Við Bjarnarey (fyrir nærri 100 árum).

Nú lítum við á fáeinar skýringarmyndir úr gömlum ritlingi sem ætlaður var þýskum togurum og öðrum sjófarendum. Hann er úr „röð“ sem veðurstofan í Hamborg gaf út á árunum um og eftir 1950. Það var dr. Martin Rodewald sem tók saman. Ritlingur dagsins ber nafnið „Klima und Wetter des Fischereigebiets Bäreninsel“ - Veður- og veðurfar á Bjarnareyjarmiðum og kom út árið 1949. 

Fyrsta myndin sem við horfum á ber saman mánaðarmeðalhita tveggja tímabila, annars vegar 1912 til 1916, en hins vegar 1922 til 1928. 

rodewald_bjarnarey (2)

Árstíðasveifla lofthita [gróf] yfir hafsvæðinu vestur af Bjarnarey. 

Höfundur bendir á að hiti á miðunum sé heldur hærri heldur en á veðurstöðinni á eynni sjálfri. Að sumarlagi er meðalhiti í kringum 5 stig - svipað og í Hamborg í nóvember. Sumarið stendur í þrjá mánuði, frá júlí til september. Takið eftir því að júní er ekki talinn sumarmánuður. Frost eru ekki tíð í þessum þremur mánuðum. Frost sé þá aðeins 3 til 6 daga í hverjum þeirra á veðurstöð eyjarinnar, en aftur á móti um 20 daga í júní og 24 daga í október. Frost er ekki alveg jafnalgengt á miðunum. 

Bent er á hina gríðarlegu vetrarhlýnun á milli tímabilanna tveggja. Það hefur hlýnað um 3 til 5 stig í vetrarmánuðunum, en hins vegar ekkert vor og sumar. 

Þetta er svipaðs eðlis og átti sér stað hér á landi á sama tíma. Vetur hlýnuðu að mun, en sumar og vor ekki (það gerðist hins vegar síðar).

Í framhaldinu fjallar Rodewald um það sem þjóðverjar kalla „kernlose Winter“, hugtak sem stöku sinnum sést í veðurfræðitextum, á síðari árum einkum þegar fjallað er um Suðurskautslandið („coreless winter“). „Vetur án kjarna“ - er kallað þegar hiti fellur sem vera ber að hausti, frá haustjafndægrum, í október og nóvember, en síðan ekki meir. Hryggjarstykki vetrarkuldans vantar. Rodewald segir að á árunum 1922 til 1928 hafi komið mjög hlýir kaflar á norðurslóðum í desember og janúar, og apríl hafi á þessum árum verið um 2 stigum kaldari heldur en janúar. Þetta tengist þeim almennu sannindum að hafísþekja er í hámarki í mars og apríl auk þess sem lægðabrautir hörfi á þeim tíma til suðurs - norðankuldar hafi því meira rými til ríkis á þessu svæði. 

Næsta mynd undirstrikar þetta. 

rodewald_bjarnarey_13k

Hér má sjá tíðni norðaustlægra átta við Bjarnarey (norðan-, norðaustan- og austanáttir teknar saman). Miðað er við árin 1920 til 1928. Lárétti ásinn sýnir mánuði ársins (í rúmt ár). Lóðrétti ásinn er hlutfall í prósentum. Á skástrikuðu tímunum er tíðni norðaustlægu áttanna meiri en 45 prósent. Hámarkið á vorin er sérlega áberandi, það stendur frá því í mars og fram í júní. Þess gætir líka hér á landi, sérstaklega á hörpu, það er fyrsta mánuð íslenska sumarsins. Annað hámark má greina að hauslagi. Þess gætir raunar líka hér á landi og hérlendis er sunnanáttarhámark í febrúar, rétt eins og norður við Bjarnarey. 

rodewald_bjarnarey (3)

Hlýnunin milli tímabilanna tveggja tengist ekki síst breytingum á ísröndinni. Við hana er oft mikill hitamunur. Myndin sýnir dæmigerðan hitamun blási vindur samsíða röndinni. Rodewald telur að það muni að jafnaði 6 stigum á hita yfir ís og auðum sjó blási vindur af austri, en um 5 stigum í norðanátt. Að sumarlagi er líka töluverður munur því þá situr mjög kaldur sjór - ísbráð - þar sem vetrarís ríkti fyrr um vorið. 

Á árunum fyrir 1920 var ís mjög mikill á þessum slóðum, talað er um að árið 1917 hafi barentshafsís og austurgrænlandsís tengst saman. Ekki er vitað um að slíkt hafi gerst aftur síðan. Eftir 1920 hörfaði ísinn mjög og áhrifa þess gætti mjög við Bjarnarey og á Svalbarða almennt - sérstaklega þó að vetrarlagi. 

Á sjöunda áratugnum og fram á tíunda áratuginn sótti ís nokkuð fram aftur, þó ekki eins og áður var. Eftir það hörfaði ísinn jafnvel meira en hann gerði á þriðja og fjórða áratugnum, og hefur hann hinn síðari ár verið enn minni að tiltölu í Barentshafi heldur en við Austur-Grænland. Enda hefur hlýnun í heiminum óviða verið eindregnari heldur en þar um slóðir. 

Svo virðist sem hin almenna hlýnun í heiminum eigi mikinn þátt í rýrnun hafíss á norðurslóðum (og líka við Ísland) frá því á 19.öld. Það er nákvæmlega engin ástæða til að efast um það. Hitt vitum við ekki hvort sú gríðarlega rýrnun sem orðið hefur síðustu 20 ár er öll þeirri hlýnun að kenna eða ekki. Sagan segir okkur að sveiflur í ísútbreiðslu (og hita) á norðurslóðum eru einkennilega miklu meiri heldur en almennar sveiflur í hitafari á heimsvísu skýra beint, einar og sér. 

Við vitum ekki heldur hvort einhver óafturkræf „mörk“ hafa verið rofin, hvort ís hafi endanlega verið hreinsaður af stórum svæðum eða ekki. Auðvitað finnst ritstjóra hungurdiska þessi staða óþægileg. Það er ekki síst vegna þess að fari svo að ís snúi aftur í miklu magni í Barentshaf og til Íslands kemur óhjákvæmilega mikill þrýstingur á hugmyndir um hnattræna hlýnun - að ósekju. Ritstjórinn vill þá ekki heldur heyra fullyrðingar um að aukningin sé hnattrænni hlýnun „að kenna“. 

Eftir situr að hlýnun norðurslóða á þriðja áratugnum var miklu meiri heldur en almenn heimshlýnun. Margt bendir til þess að hlýnun á sömu slóðum síðustu 20 ár sé einnig meiri en heimshlýnun skýrir. Gríðarleg kólnun varð á norðurslóðum þarna á milli - en samt hlýnaði í heiminum.   

Aðalatriði er að þekkingu okkar á hinum hægari þáttum andardráttar norðurslóða er nokkuð ábótavant og mikilvægt er að yfirlýsingar honum tengdar séu settar fram af hógværð þar til að úr þekkingarskortinum hefur verið bætt. 

En almenn hlýnun af völdum aukinna gróðurhúsaáhrifa heldur sínu striki hvað sem þessum staðbundnu stórsveiflum líður. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Jónsson

Skyldi sólin og sveiflur hennar engin áhrif hafa á þessa hnattrænu hlýmum?

Er það bara AlGore og CO2 trúboðið sem lætur Íslendinga kaupa losunargheimildir af mestu umhverfissóðum heims í Evrópubandalaginu  sem skiptir máli?

Halldór Jónsson, 9.8.2018 kl. 18:27

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Sólin hefur áhrif á veðurfar - en virðist skipta sáralitlu í þeirri hlýnunarhrinu sem hefur verið í gangi á heimsvísu á okkar tímum. Flækjan með losunarheimildirnar er annað mál - fjallaði lítillega um skoðanir mínar í pistli 2.desember 2015. Þar segir m.a.: „Of lítill greinarmunur er gerður á loftslagsbreytingum sem vísindalegu viðfangsefni annars vegar og pólítískum og efnahagslegum aðlögunar- eða mótvægisaðgerðum vegna loftslagsbreytinga hins vegar“.  

Trausti Jónsson, 9.8.2018 kl. 19:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

 • w-blogg250524b
 • w-blogg250524a
 • Slide10
 • Slide9
 • Slide11

Heimsóknir

Flettingar

 • Í dag (27.5.): 5
 • Sl. sólarhring: 327
 • Sl. viku: 1845
 • Frá upphafi: 2357238

Annað

 • Innlit í dag: 5
 • Innlit sl. viku: 1724
 • Gestir í dag: 5
 • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband