kuldaköstum. Jú, hiti fór fáeina daga yfir 15 stig um sumarið, en harla lítið var um 10 stiga hita eftir að vika var liðin af september. En ekki voru frost þó mikil í Reykjavík um haustið. 

Ritstjóri hungurdiska finnur 14 kalda daga á árinu í Reykjavík, að tiltölu var maílokakastið einna kaldast, frost var þá margar nætur - en sól skein glatt flesta daga. Árið á sérlega marga óvenjulega sólskinsdaga í Reykjavík, ritstjórinn telur 46 í sérflokki - þar af 20 sem enn eiga sólskinsdægurmet sem ekki hafa verið slegin. Apríl, maí, júní og september voru sólríkustu mánuðirnir að tiltölu. 

Ritstjórinn telur sólarhringsúrkomu óvenjumikla fari hún yfir 6 prósent ársmeðalúrkomunnar. Tveir slíkir dagar komu á Hvanneyri, 14.október og 14.nóvember, og einn á Teigarhorni, 17.nóvember. 

Lægsti loftþrýstingur ársins mældist í Grindavík að kvöldi 26.desember, 933,7 hPa. Hæstur mældist hann í Reykjavík, 22.apríl, 1036,9 hPa. Stormdagar voru allmargir, átta lenda á lista ritstjóra hungurdiska, 28. og 30.janúar (suðvestanveður), 3. og 4.febrúar (norðvestan- og vestanveður), 28.febrúar (norðaustanveður), 26.desember (suðaustanveður) og 29. og 30.desember (norðaustanveður). 

Látum nú blaðafréttir og pistla veðurathugunarmanna segja okkur helstu tíðindi ársins. Stafsetning hefur víðast verið færð til nútímahorfs - og á stöku stað hafa textar verið styttir lítillega. Bókstafirnir „FB“ eiga við svonefnda fréttastofu blaðamanna. Ritstjóra hungurdiska er ekki alveg ljóst hvað það fyrirtæki gerði, en það sendi pistla til blaðanna sem tóku þá oftast orðrétt upp. Því var oft nákvæmlega sama orðalag á veðurtengdum fréttum í öllum blöðunum - Morgunblaðið oftast hvað ítarlegast þó. 

Vísir segir almennt frá árinu í pistli 2.janúar 1925. 

Árið 1924 hefir orðið eitthvert hið mesta hagsældarár landi voru. Veðrátta var þó heldur ójöfn. Vetur góður víða um land ,en þó mikil harðindi i sumum sveitum nyrðra og eystra. Vor kalt og óvarlegt um grasvöxt allt fram á mitt sumar. En úr því varð ágæt veðrátta einkum sunnanlands og heyskapur góður. Norðanlands og austan var sumar mjög kalt, þokur og rigningar lengstum. Náðust ekki hey sums staðar fyrr en eftir fjallgöngur. Hirtu ýmsir í Þingeyjarsýslu 15.október.Varð heyfengur þó til nokkurrar hlítar um síðir. Veðrátta var síðan afbragðsgóð til jóla um land alt. Sjávarafli varð meiri en áður munu dæmi til vera. Var bátfiski en besta um alt land, en þó bar frá um afla þann er togarar fengu. Komu þeim best að notum ystu djúpmið fyrir Vestfjörðum, þar sem löngum hafa legið hafísar, en nú var íslaust. Veðrátta var hin hagfelldasta til fiskverkunar sunnanlands og vestan. Síldveiði brást flestum. Verð var mjög hátt. 

Við látum hér líka fylgja merkilegt bréf sem Veðurstofunni barst frá Benedikt Jónssyni frá Auðnum og dagsett er 2.september 1924. Benedikt var fæddur 1846 og hafði þegar hér var komið gefið veðri og tíðarfari gaum í nærri 70 ár. Við tökum mark á slíkum manni. 

Húsavík 2.september 1924. ... Annars er vert að geta þess, að hér nyrðra, að minnsta kosti í Þingeyjarsýslu, hefur nú í tvö ár verið alveg óvanalegt veðráttufar svo að enginn man slíkt. Eiginlega hvorki vetrar né sumur á norðlenskan hátt, þ.e. mildir, votir og áfrerasamir vetrar og köld og vot og sólarlaus sumur, enda austanátt ríkjandi lengst um. Hér nyrðra eru ýms náttúrufyrirbrigði alveg óvanaleg hin síðustu misseri. Sjór er óvanalega hlýr, og golfstraumskvíslin meiri og dýpri en menn vita dæmi til og pólísinn lengra frá en nútímamenn muna áður. Fiskagöngur hafa líka gerbreyst. Þorskur er allan vetur norðan við land, og er farinn að hrygna hér sem engin hér man áður.

Þorskveiði byrjaði hér í sumar mánuði fyrr en venja var, en síldin liggur svo djúpt í hinni djúpu golfstraumskvísl að hún næst ekki í reknet og enn síður herpinætur, enda lítil freisting fyrir hana að leita yfirborðsins sem sólskin aldrei hefir vermt, svo að líklega er hlýrra niður [í] golfstraumskvíslinni en á yfirborði.

Þrátt fyrir mildi tveggja síðastliðinna vetra hafa afleiðingar þeirra verið afar illar í landbúnaðarsveitum Þingeyjarsýslu. Allan síðastliðinn vetur voru rigningar við sjóinn, og jörð ýmist auð eða mjög snjólétt og sauðfé að kalla ekkert gefið, því fjörubeit var ágæt og notaðist vel. En 500 til 1000 fetum yfir sjó varð öll úrkoman að krapsnjó og glerharðri áfreðaskorpu sem olli algerðu hagleysi, svo að í hærri sveitum Þingeyjarsýslu var algerð hagleysa frá því í 1.viku nóvember og fram í maílok og jafnvel fram í júní. Og í júní rak niður fönn svo, að fé fennti í byggð og vorlömb hríðdrápust. Svo var vorið svo kalt og fúlt og óhagstætt að heyskapur varð ekki byrjaður fyrri en almennt en um 20.júlí og ekki teljandi hirt af heyjum fyrri en eftir höfuðdag.

Hér skiptir því algerlega í tvö horn: Við sjávarsíðuna má heita góðæri og uppgripaafli en uppi í dölum gengur hallæri næst. Þetta er svo einkennilegt ástand að vert er að gefa því gaum, en eðlileg afleiðing af veðráttufarinu er það. Allan þennan tveggja ára tíma hefir Austanátt ríkt hér svo að örsjaldan hefir blásið af öðrum áttum en frá norðnorðaustri til suðsuðausturs og örsjaldan mikil hvassviðri. ...

Með virðingu, Benedikt Jónsson. [Bréfasafn Veðurstofunnar: 1008]

Janúar: Umhleypingasamt. Hiti yfir meðallagi.

Jón Þorsteinsson á Möðruvöllum segir í athugasemd í skýrslu á nýársdagsmorgni: „Ofsalegt VSV-stórviðri hálfa nóttina“.

Vísir segir í frétt þann 2.:

Álfadansinn fórst fyrir á gamlárskveld, sökum stórviðris og rigningar. Álfadansinn verður haldinn á þrettánda, ef veður leyfir, ella næsta góðviðrisdag þar á eftir.

w-1924-01-siritaklipp-a

Hér má sjá þrýstirit frá Stórhöfða í Vestmannaeyjum 10. og 11.janúar. Framan af degi gekk landsynningsstormur yfir landið suðvestanvert en lægði síðan. Náði vindur 10 vindstigum í Reykjavík um hádegið. Upp úr kl.18 tók loftvog að falla mjög ört og um kl.19 skall á fárviðri á Stórhöfða, en stóð ekki nema skamma stund. Við vitum ekki hvers konar veðurkerfi var hér um að ræða, en þess má þó sjá stað á þrýstiritum bæði í Grindavík og Reykjavík, en mun minna. Líklega hefur smár lægðarsveipur farið til vestnorðvesturs rétt við suðvesturströndina. 

Dagur segir frá tíð þann 31.:

Tíðarfarið hefir verið heldur vanstillt það sem af er vetrinum og nokkuð úrfellasamt, en frost mjög væg. Jarðbönn hafa verið víða um Norður- og Austursýslur. Undanfarna daga hafa verið hlákur nokkrar öðru hvoru, en þess á milli útsynningsrosar hvassir með úrfellishryðjum.

Morgunblaðið segir símafréttir þann 24.:

Úr Stykkishólmi var símað 22.þ.m að afbragðs tíð hefði verið við Breiðafjörð sunnanverðan það sem af væri vetrinum. Hefði sauðfénaður og hross óvíða komið í hús og mjög lítið verið gefið. Útræði var sagt að væri þar ekkert, enda ekki gefið á sjó í langan tíma.

Úr Stykkishólmi var símað 23. jan. FB Asahláka hefir verið hér í dag og í gær, og er jörð orðin auð að kalla. Ofsarok hér í gær en ekki hafa neinar skemmdir orðið í því, svo kunnugt sé. Á sunnudaginn reru bátar hér og öfluðu dável einn þeirra fékk 500 af fiski. Mjög sjaldan hefir gefið hér undanfarið.

Frá Vík í Mýrdal var símað í gær: Óvenjumiklir vatnavextir eru í öllum ám hér nærlendis, og vatnsflóð hafa gert skemmdir á nokkrum bæjum í Mýrdal.

Sérlega illviðrasamt varð síðasta þriðjung janúarmánaðar og varð margskonar tjón. Morgunblaðið segir frá tjóni þessa daga:

[25.] Ofviðrið, sem geisaði hér yfir á aðfaranótt fimmtudagsins [24.] var svo ákaft að reykháfar fuku af húsum á nokkrum stöðum og járn rifnaði af þökum og girðingar brotnuðu. Annarsstaðar hefir ekki frést um neinar skemmdir, og fréttastofan hafði ekki nein slík skeyti fengið. [Veðurstofan segir að hugsanlega hafi vindhraði í Reykjavík náð 11 vindstigum um nóttina]. 

[26.] Bessastöðum 25.jan. FB Í ofsaveðrinu í fyrrinótt fauk hlaða með áföstu hesthúsi, 16 álna löng. Voru undirstöðuvegirnir steyptir en á þeim veggir úr járni og timbri, á sjöttu alin á hæð. Járnveggirnir voru ekki festir niður í steypuveggina og hefir hlaðan fokið rúmlega húslengdina, fallið síðan niður og brotnað í spón, nema hlöðuþakið, sem er nokkurn veginn heilt. Hlaðan hefir tekist hátt á loft því heyið í henni, sem tók upp á móts við veggjahæðina er að sjá ósnortið að henni og hefir lítið af því fokið. Hestur var í hesthúsinu og var hundinn á bás. Hefir kengurinn, sem hálsbandið var fest í, dregist út er húsið fauk, og stóð hesturinn eftir óskaddaður að því er séð verður. Aftur á móti drapst hrútur, sem var í húsinu. 

Frá á Vík í Mýrdal er símað til FB 26. janúar: Í ofviðrinu hér á föstudagsnótt [föstudagur 25.] gerðust ákafir vextir í ám, þar á meðal Víkurá. Skemmdust tvær brýr á henni til mikilla muna. En hvergi hefir frést um, að hús hafi fokið hér nærlendis.

w-1924-01-siritaklipp-b

Myndin sýnir tvö þrýstirit sem ná til 28.janúar til 1.febrúar. Þessa daga fóru tvær mjög djúpar lægðir hjá og ollu slæmu veðri. Sú fyrri fór til norðurs skammt fyrir vestan land, dýpkaði þar mjög ört og olli fárviðri af suðvestri og vestri við Breiðafjörð og á Vestfjörðum að kvöldi 28. Síðari lægðin fór yfir landið að kvöldi og aðfaranótt þess 30. Vestan hennar var hægur vindur - náði reyndar aldrei norðanátt á Vestfjörðum og logn var um miðbik Norðurlands, en austanlands og suðaustan gerði fárviðri af suðvestri og vestri í kjölfar lægðarinnar. Syrpa þessi er í flokki hinna verri.  

Enn verra veður gerði þann 28. og segir athugunarmaður á Suðureyri þann dag: „Fellibylur 7:40 til 9:50 pm“.

Morgunblaðið segir þann 30. fréttir úr Stykkishólmi:

Stykkishólmi 29.jan. FB Í gær um kl.2 síðdegis gerðist hér ofsaveður, sem stóð til kl.9 í gærkvöldi. Var það miklu meira en veðrið í síðustu viku. Í veðrinu fauk hlaða, sem Guðmundur læknir átti og fór hún í spón, en hey fauk ekki til muna, því netum varð komið á það. Ýmislegt lauslegt fauk einnig og girðingar löskuðust víða. Vélbáturinn „Barði“ sem lagt hafði á stað fyrir nokkrum dögum til Reykjavíkur en snúið aftur, var farinn af stað héðan aftur í gærmorgun nokkru fyrir veðrið. Vita menn ekki hvernig honum hefir reitt af. Tveir bátar reru einnig héðan til fiskjar í gærmorgun en hvorugur er kominn aftur. Vona menn að þeir hafi komist til Bjarnareyja og legið þar af sér veðrið. Á Sandi reru margir bátar í gærmorgun, en gátu forðað sér í höfn áður en versta óveðrið skall á. Um skemmdir af óveðrinu í Sandi eða Ólafsvík hefir ekki frést, því síminn út á nesið hefir slitnað í gær og er ekki kominn í lag ennþá. 

Og þann 31. segir blaðið:

Ísafirði 30.jan. FB Mesta stórviðri var hér um slóðir í fyrrakvöld og fyrrinótt. Hafa skemmdir orðið á bátum og húsum víðsvegar um Vestfirði. Þrír mótorbátar sukku, sinn á hverjum staðnum, Álftafirði, Ísafirði og Súgandafirði. Langmestar hafa skemmdirnar orðið í Súgandafirði. Þar fauk íbúðarhús með öllum innanstokksmunum í sjóinn, en fólk bjargaðist með naumindum niður í kjallarann. Samkomuhús Súgfirðinga fauk af grunni, en hefir eigi brotnað nema lítið. Fjós og heyhlaða fauk þar einnig, en gripir og tveir menn, sem þar voru inni, sluppu við meiðsli. Skaðinn, sem leitt hefir af stórviðrinu í Súgandafirði, er talinn nema 30-40 þúsund krónum. 

Frekari fréttir af tjóni í þessu veðri bárust næstu daga. Morgunblaðið segir frá þann 1.febrúar:

Símað er til FB Í Innri-Fagradal í Dölum fauk tvílyft íbúðarhús af grunni í óveðrinu síðasta (sennilega á þriðjudagsnótt) [líklega var það að kvöldi mánudagsins 28.] Fólkið bjargaðist með naumindum óskaddað eða lítið skaddað úr húsinu. Á Eskifirði hafa orðið skaðar bæði á húsum og bryggjum af völdum óveðursins. [Það mun væntanlega hafa verið seinna veðrið, aðfaranótt þess 30.]

Og þann 2.febrúar eru enn fréttir af tjóni:

Stykkishólmi, 1.febr. FB: Hlutust slys og tjón af ofsarokinu 28.f.m. og frést hefir um hingað þessi: Á Skallabúðum í Eyrarsveit hrundi íbúðarhús úr steini. 17 ára gömul stúlka varð undir reykháfnum og beið bana af. Nokkur börn meiddust, en þó ekki hættulega. Á Bryggju í Eyrarsveit fauk fjárhús og hesthús út á sjó. Í Gröf i sömu sveit fauk hlaða að miklu leyti mikið af heyi tapaðist. Í Fagradal (Innri-Fagradal) á Skarðsströnd fauk hálft íbúðarhúsið af grunni. Fólkið gat flúið út um glugga því dyrnar höfðu skekkst svo mjög að þeim varð ekki lokið upp. Á sama bæ fauk skúr og hjallur og gereyðilögðust. Fólkið frá Fagradal hefir komið sér fyrir á nágrannabæjunum. Enn hefir ekkert frést af mótorbátnum Blika.

Þann 5.febrúar er vélbáturinn Bliki talinn af (Morgunblaðið) og sagt að 7 manna áhöfn hafi farist. 

Þann 12.febrúar birtir Morgunblaðið frekari fréttir af þessu illskeytta veðri:

FB: Sífellt eru að berast fregnir utan af landi um skaða af ofviðrinu 23.-29. fyrra mánaðar. Á Bersastöðum í Dalasýslu, hjá Stefáni skáldi frá Hvítadal, fauk gaflinn af íbúðarhúsinu og ýmsar skemmdir urðu aðrar. Í Dufansdal í Arnarfirði hrakti 24 kindur í sjóinn, frá Eiríki bónda þar, og í Trostansfirði fauk heilt hey, sem stóð á bersvæði. Við Dýrafjörð hafa orðið afarmiklar skemmdir af ofviðrinu 28. f.m. Alls fuku þar 9 hlöður, og nemur heyskaðinn um 400 hestum. 14 skúrar og hjallar fuku, flestir á Þingeyri; þrír opnir bátar eyðilögðust og einn vélbátur. Þá fauk þak af íbúðarhúsi á Þingeyri. Mestan skaða allra mun Ólafur Ólafsson kennari hafa beðið; hann missti bæði skúr, hlöðu og hjall, og missti mikið af munum. Kirkjan á Sæbóli í Dýrafirði fauk í sama veðrinu. Í Önundarfirði fuku tvær heyhlöður hjá Hólmgeir Jenssyni dýralækni, og auk þess fóðurbirgðahlaða sveitarinnar. 

Lögrétta bætir enn við tjónlistann í frétt þann 19.febrúar:

Kiðjabergi, 12.febrúar FB Tíðarfar hefir verið gott í vetur í ofanverðri Árnessýslu, nema helst í Biskupstungum; þar hafa lengi verið jarðbönn vegna snjóa. Í rokinu 28.janúar fuku hlöður á þremur bæjum í Grímsnesi, og kirkjan í Klausturhólum skemmdist nokkuð.

Hænir segir fréttir af illviðri eystra þann 31.janúar. Þetta veður gerði aðfaranótt þess 30. en veðrið vestra var verst að kvöldi 28.:

Afspyrnurok var hér um alt Austurland í fyrrinótt og olli skemmdum á sjó og landi. Þak fauk af íbúðarhúsi á Hánefsstöðum, hér í Seyðisfirði og nýtt hús sem var í smíðum á
Þórarinsstaðaeyrunum fauk allt af grunni og týndust viðirnir. Fiskiskúrar fuku og fleiri skemmdir urðu á húsum. Mótorskúta og mótorbátur slitnuðu upp frá legufærum og ráku á land og skemmdist báturinn mikið. Róðrarbát tók upp og brotnaði í spón. Þak fauk af húsi í Ekkjufellsseli í Fellum. „Esjan" lamaði bryggju á Eskifirði. En einna harðast ætlaði að verða úti vélaskútan „Aldan", sem var á leið hingað frá Skálum á Langanesi. Í byrjun ofsaroksins hafði hún komist inn á Brúnavík og lagst við 2 akkeri. En um miðja nótt magnaðist ofviðrið svo, að báðar akkerisfestarnar slitnuðu, og hún varð að halda til hafs, í úfinn sjó og svarta myrkur. Skipsbátinn tók út og allt það er lauslegt var á þilfari. Reyndi þar á hina þekktu þrautseigju og sjómennskudáð skipstjórans J. Kristjansens. En er veðrinu slotaði um miðjan dag í gær, var hægt að fara að sigla til lands aftur, og komst hún hingað inn um kl. 8 í gærkvöld. Með henni var sem farþegi Páll A. Pálsson, útgerðarstjóri. Var þetta stórviðri eitt með þeim gríðarlegustu sem menn hér muna. Auk þessa urðu skemmdir bæði á rafljósa og símaleiðslum.

Vísir segir þann 31. frá tjóni í Mýrdal í veðrinu aðfaranótt þ.30.:

Vík 30. jan. FB Í útsunnanveðrinu í nótt fuku að mestu tvær heyhlöður hér i Mýrdalnum. Skaði á heyi varð litill, Mjög viða rauf þök á húsum. Hér hefir verið afar umhleypingasamt, en snjólaust að kalla. 

Morgunblaðið birtir þann 5. febrúar frétt dagsetta í Vík þann 4. Trúlega er hér um síðara veðrið að ræða:

Í rokinu í síðustu viku fauk heyhlaða á Söndum í Meðallandi og allmikið af heyi. Í sama veðrinu fauk önnur hlaða í Álftaverinu og hafa allmiklar skemmdir orðið þar í sveit.

Hænir rekur þann 2.febrúar frekari fréttir af ofviðrinu eystra þann 29. til 30.:

Þakið af íbúðarhúsi Vilhjálms Árnasonar á Hánefsstöðum fauk allt með sperrum niður að efsta lofti. Nálega helmingur af járni og viðum kemur að notum aftur. Skemmdir á Eskifirði urðu miklar í ofsaveðrinu um daginn. Járn fauk af húsum, þök af hlöðum, bryggjur brotnuðu og nálægt tuttugu smábátar brotnuðu í spón. Er tjónið talið 30-40 þúsund krónur.

Stórkostlegir skaðar í Austur-Skaftafellssýslu í ofsarokinu 29.-30. f.m. Yfir 30 hús fuku í Nesjum og Lóni. Í Lóni: 1 í Hraunkoti, 5 í Bæ, 2 í Byggðarholti, 1 í Hlíð, 3 í Krossalandi, 2 í Volaseli, 3 í Syðra-Firði og þak af íbúðarhúsinu, og í Efra-Firði fuku öll hús, sem á jörðinni voru, nema 1 hesthús. Í Nesjum: 3 í Bjarnanesi, 5 í Hólum, stór heyhlaða í Árnanesi, og þak af skúr á Höfn. Og á Horni ráku 7 hestar í sjóinn. Höfðu þeir verið suður á fjörunum, þar sem ofviðrið hefir orðið aö sandbyl. Einasta afdrep, sem þeir hafa getað flúið í, hefir verið framan undir fjörukambinum niður við brimgarðinn, sem ráðið hefir að lokum hinum hryllilega dauðdaga þeirra.

Vísir segir þann 9. enn frá tjóni í veðrinu eystra:

Á Reyðarfirði varð allmikið, tjón í ofviðrinu um daginn. Hús, sem Þorgeir Klausen á Eskifirði átti á Hrúteyrinni, fauk og nokkuð af tunnum og veiðarfærum týndust og skemmdust. Í Teigagerði fuku þök af 2 húsum, og á Sómastaðagerði og Hrauni, þök af hlöðum. Fjártjónið sem Austurland hefir beðið af þessu ofstopaveðri, skiptir mörgum  tugum þúsunda. Á Djúpavogi fauk í rokinu mikla þak af fjárhúsi.

Febrúar: Nokkuð stormasamt, en snjólétt og ekki óhagstæð tíð til landsins. Hiti yfir meðallagi. 

Að sögn Lögréttu þann 11. strandaði þýskur togari í Grindavík þann 7. 

Vísir kvartar undan hálku þann 21.: „Hálka hefir verið á götunum tvo undanfarna daga og þyrfti að bera sand á þær hið bráðasta“. 

Morgunblaðið segir frá veðri:

[20.] Í Ólafsvík og á Sandi er góður afli hvenær sem gefur. Á föstudaginn  [15.] gerði þar ofsarok, en bátarnir komust þó allir til lands nema einn. Bjargaði botnvörpungur honum.

[26.] Vík, 25. febr. FB Í nálægum sveitum hefir þessi vetur verið ágætur, það sem af er; óvenjulítið gefið og besta von um góða afkomu. Hér hefir aðeins einusinni gefið á sjó, en lengi undanfarið hafa verið sífeldar ógæftir.

[28.] Frost allmikið hefir verið á Norðurlandi undanfarna daga, var sagt í símtali við Akureyri í gær. Aflalaust er þar nú með öllu.

Í lok mánaðarins gerði allmikið norðanáhlaup, kom þá lítilsháttar hafís upp að Vestfjörðum. Hann sást frá veðurathugunarstöðvum. Hlaupársdagurinn 29.febrúar er sá kaldasti sem vitað er um frá upphafi mælinga. 

Núpur 29.febrúar. „Hafís sést með berum augum“. Sást líka frá Suðureyri. Sást þar líka fyrstu 3 daga marsmánaðar. 

Mars: Hægviðrasöm og hagstæð tíð lengst af. Lengst af snjólétt. Hiti í tæpu meðallagi.

Benedikt í Staðarseli segir um marsveðráttuna: „Tíð hefur verið óstöðug þennan mánuð og stormasöm, en snjór lítill, þótt snjóað hafi flesta sólarhringa. Seinni hluta mánaðarins hefur oft verið nokkuð autt með sjó fram þó alhvítt hafi verið þegar dregur til lands. Hagi hefur verið ágætur. ... Á jörðum sem liggja nokkuð til lands hefur víða verið meiri og minni jarðbönn síðan á jólaföstu. Sífelldir norðan hríðarbakkar hafa verið þennan mánuð og oft dimmt og hríðarfullt að sjá til hafs. Sjókröp“.

Morgunblaðið 4.mars:

Seyðisfirði, 2.mars FB Afar mikið norðanveður hér á Austfjörðum föstudagsnóttina og laugardag [1.mars]. Vélbátur einn, sem Stefán Jakobsson átti, sökk í innsiglingunni til Fáskrúðsfjarðar, vegna þess hve mikið hafði hlaðið á hann af klaka. Menn björguðust. FB Símalínan til Seyðisfjarðar er verið hefir biluð undanfarna daga er nú komin í lag. 

Enn segir Morgunblaðið frá ísingarvandræðum þann 6. í frétt frá Seyðisfirði þann 4. FB:

Vélskipið „Rán" (hét áður „Leó") héðan lenti í sjóhrakningum í óveðrinu fyrir helgina. — Hlóðst á það klaki og hamlaði ferð þess. Á föstudagsmorguninn [29.] náði skipið Hornafjarðarós; var þá hörkuútfall og mikið rek af íshrafli út úr ósnum, svo að skipið gat ekki komist inn. Rak það upp að Hvanney og brotnaði þar og sökk, en menn allir björguðust. Vélskipið „Óðinn" fór á veiðar á miðvikudaginn var og hefir síðan ekkert til þess spurst.

Og frekari fréttir voru í blaðinu daginn eftir (þann 7.):

Seyðisfirði, 5. mars. FB Vélbáturinn „Rán" strandaði í hríðarbyl Hafði legið í Hvalsneskrók, en ísaðist svo mjög, að skipverjar þorðu ekki að halda kyrru fyrir lengur. Urðu þeir að höggva á akkerisfestarnar, því vindan var öll klökuð. Í nótt [væntanlega 5. mars] slitnuðu tveir bátar upp á legunni á Fáskrúðsfirði. Annar þeirra „Garðar", hefir fundist, og er lítið skemmdur, en hinn, „Skrúður“ er týndur. Friðrik Steinsson frá Eskifirði var á leið frá Noregi áleiðis hingað til lands á nýkeyptu gufuskipi, er veðrið skall á. Var hann kominn móts við Færeyjar, en tókst ekki finna þær. Eftir mikla hrakninga komst hann aftur til Noregs. Hafði hann misst áttavitann, og skipið var mjög illa leikið; allt brotið ofan þi1ja og mjög ísað.

Vestmannaeyjum 6. mars FB Austanhríð og aftakaveður var hér í gærkvöldi. Báturinn „Björg" er talinn af. Í skeyti sem sent var nokkru síðar segir, að skipshöfnin á vélbátnum „Björg“ hafi komist í enskan togara. Báturinn sökk í rúmsjó.

Þær gleðifréttir birtust svo í Morgunblaðinu þann 9. að „Óðinn“ hafi komið til Djúpavogs þann 7., heilu og höldnu eftir að hafa hrakist til Færeyja í ofviðrinu.

Lögrétta segir þann 7. frá hrakningum:

Akureyri, 3. mars. FB. Vestanpósturinn héðan, Guðmundur Ólafsson, hefir á síðustu ferð sinni héðan vestur lent í miklum hrakningum. Fór hann frá Víðimýri um hádegisbilið á fimmtudaginn [28.febrúar], en seinnipart dagsins skall á blindhríð. Var hann þá staddur á Stóra-Vatnsskarði. Villtist hann suður Svartárdal og komst að Bollastöðum, sem er með fremstu bæjum í dalnum, seinni hluta föstudagsins, kalinn á andliti, höndum og fótum. Einn hestinn hafði hann frá sér í hríðinni, en hann sneri aftur og skilaði sér að Víðimýri. Guðmundur komst með hjálp að Blönduósi og liggur þar á sjúkrahúsinu. Pósturinn er allur vís og óskemmdur, og var sendur áfram frá Blönduósi vestur að Stað í morgun.

Þann 12.birti Morgunblaðið frétt frá Borðeyri:

Borðeyri 11.mars. FB Esjan kom hingað í kvöld. Var svo mikill lagnaðarís á legunni, að skipið varð að brjóta sig áfram á að giska 150 metra, og lagðist loks að svo sterkri skör, að farþegar gátu gengið frá borði.

Tíminn segir þann 15. frá skipsköðum:

Frönsk skúta strandaði í Öræfum nýlega. Einn skipverja dó af meiðslum en hinir björguðust. Um miðja þessa viku strandaði við Stafnestanga kútter „Sigríður", eign dánarbús Th. Thorsteinssonar. Menn björguðust allir.

Vísir segir frá harðindum á Jökuldalsheiði þann 22.:

Í sveitum upp við hálendið hafa allmikil harðindi verið í vetur og orðið að gefa inni langan tíma. Í Jökuldalsheiði eru nær því allir orðnir heylausir fyrir sauðfénað. Af flestum bæjum er búið að koma fénu fyrir á haga og hey niðri í Jökuldal, og sagt að þeir sem eftir eru muni reka fénað þangað nú upp úr helginni. Um 6 bæi er að ræða í Heiðinni sem svo er ástatt fyrir. Heyfengur þar lítill í sumar.

Þann 27. segir Morgunblaðið frá misjöfnu vetrarfari:

Vetrarfar segir kunnugur maður að verið hafi mjög misjafnt í vetur, nálega allstaðar á landinu. Veðuráttan oftast nær góð, nema veðrasamt framan af þorranum, fyrir eða fyrir og um mánaðamótin janúar og febrúar, en gjaffellt þá og víða, og sumstaðar „hart“, sem kallað er, svo sem á Norðausturlandi, einkum í Þingeyjarsýslum, og þó sérstaklega í sumum sveitum Vesturlands. Sem dæmi um það, hvað veturinn hefir verið misjafn getur þessi maður um það, að t.d. í Norðurárdal í Mýrasýslu hefir verið nærfeld innistaða á öllum fénaði síðan um miðjan nóvember, en víðast hvar annarstaðar í Borgarfirði hefir veturinn verið léttur og jarðbert. Á sumum jörðum í Álftaneshreppi og Borgarhreppi hefir lítið verið gefið. Í Hvammssveit í Dalasýslu er gjafatíminn orðinn langur 18-20 vikur. Þar er landið allt svellrunnið og klambrað. Á Skarðsströnd eru aftur nægir hagar. Mjög er og snjólétt og ísalítið í Hörðudal og Miðdölum. Í Strandasýslu er víðast hvar haglaust eða haglítið og gjafatíminn orðinn þar langur. Svipað er og að segja um flestar sveitir í Ísafjarðarsýslum. Þó hefir verið nokkur jörð öðru hvoru í Nauteyrarhreppi og Reykjarfjarðarhreppi. Lökust er þó og lengst innstaða búin að vera í Jökulfjörðum, Bolungarvík og Skálavík, þar er gjafatíminn orðinn að sagt er, einar 24–26 vikur.

Apríl: Fremur óhagstæð tíð, einkum þegar á leið. Fremur þurrt víðast hvar nema hríðar norðaustanlands. Hiti var undir meðallagi.

Ólafur á Lambavatni um apríl: „Allan þennan mánuð má heita að hafi verið sífelldir þurrir kuldanæðingar“.

Gríðarlegur snjór norðaustan- og austanlands - snjódýpt mældist 53 cm í Staðarseli þann 27. og 28. og 48 cm á Nefbjarnarstöðum á Úthéraði þann 27. Snjódýpt 28 cm á Stórhöfða í Vestmannaeyjum þann 17. 

Bændur í uppsveitum Árnessýslu bera sig vel í frétt Morgunblaðsins þann 15.:

Úr uppsveitum Árnessýslu eru blaðinu sagðar þær fréttir, út af því, er áður hefir verið sagt hér í blaðinu í fregnum frá FB um harðindi þar eystra, að enginn heyskortur sé meðal bænda þar, þó haglítið hafi verið og innistöðu tími langur þá muni bændur búa almennt vel með hey, og nú sé komin góð jörð.

Morgunblaðið segir frá veðri þann 23.:

Norðan kuldastormur var hér í gær. En frá Ísafirði var símað að þar hefði verið besta og blíðasta veður, og hver fleyta farið á sjó.

Morgunblaðið birtir þann 29.fregn að norðan:

Akureyri 28. apríl. FB Ennþá er alsnjóa ofan í sjó hér um slóðir og algert jarðbann. Víða eru þrotin hjá bændum hey handa sauðfénaði og hrossum og horfir til stórvandræða ef veðráttan breytist ekki bráðlega til batnaðar. Afli er enn þá ágætur á Pollinum og út með Eyjafirði. 

Maí: Óhagstæð tíð einkum síðari hlutann. Sólríkt syðra. Kalt og fremur þurrt.

Snjóaði í sjó á Vestfjörðum 26. og 27. - sömuleiðis í Fljótum og efri byggðum í Þingeyjarsýslum, á Raufarhöfn og Þorvaldsstöðum. Alhvítt var á Eiðum 25. og 26. Flekkótt í Papey 29. Þann 7. mældist snjódýpt á Stórhöfða 25 cm og 12 cm daginn eftir. Þann 28. var þar flekkótt jörð. 

Morgunblaðið segir enn fréttir að norðan þann 8.:

Akureyri 7. maí. FB Harðindi eru hér ennþá, en þó heldur að mildast. Er heyleysi yfirvofandi á sumum bæjum í Fljótum og Ólafsfirði, en annarsstaðar hér í sýslu er búist við að allt komist vel af. Sömuleiðis er talið víst, að afkoman verði góð í Húnavatns- og Skagafjarðarsýslum. En í sumum sveitum í Norður-Þingeyjar- og Norður-Múlasýslu eru sagðar vandræðafréttir af tíðarfarinu og útlit afarslæmt.

Þann 22.maí birtir Morgunblaðið fréttir frá Kirkjubæjarklaustri dagsettar 11.maí:

Síðustu daga hefir verið þýðvindi hér um slóðir og óðum að grænka. Nægar heybirgðir eru hér yfirleitt og fénaður í mjög góðu standi. 

Morgunblaðið segir þann 13.:

Kuldatíð hefir verið hér síðan fyrir páska [20.apríl] þar til nú brugðið hefir til þíðviðra. Er klaki svo mikill í jörð ennþá, að ekki hefir verið hægt að pæla upp kálgarða eða gera önnur verk, sem vanalega hefir verið lokið á þessum tíma.

Og daginn eftir segir blaðið:

Halldór Vilhjálmsson skólastjóri á Hvanneyri, kom hingað til bæjarins í gær. Lætur hann illa yfir tíðarfarinu þar í Borgarfirði, sem vonlegt er, ekkert farið „að slá í rót," sauðfé allt á gjöf enn og mikið frost á hverri nóttu. Minnst hefir verið fjórar gráður á lágmarksmæli nú um langan tíma. En heybirgir eru menn þar um allar sveitir.

Og þann 23. er bjartsýnishljóð í blaðinu:

Í gær var reglulegt vorveður, milt, kyrrt, en sólskinslaust, gróandi í loftinu. Túnblettirnir í bænum urðu líka algrænir, og stúlkurnar á götunum berhálsaðar, sem áttu ekki of fallega kraga. Þær voru líka með allra fallegasta móti á Austurstræti, og var það ekki fyrir tilverknað andlitsfarða eða fnjósks og eigi handaverk snyrtikvenna á hárgreiðslustofum - það var vorið.

En lakari voru fréttirnar í Morgunblaðinu að norðan þann 27.:

Úr Eyjafirði var símað í gær til Morgunblaðsins, frá Krossum, að mjög illvígur harðindakafli stæði nú yfir fyrir norðan. Var þá, er símað var, norðan hríð með frosti. Og austangarður úti fyrir landi. Mjög miklum snjó hafði þó ekki kyngt niður, en kuldinn var sagður hættulegastur, því nú stendur yfir sauðburður. Heybirgðir manna eru sagðar gengnar mjög til þurrðar. Mest kveður þó að heyleysi í Ólafsfirði og Fljótum, og svo aftur þegar dregur austur fyrir Eyjafjörð. Einn hreppurinn í útsveitum Eyjafjarðar, sem sagður var stálsleginn með hey er Svarfaðardalur. Hafa hreppsmenn fargað ákaflega miklu af heyi. Þau orð voru látin falla, að ef ekki brigði til hins betra mjög bráðlega, væri voði framundan. En útlitið væri hið ískyggilegasta.

Og úr Skagafirði í Morgunblaðinu þann 28.:

Eftir símtali við Sauðárkrók í gær: Hríðarveður var þar sunnudaginn [25.maí] og mánudag og alsnjóa niður í sjó í gærmorgun. en var þó heldur að rofa til.

Júní: Tíð talin fremur óhagstæð. Mjög sólríkt suðvestanlands. Hiti var í tæpu meðallagi.

Ólafur á Lambavatni segir: „Veðráttan í vor hefir verið svo þurr og köld að enginn man annað eins“. Alhvítt á Grænavatni 15., 16. og 17. Páll Jónsson athugunarmaður þar segir: „Kominn mikill snjór svo lambfé stóð víða í sveltu og varð slighætt. Gerði þetta áfelli mikið tjón víða um sýsluna, einna minnst í Mývatnssveit“. Alhvítt varð á Raufarhöfn þann 29. og nær því í sjó á Þorvaldsstöðum. 

Fréttir af veðurfarskenningum birtust í blöðum - líka 1924. Morgunblaðið segir þann 7.júní:

Marka má hafíslög norður af Íslandi á tíðarfarinu í Noregi árið áður?

Formaður fyrir veðurfræðistöð Tromsö, Krogness, hefir nýlega bent á að hann þykist geta gert sér grein fyrir því, hvort mikils íss sé að vænta við Austurströnd Grænlands og hér norður af Íslandi ár hvert. Hann þykist hafa komist að raun um, að sú regla gildi með eigi verulegum undantekningum, að þegar vorar vel í Noregi þá sé mikið um hafís kringum Svalbarð, en það sé samfara litlum hafís vestur undir Grænlandi. Byggir hann þessar ályktanir sínar á veðurfarinu síðustu 25 árin. Afbragstíð var í Noregi í fyrravor, og eftir þessari kenningu hans á því að vera mikill ís við Svalbarð, en lítill hér norðurundan í vor og sumar. Og hve mikið sem hæft er í þessari kenningu hans, þá hafa selfangarar, sem komið hafa að Norðurlandi í vor, sagt mjög lítinn ís norður í höfum, enda það eitt einkennilegt, að engar ísfregnir heyrðust, þrátt fyrir þá afspyrnu norðanátt, sem hér var lengi.

Vísir segir þann 13.júní: „Fyrsti túnblettur var sleginn hér í bænum í gær, í garði Sveins Jónssonar, kaupmanns, bak við húsið nr.8 við Kirkjustræti. Grasið virtist fullsprottið og var farið að gulna við rótina.

Morgunblaðið birtir fréttir utan af landi.

[12.júní] Kiðjabergi 11. júní. FB Óvenjumiklir hitar hafa verið hér undanfarna daga og fer gróðri mikið fram allstaðar þar sem votlent er. En á þurrlendi hamlar vætuleysið tilfinnanlega öllum gróðri.

[17.júní] Af Rangárvöllum, 9.júní. FB Þrátt fyrir snjóleysi hefir veturinn og vorið orðið með því gjafaþyngsta sem hér gerist, nema á stöku bæjum, t.d. Næfurholti við Heklu var aðeins gefið 4 sinnum fullorðnu fé og á Reynifelli 10 sinnum. Skepnuhöld eru eigi að síður góð og sauðburður gengur ágætlega, þó tæplega geti talist sauðgróður ennþá. Ein eða tvær skúrir hafa komið hér í langan tíma og frost hefir verið á hverri nóttu fram að þessu. Vorvinna gengur erfiðlega vegna þurrksins og klakans. Í sumum görðum eru aðeins 4-5 þumlungar niður að klaka. Sandbyljir voru mjög miklir hér í vor. Á Reyðarvatni urðu sandskaflarnir á 4. alin á þykkt og tóku upp á glugga, og sömuleiðis Gunnarsholti. Verður óhjákvæmilegt að flytja þessa bæi báða, því ólífvænt er þar bæði fyrir menn og skepnur, einkum þegar hvasst er.  

[19.júní] Vík í Mýrdal, miðvikudag [18.] Tíðin köld og gróður lítill, vantar regn og meiri hlýindi. Sauðburður hefir gengið vel og afkoma fénaðar allstaðar góð. 

Hænir á Seyðisfirði segir 5.júlí:

Ökklasnjór varð á götunum á Siglufirði á sunnudagskvöldið var [29.júní]. Og í Eyjafirði gránaði niður undir neðstu bæi.

Júlí: Lengst af hæg tíð og hagstæð syðra, síðri norðaustanlands. Hiti var nærri meðallagi.

Vísir birtir þann 8. bréf dagsett þann 6. fyrir austan fjall:

Veðrátta var lengi köld í vor, og sífelldir þurrkar fram að þessu, að kalla má. Nú hefir verið afbragðs veðrafar til útivistar, sólfar mikið og veður hin fegurstu, en ekki að sama skapi gagnsæl, því að grasbrestur er einhver hinn mesti, sem lengi hefir verið hér um slóðir, bæði á túnum og útengi. Sláttur hlýtur því að byrja miklum mun siðar en vant er. Safamýri er graslaus og svo þurr, að hægt er „að velta sér i henni allri án þess að vökna“, að því er kunnugur maður segir, og er það nýlunda. Bestur stofn á grasi mun vera í Oddaflóðum á Rangárvöllum, en þangað er mjög torsótt til heyfanga og varla fært „nema jötnum og múlösnum". eins og Gröndal segir í sögunni af Heljarslóðarorrustu. Síðustu dagana hafa farið allmiklir skúrir um sumar sveitir, einkum hinar efri. Fljótshlíð, Land, efri Rangárvöllu og Hreppa, en heitt skin annað kastíð; mætti því vera, að nú tæki að rætast betur úr um grasvöxtinn, en á horfðist.

Fréttir Morgunblaðsins um tíð úti á landi:

[6.júlí] Seyðisfirði 4.júlí. FB Vorið hefir verið hið erfiðasta til sveita. Er veðráttan óvenjuköld og mikill grasbrestur fyrirsjáanlegur.

[11.júlí] Undan Eyjafjöllum var símað í gær að þar hafi verið ofsarok mikið á austan og gert ýmsar skemmdir, einkum á kálgörðum.

[12.júlí] Þingeyri 11.júlí FB Mjög illt útlit með grassprettu hér. Tún eru afarslæm en útengi nokkru skárri. Bithagi er orðinn sæmilegur.

[18.júlí] Akureyri 16.júlí FB Túnasláttur er að byrja hér. Grasspretta er orðin í meðallagi.

Morgunblaðið birtir þann 16. tilkynningu frá Veðurstofunni:

Frá Veðurstofunni: Frá deginum í dag ætlar veðurstofan til reynslu að auka veðurspárnar, sem að þessu hafa aðeins snert vindátt og veðurhæð, og segja einnig fyrir um, hver líkindi séu fyrir úrkomu. En lýsing á veðurlaginu verður að miklu leyti felld niður að morgninum.

Þann 19. segir Morgunblaðið frá því að sláttur sé hafinn víðast hvar austan fjalls og sumstaðar á Norðurlandi. 

Ágúst: Góð tíð syðra, en nokkuð úrkomusamt og óvenju þungbúið veður nyrðra. Hiti nærri meðallagi.

Vísir birti þann 6. frétt frá Akureyri sem dagsett er þann 5.:

Hér hefir verið hrakviðri undanfarna daga og í nótt sem leið snjóaði í fjöll. 

Morgunblaðið segir þann 7.ágúst:

Morgunblaðið átti samtal við Siglufjörð í gær. Er þar kuldi mikill og alhvítt niður að sjó. Hefir engin síld aflast þessa viku, skipin legið inni, en bjuggust við að fara út á veiðar í gærkvöldi.

Morgunblaðið birti þann 20. fréttapistil frá Vestfjörðum:

Tíðarfar hefir verið það sem af er þessu ári hið ákjósanlegasta – eins og annars staðar á landinu. Sífelldir þurrkar hafa verið þar síðan í vor snemma, og hefir þetta haft hina mestu þýðing fyrir fiskverkun. En hún er rekin í stórum stíl á Vestfjörðum. Mun aldrei hafa verið þurrkað eins mikið þar á sama tíma. Aftur á móti hafa þessir þurrkar eyðilagt grassprettu, og hafa því verið bændum þungir í skauti. Tún eru afarilla sprottin víðast - langt fyrir neðan meðallag. Af túni einu, sem fengust af í fyrra 200 hestar, fengust nú hundrað; af öðrum bletti, sem gaf 60 hesta í fyrra, fæst nú um 15-20. Og þessu líkt er það víðar.

Og þann 26.kom pistill úr Mýrdal í Morgunblaðinu:

Mýrdal í gær. (Eftir símtali) Heyskapur hefir gengið mjög vel síðustu viku, og eru flestir að losast úr túnum, sumir lausir. — Grasvöxtur varð góður, mýrar ágætar, einkum Ósengið. Í norðanstorminum á dögunum fauk hey í Austur-Mýrdal og varð af nokkur skaði. 

Allsnarpur jarðskjálftakippur fannst í Reykjavík að kvöldi 27. 

September: Þokkaleg tíð syðra, en síðri fyrir norðan. Uppskera úr görðum allgóð. Kalt.

Ólafur á Lambavatni segir þann 26.september: „Aftakaveður, ekki komið hér annað eins veður fleiri ár á þíða jörð“ og þann 29.: „Sortabylur allan daginn og nóttina, annað eins veður hefir ekki komið hér í mörg ár um þennan tíma árs. Má búast við stór fjártjóni“. Snjódýpt 45 cm á Suðureyri í Súgandafirði þann 29. Föl var á jörðu á bæði Eiðum og Nefbjarnarstöðum þann 8. 

Vísir birtir þann 6. eftirfarandi frétt af borgarstjórnarfundi:

Borgarstjóri gat þess, að rafmagnsstjórn hefði ákveðið að setja upp regnmæli á Kolviðarhóli, því nauðsynlegt væri, vegna rafmagnsstöðvarinnar, að vita um úrkomu á þessu svæði, en veðurathugunarstöðin gæti engar upplýsingar gefið í þessu efni, og væri ekki fáanleg til að setja upp regnmæli á þessum stað.

Ekki er vitað til þess að mælingar hafi verið gerðar á Kolviðarhóli á þessum árum, en þremur árum síðar var farið að mæla úrkomu í Hveradölum og stóðu þær mælingar fram til ársins 1934. Á stríðsárunum var síðan mælt á Kolviðarhóli skamma hríð. 

Talsverðir jarðskjálftar gengu á Reykjanesi, einkum þann 4., 5. og 6. Morgunblaðið segir frá tjóni í Krísuvík í pistli þann 11.:

Marteinn Þorbjörnsson, bóndi í Krísuvík, kom á skrifstofu Morgunblaðsins og bað þess getið, að ómögulegt væri að hýsa menn í bæjarhúsunum þar, því húsin væru öll skekkt og rambóneruð eftir jarðskjálftana, enda ekki hættulaust að hafast þar við, því enn sagði hann vera kippi og hræringar daglega þar syðra. Þeir, sem kynnu að fara þangað suður eftir, en haga þannig ferðum sínum, að þeir verða nætursakir þar syðra, verða því að hafa með sér tjald. Í gær sáust reykjar- eða gufumekkir héðan úr bænum á þeim slóðum þar syðra. Virtist annar reykurinn vera hérna megin við Sveifluháls, nálægt Trölladyngju, en hinn sunnanvert við hálsinn, í stefnu á Krísuvíkurhverina, sunnanvert við Kleifarvatn. Væntanlega getur Morgunblaðið skýrt nánar frá þessum fyrirbrigðum innan skamms. 

Sú lýsing birtist í Morgunblaðinu þann 10. - en verður ekki rakin hér. Þar kom fram að aukið afl hafi færst í leirhveri á svæðinu og langar sprungur myndast. Skriður höfðu og fallið úr fjöllum. Tíminn segir þann 13.:

Við jarðskjálftann myndaðist í Krísuvík nýr leirhver, sem gýs leirstroku 3-4 faðma í loft upp fjórðu hverja sekúndu. Hveraskálin er um 30 ferfaðmar.

Morgunblaðið segir frá því þann 3. september að norskt selveiðiskip hafi aðfaranótt 2. slitnað upp frá austurgarði hafnarinnar í Reykjavík í roki en engin spell orðið.

Daginn eftir segir blaðið frá því að brugðið sé til þurrviðra og hlýinda fyrir norðan. Ekki stóð það þó lengi því þann 9. segir blaðið:

Akureyri 8.september FB Tíðarfarið hefir aftur breyst til hins verra, og féll snjór í nótt niður undir bæ. Reytingur er af síld í reknet.

Morgunblaðið segir fréttir af tíð og heyskap:

[14.september] Austan úr Mýrdal komu hingað í fyrrakvöld þeir Ólafur Halldórsson verslunarmaður í Vík og Ólafur Kjartansson kennari. Sögðu þeir mikið hey úti í Mýrdal þegar þeir fóru, því þurrklaust hafði verið frá því um höfuðdag. Einnig slæmt austan Mýrdalssands. En nú er þurrkur þar eystra, og lagast þá fyrir mönnum. Undir Eyjafjöllum og í útsveitum hafa þurrkar verið góðir, og hey náðust að jafnaði undan ljánum. Nokkur skaði varð undir Eyjafjöllum vegna heyfoks.

[20.september] Akureyri, 19.september FB Hér er mesta kuldatíð og mjög orðið vetrarlegt. 

[21.] Kuldatíð hefir verið síðustu daga, og í Esjuna snjóaði í fyrrinótt.

Þann 28. segir Morgunblaðið frá skipströndum á Húsavík:

Akureyri 27. sept. FB Tvö mótorskip héðan „Báruna" og „Hvítanes" rak í nótt í land á Húsavík í norðanroki. „Hvítanes" brotnaði svo mikið að vonlaust er um að skipinu verði bjargað, en „Báran" er lítið skemmd. „Hvítanes" var vátryggt fyrir 18 þúsund kr. Skipin voru á kolaveiðum. — Mannskaði varð enginn.

Og þann 30.birtir blaðið frekari fréttir af hretinu:

Frá Sauðárkróki. Mesta hryssings- og kuldatíð nú undanfarna daga, þó ekki snjór í lágsveitum. Hey ekki úti að miklum mun í Skagafirði. Heyskapur yfirleitt í löku meðallagi, en ekki afleitur. Þó búist við mikilli fjártöku í haust, því óvenjulega mikið var sett þar á í fyrra. Afli hefir verið með meira móti þar á firðinum í allt sumar, en gæftir stopular. Göngum hefir verið frestað nokkuð þar nyrðra, en því miður ekki allstaðar jafnlengi og sumstaðar (í Húnavatnssýslu) alls ekki, svo búist er við slæmum heimtum,- ekki síst þar eð óveður hafa mikil verið á fjöllunum.

Frá Húsavík. Tíðin enn verri í Þingeyjarsýslu en í Skagafirði, og mikil hey úti ennþá, sumstaðar hartnær helmingur útheyskapar. Engir þurrkar þar síðan um höfuðdag. Snjólaust var þó í lágsveitum þar í gær, en hryssingsveður og aftaka brim. Ef heyin nást ekki inn sem úti eru, horfir víða til mestu vandræða.

Frá Siglufirði. Síldarafli er enn þar, er á sjó gefur, en nú er mikið brim og hefir verið ófært á sjó undanfarna daga. ... Í Fljótum er heyskaparafkoman sæmileg, hey hirt að mestu leyti.

Stórhríðarbylur var í gær á Vestfjörðum. Var símað frá Dýrafirði að þar sæist ekki milli húsa.

[Reykjavík] Vetrarlegt hefir verið hér undanfarna daga hefir jörð verið alhvít og fjöll eru nú hvít niður undir bæi. [Veðurstofan segir að alhvítt hafi verið 28. og 29. - en snjódýpt aðeins 1 cm]. 

Vísir segir þann 26. frá óvenjulegri stöðu Þingvallavatns:

Sakir mikilla þurrka og langvinnra, hefir lækkað svo í Þingvallavatni, að nema mun mörgum fetum á yfirborði vatnsins. Niður af Kárastöðum, þar sem er aðalbátalendingin þaðan, er nú tæplega lendandi fyrir grynningum. Vestur með Kárastaðaásnum eru uppsprettulindir, sem sjaldan eða aldrei hafa þornað í manna minnum, en nú er þar allt veltiþurrt og verður að sækja neysluvatn annað hvort austur í Öxará eða vestur í Móakotsá, út undir Heiðabæ.

Í illviðrinu í lok september varð einnig tjón á sjó. Morgunblaðið segir frá þann 5. í frétt frá Ísafirði þann 4.:

Mótorkútter Rask, eign Jóhanns J.. Eyfirðings & Co, hefir vantað í heila viku og er talið víst, að skipið hafi farist, sennilega í ofviðrinu á laugardagsnóttina var [27.] Skipshöfnin var 15 menn alls.

Og þann 9. október:

Aftakaveður hafa margir togararnir fengið undanfarið, þeir sem voru á veiðum fyrir Vesturlandi. Urðu margir þeirra að hleypa frá veiðum inn á hafnir, Svo mikið veður gerði, að t.d. Víðir missti út um 30 tunnur af lifur, og á Draupnir rak ís á einni svipstundu, svo að hann varð að hætta veiðum samstundis og hleypa hingað suður. Þetta norðanveður hefir mjög hamlað veiðum togaranna upp á síðkastið.

Tíminn segir líka frá óhappi á sjó í sama veðri í pistli þann 11.október:

Vélbáturinn Elín úr Hafnarfirði var á leið suður frá Siglufirði um síðustu mánaðamót. Hreppti stórviðri við Horn, tók út einn mann.

Október: Hagstæð tíð lengst af. Nokkuð úrkomusamt á Suður- og Vesturlandi. Hiti nærri meðallagi.

Morgunblaðið segir frá góðri tíð norðanlands í pistli þann 28.október:

Öndvegistíð er nú á Norðurlandi. Í sumum sveitum nyrðra, er sagt, að heyskapur hafi orðið sæmilegur. þó óþurrkarnir væru mjög langvarandi í sumar, þá voru kuldarnir svo miklir, að heyin hröktust minna en menn áttu von á.

Nóvember: Nokkuð skakviðrasamt, en hlýtt lengst af. Sums staðar nokkur snjór síðari hlutann.

Mikil móða í lofti suma daga austanlands og jafnvel öskufall tengt eldsumbrotum í Öskju. 

Morgunblaðið segir frá símslitum aðfaranótt 1.nóvember - trúlega vegna ísingar:

Símslit urðu í fyrrinótt á tveim stöðum. Brotnuðu 12 símastaurar á leiðinni frá Hólmum niður að sjó, og er því sambandslaust við Vestmannaeyjar. Einnig bilaði línan eitthvað á leiðinni til Hallgeirseyrar og Miðeyjar.

Og blaðið birtir stutta pistla um tíð:

[5.] Gæðatíð er sögð hafa verið undanfarið á Norðurlandi. Er t.d. snjólaust enn að heita má í Eyjafirði. En hér austur í sveitum kvað vera kominn óvenjulega mikill snjór um þetta leyti vetrar.

[11.] Afburða-góð tíð er nú um land allt, og hefir verið all-lengi. Er upp undir 10 stiga hiti á degi hverjum sumstaðar á landinu. Í sveitum norðanlands er nú víða unnið að jarðabótum, og er það mjög sjaldgæft á þessum tíma árs.

Þann 13. rak saltskip upp í Vestmannaeyjum. Morgunblaðið segir frá:

Vestmannaeyjum 14. nóv. FB Austanstormur og foráttubrim var hér í Eyjum í allan gærdag. Saltskipið „Sonja", á að giska 1900 tonn að stærð, lá hér á innri höfninni. Rak það á land upp og gerði talsverðan usla í mótorbátaflotanum, slitnuðu margir þeirra upp og einn sökk. Skemmdust bátarnir furðu lítið. Skipið stendur á góðum stað og er álit manna, að það muni nást út, hafi það ekki laskast að mun, en enn er mönnum ókunnugt um hve miklar skemmdir er að ræða.

Vísir segir þann 26.: „Ágætt skautasvell er nú á Tjörninni og má búast við þar verði fjölmennt i kvöld, ef veðrið verður gott“.

Desember: Hlý og nokkuð stormasöm tíð.

Morgunblaðið segir úr Svarfaðardal þann 6.: „Úr Svarfaðardal var símað í gær, að þar væri nú alauð jörð, og hefði verið ágætasta tíð undanfarna viku“.

Morgunblaðið segir:

[10.] Illveður og stormar hamla nú mjög veiðum togaranna, liggur fjöldi þeirra inni á Vestfjörðum, aflalitlir, þeir sumir eru þó farnir héðan fyrir nokkru.

[21.] Akureyri 20.desember. FB Hér er nú veðurblíða, en alsnjóa. 

Á annan í jólum gerði mikið veður. Veðrið tók sig síðan upp þann 29. og 30. en snerist á áttinni, úr austri í norðaustur. Gríðardjúp lægð var fyrir suðvestan land, þrýstingur í lægðarmiðju jafnvel undir 930 hPa (og hugsanlega enn lægri) að kvöldi þess 26. og aðfaranótt 27. Þann 29. kom önnur lægð úr suðri, ekki eins djúp og fór heldur austar en sú fyrri. Veður samfara síðari lægðinni varð verst á Vestfjörðum, fárviðri var talið á Höllustöðum í Reykhólasveit aðfaranótt gamlársdags. Líklegt er að sjávargangsskaðarnir fyrir vestan, norðan og austan hafi orðið með fyrri lægðinni, þeirri dýpri (þá var líka stórstreymt), en þó rétt hugsanlegt að þeir hafi norðanlands og á Vestfjörðum orðið með síðari lægðinni. 

Morgunblaðið segir frá þann 28., 30. og 31.:

[28.] Aftaka landssunnanveður gerði hér að kvöldi annars dags jóla, með steypiregni og éljum á víxl. Hafði um daginn margt fólk farið héðan úr bænum suður að Vífilsstöðum til að hitta vini og kunningja, er þar dvelja. En svo mikið var veðrið, að milli 30 og 20 manns varð að gista á hælinu yfir nóttina. Treystust ekki bifreiðar að sækja það um kvöldið.

[30.] Vatnselgur mikill hefir verið hér í bænum síðustu daga. Og hefir vatn mikið komið upp í kjöllurum sumra húsa í bænum, svo að véldæla brunaliðsins hefir verið fengin til að dæla vatninu úr einstaka kjallara.

Skemmdir á fjárhúsum. Aftakaveður gerði upp í Borgarfirði, eins og hér, á annan í jólum. Urðu skemmdir á fjárhúsum í Haukatungu fauk þak af þeim öllum, og skemmdust einnig veggir nokkuð. Átti bóndinn í Haukatungu um 200 fjár í þaklausum húsum daginn eftir. Hefir hann nú fengið efni, járn og tré, og smiði frá Borganesi, til þess að bæta þetta. Hefir bóndinn orðið fyrir allmiklu tjóni.

[31.] Símslit hafa orðið allvíða í veðraham þeim sem verið hefir upp á siðkastið. Var í gær ekki hægt að ná talsambandi norður um lengra en til Borðeyrar. En ritsímasamband náðist alla leið til Seyðisfjarðar, en lélegt þó. Til Ísafjarðar var og sambandslaust; náðist ekki lengra en til Ögurs. Er síminn mjög kubbaður fyrir norðan, milli Blönduóss og Sauðárkróks, en einkum milli Sauðárkróks og Akureyrar. En enga menn var hægt að senda til viðgerða í gær, bylur var á Norðurlandi.

Í Kolbeinsstaðahreppi Hnappadalssýslu fuku hey á 3 bæjum í ofveðrinu 2. jóladag, á Kolbeinsstöðum, Tröð og Syðstu-Görðum. Bóndinn á Kolbeinsstöðum, Björn Kristjánsson, missti þriðjung allra heyja sinna. Í blaðinu í gær var skakkt sagt frá; Haukatunga, þar sem þökin fuku á í fjárhúsunum, var talin vera í Borgarfirði, en hún er í Kolbeinsstaðahreppi.

Hænir segir frá veðrinu annan jóladag í pistli þann 3.janúar 1925:

Ofsaflæði og slagveðursrigning var hér kvöldið annan í jólum og aðfaranótt hins þriðja fram undir morgun. Gekk sjór svo hátt á land, að langt er annars eins að minnast. Urðu skemmdir allmiklar á bryggjum hér norðan megin fjarðarins. Í bryggjuna framundan gömlu Framtíðinni og Liverpoolbryggjuna brotnuðu stór skörð og bryggja Hermanns Þorsteinssonar sópaðist burt með öllu. Tveir stórir vélbátar, er stóðu stafnrétt í fjörunni, komust á flot og kastaði flóðbylgjan þeim flötum á hliðarnar. Einnig brotnaði töluvert skarð í Vestdalseyrarbryggju og þar brotnuðu 2 smábátar.

Morgunblaðið segir 1.janúar 1925:

Jarðlítið er sagt vera austur í sveitum nú. Var símað frá Kiðjabergi í gær, að snjóað hefði svo undanförnu að fé hefði verið tekið á gjöf. Flóðbylgju mikla gerði á Ísafirði fyrir stuttu. Gekk sjór upp í hús og skemmdi m. a. salt í geymsluhúsum. [Ekki ljóst í hvoru veðrinu þetta var].

Og þann 6.janúar segir blaðið:

Í Ólafsfirði var sjávargangur mikill fyrir síðustu helgi og gróf uppsátur undan bátum svo þeir féllu. Fólk varð að flýja úr húsum þeim sem næst liggja sjónum. Verulegir skaðar urðu ekki. [Ekki ljóst hvaða dag sjávarflóðið varð]. 

Lýkur hér að sinni umfjöllun hungurdiska um veður ársins 1924. Að venju má finna ýmsar tölulegar upplýsingar í viðhenginu. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Greiðar leiðir

Lægðir virðast nú eiga greiða leið austur um Atlantshaf þvert - aðallega fyrir sunnan land. Spákort everópureiknimiðstöðvarinnar fyrir fimmtudag 16.ágúst sýnir eina lægðina - nokkuð öfluga miðað við árstíma á hraðri leið til austurs frá Suður-Grænlandi um Færeyjar og þaðan til Norður-Noregs.

w-blogg140818a

Fleiri eiga síðan að fylgja í kjölfarið, bæði grunnar og djúpar. Veður ætti að haldast sæmilegt hér á landi - engin hlýindi að vísu og heldur hneigist til lækkandi hita. Úrkoma verður suma dagana.


Fyrstu tíu dagar ágústmánaðar

Austlægar og norðlægar áttir hafa nú um hríð verið meira áberandi heldur en lengst af í sumar - og veðurlag því nokkuð annað. Við skulum fyrst líta á stöðuna í háloftunum fyrstu tíu daga ágústmánaðar á korti evrópureiknimiðstöðvarinnar.

w-blogg110818a

Heildregnu línurnar sýna meðalhæð 500 hPa-flatarins. Daufar strikalínur sýna meðalþykkt. Við sjáum að mikil háloftalægð hefur verið í námunda við landið - köld miðað við umhverfið eins og venja er með slíkar lægðir. Litirnir sýna þykktarvik, bláir neikvæð vik, en gulir og brúnir jákvæð. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hærri er hitinn. 

Það er dálítið hlálegt að sjá eina kuldann á kortinu á litlum bletti í námunda við Ísland, en annars alls staðar jákvæð og mjög mikil austur í Evrópu og norður í höfum. Að vísu er miðað við meðaltal alls mánaðarins - fyrsti þriðjungur hans er venjulega nokkru hlýrri en síðari hlutinn og jákvæðra vika því heldur að vænta á korti sem þessu. 

Meðalhiti fyrstu tíu daga ágústmánaðar er 10,9 stig í Reykjavík, +0,1 stigi ofan meðallags áranna 1961-1990, en -1,0 stigi neðan meðallags síðustu tíu ára. Hitinn lendir í 16.hlýjasta sæti (af 18) á öldinni, en í 82. á 144-ára listanum. Hlýjastir voru dagarnir tíu árið 2003, meðalhiti þá var 13,5 stig, en kaldastir 1912, meðalhiti aðeins 6,5 stig. Á þessari öld voru dagarnir tíu kaldastir árið 2013.

Á Akureyri er meðalhiti mánaðarins það sem af er 9,9 stig, -0,9 neðan meðallags 1961-1990, en -1,3 stig neðan meðallags síðustu tíu ára.

Hiti er ofan meðallags sömu daga síðustu tíu ára á rúmlega 20 stöðvum austan- og suðaustanlands lands. Mest er jákvæða vikið í Hvalnesi og við Lómagnúp, +0,9 stig og +0,7 stig í Papey. Neikvæða vikið er mest við Siglufjarðarveg, -2,0 stig, og -1,6 stig á Nautabúi og Gjögurflugvelli.

Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 8,2 mm og er það innan við helmingur meðalúrkomu sömu daga. Á Akureyri hefur úrkoma mælst 12,8 mm - það er í ríflegu meðallagi.

Sólskinsstundir hafa mælst 73,4 í Reykjavík og er það í ríflegu meðallagi og í 24.sæti á 107-ára lista sömu daga.

Sem stendur er talsvert af hlýju lofti fyrir suðvestan land - en varla líklegt að við njótum þess svo mjög. Að sögn reiknimiðstöðva er hvergi mjög hlýtt loft að sjá í námunda við landið í framhaldinu - og ekki mjög kalt heldur. 


Við Bjarnarey (fyrir nærri 100 árum).

Nú lítum við á fáeinar skýringarmyndir úr gömlum ritlingi sem ætlaður var þýskum togurum og öðrum sjófarendum. Hann er úr „röð“ sem veðurstofan í Hamborg gaf út á árunum um og eftir 1950. Það var dr. Martin Rodewald sem tók saman. Ritlingur dagsins ber nafnið „Klima und Wetter des Fischereigebiets Bäreninsel“ - Veður- og veðurfar á Bjarnareyjarmiðum og kom út árið 1949. 

Fyrsta myndin sem við horfum á ber saman mánaðarmeðalhita tveggja tímabila, annars vegar 1912 til 1916, en hins vegar 1922 til 1928. 

rodewald_bjarnarey (2)

Árstíðasveifla lofthita [gróf] yfir hafsvæðinu vestur af Bjarnarey. 

Höfundur bendir á að hiti á miðunum sé heldur hærri heldur en á veðurstöðinni á eynni sjálfri. Að sumarlagi er meðalhiti í kringum 5 stig - svipað og í Hamborg í nóvember. Sumarið stendur í þrjá mánuði, frá júlí til september. Takið eftir því að júní er ekki talinn sumarmánuður. Frost eru ekki tíð í þessum þremur mánuðum. Frost sé þá aðeins 3 til 6 daga í hverjum þeirra á veðurstöð eyjarinnar, en aftur á móti um 20 daga í júní og 24 daga í október. Frost er ekki alveg jafnalgengt á miðunum. 

Bent er á hina gríðarlegu vetrarhlýnun á milli tímabilanna tveggja. Það hefur hlýnað um 3 til 5 stig í vetrarmánuðunum, en hins vegar ekkert vor og sumar. 

Þetta er svipaðs eðlis og átti sér stað hér á landi á sama tíma. Vetur hlýnuðu að mun, en sumar og vor ekki (það gerðist hins vegar síðar).

Í framhaldinu fjallar Rodewald um það sem þjóðverjar kalla „kernlose Winter“, hugtak sem stöku sinnum sést í veðurfræðitextum, á síðari árum einkum þegar fjallað er um Suðurskautslandið („coreless winter“). „Vetur án kjarna“ - er kallað þegar hiti fellur sem vera ber að hausti, frá haustjafndægrum, í október og nóvember, en síðan ekki meir. Hryggjarstykki vetrarkuldans vantar. Rodewald segir að á árunum 1922 til 1928 hafi komið mjög hlýir kaflar á norðurslóðum í desember og janúar, og apríl hafi á þessum árum verið um 2 stigum kaldari heldur en janúar. Þetta tengist þeim almennu sannindum að hafísþekja er í hámarki í mars og apríl auk þess sem lægðabrautir hörfi á þeim tíma til suðurs - norðankuldar hafi því meira rými til ríkis á þessu svæði. 

Næsta mynd undirstrikar þetta. 

rodewald_bjarnarey_13k

Hér má sjá tíðni norðaustlægra átta við Bjarnarey (norðan-, norðaustan- og austanáttir teknar saman). Miðað er við árin 1920 til 1928. Lárétti ásinn sýnir mánuði ársins (í rúmt ár). Lóðrétti ásinn er hlutfall í prósentum. Á skástrikuðu tímunum er tíðni norðaustlægu áttanna meiri en 45 prósent. Hámarkið á vorin er sérlega áberandi, það stendur frá því í mars og fram í júní. Þess gætir líka hér á landi, sérstaklega á hörpu, það er fyrsta mánuð íslenska sumarsins. Annað hámark má greina að hauslagi. Þess gætir raunar líka hér á landi og hérlendis er sunnanáttarhámark í febrúar, rétt eins og norður við Bjarnarey. 

rodewald_bjarnarey (3)

Hlýnunin milli tímabilanna tveggja tengist ekki síst breytingum á ísröndinni. Við hana er oft mikill hitamunur. Myndin sýnir dæmigerðan hitamun blási vindur samsíða röndinni. Rodewald telur að það muni að jafnaði 6 stigum á hita yfir ís og auðum sjó blási vindur af austri, en um 5 stigum í norðanátt. Að sumarlagi er líka töluverður munur því þá situr mjög kaldur sjór - ísbráð - þar sem vetrarís ríkti fyrr um vorið. 

Á árunum fyrir 1920 var ís mjög mikill á þessum slóðum, talað er um að árið 1917 hafi barentshafsís og austurgrænlandsís tengst saman. Ekki er vitað um að slíkt hafi gerst aftur síðan. Eftir 1920 hörfaði ísinn mjög og áhrifa þess gætti mjög við Bjarnarey og á Svalbarða almennt - sérstaklega þó að vetrarlagi. 

Á sjöunda áratugnum og fram á tíunda áratuginn sótti ís nokkuð fram aftur, þó ekki eins og áður var. Eftir það hörfaði ísinn jafnvel meira en hann gerði á þriðja og fjórða áratugnum, og hefur hann hinn síðari ár verið enn minni að tiltölu í Barentshafi heldur en við Austur-Grænland. Enda hefur hlýnun í heiminum óviða verið eindregnari heldur en þar um slóðir. 

Svo virðist sem hin almenna hlýnun í heiminum eigi mikinn þátt í rýrnun hafíss á norðurslóðum (og líka við Ísland) frá því á 19.öld. Það er nákvæmlega engin ástæða til að efast um það. Hitt vitum við ekki hvort sú gríðarlega rýrnun sem orðið hefur síðustu 20 ár er öll þeirri hlýnun að kenna eða ekki. Sagan segir okkur að sveiflur í ísútbreiðslu (og hita) á norðurslóðum eru einkennilega miklu meiri heldur en almennar sveiflur í hitafari á heimsvísu skýra beint, einar og sér. 

Við vitum ekki heldur hvort einhver óafturkræf „mörk“ hafa verið rofin, hvort ís hafi endanlega verið hreinsaður af stórum svæðum eða ekki. Auðvitað finnst ritstjóra hungurdiska þessi staða óþægileg. Það er ekki síst vegna þess að fari svo að ís snúi aftur í miklu magni í Barentshaf og til Íslands kemur óhjákvæmilega mikill þrýstingur á hugmyndir um hnattræna hlýnun - að ósekju. Ritstjórinn vill þá ekki heldur heyra fullyrðingar um að aukningin sé hnattrænni hlýnun „að kenna“. 

Eftir situr að hlýnun norðurslóða á þriðja áratugnum var miklu meiri heldur en almenn heimshlýnun. Margt bendir til þess að hlýnun á sömu slóðum síðustu 20 ár sé einnig meiri en heimshlýnun skýrir. Gríðarleg kólnun varð á norðurslóðum þarna á milli - en samt hlýnaði í heiminum.   

Aðalatriði er að þekkingu okkar á hinum hægari þáttum andardráttar norðurslóða er nokkuð ábótavant og mikilvægt er að yfirlýsingar honum tengdar séu settar fram af hógværð þar til að úr þekkingarskortinum hefur verið bætt. 

En almenn hlýnun af völdum aukinna gróðurhúsaáhrifa heldur sínu striki hvað sem þessum staðbundnu stórsveiflum líður. 


Af árinu 1898

Árið 1898 var mjög umhleypingasamt og illviðri voru tíð, en samt fór ekki mjög illa með veður þegar á heildina er litið. Svalt þætti okkur nútímamönnum, en höfum þó nokkrum sinnum upplifað ámóta hitafar, síðast 1995. 

Einn mánuður ársins, október, telst hafa verið hlýr, febrúar, mars, maí, júlí, ágúst og nóvember hins vegar kaldir. Febrúar kaldastur að tiltölu. Hiti annarra mánaða var nærri meðallagi. 

ar_1898t

Myndin sýnir daglegan hámarks- og lágmarkshita í Reykjavík. Taka má eftir alllöngum jafnköldum kafla í febrúar og framan af mars. Þá var mjög snjóþungt víða um land. Mikið kuldakast gerði í dymbilvikunni, en síðan var góð tíð síðari hluta aprílmánaðar. Kuldaköst spilltu maímánuði nokkuð. Eins og sjá má vantaði mjög upp á sumarhlýindi í Reykjavík, varla að hitinn næði 15 stigum. Slæm kuldaköst gerði í ágúst - en hlýtt var í október. 

Mesta frost á árinu mældist í Möðrudal 6.apríl, -28,2 stig, en hæsti hiti mældist á Teigarhorni þann 21.ágúst, 23,1 stig. Ritstjóri hungurdiska telur 9 mjög kalda daga í Reykjavík, þar af voru þrír í dymbilvikuhretinu, tveir í hretinu um miðjan maí og fjórir í hinum hretasama ágústmánuði. Í Stykkishólmi telur hann fjóra mjög kalda daga, tvo í apríl, einn í maí og einn í ágúst (5.). Í Stykkishólmi telst einn dagur mjög hlýr. Það var 7. október. 

Árið á fáein dægurlágmörk sem enn standa. Á landsvísu er það lágmarkið í Möðrudal 6.apríl. Sá dagur á einnig dægurlágmarkshita í Reykjavík og á Akureyri. Tvö landsdægurhámörk standa enn, áðurnefndur hiti á Teigarhorni 21. ágúst og síðan 19,3 stig sem mældust á Akureyri 26.september.  

Meðalloftþrýstingur var með lægsta móti í apríl. Lægsti þrýstingur ársins mældist á Teigarhorni 15.febrúar, 942,1 hPa. Seyðfirðingar sögðust hafa séð loftvogina fara niður í 933 hPa í þessu sama veðri. Vel er það hugsanlegt, aðeins var lesið þrisvar á dag af á Teigarhorni - og enginn síriti til staðar. 

Hæst fór loftþrýstingur á árinu í 1039,4 hPa. Það var í Stykkishólmi 25. og 26.mars. 

Hér á eftir er stiklað á veðurtíðindum ársins eins og fjallað var um þau í blöðunum. Að vanda er stafsetning færð til nútímahorfs (að mestu). Ekki er nema hluti sjóslysa tíundaður. Í viðhenginu  má finna meðalhita einstakra mánaða á veðurstöðvunum, upplýsingar um úrkomu og sitthvað fleira. 

Skírnir (1898) segir almennt frá tíð:

Frá nýári og allt til marsmánaðarloka voru miklar fannkomur og umhleypingar. Var þá haglaust milli fjalls og fjöru um allt Suðurland og Vesturland og Norðurland vestanvert, en í Eyjafirði og Þingeyjarþingi og Múlaþingum var góð veðurátta, því að illviðra af suðri gætir þar minna. Svo mikil var fannkoman um Suðurland, að elstu menn muna ekki aðra meiri. Þegar komið var fram í lok marsmánaðar, gerði hlákur, en úr pálmadegi gerði aftur norðanveður með frosti. Gjafatími var víða feikilega langur og lá við heyþroti og felli, en varð þó eigi úr svo teljandi sé. Í maímánuði viðraði allvel og nál kom í jörð. En öndverðan júní var þurrkur og norðanveður, en brá síðan til rigninga, og hélst fram yfir 20. júlí. Grasvöxtur varð í meðallagi, en töður manna skemmdust víða. Fyrstu dagana í ágúst var þurrt, en síðan vætur og óþurrkar til sláttuloka. Sunnanlands og vestan hröktust mjög hey fyrir bændum, en minna norðanlands; og í Þingeyjarþingi og Múlasýslum varð nýtingin góð, því að þar voru meiri þurrviðri um sumarið. Yfir höfuð að tala varð heyskapur í meðallagi, þótt víðast hvar viðraði illa um sláttinn. Nokkru eftir réttirnar kom góðviðrakafli, en ekki var hann langur. Eftir það tóku við umhleypingar og fannfergi og stóð svo til nýárs. Þó var góð tíð austanlands. Í desembermánuði [hér mun sennilega átt við nóvembermánuð - þó illviðrasamt hafi líka verið í desember] gerði afspyrnurok vestanlands og urðu nokkrar skemmdir af.

Janúar: Umhleypingasamt og snjóþungt um vestanvert landið, en betri tíð eystra. Hiti í meðallagi.

Dagskrá birtir þann 16.febrúar bréf úr Skagafirði, dagsett 20.janúar. Þar segir m.a.:

Þriðja þ.m. fauk i ofsaveðri á austan timburhús, er var í smíðum í Bakkakoti i Vesturdal.

Austri segir frá góðri tíð eystra bæði 10. og 20.:

[10.] Tíðarfarið hefir mátt heita hið besta það sem af er þessu ári, en þó nokkuð breytilegt, ýmist frost og hreinveður eða þíður og rigning á nóttum, og er svo að segja marautt upp í mið fjöll. Í dag er bjart veður, frostlítið.

[20.] Veðráttan er alltaf mjög blíð, en í fyrradag gjörði krapasletting og frysti á eftir, svo nú mun jarðlítið sem stendur, að minnsta kosti hér niðrí Fjörðunum. Í dag er veður bjart og frostlítið.

Syðra var tíð verri, Þjóðólfur segir frá þann 21. og 28.:

[21.] Mikil snjókoma hefur verið hér undanfarna daga, og hljóta að vera komin óvenjulega mikil snjóþyngsli til sveita.

[28.] Veðurátta hefur verið hin versta nú alllanga hríð: snjókoma mikil og kafaldsbyljir með köflum.

Febrúar: Umhleypingasamt og snjóþungt um vestanvert landið, en betri tíð norðaustanlands. Kalt.

Þann 18.febrúar segir Þjóðólfur frá því að flutningabátur með fjórum mönnum hafi farist í snörpu sunnanveðri undan Melasveit þann 8.febrúar. 

Stefnir (á Akureyri) segir þann 11.febrúar:

Sama góðviðrið það af er þorra, að vísu umhleypingasamt og óstöðug veður, en frostlítið lengst af og snjólítið. Sauðfé því víðast beitt í Þingeyjarsýslu og landbetri sveitum Eyjafjarðar. og ekki gefin nema hálf gjöf af heyi.

Bréf úr Grímsey, dagsett 14.febrúar birtist í Þjóðólfi 1.apríl:

Nú bíða menn alltaf landleiðis síðan eftir jól og óvíst hvenær það fæst; hér eru sífelldir umhleypingar og úfinn sjór; tíðin hefur mátt heita framúrskarandi óstillt síðan i haust, sjaldan haldist sama áttin daginn út, en frost hafa verið væg og snjókoma lítil; mest frost á vetrinum hefur orðið 26. janúar -11° C: í desembermánuði var að jafnaði + 1° og er það víst óvanalegt. Á sjó hefur ekki gefið síðan á aðfangadag jóla; var þá vel fiskvart; annars hefur verið fremur aflalítið árið sem leið. Enginn hefur sést hér ís og eru lítil líkindi til, að hann sé nálægur; það sem menn hafa til marks um það er: tíðar landáttir, sjóar miklir og sjóhiti ( +1,5 °C til 2,5°) en þegar ís er í nánd er ævinlega dauður sjór og sjókuldi (undir 0° C).

Þjóðólfur birti þann 18. febrúar bréf úr Austur-Landeyjum, dagsett þann 6.:

Tíðarfar mjög óstöðugt, sífelld sunnanátt með snjókomu við og við og þess í millum landsynningar með stórrigningum og er því fjarska hrakasamt á skepnum og lítur þess vegna út fyrir, að fénaður verði rýr undan vetrinum, einkum þegar heybirgðir manna eru fremur litlar eftir sumarið, sem var fremur vætusamt.

Þann 18. febrúar greinir Þjóðólfur frá tíð - og einnig sköðum í illviðri þann 15.:

Veðurátta hefur það sem af er þessum mánuði verið hér mjög stirð, fannfergja afarmikil og kafaldshríðar. Jarðlaust nú fyrir allar skepnur hér sunnanlands. Þykjast gamlir menn naumast muna jafnmikla snjókyngju. - Síðustu 2 daga hefur verið hreinviðri og frostlitið.

Í ofsaroki 15. þ.m. sleit upp fiskiskútu af skipalegunni á Eiðisvík hér inn í sundunum og brotnaði hún í spón. Hafði hún verið keypt frá útlöndum í sumar sem leið fyrir 7000 kr., og var því eigi farin að ganga til fiskjar og eigi vátryggð. Eigendur hennar: Runólfur bóndi Ólafsson í Mýrarhúsum og Jón skipstjóri Arnason hafa því orðið fyrir mjög tilfinnanlegu tjóni.

Austri greinir þann 18. frá ofsaveðri sem gerði eystra að morgni þess 15.:

Ofsaveður gjörði hér að morgni þ.15. þ.m. af norðvestri, er stóð heilan sólarhring, með fjarska knöppum byljum, svo hús léku á reiðiskjálfi, og allt fauk er ekki var því betur njörvað niður; enda var ekki við góðu að búast, því loftvogin var að morgni þ.15. hlaupin niður úr öllu valdi, niður á 700 [933 hPa], sem mun mjög sjaldgæft, og hefir þetta ofsaveður víst náð viða yfir, og líklega gjört töluverðan skaða, víðar en hér. Þessir urðu helstir skaðar hér í firðinum, sem enn er til spurt: Gufubátinn „Elín" sleit upp. Kjötskúr kaupmanns Sig. Johansens fauk alveg og heyhlaða á Búðareyri. Síldarhúsið Þórshamar skemmdist til muna og síldarfélagshúsið á Ströndinni skekktist. Af nýja húsinu í Steinholti fauk nokkuð af járnþakinu og nokkrar plötur af Dvergasteinshúsinu, og einir 4 bátar fuku, þar á meðal uppskipunarbátur við V.T. Thostrupsverslun. Á Vestdalseyri skemmdust bryggjur og fauk „skekta", eign Sveins bónda Jónssonar á Eiríksstöðum.

Frekari fréttir af tjóni í þessu veðri má finna í Austra þann 10.mars - sömuleiðis fréttir af flóði í Fáskrúðsfirði - ekki alveg ljóst hvers eðlis það flóð var:

Fjárskaða voðalegan sagði síðasti Vopnafjarðarpóstur hafa orðið í ofviðrinu mikla þ. 15. febr. á Hámundarstöðum i Nípsfirði, þar sem þeir, atorku- og dugnaðarmennirnir, Björn Jónasson og Sveinbjörn Sveinsson, misstu um þrjú hundruð fjár í sjóinn í ofveðrinu, svo þeir eiga nú aðeins örfáar kindur eftir, og hafa þannig misst nær aleigu sína, og er vonandi, að góðgjarnir menn rétti þessum ungu dugnaðarmönnum hjálparhönd. Töluverðir fjárskaðar urðu einnig í sama veðri, á Skeggjastöðum og Miðfjarðarnesi á Langanesströndum og Litlabakka í Tungu.

Frá Reyðarfirði. Tíðarfar hefir verið að undanförnu allgott. 15. febr. kom ákaflegt norðvestan hvassviðri, en skaða hafði það eigi gjört að mun, sem til hefir spurst. Aðfaranótt 24. febr. kom vatnsflóð á Sævarenda í Fáskrúðsfirði, og gjörði þann skaða, að hjallur og fiskiskúr, ásamt fiski, er var í skúrnum, fór út á sjó, og hafði engu verið náð.

Fjallkonan segir þann 22.mars frá tjóni í sama veðri austur á Síðu:

Ofsaveður gerði 15. febr. á Siðu og víðar austur um, og gerði talsvert tjón. Á Hörgslandi fauk þak af hlöðu, sem Sigurður póstur átti, með báðum stöfnum í einum svip og fuku úr henni um 70 hestar af heyi. Veðrið braut flestar rúður i gluggum á Hörgslandi og viðar. 

Ísafold birtir þann 12.mars bréf úr Strandasýslu og Barðastrandarsýslu, dagsett í febrúar:

Strandasýslu sunnanverðri 25.febrúar: Tíðarfar gott fram yfir nýár, en síðan úrfellasamt mjög, oftast snjógangur af útsuðri. Nú er snjór mikill og haglaust að kalla allstaðar hér um slóðir. Barðastrandarsýslu í febrúarmánuði: Tíðin hefir verið óvenjulega stirð í vetur, einlæg útsunnanveður og hættutíð til sjóarins. Stundum hafa veðrin verið svo ofsaleg, að menn muna naumast önnur eins. 

Ísafold birti 30.mars frétt úr Skagafirði þar sem segir: „Hinn 15.[febrúar] var versta hríð og í rauninni sú fyrsta á vetrinum. Þá kom hinn mesti snjór, og varð víða jarðlaust og annars staðar mjög jarðlítið. Þessi mikli snjór og jarðbönn hafa haldist síðan og minnka nú heyin óðum“. 

Þjóðviljinn ungi segir þann 9.mars frá mannsköðum í illviðri þann 28.febrúar:

Það er nú sannspurt orðið, að i áhlaupsveðrinu 28. hafa orðið tveir skipstapar, annar úr Bolungarvík, en hinn úr Súgandafirði, og hafa þar farið 12 menn í sjóinn.

Mars: Snjóþungt, en lengst af ekki illviðrasamt. Fremur kalt.

Ísafold greinir frá snjóþyngslum þann 5.mars:

Landið sem jökull, ein jökulbreiða frá fjallatindum til fjörumáls. Meira fannkyngi muna naumast elstu menn. Gersamlegt jarðbann frá því með þorrabyrjun, en er jarðlítið síðan á Þrettánda. En frost væg. Horfur mjög slæmar með heybirgðir víða.

Bréf úr Mýrdal, dagsett 12.mars, birtist í Þjóðólfi þann 9.apríl, í sama blaði voru líka bréf dagsett í Önundarfirði 12.mars og í Húnavatnssýslu þann 14.mars:

[Mýrdal] Frá því með byrjun jólaföstu, hefur hér, að heita má, verið einlæg gjafatíð; hagagöngujarðir hafa stórkostlega brugðist, svo hver skepna hefur nú lengi verið á fullri gjöf. Sífelldir, beljandi útsynningar hafa lamið utan hús og mengi, ýmist með frosti og hagli, krapaslyddu eða ofsaroki frá því snemma í desember. Einungis voru blessuð jólin þíð og góð fram til þrettánda. Svona hefur hann nú liðið, og liðið áfram,þessi vetur og alltaf hafa menn verið að vonast eftir bata, tautandi og jarmandi yfir tíðinni.

[Önundarfirði] Veturinn hefur hefur verið mjög rosasamur, einlægir umhleypingar frá því í haust og það fram á þorra. Kafaldshríðar og rigningar hafa skipst á, mest af suðri og útsuðri; en síðan á þorra hefur verið harðindatíð, snjóalag mikið og töluvert frost með köflum mest af norðri, en útsynningséljagangi á hinn bóginn. — Hey hafa reynst víða fremur létt og mikilgæf og er farið að brydda á heyskorti hjá einstöku manni, en ekki er það almennt, en fremur hætt við, að margir verði knappir, ef harðindi þessi haldast, nema vorið bæti því betur úr.

[Húnavatnssýslu - miðri] Eins og sjá má af fregnbréfum héðan og víðar var hin æskilegasta tíð í haust og yfirleitt í vetur fram í miðjan febrúar en þá kom annað hljóð í strokkinn. Hinn 15. febrúar gerði voðalega norðvestan hríð með ákafri snjókomu og síðan hefur hvert hríðarkastið rekið annað. Jörð er því nú orðin undirlögð af gaddi og nálega haglaust fyrir allar skepnur, þar sem til spyrst um þessa sýslu og Skagafjarðarsýslu. Heybirgðir þverra óðum, síðan hross komu á gjöf, en þau eru of mörg víða til að verða aðnjótandi mannlegrar hjúkrunar yfir veturinn.

Og bréf úr Þingeyjarsýslu sem birtist í Þjóðólfi 23.apríl, dagsett 13.mars:

Haustið var hér eitt hið versta, og horfði þá þunglega fyrir mörgum með heybirgðirnar; lá við borð, að margir förguðu stórkostlega af fóðrum. En í lok nóvember skipti algerlega um veðuráttuna, og hefur síðan verið besta veðurátta og nægar jarðir í flestum sveitum Þingeyjarsýslu, svo nú eru menn almennt úr allri hættu, og það þó vorið verði nokkuð hart. Samt hefur alltaf verið jarðskart í sumum efstu sveitum, t.d. ofarlega í Bárðardal, því þar tók aldrei upp hinn fyrsta snjó, og var að kalla jarðlaust til jóla. Hey og beit hafa reynst í betra lagi, og fénaður því — að vonum — í góðu standi.

Bréf, dagsett í Vestmannaeyjum 15.mars birtist í Ísafold þann 23.:

Síðan með þorra hafa gengið allmikil harðindi með talsverðri snjókomu og nær sífelldum suðvestanstormum; bjargarbann fyrir fénað hefir þó hér eigi orðið, nema á Heimaey um tíma. Hlákan 5.-7. þ.m. bræddi megnið af snjónum, og síðan hefir mikill snjór eigi fallið.

Og þann 26. birti Ísafold bréf úr Rangárvallasýslu, dagsett 14.mars:

Síðan um þrettándann hafa verið sífelldar innistöður alls fénaðar á fyllstu gjöf. Níuviknafastan byrjaði og stóð öll með afarmikilli snjókomu og hríðum af útsuðri og töluverðum frostum, 12—13°C og segjast gamlir menn eigi muna aðra eins útsynninga. Má síðan segja, að eigi hafi séð dökkvan díl né stingandi strá, hvert sem litið og hvar sem farið var. Síðan með sjöviknaföstu hafa aftur verið stillur og oft indælt veður, bjart og hlýtt, en allt af öðru hvoru mikil snjókoma, og enn, i dag, er töluverð snjókoma og ekki afléttilegt. Allan þenna tíma hefir Rangárvalla- og Árnessýsla verið ein snjóeyðimörk, og færðin svo, að engri skepnu hefir verið fært frá koti; allar bjargir bannaðar víðast. Snjókyngið hefir að vísu sigið og þést við 2 eða 3 stutta blota og harðnað af frosti, svo að mannfæri er nú nokkurn veginn, en ófært má heita hér enn að komast með skepnur um jörðina. Síðastliðið sumar var hér um sýslur víðast erfitt og rýrt til heyskapar. Óþurrkar um túnaslátt allan og útengi snögg, svo að töður flestra hröktust og hey urðu almennt með minna móti, en engar heyfyrningar undir eftir landskjálftasumarið. Það er því engin furða, þótt almenningur hafi verið miður vel við búinn jafnlöngu og algerðu jarðbanni og hagleysu, sem nú er orðið, enda er almenningur mjög orðinn tæpur, og sumir i voða, en fáir meir en sjálfbjarga.

Og bréf úr Árnessýslu og Vestur-Skaftafellssýslu birtust í Ísafold þann 30., bæði dagsett þann 21.:

[Árnessýsla] Tíðin mjög stirð bæði til lands og sjávar; þó má ekki heita tilfinnanlegur heyskortur hér í hreppi, enda litið um vetrarbeit venjulega, nema fjörubeit, sem ekki hefir brugðist í vetur. Sjóveður mjög stirð, og valda því brim og rok, en nægur fiskur fyrir, þegar út á sjó verður komist. 

[Vestur-Skaftafellssýsla] Tíðin hefir þótt skara fram úr venju að óblíðu og snjóasafni, síðan nýár. Almennt heyleysi ytra og eystra i vændum, ef ekkert batnar úr þessu. Margir búnir að lóga kúm af heyjum, og nokkrir sauðfénaði (lömbum). 

Heldur betra hljóð er í Ísafold þann 23.mars:

Nú er loks komin álitleg og eindregin hláka að sjá, stillt og stórrigningalaus. Það munu líka vera síðustu forvöð ef ekki á að verða nær kolfellir á fjölda bæja i mörgum sveitum hér sunnanlands.

Ekki var mjög slæmt hljóð veðurpistlum Þjóðviljans unga á Ísafirði í mars:

[9.] Tíðarfar hefir verið milt og stillt undanfarna daga. [12.] Tíðafar milt á landi, en fönn mikil á jörðu og rosar til hafsins öðru hvoru. [23.] Sífelld stillviðri hafa nú haldist hér vestra um hríð, og oftast frostlítil veðrátta. [31.] Öndvegistíð hefir um langa hríð verið hér vestra og mun svo vera um land allt. 

Apríl: Talsverð frost og enn snjóþyngsli fyrstu vikuna, en síðan mun betri tíð. Hiti í meðallagi.

Ísafold birtir 6.apríl bréf úr Árnessýslu dagsett þann 2.:

Það, sem öllum verðar tíðræddast um hvar sem menn hittast, er heyleysið hjá almenningi. Einkum er um það talað í efra hluta sýslunnar. Flóinn og Ölfusið munu best á vegi í þeim efnum; í þeim héruðum mun allt vandræðalitið, ef veðráttan batnar fyrir alvöru fram úr páskum og með sumarmálum. Sumir í þeim sveitum náðu sér i korn til drýginda, en engin leið var að því fyrir uppsveitamenn vegna snjóþyngsla. Fyrr á tímum myndu menn nú hafa heitið á Strandakirkju, Þorlák helga eða Guðmund góða, því horfur eru ekki góðar, ef ekki skiptir um veðráttu um sumarmál. Jörð er farin að koma upp um neðra hluta sýslunnar, en lítið kvað um haga hið efra; samt, sagt að stöku menn séu búnir að sleppa fé sínu út á jörðina „upp á líf og dauða“. Helst vil ég halda að horfur séu nú mun bágari i þessari sýslu, að minnsta kosti sumstaðar, en i þenna mund fellisárið sæla 1882. Væri óskandi samt, að betur réðist.

Bréf úr Skagafirði dagsett 4.apríl birtist í Ísafold þann 27.:

Síðasta vikan af mars var góðviðravika með hlýju, kyrru veðri, og tók mikið upp; en þótt næg jörð kæmi upp i aðalfirðinum þá er þó enn jarðlítið viða i sýslunni, þar eð snjórinn var orðinn fjarskalega mikill. Með apríl hefir aftur snúist til kulda; í morgun -7 - 12°R. fyrir sólaruppkomu. Sumstaðar er kvartað um heyleysi, t. d. á Höfðaströndinni, og nokkrir þar búnir að koma niður fyrir nokkru. Í gær hríðarveður á austan, í dag bjart, kalt og logn.

Austri minnist á hafís þann 9.apríl:

Tíðarfar hefir verið óstillt og kalt að undanförnu allt fram að skírdegi [7.apríl], en blíðasta sólskinsveður langt fram á dag í gær, en um kvöldið dimmaði yfir með þoku og rigningar-súld, og í nótt hefir rignt mikið með mesta hægviðri, og helst það enn í dag. Í dag hefir töluverðan hafíshroða rekið hér inní fjörðinn.

Bréf úr Skaftafellssýslu (Síðunni), dagsett 9.apríl birtist í Ísafold þann 27.:

Tíðarfar hér í sýslunni, það sem af er vetri, hefir verið svipað því sem annars staðar heyrist að af Suðurlandi: Góð tíð fram yfir nýár, en fremur stirð frá nýári til þorrakomu; síðan hefir tíð verið svo, að elstu menn muna eigi aðra slíka. Að vísu hafa hér eigi komið neinar verulegar stórhríðar og frost hafa verið fremur væg, sjaldan yfir 10-12°C, en allan þenna tíma hefir víðast mátt heita algjört bjargarbann fyrir sauðfé, og það skiptir miklu hér, þar sem hér eru svo margar útbeitarjarðir, og sumar svo, að þær bregðast aldrei, að heita má, og menn ætla því fullorðnu fé lítið sem ekkert af heyi. Það er, held ég, varla nokkur sú jörð hér, þar sem ekki hefir orðið haglaust að minnsta kosti um tíma.

Í sama blaði birtist bréf af Akranesi dagsett á sumardaginn fyrsta, 20.apríl:

Veturinn liðinn slysalaust; veðrátta á honum skakviðrasöm, frostalítið, en fannkoma í meira lagi á þorra og góu, svo að haglitið var um tíma; heykvartanir heyrðust - en þá kom vorið, einsog vant er, i góulokin, og hinn mildasti bati, og síðan hefir mátt segja hvern daginn öðrum blíðari.

Austri 19.apríl: „Veðrátta var mjög mild undanfarandi viku, hitar miklir um daga, undir 20°R. í sólu, en dálítill froststirningur á nóttum, og hægir suðaustanvindar  flesta daga“.

Þann 29. segir Þjóðviljinn ungi:

Hinn 17. þ.m. hleypti hér á austnorðangarði með mikilli snjókomu, en stóð að eins þann dag, siðar hefir verið hið mesta blíðviðri og oftast töluverð leysing. Hafís rak inn á Bolungarvíkurmið skömmu eftir páskana, en hvarf aftur von bráðar, en haft er eftir hvalveiðamönnum að hann sé allskammt undan landi.

Í norðanveðrinu þ.17. strönduðu tvær eyfirskar fiskiskútur í Smiðjuvík á Ströndum. Höfðu þær lent í hafís og brotnuðu í spón, en skipverjar björguðust nauðuglega til lands á hafísjökum, fregnir annars enn ógreinilegar þar að norðan. Um sama leyti rakst eitt af fiskiskipum Ásgeirsverzlunar, „Lilja", á hafísjaka, og laskaðist svo, að það sökk eftir lítinn tíma, annað fiskiskip er var þar í nánd bjargaði skipshöfninni.

Maí: Lengst af fremur hagstæð tíð, en þó kuldahret í annarri viku. Fremur kalt.

Bréf úr Barðastrandarsýslu dagsett 3.maí, í Ísafold þann 11.:

Síðan á páskum og út allan aprílmánuð hefir hér verið hagfelldasta tíð, síðustu dagana sumarhiti, þangað til i gær, að hann kólnaði aftur. Þessi góða tíð hefur komið sér vel fyrir alla. Hefði orðið mjög kalt, mundu margir hafa orðið illa staddir með skepnur.

Ísafold segir þann 11.maí:

Vel vorar, segja flestir, nær og fjær. Hér hafa lengi gengið blíðviðri, að undantekinni 2 daga norðanhrinu í upphafi vikunnar sem leið; en hlýindi þó heldur lítil og gróður því seinfara. En ekki mátti batinn síðar koma en hann gerði.

Undir miðjan mánuð gerði skammvinnt hret, Ísafold segir frá þann 14.:

Kólguveður af norðri í gær og í dag. Snjóað ofan í sjó í nótt með býsnafrosti. Heldur hafíslegt. Miður efnilegt fyrir sauðburð, sem nú er um það leyti að byrja.

Þjóðviljinn ungi segir þann 17.frá köstum þar vestra:

Tíðarfar kalt og vetrarlegt í þ.m., stundum 5—6 stiga frost á nóttu, og margsinnis snjóað í byggð, svo að jörð hefir orðið alþakin snævi.

Frekari fréttir af fyrra kastinu birtust í Þjóðólfi þann 21. - en líka fréttir af jarðskjálfta:

Jarðskjálfta varð vart 1. þ.m. í austurhluta Húnavatnssýslu og viku áður fundust og kippir þar sumstaðar, eftir því sem skrifað er þaðan að norðan 6. þ.m. Norðan-íhlaupið fyrstu vikuna af þessum mánuði hefur orðið allhart viðast um land, þaðan sem frést hefur, og sumstaðar orðið fjárskaðar nokkrir. Víðast hvar er kvartað um mikinn heyskort, og borinn kvíðbogi fyrir fjárfelli.

Þann 27.maí segir Þjóðólfur frá byl sem gerði á Suðurlandi - en aðallega góðri tíð.:

Árnessýslu 22. maí. Nú er tíðin orðin svo æskileg sem orðið getur, stillur og blíða á degi hverjum, áfall á nóttunni, en aldrei rigningar nema eitthvað 2 daga, hinn 17. og 18. þ.m. og þá var mikil úrkoma. Jörð því að kalla orðin góð, fénaður hefur ekki annað en grænt, og margir farnir að beita út kúm, þó slíkt sé ekki beysið sumstaðar. — Norðanbyl gerði hér hinn 13. þ.m. svo fé fennti í Grímsnesinu, en fannst víst flest aftur. Einnig hrakti nokkrar kindur í Laxá í Ytrihrepp, frá Hrafnkelsstöðum. Fénaðarhöld í furðanlega góðu lagi eftir því sem áhorfðist, og mun því verða, eftir því sem maður hugsar, stórvandræðalítið, ef tíðin helst áfram svona góð, og ekki heldur hefur maður heyrt, að neinstaðar hafi drepist úr hor enn sem komið er.

Þann 31. greinir Þjóðviljinn ungi frá kalsamri tíð þar vestra:

Einatt er sami kalsinn í tíðinni, og hlýindi engin, nema rétt um hádaginn, er sól er á lofti.

Ísafold segir þann 1.júní:

Heldur snarpt hvítasunnukast hófst aðfaranótt laugardagsins fyrir hvítasunnu [laugardagur 28.maí], með stórviðri á norðan, frosti á nóttum og snjó á fjöll, festi jafnvel í byggð laugardaginn. Er nú að ganga garðinn niður. ... Kuldinn hér stafar af mjög miklum hafís í Grænlandshafi.

Júní: Fremur kalt framan af, en síðan úrkomusamt á Suður- og Vesturlandi. Hiti í meðallagi mánuðinn í heild.

Ísafold þann 4.júní:

Gekk upp aftur norðanveðrið í fyrradag; bálviðri þá og í gær, með miklum kulda, talsverðu næturfrosti til sveita; í dag aftur hægur. Gróður á útjörð enn lítill sem enginn, og tún ekki full-litkuð nema sumstaðar, hvað þá heldur meira; og komnir þó fardagar. — Sauðburður gengið vonum framar, það er til spyrst, og er það þurrviðrunum að þakka; lambadauði mikið lítill. Skepnur verið heldur vel framgengnar.

Ísafold 25.júní:

Veðrátta hér söm og áður, dável gróðursæl, en lakara að frétta að norðan: kuldar og þurrkar til skamms tíma þar og nauðalítið um gróður.

Þjóðólfur segir sama dag (25.júní):

Veðurátta hefur verið mjög köld og stormasöm næstliðinn hálfan mánuð, og hefur því orðið mikill hnekkir á grassprettu. Ýmsar fréttir hafa borist hingað um hafís fyrir Norður- og Vesturlandi, en jafnharðan verið bornar til baka.

Þjóðviljinn ungi á Ísafirði lýsir júnítíðinni í fáeinum pistlum - ekki svo neikvæður:

[15.] Frá 5. þ.m. hafa verið meiri hlýindi í tíðinni, en að undanförnu í vor, og alloftast góður þerrir, uns 13. þ.m. sneri til rigninga. [18.] Síðustu dagana hefir haldist hér mild veðrátta, og rigningar nokkrar öðru hvoru, svo að gras hefur lifnað vel þessa dagana. [24.]  Tíðarfarið hefir undanfarna daga oftast haldist við norðanátt, og hlýindi verið fremur lítil, nema síðustu dagana. [28.] Síðustu dagana hafa verið hér suðvestan rosar og rigningar.

Júlí: Fremur votviðrasamt vestanlands, en þó nokkurra daga þurrkar á milli. Mun þurrara eystra. Hiti undir meðallagi.

Austri var ánægður með tíðina framan af og segir í pistli þann 7.:

Tíðarfar er nú hið indælasta, og grasspretta orðin góð víðast á túnum en úthagi enn miður sprottinn.

En undir lok mánaðar er heldur síðra hljóð eystra (Austri 27.):

Veðrátta hefir verið að undanförnu fremur köld og votviðrasöm, þó er taða hirt af flest öllum túnum hér í firðinum.

En syðra batnaði síðari hluta mánaðarins. Ísafold segir frá þann 23.:

Tíðarfar virðist nú loks vera að breytast til batnaðar, með hundadögunum. Eindreginn þerrir í gær (frá dagmálum) og í dag, og útlitið mjög gott. Þess þurfti með; töður annars undir skemmdum. En tún vel sprottin yfirleitt, og úthagi allgóður líka, þótt heldur hafi verið kalt í veðri lengstum og það dregið úr gróðri.

Þjóðólfur birti 5.ágúst bréf úr Skagafirði dagsett 17.júlí:

Grasvöxtur hér í héraðinu er orðinn í góðu meðallagi og tíðin hefur verið góð, það sem af er slættinum.

Þann 27.ágúst segir Þjóðólfur frá tíð í Vestmannaeyjum í júní og júlí:

Frá því fyrir miðjan júní og fram yfir miðjan júlí var veðrátta oftast fremur kalsaleg, votviðra- og stormasöm, sjógæftir sjaldgæfar og afli af sjó því nær enginn.

Ágúst: Illviðrasamur mánuður. Úrkomulítið syðra framan af, en annars óþurrkar, einkum fyrir norðan. Fremur kalt.

Austri er ánægður þann 10.:

Tíðin er nú hin æskilegasta, sólskin og hiti á hverjum degi.

Þjóðviljinn ungi segir frá tíð í ágúst í nokkrum pistlum:

[6.] Tíð hefir nú um hríð verið mjög rigninga- og kalsasöm, svo að jafnvel snjóaði á fjöll aðfaranóttina 4. þ.m. Líkist veðrið miklu fremur kalsasömum haustdegi, en sumardegi. — Í dag er þó aftur blítt veður. [15.] Tíð var hér fögur og þurrviðrasöm næstliðna viku, nema norðaustan kalsastormur 12. þ.m.; var þá ýmist hellirigning eða hagl úr lofti. [27.] Tíðarfar hefir um undanfarinn hálfsmánaðartíma verið mjög storma- og votviðrasamt. Ofsa-norðan snjóhret gerði hér 22.—23. þ.m., svo að fjöllin urðu fannahvít, og víða hvítnaði jörð í byggð. — Færi betur, að hvergi hefðu slys hlotist af því aftakaveðri. [31.] Tíðin oftast mjög köld, norðan sveljandar, sólar- og þurrkalitlir dagar, nema logn og heiðskírt veður í gær. 

Veðrið þann 12. var óvenjustrítt miðað við árstíma. Ísafold segir frá tjóni í því þann 27. eftir stutta almenna tíðarlýsingu:

Óþurrkar hafa nú staðið samfleytt í hálfan mánuð, og eiga menn því mjög mikið hey úti, allt undir skemmdum, ef eigi kemur bráður bati. Þar á undan hafði heyskapur gengið vel um land alt, það er til hefir spurst; nýting sérlega góð.

Hlöðufok er getið um að hafi orðið hingað og þangað í stórviðrinu aðfaranótt hins 12. þ.m. eða þá um morguninn, t.d. vestur í Saurbæ og svo í Kaldaðarnesi í Flóa, sýslumannssetri Árnesinga. Þá fauk ný hlaða, einhver hin stærsta á landinu, 23 álnir á hvorn veg og 10 álnir undir þak, (x álna moldarveggir að neðan og járn úr því. Þakið með járnveggjunum tók upp, ásamt grindinni, sem fór í mola, og sendist spildan yfir fjós, smiðju og hið þriðja hús inn í sund milli íbúðarhússins og geymsluhúss fyrir norðan það, og síðan lengra áleiðis. Var mikil mildi, að hún lenti ekki á íbúðarhúsinu sjálfu. Hafði verið opinn einn veggurinn, norðan á móti, með því þar átti að koma peningshús. Hey var mikið í hlöðunni og lá undir skemmdum. Hún tekur að sögn á þriðja þúsund hesta. Giskað á að skaðinn muni nema sjálfsagt 1000 krónum.

Austri segir þann 31. frá tveimur illviðrum:

Ofsastorm gjörði hér að kvöldi hins 23. og aðfaranótt 28. þ.m., og misstu margir útvegsbændur þá síldarnet sín og nokkrir bátar brotnuðu til skemmda.

Þjóðviljinn ungi segir frá sjóslysi sem varð 23.ágúst í pistli þann 13.september:

Fiskiskipið „Geir", eign Geirs kaupmanns Zoega i Reykjavík, hreppti 23. [ágúst] ofsarok undir Snæfellsjökli, er reif seglið, braut og skolaði burtu öllu lauslegu á þilfari, hálf-fyllti káetuna og lestina, og tók út 3 skipverja. Varð einum þeirra bjargað, en tveir drukknuðu.

Ísafold fjallar um ágústtíð og heyskap þann 3.september:

Vonin um breyting til batnaðar með höfuðdegi rættist eigi til fulls. Að vísu gerði góðan þerri þá 2 daga, 29. og 30. f.m., auk sunnudagsins 28.; en síðan hefir stórrignt hverja nótt hér um bil, þótt þurrt hafi verið að mestu um daga. Annars höfðu norðanlands þurrkar staðið fram að síðustu viku ágústmánaðar. Þá snjóaði þar ofan í byggð, 23. [ágúst], er rokið mikla var hér. Eystra (á Austfjörðum) stóðu þurrkar fram um miðjan ágústmánuð, og þeir óvanalega miklir, svo að sumstaðar varð tilfinnanlegur vatnsskortur. Heyskaparhorfur yfirleitt góðar, ef tíð verður bærileg það sem eftir er sláttarins. Grasvöxtur verið víðast góður eða þó sæmilegur, þrátt fyrir hlýindaleysið.

September: Góð tíð nyrðra, en óþurrkar eystra og syðra. Hiti í meðallagi.

Fjallkonan segir fréttir úr Mýrasýslu 7.september: „Laxveiði hefir næstum algerlega brugðist, svo að fá eða engin dæmi munu til slíka í manna minnum, t.d. hvað Hvítá snertir“.

Ísafold kvartar þann 17.september:

Tíðarfar mjög stirt undanfarnar 4—5 vikur, megnir óþurrkar og kuldar, nema lítils háttar þerriflæsur fáeina daga um og eftir höfuðdaginn, svo að þá hirtu menn sumstaðar meira og minna af því, sem þeir áttu þá úti af heyi, en víðast lítið eða ekkert, og eiga því mjög margir úti meira en mánaðar heyskap. Sumstaðar hætt fyrir nokkru við slátt vegna vatnagangs. Nú loks þerrir í gær og í dag.

Enn segir Ísafold frá þann 21. og 24.:

[21.] Sæmilegur þurrkur frá því fyrir helgi, en rigndi þó mikið í fyrrinótt og nokkuð í gærkveldi. Fara bændur vonandi að geta náð inn heyjum sínum úr þessu, ef viðlíkt stendur nokkra daga enn. En óþurrkað er enn mjög mikið af fiski af hinum mikla þilskipaafla frá því í sumar, 5-600 skipspund hjá sumum útgerðarmönnunum. [24.] Nú er úti þerririnn. Komið sunnanslagviðri; byrjaði í gær ; fór raunar að væta dálítið í fyrradag að áliðnu. Mikið höfðu samt flæsurnar framan af vikunni hjálpað til að hey bjargaðist. Ekki mjög mikið eftir úti; sumstaðar ekkert. Lakara austanfjalls en hér syðra.

Þjóðviljinn ungi á Ísafirði kvartar líka undan septembertíðinni:

[18.] Tíðarfar hefur i þ. m. alloftast verið mjög votviðrasamt, varla komið einn þerriragur. Kalsanæðingar og stormar hafa og gengið öðru hvoru. [30.] Tíðarfarið hefir í þ.m. verið afar-óstöðugt og rosasamt hér vestra, nema lítið eitt stöðugra, og all-mild veðrátta  síðasta vikutíma.

Október: Góð tíð lengst af og fremur hlýtt. Nokkuð úrkomusamt eystra, en annars fremur þurrt.

Þjóðólfur birti 21.október heldur dapurlegt bréf ritað á Rangárvöllum (ódagsett):

Þegar litið er yfir sláttinn, sem nú er lokið hér í sýslu, getur engum dulist, að hann bætir ekki úr þeim illu horfum, sem nú eru á sveitabúskapnum, þar sem þetta sumar má teljast með þeim allra lökustu í mörgum greinum hér í sýslu. Að vísu var grassprettan í allgóðu lagi einkum á útengi, en nýtingin hrapalega vond frá því 16 vikur af sumri, og hefur enginn baggi náðst síðan öðruvísi en meira og minna hrakinn og blautur og þar að auki hafa orðið óvanalegir heyskaðar af ofviðrum; til dæmis missti Þorvaldur á Þorvaldseyri á 4. hundrað eða allt að 4 hundruð af grænu, nýslegnu heyi, sem allt lá í einum teig, og var svo gersamlega burtu fokið, að ekki hafði sést, að þar hefði nokkurt hey verið eftir veðrið. Fleiri misstu mjög mikið af heyi, enda hefur veðurátta verið hér í sumar sú allra lakasta, sem menn muna um þennan tíma: óvanaleg ofviðri, framúrskarandi stórrigningar og frost, þá sjaldan að loft hefur verið létt. Af þessu leiðir, að heyskapur er mjög rýr víða, eða í sumum sveitum vandræðalegur; þó hefur verið skárra að ofanverðunni, til dæmis i Landmannahreppi allgott. Töður náðust þó óhraktar, en sökum þeirra hræðilegu rigninga er mjög vist, að hey eru skemmd í görðum.

Ísafold segir þann 19.:

Tíðarfar er og hefir verið einstaklega gott í haust, nú síðustu dagana beinlínis blítt og fagurt, fegurra mikið en gerðist hér.

Líka var blítt vestra um tíma að sögn Þjóðviljans unga 20.október:

Tíðarfarið hefir í þ.m. verið einkar blítt og milt, rétt eins og sumarið væri nú fyrst fyrir alvöru að ganga í garð, þegar það er þó nær því á enda.

En ekki stóð sú blíða út mánuðinn - pistill Þjóviljans 31.október:

Á síðasta sumardag [21. október] gerði hér aftaka norðangarð, með brimróti miklu, og fannkomu allmikilli, og hélst hret það til 25. þ.m. að morgni, en reif sig svo upp aftur  26. þ.m., og hefir tíð síðan verið rosaleg.

Nóvember: Umhleypinga- og illviðrasamt. Fremur kalt.

Austri greinir þann 10.nóvember frá manntjóni á Eyjafirði þann 4.:

Voðalegt manntjón varð þann 4. þ.m. á Eyjafirði, þar sem 17 manns fórust á sjó í ofsanorðanveðri, er skall á allt í einu um morguninn, er bátar voru nýrónir til fiskjar og á síldarnet, einmitt sama daginn og loftþyngdarmælirinn hrapaði hér á Seyðisfirði svo ákaflega mikið, og höfum við hér verið yst í stormröndinni, en Eyjafjörður í miðjunni, þar sem afl stormsins varð svo voðalegt. Tveir menn höfðu drukknað frá Krossanesi, skammt útaf Oddeyri. Voru þeir 3 á bátnum, en einum varð bjargað. Þar fórst sonur ekkju, er hafði áður misst 2 eiginmenn sína í sjóinn. Við sjálfa Oddeyrina hafði bát hvolft með Norðmönnum á, en þeim orðið öllum bjargað. Mestur hafði mannskaðinn orðið fram af Svalbarðsströndinni, þar sem hinir 15 menn fórust. Má vera að enn sé eigi allur mannskaðinn tilspurður, því „Egill" fór sama kvöldið og mannskaðann hafði aðborið um daginn og því varla getað verið komnar fregnir úr Svarfaðardal og Höfðahverfi, og alls eigi úr Ólafsfirði og af Látraströnd, er allt eru útróðrapláss.

Í síðari fregnum (sjá Ísafold 26.nóvember og 21.desember og Þjóðólfi 23.desember) kemur fram að þetta hafi verið þann 3.nóvember og alls hafi 12 menn drukknað. 

Jónas Jónassen segir í pistli 19.nóvember frá veðri undangenginnar viku og þar með ofsaveðrinu aðfaranótt þess 14.:

Hinn 12. var hér hægur útsynningur með éljum; 13. austan-landnorðan að morgni, hvass með blindbyl, fór að rigna síðari part dags og kominn í útsuðrið og orðin nokkuð hvass og aftakarok aðfaranótt h.14. Hvass á útsunnan 15. og 16., lygnari h.17. og komið logn síðari part dags; 18. landnorðan, hvass að morgni og með regni og loftvog óðum að falla; eftir miðjan dag orðinn hvass af útsunnan með rigningu.

Það kemur varla nokkurt ár, að hér komi ekki einhverntíma ársins ofsarok líkt og nú átti sér stað aðfaranótt h.14. Að morgni h.13. var hér austanbylur, og eftir vanda mátti búast við þvi, að hann gengi til landsuðurs (SA) og svo til útsuðurs (SV), og svo varð og nú. Eftir því er á leið daginn, lækkaði meira og meira í loftvoginni og kl.11 um kveldið var hún komin óvenjulangt ofan á við (711,2 mm) [948,2 hPa], en veður þó hægt, og um miðnætti var hér rétt logn, en er leið á nóttina tók fljótt til að hvessa af útsuðri og varð úr ofsaveður, svo hús skulfu og skemmdust, og var veðrið ákafast kl.4-5 um morguninn; gekk sjór þá hátt með miklu hafróti. Þessi voðaveður eru hér lang-oftast af útsuðri. Fyrir nokkrum árum kom hér líkt veður og nú, og var það 26.des. 1888 (útsynningur) og komst þá loftvogin talsvert lægra en nú nefnil. 693,4 mm [924,5 hPa]. Þá kom einnig þetta voðaveður upp úr austanátt, og það allt í einu. Sama átti sér stað 1892, 20.jan. (loftvog 711.3); 1894, 13. nóv. (loftvog 711.2) og 1896, 19. febr. (loftvog 711.2).

Þjóðólfur lýsir skemmdum í pistli þann 18.nóvember:

Ofviðri mikið af suðvestri var hér dagana 13. og 14. þ.m., og urðu nokkrar skemmdir af því. Samkomuhús Oddfélaganna reykvísku sunnan við Tjörnina tók upp, og fuku flökin úr því langar leiðir. Eitt þeirra rakst á steinhús Einars bónda Ingimundssonar í Skálholtskoti, braut þar glugga, og fór nokkuð af því gegnum hann inn í herbergið og mölvaði þar ofnpípu og eitthvað fleira. Fólk svaf í herberginu og var mesta furða, að það sakaði ekki. Munu Oddfélagar bæta eigandanum þann skaða, er af þessu hlaust. Annað flakið mölvaði einnig glugga á öðru húsi þar í Skálholtskoti. Voru menn um morguninn 14. þ.m. að tína saman sprekin úr húsinu hingað og þangað upp um Þingholt. Húsbúnaður, bækur og skjöl Oddfélaganna, er geymt var í húsinu, þyrlaðist og burtu að sögn, en mun flest hafa fundist aftur, meira og minna skemmt. Sumir segja og, að sjóður reglunnar hafi fokið, en það er eina bótin, að þeir félagar (12 að tölu) eru nógu vel efnum búnir til að bæta tjónið, sem eigi hefur verið alllítið. Hús þetta var byggt eftir spánnýrri tísku, kenndri við Döcker nokkurn og er hún aðallega fólgin í því, að húsinu er krækt saman af mörgum hlutum, er svo má taka sundur, þá er vill, og flytja úr stað, en þessi byggingaraðferð, svo „praktisk“, sem hún kann að vera, virðist eigi vera heppileg hér á landi. Það er betra, að það sé ekki neitt hrófatildur, sem á að standast ofsaveðrin hér.

Önnur bygging Oddfélagareglunnar (dönsku) Laugarnesspítalinn,varð og fyrir nokkrum skemmdum í ofviðri þessu. Fuku þar meðal annars plötur af reykháfum og lamdist ein þeirra ofan í þakið, svo að hún stóð þar föst. Heyhúsið þar við spítalann fauk nær um koll, svo að það dinglaði á grunninum, en ekkert hey var í því. Annars er nú þegar miður vel látið af allri þessari umfangsmiklu og marglofuðu spítalabyggingu. Það kvað meðal annars rigna (og fenna) inn um gluggana, og ofnarnir reykja svo, að besti hangikjötsreykur kvað vera inni í herbergjunum, en verst er þó, að veggjapappinn virðist vera öldungis ótækur, og rifnar hann og gliðnar í sundur að sögn. Pappi þessi, sem mun hafa kostað um 10.000 kr. í allan spítalann, er ólíkur öðrum veggjapappa, er hér hefur sést, miklu þykkri og litur dável út, en mun lítt eða ekki reyndur áður. Samskonar pappi er í Stýrimannaskólanum nýja, og er nú þegar látið mjög illa af honum. Virðist engin vanþörf á, að landstjórnin, sem á að hafa veg og vanda af byggingum þessum, athugaði þetta, enda mun því siðar hreyft rækilegar, þá er frekari reynsla er fengin. Gæti svo farið, að hinn veglegi spítali yrði landinu þung og ískyggileg hefndargjöf, en eigi dásamleg náðar- og líknargjöf, eins og hann hefði átt að vera samkvæmt tilgangi sínum.

Aðrar skemmdir, en þegar hafa verið nefndar urðu hér nokkrar í ofviðri þessu. Timburhús stórt, er W.O. Breiðfjörð kaupmaður var að reisa suður i Kaplaskjóli ýttist af grunninum og skemmdist svo stórum, að líklega verður að rífa það, er uppi stendur. — Þiljubátur lítill, er Tryggvi bankastjóri hafði nýlega keypt brotnaði að mestu hér í fjörunni, og nokkrar skemmdir urðu á öðrum bátum, en eigi stórvægilegar. Að líkindum hefur ofviðri þetta valdið skemmdum víðar hér sunnanlands á skipum og ef til vill heyjum, þótt enn hafi ekki spurst.

Í Austra 31.desember er bréf úr Reykjavík þar sem finna má smávegis til viðbótar um tjón í veðrinu 14.nóvember:

Einnig gekk sjórinn svo hátt, að hann braust inn í kolakjallara Brydesverzlunar, svo hann fylltist næstum af sjó, og ruddi grjóti og þara alla leið upp á Aðalstræti. 

Í Þjóðviljanum unga segir þann 3.desember í fréttum um veðrið 14.nóvember:

Á Eyrarbakka hafði brim gengið svo langt á land upp, að elstu menn muna slíks engin dæmi; braut brimið þar sjógarð, og gerði nokkur spell fleiri.

Austri segir frá veðrinu þann 14. þar eystra:

Ofveður mikið gjörði hér á suðvestan á mánudagsmorguninn 14. þ.m. og hélst hérumbil óslitið í meira en þrjá sólarhringa með ákaflegu afli, einkum hér á Vestdalseyri og útí í firðinum, þar sem að urðu töluverðar skemmdir að þessu langvarandi ólátaveðri, á húsum, bátum og heyjum. En sjógangurinn, var þau fádæmi, að sjórinn rauk yfir alla Vestdalseyri og upp undir fjallsrætur, langt upp fyrir alla byggð.

Þessir skaðar urðu helstir, er vér höfum ennþá spurt til: Hið stóra fiskigeymsluhús Gránufélagsins skekktist nokkuð en raskaðist þó ekki af grunninum. Fiskiskúr tók upp og brotnaði fyrir þeim bræðrum, Sigurði og Eiríki Einarssonum. Einnig skemmdust til muna 2 bátar, er þeir áttu. Ennfremur brotnaði bátur, er Jónas Stephensen átti. 2 báta með seglum og árum tók ofviðrið upp á Dvergasteini, svo ekkert sást eftir af þeim. Þar reif og þak af hlöðu og nokkuð af heyjum. A Brimnesi bilaði járnþakið á húsi óðalsbónda Sigurðar Jónssonar. Á Bæjarstæði fauk mikið af útheyi frá Hallgrími bónda Egilssyni og töluvert af töðu og hið nýbyggða hús hans hafði töluvert skaddast. Nýibær við Þórarinsstaði hafði og mikið skemmst. Bátar fórust engir í þessu ólátaveðri, því barómetrið varaði menn við storminum. Þó reri einn bátur snemma á mánudagsnóttina hér innantil úr firðinum. En til allrar hamingju var hann eigi langt kominn til hafs, er það fór að hvessa, og náði því Skálaneslendingunni með öllu heilu og höldnu. Formaðurinn á þessum bát hefir sjálfsagt ekki gætt að barometrinu áður enn hann réri, því það var hverjum manni auðsætt á því, hvað það féll um nóttina, að það mundi koma ofviður með morgni. Það verður aldrei of oft brýnt fyrir sjómönnum, að gæta á barómetrið áður en þeir róa, eigi síst nú um háveturinn.

Þjóðviljinn ungi lýsir veðri vestra í nóvember í nokkrum pistlum:

[5.] Fyrstu tvo daga þessa mánaðar voru stillur og heiðríkjur, en 3. þ.m. gerði norðanstorm og kafaldsbleytu, sem haldist hefir síðan. [11.] Eftir að norðanhretinu linnti 5. þ.m. var veður stillt í 3-4 daga, en að aflíðanda hádegi 8. þ.m. gerði ofsa-suðvestanrok, með rigningu og bleytu, og hefir veðrátta síðan lengstum veríð mjög óstöðug. [16.] Tíðarfar einkar stirt, svo að segja sífelldir rosar, og stundum ofsarok. 14. þ.m., laust fyrir hádegi, skellti á útsynnings dimmviðriskafaldsbyl, með brimróti miklu, og sást þá vart milli húsa hér í kaupstaðnum. [24.] Útsynningskafaldsbylnum, er getið var í síðasta nr. blaðsins; slotaði nokkra klukkutíma aðfaranóttina 18. þ.m., en að morgni sama dags var skollið á norðan hvassviðri, með kafaldshríðum, og hélst svo til 21. þ.m., er loks gerði þolanlegt veður.

Þjóðviljinn ungi birtir þann 16.janúar 1899 bréf dagsett á Hornströndum 17.nóvember:

Mjög hefir verið rosasamt þetta útlíðandi haust; 22. október. var hér hríðarbylur norðaustan, með stórkostlegri sjávarólgu, og 3. [nóvember] aftaka-norðanveður, með fjarska miklum sjógangi, og gekk þá sjór um 150 faðma á land upp á Hafnarsandi, þar sem hann er lægstur. — Næstliðna nótt kom og í þriðja skipti líkur brimgangur, og er það hrikaleg sjón, að horfa á hinar stóru haföldur, þegar þær rísa og brotna við landið, og róta um öllu, sem hræranlegt er. — Skemmdir hafa þó engar orðið hér nyrðra, að heyrst hafi.

Í bréfi úr Strandasýslu norðanverðri dagsett 6.mars sem birtist í Þjóðólfi 7.apríl 1899 kemur fram að ofsaveður hafi um haustið tekið frambæinn í Byrgisvík allan ásamt heyhlöðu og heyi ofan í miðja veggi. Ekki er ólíklegt að þetta hafi verið í nóvemberveðrinu mikla.

Fjallkonan getur 8.desember um tjón við Borgarfjörð í nóvemberveðrinu:

Ofsaveðrið 13. og 14. nóvember gerði skaða á ýmsum stöðum í Borgarfirði. Þá fauk vöruhús á Seleyri, sem Thor kaupmaður Jensen á Akranesi átti. Í því voru 60 hestar af heyi, er Torfi bóndi Sivertsen í Höfn átti og undir húsinu hvolfdi skip frá Árdal og „skekta", og er sagt að þetta alt hafi sópast á sjó út. Eiríkur Guðmundsson á Ölvaldsstöðum missti skip í sama veðri. Á Álftanesi á Mýrum fauk stór skúr frá bænum. Þökum svipti af húsum og heyjum.

Desember: Umhleypinga- og snjóatíð. Hiti í meðallagi.

Þjóðviljinn ungi segir frá því 16.febrúar 1899 að bátur hafi farist í lendingu á Barðsnesi í Norðfirði snemma í desember og 3 menn drukknað. Í desember hafi einnig orðið úti maður á Skeiðarársandi og annar um jólaleytið frá Vík í Mýrdal. 

Þjóðólfur birtir 6.janúar 1899 bréf dagsett í Mýrdal 6.desember:

Tíðarfar hefur verið mjög óstöðugt seinni hluta haustsins og ákaflega storma- og úrkomusamt; um miðjan fyrra mánuð [nóvember] gerði hér ákaflegt hafveður með svo miklum sjávargang, að elstu menn muna ekki eftir öðrum eins, tók þá út 4 róðrarbáta í Vík (úr svo nefndum Bás) og ráku á land aftur nokkru austar og brotnuðu í spón; nokkra daga var viðvarandi ofsastormur á hafútsunnan, þar á eftir gerði snjó og bleytu, gaddaði svo allt og hefir hér verið síðan víðast haglaust og er það of snemmt að þurfa að taka allan fénað strax á fasta gjöf.

Ísafold birtir 21.desember bréf úr Strandasýslu sunnanverðri, dagsett 9.desember:

Síðastliðið sumar var að veðráttu til miklu fremur hagstætt, þó oft væri kalt. Skepnuhöld allgóð i vor og grasvöxtur i sumar í góðu lagi. Þurrkar voru allgóðir fyrri hluta sláttarins, þar til seint í ágústmánuði að brá til votviðra, er héldust kringum 3 vikur. Eftir miðjan september brá aftur til þurrviðra, svo hey náðust, litt skemmd, og varð heyfengur yfirleitt i betra lagi bæði að vöxtum og gæðum. Haustið allt fram í nóvember var afbragðsgott, oftast logn og þurrviðri og mjög frostlítið lengi fram eftir. Nú í nærfellt mánuð hafa verið hvassviðri mikil ýmist af norðvestri eða útsuðri, og oft snjógangur; enda er nú fé allstaðar komið á gjöf og hross víða líka.

Þjóðviljinn ungi lýsir hríðum og óstöðugri tíð í desemberpistlum:

[12.] Norðangarðurinn, sem hófst 30. f.m., stóð í samfleytta viku, og stillti fyrst aðfaranóttina 7. þ.m., en reif sig upp aftur aðfaranóttina 8., svo að blindbylur var hér þann dag. 9. var gott veður að morgni, en barómeterstaðan afar-lág. enda skall þá á útsynningsstormur um hádegisbílíð og er tíð rosasöm. 

[31.] Tíðarfar hefir í þ.m. verið afar-óstöðugt og stormasamt, svo að vart hafa menn getað hætt sér á sjó, nema stund í bili. — Himininn alloftast dimmviðris-skýjum hulinn, og  hríðarbyljir einatt annað slagið. Þak rauf af fiskhúsi í Hnífsdal aðfaranóttina 22. þ.m. í ofsaveðrinu, er þá var. Skemmdir urðu og nokkrar á bátum, o.fl.

Þjóðólfur segir frá stirðri tíð í pistli þann 23.desember:

Veðurátta hefur verið afarstirð nú um hríð og mestu harðindi til sveita, svo að allar skepnur eru víðast hvar komnar ágjöf fyrir nokkru.

Ísland (Reykjavík) segir 30.desember:

Veður hefur verið dágott undanfarandi, en þó óstöðugt; snjór er töluverður og hvítt að sjá yfir allar sveitir og nes. Það segja líka veðurfróðir menn, að svo skuli helst vera um jólaleytið og vænta, að vorið komi þá fyrr; „hvít jól, rauðir páskar" segir gamalt máltæki.

Lýkur hér að sinni samantekt hungurdiska um árið 1898. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hæstu hámörk ársins

Fyrir nokkrum dögum birti danska veðurstofan pistil - og mynd sem sýndi tíðnidreifingu hæsta hámarkshita ársins þar í landi. Því var skotið að ritstjóra hungurdiska að birta ámóta mynd fyrir Ísland. Reyndar hefur verið áður um þetta fjallað á hungurdiskum, en í lagi að gera það aftur.

Hæsti árshámarkshiti landsins 1918 - 2017

Talningin nær til 100 ára (1918 til 2017). Lárétti ásinn sýnir hita, talan 20 á við hitabilið 20,0 til 20,9 stig, o.s.frv. Hver súla sýnir hversu mörg árshámörk þessara 100 ára hafi verið ofan tölunnar við botn hennar. Hæsti hámarkshiti ársins hefur alltaf náð 20 stigum, en einu sinni ekki 21 stigi. Hann hefur 97 sinnum náð 22 stigum og 91 sinni 23 stigum. Hann nær að minnsta kosti 25 stigum í um það bil tveimur árum af hverjum þremur (talan 66 á súlu 25), en fer ekki í 27 stig eða meira nema um það bil fjórða hvert ár. Það hefur aðeins gerst í tveimur árum að hann hefur náð 30 stigum. 

Sé þetta borið saman við dönsku tölurnar (sjá tengilinn) kemur í ljós að súlurnar þar eru jafnmargar (11 talsins), en ná til bilsins 26 til 36 stiga - tölurnar að jafnaði 6 stigum hærri heldur en er hér á landi. Þar eru fjórðungsmörk (um 25 prósent) við fjórðu hæstu tölu rétt eins og hér (27 stig á Íslandi, 33 stig í Danmörku). Hæsti hiti sem mælst hefur hér á landi er 30,5 stig, en 36,4 í Danmörku. 

Hér er núlíðandi sumar, 2018, ekki með. Hæsti hiti þess til þessa er 24,7 stig. Við sjáum að það er aðeins þriðja hvert ár sem árangur er jafn „slakur“. 

Við skulum hafa í huga að fyrr á árum var mælinetið mun gisnara heldur en nú er og líklegt að 100 ára mælingar með jafnþéttu neti myndi skila ívið hærri tölum heilt á litið - jafnvel hefðum við fundið 31 stig þar á meðal. 


Af hitametum í háloftum

Þessi pistill er auðvitað aðallega fyrir nördin - enda nokkuð staglkenndur. Ritstjóri hungurdiska lítur endrum og sinnum yfir háloftaathuganir á Keflavíkurflugvelli og leitar nýrra meta. Skráin sem hann notar er sæmilega heilleg aftur til haustsins 1951 í flestum staðalþrýstihæðum upp í 100 hPa (um 16 km hæð) en aftur til 1973 þar fyrir ofan. Reyndar nær röðin sem inniheldur neðsta flötinn (925 hPa - í um 500-700 metra hæð) aðeins aftur til 1993. 

Engin árshitamet hafa fallið í neðri flötunum á þessu ári, en í hitabylgjunni sunnudaginn var (29.júlí) féll júlíhámarksmet í 925 hPa. Hiti í 925 hPa mældist þá 17,8 stig. Í hitabylgjunni miklu í ágúst 2004 mældist hiti í 925 hPa 18,6 og 18,4 stig (tvær athuganir). Hiti í 850 hPa fór á dögunum hæst í 13,6 stig. Það er trúlega hitamet í júlí, en í skránni er þó ein hærri tala, 13,9 stig sem sett er á 23.júlí 1952 - þykir sú mæling grunsamleg, en ekki hægt að afskrifa hana alveg að óathuguðu máli. 

Hiti hefur tvisvar mælst hærri en 13,6 stig í 850 hPa í ágúst, annars vegar í hitabylgjunni 2004 (14,0 stig) og þann 25. árið 2003 (13,8 stig). 

Þann 25.febrúar féllu árshitamet í bæði 70 hPa (um 18 km) og 50 hPa (um20 km), í fyrrnefnda fletinum fór hitinn í -30,8 stig, það langhæsta sem mælst hefur í þeirri hæð og í 50 hPa fór hitinn í -26,4 stig. Atburður þessi tengdist miklu bylgjubroti í heiðhvolfinu. Ritstjórinn hefur ekki athugað hvort háloftakanninn náði mælingum ofar í lofti (við lægri þrýsting) í þessu tilviki - en alla vega eru ekki met skráð ofar þennan dag. 

Engin lágmarkshitamet hafa verið slegin á árinu í háloftunum yfir Keflavík - til þessa. 


Sé rétt reiknað

Sé rétt reiknað verður veðrið næstu viku (6. til 12.ágúst) með nokkuð öðrum hætti en algengast hefur verið að undanförnu. Við lítum hér á eftir á háloftaspá evrópureiknimiðstöðvarinnar, en fyrst skulum við sjá meðalkort júlímánaðar (þökkum Bolla fyrir kortagerðina).

w-blogg030818b

Heildregnar línur sýna meðalhæð 500 hPa-flatarins í júlímánuði, en strikalínurnar þykktina. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Litirnir gefa til kynna hversu mikið þykktin víkur frá meðaltali áranna 1981 til 2010. Við tökum eftir því að hiti var ofan meðallags í júlímánuði á mestöllu svæðinu sem kortið sýnir - en minnst þó fyrir suðvestan land. Þó hlýnað hafi frá fyrri mánuðum er sem fyrr langhlýjast yfir Skandinavíu og Evrópu norðvestanverðri. 

w-blogg030818a

Síðara kortið sýnir spá sem nær til næstu viku, 6. til 12.ágúst. Hér hefur skipt um, mestu jákvæðu vikin eru þar sem hvað kaldast var fyrr í sumar. Neikvæð vik fylgja hins vegar norðanátt austan Íslands. Háloftavindar liggja hér úr norðvestri yfir landið í stað þess að hafa verið úr suðvestri í mestallt sumar - og líka í júlí eins og sá mátti á fyrra kortinu. Hér er kuldinn austurundan afleiðing norðanáttarinnar sem þar á að ríkja. 

Sé þessi spá rétt verða allmargir norðanáttardagar í næstu viku - með heldur köldu veðri. Við skulum samt vona að við sleppum við alvarlegar árásir úr Íshafinu. 

Reiknimiðstöðin framreiðir síðan spár enn lengra inn í framtíðina. Það er merkilegt að spáin fyrir næstu viku á eftir (13. til 19.) virðist sýna allt falla aftur í sama far og hefur verið til þessa í sumar - sama á síðan við sé litið enn lengra fram í tímann.  

Eins og venjulega verður að minna á að spár eru bara spár, ekki raunveruleikinn sjálfur. Hann kann að verða með öðrum hætti. 

En nú er hásumar - um það bil vika í þá daga þegar vestanvindar veðrahvolfs á norðurhveli eru í lágmarki að meðaltali og um þrjár vikur þar til vindsnúnings fer að gæta í heiðhvolfinu. Fjórar vikur (tæpar) eru til höfuðdags, en þá fer nýr vetur að fæðast á eyjunum miklu norðan Kanada. Um 6 vikur eru í lágmark hafísútbreiðslu norðurslóða og nærri sjö til jafndægra. Ellefu vikur eru eftir af íslenska sumrinu og 20 fram að sólstöðum. 


« Fyrri síða

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 20
  • Sl. sólarhring: 214
  • Sl. viku: 985
  • Frá upphafi: 2420869

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 864
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband