Háloftakerfi hrökkva til

Síðastliðna tíu daga rúma hefur mikill og hlýr háloftahæðarhryggur fyrir austan og suðaustan land ráðið veðri hér á landi. Sólarlítið hefur verið suðvestanlands og heldur svalt í hafáttinni, en mjög hlýtt um landið norðaustan- og austanvert. 

w-blogg100618a

Myndin sýnir meðalhæð 500 hPa-flatarins síðustu tíu daga. Jafnhæðarlínur eru heildregnar, hæðarvik eru sýnd í lit. Rauðbrúnu litirnir sýna jákvæð vik, en bláir neikvæð. Þó suðvestanáttir væru líka ríkjandi í maímánuði var hæðarhryggurinn þá mun austar en verið hefur að undanförnu. Loftþrýstingur í maí var óvenjulágur, en hefur síðustu tíu dagana hins vegar verið óvenjuhár. 

Nú virðast háloftakerfin aftur eiga að hrökkva til. Lítum á kort sem sýnir ástand á föstudaginn kemur, 15.júní. 

w-blogg100618b

Evrópureiknimiðstöðin reiknar tvisvar á dag 50 spár 15 daga fram í tímann og kallast safnið spáklasi eða klasaspá. Líkanið hefur ekki alveg jafn mikla upplausn og „aðalspárunan“ hverju sinni og upphafsskilyrðum er breytt lítillega - reyndar mjög lítið. Fyrstu dagana eru þessar 50 spár venjulega nokkuð sammála, en síðan reka þær hver frá annarri - mishratt. Með því að mæla rekið má fá einhverja hugmynd um óvissu - og jafnvel hvers eðlis hún er hverju sinni. 

Kortið hér að ofan sýnir eins og áður sagði meðalhæð 500 hPa-flatarins og meðalþykkt um hádegi á föstudaginn kemur, eftir 6 daga. Strax sést að hér er allt önnur staða uppi heldur en verið hefur ríkjandi að undanförnu. Í stað hæðarhryggjarins er komið mikið og breitt lægðardrag sem nær yfir stóran hluta kortsins. Hæð 500 hPa-flatarins hefur fallið úr því að vera um 5700 metrar niður í 5340 metra og þykktin úr því að vera um og yfir 5500 metrar niður í 5360 metra (segir meðaltal klasans alls). Neðri hluti veðrahvolfs á að kólna um 7 stig miðað við það sem verið hefur. 

Íbúar Suðvesturlands hafa reyndar ekki notið þessa háloftahita þannig að viðbrigðin verða miklu minni þar heldur en norðaustanlands. Kannski sér meira að segja eitthvað til sólar þannig að hlýrra verður sunnan undir vegg heldur en áður. 

Ritstjórinn hefur bætt nokkrum örvum á kortið. Sé rýnt í það má með góðum vilja sjá mjóar strikalínur. Þær sýna staðalvik hæðarinnar innan klasans. Því meira sem það er því meira hefur spárnar 50 rekið í sundur. Rauðu örvarnar benda á staði þar sem þetta rek er hvað mest. Annars vegar yfir sunnanverðri Skandinavíu - þar er töluvert ósamkomulag um hvar einstakar lægðabylgjur verða staðsettar á föstudaginn - og hversu öflugar þær verða. Hins vegar er svæði mikillar óvissu vestan Grænlands. Þar eru spárnar 50 mjög ósammála um útrás öflugs kuldapolls úr norðurhöfum - í sumum spánum kemur hann ekki inn á svæðið, en í öðrum gerir hann það. 

Bláu örvarnar benda hins vegar á svæði þar sem klasinn er allur meira eða minna sammála um hæð 500 hPa-flatarins á föstudaginn kemur. Það er suður af Íslandi - þar á að verða lægðardrag hvað sem öðru líður, og líka langt vestur í Kanada - þar segist klasinn viss um að verði mikill og hlýr hæðarhryggur. 

Óvissa mæld í klasaspám er auðvitað ekki sú sama og raunveruleg óvissa - vel má vera að allar spárnar 50 séu hringavitlausar. Samt verður að telja miklar líkur á því að hæðarhryggurinn sem fært hefur landinu austanverðu hlýindin brotni niður og eitthvað annað taki við. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg081124d
  • w-blogg081124a
  • w-blogg071124a
  • w-blogg031124c
  • w-blogg031124b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (10.11.): 12
  • Sl. sólarhring: 323
  • Sl. viku: 1624
  • Frá upphafi: 2408638

Annað

  • Innlit í dag: 11
  • Innlit sl. viku: 1463
  • Gestir í dag: 11
  • IP-tölur í dag: 10

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband